fimmtudagur, 28. nóvember 2013

Þjóðin reynir valdarán

Þessi grein birtist nokkuð stytt í Fréttablaðinu 25. nóv. og fékk gríðarlega lesningu, hún er hér birt í fullri lengd.
 
 
Í Fréttablaðinu þ. 21. nóvember skrifar Ólafur Þ. Stephensen ritstjóri leiðara þar sem hann reynir að réttlæta aðgerðir valdastéttarinnar í að koma í veg fyrir að Stjórnskránni verði breytt.

Hann gefur ekkert fyrir vilja þjóðarinnar og vitnar ítrekað til Skúla Magnússonar héraðsdómara helsta baráttumannsins gegn breytingum á hinum „helga gjörningi“.

Sá var reyndar í Stjórnarskrárnefnd, höfundar umfangsmikillar skýrslu sem Stjórnlagaráð fór eftir í sinni vinnu í góðri samvinnu við íslenska þjóð, en það vakti mikinn áhuga lýðræðissinna um heim allan.

Þegar niðurstaða Stjórnalagaráðs lá fyrir varð Skúla ásamt nokkrum öðrum ljóst að valdastéttin íslenska þótti illa að sér vegið. Þjóðin ætlaði að gera valdarán vildi taka til sín þau völd sem fámennur hópur hafði náð til sín í gegnum göt á úreltri Stjórnaskrá. Þá tók Skúli ásamt ásamt nokkrum einstaklingum úr Háskóla umhverfinu U-beygju og snérust af öllu afli gegn endurnýjun stjórnarskrárinnar. Einkennilegt, (reyndar ekki) þar sem niðurstaða Stjórnlagaráðs var nefnilega í fullu samræmi við það sem þessir hinir sömu höfðu áður sett fram.

Það var afgerandi niðurstaða í þjóðaratkvæðagreiðslunni, 73.509 samþykktu eða 31% kosningabærra manna og þeir sem höfnuðu voru 36.302 eða 16% kosningabærra manna.

Aldrei í sögu nokkurs lýðræðisríkis hefur það gerst að valdhafar fari gegn jafn afgerandi niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu, þaðan af síður að valdhafar grípi til þess örþrifaráðs að gefa sér atkvæði þeirra sem heima sátu. Í öllum lýðræðislegum kosningum er það niðurstaða þeirra sem mæta á kjörstað sem ræður.

Þegar talsmenn íslenskra valdhafa áttuðu sig á að þeir hefðu orðið sér til háðungar um hin lýðræðislega heim, var gripið til örvæntingarfullra skýringa eins og ritstjórinn er með „Þjóðaratkvæðagreiðslan var síðan líka gölluð; þar var spurt spurninga um sum mikilvæg atriði stjórnlaganna en ekki önnur, þannig að hún veitti heldur takmarkaða leiðsögn.“

Íslenska afbrigðið ef almúginn kýs ekki í samræmi við vilja valdastéttarinnar, þá hefur hann fengið ranga tilsögn.

Ritstjórinn fullyrðir ásamt Skúla að íslenskur almúgi sé illa að sér umfram það sem gerist í öðrum lýðræðisríkjum og hann segir „Eftir þennan skelfilega málatilbúnað var gjörsamlega útilokað að ná samkomulagi um afgreiðslu breyttrar stjórnarskrár á Alþingi fyrir kosningar, enda er stjórnarskrá ekki plagg sem á að afgreiða í bullandi pólitískum ágreiningi.“ Hvenær hafa breytingar á stjórnarskrá verið afgreiddar án þess að um það hafi verið pólitískur ágreiningur? Aldrei.

Talsmenn valdastéttarinnar hafa haldið að almúganum að ástæðulaust sé að umbylta lýðveldisstjórnarkránni því hún sé svo „listilega smíðuð“ eins og forseti vor hefur sagt, eða ummæli höfundar Reykjavíkurbréfs um að hún sé „helgur gjörningur“,hvorki meir eða minna. Hver var skoðun stjórnmálaforingja þegar núverandi stjórnarskrá var borinn upp árið 1944?

Eysteinn Jónsson, Framsóknarflokki: „Við megum ekki taka upp í lög um lýðveldisstjórnarskrá annað en það sem stendur í beinu sambandi við stofnun lýðveldis í stað konungdæmis ... Síðan eigum við að vinna af kappi að því að endurskoða stjórnarskrána í heild og vinna að þeim breytingum sem gera þarf."

Stefán Jóhann Stefánsson, Alþýðuflokki: „... er það skoðun allrar [stjórnarskrár]nefndarinnar að vinna beri hið bráðasta að því að fram fari gagnger endurskoðun á stjórnarskránni“.

