mánudagur, 30. mars 2009

Smjörklípustjórnmál

Hér býr þjóð sem hefur á undanförnum 3 kjörtímabilum valið sér stjórnmálamenn sem fullkomlega misstu stjórn á efnahagsmálum, seldu einkavinum bankana og slepptu þeim lausum. Stjórnmálamennirnir fóru með fjárglæframönnunum í glansferðir um veröldina og sögðust hafa byggt upp íslenskt efnhagsundur. Þeir koma nú fram hver af öðrum og draga upp úr höttum sínum ýmislegt dót eins og bolta og kanínur. Sumar kanínurnar eru meir að segja stórar. „Á ég að setja 20% af skuldum allra í hattinn og „Púff!“

Það stefnir í 170 milljarða halla á ríkisbúskapnum. Ríki og sveitarfélög eru að ryksuga alla fjármuni í landinu. Skuldirnar stefna í 1700 milljarða og vextir verða 86 milljarðar. Vextir eru orðnir þriðji stærsti þáttur útgjalda ríkisins. Ef okkur á að takast að minnka skuldir okkar verður að auka framleiðsluna og þjóðartekjurnar. Ef tækist að auka trúverðugleika og lækka vexti á erlendum skuldum um 1% þá lækka vaxtaútgjöld um 17 milljarða. Álíka mikið og kostar að reka framhaldsskólann.

Það er eins og sumir stjórnmálamenn trúi því að það sé sjálfgefið að okkur takist að rísa upp. Þeir tala meir að segja þannig að ekkert sérstakt hafi gerst. Þeir hafi ekki gert nein sérstök mistök og þeir þurfi ekki að setja fram neina sérstaka stefnu. Krónan hafi bara reynst vel og á tímum hennar höfum við orðið rík. Svo rík að sumir töldu sig ekki þurfa að bíða eftir nýju dýru og flottu bílunum og fluttu þá heim í flugvélum, það tók svo langan tíma að bíða eftir skipum.

Hvernig í veröldinni eigum við að byggja upp trúverðugleika með krónunni og sömu stjórnmálamönnunum? Stjórnmálamenn vilja hafa krónuna svo þeir geti haldið áfram að hylja mistök sín með því einu að fella lífskjörin, ein sog svo oft áður og senda svo verkalýðsfélögunum tóninn og skamma þau fyrir slappa kjarasamninga. Fara svo baksviðs glottandi, framlag þeirra eitt = smjörklípa.

Það er engin önnur lausn í framboði til aukins stöðugleika önnur en Evran. Það tekst ekki að fá nauðsynleg lán og erlenda fjárfesta til þess að koma hingað til uppbyggingar án þess að gefa það upp að við stefnum að losa okkur við krónuna við fyrsta tækifæri.

Kókflaskan í The gods must be crazy = Davíð

Við skoðun ræðum þings Sjálfstæðismanna kom í hug myndin "The gods must be crazy", sem er með þeim betri. Þar er skotið á þróun auðvalds og eignarbrjálæðis sem eyðileggur manninn. Tilvist kókflöskunnar í myndinni samsamar sig fullkomlega við ræðu og stöðu Davíðs.

Það lýsir svo vel veruleikafirringunni að ráðast á þá stjórnmálaflokka sem tóku við sviðinni jörð og 150 MIA fjárlaga gati Sjálfstæðisflokksins sem hann stóð ráðalaus yfir og vissi ekki hvernig ætti að takast á við vandan og sat í ráðaleysi sínu þar til hann var hrakinn burt með búsáhaldabyltingunni. En núna er flokkurinn tekinn við af það að fárast út að við blasi skattahækkanir og niðurskurður og það sem lýsir þinginu best engin úrræði, nákvæmlega engin bara halda áfram og hjakka í sama farinu.

sunnudagur, 29. mars 2009

Siðbót innan lífeyriskerfisins

Gengdarlaus efnishyggja og peningadýrkun leiddi til hömlulausra ofurlauna fámenns hóps. Það leiddi til launaskriðs í fjármálageiranum og þá um leið varð að óhófleg hækkun á launakjörum nokkurra forsvarsmanna lífeyrissjóða. Sama gilti um framboð á glysferðum og skrautsýningum fjármálafyrirtækja, sem fóru fram erlendis eða á árbökkum dýrustu laxveiðiáa landsins. Þeir forsvarsmenn sem hafa verið þátttakendur í Þórðargleði eigenda bankanna hafa skaðað álit lífeyrissjóðanna.

Það er brýn nauðsyn að sú siðbót sem yfir stendur nái til stjórnenda lífeyrissjóða. Launakjör forsvarsmanna lífeyrissjóða eiga að vera í samræmi við það sem gengur og gerist á vinnumarkaði. Þjóðin er aftur orðin eigandi bankakerfisins, sem hefur leitt til endurskoðunar á kjörum yfirmanna bankanna. Sjóðsfélagar lífeyrissjóða gera samskonar kröfur.

Umræðan hefur stundum farið úr skorðum og einkennst af upphrópunum reistum á þekkingarleysi á starfsemi lífeyrissjóða. Gagnrýni hefur verið beint gegn stéttarfélögum sjóðsfélaga og þess krafist að þau axli ábyrgð. Samtök atvinnurekanda hafa haldið sér til hlés í þessari umræðu, þó svo samtökin skipi helming stjórnarmanna og hafa sannarlega markandi áhrif á fjárfestingarstefnu og kjör forsvarsmanna almennu lífeyrissjóðanna. Einnig má benda á að umræðan beinist ætíð almennum lífeyrissjóðunum, en ekki þeirra lífeyrissjóða sem banka- og fjármálakerfið hafa rekið. Ef stéttarfélög eiga að axla ábyrgð á innan lífeyriskerfisins, þá þarf ákvarðanataka vitanlega að vera í þeirra höndum. Gera á kröfu um að allir stjórnarmenn lífeyrissjóða séu úr röðum sjóðsfélaga og kjörnir af þeim.

Ég hef að undanförnu setið fjölmenna fundi sjóðsfélaga þess lífeyrissjóðs sem ég greiði í. Þar hafa framangreind mál verið rædd opinskátt, fulltrúar samtaka atvinnurekenda voru ekki á þeim fundum. Auk þess var tekið til umfjöllunar hvort það ætti að vera hlutverk lífeyrisjóða að reka hjúkrunarheimili. Því hefur algjörlega verið hafnað. Þó svo stjórnmálamenn hafi algjörlega brugðist í þessum málaflokki, réttlætir það engan vegin að lífeyrir sjóðsfélaga eða sparifé almennings verði tekið eignarnámi og nýtt til einhverra annarra hluta en að greiða lífeyri og örorkubætur.

Rekstraraðilum hjúkrunarheimila hefur ekki skort aðgang að hagstæðum langtíma lánum frá lífeyrissjóðum til bygginga og stækkunar. Sama gildir um aðgang sjóðsfélaga til lána vegna íbúðarkaupa. Það hefur aftur á móti skort heimildir frá hinu opinbera til stækkunar rekstrareininga og byggingar nýrra. Stjórnmálamenn hafa ekki staðið við kosningaloforð sín um átak í þessum efnum. Töluverð umræða var um það í síðustu kosningabaráttu, þar var einnig gagnrýnt að stjórnmálamenn væru að nýta þá sjóði sem ætlaðir voru til þessa í pólitísk gæluverkefni óskyld þessum málaflokki.

Staða þessara mála er á ábyrgð stjórnmálamanna ekki sparifjáreigenda sem geyma sitt fé í lífeyrissjóðum. Það er ekki og hefur ekki verið tiltökumál fyrir athafnaskáld að stofna félög um að reisa og reka hjúkrunarheimili og fá til þess lánsfjármagn frá lífeyrissjóðum. Um það hafa vitnað þeir sem eru í forsvari fyrir núverandi heimili.

laugardagur, 28. mars 2009

Vigdís - með viðbót

Er fyrir austan fjall þessa helgina í stórafmæli bróður míns. Á leið þangað seinni partinn í gær hlustaði ég á Vigdísi Hauksdóttur úthúða samtökum launamanna og starfsmönnum þeirra. Það hefur verið æði mikið um fram og tilbaka ásakanir hjá Vigdísi og maður er dáldið undrandi á hvers vegna fréttamenn hafa látið það ganga án þess að gagnspyrja hana. Fyrst sagðist hún hafa farið fram á launalaust leyfi en svo kom í ljós að hún hafði ekki gert það. Og það virtist ekki vefjast fyrir henna að hafa sagt ósatt.

Ég ætlaði að ekki fjalla frekar um þetta má, en hún gekk svo kyrfilega fram af mér að ég settist við tölvuna. Ég stóð í þeirri trú að málinu hefði verið lokið á fimmtudag. Vigdís fékk ósk sína uppfyllta að fá að hætta strax þar sem hún hefði unnið prófkjör og færi í efsta sæti sem kallaði á allt hennar vinnuframlag. Hún fékk uppsangartíma greiddan, auk þess að henni stóð til boða að fá sitt starf aftur ef hún næði ekki inn á þing. Ekki var á neinu stigi rætt um stjórnmálaskoðanir, enda eru að störfum hjá verkalýðshreyfingunni fólk sem kemur úr öllum kreðsum pólitískra skoðana. Annað er spuni í kosningabaráttu. Þrátt fyrir þetta velur Vigdís að halda áfram að níðast á stéttarfélögum og bætir í í ummælum um Magnús sem þó hefur verið að vinna einn öll lögmannastörfin og hefur haft takmarkaðan frítíma upp á síðkastið.

Hún byrjaði á því að setja það fram í viðtali við DV sama dag og ársfundur ASÍ var haldin ásökunum um að ASÍ væri útbú hjá Samfylkingunni og þess vegna væri ársfundurinn þennan dag og svo þing Samfylkingarinnar í beinu framhaldi og þar kæmu fram ályktanir ASÍ.

Samtök launamanna eru hagsmunasamtök og þau reyna ætíð að hafa áhrif á stefnu allra stjórnmálaflokka. Það er hlutur af hagsmunabaráttunni. Ef stjórnmálaflokkar taka upp stefnu sem samtök launamanna hafa sett fram þá er það sigur. Það er sem betur fer ekki óalgengt að stjórnmálaflokkar sæki í smiðju stéttarfélaganna. Þetta er ástæða þess að settur var á aukaársfundur og dagsettur þegar tveir stærstu flokkarnir eru með þing og kosningabarátta er að hefjast. Stéttarfélögin leggja áherslu á koma sinni stefnu sem mest inn í kosningabaráttuna, þannig hefur það alltaf verið, en það kemur mér allavega á óvart að Vigdís viti þetta ekki og hlýtur að vera launamönnum umhugsunarefni.

Skilja má á ummælum hennar að hún átti sig ekki á að hún var ráðin starf sem þarf að sinna.
Einnig má spyrja Vigdísi ef ASÍ fór svona illa með hana hvers vegna beið hún í hálfan mánuð með að fara í viðtal við DV og velur sama dag og ársfundurinn er settur?

Vigdís sakaði ASÍ í fyrstu um mismunum byggða á að Magnús Norðdal hafi fengið frí til kosningabaráttu en hún ekki. Kosningabaráttan var ekki hafin. Þegar þetta kom fram þá snéri Vigdís við blaðinu og sagði að Magnús hefði getað verið í prófkjörsbaráttu í vinnunni. Einstaklega ómaklegt hjá Vigdísi.

Magnús fékk ekki frí í prófkjörsbaráttu sinni. Hann var í vinnunni vegna þess að hjá ASÍ er fullt starf fyrir tvo lögmenn. Stéttarfélögin sem borga skattinn til ASÍ og þá um leið laun lögmanna ASÍ, sækja til þeirra með mörg vandamál í hverri viku og krefjast úrlausna strax. Það var ekki nema annar lögmanna ASÍ í vinnunni. Hann hét Magnús var á bólakafi við það leysa úr verkefnum og við kröfðumst að Magnús gerði það og hann stóð fyllilega sína plikt, enda er Magnús af öðrum ólöstuðum einn besti lögmaður og úrræðabesti sem við höfum haft. Okkur var slétt sama um einhverja prófkjörsbaráttu.

Hinn lögmaðurinn hefur verið töluvert í fríi þar á meðal í launuðu námsorlofi. Sá lögmaður heitir Vigdís og var ráðinn fyrir 5 mánuðum þegar við misstum skyndilega hinn lögmann okkar yfir í önnur störf.

Vigdísi tókst það sem hún setti sér, ýta til hliðar þeirri umfjöllum sem samtök launamanna vonuðust að ná í fjölmiðlum með niðurstöður ársfundarins, en kom í stað þess sjálfri sér á dagskrá. Nú þekkja allir Vigdísi, en fáir vissu hver hún var áður. Það er svo spurning hvort það sé leiðin að úthúða samtökum launamanna og starfsmönnum þeirra til þess að ná Framsóknarflokknum upp og tryggja Vigdísi þingsæti og komast í fréttaþætti.

En það breytir ekki þeirri staðreynd að við fáum daglega ný vandamál úr samskiptum launamanna og fyrirtækja og verðum að fá þau leyst af lögmönnum okkar og það þarf að gerast jafnharðan og þau berast algjörlega óháð því hvort fólk sé í kosningabaráttu eða upptekið í viðtölum í fjölmiðlum. Mér hefur skilist að Vigdís hafi staðið sitt starf til boða. En það er til nokkuð sem heitir að glata trausti og brjóta brýr að baki sér.

föstudagur, 27. mars 2009

Ræða Geirs

Ræða Geirs var í flestu ákaflega góð. Hann var einlægur og kemur inn flest þeirra atriða sem gagnrýnd hafa verið og biðst afsökunar á því að hafa ekki tekið á þeim. Reyndar fannst mér hann skella sér í hlutverk slaka ræðarans og kenna árinni um þegar hann veittist að regluverki EES samningsins. Slöpp afsökun, þar sem fyrir liggur að eftirlitsstofnanir hér ásamt ríkisstjórn hvöttu fjárglæframenn til dáða og sinntu ekki sínum störfum.

En það er skelfilegt að ef Sjálfstæðisflokkurinn ætlar enn eina ferðina að smeygja sér undan því að taka upp alvöru umræður um efnahags- og peningastefnu, með því að láta fara fram kosningu um hvort taka eigi upp viðræður við ESB. Það mun kalla á áframhaldandi upphrópanir, engin rök og engin svör.

miðvikudagur, 25. mars 2009

Eru lýðskrumararnir að hafa það?

