mánudagur, 27. febrúar 2012

Rjúfum vítahringinn

Forsvarsmenn bændasamtakanna eru hræddir við að bera ESB aðild undir þjóðina, þeir óttast að þjóðin muni samþykkja. Það væri harla einkennilegt ef þjóðin gerði það ekki, alla vega sjáum við það vel sem erum í tæknihlutanum að öll fjölgun starfa fer fram utan sjávarútvegs og landbúnaðargeirans. Sama á við um launamöguleika bestu launin eru utan þessara geira.

Forstjóri fyritækisins Össur, sem er eitt af glæsilegustu fyrirtækjum landsins, var fyrir skömmu með ágætis lýsingu á þeim skemmdarverkum sem unnin eru á íslensku samfélagi með krónunni. Í ummælum forystumanna bænda um erindi forstjórans, kom fram að það ætti ekki að taka mark á plastik fyrirtækinu Össur!!

Stærsta kjaramál íslenskra launamanna er að finna varanlega lausn á gjaldmiðilsmálum Íslendinga. Við verðum að horfast í augu við þá staðreynd að ef við ætlum að búa áfram við krónuna verður að taka upp mun strangari efnahagsstjórn en ef við tækjum upp Evru. Krónan kallar á mjög digra og dýra gjaldeyrisvarasjóði, sem veldur því að vaxtastigið þarf að vera um 3,5% hærra en það er t.d. í Danmörku.

Bændasamtökin hafna því að neytendur njóti hins frjálsa markaðar, þeir segja að tollvernd skapi nauðsynlegar rekstrarforsendur fyrir innlendan landbúnað. Bændur mega síðan flytja út niðurgreitt lambakjöt, heimsmarkaðsverð hafi hækkað og kalli á hækkun á heimamarkaði. Íslenskur rafvirki er t.d. 2 klst að vinna fyrir lærinu hér heima, fari hann hins vegar til Danmerkur er hann eina klst. að vinna fyrir íslenska lærinu úr danskri búð. Vöruverð er hér allt að 30% hærra en er í löndunum innan ESB og kaupmáttur okkar hækkar ekki í samræmi við umsamdar krónutöluhækkanir.

Tæknifyrirtækin eru að flytja störfin út, eftir verða láglaunastörf sem krefjast minni menntunar. Fækkun starfa á íslenskum vinnumarkaði undanfarinn misseri hefur numið um 15% sé litið til eðlilegrar fjölgunar í samfélaginu.

Þetta segir okkur að mánaðarlaunasumman á íslenskum vinnumarkaði er um 6 MIA lægri en hún gæti verið, sem þýðir um 2,5 MIA lægri tekjur fyrir ríkissjóð á mánuði og útgjöld atvinnuleysistryggingasjóðs væru um 2 MIA lægri sem þýðir að Fjármálaráðherra hefði undanfarin 3 ár haft a.m.k. 5,5 MIA meir úr að spila við hver mánaðarmót.

Málflutningur forsvarsmanna bænda einkennist af fullkomnu tillitsleysi gagnvart öðrum starfsstéttum. Samtök þeirra þiggja árlega milljarða styrki úr ríkissjóð og samtök bænda eru í raun að berjast fyrir því að enn fleiri flytji búferlum erlendis.

Ef það á að takast að skapa 20 þús. ný störf á næstu 2 árum og auka verðmætasköpun, verður það ekki gert í landbúnaði eða fiskvinnslu. Byggja þarf upp öflugan vinnumarkað hér á landi svo vel menntað fólk sækist eftir störfum og leiti ekki til annarra landa. Mesta fjölgunin hefur verið í tæknifyrirtækjum, eða plastfyrirtækjum eins og málsvarar bænda kalla tæknifyrirtækin.

Ef þetta tekst ekki blasir við langvarandi kyrrstaða með slökum kaupmætti og miklu atvinnuleysi. Það er vaxandi samkeppni eftir vel menntuðu og hæfu starfsfólki. Það er einfalt að flytja sig milli landa, sérstaklega á því efnahagssvæði sem við búum á. Stjórnmálamenn komast upp með að setja gjaldeyrismúra, en þeim tekst ekki að múra fólk inni, það brýtur af sér fjötrana.

Ísland er á flestum sviðum búið fyrir löngu að uppfylla öll lágmarksskilyrði fyrir inngöngu í ESB og á sumum sviðum stöndum við framar en mörg ESB ríki. ESB markaðurinn er okkar mikilvægasti viðskiptavinur, sama hvort okkur líkar það betur eða verr. Það er búið að vera frjálst flæði vinnuafls innan ESB og EES svæðisins í nokkra áratugi, sama hvort okkur líkar það betur eða verr.

föstudagur, 24. febrúar 2012

Þjóðin fær að segja sitt álit

Ég er ánægður með að Alþingi hafi samþykkt með afgerandi hætti að kalla saman Stjórnlagaráð til þess að fara yfir þær athugasemdir sem fram hafa komið. Þetta er í samræmi það sem kom fram í vinnsluferlinu síðastliðið vor. Stjórnlagaráð færi síðan yfir rökstuddar athugasemdir og ábendingar um atriði sem betur mættu fara, áður en það yrði borið undir þjóðina.

Vitanlega er það svo að það komast ekki allir til fundar sem boðaður er með skömmum fyrirvara, en það þarf ekki að þýða að þeir sem ekki komast á vinnufundinn geti ekki tekið afstöðu til þeirra athugasemda sem frá Alþingi koma.

Það er hljómar óneitanlega harla einkennilega fyrir þjóðina að heyra nokkra þingmenn tala þannig að þeir treysti ekki þjóðinni til þess að taka „rétta“ afstöðu við afgreiðslu frumvarps til nýrrar Stjórnarskrár. Það vill svo til að þeir hinir sömu treystu þjóðinni til þess að taka „rétta“ afstöðu til mjög flókinna samninga um Icesave.

Afgerandi meirihluti Alþingis tók þá afstöðu að halda sig við það vinnuferli sem lagt var upp með á sínum tíma við að endurskoða Stjórnarskránna, sem hófst með 1.000 manna Þjóðfundi völdum með slembiúrtaki, niðurstaða hans sent til Stjórnlaganefndar skipaðri sérfræðingum, 25 einstaklingar valdir af þjóðinni í kosningum sem þátt tóku um 85 þús. manns. Stjórnlagaráð var skipað af Alþingi og því falið að vinna unnu úr niðurstöðu Stjórnlaganefndar og senda það síðan til Alþingis.

Alþingi hefur tekið sér hálft ár til þess að fara yfir málið og kallað marga álitsgjafa til sín og farið á fundi m.a. norður á Akureyri, sem er bara mjög gott. Þær athugasemdir verða sendar til Stjórnlagaráðs að mér skilst nú um helgina og Stjórnlagaráði gefið tækifæri til þess að skoða heildarmyndina. Alþingi mun að því loknu undirbúa það sem verður borið undir þjóðina í sumar.

Ég geng til vinnufundarins með því hugarfari að þar náist niðurstaða. Öðruvísi er ekki hægt að ganga til verka, þaðan af síður að vera búinn að taka fyrirfram þá afstöðu að aths. við tillögur Stjórnlagaráðs séu ekki þess virði að skoða þær.

Þetta er bara allt í góðu og þjóðin mun fá tækifæri til þess að segja sitt álit í sumar. Úr þeim niðurstöðum mun svo Alþingi vinna endanlega tillögu um nýja Stjórnarskrá sem borinn verður undir þjóðina.

fimmtudagur, 23. febrúar 2012

Framtíð lífeyriskerfisins

Leitin að sökudólgum hefur verið áberandi í umræðunni um efnahagshrunið á Íslandi. Nauðsynlegt er að rannsaka svo draga megi lærdóm af Hruninu. Harla einkennilegt að heyra ráðherra og þingmenn halda því fram að lífeyrissjóðirnir hafi pantað skýrslu og hún sé þess vegna ómarktæk.

Er skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis ómarktæk? Eru dómar hæstaréttar ómarktækir? Hverjir eru það sem skipuðu rannsóknarnefnd Alþingis og hverjir skipa dómara?

