sunnudagur, 28. mars 2010

Ógæfuspor

Skortur á samstöðu hefur einkennt íslenskt samfélag frá Hruni. Margir gerðu sér vonir um að eitt af því sem yrði jákvætt við erfiðleikana, væri að menn myndu leggja til hliðar hina löskuðu íslensku umræðulist rígbundna í flokkspólitíska kassa.

Hugur samkenndar varð til þess að það tókst að ná öllum aðilum vinnumarkaðs, ríkisvaldi og sveitarfélögum að samningaborði. Mikil vinna var lögð undirbúning gerð Stöðugleikasáttmála og það sem batt fylkingar saman var rík von um að þjóðinni myndi með því að taka höndum saman takast á 2 - 3 árum að vinna frá vandanum.

Tekist var á við undirbúning sáttmálans, nokkrir reyndu að nýta sér stöðuna til þess að skapa sér sérstöðu og spiluðu með yfirboðum á lýðskrumið, en fjöldinn sá í gegnum það og um 90% samstaða varð innan verkalýðshreyfingarinnar að undirrita Stöðugleikasáttmálann í lok júní árið 2009.

En í flestum mikilvægum málum hefur þjóðin viðhaldið sínum fylkingum og stjórnmálamenn grófu sínar venjubundnu skotgrafir, tiltölulega lítið mál var nýtt sem smjörklípa til þess að víkja sér undan því að takast á við hinn raunverulega vanda. Hluti stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar gekk í lið með stjórnarandstöðu og pattstaða hefur verið.

Nú er kominn fram annar vandi tilraun til sátta um sjávarútvegsmálin hefur mistekist og SA hefur sagt upp Stöðugleikasáttmálanum. SA gengur þar erinda útgerðarmanna. Með þessu er verið að skapa upplausn í stjórnmálum, er hún þó ærin fyrir. Þetta virðist gert til þess eins að tryggja eignarhald fárra á kvótanum og spila enn frekar á þá óeiningu sem hefur ríkt á stjórnarheimilinu. Jóhanna segir réttilega að grátkór LÍÚ eigi ekki að stjórna samfélaginu, það vald sé í höndum ríkisstjórnarmeirihlutans. En er hann til staðar?

Stöðugleikasáttmálinn var forsenda þess að launamenn sættu sig við frestun umsaminna launahækkana. SA hefur með ákvörðun sinni rofið þá sátt og launamenn krefjast þess að þeirri launahækkun sem frestað var um síðustu áramót komi nú þegar til framkvæmda. Launamenn hafa staðið við sitt og sýnt fulla ábyrgð og hafa þegar axlað sínar byrðar.

Sú staða sem upp er kominn getur haft mun alvarlegri afleiðingar en margir virðast gera sér grein fyrir. Aðilar vinnumarkaðs hafa síðan Þjóðarsátt fylgt svokallaðri raunsæisstefnu, það er stöðugleika og áherslu á að tryggja kjarabætur með aukinni framleiðni.

Þessi stefna hefur leitt til þess staða kaupmáttarauka hefur verið tryggari en áður var. Þessi staða getur leitt til þess að samstaða fylkinga launamanna riðlist og nú verði horfið til fyrri daga við taki víxlhækkanir launa og verðlags.

Kvæðið um veginn
Og við gengum af stað
Það var gamall vegur
og gott að rata.

Og við hugsuðum djarft:
Nei, við hræðumst það ekki,
þetta er heimalings gata

Svo héldum við áfram.
Í hópnum var enginn
huglaus né tregur.

Svo námum við staðar:

Það var auðn og myrkur
á allar hliðar,
og enginn vegur.
Steinn Steinarr

þriðjudagur, 23. mars 2010

Verkfallsréttur er mannréttindi

Það er alveg sama frá hvaða horni litið er á lagasetningu um bann við verkföllum, þá er verið að brjóta mannréttindi. Þetta neyðarréttur verkafólks til þess að þrýsta á um viðræður og lyktir í kjarasamningum. Ríkið er með þessu að brjóta grundvallarsamþykktir ILO, samþykktir 87 og 98 um réttinn til að gera frjálsa kjarasamninga og efna til verkfalla til framgangna krafna sinna sbr. kæru ASÍ 2001 vegna lagasetningar á verkfall sjómanna

Það má svo alltaf velta því fyrir sér hvort menn séu taktvissir og hafi nægilega yfirsýn þegar þessu vopni er beitt. Þar á við hið sama og um öll önnur vopn. En sú umræða snýst um allt annað og er matsatriði sem félagsmenn viðkomandi stéttarfélags taka afstöðu til á hverjum tíma.

Kristján Kristinsson formaður samninganefndar flugvirkja segir bann Alþingis við verkfalli þeirra, mikil vonbrigði, en þeir muni hlíta lögunum. Það sé búið að slá vopnin úr höndum flugvirkjanna. Þeir hafi ekki áhuga á Gerðardómi og vilji frekar útkljá sín mál út við samningsborðið. Ég tek fyllilega undir þessi orð.

Það er sérstök ástæða til þess að fara yfir hvernig þessi mál ganga fyrir sig, því sumir taka gjarnan þannig til orða, að það virðist vera þeirra skilningur að það sé formaður viðkomandi stéttarfélags sem hafi þetta ákvörðunarvald í hendi sér.

Stundum ganga menn svo langt að tala eins og formaðurinn semji við sjálfan sig. Ef laun eru ekki ásættanleg, þá sé við formann viðkomandi stéttarfélags að sakast. Ekki er hægt að skilja ummæli sumra öðruvísi en að formaður hafi einhendis samþykkt of lélegan kjarasamning sem hann gerði við sjálfan sig. Svo sem skiljanlegt því þannig hafa sumir formenn stéttarfélaga ítrekað talað í fjölmiðlum undanfarin misseri, þegar þeir eru að veitast að öðrum stéttarfélögum í tilraunum við að upphefja sjálfa sig standi á baki kollega sinna. Þetta er gríðarlega vinsælt hjá tilteknum þáttargerðarmönnum.

Verkfallsréttur íslenskra stéttarfélaga var settur í mjög ákveðnar skorður með svokölluðum Pálslögum Péturssonar þáverandi félagsmálaráðherra (1995-2003). Þar segir að stéttarfélög geti ekki boðað til verkfalls fyrr en kjaradeila sé kominn í hendur Sáttasemjara og hann hafi gert árangurslausar tilraunir til þess að leysa deiluna.

Þegar samningamenn stéttarfélaganna telja að ekki verði lengra komist í Karphúsinu, þá er þeim gert með Pálslögum að bera samningsdrögin undir viðkomandi félagsmenn. Í lögunum eru settar mjög ákveðnar reglur um hvernig skuli staðið að atkvæðagreiðslum.

Þar er félagsmönnum gert er að taka ákvörðun um hvort samningsdrögin séu að þeirra mati ásættanleg, það er ekki samninganefndin sem tekur þá lokaákvörðun. Ef félagsmenn samþykkja samningin þá er málið dautt, eins og menn segja í dag og samninganefndarmenn geta ekki meir. Þar með eru stéttarfélögin eru bundin friðarskildu út samningstíman. Ef upp rís ágreiningur um túlkun verður að útkljá það fyrir Félagsdómi. Ef félagsmenn aftur á móti fella samningsdrögin þá fyrst geta samninganefndarmenn leitað eftir verkfallsheimildum til að þrýsta á um að ná lengra.

Á þessu flaska allmargir þegar þeir eru með yfirlýsingar um að núverandi verkalýðsleiðtogar séu aumingjar og landeyður sakir þess að þeir skelli sér ekki í verkföll til þess að mótmæla hinu og þessu. Það var ákkurat megintilgangur laganna, þáverandi meirihluti Alþingis þótti stjórnir stéttarfélaga nýta sér verkföll um of í pólitískri baráttu gegn sitjandi ríkistjórnum.

