laugardagur, 27. október 2012

Rafiðnaðarmenn hafna óraunsæjum töfralausnum


Ég sat trúnaðarmannaráðstefnu Rafiðnaðarsambandsins á Selfoss nú seinni hluta vikunnar. Ráðstefnuna sátu um 100 trúnaðarmenn á vinnustöðum rafiðnaðarmanna víðsvegar af landinu. Vitanlega var staðan í efnahagsmálum áberandi í umræðunni. Lögð var áherslu á að stjórnvöld yrðu að skapa þær aðstæður að á Íslandi gæti ríkt efnahagslegur stöðugleiki með meiri festu í gengi krónunnar og lágri verðbólgu. Þolinmæði launamanna gagnvart óöguðum vinnubrögðum stjórnmálamanna er löngu þrotin, það birtist m.a. í flótta launamanna frá landinu.
Í ályktun sem var samþykkt einróma kom m.a. fram það væri óþolandi að árangur í kjarabaráttu launamanna væri jafnharðan eyðilagður með gengisfellingum. Afleiðing óagaðrar efnahagsstjórnunar valdi óstöðuleika krónunnar og mikilli verðbólgu, sem veldur því að vextir hér á landi eru að jafnaði tvöfalt hærri, en í nágrannalöndum okkar. Því er verðtryggingarkerfið hér á landi virkt, á meðan það er nánast óvirkt í öðrum löndum.

Rafiðnaðarmenn krefjast þess að tekið verði á skuldavanda heimilanna, en draga það í efa að afnám verðtryggingar sé hin eina sanna lausn vandans. Rafiðnaðarmenn gera sér grein fyrir því að vaxtastig hér landi er alltof hátt og með greiðsludreifingarþætti verðtryggingar er heimilum gert kleift að dreifa afborgunum yfir lengri tíma, en þetta býður jafnframt heim þeirri hættu að heimilin skuldsetji sig um of. Sveiflur í greiðslubyrði óverðtryggðra lána geta sveiflast með svo öfgakenndum hætti að flest heimili lenda í greiðsluerfiðleikum við hvert verðbólguskot.

Ef jafngreiðslukerfi verðtryggingakerfisins hefði ekki verið við lýði við Hrunið hefðu t.d. afborganir af 20 millj. kr. láni farið yfir 400 þús. kr. á mánuði, í stað þess að vera um 120 þús. kr. á mán. Það var tekinn mikil áhætta með því að hækka lánamöguleika upp 100%, það varð til þess að margir settu sig í þá stöðu að vera við ystu þolmörk í uppsveiflunni og lentu strax í vandræðum þegar niðursveiflan brast á.

Trúnaðarmenn rafiðnaðarmanna kalla eftir raunverulegum lausnum á skuldavanda heimilanna, í stað þess að endurtekið sé verið að drepa málum á dreif með óraunsæjum töfralausnum.  Hugmyndum um að hverfa 30 ár aftur í tímann jafngiltu því að senda reikninginn fyrir umframeyðslu í dag til barna okkar. Þess er krafist að ráðist verði strax með skipulögðum hætti að rótum vandans með því festa gengi krónunnar á ásættanlegu gengi fyrir almenning og að tryggja síðan að sá gjaldmiðill sem hér er notaður til framtíðar verði stöðugur og svo hægt verði afnema gjaldeyrishöft innan skamms tíma.

Trúnaðarmannaráðstefna rafiðnaðarmanna telur að á skömmum tíma sé mögulegt í samvinnu við lífeyriskerfið að bjóða upp á hagstæð lán fyrir fjölskyldur sem eru að kaupa sínu fyrstu íbúð. Þetta mun hvetja ungt fólk til sparnaðar í samtengingu uppbyggingu réttinda í samtryggingar- og séreignakerfi lífeyrissjóðanna. Í tengingu við þetta kerfi væri hægt að byggja upp leigumarkað sem stæði tilboða sambærileg kjör til langs tíma. Þarna gætu verið ásættanleg fjárfestingartækifæri fyrir lífeyrissjóði og þurfa stjórnvöld í samvinnu við aðila vinnumarkaðsins að huga að gera þetta kleift m.a. með lagabreytingum.

föstudagur, 26. október 2012

Rafkonur með hærri laun en rafkarlar


Capacent hefur undanfarin ár gert könnun á launum rafiðnaðarmanna í september. Á trúnaðarmannaráðstefnu Rafiðnaðarsambandsins sem nú stendur yfir var verið að kynna þessa könnun.

