laugardagur, 30. maí 2009

Hinn ískaldi veruleiki

Hef verið latur við pistlaskrif undanfarið. Enda á fundum frá morgni til kvölds í Karphúsinu þar sem hver sérfræðingurinn á fætur öðrum hellir yfir okkur hinum jökulkalda veruleika um stöðu litla Íslandsins okkar sem nánast lamar hugann.

Það blasir við að til margskonar aðgerða af hálfu hins opinbera mun koma á næstu vikum. Brennivíns- og benzínkatturinn á að gefa 2.5 MIA, en ríkisstjórnin verður að ná saman 20 MIA ef við eigum að uppfylla þau skilyrði sem okkur eru sett gagnvart lánum frá AGS og seðlabönkum Norðurlanda og Póllands.

Það eru eru einu lánin sem íslendingum standa til boða. Þetta er hin skelfilega staða sem sú efnahagstefna sem stjórnmálamenn hafa fylgt undanfarna tvo áratugi hefur komið okkur í. Seðlabankastjórar norðurlandanna hafa margendurtekið það sem þeir sögðu í nóvember; „Við lánum íslendingum ekki eina kr. nema þeir taki á sínum efnahagsmálum í alvöru og AGS fylgist með þeim. Við erum búnir að vara ykkur við á annað ár en þið hafið virt allar okkar beiðnir að vettugi, nú er nóg komið. Íslendingar verða einfaldlega að horfast í augu við þá stöðu sem þeir hafa komið sér í.“

Norrænu lánin og það pólska eru forsenda þess að hægt sé að ýta bönkunum af stað. Í umræðum um vaxta- og gengisstefnu hafa menn vonast til þess að fram komi veruleg vaxtalækkun til að forða frekara hruni á efnahag heimila og fyrirtækja. Svar seðlabankastóranna er nei, það gangi ekki, frekari vaxtalækkun muni leiða til gengislækkunar og hækkunar verðbólgu - en krónan hefur vissulega verið að veikjast undanfarið.

Seðlabankastjórarnir segja við ríkisstjórnina; „Viljið þið taka áhættu og spila með þetta og kalla fram enn frekari eignauppskiptingu með hækkun gengis- og verðtryggðra lána heimila og fyrirtækja með tilsvarandi hækkun greiðslubyrði?“

Jákvæð áhrif vaxtalækkunar gæti þannig orðið skammvinnur ávinningur með enn skelfilegri afleiðingum en við höfum upplifað undanfarna mánuði . Íslendingar eiga einfaldlega ekki til þann gjaldeyrisvaraforða sem til þarf til að standa við krónuna. Norðurlöndin ásamt Póllandi (sem er næstum orðið eitt þeirra) eru ekki tilbúin að taka þessa áhættu fyrir okkur - sem lánveitendur.

Minna má á að í sömu stöðu hurfu þau gjaldeyrislán sem Argentína fékk til þess að starta sínu efnahagslífi á 30 mín. Líkurnar á stórri vaxtalækkun verða því að teljast litlar.

mánudagur, 25. maí 2009

Fréttir af Alþingi

Hlustandi á fréttir kvöldsins frá hæstvirtu Alþingi þar sem :
Forsætisráðherra sagði að það lægi fyrir að taka þyrfti erfiðar ákvarðanir í efnahagsmálum

Og

Formenn Sjálfstæðismanna og Framsóknarflokks sögðu þetta gamlar fréttir og skömmuðust yfir því að ekkert hefði verið gert í langan tíma

Velti maður fyrir sér :
Voru það ekki þessir hinir sömu flokkar sem mótuðu efnahagstefnuna?

Og var

Sjálfstæðisflokkurinn ekki í stjórn þegar hrunið varð og var fullkomlega ómögulegt að taka nokkra einustu ákvörðun um hvað ætti að gera, þar til almenning ofbauð og fór niður á Austurvöll og hrakti hann frá völdum.

Og

Hverjir voru það sem stóðu í vegi fyrir eðlilegri umræðu og ákvarðanatöku á Alþingi með innihaldslausu málþófi í vor?

Með leyfi :

Er ætlast til þess að almenningur taki mikið mark á þessu sjónarspili?

