mánudagur, 31. desember 2007

Hvert stefnum við?

Raunveruleikinn er orðin eftirlíking af sjálfum sér í endalausri í endurtekinni runu sjónvarpsþátta. Eftirlíkingin er kominn út fyrir ystu mörk raunveruleikans. Beinar útsendingar með sífellt hraðari atburðarás og botnlausri neysluhyggju. Sýndarveröld. Kvöld eftir kvöld sýnir sjónvarpið keppni. Hver getur sungið best? Hver getur lést mest? Hver er smartastur? Hver á flottustu íbúðina? Hvaða bíll er mest töff? Hvernig geta 5 hommar reddað púkó gæja og fengið hann til þess að fara í hreinar nærbuxur og vaska upp?

Lúserarnir brotna undan sársaukanum og við stökkvum fram og skellum poppi í örbylgjuna, meðan auglýsingarnar renna í gegn, svo við missum ekki af næsta niðurbroti, sem er endursýnt 3x í slow motion. Glanstímaritið býður á náttborðinu með viðtölum um framhjáhaldi, misnotkun eiturlyfja, missi sona og dætra. Sjálfævisagan um erfiða æsku og kynferðislega misnotkun bíður næsta kvölds, eða fær að koma með í sumarbústaðinn.

Hvert hafa skilaboðin leitt okkur? Hvers vegna eru 3000 bílar á bílasölunum með lánum sem eru jafnhá andvirði bílsins eða jafnvel stendur til boða greiðslu með honum viljirðu yfirtaka áhvíland lán? Hvers vegna er ekki hægt að flytja inn í nýja íbúð nema að allt sé til staðar, dýrustu heimilistækin, flottasta lýsingin og spes húsgögnin? Hvers vegna er íbúðin veðsett upp í rjáfur? Bíllinn í eigu fjármagnsfyrirtækis? Fataskápurinn keyptur í London og ferðin fjármögnuð með yfirdráttarláni?

Já láttu þér líða vel og byrjaðu að græða með því að taka lán, vextirnir hjá okkur eru ekki nema 18%.

Fjölmiðlar bera ábyrgð, þeir móta sjálfsmynd og hugmyndir fólks um hvað það vill vera og hvernig við eigum að búa. Hvar eru þættirnir sem móta gagnrýna hugsun, yfirsýn og þekkingu?

sunnudagur, 30. desember 2007

Flopp ársins

Í kosningabaráttunni var eins og stjórnvöld skömmuðust sín fyrir þróun efnahagsmála. Þekkt er að þeir hafa í stórblöðum erlendis hrósað sér af því að hafa haft sjónarmið Frjálshyggju að leiðarljósi við mótun efnahagsstefnu á Íslandi og náð lengra en önnur ríki. En hér heima vilja þeir hinir sömu alls ekki kannast við árangur sinn, en reyna með innflutning á helstu spámönnum frjálshyggjunnar slá ryki í augu okkar. Samfara þessu voru ritaðar raðgreinar í blöð þar sem staðreyndum var snúið á haus og þeir menn sem sýndu fram á hver efnahagsþróunin var hér í raun og veru voru nýddir niður með persónuróg og þeir kallaðir ónöfnum.

Prófessorarnir Stefán Ólafsson og Þorvaldur Gylfason sýndu með haldgóðum rökum að kaupmáttaraukning hafi verið ójöfn. Einnig hefur kom fram rannsókn þar sem þriðji háskólaprófessorinn Ragnar Árnason sýndi fram á að ekki sé við kjarasamninga á vinnumarkaði að sakast í þessum efnum. Laun hefðu hækkað jafnt upp allt kerfið og lægstu laun jafnvel fengið ívið meiri hækkun.

Á sama tíma drógu stjórnvöld markvist úr tekjujöfnunarhlutverki skattkerfisins með því að lækka persónuafsláttinn. Leggja hátekjuskatt niður og lækka tekjuskatt með flatri lækkun sem þýddi vitanlega að þeir tekjuhæst fengu umtalsvert meiri skattalækkanir en hinir tekjulægri. Skattur af fjármagnstekjum er hafður lægri en af öðrum tekjum, sem leiðir til þess að vaxandi hópur tekur ekki þátt í rekstri samfélagsins. Markvisst hafa stjórnvöld ekki látið skerðingarmörk bótakerfisins fylgja verðlagsþróun. Það hefur leitt til þess að meðan skattar hinna tekjuhæstu lækkuðu umtalsvert voru hinir lægst launuðu sem áður voru skattlausir farnir að greiða skatt. Ákvarðanir stjórnvalda um frítekjumörk og skerðingarákvæði stjórnvalda hafa sett fátækt fólki hér á landi í mun erfiðari stöðu.

Í þessum könnunum kom fram að það eru ákvarðanir stjórnvalda sem hafa haft mest áhrif á kaupmátt þeirra lægstlaunuðu. Nær öll vestræn ríki hafa aukið jöfnunaráhrif skatt- og velferðarkerfa sinna, en íslensk stjórnvöld hafa farið í öfuga átt. Jöfnun með sköttum og bótakerfi velferðarkerfisins hér á landi hefur minnkað. Skattleysismörkin eru sá þáttur skattkerfisins sem helst jafnar tekjuskiptinguna þegar aðeins er eitt skattþrep. Ef skattleysismörk fylgja ekki launavísitölu er gengið í átt til aukins ójafnaðar í tekjuskiptingunni á Íslandi.

Stjórnvöld breyttu vaxtabótakerfinu þannig að umtalsverður hópur ungs fólks á höfuðborgarsvæðinu fær ekki þær vaxtabætur sem það gerði ráð fyrir þegar það keypti sína fyrstu íbúð. Barnabætur hafa auk þess lækkað. Allt þetta eykur ójöfnuð enn frekar og bilið milli allra þrepa tekjustigans.

Á sama tíma bættu stjórnmálamenn hag sinn svo um munaði. Samkvæmt útreikningum hagdeildar SA má leggja umframlífeyriskjör þingmanna að jöfnu við 23 - 35% mánaðarlega launauppbót. Umframlífeyriskjör ráðherra sem gegnir embætti í þrjú kjörtímabil eru ígildi 85 -102 m.kr. starfslokagreiðslu og 66 - 79% mánaðarlegrar launauppbótar. Umframlífeyriskjör forsætisráðherra sem situr í tvö kjörtímabil eru ígildi 113 m.kr. starfslokagreiðslu eða 122% launauppbótar.

Hér má vitna til kenningar Altúngu að allt sé í allrabesta lagi, vegna þess að það geti bara ekki verið öðruvísi. Þess vegna er það vitanlega bjánalegt að vera að barma sér.

Staðan í kjaraviðræðum um áramótin

Datt inn á Moggabloggið eftir að hafa séð í Mogganum í dag að þar var verið að fjalla um yfirstandandi kjarasamninga. Sá að sumir virðast ekki átta sig á hver staðan er og setti því saman þetta yfirlit.

SA hefur við upphaf viðræðna lagt fram þá tillögu að allir lágmarkstaxtar verði hækkaðir um krónutölu, og hefur nefnt 15 þús. kr. á mán. Auk þess hefur SA sett fram hugmynd um svokallaða launatryggingu, þar hefur ekki verið nefnd ákveðin prósenta. En nefnt hefur verið af hálfu aðila innan ASÍ að brotpunkturinn þyrfti að vera a.m.k. 9%. Það þýðir í raun að þeir sem hafi fengið minni launahækkun frá 1. sept 2006 en brotpunkturinn t.d. 9%, fái launahækkun sem nemur því sem upp á vantar. Þeir sem hafa fengið launaskrið umfram 9% fá ekkert.

Þessi aðferð gerir það að verkum að það er meira svigrúm til þess að setja í lægstu taxtana. En svo er þá hin leiðin sem nánast alltaf hefur verið farin, að setja flata prósentuhækkun á alla taxta, ef samið væri um svipaða launakostnaðarauka þýddi það líklega 4 - 5% launahækkun til allra.

ASÍ forystan hefur sagt að sambandið vilji ekki skoða þessa leið SA nema að krónutöluhækkunin verði hækkuð, auk þess að það náist samkomulag um launatrygginarbrotpuntinn. Einnig hefur verið sett fram krafa um að stjórnvöld komi að málinu og persónuafsláttur verði hækkaður upp í 150 þús.kr. og hefur ASÍ lagt fram tillögu um að sá sérstaki afsláttur deyji út við 300 þús. kr. tekjur. Auk þess að skerðingarmörk barnabóta og vaxtabóta verði hækkuð umtalsvert. Ef það samkomulag næst við ríkisstjórn þá aukast ráðstöfunartekjur hjóna með tvö börn, sem eru samtals með 300 þús. kr. laun á mánuði, um 40 þús. kr. á mánuði, auk launahækkunarinnar. Ekki hefur borist svar frá stjórnvöldum og þar af leiðandi liggja viðræður niðri.

En síðan spiluðu ráðmenn þjóðarinnar því út nú fyrir jólin til handa sjálfum sér aukahækkun upp á 2%. Laun þeirra hækkuðu um 2,5% 1. janúar 2006, um 3% 1. júlí sama ár og um 3,6% 1. október. 1. janúar í ár hækkuðu launin svo um 2,9% og um önnur 2,6% í sumar. Þetta vekur sérstaka athygli með tilliti til umræðunnar um launatryggingu. Ef launatryggingmarkið yrði sett þannig að þessi 2% aukahækkun ráðamanna stæðist þá þyrfti brotpunturinn það að vera 11,2%.

Það er svo spurning áramótanna hvort það eigi að taka mark á þessum skilaboðum frá æðstu valdamönnum þjóðfélagsins.

laugardagur, 29. desember 2007

Af hverju er ræsing Fljótsdalsvirkjunar ekki með í áramótauppgjörum?

Mér finnst eftirtektarvert í þeim uppgjörum líðandi árs sem birt eru þessa dagana, að engin minnist á ræsingu Fljótsdalsvirkjunar og álversins í Reyðarfirði, sem hafa þó haft meiri áhrif á íslenskt þjóðlíf en annað á undanförnum árum og mun hafa á þeim komandi. Kannski vegna þess að búið er rífast svo mikið um þessar framkvæmdir að menn nenni því ekki lengur.

Það voru nokkrir sem héldu því fram þegar samið var við Impregilo um verkið á tölum sem voru víðsfjarri tilboðum annarra, þar á meðal voru nokkrir af okkar helstu verktökum. Því var haldið fram að vinnubrögð Landsvirkjunar við þetta útboð hefðu verið ámælisverð. Þessi niðurstaða hefði verið byggð á óskhyggju til þess að geta sýnt fram á meiri arðsemi. Þessir hinir sömu héldu því fram að þegar uppgjör lægi fyrir við verklok, þá kæmi hið sanna fram. Það verður því forvitnilegt að sjá endanlegar kostnaðartölur.

En það breytir hins vegar ekki því að álverið hefur haft gífurlega mikil áhrif á mannlíf fyrir austan og á eftir að vera ein helsta undirstaða atvinnu á því svæði.

föstudagur, 28. desember 2007

Kaupum flugeldana af björgunarsveitunum

Á undanförnum vikum höfum við ítrekað notið aðstoðar björgunarsveitanna vegna aftakaveðurs. Allar líkur eru á að við þurfum fljótlega á þeim að halda, enn ein óveðurspáin er kominn í loftið. Björgunarsveitarfólkið er ekki bara að leita að fólki til fjalla, auk þess hafa verið stórir flokkar úr sveitunum að störfum í þéttbýli með lögreglu og slökkviliðsmönnum við að bjarga eignum fólks frá skemmdum. Björgunarsveitarfólk um allt land hefur margoft sýnt að starf þess er algjörlega ómetanlegt og oft við aðstæður sem geta verið lífshættulegar.

Innan Landsbjargar starfa um átján þúsund manns í sjálfboðaliðsvinnu. Við skuldum þessu fólki að það geti notað besta fáanlegan búnað. En ekki má gleyma því mikla uppeldishlutverki sem björgunarsveitirnar vinna, þar lærir ungt fólk að umgangast íslenska náttúru og um leið eru byggðir upp heilbrigðir og öflugir einstaklingar

Flugeldasala fyrir áramót er mikilvægur tekjupóstur í fjáröfluninni og allt þetta fólk á það inni hjá okkur að við fjölmennum á sölustaði björgunarsveitanna.

En fyrir alla muni notið öryggisgleraugu og varið varlega svo við getum átt slysalaus og gleðileg áramót.

Allir sjúklingar fái einbýli með snyrtingu

Í Fréttablaðiðinu í dag kemur fram á forsíðu að vinnu við frumáætlun á nýju húsnæði og deiliskipulagi Landspítalans sé nú loksins lokið og húsnæðisvandi spítalans nú er mikill. "Gríðarlega jákvæðar breytingar," segir Ingólfur Þórisson verkefnisstjóri og bætir við að á legudeildum verði einstaklingsherbergi með sérsnyrtingu."

Allir sem komið hafa á Landspítalann annað hvort sjálfir sem sjúklingar eða aðstandendur, vita að þrengsli á deildum Landspítalans eru ofboðsleg. Margir sjúklingar liggja saman á stofu og oft þurfa sjúklingar jafnvel að liggja á göngum. Þetta þekki ég af eigin raun, hef þrisvar þurft að gista þar eina nótt, í öllum tilfellum var það fram á gangi, reyndar utan einu sinni þá var það á setustofunni.

Það verður að segjast eins og það er að það er ótrúlegt hversu lengi það hefur tekið að bæta úr þessum vanda. Mér hefur verið sagt að ráðherrar og háttsettir embættismenn þurfi aldrei að gista á göngum, þeir fái alltaf sérherbergi. Ef það finnst ekki á þeirri deild sem þeir liggi á þá séu þeir settir inn á einstaklingstofur á öðrum deildum. Það sé ástæðan hversu lengi þetta verk hefur tafist, þeir hafi ekki áttað sig á hinum gríðarlega vanda og haldið verkinu í nefndarleik, sem er búin að kosta okkur skattborgara hundruði milljóna kr. og tafið verkið árum saman.

"Það er enginn vafi í mínum huga að spítalinn býr á sumum deildum við húsnæðisvanda, eins og margar aðrar heilbrigðistofnanir," segir ráðherrann Guðlaugur Þór.

Ég þekki Guðlaug og trúi því að hann gangi af krafti í þetta verk.

fimmtudagur, 27. desember 2007

Björgólfur eða íslensk heimili

Björgólfur Thor hefur ekki trú á gildi þess að Ísland gangi í Evrópusambandið. Hann telur aðild að sambandinu muni takmarka möguleika Íslendinga, kemur fram í Viðskiptablaðinu.

"Ég tel að það myndi takmarka okkur," segir Björgólfur Thor aðspurður um hvort hann hafi ekki trú á inngöngu í Evrópusambandið. "Við eigum að halda í þann sveigjanleika sem við höfum í dag. Við erum með margvíslega fríverslunarsamninga og við höfum möguleika á því að verða fjármálamiðstöð til langs tíma eins og margoft hefur verið talað um. Þannig getum við tekið við af Lúxemborg og Ermasundseyjunum, kjósum við svo. Það gerist hins vegar ekki ef við erum komnir í ESB."

Hér talar maður sem setur eigin hagsmuni umfram almennings á hinu ísakalda landi okurs dagvöruverzlana og græðgi banka vaxtq, seðil- og þjónustugjalda. Björgólfur hefur hagnast á því að Ísland standi utan og vill sitja áfram að þeim foréttindum. Og sumir bloggarar þjakaðir af rakalausum fordómum í garð Evrópu fagna og segja að hér tali atvinnulífið!!

