mánudagur, 30. ágúst 2010

ESB og verkalýðsforystan

Eins og oft áður þá fara röklausir menn út í að ráðast að viðmælanda með persónulegum aðdróttunum og komast með því hjá því að svara þeim rökum sem fram eru sett.

Algeng viðbrögð gagnvart mér sjást m.a. í aths.dálkum t.d. hjá Evrópusamtökunum, hvað verkalýðsforstjórinn úr sjálfskipaðri ASÍ-elítunni með að vaða endurtekið inn í ESB umræðuna án þess að hafa til þess umboð. Maður sem með sjálftöku tekur sér 1.6 millj. kr. laun úr sjóðum verkalýðsfélagsins auk margskonar bónusa og uppbóta.

Þar er vitnað til hinnar rætnu umfjöllunar fréttamiðla úr launatímaritum. Þetta er enn eitt dæmið um sápukúluumræðuna sem fjölmiðlar virðast telja vera hlutverk sitt að fóðra og birta hver á fætur öðrum ókannaðar dylgjur, án þess að hafa fyrir því að kanna hvort einhver fótur sé fyrir fréttinni. Þegar ég setti fram leiðréttingu á þessu var það ekki birt. Það var ekki spennandi og eyðilagði hina heimatilbúnu og venjubundnu rætni.

Þetta er eins margir hafa orðið til að benda á ein helsta ástæða þess hversu lítið umræðunni miðar. Fjölmiðlar ganga þar erindi þeirra sem vilja komast hjá því að tekið verði á samfélaginu og því komið upp á betra plan. Ég neita því ekki að viðbrögð Eyjunnar, míns miðils, voru mér mikil vonbrigði og vakti mig til umhugsunar.

Þegar ég hef komist í talfæri við menn sem tala svona um starfsemi stéttarfélaga, þá hafa það undantekningalaust verið einstaklingur sem ekki er í stéttarfélagi og nota svona rök til þess réttlæta það fyrir sér. Eða þá viðkomandi er fyrirtækjaeigandi og er góðkunningi okkar starfsmanna stéttarfélaganna fyrir að brjóta alla kjarasamninga og svíkja starfsmenn sína um umsaminn lágmarkskjör og kemur sér undan því að greiða til samfélagsins og réttlætir þær gjörðir svona málflutning.

Með svona ummælum er í raun verið að niðurlægja ekki mig, heldur það fólk sem situr í miðstjórn og sambandsstjórn Rafiðnaðarsambandsins og hinna 10 aðildarfélaga sambandsins, auk félagsmanna. Því er haldið fram að ég geti vaðið þar um eftirlitslaust og ég kjósi sjálfum mig einhendis til þess að vera í forsvari fyrir sambandið.

Formanni RSÍ er gert að starfa í nánu sambandi við framkvæmdastjórn og miðstjórn. Þar eru m.a. laun mín ákvörðuð, ekki af mér. Laun mín eru bundin einum kjarasamninga RSÍ og þar hef ég verkstjóraálag samkvæmt samningnum. Laun allra starfsmanna sambandsins fylgja sama samning. Laun mín eru um 1/3 af þeirri tölu sem er nefnd hér ofar.

Sú tala sem birtist í launatímaritum og var síðan nýtt í ákaflega rætinni í DV er röng, af þeirri einföldu ástæðu að ég gerði það sama og fjölmargir aðrir gerðu, að taka út séreignarsparnað til þess að gera greiðslubyrði fjölskyldunnar viðráðanlega. Það voru teknir út úr séreignarsjóðunum um 22 milljarðar á síðasta ári og mjög margir í sömu stöðu og ég. Þetta vissu fréttamenn vel, en það hentaði ekki ða birta það.

Stjórn RSÍ og formaður er kosinn á þingum sambandsins. Allar stjórnir aðildarfélaga halda árlega aðalfundi þar sem kosið er um tilnefningar inn á þingið. Þannig að engin kemst í forystu sambandsins á þess að komast í gegnum þessar kosningar. Sama á við um fulltrúa RSÍ innan ASÍ. Það er svo undir hverjum og einum hversu mikla vinnu hann leggur í störf sín og hversu mikil áhrif hann hefur.

Ég hef hitt yfir 1.000 félagsmenn á fundum innan sambandsins frá Hruni, engin talar svona, engin er með svona rætnar fullyrðingar. Þar er talað tæpitungulaust um starfsemina og hvert við eigum að stefna. Þar hefur t.d. ítrekað verið samþykkt að taka verði á efnahagstjórn þessa lands og skipta um taktík. Það gangi ekki að stjórnmálamenn geti sífellt gengið leið hinna fáu á kostnað hinna mörgu.

Valdastéttin hefur eyðilagt reglulega kjarabaráttu almennings með gengisfellingu krónunnar og ástundað stórkostlega eignatilfærslu með því að spila á örgjaldmiðilinn. Þar hafa rafiðnaðarmenn samþykkt margoft að skoða beri hvað okkur standi til boða með inngöngu í ESB. Hvort það geti verið leið til þess að við fáum stöðugan gjaldmiðil og höldum kaupmætti. Það blasir nú við öllum að ekki verður gengið lengra þá leið sem við förum. Fyrirtækin eru að verslast upp og við erum að tapa góðum atvinnutækifærum. Eftir sitja illa borguð störf sem fáir vilja sinna.

Stjórnvöld og sveitarstjórnir samþykktu að ganga þessa leið endurskoðunar. En séreignaröflin og ónýtt kerfi stjórnvaldsins berst gegn því með kjafti og klóm og virðast ætla að takast það með aðstoð slakra fjölmiðla að koma í veg fyrir að launamenn fái að skoða stöðu okkar gangvart ESB til hlítar.

Eftir tvo mánuði renna allir kjarasamningar út. Ef sú verður raunin að viðræðum við ESB verði hafnað, ekkert eigi að gera í efnahagsstjórninni utan þess að hækka skatta og ekki á að taka til í ríkisbúskapnum mun það verða nánast útilokað að kjarasamningar takist nema að undangegnum miklum átökum á vinnumarkaði. Það er reyndar það síðasta sem fársjúkt þjóðarbú íslendinga þarf á að halda.

Ég veit það vegna starfa minna innan norrænu og evrópsku stéttarsambandanna, að ef svo fer mun Ísland verða nánast afskrifað og látið um að spjara sig án aðstoðar. Það mun þýða að fjármögnun, fyrirtækja og sveitarfélaga verður nánast óframkvæmanleg, vegna óbærilegra vaxta og það verður að skera velferðarkerfið enn meira niður og hækka skatta enn meira. Það mun svo þýða að enn fleiri munu flytja héðan og hagkerfið minnka enn meira og hafa enn minni burði til þess að komast upp úr lægðinni.