Sjóðsfélagar fóru fram að á það eftir Hrun að athafnir stjórna og starfsmanna lífeyrissjóða yrðu rannsakaðar. Stjórnmálamenn gerðu þá ekkert með það, þá var farið fram á ríkissáttasemjari skipaði í nefndina. Hver skipar ríkissáttasemjara? Eru ráðherrar að halda því fram að hann sé í vasa stjórna lífeyrissjóðanna? Eru þingmenn og ráðherrar ekki að lýsa eigin nálgun á stjórn landsins? Er ekki ráðlegt að þetta fólk taki til við að vanda betur yfirlýsingar sínar? Hvers vegna er trúverðugleiki Alþingis í eins stafs tölu í skoðanakönnunum?

Spjallþáttastjórnendur og fréttastjórar velja ætíð til viðtals þann einstakling sem er neikvæðastur og er með litskrúðugustu upphrópanirnar. Þar skiptir engu hvort eitthvað vit sé í því sem sett er fram. Þetta er reyndar helsta ástæða þess að það tekur nú orðið ætíð um 2 -3 ár að ná umræðunni niður á vitrænt plan, sem er orðið eitt stærsta vandamál íslensks samfélags. Hver er helsti málsvari stjórnarandstöðunnar í fjölmiðlum þessa dagana? Er sá einstaklingur í hávegum hafður meðal þjóðarinnar sem traustur og trúverðugur álitsgjafi?

Það sem best tókst í hagstjórn á Íslandi er tvímælalaust uppbygging lífeyriskerfisins, þótt fyrirkomulagið hafi vissulega ekki verið fullkomið. Ýmsir aðilar vega að lífeyrissjóðakerfinu með tillögum um að verja sparnaðinum í pólitískar úthlutanir. Ráðherrar hafa komið fram í auknum mæli undanfarið með kröfur um að beina sparnaði sjóðanna í verkefni sem eru þeim þóknanleg í stað þess að lífeyrissjóðirnir fjárfesti með það að markmiði að ná sem bestri ávöxtun að teknu tilliti til áhættu.

Stjórnmálamenn eru komnir í ógöngur með það lífeyriskerfi sem þeir hafa búið sér og sínum. Það er að sliga mörg sveitarfélög og þeir vilja leysa hinn sjálfskapaða mörg hundruð milljarða skuldavanda lífeyrissjóða hins opinbera með því að þjóðnýta almenna lífeyrissjóðakerfið.

Hjá OECD er að finna tölu um lífeyriskerfi sem hlutfall af VLF á bilinu 2001-2010. Þegar þessi gögn eru skoðuð kemur í ljós að íslenska kerfið kemur næstverst út á bilinu 2007 til 2010. Ef tímabilið 2001-2010 er hins vegar skoðað kemur í ljós að íslenska kerfið kom langbest út.

Brýnasta verkefni í umbótum á lífeyrissjóðakerfinu er að breyta eignasamsetningu þess. Þrátt fyrir að það kalli á aukinn kostnað verður að gera ráð fyrir meiri rannsóknum sjóðanna á einstökum fjárfestingum, það kallar á aukinn rekstrarkostnað. Það á takmarka heimild til innlendra hlutabréfakaupa. Lítill íslenskur hlutabréfamarkaður kallar á hjarðhegðun og litla áhættudreifingu. Hann getur ekki einn borið uppi þær ábyrgu fjárfestingar sem lífeyrissjóðunum eru nauðsynlegar. Í fjárfestingur verður alltaf að taka áhættu og ekki undan því komist að eitthvað tapist, það er ekkert nýtt.

Stærsti vandinn sem steðjar að lífeyrissjóðakerfinu er slök ávöxtun, og það virðist ekki vera bjart framundan hvað það varðar. Skerðingar í lífeyriskerfinu kalla á aukin útgjöld ríkissjóðs vegna vaxandi útgjalda Tryggingarstofnunum. Ef gefa á eftir í ávöxtunarkröfu er verið að senda núverandi kostnað til næstu kynslóðar. Maður veltir oft fyrir hvort það sé borin von að ná upp vitrænni umræðu um lífeyriskerfið, það á að vera hægt að gera þá kröfu til þingmanna.

Það sem stendur helst í vegi fyrir eðlilegri uppbyggingu efnahagskerfisins eru gjaldeyrishöftin. Litlar líkur eru að við losnum endanlega við þau ef ekki verður skipt um gjaldmiðil. Gjaldeyrishöftin koma í veg fyrir eðlilega áhættudreifingu lífeyrissjóðanna. Lífeyrissjóðir og reyndar einnig sjóðsfélagar eru neyddir til að fjárfesta innanlands í vaxtastigi sem er haldið niðri með höftum. Gjaldeyrishöftin eru skapa ástand þar sem ávöxtun er reist að hluta til á froðu, eða röngum vöxtum.

Því lengri tíma sem gjaldeyrishöftin standa, því stærra verður höggið þegar þau verða losuð, ef tíminn verður langur getur höggið orðið þyngra en það varð í Hrunin. Ef við lítum í kringum okkur sjáum við hvernig þetta er að þróast.

Innstæður í bönkum hafa verið í sögulegu hámarki eftir Hrun. Mikið fjármagn leitar eftir öllum ávöxtunarmöguleikum, þ.á.m. á skuldabréfamarkað sem veldur mikilli lækkun á ávöxtunarkröfu á þeim markaði. Hættan á eignabólum fer vaxandi. Höftin (krónan) eru því í raun skattlagning á komandi kynslóðir, eða með öðrum orðum, það er verið að flytja kostnað vegna örorkubóta og lífeyris milli kynslóða.

miðvikudagur, 22. febrúar 2012

Íslensk umræða

Ég hef nokkrum sinnum rætt um ábyrgð spjallaþáttastjórnenda á því í hvaða fari umræðan er í landinu. Það virðist vera nær undantekningalaust þegar einhver mál eru tekinn til umræðu þá er kallað á tiltekna álitsgjafa.

Þeir hafa það allir sammerkt að vera með mjög hástemmdar yfirlýsingar um viðkomandi málefni, undantekningalaust neikvæðar, oft hefur komið fram að þeir hafi takmarkaða þekkingu á því sem þeir fjalla um. Þetta er áberandi í Bylgjunni umfram aðra fjölmiðla, en ber einnig á því annarsstaðar.

Í þessu sambandi má nefna umræðuna um verðtrygginguna, lífeyrissjóðina og svo núna undanfarna daga frumvarp til nýrrar stjórnarskrár. Vigdís Hauksdóttir var í gær síðdegis á Bylgjunni. Hún hefur marglýst því yfir að hún hafi ekki lesið frumvarpið í heild sinnimeð skýringum, en hún sé á móti því sakir þess að það sé svo vitlaust. Aðspurð hvers vegna, svarið var að hún væri nýútskrifaður lögmaður og hún bara vissi það og frumvarpið væri eingöngu í gangi vegna þráhyggju forsætisráðherra.

Í þessu sambandi þá beið maður eftir spurningu þáttarstjórnanda hvers vegna Vigdís og reyndar allur Framsóknarflokkurinn var með það sem eitt af aðalmálum sínum í síðustu kosningum um tafarlausa endurskoðun stjórnarskrárinnar og gerði það að forgangsskilyrði gagnvart afstöðu sinni gagnvart fyrstu stjórn Jóhönnu.

Hún var einnig einkennileg ræða Sigmundar Davíðs formanns Framsóknar á Alþingi þar sem hann líkti þess sem líkti þeim sem vilja standa að gerð nýrrar stjórnarskrár sem fasistum og kommúnistum. Stjórnarskrár málið ætti sér hliðstæðu í því gerðist fyrir austan járntjaldið í kalda stríðinu.

Einvern veginn kemur maður þessu nú ekki heim og saman. Það var farið eftir vilja þjóðarinnar og stórra þjóðfunda og svo á að enda ferlið með því að spyrja þjóðina, þá verður allt vitlaust hjá sumum. Hverjum? Jú þeim sem lengi hafa verið við völd hér á landi með þekktum afleiðingum, en þeir óttast greinilega að missa sín völd yfir til þjóðarinnar.

Stuðningur við frumvarp um nýja Stjórnarskrá er svo kallað fasismi og kommúnismi og einhver vinstri della og hvað þetta er nú allt kallað í umræðum þessa fólks. Það voru að því ég best veit allmargir sjálfstæðis- og framsóknarmenn í Stjórnlagaráði

Ástæða að geta þess að um ekkert mál var fjallað út frá flokkspólitískum línum. Þar ávalt litið til tillagna Stjórnlaganefndar, hvernig tekið hefði verið á viðkomandi málum við nýlega endurskoðun stjórnarskráa aððalega í nálægum ríkjum, og svo síðast en ekki síst til umræðu sem fram hefði farið í landinu um tiltekna liði gildandi stjórnarskrár og ábendingum frá fólk sem heimsótti Stjórnlagaráð eða hafði samband í gegnum opnar línur um netið.