Meðaldaglaun félagsmanna Rafiðnaðarsambandsins í septembermánuði eru 408 þús. kr. og hafa hækkað um 11% síðasta ár. Meðalheildarlaun félagsmanna eru 517 þús. kr. á mánuði og hafa hækkað um 8% síðasta ár. Meðalyfirvinnutímar eru um 23 klst. á mánuði. Rafkonur vinna að meðaltali um 20 klst. minna á mánuði en rafkarlar.

Hópar innan RSÍ eru með ákaflega mismikla menntun. En ef bornir eru saman hópar sem eru með sömu menntun þá kemur í ljós að meðaldaglaun rafkarla með sveinspróf eða meira eru 420 þús. kr. á mánuði, en meðaldaglaun rafkvenna með sveinspróf eða meira eru 496 þús. kr. á mánuði.
Hér er munur er um 18%.

Meðalheildarlaun rafkarla með sveinspróf eða meira eru 550 þús.kr. á mán., þeir vinna að meðaltali 23 yfirvinnuklst. á mán. Meðalheildarlaun rafkvenna eru 544 þús. kr. þær vinna að meðaltali 11 klst. í yfirvinnu á mán.
Hér er munur vart marktækur.

65% félagsmanna RSÍ eru mjög ánægðir eða ánægðir með þjónustu og starfsemi sambandsins. 10% eru óánægðir og 25% taka ekki afstöðu.

þriðjudagur, 23. október 2012

Tilraun til valdaráns


Þar sem fjallað er um þjóðaratkvæðagreiðslur í núgildandi Stjórnarskránni skal niðurstaðan ætíð ráðast af vilja meirihluta þeirra kjósenda sem mæta á kjörstað og taka þátt í leynilegri atkvæðagreiðslu. Sömu reglur hafa gilt hingað til um allar atkvæðagreiðslur til Alþingis og sveitarstjórna. Sama á við um þegar forseti Íslands beitir málskotsrétti sínum og beinir spurningum til þjóðarinnar.

Vald sem ekki er sprottið frá þjóðinni verður ekkert annað en ofbeldi sem beint er gegn henni. Vilji þjóðarinnar er vilji samfélagsheildarinnar og sá vilji fer saman við almannahagsmuni. Stjórnvald sem vill kallast réttmætt og búa þjóð sinni réttarríki, verður hverju sinni að lúta skilyrðislaust niðurstöðum í þjóðaratkvæðagreiðslum. Á þjóðfundi var áberandi ákall um að hið endanlega vald væri í reynd og í verki hjá þjóðinni. Hávært ákall um meira lýðræði, skilvirkara og fjölbreyttara lýðræði. Virkt lýðræði.

Í þjóðaratkvæðagreiðslum eru mál sett í dóm allra kjósenda, þar sem æðsta valdið liggur. Þar er málið lagt undir alla þjóðina og úrslitin eru vitanlega í höndum meirihluta þeirra sem mæta á kjörstað. Þeir sem ekki mæta eru að fela öðrum að greiða atkvæði fyrir sig. Engum hefur hingað komið til hugar að taka til sín það vald að túlka með einum hætti eða öðrum hvernig flokka eigi ógreidd atkvæði.

Í öllum mestu lýðræðisríkjum heimsins lúta stjórnmálamenn án nokkurra skilyrða niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslna. Þar gildir hið eina að öllum sé tryggður aðgangur að kjörklefa til þess að nýta sér vald sitt. Það eru svo þeir sem mæta á kjörstað sem ráða, t.d. í Sviss eru mál oft ráðin með 20 – 30% þátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslum. Það er hreint út sagt skelfilegt að hlusta á málflutning nokkurra þeirra þingmanna sem sitja á Alþingi íslendinga þessa stundina.

Það er grímulaus tilraun til valdaráns að skrumskæla lýðræðið og gera að engu niðurstöðu mikils meirihluta þeirra kjósenda sem mæta á kjörstað. Það er atlaga að lýðræðinu. Alþingi samþykkti að vísa spurningum um Stjórnarskránna til þjóðarinnar. Það getur ekki komið eftir á og gert tilraun til að takmarka vald kjósenda. Vald þjóðarinnar er stjórnarskrárvarið og það er hún sem setur stjórnvöldum leikreglur. Fulltrúar löggjafar- eða framkvæmdarvalds hafa ekki vald til þess að virða að vettugi niðurstöðu óskilyrtrar þjóðaratkvæðagreiðslu.

sunnudagur, 21. október 2012

Fær þjóðin loks sína fyrstu íslensku stjórnarskrá?


Það stefnir í að við séum að ná því marki að þjóðin fái í fyrsta skipti að kjósa um stjórnarskrá sem hún semur sjálf. Hún hefur búið við stutta þýðingu á aldagamalli danskri stjórnarskrá. Danir eru búnir að stórbæta sína og búa við mun meira lýðræði en við.
 