Jakob Möller, Sjálfstæðisflokki: „Þessi fyrirhugaða stjórnarskrá, sem hér um ræðir, er hugsuð og í rauninni yfirlýst sem hrein bráðabirgðastjórnarskrá, þ.e.a.s., jafnframt því sem hún er samþykkt er gert ráð fyrir að stjórnarskrá ríkisins í heild verði tekin til gagngerðrar endurskoðunar á næstu árum.“

Brynjólfur Bjarnason, Sósíalistaflokki: „... nú er það svo að við stofnun hins fullvalda íslenzka ríkis ríður oss öllu framar á þjóðareiningu. ... Þess vegna held ég að flestir séu nú komnir á þá skoðun að það sem gert var með stjórnarskrárákvæðinu 1942 –að takmarka breytingar á stjórnarskránni við það sem leiðir af skilnaði við Danmörku og flutningi æðsta valds inn í landið, með öðrum orðum að útiloka fyrir fram öll þau deilumál sem ágreiningi gætu valdið – hafi verið hið eina rétta.“

Þetta útskýrir hina „rússnesku kosningu“ í þjóðaratkvæðagreiðslunni um sambandsslit og lýðveldisstofnun vorið 1944. Fólk var að kjósa um skilnaðinn við Danmörku. Lýðveldisstjórnarskráin var saminn til bráðabirgða.

Ólafur Lárusson prófessor í lögum sagði „Endurskoðun stjórnarskrárinnar er því eitt af verkefnum náinnar framtíðar. Lýðsveldisstjórnarskráin í þeirri mynd sem hún hefur nú, er aðeins sett til bráðabirgða.“

Í nýársávarpi sínu 1949 kvartaði Sveinn Björnsson undan seinaganginum og hvatti þingheim og aðra til dáða : „Og nú, hálfu fimmta ári eftir stofnun lýðveldisins, rofar ekki enn fyrir þeirri nýju stjórnarskrá, sem vér þurftum að fá sem fyrst og almennur áhugi var um hjá þjóðinni og stjórnmálaleiðtogunum, að sett yrði sem fyrst. Í því efni búum vér því ennþá við bætta flík, sem sniðin var upprunalega fyrir annað land, með öðrum viðhorfum, fyrir heilli öld. …Vonandi dregst eigi lengi úr þessu að setja nýja stjórnarskrá.“

Það var einhugur um lýðveldisstjórnarskránna, en sá einhugur snerist um að hún væri einungis til bráðabirgða, en ákvæði hennar tryggja ráðherraræðið og þar er víglínan, hún tryggir nefnilega pilsfaldakapítalismann og helmingsskiptaregluna.

þriðjudagur, 26. nóvember 2013

Innanríkisráðherra skrökvar að þjóðinni


Innanríkisráðherra Sjálfstæðisflokksins, Hanna Birna, var í kvöldfréttum og hélt því fram að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi tekið mál Geirs H. Haarde til „meðferðar“, og það sé til vitnis um viðurkenningu dómstólsins á því, að ekki hafi verið staðið með sanngjörnum hætti eða rétt að málshöfðun á hendur ráðherranum fyrrverandi.


Þetta er rangt hjá Hönnu Birnu, annað hvort er hún vísvitandi að segja þjóðinni ósatt eða hún er enn eina ferðina að fjalla um hluti sem hún þekkir ekki.

Það er ekki til staðar nein viðurkenning af því tagi sem innanríkisráðherra nefnir. Það að auki er málið ekki til meðferðar heldur athugunar. Á því er grundvallarmunur og við verðum að ætlast til þess að ráðherra í ríkisstjórn Íslands viti það.

Nær öllum málum, sem tekin eru til athugunar hjá Mannréttindadómstólnum, er vísað frá. Hin eru tekin til meðferðar - og síðan dæmt.

Málflutningur innanríkisráðherra er þar af leiðandi ósvífinn og villandi, og er næst víst hluti af viðvarandi viðleitni forsvarsmanna Valhallar að hvítþvo ráðherra hrunstjórnarinnar og Sjálfstæðisflokkinn.

Það segir okkur til hvar við erum stödd þegar að svo óheiðarlegur málflutningur berst frá innanríkisráðuneyti, ráðuneyti sem á að veita Mannréttindadómstólnum upplýsingar.

Fréttastofu RÚV ber að upplýsa almenning um þetta mál, og það rækilega.

Einnig verður forvitnilegt hvort ráðherrann ætli að leita sátta áður en fyrir liggur hvort Mannréttindadómstóllinn ætli í raun og veru að taka málið til meðferðar, og við ætlumst vitanlega til að RÚV flytji okkur fréttir af málatilbúnaði ríkisstjórnarinnar.