Nokkrir af færustu hagfræðingum landsins hafa sýnt fram á að það sé umtalsverður ávinningur fyrir íslensk heimili ef við göngum í Evrópusambandið og tökum upp evru. Í fyrsta lagi myndi vaxtastig lækka og þá sérstaklega af langtímalánum og fá mun hagstæðari kjör á íbúðalánamarkaði en nú er. Í öðru lagi má búast við að neysluverð myndi lækka. Nefndar hafa verið háar tölur í þessum sambandi oftast um 40%. Þá er horft til þess að evran myndi lækka viðskiptakostnað fyrirtækjanna.

Við gætum einnig átt von á æskileg og langþráð samkeppni myndi opnast á bankamarkaði og í dagvöruverzlun. Með því að fara inn í Evrópusambandoð yrðum við hluti af sameiginlegri landbúnaðarstefnu og það hefði klárlega áhrif á matvælaverð hér á landi. Matvælaverð er hvergi hærra en í löndum sem liggja utan þessa markaðar það er á Íslandi, Noregi og Sviss.

Stjórnvöld hafa hingað til ekki haft burði til þess að taka þátt í fordómalausri umræðu um hvaða gjaldmiðill henti íslenskum neytendum, atvinnulífi og viðskiptaumhverfi. Í stað þess hafa þau í síbylju beint til okkar innistæðulausum klisjum. Á meðan bruna íslensk alþjóðafyrirtæki fram úr. Stöðugleiki í gjaldeyrismálum leiðir til betri afkomu fyrirtækjanna, minni kostnað og bætta afkomumöguleika. Sama gildir um heimilin í formi lægri verðbólgu og lægri vaxta. Aðrir þættir s.s. matvælaverð munu lækka vegna minni kostnaðar við innflutning, en á Íslandi er matvælaverð eitt hið hæsta í Evrópu.

Í lokin, dóttir mín kom heim um jólin eftir að hafa verið í Svíþjóð frá því í sumar. Hún skrapp út í búð hér í Grafarvoginum í gær og keypti 30 bleyjur og borgaði fyrir það 1.550 kr. Hún var slegin sakir þess að hún borgar í Svíþjóð 700 kr. fyrir 60 bleyjur. Í fullri virðingu fyrir Björgólf Thor verð ég að viðurkenna að hef meiri áhyggjur af afkomu íslenskra heimila.

Launahækkanir þeirra æðstu helmingi meiri - að venju

Laun æðstu embættismanna ríkisins hækka um 2% um áramótin og hafa þau þá hækkað samtals um 18% á tveimur árum. Laun almennra opinberra starfsmanna hafa hins vegar hækkað um 7 til 9% að jafnaði á sama tíma. Þessu til viðbótar má nefna að eftirlaun embættismanna, ráðherra og alþingismanna miðast við þau laun sem þeir hafa við starfslok, ekki hversu mikið þeir eiga í lífeyrissjóð. Þar framkvæma þeir allskonar kúnstir eins og hefur verið í fréttum nýverið við embættismenn sem eru þeim þóknalegir með því að skutla þeim upp um nokkra launaflokka daginn áður en þeir hætt. Mótframlag ríkissjóðs í lífeyrissjóð ráðherra og æðstu embættismanna nemur því um 90% og hjá alþingismömnum um 40%

Kjararáð ákveður laun þessarar stétta. Ef við lítum á launaþróun hjá æðstu embættismönnum þjóðarinnar, þá kemur í ljós að laun þeirra hækkuðu um 2,5% 1. janúar 2006, um 3% 1. júlí sama ár og um 3,6% 1. október. 1. janúar í ár hækkuðu launin svo um 2,9% og um önnur 2,6% í sumar. Þau munu svo enn hækka um 2% um áramótin. Þetta vekur sérstaka athygli því að á sama tíma fara fram viðræður með þátttöku ráðherrar ráðherra, að gera sérstakt átak til þess að hækka sérstaklega laun hinna lægst launuðu.

Hluti af þeirri lausn er að setja svokallaða launatryggingu með brotpunkt við 9%. Það er að þeir sem hafi fengið meiri launhækkun en sem nemur 9% eftir 1. sept. 2006 fái enga launahækkun núna. Þetta á greinilega ekki að gilda fyrir ráðherra, alþingismenn og æðstu embættismenn. Þeir skenkja sjálfum sér 2% þrátt fyrir að liggja fyrir ofan 9% markið. Ef launatryggingmarkið yrði sett þannig að þessi 2% stæðust þyrfti borotpunktur launatryggingar að vera 11,2%, þá fyrst ættu ráðherrar og alþingismenn rétt á 2% nú um áramótin. Það er svo spurning hvort við almennir launamenn eigum ekki að taka þessi skilaboð frá æðstu valdamönnum þjóðfélagsins alvarlega.

Seðlabankastjórar heyra ekki undir kjararáð en launahækkun þeirra í sumar olli miklum úlfaþyt. Síðasta verk fráfarandi formanns bankaráðsins, sem ákveður laun bankastjóranna, var að leggja til 250 þúsund króna launahækkun en lendingin varð 200 þúsund í tvennu lagi og tekur seinni hækkunin gildi nú um áramót. Ástæða hækkunarinnar var sögð mikil samkeppni um hæft starfsfólk í bankageiranum. Fjölmargir kjarasamningar renna út á næsta ári. Um áramótin hækka laun flestra opinberra starfsmanna um 2 til 3%, það fer eftir því hversu lengi fram eftir komandi ári samningar þeirra standa. En þeir renna ekki út núna um áramótin eins og á almenna markaðnum. Með þeirri hækkun hafa laun almennra ríksitarfsmanna hækkað að jafnaði um 7 til 9%.

Þó má bæta því við að 1. maí 2007 fengu nokkrar stofnanir framlag sem nemur 2 til 2,6% launahækkun til þróunar og styrkingar launakerfis og einhverjir hópar hljóta að hafa notið góðs af því. Reynslan segir okkur aftur á móti því miður að þessi sérstöku framlög draga yfireitt ekki lengra en til efstu stjórnunalaga opinberra stofnanna, eins og svo oft hefur komið fram hjá forsvarsmönnum alemnnra launamanna hjá hinu opinbera.

þriðjudagur, 25. desember 2007

Og svo kom blessað rafmagnið

Þar sem maður situr hér á jóladagsmorgni í öllum þeim þægindum sem við höfum búið okkur reikar hugurinn til þess að það er ekki langt síðan að hin þægilegu rafmagnstæki voru ekki til staðar til að gera okkur lífið þægilegra, og reyndar svipaður tími síðan vatnsveitur voru heldur ekki til hér á landi.

Skemmstur sólargangur í Reykjavík er um fjórar klukkustundir. Það má örugglega halda því fram, að baráttan við myrkrið hefur verið ofarlega í hugum Íslendinga alla tíð. Um langan aldur var skammdegismyrkrið einn af höfuðóvinum íslensku þjóðarinnar, sem menn urðu að berjast við með þeim föngum sem landið sjálft veitti.

Mörin úr kindunum, hrossafeiti, hvalspik, sellýsi, hákarlslýsi og lýsi úr fiskalifur. Kveikirnir voru gerðir úr fífu. Ljósaáhöldin voru kolur og lampar. Þetta ljósmeti var dýrt og óhentugt, svo það var sparað eftir föngum. Mun þá hafa verið venja að kveikja ekki ljós fyrr en seint í október, eða með vetrarkomu, þegar dagsbirta er ekki nema um þriðjung sólarhringsins. Ekki var þó kveikt um leið og fór að skyggja, heldur fengu menn sér þá rökkurblund og mun hafa verið venja að vakna svo klukkan 18. Þegar ljósið kom tóku menn til við vinnu og var venja að allir kepptust við fram að klukkan 22. Þá var víðast lesinn húslestur og menn gengu til náða.

Það var ekki allra siður að sofa í rökkrinu, sums staðar var það siður að kveikja ljós undir eins og skuggsýnt var orðið og hefja þá þegar innivinnu og keppast við fram að háttatíma. Var þetta einkum á heimilum útvegsmanna, þar sem var margt fólk og mörgu þurfti að afkasta áður en vermenn kæmu heim. Nú mundi engum detta í hug að vinna við þessa lélegu birtu, en við megum ekki gleyma að við þessa birtu voru mörg meistaraverk unnin. Fornsögur voru ritaðar og margir hagleiksmenn unnu listaverk sem enn er dáðst að.

En úti fyrir grúfði kolsvart myrkrið og þegar sást ekki til tungls var reynt að setja ljós í glugga til þess að vísa mönnum veg heim að bæjum. En þessi ljós voru svo dauf að þau megnuðu ekki að lýsa mönnum til vegar á fyrstu götum Reykjavíkur. Menn urðu að þreifa sig áfram.

Þannig var ástandið til ársins 1860 þegar nýtt ljósmeti kom til sögunnar sem olli byltingu. Steinolíulamparnir fóru þá að flytjast til landsins. Fyrst voru þeir notaðir í sölubúðum og íbúðarhúsum kaupmanna í Reykjavík. Upp úr árinu 1870 fóru þeir að tíðkast í torfbæjum. Og bæjarstjórn Reykjavíkur var stórhuga. Hún fékk 2.000 kr. lán í hafnarsjóði til þess að kaupa götuljósker, sem komu hingað árið 1876. Fyrsta ljóskerinu var valinn staður á Lækjarbrúnni við Bankastræti. Það var kveikt á því 2. september sama ár. Eitthvað var gleði bæjarbúa blandin og töldu sumir að það væri hreint og klárt hneyksli að bæjarstjórn væri að taka lán úr hafnarsjóði til þess að lýsa fyllibyttum og þjófum til vegar um bæinn.

Þessi ljósker voru notuð til ársins 1910, en þá hófst rekstur gasstöðvar í Reykjavík. Þá var kveikt á 207 nýjum ljóskerum, eða um helmingi fleiri en áður voru. Með gasstöðinni hófst bylting í baráttu Íslendinga við myrkrið og margir létu setja gasljós í híbýli sín. Edison fann upp rafmagnsperuna árið 1879 og strax í febrúar árið 1880 flutti Þjóðólfur fregn um þennan atburð.

Breskt tilboð um raflýsingu Reykjavíkur barst árið 1888. Nota átti 10 ha. gufuvél til þess að framleiða rafmagnið. Bæjarfulltrúar voru langt frá því að vera reiðubúnir að samþykkja svona byltingarkennda tillögu og henni var umsvifalaust hafnað. Kennslutæki í rafmagni voru keypt til Lærða skólans á árunum 1888 og 1889. Ætla má að þá hafi verið í fyrsta skipti kveikt á peru á Íslandi. Það næsta sem hægt er að segja úr sögu rafmagns hér á landi, er að árið 1894 var rætt á Alþingi hvort raflýsa ætti þinghúsið, en úr því varð þó ekki.

Ekki var unnt að leggjast í margskonar stórframkvæmdir í einu. Það var eðlilegt, að bæjarfélagið hugsaði fyrr um hafnarframkvæmdir en um rafmagn til ljósa og götulýsingar. Neysluvatn sóttu menn í fötum og skjólum í brunna, þar sem einatt þraut í þurrkum og frosthörkum. Frárennsli voru opnar göturennur. Heilsufar var þannig að læknirinn Matthías Einarsson, rakti taugaveikifaraldur í bænum til neysluvatns úr einum brunnanna. Bæjarbúar lögðu meiri áherslu á neysluvatn en rafvæðingu.

Eldiviðarbaslið var daglegt stríð húsmæðra. Mór hafði alltaf verið aðaleldsneytið, og mótekjan í Vatnsmýrinni og Kaplaskjóli hafði dugað til þessa, en varð lélegri með ári hverju. Bærinn óx í austurátt, og Austurbæingar sóttu sinn mó austur á bóginn, í Norðurmýri, Elsumýri og síðar í Kringlumýri, en austubæjarmórinn þótti lakari.

Árið 1894 kom til Reykjavíkur frá Kaupmannahöfn Vestur-Íslendingurinn Frímann B. Arngrímsson. Hann hafði stundað sjálfsnám í Vesturheimi í rafmagnsfræðum, m.a. var talið að hann hefði unnið hjá Edison. Frímann kom einkennilega fyrir, hann var fullur af skrumi og skrýtilegheitum og var illa til fara og staurblankur. Nokkrir Íslendingar komu honum til hjálpar í Kaupmannahöfn og sendu hann heim.

Hann fór fram á það bréflega við bæjarstjórn að hún kannaði hversu mikið vatnsmagn væri í fossum Elliðaánna og vegalengd frá þeim í bæinn. Sumum bæjarfulltrúum fannst þetta furðuleg dirfska, "að eitthvert aðskotadýr úr Vesturheimi skyldi dirfast að biðja bæjarstjórn um svona upplýsingar. Honum væri nær að afla þeirra sjálfur." Eftir miklar umræður var ákveðið að verja 30 kr. til þess að afla þeirra upplýsinga sem Frímann óskaði eftir. Sæmundur Eyjólfsson búfræðingur var fenginn til verksins. Hann mældi hæðina í Skorarhylsfossi og reyndist hún vera 21 fet, en vatnskrafturinn 960 hestöfl.

Að þessum upplýsingum fengnum hélt Frímann geysilega langan og háfræðilegan fyrirlestur í Góðtemplarahúsinu fyrir fullu húsi. Hann komst að þeirri niðurstöðu að með þessu afli mætti fá 20 faldan þann kraft sem þyrfti til þess að lýsa 200 hús í Reykjavík með þremur átta kerta perum, og götur bæjarins með álíka lýsingu og þegar væri á þeim. Árlegur rekstrarkostnaður myndi verða um 30 þús. kr. Þessu svaraði bæjarstjórn með því að kalla Frímann "humbugista og þetta væru svo háar tölur, að auðvitað kæmu þær ekki til greina."

Þetta varð revíuhöfundum efni í eftirfarandi söngtexta í fyrstu íslensku revíunni sem sýnd var í Reykjavík í leikhúsi Breiðfjörðs, 6. janúar 1895:

Við Arnarhól er höfuðból
þar er hálært bæjarþing
sem vantar eitt og vantar eitt,
það vantar alltaf, viti menn,
og vill fá - upplýsing.
Og þessu spurning kemst í kring;
Hvað kostar raflýsing?

Valgarður Ó. Breiðfjörð ritstjóri var mikill áhugamaður um hvers kyns framfarir, hann varð vinur Frímanns og í samvinnu smíðuðu þeir rafhlöðu og tengdu við hana peru sem gaf frá sér dauft ljós. Þetta varð Valgarði hvatning til þess að kynna sér enn frekar rafmagnsáhöld og sumarið 1896 hafði hann rafmagnsdyrabjöllur til sölu.

Tveim árum síðar, 7. maí 1898, auglýsti Eyjólfur Þorkelsson: "Rafmagnsdyrabjöllur með öllu tilheyrandi mjög ódýrar. Tilsögn fæst í að setja þær upp. Bjöllur þessar eru mjög nytsamar í stórum húsum.

Stundaklukkur sem ganga með rafkrapti fást einnig. Þær eru mjög góðar í stórhýsi, þar sem þyrfti margar klukkur, því ekki þarf nema eina almenna klukku til að stýra mörgum rafklukkum og það er mikill sparnaður sjérílagi í viðhaldinu. Þeir sem kynnu að vilja fá sjér eitthvað af þessum raftólum gjöri svo vel að líta við hjá mjér".