Já hún er svo víða á ferðinni bullumræðan.

sunnudagur, 21. mars 2010

Hin endalausa bullumræða

Búinn að vera á ferðinni utan höfuðborgar í vegna starfa minna og pistlagerð legið niðri, enda virðist það reyndar ekki skipta miklu, umræðan snýst hring eftir hring fóðruð með reglulegum eltingarleik á eftir upphrópunum um sársaukalausa lausn frá þeim vanda sem við blasir. Látum skuldir heimila og fyrirtækja gufa upp og það kostar ekkert segja Excelsérfræðingar spjallþáttanna.

Við skulum kjósa okkur frá skuldum landsins og taka upp 2007 aftur, segir stjórnarandstaðan og InDefence. Lýsum nágrannalöndum sem óvinum Íslands sakir þess að þau vilja ekki láta okkur hafa enn meiri lán og leggja fram enn meiri ábyrgðir. Þó svo við gerðum gys af aðvörunum þeirra um hvert stefndi 2007 og 2008.

Við blasir í dag að tillaga verkalýðshreyfingarinnar um að í stað þess að lækka skatta á þeim hæst launuðu á toppi þennslunnar 2005, hefði verið betra að nýta fjármagnið til þess að leggja í gjaldeyrisvarasjóðinn. Þessi arfavitlausa og grunnhyggna ákvörðun er nú stærsti þröskuldurinn hjá ríkissjóði afborgun af lánum vegna gjaldeyrissvarasjóðsins og auk gjaldþrots Seðlabankans í boði fyrrv. ríkisstjórna. Það er ekki staða íslensks atvinnulífs sem veldur háu skuldtryggingarálagi Íslands, það er til komið vegna pólitísku vantrausti á íslenskum stjórnmálamönnum og tregðu til þess að víkja frá hinni gjaldþrota efnahags- og peningastefnu, og helsta ástæðan virðist vera sú ein að vernda hagsmuni fárra sponseraðri af LÍÚ og Bændasamtökunum.

Hendum bara AGS úr landi, við björgum okkur sjálf. Svo einkennilegt sem það nú er þá er fyrrv. formaður opinberra starfsmanna þar fremstur í flokki. Hann veit vitanlega jafnvel og við hin að það muni kosta enn meiri niðurskurð í rekstri hins opinbera og enn umfangsmeiri uppsagnir á opinberum vinnumarkaði og því muni fylgja kröfur um enn meiri hækkanir á sköttum.

Helsta ástæða þess að nágrannalöndin vilja ekki lána okkur meira, nema þá í gegnum AGS er einmitt sú að þau treysta ekki íslenskum stjórnmálamönnm til þess erfiða hlutverks að stoppa upp í fjárlagagatið og það muni einfaldlega lenda þá á skattgreiðendum nágrannalandanna að standu undir þeim kostnaði og við lifa í praktuglegheitum á meðan.

Menn vilja víkja sér undan því að breyta um efnahags- og peningastefnu og alla vega þáverandi stjórnarflokkar hafna enn að breyta. Við höfnum því standa við ábyrgð sem fyrri ríkisstjórnir og Alþingi hafa staðfest og krefjumst þess að fá að gera enn einn Icesavesamningin gegn því að hann losi okkur undan ábyrgð og endurgreiðslu.

Við höfnum því að skera niður kostnað hins opinbera og stoppa upp í fjárlagagatið. Höfnum skattahækkunum, en gerum kröfur um að fá skattpeninga nágrannalandanna til þess að geta haldið áfram á sömu braut svo vitnað sé til ítrekaðra ummæla fjármálaráðherra nágrannalanda okkar.

Athugasemdalaust kemur stjórnarformaður OR fram og hreytir í okkur fullyrðingum á borð við að stjórnir lífeyrissjóða standi gegn þeim sem minnst mega sín á vinnumarkaði af því lífeyrissjóðirnir hafni að lána OR umtalsverða fjármuni á neikvæðum vöxtum (já minna má það nú ekki vera). OR er glæsilegt tákn fyrirtækis (eða hitt þá heldur) í höndum stjórnmálamanna.

Þar er raðað er á garðanna í stjórnunarlög fyrirtækisins afdönkuðum stjórnmálamönnum og kosningasmölum, sem leiðir til þess að reksturinn sé með þeim hætti að verulegar athugasemdir eru gerðar við hann. Fagtæknilega stendur OR mjög framarlega en óþörf stjórnunarlög eru að eyðileggja fyrirtækið og stjórnmálamenn vilja fá að gera það áfram og fá til þess ódýrt fjármagn frá sparifjáreigendum.

Þessi aðferð er vel þekkt hér á landi hún var ástunduð fram undir 1985 með gengdarlausri eignauppstöku í formi gengisfellinga og verðbólgu og nú berjast sömu stjórnmálöfl fyrir áframhaldi þeirrar stefnu

Sömu stjórnmálamenn hafa ákveðið þrátt fyrir stöðu fyrirtækisins að tappa út úr fyrirtækinu sem er á barmi gjaldþrots þeim milljörðum sem eiga að koma frá lífeyrissjóðunum í formi „arðs!!??“ til gæluverkefna hjá Reykjavíkurborg. Allir vita hverjir munu borga þetta, það eru vitanlega eigendur þess sparifjár sem geymt er í lífeyrisjóðunum, þeir eiga að standa undir þessum óskalistum stjórnmálamanna í formi minni lífeyris. Ef gerðar eru athugasemdir við þetta hreytir borgarstjórnarmeirihlutinn sínum venjubundnu þóttafullu aðdróttunum og innistæðulausu dylgjum í fréttaþáttunum.

Enn eina ferðina er umræða um hinn óendanlegan orkuforða Íslands kominn upp á borðið og á að gera okkur að ríkustu þjóð í heimi án þess að við lyftum svo sem einum eða tveim fingrum. Á sama tíma er rokið til ef virkja á aðgengilegasta vatnsfall landsins, sem þegar er búið að umbreyta með gríðarlegum mannvikjum á hálendinu og það sem til stendur að fari undir lón núna er land sem bændur meðfram ánni hafa athugasemdalaust þegar umbylt í tún og golfvelli.

Það liggur fyrir að raforka verður ekki flutt yfir hafið nema að hún sé í fyrstu framleidd hér á landi og eins það verður ekki gert nema um sé að ræða umtalsvert magn. Svipað og framleitt er á Kárahnjúkum að minnsta kosti og það sé hagkvæm virkjun. Það eru nú ekki margir kostir í boði af þeirri stærðargráðu. Vilja menn virkja gufualfið að Fjallabaki, Landmannalaugar og Hrafntinnusker? Eða vilja menn loka Dettifoss með því að færa jökulvatnið yfir í Arnardal og fæða nýja stórvirkjun við Lagarfljótið.

Á sama tíma hlýtur maður að spyrja stuðningsmenn þessara tillagna hvort þeir séu þá tilbúnir að nota síðan óhagkvæmu virkjanakostina til þess virkja fyrir íslensk heimili og atvinnulífið hér heima, eða hvernig ætla þeir nú að fara að þessu.

Við þennan lista er hægt að bæta við mörgum málum. T.d. umræðunni um nýja stjórnarskrá og stjórnlagaþing. Um allt sé leyfilegt ef það sé ekki bannað í lögum, umfjöllun um aðdraganda Hrunsins eigi að fara fram í réttarsölum og siðferðið skiptir engu.

Landslög eru grunnur þess til að halda uppi réttarríki. En lögfræðileg nálgun í uppgjöri Hrunsins nær ekki yfir meginvandann og nauðsynlega siðbót. Friður og sátt innan samfélagsins næst ekki í tæknilegu tafli lögfræðinga.

fimmtudagur, 18. mars 2010

To be or to have?

Hlustaði nýverið á mjög gott erindi Sigurðar Eyberg um umhverfis- og auðlindafræði og „Fótspor“ okkar hér á landi. Margir hafa velt fyrir sér ágang manna á jörðina og hafa reynt að setja á hann einhverskonar mælistiku. Þá er reiknuð er út getu ákveðinna svæða jarðarinnar til að framleiða gagnlegar afurðir með sjálfbærni og notkun manna á þessum afurðum.

Ef geta viðkomandi svæðis er meiri en neysla þeirra sem þar búa er talað um vistfræðilegan afgang, en ef neyslan er meiri er talað um vistfræðilegan skort. Algengast er að mælingin sé gerð fyrir þjóð og þá er svæðið umreiknað í meðal framleiðni á jarðhektara, talað er um Fótspor þeirra sem á svæðinu búa.