Ég spáði því nokkrum sinnum í vetur í pistlum hér að þetta kjörtímabil yrði stutt vegna þess að það yrði ekki skipt út nægilega mikið af leikurum og þeim sem færu aftur inn á Alþingi væri um megn að horfast í augu við þann gríðarlega vanda sem þeir hinir sömu hefðu leitt yfir þjóðina, þegar þeir urðu með kunnáttu- og getuleysi sínu nytsamir sakleysingar í Þórðargleði fjárglæframanna.

föstudagur, 22. maí 2009

Fúlga fjár

Þessa dagana eru að koma fram allmargar fróðlegar greinar um þróun hagkerfanna. Þær eru yfirvegaðri en margt af því sem sagt hefur verið í vetur og um leið minna um klisjukenndar upphrópanir. Það liggur fyrir að sú leið sem þeir sem hafa stjórnað þróun íslensks hagkerfis síðustu tvo áratugi liggur frá norræna módelinu yfir til frjálshyggjunnar.

Nokkrir helstu postular þessar stefnu hafa reynt að sverja það af sér, svo sem ekki einkennilegt því afleiðingar stefnu þeirra blasa við. Mikill auður flæddi í vasa fárra og skuldabagginn liggur eftir hjá heimilum og skattgreiðendum. Þeir sem náðu að raka til sín mestum auð í skjóli aðgerðaleysis frjálshyggjunnar, telja sig jafnframt yfir það hafna að taka þátt í rekstri samfélagsins og hafa komið sínum fjármunum fyrir í skattaskjólum.

Minnistætt er hversu mikið fylgismönnum þessarar stefnu hefur verið í nöp við norrænu stefnuna og þeir gátu aldrei lokið einni ræðu um efnahagsmál öðruvísi en svo að hreyta ónotum í „kratabælin og uppeldisstöðvar letingja“ eins og þeim var tamt að nefna, þá sérstaklega Svíþjóð.

Þrátt fyrir allt liggur fyrir að atvinnuleysi á norðurlöndum hefur verið minna, þar eru að störfum um 2 millj. erlendra farandaverkamanna, framleiðni er meiri en annarsstaðar, meiri friður og öryggi og öryggiskerfi samfélagsins það besta sem þekkist í veröldinni. Norrænu löndin (að Íslandi undanskildu) eru þroskuð og siðmenntuð markaðsþjóðfélög þar sem einkaframtakið og frjáls viðskipti hafa fengið gott svigrúm.

En þetta er ekki eitthvað nýtt því ef litið er tilbaka má finna að þróun þessa kerfis var hafin strax á víkingaöld. Það má m.a. finna í Ómagabálk Grágás, lagasafni íslenska þjóðveldisins. Ómagabálkur var einskonar framfærslulöggjöf Þjóðveldisins. Þar segir frá því hvernig framfærsluskylda ættmenna og hreppa var háttað.

Í 1.gr. segir að sinn ómaga á hver maður fram að færa. Móður sína fyrst, en ef hann orkar betur, þá skal hann færa fram föður. Nú má hann betur, þá skal hann börn sín, systkini og aftur í 5 ættlið. Hugtakið að “orka betur” er mælt í fúlgu. Í texta segir: “þá á hann fé til, ef hann á fjögurra missera fúlgu”. Í 2. gr. segir svo “En þá á hann fé og færi til, er hann á betur en fjögurra missera björg sér og konu sinni og sínum ómögum öllum, þeim er hann leggur fyrir á hverju misserum sex álnar vaðmáls”.

Misseri er skv. orðabók dregið af orðinu “semester” og jafngildir 6 mánuðum. Sex álnar vaðmáls er þá ein áln á mánuði og fúlga er því sex álnir vaðmáls. Ein alin vaðmáls er um 49 sm langur og 98 sm breiður vaðmálsbútur.

Samkvæmt þessu þá bar manna skylda til að taka að sér ómaga ef maður átti meira en það sem maður þurfti til að sjá sér og sínum nánustu fyrir framfærslu. Ef bróðir þinn yrði til að mynda öryrki og gæti ekki framfleytt sér ætti þú fyrst að núvirða 2 ára framfærslukostnað foreldra, konu og barna og ef þú ættir þá e-ð eftir bæri þér að sjá um hann. Að öðrum kosti tæki hreppurinn við honum eða aðrir ættingjar þínir sem gætu orkað betur.