Þaðan er sú heimild kominn sem ég hef til þess að koma þessum skoðunum á framfæri. En ég þarf reyndar enga heimild, því í Rafiðnaðarsambandinu er nefnilega sú staða að félagsmönnum er fullkomlega heimilt að hafa skoðun, líka formanni sambandsins.

Það er hreint út sagt ótrúlegt að menn skulu yfir höfuð segja að ég megi ekki taka þátt í þjóðfélagsumræðunni af því ég er formaður stéttarsambands.

sunnudagur, 29. ágúst 2010

Afvegaleidd umræða

Öll vitum við að helsta niðurstaða Rannsóknarskýrslunnar var falleinkunn á íslensku stjórnsýsluna. Ljóst er að þar þarf að taka til og það skiptir engu hvort við göngum í ESB eða ekki. Ef við tökum ekki til munum við búa áfram við hinn dýra óstöðugleika sem veldur lækkandi kaupmætti, háum vöxtum og háu verðlagi.

Við sjáum það að á málflutning NEI manna að þeir vilja ekki þessar umbætur, enda blasir við að þar fara fremstir í flokki sérhyggjumenn sem hagnast á því að núverandi ástand verði áfram, svo þeir geti áfram ástundað valdabrölt og eignatilfærslur frá launamönnum til fárra. Afleiðingar þessa blasa við, Ísland hefur tapað efnahagslegu fullveldi og á allt undir því að fá lán sem eru niðurgreidd af vinaþjóðum okkar og AGS.

NEI-menn beita öllum brögðum í bókinni til þess að afvegaleiða umræðuna. Þeir hafa til þess tvo fjölmiðla, sem reknir eru að útvegsmönnum og bændaforystunni með ríkisstyrkjum. En það sem verra er að aðrir fjölmiðlamenn láta ítrekað afvegaleiða sig með fullyrðingum sem blasir við, ef málið er skoðað, að eru klár endaleysa.

Með þessari stefnu er stefnt að því að Ísland verði láglaunasvæði með gamaldags efnahagsstjórn, háum vöxtum og verðtryggingu. Eignamenn græða á vaxtamun og nýta sér aðstöðuna til þess að spila með gengi hennar.

53% af viðskiptum Íslands fara fram í Evrum, þannig að liðlega helmingur gengisáhættu íslendinga hverfur við upptöku evru. Norska krónan er með 4% af viðskiptum okkar dollarinn 11% og Kanadadollar 1%. En sumir hafa nefnt þessar myntir til þess að komast hjá því að ræða þessi mál á málefnalegan hátt og drepa vitrænni umræðu á dreif.

Innganga í ESB og upptaka evru er ekki skyndilausn eins og NEI-menn hafa haldið fram. Hún er nauðsynleg framtíðarlausn ef við ætlum að losna við óábyrga efnahagsstjórn, þar sem mistök íslenskra stjórnmálamanna hafa endurtekið verið leiðrétt með því að sveifla krónunni með skelfilegum afleiðingum fyrir launamenn. Meiri verðbólgu, hærri vexti og hærra verðlag.

Árið 1951 stofnuðu Belgía, Frakkland, Ítalía, Lúxemborg og Þýskaland til samvinnu í þungaiðnaði sem gekk mun lengra en gengur og gerist í milliríkjasamningum. Það var undanfari ESB. Þá var verið að undirbyggja framtíð og komast úr vítahring styrjalda og tryggja frið. Þetta samstarf þróast og þann 1. jan. 2002 var Evran tekin í notkun. Hvatinn henni var að tryggja efnahagslegt mótvægi við BNA og tryggja samkeppnistöðu og auka með því atvinnu.

Ef við skiptum um mynt mun áhættuálag Íslands lækka töluvert. Það munar gríðarlega um hvert prósentustig í vöxtum eins og komið er fyrir Íslandi með hinar svimandi háu skuldir. Hvert prósentustig lækkar vaxtagreiðslur íslenska hagkerfisins um nokkra milljarða.

Íslenska krónan er við hlið evrunnar eins og korktappi við hlið skips af stærstu gerð. Örgjaldmiðilinn var auðveld bráð á spilaborðinu þar framkallaðar voru miklar sveiflur og auðmenn högnuðust enn meir á meðan venjulegar fjölskyldur bjuggu við hækkandi verðbólgu og vexti vegna þessa ástands.

Sveiflur krónunnar hafa leitt til þess að sparnaður og aðgát í fjármálum er íslendingum ekki eðlislægt eins og komið hefur fram í könnunum. Fjármálalæsi íslendinga er ákaflega lágt, borið saman við nágrannaþjóðir okkar. Það mun reynast vonlaust að laga það á meðan við búum við örgjaldmiðil.

Danmörk er að greiða 1 – 1,5% hærri vexti fyrir það að vera með danska krónu í stað evru. Það liggur fyrir að við munum greiða a.m.k. 3,5% aukalega hærri vexti á meðan við höldum krónunni.

Ég átta mig ekki á því hvers vegna hagsmunir launamanna hafa ekki náð flugi í umræðunni um aðild að ESB. Stöðugleiki skiptir launamenn miklu, það veldur því að hann glatar ekki þeim kaupmætti sem hann hefur náð í kjarabaráttunni. Nokkrir helstu andstæðingar inngöngu hafa haldið því fram að krónan sé til hagsbóta sakir þess að „þá sé hægt blóðsúthellingalaust að leiðrétta of góða kjarasamninga launamanna“ svo ég noti þeirra eigin orð.

Þetta upplifa íslenskir launamenn reglulega þegar stjórnvöld hafa ítrekað með einu pennastriki eyðilagt árangur mikillar og langvinnrar kjarabaráttu og svo einkennilegt sem það nú er að síðan er veist að stéttarfélögunum vegna slakra launakjara. Nú stendur enn eina ferðina yfir gríðarleg eignatilfærsla og reikningurinn er sendur launamönnum.

Sömu bjálfarökum er haldið fram þegar bent er á hversu slakt Almenna tryggingarkerfið þar komast menn upp með að benda á verkalýðshreyfinguna og slakir fjölmiðlar súpa hveljur yfir því. En samt vitum við öll að ákvarðanataka um Almenna bótakerfið fer fram á Alþingi og í stjórnsýslunni, ekki hjá verkalýðshreyfingunni.

