fimmtudagur, 31. október 2013

Kvikmyndin á Íslandi og Mánasteinn


Sjón ræddi í Kiljunni í gærkvöldi um nýju bókina sína Mánastein og kom inn á upphaf kvikmynda hér á landi. Mánasteinn er hreint út sagt sælgæti, fágaður gimsteinn.Bókin er stutt, liðlega 100 bls. algjörlega laus við innihaldslausa útúrdúra, en á örugglega eftir að vekja margvísleg viðbrögð lesenda.

Umfjöllunarefnið er mjög yfirgripsmikið og næsta víst að margir rithöfundar þyrftu umfangsmeiri bækur til þess að komast yfir sambærilegt efni. Stíll Sjón er úthugsaður, textinn hlaðin margskonar tengingum, sem eru með þeim hætti að þær kalla fram nýjan skilning við hvern endurlestur. En það er einmitt kostur bókarinnar og setur hana á stall með bestu bókum sem ég hef lesið lengi.

Í tilefni umfjöllunar Sjón um upphaf kvikmyndasýninga ætla ég að birta smá kafla úr bók sem ég vinn að þessa daga um þróun rafmagnsins hér á landi og samtaka rafiðnaðarmanna. Smá tilbreyting frá hinni pólitísku umræðu.

Í kjölfar þess að maðurinn náði valdi á rafmagninu upp úr miðri nítjándu öld komu fram margskonar raftæki. Rafmagnsperan er oftast talinn vera það tæki sem olli mestu breytingunum, en það voru fleiri tækniundur sem ná flugi um aldamótin 1900 Árið 1895 eru kynntar þrennar uppgötvanir sem eiga eftir að hafa mikil áhrif á tækniþróunina, Þjóðverjinn Wilhelm Conrad Röntgen eðlisfræðingur uppgötvar x-geislana og Guglielmo Marconi finnur upp aðferð til þess að senda loftskeyti og Lumiérebræður finna upp kvikmyndavélina

Saga kvikmynda hófst með því að menn reyndu að búa til vélar sem spiluðu marga ramma í röð en Thomas Alva Edison tók það besta úr öllum vélum og lét hanna mikið bætta tökuvél sem nefndist Kinetograph og sendi síðar fram nýja sýningarvél sem nefnd var Kinetoscope. Sú vél var ekki með myndvarpa, aðeins einn áhorfandi gat horft á litla rúðu í hverri sýningarvél.


Það voru tveir Danir, þeir Fernander og Hallseth, sem voru fyrstir til þess að sýna kvikmyndir hér á landi það var á Akureyri árið 1903. Þeir höfðu meðferðis hingað til lands sýningartæki og vöktu að vonum mikla athygli.

Filmunar höfðu að geyma mikil firn og töfrasýnir, sem landsmenn höfðu ekki áður augum litið og flykktust allir sem vettlingi gátu valdið á sýningar. Blaðið Norðurland skýrði frá sýningunum 27. júní 1903. Hvergi var dregið af í hástemmdum lýsingum og talað um „margbreytt prógramm og „fullorðið fólk sitji hugfangið eins og börn af fegurðinni og ráði sér þess á milli ekki fyrir hlátri.

Edwin S. Porter sýningarstjóri hjá Edison varð fyrstur manna til þess að nota víxlklippingar. Í The Great Train Robbery náði hann nýjum hæðum í spennu en áður höfðu sést. Síðasta atriði í þessari kvikmynd varð vel þekkt, þar horfir glæpamaðurinn beint í augu áhorfandans, beinir byssu sinni fram í salinn og tekur síðan í gikkinn. Þetta olli miklu uppnámi meðal áhorfenda og skelfingu lostnir flúðu margir þeirra út úr salnum og varð mikill troðningur við útganginn.

Aðsókn að kvikmyndasýningum fór stöðugt vaxandi, og sýningar voru haldnar viðstöðulaust, að undanskildum tveim mánuðum 1918, er spánska veikin geisaði, og hálfum mánuði árið 1921, þegar óttast var að veikin væri að koma upp aftur. Þær myndir, sem þóttu framúrskarandi góðar árið 1906, þættu áreiðanlega mjög broslegar nú til dags, því öll tækni var ákaflega léleg um þessar mundir.

Þegar kvikmyndahúsið Gamla bíó var opnað voru sýndar myndirnar „Vendetta“ og „Nautaat í Barcelona,“ „Hvíta rottan,“ frönsk einþáttamynd, var líka svo áhrifamikil, að margir karlmenn urðu að þerra tárin úr augunum að sýningu lokinni.

Ekki má heldur gleyma kvikmyndinni „Uppskurðir Dr. Doyens,“ sem sýnd var sérstaklega á eftir venjulega sýningarskrá, og kostaði aðgangur að henni 35 aura. Á meðan hún var sýnd leið daglega yfir 40-50 manns, og voru þeir „vaktir til lífsins“ aftur með Hofsmannsdropum. Þegar myndin hafði verið sýnd í viku, fór Jón Magnússon, bæjarfógeti, fram á það, að sýningum yrði hætt á henni og varð það úr.

þriðjudagur, 29. október 2013

Endurúthlutun auðs frá lýðnum til hinna auðugu


Í stjórnmálasögu Íslands birtist sá veruleiki að lýðnum á Íslandi er stjórnað með blekkingum í gegnum handstýrða flokksfjölmiðla. Við sjáum endurtekið til hvaða bragða valdastéttin grípur bregði starfsfólk RÚV út af þeirri línu.

T.d. gagnrýni á nýja skemmtiþáttinn um „hið svokallaða Hrun“ á messutíma í Sjónvarpinu eða viðbrögðum við efnistökum Spegilsins í RÚV. Svo maður tali nú ekki um óþægilegum og jákvæðum fréttflutning af velgengni nágrannalanda okkar innan ESB. Það er úthrópað sem purkunarlaus áróður vinstri aflanna, "sem elska latté og reiðhjól, en hata bíla og Bandaríkin." Við viljum ekki eiga samskipti við nágrannalönd okkar, frekar gera samninga við Kína, þar sem réttindi fólks eru fótum troðin og laun keyrð niður, segir núverandi utanríkisráðherra.

Samtrygging fjögurra stærstu flokkana gengur út á að moka arði náttúruauðlinda upp á „sérhagsmunadiskinn“ sinn á kostnað almennings. Það er ekki á nokkurn hátt hægt að útskýra með öðrum hætti stöðu hinnar íslensku þjóðar. Þjóðar sem á verðmætustu auðlindir heims per. íbúa, fisk, orku, hreint vatn, víðerni og náttúru. Hvað annað veldur því að almenningur þessarar þjóðar nýtur þessa ekki í meira mæli?