Ágangur á svæðin er mældur í þeim vörum sem af þeim eru fengnar. Þetta á ekki við um mannvirki, en mæld framleiðnin sem hverfur undir mannvirki og land til kolefnisbindingar en þar er mælt það svæði skóglendis sem þyrfti til að binda magn koltvíoxíðs sem veitt er út í andrúmsloftið.

Global Footprint Network reiknar út Fótspor 150 þjóða á ári hverju. Árið 2005 notaði mannkynið að meðaltali 2,7 jarðhektara. Til þess að fullnægja þörfum mannkyns innan marka sjálfbærni hefði þurft 1,3 jarðir. Það tók jörðina 16 mánuði að framleiða það sem mannkyn neytti á 12 mánuðum.

Af þessum 150 þjóðum eru það Sádi Arabía og Bandaríkin sem eru mestu umhverfissóðarnir og nýta tæpa tíu hektara á mann. Ef allir neyttu á sama hátt og þau þyrftum við 4,5 jarðir til að standa undir neyslunni. Ef allir neyttu eins og Suður Kórea þyrftum við 1,8 jarðir. Ef allir neyttu eins og Indverjar þyrftum við helming af þeim gæðum sem jörðin framleiddi.

Árið 1961 voru flestar þjóðir með vistfræðilegan afgang. Árið 2005 er þessu öfugt farið. Árið 1999 kom fram mæling á Íslandi gerð eftir tölum frá 1993 og reyndumst við nýta 7,4 jarðhektarar. Vistfræðileg geta var 14,3 eða stærra er BNA og Sádarnir. Við erum víða „best“ í heimi. Nú er unnið að samskonar rannsókn á Íslandi miðað við árið 2005. Niðurstöður ekki tilbúnar. Lítur út fyrir að útkoma verði vægast sagt uggvænleg. Við erum orðin „langbest“ í heimi.

Koltvísýringslosun er um helmingur Fótspors hjá vestrænum ríkjum. Með því að hætta losun á gróðurhúsalofttegundum getum við því minnkað Fótsporið um helming. Það má velta því fyrir sér hvort þetta sé bara gálgafrestur, því við blasir aukin neysla og vaxandi fólksfjölgun. Þar má t.d. benda á að Indverjar og Kínverjar munu gera næsta örugglega gera kröfu um að eiga ísskáp og sjónvarp svo ekki sé talað um annað. Það eitt út af fyrir sig kallar á nánast tvöföldun raforkuframleiðslu við með núverandi tækni.

Samfara þessu hljótum við að verða að velta fyrir okkur hvort allir sem fæðast á jörðinni eigi jafnt tilkall til gæða hennar. Eða þá hvort þeir sem búa á gjöfulum svæðum eigi meira tilkall til gæða jarðar heldur en hinir. Ef auðlindir jarðar eru takmarkaðar og þær einu sem mannkyn hefur til að bíta og brenna og við hér á Íslandi notum liðlega tíu jarðhektara, þá eru einhverstaðar fimm sinnum fleiri sem láta okkur eftir sín jarðargæði.

"To be or to have? That is the question" erum við í vestrænum samfélögum spurð, og bent á atferli okkar sem einkennist af græðgi sem skapast af löngun til að eiga í stað þess að vera, sem leiðir til löngunnar til þess að eignast enn meira. Í þessu sambandi má benda á þau einkenni sem hafa verið ríkjandi í hátterni íslendinga og endurspeglast ekki bara í atferli okkar fyrir Hrun. Þetta viðhorf virðist nefnilega ráða ríkjum í þeirri umræðu sem fram fer hér á landi þessa dagana og viðhorfum okkar til nágrannalanda okkar.

Þörfina til að eiga mest, sú fullnægja næst aldrei og getur ekki leitt til annars en til tómleika. Hvar ert þú staddur í því ferli lesandi góður?

miðvikudagur, 17. mars 2010

Það er til fleira en stóriðja

Það gætir mikillar óþreyju um að atvinnuleysi minnki og lögð verði áhersla á flýta fyrir uppbyggingu álvers í Helguvík og stækkun álversins í Straumsvík. En það virðist vera að renna upp fyrir stjórnmálamönnum að ef farið yrði í öll þau álver og stækkanir sem rætt var um fyrir nokkrum misserum, auk gagnavera, og annarra verksmiðja muni það taka til sín umtalsverðan hluta af þeirri orku sem hagkvæmt er að virkja í dag og ganga nærri þeirri línu sem náttúruverndarmenn geti sætt sig við. Einnig hefur verið bent á að önnur ofsaþensla geti laskað hagkerfið til langframa.

Vaxandi hópur hefur bent á hversu mörg störf hátækni- og sprotafyrirtækin hafi skapað. Ég hef t.d. margoft bent á að öll fjölgun starfa í rafiðnaði á undanförnum tveim áratugum hafa verið á því sviði. Í byggingariðnaði. landbúnaði, fiskvinnslu og í orkuframleiðslu og dreifingu hefur engin fjölgun átt sér stað undanfarna tvo áratugi, á meðan 4.000 rafðnaðarmenn hafi farið til nýrra starfa í hátækni og sprotaiðnaði.

Stuðningur við hátækni- og sprotafyrirtæki hefur einhverra hluta vegna aldrei náð sama flugi að t.d. stóriðjuumræða. Sjálfbær þróun er lykilhugtak sem við hljótum að byggja á, eina raunverulega leiðin út úr efnahagssamdrætti er aukin verðmætasköpun. Þróa þarf atvinnulífið á Íslandi heildstætt. Við höfum tvo valkosti. Halda áfram á sömu braut náttúrunýtingar með tilheyrandi sveiflum og togstreitu, hinn er að huga að hátækni og sprotunum. Sjálfbær þróun tekur líka mið af félagslegu réttlæti og jöfnuði - auka heimamenningu með áherslur á gildi hvers samfélags fyrir sig sem og atvinnutækifæri.

Tvö stærstu skrefin í atvinnusögu Íslendinga hafa verið á sviði sjávarútvegs og orkunýtingar. Reyndar á sviði netbólunnar í lok síðustu aldar og svo fjármálavafsturs það sem af er þessarar aldar, sem nú er horfið með skelfilegum afleiðingum. Á meðan uppsveiflan í fjármálakerfinu og ofurgengi íslensku krónunnar voru alls ráðandi átti vöxtur og þróun útflutnings hátæknifyrirtækja erfitt uppdráttar og stærri fyrirtækin tóku út vöxt sinn erlendis.

En undanfarið hafa margir sest niður og einbeitt sér með prýðilegum árangri við sköpun og uppbyggingu nýrra sprota og mörg fyrirtæki eru að taka góðan kipp og vaxa hratt, sérstaklega eftir að fjármálakreppan skall á, enda margt sem hefur lagast í starfsskilyrðum þessara fyrirtækja í kreppunni. Forsvarsmenn fyrirtækjanna sæju fyrir sér bjarta framtíð ef starfsskilyrðin yrðu viðundandi, en það hefur skort stuðning.

Danir hafa náð mjög góðum árangri í þessum efnum og margt sem við gætum lært af þeim. Það ætti að huga að því hvort ekki mætti setja á stofn teymi sérfræðinga sem gæti farið inn í fyrirtæki og hjálpað þeim við t.d að velja út vörur sem henta til útflutnings, hjálpa til við skipulag á markaðssetningu ofl.

Fjöldi þeirra sprota sem hafa komið fram undanfarið eiga fullt erindi með sína framleiðslu hvert sem er. Það er einnig alveg augljóst að við þurfum á þessum útflutningstekjum að halda ef við ætlum að halda því velferðarstigi sem við viljum búa við. Íslensk fyrirtæki haf aþurft að glíma við svo miklar sveiflur í sínum rekstri að þau eru undirseld þeirri stefnu sem stjórnvöld hafa fylgt að bíða eftir næstu innspýtingu sem hafa verið mannaflsfrekar framkvæmdir.

