sunnudagur, 28. apríl 2013

Englar alheimsins


Sá í gærkvöldi leikgerð Þorleifs Arnar Arnarssonar og Símons Birgissonar á "Englum alheimsins" í Þjóðleikhúsinu.
 
Var fyrir sýninguna eilítið hræddur um að ég mætti í leikhúsið með fyrirfram ákveðnar skoðun á því hvernig verkið ætti vera.

Búinn að mynda mér fastmótaða skoðun á allri persónusköpun og ég myndi bregðast neikvætt við ef í einhverju brugðið frá þeirri mynd, eftir að hafa marglesið bók Einars Más Guðmundssonar og hafandi séð, ég veit ekki hversu oft, kvikmynd Friðriks Þórs Friðrikssonar.

Atli Rafn Sigurðsson stendur fremst á sviðinu allan tíman, bæði sem sögumaður og í hlutverki listamannsins Páls. Hlutverkið er ákaflega krefjandi, en Atli Rafn veldur því fyllilega.

Allir leikarar standa sig vel og ég stóð mig aldrei að því að vera bera þá saman við fyrirframgefnar skoðanir mínar á því hvernig þeir ættu að nálgast hlutverk sín.
 
Af öllum öðrum ólöstuðum má sérstaklega nefna hvernig Eggert Þorleifsson tekst á við hlutverk sitt sem Brynjólf geðlækni á Kleppi. Þar tekst Þorleifi afskaplega vel að fá okkur áhorfendur til þess að íhuga afstöðu okkar til Klepps og þess starfs sem þar hefur verið unnið.

Hvet alla sem hafa gaman af því að fara í leikhús og sjá greiningu á því samfélagi sem við höfum búið okkur, að fara og sjá þessa sýningu. Hún er mögnuð sú upplifun sem maður verur fyrir þá tvo tíma sem sýningin stendur.

föstudagur, 26. apríl 2013

Efnahagslegir átthagafjötrar


Umfangsmesti hluti kosningaumræðunnar hefur snúist um loforð um niðurfellingu skulda. Þar er áberandi umræða flata niðurfellingu, frekar en að beina þeim fjármunum sem hugsanlega væru lausir til þessara hluta til þess hóps sem helst þarf á því að halda.

Það liggja fyrir kannanir, sem sýna að með flatri niðurfellingu myndu allt að 80% þeirra fjármuna fara til fólks sem ekki þarf á þessari aðstoð  að halda. En einungis 20% fjármunanna færu til hinna verst stöddu, en myndu ekki duga til þess að hjálpa þeim úr vandanum. Sjá hér Seðlabanki Íslands  
 
Jafnframt er ljóst að með þessum aðgerðum verða um 22 milljarðar fluttir frá landsbyggðinni til Suðvesturhornsins.

Ábendingar hafa komið fram að þær leiðir sem haldið er að okkur kjósendum af hálfu nokkurra flokka sé hættuleg og muni kalla yfir okkur mikið verðbólguskot seinni hluta árs 2014. Það ætti því að vera mikilvægasta verkefni okkar kjósenda að stefna á þá leið sem komi í veg fyrir að lánin okkar stökkbreyttist aftur.

Orsök stökkbreytingar lána heimilanna var hrun krónunnar, og það var fall hennar sem olli verðbólguskotinu. Þrátt fyrir hina alþjóðlegu kreppu þurftu fjölskyldur á hinum Norðurlöndunum ekki að þola sambærilegar stökkbreytingar. Evran hélt verðgildi sínu. Verðlag fór ekki úr böndunum og kaupmáttur launa féll ekki.

Þeir sem vilja halda í krónuna beina vísvitandi umræðunni ætíð að verðtryggingunni. Verðtryggingu var komið á með svokölluðum Ólafslögum af þáverandi forsætisráðherra Framsóknarflokksins um 1980. Þar var verið að verja hag sparifjáreigenda og sjóðfélaga í lífeyrissjóðunum, sem hafði verið gert að horfa upp á allt sparifé sitt brenna upp á verðbólgubálinu, það varð jafnframt til þess að  ekkert lánsfé var til í landinu og engin fékkst til þess að fjármagna húsnæðislánakerfið.

Fyrst eftir setningu Ólafslaganna voru vextir á verðtryggðum langtímalánum 2%, takið eftir 2% eða svipað og er í nágrannalöndum okkar. En með árunum hefur ávöxtunarkrafa hér á landi hækkað og er kominn upp allt að 5-7% ofan á verðtryggðar höfuðstól lánanna.

Þetta er fullkomlega óásættanleg ávöxtunarkrafa. Nafnvextir í löndum, sem búa við stöðugan gjaldmiðil er 1-2%. Það er því ekki við verðtrygginguna að sakast heldur er það hin óstöðuga króna, sem er höfuðóvinur íslenskra heimila og launamanna.

Í flestum nágrannalöndum okkar er margskonar útfærsla á verðtrygging langtímalána. Verðtrygging er ekki bara til á Íslandi, hún er notuð víða, en þar er ekki þetta vaxtaokur, og þar er að auki stöðugur gjaldmiðill, þannig að þar þarf ekki að grípa til verðtryggingarákvæða.