Það er fjármálaaflið sem hefur náð undirtökunum í hinum vestræna heimi og ekki síst hér á landi. Valdastéttin verður sífellt ríkari og hún fyllti kosningasjóði Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks og vitanlega var þeirra fyrstu verk að loknum kosningum, að fella niður skatta á þá ríkustu og afnema það afgjald sem greiða átti fyrir notkun auðlynda samfélagsins. Þar var myndað svigrúm til þess að greiða það í formi arðs upp á tugi milljarða í vasa örfárra einstaklinga.

Þetta kallar vitanlega á að skerða verður enn meira í velferðarkerfinu og leggja enn meiri sérskatta á þá sem þurfa að nota velferðarkerfið. Þarna fer fram í gegnum skattkerfin stórfelld endurúthlutun auðs frá lýðnum til hinna auðugu.

Þessi eignaupptaka birtist okkur einnig í ábyrgð ríkisins á fjárhættuspili fjármálaaflsins. Þar ráða greiningarhúsin og spár þeirra leiða til hamslausrar keppni. Allir vilja kaupa bréf sem greiningarhúsin spá velgengni. Þar eru sömu menn að störfum í dag og áður, þó svo að þeir hafi orðið uppvísir um að allt sem þeir greindu og spáðu reyndist rangt.

Almannahagsmunir víkja fyrir hagsmunum fjármagnseigenda því þjóðirnar keppa í lækkun skatta vegna fyrirtækjanna. Það getur ekki leitt til annars en lakari skóla, veikari heilbrigðisþjónustu og skuldsettari þjóða. Lýðræði er hægt og bítandi á undanhaldi.

Valdastéttin hér á landi er þessa dagana að undirbúa brennslu á sparnaði launamanna í lífeyrissjóðunum með því að ætla sér að setja „handbremsu“ á fjárfestingar lífeyrissjóðanna erlendis. Sem er reyndar eina leiðin til þess að tryggja eðlilega ávöxtun og koma í veg fyrir bólumyndun í íslenska hagkerfinu.

En hagsmunir lýðsins, aldraðra og öryrkja skipta hér engu, valdastéttin hefur náð undirtökum og hún ætlar sér að mynda þarna svigrúm svo hún nái að koma undan eignum sínum, áður en næsta hrun verður.

Þeir flokkar sem kosnir voru til valda í vor útiloka kerfisbreytingar í peningamálum, það jafngildir að loforð um afnám reglulegra gengisfellinga, ofurvaxta og verðtryggingar verður í raun framkvæmt í formi nafnbreytingar á því ástandi sem hér ríkir og ætlunin er að það muni ríkja um fyrirsjáanlega framtíð.

Og hinum íslenska lýð verður boðið upp á launahækkanir sem verða afnumdar jafnharðan með gengisfellingum. „Krónan er svo dásamlegt tæki, því þá er hægt blóðsúthellingalaust að lagfæra of góða kjarasamninga verkalýðsins.“ Segir málsvari Eimreiðarhópsins brosandi sigri hrósandi yfir koníakinu og kaffinu.

sunnudagur, 27. október 2013

Sigmundur Davíð líttu þér nær


Á Sprengisandi í morgun lýsti Sigmundur Davíð sjálfum sér afskaplega vel, og hann heldur því blákalt fram að það sé við aðra að sakast en þingmenn Framsóknar á hvaða lágkúruplani stjórnmálaumræðan er.

Hér er Sigmundur Davíð enn einu sinni að spinna, það var einmitt hann sem fór fyrir samflokksmönnum sínum í stjórnarandstöðunni allt síðast kjörtímabil og dró umræðuna niður á áður óþekktplan. Núverandi stjórnarandstaða hefur ekki beitt sama málþófi og bellibrögðum sem Sigmundur Davíð notaði og hún hefur lýst því yfir að það standi ekki til að fara niður í sömu forina og Sigmundur Davíð hélt sér í og hún hefur staðið við það.

Það hefur ekkert verið gert fyrir heimilin og hvar er skjaldborgin? Hrópuðu þingmenn stjórnarandstöðunnar. Það hefur margoft verið gert en það er ekki til meira svigrúm var svar þáverandi stjórnarþingmanna. Það er ekki rétt, svaraði þingflokkur Framsóknar og kynnti aðferð til þess að búa til nýtt svigrúm, sem reyndar margir skyldu ekki.

Sigmundur Davíð fór síðan fyrir sínum flokk í gegnum kosningabaráttu þar sem beitt var sömu brögðum og í ræðupúlti Alþingis með loforðum um patentlausnir, klisjum og spuna, og hann vannkosningarnar og komst í það stöðu sem hann fór fram á að geta framkvæmt kosningaloforðin, en þar mætir hann ókleifum vegg sem hann reyndar reisti sjálfur með hjálp samflokkssystkina sinna og þá hrynur fylgið vitanlega, xB er búið að glata 40% og stefnir í að fylgishrunið verði enn meira.

En það er ekki endilega sakir þess að hann hafi ekki staðið við loforðin, eins sumir halda fram, það er að mínu mati ekki síður sú hrokafulla framkoma sem þau hafa tamið sér,  þótti og veruleikafirrtur spuni. Og svo maður tali nú ekki um þegar þau vilja ekki kannast við það sem þau hafa áður sagt. Það er nefnilega svo auðvelt nú á tímum netheima að fletta upp í fjölmiðlum og gögnum Alþingis.

Það er einfaldlega útilokað að festa hendur á því hvað Sigmundur Davíð á við þegar hann talar þessa dagana, eitt í dag annað á morgun t.d. um „svigrúmið.“ Hann skall allharkalega til jarðar með "paranojugrein" sinni í Mogganum í sumar um stanslausar loftárásir á sig??!!

Eða þegar hann sagði á Alþingi fyrir rúmum mánuði síðan; "Í undirbúningi eru róttækustu aðgerðir stjórnvalda nokkurs staðar í veröldinni í þágu skuldsettra heimila."


Það er vart hægt að komast á hærra hástig í lýsingum en hér.

Einnig er ástæða til þess að benda á kafla í ræðu hans um samskiptin við atvinnulífið. Hvar eru þau stödd í þeim málum? Það vitum við öll bilið milli atvinnulífs og ríkisstjórnar virðist hafa breikkað. Sigmundur Davíð segist ekki tala við einhverja þrjá einstaklinga??!!
 