Eða með öðrum orðum fólkið í landinu hafði frumkvæði um þann grunn sem unnið var eftir, hafði aðkomu að meðhöndlun mála og svo á nú að bera vinnuna undir þjóðina. Þá rísa málsvarar tiltekinna afla í landinu upp og segja fullum fetum að fólkinu í landinu sé ekki treystandi til þess að koma að afgreiðslu málsins.

Er nema von að margir séu búnir að gefast upp á því að fylgjast með umræðunni?

fimmtudagur, 16. febrúar 2012

Burtu með verðtrygginguna

Loksins ætla þingmenn að gera eitthvað í verðtryggingunni, það var mikið. Þeir eru búnir í alllangan tíma tala um hversu ómöguleg verðtrygging sé og það verði að afnema hana. Við erum mjög mörg sem erum sammála því að það verði gert. En þegar við höfum spurt hvernig eigi að gera það og hvað eigi að koma í staðinn, hafa aldrei komið svör.

Þegar við höfum spurt hvað þeir eigi við þegar þeir tala um verðtryggingu hafa ekki komið nein svör. Þingmenn hafa aldrei komið fram með tillögur um hvað þeir ætli að gera, bara fullyrðinguna um að það verði að afnema verðtrygginguna. Sumir hafa haldið því fram að það séu stjórnir lífeyrissjóðanna sem standi í vegi fyrir því að þetta verði gert, þær hafa ekkert með það er gera, það var Alþingi sem setti lögin og getur eitt breytt þeim.

Aðrir haldið því fram að forseti ASÍ hafi þetta vald og hann standi einn í vegi fyrir afnámi verðtryggingarinnar. Sú fullyrðing er að mínu mati íslandsmet í lýðskrumi og fáfræði um lög um lífeyrissjóði og stjórnarskrá lýðveldisins.

Það er Alþingi sem setur lög um lífeyrissjóði. Í þeim eru skýr ákvæði hvernig þeir eigi að starfa. Það er Alþingi sem setur lög um verðtryggingu.

Ég þekki engan sem vill ekki að tekið verði á skuldavandamálum heimilanna. Ég þekki einnig mjög marga sem eru því andsnúnir að sá reikningur verði sendur til þeirra sem eru öryrkjar og lífeyrisþegar í dag í almennu lífeyrissjóðunum. Þann reikning þarf að senda eitthvað annað.

Ef menn halda að það sé einhver lausn að afnema verðtrygginguna og gera ekkert annað, þá eru þeir hinir sömu að upplýsa okkur um að þeir viti ekki hvað þeir eru að tala um. Þá taka nefnilega við breytilegir vextir sem þarf að staðgreiða.

Um þetta er búið skrifa margar skýrslur og margir hinir mætustu menn hafa komið að því.

Við erum mörg sem bíðum spennt eftir því að þingmenn taki nú loks til við að afnema verðbólgu, gengisfellingar og okurvexti. Það hafa margir, þar á meðal að ég held flestir þingmenn, sem hafa sagt að þau vandamál sem við glímum við sé afleiðing agalausrar og slakrar efnahagsstjórnar á undanförnum áratugum. Þegar búið er að taka á þessum vandamálum er verðtryggingin kominn þangað sem hún á heima.

Loksins vakna þingmenn

Mikið ofboðslega er ég ánægður með það að nokkrir þingmenn á Alþingi skuli loksins nú leggja fram þingsályktunartillögu þess efnis að nýlegri skýrslu rannsóknarnefndar um lífeyrissjóðina verði fylgt eftir með annarri rannsóknarnefnd sem starfi í umboði Alþingis.

Við vorum nefnilega allmargir sjóðsfélagar sem kröfðumst þess að þessi rannsókn yrði gerð í kjölfar rannsóknarskýrslu Alþingis, en stjórnmálamenn sinntu því í engu og þá var kröfum okkar snúið að Landsambandi lífeyrissjóða.

Í stjórn LL kom strax fram efi um hvort þetta gæti gengið, það yrði nákvæmlega sama hver niðurstaðan yrði, jákvæð eða neikvæð, skýrslan yrði gagnrýnd á grunni þess að LL hefði sjálft gert hana.

En við sjóðsfélagar sættum okkur ekki við að þetta yrði ekki gert, sama á við um þá stjórnarmenn sem ég þekki, engin vildi búa við þær ásakanir sem voru þá í umræðunni. Niðurstaðan varð sú að fá einhvern sem væri eins hlutlaus og hægt væri til þess að skipa í nefndina og hún hefði í engu tengsl við lífeyrissjóðina og leitað til ríkissáttasemjara.

Margir hafa auk þess bent á að það þyrfti að skoða stjórn Seðlabankans í aðdragandi Hrunsins, sama á við um Fjármálaeftirlitið og einkavæðingu bankanna.

Einhverja hluta vegna virðist sífellt að ganga lengi eftir stjórnmálamönnum til þess að fá fram rannsóknir og sama á við um þær rannsóknir sem liggur fyrir að Landsdómur sé að framkvæma, þær virðist eiga að stöðva.

Hvað hafa stjórnmálamenn gert við niðurstöður rannsóknanefnda eins og t.d. hina umfangsmiklu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis?

Stjórnmálamenn hafa einhvernvegin alltaf lokast inn í umræðu um verðtrygginguna þegar þeir ræða um lífeyrissjóðina. Það er mjög verðugt verkefni að losa okkur við verðtrygginguna og við erum mörg sem höfum tekið undir það sjónarmið, öll viljum við losna við okurvexti og síðna þá greiðsludreifingu á þeim sem kölluð hefur verið verðtrygging.

En við höfum aldrei fengið svar við spurningunni um hvernig menn ætli sér að fara að því, málið snýst nefnilega um það. Það sé komið nóg af stjórnarskrárbrotum og lögum sem stangist á við gildandi lög.

miðvikudagur, 15. febrúar 2012

Enn um sameiningu lífeyrissjóða

Nokkrir hafa túlkað síðustu pistla mína á þann veg að ég sé að finna því allt til foráttu að lífeyrissjóðum verði fækkað. Bendi vinsamlega á að sú afstaða kemur hvergi fram í umræddum pistlum.

Ég hef einungis verið að benda á að þetta er ekki eins einfalt og margir virðast telja. Samfara því að ég er næsta viss um að stórir hópar hafi takmarkaðan áhuga á að sameina alla sjóðina.

Það er tæknilega framkvæmanlegt að stefna á einn lífeyrissjóð, en menn verða þá að leggja það vel niður fyrir sér hversu mikil réttindi þessi sjóður eigi að veita, og þá er hægt að reikna í hversu hátt iðgjaldið þurfi að vera.

Ég hef bent á að menn verða þá að reikna með að sumir hópar muni örugglega velja að loka sínum sjóð, frekar en að hann renni inn í einn sameinaðan sjóð. Þar munu viðkomandi sjóðsfélagar vísa til stjórnarskrárvarins eignarréttar og hafna skerðingum. Það er reyndar tekið fram í lögum að sameiningar sem valdi skerðingum eins hóps umfram annarra, eru bannaðar.

Ég tel raunsætt til að byrja með, að stefna á 4 – 5 sjóði á einhverjum tilteknum tíma, eigi að nást þokkaleg sátt um málið. Ég viðurkenni reyndar mínar efasemdir um að menn nái svo stóru skrefi í fyrstu umferð, líklegra væri að fækka þeim um helming.

Í þessu sambandi má einnig velta fyrir sér hvers vegna þessi mismunandi staða lífeyrisjóðanna er þvísumir virðast halda að það sé stjórnendum sjóðanna að kenna.

Fámennið hefur ekkert með það að gera eins og sumir benda á sem helstu ástæðu þess að hér eigi að vera einn lífeyrissjóður. Íslenskt samfélag er vitanlega nákvæmlega jafn fjölbreytilegt og sambærileg vestræn samfélög og munur milli hópa jafnmikill.

Þar má benda á að í sumum starfsstéttum hefur örorka vaxið mun meir en gert var ráð fyrir í upphafi og valdið því að útgjöld nokkurra lífeyrissjóða hafa tvöfaldast vegna þessa liðar um fram aðra. Sama á við um meðalaldur kvenna, hann hefur hækkað um mörg ár umfram það sem gert var ráð fyrir við stofnun sjóðanna. Í fyrstu óx meðalaldur kvenna mun meir en karla, en þeir hafa verið að draga á þær nú síðusut ár. En hvert ár sem meðaladur hækkar kostar gríðarlega mikið.