Úr sögu Félags íslenskra rafvirkja eftir höfund efnis þessarar síðu

mánudagur, 24. desember 2007

Reglur refskákarinnar

Ungur maður sótti um starf. Nefnd sem hefur það hlutverk að meta umsækjendur komst að þeirri niðurstöðu að þrír aðrir hefðu meiri reynslu en hinn ungi maður. Forsvarsmenn Flokksins hafa undanfarin 12 ár vanist því að fara í einu og öllu eftir því sem einn maður sagði þeim og samkvæmt því fannst þeim að þeir ætti ekki að fara að niðurstöðu nefndarinnar og skipuðu unga manninn í starfið.

Almenningur og nefndarmenn bentu á þetta væri fordæmalaust. Eftir niðurstöðu nefndarinnar hefði hingað til verið farið. Varðhundar valdsins þoldu ekki frekar enn fyrri daginn að ákvarðanir þeirra væru dregnar í efa, almenningur á ekkert með að skipta sér af því sem við gerum. Samkvæmt sínum eðlislæga einkennilega skilning túlkuðu þeir þetta sem aðför að unga manninum og drógu hann inn í umræðuna. Engin hafði gagnrýnt unga manninn einungis bent á að rök ráðherra væru fáránleg endaleysa og valdníðsla. Þetta skildu varðhundar valdsins alls ekki og hóta þeim sem mótmæla meiðyrðamálum, enda hafa þeir sveigt þær dómstöður inn á sínar brautir.

Ég er viss um að ungi maðurinn hefði unað niðurstöðu nefndarinnar og leitað sér meiri reynslu. Enda er hann ekkert öðruvísi enn annað ungt fólk sem er að læra í lífsins skóla. Hvorki honum né öðrum er greiði gerður með því að vera tekinn út fyrir sviga. Nú er hann fyrir tilstilli varðhundanna orðin að bitbeini og helsta umræðuefni landsmanna. Og staksteinar fara dag eftir dag með þvílikt rugl, ja hérna.

Birti í þessu tilefni Reglur refskákarinnar:

Studdist við bókina The 48 laws of Power eftir Robert Greene. En það er rétt sem kemur fram í athugasemd við þennan pistil að þetta er í anda Sun Tzu (Art of War) (gg. þessi aths. sett inn 25.12.)

Skyggðu aldrei á yfirmann þinn
Leyfðu yfirmönnum þínum ætíð vera í þægilegri stöðu drottnarans. Þó þú viljir ná athygli þeirra, ekki ganga of langt í því að opinbera hæfileika þína. Það getur leitt til hins gagnstæða – vakið ótta og óöryggi. Láttu yfirboðara þína virðast færari en þeir eru og þú munt ná til þín völdum.

Settu aldrei of mikið traust á vini þína. Lærðu að nýta þér óvini þína
Vertu á varðbergi gagnvart vinum þínum – þeir munu fyrr svíkja þig, því öfund þeirra er auðveldlega vakin. Þeir verða einnig spilltir og einráðir. Þú skalt frekar ráða fyrrverandi óvin þinn og hann verður þér traustari en vinur. Sakir þess að hann þarf frekar að sanna sig. Staðreyndin er sú að þú þarft meir að óttast vini þína en óvini. Ef þú átt enga óvini, finndu leið til þess að verða þér út um nokkra.

Leyndu fyrirætlunun þínum.
Haltu fólki óöruggu og óupplýstu með því að gefa aldrei upp ástæður gerða þina. Ef það hefur ekki hugmynd um að hverju þú stefnir, geta þeir ekki undirbúið varnir sínar. Leiddu fólk nægilega langt í villu síns vegar, villtu þeim sýn, þegar þeir uppgötva fyrirætlanir þínar, verður það of seint.

Segðu ætíð minna en nauðsynlegt er
Þegar þú reynir að hafa áhrif á fólk í umræðu, því meir sem þú talar, þeim mun almennari virðist þekking þín og minni sjálfstjórn. Jafnvel þó þú sért að fjalla um eitthverja lágkúru, getur það virst í lagi, ef þú gerir það óljóst, opið og tignarlega. Valdamikið fólk nær áhrifum og kúgað með því að segja sem minnst. Því lengur sem þú talar, eru meiri líkur til þess að þú segir eitthvað rangt.

Það er svo margt sem byggist á orðstý – gættu hans umfram allt.
Orðstýr er hornsteinn valda. Með orðstý einum getur þú kúgað og unnið, en þegar hans missir ertu varnarlaus og munnt sitja undir árásum frá öllum hliðum. Gerðu orðstý þinn óaðgegnilegan. Vertu ætíð viðbúin mögulegum árásum og hindraðu þær áður en þær skella á. Á meðan skalltu finna leiðir til þess að eyða óvinum þínum með því að gera orðstý þeirra tortryggilegan. Stattu síðan álengdar á meðan almennt álit aflífar þá.
Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama.
En orðstír
deyr aldregi
hveim er sér góðan getur.

Sæktust eftir athygli með öllum ráðum.
Allt er metið í ljósi þess hvernig það sést, hið ósýnilega hlýtur aldrei dóm. Ekki týnast í fjöldanum, eða grafinn í gleymskuna. Stattu upp úr. Neyttu allra ráða til þess að vera áberandi. Dragðu til þín athyglin með því að koma fram sem stærri, litríkari og dularfyllri en bragðlítill og óframfærin fjöldinn.

Láttu aðra sinna störfum þínum, en gættu þess að fá þakkirnar.
Nýttu þér gáfur, þekkingu og vinnu annarra til þess að ná fram málstað þínum. Það mun ekki einungis spara þær dýrmætan tíma og orku, það mun skapa þér guðumlíka ímynd afkasta og vinnuhraða. Að lokum verða aðstoðarmennirnir gleymdir en þú skráður á spjöld sögunnar. Framkvæmdu aldrei það sem aðrir geta gert fyrir þig.

Fáðu aðra til þess að koma til þín – notaðu agn ef með þarf.
Ef þú þvingar annan til einhvers, gættu þess að það ert þú sem stjórnar. Það er ætíð betra að fá andstæðing þinn til þess að koma til þín, yfirgefa sínar eigin áætlanir. Blekktu hann með miklum ávinning – gerðu svo árás. Þú ert með spilin.

sunnudagur, 23. desember 2007

Hvert viltu fara? Jólapæling

Peningar blinda menn oft og verða að kjarna lífsins, jafnvel þó Jesú hafi varað okkur við og sagt að það væri auðveldara troða úlfalda í gegnum auga stoppunálar en fyrir auðugan mann að komast til himnaríkis. Of margir feta í spor bóndasonarins, þegar hann hafði eignast hanann, ásældist hann alikálfinn.

Eigendur fjármagnsins telja að þeir hafi forgang að þeim arði sem hin vinnandi hönd skapar, arðsemi hlutafjár kemur fyrst svo starfsfólkið. Þar liggur orsök þess ófriðar sem ætíð mun ríkja á vinnumarkaði. Peningar eru til lítils ef ekki er til staðar þekking til þess að nýta þá. Ágirnd leiðir eilífrar fátæktar. Kynlífsþrælkun, barnaþrælkun og atvinnukúgun starfsmannaleiga eru orðin áberandi mein á hinu vestræna samfélagi og viðhorf gegn þessu deifast. Þar er hin blinda auðhyggja að nýta sára fátækt til þess að ná arði. Ef hinn bláfátæki sættir sig ekki við það sem að honum er rétt, þá er honum umsvifalaust hent á dyr í atvinnuleysið og örbyrgðina.

Öfgakenndir hægri menn hafa ítrekað reynt að koma í gegn heimild innan Evrópusambandsins um að miða eigi við laun í upprunalandi vinnuafls, ekk á því svæði þar sem vinnan fer fram. Valdamestu ríkin í Evrópusambandinu með Frakkland í broddi fylkingar hafa staðið gegn þessu. Þau hafa bent á það í málflutning sínum, að nái Frjálshyggjumenn sínu fram, jafngildi það að vinnumarkaður Evrópu taki hraðlest niður til þeirra kjara sem lægst eru á Efnahagssvæðinu. Það er einmitt það sem málsvarar forsvarmenn auðhyggjunnar vilja, svo þeir geti hámarkað arð sinn á kostnað hinna bláfátæku launamanna, og nýta sér ástand þeirra svæða þar sem atvinnuleysið er mest og kjörin lökust. Evrópuríkin stofnuðu með sér samband til þess að auka atvinnu og velmegun, okkur hefur orðið töluvert ágengt lífskjör fara batnandi. Við erum að berjast fyrir sjálfsvirðingu og atvinnuöryggi þannig að starfsmaðurinn geti horfst í augu við vinnuveitanda sinn ekki á skó hans.

Einn af sjóliðsforingjum Napóleons sagði honum þegar hann kom heim frá Loocho eyju að þar væru engin vopn. Napóleon furðu lostinn; “Hvernig í ósköpunum fara þeir að því að berjast?” Svarið sem Napóleon fékk var; “Þeir berjast aldrei, þeir eiga nefnilega enga peninga.”

Bush og skoðanabræður hans eru krossfarar nútímans og fara í skjóli ofstækisfullra trúarskoðana og eyða gífurlegum fjárhæðum í vopn. Þeir myndu ná mun lengra og meiri árangri í baráttu sinni gegn hryðjuverkum með því að byggja upp atvinnulífið og gera fátækum launamönnum kleift að berjast fyrir auknum réttindum. Staða bláfátæks fólks leiðir til vonleysis og reiði. Þar skapast frjósamur jarðvegur fyrir uppeldi hryðjuverkamanna. Þar er auðvelt að ná til ungs fólks sem býr í vonleysi láglaunasvæðanna og sannfæra það um nauðsyn óhugnanlegra hryðjuverka.

Í ævintýrinu um Lísu í Undralandi kemur hún að gatnamótum og spurði kött sem þar staddur; “Getur þú nokkuð verið svo vinsamlegur að segja mér hvaða leið ég á að fara?”
Kötturinn svaraði um hæl; “Já, það fer nú heilmikið eftir því hvert þú vilt fara.”
Lísa svaraði “Æi, það skiptir ekki svo miklu máli hvert ég fer!”
Þá svaraði kötturinn sposkur;” Nú, þá skiptir heldur ekki máli hvaða leið þú velur!”

Lífið er fullt af áskorunum og viðfangsefnum, til að ná árangri og lífsfyllingu verðum við að gera upp við okkur hvert viljum stefna. Of oft gerum við það án þess að leggja nokkurt mat á hvert við stefnum og hvað við þurfum að forðast. Hamingjan er ekki við næstu gatnamót og við þurfum ekki að fara langar leiðir til að finna hana. Hún er við hlið þér, felst í þeirri ákvörðun að njóta hennar.

Framtíðin er nokkuð sem maður nær með 60 mínútna hraða á klukkustund, sama hversu gamall þú ert. Ekki dreyma um framtíðina, hún gefur þér ekki hið liðna aftur, hún byrjar í næsta skrefi.

Sendi lesendum kveðjur um gleðileg jól.

Er óþægilegur sannleikur meiðyrði?

Á árinu 2005 áttu trúnaðarmenn og starfsmenn stéttarfélaganna ítrekað í útistöðum við starfsmannaleiguna Tvö lítil bjé. Yfirleitt enduðu þessar deilur með því að pólverjar sem voru hér á landi á vegum leigunnar flúðu frá leigunni yfir til þeirra fyrirtækja sem þeir störfuðu fyrir. Fyrirtækið og lögmaður þess höfnuðu alfarið að leggja fram launaseðla og fara að íslenskum lögum.

Fyrirtækið varð uppvíst að því að hafa í fórum sínum PIN númer bankareikninga starfsmanna sinna og fór þar inn og tók út fjármunu til greiðslu á einhverjum kostnaði sem forsvarsmönnum fyrirtækisins fannst að starfsmenn sínir ættu að greiða. Fyrirtækið var síðar dæmt til þess að endurgreiða umræddum starfsmönnum sínum um 2 millj. kr. hverjum, en þá var skipt um kennitölu og Tvö lítil bjé reyndust ekki eiga fyrir skuldum þannig að starfsmenn fengu ekki laun sín.

Fyrirtækið gekk endanlega svo kirfilega fram af starfsmönnum Rafiðnaðarsambandsins að það var ákveðið að birta fundargerð aðaltrúnaðarmanns og túlk hans á heimasíðu sambandsins þ. 23. okt. 2005.

Á fundinum voru nokkrir pólverjar, starfsmenn fyrirtækisins og forvarsmenn fyrirtækisins. Í fundargerðinni stendur m.a. “ Á fundinum staðfestu pólverjarnir að þeim hafi verið bannað af forsvarsmönnum 2b að hafa samband við trúnaðarmenn, einnig kom fram að þeir hefðu verið látnir samþykkja fyrir komuna hingað að þeir borguðu 500 dollara mánaðarlega til greiðslu kostanaðar á upphaldi þeirra hérna.“

Aðeins aftar; „en þegar þeir voru að byrja sitt starf komu þeir í fylgd forráðamanna 2b á verkstæðið og voru kynntir eins og manna er siður, til að leggja áherslu á hvernig 2b taldi að best væri að umgangast mennina lagði forstjóri 2b til við verkstjóra Suðurverks að ef pólverjarnir væru með eitthvað múður skildi hann bara lemja þá, því væru þeir vanir, að sjálfsögðu svaraði hann því til baka um hæl að þess háttar hegðun væri ekki stunduð á þessum vinnustað."

Aðeins aftar; „Það kom einnig fram á fundinum að Pólverjarnir telja að póstur þeirra sé skoðaður og lögðu fram aðvörunarbréf sem einn þeirra hafði fengið“

Aðeins aftar; „Þeim var skýrt frá því strax við komuna til Kef., þar sem forsvarsmaður 2b sagði við þá að ef þeir ekki stæðu sig í vinnu, tæki hann þá til Rvk þar sem þeir yrðu settir í hvaða vinnu sem er fyrir einn Usd á tímann og borguðu honum 80.000 USD sem væri sá kostnaður sem hann hafði þurft að bera vegna komu þeirra hingað yrði að fullu greiddur, sama gilti um ef þeir skemmdu einhver tæki, hvort sem það væri viljandi eða ekki.“

Aðeins aftar; „Einnig sögðu þeir að þeim hafði verið stranglega bannað að hafa samskipti við íslendingana, þar sem þeir litu á þá sem fyllibyttur og þjófa, en þeir hefðu vissulega komist að öðru, einnig að þetta hafi gengið svo langt að þeim hafi verið bannað að fara í sjoppu að kauða sígarettur.“

Tveir fréttamenn beggja sjónvarpsstöðvana höfðu svo samband við mig og spurðu mig út í þessa fundargerð. Ég svaraði þeim atriðum sem þeir lásu upp úr fundargerðinni og endurtók einnig að nokkru ræðu sem ég hafði flutt á ársfundi ASÍ. „Um alla Vestur Evrópu spretta nú upp fyrirtæki þar sem koma fram einstaklingar sem sjá möguleika á því að hagnast á því að nýta sér bága stöðu verkafólks úr Austur- Evrópuríkjum. Þessir dólgar setja upp búllur þar sem þeir bjóða þetta fólk til hverskonar starfa á niðursettu verði. Sumir þessara leigudólga velja sér starfssvið að flytja inn stúlkur og börn sem þeir selja í kynlífsþrældóm, aðrir velja sér það starfssvið að nýta sér stöðu bláfátækra atvinnulausra fjölskyldufeðra og leigja þá til vinnu á vesturlöndum. Þar er hirt af þeim mörg þeirra félagslegu réttinda sem þeir eiga rétt á og eins er hluta af launum þeirra.