En nú fullyrðir Sigmundur Davíð; „Stjórnarandastaðan hefur reynt að auka enn á væntingar til nýju ríkisstjórnarinnar og meir að segja gengið svo langt að byrja eð endurskilgreina það sem við höfum sagt í skuldamálum.“ Það er nefnilega það, ég sé ekki að það hafi verið mögulegt að yfirbjóða hans eigin loforð.“

„Svigrúmið“ varð nefnilega til í kosningabaráttu Sigmundar Davíðs og þá var það svo skýrt. „Svigrúmið“ var svo afmarkað að það var auðvelt að framkvæma það „strax“ ásamt 12 milljarða innspýtingu í Landspítalann og það var einmitt á þeim forsemdum sem Sigmundur Davíð bar þungar sakir á Steingrím og Jóhönnu fyrir að hafa ekki gripið til þessara skuldaleiðréttinga strax á síðasta kjörtímabili.


En nú er það orðið eitthvað óskýrt og Sigmundur Davíð tafsar og reynir að klóra í bakkann með því að bera sakir á annað fólk. Hann segir nú að það sé svo ómálefnalegt að ætlast sé til þess að kjósendur hafi tekið mark á því sem hann sagði í kosningabaráttunni. Það jafnist á við að gera honum upp skoðanir og svo maður tali nú um að einhverjir vilji rukka hann um skýr svör við einhverju sem hann segist aldrei hafa sagt.


Sigmundur Davíð lofaði því að ef hann fengi stuðning og kæmist til valda þá yrði „svigrúmið“ nýtt til að færa niður skuldir tæplega helmings heimila í landinu? Er þetta „svigrúm“ til? Eða var það semsagt rétt sem Steingrímur sagði að hann hefði gengið eins langt og svigrúm ríkissjóðs heimilaði?

Ætlar núverandi fjármálaráðherra að búa til „svigrúm“ Sigmundar Davíðs með seðlaprentun upp á 300 MIA og 50% verðbólgu og meðfylgjandi vaxtahækkunum og nýrri stökkbreytingu lána?

Á að nota "svigrúmið" ef það finnst til annarra hluta?

Er „svigrúmið“ ekki nægjanlegt til þess að færa einnig niður skuldirnar? Geta skuldug heimili ekki reiknað út niðurfellingarnar út frá því sem sagt er í stjórnarsáttmálanum eins og Sigmundur Davíð fullyrti svo oft fyrri hluta þessa árs?

Sigmundur Davíð virðist óttast kröfuharða stjórnmálaumræða, en opin hreinskiptin umræða er undirstaða lýðræðisins. Samstarfsnefndir með ýmsum aðilum í samfélaginu eru Alþingi nauðsynlegar, en þær virðist Sigmundur Davíð óttast og vill leggja niður þær nefndir sem hann telur að muni þvælast fyrir honum og þeim spuna sem hann hefur reist sína veröld á.

„Líttu þér nær“ Sigmundur Davíð, „Maður líttu þér nær“

Það væri stórt skref í íslenskri stjórnmálaumræðu ef Sigmundur Davíð færi fyrir sínum ráðherrum og skipti yfir í málefnalega umræðu á Alþingi og tæki upp rökræðu við aðila vinnumarkaðsins, ekki bara á sínum eigin forsendum.

Það væri stórt skref ef Sigmundur Davíð tæki upp á því að tala með þeim hætti að samfélagið skilji hvert hann er fara og láti af þeim ásökunum sem hann ber á alla um að hann sé misskilinn. Hann einn getur lagað það.

miðvikudagur, 23. október 2013

Fólkið með "patentlausnirnar"


Viðbrögð Framsóknarmanna við fylgishruni og mikilli gagnrýni koma manni ekki á óvart. Það lá alltaf fyrir að Framsókn myndi kenna öðrum um, þegar ljóst yrði að þeir gætu ekki efnt loforðin um allar patentlausnirnar, sem þeir höfðu á hraðbergi þegar þeir voru í stjórnarandstöðu og héldu á lofti í síðustu kosningabaráttu.

En þeir verða eitthvað svo óskaplega litlir þegar þeir fara að saka fólk um að vera ósanngjarnt og óvægið í þeirra garð.

Í því sambandi má minna á mörg þeirra gífuryrða sem þeir viðhöfðu um stjórn Jóhönnu og reyndar alla sem drógu í efa að „patentlausnir“ þeirra gætu gengið upp.

Eða við getum einnig rifjað upp ummæli núverandi ráðherra þegar þeir voru í stjórnarandstöðu í ræðustól og jusu aur yfir Jóhönnu þegar hún vék af þingi í nokkra daga.

Ég var ásamt 25 einstaklingum svo ósvífinn að „láta“ 13.000 manns kjósa mig á Stjórnlagaþing (sem er líklega fjórfaldur atkvæðafjöldi meðalþingmanns). Þessi 25 manna hópur afskaplegra velgerðra og velviljandi einstaklinga, samdi með góðri aðstoð þjóðarinnar frumvarpsdrög að nýrri Stjórnarskrá. Frumvarpsdrög sem voru í mörgu í samræmi við það sem Framsóknarflokkurinn hafði áður sett fram í kosningabaráttu sinni.

Það er óþarfi að fara yfir þau gífuryrði sem okkur var gert að sitja undir af hálfu þingmanna Framsóknar og nokkurra þingmanna Sjálfstæðisflokksins, en þau voru lágkúra af verstu sort. Þau eru á sveimi á netinu og á facebook vilji menn skoða þau.

Eða eigum við kannski að rifja upp þau ummæli sem sami þingmannahópur hafði um okkur sem vildum ljúka viðræðum við ESB og leggja þá niðurstöðu undir þjóðina. Þá var okkur gert af hálfu þessa sómafólks (eða hitt þá heldur) að sitja undir því að vera landráðamenn, nasistar eða eitthvað því um líkt.

Eða eigum við að rifja upp ummæli sama þingmannahóps þegar við hin vildum verja velferðarkerfið, þar var okkur líkt við kommúnista, ekki mátti það minna vera en að bera okkur saman við afkastamikla fjöldamorðingja.

Eða eigum við að rifja upp hvernig þessi sami þingmannahópur hanteraði afgerandi niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu, þar sem tæp 70% samþykktu frumvarpsdrög Stjórnlagaráðs og þar að auki samþykktu 80% sérstaklega ákvæði um meðferð auðlinda þjóðarinnar og aukið lýðræði.

Þar dugði þessum ofurgæðingum ekkert minna en að eigna sér öll atkvæði þeirra sem ekki mættu á kjörstað og þeirra sem skiluðu auðu. Aðferðarfræði sem engum í nokkru lýðræðisríki myndi detta í hug að nota.