Greiðsluáætlanir heimila á hinum Norðurlandanna standast og þau greiða upp sitt hús á 20 árum með lánum, sem eru á með um 3% vexti. Hér á Íslandi þurfum við hins vegar að greiða fyrir 2,4 hús. Það gerist vegna þess að vaxtakostnaður hér er allt að því þrefaldur en annarsstaðar. Svo að við getum staðið undir þessum mikla lánakostnaði greiðum við íslensku lánin okkar upp á 40 árum og verðum að skila um 10 klst. lengri vinnuviku en nágrannar okkar, svo við getum staðið undir þessum greiðslum.

Hér liggja rætur hins Íslenska vanda og það er hér sem við þurfum að taka til hendinni. En hvers vegna leggjast Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn svona einsdregið að gegn því? Hagsmuni hverra er verið að verja? Þar ræður augljóslega ekki ríkjum umhyggja fyrir hagsmunum launamanna og fjölskyldna þeirra.

Kollsteypur í gjaldmiðilsmálum er ekki nýjung hér á landi. Þær hafa skollið reglulega á Íslenskum heimilum með um 7 – ára millibili. Krónan féll um helming árið 2008, árið 2001 féll hún um fjórðung. Það var einnig kollsteypa um 1990 og líka um 1980.

Þegar Íslenska krónan var tekinn upp var hún jafngilt hinum norrænu gjaldmiðlunum og nothæf til erlendra viðskipta. Það er hún ekki í dag, hún hefur fallið um 99.5%. Íslenskir launamenn búa í dag í raun við samskonar kerfi og þegar launamenn fengu laun sín í inneignarmiðum hjá næsta verslunareiganda, sem jafnframt var helsti atvinnurekandinn á staðnum.

Þá bjuggu Íslenskir launamenn við átthagafjötra vörðum með efnahagslegu ofbeldi, en þeim tókst að brjóta þá af sér við mikilli baráttu fyrri hluta síðustu aldar og tókst að búa til þjóðfélag jafnaðar og öryggis fyrir fjölskyldur sínar.

En sérhagsmunavöldin náðu undirtökum á Íslensku samfélagi undir lok aldarinnar, sem náði hámarki í helmingaskiptastjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks. Hún missti síðan endanlega alla stjórn á efnahagslífinu þegar þessir flokkar höfðu losað var um allar reglur og skapað það umhverfi að eigendur fjármagnsins gætu ráðskast með þjóðfélagið eftir eigin höfði.

Þar horfðum við upp á niðurrif þess samfélags sem foreldrar okkar höfðu með blóði og svita byggt upp á síðustu öld. Ef ekkert verður að gert og við förum í gegnum kosningar undir þeim loforðum sem eru mest áberandi stefnir í aðra kollsteypu.

fimmtudagur, 25. apríl 2013

Icesave blekkingin


Því er gjarnan haldið fram að Ísland hafi sigrað í Icesave deilunni, Ísland hafi ekki orðið Kúba norðursins. Íslenskir skattborgarar og launafólk eru ekki sigurvegarar í þessari deilu. Atvinnulífið væri mikið betur statt ef tekið hefði verið á Icesave.

Flestir helstu forsvarsmenn íslenskra fyrirtækja hafa ítrekað bent á að dráttur á lausn Icesave deilunnar leiddi til þess að Ísland hefur að óþörfu búið við slaka viðskiptastöðu. Óleyst Icesave-deila hefur þegar valdið Íslandi gríðarlegum skaða þrátt fyrir að dómsmálið hafi unnist og á eftir að gera það. enn frekar

Seðlabanki Íslands á í Icesave uppgjörinu ógreiddar kröfur vegna hinna svokölluðu ástarbréfa að upphæð um 127 milljarð króna. Auk þess hefur ríkissjóður þurft að leggja nýja Landsbankanum til 122 milljarða króna í eigið fé og þar til viðbótar þarf nýi Landsbankinn að greiða 300 milljarðar króna í þrotabú hins gamla fram til ársins 2018.

Dómurinn er einmitt svona sakir þess að allt hafði verið greitt og það sem eftir er verður greitt. Það á að greiðast í erlendum gjaldeyri sem ekki er til. Þarna birtast okkur kosningabrellurnar, þessi staða hefur lokað okkur innan gjaldeyrishaftamúranna, sem eykur á verðbólguvandann og skerðir möguleika okkar til þess efnahagsbata og þeirra kjarabóta sem við leitum að.

Icesave-deilan var skrímsli sem tætti þjóðina í sundur, þjóð sem sannarlega hefði þurft að standa saman og takast á við efnahagsvandann í stað þess að gera tilraun að kjósa hann í burtu. Ýta honum þar með á undan sér. Þeir sem benda á þessar staðreyndir eru umsviflaust kallaðir ljótum nöfnum eins og þjóðníðingar.

