fimmtudagur, 31. desember 2009

Stóra smjörklípan

Farsinn sem stjórnarandstaðan bauð upp á í gærkvöldi var fjarstæðukenndur. Þar blasti við hin yfirgengilega afneitun og lýðskrum. Á tímum sem þessum er það fantaskapur að vekja væntingar hjá almenning sem ekki er innistæða fyrir. Það að stilla Icesave málinu þannig upp að málið snúist um hvort við veljum að borga eða borga ekki, er eitthvert mesta og ómerkilegasta lýðskrum sem boðið hefur verið upp á hér landi fyrr og síðar. Smjörklípa til þess að draga athyglina frá hinum raunverulega vanda.

Það er ekki boðlegt að þingmenn bjóði þjóðinni upp á götustráksleg frammíköll, ásakanir um landráð og óvinveittar þjóðir sem sameinist um að leggja Ísland að velli. Það er en skelfilegra að lesa ummæli eftir þingmenn sem hrósa sjálfum sér fyrir að hafa staðið sig vel, eins og maður les á facebókarfærslum í nótt og í morgun. Álit þingsins hefur fallið meira en krónan.

Hvar í veruleikanum er þetta fólk statt? Hvernig í ósköpunum komst svona fólk inn á þing? Umræðulist þessa fólks virðist ráðast af því einu að koma sér upp að minnsta kosti einum ógöngum, sem síðan bornar eru á andstæðinginn í endurteknu rakalausu stagli. Ætíð lendir umræða íslenskra stjórnmála í sama farveg. Tvö lið sem rífast um smjörklípur sem hent er reglulega inn í umræðuna. Ekkert miðar og engin ásættanleg niðurstaða næst.

Hvað ætla menn að gera ef ekki er gengið til samninga um Icesave? Hvað ætla menn að gera ef lánshæfismat Íslands fellur um tvo eða þrjá flokka? Hvernig ætla menn að byggja upp atvinnulíf ef fyrirtækin hafa einungis aðgang að fjármagni, sem er á þeim kjörum að framleiðsla þeirra verður ekki samkeppnishæf?

Hvað ætla menn að gera ef hátæknifyrirtækin verði að flytja höfuðstöðvar sínar til Evrópu? Landsvirkjun og Orkuveitan geta ekki endurfjármagnað sig? Nema á vaxtakjörum sem gera það að verkum að tvöfalda þurfi orkuverð hjá almenning, vegna þess að fyrirliggja langtímasamningar um fast verð hjá stórkaupendum og ekki fáist fjárfestar til þess að koma hingað vegna þess að orkuverðið er orðið of hátt.

En þessi málflutningur hefur haft þau áhrif, þegar hlustað er á umræður í heitu pottum sundlauganna, að þjóðin ræðir Icesave málið á kolvitlausum forsendum byggðum á óraunsærri óskhyggju og kemst þar af leiðandi að niðurstöðum, sem eru dæmdar til þess að valda svo miklum vonbrigðum þegar staðreyndir liggja fyrir og stóru dómarnir eru felldir af dómstólum götunnar og þá á að höggva á mann og annan. Þá er farið að og leitað að sökudólgum og þá njóta smjörklípumennirnir sín í skítkastinu. (InDefence)

Ísland getur ekki hafnað því að standa við alþjóðlegar skuldbindingar, sem voru staðfestar á þingi fyrir rúmu ári undir framsögu núverandi formanns Sjálfstæðisflokksins og þáverandi fjármálaráðherra. Síðan þá hefur legið fyrir að Ísland yrði að borga. Málið snérist einungis val um hvernig það yrði gert.

Ég hef áður vitnað nokkrum sinnum til ummæla hinna norrænu vina okkar, um að endaleysan á Íslandi gangi ekki lengur og íslendingar verði að fara að taka til hjá sér í efnahagsstjórninni. Í erlendum fjölmiðlum, þar sem rætt er við efnahagssérfræðinga um Icesave málið og niðurstöðu Alþingis, hefur komið fram að íslenskir stjórnmálamenn hafi fullkomlega misst sig í umræðum um málið og sú dramatík sem þeir hefðu dregið upp væri eitthvað svo íslensk og út í hött. Þessi vinnubrögð íslenskra stjórnmálamanna sem hafa dregið orðspor Íslands langt niður hjá vinaþjóðum okkar og ekki síður í sjálfsímynd íslendinga.

Þetta hefur tafið uppbygginguna um eitt ár og atvinnuleysi mun líklega tvöfaldast á næstu mánuðum.

Og Jóhanna Guðrún söng svo vel "Is it true, is it over" í Júróvisjón og náði 2. sæti. = Er það satt, að þetta sé búið?

Já ruglið er búið sem fyrrv. ríkisstjórnir settu upp og þrættu við erlenda eftirlitsaðila og norrænu, bresku og hollensku seðlabankastjóranna um að þetta gæti ekki staðist og Ísland yrði að grípa til aðgerða. Á meðan Seðlabankastjórnarmenn ásamt Fjármálaeftirlitsmönnum fóru um heimsbyggðina með aðalklappstýrunni, Forseta Íslands, og reyndu að telja fólki í trú um Íslenska efnahagsundrið.

miðvikudagur, 30. desember 2009

Athafnamenn ársins

Ég sat allmarga fundi í vor með mönnum í atvinnulífinu, þá helst með þeim sem koma frá hátækni- og sprotafyrirtækjum. Tveir þeirra voru valdir voru menn viðskiptalífsins 2009 af Markaðnum, þeir Hilmari V. Péturssyni, forstjóri CCP og Jóni Sigurðssyni, forstjóri Össurar. Hilmar Veigar var einnig útnefndur sem maður ársins í Viðskiptablaðinu.

Ég hef alloft vitnað til ummæla þeirra og annarra sem voru með okkur á fundunum í pistlum mínum. Sjá m.a. (hér) og (hér) og (hér) og (hér) Svo einkennilegt sem þá nú er þá eru sumir einangrunarsinnar sem halda því blákalt fram að það séu einmitt sprota- og hátæknifyrirtækin sem vilji hafa krónuna. Þrátt fyrir að forsvarsmenn þessara fyrirtækja nýti hvert tækifæri sem þeir fá til að koma á framfæri hinu gagnstæða. Undir það álit hafa forsvarsmenn margra stéttarfélaga, kannski ekki síst í rafiðnaði tekið undir og bent á því til stuðnings hvar fjölgun starfa á vinnumarkaði hafi átt sér stað.

Þessi hópur fundaði í vor með ráðherrum, þingmönnum og ýmsum öðrum í stjórnsýslunni um leiðir til framtíðar út úr kreppunni og þar voru efst á blaði aðild að ESB og upptaka evru. Hilmar og Jón endurtaka það sem kom fram á fundunum í viðtali í fylgiriti Fréttablaðsins í dag, að rekstrarhorfur alþjóðlegra fyrirtækja sem staðsett eru hér á landi séu mjög slæmar. Í raun hafi aldrei verið mögulegt að ræða um rekstrarhorfur fyrirtækja í því sveiflukennda ástandi sem hér hafi verið um áratuga skeið.

Hilmar líkir uppbyggingu í atvinnustarfsemi hér við það að búa í árfarvegi. Hann er frjósamur og góður. Þar er fullt af sprotum og mikil gróska. En svo fer að rigna. Þá kemur flóð og það ryður öllum sprotunum í burtu. Þegar grynnkar aftur í ánni er aftur talað um hvað farvegurinn er góður. Svona gerist þetta á um tíu ára fresti. Það er sama hvort krónan er fasttengd, undir höftum eða handstýrð. Það hafa verið reynd ýmis kerfi með krónur en ekkert virðist virka.

Það er lífnauðsynlegt að finna varanlega lausn á gjaldmiðlamálum Íslendinga. Myntsvæði heimsins hafa stækkað síðustu ár og orðið einfaldari. Það haldist í hendur við alþjóðavæðinguna og aukinn hraða í samskiptum og viðskiptum. Á fundunum sem ég hef svo oft vitnað til voru menn úr atvinnulífinu undrandi á þeirri andstöðu sem orðin er gegn aðild Íslands að ESB. Þar virðast ráða þeir sem hafa stóra hagsmuni af því að beita sér gegn ESB og beita öllum klækjum til að mála það sem vond útlendingasamtök sem vilji koma höndum yfir allt sem hér er.

Uppbygging og afkoma íslenskra fyrirtæki byggist á því að geta fengið samkeppnishæfa fjármögnun erlendis. Krónan hefur verið tæki fyrir stjórnvöld til að stýra kaupmætti almennings án þess að hann upplifi það.

Menn viðskiptalífsins í ár segja einkennilegt ástand ríkja hér á landi og gagnrýna harðlega þær tafir sem orðið hafa á endurreisn efnahagslífsins. Þeir skrifa það á reynsluleysi og því sem næst barnaskap stjórnmálamanna. "Þessi litla þjóð sem stendur frammi fyrir þessum mikla vanda má ekki við svona löguðu. Umræðan má ekki fara í tittlingaskít og hártoganir," segir Jón.

Hilmar tekur við keflinu. "Kerfið hefur verið lamað í ár. Það hefði verið auðvelt að díla við hrunið. Grunnhagkerfi landsins beið ekki tjón og enginn dó. En síðan komu meðulin; gjaldeyrishöft og málþóf um Icesave. Þetta er okkar vandamál og það er algjörlega sjálfskapað."

þriðjudagur, 29. desember 2009

Skussar ársins

Ef litið er yfir árið sem er að líða, blasa hvarvetna við draumar almennings um að nú sé tækifæri til þess að hreinsa sorann út úr æðakerfi þjóðarinnar. Hvert við gætum náð á næsta ári að fenginni skýrslu rannsóknarnefndarinnar og gerð nýrrar stjórnarskrár. En gamla flokkakerfið berst um til þess að viðhalda tökum sínum á þjóðfélaginu.

Á sínum valdatíma fjölgaði Sjálfstæðisflokkurinn ríkisstarfsmönnum um tæplega helming og jók ríkisútgjöldin um svipað. Skattar á hina hæst launuðu voru lækkaðir á meðan skattar á hina lægst launuðu voru hækkaðir. Gengið var lengst allra til hægri með skattkerfið. Spilling óx með vinapólitík og klíkuveldi. Farið var með sparifé almennings eins og það væri eign valdhafanna, það endurspeglast svo vel í því, að ítrekað hafa launamenn orðið að minna valdaklíkuna á að það sé ekki þeirra að ráðstafa því sparifé sem er í lífeyrissjóðunum.

Efnahagsmistök voru leiðrétt með gengisfellingum og valdaklíkan rígheldur í krónuna og berst fyrir áframhaldandi einangrun Íslands. Þetta var staðfest með kvótakerfinu og svo einkavinavæðingu bankanna. Valdaklíkan ætlar að halda sinni stöðu. Ekkert á að breytast. Það endurspeglast svo vel í málflutningi þingmanna Framsóknar og Sjálfstæðismanna.

Það er hér sem reynir mest á núverandi ríkisstjórn, hefur hún þrek til þess að takast á við þetta. Tekst þingmönnum valdaklíkuflokkanna að eyðileggja þennan framgang. Við öllum blasir tilgangsleysi þeirrar umræðu sem þeir hafa viðhaldið allt þetta ár. En bak við skín hin raunverulegi tilgangur, að sprengja ríkisstjórnina og komast aftur til valda.