Ef ekki verður staðið rétt að næstu "uppsveifla", má búast við hún gæti orðið styttri en oft áður og timburmennirnir enn harkalegri. Sumt af því sem stjórnmálamenn ræða um lítur út eins og "síðasti smókurinn" áður en við hættum alveg. Er okkar björg fólgin í því að verða með svo skert mannorð að við fáum ekki lán erlendis frá og hafa ekki efni á að kaupa næsta pakka?

mánudagur, 15. mars 2010

Með allt niðrum sig

Þau voru heiftarleg viðbrögðin við ábendingum mínum og fleiri, um að stjórnarnandstaðan væri að skaða þjóðina umtalsvert með háttalagi sínu. Vinnubrögð hennar einkenndust af lýðskrumi og málþófi.

Fullyrðingar um ókleifan skuldamúr voru innistæðulausar fullyrðingar, og ekki síður að telja fólki í trú um að Icesave væri eitthvað sem hægt væri að kjósa sig frá. Sama átti við um ábendingar um að þjóðaratkvæðagreiðslan væri röklaus og snérist í raun ekki um neitt. Fáránlegar fullyrðingar um að stórt feitt Nei myndi skekja heimsbyggðina og Holland og Bretland myndu verð aheimskítsmát vegna þeirrar ofursamningsstöðu sem atkvæðagreiðslanu skapaði Íslandi. Þegar bent var á þetta gengu viðbrögðin svo langt að mér voru send hótunarbréf, veist var að manni í heitum pottum með margskonar smekklegum aðdróttunum eða hitt þó heldur.

Tvíburabræðurnir Sigmundur Davíð og Bjarni Ben voru nánast í beinni útsendingu fréttatíma eftir fréttatíma hjá RÚV vikuna fyrir kosninguna, þar sem þeir gerðu hróp að þeim sem ekki voru þeim sammála með sínu viðtekna orðbragði á borð við landráðamenn og því um líkt. Þar sem þeir voru kannski einna helst að lýsa sjálfum sér.

Aldrei hefur fréttastofa RÚV sett jafn mikið niður. Hún bætti svo í með hinni arfavitlausu frétt í gærkvöldi um skuldir Íslands og fyrirsjáanlegt gjaldþrot. Maður sem talaði útlensku var að leita sér að vinnu sem efnahagssérfræðingur hjá ríkisstjórninnu sagði að allir sérfræðingar Seðlabanka Íslands, Norðurlandanna, EBS og AGS væru vísvitandi að leiða Ísland í gjaldþrot.

Ríkisstjórnin hefur styrkst við þjóðaratkvæðagreiðsluna um Icesave-lögin. Loddaraháttur leiðtoga stjórnarandstöðunnar var afhjúpaður, þar má reyndar þakka RÚV drjúgan þátt í þeirra afhjúpun, en telja má líklegt að tilgangur RÚV hafi verið hinn gagnstæði. Í ljós kom að megintilgangur Icesave-fársins hefur ævinlega verið að fella ríkisstjórnina og stór smjörklípa til þess eins að komast hjá því ræða alvöru stöðunnar.

Stjórnarandstaðan hefur í dag engan styrk til að mynda nýja stjórn. Þjóðin er henni reið fyrir lýðskrumið. Ríkisstjórnin stendur sterkari og deilan er ekki lengur ríkisstjórnarmál heldur mál „92% þjóðarinnar“ sem sagði nei.

laugardagur, 13. mars 2010

Ögurstund

Þegar helgrímu Hrunsins hefur verið svipt í burtu blasir við okkur að íslenskir stjórnmálamenn undanfarinna áratuga hafa búið almenning þjóðfélag þar sem hagsmunir fjármagnseigenda eru settir ofar öllu, en lög til varnar stöðu almennings eru lakari en þekkjast í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Þessi birtingarmynd blasir við okkur t.d. í lögum um skuldir og uppgjör þeirra.

Þetta sáum við svo vel starfsmenn stéttarfélaganna sem börðumst upp á Kárahnjúkum, við hlið manna sem voru hlunnfarnir í launum og aðbúnaði. Þáverandi ráðherrar tóku eftirlitsstofnanir úr sambandi ef kærur bárust, felldu niður dagsektir og létu opna aftur staði sem búið var að innsigla. Hagsmunir launamanna skiptu þá engu, hagsmunir fyrirtækjanna réðu. Stjórnmálamenn réttlættu sig með endurteknum fullyrðingum um að hér ríkti engin spilling og komið var í veg fyrir að mál væri krufin í fjölmiðlum.

Innviðirnir þurfa að breytast Siðbót, yst sem innst! Kærleiksboðanir og jafnræði manna í millum, hafa verið hafðar að háði og spotti. Aldrei höfðu íslensk stjórnvöld frumkvæði að því að sett væru lög sem vernduðu launamenn. Ísland var áratugum á eftir nágrannalöndum okkar í staðfestingu á alþjóðlegum lögum og reglum. Alltaf þurfti áralanga harðvítuga baráttu stéttafélaga til þess að draga stjórnvöld að borðinu og staðfesta þessi lög. Helst var að stilla upp í frágangi allsherjar kjarasamninga með þeim hætti að setja á oddinn skilyrði um framgang þessara mála.

Sömu menn og sömu sjónarmið náðu endurkosningu aftur og aftur. Þau sitja ekki við völd í dag, en berjast um með öllum brögðum í bókinni og virðast vera á leið í ríkisstjórn aftur. Álit Íslands hefur hrapað gríðarlega og fólk í nágrannalöndum okkar spyr hvers konar fólk búi á Íslandi, eins og ég hef margoft komið að hér þegar ég hef fjallað um alþjóðlegar ráðstefnu sem ég hef sótt undanfarið ár.

Við erum um borð í skipi sem sigldi á fullri ferð á ísjaka á meðan skipstjórnin sat að pókerspili. Skipið er enn á sama ísjakasvæði, en það berast stöðugt skipanir úr spilaherberginu um að setja á fulla ferð aftur.

Það er talið nauðsynlegt að hafa til staðar áhættustjórnun í vel reknum fyrirtækjum. En það á ekki við um stjórnvöld og stjórnmálamenn. Hvers vegna ekki? Þessir menn vilja ekki fara í ESB því þar eru þeim settar harðar leikreglur. T.d. blasir það við þegar staðan í Grikklandi eru skoðuð. Þeir vilja ekki Evru, því þá verður að taka upp agaða efnahagsstjórn og ekki hægt að ástunda eignatilfærslur í samfélaginu frá almenning til fárra.

Almannahagsmunir hafa vikið fyrir hagsmunum fjármagnseigenda. Þjóðir eru farnar að keppa í lækkun skatta vegna fyrirtækjanna. Það getur ekki leitt til annars en lakari skóla, veikari heilbrigðisþjónustu og skuldsettari þjóða. Það setur þrýsting á stéttarfélögin, þau dragi úr sínum kröfum og laun hækki ekki. Kaupmáttur minnkar. Arður fyrirtækjanna ræður.

Þessi keppni getur ekki leitt til annars en að þau samfélög sem byggð voru upp með blóði svita og tárum almennings í baráttunni fyrir réttlæti og jöfnuði á síðustu öld munu hrynja. Fórnað á altari samkeppninnar. Það skortir lög sem tryggja hagsmuni almennings gagnvart fjármagnseigendum. Það þarf að skilgreina upp á nýtt hver markmiðin eigi að vera. Taki mið af hagsmunum almennings, í stað þess eru það fyrirtækin sem stjórna ríkisstjórnunum með sína hagsmuni í fyrirrúmi. Samspil þessara aðila ræður um þau kjör sem launamönnum er boðið.

Þau viðhorf sem höfð voru að leiðarljósi við uppbyggingu samfélaga hafa glatast og viðhorf auðhyggju hafa tekið yfir. Barnaþrælkun eykst, mansal viðgengst sem aldrei fyrr, kynlífsþrælkun vex, réttindalausum farandverkamönnum fjölgar og hungrið í heiminum vex. Þeim fjölgar sem ekki hafa aðgang að vatni. Mannfyrirlitning fjölþjóðafyrirtækjanna nálgast okkur sífellt meir.