Það er þessi þróun sem hefur gert það að verkum að sumir sjóðir hafa orðið að skerða mun meir en aðrir, ekki bara lífeyri heldur auk þess réttindi. Það er þarna sem hin mikli munur hefur myndast milli almennu sjóðanna.

En svo eru það opinberu og sveitarstjórnarsjóðirnir þar eru það ákvarðanir stjórnmálamanna og inngrip þeirra inn í eigin lífeyriskerfi sem hafa valdið vaxandi mismun milli opinberu sjóðanna og hinna almennu.

þriðjudagur, 14. febrúar 2012

Einn lífeyrissjóður

Eitt af því sem oft heyrist hjá gagnrýnendum lífeyriskerfisins er spurning um hvers vegna ekki sé einn lífeyrissjóður fyrir alla landsmenn. Tillögur eru oft settar fram án þess að afleiðingar séu skoðaðar. Ef síðan einhver vogar sér að benda á einhverja vankanta, er viðkomandi samstundis úthrópaður og gerðar upp einhverjar ankannalegar skoðanir. En ég ætla nú samt að benda á nokkur atriði sem menn komast ekki hjá að taka með inn í umræðuna.

Tek sérstaklega fram að ég er ekki leggja eitt eða annað til í þessum efnum, einungis að benda á nokkur atriði sem menn verða að huga að þegar þessi mál eru rædd.

Við rafiðnaðarmenn höfum tvisvar gengið í gegnum sameiningar með okkar lífeyrissjóð, það er ákaflega flókinn hlutur og þar bar réttindakerfið hæst í umræðunni. Réttinda- og ávinnslukerfi lífeyrissjóðanna eru töluvert mismunandi.

Vinsælir álitsgjafar skauta ætíð framhjá því að réttinda- og ávinnslukerfi lífeyrissjóðanna eri ákfalega mismunandi. Strax eftir nokkrar setningar er manni ljóst að þeir vita mjög lítið um hvað þeir eru að tala um. Iðgjald snýst ekki bara um lífeyrisgreiðslur, það er aðgangur að víðtæku tryggingarkerfi, með örorkubætur, makalífeyri og barnabætur, sá hluti samsvarar líklega nálægt 4 - 6% tekjuskattsstofni og lífeyrishlutinn 8 - 10% tekjuskattsstofni.

Ef sameina á alla lífeyrissjóðina í einn, verður ekki komist hjá því að taka ákvörðun um hvort menn ætli sér að skerða réttindi hjá einhverjum hópum. Eða hið gagnstæða að færa þá sem hafa minni réttindi upp, eðli málsins samkvæmt er það ekki framkvæmanlegt nema að hækka iðgjöldin umtalsvert hjá þeim sem búa við lakari réttindi.

Hér minni ég á að Fjármálaeftirlitið hefur gefið það út að það verði að hækka iðgjald opinberu sjóðanna upp í 19% eigi þessir sjóðir að vera sjálfbærir, ef jafna á t.d. lífeyrisréttindi láglaunafólks á almennum markaði þarf að hækka iðgjöld þeirra frá 12% upp í þessa tölu.

Ég fullyrði að stórir hópar myndu aldrei samþykkja að iðgjald til lífeyrissjóða verði hækkað um allt að 7%. Ef það yrði gert yrði það líklega verða gert með því að fella 4% séreignariðgjaldið inn í samtryggingariðgjaldið. Ásamt því að næsta kauphækkun yrði að auki tekinn inn í iðgjaldið. Hið gagnstæða hefur verið áberandi krafa hjá stórum hópum, séreignin verði stækkuð á kostnað samtryggingarhlutans.

Samhliða þessu má benda á það sem hefur komið fram hjá þeim sem búa við bestu lífeyrisréttindin. Þeir munu berjast kröftuglega gegn því að þeirra lífeyrisréttindi verði skert.
Ef menn sameina lífeyrissjóðina án þess að breyta iðgjöldum, er það ekki framkvæmanlegt án þess að einhverjir hópar verði að sætta sig við umtalsverðar skerðingar. Þar má t.d. benda á að jafnvel þó „einungis“ almennu lífeyrissjóðirnir yrðu sameinaðir í einn sjóð og iðgjaldið yrði óbreytt áfram, myndi það samt sem áður verða mikill vandi og framkalla miklar deilur.

Tryggingarfræðilega séð eru hópar á á vinnumarkaði ákaflega mismunandi. Þar er að finna ástæðu þess að sumir sjóðir geta verið með mun dýrari réttindakerfi en aðrir. Sameiningar gætu valdið allt að 20% skerðingu á réttindum hjá sumum. Með öðrum orðum það væri þá verið að flytja umtalsverðar eignir frá einum hóp til annarra. Einnig gæti það þýtt umtalsverðan flutning á fjármunum milli kynslóða. Ég er ekki að sjá að það gerist hávaðalaust.

Einum landslífeyrissjóð verður stjórnað af stjórnmálamönnum. Öll vitum við hver staða þeirra sjóða er sem þeir hafa stjórnað. Öll þekkjum við tillögur stjórnmálamanna um hvernig verja eigi eignum lífeyrissjóða í að efna kosningaloforð þeirra.

Hinir föstu álitsgjafar spjallþáttanna hafa þegar lagt það upp þannig að það eina sem standi í vegi fyrir sameiningu lífeyrissjóðanna séu valdasjúkir og gjörspilltir verkalýðsforkólfarmenn. Það er reyndar viðkvæði þeirra í öllum málum sem koma upp í umræðu um lífeyrissjóðina.

Aldrei er skoðað hvort einhver rök séu fyrir því sem þeir segja spjallþátt eftir spjallþátt. Bornar er mjög þungar sakir á fólk út í bæ og spjallþáttastjórnandi gerir ekkert til þess að kanna hvort einhver fótur sé fyrir þeim alvarlegu ásökunum.

Halda menn virkilega að öflugir hópar kjósi bara einhverja gjörspillta og getulausa lúða til forystu og láti þá svo afskiptalausa? Þetta er svo óendanlega barnalegt, en látið fara athugasemdalaust í loftið af mörgum spjallþáttastjórnendum, sem segir reyndar allt sem segja þarf um þá sjálfa.

mánudagur, 13. febrúar 2012

Förum norsku leiðina

Álfheiður Ingadóttir hefur sett fram þá hugmynd að við sameinuðum alla lífeyrissjóðina í einn og mótuðum stefnu í samræmi við Norska olíusjóðinn. Þetta er auðvitað hið besta mál.

Olíusjóðurinn er byggður upp á auðlindagjaldi. Við höfum nákvæmlega sömu möguleika og norðmenn hafa meðolíuna sína, við höfum sjávarútveg og orku sem við eigum ónotaða í fallvötnum og jarðhita.

Nýi sjóðurinn lífeyrissjóðurinn okkar mætti vitanlega eins og sá norski einungis fjárfesta erlendis og væri utan áhrifasvæðis íslenskra stjórnmálamanna. Hann mætti ekki kaupa íslenska ríkis- og sveitarfélagapappíra og ekki fjárfesta beint í íslensku atvinnulífi, hvað þá jarðgöngum og spítölum og öðrum kosningaloforðum. Það verður að afnema gjaldeyrishöftin fyrir sjóðinn og hann hefur þá mun minni áhættu.

Þetta væri fínt því með mun betri áhættudreifingu og öll vísitala afnumin af íbúðarlánum þá gætum við notað það iðgjald sem við greiðum dag og fært það beint í launaumslagið. Enginn hafnar 12% - 15% launahækkun.

Vel á minnst þá færi öll fjármögnum á íbúðarlánum yfir á ríkissjóð og til bankanna og eins öll fjármögnun á fyrirtækjaverðbréfum og hlutabréfamarkaði.

Hvernig skyldu ríkissjóður og bankarnir fjármagna það? Það gerum við með því að hækka skatta um 12 - 15% eða ríkissjóður taki erlend lán og endurláni þau. Vitanlega engin verðtrygging bara breytilegir vextir sem ráðast af gengi krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum.

Já eigum við ekki að taka þetta lið á orðinu og fara Norsku leiðina? Þetta gengur nefnilega allt upp með þeirri hagfræði sem er frekar byggð á óskhyggju en rökum þeirra sem eru svo oft í Silfri Egils og spjallþáttunum eins og það er orðað á í þeim kaffistofum sem ég kem á.