Þau eru ámælisverð viðbrögð Geirs, Árna og Ingibjargar Sólrúnu þegar þeim voru borinn þau skilaboð fyrir rúmu ári síðan frá helstu viðskiptabönkum íslendinga, að bankakerfi Íslands stæði á brauðfótum og stefndi ekki bara sjálfu sér í ógöngur, heldur myndi það draga a.m.k. hluta íslensks þjóðfélags með sér í fallinu. Í sjálfu sér eru viðbrögð Seðlabankans og hans aðalstjóra ekki síður alvarleg, t.d. þegar bankinn gaf heimildir til þess að auka við Icesave kerfið og reyndar viðbragðsleysi bankans yfirhöfuð. Þetta fólk er að hverfa úr íslenskum stjórnmálum með sína siði og viðhorf.

Ummæli og viðbrögð þessa forystumanna ásamt meðfylgjandi stjórnmálamönnum þegar Bretar settu á íslenska bankakerfið hryðjuverkalög og erlendir bankar neituðu landinu um lán, verða svo aumkunarverð og já hreinlega ómerkileg lágkúra.

Mannkynssagan segir okkur að menn fá ekki aðgang að nýjum lánum fyrr en þeir eru búnir að annað hvort að gera upp við lánadrottna sína, eða allavega búnir að ná niðurstöðu um hver skuldin sé og semja um málið. Skilaboð erlendra lánadrottna Íslands hafa um allangt skeið verið ákaflega skýr, íslenskir stjórnmálamenn og um leið bankamenn verði að fara að alþjóðalögum og ef þeir geri það fá þeir ekki lán. Sjá viðbrögð Seðlabanka Norðurlandanna, Bretlands, BNA og fleiri vinaþjóða og allra stærstu viðskiptabanka íslenskra fyrirtækja.

Ef haldið er áfram á þeirri braut sem þessir stjórnmálamenn mörkuðu, þá stefnum við hraðbyri í að verða láglaunaþjóð í samkeppni við önnur láglaunalönd um verkefni. Íslensk fyrirtæki sem eitthvað varið er í verða horfin á braut. Hafa menn ekki hlustað á ræður forsvarsmanna Marel, Össur, CCP og annarra verðmætra íslenskra fyrirtækja? Þeir hafa ítrekað sagt að þeir sjái ekki framtíð fyrirtækjanna hér ef ekki verði skipt um gjaldmiðil og gengið í ESB.

Staða orkufyrirtækjanna sem allir héldu að væru svo sterk, er orðin geigvænleg. Þau byggðu sig upp á tiltölulega stuttum lánum sem sett voru í uppbyggingu orkuvera og dreifikerfis. Orkufyrirtækin geta núna ekki endurfjármagnað lán sín, nema þá með lánum á gríðarlega háaum vöxtum og hvert verða þau þá að leita?

Þau hafa einungis eina leið; Afla aukinna tekna á innanlandsmarkaði. Lækka rekstrarkostnað með lægri launum, eins og þau hafa verið að gera undanfarið og hækka gjaldskrár umtalsvert. Hvert verða þau að leita með þá verðhækkun? Á almennan innanlands raforkumarkað, vegna þess að stórkaupendur eru með langtímasamninga. Þetta vita allir en horfa samt framhjá þesari staðreynd.

Við búum ekki einungis við bankakreppu eins svo mörg önnur lönd, okkar alvarlega staða er fólgin í gjaldeyriskreppu. Hún kallar yfir okkur mjög háa vexti. Stjórnvöld settu á verðtryggingu á sínum tíma vegna hinnar sveiflukenndu krónu. Það var eina leiðin til þess að fá fjármuni í langtímalán heimila vegna húsnæðiskaupa. Áður hafði allt fjármagn gufað upp ásamt sparifé landsmanna. Menn geymdu ekki fjármuni í bönkum eða lífeyrissjóðum, þeir voru geymdir í steinsteypu eða sendir erlendis inn á bankareikninga.

Það er engin leið að losna við verðtryggingu nema að skipta um gjaldmiðil. Fyrr fáum við ekki þann stöðugleika sem er grundvöllur að ná niður verðbólgu og vöxtum. Í dag fá fyrirtækin ekki erlent lánsfé og þau eru að gefast upp hvert á fætur öðru. Þrátt fyrir það eru sumir með innistæðulaust yfirboð um að ganga í skrokk á öllum fyrirtækjum landsins og krefjast launahækkana.

Það skiptir íslendinga öllu hvernig stjórnvöldum tekst til á allra næstu mánuðum. Ef illa tekst til þá blasir við langvarandi kreppa, sumir segj a 10 - 15 ár. En ef tekið er af alvöru á vandanum og takist að ná jákvæðum hagvexti á næstu árum þá getum við unnið okkur út úr þessu ástandi á stuttum tíma.

En við getum verið snögg upp á við eftir að alþjóðabankakreppunni lýkur, ef umæðunni er komið á annað og skilmerkilegra stig en hún er í dag. Ef stjórnmálamenn ásamt fjölmiðlum víkja til hliðar boðskap lýðskrumara og greina hismið frá kjarnanum. Á það skorti umtalsvert í dag í umfjöllum fjölmiðla- og stjórnmálamanna um umræður og tillögur á ársfundi ASÍ. T.d. einbeitti RÚV sér að því að gera forsætisráðherra upp skoðanir og flytja fréttir af ræðum sem ekki voru fluttar. Ekki var minnst á þær tillögur sem til umræðu voru á fundinum.

Um pólitískar nornaveiðar

Hallur Magnússon skrifar pistil um pólitískar hreinsanir hjá ASÍ. Ýmislegt er einkennilegt í fullyrðingum hans. Hallur er einn af betri bloggurum og leitt að hann skuli láta kosningahita rugla sig í ríminu

Vigdís var ráðinn sem starfsmaður ASÍ, já meir að segja þrátt fyrir þá vitneskju að hún væri í framkvæmdastjórn Framsóknar og sæti í stjórn OR. Vigdís var góður starfsmaður og var studd til frekara náms á meðan hún var í starfi hjá ASÍ. Hún kom að máli við framkv.stj. ASÍ fyrir skömmu og fór fram að losna úr starfi strax þar sem henni hefði verið boðið efsta sæti Framsóknar í Reykjavík sem væri talið þingsæti. Það var veitt umyrðalaust, utan þess að henni var tjáð að ASÍ hefði gjarnan viljað njóta krafta hennar áfram, henni var ekki sagt upp.

Um pólitískar ofsóknir eins og Hallur vill stilla þessu upp, þá er ástæða til þess að minna á að í efstu forystu ASÍ hefur t.d. verið vænn og góður drengur norðan úr Eyjafirði Björn Snæbjörnsson um allangt skeið. Björn er einn af helstu forystumönnum Framsóknar og búinn að vera lengi. Benda má á allmörg önnur dæmi um fólk úr hinum ýmsustu flokkum.

Sú var tíð að þingsæti fylgdi forsetastól ASÍ. En breytt viðhorf urðu til þess að þessu var hætt, sem betur fer. En það eru allmargir á listum stjórnmálaflokka, sem sinna stjórnar- og forystustörfum og starfa jafnframt fyrir verkalýðshreyfinguna. Línan hefur verið að menn hætti ef þeir séu á leið inn á þing, þar á ég við innan ASÍ. Annað virðist reyndar gilda um önnur heildarsamtök laumanna.

Og úr því ég er að fjalla um málflutning af ASÍ. Þá var ég við setninguna og hlustaði á fína ræðu Jóhönnu. Ég heyrði hana ekki tala um ofurgreiðslur innan ASÍ eins og RÚV heldur fram. Ég heyrði hana tala um ofurgreiðslur innan líferyissjóðakerfsins. Sama gerði reyndar Gylfi þegar hann fjallaði um mál lífeyrissjóða. Þar er sá munur að stéttarfélög innan ASÍ hafa mörg hver gagnrýnt ofurgreiðslur innan lífeyriskerfisins og fyrir ársfundinum liggur harkaleg gagnrýni þar um. En fréttastofa RÚV heyrir marga hluti öðru vísi en við hin.

þriðjudagur, 24. mars 2009

Kosning stjórnarmanna lífeyrissjóða

Það er sjaldan sem ég hef verið sammála Helga í Góu. Allra síst er ég sammála hvernig hann hefur hefur úthúðað starfsmönnum stéttarfélaga og lífeyrissjóða. Oft héf ég spurst fyrir um hvers vegna Helgi mæti ekki á sjóðsfélagafundi í sínum lífeyrissjóð og ber upp sínar tillögur. Ekki virðist hann hafa gert það en mætir reglulega í heilsíðu auglýsingum oft fullum af rakalausum fullyrðingum.

Það hafa allmörg stéttarfélög margoft samþykkt ályktanir þar sem val helmings stjórnarmanna er gagnrýnt og bent á að það séu sjóðsfélgar sem eigi sjóðina ekki atvinnurekendur, þakka ber Helga fyrir að vekja athygli á þessu. Helmingur stjórnarmanna í því stéttarfélagi sem ég er eru kosnir á fjölmennum fundum sjóðsfélaga. Á fundum félagsmanna rafiðnaðarmanna hafa laun og starfskjör forsvarsmanna lífeyrissjóða verið gagnrýnd og það er allnokkuð síðan að settar voru strangar reglur um gjafir og hvers konar boð. En það eru ekki allir þeirra með 30 millj. kr. og ekki allir með dýrustu gerðir bíla.

Það er svo leiðinlegt að horfa upp alhæfingar. Af hverju eru ætíð veist að stéttarfélgum, ekki SA sem velur helming stjórnarmanna almennu lífeyrissjóðanna? Af hverju er ekki spurt um hvaðan reglur umstarfskjör koma? Af hverju er ekki veist að bankalífeyrissjóðunum? Ekki hafa þeir verið að koma út með glans, er það? Hvernig fer fram val í stjórnir þeirra sjóða? Hafa stjórnarmenn þeirra sjóða farið í lax, fara þeir kannski bara í silung og aka um á Lada Sport og fara út í Viðey á eigin kostnað í stað þess að fara erlendis?

Það er áhugavert að atvinnurekandi sem hefur beinlínis hag af því að framleiða á eina mestu meinsemd OECD ríkjana, skuli láta sér velferð eldri borgara svona miklu máli skipta. Á meðan heilbrygðiskerfið okkar mokar fjármunum í fyrirbyggjandi aðgerðir gegn tannskemmdum og sykursýki sem kostar okkur milljarða, þá hamast hann í lífeyriskerfi sem OECD hefur skilgreint sem fyrirmyndar kerfi. Þriggja stoða kerfi sem byggir á grunnlífeyri ríkisins, samtryggingu með sjóðasöfnun og viðbótarlífeyri fyrir þá sem vilja tryggja sig betur. Kaldhæðinin í þessu öllu er að sykurneysla styttir lífslíkur og lækkar þar með ellilífeyrisskuldbindingar lífeyrissjóða og eykur örorkulíkur að sama skapi.

Síðast í gær birtist frétt á Stöð 2 þess efnis að þrátt fyrir að ítarlegar leiðbeiningareglur til að verja börn gegn markaðsáreiti hafi tekið gildi 15. mars s.l. er sælgæti enn í sjónhæð barna við afgreiðslukassa í verslunum. Starfsmenn Góu raða í þessar hillur og ættu að vera meðvituð um að með þessu eru þeir að brjóta reglur sem er settar ellilífeyrisþegum framtíðarinnar til hagsbóta. Barnafólk á að geta gengið um verslanir með börn án þess að hafa þessa meinsemd fyrir framan sig. Eflaust er KFC og hvað þessi skyndibitafæði heitir öll hin hollast fæða og vafalaust getur Helgi sýnt fram á það með trúverðugum rannsóknum að þessar neysluvenjur eru til hagsbóta fyrir eldri borgara.

Tvískynjungsháttur Helga er honum ekki sæmandi og hann ætti að líta í eigin barm áður en hann rakkar niður það sem aðrir eru að reyna að byggja upp, eldri borgurum til hagsbóta. Það er ekkert sjálfsagðara en að fjárfesta í fasteignafélögum sem á hagkvæman hátt byggja upp dvalarheimili fyrir aldraða. Skrá hlutabréf eða gefa út skuldabréf á verðbréfamarkaði og gera þannig lífeyrissjóðum mögulegt að fjárfesta í fasteignum. Það getur ekki verið hlutverk lífeyrissjóða að gera þetta sjálfir. Þessi sjóðir eru ekki reknir í ágoðaskyni heldur reyna þeir að velja útgefendur verðbréfa sem uppfylla kröfur um góða stjórnarhætti, stunda ekki atvinnustarfsemi sem fer gegn velferð samfélagsins heldur fyrirtæki sem skila sjóðunum viðunandi ávöxtun til langs tíma.

mánudagur, 23. mars 2009

Ertu áhættufíkill?

Ég hef áður fjallað um rafmagnsslys og afleiðingar þeirra hér. Nokkrir eru að auglýsa á Barnalandi að þeir taki að sér raflagnir, menn sem ekki hafa réttindi. Það er dauðans alvara að selja sig út sem fagmann í raflögnum án þess að hafa til þess réttindi, reyndar ekki síður sá sem kaupir þannig þjónustu. Enn alvarlegra því flestum er ljóst hversu ljónhættulegt rafmagns getur verið.

Í dag féll dómur yfir manni sem hafði lánað 18 ára einstakling vélssleða sinn án þess að láta hann fá hjálm. Þessi einstaklingur féll af sleðanum og fékk alvarlegt höfuðhögg. Sá sem átti sleðann var dæmdur til að greiða 8 millj. kr. í skaðbætur með vöxtum, vegna þess að honum átti að vera vel ljóst hvað gæti gerst.

Rafstraumur sem kemst inn fyrir húð fólks veldur skaða í lifandi vefjum fari hann yfir ákveðið magn og getur vitanlega verið banvænn. Það þarf sáralítinn straum til þess að valda skaða, einungis straum umfam 200 milliamper í 200 millisek. veldur alvarlegu innra tjóni. Þeir sem meðhöndla rafmagnsslys þurfa að hafa það í huga að skemmdir sjást oft ekki og koma ekki strax fram. Þar má benda á innri bruna, hjartatruflanir, skemmdir í vöðvum og nýrum.

Áhrif rafstraums á taugarkefið getur verið meðvitundarskerðing, lömun og öndunartruflunun sem valda svo súrefniskerðingu og sköddum á heila og öðrum líkamshlutum. Algeng afleiðing eru minnistruflanir.