Á þessu ári hefur glögglega komið fram vilji almennings um að stjórnmálamenn taki nú höndum saman og vinni að lausn þessara mála. En þeir hafa svarað með því að stilla upp fáránleikhúsi, þar að baki býr viðhald valda og efnahagslegir hagsmunir. Ætlast þessir menn að við trúum því að allar þjóðir Evrópu hafi gert samsæri gegn Íslandi? Þetta fólk hefur gert Alþingi að ómerkilegri málfundarstofu með ruddafegnum frammíköllum og innistæðulausu málþófi. Þar fara skussar þessa árs, sé spurningu Kastljóssins í gær svarað.

Verkefnið er ný stjórnarskrá. Með nýrri stjórnarskrá felst bylting sem vekur óhug hjá kjörnum fulltrúum. Þeim sé veitt aðhald og ráðherraræðið afnumið. Almenningur verður að eiga möguleika á aðkomu að stjórn landsins. Aðalverkefni stjórnlagaþings verður að setja forstokkuðu flokkafulltrúaræði skorður og opna alþýðu leið að ákvörðunum.

Viðbrögð sjálfstæðismanna gagnvart Stjórnlagaþingi eru eitthvað svo fyrirséð. Þeir treysta engum öðrum en sjálfum sér til þess að fara með mál þjóðarinnar. Í langri valdatíð sinni hafa þeir komið á ráðherraræði, Alþingi er ekki lengur æðsta valdastofnun landsins. Vilji þingmenn eiga nokkra von um frama verða þeir að lúta vilja ráðherranna. Alþingi er orðið að afgreiðslustofnun frumvarpa ráðherra og aðstoðarmanna þeirra. Þingmannafrumvörp eru sett í geymslu í nefndum.

Í mörg ár hefur það legið fyrir að Stjórnarskránni er í mörgu ábótavant. En hún hentar vel því stjórnarfari sem skapað hefur verið og þeirra varna sem gripið er til gagnvart vilja þjóðarinnar. Ríkisstjórnin hefur í valdatíð Sjálfstæðismanna orðið að æðstu valdastofnun landsins. Ríkisvaldið er ekki lengur þrískipt á milli löggjafar-, framkvæmdar- og dómsvalds, eins og stjórnarskráin mælir fyrir heldur einungis tvískipt, á milli framkvæmdarvalds og dómsvalds.

Auk þess skipar framkvæmdarvaldið dómara með þeim hætti sem við þekkjum svo vel og lætur stundum setja afturvirk lög, en þau vega að áhrifum dómstóla. Fyrir liggja rannsóknir sem sýna fram á að allt að 30% laga sem ráðherrar hafa keyrt í gegn stangist á við önnur lög, eða jafnvel stjórnarskrá. Við þekkjum viðbrögð ráðherra, ef sú staða kemur upp að sýnt er fram á að ætlan ráðherra stangist á við stjórnarskrá. „Þá breytum við bara stjórnarskránni.“

Framkvæmdarvaldið sjálft telur sig vera þess umkomið að semja þær reglur sem eiga að takmarka vald þess. Þetta er algjör þversögn, það eru vitanlega landsmenn sjálfir sem eiga að setja sér stjórnarskrá án afskipa frá ráðherravaldinu.

Vilji almennings stendur til þess að vinna við nýja stjórnarskrá verði afskipta ríkisvaldsins og stjórnmálaflokkanna, með því að koma á fót stjórnlagaþingi, sem semdi frumvarp að nýjum stjórnskipunarlögum. Þar á að vera samankominn þverskurður Íslendinga með fagfólki, sem semur frumvarp að nýrri stjórnarskrá, sem síðan verður lagt fyrir Alþingi. Það gæti breytt frumvarpinu, ef það leggur í að ganga gegn vilja Stjórnlagaþings. Þessi aðferð tryggir það að aðrir en alþingismenn gætu einnig haft skoðun á málinu. En svo er að sjá hvort þeir hafi burði til þess.

mánudagur, 28. desember 2009

Ónýtur gjaldmiðill

Á undanförnum misserum hafa íslenskt fyrirtæki, þá sérstaklega forsvarsmenn sprotafyrirtækjanna, bent á að það sé nánast útilokað að byggja upp fyrirtæki á Íslandi í umhverfi krónunnar. Hinar gríðarlegu sveiflur og óstöðugleiki geri alla áætlanagerð óframkvæmanlega. Umsókn að Evrópusambandinu er stórt skref í á að tryggja íslensku hagkerfi stöðugleika.

Uppbygging sprotafyrirtæka af heppilegri stærð er það sem við eigum að skoða. Við höfum sýnt mikla færni á því sviði, öflugt og sveigjanlegt vinnuafl og eigum verðmæt sprotafyrirtæki, sem geta gert stóra hluti sé þeim búið eðlilegt umhverfi. Það hefur komið fram hjá forsvarsmönnum þessara fyrirtækja að þeir sjá ekki sína framtíð hér í óbreyttu efnahagsumhverfi og með óbreyttum gjaldmiði. Þeir hafa bent á að þau gætu flutt heim nokkur hundruð atvinnutækifæri sem starfa hjá þessum fyrirtækjum erlendis.

Algengt viðkvæði íslenskra stjórnmálamanna sem verja krónuna er að benda á lönd innan ESB. Þar sé við mikil efnahagsvandamál að etja, en staðreyndin er sú að ekkert þessara landa hefur upplifað fullkomið hrun eins og við. Kaupmáttur þar er ekki í falli vegna gengisfalls gjaldmiðilsins.

Á þessum forsendum skilur maður ekki hvers vegna umræða um þessi mál fer ætíð út um víðan völl í upphrópunum með endurteknum marklausum klisjum. Sumir nýta það sem rök að með krónunni sé hægt að stýra afkomu útflutningsgreina með gengisfellingu. Íslenskir stjórnmálamenn hafa nýtt sér örgjaldmiðilinn krónuna til þess að rétta af slaka efnahagsstjórn og hafa með því gefið kjarasamningum launamanna langt nef.

Verðbólga í nágrannalöndum okkar er og hefur verið umtalsvert lægri en hér og sveiflur eru margfalt minni. Það hefur leitt til þess að vextir þar eru margfalt lægri og ekki þörf á verðtryggingu eða greiðsludreifingu á vaxtagreiðslum. Verðlag þar er lægra og stöðugra. Vextir á húsnæðislánum og langtímalánum á bilinu frá 2,4% - 5%. Þar er fólk ekki að tapa eignum sínum vegna ónýts gjaldmiðils, ofurvaxta og verðtryggingar. Þar getur fólk selt eignir sínar og flutt þær, t.d. til annarra landa. Hér í krónuumhverfinu er hvorugt hægt. Hér verða ellilífeyrisþegar að éta það sem úti frýs undir lakri stjórn stjórnmálamanna.

Vextir hér á landi verða alltaf a.m.k. 5% hærri á Íslandi en innan Evrusvæðisins vegna krónunnar. Ef fjölskylda kaupir sér hús á Íslandi og önnur kaupir sér hús t.d. í Danmörku. Þá er staðan sú eftir 20 ár að þá hefur íslenska fjölskyldan greitt sem svarar andvirðis tveggja húsa, séu greiðslur bornar saman við endurgjald dönsku fjölskyldunnar.

Ekkert land í Evrópu hefur orðið fyrir jafnmiklu kerfistjóni og Ísland, það er vegna hruns krónunnar. Ekkert Evruríki hefur orðið fyrir jafnmiklu tekjutapi og hér, það er vegna hruns krónunnar. Tekjustofnar ríkissjóðs hafi hrunið um tugi prósenta. Ísland er fullkomlega rúið efnahagslegu trausti, það er vegna krónunnar. Hér má vísa til ummæla forsvarsmanna atvinnulífsins. Rekstur reistur á traustum grunngildum í stöðugu umhverfi verður stöðugur og leiðir jafns vaxtar og skapar störf. Það rekur engin fyrirtæki til langframa með bókhaldsblekkingum. Hér hafa fjárglæpamenn hagnað af því að taka stöðu gegn krónunni og það lendir svo á skuldsettum fjölskyldum að verða enn skuldsettari og búa við mun lakari kaupmátt.

Íslenskt atvinnulíf getur ekki endurfjármagnað sig, það er vegna krónunnar Lönd sem eru með Evru eru ekki í sömu vandræðum. Vextir hér eru hærri vegna krónunnar. Vextir leiða til hærra verðlags. Óstöðugur gjaldmiðill gefur af sér enn hærra verðlag og knýr fram verðtryggingu. Það eru aðstæður og skilyrði sem ákvarða hvort fyrirtæki vaxa og dafna.

25% af launum íslendinga fara í aukakostnað vegna krónunnar. Til þess að hafa svipuð laun og annarsstaðar á norðurlöndunum þurfum við að skila 25% lengri vinnuviku. Hvergi hefur eignatap einstaklinga orðið eins mikið og hér, það er vegna hruns krónunnar. Stór hluti af verðfalli eigna lífeyrissjóða og sjóða þar sem fólk geymir sparifé sitt er vegna þessa kerfisfalls krónunnar og þessi hluti stefnir í að verða langstærsti þátturinn í verðfallinu.

Krónan heldur íslendingum í efnahagslegum þrælabúðum.

sunnudagur, 27. desember 2009

Verzlum við hjálparsveitirnar

Margoft hafa landsmenn notið aðstoðar björgunarsveitanna. Björgunarsveitarfólkið er ekki bara að leita að fólki til fjalla, auk þess hafa verið stórir flokkar úr sveitunum að störfum í þéttbýli með lögreglu og slökkviliðsmönnum við að bjarga eignum fólks frá skemmdum.

Björgunarsveitarfólk um allt land hefur margoft sýnt að starf þess er algjörlega ómetanlegt og oft við aðstæður sem geta verið lífshættulegar.

Innan Landsbjargar starfa um átján þúsund manns í sjálfboðaliðsvinnu. Við skuldum þessu fólki að það geti notað besta fáanlegan búnað. Ekki bara svo hægt sé að ná til okkar í nauð heldur einnig að það setji sig ekki í aukahættu vegna lélegs búnaðar.

En ekki má gleyma því mikla uppeldishlutverki sem björgunarsveitirnar vinna, þar lærir ungt fólk að umgangast íslenska náttúru og um leið eru byggðir upp heilbrigðir og öflugir einstaklingar Flugeldasala fyrir áramót er mikilvægur tekjupóstur í fjáröfluninni og allt þetta fólk á það inni hjá okkur að við fjölmennum á sölustaði björgunarsveitanna.

En fyrir alla muni notið öryggisgleraugu og varið varlega svo við getum átt slysalaus og gleðileg áramót. Og skjótum upp á gamlárskvöld, er ekki ástæðulaust að vera að því á öðrum tímum.

fimmtudagur, 24. desember 2009

Rafskólp

Skyndilega rataði umfjöllun um svokallað rafskólp inn í fréttatímana. Það er búið í alllangan tíma að gera margskonar tilraunir til þess vekja athygli á því hvernig óprúttnir skottulæknar hafa verið að spila með trúgirni saklaus fólks og nýta það til þess að hafa af því stórfé. En því miður hefur það ekki tekist sem skildi að koma því á framfæri.