Það er síðan kaldhæðni örlaganna að Geir H. Haarde hafði forgöngu um endurskoðun mannréttindaákvæða og fleiri ákvæða stjórnarskrárinnar árið 1995 en lét ákvæðin um Landsdóm standa óhreyfð þó þau séu augljóslega úrelt og barn síns tíma.
  
Í nýju stjórnarskránni sem samþykkt var með afgerandi hætti í þjóðaratkvæðagreiðslu en núverandi og fyrrverandi þingmenn Sjálfstæðisflokks höfnuðu alfarið og virtu þar með um vilja þjóðarinnar að vettugi, stendur hins vegar um ráðherraábyrgð :
 
„Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis ákveður, að undangenginni könnun, hvort hefja skuli rannsókn á meintum embættisbrotum ráðherra. Nefndin skipar saksóknara sem annast rannsóknina. Hann metur hvort niðurstaða rannsóknarinnar sé nægileg eða líkleg til sakfellingar og gefur þá út ákæru og sækir málið fyrir dómstólum. Nánar skal kveðið á um rannsókn og meðferð slíkra mála í lögum.“


 
 

sunnudagur, 24. nóvember 2013

Sjúkleg kynning




Hún hreint út sagt sjúkleg auglýsingin frá Verkalýðsfélagi  Akranes. Og að venju hampar ritstjórn Eyjunnar málflutning af þessu  tagi og upplýsir okkur þar enn eina ferðina á hvaða plani hún er stödd þessa dagana.

Vilhjálmur Birgisson formaður á Akranesi getur ekki talað um veðrið án þess að ráðast á forseta ASÍ og þá um leið málefnalega niðurstöðu verkalýðshreyfingarinnar.

Verkslýðshreyfingin hefur valið Gylfa sem sinn talsmann á sama hátt og félagsmenn Vlf. Akranes hafa valið sinn mann.

Launamenn vilja málefnalegri umræðu en fram fer innan Verkalýðsfélagsins á Akranesi og hefur endurtekið hafnað þátttöku í þeim uppákomum sem þar er stillt upp, með það eitt að markmiði að upphefja sig á kostnað annarra.

Verkalýðsfélag Akranes er líklega orðin ein sjálfhverfasta samkoma hér á landi sem Vilhjálmur er duglegur að kynna með aðstoð ritstjórnar Eyjunnar.

Það er hlutverk Gylfa sem forseta ASÍ að kynna niðurstöður sem náð er með mikilli vinnu í málefnanefndum og frábæru starfsfólki ASÍ, sem fær endanlega umfjöllun í miðstjórn ASÍ.

Hún er kostuleg og um leið barnaleg sú aðferð að stilla málum upp eins Gylfi standi einn að þeim niðurstöðum hann er síðan að kynna fyrir hönd verkalýðshreyfingarinnar.



föstudagur, 22. nóvember 2013

Tíu milljón prósent launahækkunarkrafa

Ég setti þennan pistil inn áðan, en var bent á villu í framsetningu minni, sem var réttmæt, ég vona að þessi framsetning skiljist betur.

Ég hef verið undanfarin 2 ár unnið að því að skrifa sögu samtaka rafiðnaðarmanna. Í þeim gögnum sem ég hef eru meðal annars kjarasamningar frá stofnun aðildarfélaga Rafiðnaðarsambandsins í byrjun síðustu aldar, þar sem eru m.a. lágmarkslaun ísl. rafvirkja allt frá stofnun stéttarfélags þeirra árið 1926.

Lágmarkslaun danskra rafvirkja voru á þeim tíma hin sömu og íslensku rafvirkjanna og voru það fram í stríðsbyrjun, en þá skilur á milli. Á stríðsárunum er atvinnuástand hér í háspennu vegna veru msvifa varnarliðanna og á þeim tíma hækka laun hinna íslensku rafvirkja meir en hinna dönsku, en svo fara hlutirnir heldur betur að breytast upp úr árinu 1946.

Lágmarkslaun íslenskra rafvirkja voru árið 1926 1,70 Íkr. og þeirra dönsku 1,70 Dkr.

Í dag eru lágmarkslaun íslenska rafvirkjans 1.100 Íkr.,  en dananna 144 Dkr.

Laun þeirra dönsku í íslenskum krónum hafa því hækkað um 18,5 milljón prósent. Að teknu tilliti til gjaldmiðilsbreytinga og gengi Íkr. gagnvart hinni dönsku. (Þ.e.a.s. hinu opinbera, það er síðan umhugsunarefni hvort það haldi, ef litið er til aflandsgengis eða einhvers annars, en þá verða niðurstöðurnar enn hrikalegri)

Dönsku launin hafa því hækkað í Dkr. um tæp 8.500 prósent á þessum 87 árum.