Aðferðir og viðhorf þessara dólga eru nákvæmlega þær sömu og framkoman við þetta fólk er hin sama. Hugsunarháttur þessara manna er nákvæmlega hinn sami, gildir þá einu hvort sviðið þeir velja. Fólkinu eru settir afarkostir, ef það fer ekki í einu og öllu eftir því sem leigudólgarnir vilja, þá glatar það tilverurétt og er komið í óviðráðanlegar fjárhagslegar skuldbindingar við dólgana
."

Lögmaður fyrirtækisins fór mikinn í Sjónvarpinu úthúðaði stéttarfélögum og starfsmönnum þeirra og hótaði mér meiðyrðamáli. Hann er tíður gestur í Sjónvarpinu sem álisgjafi um þau mál sem hann sjálfur flytur. Svo 8 mánuðum síðar að mér var stefnt og þ. 16. marz 2006 féll dómur um að mér gert að greiða forsvarsmönnum fyrirtækisins og lögmanni þess samtals 1.5 millj. kr. Fyrir dóminn höfðu komið tveir verkstjórar, ásamt trúnaðarmanni og túlki og staðfest að allt sem fram hafði komið um hátterni forsvarsmanna fyrirtækisins væri rétt.

Í svari mínu um orðið dólgur sagði ég; „Það væri algengt orð í íslensku og notað yfir fólk sem væri með yfirgang gagnvart öðrum. Fólk sem hrifsaði til sín gæði sem væru eign annarra. T.d. flugdólgur, sem hrifsaði til sín frið annarra flugfarþega, dólgur í umferðinni væri lýsing sem allir skyldu hvað þýddi og þannig mætti lengi telja.“

Ef maður lítur til dóma t.d. um hrottafengnar hópnauðganir þá er það smáræði í augum dómara í samanburði við að forsvarsmaður hagsmunasamtaka reynir að svara fyrir félagsmenn sína í fjölmiðlum. Lögmaður fyrirtækisins hefur í fjölmiðlum í innrömmuðum greinum á áberandi stað í aðalblaðinu, ausið svívirðingum yfir fólk sem er ekki sammála öfgakennum frjálshyggjusjónarmiðum hans, m.a. kallað það eitthvert vinstra lið, Talibana og fleira.

Þegar lögmenn og forsvarsmenn fyrirtækja verða uppvís að óeðlilegri framkomu við starfsmenn sína, er okkur starfsmönnum stéttarfélaganna gert að sitja undir alls konar hótunum, upphrópunum um að við förum með lygar og bornar á okkur allskonar sakir. Allt er gert að ekki komist hið sanna fram, reynt er að koma vitnum úr landi svo ekki sé hægt að upplýsa mál. Borið fé á starfsmenn gegn því að þeir segi ekki sannleikann, þeim hótað öllu illu þegar þeir komi heim til sín.

En þegar mál vinnast gegn fyrir dómstólum og í ljós kemur að allar þær ávirðingar sem við máttum sitja undir voru ósannyndi þá gera fréttamenn ekkert, nákvæmlega ekkert.

Ekki höfðu fréttamenn fyrir því að fara yfir þær forsendur sem urðu til þess að þeir komu heim til mín og spurðu út í fundargerðina, þegar þeir fjölluðu um dóminn. Nú er svo komið að fólk þorir ekki að koma fram í fjölmiðlum nema undir nafnleynd. Skyldi nokkurn undra. Það má ekki segja sannleikann.

Ég féllst á að rita pistla hér á Eyjunni um hugarefni mín. Margir hafa komið til mín undanfarnar vikur og spurt; "Hvernig þorir þú þessu Guðmundur?" Þegar við vorum að fást við Rússana sem reistu síðustu Búrfellslínuna, kom einn þeirra þeirri athugasemd á framfæri; "Er ekki hægt að stinga þessum kolbrjálaða formanni Rafiðnaðarsambandsins inn á meðan við klárum að reisa línuna?"

Er það þetta það þjóðfélag sem við viljum? Alla vega höfnuðum við tilraunum stjórnvalda í að hefta málfrelsið fyrir nokkru þegar Fjölmiðlalögunum var hent út í hafsauga. En stjórnvöld hafa svarað með því að raða inn dómurum sem þeim eru þóknanlegir á öll dómstig.

Maður er hættur að greina hvar í Sovétinu við erum stödd. Ég sá mig alla vega tilneyddan til þess að segja mig úr þeim stjórnmálaflokk sem ég var alinn upp í og sat í borgarstjórn fyrir.

laugardagur, 22. desember 2007

Enn falla ráðherrar á prófinu

Umboðsmaður Alþingis hefur gagnrýnt stjórnvöld fyrir að þau fari ekki að lögum Hann sagði nýverið að nær þriðjungur laga sem stjórnvöld legðu fram væru í andstöðu við lög sem fyrir væru, jafnvel í sumum tilfellum stjórnarskrána.

Við höfum einnig upplifað það að ef niðurstöður ráðgefandi nefnda eru ekki í samræmi við það sem ráðherrar telja rétt, þá er það nefndin sem vann ekki rétt. Hér er um að ræða nefndir sem samkvæmt lögum og reglum eiga að gefa úrskurð, nefndir skipaðar góðu og hæfu fólki. Fólki sem vinnur störf sín af mikilli kostgæfni og nýtur virðingar almennings, og var örugglega sett í nefndina af þeim sökum.

Við almenningur í landinu verðum að lúta niðurstöðum nefnda og embættismanna. Jafnvel þó okkur finnist niðurstaðan vera arfavitlaus. Hvers vegna gildir ekki það sama um ráðherra? Það var ekki fyrr en 80% þjóðarinnar var búinn að rísa upp og krefjast þess að ráðherrar færu að lögum sem þeir bökkuðu í Eyjabakkamálinu, sama var upp á teningunum í Fjölmiðlamálinu. Ráðning dómara mun vitanlega ekki skapa jafnstóra öldu, en það er sama. Klárlega er það sömu 80% þjóðarinnar sem er finnst sér misboðið.

Það er full ástæða til að geta þess að ég þekki ekki umræddan mann sem skipaður var, og hef nákvæmlega ekkert út hann að setja. Ég þekki Björn nokkuð og ber virðingu fyrir honum og hans störfum, sérstaklega eftir að hann var menntamálráðherra. Ég hef starfað töluvert á menntasviðinu og er þeirrar skoðunnar að hann hafi verið einn langbesti menntamálaráðherra sem við höfum haft. Reyndar virðist Þorgerður stefna í að ná jafnlangt.

Málið snýst ekki um þessar persónur, hún snýst um að ráðherrar verða að láta af þessum vinnubrögðum.

föstudagur, 21. desember 2007

Áramótaskaup á Keflavíkurflugvelli

Þegar varnarliðið fór fengum við íslenskur almúgi gefins allar húseignirnar á vellinum. Forsvarsmenn Þórunnarfélagsins mættu í fjölmiðla og lýstu því fjálglega hversu glæsilegar og velbúnar íbúðir þeim hefði áskotnast. Við vorum nokkrir sem bentum á að þetta væri nú ekki endalaus alsæla og raðfullnæging, því t.d. þyrfti að endurnýja allar raflagnir og allt dreifikerfið. Sama gilti um öll raftæki í íbúðunum. Við bentum á að væri miðað við þekktar þumalputtareglur þá væri kostnaður vegna þessa ekki minni en um 3 milljarðar. Til okkar sauðsvarts almúgans litu Menn með þjósti og forundran og hreyttu út úr sér; „Kaninn hefur notað þetta árum saman, hvers vegna er það ekki nógu gott fyrir okkur?“

Rafmagnseftirlitið fór suður eftir og staðfest allt sem við sögðum í nóvember 2006 og sagði að ekki kæmi til greina að flutt væri inn í íbúðirnar fyrr að loknum lágmarksviðgerðum. Það var litið til þeirra af Mönnum með háðskum valdsmannssvip og auglýstar glæsilegar og velbúnar íbúðir fyrir ungt fólk.

Þegar komið var að því að unga fólkið flytti inn, var Þróunnarfélaginu bent á niðurstöðu Rafmagnseftirlitsins og það væri einfaldlega endanleg niðurstaða og framhjá henni væri ekki gengið. Þá tóku Menn leigubíl til Reykjavíkur og drukku morgunkaffi með ríkisstjórninni og pöntuðu bráðbirgðalög, sem voru gefin út eftir að búið var að renna niður súpunni í hádeginu.

Forsætisráðherra mætti svo í viðtal svaraði spurningu fréttamanns um hvernig á þessu stæði með því að segja; „Þetta er smámál sem tekur því ekki að tala um.“ Viðskiptaráðherra stóð gleiðfættur í fyrir framan sjónvarpsvélarnar dró annað augað í pung hellti úr eyrunum og sagði; „Við ætlum sko ekki að standa gegn uppbyggingu á Suðurnesjum.“ Almenningur horfði undrandi á og spurði; „Var einhver að tala um það?“

Verið var að brjóta allar gildandi jafnræðisreglur hér á landi og á Evrópska efnahagssvæðinu með því að kippa öllum rafmagnsreglugerðum úr sambandi fyrir einn aðila og spara honum þar með útgjöld upp á 3 milljarða. Auk þess var það hitt smámálið að öryggi 350 fjölskyldna var ýtt til hliðar fyrir hagsmunum Manna. Þrónnnarfélagið hafði haft vitneskju um það í 8 mánuði að endurnýja þyrfti allar raflagnir á svæðinu en ekkert gert, og þrátt fyrir þessa vitneskju auglýstu íbúðirnar á fölskum forsendum og gefið vísvitandi rangar upplýsingar í viðtölum og auglýsingum.

En alvaran náði þó að hluta til upp á borð Manna og þeir ruku af stað og fengu alla rafvirkja sem fundust helgina áður en byrjað var að flytja inn í íbúðirnar til þess að hefja lágmarksviðgerðir. Unnið var dag og nótt til þess að bjarga því sem bjargað yrði. Á meðan á þessu stóð var sendur í viðtal til Sjónvarpsins verkfræðingur sem hefur starfað við bandarískar raflagnir í rúman áratug og látin segja; „Það er nú svo sem ekki stórhættulegt að búa við bandarísk rafkerfi.“ Hann sýndi svo í beinni útsendingu hvernig hann fór að því að stinga hárþurrku í samband við evrópska tengla. Forsvarsmaður Þróunnarfélagsins mætti einnig í útvarpsviðtal og lýsti því yfir að formaður Rafiðnaðarsambandsins væri asni og vissi ekkert um rafmagn.

Þróunnarfélagið seldi svo þær eignir sem alþjóð fékk gefins frá Bush til ákveðinna Manna, samningar voru faldir í skúffum. Það er eins og við vitum svo vel venjan hjá íslenskum valdamönnum þegar þeir meðhöndla eigur íslensks almúga. Þetta tíðkast ekki hjá þjóðum sem telja sig búa við opið lýðræði. Eftir mikinn hasar í fjölmiðlum og endalaust vesen í einhverjum leiðinlegum lögfræðingi sem náði kjöri inn á Alþingi í vor, þá urðu Menn að taka samningana upp úr skúffunum og sýna þá.

Þó við höfum einungis fengið að sjá samninga fyrir hluta af eignum okkar, þá kemur þar fram að gert er ráð fyrir að kostnaður vegna lagfæringa á rafmagni fyrir þær eignir verði 2 milljarðar. Hvað verður sú upphæð þegar allt verður talið?

Hvorir eru meiri asnar almenningur eða Menn?

fimmtudagur, 20. desember 2007

Staksteinn upplýsir okkur um fákunnáttu sína í efnahagsmálum

Í Staksteinum dagsins er enn einu sinni reynt að gera lítið úr Stefán Ólafssyni prófessor. En eins og lesendur vita þá vann hann það sér til saka að benda á að sú frjálshyggjustefna sem stjórnvöld hafa unnið eftir undarinn áratug hafi skilað meiri auð til hinna ríku en hinir lakast settu séu í verri stöðu.

Stefán hefur sýnt fram á með óyggjandi hætti hvernig skattastefna frjálshyggjunnar hefur lækkað stöðu þeirra sem minnst mega sín, sem hefur falist í því að fella niður hátekjuskatt og síðan flata lækkun á tekjuskatt, og lágum fjármagnstekjuskatt hafi skilað miklum skattaafslætti til tekjuháa hópsins, en í litlu sem engu til tekjulægsta hópsins. Þar sem svo hlutfallslega lítill hluti tekna þeirra liggi fyrir ofan skattleysismörk. Til þess að tryggja að þessi hópur hafi það nú örugglega nógu slæmt hefur frjálshyggjan að auki látið skerðingarmörk sitja eftir í verðlagsþróun, þannig að óbeinir skattar þess hópa hafa vaxið á sama tíma.

Málsvarar frjálshyggjunnar hafa skrifað raðgreinar í fjölmiðla þar sem þeir sverja þetta af sér og reyna með öllum hugsanlegum hætti að fela efnahagstefnu sína. Þessari stefnu fylgja Staksteinar dyggilega með því að snúa því upp hvort Stefáni líði betur núna eftir að nokkir auðmenn eru búnir að tapa umtalsverðu fjármangi á falli verðbréfa. Hvers lags máflutningur er þetta? Þvílík lágkúra.

Þetta er svo fjarri því það sem Stefán hefur verið að fjalla um, það vita þeir sem skilja þó ekki væri nema pínulítið í efnhagsstjórn og kunna margföldunartöfluna upp í 10. Staksteinn er greinilega ekki í þeim hóp. Það væri hugsanleg skýring að hann sé blindaður af pólitísku ofstæki.

Þetta er á sama plani og þegar Ísland stóð í efsta sæti í lífsgæðum nýverið, varð það til þess að málsvarar frjálshyggjunar reyndu að leggja það út á þann veg að það væri sakir þess að við stæðum utan ESB. Þetta er svona álíka fjarstæðukennt og að þeir sem standa í smákökubakstri þessa dagana reyndu að nota lofvog til þess að mæla hveitið í kökurnar.
n upplýsir hversu illa að sér hann er í efnahagsmálum.

miðvikudagur, 19. desember 2007

Ámælisvert áhugaleysi á efnahagsstjórn

Forysta launaþegasamtakannna ákváðu fyrir nokkru að skoða vel tillögur Vilhjálms Egilssonar framkv.stj. SA um krónutölu hækkun taxtakerfisins og launatryggingu, þá í því ferli að landssamböndin gætu haft meira samstarf um aðkomu að endurnýjun kjarasamninga. Niðurstaðan varð sú að ef markmið ættu að nást, væri það ekki nema eftir tveim leiðum. Sú fyrri að gera töluvert hærri kröfur um launakostnaðarauka fyrirtækjanna eða þá fara fram á aðkomu ríkisstjórnarinnar. Ef fyrri leiðin væri farin lægi fyrir aukinn hætta á hækkandi verðbólgu og vöxtum. Kaupmáttur myndi þá minnka og staða skuldsetra heimila versnaði.

Þessi niðurstaða var kynnt ríkisstjórninni þ. 12. des. ásamt þeim leiðum sem hagdeild ASÍ taldi færasta. Það var að stjórnvöld beitti sér í að dregið yrði úr skattbyrði þeirra tekjulægstu, vaxtabótakerfið yrði leiðrétt, staða barnafjölskyldna yrði treyst með því að hækka skerðingarmörk baranbóta og komið til móts við aukna greiðslubyrði húsnæðislána. Bætt yrðu menntaúrræði þeirra sem minnsta menntun hafa og lágmarks bótafjárhæðir velferðarkerfisins verði miðaðar við 150.000 kr.

