laugardagur, 30. júlí 2011

Ískaldur veruleikinn

Nú blasir við hin ískalda staða sem hagdeildir aðila vinnumarkaðs hafa varað við undanfarin misseri, og ég hef reyndar endurtekið tönglast á í pistlum á þessari síðu. Grunntónninn hefur alltaf verið = Ef fjárfestingar í atvinnulífinu verði ekki auknar stefndi í hratt vaxandi gat í fjárlögum vegna minnkandi skatttekna.

Ríkisstjórnin hefur gengið eins langt og hægt er í hækkun skatta og kominn inn að beini í niðurskurði í heilbrigðis- og menntakerfinu, en þar eru stærstu útgjaldaliðirnir. Líklega er hægt að finna einhverjar matarholur annarsstaðar í ríkisrekstrinum, en þar er mun minni bita að finna. = Margoft hefur komið fram í aðvörunum frá hagfræðingum stéttarfélaganna að ef ríkisstjórninni tækist ekki í samvinnu við atvinnulífið að losa þjóðina úr þessum doða blasti einungis eitt við, risavaxið fjárlagagat haustið 2011 og fjöldauppsagnir opinberra starfsmanna.

Einungis ein leið er úr þessum vanda; Auka fjárfestingar í atvinnulífinu og auka verðmætasköpun. Fækkun starfa hefur numið um 15% og "nota bene" einungis hluti þeirra er á bótum, þessa fyrrv. launamenn er að finna annarsstaðar. Það þýðir að mánaðarlaunasumman er um 6 MIA lægri en hún gæti verið, sem þýðir um 2,5 MIA lægri tekjur fyrir ríkissjóð á mánuði og útgjöld atvinnuleysistryggingasjóðs væru um 2 MIA lægri = Fjármálaráðherra hefði a.m.k. 5,5 MIA meir úr að spila við hver mánaðarmót.

Stjórnmálamenn hafa ekki getað komið sér saman um nokkurn skapaðan hlut, þar hefur klækja- og átakapólitík að venju ráðið öllu. Allt snýst um að koma í veg fyrir að hinn flokkurinn geti komið fram nokkru máli. Þetta hefur leitt til þess að óvissan í gengismálum er mikil. Reynt er að bjarga málum fyrir horn með allskonar reddingum m.a. í skattkerfinu og launatengdum gjöldum, sem skapar enn meiri óvissu = Allir halda að sér höndum og doðinn vex.

Skuldatryggingarálagið er óþarflega hátt og vexti vegna annarra lána og svo frestun á styrkingu krónunnar sem hafa kostað heimilin ómældar upphæðir. Heimilin og ríkið skulda upp fyrir rjáfrið = Hvert vaxtastig kostar samfélagið aukalega milljarða króna og hærri vaxtagreiðslum.

Við búum í árfarvegi segja forsvarsmenn tæknifyrirtækjanna þegar þeir ræða uppbyggingu í atvinnustarfsemi hér á landi. Árbotninn er frjósamur og góður. Þar er fullt af sprotum og mikil gróska. En svo fer að rigna. Þá kemur flóð sem ryður öllum sprotunum í burtu.

Þegar grynnkar aftur í ánni þá fara stjórnmálamenn aftur að talað um hvað farvegurinn sé góður og gott að hafa blessaða krónuna. Þetta gerist á tíu ára fresti og þá fer fram gríðarleg eignaupptaka hjá launamönnum á íslenskum vinnumakaði. = Þau 40 ár sem Rafiðnaðarsambandið hefur til hefur það samið um vel liðlega 3.000% launahækkanir, á sama tíma hefur danska rafiðnaðarsambandið samið um 330% og býr samt við betri kaupmátt.

Danskir rafiðnaðarmenn hafa auk þess ekki þurft að búa við stökkbreytingar skulda. Þeirra gjaldmiðill er tengdur Evrunni. Það er sama hvort krónan er fasttengd, undir höftum eða handstýrð. Það hafa verið reynd ýmis kerfi með krónuna en ekkert virkar.

Það er lífnauðsynlegt að finna varanlega lausn á gjaldmiðilsmálum Íslendinga. Ef við ætlum að búa áfram við krónuna þarf að taka upp mun strangari efnahagsstjórn en ef við tækjum upp Evru. = Krónan kallar á mjög digra og dýra gjaldeyrisvarasjóði, sem veldur því að vaxtastigið þarf að vera um 3% hærra en það er t.d. í Danmörku.