Laun danska rafvirkjans í íslenskum krónum hafa hins vegar hækkað um 18,5 milljón prósent.

Á sama tíma hafa laun íslenska rafvirkjans hækkað um 6,5 milljón prósent.
 
En allt er þetta afstætt, eftir því frá hvaða sjónarhól við horfum. En þó blasir eitt við
 
Krónan er mesti óvinur íslenskra launamanna 

Ef maður skoðar allt ferlið sést að eftir árið 1955 verður hver kollsteypan á fætur annarri allt fram að Þjóðarsátt, þá er lágdeyða fram yfir aldamórin síðustu og svo taka við kollsteypurnar undanfarinn áratug.

Við skoðun á þessum gögnum blasir við sú staðreynd að íslenskir launamenn eru endurtekið í kjarsamningum að reyna að ná svipuðum raunlaunum og voru í upphafi þess samningstímabils sem er að renna sitt skeið. Eða með öðrum orðum að berjast fyrir því að ná svipuðum kaupmætti og samið hafði verið um, áður en stjórnvöld felldu krónuna á samningstímabilinu.

En það markmið næst reyndar sjaldan þrátt fyrir mikil og tíð verkföll í samanburði við nágrannalönd okkar, nema með einhverjum utanaðkomandi aðgerðum stjórnvalda, sem oft voru síðan verið tekin úr sambandi af næsta ríkisstjórn. Það kallaði síðan á enn umfangsmeiri kröfur um launahækkanir.

Að teknu tilliti til þessa að þá verður að segjast eins og það er, að umfjöllun SA undanfarna daga um launahækkanir þar sem því er haldið fram að það séu aðgerðir launamann sem pumpa áfram verðbólguna, það er hreint út sagt kostuleg framsetning.

Það verður einnig að segjast eins og það er að því miður er mjög margt í spilunum þessa dagana, séu aðstæður skoðaðar í samhengi við ummæli nokkurra ráðherra undanfarið, að þá bendir margt (kannski allt) til þess að við stefnum hraðbyri í sama ástand og var á tímabilinu 1980 – 1990.

Þá verður mjög líklegt að forsætisráðherra segi í næsta áramótaávarpi „Guð hjálpi okkur.“

þriðjudagur, 19. nóvember 2013

Niðurskurður til landbúnaðar


Ég hef oft undrast fáfræði þingmanna og þekktra spjallþáttastjórnenda þegar kemur að atvinnulífinu. Þetta staðfestist þegar þekktur spjallþáttastjórnandi, nýráðinn til RÚV út pólitíkinni, ræddi við tvo núverandi þingmenn/fyrrv. ráðherra og formann fjárlaganefndar og jafnframt Heimsýnar. Öll upplýstu þau okkur hlustendur RÚV um litla þekkingu á hinum gríðarlegu styrkjum sem fara til landbúnaðarins og einhvern mikinn niðurskurð á styrkjum Bændasamtaka Íslands.

Formaður hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar hreykti sér af að hún ætlaði að setja nýtt Íslandsmet í niðurfellingu greiðslur til Bændasamtaka Íslands. Svandís og Gísli Marteinn gerðu engar aths. við fullyrðingar formanns Heimsýnar.

Það fara engir peningar frá ríkinu til reksturs félagasamtaka bænda, það eru bændur sem greiða til Bændasamtakanna með búnaðargjaldi. Þess vegna átti maður von á spurningum fram Svandísi og Gísla um hvaða verkefni það eru sem á að skera enn frekar niður.

Eða er þetta bara blekking eins og nánast allt sem núverandi ríkisstjórn lofaði almenning, utan þess að hún stóð við niðurfellingu á helsta styrktaraðila xD og xB í kosningunum í vor.

Fyrirtækjum sem hafa verið með ofurgróða vegna hruns krónunnar og auðmenn sem fengu til sín miklar upphæðir í gegnum gengisfallið. Allt fjármagn sem varð til þegar kjör launamanna skert með gengisfellingunni.

T.d. mætti skoða eftirfarandi í fjárlögum 2014 bls 180:

Þar ætti t.d. að skoða markaðsstarf og birgðahald: hlýtur að brjóta í bága við samkeppnislög að niðurgreiða auglýsingar á vöru sem keppir við aðra matvöru. Þeir segja hugsanlega að þetta sé bara erlendis. En það er í raun ennþá alvarlegra. Af hverju ættum við að niðurgreiða mat ofan í aðrar þjóðir á þessum tímum?
 
04-805 Greiðslur vegna sauðfjárframleiðslu (milljónir kr.)