Sigmundur Davíð valdi í þessu máli eins og öðrum skammvinna blekkingu, sem líklega var til vinsælda, frekar en að horfast í augu við vandan. Kosningatrix eins og þessi valda því að við komumst ekkert áfram og kalla yfir okkur enn verri stöðu en við erum þegar í, nákvæmlega það sem er að gerast með því að mála erlenda fjárfesta sem einhverja hrægamma.

Icesave reikningurinn var ekki kosinn í burtu þvert á móti. Umræðan var leidd inn á rangar brautir með skotgrafahernaði til þess að ná árangri í þeirri sérhagsmunagæslu sem Framsókn hefur ávallt sett á oddinn.

laugardagur, 13. apríl 2013

Fríverslunarsamningur um hraðlest til lægstu kjara


 
Efnahagsundrið í Kína á sér margar alvarlegar skuggahliðar. Talið er að um 150 – 200 milljónir farandverkamanna hafa flust til kínverskra borga í leit að vinnu og fer sú tala hækkandi. Þessu fólki er mismunað á margan veg yfirvöld neita því um húsnæðisbætur og sjúkratryggingar og börnum þeirra meinaður aðgangur að skólakerfinu.

Fulltrúar norrænu stéttarfélaganna hafa kynnt sér stöðu farandverkafólks í Kína og þar hefur komið í ljós að það er oft neytt til þess að vinna mikla yfirvinnu og neitað um frí, jafnvel þó um veikindi sé að ræða. Farið er með þetta fólk eins og skepnur og það er neytt til þess að vinna við ömurlegar og oft heilsuspillandi aðstæður.

Mörg stórfyrirtæki hafa leitað til Kína því þar komast atvinnurekendur upp með að beita ýmsum aðferðum til þess að koma í veg fyrir segi upp störfum. Launagreiðslur er oft frestað og þannig á fólkið hættu á því að tapa allt að 2 -3 mánaðalaunum ef það gengur gegn vilja atvinnurekandans. Þá neyða atvinnurekendur verkafólk oft til þess að greiða tryggingu til þess að koma í veg fyrir að það leiti vinnu annarsstaðar.

Gegn þessu hafa fulltrúar samtaka launamanna með Norðurlöndin í broddi fylkingar barist og bent á þetta jafngildi því að verið sé að taka hraðlest niður til þeirra kjara sem lægst eru í Kína.

Það stakk mann illþyrmilega þegar viðskiptanefnd með forseta vorn í broddi fylkingar fór og gerði fríverslunarsamning við Kína og lýsti því jafnframt yfir að hann vildi flytja frá Íslandi störf til Kína. Nú er forsætisráðherra í Kína í boði ÓRG og Kínverja að ganga formlega frá þessum samning.

Forsetinn hefur auk þess marglýst því yfir að krónan sé ómetanlegur hluti af hinu íslenska efnahagsundri. Hún gerði það að verkum að hér var hægt að keyra allt efnahagskerfið upp úr þakinu og framkvæma stórkostlega eignaupptöku hjá almenning.

Forsetinn hefur komið reglulega fram í erlendum fréttastofum og kynnt þar sína eigin efnahags- og utanríkisstefnu, sem gengur þvert á samþykkta stefnu samtaka launamanna, en fer ákaflega vel saman við sjónarmið þeirra sem berjast gegn því að íslenskir launamenn geti varið sig gegn óbeinni skattpíningu í gegnum reglulegar gengisfellingar krónunnar.

mánudagur, 8. apríl 2013

Aðför Framsóknar að félagslega íbúðarkerfinu


Fékk einkennilegar aths. í gærkvöldi vegna pistils um þann hóp sem hefur gleymst, þannig að hér er pistillinn með ítarlegri skýringum.

Það var árið 2002 sem þáverandi félagsmálaráðherra Páll Pétursson Framsóknarflokki lagði fram frumvarp um að einkavæða félagslega íbúðarkerfið og lagði það þar með í rúst þáverandi leigukerfi með 11.000 íbúðum.

Allt frá því svokallað „Júní samkomulag“ sem Bjarni Benediktsson þáverandi forsætisráðherra gerði í mikilli andstöðu við hægri arm stjórnarflokkanna árið 1964 við verkalýðshreyfinguna til þess að rjúfa verðbólguhringrásina hafði verið unnið að uppbyggingu félagslega íbúðarkerfisins.

Niðurstaða þessara viðræðna ASÍ, VSÍ og Bjarna Ben. var sérstök yfirlýsing Viðreisnarstjórnarinnar um aðgerðir í húsnæðismálum láglaunafólks, sem gefin var út í júlímánuði 1965. Alls urðu íbúðir í Breiðholtinu öllu um 7600.

Þessar byggingar gerðu það kleift að rífa helstu skömm Reykjavíkur; Höfðaborgina, braggarnir og skúra- og saggadraslinu var þarna útrýmt. Það voru einfaldlega settar jarðýtur á þessi ömurlegu hreysi og húsaleiga í Reykjavík stórlækkaði, í andstöðu við tiltekin öfl í landinu.