Við erum reyndar allmörg sem höfum bent á margskonar göt í óskhyggju-hagfræðinni, en höfum einungis fengið til baka að við séum valdasjúkt og gjörspillt fólk. Aldrei hafa komið önnur rök frá óskhyggju-hagfræðingunum.

Ég er vitanlega svo illa innrættur en ég kemst ekki hjá því að hafa stjórnmála- og embættismenn grunaða um að þeir séu að átta sig á að það lífeyriskerfi, sem þeir hafa búið sér gengur ekki upp. Það vantar ekki 47 milljarða í kassann eins og þeir hafa haldið að fréttamönnum undanfarna daga. Það vantar reyndar einungis eitt núll inn töluna, skuldin er 470 milljarðar og sú tala vex hratt.

Við sem sjáum hlutina ekki með þeirri óskhyggju-hagfræði sem hefur verið haldið á lofti í Silfrinu og spjallþáttunum, erum þeirrar skoðunar að þetta stjórnmálamennirnir séu að horfa til eigna almennu sjóðanna og ætlar sér að jafna þeim yfir á ríkisstarfsmenn til þess að koma ríkinu og sveitarfélögunum undan því að bera ábyrgð á þessu kerfi og tryggja með sinn eigin lífeyri og komast hjá samskonar skerðingum og fram hafa komið í almenna kerfinu.

laugardagur, 11. febrúar 2012

Pistil sem fjölmiðlamenn ættu að lesa

Fyrrv. ráðherra og ritstjóri Þorsteinn Pálsson ritar pistil sem er á sömu nótum og ég hef sett fram nokkrum pistlum hér á Eyjunni. Hjá sumum hef ég uppskorið það eitt vað vera kallaður valdasjúkur og spilltur verkalýðsforkólfur

Ritstjórar Eyjunnar ásamt allmörgum öðrum fjölmiðlamönnum og spjallþáttastjórnendum ættu að byrja hvern vinnudag með því að lesa þennan pistil.

Í þessu sambandi mætti t.d. rifja upp að ein aðalfrétt vikunnar var að stór atvinnurekandi lýsti því yfir að hann ætlaði að gera upptæk 12% af launum starfsmanna sinna og ráðstafa þeim að eigin vild. Þetta þóttu t.d. fréttamönnum RÚV og Kastljóssins stórmerk frétt og birtu hana án ath.s.

Einnig mætti rifja úr fréttum vikunnar að virtist koma fréttamönnum í opna skjöldu að lífeyrissjóðirnir hefðu tapað fjármunum í Hruninu. Þetta hefur komið fram á ársfundum lífeyrissjóðanna undanfarinna ára og lítið nýtt sem kom fram í skýrslunni. Margir sjóðir, allavega allir sem ég þekki til hjá, hafa verið að taka á þeim vanda sem kom fram við Hrunið.

Eða að það hefur legið fyrir í langan tíma að allir lífeyrissjóðir í heimunum töpuðu svipuðu eða jafnvel meiri fjármunum. Þetta kallar maður slaka fréttamennsku og litaða einhverju sem oft hefur verið kallað lýðskrum.

Það hafa legið fyrir svör flestra ef ekki allra lífeyrisjóðanna um boðsferðir og fleira í alllangan tíma og hefur verið tekið á þeim vanda. Samt fjalla fjölmiðlar um að þessu sé haldið leyndu!!

Það þarf engan að undra þótt fram komi nýr stjórnmálaflokkur sem lofar upp á æru og trú að koma Íslandi á nokkrum árum í sömu stöðu og Grikkland með því að breyta lífeyris- og bótakerfi almannatrygginga í sama horf og er þar. Þessi flokkur fékk samstundis 21% fylgi.

Aðalstjörnur fréttatíma RÚV þessa vikuna hafa verið þekktir íslandsmeistarar í lýðskrumi, virðist reyndar svo að sumir fréttamenn séu komnir fram fyrir þá..

fimmtudagur, 9. febrúar 2012

Samhengi hlutanna

Undanfarið hefur umræðan verið undirlögð um lífeyrissjóðina og stjórnir þeirra. Hún hefur í nokkrum veigamiklum atriðum byggst á fullyrðingum sem ekki standast. Skýrsla þeirrar rannsóknarnefndar sem ríkissaksóknari skipaði er góð og upplýsandi. Þar koma fram margar þarfar ábendingar.

Sumir áberandi álitsgjafa virðast ganga út frá því að þáverandi stjórnum lífeyrissjóðanna hefði verið í lófa lagið að tapa ekki neinu við það kerfishrun, sem varð á Ísland í árslok 2008 og alþjóðlegri efnahagskreppu. Allir fjárfestar í heiminum töpuðu líka íslenskir lífeyrissjóðir, en það er spurning hversu mikið tapið hefði þurft að vera og örugglega hægt að skrifa langar greinar um það.

Mig langar til þess leggja smá innlegg í þessa umræðu, en á svo sem ekki von á því að það skili sér inn í fréttirnar. Tek það fram að ég var ekki stjórnarmaður á þessum tíma og ég hef aldrei þegið neina ferð á vegum fjármálafyrirtækja eða lífeyrissjóðsins, sama á við um þá stjórnarmenn sem ég starfa með.

Eru eigendur sparifjár skúrkar hrunsins?
Ég hef í þessu sambandi stundum bent á stöðu aldraðs föður míns. Hann var atvinnurekandi og greiddi aldrei í lífeyrissjóð. Hann seldi sitt litla fyrirtæki þegar hann komst á aldur og keypti fyrir ævisparnað sinn hlutabréf í bankanum sínum Landsbankanum. Í nóv. 2008 tapaði hann sínum lífeyrissjóð í heilu lagi.

Skilja má umræðuna í dag þannig að það sé hann sem hafi valdið falli bankans með því að hafa sett lífeyrissjóð sinn í bankann. Hann segist hingað til hafa skilið það á þann veg að ástæða falls bankanna og verðbréfamarkaðarins hefði verið að einhverjir náungar rændu bankana innanfrá. Í þessu sambandi má benda á marga sem fóru að tillögum bankanna og margra þingmanna, tóku út allan séreignarsparnað sinn og settu í bankasjóðina, þessir einstaklingar hafa glatað öllum sínum sparnaði.

Huliðshjúpur Seðlabanka og stjórnvalda yfir stöðu bankanna.
Ekkert í útgefnum gögnum frá Fjármálaeftirlitinu og Seðlabankanum fram að Hruni gaf til kynna að bankarnir stæðu höllum fæti. Í febrúar 2008 kallaði þáverandi seðlabankastjóri nokkra ráðherra á fund og lýsti því að allir bankarnir stefndu í þrot, en í skýrslu Seðlabanka í byrjun júní 2008 kemur ekkert fram um þessa stöðu bankanna??!! En það virðast hafa verið samantekin ráð þessara aðila að sveipa bankakerfið huliðshjúp og velgengi hins íslenska efnahagsundurs haldið á lofti af hálfu Seðlabankans og ráðherrum.

Sparifjáreigendur og fjárfestar höfðu ekkert annað í höndum um stöðu bankanna en ársreikninga þeirra, sem reyndust vera ótrúverðugir pappírar, sbr. skýrslu RA. t.d. 17 kafla. og skýrslur eftirlitsaðilanna sögðu að þeir stæðust öll álagspróf. Stjórnendur sjóðanna þurftu að taka sínar ákvarðanir á grunvelli þessara gagna. Þegar ljóst var hvert stefndi voru „heit“ bréf ekki söluvara. Við skulum heldur ekki gleyma því að bankarnir voru með svipaða lánshæfiseinkunn og stærstu og öflugustu ríki heimsins.

Ég veit vel að það hefði verið hægt að minnka tapa sjóðanna töluvert, og reyndar tap almennings á sparfé sínu. En aðalforsenda þess að var að hæstvirtir stjórnendur efnahagsmála hefðu upplýst þjóðina í ársbyrjun hvert stefndi og gripið til viðeigandi ráðstafana. Það gerðu þeir ekki, og segjast hafa bjargað þjóðinni, Guð blessi Ísland.