Almennur rekstur:

1.01 Beinar greiðslur til bænda 2.478,0

1.11 Gæðastýring 1.296,0

1.12 Ullarnýting 435,0

1.13 Markaðsstarf og birgðahald 405,0

1.14 Svæðisbundinn stuðningur 62,0

1.15 Nýliðunar- og átaksverkefni 115,0

Almennur rekstur samtals 4.791,0

Gjöld samtals 4.791,0

Fjármögnun: Greitt úr ríkissjóði 4.791,0

þriðjudagur, 12. nóvember 2013

Lengi getur vont versnað


Ef einhver hefði sagt mér fyrr á þessu ári að Vigdís Hauksdóttir, Ásmundur Einar Daðason og Vilhjálmur Birgisson væru orðin helstu efnahagsráðgjafar ríkisstjórnar undir stjórn Sigumundar Davíðs Gunnlaugssonar í lok þessa árs ~

á forsendum kosningaloforða sem flestir hagfræðingar segðu að gengu ekki upp ~

og þau væru að undirbúa sig að fara eftir 100 atriða óskalista sem fáir átta sig á hvað þýði ~

þá hefði ég hvatt viðkomandi til þess að leita sér hjálpar.

Reyndar má benda á umfjöllun Framsóknarmanna á síðasta kjörtímabili, í þessu eins og svo mörgu hafa þeir tekið U-beygju
 

föstudagur, 8. nóvember 2013

Sæmd Guðmundar Andra


Guðmundur Andri Thorsson er að mínu mati einn snjallasti rithöfundur þjóðarinnar í dag, ásamt því að vera einn af bestu pistlahöfundum okkar. Hann sendir nú frá sér bókina Sæmd og ég gat ekki beðið  - hljóp út í búð og náði mér í eintak.
 
Við lestur bókarinnar upplifði ég það að sögumaðurinn værum við, almúgi þess lands. Áhrifalaus í framvindu samfélags okkar, lýsing á því hvernig líf okkar ákvarðast af geðþótta valdastéttarinnar.

Sá ræður sem kemst til valda sama hvaða brögðum hann beitir, hans skilningur og skoðanir á samfélaginu eru þær einu réttu.

Hann einn ætlar að hefja fólkið og þjóðina upp úr fáfræðinni, vesaldómnum og skuldafeninu.

Hann einn er búinn að finna menn í útlöndum sem eiga að borga skuldir okkar.

Hann einn ætlar að tryggja að einhverjar erlendar stofnanir séu ekki að raska ró okkar og koma í veg fyrir að hann geti bjargað okkur og alið okkur upp í réttum anda.

Og svo kviknar lítill vonarneisti í bókarlok. Við eigum kannski eftir allt  - smá oggulítinn sjéns.

Ritstíll Guðmundar Andra er einfaldlega unaðslegur, bara hann einn út af fyrir sig er þess virði að bókin sé lesinn, burtséð frá því hvað Guðmundur tekur til umfjöllunar.

Bókin er áhrifamikil og heldur lesandanum föngnum frá upphafi til enda. Þetta er  ein af þeim bókum sem maður mun lesa aftur og aftur.

Klárlega skyldulesning.

fimmtudagur, 7. nóvember 2013

Skuggasund Arnaldar


Kom við í hverfisbúðinni á leið heim úr vinnu til að kaupa inn og greip með mér Skuggasund Arnaldar, settist við hana þegar heim kom og komst fljótlega að því að þetta er ein af þeim bókum sem maður leggur ekki frá sér fyrr en hún er fulllesinn.

Hér eru á ferð aðrar sögupersónur en í fyrri bókum ,saga um samskipti við hernámsliðið í stríðinu er grunnurinn, samfara þeirri sögu er sögð önnur saga úr samtímanum.

Bókin er virkilega vel skrifuð, engir hnökrar enda Arnaldur með fullkomið vald á verkefninu frá fyrstu síðu til hinnar síðustu.

Þeim tíma sem eytt er í lestur Skuggasunds er virkilega vel varið og vel þess virði.

Góða skemmtun.

þriðjudagur, 5. nóvember 2013

Hvert er formaður fjárlaganefndar að fara?


Það er ríkjandi hefð meðal stjórnmálamanna að geta ekki nálgast ákvarðanatöku út heildstæðu mati með góðri yfirsýn. Umræða þeirra snýst alltaf um einstakar ákvarðanir. Dæmi: Tekið er á dagskrá Alþingis málið um hvort selja eigi orku til útlanda. Með eða á móti?
Ef einhver spyr; "Þarf þá ekki að reisa virkjanir og reisa mikið af háspennulínum?"
Svar stjórnmálamannsins; "Þau mál er ekki á dagskrá núna, við erum að tala um hvort selja eigi orku til útlanda. Síðar munum við setja á dagskrá spurningu um hvort reisa eigi virkjanir. Með eða á móti?"
Og svo seinna í vetur verður tekið á dagskrá málið hvort reisa eigi háspennulínur. Með eða á móti?