Árin áður en ríkisstjórn Davíðs Oddsonar með Pál Pétursson sem félagsmálaráðherra lagði kerfið í rúst var verið að byggja 380 íbúðir á ári þannig að ef kerfið hefði ekki verið lagt af, væru í dag um 15.000 íbúðir í kerfinu en ekki tæplega 4.000 eins og reyndin er. Þörfin er hins vegar á bilinu 25-30.000 íbúðir ef hlutfall félagslegra íbúða væri svipað hér og á Norðurlöndunum.

Það sem gerðist árið 2002 var, að fólk gat ýmist keypt eða selt. Þeir sem keyptu bjuggu vissulega áfram í íbúðunum en vextir lánanna hækkuðu í markaðsvexti. Þeir sem seldu innleystu eignarhluta – sumir keypti aftur og notuðu eignarhlutann sem eigin framlag en tóku lán á markaðsvöxtum til viðbótar.

Í verkamannabústöðunum voru vextir hins vegar miklu lægri en markaðsvextir, en eignamyndunin hjá einstaklingnum var hins vegar hægt vegna þess að eigið framlag til vaxta og afborgana var mun lægra.

Þrátt fyrir að íbúarnir hafi fengið stærri ,,eignarhluta‘‘ í sínum íbúðum fengu þeir líka miklu hærri vexti á skuldahlutann, vexti sem það réði ekkert við. Þarna átti vaxtabótakerfið að koma til hjálpar en gerði það aldrei vegna endurtekinna skerðinga á vaxtabótum, sem ríkistjórnir Sjálfstæðismanna og Framsóknar framkvæmdu með því að láta skerðingarmörkin sitja kyrr árum saman.

Þessar aðgerðir af hálfu Framsóknarmanna og Sjálfstæðismanna var því hinn mesti bjarnagreiði og í raun markviss aðför að barnafjölskyldum og einstæðum foreldrum. Þess vegna hefur þessi hópur verið í greiðsluvanda s.l. áratug, löngu fyrir hrunið en auðvitað sýnu verri eftir en fyrir.

Það er tekjulægsta fólkið sem hvorki hefur getu til þess að kaupa eða leigja sem á í mestum vandræðum á Íslandi í dag.

Svo einkennilegt sem það nú er lítið minnst á þennan vanda í yfirstandandi kosningabaráttu. Tekjulægsta fólkið er ekki í skuldavanda, það er í greiðsluvanda. Flatur niðurskurður kemur hinna efnameiri, það er að segja þeim ekki eru í greiðsluvanda best. Þetta kemur fram í öllum könnunum sem gerða hafa verið um þessi mál.

Danir hafa alla tíð staðið vörð um félagslega húsnæðiskerfið og forðast mistök sem margar aðrar þjóðir hafa gert.

Í danska kerfinu eru kaup eða bygging félagslegs húsnæðis fjármögnuð með eftirfarandi hætti:

Framlag íbúanna er 2%

• Framlagið er endurgreitt þegar viðkomandi flytur út

• Stofnfé frá sveitarfélaginu er 14%

• Framlag sveitarfélaganna er vaxtalaust og endurgreitt þegar fjárhagslegar aðstæður húsnæðisfélagsins leyfa, en þó eigi síðar en eftir 50 ár.

Almenn lán frá sérhæfðum húsnæðislánastofnunum1 84%

• Lánið er á hefðbundnum forsendum húsnæðislána en ríkið styrkir húsnæðisfélagið með vaxtaniðurgreiðslu eftir ákveðnum reglum.

• Lánstími þessara lána er 35 ár sem er 5 árum lengri en hefðbundin húsnæðislán

• Sveitarfélögin hafa veitt húsnæðisfélögunum ábyrgð fyrir þeim hluta lánsins sem er umfram 65% af verðmati húsnæðisins, þannig að ef miðað er við 84% veðhlutfall ábyrgist sveitarfélagið í reynd 22,6% af eftirstöðvum lánsins. Ríkið tryggir húsnæðisfélögunum styrk til niðurgreiðslu vaxtakostaðar.

Meðalverð 100 fm. 3ja herbergja íbúðar á höfuðborgarsvæðinu er 24,8 mill.kr. Ef þessi íbúð yrði fjármögnuð samkvæmt reglum danska félagslega húsnæðiskerfisins verður dæmið eftirfarandi:

  • Stofnframlög 14% 3.472.000
  • Eigið framlag 2% 496.000
  • Húsnæðislánastofnun 84% 20.832.000
  • Greiðsla á mánuði - íbúagreiðsla, 3,4% 70.267
  • Leiga (m.v. 80/20% fjármagn og annar rekstur) á mán. 87.833
  • Afborgun og vextir láns á mán. 130.216
  • Styrkur frá ríkinu (mismunur) á mán. 59.949.

Samkvæmt þessu dæmi yrði hámark fjármagnskostnaðar við útreikning húsaleigu á fyrsta ári eftir byggingu eða kaup íbúðarinnar 3,4% eða ríflega 70 þús. kr. á mánuði.