Uppbygging og afkoma íslenskra fyrirtæki byggist á því að geta fengið samkeppnishæfa fjármögnun erlendis. Krónan er aftur á móti tæki fyrir stjórnvöld til að stýra kaupmætti almennings. Leiðrétta blóðsúthellingalaust of góða kjarasamninga eins og þeir fjármálaspekingar sem keyrðu landið í þrot og settu Seðlabankann á hausinn, orðuðu þetta gjarnan glottandi í hátíðarræðum á fundum valdakjarnans.

Þessi hugsunarháttur hefur ráðið ríkjum íslenskum stjórnmálum frá lýðveldisstofnun og birst almenning í um 25% meðalverðbólgu á ári síðustu 60 ár. 25% verðbólga er færsla fjórðungs tekna frá launþegum og sparifjáreigendum til atvinnurekenda.

Launþegar hafa eytt 3 mánuðum á ári í 60 ár í að niðurgreiða íslenskt atvinnulíf. Þriðjung starfsævi okkar eyðum við í að greiða herkostnað af efnahagsstjórn stjórnmálamanna, sem finnst það eðlilegt að tryggja lágan launakostnað með verðbólgu og stæra sig ásamt forseta vorum af því að þeir séu að vinna atvinnulífinu svo mikið gagn með þessu ráðslagi í ræðum um heimsbyggðina. Þetta ófremdarástand vex samfara aukinnar tengingar íslensks atvinnulífs við erlenda markaði.

Íslenskum launamönnum hafði tekist frá 2000 að ná um 13% kaupmáttaraukningu fram að Hruni, en töpuðu henni allri við Hrunið,auk þess að fjöldi heimila tapaði öllum sínum eignum.

Danir féllu ekkert í kaupmætti um við efnahagshrunið og hafa bætt við sig 1% eftir 2008 og tæp 6% það sem af er þessari öld. Auk þess að halda þeir sínum eignum.

Svíar hafa gert betur, þeir hafa bætt við sig 2.3% eftir efnahagshrunið og 7,3% það sem af er þessari öld, og líka halda sínum eignum.

Finnland hefur bætt við sig 4,5% í kaupmætti frá efnahagshruninu og bætt við sig 10,8% það sem af er þessari öld.

Meðaltal kaupmáttaraukningar í Evrópu það sem af er þessari öld er 12,7%, þar af 2,7% eftir efnahagshrunið. Heimild: Alþjóðavinnumálastofnunin (ILO) árið 2010.

Vextir hér á landi eru töluvert hærri en annarsstaðar og vaxtamunur verður alltaf a.m.k. 5% hærri á Íslandi en innan Evrusvæðisins, það er vegna krónunnar. Ef fjölskylda kaupir sér eitt hús á Íslandi og önnur kaupir sér hús t.d. í Danmörku. Þá er staðan sú eftir 20 ár að íslenska fjölskyldan hefur greitt sem svarar andvirðis rúmlega tveggja húsa, séu greiðslur bornar saman við stöðu dönsku fjölskyldunnar.

fimmtudagur, 28. júlí 2011

Hagvöxtur - auknar skatttekjur

Í viðræðum aðila vinnumarkaðs og stjórnvalda undanfarin ár hefur margoft komið fram að vaxandi hagvöxtur sé eina leiðin frá þeim doða sem ríkir í atvinnulífinu. Hagfræðideildir atvinnulífsins benda á að ef hagvöxtur yrði árlega um 2% til ársins 2020, yrðu lífskjör þá svipuð og þau voru 2008. En atvinnuleysi yrði svipað og það er nú og velferðarkerfið verulega laskað, sem er óásættanlegt. Það þarf 5% hagvöxt til ársins 2020 til þess að losna við atvinnuleysið, bæta lífskjör og ná velferðakerfinu úr því falli sem það hefur verið undanfarin 2 ár.

Forsenda þess að ná hagvexti upp er að auka fjárfestingar í atvinnulífinu, en þær hafa um langt skeið verið allt of lágar og voru á síðasta ári komnar niður í um 13% af vergri landsframleiðslu, innan við 200 MIA. Þetta hefur valdið þeim doða sem hér ríkir.