Þeir sem hafa stúderað þetta hvað mest hafa samlesið Grágás og náð að tengja sama hugtök. Fúlga er þannig sama og einn lögeyrir þjóðveldisaldar, eða 6 álnir. Einn eyrir gulls var til að mynda 360 álnir eða 60 fúlgur.

Einn eyrir gulls vó ekki nema 27 gr. og ef marka má verð á gulli í dag þá er fúlga ekki mikið mælt út frá verði á gulli. En verðmæti gulls í dag er ekki það sama og það var á þessum tíma. Það sem ég var að vísa til í gær er að sveitarfélög gefa út lágmarks framfærslustuðul á mánuði. Hann er um kr. 115.000 á mánuði og þá ætti fúlga að vera 6*115.000 eða 690.000 kr. ef tekið er mið að framfærslukostnaði.

Ef við svo reynum að meta hvað þarf mörg ærgildi til að búa til eina áln vaðmáls ættum við að vera nokkuð nálægt því hversu verðmætar þessa skepnur voru á þjóðveldisöld. Sá sem missti búpening varð ómagi og hræðslan við ómegð virðist hafa verið mikil, enda mikil kvöð að taka við ómaga og halda honum og hans fólki á framfærslu.

Til að mynda var skv. 37. gr. í lagi að gelda göngumenn, og varðaði það ekki við lög þess tíma þótt sá hinn sami hefði látist við geldinguna. Eitthvað sem yrði að teljast nokkuð harkaleg aðgerð í dag til að draga úr örorku eða atvinnuleysi.

Verðmæti fúlgu er þannig nokkuð breytilegt eftir því við hvað er miðað. En með því að tengja það framfærslukostnaði er fúlga um 700.000 kr. 6 álnir vaðmáls í dag kostar minna, en það gefur þá a.m.k. nokkuð góða mynd af því hvað lögeyrir okkar hefur lækkað mikið á þessum 750 árum sem eru liðin frá því að þessi handrit voru skrifuð, eða um 1250.

Þessi Ómagabálkur er frábær lesning þeim sem vilja kynna sér það umhverfi sem norræna módelið myndar og okkur sem starfa í þessu umhverfi. En einn stærsti viðgangur þess að gríðarlega öflug stéttarfélög á norðurlöndum sé litið m.a. til frjálshyggjulandanna sem gera allt sem í þeirra valdi er að ófrægja og helst koma í veg fyrir samtök launamanna. Þar fer fremst Frú Margaret Hilda Thatcher sem frjálshyggjumenn mæra mest allra.

Þetta eru elstu heimildir sem til eru um velferðakerfi vesturlanda. Ómagabálkur er án efa líkur löggjöf Norðmanna, en það eru mjög mörg séríslensk ákvæði sem gerir þetta að íslenskri velferðarlöggjöf. Það eru sérákvæði um það hver bar ábyrgð á ættlausum mönnum sem komu með skipum til Íslands, ekki ósvipað því sem við erum að velta fyrir okkur í dag.

Ómagabætur voru allt í senn, atvinnuleysisbætur, ellilífeyrir, sjúkradagpeningar og örorkulífeyrir. Barnaómegð var á þessum tíma til 16 ára aldurs sbr. gr. 5 sem er sami aldur og við notum í dag. Hvergi er talað um lögleg efri mörk og foreldrar hafi unnið svo lengi sem þeim entist aldur.

fimmtudagur, 21. maí 2009

Smá von

Það er fagnaðarefni að það sé að komast skriður á viðræður milli allra heildarsamtaka í atvinnulífinu og viðsemjenda þeirra með virkri þátttöku stjórnvalda. Með þessu vaknar smá von um að tekin verði upp ábyrg vinnubrögð allra aðila. Ekki að ég sé sammála því sem SA hefur lagt fram, en sá vilji sem fram kemur á fundunum getur leitt til leiðar úr vandanum.