Raunverulegur kostnaður vegna vaxta og afborgana af láninu er hins vegar ríflega 130 þús. kr. á mánuði og því verður rekstrarstyrkur ríkisins í þessu dæmi um 60 þús.kr. á mánuði. Ef miðað er við að fjármagnskostnaður sé 80% af leiguverði yrði mánaðarleiga þessarar íbúðar um 88 þús.kr. á mánuði.

Ætla má að sambærileg íbúð á landsbyggðinni kosti um 17 millj.kr. og skv. sömu forsendum yrði mánaðarleigan 72 þús.kr. á mánuði.

Meðalleiga á markaði hér á landi fyrir 100 fm. 3ja herbergja íbúð er um 154 þús. kr. í höfuðborginni, 143 þús.kr. í SV kjördæmi og 101 þús. kr. á landsbyggðinni.

Samkvæmt þessu má ætla að leigan í félagslega húsnæðiskerfinu yrði um 29-43% lægri ef við sköpuðum okkur samskonar umhverfi og er á hinum Norðurlandanna.

En forsenda að þetta sé hægt að útrýming krónunnar og upptaka stöðugs efnahagslífs með öflugum viðskiptagjaldmiðli eins og Evrunni

sunnudagur, 7. apríl 2013

Vandinn sem gleymist


Það var árið 2002 sem þáverandi félagsmálaráðherra Páll Pétursson Framsóknarflokki lagði fram frumvarp um að einkavæða félagslega íbúðarkerfið og lagði það þar með í rúst þáverandi leigukerfi með 2.100 íbúðum.

Fólkinu sem þá bjó í íbúðunum fengu þær keyptar með lánum, en afborganir voru svo háar að þær þau reyndust þessum hóp ókleif. Í dag er mikið rætt um að það vanti félagslegar leiguíbúðir. Það er tekjulægsta fólkið sem hvorki hefur getu til þess að kaupa eða leigja sem á í mestum vandræðum á Íslandi í dag.

Svo einkennilegt sem það nú er lítið minnst á þennan vanda í yfirstandandi kosningabaráttu. Tekjulægsta fólkið er ekki í skuldavanda, það er í greiðsluvanda. Flatur niðurskurður kemur hinna efnameiri, það er að segja þeim ekki eru í greiðsluvanda best. Þetta kemur fram í öllum könnunum sem gerða hafa verið um þessi mál.

Danir hafa alla tíð staðið vörð um félagslega húsnæðiskerfið og forðast mistök sem margar aðrar þjóðir hafa gert. Í danska kerfinu eru kaup eða bygging félagslegs húsnæðis fjármögnuð með eftirfarandi hætti:

Framlag íbúanna er 2%

• Framlagið er endurgreitt þegar viðkomandi flytur út

• Stofnfé frá sveitarfélaginu er 14%

• Framlag sveitarfélaganna er vaxtalaust og endurgreitt þegar fjárhagslegar aðstæður húsnæðisfélagsins leyfa, en þó eigi síðar en eftir 50 ár.

Almenn lán frá sérhæfðum húsnæðislánastofnunum1 84%

• Lánið er á hefðbundnum forsendum húsnæðislána en ríkið styrkir húsnæðisfélagið með vaxtaniðurgreiðslu eftir ákveðnum reglum.

• Lánstími þessara lána er 35 ár sem er 5 árum lengri en hefðbundin húsnæðislán

• Sveitarfélögin hafa veitt húsnæðisfélögunum ábyrgð fyrir þeim hluta lánsins sem er umfram 65% af verðmati húsnæðisins, þannig að ef miðað er við 84% veðhlutfall ábyrgist sveitarfélagið í reynd 22,6% af eftirstöðvum lánsins. Ríkið tryggir húsnæðisfélögunum styrk til niðurgreiðslu vaxtakostaðar.

Meðalverð 100 fm. 3ja herbergja íbúðar á höfuðborgarsvæðinu er 24,8 mill.kr. Ef þessi íbúð yrði fjármögnuð samkvæmt reglum danska félagslega húsnæðiskerfisins verður dæmið eftirfarandi:

Stofnframlög 14% 3.472.000

Eigið framlag 2% 496.000

Húsnæðislánastofnun 84% 20.832.000

Greiðsla á mánuði - íbúagreiðsla, 3,4% 70.267

Leiga (m.v. 80/20% fjármagn og annar rekstur) á mán. 87.833

Afborgun og vextir láns á mán. 130.216

Styrkur frá ríkinu (mismunur) á mán. 59.949

Samkvæmt þessu dæmi yrði hámark fjármagnskostnaðar við útreikning húsaleigu á fyrsta ári eftir byggingu eða kaup íbúðarinnar 3,4% eða ríflega 70 þús. kr. á mánuði. Raunverulegur kostnaður vegna vaxta og afborgana af láninu er hins vegar ríflega 130 þús. kr. á mánuði og því verður rekstrarstyrkur ríkisins í þessu dæmi um 60 þús.kr. á mánuði. Ef miðað er við að fjármagnskostnaður sé 80% af leiguverði yrði mánaðarleiga þessarar íbúðar um 88 þús.kr. á mánuði.