Staða krónunnar er allt of lág. Með því að halda krónunni svona lágri er verið að skapa nýjan heimatilbúinn og gríðarlegan vanda, í formi aukinna skulda upp á þúsundir milljarða. Það veldur mikilli eignarýrnun, greiðsluþroti og gjaldþrotum. Ávinningurinn kemur þá í hlut fárra útvalda (skuldlausra). Því er haldið að okkur að sveigjanleikinn er dýru verði keyptur og það er íslenskur almenningur sem borgar þann brúsa, t.d. með því að borga þegar upp er staðið 4 - 5 sinnum meira en t.d. Danir og Svíar fyrir þakið sem hann byggir yfir sig og sína.

föstudagur, 27. ágúst 2010

76% Dana ánægðir í sínu fullvalda ríki

Hef verið við störf í Kaupmannahöfn undanfarna daga á fundum innan norræna rafiðnaðarsambandsins. Ég hef verið töluvert í Danmörku í gegnum árin við nám og síðar störf. Auk þess að 2 af börnum mínum og tengdabörnum voru í háskólum hér.

Europarameter birti áhugaverðar tölur í gær en sú stofnun sér um að mæla almenningsálitið í Evrópusambandsríkjunum svo og umsóknarríkjum - því er Ísland í fyrsta sinn þátttakandi. Í ljós kemur að svo virðist sem frændur okkar Danir séu kampakátir með aðild sína að ESB en 76% þeirra telja áhrif aðildar hafa bætt hag Danmerkur. Finnar eru hógværari en 54% er þessu sammála fyrir Finnland, 52% Svía eru telja svo aðild hafa bætt hag Svíþjóðar.

Íslendingar eru öllu svartsýnni á að aðild geti bætt hag sinn en þó telja 29% ESB muni bæta hag Íslands - en eins og fyrr er vert að benda á að það er ágætis útkoma miðað við að enn er alveg óljóst hvernig samningurinn við ESB mun líta út.

Það er svo einkennilegt hvernig menn haga sér allt öðruvísi hér en heima. Þegar íslendingar setjast hér að þá rennur af þeim hið ofsafengna kapphlaup um stóra bíla og risahús. Hér er lagt upp úr að eiga góða eftirmiðdaga með börnum að loknum vinnudegi og frí um helgar.

Engum hér myndi detta í hug að skuldsetja sig eins og við gerum heima, enda myndu danskir bankar og þaðan af síður dönsk stjórnvöld heimila þá skuldsetningu sem íslensk stjórnvöld heimiluðu íslenskum bönkum að steypa heimilunum í. Kaupmannahöfn er eins og flestum íslendingum vel kunnugt um höfuðborg hins fullvalda ríkis Danmerkur, sem er innan Evrópusambandsins, auk þess að vera í víðtæku samstarfi við önnur fullvalda norræn ríki eins og Svíþjóð, Finnland, Noreg og Ísland.

Það kemur furðusvipur á Dani, ef maður spyr þá um hvort þeir telji siga hafa afsalað sér fullveldi með inngöngu í ESB, eins og sumir fyrrv. íslenskra ráðherra og nokkrir alþingismenn halda blákalt fram. Furðusvipurinn breytist svo í hálfgerðan hæðnishlátur. „Æi þið íslendingar eru alltaf svo skrítnir. Þið hélduð að það væri nóg að fá stór lán og þá væruð þið bestir í heimi.“

Finnarnir á fundinum tóku undir að ESB styðji vel við jaðarþjóðir og þeir hafi notið góðs af því sama gildi um norðurhluta Svíþjóðar. Við höfum aldrei haft eins mikil völd og nú segja, enda eru Finnar geysilega duglegir við að starfa innan ESB. Norrænu þjóðirnar. Eftir að þeir gengu í ESB hefur áratuga landlægt atvinnuleysi þeirra snarminnkað og er í dag um 4%. Í Danmörku er sáralítið atvinnuleysi þrátt fyrir að í landinu eru um 200 þús. erlendir launamenn.

Danir benda á að þeir séu í viðskiptasamstarfi við önnur Evrópuríki, það er gert til þess að tryggja samkeppnisstöðu fyrirtækja á Evrópska efnahagssvæðinu gagnvart öðrum heimshlutum. Íslendingar hafa notið góðs af þessu og tilvist Evrópusambandsins er eins og oft hefur komið fram helsta ástæða gríðarlegs uppgangs íslenskra fyrirtækja.

Danir bjuggu við nákvæmlega sömu heimsbankakreppu og önnur ríki þar á meðal Ísland. En verðbólga þar hefur hækkað lítillega. Dönum standa til boða óverðtryggð lán til íbúðarkaupa á 5 – 6% vöxtum. Verðlag í búðum hér er lægra ekki bara í matvöru, það er ótrúlegur munur á verðlagi byggingarefnis. Kaupmáttur hefur haldist þrátt fyrir kreppuna og gjaldmiðill þeirra stendur.

Hanna Birna og klækjastjórnmálin

Öllum er kunnugt um hvernig borgarstjórnarfulltrúar sjálfstæðismanna ásamt framsóknarflokks hafa nýtt OR sem pólitískan leikvöll í þeim klækjastjórnmálum sem hafa ástundað á undanförnum árum.

T.d. þegar þeir voru að stofna REI og fleiri batterí og mátu þekkingu starfsmanna á 10 milljarða. Mörgum starfsmönnum hefur þótt pínlegt að vera gert að hlusta á tæknilegar lýsingar yfirlýsingar stjórnmálamanna þegar þeir komu fram í fjölmiðlum sem forsvarsmenn OR.

Þeir skipuðu sjálfa sig í stjórnir og nefndir ávegum fyrirtækisins og samþykkt að greiða sjálfum sér stjórnarlaun sem samsvöruðu allt að mánaðarlaunum starfsfólks. Farið á vegum fyrirtækisins til annarra heimsálfa og undirritaðar viljayfirlýsingar um efni sem þeir höfðu ekki minnsta skilning á og þaðan af síður nokkra tæknilega þekkingu.

Allt þetta hefur spillt starfsandann innan fyrirtækisins. Á það var bent á sínum tíma af rafiðnaðarmönnum, að það væri í raun verið að skattleggja starfsmenn OR tvisvar þegar borgarstjórn Hönnu Birnu ákvað þrátt fyrir að lækka laun starfsmanna en taka það út sem arðgreiðslu. Hanna Birna og borgarfulltrúar hennar fóru þá geyst í fjölmiðlum og sögðu þá starfsmenn sem mótmæltu þessu vera á móti leikskólum.