Eða eigum við að rifja upp ummæli þessara þingmanna sem þeir viðhöfðu um það fólk sem vildi betrumbæta þá samninga sem Árni Matthiesen þáverandi fjármálaráðherra gerði árið 2008 um Icesave og Bjarni Ben hélt skýnandi ræðu um í nóvember það ár um að þetta yrðum við að samþykkja og hvers vegna.

En þegar búið var að gera mun betri samninga fór þessi þingmannahópur í ræðustól Alþingis og hélt því fram að þeir sem ekki væru þeim sammála, það væri ógæfufólk sem vildi gera landið gjaldþrota og láta íslenska skattgreiðendur greiða skuldir sem okkur kæmu ekki við.

Þessar skuldir voru minni en það gjaldþrot sem núverandi stjórnarflokkar komu yfir á skattgreiðendur þegar þeir keyrðu Seðlabankann í þrot, og þar til viðbótar losuðu þeir Ísland ekki við eina einustu af þeim krónum sem skattgreiðendur verður gert að greiða vegna Icesave, því fór fjarri að við hefðum kosið það í burtu það var og er blekking. 

Einungis á Íslandi eru svona vinnubrögð látinn viðgangast. Enda er Ísland að dragast aftur úr nágrannalöndum okkar. Langt aftur úr, en samt fara núverandi stjórnar þingmenn um heimsbyggðina og lýsa því yfir að það logi eldar í Evrópu og þeir séu að skapa sérstakt efnahagsundur á Íslandi, hvorki meir en minna.   

Eða eigum við að rifja upp málþófið og ruddaháttinn sem þessi þingmannahópur beitti nánast hvern einasta dag á Alþingi allt síðasta kjörtímabil. Athafnir sem aldrei hafa sést á lýðræðissamkomu í ríki, sem vill rísa undir því að ástunda eðlilega stjórnarhætti.

En það eru einnig aðrir sem ættu að hugsa sinn gang vel og vandlega, það eru spjallþáttakóngarnir. Það eru ekki síst þeir sem áttu þátt í því að hefja fólkið með „patentlausnirnar“ til skýjanna allt síðasta kjörtímabil.

Og nú hrópa spjallþáttakóngarnir að stjórnarandstaðan sé svo veik, hún er leiðinleg af því hún er ekki með gífuryrði og þá er ekkert gaman. Það er að þeirra mati aðaltilgangur spjall- og fréttaþátta að það sé gaman, skítt með hvort eitthvað vit sé í því sem fólk segir og þaðan af síður hvaða afleiðingar það hefur að bera út á öldum viðurkenndra ljósvakamiðla boðskap sem getur ekki leitt til annars en enn frekari vandræða í samfélaginu.

Það á nefnilega að þeirra mati að vera svo gaman á Alþingi og það gerist að þeirra mati þegar þar séu duglegir stjórnmálamenn, sem tekst að snúa sem rösklegast út úr fyrir öllum öðrum og afvegaleiða umræðuna. Það eru sko duglegir stjórnmálamenn.

Við getum fyrst og síðast þakkað þessum súpermönnum spjallþáttanna hvaða einstaklingar drógu inn á Alþingi.  

En það sem þeir ástunduðu í Silfrum og Bítinu er í raun ekkert annað en óendanlegur fantaskapur gagnvart fólki sem glímir við mikil vandræði. Það er ljótt að henda til fólks í vanda bjarghringjum sem ekki hafa fengið skoðun og viðurkenningu og vekja með því hjá þessu örmagna fólki óraunsæjar væntingar, sem ekki er hægt að standa við.

Nú ætlast fólk í vanda að sjálfsögðu til þess að handhafar „patentlausnanna“ standi við sitt. En þá rísa þessir litlu kallar upp vælandi og fullyrða að allir séu svo vondir við þá og segja „Það eru sko þessir vondu kallar sem standa í veginum fyrir því að við getum beitt okkar „patentlausnunum“.

Manni er flökurt að horfa á þetta lið.

Og hér er uppskriftin að vinnubrögðum stjórnarandstöðunnar síðasta kjörtímabíl, en núna eiga allir að vera vinir og góðir við stjórnvöld, annað er svo ósanngjarnt.

Davíð Oddsson :“Þó ég segi sjálfur frá stóð ég mig ekki illa í stjórnarandstöðu í borginni áður en ég varð borgarstjóri. Ég þótti jafnvel ósvífinn og kosningabaráttan sem stóð 1980 til 1982 var mjög hörð. Ég gerði öll mál tortryggileg og fylgdi þeirri reglu veiðimannsins að maður má ekki kasta einungis flugu sem manni finnst falleg því að maður veit aldrei hvaða flugu laxinn tekur. Ég tók því öll mál, jafnvel þó ég væri í hjarta mínu samþykkur þeim, og hjólaði í þau því að ég leit á stjórnarandstöðu sem stjórnarandstöðu. Skyndilega fengu ákveðin mál byr og styrktu stöðu okkar. Dæm i um þetta var upptaka skrefagjalds á síma, sem í raun og veru heyrði ekkert undir borgina en ég gerði að alvöru borgarmáli. Meirihlutinn tók alla vitleysuna á sig.“

Í hlutverki leiðtogans, Ásdís Halla Bragadóttir (2000)
 

sunnudagur, 20. október 2013

40% fylgishrun Framsóknarflokksins


Ég skil að það er erfitt fyrir suma og þá ekki síst ritstjórn Eyjunnar að horfast í augu við hrun Framsóknarflokksins og reyna draga úr því með að segja að Framsóknarflokkurinn hafi tapað 10% frá síðustu kosningum.


Framsókn fékk 25% atkvæða í kosningum og mælist nú með 15% fylgi.
 
Það er ekki 10% tap
 
Það er 40% tap.

föstudagur, 18. október 2013

Sjálfstæðismenn vilja rannsaka þátt formanns síns í Icesave


Það er ekkert sem fer jafnmikið í taugarnar á Sjálfstæðismönnum og nefndir sem ætlað er að skoða vinnubrögð stjórnvalda. Þeir vilja að almenningur taki söguritun Morgunblaðsins trúanlega möglunarlaust og segja allt annað vera purrkunarlausan vinstri áróður. Sjálfstæðismenn gefa ekkert fyrir Rannsóknarskýrslu Alþingis um aðdraganda hins svokallað Hruns og nú vilja þeir koma í veg fyrir að skipuð verði rannsóknarnefnd til að skoða einkavæðingu bankanna fyrir rúmum tíu árum.

Einar K. Guðfinnsson er þekktur fylgismaður þessarar stefnu, enda var hann einn af burðarásum í aðdraganda hins svokallaða Hruns. Nú hafa 13 þingmenn Sjálfstæðisflokksins lagt fram tillögu um rannsóknarnefnd til að skoða Icesave-málið. Þetta er venjubundið útspil og tilgangurinn er að skapa andvægi gegn rannsókn á bankamálinu og skapa með því stöðu í hinum reykfylltu bakherbergjum.