Þau vandamál sem við blasa eru það umfangsmikil, að borinn von er að þjóðin nái að vinna sig úr þeim nema með sameiginlegu og samstilltu átaki allra. Fyrirtækja og launamanna. Stjórnmálamanna hvar í flokki sem þeir standa, sveitarstjórnarmanna og alþingismanna.

Ef atvinnulífið kemst ekki af stað með vaxandi verðmætasköpun, þá er úti um okkur og við blasir langvinn niðurlæging og nánast öll þjóðin verður í skuldafangelsi, að undanteknum nokkrum einstaklingum sem hafa beitt öllum brögðum til þess að ná til sín fjármunum og flytja þá í skattaskjól. Eftir þá liggja brunarústir gamalgróinna og stöndugra fyrirtækja.

Á hverjum degi eru fluttar fréttir af því hvernig þeir fóru að því að sópa fjármunum úr bönkunum og svikust aftan að fjárfestum eins og t.d. lífeyrissjóðum. Eigendur fjármagns keyptu hlutabréf að þeir héldu í stöndugum og velreknum fyrirtækjum. Á einni nóttu voru fjárglæframennirnir búnir að búta þau upp og skuldsetja og hlutabréfin orðin einskis virði, án þess að nokkur tími væri til varna eða viðbragða hjá saklausu. Þessum mönnum var hrósað af forseta landsins og ráðandi stjórnvöldum sem nefndu þá Efnahagsundur Íslands.

Nú duga ekki upphrópanir og yfirboð lýðskrumaranna. Allir verða að horfast í augu við stöðuna. Við blasa allmargar sársaukafullar og óvinsælar ákvarðanir. Það verður t.d. forvitnilegt að sjá hvort alþingismenn muni breyta um vinnubrögð. Hvort stjórnarandstaðan muni halda áfram að beita innihaldslausu málþófi eins og í vetur og vera á móti öllum tillögum sem stjórnvöld leggja fram. Hvort stjórnvöld muni frysta allar þingmannatillögur í nefndum, eins hefur verið viðtekin venja hjá ríkisstjórnum undanfarinna tveggja áratuga.

Það munu örugglega stíga fram einhverjir verkalýðsforingjar og stjórnmálamenn með venjubundin yfirboð, og reyndar þegar komið fram. Þó svo ekki sé búið að halda nema einn fund. Ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur að taka 800 milljóna arð úr rekstri OR setur viðræður í uppnám, sama og gerðist þegar eigendur Granda ákváðu að greiða sér arð um leið og þeir ætluðu að smeigja sér unda því að greiða út launahækkanir.

Yfirlýsingar forsvarsmanna borgarstjórnar segja okkur að þau hafa nákvæmlega engan skilning á því hvernig samskipti á vinnumarkaði fara fram. Ekki nýtt, alltof margir stjórnmálamenn sem aldrei hafa tekið þátt í samskiptum á vinnumarkaði. Einungis starfað í stjórnmálum og stofnunum tengdum þeim.

laugardagur, 16. maí 2009

400 millj. kr. aukaskattur á starfsmenn OR

Það er ekki langt síðan að borgarstjórnarmenn helmingaskiptaflokkanna notuðu Orkuveituna sem leikvöll fyrir glannalegar fjármálahugmyndir sýnar. Þar ætluðu þeir sér að verða virkir þátttakendur í Efnahagsundri Íslands og setja þekkingu starfsmanna á sölumarkað í eigin nafni. Beint framhald af venjubundinni hyglingu og klækjastjórnmálum, sem var orðin viðtekin venja ráðandi stjórnmálamanna og leiddu yfir þjóðina þær ófarir sem hún býr við.

Það stóð ekki í þessu fólki að Orkuveitan er rekin með 73 milljarða halla, þeir ætla sér þrátt fyrir það að taka 800 millj. kr. úr fyrirtækinu. Borgarstjórnarmenn láta sér í léttu rúmi liggja þó þeir lítilsvirði starfsmenn OR með þessu athæfi.

Starfsmenn féllust á það í mars síðastliðnum að fresta umsömdum launahækkunum og taka að auki á sig launalækkanir vegna slæmrar rekstrartöðu fyrirtækisins til þess að koma í veg fyrir uppsagnir. Með því voru starfsmenn að láta af hendi úr launaumslagi sínu 400 milljónir króna til fyrirtækisins. Borgarstjórnamen eru í reynd að leggja 400 millj. kr. aukaskatt á starfsmenn Orkuveitunnar.