Nú stendur þetta áður öfluga fyrirtæki eftir sem rústir einar, eftir hátterni fyrri borgarstjórna, en þá vill Hanna Birna ásamt sínum borgarstjórnarfulltrúum ekki kannast við eigin gerðir og hafnar að taka þátt í endurreisn fyrirtækisins.

Þetta er dæmigert hátterni hins ábyrgðarlausa íslenska stjórnmálamanns.

fimmtudagur, 26. ágúst 2010

Ísland í ruslflokki

Ég er búinn að vera á ársfundi Norræna rafiðnaðarsambandsins undanfarna daga. Við íslendingarnir erum mikið spurðir um ástandið heima. Það verður að segjast alveg eins og það er, við erum í stökustu vandræðum með útskýra fyrir þeim hina pólitísku stöðu. Hinir norrænu félagar hrista hausinn og endurtaka það sem þeir hafa sagt undanfarin ár; „Íslendingar verða að fara að gera sér grein fyrir hver staða þeirra er, annars mun fara enn verr hjá þeim. Gamaldags sjónarmið og úrelt efnahagstjórn hefur komið Íslandi í þau vandræði sem landið er í.“

Hvernig í veröldinni á maður t.d. að útskýra hvert Lilja Mósesdóttir formaður viðskiptanefndar Alþingis er að fara þegar hún krefst þess að stjórnvöld slíti samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn eigi síðar en 30. nóvember undir að því virðist húrra hrópum órólegu deildarinnar hans Ögmundar og xD manna.

Það er ekki traustvekjandi þegar formaður viðskiptanefndar Alþingis talar svona, mesta áhyggjuefni okkar hlýtur að vera fjármögnun og lánstraust ríkisins. Það blasir við að vaxtagjöld verða stærsti póstur í ríkisútgjöldum í framtíðinni, skuldirnar eru gríðarlegar og hvert prósentustig í vöxtum og aðgangur að lánsfjármagni skiptir öllu um afkomu ríkissjóðs og hversu hratt okkur tekst að rífa okkur upp.

Ísland er í ruslflokki hvað varðar lánstraust. Landsvirkjun, OR og reyndar öll íslensk fyrirtæki eru í vandræðum með að fjármagna sig og eru að gera kröfu um að fá sparifé launamanna í lífeyrissjóðunum að láni á vöxtum langt undir eðlilegri ávöxtun.

Það liggur fyrir að Íslendingar eru að fá erlend lán sem eru niðurgreidd af AGS og hinum Norðurlöndunum. Það liggur einnig fyrir að Norðurlöndin settu það sem skilyrði að ef þau ættu að koma Íslandi til hjálpar yrði það ekki nema í gegnum AGS. Íslensk stjórnvöld voru búinn að eyðileggja allt traust landsins. Þá hlýtur maður að ætlast til þess að stjórnvöld séu búinn að leggja það niður fyrir sér hvað eigi að gera þegar AGS fer.

Þegar AGS fer hvað tekur þá við? Lánstraust Grikklands og Íslands er það sama. Grikklandi er haldið á floti með ESB björgunarhring. Það er mikið ábyrgðarleysi og skammsýni að senda AGS á brott án þess að hafa gert viðunandi ráðstafanir í fjármögnunar- og gjaldmiðlamálum landsins. Nú eru allir kjarasamningar að losna og tveim árum á eftir hrun erum við með litla framtíðarsýn. Enginn flokkur hefur komið fram með nýjar hugmyndir á þessu tímabili og Alþingi með allt niðrum sig í endalausum og tilgangslausum átakastjórnmálum.

Hvað með framtíðargjaldmiðilinn og höftin? Það hefur komið fram vaxandi óánægja meðal launamanna að stjórnmálamenn séu endurtekið að eyðileggja kjarabaráttuna með því að fella gengi krónunnar. Frá stofnun Rafiðnaðarsambandsins 1970 hefur verið samið um tæplega 4.000% launahækkun. Á sama tíma hefur danska rafiðnaðarsambandið samið um 330% launahækkun.

Í könnun sem gerð var innan Norræna rafiðnaðarsambandsins í lok ársins 2007 kom fram að íslenskir rafiðnaðarmenn voru búnir loks að ná svipuðum kaupmætti og danskir kollegar okkar höfðu, við vorum rétt á eftir Norskum, en fyrir ofan Svía og Finna.

Þá þurftum við að greiða liðlega 10 kr. fyrir eina danska krónu. Í dag þurfum við að greiða 21 kr. og kaupmáttur okkar er á svipuðu róli og hann var árið 2002 og virðist fátt stefna í þá átt að það muni batna mikið á næstunni og við verðum áfram í rusldeildinni. Besta fólkið er byrjað að flytja fer, hagkerfið minnkar og aflið til þess að komast upp um deild verður sífellt minna.

mánudagur, 23. ágúst 2010

Já það er kominn tími á breytingar

Það hefur verið áberandi að þeir sem hvað ákafast gagnrýna stéttarfélögin eru ekki félagsmenn eins t.d. Þorleifur gerir hér á Eyjunni.

Málflutningur þeirra einkennist af órökstuddum dylgjum og fullyrðingum um starfsemina. Áberandi er að þessi einstaklingar tala eins og þeir séu að réttlæta það fyrir sjálfum sér að standa utan stéttarfélaga, "Vínberin eru súr" málfutningur.

Ljóst er að það þarf að breyta um stefnu hvað varðar kjarasamninga og er sú umræða hafinn. Vanhæfir stjórnmálamenn hafa ætíð farið þá leið að leiðrétta efnahagsleg mistök sín í gegnum gengisfellingar krónunnar. Áberandi er að sjálfstæðismenn og VG menn vilja ákaft halda áfram í þessa stefnu. Þeir hamast við að níða niður kjarasamninga og stéttarfélögin. Við öllum blasir hin mikla mótsögn í þessum málfutning, sem einkennist af réttlætingu eigin afglapa.

Íslensku stéttarfélögin hafa undanförnum áratugum samið um tæplega 4.000% launahækkanir, en stjórnmálamenn hafa jafnharðan alltaf eyðilagt þessa baráttu. Á sama tíma hafa t.d. danskir launamenn samið um liðlega 300% launahækkun. Þeirra kaupmáttur stendur og skuldastaða heimila þeirra stendur eðlilega. En hver er staðan á Íslandi?