Tekjufall ríkissjóðs hefur þar af leiðandi verið umtalsvert. Aðilar vinnumarkaðs hafa haldið því fram að ef við ætlum að ná settum mörkum og skapa raunverulegar forsendur fyrir uppgangi og bættum kaupmætti verði lágmarksfjárfestingar í atvinnulífi að aukast í um 280 MIA árið 2011, 345 MIA á árinu 2012 og 365 MIA á árinu 2013. Fjárfesting fari þá upp í 21% af vergri landsframleiðslu sem er lágmark fyrir viðunandi hagvexti.

Það samfélag sem við gerum kröfu um er dýrt í rekstri. Lengra verður ekki gengið í skattahækkunum, það mun kalla yfir okkur enn meiri doða. Augljóslega verður að ná jöfnuði í opinberum rekstri. Fyrir lok þessa árs verður að minnka rekstrarkostnað hins opinbera ekki bara verulega, heldur umtalsvert. Það kallar á að skapa verði enn fleiri störf hjá fyrirtækjunum á almennum markaði, eða um 20 þús. ný störf hér á landi á næstu árum, sá möguleiki er einungis fyrir hendi með vexti tæknifyrirtækja, það eru ekki sjáanleg fjölgun starfa í sjávarútvegi eða landbúnaði.

Í öllum alþjóðlegum áætlunum er reiknað er með að orkuverð tvöfaldist til ársins 2030. Það gæti leitt til þess að tekjur Landsvirkjunar fimmfaldast á þessum tíma og orkufyrirtækin gætu þá greitt skatta til samfélagsins, sem samsvari kostnaði við rekstur heilbrigðiskerfisins.

Huga þarf að auðlindagjöldum þannig að þar verði ekki farið í sama farveg og kvótinn fór. Tryggja þarf að ráðandi hlutur í orkufyrirtækin séu í eigu almennings. Vatnsaflsvirkjanir eru gullnámur, ekki er komist hjá því að nýta þær, ef svona fámenn þjóð ætlar að geta staðið undir rekstri á því velferðasamfélagi sem við gerum öll kröfu til. Það er eina leiðin til þess að fyrirbyggja að við drögumst ekki enn meir aftur úr hinum Norðurlöndunum.

Ekki verður lengra gengið í að hækka skatta umfram það sem nú er, engin sátt verður um að draga enn meir úr velferðarkerfinu og láta styrki til þeirra sem minnst mega sín rýrna enn frekar. Þetta verður einungis gert með því að nýta betur þær auðlindir sem þjóðin á. Þar er að finna þá viðspyrnu sem leitað er eftir við að komast út úr doðanum til endurreisnar íslensks atvinnulífs.

Ný stjórnarskrá - hvað nú?

Neikvæðu á að mæta með jákvæðu. Niðurrifi á að mæta með uppbygginu. Einræði og kúgun á að mæta með auknu lýðræði. Þetta vill almenningur, en sérhagsmunahópar hafa gengið öndverða leið og náð að einoka íslenskt samfélag og beitt síðan aðstöðu sinni til þess að verja sjálftekna stöðu. Umræðunni hefur markvisst verið splundrað og átaka- og klækjastjórnmál stunduð.

Krafa almennings hefur verið að ná tilbaka sem af því hefur verið tekið og hafa borið miklar væntingar til Stjórnlagaráðsmanna. Þetta skynjuðum við nýkjörnir Stjórnlagaþingmenn, kjörnir, með góðum kosningum.

Valdahóparnir reyndu að draga úr áhrifum kosninganna og letja fólk til þess að mæta á kjörstað, en 83 þús. mann mættu og kusu. Margir vildu taka þátt í verkefninu og 523 buðu sig fram og 25 kosnir. Þá var beitt öðrum brögðum til þess að koma í veg fyrir að Stjórnlagaþing gæti hafið störf. En þeir sem kosnir voru skynjuðu hvers var vænst af þeim og öxluðu sínar byrðar. 25 einstaklingar með ákaflega ólíka sýn og mismunandi reynslu, en þeir voru góður þverskurður af samfélaginu.

Fyrir lá gríðarlega mikið efni. Niðurstaða þjóðfunda og Stjórnlaganefndar. Nýlegar stjórnarskrár annarra landa. Tekist var á um mörg mál, en alltaf lá fyrir einlægur vilji allra að ná sameiginlegri niðurstöðu og textinn var mótaður á löngum fundum. Allir gáfu eftir til svo sameiginleg niðurstaða fyndist. Textinn varð smá saman til og var borinn undir sérfræðinga og endurskrifaður og borin undir alla starfshópana og endurskrifaður og aftur borinn undir sérfræðingana og endurskrifaður.