Forysta samtaka launamanna vildi fá svör frá stjórnvöldum í byrjun þessara viku, þar sem það réði alfarið hvrot aðilar héldu áfram á þessari braut eða stilla þyrfti strengina upp á nýtt. Það væri launamönnum keppikefli að ná sem lengst í að ná saman samningum fyrir áramót. Það lá fyrir ef viðbrögð stjórnvalda yrðu neikvæð þá væri þessi tilraun tilgangslaus, og hvert samband myndi fara fram með sínar kröfur.

Það var ekki fyrr en seinni partinn í dag sem svör bárust frá stjórnvöldum. Þau vildu taka sér tíma fram yfir áramót til þess að bregðast við tillögum launaþegasamtakannna. Þá verði að öllum líkindum reynt að finna sameiginlegar leiðir til að ná markmiðum.

Um hádegi í dag var fundi forystumanna ASÍ slitið og menn ætluðu að fara að undirbúa samninganefndir til þess fara á byrjunareit. Það er eiginlega ekki hægt annað en að segja að áhugaleysi stjórnvalda á stöðu þeirra sem lakast hafa það á vinnumarkaði í dag og þá ekki síður virkri efnahagsstjórnun er ekki ásættanleg.

Það er svipað og flytja kirkjugarð að fá stjórnvöld í lið með launamönnum, innri aðstoð er ekki til staðar.

Rafkonur með hærri laun en rafkarlar

Vegna frétta undanfarinn sólarhirng um að Akureyri sé fyrst til þess að ná jafnrétti í launum, þá stenst ég ekki að birta niðurstöður könnunar sem Capacent gerði fyrir Rafiðnaðarsambandið um laun félagsmanna. Capacent gerði könnun í sept 2006 og svo aftur í ág. 2007.

Umtalsverð fjölgun hefur verið í Rafiðnaðarsambandinu á undanförnum misserum ein so görðum stéttarfélögum á almennum markaði. Einnig fjölgar þeim sem eru að ljúka sveinsprófum verulega. Rafiðnaðarmenn eru í dag um 6000 þar af eru 13% þeirra konur.

Ef við tökum rafiðnaðarmenn með sveinspróf eða meira og berum saman laun kynjana kemur í ljós að rafkonur eru með 2.6% hærri laun en rafkarlar.

Regluleg laun ág. 07
Rafkarlar 337 þús. kr.
Rafkonur 352 þús. kr.

Mismunur er 18% rafkonum í hag.

Í þessu sambandi er ástæða að geta þess að það eru engar konur í ákvæðisvinnu. Dagvinnutaxtar í ákvæðisvinnu er í lægri kantinum, en þegar verkin eru gerð upp og það leiðir einfaldlega til þess að bónusinn verður hærri sem svo aftur veldur því að daglaunamunur leiðréttist við heildaruppgjör.

Ef heildarvinnutími er skoðaður staðfestist það sem áður hefur komið fram í könnunum innan RSÍ, að rafkarlar skila að jafnaði lengri vinnudegi en konur.

Heildarvinnust. ág. 2007
Rafkarlar 192,2 tímar
Rafkonur 177,1 tímar


Heildarlaun
Rafkarlar 409 þús. kr.
Rafkonur 399 þús. kr.

Meðaltímalaun
Rafkarlar 2.032 kr.
Rafkonur 2.085.
Mismunur er 2.6% rafkonum í hag

Rafkarlar skila að meðaltali 10 vinnustundum lengri vinnumánuði. Heildarvinnustundir rafiðnaðarmanna í september voru að meðaltali 199,3 stundir og meðalvinnuvika er 46,03 stundir.

Ef bæði kynin hefðu unnið jafnan tíma hefðu karlarnir haft 404.978 kr. í laun fyrir septembermánuð en konurnar 415.541 kr. Raunmunur á launum er því sá að rafkomnur eru með 2.6% hærri laun er rafkarlar

Í öllum launakönnunum sem starfsmenn RSÍ hafa gert í gegnum árin hefur komið fram að það væri engin launamunur milli rafkvenna og rafkarla.

Í öllum tilfellum er um að ræða rafiðnaðarmenn í fullu starfi.

þriðjudagur, 18. desember 2007

Níu litlir sendiherrar

Það var harla einkennilegt að hlusta á umræðu margra fylgismanna fráfarandi ríkisstjórnar þegar sem þeir höfnuðu alfarið að ræða á málefnanlegan hátt um stöðu íslensks þjóðfélags á annan hátt en að allt væri hér í besta lagi. Ísland væri hin fullkomna glansmynd og þetta fólk brást reitt við ef bent væri á eitthvað sem bætur mætti fara og lagðar fram skýrslur frá viðurkenndum aðilum sem sýndu að við værum ekki á réttri leið eða gera mætti betur.

Herfilegar ófarir í Eyjabakkamáli, Fjölmiðlamáli og Eftirlaunafrumvarpi. Þessa daga er verið að fjalla um ráðningar 9 sendiherra. Þjóðin stóð undrandi og horfði á þegar helstu gæðingum var sópað inn í efstu þrep embættismannakerfisins og m.a. gerðir að sendiherrum. Nú er komið fram, eins og reyndar alþjóð benti á þegar þessir makalausu gjörningar stóðu yfir, að við hefðum ekkert með þessa menn að gera. En það var reynt að búa til pláss með því að hækka embættismenn í tign og þeim svo sagt upp daginn eftir. Þetta var aðferð til þess að skapa viðkomandi „viðunandi“ eftirlaun, sem voru reyndar hærri en viðkomandi hafði haft og fá hann til þess að hætta svo nýir sendirhherrar hefðiu eitthvað gera.

Maður er eitthvað svo óendanlega gáttaður á hvaða plani þessir menn eru á. Hvað þeir rígsperrtir buðu þjóðinni upp á. Engin þorir að tala undir nafni um þessi mál af ótta við hefndir.

Fráfarandi ríkisstjórn tókst ekki að skapa sama stöðugleika verðlags og velferðar hér á landi og er í samkeppnislöndum okkar. Nú er unnið að því hörðum höndum að stuðla að því að verðbólga festist ekki í háum tölum og að koma vöxtum í svipað horf og annarsstaðar. Góð staða þjóðarbúsins er að stærstum hluta til reist á gífurlegri veltu sem skapaðist af miklum viðskiptahalla og olli miklum skatttekjum. Auk þess af sölu fyrirtækja í eigu ríkisins. Hvik staða efnahagslífsins getur leitt yfir okkur geysilegan vanda og erfið ár.

Jarðsprengjur útbúnar sem leikföng

Þegar jólin nálgast verður maður meir og um hugan renna ýmis atvik tengd fólki sem býr við ömurlegar aðstæður. Hún er skelfileg sú óendanlegu grimmd sem virðist ráða för hjá mörgum þeirra sem virðast hafa það eitt að markmiði að meiða fólk. Núverandi forseti Bandaríkjanna og það hyski sem hann hefur í kring um sig á stóran þátt í hvert þessi mál eru komin.

Ég lenti fyrir nokkru inn á átakanlegri sýning á jarðsprengjum í Osló. Þar var farið yfir hinar skelfilegu afleiðingar sem þær valda. Langmesta mannfall vegna stríðsaðgerða er vegna jarðsprengja, og það bitnar að langmestu leiti á saklausu fólki sem er að vinna sín störf eða þá börn að leik. Stríðherrar og glæpaflokkar strá þessum ófögnuði í kring um búðir sínar, jafnvel þó þeir stöðvi ekki nema næturlangt

Ef fólk ferst ekki við að stíga á sprengju, þá missir það einn eða fleiri útlimi og verður örkumla. Norræna verkalýðshreyfingin með norska alþýðusambandið í broddi fylkingar rekur umfangsmestu aðstoð í heiminum við það fólk á sem verður fyrir barðinu á jarðsprengjum og eru einnig með umfangsmikla leitarflokka sem leita uppi jarðsprengjur.

Það er hreint skelfilegt að horfa upp á hugmyndaflug framleiðenda jarðsprengjanna, Miklu fjármagni er varið í að finna leiðir til að dulbúa þær, ma. er hægt að kaupa jarðsprengjur sem eru búnar út eins og leikföng!!

mánudagur, 17. desember 2007

Íslenska heilbrigðiskerfið á krossgötum

Rúnar Vilhjálmsson prófessor í heilsufélagsfræði við Háskóla Íslands hefur ritað áhugaverðar greinar í Morgunblaðið um hvernig heilbrigðiskostnaði er miskipt milli þjóðfélagshópa. Rúnar hefur staðið að tveimur heilbrigðisrannsóknum. Í rannsóknum kemur fram veruleg útgjaldaaukning einstaklinga vegna heilbrigðisþjónustunnar. Þessi útgjöld námu 1% af vergri landsframleiðslu árið 1987 og hafa aukist verulega, voru 1.7% árið 2004.

Þótt við séum með félagslegt heilbrigðiskerfi til að jafna út kostnaðinn hefur ekki tekist að jafna kostnaðarbyrðar milli þjóðfélagshópa. Það hallar á hópa sem síst skyldi eins og öryrkja og aldraða og þá sem lægstar tekjur hafa. Hér er um að ræða þá sem ekki hafa vinnu og lágtekjufólk sem hefur misst maka.

Til þess að styrkja félagslega heilbrigðiskerfið þarf að efla almannatryggingarkerfið með það fyrir augum að lækka lyfjakostnað og komugjöld sjúklinga. Einnig þarf að styrkja heimilislæknakerfið og heilsugæslustöðvarnar. Efla nýtingu afsláttarkorta og lyfjaskýrteina og auka nálægð þjónustunnar.

Í rannsóknum hefur komið fram að almenningur styður hið félagslega heilbrigðiskerfi og lítill stuðningur við aukinn einkarekstur. Það virðist vera að lítill hópur frjálshyggjumanna hafi of mikil áhrif hér á landi, hann hefur alla vega ekki stuðning umtalsverðs meirihluta landsmanna og ég leifi mér að fullyrða að hann hefur heldur ekki fullan stuðning sjálfstæðisnanna.

En forsvarsmenn þessa hóps eru ekki til viðtals nema á kjördag og senda kjósendum tóninn ef þeir voga sér setja fram óskir um hvernig þeir sinni störfum sínum. En það ber aftur á móti ekkert á stefnu þeirra dagana fyrir kjördag.

Á þeim fjölmörgu fundum sem ég hef sótt í haust, er ákaflega áberandi umræða um þá miklu hagræðingu sem hefur átt sér stað í heilbrigðiskerfinu á undanförnum áratug. Ekki hefur verið staðið að uppbyggingu hjúkrunarheimila í samræmi við fjölgun aldraðra, deildum hefur verið lokað á spítölum vegna hagræðingar og þannig mætti lengi telja. Stjórnvöld staðið að umfangsmikilli hagræðingu með fyrir stórfelldum á kostnaði yfir á heimilin.

Íslenska heilbrigðiskerfið er á krossgötum, sú sátt sem ríkt hefur um það er að renna sitt skeið á enda. Ein aðalkrafa yfistandandi kjarasamninga er Þjóðarsátt um að bæta kjör hinna verst settu .Þar ber hæst að ríkistjórninn skili tilbaka það sem hún hefur haft af fólki á lægri launastigum með því að breyta skerðingarmörkum þannig að þau fylgja ekki verðlagsþróun.

Krafa er um ríkisstjórnin tryggi hinum verst settu betri stöðu og skili 14 milljörðum tilbaka, þar á meðan þeim 3 milljörðum sem ríkistjórnin hafði af fólki með því að lækka vaxtabætur, hún lækkaði barnabætur um 2 milljaðra og þanning mætti lengi telja. Ljótastur er ferillinn hvað varðar félagslegar íbúðir og hjúkrunarheimili öryrkja og aldraðra. Þessi þróun samræmist ekki réttlætiskennd okkar.

sunnudagur, 16. desember 2007

Ídol stjarna dæmd

Sársauki hefur öðlast sérstöðu í menningarheimi okkar. Blaðamenn og stjórnendur spjallþátta leita ákaft eftir sársauka viðmælenda. Raunveruleikasjónvarpið fjallar um þjáningar, andlegan sársauka og niðurlægingu. Kvöld eftir kvöld sitjum við fyrir framan sjónvarpið og fylgjumst með niðurlægðu fólki, sem grátandi brotnar undan sársaukanum. Við stökkvum fram og skellum poppi í örbylgjuna, meðan auglýsingarnar renna í gegn, svo við missum ekki af næsta niðurbroti. Glanstímaritið er á náttborðinu og lýsir framhjáhaldi, misnotkun eiturlyfja, missi sona og dætra. Ævisagan með kynferðislegu ofbeldi bíður eftir því að verða tekinn með í bústaðinn.

Þjáningar eru neysluvara dagsins. Hvað gerist þegar við fáum leið á kynferðislegu ofbeldi? Hvar verða mörk sársaukans? Verðum við skeytingalaus fyrir óförum annarra? Hvað skemmtir okkur þá? Allt er til sölu, kynferðislegt ofbeldi jafnt og vinnuframlag blásnauðra fjölskyldufeðra.

Aggressív fréttamennska er nauðsyn nútímaþjóðfélagi, en hún er vandasöm. Hún snýst ekki um sársauka einkalífs eða niðurlægingu. Hún er ekki spuni sem breytir þjáningum fólks í peninga.

Er ástæða til þess að birta fréttir af óförum samferðafólks okkar, þar sem þeim er lýst á sama hátt og fótboltastjarna skori glæsilegt mark. Einn okkar förunauta hefur orðið undir og er dæmdur til fangelsisvistar. Hann á móður, ástvini og börn, þau lesa blöðin. Hann varð undir í baráttu við ákveðnar fíknir. Er það fagnaðarefni, skoraði hann glæsilegt mark?

Er ástæða til þess að fjalla um það með þessum hætti. Ég vildi frekar sjá fréttir á borð við þegar Joe Walsh snjöllum gítarleikara Eagles sagði á tónleikum í Melbourne. “Ég hef bara einu sinni dottið í það, en það fyllerí stóð reyndar yfir í 20 ár.” Við vissum það öll, hann er líka svo brensalegur, en hann gerir okkur öllum kleift að tala um það. Við vitum að hann hefur náð tökum á fíkn sinni og samfögnum honum.

Gefum Ídolstjörnunni svigrúm til þess að takast á við sín mál og ástvinum hans tækifæri til þess að standa við hlið hans.

Tófan vogar sér sífellt nær þéttbýli

Tófan er farinn að rápa um húsgarða í þéttbýli segja fréttir. Rebbi hefur fengið frið og gengur á lagið. Rjúpu fækkar, skyttur bölva og jólavenjur eru í hættu. Skolli er klókur og duglegur að bjarga sér, fjölgar sér hratt sé til þess svigrúm.

Þessa þróun hefur maður séð um alllangt tímabil í ferðum um Hornstrandir. Melrakki hefur áttað sig á að honum er ekki bráður bani búinn nálgist hann manninn. Frekar að nálægðin sé launuð með góðum bita og kátum kveðjum. Nú er svo komið þegar sest er við tjaldskörina að kvöldi við eldamennsku, kemur Rebbi og sníkir bita og fær fagnandi móttökur, en lætur ekki þar við sitja bölvaður. Ganga þarf vel frá vistum að kvöldi inn í tjaldi, annars stelur Skuggabaldur því yfir nóttina. Gaggandi sendir hann tjaldbúum kveðjur úr hlíðinni ofar tjaldstæði.