Öll þekkjum við þá staðreynd að í rannsóknum hefur ítrekað komið fram að sunt fólk læknast fullkomlega á því að borða hveitipillur. Fyrir um 20 árum eða svo læknaðist margt fólk af allskonar kvillum með því að kaupa sér og ganga með svokölluð segularmbönd, svo maður tali nu ekki um fótanuddstækin sem voru flutt hingað í flugvélum fólki lá svo á að laga heilsuna. Það hafa farið fram gríðarlega miklar rannsóknir t.d. á hinum norðurlöndunum á rafseguláhrifum t.d. hvort spennustöðvar og raflínur nálægt húsum geti valdið sjúkdómum. Það hefur ekkert komið fram sem sýnir með afgerandi eða sannanlegum hætti að svo sé.

Í þessu sambandi má t.d. benda á kerskálana í álverunum. Um þá fara gríðarlegir rafstraumar við álbræðsluna. Ég vann í kerskálum Ísal nokkur ár, armbandsúr skemmast á svipstundu ef farið er með þau um skálana. Öllum starfsmönnum álverana er gert að vera í öryggisskóm með stáltám, og þegar gengið er um gólf skálanna leita fæturnir út og suður vegna hinna miklu segulsviða sem eru vegna rafleiðarana milli álbræðslukerjanna. Þarna hafa margir unnið áratugum saman án þess að fram hafi komið nokkrir sjúkdómar og eða nokkur önnur merki um neikvæð áhrif rafsegulbylgjanna. Sama mætti segja um orkuverin og þá sem þar starfa.

Inn á skrifstofur Rafiðnaðarsambandsins berast reglulega kvartanir og spurningar vegna starfsemi aðila sem bjóða upp á þjónustu við mælingar á rafbylgjum, sem eiga að streyma fram úr tenglum og ljósum og valda margskonar kvillum hjá mannfólki og skepnum.

Þessir aðila bjóða til sölu margskonar búnað, eins og t.d. plaströrsbúta þar sem búið er að vefja vír um nokkra hringi og hengt er upp bak við gluggatjöld eða sett undir rúm, eða stillt upp með miklum leikrænum athöfnum skottulæknanna í ákveðið horn gripahúsa eða bak við gardínur í hjónaherberginu. Við það eiga samfarir hjóna að snarbatna, giktin að hverfa og þunglyndið að gufa upp.

Einnig er fólki selt fyrir tugi þúsunda króna eitthvað koparskraut sem á að breyta farvegi rafbylgna. Þessi fáránleiki á að breyta stefnu óvinveittra rafbylgna sem streyma um híbýli fólks, fjós og fjárhús. Spyrja má hvort ekki væri þá allt eins hægt að nýta kertastjakann til þessara athafna eða hvort hann upphefji áhrif töfradraslsins.

Það er ábyrgðarhluti að ala á ótta hjá saklausu fólki, sem ekki þekkir til hegðan og eðli rafmagns og nýta þann ótta til þess að selja margskonar þjónustu og mælingar svo ekki sé talað um sölu á rándýrum einkennilegum búnaði.

Þessir fánýtu hlutir skipta ekki miklu um öryggi fólks en það er aftur á móti grafalvarlegur hlutur þegar fólk er hvatt til þess að rjúfa jarðtengingar húsa sinna eða rjúfa jarðtengingar í rafklóm. Þarna er reyndar hin mikla mótsögn, því góðar og vel frágegnar jarðtengingar vinna einmitt gegn „óvinveittri“ hegðan rafmagns. T.d. getur léleg og engin jarðtenging leitt til þess að rafbúnaður hegði sér ekki eins og hann á að gera og einnig getur myndast mikill spennumunur milli rafhluta og annarra málmhluta í gripahúsum og íbúðarhúsum, sem verður svo lífshættulegur fólki og gripum, Þetta getur einnig leitt til hitamyndunar og íkveikju.

Það er nauðsynlegt að markviss kynning verði sett af stað á þessum athöfnum og almenning gerð grein fyrir þeim staðreyndum sem liggi fyrir um „skólp í raflögnum“ – „rafbylgjum sem streymi út úr tenglum og raflögnum“ og fleiru.

Það er rétt að sumstaðar hefur ekki verið gengið nægilega vel frá jarðtengingum oftast vegna þess að ekki eru rekinn niður nægilega góð jarðskaut. Fólk á að leita til fagfólks þegar átt er við raflagnir. Dettur einhverjum að leita t.d. til fisksala með hjartauppskurð, vegna þess að hann á beitta hnífa til flökunnar?

miðvikudagur, 23. desember 2009

Jákvæðni og samhug takk fyrir

Maður mætir almennt jákvæðni í samfélaginu meðal almennings, eins og ég hef alloft lýst, t.d. af þeim fjölmörgu félags- og vinnustaðafundum sem ég hef verið á þetta ár. Fólk vill taka höndum saman og að þjóðin vinni sig úr þessum vanda. Það er tilbúið axla tímabundið sanngjarnar byrðar verði það til þess að við náum fyrr að landi.

Á fundum um kjara- og þjóðfélagsmál hef ég mætt þessum viðhorfum og fólk gerir ákaflega lítið úr þeim örfáu sem eru sífellt gjammandi neikvæðni í spjallþáttum. Einstaklingar sem sífellt setja fram yfirboð og töfralausnir og hafa í sjálfu sér ekkert annað fram að færa en upphafningu sjálfra sín á kostnað annarra. Oft eru þetta einstaklingar sem voru með allt í steik fyrir hrun, en gripu það feginshendi og gera það að sökudólg til þess að losa sjálfa sig undan ábyrgð.

Forsvarsmenn fyrirtækja atvinnurekenda hafa flestir sýnt vilja til þess að taka þátt í uppbyggingu sama má segja um almenna launamenn. Fólk vill fylgja þeirri raunsæisstefnu sem fylgt hefur verið síðan Þjóðarsátt var sett. En það eru á svæðinu nokkrir eftirlegusauðir fjárglæfranna, sem reyna að villa fyrir um rannsóknarnefndum með útúrsnúningum og málþófi.

Á einum vinnustað ræður þó ríkjum fullkominn upplausn og lýðskrum flæðir þar um sali. Þetta er Alþingi. Þar er hver höndin upp á móti annarri. Umræðan einkennist af innihaldslausu kjaftæði þar sem farið er hring eftir hring og mönnum miðar ekkert. Efnahagsspekingar Sjálfstæðismanna með Hannes Hólmstein í farabroddi segja að það sé engin ástæða til þess að hækka skatta. Samt blasir við hundruða milljóna gjaldþrot Seðlabanka undir þeirra stjórn, sem lendir á þjóðinni.

Ætla þeir að greiða þessa skuld sjálfir? Ætla framsóknarmenn að skella sér á einhvern annan bar í Osló og finna þar einhvern sem segir að þetta sé ekkert mál. Sá er sko skal ég segja þér tilbúinn að lofa upp á æru og trú að hann muni sko finna einhvern norskan ráðherra sem borgi þetta bara, bara allt saman. Ha, hikk, hikk, skál. Að þetta skuli hafa dregið inn í fréttaþætti og menn hafi rætt þetta þar af einhverri alvöru, segir nánast allt um á hvaða plani fréttaflutningur er.

Maður vill ekki trúa því að skilningsleysi þingamanna á stöðu þjóðfélagsins sé algjört og vill heldur ekki trúa því að þeir vilji ekki vera þátttakendur í baráttu þjóðarinnar fyrir tilvist sinni. Af hverju geta þingmenn ekki lagt valdabrölt og framapot til hliðar og tekið höndum saman og unnið að lausnum?

Icesave-málið er orðið að þráhyggju. Er það leið til endurreisnar að neita að horfast í augu við þann veruleika að alþjóðasamfélagið snúi baki við okkur? Traust til Íslands hverfi endanlega og lánalínur lokist. Áframhaldandi gjaldeyrishöft og vaxandi atvinnuleysi og kaupmáttarrýrnun.

Halda menn að þessar skuldir hverfi ef skipt verði um ríkisstjórn? Eru menn tilbúnir í nokkurra mánaða kyrrstöðu á meðan stjórnmálamenn bregða sér í kosningabaráttu?

þriðjudagur, 22. desember 2009

Endalaust lýðskrum

Það hefur legið fyrir landsmönnum síðan í nóvember fyrir ári síðan viðurkenning þáverandi ríkisstjórnar staðfestri af Alþingi á því að Ísland bæri ábyrgð á þessu.

Það hefur legið fyrir í tæplega 2 ár að ekkert nágrannalanda okkar myndu sinna okkur í neinu fyrr en búið væri að ganga frá þessu.

Það hefur legið fyrir síðan í vor hversu langt væri hægt að ná í samningum og þá lá fyrir mun betri samningur en ríkisstjórn Geirs hafði náð.

Það hefur legið fyrir allt þetta ár að með hverjum mánuði sem þetta mál drægist myndi uppdráttarsýki íslensks atvinnulífs vaxa.

Nú blasir við að fjöldi atvinnulausra mun líklega tvöfaldast í janúar og febrúar.

Nú blasir við að stór fyrirtæki riða á barmi gjaldþrots vegna þess að þau geta ekki endurfjármagnað sig á þeim kjörum sem Íslandi standa til boða.

Nú blasir við að íslensk orkufyrirtæki geta ekki fjármagnað uppbyggingu orkuvera með þeirri ávöxtunarkröfu sem þeim stendur til boða í dag.

Nú blasir við að Ísland er komið í ruslflokk vegna þessa dráttar Alþingis

Forsvarsmenn sprota- og hátæknifyrirtækja komu fram fyrri hluta þessa árs á hverjum fundinum á fætur öðrum og sögðu að það lægi fyrir að þau gætu ekki endurfjármagnað sig og yrðu líklega að flytja höfuðstöðvar sínar til meginlands Evrópu ef ekki yrði gengið fljótlega frá þessu.

Hér er úrdráttur úr svari til eins af hratt vaxandi sprotafyrirtækjum þessa lands, sem mér var sent afrit af í síðustu viku :

After some negotiation and looking at different suppliers I have some bad news - not impossible just bad. We have finally concluded that there is absolutely no way we can obtain credit insurance on NN - not because of NN as a company, but in short any company associated with Iceland is a problem.

As I explained during your visit XXXX has been 'burned' quite badly in recent years with credit terms gone bad. As a result there is a strict protocol regarding the application for credit insurance, and the procedure in the event that such insurance is not available.

To that end I now have to submit my proposals for NN to XXXX corporate headquarters for approval first, and make any adjustments as necessary. To that end it will be early next week before I can make an approved proposal to you.

XXXX has put a lot of effort into trying to meet your requirements, so we are certainly not ready to give up because of some commercial issues. However, could I also ask if you have come across similar issues with other suppliers and how you overcame the issues - for example during this process of trying to obtain the insurance we have been made aware that some Icelandic companies have transferred 'headquarters' at least on paper to Norway, as one possible solution.

You feedback on this would help me agree some way forward with our headquarters.

Thanks for your feedback.
Best Regards


Allt þetta getum við íslendingar þakkað sérstaklega óábyrgum vinnubrögðum og linnulausu lýðskrumi Framsóknar- og Sjálfstæðismanna á þessu ári. Eins hvernig þessi staða varð til undir stjórn ríkisstjórnar Geir Haarde og Davíðs Oddsonar Seðlabankastjóra

sunnudagur, 20. desember 2009

Nóg eiga þeir af aurnum

Ég er búinn að vera mikið á flakki með félagsfundi út um allt og hef hitt um 300 félagsmenn undanfarna daga. Ég hef komið að því áður, en sú umræða sem maður heyrir meðal fólksins er um margt á allt öðru plani en dregið er upp í fjölmiðlum og spjallþáttum. Fólk sækir til síns stéttarfélags eftir ráðum og aðstoð. Þar ríkir ekki stríðsástand eins og ætla mætti, sé litið til ummæla sem fram hafa komið. Fram fer málefnaleg umræða og raunsæ markmiðssetning.