Þeir sem sátu heima dæmdu sjálfan sig úr leik og létu aðra um að taka afstöðu. Það er lýðræði. Íslenskt samfélag er í dag flokksveldi ekki lýðveldi. Það endurspeglast ákaflega vel í þeirri túlkun sem andstæðingar þjóðfélagsumbóta viðhafa um niðurstöður atkvæðagreiðslunnar, þar sem þeir eigna sér atkvæði þeirra sem ekki mættu á kjörstað. Það tíðkast hvergi í lýðræðislegum samfélögum, nema á Íslandi.

Í þessu sambandi má benda á hvernig þessir hinir sömu túlka niðurstöður skoðanakannanna, það er að Sjálfstæðisflokkur sé í stórsókn og sé með um 36% fylgi. Í en þessum skoðanakönnunum hefur verið áberandi að um helmingur neitar að svara eða segist ekki ætla að kjósa í næstu kosningum. Samkvæmt þeirri túlkun sem sumir vilja viðhafa í dag þýðir það að Sjálfstæðisflokkurinn hefur orðið fyrir gríðarlegu fylgishruni og er einungis með um 18% fylgi í dag.  

Þjóðin kom saman og hélt 1.000 manna fund og setti saman ramma um nýja stjórnarskrá, þar kom fram eindreginn vilji þjóðarinnar að fá nýja stjórnarskrá.

85.000 manns mættu síðan á kjörstað og valdi úr 530 manna hópi 25 einstaklinga til þess að fylla út þennan ramma. Undanfarið ár hefur farið fram umræða um tillögu Stjórnlagaráðs.

Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar sýnir svo ekki sé um villst að þjóðin vill brjóta af sér flokksveldi og fá lýðveldi.

Stjórnarskrá er málamiðlun og hún verður aldrei eins og allri vilja hafa hana. Stjórnlagaráð vann fyrir opnum tjöldum og hleypti þjóðinni inn á sína fundi. Lýðræðisleg og málefnaleg niðurstaða náðist.

Þessi vinnubrögð hafa vakið heimsathygli, hingað hafa streymt fjöldi erlendra fréttamanna til þess að fylgjast með þeim lýðræðislegu umbótum sem íslenska þjóðin vill fá.

Alþingi á ekki að setja sjálfu sér leikreglur. Þjóðin vill halda því valdi hjá sér. Alþingismenn hafa gengið fram af þjóðinni í orðsins fyllstu merkingu með sínum átakavinnubrögðum. Alþingi íslendinga hefur verið nýtt til þess að fáir nái að skara að sér gæðum.

Í dag býðst Alþingi einstakt tækifæri til þess að fara að vilja þjóðarinnar og ná tilbaka einhverju af glataðri virðingu og trausti. Leiknum er ekki lokið, næstu mánuði mun fara fram úrslitaorrustan um hvort það takist að brjóta flokksveldið á bak aftur.

Vonin um betra samfélag að rætast


Við sem höfum alið með okkur vonina um betra samfélag vöknum glöð í dag.

66,4% vilja að tillögur  stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.

81.3% vilja að náttúruauðlindir sem eru ekki í einkaeigu verði lýst þjóðareign.

76.4% vilja að aukið persónukjör við Alþingiskosningar.

57% vilja að ákvæði um þjóðkirkju verði í stjórnarskrá.

70,5% vilja að tiltekið hlutfall kosningarbærra manna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu.

55,6% vilja að atkvæði kjósenda alls taðar af landinu vegi jafnt. 

Frumvarp að nýrri stjórnarskrá er því nánast tilbúið í tillögum stjórnlagaráðs. Nú er að sjá hvort Alþingi hlýði kalli þjóðarinnar og klári málið fyrir Alþingiskosningar í vor þannig að hægt verði að kjósa um nýja stjórnarskrá samhliða þeim.

Þetta er það sem þjóðinn vill og nú er það verkefni okkar að sjá til þess að alþingismenn komist ekki hjá því að fara að vilja þjóðarinnar.