Það kaupmáttarhrun sem hér varð er ekki stéttarfélögnum að kenna, þar er við slaka stjórnmálamenn að sakast.

Ljóst er að um þetta verður tekist í komandi kjarasamningum. Vaxandi kröfur eru um að samið verði um í Evrum til þess að losna undan ofurvaldi slakra stjórnmálamanna á launakjörum landsmanna.

sunnudagur, 22. ágúst 2010

Burt með lélega stjórnmálamenn.

Inn um lúguna barst í gær Reykjavík nýtt, vikublað. Ágætis blað utan þess að þar er einhver ómerkilegasta bullgrein sem ég hef lesið um verkalýðshreyfinguna eftir Þorleif Gunnlaugsson borgarfulltrúa sem kynnir sig sem oddvita VG. Þar skrifar greinilega maður sem ekki er þátttakandi í stéttarfélagi og veit ekkert um hvað hann er að skrifa. Þorleifur veitist að starfsmönnum stéttarfélaga með rakalausum dylgjum og rógburði.

Til að byrja með vill ég leiðrétta það sem hann vitnar til um launakjör starfsmanna stéttarfélaga. Laun sem birtast í launatímaritum t.d. DV segja oft ekkert til um raunlaun fólks. Þar má t.d. benda á mig, því er haldið fram að ég sé með 1,5 millj. kr. í laun hjá Rafiðnaðarsambandinu. Þetta er vel liðlega helmingi hærra en ég hef í laun hjá RSÍ, m.a. vegna þess að ég eins og mjög margir aðrir tók út séreignarsparnað til þess að laga skuldastöðu fjölskyldunnar og gera greiðslubyrði viðráðanlega. DV er búið að leiðrétta þetta, en Þorleifur kýs að gera það ekki, enda ber greinin glöggt vitni um hvers konar málflutning hann ástundar.

Kunnugt er að það voru teknir um 22 milljarðar út úr séreignareikningum á síðasta ári. Ég er eins og aðrir starfsmenn stéttarfélaga á launum samkvæmt kjarasamningi RSÍ. Þriðjungur félagsmanna er með hærri heildarlaun en ég og liðlega helmingur með hærri föst laun. Ég þekki allmarga starfsmenn stéttarfélaganna, engin þeirra er á mála hjá einhverjum fyrirtækjum eins og Þorleifur dylgir með í sínum ómerkilega rógburði.

Þorleifur talar um ASÍ eins og það sé stéttarfélag. ASÍ er sameiginleg skrifstofa sem stéttarfélög á almennum markaði reka. Þangað eru ráðnir sérfræðingar á ýmsum sviðum til þess að sinna sérverkefnum, eins og t.d, vinnu við greiningu á hagkerfinu og viðbrögðum við laga- og reglugerðarsetningu hins opinbera. Hagstofa ASÍ er sú eina sem getur státað af því að hafa verið með rétta greiningu á því hvert stjórnmálamenn eins og t.d. Þorleifur voru að leiða Ísland.

ASÍ heldur ekki félagsfundi, það eru stéttarfélögin sem gera það, þau hafa samningsréttinn. T.d. má benda á að Rafiðnaðarsambandið hélt á síðasta ári fundi þar sem mættu liðlega 1.000 félagsmenn og hefur félagsleg starfsemi aldrei verið öflugri en nú. Umræðan á þeim fundum var ekki eins og Þorleifur heldur fram, enda veit hann greinilega ekkert um starfsemi stéttarfélaga.

Starfsemi stéttarfélaga hefur aldrei verið jafnumfangsmikil og hún hefur verið eftir Hrun. Gríðarlegt álag hefur verið á starfsmenn stéttarfélaganna og þar má t.d. benda á að styrkir Rafiðnaðarsambandsins til félagsmanna var á síðasta ári um 100 millj. kr. hærri en í venjulegu árferði. Ásókn í símenntunarnámskeið á vegum sambandsins hefur aldrei verið meiri, sama má segja um orlofskerfi sambandsins.

En við eigum við að stríða lélega stjórnmálamenn, eins og t.d. Þorleif, sem ríghalda í það efnahagskerfi sem Ísland hefur, þar sem þeir leiðrétta efnahagsleg mistök með því að fella krónuna. Um leið eyðileggja þeir margra ára kjarabaráttu launamanna, blóðsúthellingalaust. Þetta vill Þorleifur ekki að sé rætt um og ræðst að stéttarfélögunum til þess að draga athyglina frá eigin getuleysi.

Í könnun sem gerð var fyrri hluta árs 2008 voru meðalheildarlaun íslenskra rafiðnaðarmanna um 500 þús. eða svipuð og í Noregi og kaupmáttur sá hæsti á Norðurlöndum, en meðalvinnutími rafiðnaðarmanna var 45 klst. á viku meðan hann var 40 klst. annarsstaðar á Norðurlöndum. Föst laun voru svipuð og í Danmörku nokkuð lægri en í Noregi hærri en í Svíþjóð og nokkuð hærri en í Finnlandi.

Í dag eru laun íslenskra rafiðnaðarmanna um það bil helmingi lægri en laun rafiðnaðarmanna í Noregi, rafiðnaðarmenn í Noregi fá 230 Nkr á tímann í dagvinnu, danskir rafiðnaðarmenn eru með um 210 Dkr, rafiðnaðarmenn á Íslandi eru með um 100 Dkr. auk þess að verðlag hefur hækkað, skuldir snaraukist og kaupmáttur fallið.

Þetta er ekki fyrsta skipti sem launamenn ganga í gegnum efnahagssveiflu, en hún er mikið stærri núna en áður. Þar má minna á stóru niðursveifluna 1968 - 1972 og svo mikla fallið fyrir 1990, og svo um aldamótin. Alltaf hefur það verið leiðrétt af stjórnmálamönnum með því að fella krónuna og um leið eyðilagt kjarabaráttu launamanna auk eignatilfærslu til fárra.

Sveigjanleiki krónunnar er dýru verði keyptur og launamenn borga þann brúsa, t.d. með því að borga þegar upp er staðið 4 – 5 sinnum meira en t.d. Danir og Svíar fyrir þakið sem hann byggir yfir sig og sína. Frá árinu 1995 og til ársloka 2007 var vaxtamunur við útlönd að meðaltali um 5%. Gengi krónunnar var nánast hið sama í lok þessa tímabils og það var í upphafi.