Vitanlega eru samþykktir starfsmanna úr gildi fallnar, forsendur þeirra eru brostnar. Ætlunin var sannarlega ekki sú að stjórnmálamenn gætu hrifsað til sín þessi framlög starfsmanna sem voru gerð af tryggð til fyrirtækisins.

Nú mun fyrirtækið mun lenda í enn meiri óförum vegna afskipta óhæfra og spilltra stjórnmálamanna. Var nú ekki nóg komið?

sunnudagur, 10. maí 2009

Fjölgun starfa

Afleiðingar gjaldmiðilshruns blasa við. Atvinnuleysi vex og virðist ætla að ná 20.000 markinu í haust. Krónan er hruninn, fyrirtæki sjá ekki aðra framtíð en þá að skipta um gjaldmiðil. Íslenska krónan er sniðin fyrir sjávarútveginn og landbúnaðinn. Þar starfa eitthvað á annan tug þúsunda og hefur ekki verið að skapa fleiri störf.

Fjölgunin hefur verið í tæknigreinum, eins og ég hef margbent á með því að greina þróun í fjölgun félagsmanna Rafiðnaðarsambandsins. Þar sem fjölgun í félagsmanna í tæknigreinum frá 1990 hefur verið frá 500 til 5.000 eins og var orðið í haust. Á meðan fjöldi starfa í byggingariðnaði, sjávarútvegi og landbúnaði hefði verið óbreytt.

Við höfum vanist því að stjórnmálamenn bjargi efnahagsmistökum með því að fella gengið. Hún er aðgerð til þess að lækka framleiðslukostnað, styrkir stöðu útflutnings og lækkar laun. Hlutdeild sjávarútvegsins í þjóðarframleiðslunni er innan við 8% og skapar um þriðjung gjaldeyris.

Það liggur á borðinu að þau 20.000 störf sem þarf að skapa á næstu 4 árum til þess að koma atvinnuleysinu niður fyrir 4% verða ekki í sjávarútvegi og landbúnaði. Ný störf verða til í sömu störfum og atvinnuleysið er nú; þjónustu og tæknigreinum. Það er því kaldranalegt fyrir atvinnulausa fólkið að heyra þá sem hafa atvinnu hafna algjörlega eina möguleikanum að koma þróuninni í réttan farveg og til framtíðar með því að nýta orkuna og byggja upp þekkingariðnað, líftækni, lyfjaframleiðslu og ferðaþjónustu.

Þessar atvinnugreinar eiga það sameiginlegt að búa við stöðugleika. Þau þurfa aðgang að erlendu fjármagni og erlendum mörkuðum, af því að heimamarkaðurinn er of smár. Okkur er lífsnauðsyn að tengjast stærra myntsvæði, sem getur fært okkur stöðugt efnahagsumhverfi. Ella munu atvinnugreinar framtíðarinnar ekki þrífast hér. Unga menntaða fólkið mun flytja úr landi og þeir sem eru að mennta sig núna koma ekki heim

Stjórnmálamenn verða að hætta “þetta reddast” stjórnun og temja sér aga og festu í hagstjórn. Það gengur ekki lengur að redda sér með því að lækka laun með gengisfellingum, sem leiða til hækkandi skulda og hærri vaxta. Við verðum í framtíðinni að ná trausti viðskiptalanda okkar og ekki síður til þess að mögulegt sé að ná viðunandi lendingu í samningum um skuldir landsins.

fimmtudagur, 7. maí 2009

Mótmæli á morgun - Heimilin í forgang!

Á morgun, föstudaginn 8. maí 2009 verða mótmæli vegna aðgerðarleysis íslenskra stjórnvalda gagnvart stöðu heimilanna í landinu.

Staðsetning Alþingishúsið klukkan 13:00. Fjölmennum því á morgun við Alþingishúsið klukkan 13:00, göngum síðan upp að Stjórnarráði þar sem ríkisstjórnin mun sitja að störfum og látum í okkur heyra.