Viðhorf til Alþingis meðal almennings einkennist af litlu trausti, sem er afleiðing vinnubragða og framgöngu þingmanna undanfarið ár. Það er reyndar svo komið að fólk segist vera hætt að fylgjast með störfum þingmanna, hafi annað þarfara að gera við tíma sinn. Svona ástand ætti í reynd að vera uppgripstímar fyrir þingmenn og almenningur bar miklar væntingar til þeirra.

Verkefnin blasa við um allt og stjórnmálamenn ættu að finna sig í að taka höndum saman um lausn þeirra. En viðhorf stjórnmálamanna núverandi og fyrrverandi endurspeglar það sem gerðist í aðdraganda og eftir hrun, sundrungin í pólitíkinni er fullkomin. Ástandið hefur aldrei verið verra og umræður snúast um það eitt að koma höggi á aðra.

Í hvert skipti sem við heyrum stjórnmálamann tala, snýst orðræða þeirra um þá óvini sem skyggja á alla þeirra útsjón. Þar á meðal eru alþjóðastofnanir, nágrannalönd og fyrirtæki, allir leggjast að mati stjórnmálamanna á eitt; að koma höggi á litla Ísland. Eins og það sé nú trúverðugt? Og nú er búið að slíta öll tengsl við hagsmunasamtök, þau eru svo miklir óvinir, reyndar er það harla einkennilegt, félagsmenn stéttarfélaga eru almenningur og reyndar einnig kjósendur þessa lands. Þarna fara fremstir í flokki ungir þingmenn, auðheyrilega talandi af miklu reynsluleysi og skilningsskorti á tilgangi starfa þeirra.

Störf þingmanna og forsvarsmanna hagsmunasamtaka eiga ekki að snúast um að búa til óvini, heldur laða fram markmið og finna leiðir til þess að ná þeim. Þegar menn hafa náð kosningu gildir ekki að halda áfram að gagnrýna allt og alla. Að kosningu lokinni vill fólk sjá árangur, ábyrga vinnu og lausnir á því sem gagnrýnt hafði verið og leiddi til niðurstöðu kosninga. Þetta sjáum við því miður bæði hjá ungum þingmönnum og ungum mönnum sem náð hafa kjöri í stórum stéttarfélögum. Þá kemur því miður oft í ljós, að þeir geta ekkert nema gagnrýnt og verða uppvísir af að geta ekki fært nein rök fyrir gagnrýni sinni. Það endurspeglar þeirra getuleysi. Nóg eiga þeir af aurnum, sagði fullorðin kona við mig norður á Akureyri í vikunni.

Núverandi þingmenn eru ekki einir um að finna óvini. Ekki er að sjá nokkurn áhuga hjá eldri ráðherrum og þingmönnum á að leita að ráðum til lausnar á vandamálum og leiðbeina ungum þingmönnum. Bréf Ingibjargar Sólrúnar er í raun einungis partur af þessu, sama á við um þá umræðu sem einkennir Morgunblaðið þessa dagana. Mestu mistök sem stjórnmálamaður hefur gert er þegar Davíð fór í ritstjórastólinn, heyrir maður víða.

mánudagur, 14. desember 2009

Skattabreytingar

Nokkrir hafa verið að leika sér á aths. dálkum þessarar síðu, vegna skattamála undanfarna viku, ég hef verið fjarverandi bæði vegna vinnu og nokkurra daga leyfis svo ég var ekki í stöðu til þess að svara almennilega og það nýttu þrír einstaklingar sér til þess að senda mér í gríð og erg harla einkennilegar alhæfingar og órökstuddar dylgjur um starfsfólk stéttarfélaganna, þannig að ég ákvað að birta það ekki.
Það er svo sem í lagi að menn ausi yfir mig drullu, en þessi síða er ekki, á meðan ég stjórna henni, vettvangur fyrir ritsóða til að skíta út saklaust fólk. Jafnframt því að ég hef beðið menn um að halda sig við efni viðkomandi pistils í aths.

Ritsóðarnir hafa einnig leikið sér að allskonar útúrsnúningum og verið í staðreyndasmíðum. Þegar ég var í Kennaraháskólanum sótti ég m.a. tíma í heimspeki og þar er fjallað um rökfræði. Þar var sýnt fram á hvernig sumir gefa sér forsendur og draga síðan út einhverja vitleysu. T.d. í afleiðum

Engin kálfur hefur 9 rófur
Einn kálfur hefur einni rófu fleiri en engin kálfur
Afleiða = Allir kálfar hafa 10 rófur.

T.d. fann einn það út að þar sem ég væri samþykkur Icesave, þá vildi ég ferðast um í einkaþotum!!?? Ég hef reyndar margoft tekið fram að ég sé ósáttur við Icesave stöðuna. En ég hef tekið það fram að ég telji að Ísland muni ekki komast upp með að sniðganga þær ábyrgðir sem landið undirgekkst undir stjórn Sjálfstæðismanna sem Geir og Árni Matt staðfestu svo nokkru áður en þeir hrökkluðust úr stólum sínum.

Ég birti á sínum tíma útreikninga á því hvernig tillögur um skattabreytingar kæmu út. Það liggur fyrir að breyta verður skattkerfinu og ná jöfnuði í ríkisbúskap. Í umræðunni voru þá nokkrar tillögur og ég bar þær saman. Það að ég mæli með einni frekar en annarri, var umfjöllun um hvað kæmi best út. Fullyrðingar um ranga útreikninga mína standast ekki voru settar fram, en þar var miðað við ástandið eins og það var þegar pistillinn var saminn. Allir útreikningar eru réttir. Aðrar ósmekklegar dylgjur ritsóðanna ætla ég ekki að fjalla um hér.

En nú hefur ríkisstjórnin sett fram skattatillögur um að hækka persónuafsláttinn um 2.000 kr um áramótin en fella burtu ákvæðið um verðtrygginguna. Þær tillögur voru ekki upp á borðinu þegar ég gerði mína útreikninga, það vita ritsóðarnir ákaflega vel.

ASÍ hefur mótmælt því að verðtryggingin falli brott, sérstaklega til framtíðar, það vita ritsóðarnir líka . Það er auðveldara að sætta sig við að hækkunin persónuafsláttar komi ekki að fullu til framkvæmda núna enda eru verið að verja stöðu lág- og millitekjuhópa með þrepaskattinum. Það er líka verið að fella brott 3.000 kr hækkunina 2011. Því hefur ASÍ einnig mótmælt og það vita þeir sem fylgjast með.

Varðandi þau rök að óbreytt skattkerfi hefði komið betur út fyrir þá tekjulægstu þá er það rétt svo langt sem það nær, en ekki er hægt að horfa fram hjá þörfinni á að ná tökum á ríkisfjármálunum. Nokkuð víðtæk sátt er um að ná jöfnuði í ríkisfjármálum með aðgerðum á bæði tekju og útgjaldahlið.

ASÍ hefur aldrei samið um skattleysismörkin. Þau eru ekki til í skattalögum heldur eru þau afleidd stærð af persónuafslættinum og staðgreiðsluprósentunni. (Skattleysismörk = persónuafsláttur / staðgreiðsluprósentu).

Skoðum nokkrar útgáfur af skattleysismörkum
- Skattleysismörkin eru í dag: 42.205 / 0,372 = 113.454.
- Samkvæmt skattafrumvarpi ríkisstjórnarinnar: persónuafsláttur: 42.205+2.000 = 44.205.

Skattleysismörk: 44.205 / 0,372 = 118.831
- Að óbreyttum lögum (þ.e. ef skattprósentan hækkaði ekki en persónuafslátturinn hækkaði) þá hækkar persónuafslátturinn m.v. verðbólgu desember 2008 – des 09 sem verður eitthvað milli 7,5% og 8% plús 2.000 kallinn sem ASÍ samdi um.

Ef við notum neðri mörkin sem eru líklegri verður persónuafslátturinn 42.205*1,075+2.000) = 47.370 og þá skattleysismörkin: 47.370 / 0,372 = 127.340


Nú er ljóst að hækka þarf skatta. Til að ná inn svipuðum tekjum og í tillögum ríkisstjórnarinnar hefði þurft að hækka skattprósentuna um 2,5-3 prósentustig. M.v. að persónuafslátturinn verði 47.370 þá erum við að tala um svipuð skattleysismörk líklega aðeins hærri í óbreyttu skattkerfi (með verðtryggingu og 2.000 kr) en þá leggst hærri skattprósenta á lægstu tekjur í kringum 40% í stað 37.2%.

laugardagur, 12. desember 2009

Evrópski landslagssamningurinn

Það er margt sem maður furðar sig á málefnum landins okkar fagra. T.d. að við séum ekki innan ELC Evrópska landlagssamningsins. Við sem eigum sannarlega landslag sem þarf að vernda.

Það eru í dag um 43 þjóðir innan þessa samnings en ekki Ísland. Hvers vegna?

Þessi samningur felur margt í sér sem er vert að skoða hér á landi og sendi ég ykkur þýðingu á honum sem viðhengi, en samningurinn inniheldur t.d.;

- Tilgangur þessa samnings er að stuðla að verndun landslags, stjórnun þess og skipulagi og skipuleggja samvinnu milli Evrópuríkja í málum sem varða landslag.

- hafa í huga mikilvægi landslags fyrir almannahagsmuni á sviði menningarstarfsemi, náttúruverndar, umhverfis- og félagsmála, sem og að landslag myndar góð skilyrði fyrir efnahagslega starfsemi og að verndun þess, stjórnun og skipulag getur skapað ný störf.

- hafa í huga að þróun á sviði landbúnaðar, skógræktar og tækni í iðnaðar- og jarðefnaframleiðslu, auk svæðisskipulags, borgarskipulags, samgangna, grunnvirkis, ferðamennsku og afþreyingar og breytinga á efnahagsumhverfi á heimsvísu, hraða á margan hátt breytingum á landslagi.

- vilja verða við óskum almennings um að fá að njóta gæðalandslags og taka virkan þátt í þróun landslags;

- að viðurkenna í lögum að landslag sé nauðsynlegur þáttur í umhverfi fólks, birtingarmynd fjölbreyttrar menningarlegrar og náttúrulegrar arfleifðar og grundvöllur að sjálfsmynd þess;

Ísland hefur ekki sett lög á umhverfismörk fyrir leyfinlegum hámarksstyrk brennisteinsvetnis í andrúmsloftið hérlendis þrátt fyrir að mengun í andrúmsloftið eru kominn yfir hámark, ef marka má rannsóknir sem hafa verið gerðar og þá sérstaklega eftir að Hellisheiðarvirkjun var byggð.

föstudagur, 11. desember 2009

Undirbúningur að næsta hruni er hafinn

Síðasta hrun er afstaðið, spilapeningarnir eru á borðinu og fjárhættuspilararnir eru enn í spilavítinu, en þeir viku aðeins úr salnum um tíma. Þeir ætla engu að breyta og vilja fá áfram sína bónusa og premíur. Sömu menn eru enn að störfum í greiningardeildunum, þó svo þessir menn hafi orðið uppvísir að því, að allt sem þeir greindu og allar spár þeirra, reyndust vera rangar.