Nú standa yfir fundir innan stéttarfélaganna til undirbúnings komandi kjarasamningum. Þar er áberandi að félagsmenn vilja leggja mikið í sölurnar til þess að takmarka vald stjórnmálamanna til þess að eyðuleggja kjarabaráttu okkar, m.a. með því að skipta um gjaldmiðil. En eins og kunnugt er þá berjast Þorleifur og félagar hans gegn því.

Nú þegar eru allnokkrir félagsmenn okkar með kjör sem bundin eru Evru, eins og t.d. rafiðnaðarmenn sem vinna hjá hátæknifyrirtækjunum og nú vilja fleiri feta í þau spor. Já það er rétt hjá Þorleifi að það er kominn tími til breytinga, burt með lélega stjórnmálamenn og þeirra hagstjórn.

fimmtudagur, 19. ágúst 2010

Undirbúningur komandi kjarasamninga

Nú er vinna við undirbúning kjarasamninga að hefjast, en eins og flestir vafalaust vita þá renna nær allir kjarasamningar út í lok nóvember. Nýlega hafa komið fram óskir frá ríkisstjórn og SA um að aðilar setjist niður og vinni að sameiginlegum þríhliða kjarasamning til þriggja ára.

Í gærkvöldi var fjölmennur fundur í forystu hinna 10 aðildarfélaga Rafiðnaðarsambandsins með forseta ASÍ þar sem þessi mál voru rædd. Fram komu efasemdir meðal rafiðnaðarmanna um hvort þetta væri framkvæmanlegt þá ekki síst vegna þess að ríkisstjórnin hafi ekki staðið við alla þætti Stöðugleikasamningsins. Bæði SA og ASÍ hafi margoft kvartað undan því. Fram kom að Stöðugleikasáttmálinn hefði tryggt að umsamdar hækkanir kjarasamninga náðust og sú leið sem farin hefði verið hafi verið skynsamleg. Ef sú leið hefði ekki verið farin hefðu umsamdar hækkanir á lágmarkstöxtum glatast.

En rætt var um vanefndir ríkisstjórnar hvað varðar framkvæmdaþátt Stöðugleikasáttmálans, þar sem hafi ríkt kyrrstaða mánuðum saman. Ríkisstjórnin ræðir þessa dagana um minnkandi atvinnuleysi, en í raun sé það ekki rétt störfum hafi ekki fjölgað. Þar var bent á félagsskrá Rafiðnaðarsambandsins, það er rétt að skráð atvinnuleysi hefur verið lágt meðal rafiðnaðarmanna eða um 3 – 3,5%, en líta verður á að félagsmönnum hefur fækkað frá Hruni um 1.000 eða um 20%, það skiptist um það bil í helminga að menn hafi flutt erlendis eða farið í nám.

Fjöldi atvinnutilboða til íslenskra rafiðnaðarmanna hefur reglulega borist hingað og m.a. verið birt á heimasíðu RSÍ og eins í atvinnuauglýsingum dagblaða. Íslenskir rafiðnaðarmenn eru eftirsóttir vegna víðtækrar þekkingar og reynslu. Fyrir liggur að mjög stórir hópar eru með uppsagnarbréf sem taka gildi í október. Undirstöðuþættir eins og virkjanir sem búið er að samþykkja að reisa og nauðsynlegt að fara út í sama hvort álver verði byggð eða ekki hafa ekki farið af stað. Gagnaver og fleiri verkefni sem ríkisstjórnin hefur haldið á lofti hafa heldur ekki farið af stað.

Einnig má minna á kostulega afstöðu ríkisstjórnarinnar til Starfsendurhæfingarsjóðs þar er hefur allt verð svikið af hálfu ríkisstjórnarinnar. Eins margítrekuð inngrip ríkisstjórnar í stofnanir sem snerta vinnumarkað eins og Vinnueftirlit og Vinnumálastofnun. Síðan Starfsendurhæfingarsjóður var settur á laggirnar hefur hann skilað ótrúlegum árangri í að koma fólki til aðstoðar við að koma fótunum undir sig aftur og eins hefur skráningum öryrkja fækkað umtalsvert. Starfsmenn RSÍ hafa orðið varir við ákaflega mikla ánægju með hið öfluga starf sem Starfsendurhæfingarsjóður hefur þegar skilað.

Einnig er óleyst hin gríðarlega mismunum á lífeyrismálum launamanna á almennum markaði og tiltekins hóps launamanna hjá hinu opinbera. Fyrir liggja ályktanir frá rafiðnaðarmönnum og fleiri samtökum innan ASÍ að það mál verði að leysa í komandi kjarasamningum.

En fyrst og síðast er það vitanlega kaupmáttur launamanna sem menn ræddu á fundinum. Áberandi þáttur í því þríhliða samstarfi sem Stöðugleikasáttmáli átti að endurspegla var vinna við að undirbúa uppbyggingu hagkerfisins til framtíðar um leið að koma atvinnulífinu af stað. Þar hafa stjórnmálamenn algjörlega gleymt sér í sínum venjubundnu átakastjórnmálum og bófahasar á Alþingi.

Bófahasarinn hefur einnig orðið til þess að stjórnmálamönnum hefur ekki tekist að leiða skuldauppgjör lána heimilanna til lykta. Afleiðingar þess að Icesavemálinu var ekki leitt til lykta blasa við í takmörkuðu fjármagni til uppbyggingar atvinnulífs, nema þá á okurvöxtum. Stjórnmálamenn hafa komið Íslandi í ruslflokk með hátterni sínu.

Kanna átti möguleika til þess að fá stöðugan gjaldmiðil og vinna sig frá þeim ofboðslegu sveiflum sem launamenn hafa orðið að sætta sig og rýrnum kaupmáttar sem því hefur fylgt. Hluti af því er könnun á því hvað Íslendingum stæði til boða innan ESB, þessu hafa stjórnmálamenn klúðrað með því að snúa þeim málum upp í venjubundið Morfísþras.

Á meðan krónan er við lýði skiptir það ekki miklu þó launamenn berji fram launahækkanir, stjórnmálamenn hafa reglulega nýtt örgjaldmiðilinn til þess að leiðrétta hagstjórnarmistök með því að fella „blóðsúthellingalaust“ of góða kjarasamninga launamanna eins og er að gerast þessa dagana. Það var eitt af meginmarkmiðum þríhliða samstarfs við gerð Stöðugleikasáttmála var að tryggja endalok þessa ferlis og tryggja varanlegri stöðugleika.