En það blasir við að enn eina ferðina á að búa til stöðu til þess að véla um það við stjórnarandstöðuna og skapa aðstöðu til að draga tillöguna um Icesave-nefndina til baka á heppilegum tíma, gegn því að ekki verði miklum mótmælum hreyft þegar hugmyndin um bankanefndina geispar endanlega golunni.

Ég er ákafur fylgismaður þess að báðar þessar nefndir verði skipaðar. Í þessu sambandi er rétt að rifja upp tilurð fyrsta Icesave samningsins. Þann samning gerði þáverandi fjármálaráðherra Árni Matthisen fyrir hönd ríkisstjórnar Geirs Haarde. Sá samningur var sá allra lélegasti af þeim þremur sem gerðir voru, og varð til þess að ríkistjórn Jóhönnu reyndi að ná betri samningum og tókst það. Sumir vilja trúa að við höfum kosið burtu allt tap íslenskra skattborgara vegna Icesave, það er því miður ekki rétt, tapið er þegar orðið gríðarlegt og nálgast eina ársframleiðslu og enn liggja á borðum Landsbankans ógreiddir reikningar vegna Icesave sem munu lenda á íslenskum skattborgurum upp á hundruð milljarða sem munu á óbeinaum hátt lenda á borði skattgreiðenda þessa lands.

En rifjum aðeins upp málavexti. Ef forráðamenn Landsbankans hefðu ákveðið að reka bankastarfsemi sína í Bretlandi og Hollandi í þarlendum dótturfyrirtækjum, en ekki sem útibú frá Landsbankanum, þá hefði þessi reikningur vegna Icesave til íslenskra skattgreiðenda náð inn í sali Alþingis Íslendinga. Þeir sem með þessum hætti framvísuðu vísvitandi Icesave á hendur þjóðarinnar eru : Halldór Kristjánsson og Sigurjón Þ. Árnason, bankastjórar; og Björgólfur Guðmundsson og Kjartan Gunnarsson formaður bankaráðs og fyrrv.framkv.stj. Sjálfstæðisflokksins.

Það voru þessir menn sem ákváðu að yfirbjóða innlánsvexti keppinauta í samkeppni um innlán sparifjáreigenda í þessum löndum. Bankinn var undir þeirra stjórn sokkinn í skuldir og þeir börðust við að koma í veg fyrir hrun hans og sóttust eftir erlendu fjármagni.


Með því að hafna tilmælum seðlabanka Hollands og breska fjármálaeftirlitsins um að flytja útibú bankanna til Englands og Hollands komu þáverandi forráðamenn Landsbankans beinlínis í veg fyrir að lágmarkstrygging innistæðueigenda hjá Icesave yrði borin af tryggingarsjóðum viðkomandi landa, en ekki íslenskum skattgreiðendum. Á þetta hefði þáverandi Seðlabankastjóri átt að þrýsta, en gerði ekki og er því meðvirkur í þessari stöðu.

Með neyðarlögunum haustið 2008 áréttaði ríkisstjórn Geirs og Ingibjargar Sólrúnar, að íslenska ríkið ábyrgðist allar innistæður í íslenskum bönkum og þ.m.t. lágmarkstryggingu í útibúum utan Íslands. Alþingi íslendinga samþykkti neyðarlögin og lagði þar með grunn þeirrar stöðu sem við búum við.

Í samningum við Bretana sem Árni M. þáv. fjárm.ráðh. samþykkti, þá ákvarðaði hann ábyrgð Íslands og lánaskilmála, sem voru reyndar mun verri en sú samningsniðurstaða, sem nú liggur fyrir Alþingi. Að baki undirskriftar Árna var ríkisstjórn með meirihluta á Alþingi. Það er í raun þessar athafnir sem binda okkur þá hnúta sem við búum við.


Til þess að rifja þetta upp þá er þetta að finna í fundargerðum Alþingis :


Til umræðu eru á Alþingi samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innistæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu. Í samningum eru ákvæði um 10 ára lán með 6% vöxtum og jöfnum greiðslum vegna endurgreiðslu Íslendinga til Englendinga og Hollendinga vegna Icesave, í seinni samningum var búið að lækka lántökukostnaðinn í uþb fjórðung :


Alþingi 38. fundur 28. nóv. 2008 þetta er hluti ræðu Bjarna Benediktssonar Sjálfstæðisflokki :Virðulegi forseti. Mér sýnist nú sé að ljúka umræðu um þessa þingsályktunartillögu og málið sé á leiðinni til utanríkismálanefndar til frekari skoðunar. Hér með er óskað heimildar til þess að leiða til lykta samningaviðræður á grundvelli hinna sameiginlegu viðmiða sem liggja til grundvallar samningaviðræðum sem fara síðan afstað í kjölfarið. Þær voru eins og áður hefur komið fram í umræðunni hér í dag og reyndar áður grundvöllur fyrir því að greiða fyrir afgreiðslu lánsins frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Það er mjög áberandi hér í umræðunni að þátttakendur í henni telja sig sjá það fyrir eftir á að hægt hefði verið að fara aðrar og skynsamlegri leiðir, sem hefðu verið líklegri til þess að valda íslenskum skattgreiðendum inni byrðum en sú leið sem, málið hefur ratað í. Það er vísað til að mynda í lögfræðilegt álit í því samhengi.

Ég held að það sé afskaplega mikil einföldun á þessu máli öllu saman að telja í raun og veru að það hafi verið valkostur fyrir íslensk stjórnvöld að standa stíf á lögfræðilegri túlkun og halda henni til streitu, jafnvel fyrir dómstólum, hvort sem það væri á alþjóðlegum vettvangi eða hér heima fyrir íslenskum dómstólum.
....
Það er alveg ljóst að sú leið sem valin var og sá farvegur sem málið er í núna mun alveg örugglega skila okkur hagstæðari niðurstöðu en við hefðum fengið með því að láta reyna á rétt okkar og ef við hefðum síðan mögulega tapað þeirri þrætu fyrir dómstólum. Það er alveg öruggt.
.....
Þegar heildarmyndin er skoðuð er tel ég að ekki sé hægt að komast að annarri niðurstöðu en að vel hafi verið haldið á íslenskum hagsmunum í þessu máli.