Framúrstefnulegur mannréttindakafli varð til
Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt þjóðfélag þar sem allir sitja við sama borð. Ísland er frjálst og fullvalda ríki með frelsi, jafnrétti og lýðræði að hornsteinum. Öll erum við jöfn fyrir lögum og skulum njóta mannréttinda án mismununar. Öllum börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.

Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar og eiga rétt á að tjá hugsanir sínar. Öllum skal tryggður réttur til trúar og lífsskoðunar, þar með talinn rétturinn til að breyta um trú eða sannfæringu og standa utan trúfélaga. Í lögum má kveða á um kirkjuskipan ríkisins.

Öllum skal með lögum tryggður réttur til lífsviðurværis og félagslegs öryggis. Allir eiga rétt til að njóta andlegrar og líkamlegrar heilsu að hæsta marki sem unnt er. Í lögum skal kveða á um rétt til mannsæmandi vinnuskilyrða, svo sem hvíldar, orlofs og frítíma.

Öllum skal tryggður réttur til að stofna félög í löglegum tilgangi, þar með talin stjórnmálafélög og stéttarfélög, án þess að sækja um leyfi til þess. Félag má ekki leysa upp með ráðstöfun stjórnvalds. Engan má skylda til aðildar að félagi. Með lögum má þó kveða á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra.

Öllum skal tryggður réttur til að safnast saman án sérstaks leyfis, svo sem til fundahalda og mótmæla. Réttur þessi skal ekki háður öðrum takmörkunum en þeim sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi.

Tekið var á því hverjir ættu auðlindir landsins og hvernig þær skildu nýttar.
Nýtingu náttúrugæða skal haga þannig að þau skerðist sem minnst til langframa og réttur náttúrunnar og komandi kynslóða sé virtur. Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar.

Enginn getur fengið þær, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og því má aldrei selja þær eða veðsetja, beint eða óbeint. Til auðlinda í þjóðareign teljast náttúrugæði, svo sem nytjastofnar, aðrar auðlindir hafs og hafsbotns innan íslenskrar lögsögu, vatns- og virkjunarréttindi og jarðhita- og námaréttindi.

Við nýtingu auðlindanna skal hafa sjálfbæra þróun og almannahag að leiðarljósi. Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar þeirra, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.

Tekið var á misvægi atkvæða og kosningakerfunum, persónuvali kjósandans og flokkræðið minnkað.
Atkvæði kjósenda alls staðar á landinu vega jafnt. Frambjóðendur mega bjóða sig fram samtímis á landslista og einum kjördæmislista sömu samtaka. Kjósandi velur með persónukjöri frambjóðendur af listum í sínu kjördæmi eða af landslistum, eða hvort tveggja. Honum er og heimilt að merkja í stað þess við einn kjördæmislista eða einn landslista, og hefur hann þá valið alla frambjóðendur listans jafnt.

Störf Alþingis voru efld og skilin milli framkvæmdavaldsins og löggjafans gerð skýrari.
Alþingi kýs í Lögréttu fimm menn til fimm ára. Þingnefnd eða fimmtungur alþingismanna getur óskað eftir áliti Lögréttu um hvort frumvarp til laga samrýmist stjórnarskrá og þjóðréttarlegum skuldbindingum ríkisins. Ekki má afgreiða frumvarpið fyrr en álit Lögréttu liggur fyrir.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis kannar hvers kyns athafnir og ákvarðanir ráðherra eða stjórnsýslu þeirra eftir því sem hún telur efni til. Skylt er nefndinni að hefja slíka könnun að kröfu þriðjungs þingmanna.

Beint lýðræði almenning tryggt, með málskotsrétti þjóðarinnar.
Tíu af hundraði kjósenda geta krafist þjóðaratkvæðis um lög sem Alþingi hefur samþykkt. Kröfuna ber að leggja fram innan þriggja mánaða frá samþykkt laganna.

Tíu af hundraði kjósenda geta lagt frumvarp til laga fyrir Alþingi. Alþingi getur lagt fram gagntillögu í formi annars frumvarps. Mál sem lagt er í þjóðaratkvæðagreiðslu samkvæmt ákvæðum þessa kafla skal varða almannahag. Hvorki er hægt að krefjast atkvæðagreiðslu um fjárlög, fjáraukalög, lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum né heldur um skattamálefni og ríkisborgararétt.