Öll fjölgun starfa meðal rafiðnaðarmanna á undanförnum tveim áratugum hefur átt sér stað hjá tæknifyrirtækjum, ekki í sjávarútvegi eða landbúnaði. Fram hefur komið hjá forsvarsmönnum þessara fyrirtækja að þeir sjái ekki framtíð með krónuna og utan ESB.

Að teknu tilliti til framantalins er ljóst að margt þarf að koma til ef rafiðnaðarmenn ganga til sameiginlegra þríhliða kjarasamninga. En það breytir ekki þeirri skoðun rafiðnaðarmanna að sameiginleg vinna stjórnmálamanna og aðila vinnumarkaðs sé raunsær möguleiki til þess að koma kaupmætti sem fyrst í svipað horf og hann var árið 2005. Allir viti í dag að það sem gerðist frá 2005 fram að Hruni hafi verið heimatilbúinn innistæðulaus froða og reikningurinn af henni hefur verið sendur til launamanna.

miðvikudagur, 18. ágúst 2010

Fréttamat

Það er ótrúlegt fréttamat að ummæli um að ríkisstjórn eigi að greiða niður skuldir eftir Guðlaug Þór dragi inn á fréttasíður. Guðlaugur Þór var í ríkisstjórn sem bjó til þessar skuldir og kom ríkisskassanum í þá stöðu að ráð ekki við ríkisútgjöldin. Nú liggur fyrir að það verður að skrar niður rekstur hins opinbera um 30% en þingmenn hringsnúast og hafa ekki buðrir til þess að takast á við það verkefni. Nokkuð sem ég er búinn að spá margoft hér á þessari síðu að myndi gerast.

Hann var í ríkisstjórnum og stuðningsmaður ríkisstjórnum sem fylgdu sömu stefnu um að lækka skatta á hinum hæst launuðu á toppi þennslunnar, sem gerði það að verkum að þá lá fyrir að skattar í eðlilegu árferði myndu ekki duga fyrir rekstri hins opinbera. Guðlaugur Þór var í ríkisstjórnum sem juku mest allra umfang ríkisreksturs. Hann var í ríkisstjórn sem jók einnig skatta á hinum lægst launuðu.

Hann var í ríkisstjórnum sem skópu þann vanda sem við erum í og skuldsetti Ísland í kaf. Það var reyndar falið með efnahagsbrellum eins og krónubréfum og fleiru. Maður sem var í ríkisstjórn sem setti okkur í Icesave hnútinn og maður sem stendur í mjög vafasömum sporum m.a. vegna styrkja. Þessir hinir sömu hafa svo staðið í vegi fyrir því að hægt sé að leysa Icesave hnútinn með ómerkilegustu vinnubrögðum sem sést hafa á Alþingi.

Mann setur einnig hljóðan þegar fyrrverandi stjórnarþingmenn eins og t.d. Bjarni Ben og Guðlaugur Þór fara að gagnrýna eitthvað sem þeir kalla pólitískar ráðningar. Þeir voru í ríkisstjórnum sem sniðgengu allar reglur við ráðningar í Hæstarétt, Héraðsdóm, prófessora við Háskólann og fjölda sendiherra. Gengu framhjá áliti nefnda um hæfni og réðu flokkspólitíska vini og vandamenn.

Þeir voru í ríkisstjórnum sem komu íslenska hagkerfinu í þá stöðu að lánstraust okkar féll í ruslflokk og öll nágrannalönd okkar höfnuðu að lána Íslandi nema í gegnum AGS og íslenskar ríkisstjórnir ásamt Seðlabanka yrðu settar undir stjórn AGS. Ríkisstjórnum sem hafa komið Íslandi í þá stöðu að við erum í dag eina norðurlandaríkið sem ekki er minnst á í könnunum um hvar best er að lifa.

En það er einnig hætt að gagnrýna fleira í þessu sambandi. Hvernig menn eru eru dæmdir morðingjar áður en fyrir liggja sannanir. Nafnlausar greinar í MBL, það er leiðarar, Staksteinar og Reykjavíkurbréf, þar sem einstaklingar er nánast daglega teknir af lífi með einhverjum rakalausum upphrópunum og dylgjum. Sem verða svo að einhverjum staðreyndum hjá framantöldum og fylgjendum þeirra.

Einnig mætti velta fyrir sér kostulegt upphlaup vegna Þjórsárvera og t.d. bera það saman við umfjöllun um virkjanir í neðri hluta Þjórsá. Þjórsárver eru svæði sem eru einstakt náttúrvætti. En bakkar neðri hluta Þjórsár eru undirlagðir af túnum og fleiri manngerðum verkum þar sem viðkomandi bóndi gerir það sem honum sýnist. Rennslið í neðri hluta Þjórsár er það jafnt að lítil lón þurfa að vera við fyrirhugaðar virkjanir, einungis 10% þeirra fer út fyrir núverandi árfarveg.

þriðjudagur, 10. ágúst 2010

Rætin fréttamennska hjá Eyjunni

Hef verið í fríi undanfarið og á flakki víða um landið og þar af leiðandi ekki fylgst mikið með netinu og fréttum yfirleitt.

Sá það núna áðan þegar ég kom heim að Eyjan er með frétt um laun mín og segir að ég verkalýðsforinginn taki heim frá Rafiðnaðarsambandinu 1,5 millj. kr. í laun á mánuði.
Þetta er ómerkileg lygi, og reyndar meir en það, þetta er lágkúruleg rætni. Ég hef nokkrum sinnum hér á Eyjunni fjallað um hver laun mín séu hjá Rafiðnaðarsambandinu og þau eru ekkert leyndarmál.

Allir sem vilja láta taka mark á sér, vita að þau laun sem koma fram í þeim launatímaritum sem eru gefin út á þessum árstíma, er ákaflega misvísandi og segja í mörgum tilfellum ekkert til um hvaða laun viðkomandi hafa og þaðan af síður frá hvaða aðila þau laun komi.

Frægt er tilfellið þegar óvandaðir fréttamenn, eins og þessi á Eyjunni, supu hveljur yfir því að formaður félags atvinnuflugamanna, sem er tiltölulega fámennt félag, væri að taka sér svimandi laun hjá félaginu. Síðar kom fram að viðkomandi fékk ekki krónu frá sínu stéttafélagi í laun, en var m.a. flugstjóri hjá erlendu flugfélagi.

Hvernig veit hin sannleikselskandi fréttamaður Eyjunnar að þau laun sem ég hef, komi öll frá Rafiðnaðarsambandinu? Hvernig veit hvað er laun og hvað er annað? Nei hann veit vel að hann veit ekkert um laun mín en velur rætnina.