Ef gengið er til veiða verður að huga að heildstæðri mynd. Ekki verður einn hluti keðjunnar veiddur og svo undrast að hlutföll raskist. Ef veiddar eru tilteknar tegundir í hafi, en aðrar látnar eiga sig, þá fjölgar þeim og hlutföll raskast.

Dýrbíturinn er mun duglegri en við til veiða. Fjölgar sér og sækir ekki bara í fuglinn tekur einnig eggin. Að því loknu sækir hann til byggða, hann er fallegur, það er rjúpan líka.

föstudagur, 14. desember 2007

Ræðan hans Péturs Blöndal

Fulltrúar ASÍ hafa kynnt tillögur í samhengi við endurnýjun kjarasamninga um hvernig stjórnvöld gætu liðkað fyrir komandi kjarasamningum. Allt tillögur sem hafa komið fram áður og beinast nánsat allar að því að auka ráðstöfuntekjur lægst launaða fólksins, hvort sem það eru launamenn eða bótaþegar. Áður hafa komið fram tillögur um 15% skattaþrep á tekjur undir 200 þús. kr., sem sjálfstæðismenn algjörlega hafnað. Nú leggur verkalýðshreyfingin fram hugmynd um að sett verði inn sértækur persónuafsláttur, sem lyftir skattleysismörkum upp að 150 þús. og deyr út við 300 þús. kr.

Auk þess hefur verkalýðshreyfingin lagt fram tillögur um hvernig megi aflétta þeim fátæktargildrum sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur búið til með því að lyfta ekki skerðingarmörkum í bótakerfinu í samræmi við verðlagsþróun. En það bregst ekki ef verkalýðshreyfingin lætur í sér heyra þá stormar fram á völl fréttastofanna formaður efnahagsnefndar Pétur Blöndal, tekur viðtöl við sjálfan sig. Fer mikinn og slær um sig með allskonar sleggjudómum og yfirlýsingum, og það helst að verkalýðshreyfingin sé með óþolandi frekju. Pétri til upplýsingar er verkalýðshreyfingin í sinni einföldustu mynd að fara fram að þeir sem hafi verið í ríkisstjórnum síðustu kjörtamabil skili til baka þeim fjármunum þeir hafa með skerðingum haft af þeim sem minnst mega sín.

Pétur tekur einungis tillöguna um sértæka persónuafsláttinn og sleppir viljandi öðrum tillögum m.a um barnabætur, vatxatbætur ofl. Hann gætir þess að minnast ekki á að með tillögum verkalýðshreyfingarinnar þá aukist ráðstöfunartekjur hjóna með 2 börn og 300 þús. samanlagðar tekjur um 40 þús. kr. á mánuði. Tilviljun eða viljandi gert, dæmi hver sem vill. En í raun er Pétur að skýra þetta sem nýja fátæktargildru.

Pétur flytur ár eftir ár sömu ræðuna, um það sé hann sem hafi á kjördegi verið kosinn til þessa starfs og hann vilji ekki vera truflaður fram að næsta kjördegi. Það sé hann sem setji lög í þessu landi ekki verkalýðshreyfingin.

Þetta kallar Pétur, eins smekklega eins og honum er einum lagið, að launamenn í landinu séu að hrifsa völd frá þingmönnum og ætli að taka sér sjálfdæmi við að breyta landslögum. Ég hef ekki heyrt nokkurn mann í verkalýðshreyfingunni segja þetta. En það eru vel þekkt vinnubrögð hjá óvönduðum stjórnmálamönnum, að gera andstæðingum sínum upp skoðanir og úthúða þeim svo á grundvelli hinna uppgerðu skoðana.

Ræða Péturs er ósmekkleg. En fréttastofur bjóða okkur landsmönnum upp á að hlýða á þennan boðskap ítrekað reglulega árum saman. Pétri til upplýsingar þá er í verkalýðshreyfingin samansett af 100 þús. kjósendum og skattgreiðendum. Þetta er fólk hefur sem betur fer stjórnarskrárvarinn rétt til þess að hafa skoðun á því hvernig landinu er stjórnað alla daga ársins, ekki bara einn dag á fjögurra ára fresti.

Pétur og félagar gerðu reyndar tilraun til þess að taka þennan rétt af okkur fyrir nokkru með því að rúlla í gegnum Alþingi fjölmiðlalögunum alræmdu. Pétur er starfsmaður okkar og við borgum honum laun, ekki öfugt. Reyndar er ástæða til þess að benda á að á kjördag heyrist ekki múkk um þessi mál frá Pétri.

Í máli Péturs hefur oft komið fram, hann þoli bara alls ekki að því "jafnvægi" (lesist þeir ríku verði stöðugt ríkari og þar komi að borð þeirra verði svo yfirhlaðin að molar hrynji til fátækra), sem hann og tiltekinn hópur þingmanna hafi komið á sé raskað. Þeir sem hafi það slæmt eiga að hafa það áfram slæmt, annars missi þeir sjálfsbjargarviðleitnina. Það sé ekkert vandamál að lifa af 90 þús. kr. tekjum, það hafi hann sannreynt. Það eina sem maður þurfi að gera er að eiga skuldlausa íbúð og sparifé á bankabók, þá sé ekkert vandamál að lifa af þessum tekjum.

Það er reyndar einkennilegt og reyndar ótrúlega óábyrgt, að á mjög viðkvæmu stigi kjaraviðræðna aðila vinnumarkaðs og samstarf við ríkisstjórn skuli formaður efnahagsnefndar endurtekið viðhafa vinnubrögð sem þessi. En Pétur passar upp á sína.

fimmtudagur, 13. desember 2007

Raflínur í jörð - Froðusnakk



Allir þingmenn í umhverfisnefnd Alþingis vilja að skipuð verði nefnd til að móta stefnu um það hvernig leggja megi allar raflínur sem nú eru ofanjarðar í jörð á næstu áratugum.
Þeirri stefnu hefur verið fylgt alllengi hér á landi að línur í fjölbýli eru settar í jörð, þar er t.d. geysilegur munur á íslenskum bæjum og t.d. bandarískum og við sáum það líka á Keflavíkurflugvelli. Staurar með línum, strengjum, símaköplum o.fl. hangandi í einni bendu.

Einnig hefur verið í gangi um allangt skeið skipulegt átaka að fella línur í sveitum landsins og koma strengjum í jörðu. Í dag fer maður í gegnum heilu sveitarfélögin án þess að sjá loftlínur, sérstaklega á Norðurlandi. Enda er svo komið að það er orðið frekar fátítt að stórir hlutar landsins verði rafmagnslausir, eins var reglulegt nokkrum sinnum á hverjum vetri fyrir ekki svo mörgum árum.

Það kom fram í umræðum í vor þegar stækkun álversins í Straumsvík var rædd, að til stæði að setja háspennulínurnar í jörðu síðasta spottann, en kostnaður var svo mikill að það yrði ekki gert nema með því að setja það inn í samning við álverið. Það er ekkert smámál að koma stóru línunum í jörð. Það þarf mikla stokka og veldur miklu jarðraski.

Þetta er í fullum gangi hjá Landsneti og RARIK þar sem það er hagkvæmt, þar af leiðandi kemur það í opna skjöldu að þingheimur taki nú höndum saman um þverpólitískt átak um að koma línum í jörð. Verkefni sem þegar er í gangi og búið að vera í allmörg ár. Það er svo annað mál ef koma á öllum 220 þús. volta dreifikerfinu í jörð og hringlínunni, það kostar um 300 milljarða.

Þetta er venjubundinn populismi þingmanna, sem byggist á því hversu illa þeir eru að sér hvað er að gerast í kringum okkur. Þingmenn skemmtu landsmönnum, þá sérstaklega rafiðnaðarmönnum þegar þeir stóðu grafalvarlegir og íbyggnir í ræðustól Alþingis og ruddu út sér fádæma endaleysu um raflagnir Keflavíkurflugvallar, þvílíkur sirkus.

Froðusnakkið heldur áfram, undanfarna daga hafa tillögur skreytt síður fjölmiðla um að þingmenn séu með tillögur að leggja háspennustrengi í stað háspennulína. Á myndinni frá ABB er góð útskýring á launafli fyrir leikmenn. Jarðstrengir auka launafl verulega, sérstaklega á lengri vegalengdum. Tap á raforku ef af tillögum þingmannanefndarinnar verður, samsvarar því að öll orka Búrfells gufaði upp í ræðustól Alþingis.

miðvikudagur, 12. desember 2007

Efnahagslegt jafnvægi umfram allt

Í tillögum ASÍ gagnvart stjórnvöldum kemur m.a. fram að gert verði ráð fyrir sérstökum persónuafslætti fyrir fólk með lægri tekjur en 300 þús kr. Þetta er útfært þannig ekki verði greiddur skattur af tekjum undir 150 þús. kr. og afslátturinn lækkar svo þar til 300 tekjum er náð, þá hverfur hann.

Einnig er lagt til að skerðing barnabóta verði hækkuð verulega eða í 150 þús. kr. Þessar aðgerðir myndu kosta ríkissjóð um 14 milljarða króna og lagt til að þær dreifist á 3 ár.

Svo ótrúlegt sem það er nú þá hafa ríkisstjórnir undanfarinn ára markvisst lækkað skerðingarmörk í barnabótakerfinu og í dag hefst skerðing á barnabótum við 90 þús. kr. tekjur. Ef samkomulag næst við ríkisstjórn um þessar aðgerðir þá aukast ráðstöfunartekjur hjóna með tvö börn, sem eru samtals með 300 þús. kr. laun á mánuði, um 40 þús. kr. á mánuði.

Sjálfstæðismenn hafa alfarið hafnað því að að sett verði fjölþrepa skattkerfi og er verkalýðshreyfingin með þessu að fallast á þau sjónarmið. Það liggur fyrir þjóðarsátt um að leiðrétta sérstaklega kjör þeirra sem eru á lægstu launum. Ef það yrði gert með því að hækka einvörðungu laun, þá þyrfti launahækkunin að vera svo mikil, að það myndi leiða til hratt vaxandi verðbólgu og launahækkanir myndu hverfa út um gluggann á skömmum tíma, eins og þær gerðu hér á árum áður og kaupmáttur standa í stað eða minnka.

Með því að spila saman ofangreindum skattaaðgerðum og 20 þús kr hækkun lægstu taxta, eins og SA hefur lagt til, og svo launatryggingu fyrir þá sem hafa ekki orðið fyrir barðinu á launaskriði umfram umsamdar launahækkanir. Þá er hægt að ná þessum markmiðum án þess að verðbólga fari úr böndum.

Að auki má benda á að kjarasamningar stórra láglaunahópa hjá hinu opinbera munu renna út í marz og skattaaðgerðirnar munu ekki síður létta á þeirri glímu. Það verður spennandi að sjá hvort þingmenn hafi verið að tala í alvöru við kosningar í vor og í spjallþáttum undanfarið, þegar þeir hafa haft í frammi miklar yfirlýsingar um nauðsyn sérstakra hækkana lægstu launa. Það þarf ekki mikla stærðfræðinga til þess að sjá að það þyrfti umtalsverða launahækkun til þess að ná sama árangri og lagt er til hér að ofan með samtvinnuðum skattalækkunun neðstu laun og krónutölu fyrirtækja á lágmarkstaxta.

Sé litið til væntanlegs útgjaldaauka hins opinbera við kjarasamninga opinberra starfsmanna, þá má ná ætti sömu niðurstöðu með mun minni kostnaði fjármálaráðherra og sveitarstjórna.

Eins og ég hef komið að í fyrri pistlum, gerir mikil launahækkun nákvæmlega ekkert, ef hún er hirt daginn eftir í verðbólgu, það er kaumátturinn sem skiptir máli. Til viðbótar færu allmörg heimili endanlega á hausinn ef verðbólga verður mikil og vextir hækka. Spilastokkurinn liggur hjá ríkisstjórninni.

þriðjudagur, 11. desember 2007

Milljónfalt offramboð á skoðunum

Ég hef oft velt fyrir mér þeirri breytingu sem bloggvæðingin hefur hefur leyst úr læðingi og hvaða áhrif þessi þróun hefur og mun hafa miðlun skoðana. Það var oft erfitt að sætta sig við tök Moggans á umræðunni. Hann setti mál á dagskrá eða hélt málum utan umræðunnar að eigin geðþótta. Mogginn var lengi vel allsráðandi á þessum vettvangi. Ákveðnir stjórnmálamenn misstu stjórn á sér þegar þeir upplifðu það að menn úr viðskiptalífinu tóku til við að gefa út dagblöð, og þau með skoðanir sem ekki fóru í gegnum málhreinsun flokkskrifstofanna.

Handhafar valdsins settust að venju við eldhúsborðið og settu í snatri saman nýjar leikreglur um hvernig umræðan skildi fara fram, þvert á stjórnarskrá lýðveldisins. Stóðu í pontu hæstvirts Alþingis og veifuðu fríblöðum fullum af frjálsum skoðunum almennings hrópandi í örvæntingu; “Þetta verður að stöðva.” Líklega alvarlegasti fingurbrjótur í stjórnmálum undanfarinna áratuga.
Dagblöð voru vettvangur umræðum um þjóðfélagsmál og ritstjórar blaðanna höfðu kverkatak á skoðunarmyndun landinu og fríblöðin skelfdu stjórnmálamenn, sem aldrei höfðu treyst almenning til þess að velja sér lesefni og hvaða mál væru tekin til umfjöllunar í kaffiskúrum vinnustaðanna.

Ekki er hægt að saka fjölmiðla um að hafa áhrif á efnistök, en þeir réðu birtingunni. Hvort og þá hvenær. Ég mátti stundum bíða í allt að 6 vikum þar til sumir minna pistla voru birtir. Þegar þeir komu svo fram þá voru þeir hreint út sagt fáránlegir sakir þess að umræðan var á bak og burt og niðurstaða að skapi ritstjóra og ráðandi stjórnmálamanna fundin.

En nú er bloggið komið og það hefur mikil áhrif á tjáninguna. Vaxandi fjöldi fólks les blogg reglulega og fylgist þar með umræðu frekar en í dagblöðum. Framsetning er töluvert öðruvísi, jafnvel persónuleg líkt og dagbók, en um leið eru efnistök svo margbreytileg. Þar er líklega helsta aðdráttarafl bloggsins.

Nú eru það lesendurnir sem eru sínir eigin ritstjórar og sækja þær skoðanir sem eru þeim þóknanlegar og gerast jafnvel þátttakendur í rökræðu. Þeir velja þá sem þeir trúa og ákveða hvar sannleikann er að finna, og hafa einir leyfi til þess að ákvarða hvað sé birt á því dagblaði sem á hverjum degi er sett saman á tölvuskjá heimilisins. Nú ráða ekki lengur ritstjórar í reykfylltum bakherbergjum dagblanna. Í bloggheimum finnast skoðanir á öllu. Ofarlega í huganum er hvort hættan sé nú sú að þær skoðanir sem lesnar eru samsami um of skoðunum lesandans og hefti víðsýni hans.

Margir hafa tekið þessu tækifæri fagnandi. Reyndar eru of margir eins og kýr sem sleppt er út í vorið eftir að hafa setið langa heftandi vetur skoðanafrelsins á básum mörkuðum framandi ritstjórnum löggiltra pólitískra skoðana. Kjaftar eru þandir, nafnlausar svívirðingar strigarafta þeysa með ljóshraða um ógirta móa netheima, og sómafullir saumaklúbbar draga niðrum sig pilsin og jesúsa sig, á meðan virðulegir oddvitar skoðanamyndunar formæla, rjóðir í vöngum og steingeldir í ákvarðanatöku dagskrár daglegrar umræðu.