Gjaldþrot auðhyggjunnar og nýfrjálshyggjunnar blasir við hvert sem litið er. Fjárfestar eru prímusmótorar þessa ferlis blindaðir af veðmálakeppni sem fer fram með undirspili greiningardeildanna. Glottandi styðja þeir bak við tjöldin prófkjör lítilsigldra stjórnmálmanna og synir milljarðamæringa sitja í stólum formanna.

Við erum á ögurstund. Verður aftur sett á fulla ferð áfram í næsta Hrun, eða tekst okkur að snúa skipinu og koma áhættustjórnun yfir stjórnmálamenn.

föstudagur, 12. mars 2010

Þetta reddast ekki

Ef við ætlum að reisa Ísland upp úr rústunum þá verður það ekki gert með skammtíma aðgerðum, hinum venjubundnu íslensku „þetta reddast leiðum“. Fólk er búið að fá sig margfullsatt af hinum endurteknu sveiflum íslensku krónunnar og agalausri efnahagsstjórn stjórnmálamanna, sem oft einkennast frekar af kjördæma poti en heildaryfirsýn. Það verður að fjarlægja þann möguleika að örfáir einstaklingar geti með aðstoð vogunarsjóða spilað með hag almennings eins og gert hefur verið með "blóðsúthellingalausum" lausnum sem ollu Hruninu í boði pólitískra stjórnenda Seðlabankans.

Það voru mikil mistök hjá íslenskum stjórnvöldum að halda ekki áfram á þeirri leið sem mörkuð var með inngöngu í EES með frekari tengslum við evrópska efnahagsstjórn. Um aldamótin síðustu lá fyrir að uppbygging íslensks atvinnulífs var ekki afmörkuð við Ísland og taka yrði á gjaldmiðilsmálum.

Það blasir við í dag að það sem gerðist eftir 2003 var að mestu innistæðulaus bóla sem ríkjandi stjórnvöld vildu ekki horfast í augu við. Þeir sem voguðu sér að benda á þetta voru hæddir og lýst sem púkó og neikvæðum. Fáir sem vildu vera í þeirri stöðu, allra síst ríkjandi stjórnmálamenn. Þeir vildu að allir væru sannfærðir um að þeir hefðu skapað hið Íslenska efnahagsundur.

Útflutningur er forsenda búsetu í landinu og áhrifamikill um gengi krónunnar. Náttúrulegar sveiflur í fiskveiðum ásamt sveiflum í verðlagi hafa verið leiðréttar með handafli stjórnvalda í gengi krónunnar. Aukning orkubúskapar og aukinn iðnframleiðsla hefur unnið að nokkru á þessum sveiflum hefur skapað aukna möguleika á stöðugleika, þ.e.a.s. ef efnahagsstjórnun er rétt.

En stjórnendur fjármálakerfisins þróuðu með sér nýtt form forréttinda fólgið í að útvöldum stóðu til boða gríðarleg lán án þess að þurfa að leggja fram tryggingar, sem nýtt voru til þess að gíra upp hlutabréf og ná út úr hagkerfinu milljörðum króna. Ofurlaun, bónusar, premíur, styrkir auk pólitískra hyglinga og kúlulána varð að skiptimynt innan útvalins hóps.

Fjármagn til þessa kom ekki af himnum ofan frekar en áður. En stjórnarþingmenn undanfarinna 18 ára virðast hafa staðið í þeirri trú að þeir væru ásamt fjármálamönnum og forseta Ísland búnir að finna upp kostnaðarlausa aðferð til þess að útbýta ókeypis málsverðum, glysferðum erlendis og á bökkum íslenskra laxveiðiperlna, ásamt tugmilljóna styrkjum til stjórnmálaflokka. Það var fjármagnað okurþjónustugjöldum og gríðarlegum vaxtamun, ásamt lakari ávöxtun eða verðfalli á eignastýringum sparifjáreigenda.

Greiðandinn var hinn sami og áður, almennir launamenn og skattgreiðendur. Það er einungis ein leið út úr þessum vanda, hún felst í því að koma stjórnkerfinu inn í annað umhverfi þar sem stjórnmálamenn komast ekki upp með jafnóvandaða stjórnarhætti og þeir hafa þróað í tíð ríkisstjórna síðustu 18 ára. Við komumst ekki lengra eftir "þetta reddast" braut stjórnmálamannanna, enda greiðslubyrði almennings þrotin.

Ná verður stöðugleika og lágri verðbólgu. Það er forsenda lágra vaxta og endanlegu afnámi verðtryggingar, eða hvaða nafni sem bankamenn og stjórnmálamenn kjósa að kalla greiðsludreifingarform okurlána. Upptaka annars gjaldmiðils mun taka einhvern tíma. Eitt brýnasta verkefni núverandi ríkisstjórnar er að hefja þetta ferli með því að endurskoða vísitölugrunninn og halda ákveðin áfram við undirbúning inngöngu í ESB og upptöku Evru með aðstoð Seðlabanka Evrópu.

fimmtudagur, 11. mars 2010

Krónan hin stóri skaðvaldur

Staða krónunnar er allt of lág. Með því að láta krónuna vera svona lága er verið að skapa nýjan heimatilbúinn og gríðarlegan vanda, í formi aukinna skulda upp á þúsundir milljarða. Það veldur mikilli eignarýrnun, greiðsluþroti og gjaldþrotum. Núverandi upplýsingar benda til dæmis til þess að eignarýrnun í bankakerfinu frá því fyrir hrun sé um 4.200 ma.kr. eða um 280% af VLF. Á þennan mælikvarða er hrunið á Íslandi fimm sinnum stærra en næststærsta hrun allra tíma (Indónesía, 1998).

Þeir aðilar sem halda því fram að það sé fínt að láta gengið falla til að vinna sig út úr vandanum eru einungis að horfa á rekstrareikning þjóðarinnar, ávinningurinn kemur þá í hlut fárra útvalda (skuldlausra), en ekki er horft á afleiðingar þess á efnahagsreikning þjóðarinnar, og skuldir hækka um tæpa gríðarlega.Sveigjanleikinn sem fylgir því að hafa sjálfstæðan gjaldmiðil - og nýtist svo vel þegar allt er komið í óefni - er dýru verði keyptur.

Sveigjanleikinn kostar okkur himinháa vext. Frá árinu 1995 og til ársloka 2007 var vaxtamunur við útlönd að meðaltali um 5%. Gengi krónunnar var nánast hið sama í lok þessa tímabils og það var í upphafi. Lántökukostnaður í krónum var því að meðaltali um 5% á ári hærri en í viðskiptaveginni myntkörfu á þessu 12 ára tímabili. Margir hafa réttilega bent á að vuið séum að borga 3 - 4 sinnum meira fyrir þakið sem við kaupum yfir fjölskylduna, það er vegna þess að við erum með krónuna. Ef við ætlum að losna við verðtrygginguna, verðum við að byrja á því að losa okkur við krónuna.

Þessi vandi er miklu mun stærri og alvarlegri en sá ávinningur, sem kemur fram á rekstrarhlið fárra. Því til viðbótar er það ekki heldur ávinningur fyrir öll venjuleg fyrirtæki m.a. í útflutningi - að hafa svona lágt gengi þó ávinningurinn sé einhver á rekstrarhlið. Gengisfallið skapar miklu mun meiri vanda fyrir venjuleg fyrirtæki á efnahagshliðinni - þar sem aukning erl. skulda þurrkar út allt eigin fé og setur viðkomandi einingu í greiðslu stopp eða mikinn vanda.

Gengisfallið er því ekki að hjálpa neinum - nema kannski skuldlausum aðilum í útflutningi. Á meðan allir aðrir tapa, og yfir standa stórkostlegustu eignatilfærslur Íslandssögunar. Í þessu sambandi skal haft í huga, að svona mikið gengisfall er ekki til komið af eðlilegum viðskipta- og efnahagsástæðum. Þar er um að kenna kerfishruni krónunnar og allri umgjörð hennar.