Alþingi fær skýrari verklýsingar og skil milli framkvæmdavalds og löggjafans gerð gleggri.
Ráðherrar eru æðstu handhafar framkvæmdarvalds hver á sínu sviði. Þeir bera hver fyrir sig ábyrgð á málefnum ráðuneyta og stjórnsýslu sem undir þá heyrir. Enginn getur gegnt sama ráðherraembætti lengur en 8 ár. Sé alþingismaður skipaður ráðherra víkur hann úr þingsæti á meðan hann gegnir embættinu og tekur varamaður þá sæti hans.

Ríkisstjórn tekur ákvarðanir sameiginlega um mikilvæg eða stefnumarkandi málefni samkvæmt nánari ákvæðum í lögum. Meirihluti ráðherra þarf að vera á fundi þegar slíkar ákvarðanir eru teknar. Ráðherrar hafa ekki atkvæðisrétt á Alþingi.

Þingnefnd, þriðjungur þingmanna, ríkisstjórn, sveitarstjórn, eða forseti Íslands, geta vísað til Hæstaréttar að dæma hvort lög, stjórnarathafnir eða athafnaleysi stjórnvalda samrýmist stjórnarskrá.

Tekið er fyrir að einn ráðherra geta án samráðs við aðra og án samþykki Alþingis gert alþjóðlega samninga.
Utanríkisstefna og almennt fyrirsvar ríkisins á því sviði er á hendi ráðherra í umboði og undir eftirliti Alþingis. Ákvörðun um stuðning við aðgerðir sem fela í sér beitingu vopnavalds, aðrar en þær sem Ísland er skuldbundið af samkvæmt þjóðarétti, skal háð samþykki Alþingis.

Ráðherra gerir þjóðréttarsamninga fyrir hönd Íslands. Þó getur hann enga slíka samninga gert, ef þeir hafa í sér fólgið afsal eða kvaðir á landi, innsævi, landhelgi, efnahagslögsögu eða landgrunni, eða kalla á breytingar á landslögum, eða eru mikilvægir af öðrum ástæðum nema samþykki Alþingis komi til. Heimilt er að gera þjóðréttarsamninga sem fela í sér framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að í þágu friðar og efnahagssamvinnu.

Með lögum skal afmarka nánar í hverju framsal ríkisvalds samkvæmt þjóðréttarsamningi felst. Samþykki Alþingi fullgildingu samnings sem felur í sér framsal ríkisvalds skal ákvörðunin borin undir þjóðaratkvæði til samþykktar eða synjunar. Niðurstaða slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu er bindandi.

Hvað gerir Alþingi nú?
Munu þingmenn Sjálfstæðismanna og Framsóknar reyna að bregða þúsund fótum fyrir niðurstöðu Stjórnlagaráðs? Hvað gerir almenningur? Hvað næst?.

Ég fékk nokkur svör á leið heim eftir fundi dagsins. Svarið hlýtur að vera þjóðaratkvæðagreiðsla, sagði ákveðin kona við mig á bílastæðinu. Hér er alltof mikið í húfi til þess að alþingismenn,undir þrýstingi sérhagsmunahópa og sjálftökufólks,fái sjálfdæmi til þess að leggja sínu dauðu hönd á ykkar vinnu. Sagði maður við mig út í búð.

Við viljum Þjóðaratkvæðagreiðsla strax, þar geta alþingismenn kosið um leið og ég, en þeirra atkvæði er jafngilt mínu. Það erum við öll þjóðin sem er að fá nýja stjórnarskrá. Sagði nágranni minn. Nú munu alþingismenn sýna sitt rétta andlit. Það er það sem við viljum og þá fáum við nýjar kosningar eftir réttlátum og nýjum reglum settum af fólkinu. Ekki flokkmaskínunum.

miðvikudagur, 20. júlí 2011

Mótsagnakenndur málflutningur

Undanfarnar vikur hafa verið áberandi hástemdar yfirlýsingar í fjölmiðlum um að ferðaþjónustan á SA-horni landsins stefndi í þrot. Þessar yfirlýsingar hafa kallað á viðbrögð úr öðrum landshlutum. T.d. hvað gerist ef sólríkt er á norðurlandi en rigningarsumar á suðurlandi, eða kalt fyrir norðan og gott veður fyrir sunnan. Sambærilegt gerist með einhverjum hætti á hverju ári, án hástemmdra yfirlýsinga.