Það eru 100 menn sem eru í leiðandi stöðum helstu greiningarhúsanna og starfa þar án nokkurra laga og reglna. Enn er greint á sömu forsendum og gefnar út spár. Allt er til reiðu til þess að hefja fjárhættuspilið aftur og stefna í næsta hrun. Miðað við óbreytta stöðu er það óhjákvæmilegt.

Þannig hófst erindi Heiner Flassbeck framkv.stj. deildar alþjóðavæðingar og þróunar stefnumörkunar Sameinuðu þjóðanna á alþjóðaþingi byggingarmanna í Lille í Frakklandi. Hér á eftir eru nokkur þeirra fjölmörgu atriða sem hann kom að. Hann nálgaðist heimskrísuna á annan hátt en ég hef heyrt áður og var sannarlega mjög áhugaverður fyrirlesari.

Stjórnmálamenn halda því fram að ástæða hrunsins hafi verið áhættusækni í fjárfestingum. Allir sem voru í spilavítinu spiluðu eins höguðu sér heimskulega. Allir voru þátttakendur í fjárhættuspilinu. Það er háttalag þessara spilara sem er vandamálið. Það er keppni í öllu og markaðurinn ræður og hann leiðréttir sig. Hefur hann gert það? Nei.

Við erum að drukkna í olíu, en samt fer olíuverð hækkandi. Þar sem þessi hækkun hefur gengið í mörg ár er verð á olíu orðið langt fyrir ofan eðlileg mörk. Það eru spádómar greiningardeildanna sem stjórna hegðun allra og raun ákvarða verð á olíu. Allir í spilavítinu bíða eftir ábendingum greiningardeildanna og hlaupa svo til eftir þeirra spádómum og fjárfesta. Allir veðja á sömu forsendum og verðið getur í raun ekki annað en hækkað.

Á markaðurinn að ráða nauðsynlegum aðgerðum í umhverfismálum? Það eru ekki ríkisstjórnir eða fólk í spilavítinu (greiningardeildunum) sem ver hagsmuni umhverfis og almennings. Fjárfestar eiga gríðarlega mikið af olíu og hafa fjárfest ofboðslega í olíuhreinsunarstöðvum.

Hvernig bregst markaðurinn við ef menn eiga mikið undir því að þróun og notkun rafmagnsbíla verði hröð? Allar líkur benda til þess að þeir felli olíuverð það mikið að öll þróun rafmagnsbíla stöðvast eða verður mjög hæg. Markaðurinn ræður og fjárfestar geta í einu vettvangi ómerkt allar ákvarðanir Umhverfisþingsins í Kaupmannahöfn.

Pólitískar ákvarðanir skipta í raun engu hvað varðar alþjóðamarkaðinn og þróun samfélaga heimsins. Næsta hrun blasir við ef ekkert verður að gert. Við verðum að leita að rótum vandans og lagfæra hann. Það er endalaus keppni á öllum sviðum. Almannahagsmunir hafa vikið fyrir hagsmunum fjármagnseigenda. Þjóðir eru farnar að keppa í lækkun skatta vegna fyrirtækjanna. Það getur ekki leitt til annars en lakari skólum og veikari heilbrigðisþjónustu og skuldsettari þjóða. Það setur þrýsting á stéttarfélögin, þau dragi úr sínum kröfum og laun hækki ekki. Kaupmáttur minnkar. Arður fyrirtækjanna ræður öllu.

Þessi keppni getur ekki leit til annars en að þau samfélög sem byggðum upp á síðustu öld munu hrynja. Þeim er fórnað á altari samkeppninnar. Það vantar lög sem tryggja hagsmuni almennings gagnvart fjármagnseigendum. Það verður að setja alþjóðlega stjórn á kerfið sem tekur mið af heildahagsmunum. Það þarf að skilgreina upp á nýtt hver markmiðin eigi að vera

Sú þjóð sem er í vanda skapaði ekki vandamálið, það var hið frjálsa alþjóðlega og óheilbrigða fjármálaumhverfi. Ef ekki er tekið á kerfinu getur það ekki annað en leitt okkur í annað Hrun með sömu alvarlegu afleiðingunum og almenningur sem situr í súpunni með enn lakari lífskjör.

Það eru engin lög sem taka á þeim vanda sem við er að eiga. Ef ekki verða settar skýrari reglur til þess að taka á grunnvandanum, þá mun sama heimska og leiddi Ísland í gjaldþrot endurtaka sig. Það eru sömu forsendur sem eru að leiða Grikkland í þrot.

Þegar þjóð er kominn í þrot og rúinn trausti er henni gert að leita til AGS, sem í raun skapar sömu aðstæður aftur án þess að taka á vandanum. Þjóðfélög eru sett inn í sama farið. Það er einungis einn alþjóðlegur aðili sem getur tekið á vandanum og þvingað fram þær leiðréttingar sem verður að setja. Það er alþjóðaverkalýðshreyfingin. Hún verður að beita sér í því stoppa fjárhættuspilið í spilavítinu og þvinga stjórnvöld til þess að taka upp annarskonar samskipti og koma böndum á spilavítin.

Kerfið eins og það er nú tekur ekki mið af hagsmunum almennings. Hann er réttindalaus. Það eru fyrirtækin sem stjórna ríkisstjórnunum með sína hagsmuni í fyrirrúmi. Samspil þessara aðila velur þau kjör sem launamönnum er boðið upp á. Þau viðhorf sem höfð voru að leiðarljósi við uppbyggingu samfélaga eru að glatast og viðhorf fjármálanna hafa tekið yfir. Barnaþrælkun eykst, mansal viðgengst sem aldrei áður, kynlífsþrælkun vex, réttindalausum farandverkamönnum fjölgar og hungrið í heiminum vex.

Þeim fjölgar sem ekki hafa aðgang að vatni. Mannfyrirlitning fjölþjóðafyrirtækjanna nálgast okkur sífellt meir, meir að segja í löndum í miðri Evrópu eins og t.d. Bretlandi eru fyrirtæki sem byggja upp svarta lista og selja til atvinnurekanda. Á þessa lista eru menn skráðir sem vilja vera í verkalýðsfélögum, hafa gefið sig út fyrir að krefjast hærri laun eða gert athugasemdir við öryggisbúnað.

Opnir óheftir markaðir leiddu Ísland, eina ríkustu þjóð Evrópu, í gjaldþrot og fleiri eru á leiðinni. Gjaldþrot auðhyggjunnar og nýfrjálshyggjunnar blasir við hvert sem litið er. Fjárfestar eru prímusmótorar þessa ferlis blindaðir af veðmálakeppni sem fer fram eftir flautu greiningardeildanna. Skipuleggja verður baráttu almennings gegn þeim.

Ég fór og ræddi við Heiner Flassbeck eftir erindið og spurði hvort hann væri ekki til í að koma og heimsækja okkur eftir áramótin, hann tók vel í það.

fimmtudagur, 10. desember 2009

Dubai = Ísland

Í framhaldi af þingi Evrópusambands byggingarmanna hófst þing Alþjóðasambandsins. Það tekur verulega á mann að hlusta á fulltrúa suður Ameríku landanna lýsa stöðu sinni. Fulltrúar þeirra segja að enn séu að störfum þar „hitmen“ frá stóru bandarísku fyrirtækjunum, sem beiti öllum brögðum til að hámarka arð og halda niðri kjörum og spara útgjöld vegna aðbúnaðar og öryggis.

Fyrirtækin gangi ákaflega hart fram í að fæla fólk frá stéttarfélögum og sameignlegri baráttu. Þetta hefur þó skánað nokkuð undanfarinn ár segja þeir, síðasta ár voru ekki nema 50 starfsmenn og trúnaðarmenn stéttarfélaganna skotnir, en fyrir 4 árum síðan voru það alltaf um 200 sem voru árlega skotnir. Bandarískir auðmenn óttist að þeir séu að missa tökin á ríkjum suður Ameríku og fjölgi hljóðlega herstöðvum sínum í mið Ameríku.

Fulltrúi samtaka skógarhöggsmanna upplýsti okkur um að það væru alltaf nokkrir sem slösuðust eða færust við störf, en það væru töluvert fleiri sem væru skotnir til bana af starfsmönnum eiturlyfjaflokkanna. En þeir skjóta á allt sem hreyfist, þegar þeir eru á flutningaferðum sínum um skógana.

Einnig er ömurlegt að hlusta á fulltrúa Asíu ríkjanna lýsa hvernig komið er fram við byggingarverkamenn sem hefðu verið að störfum í Dubai. Draumur olíufurstanna um að byggja upp stórborg í Dubai sem byði upp á allt sem ríka fólkið girntist, hefur kallað á tugþúsundir verkamanna víða að. Aðbúnaður þeirra hefur verið ömurlegur og mikið um alvarleg slys og dauðsföll og laun skelfilega lág. Nú er þetta fólk út á götu og á ekki fyrir fargjaldi heim til sín.

Nú blasir það við að það er ekki nóg að byggja glæsileg hús til þess að skapa samfélag, það þarf að byggja upp samfélag og hefði getað gerst ef þessum þúsundum manna hefði verið gert kleift að fá til sín fjölskyldur sínar og búa sér heimili í Dubai.

Það er ákaflega sárt fyrir íslending að sitja hér og hlusta á hvern manninn á fætur öðrum standa hér í pontu, ekki síst þeir hagfræðingar sem hér eru og tala um gjaldþrot Íslands í sömu andrá og Dubai og segja að þar séu tvö sambærileg dæmi, sem nýtt verði í skólum um gjaldþrot nýfrjálshyggju og hinnar blindu auðhyggju. Stjórnvöld Íslands hafi sveigt landið lengra til hægri en nokkurt annað ríki hafi farið. Nú sé áður eitt ríkasta land í heimi gjaldþrota og íslenskir stjórnmálamenn hafni eftir sem áður að fara að alþjóðlegum samskiptareglum.

þriðjudagur, 8. desember 2009

Icesave - forsendur

Fyrr í dag bað Andrés Magnússon mig um að finna orðum mínum stað um stöðu okkar í Icesavemálinu. Loks eftir langa fundi dagsins hér í Lille komst ég að tölvunni.

Ef forráðamenn Landsbankans hefðu ákveðið að reka bankastarfsemi sína í Bretlandi og Hollandi í þarlendum dótturfyrirtækjum, en ekki sem útibú frá Landsbankanum, þá lægi reikningur vegna Icesave til íslenskra skattgreiðenda ekki fyrir á Alþingi Íslendinga.

Þeir sem með þessum hætti framvísuðu vísvitandi Icesave á hendur þjóðarinnar eru : Halldór Kristjánsson og Sigurjón Þ. Árnason, bankastjórar; og Björgólfur Guðmundsson og Kjartan Gunnarsson formaður bankaráðs og fyrrv.framkv.stj. Sjálfstæðisflokksins.

Það voru þessir menn sem ákváðu að yfirbjóða innlánsvexti keppinauta í samkeppni um innlán sparifjáreigenda í þessum löndum. Bankinn var undir þeirra stjórn sokkinn í skuldir og þeir börðust við að koma í veg fyrir hrun hans og sóttust eftir erlendu fjármagni.

Skv. skýrslu hollenskra lagaprófessora til hollenska þingsins, var því hafnað ítrekað af hálfu Landsbankanum, að færa Icesave-netbankana frá aðalbankanum í útibú í Hollandi og Bretlandi, undir eftirliti og sparifjártryggingu þarlendra yfirvalda.