Næsta víst er hver verða viðbrögð tiltekins hluta alþingismanna, við höfum orðið ítrekað vitni af því hvaða vinnubrögð þessi hópur hefur tamið sér,  hvernig þeir hika ekki við að snúa staðreyndum á hvolf í málflutning sínum, en þjóðin hefur nú sent þeim skýr skilaboð um hvað hún vilji. Alþingismenn verða að viðurkenna þá staðreynd.

laugardagur, 20. október 2012

Jafnt vægi atkvæða


Það er grundvallaratriði í lýðræðislegu stjórnskipulagi að allir þegnar samfélagsins hafi jafna möguleika til þess að hafa áhrif á stjórn landsins. Atkvæði allra kjósenda vegi jafnt þegar gengið er til kosninga. Á þetta var lögð mikil áhersla á Þjóðfundinum og hefur þetta verið áberandi krafa á öllum stigum við endurnýjum stjórnarskrárinnar. Andstæðingum þessa brýna máls hefur tekist að gera þetta að deilumáli milli landsbyggðar og þéttbýlis á SV-horni landsins. Þetta misvægi er að hluta til afleiðing búsetuflutninga frá dreifbýli til þéttbýlis, ekki meðvitað pólitískt markmið. En það veldur aftur á móti að mikil völd eru í höndum flokksmaskínanna, sakir þess að núgildandi kosningakerfi er þannig að allt að 2/3 þingsæta eru fyrir fram örugg og tryggir núverandi flokkakerfi.

Landsbyggðin hefur alltaf átt fleiri fulltrúa á þingi en íbúahlutfall segir til um. Miklar breytingar voru gerðar til bóta með kjördæmabreytingunni árið 1959 og síðar með nýrri kjördæmaskipan. Í alþingiskosningum 2009 voru um 2.400 kjósendur á kjörskrá að baki hverjum kjörnum þingmanni í Norðvesturkjördæmi en tæplega 5.000 í Suðvesturkjördæmi. Þingmaður í Suðvesturkjördæmi þurfti þannig að fá ríflega tvöfalt fleiri atkvæði en þingmaður í Norðvesturkjördæmi til að ná kjöri.

Eftirlitsmenn öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) voru hér á landi og fylgdust með síðustu alþingiskosningum. Í skýrslu ÖSE um kosningarnar var bent á að misvægi atkvæða milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar væri alltof mikið. Reglur ÖSE kveða á um að misvægið milli einstakra kjördæma sé innan 10% og aldrei meira en 15%. Mismunurinn hér fór aftur á móti upp í 100% og taldi ÖSE að tímabært væri að huga að endurskoðun á viðkomandi lagaákvæði um dreifingu þingsæta.

Í umræðum um stöðu dreifbýlis gagnvart þéttbýlinu á SV-horninu er málum gjarnan stillt upp með þeim hætti, að dreifbýlið búi við einhverskonar samsæri af hálfu þéttbýlinga. Til þess að vinna gegn þessu samsæri verði að viðhalda mismunandi vægi atkvæða. Með því sé stuðlað að öflugri atvinnutækifærum í dreifbýlinu og launakjör bætt, samfara því að minnka atvinnuleysi og slaka félagslega stöðu í dreifbýlinu. Þessu er haldið fram þrátt fyrir að um áratugaskeið hafi verið mikið misvægi atkvæða og atvinnuleysi og slök félagsleg staða hér á landi er mest í úthverfum höfuðborgarsvæðisins.

Í tillögum Stjórnlagaráðs er lagt til í 39. grein að öll atkvæði á landinu vegi jafnt. Alþingi geti ákveðið hvort landið verði eitt kjördæmi en skipt því upp í allt að átta kjördæmum. Í tillögum Stjórnlagaráðs er gert ráð fyrir að hægt sé að setja lágmörk sem tryggi hverju kjördæmi lágmarksfjölda þingmanna í réttu hlutfalli við fjölda kjósenda á viðkomandi kjördæmis. Þetta er lágmarkstrygging því  kjördæmin munu fá að jafnaði fleiri þingmenn en svarar til kjósendafjölda, sérstaklega ef þar eru frambjóðendur sem höfða til kjósenda utan síns kjördæmis. Ástæða er að benda á að langflestir íbúa SV-hornsins eiga rætur í öðrum landsvæðum og eru með miklar tengingar þangað. Það er líklegt að sum kjördæmi fái fleiri þingsæti en svarar til kjósendatölu. En það er þá að vilja kjósenda annars staðar að af landinu, en ekki fyrir skikkan kosningakerfisins eins og nú er.

Listar verða boðnir fram á kjördæmavísu en líka landsvísu. Frambjóðandi á kjördæmislista má jafnframt vera á landslista síns flokks eða samtaka, en þar mega líka vera frambjóðendur utan kjördæma. Kjósandi getur valið einstaklinga, jafnvel af mörgum listum. Gagnvart kjósendum er landið því sem eitt kjördæmi. Frambjóðandi hlýtur að jafnaði að tala til kjósenda í kjördæmi sínu en líka höfða til allra landsmanna, vilji hann hljóta stuðning utan kjördæmis síns. Þannig nást kostir landskjörs, sem kallar fram ábyrgð þingmanna gagnvart öllum landslýð, en um leið er trygging fyrir því að rödd hverrar byggðar heyrist á Alþingi.