Þjóðin vill að hún verði upplýst um þetta í vitnaleiðslum fyrir Landsdómi, en Alþingi virðist ætla að koma í veg fyrir það. Hvers vegna hafa þessir þingmenn ekki kallað eftir því að sérstök rannsóknarnefnd rannsaki hvort náin tengsl hafi verið milli þeirra þingmanna, sem staðfest hefur verið að hafi þegið stórar greiðslur frá m.a. bönkunum, við fjármálafyrirtækin? Hvers vegna hafa þingmenn ekki viljað láta skoða einkavæðingu bankanna? Nokkrir þeirra þingmanna sem eru þessa daga að gagnrýna stöðu lífeyrissjóðanna, voru með tillögur um að starfsemi þeirra væri óþörf, frekar ætti að setja alla lífeyrissjóðina inn í bankana. Hver væri staða lífeyrissjóðanna í dag ef það hefði verið gert?

Í þessu sambandi er einnig rétt að benda á að rekstrarkostnaður íslenska lífeyriskerfisins er með því lægsta sem þekkist. Sjóðsfélagar kröfðust þess að það væri lækkað enn frekar og það var gert. En ég veit að sumir stjórnarmenn telja að það hafi verið mestu mistök þeirra að ráða ekki fleiri starfsmenn til þess að efla greiningu á markaði.

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis eru tengsl ráðandi stjórnmálamanna við bankana rakinn. Stjórnmálamenn afregluðu kerfið í staðinn fengu stjórnmálaflokkar og einstaka stjórnmálamenn það ríkulega endurgreitt eins og lýst er í 2. bindi, bls. 200-201 þar sem fjallað er um lán til stjórnmálamanna, og í 8. bindi bls. 164 – 170 þar sem fjallað er um styrki og boðsferðir til stjórnmálamanna og til stjórnmálaflokka.

Þegar bankarnir hrundu, kom í ljós að 10 þingmenn skulduðu bönkunum sem námu persónulegar skuldir þeirra við gömlu bankanna á bilinu 1 milljón evra til 40 milljóna. Meðal skuld þessara tíu þingmanna var 9.000.000 evra. Hve margir þingmenn skulduðu bönkunum t.d. meir en hálfa milljón evra eða meira kemur ekki fram í skýrslunni, né er vitað hvort lán gömlu bankanna til stjórnmálamanna yrðu endurgreidd eða afskrifuð.

Glötuð iðgjöld?
Í þeim lífeyrissjóð sem ég er í hefur uppsöfnuð nafnávöxtun frá árinu 1991 út árið 2010 verið um 180%. Þetta jafngildir að meðaltali 8,8% nafnávöxtun á ári
Hér mynd með þeirri formúlu sem notuð er. úr þeim reglum. Í stað þess að nota 5 ár notuð við 21 ár. Allar ávöxtunartölur frá 1991 hafa verið staðfestar af ytri endurskoðendum. Mér yfirsást reyndar að í texta stendur 1991 til 2010 en ekki 2011 eins og myndin ber með sér. Ef við notum 20 ár væri meðaltalið 9 %, sem gerir þetta bara betra.





Þeir sem telja að iðgjöld til margra ára séu glötuð geta því haldið ró sinni. En við ættum reyndar að ræða frekar hvað þessi ofboðslega ávöxtun segir okkur, það er verðbólgan sem allt er hér að kæfa. Erlendir sjóðir þurfa ekki svona ávöxtun vegna þess að þeir búa við stöðugt verðlag. Ávöxtun íslenskra lífeyrissjóða er langt um betri en í flestum OECD ríkjum. Ef leiðrétt er fyrir verðbólgu er hún samt jákvæð, innlagt iðgjald á raunvirði er enn til staðar að viðbættum 32% í formi ávöxtunar.

Meðfylgjandi mynd sýnir að hrunárið 2008 tapaðist stór hluti af uppsöfnuðum vöxtum en ekki iðgjöldin.







Þrátt fyrir hrun og erfiðleika við að finna jákvæða fjárfestingarkosti hafa íslensku lífeyrissjóðirnir staðið undir því að greiða út lífeyri og reyndar hefur hann hækkað meir en umsamdar launahækkanir. Hlutdeild lífeyrissjóðanna í bótakerfinu hefur farið vaxandi, útgreiðslur lífeyrissjóðanna var jöfn Tryggingarstofnun um síðustu aldamót eða um 50 milljarðar komu frá hvorum aðila. Síðasta ár voru útgreiðslur lífeyrissjóðanna um 75 milljarðar á móti 50 milljörðum Tryggingarstofnunar og á næstu árum munu útgjöld lífeyrissjóðanna vaxa mjög hratt vegna þess að það eru stórir árgangar að komast á lífeyrisaldur.

Í fjölmörgum samþykktum launamanna er ein meginkrafna við gerð kjarasamninga viðunandi lífeyrir við lok starfsævinnar. Þeir sem gagnrýna þetta sem mest, er aftur á móti fólk sem ekki er í samtökum launamanna og vill helst greiða sem minnst til samfélagsins.

Hvítskúraðir englar
Hluti þjóðarinnar býr í þeirri stöðu að vera með ríkistryggð lífeyrisréttindi. Það eru uppi kröfur um að allir búi við svipaða stöðu. En þingmenn með sín ríkistryggðu lífeyrisréttindi sama á hverju gengur, að tala um að leggja niður sjóðasöfnun (brask) og vilja loka á inngreiðslur í kerfið.

Vitanlega hefði mátt gera ýmislegt öðruvísi og ekki allir hvítskúraðir englar eins og einn þingmaður hefur orðað það. En við þurfum yfirvegaða umræðu um hvernig við tökum á þessum vanda og hvernig við náum takmörkum okkar. Áttu menn virkilega von á því að hér hefði verið auðvelt að koma hlutnum þannig fyrir að ekki myndu tapast fjármunir þrátt fyrir fullkomið kerfishrun?

Kröfur um ávöxtun
Í þessu sambandi má minna á háværar kröfur sjóðsfélaga um ávöxtun. Kröfur um að vera ekki að vera ekki með of mikið fjármagn í ríkisbréfum, það gæfi alltof lága ávöxtun, sama gilti um sum af hinum erlendu bréfum sem lífeyrissjóðir keyptu. Það voru ekki bara íslenskir fjárfestar sem þetta gerðu, hingað streymdi erlent fjármagn vegna hárra vaxta.

Þeir fjárfestar sem ekki voru tilbúnir að kaupa bréf með þeim kvöðum sem í þeim voru urðu útundan. Þar voru ætíð bréfin með hæstu ávöxtunina og margir sjóðsfélagar fylgdust vel með þessu og skömmuðust yfir því ef lífeyrissjóðurinn komst ekki inn í þessi viðskipti. Jafnvel þó lífeyrissjóðirnir hefðu keypt öll ríkis- og sveitafélagabréf voru eftir um 700 milljarðar til að fjárfesta. Með kaupum á öllum þessum bréfum hefði að vísu verið hægt að leggja niður verðbréfamarkaðinn, eins skynsamlegt og það hefði nú verið.

Á þessum tíma voru daglega sérstakir þættir í fjölmiðlum um gengi bréfa á markaði. Þar var kynnt hvernig hægt var að ná fantaávöxtun og leiddi til þess að staða sjóðsfélaga var bætt töluvert.

Stjórnarmenn lífeyrissjóða
Í stjórnum lífeyrissjóða á almennum markaði eru um 6 tugir einstaklinga. Í þeim sjóð sem ég er í er þess krafist að allir stjórnarmenn séu sjóðsfélagar og ég fór í gegnum tvennar kosningar þar sem þátt tóku vel á annað hundrað sjóðsfélagar áður en ég náði kjöri í stjórn sjóðsins síðasta vor. Ég hef greitt í þennan lífeyrissjóð frá stofnun hans eða í 42 ár. Í samtryggingardeild og séreignardeild hans er allt mitt sparifé. Ég á því eins aðrir stjórnarmenn gríðarlega mikið undir því að vel takist til við ávöxtun og vörslu þessa sparifjár sem verður grundvöllur lífeyris míns komandi ár.

Þær fullyrðingar sem fram koma í hverjum fréttatímanum og spjallþættinum á fætur öðrum eru sumar hverjar ákaflega einkennilegar og reyndar meiðandi. Það væri ágætt ef fréttamenn og viðmælendur þeirra vildu útskýra fyrir okkur hvað þeir eigi við þegar þeir bera á okkur alla þessa stjórnarmenn, margir þeirra voru ekki í stjórnum á umræddu tímabili, en samt er alhæft um að þar fari hreinræktaðir glæpamenn sem hafi það eitt að markmiði að taka eigið sparifé og sólunda því á borðum spilavíta fjármálamarkaðarins og ferðast um í glysferðum þiggjandi mútur og ofurlaun. Margt af því sem fram kemur í skýrslunni er ekki nýtt það var rætt um það á síðustu ársfundum sjóðanna, það hefur verið tekið á sumum þessara vandamála nú þegar.