Straumur í gegnum brjóstkassa getur framkallað samdrátt í öndunarvöðvum og hamlað eða jafnvel stöðvað öndun.

Straumur í gegnum öndurstjórnun í heila geta einnig stöðvað öndun.

Straumur í gegnum hálslagæðar geta truflað blóðþrýsting.

Straumur í gegnum hjarta getur truflað gang þess og valdið hjartsláttartruflunum.

Straumur í gegnum auga getur valdið því að það hvítni

Straumur í gegnum liði getur skemmt þá.

Straumur veldur innri bruna í vöðvum og beinum. Í beinum er viðnám mest og hiti veldur beinhimnuskemmdum og beindrepi.

Straumur veldur vöðvaniðurbrotseinkennum og eggjahvítu efni geta stíflað nýrun og valdið nýrnabilun. Nauðsynlegt er að drekka mikinn vökva til þess að hjálpa nýrunum við hreinsun líkamans. Þetta kemur fram í brúnu þvagi. Svipuð einkenni geta myndast við að taka þátt í maraþoni.

Það er mjög alvarlegt ef einhver setur upp raflögn án þess að hafa til þess fullkomna þekkingu. Sá sem ræður þannig einstakling til þess að setja upp raflögn umhverfis sína fjölskyldu tekur áhættu með sjálfan sig og ekki síður sína nánustu.

Ertu áhættufíkill, spennufíkill? Kannski rafspennufíkill?

Tekur þú byssu, miðar út um gluggann, lokar augunum og hleypir af? Ber sá sem þvælist í veg fyrir kúluna ábyrgðina?

sunnudagur, 22. mars 2009

Gunnlaugur í Silfrinu

Í Silfrinu í dag var áhugavert viðtal við Gunnlaug Jónsson einn helsta forsvarsmann Frjálshyggjumanna á Íslandi. Hann útskýrði fyrir okkur hvernig allt annað hefði brugðist en frjálshyggjan. Ég velti því aftur og aftur fyrir mér hvers vegna hann ásamt öðrum frjálshyggjumönnum tók þá ekki undir með okkur þegar við félagshyggjumenn vorum að gagnrýna hvert stefndi á Íslandi.

T.d. þegar við vorum að benda á vaxandi misskiptingu, einkavæðingu bankanna og skort á eftirliti. Þvert á móti man ég eftir fjölmörgum viðtölum og greinum um hið gagnstæða. Ég man svo vel eftir forsvarsmönnum Félags frjálshyggjumanna ásamt nokkrum úr frjálshyggjuarmi Sjálfstæðisflokksins í Silfrinu, þar sem þeir fjölluðu af mikilli ákefð um hversu vel gengi á Íslandi undir þeirra stjórn. Hvernig þeir hefðu unnið umræðuna eins og þeir tóku svo oft til orða.

Hvernig Pétur Blöndal, Sigurður Kári, Birgir Ármannss., Sveinn Andri, Guðlaugur Þór og fleiri fjölluðu um þessi mál. Eða t.d raðgreinar Hannesar Hólmsteins og Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, sem varð í fyrsta sæti prófkjörisns á Suðurlandi, í Fréttablaðinu fyrir síðustu kosningar, þar sem Þorvaldi Gylfasyni og Stefáni Ólafssyni og hagfræðingum ASÍ var úthúðað og öllu snúið á hvolf sem þeir sögðu og höfðu sýnt fram á greinargóðan hátt í greinum og skýrslum.

Allir sem ekki studdu skoðanir þeirra voru afgreiddir með upphrópunum sem eitthvað vinstra lið. Því fylgdi gjarnan lýsingar á hörmungum Sovétsins. Nú sjáum við svo vel hvernig frjálshyggjan hefur samsamað sig við Sovétið. En þá bregður svo við að þau sverja allt af sér og það er ekki stefnan sem hefði brugðist, heldur fólkið.

Það sem Gunnlaugur lýsti útóbíu sinni í Silfrinu í dag, sýndi manni svo vel hversu litlir karlar sumir verða þegar við blasa afleiðingar gjörða þeirra og efnahagsstjórnunarstenunnar sem fylgt hefur verið. Hrunin heimili, 17 þús. manns atvinnulausir og hvert fyrirtækið af öðru hrynur til grunna.

Ábyrgðin

Í umræðum á kaffistofum og heitu pottunum verður fljótt áberandi sjónarmið um þá sem voru hvað harðastir í dómum um lánakerfið og háværastir í flokki mótmælenda fyrr í vetur. Þar væri fólk sem hafði freistast til þess að taka þátt í hrunadansinum um gullkálfinn og kapphlaupinu við að uppskera sinn hluta af góðærinu. Þessir sem gagnrýndu verkalýðsfélögin hvað harðast, m.a. vegna þess að þau settu sig í andstöðu við þær hugmyndir að lífeyrissjóðir (sparifé tiltekins hóps launamanna) væru teknir og nýttir til þess að greiða upp skuldir allra. Þessir sem hefðu farið þráðbeint á hausinn þó svo bankahrunið hefði ekki komið til.

Þeir sem höfðu hvað hæst voru ekki félagsmenn í stéttarfélögum og höfðu lítið eða jafnvel ekkert greitt í almennu lífeyrissjóðina, en veittust hvað harðast að þeim. Þeir sem voru með allt sitt hjá bönkunum. Eignir losaðar og settar í eignastýringu sléttgreiddu Armaniguttana, sem sögðu með hinu þekkta sjálfbyrgingslegu glotti „Við látum peningana vinna fyrir þig.“

Húsnæði stækkað með 100% láni. Húsnæðisverð hækkaði umfram raungildi. Aukið veðrými nýtt til enn frekari lántöku ofaná eldri lán. Nýjir bílar, íburðarmiklar innréttingar, sumarhús og ferðalög. Einkahlutafélög stofnuð og skipt um kennitölur.

Og þingmenn stjórnarmeirihlutans samsömuðu sig við þá, slógu sér á brjóst og sögðu; „Sjáið hvað við höfum gert. Allir hafa það svo gott undir okkar stjórn.“ Og enn fleiri Jöklabréf voru seld, peningar fluttir inn í landið, krónan hækkuð og gefnar út yfirlýsingar um að hér ríkti engin spilling. Ísland væri ríkasta land í heimi og skuldaði ekkert.

Á meðan hinn venjulega fjölskylda byggði sín venjulegu hús og sigldi með ströndum hvað varðar lifnaðarhætti. Hið venjulega fólk á í vandræðum, en þau eru viðráðanleg ef stjórnvöld grípa til ráða um greiðslujöfnun, lækkun vaxta og niðurfellingu verðbóta. En umræðan stöðvast alltaf við sama punkt. Það er ekkert réttlæti fólgið í því að aðstoð við venjulegar fjölskyldur takmarkist sakir þess að dreifa eigi orkunni í að hjálpa öllum. Líka þeim sem höguðu sér með óábyrgum hætti. „Við sættum okkur ekki við að inn í skuldasúpu ríkissjóðs verði skellt niðurfelling skulda allra og okkur gert að greiða hærri skatta um ókomna tíð sakir þess“, er viðkvæðið.

„Þú ert alltaf að blogga Guðmundur og ert alltaf svo vondur,“ sagði einn af ráðherrum fyrrv. ríkisstjórna og forsvarsmaður stærsta flokksins við mig á fundi í vikunni. Já líklega er það rétt, ég allavega heyri vel hvað fólk segir við mig á fundum og í kaffistofum og hef fylgst með þróuninni. Skrifað mýmargar greinar um hvert stefni og setið undir háðsglósum og upphrópunum frjálshyggjumannanna.

Nú þurfum við að sópa upp eftir þá og taka til. Það kostar óvinsælar ákvarðanir. Ákvarðanir sem þeir höfðu ekki dug í sér að taka sjálfir. Frjálshyggjan er fljót að næla sér í bestu bitana og hlaupa svo á brott. Það blasir svo vel við okkur í dag. Það er líklega ástæðan fyrir því að við erum í svona vondu skapi þessa dagana.

laugardagur, 21. mars 2009

Stefna flokksins var rétt

Við lestur úrdrátts úr skýrslu endurreisnarnefndar Sjálfstæðisflokks rifjast óhjákvæmilega upp viðbrögð og ummæli þingmanna þáverandi stjórnarflokka síðastliðið haust, þar sem þeir þráuðust við að halda því fram að orsök efnahagshrunsins væri alfarið af utanaðkomandi völdum. Á þessu var staglast mánuðum saman og snúið út úr öllum ábendingum um að þetta væri að mestu leiti heimatilbúinn vandi.

Þetta leiddi til þess að ekki var gripið réttra varnarviðragða og það var ekki fyrr en stjórnin var hrakin frá völdum af með búsáhaldabyltingu almennings að tekið var til við að lagfæra ástandið. Þetta hefur kostað almenning og fyrirtæki hundruð milljarða í óþarfa tap.

Þennan heimatilbúna vanda höfðu margir hér innanlands sem utan bent á lengi án nokkurra viðbragða stjórnvalda. Það blasir við að dýpt lægðarinnar er alfarið sök þessara þingmanna. Í dag raða þessir þingmenn sér í efstu framboðssæti.

Í skýrlsunni er einnig staðfest það sem lengi hefur verið fram, að vinnubrögð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks við einakvæðingu bankanna einkenndist af pólitískri spillingu. Í því sambandi rifjast einnig upp fyrri ummæli margra núverandi þingmanna. Manna sem eru í framboði núna og eru í efstu sætum þess flokks sem hefur leitt efnahagsstjórn þessa lands undanfarna tvo áratugi.

Í þessu sambandi má benda á ummæli Obama hjá Jay Leno um lög og lagasetningu. Það virðist vera sammerkt með repúblikönum BNA og Íslands þeir voru mjög uppteknir við að setja lög um ýmis mál snertu hátterni hins almenna borgara, en um leið slepptu þeir lausum peningavillidýrum á almenning auk þess að hvetja þá til dáða og hrósa þeim fyrir dugnað.

Og enn einu sinni rifjast upp mörg ummæla nokkurra núverandi þingmanna þar sem þeir hrósuðu sjálfum sér og peningamönnunum fyrir þær lystisemdir sem þeir sköpuðu. Þessir þingmenn eru í efstu sætum í framboði eins flokks.

Í sjálfu sér er ekki hægt að draga nema eina niðurstöðu af þessu, þessir þingmenn eru fullkomlega óhæfir til þeirra starfa sem þeir hafa sinnt. Þeir hafa greinilega ekki minnsta vit á efnahagsmálum, þaðan af síður efnahags- og peningastjórn og allra síst á regluverki og þeirri eftirlitsskyldu sem þeir voru kjörnir til. Það var ríkið sem brást almenning, ekki fólkið stjórnvöldum, eins og þessir þingmann hafa haldið fram. Í þessu sambandi má benda á ummæli formanns flokksins þegar skýrslan var borinn undir hann. "Stefna flokksins var rétt" !!??

Að framansögðu ég ætla enn einu sinni að spá því að það Alþingi sem verður sett eftir kosningar verður ekki að störfum heilt kjörtímabil.

fimmtudagur, 19. mars 2009

Einstaklingshyggja og verndun sérhagsmuna

Á undanförnum árum hefur félagshyggjan lotið í lægra fyrir einstaklingsfrelsinu. Við vernd sérhagsmuna hefur frelsið hefur snúist upp í andhverfu sína. Efnis- og gróðahyggjan er allsráðandi og fákeppni hefur vaxið og samfara því bilið milli fátækra og ríkra. Forsvarsmenn Granda virða hina vinnandi hönd einskis, en vilja fá arðinn sendan til Chile.

"Úr hverju varð arður Granda til?" er spurning sem maður myndi ætla að fjölmiðlamenn skoðuðu, fyrir liggur að tilvist hans er vafasamur svo ekki sé meira sagt. Nei það gera þeir ekki, þar fara aftur á móti hamförum og tefla fram í hverjum viðtals- og fréttaþættinum lýðskrumurum sem hafa það eitt til málanna að leggja að níða biður samtök launfólks með útúrsnúningum og með því að gera öðru fólki upp skoðanir.

Finnst fréttamönnum það trúverðugt innlegg að sumir forsvarsmenn launamanna séu viljandi að afþakka launahækkanir sem eiga að standa í boði, samkvæmt órökstuddum fullyrðingum lýðskurmaranna? Lýðskrumarnir leggja ekkert til málanna annað en eigin upphafningu og innistæðulaus yfirboð. Hafa fréttamenn ekki fylgst með því sem fram hefur komið?

Vitanlega er það ljóst eftir að endurskoðandi Granda komst að þeirri niðurstöðu að staða fyrirtækisins gæfi tilefni til arðgreiðslna, var það ljóst að Grandi þyrfti ekki á frestun launahækkana að halda og hlýtur að greiða út launahækkunina um næstu mánaðarmót. Um það var rætt við endurskoðun kjarasamninganna? Það var í fréttum. Í stuttu máli ; Einhver fyrirtæki réðu ekki við hækkun launa á meðan önnur gerðu það. Sum þeirra hafa þegar hækkað launin önnur hafa frestaði því fram í júní.

Það er eins og fjölmiðlamenn séu enn í þeirri veröld sem peningar eru allt. Auður samfélagsins er fólgin í fólkinu. Réttlæti og jafnræði. Dýrkun valda og efnishyggju eru fjötrar ekki frelsi. Arður og gengi hlutabréfa hafa blindað og allt sem getur skilað auknum arði er talið réttlætanlegt. Sjónarmiðum launþega og þeirra sem minna mega sín hefur verið vikið til hliðar, gróðafíknin ræður. Mannkostir, mannleg reisn og samskipti hafa gleymst. Gróðafíkn varð hér æðsta takmark og öll fyrirbrigði mannlegrar tilveru voru gerð að mati á kaupgetu.

Gleypigangurinn hefur ráðið ríkjum, hann er boðorð, fyrirheit og æðsta takmark hins gerilssneidda lífs frjálshyggjunnar. Algengt svar helsta forsvarsmanns frjálshyggjunnar á Íslandi þegar hann var spurður á meðan hann sá um mótun efnahagsstefnunnar hér, um hvort stefna hans geti ekki leitt til vaxandi fátæktar og örbirgðar. "Þetta er sjálfskaparvíti fólksins í láglaunastörfunum. Það getur bara hætt að vinna og farið í háskóla. Þá fær það mikið betri vinnu og þá getur það sparað og keypt sér hlutabréf".