Misvægi atkvæða hér á landi hefur leitt til þess að við búum við klúðurslegt kosningakerfi, þar sem reynt er að tryggja jöfnuð milli flokka með flóknu jöfnunarsætakerfi. Með jöfnu atkvæðavægi geta úthlutunarreglur orðið einfaldari. Í stjórnarskrám er það grundvallarregla að allir eigi að vera jafnir fyrir lögum og njóta sömu mannréttinda. Lýðræðið getur ekki verið stigskipt. Það er stjórnarskrárbrot að tala um hálf mannréttindi í kosningarrétti og í öðrum lýðréttindum.

fimmtudagur, 18. október 2012

Helgur gjörningur


Guðni Th. Jóhannesson hélt ákaflega áhugavert erindi á fundir Stjórnarkrárfélagsins í Iðnó í gærkvöldi. Hann nefndi það „Staðreyndir eru þrjóskar“  Guðni stiklaði á nokkrum staðreyndum um aðdraganda lýðveldisstjórnarskrárinnar og bar þær saman við nokkrar af fullyrðingum andstæðinga tillagna Stjórnlagaráðs og Þjóðfundar.
 
Hér benti Guðni á ummæli um að ástæðulaust sé að umbylta lýðveldisstjórnarkránni því hún sé svo „listilega smíðuð“ eins og forseti vor hefur sagt, eða ummæli höfundar Reykjavíkurbréfs um að hún sé „helgur gjörningur“, hvorki meir eða minna.

 
Guðni dró fram nokkur ummæli helstu stjórnmálaleiðtoga á Alþingi þegar rætt var um hina væntanlega lýðvelidstjórnarskrá fyrri hluta árs 1944. Hér verða aðeins nefnd nokkur dæmi:

 
Eysteinn Jónsson, Framsóknarflokki: „Við megum ekki taka upp í lög um lýðveldisstjórnarskrá annað en það sem stendur í beinu sambandi við stofnun lýðveldis í stað konungdæmis ... Síðan eigum við að vinna af kappi að því að endurskoða stjórnarskrána í heild og vinna að þeim breytingum sem gera þarf.."

 
Stefán Jóhann Stefánsson, Alþýðuflokki: „... er það skoðun allrar [stjórnarskrár]nefndarinnar að vinna beri hið bráðasta að því að fram fari gagnger endurskoðun á stjórnarskránni“.

 
Jakob Möller, Sjálfstæðisflokki: „Þessi fyrirhugaða stjórnarskrá, sem hér um ræðir, er hugsuð og í rauninni yfirlýst sem hrein bráðabirgðastjórnarskrá, þ.e.a.s., jafnframt því sem hún er samþykkt er gert ráð fyrir að stjórnarskrá ríkisins í heild verði tekin til gagngerðrar endurskoðunar á næstu árum.“

 
Brynjólfur Bjarnason, Sósíalistaflokki: „... nú er það svo að við stofnun hins fullvalda íslenzka ríkis ríður oss öllu framar á þjóðareiningu. ... Þess vegna held ég að flestir séu nú komnir á þá skoðun að það sem gert var með stjórnarskrárákvæðinu 1942 – að takmarka breytingar á stjórnarskránni við það sem leiðir af skilnaði við Danmörku og flutningi æðsta valds inn í landið, með öðrum orðum að útiloka fyrir fram öll þau deilumál sem ágreiningi gætu valdið – hafi verið hið eina rétta.“

 
Þetta útskýrir hina „rússnesku kosningu“ í þjóðaratkvæðagreiðslunni um sambandsslit og lýðveldisstofnun vorið 1944. Fólk var framar öllu að kjósa um skilnaðinn við Danmörku.

 
Guðni kom einnig inn á ummæli sérfræðinganna, sem sögðu nær allir að sem einn að lýðveldisstjórnarskráin hefði verið saminn til bráðabirgða. Ólafur Jóhannesson lagaprófessor benti á nokkur atriði sem taka þyrfti til rækilegrar endurskoðunnar áður en gengið yrði frá framtíðarstjórnarskrá hins íslenska lýðveldis.