Endurreisn á gengi verður því viðkomið með hefðbundnum aðferðum, þær eru ekki lengur fyrir hendi á Íslandi. Þessu veldur breytt í umgjörð krónunnar; hrunið bankakerfi, traust á fjármálamörkuðum, lánshæfnismat Íslands með lokuðum aðgang að erl. bankakerfi og getuleysi Seðlabankans okkar sem lánveitanda til þrautavara, o.fl. o.fl.- sem gerir það að verkum að ekki er hægt að ná genginu til baka með hefðbundnum aðferðum. Þær gagnast ekki nema að takmörkuðu leiti.

Kerfisáhætta krónunnar jókst við fall bankanna. Samningar við ESB og aðstoð Seðlabanka Evrópu er okkur lífnauðsyn, eins og ég hef komið nokkrum sinnum að, með fastgengi þar til evra verður tekin upp eins fljótt og mögulegt er - í samstafi við Seðlabanka Evrópu - byggt á langtíma jafnvægisgegni (gengisvísitölu 135 -140).

Jón Steinsson lektor í hagfræði við Columbia háskóla í New York er með áhugaverða grein um krónuna í Fréttablaðinu í dag og segir m.a. : „Sjálfstæð peningamálastjórn okkar Íslendinga veldur því að krónan lækkar í verði þegar kreppir að. Þetta hjálpar íslenskri framleiðslu þegar allt er í rugli. En þessi hegðun krónunnar gerir það einnig að verkum að krónueignir eru sérstaklega óaðlaðandi fyrir fjárfesta.

Með öðrum orðum, sveigjanleiki krónunnar fælir fjármagn frá Íslandi. Íslenska krónan hækkar því fjármagnskostnað íslenskra fyrirtækja að staðaldri. Yfir tímabilið 1995 til 2007 var þetta krónuálag 5% á ári að meðaltali.

Lykilspurningin þegar kemur að því að velja á milli þess að halda krónunni til frambúðar eða að taka í staðinn upp aðra mynt er því: Er möguleikinn á því að geta fellt gengið í niðursveiflu nægilega mikils virði til þess að hann réttlæti það að íslenskt atvinnulíf þurfi að búa við 5% hærri fjármagnskostnað en samkeppnisaðilar í öðrum löndum ár eftir ár?

Margir kvarta sáran yfir okurvöxtum og vísitölutengingu lána á Íslandi. En sömu aðilar eru oft svarnir andstæðingar þess að krónunni sé kastað og annar gjaldmiðill tekinn upp í staðinn. Þessir aðilar vilja borða kökuna og eiga hana. Í rauninni er eini raunhæfi möguleikinn til þess að losna við okurvexti og vísitölutengingu lána að við köstum krónunni. En þá mættum við heldur ekki lengur koma okkur í ógöngur með reglulegu millibili því gengisfelling yrði ekki lengur möguleiki í stöðunni.“

miðvikudagur, 10. mars 2010

Krónan óvinur launamanna

Allt frá Hruni hefur margoft komið að Ísland búi ekki einungis við bankakreppu eins svo mörg önnur lönd, hin alvarlega staða okkar sé fólgin í gjaldeyriskreppu. Aðalógn atvinnulífsins er fólgin í því hversu lág laun eru orðin hér miðað við nágrannalönd, og það virðist stefna í að þau muni ekki leiðréttast fyrr en eftir töluverðan tíma. Þetta mun leiða til mun meiri atgerfisflótta. Inn á þetta hef ég alloft komið í pistlum þessarar síðu.

Stjórnmálamenn hafa í gegnum áratugina margítrekað eyðilagt ávinning sem launamenn hafa náð í gegnum mikla kjarabaráttu með einu pennastriki í því að lækka gengi krónunnar. Krónan er í raun mesti óvinur íslenskra launamanna í baráttu þeirra við að ná upp sambærilegum kaupmætti og er í nágrannalöndum okkar og gegn því að Ísland sé láglaunasvæði.

Íslenskt hagkerfið hefur tengst stærri hagkerfum vegna aukinna umsvifa atvinnulífsins. Örmynt eins og krónan veldur miklum óstöðugleika, sem kallar á að vextir séu um 3,5% hærri en ella. Það krónan veldur einnig hærra verðlagi, verðtryggingu og minni kaupmætti.

Einangrunarsinnar hafa margoft varið krónuna með því að þá sé ekki hægt að grípa til gengisfellinga í kjölfar óskynsamlegra kjarasamninga stéttarfélaganna. (Leiðrétt blóðsúthellingalaust of góða kjarasamninga stéttarfélaganna, eins og Hannes Hólmsteinn og margir þingmenn Sjálfstæðismanna hafa margoft sagt). Þetta gengur reyndar þvert á það sem þessir hinir sömu stjórnmálamenn halda fram, að aðilar vinnumarkaðsins eigi að semja sjálfir um laun og kjör án þess að vera trufla ríkisvaldið.

Oft er gripið til klisjunnar um að það sé verkalýðsfélögum til skammar hversu lág laun séu í landinu. Einkennilegt er að hlusta svo á þá hina sömu vilja viðhalda ónýtri krónu til þess eins að viðhalda völdum sínum svo þeir geti gripið inn í gerða kjarasamninga og haldið launum hér á landi niðri.

Þessa dagana æpir á okkur að á meðan kaupmáttur launamanna hrynur vegna lágs gengis krónunnar, þá mokar sá atvinnuvegur til sín ofboðslegum hagnaði, sem hefur sig hvað harðast frammi í viðhaldi einangrunar með góðum stuðningi stjórnmálamanna sem kynna sig sem málsvara frelsis og jöfnuðar.

Það er óskiljanlegt hvernig a.m.k. sumir forsvarsmenn VG verja þessa sérhagsmuni með kjafti og klóm, og eru með því að gera aðför að hagsmunum launamanna og leggja drög að því að hér verði láglaunasvæði til langframa.

mánudagur, 8. mars 2010

Kveinstaðaorðræðan

Ég var einn þeirra 40% kjósenda sem ekki mættu á kjörstað. Ástæða þess var byggð á tveim þáttum, ég áttaði mig ekki á því um hvað væri verið að kjósa. Já kom ekki til greina, þar sem fyrir lá að gerður yrði nýr og hagkvæmari samningur. Og reyndar á sömu ástæðum ekki var raunsætt að segja nei við samning sem fyrir lá að yrði ekki brúkaður.

Hún ástæðan og sú sem viktaði þyngra, var að ég óttaðist að hinir óprúttnu spunameistarar Sigmundur Davíð og Bjarni Ben myndu túlka hina fyrirsjáanlegu niðurstöðu á þann veg að þar sem ekki væri hægt að segja Nei við samning sem ekki væri til, þá lægi það í augum uppi að nei þýddi samstaða við þá og málflutning þeirra.

Við þessi 40% vorum óspart hædd að tvíburabræðrunum og skoðanabræðrum þeirra. Nú er komið svo glögglega komið fram að ótti okkar var réttur, og margir þeirra sem fóru á kjörstað og krossuðu við stóra feita Neiið dauðsjá eftir að hafa látið hafa sig að ginningarfílfum.

Sú umræða sem stjórnandstaðan hefur rekið með góðum stuðning Ögmundar og félaga hefur réttilega verið nefnd kveinstafaorðræðan. Þar er ýtt til hliðar heilbrigðum spurningum og umræðum snúið upp í þjóðernisrembing.

Þeir sem ekki fallist á þá túlkun að Íslendingar beri ekki ábyrgð á Icesave, séu föðurlandssvikarar. Fréttaflutningur hefur einkennst að því að Ísland neiti að borga skuldina og athygli beint að meintri ósanngjarnari meðferð sem við höfum fengið.

40% hópurinn benti á að niðurstaða fyrirsjáanlega um að þeir sem myndu mæta myndu segja nei breytti engu um hvað næst gerðist, og myndi einfaldlega setja málið í enn erfiðari stöðu, og það er staðan í dag. Deilurnar eru komnar á enn harðara plan og við búin að koma okkur í þá stöðu að vera að semja um það sem að okkur er rétt, bara til þess að komast upp á yfirborðið og þá er eftir að synda í land.

sunnudagur, 7. mars 2010

Er deilunni lokið?

Er að leita að tölum finn ekki. Það virðist vera að 55% þjóðarinnar hafi mætt og sagt Nei. Afgerandi niðurstaða.