Það má færa fyrir því rök að meginástæða þessa hafi verið, að forsvarsmönnum Landsbankans hafi verið ljóst að þar fengi bankinn allt aðra og mun harðari og gagnrýnni meðhöndlun, en hjá hinu íslenska Fjármálaeftirliti og Seðlabankanum. T.d. mokaði Seðlabankinn hundruðum milljóna í íslensku bankana fram á Hrundag og Fjármálaeftirlitið gerði í raun ekkert þó svo að alla vega allnokkrir bentu á hvert stefndi.

Með því að hafna tilmælum seðlabanka Hollands og breska fjármálaeftirlitsins komu forráðamenn Landsbankans beinlínis í veg fyrir að lágmarkstrygging innistæðueigenda hjá Icesave yrði borin af tryggingarsjóðum viðkomandi landa, en ekki íslenskum skattgreiðendum.

Með neyðarlögunum síðastliðið haust áréttaði ríkisstjórn Geirs og Ingibjargar Sólrúnar, að íslenska ríkið ábyrgðist allar innistæður í íslenskum bönkum og þ.m.t. lágmarkstryggingu í útibúum utan Íslands. Alþingi íslendinga samþykkti neyðarlögin og lagði þar með grunn þeirrar stöðu sem við búum við.

Í samningum við Bretana sem Árni M. þáv. fjárm.ráðh. samþykkti, þá ákvarðaði hann ábyrgð Íslands og lánaskilmála, sem voru reyndar mun verri en sú samningsniðurstaða, sem nú liggur fyrir Alþingi. Að baki undirskriftar Árna var ríkisstjórn með meirihluta á Alþingi. Það er í raun þessar athafnir sem binda okkur þá hnúta sem við búum við.

Áður en Hrunið skall á, lá það fyrir að norðurlöndin skilyrtu aðkomu AGS fyrir allri lánafyrirgreiðslu sína við Ísland því. Eftir Hrunið var það einnig skilyrt, að Ísland stæði við lágmarkssparifjártrygginguna gagnvart Icesave. Fyrri skuldbindingar voru ítrekaðar með skuldbindingarskjali frá Seðlabankanum og fjármálaráðuneytinu frá 19.nóv.2008 sem eru undirskriftir Davíðs Oddssonar, seðlabankastjóra og Árna Matthiesen, fjármálaráðherra.

Þetta er staðan sem við höfum setið í frá því í fyrra og það vissu fyrrverandi stjórnarflokkar og núverandi stjórnarandstaða betur en allir aðrir. Ísland kæmist ekki undan því að takast á við þessar skuldbindingar. Ef Ísland gerði það ekki, hefðum við rofið gildandi milliríkjasamninga og féllum niður í ruslflokk og hefðum ekki aðgang að fjármagni til uppbyggingar nema þá á okurvöxtum.

Við stefnum í að verða Argentína Norðurlanda í boði framangreindra aðila. Skuldir ríkisins og stórfyrirtækja á vegum hins opinbera eins og Landsvirkjun, Landsnet, Orkuveitan eru það miklar að hvert prósent í hærri vöxtum skiptir hundruðum milljóna árlega í auknum vaxtakostnaði.

Hann er gríðarlegur skaðinn sem stjórnarandstaðan er búinn að valda með hátterni sínu undanfarna mánuði. Ljótasta lýðskrum og ábyrgðarleysi sem sést hefur hér á landi.

En ef formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks vilja takast í alvöru á við þennan vanda ættu þeir að skoða 249. gr.eins og Egill bendir á í dag ; „Ef maður, sem fengið hefur aðstöðu til þess að gera eitthvað, sem annar maður verður bundinn við, eða hefur fjárreiður fyrir aðra á hendi, misnotar þessa aðstöðu sína, þá varðar það fangelsi allt að 2 árum, og má þyngja refsinguna, ef mjög miklar sakir eru, allt að 6 ára fangelsi.“

Koma þeim réttu megin við rimlana, sem eru nefndir hér framar, og jafnvel a.m.k. nokkra þeirra, sem hafa staðið að hinum óábyrga málflutningi á Alþingi undanfarna mánuði.
M. bestu kv. Guðmundur

Allt í rúst

Það er skelfilegt að heyra málflutning nokkurra af fulltrúum austur Evrópuríkjanna hér á Evrópuþinginu. T.d. flutti kona frá Serbíu þrumuræðu hér áðan og alla setti hljóða. Staðan þar er sú að launamenn eru þvingaðir til þess að ganga úr stéttarfélögum og markvisst komið er í veg fyrir að þeir geti staðið saman í hagsmunabaráttu. Ef einhver vogar sér að gera einhverjar kröfur þá er þeim hinum sama hent út á götu í atvinnuleysið.

Kjarasamningar hafa verið afnumdir og ríkisstjórnin vinnur einhliða með fyrirtækjum í að ákvarða kjör fólks. Félagsleg réttindi eru fótum troðin. Fátækt er gríðarlega mikil og margt fólk sem ekki getur skaffað mat á borð fjölskyldu sinnar.

Spilling stjórnmálamanna og samherja þeirra í viðskiptalífinu er mikil og landið í höndum fjármálaspekúlanta. Fyrirtæki sem áður voru í eigu almennings eru gefin til samherja. Lán ríkisins vaxa sífellt meir og illa nýtt.

Fjármunir fluttir úr landi fyrirtækin standa eftir sem tóm skel og fólk fær ekki borguð laun. Almenngisflutningakerfið og vegakerfið er í rúst, heilbrigðisgæslan versnar fyrir fólk sem ekkert á. Skólakerfið stenst þetta ekki. Allt þjóðfélag okkar er í rúst eftir að frjálshyggjan mætti hér, þrumaði kona yfir okkur.

Þið verðið að sýna þolinmæði gagnvart okkur, þó einhver vandræði séu hjá ykkur. Þið í norður Evrópu hafið það best og verðið að átta ykkur á því að ef þið slakið á þá föllum við bara neðar. Viðmiðin eru sett við stöðu ykkar.

Nú mæta þeir launamenn okkar, sem hafa farið vestur á bóginn til þess að reyna að afla tekna svo þeir geti séð fjölskyldi sinni farborða, harðræði á vestræna vinnumarkaðinum og eru hraktir úr störfum og verða að fara í neðanjarðarhagkerfið til þess að reyna að bjarga sér.

Einangrunarstefna leiðir einungis til meira vandamála. Þið verðið að huga að því að 50% evrópubúa eru með undir 35.000 kr. í laun á mánuði. Hjá okkur eru konur þrælar með engin réttindi.

Það er okkur úr norðrinu nauðsynlegt að vera minnt á það öðru hvoru að það er til fólk sem er í verri stöðu en við, jafnvel fólk sem býr í sömu álfu og við og er rétt hjá okkur.

mánudagur, 7. desember 2009

Byggingarmenn í Evrópu

Evrópusamband byggingarmanna þingar nú í hinni gríðarlega fallegu borg Lille í Frakklandi. Rúmlega 17 milljónir vinna í evrópskum byggingariðnaði, hann hefur fallið um 13% og um og 2,5 milljónir manna hafa tapað störfum sínum frá árinu 2007. Mest hefur fallið verið á Spáni, Írlandi, Bretlandi 0g Portúgal. Í austur Evrópu eru víða gríðarleg vandamál.

Hér tala nokkrir mjög áheyrilegir fagmenn sem hafa verið fengnir til þess að greina stöðuna í Evrópi. Fall byggingariðnaðar hófst árið 2007 eða áður en bankakrísan byrjaði. Ástæða bólunnar var mikið af ódýru lánsfé, sem bankarnir pumpuðu inn á markaðinn á óábyrgan hátt. Það leiddi til spákaupmennsku og óraunsæis við ákvarðanatöku. Í nokkrum löndum má frekar tala um stöðnun en mikið fall, t.d. Þýskaland, Austuríki, Sviss og Svíþjóð.

Á undanförnum árum hefur verið ráðist í stórtæka uppbyggingu á margskonar mannvirkjum, sem sumar hver voru fullkomlega óraunhæf. Stórauknir lánamöguleikar leiddu til óraunsærra ákvarðana í íbúðarbyggingu og snarhækkandi fasteignaverðs

Botninum er enn ekki náð, en reiknað er með að honum verði náð á næsta ári í norðurhluta álfunnar. Áætlað er að ein milljón byggingarmenn glati störfum til viðbótar fyrir lok næsta árs. Þetta ástand hefur leitt til vaxandi einangrunarstefnu og rasima á vinnumarkaði. Farandverkamenn frá öðrum löndum mæta víða harkalegum viðhorfum. Sum fyrirtæki hafa nýtt tækifærið á undanförnum árum til þess að gera marga að undirverktökum og neðanjarðarhagkerfið vaxið.

Langmesta niðursveiflan á byggingarmarkaði er á Írlandi, en þar hafa 51% byggingarmanna glatað störfum sínum. Á Spáni hafa 25% byggingarmanna tapað störfum sínum. Í byggingariðnaði og hinum gríðarlega mikla húsgagnaiðnaði sem þar hefur verið, hafa samtals um 700 þús. manna glatað störfum sínum. Frá aldamótum hefur vöxtur byggingariðnaðar og iðnaðar tengdum honum verið risavaxinn á Spáni. Undanfarin ár voru um 800 þús. íbúðir byggðar á ári, en á næsta ári er reiknað með að í mesta lagi verði um 120 þús. íbúðir byggðar.

Ríkisstjórnir Evrópuríkja vinna að margskonar aðgerðum til þess að vinna á þessum vanda. Í flestum tilfellum er litið til endurbóta á eldri húsum. Talið er að um helmingur húsa í Evrópu þarfnist endurbóta. Margskonar aðgerða er þörf, ekki síst með tillit til aukinna krafna vegna umhverfisbóta um sjálfbærni húsa og minni orkunotkunar. Einnig er öryggis- og tæknibúnaði víða ábótavant. Stjórnvöld og sveitarfélög þurfa að huga að byggingu félagslegra íbúða auk þess að byggja nýja skóla og umferðamannvirki. Græn markmiðsetning (Green New Deal) býður upp á mörg spennandi tækifæri til úrbóta og nýrra starfa.

Mikið er litið til ábyrgðar bankanna í þessu efni, hátterni þeirra átti stóran þátt í að skapa bóluna. Háværar kröfur eru um að tekið verði á starfsemi bankanna, bónusar og ofurlaun hafa ekki horfið af borðinu. Margir bankanna eru að byrja að ná sér á strik aftur eftir að ríkissjóðir hafa sett umtalsvert fjármagn til þess að bjarga þeim.

Það hefur leitt til vaxandi krafna um að bankarnir endurgjaldi þjóðfélaginu með margskonar úrbótum. Þær snúast um að bankarnir komi að hagkvæmum lánum til endurbóta á húsnæði og eins til endurfjármögnunar á lánum, sem eru að sliga margar fjölskyldur. Einnig eru nokkur stjórnvöld með á prjónunum skattaafslætti vegna endurbóta á húsnæði.

Stjórnvöld verða að líta til lengri tíma, þær úrbætur sem gerðar hafa verið duga ekki. Fljótt mun falla undan aftur ef ekki eru gerðar áætlanir til lengri tíma. Ná þarf stöðugleika í efnahagskerfin og byggingariðnaðinn. Einangrunarstefna verður ekki til að bæta ástandið. Frekar að huga að því að fyrirtæki komist ekki upp með að nýta farandverkafólk til þess að brjóta niður lágmarkskjör. Nokkur Evrópulönd eru að taka upp betri skráningarkerfi á launamönnum, þar á meðal íslenskur vinnumarkaður, til þess að vinna gegn vaxanda neðanjarðarhagkerfum og þvinga fyrirtæki að fara að umsömdum leikreglum og reglugerðum á vinnumarkaði.