Yfirlýsingar af þessu tagi eru ekki að vinna þessum atvinnuvegi. þær standast ekki. Tekjur fara í aðra farvegi, fólk hættir ekki að ferðast. Starfsfólk á einum stað tapar tekjum, á meðan fólk annarsstaðar fær tekjur. Eiginlega er ekki hægt annað en að túlka hástemmdar yfirlýsingar á þann veg að starfsfólk á sumum svæðum eigi að hafa forgang umfram starfsfólk á öðrum landsvæðum.

Yfirlýsingar á svipuðum grunni eru í fjölmiðlum þessa dagana, þar á ég við einkennilega gagnrýni m.a. verkalýðsforingja á NA-landi, sem er sauðfjárbóndi aukreitis og forsvarsmanna stéttarfélags bænda í sauðfjárbúskap. Þeir eru ná vart upp í nef sér yfir reiði, þegar bent er á að fólk muni líklega hætta við að kaupa lambakjöt í sama magni og áður, ef verð þess hækkaði um fjórðung. Skilja má á oðrum þeira að fólk muni hætta að borða ef það fær ekki lambakjöt.

Hér vill ég taka sérstaklega fram að ég er ekki að sjá eftir að sauðfjárbændur fái launahækkanir, ég er að benda á að þessi málflutningur er ekki að skila sér í betri stöðu fyrir bændur, þvert á móti.

Hér gerist í raun það sama og ég bendi á hér framar hvað varðar ferðaþjónustuna, neysla færist á milli sviða. Aðrir matvælaframleiðendur auka sölu og aðrir starfsmenn fá vinnu. Þeir sem starfa við framleiðslu og úrvinnslu á lambakjöri hafa ekki forgang umfram þá sem framleiða folaldakjöt, nautakjöt eða aðrar fæðutegundir.

Heildarsamtök launamanna mótmæla ekki sérstakri hækkun lambakjöts. En alþekkt er að þau hafa ætíð mótmælt ef opinberir aðilar eða fyrirtæki hækka skattar, álögur, þjónustugjöld, sem leiðir til þess að einhver tiltekin kostnaðarliður heimila er hækkaður umfram umsamdar launahækkanir. Stundum er þetta nefnt að kostnaðarhækkunum er rutt út í verðlag, og þar með er kippt í burtu forsemdum fyrir hófsömum umsömdum launahækkunum sem leiða áttu til þess að kaupmáttur myndi vaxa.

Það er erfitt að skilja umsagnir og framangreindar upphrópanir. Málflutningur forsvarsmanna sauðfjárbænda er almennt sagt ákaflega torskilinn og mikið umtalaður. Þeir vilja njóta þess að geta framleitt lambakjöt með ríkisstyrkjum frá íslenskum skattgreiðendum og flytja það út, en hækka einnig verðið hér landi.

Jafnframt vilja sauðfjárbændur fá að njóta tollafríðinda með sínum útflutning sem Ísland nýtur í gegnum fjölþjóðasamning, samfara því að þeir berjast hatrammlega gegn því að Ísland geri samninga sem muni leiða til þess að neysluverð íslenskra heimila færist niður vegna lægri tolla, stöðugleiki náist, vextir lækki, verðtrygging verði afnumin. Hagsmunir þeirra vegi þyngra en hagsmunir fjöldans.

Maður á svo sem ekki von á málaefnanlegum svörum úr þeirri átt, að venju koma einhverjar dylgjur um samtök launamanna og kjarabaráttu þeirra og fleira í þeim dúr.

þriðjudagur, 19. júlí 2011

Murdoch-fréttamennska

Hún er ofarlega þessa dagana umræðan um fjölmiðlaveldi Ruperts Murdochs. Í gærkvöld var mjög góður þáttur í norska sjónvarpinu um þetta risavaxna fjölmiðalveldi. Þar var m.a. bent á að helstu fjölmiðlaveldi hingað til í raun verið áhrifavaldur í einni heimsálfu, en Murdoch væri kominn mun lengra með áhrifa mátt yfir nánast alla heimsbyggðina.