Allir sem fylgjast með vita að það voru teknir út um 20 milljarðar af séreignasparnaði á síðasta ári. Þetta gerðu fjölmargir til þess að laga skuldastöðuna innan sinnar fjölskyldu og gera greiðslubyrði viðráðanlega. Þessir einstaklingar horfa svo framan í mun lakari lífskjör þegar að lífeyrisaldri kemur.

Þau laun sem fréttamaður Eyjunnar telur að ég taki heim frá Rafiðnaðarsambandinu eru vel liðlega helmingi hærri en þau laun sem ég hef þar. Stærsti hluti þessarar skekkju er vegna þess að ég er einn þeirra sem tók út hluta af séreignasparnaði mínum. Það er svo spurning hvort það komi tilbaka af einhverjum hluta þegar niðurstaða fæst um hvernig gera eigi upp hin ýmsu lán.

Við erum nokkur í fjölskyldunni sem fylgjumst með af athygli hvaða niðurstöðu Hæstiréttur kemstað. Við erum nefnilega ósköp venjulegt fólk. Fólk sem reynir að standa í skilum með það sem við fáum lánað og finnst leiðinlegt þegar ómerkilegir blaðamenn, eins og þessi á Eyjunni, fara að ljúga upp á okkur uppspunnum sökum.


Hvað varðar laun mín þá eru þau afgreidd á fundum hér í sambandinu, þetta hefur margoft komið fram áður. Ég er með sömu grunnlaun og aðrir starfsmenn hafa, utan þess að ég er með verkstjóraálag samkvæmt kjarasamning.

Þegar ég réði mig til RSÍ þá vann ég hjá ÍSAL og setti fram þá kröfu að ég hefði sömu laun áfram og væri á kjarasamningi Rafiðnaðarsambandsins. Hjálagt eru útreikningar á föstum launum mínum.

14 taxti Ísal 10 ára starfsþrep mánaðarlaun 281.685
Föst yfirvinna 49 x 3.309.- 162.141. Samtals 443.826. Stjórnunarálag 32.4% 143.799. Samtals 587.625

Þar til viðbótar fæ ég vitanlega greitt samkvæmt kjarasamningum fyrir akstur vegna starfa minna fyrir sambandið, auk annars útlagðs kostnaðar.

Auk þessa sem er tengt vinnu minni hjá RSÍ þá hef ég verið undanfarin 3 ár varamaður í stjórn lífeyrissjóðs rafiðnaðarmanna og þigg fyrir það um 6.000 kr. á mán. og ég sit fyrir ASÍ í Starfsmenntaráði félagsmálaráðuneytis og þigg fyrir það svipaða upphæð.

mánudagur, 2. ágúst 2010

Ópólitískir menn

Það er eftirtektarvert hversu margir Heimsýnarmenn láta eins og þeir séu handhafar sannleikans og oft heyrir maður þá taka þannig til orða eins og þeir telji sig vera ópólitíska og hlutlausa. Aðrir eru að þeirra mati fólk blindað af pólitískri sýn og er með áróður og jafnvel gefið í skyn að það sé á mála hjá öðrum. Þessu er haldið markvisst fram af útvegsmönnum með sinn Mogga og bændastéttin með sinn fjölmiðil sem borin er um allt land ókeypis í boði skattborgarana.

Þetta er áberandi þegar ESB mál ber á góma. Því er haldið fram að þeir sem eru fylgjandi því að kannað verði hvort hægt sé að koma á meiri stöðugleika í efnahagslífinu og losna undan okurvöxtum sem örmyntin krónan veldur, séu með áróður frá Brussel, fólk sé viljalaus verkfæri í höndum ESB. Engin rök, einungis rakaluasar dylgjur og fullyrðingar. Farið í manninn ekki boltann.

Þessi hópur er búinn að koma ESB umræðunni í þann farveg að aðild sé ekki hluti af efnahagsendurreisn Íslands, umræðan er orðin að flokkspólitísku þrasi og ekkert miðar. Með því að koma í veg fyrir aðildarviðræður þurfa þeir ekki að gera grein fyrir hvernig staðið verði að efnahagsuppbygginu hér án ESB aðildar og né þurfa þeir að svara spurningum um framtíðargjaldmiðil eða hvernig við losnum við AGS. Þetta er kjörstaða Heimsýnarhópsins.

Það er sama hvar maður kemur í nágrannalöndum okkar, þar sjá menn skýra tengingu á milli AGS prógramms og ESB aðildar, það séu óaðskiljanlegar forsendur efnahagsuppbyggingar Íslands. Ráðamenn á Ísland virtu allar aðvaranir einskis og fyrri ríkisstjórnir óku fram af bjargbrúninni á fullri ferð án nokkurs bremsufars. Nágrannaþjóðir okkar gáfust upp og sögðust ekki ræða við íslensk stjórnvöld nema í gegnum AGS, eins og margoft kom fram í fréttum veturinn 2007 - 2008 og fram að Hruni.

Einungis með ESB aðild fær Ísland stuðning Evrópska Seðlabankans og aðeins þannig komum við krónunni inn fyrir EMR-2 vikmörkin og aðgang að fjármagni á viðunandi kjörum og á ásættanlegum tímaramma.

Það hefur margoft komið fram að hin Norðurlöndin hafa alltaf verið reiðubúin til að hjálpa okkur. Við erum ein skuldugasta þjóð í Evrópu með ónýtan gjaldmiðil sem meir að segja útvegsmenn vilja ekki nota. Við höfum glatað efnahagslegu sjálfstæði og höfum ekkert lánstraust erlendis og erum búinn að koma okkur í gjörgæslu AGS.

Við verðum að hafa efnahagslega burði til þess að geta nýtt auðlindir okkar og náð aftur upp lífskjörunum. Hvaða leið fóru Danir, Svíar og Finnar og hvar standa þeir nú? Þar hafa þúsundir heimila og fyrirtækja ekki farið á hausinn, þar varð ekki kerfishrun. Við erum það fámenn og með okkar ónýtu krónu og efnahagskerfi. Það er út í hött að bera okkur saman við Sviss og Noreg.

En álit Íslands fellur sífellt og við sjálf erum okkar verstu óvinir og erum að hrekja vel menntað fólk frá landinu. Okkur er lýst sem þrasandi þráhyggjumönnum, með sífelldar kröfur um sérstaka meðferð og gerum kröfur um að skattborgarar annarra landa axli byrðar sem eru afleiðingar glæfralegrar hægri sveigju með íslenska hagkerfið.