Ætla má að sambærileg íbúð á landsbyggðinni kosti um 17 millj.kr. og skv. sömu forsendum yrði mánaðarleigan 72 þús.kr. á mánuði.

Meðalleiga á markaði hér á landi fyrir 100 fm. 3ja herbergja íbúð er um 154 þús. kr. í höfuðborginni, 143 þús.kr. í SV kjördæmi og 101 þús. kr. á landsbyggðinni.

Samkvæmt þessu má ætla að leigan í félagslega húsnæðiskerfinu yrði um 29-43% lægri ef við sköpuðum okkur samskonar umhverfi og er á hinum Norðurlandanna.

Framsóknarritstjórn Pressunnar/Eyjunnar


Hún er með ólíkindum umfjöllun ritstjórnar Pressunar þessa dagana um stöðuna í íslenskri pólitík. Þar heldur greinilega um penna fólk sem er blindað af aðdáun á Framsóknarflokknum.

Ritstjórn Pressunnar/Eyjunnar er fullkomlega búinn að skrifa sig út úr pólitískri umræðu.

Efnistök ritstjórnar Pressunar/Eyjunar þessa daga einkennist af pólitísku ofstæki, eins og það er opinberað okkur á hinum alsanna og háttvirta miðli "Orðið á götunni" Þeir sem benda á göt í fulyðringum formanns Framsóknar eru með skítkast. Það er nefnilega það.

Látum vera með innihald viðtalsins í Fréttatímanum. Myndin framan á blaðinu segir allt sem segja þarf. Maður sem lætur taka af sér svona mynd er að upplýsa okkur um margt. En þetta má ekki benda á það þá er það skítkast.

Menn sem benda á vandræðaleg svör frambjóðena Framsóknar um afnám verðtyrggingar og hvernig eigi að standa að því og frá hvað a´tima það eigi að gilda, og hvað komi staðinn, eru með skítkast í garð Framsóknar að mati ritstjórnar Pressunnar/Eyjunnar.

Vitanlega geta menn sett fram skoðanir og reynt að rökstyðja þær, eins og gert af duglegum pistlahöfundum Eyjunnar. En ritstjórn miðils sem gefur sig út fyrir að vera hlutlaus en stillir síðan upp aðalfréttum með þeim hætti sem gert hefur verið undanfarna daga og skrifar í nafnlausu dálkana sína með þeim hætti sem gert hefur verið, missir allan trúverðugleika.

Og hinn nafnlausi "Orðið á götunni" bætir um betur með því að stilla þessu upp með að það sé eitthvert panik í gangi. Það er kallað að víkja sér undan því að ræða þann punkt sem bent er á, eða  reyndar staðfesta þá skoðun sem hér var sett fram.     

miðvikudagur, 3. apríl 2013

Rjúfum umsátrið um heimilin og atvinnulífið



Undanfarin ár hefur Íslenskt samfélag verið að ná andanum eftir efnahagslegar hamfarir sem hér voru skapaðar á árunum 2005 til haustsins 2008. Það er búið að rétta stefnuna af og skiptir öllu að nú náist ný þjóðarsátt um hvernig skapa eigi velsæld til framtíðar fyrir þá sem hér vilja búa.

Hér er lítil framleiðni og vinnutími langur. Rekstur íslenska bankageirans er ákaflega dýr. Of margir vinna við að framleiða of dýrar vörur, sem mun ódýrara væri að flytja inn, hér má t.d. benda á iðnaðarframleiðslu á svína- og kjúklingakjöti. Talið er að í þjónustugeiranum séu að störfum liðlega 13 þúsund of margir einstaklingar, það vinnuafl ætti að vera við önnur störf við að auka verðmæti framleiðslu og útflutnings.

Við verðum einfaldlega að auka fjárfestingar í atvinnulífinu og auka framleiðni og verðmætasköpun í íslensku þjóðabúi ef okkur á að takast að greiða niður skuldir okkar og standa jafnframt undir velferðarkerfinu án þess að hækka þurfi skatta upp úr þaki heimilisbókhaldsins.

Við verðum að fjölga þeim íslensku fyrirtækjum sem framleiða og selja alþjóðlegar vörur, eins og t.d. Marel, Össur, Actavis og CCP. Forsvarsmenn þessara fyrirtækja hafa margoft sagt að þeir sjái alltof mikla takmörkun í samkeppni og stækkunarmöguleikum ef við breytum ekki peningastefnunni.

Við verðum að skapa stöðugra rekstrarumhverfi og auka erlenda fjárfestingu, sem þýðir að Íslenskir stjórnmálamenn verða að venja sig af því að vera með óraunsæ loforð, sem þeir redda síðan með gengisfellingu og verðbólguskoti. Það verður að stöðva þá tilgangslausu keppni á Alþingi, sem snýst um það eitt að koma í veg fyrir að hinir hóparnir nái einhverjum árangri.