Við þurfum ekki að leggja vinnu í að greina hvað varð okkur að falli, það er þekkt og búið að skirfa um það bækur. Öfgafull nýfrjálshyggja og stefnumörkun hennar hefur leitt þjóðfélög inn á villigötur. Ljóst er að stjórnvöld verða að setja ákveðnari reglur um meira gagnsæi við yfirtökur og sameiningar fyrirtækja.

Auðhyggjumenn nýttu sér það svigrúm og áður kröftug fyrirtækin eru nú rústir einar. Starfsmenn eru á mun lægri launum en áður og mun fleiri án atvinnu. Samfélögin verða að skoða afleiðingarnar og vinna að úrbótum byggðum á þeim lærdóm sem draga má af því sem gerst hefur á undanförnum áratug. Verði tekið af festu á þessum málum má reikna með að í lok 2013 hafi vinnumarkaðurinn náð stöðugleika.

laugardagur, 5. desember 2009

Þakka einstaklega efnisríka ræðu

Ég er einn af fjölmörgum sem er þeirrar skoðunnar að íslendingar hafi undirgengist ábyrgð á Icesave-innlánsreikningunum. Það var ekki gert af núverandi ríkistjórn, það var gert af ríkisstjórnum skipuðum af sjálfstæðismönnum og framsóknarmönnum og samþykkt af meiri hluta Alþingis.

Ég er ekki sáttur við hvernig Landsbankinn nýtti sér þetta svigrúm og alls ekki sáttur við að hvorki ríkisstjórn Geirs né Davíð og stjórn Seðlabanka hafi ekki gripið inn þegar ljóst var hvert stefndi þegar á fyrri hluta árs 2008. Ég er alls ekki sáttur við að fjárglæframenn Landsbankans, félagarnir Sigurjón, Björgólfur, Halldór og Kjartan framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins hafi komist upp með að kuldsetja þjóðina.

En þetta er sú staða sem við erum í og verðum að horfast í augu við. Staða sem við verðum að vinna okkur út úr. Það mun aldrei verða liðið að við víkjum okkur undan þessari ábyrgð. Það er enn síður okkur til málsbóta að lýsa því yfir að aðrar þjóðir, eins og t.d. norðurlandaþjóðirnar séu að fara illa með okkur.

Ég hef margoft lýst þeim skoðunum hér á þessari síðu sem ég hef mætt gagnvart okkur íslendingum á norrænum og evrópskum fundum sem ég setið. Þetta kom fram jafnvel fyrir Hrunið. Öll Evrópa er þessarar skoðunnar og meirihluti alþingismanna íslendinga og meirihluti íslendinga, en samt standa nokkrir þingmenn gegn því að lýðræðisleg afgreiðsla geti farið fram og eru að valda þjóðinni gríðarlegum skaða, bæði fjárhagslega og eins áliti þjóðarinnar úr á við.

Það er búið að semja við viðkomandi aðila á grundvelli sem var lagður í nóvember 2008. Það er búið að fara aftur til þeirra og ná fram greiðslufresti í 7 ár og lægri vöxtum. Það verður ekki lengra gengið í samningum. Það er búið að stafa það ofan í okkur. Ekki bara Bretar og Hollendingar, heldur einnig allar norðurlandaþjóðirnar. Það er ekki hægt tala sig frá þessari ábyrgð, menn verða að sýna þann manndóm að geta horfst í augu við staðreyndir.

Svo dettur mönnum í hug að vísa málinu til Evrópusambandsins. Hvar í veruleikanum eru þeir staddir. Er ætlast til þess að maður taki þessa menn alvarlega? Þetta er svo mikið lýðskrum og tækifærismennska. Hér er verið að vekja upp væntingar hjá fólki, sem ekki geta staðist. Það er klár fantaskapur eins og ástandið er hjá almenning.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur í gegnum árin viljað láta taka sig alvarlega með ábyrgri vinnu og verið fljótur til þess að saka aðra um að vera tækifærisinnaða og vera með yfirboð. Nú er hann gjörsamlega búinn að tapa áttum.

Maður ætti frekar von á harkalegri barátta flokksins við að skera niður, það væri allavega í samræmi við yfirlýsta stefnu flokksins. En ekkert kemur úr þeirri áttinni, frekar í hina áttina svo vitnað sé t.d. í ummæli Þorgerðar Katrínar undanfarna daga. Ég er ekki með þessu að segja að ég sé sammála miklum niðurskurði í heilbrigðis- og menntakerfinu. En maður virðir fólk jafnvel þó það hafi aðrar skoðanir, svo framarlega að það sé samkvæmt sjálfu sér og sé ekki með óábyrg yfirboð.

Ég hef aðeins skipt yfir á umræðurnar á Alþingi. Það kemur ekkert nýtt fram endalausar staglræður um ekkert og svo bjálfaleg andsvör. Þetta er eins og leikur einhverra smákrakka sem eru á ræðunámskeiði, sem vinna eftir forsögn. Svo er gripið í eitthvert hálmstrá, og reynt að sannfæra sjálfa sig og að þarna fari fram „einstakleg málefnaleg umræða“. Hvert andsvar hefst á þessum orðum; ég vil þakka háttvirtum þingmanni fyrir einstaklega góða og efnisríka ræðu!!??

föstudagur, 4. desember 2009

Ofbeldi samræmist ekki lýðræðishugsunum

„En það er algjörlega fráleitt og samræmist engum lýðræðishugsunum að menn geri hvað þeir geti til að beita hreinlega ofbeldi til að koma í veg fyrir að mál sem þeir eru ósammála og eru í minnihluta komist í gegn. Það er fyrir neðan allar hellur og ég hvet stjórnarandstöðuna til að hugsa málið til enda í stærra samhengi því hér er um að ræða hvort lýðræðislegur vilji nái fram að ganga eða ekki.

Þetta snýst ekki um efni máls. Þetta snýst um það hvort lýðræðislegur vilji eigi að ná fram að ganga eða ekki. Hvað sem mönnum finnst um umdeild frumvörp þá er óeðlilegt að Alþingi geti ekki afgreitt þannig mál með eðlilegum hætti, jafnvel þó einhverjir séu svakalega ósammála þeim.“
Þetta sagði Guðlaugur Þór þegar hann var stjórnarþingmaður, og ég var honum algjörlega sammála. Og er enn sammála þessari skoðun.

Réttarhugtak pólitísks nútíma grundvallast í fyrstu málsgrein mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna: „Allir eru bornir frjálsir og jafnir öðrum að virðingu og réttindum. Allir eru gæddir skynsemi og samvisku, og ber að breyta bróðurlega hverjum við annan.“

Afstaða stjórnarandstöðunnar mótast af mótsagnarkenndri og oft barnalegri sjálfsupphafningu. Of stór skammtur af raunveruleikafirringu og efnishyggju. Sannarlega niðurlægjandi eftir það sem á undan er gengið og endurspeglar í margræðni sinni þann tvískinnung sem við stöndum frammi fyrir.

Surprising twistið er að nú standa í pontu sömu menn sem hafa verið þjakaðir af forræðishyggju með hlerunum og eftirliti með pólitískum andstæðingum sínum og reynt að stjórna umræðunni.
Þeir sem bjuggu okkur það ástand að sagnfræðingum stóð ekki til boða fjármagn og vinnufrelsi nema frá sjóðum stýrt af stjórnmálamönnum sem voru hlynntir ráðandi stjórnvöldum. Þetta hefur leitt sagnfræðingana bjargarlausa að fótskör þeirra sem telja sig vera mikilmenni þessa lands. Gagnrýnishlutverk fræða og vísinda múlbundið hagsmunabandalagi valdhafanna. Aðrir voru úr vinstra liðinu og voru æsingafólk.

Þetta samsamar við orð sem höfð voru um baráttuna gegn þeim óþarfa að gefa konum aukið frelsi. „Góðir íslendingar. Ég hygg að það sé þarft verk að halda konum frá því að taka þátt í pólitísku skítkasti. Þeirra hlutverk er að vera móðir og á að halda sér við heimilisstörfin.“

Ég tek undir með nafna mínum Steingrímssyni; „Ég tek ekki þátt í þessu. .... Einhverntíma vil ég fá að ýta á bjölluna og láta afstöðu mína í ljós og hinir láta sína afstöðu í ljós. Þannig virkar lýðræðið."

Þingmenn stjórnarandstöðunnar (utan Guðmundar) hafa niðurlægt störf Alþingis og eins lítilsvirt vilja meirihluta kjósenda.

miðvikudagur, 2. desember 2009

Atvinnuleysistryggingar

Nýtt frumvarp til laga um atvinnuleysistryggingar endurspeglar þá skoðun höfunda að rót vaxandi atvinnuleysis sé að finna í offramboði á atvinnulausu fólki sem hafni staðfastlega glæsilegum og vellaunuðum atvinnutilboðum. Megininntak þessa frumvarps er áhersla á refsingu og hafa höfundar samið 12 nýjar greinar þess efnis.

Sú mynd blasir við að höfundar þekkja ekki til á almennum vinnumarkaði og þau lögmál sem þar ríkja. Líklega er hér á ferð einstaklingar sem hafa verið í öruggu atvinnusambandi á opinberum vinnumarkaði.

Höfundar skilja ekki þann vanda sem við er að etja og á hvaða villigötum Vinnumálastofnun er, sem ræður engan veginn við sín verkefni. Þeir ætla sér ekki að taka á vanda kerfisins, frekar á að ráðast á það ólánsama fólk sem er svo ósvífið að mati höfunda að verða atvinnulaust.

Oft eru í boði umfangsmikil og kröfuhörð störf, en það endurgjald sem í boði er, eru lágmarkslaun og ógreidd sú vinna sem ekki næst að ljúka í dagvinnutíma. Þetta þekkja höfundar greinilega ekki. Höfundar þekkja heldur ekki þá ósk fólks að geta farið fyrr af vinnumarkaði og rýmt til fyrir yngra fólki með því að geta tekið út hlutabætur samfara séreignarsparnaði t.d. eftir 63 ára aldursmark.

Höfundar eru því andsnúnir að atvinnulaust fólk geti sótt sér aukna menntun, það eigi frekar að sitja heima. Ómerkileg er sú meðferð sem fólk á hlutabótum fær, það missir réttindi eins og það sé á fullum bótum. Á þetta hefur verið ítrekað bent en höfundar frumvarpsins hafna því alfarið.

Öllu samráði við stéttarfélög og trúnaðarmenn á almennum vinnumarkaði er hafnað og í fyrsta skipti síðan lýðveldið var stofnað hafnar Félagsmálaráðuneytið því að bera lagafrumvarp undir aðila vinnumarkaðs áður en það er lagt fram á Alþingi.

Farinn er þekkt leið stjórnvalda að gera tilraun til þess að stýra umræðunni með því að leka í fjölmiðla völdum upplýsingum. Hér má t.d. benda einkennilegan fréttaflutning af starfsemi atvinnuleysistryggingasjóðs. Hann beinist ekki að vanda atvinnulauss fólks. Það liggur fyrir að það eru fyrirtækin sem fjármagna atvinnuleysistryggingarsjóð og væri einkennilegt ef fulltrúar fyrirtækja og launamanna komi ekki að stjórnun þessara verkefna.