Þannig er þetta nú ágæti lesandi , og hinir 13 þingmenn Sjálfstæðisflokksins ætla sem sagt að láta rannsaka gerðir Bjarna Benediktssonar og ríkisstjórnar Geirs Haarde í Icesave málinu, sem er vitanlega mjög gott.

mánudagur, 14. október 2013

Hækkun raunlauna takk fyrir


Íslendingar skila lengstu vinnuvikunni af þeim þjóðum sem við viljum bera okkur saman við. Ef borin er saman verðmætasköpun á mann á hverja unna klukkustund eru afköst Íslendinga einungis tveir þriðju af því sem Bandaríkjamenn ná og Danir eru einungis liðlega 10% á eftir Bandaríkjamönnum.

Á árunum 1950 til 1980, þegar vélvæðingin var hvað umfangsmest, fækkaði árlegum meðalvinnustundum á Íslandi úr um 2.400 klst. í um 1.900 klst. En í hinum Norðurlandaríkjunum voru sömu tölur um 1.900 klst. árið 1950, eru komnar niður í um 1.600 klst. árið 1980 og halda áfram að lækka niður í um 1.550 árið 2010. Árið 2010 er árlegur meðalvinnutími Íslendinga hins vegar um 1.750 klst. og við náum samt ekki sambærilegum kaupmætti.

Framleiðni vinnuafls er 20% minni á Íslandi en í nágrannalöndum en fyrir hendi eru umtalsverð tækifæri til þess að knýja hagvöxt til framtíðar með því að auka arðsemi í fjármagnsfrekum atvinnugreinum. Þannig má bæta launamönnum upp þann skaða sem þeir hafa orðið fyrir, tryggja öran framleiðnivöxt og skapa möguleika fyrir varanlegum og myndarlegum lífskjarabótum.

Nú er aftur komin upp umræða launahækkanir upp á tugi prósenta. Við erum föst í viðjum vanans og erum þar af leiðandi að dragast aftur úr á öllum sviðum á góðri leið með að ná verðbólgunni upp í tveggja stafa tölu og tryggja áframhaldandi stöðu gjaldeyrishaftanna.

Vonandi er farið að renna upp fyrir þingmönnum nýrrar ríkisstjórnar að hlutirnir eru ekki eins einfaldir og þeir héldu fram í nánast hverjum einasta fréttatíma allt síðasta kjörtímabil þar sem þeir greindu frá alls konar töfralausnum á efnahagsvanda þjóðarinnar og heimilanna.

Við verðum einfaldlega að auka fjárfestingar í atvinnulífinu og auka framleiðni og verðmætasköpun í íslensku þjóðabúi ef okkur á að takast að greiða niður skuldir okkar og standa jafnframt undir velferðarkerfinu. Það þýðir að núverandi ríkisstjórn verður að kúvenda í samskiptum sínum við helsta viðskiptasvæði landsins og yfirlýsingum ráðherra í erlendum fréttamiðlum. Auk þess að setja forseta vorn í farbann.

Við verðum að fjölga þeim íslensku fyrirtækjum sem framleiða og selja alþjóðlegar vörur, eins og t.d. Marel, Össur, Actavis og CCP. Forsvarsmenn þessara fyrirtækja hafa margoft sagt að þeir sjái alltof mikla takmörkun í samkeppni og stækkunarmöguleikum ef við breytum ekki peningastefnunni.

Við verðum að skapa stöðugra rekstrarumhverfi og auka erlenda fjárfestingu. Íslenskir stjórnmálamenn verða að leggja af það óábyrga hátterni að vera með óraunsæ loforð, sem þeir redda síðan með gengisfellingu og verðbólguskoti.

Þetta kerfi Íslensku valdastéttarinnar tekur ekki mið af hagsmunum almennings. Hann er réttindalaus. Hér á landi eru hagsmunir fárra í fyrirrúmi, en um leið eru þar eru ákvörðuð þau kjör sem mögulegt af að bjóða íslenskum heimilum upp á, þessu verður að breyta eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn bendir á í nýrri skýrslu.

AGS leggur til að þjóðir heims tækli skuldakreppuna með því að hækka skatta á fyrirtæki og þá ríku. Í skýrslunni segir að skattar á hæstu tekjuhópanna hafa lækkað mikið síðan á níunda áratugnum. Verði skattarnir færðir í sama horf og þá, geti þróuð ríki aukið tekjur sínar sem nemur 0,25 prósent af landsframleiðslu.

Forréttindi hátekjufólks hafa einungis skilað auknum ójöfnuði til samfélagsins. Það voru þeir sköpuðu bóluhagkerfið og meðfylgjandi kreppu með skuldsettu braski sínu og tókst að gera stórkostlega eignaupptöku hjá almenning sem þeir hafa síðan falið í skattaskjólum.

sunnudagur, 13. október 2013

Aukin óvissa og engin framtíðarsýn


Aðild að ESB felur í sér skuldbindingu um að taka upp evruna, eða fara sömu leið og Danir, Svíar og Englendingar og tengja myntina við evru með takmörkuðum vikmörkum. Helstu rökin sem valdastéttin heldur ákaft að okkur gegn upptöku evrunnar, eru að Íslendingar þurfi á eigin mynt og sveigjanlegu gengi að halda til að draga úr innlendum hagsveiflum, þar sem þær séu svo frábrugðnar hagsveiflum í Evrópu.

Sérstaða Íslands stafi einkum af sjávarútvegi, þessu er haldið að okkur þrátt fyrir að útvegurinn skiptir Íslenskt efnahagslíf nú minna máli en áður, hann stendur nú einungis á bak sjö prósent af landsframleiðslu., öðrum atvinnuvegum hefur vaxið fiskur um hrygg.

Í þessu sambandi má einnig benda á að Færeyingar, með allan sinn sjávarútveg, eru með sína krónu beintengda við Dönsku krónuna og þá um leið fasttengda við Evruna og þeir hafa engan áhuga á að breyta því.

Eftir inngöngu Íslands í EES svæðið árið 1994 hefur hagsveiflan hér færst stöðugt nær hagsveiflunni í Evrópu. Í dag eru 80% viðskipta Íslands við ESB svæðið. Það er augljóslega veik og agalaus hagstjórnin sem veldur okkur mestum skaða.

Nú benda virtir hagfræðingar á það hafi ekki átt sér stað eitthvert efnahagsundur á Íslandi, andstætt því sem Krugman, forseti Íslands og tilteknir stjórnmálamenn hafa hrósað svo mjög. Krónan og gjaldeyrishöftin valda því nefnilega að Íslendingar glíma við nýjan skuldavanda í erlendum gjaldeyri. Þeir hvetja Grikkja ákaft á að hlusta ekki á þá sérfræðinga sem boða kraftaverk.