Ef við lítum yfir nálgun formanns fjárlaganefndar, blasa þessi vinnubrögð við.     

Í sumar ákvað nýkjörin ríkisstjórn að lækka framlög útgerðarfyrirtækja og ferðþjónustufyrirtækja til samfélagsins um eitthvað á annan tug milljarða. Í kjölfar þess komu fram frumvarpsdrög að fjárlögum þar sem útgjöld til velferðarkerfisins eru skorun töluvert niður, til viðbótar við niðurskurðinn bætist einnig sú hækkun sem hefði þurft að koma vegna þegar framkominna og fyrirliggjandi hækkana á rekstri ríkisstofnana.

Þetta varð til þess ríkisstofnanir tilkynntu að þær kæmust ekki hjá því að fækka starfsfólki enn frekar, auk þess að aðbúnaður starfsfólks yrði óásættanlegur, var þó verulega slæmur fyrir.

Mannekla var í heilbrigðiskerfinu og stefnir augljóslega í að hún verður enn meiri af þessu orsökum.

Þá kemur formaður fjárlaganefndar og segir að úr þessu megi bæta með því að fjölga nemum í læknisfræði og stofna að auki nýja námsdeild fyrir lækna á Háskólanum á Akureyri.

Hér skil ég ekki hvert formaður fjárlaganefndar er að fara. Var ekki verið að lækka framlög til háskólanna?

Ég skil heldur ekki hvernig þessi tillaga formanns fjárlaganefndar eigi að leiða til fjölgunar lækna. Spítalarnir eru nefnilega að segja upp fólki sakir þess að það eru ekki til fjármunir til þess að greiða núverandi starfsfólki laun.

Fjöldi lækna og heilbrigðisstarfsmanna er að fara erlendis sakir þess að þeim standi einfaldlega ekki tilboða störf hér á landi, auk þess að aðbúnaður er óviðunandi.

Formaður fjárlaganefndar fór þar að auki fremst allra fyrir því að afþakka nokkra milljarða króna sem fengust frá ESB til rannsókna, auk þess að fjárlaganefnd ákveður að lækka alla íslenska rannsóknarstyrki.

Við það missa að auki tugir íslenskra háskólamenntaðra manna störf sín.

Þá kemur formaður fjárlaganefndar fram með þá tillögu að það eigi að refsa því  háskólamenntuðu fólki sem ekki komi heim að loknu námi, með því að hækka verulega vexti á námslánum þeirra.

Bíddu aðeins; Standa þeim til boða einhver störf hér á landi?

Þá kemur fram tillaga frá ríkisstjórninni að það eigi bara að stytta nám starfsmanna ríkisins.

 Stendur til að keyra laun niður í landinu til þess að leysa vanda fjárlaganefndar, sem hún kom sér sjálf í með því að fella niður framlög útgerðarfyrirtækja til samfélagsins og afþakka milljarða styrki frá ESB?

Það er ekki hægt að skilja formann fjárlaganefndar öðruvísi en svo að hún virðist ætla að krefjast þess að vel menntað fólk komi hingað heim til þess eins að skrá sig á Atvinnuleysistryggingasjóð.

Og ef það gerir það ekki, þá ætli hún að sekta þau með því að hækka afborganir námslána.

Afsakið en ég skil nákvæmlega ekkert hvert hæstvirtur formaður fjárlaganefndar er að fara. Hana virðist skorti alla yfirsýn, geti einungis skoða eitt mál í einu, án tengsla við heildarmyndina.

Hún væri allavega fullkomlega óhæf til allra samningastarfa í Karphúsinu

mánudagur, 4. nóvember 2013

Er búið að samþykkja sölu á náttúru Íslands?


Í skýrslu ráðgjafarhóps iðnaðar- og viðskiptaráðherra um lagningu sæstrengs til Evrópu kemur fram m.a. að tenging raforkumarkaða leiði, alla jafna, til hagkvæmari vinnslu og dreifingar orku en ella. Sjá hér

Helstu ástæður aukinnar hagkvæmni eru minni þörf verður fyrir varaafl og betri nýting næst á þeirri raforku sem hér er á raforkunetinu. En þessi fjárfesting er ákaflega stór fyrir Íslendinga, jafnvel þótt erlendir aðilar muni standa undir kostnað við framleiðslu og lagningu sæstrengsins.