Talsmenn Frjálshyggjunnar hafa verið kátir á undanförnum árum og talað um að nú séu góðir tímar. „Hverju ætlið þið að breyta, þegar allir hafa það svo gott undir okkar stjórn,“ var helsta kosningafullyrðing þeirra í síðustu kosningum. Nú er hægt er að flytja inn ódýrt vinnuafl og hámarka arðinn með því að notfæra sér neyð bláfátæks fólks frá svæðum þar sem örbirgð ríkir. Með því er hægt að halda aftur af ósanngjörnum launakröfum frekra og ofalinna íslenskra launamanna, sem undir stjórn verkalýðsforkólfa eru að takmarka hugsanlegan arð fjármagnsins.

Undanfarna tvo áratugi hefur það ekki samræmst viðhorfum ríkjandi stjórnvalda að ganga gegn gróðafíkninni. Það hefur gleymst að fjármagnið er einskis virði ef ekki kemur til hin vinnandi hönd sem skapar verðmætaaukningu í framleiðslu fyrirtækjanna. Þegar öllu er á botninn hvolft; þá er lífið umfram allt saltfiskur, eins og Nóbelskáldið sagði.

miðvikudagur, 18. mars 2009

Hófsamar arð- og launagreiðslur

Hún er einkennileg og reyndar grafalvarleg staðan sem er kominn upp um endurskoðun kjarasamninga. Nú standa yfir viðræður SA, fjármálaráðuneytis og sveitarfélaganna annarsvegar og ASÍ, BSRB, BHM, Kennarasambandsins og Sambands starfsmanna fjármálafyrirtækja hins vegar um endurskoðunarákvæði kjarasamninga og hvort hægt sé að ná samkomulagi um framlengingu kjarasamninga út árið 2010.

Eins og fram hefur komið þá lögðu forsvarsmenn fyrirtækja, sveitarfélaga og ríkisins fram álit um að allar forsendur kjarasamninga hefðu brostið, rekstrargrundvallarræfillinn væri fullkomlega horfinn og týndur. Fyrirtækin ásamt sveitarfélögum og hinu opinbera stæðu í uppsögnum og ef launakostaður yrði hækkaður yrði enn fleiri sagt upp. Reyndar liggur fyrir að forsendur endurskoðunar er líka horfnar á hinn bóginn, þ.e. að 3,5% launhækkun dugar ekki til þess að verja kaupmáttinn, 10% væri nær lagi.

Á þessum forsendum náðu þessir aðilar samkomulagi um að hefja viðræður og kanna hvort hægt væri að finna einhverja sameiginlega niðurstöðu. Sérstök ástæða er geta þess að forsvarsmenn SA höfðu þau skilaboð frá útgerð og fiskvinnslu að fiskverð hefði hrunið, sala fallið umtalsvert og mikil birgðasöfnum ætti sér stað nú í greininni, ástandið væri grafalvarlegt. Þetta kæmi ofan á gríðarlega erfiða skuldastöðu.

En þá ákveða eigendur Granda að greiða sér út „hófsaman arð“ svo vitnað sé í ummæli forstjórans. Eigendur Granda hljóta að gera sér grein fyrir að það þýðir að þeir verði að greiða út a.m.k. þær lágmarkshækkanir sem í endurskoðunarákvæðinu stendur strax, ekki bíða með það á meðan viðræður standa yfir. Þetta hafa nokkur fyrirtæki gert, í því sambandi má benda á fréttir undanfarinna mánaða um að það hafa verið gerðir allmargir kjarasamningar.

Allir þessir samningar gilda til ársloka 2010. Upphafslaunahækkanir eru allar á svipuðum nótum eða um 5,5% og hækkun á samningstíma 14% -16%, mismunandi vegna nýrra innröðunar í launaflokka á sumum stöðum. Ef Grandi getur gert greitt út arð, þá getur hann gert samskonar samning.

Menn verða að skoða hlutina í samhengi. Þetta snýst ekki bara um „mjög lítinn og hófsaman arð“, eins og forsvarsmenn Granda orða það eða hófsama launahækkun. Hún er reyndar allnokkur fyrir konur í fiskvinnslu og eru með um 150 þús. kr. í laun á mán. Þetta snýst fyrst og síðast um siðferði og möguleika okkar að ná nauðsynlegri sátt um að standa saman sem þjóð við að komast út úr krísunni. Þetta er hlutur af því uppgjöri sem þarf að fara fram um samstöðu en ekki aukinni misskiptingu.

þriðjudagur, 17. mars 2009

Bókhald Granda

Staða sjávarútvegsins hefur verið ítrekað til umfjöllunar í fjölmiðlum undanfarið. Þar hefur komið fram mikið verðfall á fiski og mikla birgðasöfnum hér heima. Samfara þessu má einnig minna á opnun á vinnslustöðvun erlendis þangað sem fiskur er fluttur óunnin héðan.

Í kjölfar umfjöllunar fyrirhugaðrar arðgreiðslu Granda í gær hef ég fengið nokkur símtöl og eins pósta sem staðfesta það sem SA hélt fram við verkalýðsforystuna, þ.e.a.s. að fiskvinnslan væri í umtalsverðum vandræðum og réði ekki við aukningu launakostnaðar eins og staðan væri nú.

Á það hefur verið bent að eigendur Granda séu í vandræðum með fjármagn og að komast í bankaviðskipti erlendis. Leiðin úr því hafi verið sú að gera upp í Evrum og eignfæra kvótann upp á 4.000 kr. kg. Við það myndast þessi góða staða, sem verður forsenda sé að greiða út arð, sem er svo aftur nauðsyn þess að geta komist í stöðu til enn frekari skuldsetningar fyrirtækisins.

Vinnubrögð kvótamenningar hafa leitt til þess að gríðarlegt fjármagn hefur verið flutt úr starfsgeiranum með miklum arðgreiðslum á undanförnum árum fjármagnaðar með lántökum. Nákvæmlega sömu vinnubrögð og viðhöfð hafa verið í bönkunum, sem hafa svo leitt tilþess að sjávarútvegurinn er kominn að fótum fram. eins og svo ítarlega hefur verið rakið í umræðunni í vetur. Það er að þjóðin eigi allan kvótann. Svo eru þessir sömu menn að hrópa um að ekki megi ganga í ESB og því þá sé verið að framselja kvótann til erlendra aðila!!

Í áhættu - stundum

Stjórn Byrs vill fá 11 milljarða frá ríkissjóð og að almennir launamenn greiði það með auknum sköttum á næstu árum. Þessir hinir sömu greiddu sér 13.5 milljarða í arð um mitt síðasta ár, þrátt fyrir að við blasti mikil niðursveifla.

Fengu þeir ekki líka bónus og premíur ofan á súperlaun fyrir að vera í áhættusömu starfi? Þeir eru í áhættu með fjármuni sína og vilja fá arðinn en þegar þeir tapa eiga aðrir að borga. Þetta er það sama og við blasir t.d. hjá Granda.

mánudagur, 16. mars 2009

Siðblinda HB Granda - með viðbót

Nokkur fyrirtæki hafa á þessu ári séð sér fært að lagfæra laun starfsmanna sinna á þessu ári og gert kjarasamninga þar um. Forsendur almennu kjarasamninganna voru brostnar og SA tilkynnti að annað hvort yrði samningunum sagt upp eða teknar upp viðræður um að breyta atriðum í samningnum. Stéttarfélög um land allt héldu um þetta fundi og yfirgnæfandi hluti þeirra eða 85% sögðust vilja hefja viðræður og sjá til hvað úr þeim kæmi áður en samningum yrði sagt upp.

Sumir hafa þar á meðal nokkrir fréttamenn og spjallþátta stjórnendur, svo einkennilegt sem það nú er, túlkað þetta á þann veg að ASÍ hafi einhliða ákvarðað að fella niður eða fresta umsömdum launahækkunum Ekkert er fjarri lagi, samningurinn var brostinn og SA fór fram viðræður um hvort hægt væri að bjarga honum. Hverjum í veröldinni dettur það í hug að launþegasamtök segi nei takk við umsömdum launahækkunum?

En það eru nokkur fyrirtæki eiga ekki við mikinn rekstrarvanda að etja og hafa t.d. rafiðnaðarmenn gert nokkra þannig samninga að undanförnu þar sem launahækkun var framkvæmd, en reyndar með mismundnai hætti. En önnur fyrirtæki hafa ekki treyst sér til þess og jafnvel orðið að fara fram á við starfsmenn sína að þeir launahæstu lækki laun sín og eða minnki yfirvinnu og bónusa. Nokkur fyrirtæka hafa farið út í að taka upp fjögurra daga vinnuviku. Allt hefur þetta miðast viðað verja atvinnustigið og gert í samvinnu við launamenn og viðkomandi stéttarfélög.

En svo kemur fram á sjónarsviðið fyrirtækið HB Grandi. Það fyrirtæki er í hópi þeirra fyrirtækja sem hafa farið fram á að fresta endurskoðun kjarasamninga fram á vorið og tekið upp viðræður við launaþegahreyfinguna þar um. Í ljós er komið að Grandi er stöndugt fyrirtæki og ætlar sér að greiða arð til eigenda. Þetta er óásættanleg siðblinda. Það blasir við að þessi arður hefur orðið til m.a. vegna þess að launagreiðslur hafa ekki hækkað, þannig hefur myndast arður.

Í yfirlýsingu sem birtist í gær (15. mars) á heimasíðu HB Granda reyna stjórnarformaður og formaður félagsins að réttlæta þetta. Í yfirlýsingunni segir m.a.: „Félagið fagnar því að hafa undanfarna mánuði getað haldið uppi fullri vinnu í fiskiðjuverum félagsins í Reykjavík og á Akranesi, enda er efnahagslífinu mikilvægast að starfandi fyrirtækjum sé haldið í stöðugum rekstri.“

Þarna segja þeir félagar að fólkið eigi að vera þakklátt fyrir að þeir félaga tryggi atvinnu þeirra með hóflegum arðgreiðslum til sjálfra sín!! Þessu á almúginn ekki að mótmæla. Peningaöflin hafa undirtökunum í sjávarútveginum og hann situr eftir með miklar skuldir. Svo er komið að auðmennirnir telja að það séu þeir sem eigi að njóta arðsins, hagsmunir launamanna eiga að víkja svo hinir ríku geti viðhaldið auði sínum og áhrifum.

sunnudagur, 15. mars 2009

Niðurstaða prófkjara

Það er áberandi í skoðanakönnunum hversu stór hluti þjóðarinnar vill ekki svara eða taka afstöðu til þess sem er í boði. Þetta kemur einnig fram í þátttöku prófkjöranna. Einungis nokkur þúsund taka þátt. Niðurstaðan lá eiginlega fyrir áður prófkjörin voru haldin, harður kjarni tók þátt og staðan nánast óbreytt. Það er t.d. engin endurnýjun hjá Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík og lítil hjá Samfylkingunni.

Þeir sem eru að koma inn koma úr uppeldistöðvum flokkanna, eru aðstoðarmenn fyrri ráðherra eða þingmanna, þannig að það er í raun engin breyting. Það er líka einkennilegt að horfa upp hversu virkir þátttakendur fréttamenn eru í þessu leikriti, lítið þið t.d. á fréttir Sjónvarpsins í gærkvöldi.

Framundan ætti að vera endurreisn og uppbygging í íslensku samfélagi. Það er verkefni stjórnmálamanna að koma hér á pólitískum stöðugleika og upplýsa almenning á mannamáli um stöðu mála og hvers sé að vænta á næstu árum. Lífskjör eru að dragast hratt saman og atvinnulífið veikist og aðilar vinnumarkaðs hamast við í tilraunum við að ná sambandi við stjórnvöld. Ég er ekki að sjá sama fólk á Alþingi byggja upp öflugt efnahagslíf og traust lífskjör. Það eru svo margir sem muna vel ummæli þeirra fyrir hrun, eða þá í síðustu kosningabaráttu.

Af hverju birta fréttamenn ekki það fylgi sem flokkarnir hafa í raun og veru og hversu fáir það eru sem eru að velja inn á lista flokkanna. Sjálfstæðisflokkur og Samfylking eru ekki með 29% fylgi, það er í raun einungis um 16 – 17% af kjósendum. Eru það ekki ca. 15 þúsund af 70 þúsund sem eru að taka þátt í prófkjörunm í Reykjavík?

Þetta fólk hefur dregið mánuðum saman að taka á þeim mikla vanda sem við blasir og afla heildaryfirsýnar yfir stöðuna eftir bankahrunið. Það var þetta fólk sem eyðileggði lýðræðið og tók upp ráðherraræðið. Uppgjör er forsenda þess að uppbygging geti hafist. Sama fólkið eykur ekki ábyrgð og skyldur í viðskiptalífinu og eftirlitsstofnunum samfélagsins. Þetta fólk hefur t.d. ekki getað haldið uppi rökrænni umræðu um stefnuna í efnahags- og peningamálum, upptöku evru og umsókn á aðild að ESB.

Það eru þessir stjórnmálamenn sem brugðust almenning í að fjalla um málin af trúverðugleika, og nú eru sömu menn búnir að stilla sér upp í framboði með þeim reglum sem þeir settu sjálfir, rúnir öllu trausti. Reglum sem tryggja stöðu þeirra, og valda því að fáir gefa kost á sér utan þeirra sem eru í valdakerfi flokkanna. Ég hef áður spáð því hér á þessari síðu að næsta kjörtímabil verði stutt. Mjög stutt, mesta lagi eitt ár. Niðurstaða prófkjaranna styður þá spá ennfrekar. Næsta haust mun búsáhaldabúggíið fara í aftur í gang, það er að segja ef staðan verði þá ekki eins og lýst var í Spaugstofunni í gærkvöldi.

laugardagur, 14. mars 2009

Vindhanar á burstinni


Í gær mættu allt að 600 manns á fund þar sem störf í Kanada voru kynnt. Nokkur hópur er farinn til Norðurlandanna og enn fleiri að skoða störf þar. Allir sem ég hef rætt við segjast vilja vera áfram á Íslandi.

En það er ekki bara atvinnuleysið sem fólk segir að sé ástæða fyrir brottför. Margir segjast vera búnir að fá nóg af kerfinu hér og ekki sjá nein merki um iðrun eða vilja til þess að laga það. Íslenskir stjórnmálamenn virðast telja að þeir þurfi einungis að vanda sig dáldið betur í næstu tilraun. Fólk er búið að fá sig fullsatt á þeim rússíbanaferðum sem íslensk efnahagstefna býður reglulega upp á.