Nú er milljónfalt offramboð og enginn skortur á skoðunum, sem hlaðast upp í orkufrekum geymslum netheima og nú eru norrænnir gustar Reykjanesbæjar skyndilega eftirsóttir til kælingar á skoðunum almennings.

Í tilraun til þátttöku birta dagblöðin útvalda parta úr netheimum og fella það inn í blöð sín. Bloggvæðingin var skyndilega farinn að draga úr slagkrafti þeirra skoðana sem ritsjórnir dagblaðanna vilja halda að landslýð. Þær vilja ná tökum á umræðunni og ráða miðlun hennar með boði um ókeypis pláss þar sem valdir eru bloggæðingar sem settir eru á forsíðu. Margir telja sig ekki þess umkomna að hafna slíku tilboði og finna sig vera orðna gjaldgenga.

Af hverju ekki bara að hækka öll laun umtalsvert?


Af hverju er ekki bara hægt að hækka öll laun og þá verulega, eins og óábyrgir alþingismenn eins og t.d. Pétur Blöndal hafa ítrekað sagt í fjölmiðlum og nokkrir blaðamenn stilla upp reglulega. Reyndar var ég allundrandi á ummælum vinar míns Einars Más Guðmundssonar í Mannamál á sunnudaginn.

Því er til að svara að launamenn og fyrirtæki þekkja þá aðferð, og hún endaði reyndar með því að þessir aðilar tóku stjórn efnahgsmála af stjórnmálamönnum árið 1990 með svokallaðri Þjóðarsátt.

Laun hafa líklega aldrei hækkað meira en árið 1983. Hækkunin nam þá að meðaltali 53%. Á sama tíma var verðbólga 84%. Kaupmáttur meðallaunþegans minnkaði því um ríflega 30%.

Á þessum gósentímum alvöru kauphækkana og mikilla verkfalla þá lækkaði kaupmáttur almennt um 15% á árunum 1980 til 1990 þrátt fyrir launahækkanir upp á nokkur þúsund prósent.

Eftir að atvinnulífið skipti um stefnu og tók stjórn efnahagsmála af stjórnmálamönnum þá jókst kaupmáttur um 22% frá árinu 1990 til 2000 og hefur aukist um 20% síðustu sjö árin. Þetta gerðist eftir að stéttarfélögin hættu að nota þá aðferð sem Pétur Blöndal og skoðanabræður hans boða.

Órökstuddar uppsagnir


Athygli hefur vakið krafa verkalýðshreyfingarinnar vegna órökstuddra uppsagna. Þessi krafa hefur margoft verið upp á borðum, en ætíð hafnað af hálfu Samtaka atvinnulífsins. Þetta raski þeim sveigjanleika sem einkenni íslenskan vinnumarkað.

Það þarf ekki langminnuga til þess að muna deilur sem hafa risið upp vegna þessa. Deilur sem höfðu líklega ákaflega afdrifaríkar afleiðingar yfir það fyrirtæki sem stóð að uppsögnunum.

Það er ekkert athugavert þó svo fyrirtæki verði að segja upp starfsfólki ef yfir standa breytingar á starfsemi eða það eigi í rekstrarörðugleikum. Það er líka vel skiljanlegt að einhverjir starfsmenn falli ekki inn í þau störf sem þeir eru ráðnir til, en það kemur þá í ljós á reynslutíma.

Það er ólíðandi ef starfsmenn sem eiga að baki yfir 3ja áratuga farsæl störf hjá fyrirtæki séu fyrirvaralaust og án nokkurra skýringa sendir heim. Þeir eru búnir að verja öllum sínum bestu starfsárum hjá fyrirtækinu og eiga stutt eftir í starfslok.

Fyrirtækin bera samfélagslega ábyrgð, þeim á ekki að líðast að henda starfsfólki á bótakerfið. Þau eiga ekki að geta tekið roskna starfsmenn sína sem hafa staðið með þeim í gegnum þykkt og þunnt og staðið að uppbyggingu og vöxt fyrirtækis og hent þeim út eins og gamalli vél.

Fyrirvaralaus uppsögn án skýringa og undangenginnar aðvörunar, leiðir til niðurlægingar starfsmanns. Svo maður tali nú ekki um ef viðkomandi er kominn vel á seinni hluta starfævi sinnar. Það er viðtekin venja hjá fyrirtækjum til að réttlæta svona aðgerð að gefa eitt og annað í skyn. Fyrirtækið viti svo sem eitt og annað um viðkomandi, en ætli ekki að skýra frá því hvað það sé. Varið ykkur við erum sko með Gróu á Leiti á okkar bandi.

Hvað hugsar starfsmaður sem fær svona meðferð, hvernig líður honum? Settu þig lesandi góður í þau spor, eitt augnablik.

mánudagur, 10. desember 2007

Hversu lengi er hægt að berja dauðan hest til vinnu?


Undirstaða mikilla framkvæmda í vestrænum löndum er innflutt vinnuafl. Án vinnuafls frá útlöndum væri ekki mögulegt að ljúka þeim framkvæmdum sem ráðist hefur verið í. Fyrirtækin hefðu ekki getað aukið framleiðslu sína og verið samkeppnishæf og hagvöxtur væri mun minni eða jafnvel öfugur. Spennan í efnahagslífinu hér á landi hefði verið meiri, ásamt því að verðbólga og vextir væru enn hærri.

Mörg vesturlandanna þ.á.m. Ísland hafa ekki verið í stakk búin til að taka á móti hinum erlendu launamönnum. Stjórnvöld hafa verið sein við að efla þjónustu sína við hina erlendu gesti okkar og færa reglugerðir og lagaramma að breyttu umhverfi. En það er ljóst að íslensk fyrirtæki verða að halda áfram að öllu óbreyttu að sækja vinnuafl erlendis, en það getur reynst þrautin þyngri eftir því sem samkeppnin um vinnuaflið eykst.

Á næstu árum munu hin 10 nýju lönd í Evrópusambandinu fá umtalsverða fjármuni til að styrkja grunnskipulag og innviði sína. T.d. ætlar samgönguráðuneyti Póllands að eyða um 30-38 milljörðum Bandaríkjadala til vegagerðar fram til ársins 2013. Framkvæmdirnar verða að töluverðum hluta fjármagnaðar af ESB. En það getur orðið erfitt fyrir að Pólland að nýta fjármagnið vegna skorts á vinnuafli. 800 þúsund Pólverjar hafa farið í leit að störfum til annarra landa. Pólska ríkisstjórnin hefur undanfarið birt heilsíðu auglýsingar í breskum blöðum þar sem hún hvetur unga pólverja til þess snúa aftur heim. Tekst að fá þegna hinna nýju ESB landa, sem hafa leitað vestur á bóginn tilað snúa heim. Verða fyrirtækin í þessum löndum að snúa sér austar eftir vinnuafli. Þar er nóg af því. T.d. er talið að það séu um 2 millj. austurlenskra launamanna í Rússlandi, flestir frá Kína.

Margir farandverkamannanna sem hafa leitað vestur á bóginn, hafa orðið fyrir barðinu á fyrirtækjum og starfsmannaleigum á vestrænum vinnumarkaði. Byggingarfyrirtækin á Bretlandseyjum hafa verið ákaflega dugleg við að gera hvern og einn að einkahlutafélagi, til þess að losna undan því að greiða skatta og tryggingar. Auk þess losna fyrirtækin við að greiða orlof og veikindadaga. Oftast lenda hinir erlendu launamenn utan lífeyriskerfanna bæði í heimalandi og þar sem unnið er, sakir þess að hvergi er greitt iðgjald. Mikilsverð mannréttindi eru höfð af þessu bláfátæka fólki.

Hinir erlendu farandverkamenn eru sannarlega launamenn. Fyrirtækin skaffa þeim verkfæri, efni, verkefni og það eru verkstjórar frá fyrirtækjunum sem segja þeim fyrir verkum. Þeim er miskunarlaust hent út á götu ef þeir fara ekki í einu og öllu eftir því sem þeim er boðið. Stjórnvöld í hinum vestrænu löndum hafa í vaxandi mæli verið að setja strangari reglur. Viðbrögð fyrirtækjanna er að flýja á náðir gerviverktökunnar til þess að losna undan sköttum og skyldum og geta áfram greitt laun langt undir öllum lágmörkum gildandi launakerfa. Samtök fyrirtækja eru farin að krefja skattyfirvöld og ríkisvaldið um hertar aðgerðir, því samkeppnishæfni þeirra fyrirtækja sem vilja standa rétt að sínum málum fer hratt minnkandi.

Fyrirtækin koma sér undan því að gera tilhlýðilegar og lögbundnar aðgerðir til þess að fyrirbyggja vinnuslys. Vinnuslys á breskum byggingarmarkaði hafa aukist undanfarin misseri. Í dag verða 40% allra vinnuslysa á byggingastöðum hjá þessu ólánsama fólki sem er með öllu ótryggt og ef það lendir svo á spítölum þá lendir reikningurinn á ríkissjóð. Í Írlandi er þetta hlutfall jafnvel orðið hærra.

Það á við margar ríkisstjórnir þá sérstaklega hinar svo kölluðu hægri stjórnir í Evrópu, nú eru að renna á þær tvær grímur hvað varðar afstöðu til þessara mála. Þessi útgjöld fara hraðvaxandi auk þess eru þau að horfa upp hratt vaxandi neðanjarðarhagkerfi. Samfélögin eru að missa af umtalsverðum skatttekjum, samfara því að lenda í vaxandi útgjöldum.

"Hversu lengi er hægt að berja dauðan hest til vinnu?" spyrja launamenn frá Eystrasaltslöndunum. Þeir hafa nær alla síðustu öld verið undir ofríki Sovétsins eftir að þeir ásamt Bandamönnum skiptu á milli sín löndum í mið-Evrópu. En nú hafa vestræn fyrirtæki tekið við, þar á meðal nokkur íslensk, sem eru með fyrirferðamikinn rekstur í þessum löndum. Áður voru verkalýðsfélögin í höndum kommissara frá Rússlandi, og gerðu lítið í því að bæta hag launamanna eins og þekkt er. En málin eru smásaman að breytast. Eftir tengingu við ESB eru þessu þjóðfélög að eflast og nú er fólk að koma heim eftir að hafa verið við vinnu á norðurlöndum og í Þýskalandi og hefur m.a. lært hvernig verkalýðsfélögin vinna í þessum löndum. Með þessa þekkingu snýr það heim og er að stofna ný verkalýðsfélög. “Þá munu hinir nýju aðræningjar fá að finna fyrir tevatninu”, segja nýir forystumenn þeirra.

Niðurstaðan er að vissu leiti sú að ESB er að ná tilgangi sínum með að byggja upp efnahagslega stöðu þeirra svæða í Evrópu sem eru langt á eftir. Það er að komast skriður á uppbyggingu í þessum löndum og þá á að nást meira jafnvægi á Evrópskum vinnumarkaði.

Silfrið og Kiljan

Ég er einn þeirra 20% þjóðarinnar sem fylgist með þáttum Egils Helgasonar, ef ég man rétt niðurstöður áhorfskannana. Það er klárlega frábær árangur að ná svona háu áhorfi á þjóðmálaumræðu af þessu tagi. Efnistök Egils hafa verið góð, sem byggist á því að hann hefur góða grunnþekkingu á málum og fylgist greinilega vel með. Þó svo að ég sé eins sjálfsagt flestir landsmenn ósammála um það bil helming þeirra sem koma fram í þáttunum.

Oft hefur mér fundist, eins og reyndar hvað varðar aðra spjallþáttargerðarmenn, einkennilegt að oftast eru það alþingismenn sem eru látnir fjalla um kjaramál og málefni launamanna. Starfsmenn stéttarfélaganna, ASÍ, BSRB og SA eru frekar sjaldséðir. En með fullri virðingu fyrir alþingismönnum þá er þekking þeirra á þessum málaflokk óskaplega grunn. Hún ber öll merki þess að vera byggð á klisjukenndri upphrópunarumfjöllun fréttamanna, sem sumir hverjir eru ungir að árum og hafa enn minni þekkingu á því hvernig kaupin gerast á eyrinni.

Hér er reyndar ástæða að benda á góða undantekningu, umfjöllun Aðalbjörns austfirðingssins unga, í fréttum RÚV í gærkvöldi um hvernig kaupin gerast á eyrinni var áberandi góð og gerð af þekkingu, enda er hann uppalin að nokkru innan verkalýðshreyfingarinnar.

Í síðasta þætti Egils fékk hann þrjá femínsta til þess að lýsa baráttunni sinni og fékk flinka tæknimenn RÚV til þess að hafa settið bleikt í tilefni dagsins. Þessar konur hafa gagnrýnt efnistök Egils á svipuðum forsendum og ég geri hér að ofan. Ég sé hlutina ekki alveg með sömu gleraugum og þessar konur, en það er vitanlega aukaatriði. Þær komu sjónarmiðum vel frá sér í þættinum.

Kilja Egils er ef eitthvað er betri, þar er hann greinilega enn meir á heimavelli og nýtur sín fullkomlega. Egill er klárlega þáttagerðarmaður þessa árs og á fyllilega rétt á launahækkun hjá RÚV til þess að geta sett upp nokkra hillumetra undir allar Eddurnar sem hann á rétt á að fá, eða hvað þau nú heita þessi verðlaun.

sunnudagur, 9. desember 2007

Eru viðhorf til umhverfisverndar tekjutengd?

Það gætir vaxandi svartsýni vegna þróunnar efnahagsmála og vaxandi fjöldi hagfræðinga telur að við komum til með að fá harðan skell vegna þess að þenslan hafi verið of mikil og efnahagskerfið sé að fara úr skorðum.

Íslenskt hagkerfi er lítið og hefur alllengi sveiflast reglulega frá miklum uppgangi til djúpra dala. Mikið atvinnuleysi og þá var rokið til að kaupa skuttogara og reisa frystihús í nánast hverjum firði. Og svo kom 1967 Búrfellsvirkjun og álverið í Straumsvík og svo geysilega djúp niðursveiflu þar á eftir. Tæplega 1000 íslendingar urðu að gerast farandverkamenn og flytja til norðurlandanna árin 1970 til 1977.

Ef við förum nær okkur í tíma þá má minna á ástandið milli 1989 – 1995 með allt að 20% atvinnuleysi og svo aftur upp úr 2000. Í öllum þessum tilfellum voru háværar kröfur almennings til stjórnmálamanna um að þeir gripu til aðgerða til fjölgunar atvinnutækifæra. Aðgerða þar sem virkjunum var fjölgað og fundnir voru aðilar sem vildu reisa orkufrekar verksmiðjur. Járnblendið, stækka Straumsvík, Norðurál og svo síðast Kárahnjúka og álverið í Reyðarfirði.

Á undanförnum árum hefur umræða um umhverfið, orkuverin og verksmiðjur verið fyrirferðamikil. Fram hafa komið sjónarmið sem ganga jafnvel svo langt að það verði ekki virkjað meira. Margir hafa uppgötvað að gufuaflsvirkjanir eru síst minna umhverisspillandi en vatnsaflsvirkjanir.

Þar má benda á Hellisheiðina sem er búið að leggja vegi og rör um nánast gjörvalla heiðina. Í þessu sambandi má benda á að lón við virkjanir í neðri hluta Þjórsár fara einungis 10% út fyrir núverandi farveg árinnar. Aldrei hefur nokkrum manni dottið í hug að gera nokkar athugasemdir þó bóndi kalli til stórvirk jarðvinnslutæki og taki fleiri tugi hektara lands undir tún eða önnur mannvirki, sem nú virðast vera náttúruvætti á þessu svæði, sé litið til ummæla nokkurra einstaklinga.