 
Ólafur Lárusson prófessor í lögum tók dýpra í árinni, en var þó varkár að eðlisfari. „Endurskoðun stjórnarskrárinnar er því eitt af verkefnum náinnar framtíðar. Lýðsveldisstjórnarksráin í þeirri mynd sem hún hefur nú, er aðeins sett til bráðabirgða.“

 
Í nýársávarpi sínu 1949 kvartaði Sveinn Björnsson undan séinaganginum og hvatti þingheim og aðra til dáða : Og nú, hálfu fimmta ári eftir stofnun lýðveldisins, rofar ekki enn fyrir þeirri nýju stjórnarskrá, sem vér þurftum að fá sem fyrst og almennur áhugi var um hjá þjóðinni og stjórnmálaleiðtogunum, að sett yrði sem fyrst. Í því efni búum vér því ennþá við bætta flík, sem sniðin var upprunalega fyrir annað land, með öðrum viðhorfum, fyrir heilli öld. … Vonandi dregst eigi lengi úr þessu að setja nýja stjórnarskrá.“

 
Það var einhugur um lýðveldisstjórnarskránna, sá einhugur snerist um að hún væri einungis til bráðabirgða.

mánudagur, 15. október 2012

Viðtöl við erlendar sjónvarpsstöðvar


Undanfarið ár hafa komið að máli við mig fjölmargir erlendir þáttagerðarmenn og vilja fræðast um stöðuna hér á landi. Flestir spyrja svipaðra spurninga og eru ákaflega forvitnir um þá þróun sem hófst með búsáhaldabyltingunni og stefnir nú endurnýjun stjórnarskrár. Hér á eftir eru algengustu spurningarnar og svör mín við þeim.

Fjöldi erlendra áhorenda hefur fylgst með þróuninni á Íslandi og gerir enn. Þar er ríkjandi það viðhorf að það hafi átt sér stað „þögul bylting fólksins“ á Íslandi, er það rétt mat?
Já það er rétt, það eru margir sem átta sig ekki á þeim miklu átökum sem fara fram þessa dagana. Það birtist t.d. í átökum um auðlindir og sjávarútveg, atkvæðajafnvægi og beint lýðræði, atriði sem hafa verið er helsta bitbein í öllum samskiptum hér landi allt frá stofnun lýðveldisins, jafnvel átakapunktar í kjarasamningum.

Hvað er það sem íslenska þjóðin þarfnast?
Þjóðin vill ná tilbaka þeim völdum sem hafa safnast á hendur fárra. Hér er úrelt kosningakerfi sem veldur að hér ráða ekki stjórnmálaflokkar heldur tiltölulega fámennur hópur manna sem hafa komið sér fyrir í stjórnsýslunni ásamt fylgiliði og þar með stöðu til þess að hygla sér og sínum völdum og sérréttindum. Þetta hefur leitt til mikillar misskiptar á hinum miklu náttúruauðlindum Íslands. Við Hrunið kom upp á yfirborðið mikill siðferðisbrestur og óréttlátt skipting. Það var þetta sem olli hinni miklu reiði sem ríkt hefur. Í tillögum stjórnlagaráðs er tekið á þessum vanda, en hefur vitanlega mætt mikilli andstöðu hjá valdastéttinni.

Hvaða væntingar hefur þú um framtíð Íslands?
Við Hrunið haustið 2008 afhjúpaðist siðferðisleg og hugmyndafræðileg kreppa hér á landi. Fyrir þjóðinni opinberaðist stétt manna sem taldi sig óbundna af því að greiða til samfélagsins. Hún hafði tæmt bankana innan frá, keypt upp fyrirtæki seldu öll verðmæti úr þeim og komu þessu góssi undan í erlend skattaskjól. Í dag er enn við lýði stór atvinnugrein sem beitir öllum ráðum til þess að koma sér hjá því að þurfa að skila samfélaginu samgjörnum arði af nýtingu þeirra á þjóðarauðlindinni sem er í hafinu umhverfis Ísland.

Það standa yfir heiftarleg átök þó hluti almennings sé ekki ljóst um hvað þau standa og átta sig ekki á hvar átakapunktarnir eru. Þetta er afleiðing slakra fréttmiðla og markvissum innskotum þeirra sem hafa völdum, þar sem þeir vísvitandi splundra umræðunni með villandi upphlaupum. Fjölmiðlar eru oft nefndir fjórða valdið og á þjóðfundinum kom fram glöggkrafa að tryggt yrði að sýni ábyrgð gagnvart þegnum landsins. Í drögum að nýrri stjórnarskrá er tekið á þessu og fyrirmyndin sótt til nýlegrar endurskoðunar hjá Svíum í þessu efni.