Fljótandi króna færði Íslendingum ekki efnahagsundur og Gríska drakman mun heldur ekki gera það. Enn einu sinni er forseti Íslands með allt niðrum sig, fyrir Hrun fór hann ásamt forsvarsmönnum þáverandi ríkisstjórnar, sem reyndar koma úr sömu flokkum og núverandi ríkisstjórn, um heimbyggðina og talaði fjálglega um hið Íslenska fjármálaundur.

Athafnir tækifærisinnaðra og agalausra íslenskra stjórnmálamenn, kostaðir af gildum kosningasjóðum hagsmunaaðila, hafa komið í veg fyrir að okkur takist að kveða verðbólguna niður. Þannig er einnig ástatt um ýmis önnur lönd, til dæmis í Austur-Evrópu og Afríku.
 
Stöðugt verðlag innan Evrópusambandsins er sameiginlegt keppikefli aðildarlandanna. Þess vegna leggja Eystrasaltslöndin og önnur ný aðildarlönd ESB allt kapp á að taka upp evruna sem fyrst og eru strax farinn að uppskera margfalt lægri vexti og alvöru jákvæða efnahagsþróun.

Ein höfuðrökin sem notuð eru gegn upptöku evrunnar eru þau, að aflagning krónunnar feli í sér fullveldisafsal, því reglubundnar gengisfellingar standi stjórnvöldum þá ekki lengur til boða. Höfuðhugsjón Evrópusamstarfsins er þó einmitt að dreifa fullveldinu á völdum sviðum, svo sem í peningamálum og auka hagvöxt með öflugu viðskiptasvæði.

Þeir, sem heimta óskorað sjálfstæði í peningamálum, eru í raun að heimta að fá að halda áfram að nota krónuna sem kúgunartæki til að geta með reglulegu millibili notað gengissig krónunnar til að flytja fé frá launafólki til útvegsfyrirtækja, halda launamönnum í efnahagslegum þrælabúðum.

Óábyrgar yfirlýsingar nýrrar ríkisstjórn hefur stóraukið alla óvissu í íslensku efnahagslífi með því að lofa skuldaniðurfellingu sem erlendir fjárfestar eiga að borga og að stöðva ESB umsókn. Þetta tvennt hefur gjörbreytt áhættumati erlendra fjárfesta og valdið okkur hruni á viðskiptakjörum.

Það er ótrúlegt að slíkt skuli gerast á vakt Sjálfstæðisflokksins, en upplýsir okkur svo ekki verður umvillst hverjir það eru sem stjórna á þeim bæ í dag. Eimreiðarhópurinn hefur leitt flokkinn víðsfjarri þeirri línu sem hann tók upp í Viðreisnarstjórninni.

Land sem ekki veitir fjárfestum nauðsynlegt pólitískt bakland byggir ekki á kapítalísku hagkerfi til lengdar. Að treysta á ríkisforsjá undir pilsfaldi krónunnar og helmingaskiptahugarfari, er ekki trúverðug framtíðarsýn en það er einmitt það sem við okkur blasir á þessum haustdögum.

Ný ríkisstjórn horfir til haftaáranna og forsætisráðherra mærir þá tíma. Ríkisstjórnina skortir alla framtíðarsýn og ný atvinnutækifæri eru nánast eingöngu láglaunastörf í ferðamannaiðnaði. Störf í landbúnaði og sjávarútvegi sem eru svo lágt launuð að íslendingar velja frekar að vera áfram á atvinnuleysisbótum eða fara erlendis í leit að nýjum störfum.

Við hrun krónunnar fyrir 5 árum og kreppuáhrifin sem því fylgdu féll kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna um nærri 30%, sem var met í kjaraskerðingu. Á árinu 2012 lækkaði kaupmátturinn um 0,8% og lítil eða engin hækkun verður á yfirstandandi ári (2013). Fjárlagafrumvarpið fyrir næsta ár gerir ráð fyrir 0,3% aukningu kaupmáttar.

Helstu loforð stjórnaflokkar voru skuldaniðurfellingar og lækkun skatta. Nú eru komnar fram liggur ríkisstjórnarinnar. Þeir sem eru með lægri laun en 300 þús. kr. fá ekkert.

Skattalækkun þeirra sem eru með 300 þús. kr. mánaðarlaun fá myndarlega skattalækkun eða hitt þá heldur hún nemur  372 kr. á mánuði.

Sá sem er með 400 þús. kr. mánaðarlaun fær skattalækkun upp á 1.140 kr á mánuði.

Þeir sem hafa 770 þúsund krónur í mánaðarlaun, fá skattalækkunin upp á 3.980 krónum á mánuði.

Útgerðin fékk nokkra tugi milljarða í skattalækkun, enda greiddi hún svimandi upphæðir í kosningasjóði ríkisstjórnarflokkanna.

Og nú taka við kjarasamningar við alla launamenn í landinu og allir bíða þar að auki eftir skuldaniðurfellingunum, svo loforðunum um lagfæringar á skerðingarmörkum örorku- og lífeyrisbóta.

föstudagur, 11. október 2013

Hin ömurlega staðreyndHún var ánægjuleg sú þróun sem hófst með samstarfi ríkisstjórnarinnar með AGS og hinum Norðurlöndunum eftir Hrun. Tekið var með ábyrgum hætti á málum. Þarna var stefnubreyting frá því fyrir Hrun, reyndar var það ekki af frumkvæði íslenskra stjórnvalda.

„Vinur er sá sem til vamms segir,“ sannaðist þegar hin Norðurlöndin svöruðu íslenskum stjórnvöldum þegar þau heimtuðu enn meiri lán, með því að segja „Hingað og ekki lengra. Við erum búinn að aðvara ykkur allt frá því 2006 að þið væruð að kollkeyra íslenskt hagkerfi, en þið hafið í engu sinnt þeim aðvörunum einungis keyrt upp hraðann og stært ykkur af því að hafa byggt upp hið „Íslenska efnahagsundur!!“ Það reyndist vera innihaldslaus froða og reyndar voru forsvarsmenn nágrannaríkja okkar búnir að benda á það í amk tvö ár áður en íslenska hagkerfið flaug fram af brúninni án þess að þar væri centimetters langt bremsufar.

Íslenskir stjórnmálamenn hafa enn þann í dag ekki viðurkennt þessar staðreyndir og nokkrir helstu leiðtogar núverandi stjórnarflokka hafa ásamt forseta lýðveldisins farið um heimsbyggðina og kallað Norðurlöndin, ásamt AGS, helstu óvini Íslands, en mært þess í stað Rússland og Kína. Lönd sem ekkert gerðu til þess að koma Íslandi til aðstoðar. Því er blákalt haldið að okkur að hér hafi ekkert sérstakt gerst umfram það sem gerðist annarsstaðar og búsálhaldabyltingin hafi verið skemdarverkastarfsemi og skrílslæti.