Við viljum minna stjórnvöld á að heimili landsmanna eru að brenna upp í skuldum og að sú “Skjaldborg” sem slá átti um heimilin sé hvergi sjáanleg. Þolinmæði flestra íslendinga er að þrotum kominn!

Almenningur í landinu hefur þurft að sýna ótakmarkaða þolinmæði gagnvart stjórnvöldum sem á móti sýna landsmönnum enga vægð þegar að innheimtuaðgerðir eru annars vegar. Margir sjá sér ekki annarra kosta völ en að fara í greiðsluverkfall.

Skjalborg óskast! Björgum heimilunum! Heimilin í forgang!

Í gegnum tíðina hafa stjórnvöld hlustað þegar að almenningur fjölmennir og mótmælir, reynslan hefur sýnt okkur það og kennt okkur það að samstaða er það eina sem skiptir máli.

Sýnum samstöðu - Mætum öll!
f.h Nýrra Tíma

miðvikudagur, 6. maí 2009

Lausn ekki í sjónmáli

Það er harla einkennilegt að horfa upp á að þeir stjórnmálaflokkar, sem hvað harðast hafa gengið fram á undanförnum margumræddum 18 árum í að gagnrýna samskipti fyrri stjórnvalda og embættismanna þeirra við almenning, skuli svo falla á grundvallarprófi samskipta við almenning í landinu þegar þeir loks komast í stjórnvaldsstólanna.

Í 80 daga stjórnartíð sinni er núverandi ríkisstjórn búinn að semja og fá afgreidd á Alþingi margskonar aðgerðir sem eiga að koma til hjálpar heimilum sem eru í vandræðum. En nú er að koma í ljós að það virðist vera svo að fáir viti af þessum aðgerðum og embættismenn sitji á þeim og vísi fólki frá. Eins og t.d. greiðsluaðlögun, sem innifelur m.a. niðurfellingu skulda og fleira sem finna má á island.is.

Eftir langa bið er fólki, sem hefur leitað eftir aðstoð stjórnvalda, að berast svör sem eru t.d. „Lausn er ekki í sjónmáli.“ Mikið ofboðslega er þetta eitthvað embættismannalegt svar.

Var ekki ætlunin og verkefni embættismannsins að finna lausn fyrir viðkomandi? Hvert á sá að leita sem fær svona bréf frá embættismannakerfinu? Það er 10 vikna biðtími og þá kemur svona svar. Er nema von að fólk gefist upp?

Svo mætir kona í fréttirnar í gærkvöldi sem hefur það starf við að vera dagmanna. Hún fær ekki aðstoð af því hún er sjálfstætt starfandi. Bíddu við. Konan var að sækja um aðstoð fyrir heimili sitt ekki atvinnurekstur.

Nú eru á atvinnuleysiskrá nokkur hundruð mjög færra bankamanna. Hvernig væri nú að ráða eins t.d. 50 þeirra og setja þá í það verkefni að ræða við fólk og finna út úr þeim vanda sem fólkið er að glíma við.

Fólk verður að geta gengið inn og rætt við ráðgjafa og gengið þaðan út án þess að þurfa að hlaupa í felur, eða breiða fyrir andlit sín. Vanti skrifstofuaðstöðu þá erum við á Rafiðnaðarsambandinu tilbúin að sjá um þann part fyrir þá sem koma til með að ræða við okkar fólk. Einnig væri góð leið að fela bönkunum hluta af þessum verkefnum og ráðgjafinn geti tekið að sér hlutverk tilsjónarmannsins.

En það eru vextirnir sem eru allt hér að drepa og þeir verða að lækka og það er ekki fyrr en þeir verða komnir niður í 6 – 8% að hægt verður að skuldbreyta og setja upp langtíma plön fyrir heimilin og koma fyrirtækjunum í gang.

þriðjudagur, 5. maí 2009

Evróvisionsigurgangan hafin

Nú er árleg sigurganga Íslands í Evróvision keppninni hafin. Ferðin til mótsins gekk að venju ótrúlega vel góð stemming í rútunni, svo mikið betri en hjá öðrum keppnislöndum. Fyrsta æfing val lyginni líkust og starfsmenn keppninnar eru svo vissir um að Ísland sé bara svo mikið betra en öll hin löndin.