Nú er spurningin hvort þetta verði til þess að Bretar og Hollendingar semji strax, eins og Bjarni og Sigmundur Davíð spáðu, eða hvort þessi kosning verði til þess eins að deilurnar verði enn svæsnari og dragist á langinn, eins við í minnihlutanum spáðu.

Mikið óska ég þess að ég hafi rangt fyrir mér og nú sé hægt að setjast niður og klára þetta mál strax og hefja uppbygginguna.

En ég óttast samt að Bjarni og Sigmundur Davíð ætli sér ekkert að semja og ætli sér ekkert að sætta sig við nýja samninga sama hvernig þeir líti út.

Finn staðfestingu í því að Bjarni sagði í gærkvöldi að nú vildi hann fara niður á þing og endurtaka umræðurnar sem fóru fram í fyrra og tóku nokkra mánuði án nokkurrar niðurstöðu.

Og ég spáði því að niðurstaða Jóhönnu yrði sú að hún myndi höggva á hnútinn með því að skila umboðinu til forsetans áður en þjóðin tortímdi sjálfri sér í þessari deilu, það kemur svo í ljós hvort það hafa verið rétt pæling.

laugardagur, 6. mars 2010

Af hverju ekki alvöru þjóðaratkvæðagreiðslu?

Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið við völd, mest allan lýðveldistímann og framsókn með þeim stóran hluta af þeim tíma. Oft hafa komið upp kröfur um þjóðaratkvæðagreiðslu um ýmis mál, en þessir flokkar sáu aldrei þörf á a verða við þeirri kröfu.

Þegar forsetinn synjaði fjölmiðlalögunum töldu þeir sig ekki þurfa að fara eftir stjórnarskránni heldur afnumdu löginn, þeir vildu ekki að þjóðinni opnaðast sú sýn að þessi leið væri í raun greið, þeir vildu koma í veg fyrir að valdið væri fært til almennings.

Í fyrravor lagði stjórnin fram frumvarp til breytinga á stjórnarskránni þar sem m.a.voru ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu. Sjálfstæðismenn stöðvuðu það mál með málþófi. Skömmu eftir kosningar lögðu Sjálfstæðismenn til að farið yrði í þjóðaratkvæðagreiðslu um umsókn um aðild af ESB.

Nú er verið að kjósa um mál þar sem annar hluti spurningarinnar sem kjósa á um er úreltur og því ekkert að kjósa um. Þá eru sjálfstæðis- og framsóknarmenn allt í einu orðnir hlynntir þjóðaratkvæðagreiðslum. Jóhanna hefur bent á að með þessum farsa og vitleysu sé vísvitandi verið að ófrægja ímynd þjóðaratkvæðagreiðslu og með því stuðlað að því að krafan um stjórnlagaþing og aukið lýðræði verði undir í umræðunni.

Á kaffistofu þar sem ég var nýverið hrópaði ein konan að hún ætlaði ekki að greiða skuldir óreiðumanna og ætlaði því að segja nei. Henni var bent á að þessar kosningar snerust ekki um það, það væri viðurkennt að Ísland myndi borga, heldur væri nú verið að kjósa um nokkrar orðalagsbreytingar á Icesave-lögunum frá því í ágúst og stjórnandstaðan hefði hafnað frestun þar sem kosið yrði um nýjan hagkvæmari samning.

Þrátt fyrir þessa staðreynd liggur það fyrir að allmargir virðast telja að kosningin snúist um að við ætlum ekki að borga Icesave skuldina. Reyndar hefur það komið fram sumstaðar þar sem ég hef komið að sumir telja sig vera að kjósa gegn ESB og aðrir segjast vera fella þessa fokking ríkisstjórn.

Það má færa fyrir því allnokkur rök að höfnun stjórnarandstöðunnar á frestun, sé einmitt sú að þá væri öllu fólki orðið ljóst að verið væri að kjósa um samning, sem núverandi samninganefnd væri búinn að samþykkja og í henni eru fulltrúar stjórnarandstöðunnar. Þá færi fram alvöru þjóðaratkvæðagreiðsla, það er einmitt það sem þeir vilja alls ekki.

Hver verða viðbrögð fólks þegar það uppgötvar að stjórnarandstaðan hafði það að ginningarfíflum með stærstu smjörklípu sem hrærð hefur verið saman?

föstudagur, 5. mars 2010

Jóhanna á að skila inn umboði sínu

Ég er þeirrar skoðunnar og heyri það mjög víða í því umhverfi sem ég starfa í, að sama hver niðurstaða kosningarinnar á morgun, þá eigi Jóhanna að mæta kl. 10.00 á sunnudagsmorgun á Bessastaði og skila inn umboði sínu.

Ákvörðun forsetans gerði stöðu Jóhönnu erfiða, vonlausa. Hún er búinn að reyna til þrautar allt sem henni var mögulegt að reyna. Tek það fram að ég er stuðningsmaður Jóhönnu og ber mikla virðingu fyrir því starfi sem hún hefur unnið, en það er einfaldlega búið að gera henni ókleift að starfa áfram.

Stjórnarandstaðan með hjálp Ögmundarbrotsins hafa völdin og setja ríkisstjórnina í þá stöðu að koma ekki málum í gegn. Í raun er ekkert við það að athuga, þannig virkar lýðræðið. Jóhanna á því að segja við forsetann ap ekkert bendir til annars en að rifrildið haldi áfram. Það muni skaða þjóðina enn meir og nú verður að reyna aðrar leiðir. Stjórnmálamenn hafa fullkomlega brugðist hlutverki sínu, en hafna að axla ábyrgð. Þannig að þjóðstjórn kemur alls ekki til greina.

Við blasa mun erfiðari verkefni en Icesave deilan og það er útilokað að ríkisstjórn með Ögmund og hans fylgifólk ráði við þau verkefni. Stjórnarandstaðan með hjálp Ögmundarbrotsins heldur því fram að hægt sé að hefja uppbyggingu án þess að byggja grunninn fyrst og fá undurstöðurnar í lag. Enginn byggir hús með því lagi. Það er ekki heil brú í þeim málflutning sem ástundaður hefur verið á Alþingi.

Þessar deilur ganga ekki lengur. Niðurstaða kosningarinnar, hver sem hún verður, mun engu breyta.

Forsetinn verður að klára þá vegferð sem hann lagði í. Eina leiðin virðist vera sú að forsetinn skipi starfstjórn til þess að taka við og hún starfi a.m.k. fram á haust, þá taki við að loknum kosningum ný ríkisstjórn við.

fimmtudagur, 4. mars 2010

"Excuse" íslenskra stjórnmálamanna

Er búinn að vera í viðtölum við erlenda blaðamenn undanfarna daga, t.d. franska sjónvarpsmenn fyrr í vikunni og svo útvarpsmenn í dag. Sannmerkt með þeim öllum að þeir hafa mikinn áhuga á ástandi byggingamarkaðsins, atvinnuleysið og þróun þess fyrir og eftir Hrun.

Ég hef farið með þeim um hin hálfköruðu draugahverfi í útköntum höfuðborgarsvæðisins og rætt hvernig ástandið var árin frá 2005 fram að Hruni. Tímann sem bankarnir héldu fjármunum að fólki til þess að selja íbúðina, byggja draumahúsið og kaupa draumabílinn. Fara svo á skíði og á fótboltaleik á raðgreiðslum. „Láttu okkur fá peningana þína og við skulum láta þá vinna fyrir þig. Taktu til viðbótar lán og leggðu allt inn á peningareikningana okkar. Þeir eru 100% öruggir.“

Ekki síður hvernig stjórnmálamenn og þáverandi ráðherrar gengu í lið með bönkunum og hvöttu almenning til fylgis við bankana í Íslenska efnahagsundrinu. Mærðu hina íslensku útrásarvíkinga og gerðu gys af aðvörunarorðum nágrannaþjóða og kölluðu alla innlenda aðila, sem settu upp einhver viðvörunarmerki; öfundar- og niðurtalsmenn.