Það er komið nóg, mikið meir en nóg af óþolandi skotgrafahernaði og sérhagsmunagæslu á Alþingi. Við hrösuðum illa á sviði peningamála fyrir fáum árum og þurftum að biðja Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og hin Norðurlandaríkin um hjálp.

Hvergi í heiminum tókst að tapa nándarnærri jafnmiklu fé, í hlutfalli við stærð hagkerfisins, á jafnskömmum tíma og undir stjórn og stefnu þessarar valdastéttar. Þessi stefna gerði það mögulegt að taka lítið ríkisbankakerfi með sáralítil erlend umsvif og búa til úr því bólu upp á ferfalda landsframleiðslu innan bankakerfisins og líklega annað eins utan þess.

Gjaldþrot íslenska bankanna eru öll á topp 10 lista þeirra stærstu í mannkynssögunni. Þessi stefna valdastéttarinnar leiddi til ofboðslegar misskiptingar og ójafnaðar og fáir efnuðust mikið á kostnað fjöldans. Hér spilar krónan í einangruðu efnahagskerfi aðalhlutverkið.

Þetta kerfi Íslensku valdastéttarinnar tekur ekki mið af hagsmunum almennings. Hann er réttindalaus. Hér eru hagsmunir fárra í fyrirrúmi og þar eru ákvörðuð þau kjör sem almenning er boðið upp á. Þau viðhorf, sem voru höfð að leiðarljósi við uppbyggingu á Íslensku samfélagi á síðustu öld eru að glatast.

Þeir tveir flokkar sem eru að skora mest í skoðanakönnunum þessa dagana er stjórnað af framangreindum valdastéttum, sem samkvæmt síðustu landsfundum tryggðu þær tök sín og ætla ekki að sleppa þeim tökum, sem þær hafa á Íslensku samfélagi og stefna að því að viðhalda einangrun Íslands.

Þingmenn þessara flokka hafa gengið svo langt að segja að jafnvel þó Íslenskur almenningur samþykkti í þjóðaratkvæðagreiðslu að rjúfa þessa einangrun, myndu þeir ekki lúta þeirri niðurstöðu. Það sama gerðu þessir hinir sömu nú í vetur þegar þeir virtu ekki viðlits niðurstöðu síðustu þjóðaratkvæðagreiðslu um vilja þjóðarinnar til endurnýjunar Stjórnarskrárinnar. Þar unnið var eftir niðurstöðum 1.000 manna þjóðfundar og í samræmi við margframkominn vilja þjóðarinnar.

mánudagur, 1. apríl 2013

Vilji þjóðar lítilsvirtur

 
 
Það verður seint sagt að fréttastofa RÚV hafi sýnt stjórnarskrármálinu sanngirni í umfjöllun sinni. Undanfarna daga er eins og fréttastofan hafi fundið hjá sér þörf til þess að réttlæta það hvernig hún hefur verið virkur þátttakandi í baráttunni gegn vilja þjóðarinnar, sem birtist með svo afgerandi hætti í þjóðaratkvæðagreiðslunno 20. okt.

Skúli Magnússon héraðsdómari hefur verið virkur þáttakandi í þessari baráttu gegn þjóðinni og hefur þar af leiðandi verið ákaft hampað af fréttastofu RÚV og ítrekað verið fenginn til að tjá skoðanir sínar á tillögum stjórnlagaráðs í fréttatímum RÚV.

Hann var í vikunni ásamt Björg Thorarensen fenginn til þess að taka þátt í hvítþvotti fréttastofu RÚV á umfjöllun sinni og virkri þátttöku í því hvernig komið sé í þessu máli, en næsta víst að um þennan feril verður fjallað í sagnfræðiritum framtíðar, þ.e. hvernig valdníðslu var purrkunarlaust beitt gagnvart opinberum vilja þjóðarinnar og niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu. Bæði eru þau þekktir fylgismenn þess, að einungis fylgismenn valdastéttarinnar fái að koma að breytingum á stjórnarskránni.

Frammistaða RÚV í tengslum við þjóðaratkvæðagreiðsluna 20. október sl. staðfestir þetta. Hún var meðhöndluð á allt annan og ómerkilegri hátt en báðar þjóðaratkvæðagreiðslurnar um Icesave og er málið svartur blettur á "útvarpi allra landsmanna".

Talsmenn þeirra sem fara með völdin hér á halda því fram að ástæðulaust sé að umbylta lýðveldisstjórnarkránni því hún sé svo „listilega smíðuð“ eins og forseti vor hefur sagt, eða ummæli höfundar Reykjavíkurbréfs um að hún sé „helgur gjörningur“,hvorki meir eða minna.

Var það skoðun helstu þáverandi stjórnmálaforingja þegar núverandi stjórnarskrá var borinn upp á Alþingi árið 1944? Hér nefni ég nokkur dæmi:

Eysteinn Jónsson, Framsóknarflokki: „Við megum ekki taka upp í lög um lýðveldisstjórnarskrá annað en það sem stendur í beinu sambandi við stofnun lýðveldis í stað konungdæmis ... Síðan eigum við að vinna af kappi að því að endurskoða stjórnarskrána í heild og vinna að þeim breytingum sem gera þarf."