Ég er ekki að draga þetta fram vegna þess að ég sé að hvetja til þess að allt verði virkjað. Ef við erum raunsæ og rifjum upp ummæli okkur sjálfra þegar atvinnuleysi var og sú staða var að mörg okkar máttu þakka fyrir að fá að vera á strípuðum dagvinnutöxtum. Hver voru viðhorfin þá? Erum við tilbúinn til þess að minnka neyslu okkar og hægja á lífsgæðakapphlaupinu?

Það væri kannski réttara að spyrja; Getum við það? Hratt vaxandi fjöldi íslendinga stóðst ekki freistingarnar sem lagðar voru á borð þeirra af bönkunum fyrir nokkrum árum þegar heimild við veðsetninga húsnæðis var aukinn upp í 100%. Margir keyptu sér húsnæði og innréttuðu það ríkulega. Margir aðrir seldu sitt húsnæði og byggðu enn stærra og fjárfestu í leiðinni í dýrum bílum. Það leið ekki langur tími þar þetta fólk var komið með yfirdráttarlán að auki.

Mjög mörgum fjöldskyldum var bjargað með skuldbreytingum af starfsmönnum verkalýðsfélaganna og lífeyrissjóðum þegar atvinna tók mikla niðursveiflu í kringum 1990. Þá var svigrúm til þess, sakir þess að þá var veðsetning íbúða og húsa um 40 – 50% og yfirdráttarlán þekktust ekki. Í dag er engin undankomuleið því allt er veðsett í botn og til viðbótar eru allmörg heimili rekin á milljón króna yfirdráttarláni með 20% vöxtum.

Fjölmargar fjölskyldur eru þegar búnar að missa húsnæði sitt á nauðungaruppboð og ég þori ekki að hugsa þá hugsun til enda hver staðan yrði ef við fengjum yfir okkur 10 – 20% atvinnuleysi og til viðbótar færu margir á strípaða dagvinnutaxta.

Erum við búinn að setja okkur í þá stöðu að við munum velja þá leið að reisa álver í Helguvík, Húsavík, Þorlákshöfn með tilheyrandi virkjunum. Eða kannski enn frekar að við erum í þeirri stöðu að verða að gera það?

Farandverkafólk

Efnahagsundur í Kína á sér margar alvarlegar skuggahliðar. Talið er að um 150 – 200 milljónir farandverkamanna hafa flust til kínverskra borga í leit að vinnu og fer sú tala hækkandi. Þessu fólki er mismunað á margan veg yfirvöld neita því um húsnæðisbætur og sjúkratryggingar og börnum þeirra meinaður aðgangur að skólakerfinu. Hópur þessa fólks hefur verið að störfum við Kárahnjúka og fara misjafnar sögur af stöðu þeirra.

Farandverkafólkið í Kína er oft neytt til þess að vinna mikla yfirvinnu og neitað um frí, jafnvel þó um veikindi sé að ræða. Það er neytt til þess að vinna við ömurlegar og oft heilsuspillandi aðstæður. Atvinnurekendur beita ýmsum aðferðum til þess að koma í veg fyrir segi upp störfum. Launagreiðslun er oft frestað og þannig á fólkið hættu á því að tapa allt að 2 -3 mánaðalaunum ef það gengur gegn vilja atvinnurekdandans. Þá neyða atvinnurekendur verkafólk oft til þess að greiða tryggingu til þess að koma í veg fyrir að það leiti vinnu annarsstaðar.

Reyndar hafa sambærileg atriði oft komið upp á borð trúnaðarmanna á íslenskum vinnumarkaði þegar þeir hafa verið að kanna stöðu erlendra faranverkamanna sem hingað eru komnir á vegum íslenskra starfsmannaleiga. Starfsmannaleigurnar hafa brugðist við því með því að koma mönnum úr landi áður en hægt verði að taka af þeim skýrslur og ganga frá launaseðlum með eðlilegum hætti.

Öfgakenndir hægri menn og Frjálshyggjumenn berjast fyrir því að þau launakjör sem eru í búsetulandi launamanns ráði, fari þeir til starfa í landi þar sem kjör eru hærri. Forsvarsmanna starfsmannaleiga og lögmanna þeirra hafa viljað sniðganga íslensk lágmarkskjör og fá heimild til þess að greiða þessum sárfátæku launamönnum um og yfir 20 þús. kr. á mánuði fyrir vinnuviku sem er oft allt 100 klst. Auk þess að rukka þá um margskonar gjöld.

Forsvarsmenn Evrópusambandsins hafa barist þessu og bent á það, nái Frjálshyggjumenn sínu fram, jafngildi það að vinnumarkaður Evrópu taki hraðlest niður til þeirra kjara sem lægst eru á Efnahagssvæðinu. Það sé einmitt það sem málsvarar starfsmannaleiganna og þjónustusamninganna vilji, svo þeir geti hámarkað arð sinn á kostnað hinna bláfátæku launamanna, og nýta sér ástand þeirra svæða þar sem atvinnuleysið er mest og kjörin lökust.

Það stakk mann því illþyrmilega þegar viðskiptanefnd með forseta vorn í broddi fylkingar gerði fríverzlunarsamning við Kína. Forseti hefur ekki svarað þessu.

Grunnskólinn

Íslenski grunnskólinn hefur oft verið gagnrýndur. Oftar en ekki komið fram gagnrýni að grunnskólinn sé ekki að skila hlutverki sínu nægilega vel, starfsmenn í framhaldsskólanum hafa kvartað undan því að fá nemendur sem eru opf skammt á veg komnir. Fjölskyldur sem hafa flutt hingað heim með börn á grunnskólaaldri hafa komist að því að jafnaldrar þeirra hér heima eru oftar en ekki mun skemur í náminu. Þessi gagnrýni er staðfest í nýlegri PISA rannsókn.

Við verðum að taka mark á þessari niðurstöðu. Þorgerður sem annars hefur staðið sig virkilega vel sem menntamálaráðherra, missteig sig aðeins í vikunni þar sem hún sagði að könnunin sé ekki áfellisdómur.

Það hefur margoft verið bent á að vinnuaðstaða kennara í grunnskólum sé ekki nægjanlega góð og laun séu ekki í samræmi við starfið og menntun kennara. Það er nú svo að það eru laun og starfsaðstaða sem draga til sín hæfileikafólk.

Einnig má benda á að hafa skólayfirvöld leitað leiða til aukinnar hagræðingar m.a. með því að fjölga í bekkjum. Stoðþjónusta við nemendur sem eiga við sértæk vandamála að stríða hefur ekki fengið nægilega fjármuni. Agalausir nemar komist upp með að eyðileggja starfið í heilum bekkjum. Allt þetta þekkjum við vel úr umfjöllun um grunnskólann á undanförnum misserum, þar sem mýmörg, allt of mörg, alvarleg dæmi komið fram.

Og svo ættum við foreldrar að líta okkur nær; Hvers vegna er barn agalaust í skóla? Hvers vegna mætir barnið ekkert undirbúið í skólann? Hvað með uppeldið? Algeng svör hjá íslenskum foreldrum er; „Það er kennaranum að kenna að barninu mínu gengur ekki vel í skóla.“ „ Það er lögreglunni að kenna að barnið mitt er fullt niður í bæ.“

laugardagur, 8. desember 2007

Sigur Rós - Heima

Fékk diska Sigur Rós Heima í vikunni og setti þá í heimabíógræjurnar í gærkvöldi þegar Logi var búinn. Frábær þáttur hjá Loga og skemmtilegir gestir.

Verð að viðurkenna að ég átti ekki von á að ég myndi hlusta á Sigur Rós í um tvo tíma samfellt. Hef hingað til fundist ágætt að hlusta á eitt lag þeirra í einu. En ég fullkomlega heillaðist af diskunum.

Tónlist þeirra, staðarval tónleika og myndefnið myndaði frábæra heild og ég spilaði báða diskana hvorn á fætur öðrum og á örugglega eftir að eiga margar kvöldstundir með þeim. Útgáfan á Heima er ákaflega vönduð og smekkleg. Smekkleysu og Sigur Rós til mikils sóma.

Bólgnir lífeyrissjóðir

Umræðan um lífeyrissjóðina hefur oft verið einkennileg og í mörgu einkennst af ótrúlegum þekkingarskorti og skilningsleysi. Einkennilegt því það er búið skrifa einhver ósköp um lífeyriskerfið á undanförnum árum og eins liggja fyrir á netinu ákaflega greinargóðar útskýringar á því eins og t.d. á heimasíðu landssambands lífeyrissjóða.

Enn kemur þessi þekkingarskortur fram hjá annars prýðilegum blaðamanni í 24 stundum í dag, þar sem hann spyr hver sé tilgangur lífeyrissjóða. Sáralítið sé greitt út til lífeyrisþega af inngreiðslum til sjóðsfélaga og lífeyrissjóðir séu reknir með ofboðslegum hagnaði sem notaður sé til þess að fjárfesta í viðskiptalífinu og hann segir í lokin „eðlilegt sé að velta því fyrir sér hverjum sjóðirnir séu að þjóna, iðgjaldagreiðendum eða íslensku viðskiptalífi."

Lífeyrissjóður er uppsöfnun sparifjár þeirra sjóðsfélaga sem greitt hafa í viðkomandi sjóð. Hluti inngreiðslu kemur beint frá sjóðsfélaga og hluti frá vinnuveitanda hans, en öll upphæðin er eign starfsmannsins, sjóðsfélagans. Hún er hluti lögbundinna launa hans. Lífeyrissjóður á í sjálfu sér engar eignir utan skrifstofuáhalda og þess húsnæðis sem starfsemi hans fer fram í.

Lífeyrissjóðir starfa undir mjög ströngum lögum og eftirliti opinberra stofnana. Landslög veita lífeyrissjóðum einungis heimild til þess að greiða sjóðsfélagum þá innistæðu sem þeir eiga, þegar þeir fara á ellilífeyri eða verða fyrir því óláni að fara á örorku. Þeir greiða einnig makalífeyri, en hann er ákaflega misjafn, einnig er réttindaávinnsla mismunandi milli sjóða.

Hlutverk lífeyrissjóðs er að taka á móti iðgjöldum sjóðsfélaga og ávaxta þau með besta hætti sem til boða stendur hverju sinni og greiða lífeyri til sjóðsfélaga. Kerfið er stillt þannig af að sjóðsfélagi sem greiðir allan sinn starfsaldur, það er frá 25 ára til 67 ára, á þá í sínum sjóð innistæðu fyrir lífeyri sem svarar til um 60% af meðallaunum frá 67 ára aldri til dauðadags. Ef viðkomandi hefur greitt í styttri tíma verður lífeyririnn minni í réttu hlutfalli við það sem upp á vantar.

Flestir lífeyrissjóðirnir voru stofnaðir árið 1970, en það er ekki fyrr en 1989 sem farið er að greiða til sjóðanna af fullum launum. Það þýðir að það er ekki fyrr en um 2031 sem til verða sjóðsfélagar með full réttindi og skýrir hvers vegna sjóðsfélagar eru að fá ákaflega mismundi mikinn lífeyri í dag.

Það eru stóru barnasprengjuárgangarnir sem komu í heiminn á árunum eftir seinna stríð fram til ársins 1960, sem eru safna upp sínum lífeyri og munu skella á lífeyriskerfinu af fullum þunga eftir árið 2031. Fram að þeim tíma fer vitanlega fram mikil uppsöfnun í sjóðunum, en eftir þann tíma munu útgreiðslur úr sjóðunum verða meiri en innstreymi og þá byrja sjóðirnir að ganga á eignir sínar, eða með öðrum orðum eigendur sparifjárins fara að taka lífeyri sinn út.

Það var mikil framsýni sem leiddi til uppbyggingar íslenska lífeyriskerfisins. Flest önnur þjóðfélög í Evrópu greiða lífeyri í gegnum almenna skattkerfið, en eru í óða önn að taka upp íslenska kerfið. Þessi þjóðfélög eins og t.d. Frakkar slást við nú þessa dagana og reyndar Þjóðverjar líka, horfast í augu við þann alvarlega vanda að ef þeir gera ekkert í sínum málum þá verða þessi þjóðfélög gjaldþrota árið 2020, nema þá að skerða lífeyrisgreiðslur geysilega mikið. Gráhærðu árgangarnir verða sífellt stærra hlutfall og hlutfall skattgreiðenda minnkar hratt eftir þau tímamót. Ef ekkert verður að gert munu allir skattpeningar þessarar þjóða ekki duga fyrir óbreyttum lífeyrisgreiðslum.

Eins og ég kom að hér framar þá eru í gildi mjög ströng lög um sjóðina og farið reglulega yfir stöðu þeirra. Ef niðurstaða þeirrar könnunar leiðir til þess að viðkomandi sjóður á ekki fyrir skuldbindingum þá verður hann að skerða réttindi. Þar skýrir hvers vegna makalífeyrir er misjafn og eins ávinnsla réttinda, eins og ég kom að hér framar.

Til þess að útskýra þetta þá byggist stærðfræði sjóðanna í sinni einföldustu mynd á því að sjóðsfélagi greiðir 12% af launum sínum í iðgjald til lífeyrissjóðs í rúm 40 ár. Þá dugar innistæða hans fyrir framangreindum lífeyri til meðalaldurs. En lífeyrissjóður lofar í lífeyrisgreiðslum til dauðadags. Almennu lífeyrissjóðirnir eru sameignarsjóðir og geta staðið við þetta loforð vegna þess að jafnmargir falla frá fyrir meðalaldur og þeir sem lifa lengur.

En almennu lífeyrissjóðirnir eru eins margoft hefur komið fram í umræðu um þá að glíma við tvö feikilega erfið vandamál. Meðalaldur er sífellt að lengjast og örorka hefur vaxið langt umfram það sem gert var ráð fyrir þegar menn settust niður árið 1970 og reiknuðu út hversu mikið þurfti að greiða í lífeyrissjóð, þá var meðalaldur um 9 árum minni en hann er í dag og gert ráð fyrir að um 15% af útgreiðslum sjóðanna færi til örorku, en er komið upp í 40% í sumum sjóðanna í dag.

Lengi var iðgjald 10% en búið að hækka það í12% á síðustu misserum vegna þessarar skekkju. Þrátt fyrir þetta hafa nokkrir lífeyrissjóðir orðið að skerða réttindi um allt að 20% og það blasir við að ef ekki verður leiðrétt örorkubyrði sjóðanna, þá verða sumir þeirra að skerða enn meir.

Þingmenn og ráðherrar fundu einfalda leið leið út úr þessu, þeir breyttu lögum fyrir sína sjóði þannig að þar þarf aldrei að skerða, vegna þess að þeirra lífeyrissjóðir sækja það sem upp á vantar í ríkissjóð. Einnig er ávinnsla fullra réttinda hjá þeim mun hraðari en í almenna lífeyriskerfinu. Ráðherrar og þingmenn ákvörðuðu að mótframlag ríkissjóðs í lífeyrissjóð þingmanna skuli vera um 40% og hjá ráðherrum um 90%, en er hjá okkur öðrum skattgreiðendum þessa lands 8% eins og vel er kunnugt. Margir hafa réttilega kallað þetta sjálftöku, sem svo var skreytt enn frekar fyrir nokkurm árum með viðbót sem heitir eftirlaunaósóminn.