Tengdadóttir mín lýsti þessum viðhorfum svona "Við erum búinn að búa erlendis í 7 ár og vera í námi. Mig langar ekki búa þar lengur. Mig langar til þess að búa hér og flutti heim í hittifyrra til þess ala upp börnin mín hér. En það þjóðfélag sem íslenskir stjórnmálamenn hafa búið til á þessum tíma sem við vorum erlendis er þess eðlis að maður er líklega að hrökklast aftur nauðugur viljugur úr landinu."

Forsenda þess að uppbygging geti hafist er að gert sé upp við bankahrunið og forsendur þess greindar. Af hverju gerði ríkisstjórnin ekkert í haust annað en að atast út í vinaþjóðir okkar og saka þær um meinta óvild í okkar garð? Af hverju vildu vinaþjóðir okkar ekkert gera nema að völdin væri tekin af íslenskum stjórnvöldum og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn settur sem kápa á þau? Vinur er sá sem til vamms segir. Í dag blasir við að allt sem þáverandi fjármálaráðherra og forsætiráðherra gerðu var til þess eins að dreifa athygli almennings frá því sem raunverulega hafði gerst.

Á undanförnum árum hafa forsvarsmenn fyrirtækjanna, Viðskiptaráðs og þeirrar stjórnmálastefnu sem fylgt hefur verið undanfarin áratug bölsótast út í eftirlitsiðnaðinn. Í nýlegu viðtali lýsir Jónas Fr. Jónsson forstjóri Fjármálaeftirlits þessari stefnu ágætlega. „Stjórnmálamenn fóru að leita að sökudólgum til að beina athygli og óánægju frá sjálfum sér. Þá var pólitísk stefna að styðja við vöxt og viðgang fjármálageirans. Þegar kerfið var rúmlega sjöföld landsframleiðsla var sett stefna á um Ísland sem alþjóðlega fjármálamiðstöð.”

Af hverju hringdu íslensk stjórnvöld ekki strax í Efnahagsbrotadeild og fengu hana til þess að kafa í málin? Af hverju var einungis einn drengur ofan af Akranesi fenginn til þess að setjast hér við skrifborð seint og um síðir? Það átti að duga, en svo kallar Egill Helga á þekktan afbrotafræðing og hún flettir ofan öllu bixinu í einu frábæru viðtali. Á meðan fyrrv. ráðherrar bæta einungis um betur með því að segja að það hafi verið fólkið sem hafi brugðist ekki stefnan og flokkurinn. Það á að halda áfram og verja valdastöðurnar og koma í veg fyrir að sett verði stjórnlagaþing.

Viðskiptalífið er spillt, þar hafa menn farið sem einskis svífast til þess að hagnast. Þekkt er viðhorf þeirra um að græða svo mikið að hægt sé að fara á eftirlaun fyrir fertugt. Þessu er blákalt haldið fram þó það blasi við að einhverjir verði að borga fyrir þann brúsa. Þessi menn mergsjúga fyrirtækin með því að splundra þeim upp, spila síðan á markað með uppsprengdum hlutabréfum og flytja fjármuni úr þeim í skattaskjól. Eftir standa fyrirtækin með uppdráttarsýki og riða til falls hvert á fætur öðru og þá um leið atvinnutækifærin.

Eigendur bankanna hafa með velþóknun þeirra sem hafa stjórnað efnahagslífinu boðið fram margskonar fjárfestinga- og sparnaðarleiðir. „Seldu eignir þínar og láttu okkur fá peningana. Við munum síðan lána þér fyrir draumahúsinu og bílnum og við látum peningana vinna fyrir þig og greiða allt niður.“ Eða; „Hættu að greiða í almennu lífeyrissjóðina og greiddu í okkar sjóði.“ Nú er að koma í ljós að allt var þetta blekkingarleikur.

Lífeyrissparnaður geymdur í bönkunum og hlutabréfum þeirra er að stórum hluta glataður, á meðan um 10% fjármuna geymdum í almennu lífeyrissjóðunum er glataður. Margir hafa bent á norska olíusjóðinn þegar þeir hafa sent íslensku sjóðunum kaldar kveðjur, nú er komið fram að hann tapaði 25%.

Almenningur og stjórnendur fjárfestinga almennu lífeyrissjóðanna fjárfestu í góðri trú, en á bak við glæst leiktjöldum voru einstaklingar og unnu markvisst að fjármagnsflutningum úr landi. "Það er ríkið sem hefur brugðist" sagði Páll Skúlason heimspekingur réttilega um síðustu áramót. "Það er Ríkið sem á að setja leikreglur sem tryggja stöðu almennings. Ríkið hefur brugðist, þar á bæ var ekki verið tekið tillit til ábendinga um hvert stefni og því er Ísland í þessari stöðu."

Það eru stjórnvöld sem setja lögin og þau hafa lagt til hliðar samkennd og jöfnuð, en látið markaðshyggjuna ráða för. Með því hafa þau ákveðið að viðhalda því ástandi sem tryggir áframhald óstöðugleikans. Það er ekki nema rúmt ár síðan forsvarsmenn Viðskiptaráðs hrósuðu sér yfir því að stjórnvöld hefðu farið eftir 90% af því sem ráðið hefði lagt til.
Það er ekki nema rúmt ár síðan ráðherrar og stjórnarmenn í Seðlabankanum fóru um heiminn og lýstu fjálglega íslenska efnahagsundrinu og hvöttu um leið almenning og lífeyrisjóðina til þess að taka þátt í dansinum á enn trylltari hátt.

Athafnir íslenskra stjórnmálamanna og forsvarsmanna í viðskiptalífi eru ástæða þess hvernig komið er fyrir atvinnuástandi. En ekki síður þeim neikvæðu viðhorfum sem fólk hefur í dag gagnvart íslensku þjóðlífi og framtíðarhorfum.

föstudagur, 13. mars 2009

Erfið verkefni nýs Alþingis

Það liggur fyrir að hlutverk nýkjörins Alþingis verður ekki öfundsvert. Mikill halli á fjárlögum og minnkandi tekjur ríkissjóðs kalla á niðurskurð. Vaxandi skuldir ríkissjóðs vegna bankahrunsins valda mikilli hækkun á vaxtagreiðslum.

Það blasir við að ef komandi ríkisstjórn einbeitir sér ekki að hraðri niðurgreiðslu erlendra lána munu vaxtagreiðslur geta orðið þess valdandi að Ísland verði mun lengur að ná sér upp úr vandanum.

Staðan er sú að fyrirtækin fá ekki þá fyrirgreiðslu erlendis sem þau þurfa. Ísland er rúið trausti, þetta kemur fram hjá þeim sem starfa á þessum markaði. Það verður að vera eitt af fyrstu verkum nýkjörins Alþingis að ná sáttum við erlenda lánadrottna og skapa sátt.

Það er ekki hægt að ná þeim stöðugleika sem við leitum að með krónunni og viðræður við ESB verða að hefjast fljótt.

Séu framboðsræður þingamannsefna skoðuð með þetta í huga þá getur maður ekki annað en velt því fyrir sér hvort verið sé að velja úr réttum mannskap til þess að senda inn á nýtt þing.

fimmtudagur, 12. mars 2009

Bröndurum Hannesar haldið til haga

Fyrir nokkru var fjallað um framsetningu Hannesar Hólmsteins einn helsta höfund Íslenska efnahagsundursins um orsök hruns Íslenska fjármálakerfisins.

Nafni minn ritstjóri (þetta er rangt, en á að vera) Starfsmaður Eyjunnar sér ástæðu til þess að endurbirta þennan aulabrandara Hannesar, þar sem hann gerir örvæntingarfulla tilraun til þess að koma sök af Frjálshyggjuafglöpunum sem stjórnendur Seðlabankans og ríkisstjórnarinna leiddu yfir Ísland

Brandari Hannesar sem Guðmundur vill halda til haga : „Ég leiddi þar rök að því, að bankahrunið íslenska hefði ekki síst orðið vegna kerfisgalla í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, en Gordon Brown, forsætisráðherra Breta, hefði bætt gráu ofan á svart með því að setja íslenska banka og yfirvöld á lista um hryðjuverkasamtök, og eftir það hefði okkur ekki verið viðreisnar von.“

Fram hefur komið hjá helstu sérfræðingum að það var kerfisgalli í framkvæmd stjórnar Seðlabankans sem var helsta ástæða þess að hrunið varð eins alvarlegt að raun ber vitni og það var það umhverfi sem stjórnendur íslenkrar efnahags- og peningastefnu sem skóp rétta umgjörð.

Milljarðamærin

Við fórum hjónin í Borgarleikhúsið í gærkvöldi að sjá Milljarðamærina. Óneitanlega er margt í verkinu sem samsamar sig íslensku þjóðfélagi þessa dagana. Lítill ótilgreindur smábær má muna fífil sinn fegurri, veisluhöldin eru búin og peningarnir á þrotum. Þegar fréttist að Milljarðamærin sé væntanleg aftur heim vaknar hjá íbúunum von um að hún láti eitthvað af auðæfum sínum renna til samfélagsins.

Hún hafði ung hrökklast burt úr bænum með smán sem átti rætur sínar í afneitun æskuástar hennar, en nú eru auðæfi hennar gríðarleg og bæjarbúar hugsa sér gott til glóðarinnar. Hún lofar þeim milljörðum að uppfylltu einu skilyrði að þeir veiti henni réttlæti, en það felur í sér blóðuga fórn. Í fyrstu er tilboðið dæmt siðlaust en peningarnir heilla. Íbúarnir fara smám saman að eyða og spenna líkt og þeir séu íslendingar í góðæri og eigi von á batnandi fjárhag.

Er siðferðið falt fyrir peninga? Það verður óréttlæti að geta ekki haft það gott og sá sjúkdómur nær yfirhöndinni. Já það er margt sem samsamar sig við íslenskan raunveruleika í dag. Tími lýðskrumarans er runninn upp og samfélagið er ranglátt og fjölmiðlarnir taka undir, það selur. Lausnir byggðar á upphrópunum þekkingarleysis. Lýðskrumarinn býðst til þess að taka í burtu kreppuna, myntkörfulánin og verðtrygginuna gegn því einu að öðrum sé fórnað og hann settur til valda.

Það verður freistandi að leiða fórnardýr á altarið sama þótt því fylgi siðferðisspurningar. Lausnir þeirra bíða betri tíma, en á meðan njótum við tilboða lúxusmarkaða. Lýðskrumarinn býður hin algilda sannleika og yfir okkur mun rigna peningum, ást og hamingja.

miðvikudagur, 11. mars 2009

Olíusjóðurinn tapaði líka

Heill og sæll Guðmundur.

Því miður fara margar aðrar þjóðir illa út úr alþjóðlegri fjármálakrísu.

Þar sem „bloggvinir“ þínir telja best að fela Norðmönnum umráðarétt yfir lífeyrissjóðum Íslendinga, þá fannst mér rétt að benda þér á árangur norska olíusjóðsins (pensionsfond þeirra). Töpuðu 23,3% af eignum, eða 633 milljörðum norskum.
Sjá: http://www.berlingske.dk/article/20090311/verden/90311090/

Þú átt heiður skilin fyrir öll þín skrif um mikilvægi stéttarfélaga og lífeyrissjóða.
Ég dáist að langlundargeði þínu og umburðarlyndi, sem þú sýnir „bloggvinunum“, flestum nafnlausum.

Bestu kveðjur, F.

Trúarbrögð

Var að flakka á milli rása seint í gærkvöldi og datt m.a. inn á stöðina hans Ingva Hrafns. Þar var fyrrv. heilbrigðisráðherra á eintali við hvítan Makka. Honum lá greinilega mikið á um að sannfæra Makkann um að Sjálfstæðisflokkurinn hefði jú eitthvað gert rangt, en það væri ljóst að þau kristilegu gildi sem flokkurinn hefði sett sér árið 1929 um frelsi og stétt með stétt væru í fullu gildi. Margir hefði verið að gera athugasemdir við stefnu flokksins og útfærslu en engir hefðu komið með neinar lausnir. Eftir stæði að Sjálfstæðisflokkurinn hefði andstætt Vinstri flokkunum verið að bæta stöðu þeirra sem minna mættu sín.

Þegar hér var komið skipti ég frá eintali Guðlaugs við Makkann. Þetta var svo líkt því þegar Hannes Hólmsteinn endurritaði sögu síðustu aldar og setti söguna upp á myndbönd þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði bjargað öllu einn á móti öllum. Ekki var minnst á baráttu verkalýðsfélaga eða kvennahreyfingar. Þetta er eins og trúarbrögð, ekki stjórnmál. Skyldu þessir menn trúa þessu eða eru þeir bara að bulla eitthvað upp úr sér vitandi að þér fá sín atkvæði burtséð frá því hvað þeir segja eða gera?

Hér eiga vel við orð Johns Voight :

Ef allir væru ríkir
og allir gætu lifað
á skuldabréfum
eða vöxtum
Þyrfti enginn að vinna
og allir myndu deyja úr hungri.


Samtök launamanna gagnrýndu ákaft hvernig ríkisstjórnir síðustu ára hafa markvisst látið skerðingarmörk bótakerfis sitja eftir í efnahagsþróuninni þannig að skattbyrði hinna efnaminni hefur vaxið um um allt að 7% á undanförnum árum eins og Indriði Þorlákssonn fyrrv. skattstjóri benti á í greinum sínum um skattamál. Á þetta hafa samtök launamanna bent á undanförnum árum en uppskeran verið takmörkuð. Þá helst í formi greina sendiboða stjórnvalda þar sem beitt er villandi meðaltölum til þess að réttlæta skattastefnuna.

En þessa dagana er verið að bakka út úr vitleysum Frjálshyggjunar eins og eftirlaunalögum og nú er verið að færa vaxtabætur í fyrra horf. En eins og fram hefur komið m.a. hér og í greinum nokkurra háskólaprófessora og hagdeildum aðila vinnumarkaðs þá versnaði staða þeirra sem minna máttu sína umtalsvert í kjölfar Frjálshyggjubyltingarinnar á meðan þeir lækkuðu skatta á þeim sem mest höfðu á milli handanna. Skerðingarmörk voru látin sitja kyrr, samanber eignastuðla vaxtabóta og þær nánast hurfu hér á Suðvesturhorninu.