Rætt var um hvaða afleiðingar þessi afstaða þáverandi stjórnvalda hefði haft fyrir fjölskyldur, sem nú stæðu uppi með hálfbyggð hús. Skulduðu tugi milljóna króna og væru með ókleifa greiðslubyrði, þar sem mánaðarleg greiðsla stæði jafnfætis niðurstöðu rausnarlegs launaseðils.

Ég var spurður að því hvort Icesave væri hið stóra „excuse“ íslenskra stjórnmálamanna, sem vildu komast hjá því að fjalla um eigin gjörðir og fyrri fullyrðingar um velgengni Íslands. Við ræddum þau eftirmenntunarnámskeið sem erlendir menn hefðu átt að sækja ef þeir skildu ekki sérstöðu Íslands, sem hefði verið komið svo langt fram úr öðrum löndum. Væri vitnað til ummæla fyrrverandi íslenskra ráðherra, seðlabankastjórnarmanna og Viðskiptaráðs.

Leikurinn í kringum Icesave virðist hafa vaxið stig af stigi í ofsafenginni og stjórnlausri umræðu, sem hefur einkennst af dramatískum stóryrtum fullyrðingum og gekk svo langt að margir einstaklingar trúa því að lausn vanda Íslands sé falinn í því að kjósa sig frá Icesave og senda AGS heim.

Þar með hyrfi fjárlagagatið stóra og við þyrftum ekki að skera niður í velferðakerfinu. Það væri annarra en íslendinga að greiða þær skuldir, og sjá um að við getum búið hér eins ekkert hafi í skorist, til viðbótar 7 földu umfangi íslenska hagkerfisins sem erlendir aðilar hefðu þegar tapað á íslenska efnahagsundrinu. Það væri sérstaða Íslands sem umheimurinn skyldi ekki nú frekar en fyrri daginn, en myndi skilja eftir kosninguna á laugardag.

Sérstaða Íslands væri að mati stjórnmálamannanna ekki lengur fólgin stórfenglegu Efnahagsundri, heldur í stóru NEI sem myndi valda straumhvörfum um gjörvalla heimsbyggðina. Nú væri Ísland ekki bara komið fram úr öðrum með efnahagsundri, heldur væri stórt íslenskt NEI það sem erlendar ríkisstjórnir ættu eftir að uppgötva og óttuðust.

Hér er á ferð hinn óendanlega mikli fantaskapur íslenskra stjórnmálamanna í garð almennings, sem ekki ætlar að linna. Vitanlega vill íslenskur almenningur trúa því í sínum mikla vanda, að til sé einföld og þægileg lausn. Áður var fantaskapurinn fólgin í hvatningu til almennings að nýta sér sérstöðu Íslenska efnahagsundursins til þess að byggja draumahúsið og skuldsetja sig. Núna er fantaskapurinn fólginn í því að vekja væntingar, sem takmarkaðar líkur eru til þess að standist.

Enda eru stjórnmálamenn komnir í miklar ógöngur með „excusið“. Það væri orðið að sjóðheitri kartöflu í höndum þeirra, svo notað sé þeirra eigin orðbragð og litið til mótsagnarkenndra fullyrðinga í hverjum fréttatíma RÚV á fætur öðrum undanfarna daga. Fyrir dyrum stæðu kosningar sem engin skildi hvaða tilgang hefði, og þaðan af síður hvað NEI þýddi. Nema kannski örfáir íslenskir stjórnmálamenn sem teldu sig vera handhafar hins algilda sannleika. Með öðrum orðum, lifa að hætti meistara Altungu í sögu Voltaires, "í blekkingu og loka augunum fyrir því hversu hörmulegur heimurinn í rauninni er. Núið sé besti mögulegi veruleikinn."

Samskonar viðbrögð einkenna stjórnmálamennina nú og áður. Engin má mótmæla þeirra sannleika. Það væri ekki bara öfundarfólk, heldur Landráðamenn. Hvorki meir eða minna og óvinir alls þess sem íslenskt væri.

En það eru stjórnmálamennirnir sem hafa nú þegar valdið því að það er íslenskur almenningur sem tapar, alveg sama á hvern veg kosningin á laugardaginn fer. Kostnaður Íslands af athöfnum stjórnmálamanna einskorðast ekki bara af athöfnum þeirra fyrir Hrun, heldur fór hann hratt vaxandi eftir Hrun.

Atvinnulífið fær enga fyrirgreiðslu og getur ekki endurfjármagnað sig, nema á afarkjörum, sakir þess að skuldaálag Íslands er komið í ruslakörfuna og hér ríkir fullkominn glundroði.

Ég sagði frökkunum að ástæða væri að óttast viðbrögð almennings þegar ekki væri lengur til fóður í áframhaldandi moldveður. Þau gætu orðið ofsafengin og mun fjölmennari en búsáhaldabyltingin var.

miðvikudagur, 3. mars 2010

Ógeðsdrykkur sjálfstæðismanna

Það er áberandi hversu ofsafengin málflutningur sjálfstæðismanna er þessa dagana, troða einstaklega lélegum samning niður í kokið á þjóðinni og allt það barnalega hjal þeirra. Ég ætla ekki að eyða tíma í að fjalla um málflutning Framsóknarmanna hann er á svo óendanlega lágu plani.

Ég tala sérstaklega um mína fyrrverandi flokksbræður, því mér finnst það svo sárt að þurfa að horfa upp á ábyrgðarlausar athafnir þeirra, og ég veit vel úr starfi mínu að það eru margir fyrrverandi og núverandi flokksmenn sama sinnis.

Það blasir við að þessir pótintátar í þingliðinu eru búnir að koma um 2000 manns á atvinnuleysiskrá með athöfnun sínum undanfarna 10 mánuði og koma allnokkrum fyrirtækjum fram af brúninni. Fyrirtækin komast ekki af stað því engin tekur lán til framkvæmda á þeim afarkjörum sem fyrirtækjum og heimilum stendur til boða, á meðan Icesave stendur óleyst.

Þetta hefur ítrekað komið fram hjá forsvarsmönnum Samtaka iðnaðarins og Samtaka atvinnulífsins, og eru líklega 90% þeirra sjálfstæðismenn. Fyrir liggur að athafnir lýðskrumarana á þinginu eru búnar að seinka uppbyggingu efnahagslífsins um a.m.k. eitt ár og koma okkur mun neðar í táradalinn. Þannig að uppgangan verður mun erfiðari en hún þurfti að vera.

Það liggur ekkert fyrir um að það náist betri samningur svo neinu sérstöku nemi. Vaxtaálag landsins hefur margfaldast og ásamt viðskiptavild hefur snarfallið. Skaðinn af þessu þurrkar út þann ábata sem nú liggur á borðinu og vel það. Þar til viðbótar kemur svo skaði atvinnulífs og heimilanna.

Einnig blasir við að öll gífuryrðin um kostnað vegna Icesave eru della. Það sem kemur úr búi Landsbankans er nálægt fullnaðarkostnaði ásamt því sem kemur úr tryggingarsjóði. Þær tekjur sem sjóðurinn mun hafa næstu árin stendur fyllilega undir öllum kostnaðinum.

Þegar þetta allt er skoðað liggur augljóslega fyrir að tilgangur sjálfstæðismanna var sá einn, að komast hjá því að ræða Hrunið og aðdraganda þess. Enda er helmingur þingliðs flokksins og forysta hans uppvís að vera beinir þátttakendur af ósómanum, sem er að lenda á skattgreiðendum þessa lands og lífeyrissjóðunum.

Þessi smán mun fylgja þingmönnum sjálfstæðismanna. Athafnir þeirra undanfarið eru að tryggja að afleiðingar Hrunsins munu liggja á þjóðinni mun lengur en þörf var, var það þó ærið fyrir. Nú hamast lýðskrummarnir á þinginu við að sannfæra okkur um að kosningin snúist um samvisku ríkisstjórnarinnar og ekkert minna. Allir sem voga sér að benda á önnur rök vinna gegn hagsmunum þjóðarinnar og eru hvorki meir eða minna en Landráðamenn.

Þingmönnum sjálfstæðismanna hefur tekist að blanda þjóðinni beiskan ógeðsdrykk og nú á að troða honum niðrum kok landsmanna, svo ég noti þeirra eigin orðbragð.