Það liggur fyrir eigi að vera mögulegt að nýta alla umframorku á innlandsnetinu þurfi að byggja línu yfir Sprengisand, auk þess liggur fyrir að styrkja þarf flutningsgetu hringtengingarinnar allt frá Blönduvirkjun með öllu Norðurlandi alla leið til Kárahnjúka.

Reyndar blasir við að jafnvel þó við myndun ekki tengjast við Evrópska raforkusvæðið, þá komumst við ekki hjá því að fara í þessar framkvæmdir við eflingu raforku flutningskerfisins á næstu árum.

Í áætlunum fyrir sætrenginn er gert ráð fyrir 700-900 MW streng til Bretlands. Núverandi umframorka í Íslenska raforkunetinu er á bilinu 200 – 300 MW, Búðarhálsvirkjun er að komast á lokametrana og þá bætast við 95 MW. Ef sátt næst um gufuaflsvirkjanir í Bjarnaflagi, Þeistareykjum og Kröflu má reikna með um 300 MW þaðan á næstu árum.

Ef af byggingu álvers í Helguvík verður þá kallar það á um 300 - 450 MW orku. Þar hafa helst verið nefndar gufuaflsvirkjanir á Reykjanesi, sem a.m.k. sumar hverjar eru ákaflega umdeildar. Jafnvel talið að það sé ekki til nægjanleg gufuorka til þeirra allra ef til lengri tíma er litið, jafnvel innan þriggja áratuga.

Þetta segir okkur að það verður að virkja töluvert meira en talið er upp hér ofar, ef við ætlum að skaffa orku í sæstrenginn. Jafnvel þó álverið í Helguvík verði tekið af dagskrá, reyndar er nýkominn á í dagskrá  orkufrek ræktun grænmetis á Suðurnesjum, ásamt þeirri orku sem búið er að lofa til Húsavíkur. Að auki má minna á loforð um aukna orku til Straumsvíkur og þar að auki hafa verið nefnd nokkur gagnaver. Í því sambandi hafa m.a. verið nefndar 3 virkjanir í neðri hluta Þjórsár, sem eru já a.m.k. umdeildar.

Oft þegar þessi mál eru rædd meðal stjórnmálamanna koma fram fullyrðingar um mikilfenglegar djúpboranir, sjávarfallavirkjanir og vindorkuna. Eigum við ekki að taka þau mál á dagskrá þegar við ráðum yfir þeirri tækni sem til þarf og í ljós verði komið hversu hagkvæmt það er í raun.

Það er t.d. búið að tala um djúpboranir og sjávarföll í a.m.k. síðustu þrem Alþingiskosningabaráttum og öflugum virkjunum lofað af stjórnmálamönnum á atkvæðaveiðum sem eiga að verða knúnar þessum öflum, en í dag höfum við enga virkjun séð sem byggir á þeirri tækni og allavega er ljóst að það verður ekki á dagskrá á allra næstu árum. Vindorkan er það dýr að hún mun aldrei duga til stærri verkefna.

Að framansögðu er ljóst að Ísland getur ekki  framleitt þá orku sem getur haft einhver úrslitaáhrif í Evrópu. Sé litið yfir sviðið í dag þá getum við líklega sent niður til Evrópu orku sem dugar fyrir 500 þús. manna borg, ekki meira. Eitt lítið úthverfi í London, eða svo við nefnum dæmi sem margir þekkja, borgina Árósa á Jótlandi við gætum skaffað henni orku, að frá talinni stóriðju þar i kring.

Það er því hreint út sagt kostulegt að hlusta á yfirgengilegar fullyrðingar forseta Íslands í erlendum fréttamiðlum undanfarnar vikur, eins og hér . Það er einfaldlega engin innistæða fyrir ummælum forsetans, þaðan af síður samþykki þjóðarinnar og það liggur fyrir að Íslensk þjóð er klárlega ekki á þeim nótum að fara að virkja allt sem hönd á festir hér á landi.

Ég spyr; Lærði ÓRG ekkert þegar hann fór um heimsbyggðina og með íslenskum útrásarvíkingum um heiminn í einkaþotum þeirra og flutti yfirgengilegar ræður fullar af þjóðrembu? Frægust er ræða hans í Lundúnum 3. maí 2005 er bar titilinn „How to Succeed in Modern Business: Lessons from the Icelandic Voyage“ og lauk með þessum velþekktu orðum : „You ain‘t seen nothing yet.“ og  kom heim lúbarinn.

Hann hafði þaðan af síður þjóðina að baki sér þegar hann flutti lofræður um krónuna og lýsti hrifningu sinni af þeirri aðferð sem tíðkuð væri á Íslandi, að gera reglulega eignaupptöku hjá launamönnum og flytja þannig um fjórðung tekna þeirra til auðmanna.