Erlendir fréttamenn eiga ekki til orð yfir hversu góðir íslendingar eru. Hafin er hin árlega óslitna sigurganga á æfingum og blaðamannafundum í tvær vikur. Rás 2 mun ekki fjalla um neitt annað í öllum þáttum frá kl. 07.00 – 23.30. Þar verður farið yfir hversu mikið flottari íslensku partýin eru, flott fatahönnun íslendinga og hve allt er mikið betur skipulagt en hjá öllum hinum. Hversu mikið allir erlendu blaðamennirnir vilja frekar vera með íslendingunum.

Þessi sigurganga mun standa fram á keppnisdag. Þetta er svo líkt því þegar við erum búinn að vinna alla riðla í undankeppnum í öllum íþróttum áður en þeir hefjast. Eða þegar við lögðum erlenda bankamenn að velli í einu vettvangi með Íslenska efnahagsundrinu. Þó svo við tefldum fram ungum óreyndum mönnum gegn tveggja alda gömlum bankakerfum, sem störfuðu undir óvæginni og gangrýnni umfjöllum blaðamanna með mikla þekkingu á efnhagslífi.

Á Íslandi má ekki stunda gangrýna umfjöllun. Það er neikvæðni og öfundsýki. Ekki má fjalla um Ísland í sömu andrá og önnur Norðurlönd sakir þess að við erum svo mikið betri. Eins og Viðskiptaráð og þáverandi stjórnvöld sögðu á sinum tíma og hæddust að gagnrýni erlendra blaðamanna á íslensku útrásinni.

Þetta er hin óendanlega minnimáttarkennd sem hefur í raun staðið í vegi fyrir því að við séum að ná árangri. Það er vegna þess að að við erum svo sérstök og svo mikið betri enn allir þessir útlendingar að við þurfum ekki að fara eftir reglum eða æfa okkur.

sunnudagur, 3. maí 2009

Leið skynseminnar

Ef við ætlum að reisa Ísland upp úr rústunum þá verður það ekki gert með skammtíma aðgerðum, hinum venjubundnu íslensku „þetta reddast leiðum“ eins og harðlínukjarnar Sjálfstæðisflokks og VG vilja. Fólk er búið að fá sig margfullsatt af hinum endurteknu sveiflum íslensku krónunnar og agalausri efnahagsstjórn stjórnmálamanna, sem oft einkennast frekar af kjördæma poti en heildaryfirsýn. Það verður að fjarlægja þann möguleika að örfáir einstaklingar geti með aðstoð vogunarsjóða spilað með hag almennings eins og gert var í fyrra og endaði með fyrirsjáanlegum ósköpum.

Það voru mikil mistök hjá íslenskum stjórnvöldum að halda ekki áfram á þeirri leið sem mörkuð var með inngöngu í EES með frekari tengslum við evrópska efnahagsstjórn. Um aldamótin síðustu lá fyrir að uppbygging íslensks atvinnulífs var ekki afmörkuð við Ísland og taka yrði á gjaldmiðilsmálum. Krónan hefur valdið kerfishruni og eignaupptöku. Vextir eru óheyrilegir og þar af leiðandi verðlag. Kaupmáttur hefur fallið og það þarf mikið að gerast til þess að hægt verði að endurvinna þá stöðu sem búið var að ná.

Það blasir við í dag að það sem gerðist eftir 2003 var að mestu innistæðulaus bóla sem ríkjandi stjórnvöld vildu ekki horfast í augu við. Þeir sem voguðu sér að benda á þetta voru hæddir og lýst sem púkó og neikvæðum. Fáir sem vildu vera í þeirri stöðu, allra síst ríkjandi stjórnmálamenn. Þeir vildu að allir væru vissir um að þeir hefðu skapað hið Íslenska efnahagsundur.

Í lok níunda áratugarins voru aðilar vinnumarkaðs sammála um að ekki væri fært að komast lengra með þeim aðferðum sem þá hafði verið fylgt. Aðilar vinnumarkaðs ákváðu að skipta um aðferðir og fara frekar kaupmáttarleið en kauphækkunarleið. Allt fram til ársins 1990 höfðu laun verið hækkuð reglulega um nokkra tugi prósenta, en kaupmáttur lítið vaxið, sakir þess að stjórnvöld „leiðréttu“ alltaf jafnharðan kjarasamninga með því að fella gengið.