Hvaða minningar eru um mótmæli almennings og þann dag þegar niðurstöður í kosningum til Stjórnlagaþings lágu fyrir?
Í því er bæði fólgin gleði og sorg. Gleði yfir tilraun fólks til þess að vera þátttakandi í vitrænni umræðu og þvinga fram leiðréttingu á þeirri þróun sem hefur verið hér. Og svo hvernig það hefur opinberast hversu langt valdhafarnir vilja ganga til þess að tryggja óbreytt ástand. Þjóðfundur og Stjórnlagaþing fór strax í taugarnar á þeim sem hafa tekið til sín völdin í íslensku samfélagi og vilja ekki sleppa þeim. Þeir hafa gripið til varna og í mörgu tekist vel upp því miður.

Þátttakendur á Þjóðfundinum settu sig í mjög gjarnan spor annarra viðmælenda á fundinum. Þar var samankominn 1000 manns þverskurður af íslensku samfélagi allstaðar af landinu. Þetta var einstakt. Allir spurðu uppbyggilegra spurninga og hlustuðu af athygli hver á annan. Það var fyrir mig ómetanlegt að fá að heyra fólk ræða hugmyndir,hugsanir, lífssýn og skoðanir. Fólk fór með bros á vör inn í framtíðina að fundinum loknum.

Sú jákvæðni, bjartsýni og samhugur sem ríkti á Þjóðfundi færðist yfir í vinnulag Stjórnlagaráðs. Þetta eru viðhorf sem varðhundar hins gamla Íslands þola ekki og beita öllum brögðum til þess að gera fundina tortryggilega. Í þeirra huga er það hættulegt ef þjóðin fær að ráða miklu. Þeir segja að það skapi of mikla óvissu í samfélaginu. Það er reyndar fín greining á þeirra eigin afstöðu, þeim finnst það verða of mikil óvissa um hvort þeim takist að viðhalda því kverkataki sem þeir hafa náð á íslensku samfélagi.

Hver er staða Íslands núna? Hvað hefur verið áberandi hvað varðar inntakið í þjóðfélagsumræðunni frá Þjóðfundinum til dagsins í dag?
Það stendur yfir heiftarleg barátta almennings við valdhafa um að draga úr því óréttlæti sem hér hefur viðgengst og því miður hefur valdhöfum tekist að blanda þar saman óskyldum hlutum og leitt umræðuna inn á villigötur. Nú er því jafnvel haldið fram að við þessa vinnu hafi komið vel skipulögð samtök kommúnista og verið sé að hrekja landið inn í svörtustu myrkur sósíalisma. Það er sorglegt að hlusta á hversu langt sumir eru tilbúnir að ganga í vörslu óbreyttrar stöðu og sérhagsmuna.

Tók almenningur virkan þátt í störfum Stjórnlagráðs?
Almenningur tók virkan þátt í störfum Stjórnlagaráðs bæði beint og eins í gegnum netið. Á fundum  sem ég kom g hitti fólk að þá var áberandi að það bar miklar væntingar um að okkur tækist að hefja okkur upp fyrir átaka- og klækjastjórnmálin. Það tókst og það er áberandi ánægja almennings með þau vinnubrögð sem okkur tókst að viðhafa í allri vinnu Stjórnlagaráðs.

sunnudagur, 14. október 2012

Varðhundar sérhagsmunanna


Haustið 2008 varð hér efnahagslegt hrun með víðtækum afleiðingum eins og þekkjum öll. Við okkur blasti kerfi þar átti sér stað gríðarleg misskipting í samfélaginu. Fáir höfðu komið því þannig fyrir að þeir nutu mun stærri hluta af þjóðarauðnum og höfðu dregið til sín mikil völd. Gríðarleg reiði braust út meðal þjóðarinnar og fram kom krafa um réttlátara þjóðfélag. Varðhundar sérhagsmuna hafa aðgang að gríðarlegu fjármagni og nýta þá til þess að berjast gegn öllum breytingum.

Öllum brögðum er beitt til þess að afvegaleiða umræðuna. Þetta blasir vel í í umræðunni um stjórnarskránna. Í drögum að nýrri stjórnaskrá er tekið á flestum þeim málum sem komu í ljós við Hrunið. Takið vel eftir hverjir það eru sem berjast hvað harðast gegn nýrri stjórnarskrá.

Oft fallast manni hendur vegna málflutnings þar sem hlutunum er snúið á hvolf, jafnvel hjá fólki sem er í leiðandi stöðum í samfélaginu. En ég hugga mig alltaf við þá reynslu sem ég hef haft í starfi mínu innan verkalýðshreyfingarinnar á mörgum og fjölmennum félagsfundum um allt land. Það kemur manni þægilega á óvart þegar maður fer að ræða málin við fólk. Fólk er ekki fífl. En sú umræðuhefð sem tíðkast hefur undanfarin ár, þá sérstaklega á Alþingi, leiðir til þess að fjöldinn vill ekki vera þátttakandi í skítkastinu, dregur sig til hliðar.