Sýnt var fram á að Murdoch hefði í raun einungis hagnaðarsjónarmið að markmiði, ekki hlutlausa fréttamennsku eins og hann léti óspart í veðri vaka. Hagsmunir almennings og mannréttindi skiptu hann engu. Þar var m.a. bent á hvernig hann hefði bakkað fyrir kröfum kínverskra stjórnvalda og lokað fyrir BBC þar sem fjallað var ítarlega um þá miskunnarlausu stjórnarhætti sem tíðkuðust í Kína.

Hleranamálið hefur ekki aðeins grafið undan trausti fólks á fjölmiðlaveldi Ruperts Murdoch, sem var takmarkað fyrir. Nú er víða fjallað um hvernig unnið er í fjölmiðlaveldi Murdochs. Í þættinum í gær var ítarleg umfjöllun um þau vinnubrögð sem ástunduð væru í BNA í fréttamiðstöð FOX. Viðtöl voru við fjölmargir einstaklinga sem fylgjast með fréttamiðlum og eins komu fram margir sem áður höfðu unnið hjá FOX.

Á hverjum morgni koma til fréttamanna FOX miðstýrðar tilskipanir um hvað eigi að leggja áherslu, hvað eigi að sniðganga og hverja eigi að gera ótrúverðuga. Í þættinum var farið ítarlega yfir hvaða brögðum sé beitt til þess að klæða purkunarlausan áróður FOX fyrir últra-hægri stefnu í hlutlausan búning. Stalínísk vinnubrögð var orðið sem ítrekað var notað af mörgum þessi „úlfurísauðagæru“ vinnubrögð.

Sýnt var fram á hversu áberandi væri að margar FOX fréttir byrja á orðunum „Margir segja“ – „Sagt er“ – „Kannanir sýna“ og síðan fabúlerað út frá því. Um 75% þeirra sem síðan var leitað til eftir áliti í fréttaímum og spjall á FOX voru yfirlýstir harðsnúnir hægri menn, hinir 25% voru undantekningalítið þekktir miðjumoðsmenn sem ekki vildu taka sjéns á að missa fylgi.

Ég hef oft notað orðið Sovétið í pistlum mínum þegar ég hef fjallað um svona vinnubrögð og lýst því að ekki sé hægt á sjá neinn mun á því hvert Sovétið leiddi sín þjóðfélög og hvert Nýfrjálshyggjan hefir leitt okkur.

Horfandi á þáttinn kom einhverra hluta vegna oft upp í huga minn hversu mikil samsömun var með því sem dregið var upp í þættinum um vinnubrögð Murdochs og hans undirsáta og svo umtalaðri núverandi ritstjórnarstefnu Moggans og hvernig umfjöllun fer þar fram. Reyndar víðar þá sérstaklega á einum tilteknum netmiðli, sem gefur sig út fyrir að vera einstaklega vandvirkur í fréttaumfjöllun, eins og reyndar FOX gerir líka í hverjum einasta fréttatíma.

Skelfing væri gott ef RÚV sjónvarp allra landsmanna keypti nú sýningarétt á þessum þætti, en margir segja, svo ég noti áðurnefnt, gagnrýnt og umtalað orðalag FOX, segja að stjórn RÚV sé svo hægri sinnuð að það myndi aldrei gerast að RÚV sýndi svona umfjöllun um FOX og Murdoch.

miðvikudagur, 13. júlí 2011

ESB að hrynja?

Nokkrir halda því fram glaðhlakkalegir að nú sé ESB að hrynja, og vísa máli sínu til stuðnings á ástandið í Grikklandi, Ítalíu, Spáni og Írlandi. Því er haldið fram að efnahagsstaða þessara landa sé afleiðing þess að þau gengu inn í ESB. Hér er heldur betur verið að snúa hlutunum á haus.

Efnahagsleg staða allra landa er bein afleiðing efnahagsstjórnunar viðkomandi lands. Ef land býr við pólitíska spillingu og óráðssíu reistri á lýðskrumi, með öðrum orðum stjórnmálamenn sem lofa meiru en þjóðin hefur efni á, þá fer efnahagsstaða landsins í vanda, sama hvort það hefur Evru eða einhvern annan gjaldmiðil. Þessu hefur oft verið bjargað með efnahagsaðstoð frá öðrum löndum, en nú er svo komið að skattborgarar þeirra landa segja hingað og ekki lengra. Framangreind lönd væru í enn verri stöðu en þau eru nú ef þau væru utan ESB.