Eftir stofnun Vinnumálastofnunar hafa stjórnvöld ýtt mörgum verkefnum sem áður voru fjármögnuð úr ríkissjóð yfir á atvinnuleysistryggingarsjóð og fréttamenn ættu að fara aðeins betur ofan í þær upplýsingar sem lekið var til þeirra.

ESB og sjávarútvegur

Það er svo dæmigert fyrir alla umræðu um þátttöku Íslands í alþjóðlegu samstarfi að umræðan fer fram í píslarhætti. Þetta blasir við þegar rætt er um hugsanlega þátttöku Íslands í ESB. Þeir sem ekki eru sammála þessari nauðhyggju; eru á móti öllu sem íslenskt er, svo ég vitni til orða öskurræðumanna við Austurvöll.

Þessi menn taka vart til máls öðruvísi en segja : Við eigum engra kosta völ, nauðsyn krefur, nauðsynlegt er, við neyðumst til, það er óhjákvæmilegt = ef við ætlum að eiga samstarf við hið erlenda samfélag. Eða gera andstæðingum sínum upp skoðanir og skjóta svo. T.d. hin kostulegu ummæli Guðna; um ESB fólkið og Fréttablaðið.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra sagði um Schengen „Ísland átti ekki nema tvo kosti, að taka þátt í samstarfinu eða ekki. (Björn alltaf nokkuð rökfastur) Að gera það ekki þýddi jafnframt að hin nánu og góðu tengsl við hin Norðurlöndin myndu byrja að gliðna með ófyrirsjáanlegum áhrifum.

Davíð Oddsson sagði „Með nýjum lögum um málefni útlendinga og atvinnuréttindi þeirra, aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu og Schengen-samstarfinu, hygg ég nær sanni vera að Ísland sé – þegar á allt er litið – meðal opnustu ríkja Vestur-Evrópu. Meira að segja svo að menn velta því fyrir sér hvort of langt hafi verið gengið.“

Þessir menn og skoðanabræður þeirra bera sig aumlega og biðjast nánast afsökunar á að fólk frá Evrópu megi nú ferðast til Íslands hindranalaust. Það hafi bara þurft að gera þetta, Norðurlandasamstarfsins vegna. Okkur langaði ekki en nauðsyn krafði. Kannski gengum við of langt, en það var óhjákvæmilegt.

Innan ESB eru veidd 7 millj. tonna af 225 þús. sjómönnum, sem er 31 tonn á sjómann. Ísland veiðir 1.8 millj. tonna með 4.500 sjómönnum, sem 400 tonn á sjómann. Hagræðing mjög mikil innan íslensks sjávarútvegs. Innan ESB eru alltof margir veiðimenn að veiða alltof fáa fiska. Á sama tíma eru lífskjör að batna í öðrum starfsgeirum og sjómenn dragast aftur úr og vitanlega vex óánægja meðal þeirra. Fiskveiðistefna ESB hefur ekki virkað og þeim er það ljóst. Þar má m.a. benda á að 88% stofna þeirra eru ofnýttir.

Íslenskir útgerðarmenn eiga umfangsmikil fiskvinnslufyrirtæki innan ESB svæðisins, þeir selja sjálfum sér óunninn fisk í þúsunda tonna vís og þeirra hagur að hafa verðið eins lágt og kostur er til þess að losna undan háum tollum. Það er verið að flytja alla þessa vinnu frá Íslandi. T.d. vinna um 800 manns hjá íslensku fiskvinnslufyrirtæki á Humbersvæðinu. Eigendur stórra íslenskra útgerðarfyrirtækja eiga enn stærri fiskveiðifyrirtæki innan ESB og þeirra hagsmunir í viðræðum við Ísland eru í raun meira þar en hér heima.

Umræðan hér heima snýst í raun um eignarhald íslenska kvótans, ekki þá fisksveiðistjórnun sem framkvæmd er með kvótasstjórnun. Það getur orðið íslendingum hættulegt að fara í þessar viðræður, eins og eignarhaldinu er fyrirkomið hjá okkurí dag. Hvaða viðhorfum munum við mæta í viðræðum við ESB? Er svo víst að þau verði okkur óhagstæð?

Sé litið til stöðunar hljóta vera töluverðar líkur á því að það verði keppikefli ESB að sveigja sitt kerfi að íslenska kerfinu og nýta tækifærið um leið til þess að taka til í sínu kerfi. ESB hefur ekkert um það að segja hvernig aðildarríkin úthluta kvóta. Kvótakerfið er og verður á forræði íslendinga einna. ESB á engar auðlyndir, það eru hin fullvalda aðildarríki sem eiga þær.

Hækkandi orkuverð og mengunarskattar eiga eftir að hafa umtalsverð áhrif á sjávarútveg, ekki bara sókn skipanna, heldur einnig það sem tíðkast í dag. Óunninn fiskur er frystur og svo fluttur um langa leið milli staða, jafnvel alla leið til Kína, þar sem hann er affrystur og unninn og svo frystur aftur og fluttur tilbaka.

Umræða um kvótakerfið okkar snýst alltaf yfir í umræðu um eignarhald. Þar er svo oft í hinni löskuðu íslensku umræðu, að tveim óskyldum hlutum blandað saman og nauðhyggjan er við völd í orðræðunni. Veiðistjórn Íslands er framkvæmd með kvóta og það gengur vel. Eignarhald á kvótakerfinu er allt annað og algjörlega óskyldur hlutur. En það er aftur á móti hagur útgerðarmanna að tengja þessa umræðu saman og hún snýst síðan ætíð upp í fáránlega endaleysu sem vitanlega gengur ekki upp.

Það blasir við að styrkjaleið við fátækustu lönd þriðja heimsins gengur ekki upp. Stuðningur við fátæk ríki í þriðja heiminum verður fyrst raunsær, þegar farið verður að styðja atvinnulíf í þessum löndum. Mönnum miði ekkert áfram með styrkveitingum, eini raunhæfi kosturinn sé uppbyggingu atvinnulífs. Þar er einungis einn kostur; uppbygging landbúnaðar og matvælaframleiðslu heimamanna í þessum ríkjum.

Vaxandi fjöldi spáir þetta sjónarmið muni njóta vaxandi stuðnings og hafa gríðarlega mikil áhrif á aðgerðir í náinni framtíð hvað varðar stuðning við landbúnað og endurskoðun á stefnu ríku þjóðanna. Þannig að það er ekki víst að það sem við erum að ræða í dag um landbúnaðarstefnu ESB, verði endilega það sem menn ræði eftir nokkur ár.

þriðjudagur, 1. desember 2009

Stasi komið af stað?

Einkennileg tilfinning að vera á hótelherbergi á 30 hæð í austur-Berlín og sjá skyndilega öskrandi mann falla fram hjá glugganum veifandi öllum öngum út í loftið.

Beðið í dáldin tíma eftir að heyra í sjúkrabílum en ekkert gerðist. Þá koma bara annar öskrandi á sömu leið niður. Maður fékk í magann. Stasi komið í aksjón aftur? Eða eru þeir harðari í innheimtum hjá útrásarvíkingum í Berlín?

Við nánari skoðun kom í ljós að þeir buðu upp á teygjustökk fram af þaki hótelsins sem við vorum í. Fram af þakinu á 38. hæð.

25 evrur stökkið.

Afsakið - en þorði ekki að fara upp og kaupa mér eitt stökk.

Efnahagslegt fullveldi

Íslendingar náðu fullveldi sínu 1. des. 1918 og hafa stoltir haldið því síðan, þar til ríkisstjórnir sjálfstæðismanna snéru sér að frjálshyggjunni og slepptu fjárglæframönnum lausum á þjóðina. Efnahags- og peningastefna undir stjórn Davíðs Oddssonar og hans fylgifiska hafa komið því þannig fyrir að íslendingar hafa nær glatað efnahagslegu fullveldi.

53% af viðskiptum okkar fara fram í Evrum, þannig að liðlega helmingur gengisáhættu íslendinga hverfur við upptöku evru. Norska krónan er með 4% af viðskiptum okkar dollarinn 11% og Kanadadollar 1%. Ég minni á þetta því þetta voru tillögur óábyrgra manna sem stungu upp á þessum myntum til þess eins að drepa vitrænni umræðu á dreif. Manna sem voru þá stjórnarþingmenn, sem með þessum tillögum upplýstu okkur um hversu óábyrgir og spilltir þeir voru.

Innganga í ESB og upptaka evru er ekki skyndilausn eins og sjálfstæðismenn hafa haldið fram, engir aðrir hafa rætt um að evran sé skyndilausn. Hún er nauðsynleg framtíðarlausn ef við ætlum að losna við óábyrga efnahagsstjórn, þar sem mistök íslenskra stjórnmálamanna hafa endurtekið verið leiðrétt með því að sveifla krónunni. Sem hefur kallað yfir 0kkur verðbólgu, hærri vexti og hærra verðlag.

Árið 1951 stofnuðu Belgía, Frakkland, Ítalía, Lúxemborg og Þýskaland til samvinnu í þungaiðnaði sem gekk mun lengra en gengur og gerist í milliríkjasamningum. Það var undanfari ESB. Þá var verið að undirbyggja framtíð og komast úr vítahring styrjalda og tryggja frið. Þetta samstarf þróast og þann 1. jan. 2002 var Evran tekin í notkun. Hvatinn henni var að tryggja efnahagslegt mótvægi við BNA og tryggja samkeppnistöðu og auka með því atvinnu.

Þetta hefur heppnast mun betur en nokkur gerði ráð fyrir og er Evran orðin ein af megingjaldmiðlum heimsins. Ítalir eru ekki í ESB til þess að fá evru, þeir gerðu það til þess að tryggja frið, bæta atvinnuástand og ekki síður til þess að losna undan fáránleika og spillingu sinna stjórnmálamanna. Hjá okkur gildir hvort tveggja ástæðan, en þó fyrst og síðast að ná efnahagslegu fullveldi.

(Endurskoðað orðalag, þar sem fyrri texti var ekki nægilega nákvæmur gg)


Ef við skiptum um mynt mun áhættuálag Íslands lækka töluvert. Það munar gríðarlega um hvert prósentustig í vöxtum eins og komið er fyrir Íslandi með hinar svimandi háu skuldir. Hvert prósentustig lækkar vaxtagreiðslur íslenska hagkerfisins um nokkra milljarða.

Íslenska krónan er við hlið evrunnar eins og korktappi við hlið skips af stærstu gerð. Eins og komið hefur fram spiluðu margir á örgjaldmiðilinn okkar og framkölluðu miklar sveiflur og högnuðust mikið á því á meðan venjulegar fjölskyldur bjuggu við hækkandi verðbólgu og vexti vegna þessa ástands.

Ástand krónunnar hefur leitt til þess að sparnaður og aðgát í fjármálum er íslendingum ekki eðlislægt eins og komið hefur fram í könnunum. Fjármálalæsi íslendinga er ákaflega lágt, borið saman við nágrannaþjóðir okkar. Það mun reynast vonlaust að laga það á meðan við búum við örgjaldmiðil.

Danmörk er að greiða 1 – 1,5% hærri vexti fyrir það að vera með danska krónu í stað evru. Það liggur fyrir að við munum greiða a.m.k. 3,5% aukalega hærri vexti á meðan við höldum krónunni en ella þyrfti. Vextir í Grikklandi féllu úr 30% í 4% á nokkrum árum eftir að þeir gengu í ESB.