Áróðursmeistararnir kunna þessi brögð og nýta sér þau til fullnustu. Það þarf enginn að segja mér að forsvarmenn stórra stjórnmálflokka séu jafn víðáttuheimskir og mörg ummæli þeirra um stjórnarskránna gefa til kynna. Nei hér á ferðinni meðvituð málsmeðferð, látum helvítin sverja þetta af sér er þessi málsmeðferð kölluð. Þar verða margir ómeðvitað partur að leðjunni, og fjöldin dregur sig til hliðar, þá er tilgangi varðhunda sérhagsmunanna náð.

Sjáum til dæmis umfjöllunina um Evrópu og hvernig hún er keyrð áfram í fjölmiðlum, þar logi eldar og allt sé að hrynja, eins og skilja má á íslenskum fjölmiðlum. Tugþúsundir íslendinga fara árlega niður í Evrópu, þeir sjá ekki þessa elda og ekki heldur þessa ofboðslega vandamálaumræðu sem haldið er að okkur í fjölmiðlunum. Evrusvæðið er sterkt og í þeirri heimsálfu er mesti friður og mesta jafnræðið. ESB hefur orðið til þess að stórir hópar hafa verið að ná umtalsverðum árangri í bættum kaupmætti. Ekki er fjallað um gríðarlegan vanda BNA, þar eru nokkur ríki sem glíma við margfalt stærri skuldavanda og eru í raun gjaldþrota, á þetta er ekki minnst.

þriðjudagur, 9. október 2012

Hræðsluáróðurinn


Sé litið yfir þá umræðu sem á sér stað þessa stundina virðist það vera svo að hræðsluáróður fari vaxandi gegn tillögum Stjórnlagaráðs. Sérhagsmunagæslan er kominn á fullt.

Þegar umræðan berst að breytingum á stjórnarskránni tala sumir um að tillögur Stjórnlagaráðs snúist fyrst og síðast um auðvelda stjórnvöldum fullveldisframsal. Það væri bannað í núverandi stjórnarskrá en aftur á móti heimilað í frumvarpsdrögum Stjórnlagaráðs.

Máli sínu til stuðnings er síðan vísað í 2. grein núgildandi stjórnarskrá, „Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið, forseti og önnur stjórnarvöld samkvæmt stjórnarskrá þessari og öðrum landslögum fara með framkvæmdavaldið. Dómendur fara með dómsvaldið.“

Einnig er vísað í 16. grein er þar sendur, „Forseti lýðveldisins og ráðherrar skipa ríkisráð og hefur forseti þar forsæti.  Lög og mikilvægar stjórnarráðstafanir skal bera upp fyrir forseta í ríkisráði.“

Í þessum greinum er hvergi tiltekið bann sé við framsali.
 
Nú hefur Alþingi íslendinga sótt um inngöngu í ESB. Ef samningar nást mun hann einnig fela í sér nokkurt fullveldisframsal. Alþingi afgreiddi samninga við EES án þess að bera það undir þjóðina. Stjórnlagaráð vildi koma tryggilega í veg fyrir að þann leik væri hægt að endurtaka.  Það fullveldisframsal sem átti sér stað með afreiðslu Alþingis á EES samningnum var ekki borið undir þjóðina.
 
Í 111. grein í frumvarpi Stjórnlagaráðs stendur : „Heimilt er að gera þjóðréttarsamninga sem fela í sér framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að í þágu friðar og efnahagssamvinnu. Framsal ríkisvalds skal ávallt vera afturkræft.

Með lögum skal afmarka nánar í hverju framsal ríkisvalds samkvæmt þjóðréttarsamningi felst.

Samþykki Alþingi fullgildingu samnings sem felur í sér framsal ríkisvalds skal ákvörðunin borin undir þjóðaratkvæði til samþykktar eða synjunar. Niðurstaða slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu er bindandi.“

Er hægt að taka skýrar til orða?
 
Fullveldisframsal verður að bera undir bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu, Alþingi verður að fara að þjóðarvilja. Hér er sannarlega ekki verið að lauma Íslandi inn í ESB án þess að þjóðin fái að segja sitt álit. Ætli stjórnmálamenn að færa sjálfstæði landsins til ríkjasambands, verður það ekki gert nema með þjóðaratkvæðagreiðslu.

Við megum ekki láta hagsmunaaðila komast upp með henda inn reyksprengjum með hræðsluáróðri til þess að hræða okkur frá því að taka afstöðu. Farið vel yfir gömlu stjórnarskrána og skoðið nýju tillögurnar sem voru unnar upp úr þeim þjóðarvilja sem þjóðfundurinn krafðist.