Aðferð sem forseti Íslands kallar hið "Íslenska efnahagsundur". Já það er nú aldeilisa undur eða hitt þá heldur, reyndar tíðkast það hjá bestu vinum hans í Kína og Rússlandi, sjá hér .

Fer forseti Íslands umboð til þess að falbjóða íslenska orku, eins og hér. Hvaðan kom sú heimild?

Er búið að samþykkja þær virkjanir sem hann er að selja? Þar að auki er til öll sú orka sem hann er að bjóða til sölu. 

laugardagur, 2. nóvember 2013

Munurinn á hráu kjöti og fersku


Samkvæmt málflutning ríkisstjórnar okkar er Íslendingum búin sú sérstaða að elda mat úr ferskum landbúnaðarafurðum frá íslenskum bændabýlum, andstætt því sem tíðkast annarsstaðar í Evrópu, þar eldar fólk mat sinn úr hráum landbúnaðarafurðum þarlendra bænda.

Þetta gerir framleiðslu bænda niður í Evrópu, að mati íslenskra ráðherra, hættulega jafnvel banvæna eins og þeir hafa ítrekað fullyrt og hafa þeir á þeim forsendum komið í veg fyrir innflutning á hráu kjöti frá Evrópu til þess að tryggja að íslenskum heimilum standi til boða einungis ferskt kjöt, ekki hrátt og banvænt ESB kjöt.

Eftirlitsstofnun EFTA hefur sent formlega áminningu til Íslands vegna innflutningsbannsins. Alþingi samþykkti árið 2009 að innleiða breytta matvælalöggjöf Evrópusambandsins í íslensk lög. Samkvæmt EES-reglunum er íslenskum stjórnvöldum skylt að heimila innflutning á fersku kjöti.


Einar K. Guðfinnsson gekk þannig frá málum á sínum tíma þegar hann var landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, að innflutningsbann á kjöti frá Evrópskum bændum yrði afnumið, þá ekki síst sakir þess að það væru ríkir hagsmunir Íslendinga sjávarútvegsins að sömu matvælalög giltu á Íslandi og í ESB. Enda fer um 80% af okkar útflutning þangað og skiðti þetta gríðarlega miklu fyrir Ísland.

Guðni Ágústsson þáverandi landbúnaðarráðherra lét á sínum ráðherratíma Ólaf Oddgerissons dýralækni hjá Food Control Consultants í Bretlandi, vinna álitsgerð árið 2005. Eftir að hafa skoðað hana komst Guðni að sömu niðurstöðu og Einar kollegi hans, að semja ætti við ESB um afnám innflutningsbannsins. Ætla verður sé litið til ummæla Guðna að þar hafi allt verið koðað, einnig hugsanlega aukna hættu á sjúkdómum í mönnum og dýrum.    

 
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið lýsti því yfir í vikunni að það ætli að grípa til varna  og verjast atlögu ESA og hefur ráðið andfætling okkar, nýsjálenskan sérfræðing, til að gera áhættumat vegna innflutnings á hráum dýraafurðum til Íslands og á niðurstaða hans að liggja fyrir á næsta ári.

Nú er það svo að tugir þúsunda Íslendinga fara árlega til Evrópu í orlof, viðskiptaferðir eða að heimsækja ættingja og vini. Á hinum Norðurlöndunum búa nálægt  30 þús. Íslendingar og annarsstaðar í Evrópu búa nálægt 10 þús. Íslendingar. Engar fréttir hafa komið fram um að þetta fólk hafi hlotið bráðan bana vegna matareitrunar á ferðum sínum.

Í starfi mínu á námi undanfarna áratugi hef ég dvalið um lengri og skemmri tíma niður í Evrópu, nokkur barna minna hafa ásamt fjölskyldum sínum verið þar við nám og störf svo árum skiptir.

Ég hef hvergi orðið var við að Íslendingar hafi hrunið niður vegna matareitrunar sem skapist sakir þess að niður í Evrópu eldi fólk úr hráu kjöti í stað þess að elda mat sinn úr fersku kjöti eins og það gerir þegar heim er komið.

„Svona er tvöfeldnin, svona er hræsnin. Þær bakteríur lifa góðu lífi í pólitískum áróðri. Skínandi vitnisburð þess má finna í búnaðarmálaþrasinu íslenzka. Þar aka menn seglum eftir vindi; til dæmis er hrátt, innlent kjöt ævinlega kallað ferskt, en ferskt, erlent kjöt ævinlega hrátt.“ skrifaði Hannes Pétursson skáld í grein fyrr á árinu.