Árið 1990 blasti við gríðarlegt atvinnuleysi og allt benti til þess að það myndi vara í einhvern tíma. Þá var gerð þjóðarsátt og gengið í EES og tókst að rífa upp atvinnulífið á 4 árum. Það kostaði mikla staðfestu og þolinmæði og voru sannarlega ekki allir á því að fara þá leið.

Sumir halda því fram að þá hafi stéttarfélögin hætt kjarabaráttu. En eru með því að upplýsa um afturhald sitt, því það tókst með hinni skynsemisleið sem þá var innleidd, að hækka kaupmátt meira en gert hafði verið á næstu áratugum á undan þó svo laun hefðu á þeim tíma verið hækkuð um liðlega 2000%.

Undanfarin tvö ár hafa samtök atvinnulífs reynt að ná talsambandi við stjórnvöld um að grípa verði til aðgerða með sameiginlegri sátt um breytta efnahags- og peningastjórn.Það er ljóst að þær aðgerðir sem grípa þarf til verða sársaukafullar og kalla á mikla staðfestu.

Innan raða verkalýðshreyfingarinnar eru harðlínumenn eins og komið hefur fram á undanförnum vikum. Sama á við um meðal forvarsmanna nokkurra fyrirtækja og eins stjórnmálamanna. Þar má benda á harðlínukjarna Sjálfstæðisflokksins og VG. Þessir aðilar vilja óbreyttar aðferðir og engu breyta. En það verður að grípa til skynseminnar og leggja upp með aðgerðir strax og þá um leið að horfa til framtíðar.

laugardagur, 2. maí 2009

VG í mótsögn við sjálfa sig

Íslendingar verða að taka á aðsteðjandi vanda, samfara því að byggð verði upp trúverðug framtíðarsýn og mega engan tíma missa. Það er lífsnauðsyn að komast út úr skuldavanda ríkissjóðs á sem allra stystum tíma.

Í kjölfar mikillar ESB umræðu innan samtaka launamanna var samþykkt á síðasta ársfundi ASÍ að beita sér fyrir aðild Íslands að ESB og upptöku evru sem gjaldmiðils á Íslandi. Helstu forsendur þessarar niðurstöðu er að skapa það umhverfi að atvinnulíf geti vaxið og dafnað og myndað ný störf.

Ef ekki verði leitað framtíðarleiða til stöðugleika og öflugsgjaldmiðils er okkar eina leið að fá álrisana til þess að koma hingað og reisa fleiri álver. Afstaða Ögmundar og fylgismanna hans innan VG er í fullkominni mótsögn við sjálfa sig. Það er umhverfissinnum keppikefli að vera aðilar að umhverfisstefnu ESB.

Krónan hefur stuðlað að miklum sveiflum vegna agalausrar hagstjórnar. Sveiflurnar hafa kallað á að meðaltali 3,5% hærri vexti en þeir þyrftu að vera og verðtryggingu. Íslensk fyrirtæki skapa í dag um 70 þús. störf. Það eru fyrirtæki í íslensku umhverfi sem verða að skapa þau störf sem þörf er á komandi árum. Það er ekki hið opinbera sem skapar störf við verðmætan útflutning.

Þýðingarmesta verkefnið er að stuðla að víðtækri sátt um stöðugleika. Styrkleiki okkar liggur meðal annars í miklum náttúruauðlindum, sterkum lífeyrissjóðum, hlutfallslega meira af ungu fólki en hjá öðrum Evrópuþjóðum. Styrkleiki þjóðarinnar liggur í hugarfarinu; þrautseigju og mestu atvinnuþátttöku sem þekkist í vestrænu landi.

Ef atvinnulífinu er skapað umhverfi stöðugleika og vaxtastig í samræmi við nágrannalönd, eðlilega bankastarfsemi og haftalausan gjaldeyrismarkað þá geta íslensk fyrirtæki skapað 20 þúsund störf fyrir árið 2013. En þá verðum við að taka höndum saman og ganga sameiginlega til lausnar á vandanum og sú ganga þarf að hefjast ekki seinna en á eftir.