Eldhaf

Eldhafið á nýja sviði Borgarleikshússins er virkilega góð sýning. Umjörðin er mjög vel unnin og styrkir mjög vel þann boðskap sem sýningunni er ætlað að koma á framfæri. Leikmynd Ilmar Stefánsdóttur og myndabandshönnun Arnars Steins Friðbjarnarsonar fá allar þær stjörnur sem í boði eru ásamt lýsingu Þórðar Orra Péturssonar og hljóði Halls Ingólfssonar.
Leikhópurinn stendur sig mjög vel og ætla ekki að gera upp á milli þeirra, þau eru öll mjög góð.

Þau skilaboð sem höfundurinn Waijdi Mouawad er að koma á framfæri þurfa engra útskýringa við, vettvangurinn hefur verið í daglegum fréttum undanfarin ár. Grimmd mannsins, tilgangsleysi átaka og svo hefndarþorstinn sem einkennir mannskepnuna. Áhorfendur komast ekki hjá því að horfa í spegil stóran hluta verksins, og það verður oft óþægilegt, mjög óþægilegt. Verkið er mjög vel skrifað og skilaboðunum er komið til okkar á einfaldan og magnþrungin hátt.

En mér fannst sumum atriðum ofaukið, ástæðulaust að endurtaka skilaboðin við vorum búinn að ná þeim. T.d. athafnir leyniskyttu og viðbjóður þeirrar iðju og sama á við um nokkur atriði. Sýningin er nálægt 3 tímum að lengd og maður verður kröfuharðari eftir því sem leiksýning verður lengri, það verður að vera tilgangur með því að lengja sýninguna.

Ég lenti í því að sitja inn í miðjum bekkjarhóp ungs fólks, greinilegt var að þau höfðu verið send þangað og sum þeirra höfðu nákvæmlega engan áhuga á því sem fram fór á sviðinu. Biðu eftir því að þetta væri búið. Tveir ungir menn sátu fyrir framan okkur og þeir voru að segja hvor öðrum gamansögur allt verkið og veltust um af hlátri á meðan á sviðinu fóru fram atriði þar sem mannskepnan sýndi sínar alverstu hliðar. Í sumum tilfellum báur viðbrögð þessa unga fólks merki sjálfsvarnar, það var ekki tilbúið að horfast í augu við innræti mannskepnunnar. Kannski skýringin á því að ég fór stundum að hugsa, já við erum búinn að fá þessi skilaboð, hvar eru þau næstu.

Kannski ekki fimm stjörnur, en næsti bær við.

sunnudagur, 5. febrúar 2012

Útópísk óskhyggja?

Velti oft fyrir mér hvar menn ætluðu að ávaxta fjármuni lífeyrissjóðanna án þess að eitthvað myndi tapast eftir Hrun. Engin skammaðist yfir töluverðri hækkun lífeyrisbóta umfram neysluvísitölu fyrstu ár þessarar aldar.

En nú er fjallað um þá sem voru í stjórnum lífeyrissjóða árin 2008 og 2009 þannig að þeir hafi starfað af fullkominni glópsku og jafnvel verið spilltir. Það er stórt að alhæfa svona um allt þetta fólk sem var í stjórnum lífeyrissjóðanna.

En hvað áttu þáverandi stjórnarmenn að gera á sínum tíma til þess að koma í veg fyrir að bankarnir féllu með þeim afleiðingum að hlutabréfamarkaðurinn hrundi til grunna?

Það liggur fyrir að ríkistryggð skuldabréf stóðu ekki til boða í nægjanlegu magni, ekki heldur nægilegur fjöldi félagsmanna sem vildi taka sjóðsfélagalán, frekar voru tekinn erlend lán. Ekki nægilega mikið framboð á ríkistryggðum bréfum frá íbúðarlánasjóði, sveitarfélögum og hinu opinbera á markaði. Ekki nægilega mörg örugg fyrirtæki skráð á hlutabréfamarkaði sem aldrei áttu að tapa neinu.

Já svo voru það hlutabréfin í bönkunum, sem alltaf höfðu verið pottþéttustu pappírar landsins. Við erum búinn að fá daglega kennslu undanfarnar vikur hvernig stjórnendur bankanna og tilteknir stjórnmálamenn keyrðu hér allt í þrot í tilraunum við að framkvæma hið íslenska efnahagsundur og gera Ísland að alþjóðlegri fjármálamiðstöð.

Eru menn ekki að tala um útópíska óskhyggju? Var þetta mögulegt fyrir lífeyrissjóðina, miðað við það fjármagn sem þeir þurftu að ávaxta, til þess að koma í veg fyrir að skerða þyrfti bætur? Slíkt var einfaldlega óhjákvæmilegt eftir að stór hluti hlutabréfamarkaðarins þurrkaðist út við hrunið.

Þeir sem halda því fram að hægt hafi verið að komast hjá að lífeyrissjóðir myndu tapa fjármunum lifa í afneitun. Vilja beina sjónum frá ákveðnum hlutum. Sumir halda því fram að þar fari almannatenglar útrásarvíkingana fremstir í flokki, það henti þeim vel að halda umræðunni fjarri eigin málum.

Varla var það rekstrarkostnaður almennu sjóðanna a.m.k. því hann er með því lægsta sem þekkist og reyndar kvartað undan því að ekki hafi starfað nægilega margir hjá lífeyrissjóðunum við eigin greiningar á mörkuðunum. Það voru nokkrir starfsmenn á töluvert góðum launum það er búið að taka á því þar sem ég þekki til og var full þörf á því.

Mér dettur ekki augnablik í hug að mæla þeim bót sem fóru í glysferðir eignastýringadeilda bankanna, en hverjir fóru? Það voru ekki allir, það voru eftir því sem ég best veit tiltölulega fáir sem stigu hrunadansinn með bankastýrunum og tilteknum stjórnmálamönnum. Já svo forseta vorum, sem stóð ofarlega á tildurhaugnum brosandi með einkaþoturnar í baksýnisspeglinum.

Geggjunin varð nánast altæk, en þá er gott að láta óskhyggjuna taka völdin.

Taptölur og afkomutölur

Ég var að koma heim í gærkvöldi eftir viku orlof og sá umfjöllun um skýrslu rannsóknarnefndar sem Ríkissáttasemjari var fenginn til þess að skipa og kanna stefnumótun, ákvarðanatöku og áhættumat lífeyrissjóðanna við fjárfestingar í aðdraganda bankahrunsins.

Í öllum fyrirsögnum var talað um 480 milljarða tap sjóðanna vegna Hrunsins. Ég staldraði við þessa tölu í gærkvöld þegar ég var að fara yfir fréttirnar, því hún var önnur en sú tala sem ég hafði heyrt. Ég lagðist því yfir skýrsluna í morgun og fór að kynna mér innihald hennar og fann fljótt skýringu á þessu.

Í skýrslunni kemur nefnilega fram að einungis eru teknar taptölur og þær lagðar saman. Yfirleitt tölum við um afkomu. T.d. gefur Hagkaup ekki bara upp rýrnun í verslunum sínum og tap vegna ógreiddra reikninga í árslok. Lífeyrissjóðir eru fjárfestar og þeir hafa alla tíð tapað einhverju og samfara því að hagnast eitthvað, annars væru þeir líkleg ekki til og ættu ekki eignir upp á tvö þús. milljarða.

Hérna missa fjölmiðlamennirnir fótanna í endurtekinni leit að hasar. Skýrsluhöfundar taka fram að ekki sé talin ástæða til að fjalla sérstaklega um þau eignasöfn sjóðanna, sem skilað hafa þeim jafnri og góðri ávöxtun í gegnum árin eins og verðbréf og skuldabréf með ábyrgð ríkissjóðs, innlán í bönkum og sparisjóðum og lán til sjóðfélaga. Enginn sem fjallar um þetta mál kemur inn á þennan vinkil.

Því verður vitanlega að halda einnig til haga að Alþingi setti á sínum tíma mjög ítarleg lög um hvernig lífeyrissjóðir ættu að fjárfesta og ná sem mestri ávöxtun. Eigi að taka á þessu verða menn að skoða þessi lög og bera þau saman við störf stjórnanna.

