sunnudagur, 29. september 2013

Veruleikafirrtur forsætisráðherra


Það er algjörlega útilokað að átta sig á hvert forsætisráðherra er að fara, nú er svo komið að þar virðist tala fullkomlega veruleikafirrtur maður. Við munum vel eftir því að allt síðasta kjörtímabil jós hann svívirðingum yfir þingheim og skammaðist m.a. yfir því að hér væru engar erlendar fjárfestingar, ef hann kæmist til valda myndi hann taka höndum saman við atvinnulífið, auka erlendar fjárfestinga og verðmætasköpun svo hægt væri að minnka krónumagn í umferð, lækka vexti og losa okkur við verðtrygginguna.
 
Sigmundur Davíð sagði réttilega að þar hefði ríkisstjórn Jóhönnu mistekist fullkomlega. Henni hefði í stað þess tekist að koma á hálfgerðu ófriðarástandi milli ríkisstjórnar og atvinnulífsins.

Margir héldu að ríkisstjórnin myndi því nota sumarið til þess að vinna á bak við tjöldin með aðilum vinnumarkaðarins að gerð nýrrar efnahagsáætlunar til lengri tíma og ná þessum markmiðum. Það reyndist ekki vera.

Aftur á móti hefur komið fram að forsætisráðherra eigi náið samstarf við formann Verkalýðsfélags Akranes. En þekkt er að sá maður er í fullkomnu ósætti við alla aðila vinnumarkaðsins og hefur ávallt klofið sig frá gerð kjarasamninga með kostulegum og mótsagnakenndum fullyrðingum og er fastur gestur í spjallþáttum með grátbroslegar yfirlýsingar.
 
Forysta atvinnulífisins tók nýlega frumkvæði á því að koma á viðræðum við ríkisstjórnina, en svar forsætisráðherra er að hann hlusti ekki á einhverja þrjá einstaklinga!!??

Forsætisráðherra hefur margoft komið því að framfæri að hann ætli að ganga að erlendum fjárfestum. Hann varpaði ESB mönnum á dyr og er í raun að segja að hann vilji halda krónunni og hverfa til fortíðar aftur til helmingaskiptatímanna og pilsfaldakapítalismans, gullaldar haftaáranna.

Þá var nægilegt fyrir útgerðina að hringja í forsætisráðherra og panta gengisfellingu til þess að geta gert eignaupptöku hjá launamönnum og heimilum þeirra. Svo undrast hann að erlendir fjárfestar vilji ekki fjárfesta hér á landi!!??

Forsætisráðherra er nú  búinn að mála sig fullkomlega út í horn og er kominn í algjöra pattstöðu. Þá gefur hann út þá yfirlýsingu að við þurfum ekkert á erlendri fjárfestingu, hann ætli að breyta lögum þannig að lífeyrissjóðirnir fjárfesti í áhættufjárfestingum. Það eru í dag liðinn nákvæmlega 5 ár frá Hruni og forsætisráðherra virðist vera búinn að gleyma öllu.

Allir sem einhverja smáþekkingu hafa á hagkerfinu vita að núverandi staða og sú stefna sem forsætisráðherra boðar leiðir til bóluhagkerfis, sem mun síðan springa framan í okkur og við sitjum enn neðar en við gerum þegar í dag.

Túlkun forsætisráðherra að nýjum hæstaréttardómi staðfestir takmarkaða þekkingu á hagkerfinu og undirstöðum atvinnulífsins.  Þessi dómur mun ýta enn frekar undir þá kröfu fjárfesta að íslensk fyrirtæki hafi aðalstöðvar sínar erlendis ef þau vilja fá aðgang að erlendu fjármagni. Erlend lán til innlendra aðila verða dýrari. Aukinn fjármagnskostnaður innlendra aðila mun svo aftur setja þrýsting á launataxta og færa okkur til þeirra tíma sem ég hef getið um hér ofar. Með víxlhækkunum verðlags og 50 – 100%.

Herkostnaður við íslensku krónuna er 120-150 milljarðar á ári. Sigmundur Davíð og hans fólk virðist það fínt að slíta aðildarviðræðunum og henda mikilvægum valkosti fyrir okkur út af borðinu. Þetta er bara fáránlegt. Næsti vetur mun verða forsætisráðherra mjög erfiður, og þjóðinni enn erfiðari.