Annað sem er að koma fram það er hvaða afleiðingar það hafði þegar Frjálshyggjan sleppti bönkunum lausum inn á lífeyrismarkaðinn og undir allt örðum forsendum en almennum sjóðunum var gert að starfa. Það voru margir sem bentu á vankanta á þessu, m.a. miklar þóknanir til bankasjóðanna, mikinn rekstrarkostnað, t.d. má benda á opnu auglýsingar í nokkur ár á meðan almennu sjóðirnir sátu (réttilega) undir miklu eftirliti um rekstarkostnað. eins var bent á hættu á að bankarnir liti til sinna hagsmuna umfram annarra. Nú blasir þetta við þeim sem fluttu séreignir sínar úr almennu sjóðunum yfir í bankana.

Það er ekki bara það sem Hrabba Kriss benti á í ágætum pistli hér á Eyjunni í gær, Hrabba hefði átt að kanna líka hversu mikið af innlegg hennar fór í þóknanir umfram það ef hún hefði ekki sinnt endalausum áskorunum bankanna, eins og hún sagði í pistlinum. En sumir ráðast síðfellt á almennu sjóðina og eru með alhæfingar um alla sjóðina.

Enn einu sinni ef menn hafa eitthvað út sinn sjóð að setja þá vitanlega beina þeir því þangað, ekki alhæfa um alla. Vitanlega á að endurskoða launkjör starfsmanna lífeyrissjóða, þau tóku mið af ofslaunastefnu bankakerfisins. Ekki var hægt að fá starfsmenn til lífeyrissjóðanna nema í hörkusamkeppni við bankakerfið. Nú eiga stjórnir sjóðanna að endurskoða þessi mál, ekki bara launin heldur öll kjör.

þriðjudagur, 10. mars 2009

Hörður er ekki leiguþý

Þeir eru nú hreint út sagt ótrúlegir Sjálfstæðismenn. Hörður Torfason þarf nú að senda frá sér yfirlýsingu að marggefnu tilefni þar sem hann þarf að taka fram, að allt starf sitt við mótmælin á Austurvelli í vetur hafi verið ólaunað og sjálfsprottið. „Ég hef staðið fyrir friðsömum mótmælafundum þar síðan 11. október 2008 og geri enn. Tilefnið var og er mannréttindabrot á heilli þjóð. Þessu starfi hef ég sinnt af einlægri sannfæringu og heilindum,“segir Hörður.

„Þau undanfarin tæp 40 ár sem ég hef starfað sem listamaður hér á landi hefur starf mitt beinst að og fjallað um mannréttindi. Og ég fullyrði að sú barátta hefur skilað árangri á mörgum sviðum. Þetta hefur verið algjörlega ólaunað starf sem ég hef fjármagnað sjálfur með tónleikum og plötusölu.

Það er því aumur og dapurlegur áróður sem heyrist víða og jafnvel frá sumum þingmönnum úr ræðustól Alþingis og á bloggsíðum fyrrverandi ráðherra og lærisveina þeirra, að starf mitt sé fjármagnað af pólitískum flokki eða hagsmunasamtökum. Slíkar fullyrðingar eru úr lausu lofti gripnar og helber ósannindi. Þær eru settar fram í lágkúrulegum, pólitískum tilgangi í því skyni að koma höggi á pólitíska andstæðinga og grafa undan samtakamætti þjóðarinnar. Auk þess skaðar þessi rógburður mig sem einstakling og er þeim sem slíkt stunda til háborinnar skammar.

Hörður tók það fram í byrjun hvers einasta útifunda sinna að hann vildi ekki að fundirnir tengdust við stjórnmálaflokka eða hagsmunasamtökum. Ég var ræðumaður hjá Herði og hitti hann oft, ræddi fundina og t.d. aðkomu stéttarfélaga og fleira, en hann ítrekaði þetta.

Þrátt fyrir það hafa margir bloggarar, spjallþáttastjórnendur og fleiri verið að saka verkalýðshreyfinguna fyrir að hafa ekki komið að útifundum Harðar. Hann naut móralsks stuðnings okkar og svo margra alþýðumanna eins og allir vita.

Enn þarf Hörður að árétta að hann sé ekki leiguþý, núna gagnvart stjórnmálaflokki sem kann ekki annað en að stjórna og skipa og engist ráðvilltur sundur og saman og sakar alla um svik og illt innræti.

Ómálefnaleg froða

Sá stjórnmálaflokkur sem hefur verið í stjórnarforystu síðustu áratugi og er höfundur þeirrar efnahagsstefnu sem fylgt hefur verið, fer nú hamförum í þinginu og gagnrýnir ákaft þá stöðu sem hann sjálfur skapaði. Vinnubrögðin sem flokkurinn hefur tekið upp undanfarið er sú ómerkilegasta sem maður hefur séð á Alþingi.

Í gær og í nótt héldu þeir uppi málþófi til þess að koma í veg fyrir að hægt væri að koma í gegn lögum til þess að koma því fólki til hjálpar, sem þeir hafa sjálfir leitt fram á brún gjaldþrots.

Málefnaleg staða Sjálfstæðisflokksins er sorgleg. Ef rifjuð eru upp öll þau rök sem þeir hafa borið fyrir sig og málatilbúnaður um efnahags- og peningamál síðasta kjörtímabil og í síðustu kosningabaráttu, stendur ekki steinn yfir steini. Ómálefnaleg og lágkúruleg froða.

Einnig má minna á málflutning þeirra þegar Eftirlaunafrumvarpið hefur borið á góma. Alla þá annmarka sem Sjálfstæðismenn stilltu upp og áttu að gera það óframkvæmanlegt og jafnvel ólöglegt að fella frumvarpið niður. Í því sambandi má minna á þær sendingar sem þingmenn þeirra hafa sent okkur sem hafa staðið fyrir gagnrýni á frumvarpið. Þar hafa forsvarsmenn ASÍ sem allan tíman hafa staðið þar fremstir (Hávaðamaskína ASÍ eins og þingmenn hafa kallað það).

ASÍ benti á það þegar frumvarpið var lagt fram að það hefði ekki verið kostnaðarmetið, eins og lög gera ráð fyrir. ASÍ benti á að það myndi auka kostnað amk. 500 millj. kr. á ári. Sjálfstæðismenn héldu því fram að það kostaði ekkert og það myndi jafnvel hljótast kostnaður af því.

Það er ASÍ sem skuldlaust á allan heiður af hafa afhjúpað þetta ógeðfellda frumvarp.

mánudagur, 9. mars 2009

Verður óbreytt staða eftir kosningarnar?

Á undanförnum árum hafa þingmenn ásamt fjölmörgum þeirra þurfa að eiga samskipti við framkvæmdavaldið kvartað yfir þeirri óheillavænlegu þróun að ráðherrar og æðstu embættismenn virði Alþingi einskis. Alþingi virðist vera til þess eins að afgreiða ákvarðanir ráðherra. Nú má velta því fyrir sér hvort sé afleiðing eða orsök. Hafa ráðherrar og embættismenn gefist upp á því að eiga vitræna umræðu í Alþingi, eða hefur umræðan á Alþingi þróast á þennan veg sakir þess að þingmenn þekkja tilgangsleysi sitt?

Atburðir liðins árs hafa orðið til þess að flett hefur verið ofan af hverri ormagryfjunni á fætur annarri. Hér hefur ríkt klíkuskapur. Afgreiðslur stofnana og ráðherra einkennast af hyglun. Kerfið er spillt og snýst um að tryggja völd.

Áhyggjuefni dagsins er hvort verðbólga og gengisfall krónunnar undanfarið ár dugi til þess að ná jafnvægi. Í vaxandi mæli er því haldið fram að staðan í Evrópu sé þannig að ekkert annað en óðaverðbólga sem geti bjargað efnahagslífinu og enn frekara gengisfall þeirra gjaldmiðla sem nýttir eru í álfunni. Það yrði sannarlega niðurlægjandi eftir það sem á undan er gengið og endurspeglar í margræðni sinni þann tvískinnung sem við stöndum frammi fyrir. Raunveruleikafirring, efnishyggja og gróðafíkn.

Í síðustu kosningum áttu aldraðir skyndilega réttindi og Hólmsteinar þessa lands boðuðu á götuhornum ókeypis máltíðir í skólum og niðurgreidda barnapössun og skömmuðust út í að ekki var fyrir löngu búið byggja séríbúðir með fullri þjónustu fyrir hina 800 hundruð öldruðu Reykvíkinga sem eru búnir að vera á biðlista hjá fjármálaráðherrum allmörg síðustu kjörtímabil. Skyndilega kostaði Lunshin ekkert.

En daginn eftir kjördag gleymdust þessi nýji boðskapur og Frjálshyggjan tók til við að velja sér bestu bitana og hyglingin hélt áfram sem aldrei áður. Þvívar haldið að okkur að hér ríkti séríslenskt efnahagsundur skapað af Frjálshyggjunni.

Kosningar eru um margt eins og raunveruleikasjónvarp. Afþreying en lítið kemur fram. Keppendur opna kosningaskrifstofur og bjóða upp á kaffi og splæsa í auglýsingar. Síðast skelltu flokkar sér á flettiskilti við hlið annarra í sama bransa Bacherlorsins og Kapteins Ofurbrókar í Ástarfleyinu.

Hvað gerist nú? Fáum við sömu menn og óbreytta stefnu?

Lífeyrissjóðirnir

Umræðan um lífeyrissjóðina hefur oft verið einkennileg og í mörgu einkennst af ótrúlegum þekkingarskorti og skilningsleysi, þó svo búið sé að skrifa einhver ósköp um lífeyriskerfið á undanförnum árum og eins liggja fyrir á netinu ákaflega greinargóðar útskýringar á því eins og t.d. á heimasíðu landssambands lífeyrissjóða.

Stjórnendur spjallþátta sem vilja láta taka sig alvarlega, skuli athugasemdalaust ítrekað taka greinar með fullyrðingum um að starfsmenn lífeyrissjóða séu gangsterar sem lifi í svínaríi og spili með kerfið. Sáralítið hlutfall sé greitt út til lífeyrisþega af inngreiðslum til sjóðsfélaga og lífeyrissjóðir séu reknir með ofboðslegum hagnaði.

Uppgjör eins sjóðs hafa verið gagnrýnd, sama gildir um stjórnarlaun þess sjóðs sem eru hærri en hjá öllum hinum eru tekinn og yfirfærð á allt kerfið. Ef viðkomandi hefur eitthvað út á sinn lífeyrissjóð að setja, af hverju snýr þá viðkomandi sér ekki að þeim sjóð, frekar en að alhæfa um alla sjóðina?

Það liggur líka fyrir að makalífeyrir er ákaflega misjafn milli sjóða, sama gildir um ávinnsluhlutfall.

Lífeyrissjóður er uppsöfnun sparifjár þeirra sjóðsfélaga sem greitt hafa í viðkomandi sjóð. Hluti inngreiðslu kemur beint frá sjóðsfélaga og hluti frá vinnuveitanda hans, en öll upphæðin er eign starfsmannsins, sjóðsfélagans. Lífeyrissjóður á í sjálfu sér engar eignir utan skrifstofuáhalda og þess húsnæðis sem starfsemi hans fer fram í. Í dag er það svo að þær innistæður sem eru í sjóðunum duga ekki fyrir skuldbindingum og við blasir að lækka verði örorku- og ellilífeyri. Þetta hefur margítrekað komið fram.

Hlutverk lífeyrissjóðs er að taka á móti iðgjöldum sjóðsfélaga og ávaxta þau með besta hætti sem til boða stendur hverju sinni og greiða lífeyri til sjóðsfélaga. Kerfið er stillt þannig af að sjóðsfélagi sem greiðir allan sinn starfsaldur, það er frá 25 ára til 67 ára, á þá í sínum sjóð innistæðu fyrir lífeyri sem svarar til um 60% af meðallaunum frá 67 ára aldri til dauðadags. Ef viðkomandi hefur greitt í styttri tíma verður lífeyririnn lægri í réttu hlutfalli.

Það eru stóru barnasprengjuárgangarnir sem komu í heiminn á árunum eftir seinna stríð fram til ársins 1960, sem eru í dag að safna upp sínum lífeyri. Þeir munu skella á lífeyriskerfinu í hratt vaxandi þunga eftir 2014 og með fullum þunga eftir árið 2031. Fram að þeim tíma fer fram mikil uppsöfnun í sjóðunum. Eftir þann tíma munu útgreiðslur úr sjóðunum verða meiri en innstreymi og þá byrja stóru árgangar sjóðanna að ganga á eignir sínar, eða með öðrum orðum eigendur sparifjárins fara að taka lífeyri sinn út.

Stærðfræði sjóðanna byggist í sinni einföldustu mynd á því að sjóðsfélagi greiðir 12% af launum sínum í iðgjald til lífeyrissjóðs í rúm 40 ár. Þá dugar innistæða hans fyrir lífeyri sem er hlutfall af inngreiðslum viðkomandi til sjóðsins til meðalaldurs þjóðarinnar. En lífeyrissjóður lofar í lífeyrisgreiðslum til dauðadags. Almennu lífeyrissjóðirnir eru sameignarsjóðir og geta staðið við þetta loforð vegna þess að jafnmargir falla frá fyrir meðalaldur og þeir sem lifa lengur.

Menn stilla gjarnan upp dæminu þannig að einhver sem hafi greitt í lífeyrissjóð falli frá þá fái erfingjar ekkert og starfsfólk lífeyrisjóðanna steli þeim peningum sem viðkomandi hafi greitt til sjóðsins. Stjórnendur spjallþátta gera engar ath.s við svona málflutning. Viljandi er því sleppt hversu stór hluti innkomu sjóðsins fari í að greiða örorkubætur, það er að segja ef einhver er svo ólánsamur að verða ungur öryrki, en þá fær hann úr lífeyrissjóð þúsundfalt meir úr sjóðnum en hann greiddi inn.

Sama er upp á teningunum ef einhver lifir fram yfir meðaldur, þá fær hann líka mun meir en hann greiddi inn. Hvaðan halda menn að þeir peningar komi? Úr vösum starfsmanna sjóðanna? Hvaðan halda menn að verðtygging lífeyris komi? Af himnum ofan?

Svo eru til menn sem hafa aldrei greitt neitt inn í lífeyrisjóðakerfið en krefjast þess að það byggi upp og reki elliheimili af því það kosti svo lítinn hluta af eignum sjóðanna. Það liggur fyrir að sjóðirnir hafa lánað til uppbyggingar þessum heimilum og eru tilbúnir að lána enn meira, en það stendur upp á ríkið og sveitarfélögin að ganga frá rekstrarsamningum, ekki lífeyrissjóðina.