Einnig eru í gildi mjög ströng lög um eftirlit með lífeyrissjóðum, innra eftirlit aðskilið frá löggiltri endurskoðun og þannig mætti lengi telja. Ef langtíma ávöxtun er ekki inna tiltekinna marka þarf að skerða réttindi, reyndar bara í almennu sjóðunum ekki opinberu sjóðunum.

Ég er ekki með þessu að gera lítið úr tapinu, heldur benda á það sem skýrsluhöfundar taka það sérstaklega fram þetta sé ekki afkomutalan, svo ég reyni að tala sama tungumál og við notum við eldhúsborðið.

Skýrsluhöfundar taka það fram að þeir einblína á, eins og þeim var uppálagt, að kanna stefnumótun, ákvarðanatöku og áhættumat lífeyrissjóðanna við fjárfestingar í aðdraganda bankahrunsins. Hvað orsakaði tap sjóðanna svo að sumir þeirra þurftu að skerða lífeyrisréttindi sjóðfélaga sinna. Hvort eitthvað saknæmt hefði átt sér stað. Þetta er gert til þess að draga megi lærdóm af falli bankanna í október 2008, til þess að bæta lífeyrissjóðakerfið sjálft og að ákvarðanir innan þess verði teknar á skipulagðari og traustari máta.

Við höfum á nær hverju einasta kvöldi undanfarnar vikur fengið kennslu í því hvernig yfirmenn og eigendur bankanna bjuggu til fléttur til þess að féfletta fólk og fjárfesta þar á meðal lífeyrissjóðina. Skýrslan greinir frá því hvernig féfletturunum tókst upp gagnvart lífeyrissjóðunum, en hún segir ekki frá afkomu lífeyrissjóðanna, eins og margir virðast halda. Ég hef ekki upplýsingar hér til þess að reikna þetta út en tel víst að á næstu dögum muni þessar afkomutölur birtast.

En ég endurtek skýrslan sýnir vel hvernig hlutirnir gengu fyrir sig og skýrir vel hvernig þeir menn sem ráku bankana eru innréttaðir. Reyndar kemur oft fram hvernig þeir fengu stjórnmálamenn til þess að vera virka "kóara" með sér í að bera út hið íslenska efnahagsundur og hvernig byggja ætti alþjóðlega efnahagsmiðstöð á Íslandi og leika sér purrkunarlaust með sparifé launamanna.

Skipan stjórna
En það var einnig annað sem ég tók einnig eftir það var umfjöllun um skipan stjórna lífeyrissjóðanna. Í þeim gögnum sem nefndin fékk er ekkert samband á milli fyrirkomulags stjórnar og hve miklu lífeyrissjóður tapaði í hruninu. Sumir sjóðir sem velja alla stjórn sína á ársfundi töpuðu mjög miklu.

Nefndin bendir á að það sé ekki hægt að rökstyðja nýtt fyrirkomulag stjórnar á þeirri forsendu, eða að líklegra sé að beint kjörnir fulltrúar verji fé lífeyrissjóðanna betur en þeir sem nú sitja þar. En eins og þekkt er fer kjör stjórnarmanna fram með mjög mismundi hætti hjá lífeyrissjóðunum, sem skipa má í þrjá flokka almennu sjóðina þar sem fram svokallað fulltrúakjör, frjálsu sjóðina þar sem fram fer kjör á ársfundum og svo hina opinberu og sveitarstjórnarsjóðina þar sem einfaldlega er tilnefnt í stjórnir sjóðanna

Lífeyrissjóðakerfið íslenska er vel heppnað í alþjóðlegum samanburði, sjá skýrslu Katrínar Ólafsdóttur í viðauka skýrslunnar. Nefndin tekur fram að strangt eftirlit Fjármálaeftirlitsins með þeim sem taka sæti í stjórnum lífeyrissjóða ætti að tryggja hæfi þeirra óháð því hvernig valið er. Úttektarnefndin leggur til að lífeyrissjóðir á almennum markaði og opinberum móti sér þá stefnu að einn eða fleiri stjórnarmenn séu kosnir beinni kosningu á ársfundi lífeyrissjóðsins. Fimm árum héðan í frá verði reynslan af þessu fyrirkomulagi metin og athugað hvort lengra skuli haldið.

Nefndin bendir á það í kafla 34.2.1. bls. 132 að það sé eftirtektarvert að ársfundur Stafa (að tillögum frá rafiðnaðarmönnum, reyndar hafa þær komið fram áður) hafi árið 2009 samþykkti að stefnt skyldi að því að auka lýðræði við kjör stjórnar með því að fjölga stjórnarmönnum um tvo og þeir kosnir í netkosningu. Framkvæmdastjóri Stafa sagði í viðtali við nefndina að þessi samþykkt hefði verið kynnt forsvarsmönnum Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands, en þeir hefðu lagst gegn henni. Það er skoðun úttektarnefndarinnar að stjórnir lífeyrissjóða skuli móta sér stefnu um að einn eða fleiri stjórnarmenn úr hópi sjóðfélaga skuli kosnir á ársfundi.

miðvikudagur, 1. febrúar 2012

Óttinn við venjubundnar hefndaraðgerðir

Það er sífellt að koma betur fram hvaða stjórnmálamenn ætla sér að berjast gegn því að gerðar verði breytingar á því samfélagi sem við höfum búið í. Þrátt fyrir að hér hafi orðið fullkomið kerfishrun og tugir þúsunda heimila liggi í valnum á meðan tiltekin hópur hagnaðist og hefur haldið áfram að hagnast á falli krónunnar.

Kostnaðurinn vegna vegna hrunsins og afglapa í efnahagsstjórn er að venju að stærstum hluta tekinn í gegnum gengisfellingu krónunnar, sem síðan veldur okurvaxtakostnaði, sem endurspeglast einnig háu dagvöruverði.

Sá hópur sem berst gegn því að mál hrunsins verði gerð upp birtist okkur þessa dagana í hóp þeirra sem berst fyrir því að komið verði í veg fyrir að Landsdómur fái að ljúka sínum störfum.

Það er áberandi að þessi hinn sami hópur berst gegn öllum breytingum á íslensku samfélagi. Hann vill halda sínum tökum á samfélaginu og tryggja sína stöðu.

Vaxandi fjöldi fólks í því umhverfi sem ég starfa og lifi í er farinn að reikna með því að Sjálfstæðisflokkurinn nái völdum á næstunni. Maður heyrir fólk, þá sérstaklega fólk sem er að ljúka háskólanámi, æ oftar taka þannig til máls að það vilji ekki vera í þeim hóp sem berst fyrir því að hér verði uppgjör fyrir opnum tjöldum. Í þessu sambandi má benda á málflutning formanns lögmannafélagsins, hann endurspeglar þessi viðhorf ákaflega vel.

Fólk segir að það hafi ætíð verið þannig að þeir sem valdastéttin telji að standi fyrir sér hafa verið útilokaðir frá aðkomu að kjötkötlunum og góðum störfum. Í umræðum manna á milli er reiknað að venju með öflugum hefndaraðgerðum af hálfu sjálfstæðismanna gagnvart þeim sem hafa gagnrýnt hvert efnahagsstjórn flokksins leiddi landið.

Þetta endurspeglist vel í afstöðu nokkurra þingmanna og ráðherra, sem greinilega ætli ekki að taka áhættunni af því að verða fyrir hefndaraðgerðum sjálfstæðismanna þegar þeir komist til valda. Hér er vitanlega sérstaklega bent á þingmenn og ráðherra Samfylkingarinnar og svo maður tali nú ekki um ráðherra VG, sem hafa gengið í lið með Davíð Oddssyni.

Í þessum umræðum spá menn því að þeir sem hlýtt hafi kallinu og meðtekið þann boðskap sem ristjóri MBL boðar reikni með að fá að launum feita bita eins og t.d. sendiherrastöður eða góða bitlinga. Þannig hefur Ísland verið og gegn breytingum á því að tapa stöðunnu um að geta haldið herfanginu, almenning Íslands út af fyrir sig, berjast þessir menn.

Ég þarf ekki að telja upp þau nöfn sem eru nefnd í þessu sambandi, þau birtast daglega í öllum fréttum, þegar þessir hinir sömu reyna að færa fram rök fyrir því að Landsdómur eigi ekki að fá að ljúka sínum störfum.

Allir eigi að axla ábyrgð, en það blasir við að þeir eiga einungis við almenning í landinu ekki stjórnmála- og embættismenn.