Stefán Jóhann Stefánsson, Alþýðuflokki: „... er það skoðun allrar [stjórnarskrár]nefndarinnar að vinna beri hið bráðasta að því að fram fari gagnger endurskoðun á stjórnarskránni“.

Jakob Möller, Sjálfstæðisflokki: „Þessi fyrirhugaða stjórnarskrá, sem hér um ræðir, er hugsuð og í rauninni yfirlýst sem hrein bráðabirgðastjórnarskrá, þ.e.a.s., jafnframt því sem hún er samþykkt er gert ráð fyrir að stjórnarskrá ríkisins í heild verði tekin til gagngerðrar endurskoðunar á næstu árum.“

Brynjólfur Bjarnason, Sósíalistaflokki: „... nú er það svo að við stofnun hins fullvalda íslenzka ríkis ríður oss öllu framar á þjóðareiningu. ... Þess vegna held ég að flestir séu nú komnir á þá skoðun að það sem gert var með stjórnarskrárákvæðinu 1942 –að takmarka breytingar á stjórnarskránni við það sem leiðir af skilnaði við Danmörku og flutningi æðsta valds inn í landið, með öðrum orðum að útiloka fyrir fram öll þau deilumál sem ágreiningi gætu valdið – hafi verið hið eina rétta.“

Þetta útskýrir hina „rússnesku kosningu“ í þjóðaratkvæðagreiðslunni um sambandsslit og lýðveldisstofnun vorið 1944. Fólk var framar öllu að kjósa um skilnaðinn við Danmörku.

Nær allir að sem einn sem tóku til mál sögðu að lýðveldisstjórnarskráin hefði verið saminn til bráðabirgða. Ólafur Jóhannesson lagaprófessor benti á nokkur atriði sem taka þyrfti til rækilegrar endurskoðunar áður en gengið yrði frá framtíðarstjórnarskrá hins íslenska lýðveldis.

Ólafur Lárusson prófessor í lögum tók dýpra í árinni, en var þó varkár að eðlisfari. „Endurskoðun stjórnarskrárinnar er því eitt af verkefnum náinnar framtíðar. Lýðsveldisstjórnarskráin í þeirri mynd sem hún hefur nú, er aðeins sett til bráðabirgða.“

Í nýársávarpi sínu 1949 kvartaði Sveinn Björnsson undan seinaganginum og hvatti þingheim og aðra til dáða : „Og nú, hálfu fimmta ári eftir stofnun lýðveldisins, rofar ekki enn fyrir þeirri nýju stjórnarskrá, sem vér þurftum að fá sem fyrst og almennur áhugi var um hjá þjóðinni og stjórnmálaleiðtogunum, að sett yrði sem fyrst. Í því efni búum vér því ennþá við bætta flík, sem sniðin var upprunalega fyrir annað land, með öðrum viðhorfum, fyrir heilli öld. …Vonandi dregst eigi lengi úr þessu að setja nýja stjórnarskrá.“

Það var einhugur um lýðveldisstjórnarskránna, en sá einhugur snerist um að hún væri einungis til bráðabirgða. En það eru ákvæði í núgildandi stjórnarskrá sem tryggja völd til fárra, og það gerðist. Ráðherraræðið varð alsráðandi og tryggði pilsfaldakapítalismann og helmingsskiptaregluna.

Í Jobsbók segir: "Drottinn gaf og drottinn tók, lofað veri nafn drottins." Þessi sannindi hafa fylgt okkur allt frá kristnitöku. Fljótlega eftir að ráðandi stjórnmálamenn uppgötvuðu hversu mikið vald var falið í slakri þýðingu á aldagamalli danskri stjórnarskrá ritaðri til þess að tryggja konungi veraldlegt einræðisvald, tóku þeir til sín valdið.

Ég treysti okkar réttsýnasta þingmanni Jóhönnu Sigurðardóttur til að halda fast í feldinn og gefa sig hvergi í þeim átökum sem staðið hafa allt þetta kjörtímabil. En sjálfskipaðir handhafar valdsins og fjármagnsins höfðu betur og þannig fór eins og í viðureign þeirra Grettis og Gláms, er þeir toguðust á um röggvarfeldinn en þar segir: "Glámur ... þreif í feldinn stundar fast. ... kipptu nú í sundur feldinum í millum sín."

Og eftir stóð hnípin þjóð með lítið brot af réttlætinu öllu.

Sagt er að vald spilli, en frekar má segja að vald laði til sín hina spilltu. Heilbrigðir einstaklingar laðast yfirleitt að öðrum hlutum en valdi. Vörn stjórnmálamanna og handbendi þeirra felst í að hefja blekkingarleiki til að friða eigin fylgi.

Heiðarleiki virðist ekki eiga heima í stjórnmálum, sama hvert formið er. Alltaf virðist spillingu takast að skjóta rótum eins og illgresi, sem kæfir allar aðrar plöntur, sem við viljum frekar rækta.