Við höfum í litlu tekið á vandanum og eigum langt í land. Núverandi stjórnaflokkar virtu vilja þjóðarinnar í engu þegar hún vildi endurnýja stjórnarksránna, þeir gera ekkert með vilja þjóðfundar, gera ekkert með skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Þeir virða vilja 80% þjóðarinnar um að ljúka viðræðum við ESB svo fyrirliggi hvað okkur standi til boða og við getum þá tekið afstöði.

Verðbólga hér er helmingi hærri en þekkist í nágrannalöndum okkar og vextir eru þar afleiðandi tvöfalt hærri hér en í þeim löndum sem við berum okkur saman við.

Það er rétt að kaupmáttur hefur vaxið meir hér en annarsstaðar, en í því sambandi er einnig ástæða til þess að minna á að gjaldmiðill okkar hrundi til grunna og kaupmáttur féll hér á landi þar af leiðandi tvöfalt meir en annarsstaðar. Við erum enn ekki búinn að ná nágrannalöndum okkar. Þar er gert stólpagrín af stjórnarleiðtogum Íslands erlendis. Íslensk heimili eru ennþá í meiri vanda en heimilin á hinum Norðurlandanna.

Á hvaða gengi eigum við að reikna út efnahagsbatann? Við erum með ónýtan gjaldmiðil, sem nýtist ákaflega vel litlum hluta þjóðarinnar, og sá hluti kemst ekki hjá því að verða sífellt ríkari.

Sá hópur varði tugum milljóna til þess að styrkja núverandi stjórnarflokka til þess að komast aftur til valda. Spilað var á vandræði heimilanna og launamanna og þeim lofað gulli og grænum skógum kæmust þeir til valda, en efndirnar eru litlar. Íslenska valdastéttin ver sitt með öllum ráðum og hefur til þess umtalsverða fjármuni, hún hefur komið sér þannig fyrir að geta hrifsað til sín 80% af kökunni áður en 80% þjóðarinnar kemst að henni.

Núverandi stjórn heldur fast í einangrunarstefnuna og hamrar á þjóðrembunni. Það fyrirkomulag sem 20% hafa búið sér og okkur kemur í veg fyrir að okkur miði áfram og erum í stað þess sífellt að dragast meir aftur úr nágrannalöndum okkar. Láglaunastörfum fjölgar í ferðaþjónustu og laun hjá velmenntuðu fólki eru orðin smánarleg í samanburði við það sem gengur og gerist í nágrannalöndum okkar og það flýr Ísland eða kemur ekki heim að námi loknu.

80% þjóðarinnar býr við það ástand að vera með skert laun í gegnum endurteknar gengisfellingar krónunnar, greiðir hærri vexti og hefur orðið fyrir eignaupptöku. Eða með öðrum orðum launamenn eru að greiða með þeim hætti aukaskatt vegna Hrunsins og fjármagna uppgönguna, á meðan litli hluti þjóðarinnar kemur sér undan því að vera þátttakandi í þeirri skattlagningu og lifir í „Aflandskrónulandinu“ og koma sér hjá því að greiða til samfélagsins og býr að auki við amk 20% verðmeiri krónur.

Stóra vandamálið er óleyst við búum við gjaldmiðil sem ver lítinn hluta þjóðarinnar, hann hagnast gegndarlaust á því að viðhalda þessum gjaldmiðli, á meðan stóri hlutinn býr við mun lakari kost en þekkist í nágrannalöndum okkar.

Það er auðvelt að smíða leiktjöld með heimastýrðum gjaldmiðli, en það kemur að því að þau hrynja, einsog gerðist fyrir fimm árum. Undrandi horfa nágrannarnir til okkar og skilja ekki hvers vegna Ísland skuli velja krónuna framyfir evruna, sem aðeins mun gera vandamálið óleysanlegt.

Enginn vill koma með fjármagn inn í slíkt umhverfi. Krónan skapar og ver þann vítahring sem íslenskum launamönnum er búinn og hún mun viðhalda höftum, gjaldeyrisskorti, háum vöxtum og lágum launum í framtíðinni.

Þetta gerist þrátt fyrir að Ísland bíður upp á betri ávöxtunartækifæri, er ríkt af auðlindum en afrakstur þeirra rennur til 20% ekki 80%. Grikkir völdu rétt í að halda í evruna í stað þess að fara íslensku leiðina og taka upp gengisfelldan eigin gjaldmiðil sem enginn hefur trú á.

 

sunnudagur, 6. október 2013

Jeppi, barónninn og við


Sá í gærkvöldi leikritið um Jeppa og baróninn. Uppsetning Benedikts er einfaldlega brilljant. Sviðið, tónlistin, textar Megasar, einfaldlega allt smellur saman í eina frábæra sýningu. Unaðslega en um leið hrollkalda kvöldstund, þar sem dregin er upp mynd af því samfélagi sem við áhorfendur höfum búið okkur.

Verkið sjálft, þó það sé 300 ára gamalt, fjallar um veruleika okkar íslendinga í dag. Jeppi vesæll bóndadurgur er þræll og leiguliði Barónsins, sem er mynd ríkisvaldsins og valdastéttarinnar. Á einni kvöldstund fáum við ásamt Jeppa alhliða kennslu um stöðu okkar og afstöðu valdastéttarinnar.


Benedikt tekst með einu risastóru hjóli að draga upp einfalda og um leið samfærandi mynd af veröld íslenskra launamanna. Það er sama í hvora áttina við göngum, við erum alltaf á sama stað. Baróninn og hirð hans hafa skapað samfélag þar sem það er sama í hvorn fótinn Jeppi stendur,  í hálaunaðri velferðaraðalsins eða í þrautpíndum láglaunaheiminum, valdastéttin heldur sínu, staða hennar breytist ekkert.

Einn sólarhring ævi sinnar nýtur Jeppi þeirrar náðar að frelsast úr viðjum og fá að upplifa meiri paradís en orð fá lýst. Jeppi gerist aldeilis húsbóndi á sínu heimili, skipandi þjónum sínum fyrir, svolgrar í sig vínin úr þeim 2.600 flöskum sem standa á sviðinu og með guðsgöflunum rífur hann í sig matinn. Jeppi samsamar sig á svipstundu valdastéttinni sviptir þjónana launum og hóta þeim hengingu þegar þeir hafa ekki undan að bera í hann bjargirnar. Við sjáum þarna á sviðinu þá umhverfingu sem orðið hefur á þingmönnum síðasta kjörtímabils og belgja sig nú út í ráðherrastólunum í dag.

Ísland í dag. Sýning sem þú verður einfaldlega að sjá lesandi góður.