Einnig eru áberandi nokkrir aðilar sem vilja taka það sparifé sem sjóðsfélagar eiga í lífeyrissjóðunum og nýta það til þess að greiða upp skuldir annarra. Nokkrir þeirra sem hafa haft sig hvað mest í frammi með þetta hafa aldrei greitt krónu í almenna lífeyriskerfið. En þeir vilja sem sagt nýta sparifé annarra til þess að greiða upp sínar skuldir.

Með þessu orðum er ég á engan hátt að gera lítið úr skuldastöðu heimila. Við bíðum eftir að stjórnvöld taki á greiðsluvanda heimilanna. Vandinn liggur hjá bönkunum og íbúðarlánasjóð, ekki lífeyrissjóðunum eða öðrum sparifjáreigendum.

sunnudagur, 8. mars 2009

Silfrið og samtök launamanna

Þeir sem lesa pistla Egils Helgasonar og fylgjast með Silfrinu er það vel ljóst að launamenn og samtök þeirra fara verulega í taugarnar á Agli. Reyndar virðist ekki Egill þekkja haus eða sporð á starfsemi stéttarfélaga og hagsmunabaráttu launamanna.

Steininn tók úr þar í dag þegar Egill tók viðtal við ungan mann sem virðist vera í kosningabaráttu innan VR, sem er fínt, en hann var með kostulegar og rakalausar yfirlýsingar um alla lífeyrissjóði og sakaði hiklaust allt starfsfólk þeirra og allra stéttarfélaganna um að vera purrkunarlausa glæpona og alltaf bætti Egill í og glotti við. Ég get bara ekki annað en tekið til varna fyrir samstarfsfólk mitt.

Vitanlega er ekki óeðlilegt að fólk gangrýni og setji fram hugmyndir um sitt stéttarfélag og sinn lífeyrissjóð, en að alhæfa með þeim hætti sem Egill gerði sérstaklega og ungi maðurinn stundum kallar á mismunandi rök og þau komu aldrei fram, sem setti Silfrið niður á ansi lágt plan.

Alhæfingar um alla lífeyrissjóði er út í hött. Þetta hefur svo oft komið fram að maður hélt að Egill fylgdist það vel með að hann vissi það. T.d. er makalífeyrir og ávinnsla ákaflega misjafnt milli sjóða og sumt af því sem ungi maðurinn sagði var einfaldlega rangt. Í þættinum í dag var fjallað um í starfsemi eins sjóðs og uppgjör hans og auglýsingar og það lagt út á þann veg að ætti við alla.
Hvað varðar yfirlýsingar um séreignarsjóði og útgreiðslu, þá er rétt að benda á að eru bankalífeyrisjóðanna (sem nú eru í eigu og stjórn ríkissins sem setti reglurnar um útborgunina), sem eru með 80% af séreignasparnaðinum, en Egill og viðmælandi hans ræddu það ætíð eins og um væri að ræða almennu sjóðina. Reyndar ætti Egill, sem hefur oft verið með greinargóða pistla um viðskipti, að átta sig á hvað myndi gerast ef 400 MIA virði af verð- og hlutabréfum væri skellt á markað á einu bretti.

Egill bætti reglulega inn ummælum Helga Góu, sem ítrekað hefur nýtt fjármuni sína til þess að níða niður starfsmenn lífeyrissjóða með sama hætti og þeir félagar gerðu í dag. Ástæða er að geta þess, sem reyndar hefur margítrekað komið fram, að nokkrir lífeyrissjóðir hafa lýst yfir vilja til þess samtarfs um að leggja fram langtímalán til þess að byggja upp hjúkrunarheimili og íbúðir fyrir aldraða. Það er ekki vandamálið, það sem hefur staðið á er rekstrargrundvöllur þeirra og afgreiðsla stjórnmálamanna á þessum málaflokki.

En ef einhvern langar í Silfrið, þá er leiðin að úthúða launamönnum og samtökum þeirra.

Erum við í góðum málum?

Var að leita í gögnum vegna undirbúnings við skýrslugerð, rakst þá á þessa grein frá apríl 2006. Stóðst ekki freistinguna að birta hana, svona mitt í kosningaundirbúning fjórflokkanna

Það hljómar örugglega ankannalega í eyrum margra ef sagt er að það sé dökkt framundan. Hér er allt í bullandi uppgangi, nýir bílar streyma til landsins. Aldrei hefur verið byggt eins mikið af íbúðarhúsum og sumarbústöðum. Á þriðja þúsund erlendra verkamanna eru hér að störfum við uppbyggingu á stærstu virkjun landsins og byggingu álvers fyrir austan.

Nú stendur yfir stækkun álversins í Hvalfirði og bygging raforkuvera á Hellisheiði og á Reykjanesi. En það tekur enda, hvað þá? Svar stjórnvalda er; Við byggjum annað álver á Reykjanesi og á Húsavík byggjum fleiri gufuaflsvirkjanir á Reykjanesinu, tvær virkjanir í Þjórsá og gufuaflsvirkjanir fyrir norðan, og svo stækkum við álverið í Straumsvík um helming

Er það lausn á þeim vanda sem við blasir? Það er undirliggjandi óstöðugleiki í efnahagskerfinu og skuldsetning þjóðarinnar er komin yfir hættumörk. Er svigrúm fyrir enn meiri skuldsetningu strax? Verðbólgan stefnir í 5% á þessu ári og talan 8% er mikið nefnd fyrir næsta ár, á meðan kjarasamningar eru byggðir á um 2- 2.5% verðbólgu. Hátæknifyrirtækin eru að flytja erlendis og taka með sér verðmæt störf.

Erlent lánsfé er hvikult og eigendur þess geta afturkallað það ef þeim lýst ekki á blikuna. Hættan á harðri lendingu er mikil, vegna rótgróins hirðuleysi stjórnvalda með sinni “Þetta reddast efnahagsstefnu” þar sem Seðlabankinn er skilinn einn eftir með ábyrgðina. Sveiflugreinar á borð við fjárfestingafyrirtæki og byggingarfyrirtæki hafa verið uppistaðan í uppsveiflunni, þar getur slegið í seglin á stuttum tíma.

Erlendar skuldir þjóðarbúsins jukust úr 56% af landsframleiðslu í árslok 1990 upp í 100% í árslok 2000, 200% í árslok 2004 og 300% í árslok 2005. Skuldirnar stefna enn hærra, því að hallinn á viðskiptum við útlönd er enn mikill. Hið opinbera hefur stofnað til 6% af skuldunum, bankarnir 83% og aðrir 11%.

Vaxtagreiðslur og afborganir af erlendum lánum námu 20% af útflutningstekjum 1997, um 50% 2002 og rösklega 70% 2005. Það segir okkur að það er ekki hægt að nota nema tæpan þriðjung af útflutningstekjunum til að greiða fyrir innflutta vöru og þjónustu; afganginn þarf að taka að láni. Vaxtabyrðin hækkaði úr 8% af útflutningstekjum 2004 í 12% 2005. Byrðin er að þyngjast, því vaxtakjör bankanna eru að versna. Þá skiptir máli hvort lánsfénu hefur verið varið svo vel, að skuldunautarnir geti borið þunga greiðslubyrði.

Í öllum hamaganginum hafa margir orðið hirðulausir. Útistandandi yfirdráttarskuldir fyrirtækja og heimila í lok janúar 2006 námu 184 milljörðum króna. Þessi yfirdráttarlán bera 15% til 21% ársvexti. Þetta eru góðir viðskiptavinir bankana.

Uppsveiflan í efnahagslífinu síðan 1996 borinn uppi af erlendu lánsfé. Þrátt fyrir mikinn innflutning erlends vinnuafls til þess að halda niðri verðbólgunni, hefur hún samt verið langtímum saman verið yfir þolmörkum Seðlabankans og eru þau þó hærri en sársaukamörk kjarasamninganna. Langvinn uppsveifla án verðbólgu er nýjung í íslensku efnahagslífi og hefur slævt áhuga stjórnvalda á frekari umbótum í efnahagsmálum. Enn býst ríkið til að ráðast í risaframkvæmdir fyrir erlent lánsfé til að halda efnahagslífinu gangandi enn um sinn, þótt áhöld séu um arðsemi framkvæmdanna.

“Þetta reddast efnahagsstefna” stjórnvalda er fólgin í auknu innstreymi lánsfjár sem á að örva atvinnulífið um stundarsakir. Hvort framkvæmdirnar séu líklegar til að skila viðunandi arði og hvort skuldabyrðin verður þolanleg til langs tíma litið, virðist skipta litlu. Vaxtagjöld þjóðarinnar umfram vaxtatekjur námu 4% af landsframleiðslu árið 2005. Þessi hluti viðskiptahallans er viðvarandi og vextir vegna erlendra lána er fjármagn sem rennur út úr íslenska hagkerfinu. Slagsíðan mun aukast á næstu árum, með hækkandi vaxtagjöldum þjóðarinnar.
Guðmundur Gunnarsson

laugardagur, 7. mars 2009

Skuldafangelsi

Fyrstu mánuði bankahrunsins virtust fara í það eitt að hjá stjórnmálamönnum að finna sökudólga og sverja af sér að þeir hefðu átt þátt í því að móta efnahags- og peningastefnuna. Frjálshyggjumenn benda á að það væri ekki kerfið sem hefði brugðist nóg væri til af reglum og lögum.

Þeir tóku það reyndar ekki fram að það hefði verið þeim keppikefli sem með efnahagsmál fóru að fara ekki eftir reglum og lögum. Einnig blasir við að Seðlabankinn og Fjármálaeftirlit beittu ekki þeim stjórntækjum sem þeir höfðu, þrátt fyrir að þeir vissu hvað væri í gangi.

Þær hljóma því ákaflega innantómar ræður sjálfstæðisþingmanna úr Alþingi, eins og var í fréttum í gærkvöldi þegar tveri þeirra skömmuðust yfir því að ekkert væri gert. Þessir þingmenn voru í stjórnarliðinu sem byggði upp frjálshyggjustefnuna og voru á vaktinni allan tíman. En þeir gerðu ekkert til þess að verja heimilin og fyrirtækin í landinu. Þeir voru uppteknir í fagnaðarveizlum þar sem þeir gerðu lítið úr þeim sem bentu á að þetta gæti ekki annað en endað með ósköpum. Þetta fólk ætti að mæta í pontu á þingi á hverjum degi og biðjast afsökunar og fara inn í Samhjálp og vinna þar þegnskyldu vinnu í 10 ár.

Á næstu dögum verður að lækka vexti umtalsvert og losa um gjaldeyrishömlurnar. Koma verður bankakerfinu í gang svo fyrirtækin og heimilin fái eðlilega þjónustu. Hefja viðræður við skuldaeigendur Jöklabréfanna. Í dag er að koma fram að hið kvika fjármagn virðist vera margfallt meira en gert var ráð fyrir, ekki 200 MIA eins og Davíð og fleiri sögðu heldur þúsund milljörðum meira. Eigengur þess una hag sínum vel að geyma það hér á ofurvöxtum, það renna 20% vextir af þessu fjármagni úr landi.

Seðlabankinn kom þjóðinni í skuldafangelsi. En á sama tíma hrósuðu Davíð og Geir sér fyrir að standa upp með skuldlausa þjóð. Það voru mikil ósannyndi.

fimmtudagur, 5. mars 2009

Lækkun stýrivaxta

Seðlabanki Danmerkur lækkaði stýrivexti sína í dag um 0,75% niður í 2,25% í kjölfar ákvörðunar Seðlabanka Evrópu um að lækka stýrivexti í 1,5%. Danir eru ekki aðilar að myntbandalagi Evrópu en danska krónan er tengd við evruna. Englandsbanki lækkaði einnig stýrivexti sína í dag, í 0,5%. Næsti vaxtaákvörðunardagur Seðlabanka Íslands er 19. mars nk.

Lesendur Eyjunnar vita væntanlega að stýrivextir eru í dag 18% á Íslandi. Það eru þeir þó svo eldsneyti verðbólgunnar er þrotið og við búum við gjaldeyrishöft með kverkatökum á atvinnulífinu og heimilunum. Íslensk stjórnvöld stefna fram nákvæmlega sama veg og Finnar fóru, en þeir hafa aftur á móti hamast við að vara okkur við að fara sömu leið og þeir fóru. Það leiddi yfir Finna mikið óþarfa atvinnuleysi, og þeir eru enn að greiða upp þann óþarfa fórnarkostnað. Atvinnuleysi vex hratt hér og stefnir í himinhæðir ef ekki verður sveigt strax af þessari braut. Við verðum að setja okkur markmið strax. Lækka stýrivexti um að minnsta kosti um 12%.

Telja íslenskir stjórnmálamenn reynsluna af krónunni virkilega svo góða, að halda eigi áfram að búa við hana? Þeim takist í næstu tilraun, þeir þurfi einungis að vanda sig dáldið betur. Ég hef ekki trú á því, enda eru margir íslendingar búnir að fá sig fullsadda á þeim rússíbanaferðum sem íslensk stjórnbjóða okkur reglulega í með krónunni. Þegar þeir eru blóðsúthellingalaust að leiðrétta of háa kjarasamninga verkalýðshreyfingarinnar. Með upptöku Evru þá hefðum við mynt sem dugar í viðskiptum og við myndum eyða óvissu og skapa það traust sem við þurfum svo sannarlega á að halda.

Við þurfum að auka hagvöxt, það gerum við það ekki með sjálfsþurftarbúskap, við þurfum öflug sprotafyrirtæki. Þeim þarf að búa öfluga rannsóknaraðstöðu. Íslandi er algjörlega nauðsynlegt að ná umtalsverðum efnahagsbata til þess að komast upp af þeim botni sem við sitjum og til þess að greiða upp skuldir okkar. Það verður einungis gert með öflugri uppbyggingu fyrirtækja og laða hingað ný fyrirtæki.

Það liggur fyrir að með áframhaldi krónunnar munu stór íslensk fyrirtæki verða að flytja höfuðstöðvar sínar héðan. Við erum búin að glata öllu trausti, og það mun taka okkur langan tíma að byggja það upp á ný. Ef við náum ekki samkomulagi við þá sem við skuldum mun niðursveiflan dragast enn frekar á langinn.

Ætla stjórnmálamenn í stríð við Bretland, Holland og Norðurlöndin? Þeir verða einfaldlega að viðurkenna að allur málflutningur íslenskra stjórnvalda seinni hluta síðasta árs var rangur og biðjast afsökunar á því. Þessi málflutningur hefur skaðað okkur og valdið óþarfa óvissu hér á landi.

Dr. Kenneth Rogoff - með viðbót

Flestum ber saman um að þau voru harla sérkennileg ummæli Dr. Kenneth Rogoff um upptöku evru í viðtalsþætti í sjónvarpinu hjá Boga Ágústssyni á þriðjudaginn. Greinilegt að hann vissi lítið um hvað hann væri að tala þegar hann sagði að Evra hefði okkur til trafala síðasta haust. En svo kom fram hjá Dr. Rogoff að hann þekkti ekki íslenskt efnahagslíf nægjanlega vel til að geta rætt það!!

Er boðlegt að birta viðtal við mann sem er svona málflutning í ríkisfjölmiðli og það á svona tímum?

Það sem er hér fyrir neðan bætti ég við til frekari útskýringa:

Ef við værum með Evru núna værum við með um 3 - 4% verðbólgu, enga verðtryggingu og vexti á húsnæðislánum um 4% og í viðskiptum um 4 -5%. Fyrirtækin gætu átt eðlileg viðskipti með nothæfum gjaldmiðli og ekki væru hér gjaldeyrishöft. Kostnaður af krónunni er óheyrilegur; fyrir bankahrun áætluðu sérfæðingar að við greiddum að jafnaði 3-3,5% hærri vexti vegna þess að við byggjum við litla og óstöðuga mynt. Slíkir aukavextir kosta okkur 120-130 milljarða króna á ársgrundvelli.

Nú eftir hrunið þegar krónan hefur fallið um ríflega 80% má gera ráð fyrir að þessu vaxtamunur verði enn meiri – trúlega yfir 5%. Þá er reikningurinn farin að nálgast 200 milljarða króna. Þetta jafngildir hvorki meira né minna en 25% af öllum launum í landinu! Það gefur auga leið að þessi kostnaður leggst á almenning í formi lægri launa, hærra verðlags, hærri skatta og/eða lægra þjónustustigs hins opinbera.

Einnig má benda á fall krónunnar og hækkun verðlags fyrir heimili og innflutt aðföng. Gengi krónunnar var ríflega 80% veikara í janúar á þessu ári en á sama tíma í fyrra og innkaupsverð innfluttra vara hefur hækkað í takt við það. Þá höfðu laun í janúar hækkað um 7,5% á síðustu tólf mánuðum, greidd húsaleiga skv. vísitölu neysluverðs hækkað um 27% og almennt verðlag um ríflega 18% á sama tímabili.

Málflutningur Rogoffs er hreint út sagt ótrúlegur, augljóslega hefði fall heimila og fyrirtækja ekki komið til í sambærilegum hætti. Það hefði komið krýsa, en við framangreindar aðstæður væri töluvert annað að eiga við lausn hennar. Það sjáum við í öðrum löndum innan Evrusvæðisins

miðvikudagur, 4. mars 2009

Framboð á getulausu fólki - með viðbót

Vafalaust muna flestir eftir ítrekuðum skýringum stjórnarþingmanna og ráðherra allt fram undir síðasta mánuð eða svo, að allur vandinn væri tilkominn vegna efnahagsþróunar erlendis. Þessir menn sendu öllum tónninn sem héldu því fram að vandinn væri að mestu heimatilbúinn og báru á þá margskonar sakir. Einnig hafa flestir þessara þingmanna staðið í því að eyðileggja allar tilraunir um endurskoðun á gjaldmiðli og inngöngu í ESB, sem var í raun forsenda fyrir því að sú stefnu sem þeir settu upp gætu gengið.

Með tilliti til þessa og stöðunnar í dag og þeirra upplýsinga sem eru að koma fram, þá er fróðlegt að lesa í dag ummæli þessara manna, og þá um leið að velta því fyrir sér hvort þeir eigi yfir höfuð erindi inn á Alþingi eða í fjármálastofnanir. Allavega er það ljóst að þessir menn hafa takmarkaða eða enga þekkingu og þaðan af skilning á efnahags- og peningamálum. En minna má á sumir þeirra eru að gefa kost á sér í prófkjörum þessa daga og flestir í efstu sæti!!?

Þetta kom upp í hugann við lestur á viðtali við Jónas Fr. Jónsson fyrrv. forstj. FME í Markaðnum í dag : „Stjórnmálamenn fóru að leita að sökudólgum til að beina athygli og óánægju frá sjálfum sér.“

„Munurinn á Íslandi og öðrum ríkjum er einfaldlega sá að við erum með gjaldmiðil sem ekki er alþjóðlega viðurkennd mynt og hvorki ríki né Seðlabanki höfðu styrk til að styðja við bakið á bönkunum.“

Þá var pólitísk stefna að styðja við vöxt og viðgang fjármálageirans. Þegar kerfið var rúmlega sjöföld landsframleiðsla var sett stefna á um Ísland sem alþjóðlega fjármálamiðstöð og í stefnuyfirlýsingu Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar varið 2007 er áréttað að hér stefni menn að því að tryggja að fjármálastarfsemi hér geti vaxið áfram.“

Í þessu sambandi má minna á ríkisstjórnir Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks lögðu grunnin að þessari stefnu. Þar má minna á margar hástefndar yfirlýsingar sömu þingmanna og þáverandi ráðherra.

„Menn hafa spurt af hverju bankarnir hafi staðist álagspróf FME í byrjun ágúst en fallið tveim mánuðum síðar. Skýringin er sú að álagsprófið snýr að styrk eiginfjár. Það er hins vegar ekki eiginfjárvandi sem felldi bankana heldur lausafjárvandi og fyrst og fremst í erlendri mynt.“

Með tilliti til framanritaðs og þeirrar niðurstöðu sem virðist stefna í eftir komandi kosningar, að næsta ríksistjórn verði skammlíf. Það er að koma upp úr höttunum á hverjum degi staðfestingar á því hversu víðsfjarri öllum veruleika íslensk stjórnvöld hafa verið undanfarin ár. Þrátt fyrir að her manns reyndi árangurslaust að koma vitinu fyrir þá.

Einnig spái ég því að þegar lokinu verður endanlega lyft af uppgjöri bankanna þá sérstaklega Landsbankanum, sem virðist vera gætt sérstaklega vel þessa dagana að eigi Búsáhaldafólkið eftir að streyma aftur út á göturnar.

Mjög gott dæmi um þessa fyrringuna er í nýjasta Hús og hýbýli. Á meðan ungt fólk tapar íbúðum sínum og öllu vegna þessara manna þá birtast menn skælbrosandi á forsíða í glansíbúð og í viðtali er svo reynt að snobba niður á við og réttlæta 100 millj. kr. íbúð með því að segja að það sé túpusjónvarp í eldhúsinu!! Eigum við að kjósa svona fólk aftur inn á þing?

Sigurður Kári hringdi í mig og fór yfir byggingarferil sinn og konu hans. Ég viðurkenni að ég tek hér full glannalega til orðaog biðst afsökunar á því. Þetta orðtak kom reyndar úr munni fundarmanns sem vinnur hjá ríkisstofnun og var sagt upp fyrir stuttu og vandaði ekki boðberum frjálshyggjunnar ekki kveðjurnar.

Hið rétta er að Sigurður og kona hans áttu sitthvora litla íbúð þegar þau taka saman sameina þeir í þessari og hún kostaði 47 millj. kr. Endurbætur vann hann sjálfur ásamt föður sínum.

Ég tek líka undir með Sigurði við getum rifist um skoðanir og framkvæmdir, en heimilin eiga að vera í friði.

þriðjudagur, 3. mars 2009

Enn fleiri upplýsingar um slæleg vinnubrögð

Sífellt eru að koma fram fleiri atriði um hversu slaklega ríkisstjórnir Íslands hafa haldið á málum undanfarin ár, en hafa til þess að réttlæta sig síðan haldið ranghugmyndum að Íslendingum.

Var að fá árskýrslu Eftirlitstofnunar EFTA. Í formála Per Sanderud forseta stendur m.a. um athafnir ríkisstjórna Íslands undanfarin ár „Á árinu 2008 áttu sér stað afdrifaríkar breytingar á efnahagsumhverfi í heiminum sem mun hafa áhrif á starfsemi Eftirlitsstofnunar EFTA á komandi árum.

Á árinu sendi stofnunin mörg áminningarbréf til aðildarríkjanna og fleiri rökstudd álit en nokkru sinni fyrr. Líkt og árið 2007 á þessi mikli málafjöldi að mestu rætur sínar að rekja til tafa á innleiðingu reglugerða á Íslandi.

Í því skyni að auka traust almennings á störfum stofnunarinnar var ákveðið að setja nýjar reglur um aðgang að upplýsingum hjá stofnuninni og koma á fót málaskrá sem yrði aðgengileg fyrir almenning.“


Ranghugmyndum hefur einnig verið haldið að Íslendingum um að Evrópusambandið hafi beitt Íslendinga þvingunum vegna Icesave reikninganna, ég hef reyndar komið að þessu ítrekað í pistlum hér á síðunni.

Percy Westerlund, sendiherra ESB gagnvart Íslandi og Noregi, svarar þessu á bloggi sínu :

I recently received a comment by one of the Icelandic readers of this blog, Björgvin Víglundsson, who expresses concern that the EU applied political pressure to make the Icelandic government accept responsibility to compensate foreign Icesave depositors. He wonders why the EU could not accept the Icelandic suggestion of court settlement of the matter. The reason, he suggests, was that the EU feared it would lose a court case.

The truth of the matter is that not only all available expertise in Brussels agreed that Iceland had this responsibility. In fact, the Icelandic government itself apparently accepted that this was the case. In response to a question by MP Siv Friðleifsdóttir in the Althingi, two letters sent to the British Treasury by the Icelandic government on August 20 and October 6 were made public. In these letters, which can be found at the Althingi website, the government confirms without qualifications that it would be responsible if the guarantee fund would be inadequate to cover for bank failure. The EU would undoubtedly have prevailed in court, but it is rather obvious that a drawn-out court case would have been neither helpful nor necessary.

One might add that the Icelandic government had the responsibility to compensate foreign Icesave depositors regardless of how you interpret the directive. This is because the Icelandic government announced it would offer domestic depositors guarantees for deposits in Icelandic banks. There is little doubt that there is then an obligation in principle to offer depositors in these banks’ foreign branches equal treatment. Non-discrimination is a fundamental principle for the internal market, thus also for the EEA.

I think every Icelander can appreciate the importance of this principle if they try to imagine how they would react if the “shoe had been on the other foot”. If Icelanders had been tempted by promises of high interest rates to make deposits into internet branches of British or Dutch banks, how would they expect to be treated if these banks went bankrupt? If the British or Dutch government promised domestic depositors guarantees, would Icelanders (or their government) accept that they would be ignored?

The most constructive way forward is undoubtedly the one taken by the Icelandic government, namely to engage in direct negotiations with the British, Dutch and German governments to try to reach the best possible deal. The scope of the Icesave liability is hard to estimate, partly because we do not yet know the value of the remaining assets of Landsbanki. There is some speculation that the final debt figure may not be as high as initially thought. But regardless of that, I think most Icelanders will agree that we need to work together in a spirit of constructive engagement and solidarity. It is fair to say that the EU has already demonstrated such a spirit when the French Presidency and the Commission helped to negotiate the mutually agreed guidelines, which now serve as basis for the bilateral Icesave negotiations. Several member states of the EU also made significant contributions to the IMF package for Iceland.

mánudagur, 2. mars 2009

Evrópuumræðan

Á undanförnum misserum hafa íslenskt fyrirtæki, þá sérstaklega sprotafyrirtæki, bent á að það sé nánast útilokað að byggja upp fyrirtæki á Íslandi í því umhverfi krónunnar. Hinar gríðarlegu sveiflur og óstöðugleiki geri allar áætlanagerð óframkvæmanlega. Umsókn að Evrópusambandinu er stórt skref í á að tryggja íslensku hagkerfi stöðugleika.

Margir áttu von á því eftir þær ófarir, sem við erum að ganga í gegnum, myndi fara fram markviss umræða um hvers konar efnahagsuppbyggingu menn sæju fyrir sér. Það yrði greint hvað leiddi okkur í þá stöðu sem við erum í. Auk þess að kannað yrði hvers konar samningur það væri sem okkur stæði til boða.

Það hefur komið fram að við hefðum ekki farið svona illa út úr niðursveiflunni og hún hefði ekki orðið eins djúp og raun bar vitni ef gerðar hefðu verið réttar ráðstafanir í framhaldi af EES samningum. Ef hægt hefði verið að nota þann gjaldmiðil sem við hefðum verið með í erlendum samskiptum.

Það hafa verið tekin rétt framfaraskref á undanförnum áratugum, en það væri skelfilegt ef sú staða skapaðist haldið yrði aftur til fortíðar, einungis sakir þess að ekki gæti farið fram rökræn umræða um stöðuna og hvert beri að stefna. Greinaflokkurinn sem birtur var í Morgunblaðinu er besta innlegg í þessa umræðu sem fram hefur komið.

Uppbygging sprotafyrirtæka af heppilegri stærð er það sem við eigum að skoða. Við höfum sýnt mikla færni á því sviði, öflugt og sveigjanlegt vinnuafl og eigum verðmæt sprotafyrirtæki, sem geta gert stóra hluti ef þeim verður búið eðlilegt umhverfi. Það hefur komið fram að þessi fyrirtæki sjá ekki sína framtíð hér í óbreyttu efnahagsumhverfi og óbreyttum gjaldmiði. Þau hafa einnig bent á að þau gætu flutt heim nokkur hundruð atvinnutækifæri sem búið er að flytja erlendis.

Það liggur fyrir að verðbólga í nágrannalöndum okkar er umtalsvert lægri en hér og sveiflur eru margfalt minni. Það leiðir til þess að vextir þar eru margfalt lægri og ekki þörf á verðtryggingu eða greiðsludreifingu á vaxtagreiðslum. Verðlag lægra og stöðugra. Vextir á húsnæðislánum og langtímalánum á bilinu frá 2.4% - 5%.

Á þessum forsendum skilur maður ekki hvers vegna umræða um þessi mál fer ætíð út um víðan völl í upphrópunum með endurteknum marklausum klisjum. Eins og t.d. valdaafsali og fleiru. En eins og staðan er núna þá stefnir enn eina ferðina í að íslendingar ætli sér að láta tiltölulega fámennan hóp stjórnmálamanna með uppsoðnum tuggum sem nýttar hafa verið áratugum saman fara í gegnum komandi kosningar og búa okkur nákvæmlega sömu stöðu og þeir hafa búið okkur að undanförnu.