ESB hefur fylgt þessum kröfum og gert stjórnmálamönnum þessara landa að taka ábyrga afstöðu. Skera niður útgjöld ríkisins eða hækka skatta. Viðkomandi stjórnmálamenn hafa hingað til vikið sér undan þessari ákvarðanatöku, sem hefur orðið til þess að staðan nú svo alvarleg að snarminnka verður útgjöld, minnka lífeyrisskuldbindingar og hækka auk þess skatta svo hægt sé að greiða upp þær skuldir og skuldbindingar sem óábyrg vinnubrögð fyrrverandi stjórnmálamanna hafa leitt yfir viðkomandi þjóð. Sú mikla breyting á aldurssamsetningu þjóðanna sem blasir við á næstu árum gerir það að verkum að ekki verður vikist undan því að taka á vandanum. Hér á ég við að skattgreiðendum fækkar sífellt hlutfallslega.

Hér á landi telja nokkrir að við séum lánsöm og laus við þennan vanda, sakir þess að við höfum sjálfstæðan gjaldmiðil sem hægt sé gengisfella. Þar með hverfi efnahagsvandi þjóðarinnar. En í raun erum við í nákvæmlega sömu stöðu og framangreindar þjóðir.

Ísland hefur búið við spillta stjórnmálastétt og sérhagsmunahópa sem vilja tryggja áframhaldandi aðkomu sína í sameiginlega sjóði landsins og gengistryggða afkomu með tollamúrum. Það má skilja á nálgun nokkurra að það sé ESB sem sækist eftir því að við göngum inn, hið rétta er að við fáum ekki inngöngu nema að við uppfyllum kröfur um stöðugleika í efnahagsstjórn.

Nú er svo komið að íslenskir launamenn hafna í vaxandi mæli þessari leið, ef ekki með atkvæðum þá með fótunum og brottflutning. Hvers vegna? Jú á nákvæmlega sömu forsendum sem raktar eru hér framar. Íslenskir stjórnmálamenn hafa hingað til komist upp með að vísa í gegnum gengisfellingar halla hagkerfisins til heimilanna og í vasa launamanna. Með gengisfellingu er hluti launa almennings gerður upptækur og flutt fjármagn til fárra. Auk þess taka skuldir heimilanna stökkbreytingum.

Þegar Þjóðhagsstofnum benti hvert stefndi var hún lögð niður með manni og mús af þáverandi forsætisráðherra. Þetta leiddi til þess að Hagstofa Íslands horfði í aðra átt á meðan ójöfnuður óx og Fjármálaeftirlitið horfði aðgerðalaust á hvert stefndi og höfundar efnahagsstefnunnar höfðu komið sér fyrir í Seðlabankanum og settu hann kyrfilega á hausinn. Þetta stendur á mörgum stöðum í Rannsóknarskýrslu Alþingis. Ástæða þess er ótti við að lenda í sömu ruslatunnu og Þjóðhagsstofnun.

Þetta setur Ísland auk þess í þá stöðu að við verðum að þola ofurvexti og verðtryggingu. Verðtrygging er afleiðing þess að engin treystir krónunni fyrir næsta horn. Það gildir einu hvort við héldum áfram í okkar krónu eða skiptum um gjaldmiðil, ástandið mun ekkert batna fyrr en tekið verður á efnahagsvanda þjóðarinnar af alvöru. Tekið á verðbólgu, viðvarandi halla, miklum skuldum þjóðarinnar og ríkistryggðum lífeyrisskuldbindingum. Opnun hagkerfisins fyrir erlendri fjárfestingu, aukinni verðmætasköpun og vaxandi útflutning.

Menn strika ekki út háa verðbólgu, sveiflur í efnahagslífi, okurvexti, verðtryggingu, hátt vöruverð, slakan kaupmátt og segjast ætla að taka upp laun eins og þau eru best í nágrannalöndum okkar, henda verðtryggingu og lækka vexti. Það hefst ekki nema með stórbættri efnahagsstjórn landsins, þar skiptir gjaldmiðillinn eða aðild að ESB ekki meginmáli. Þar ráða stjórnvöld landsins og ákvarðanataka Alþingis á hverjum tíma. Von manna hefur staðið til þess að innganga í ESB myndi þvinga fram þessar aðgerðir. Spilling og völd sérhagsmunahópanna er orðin svo víðtæk.

Minna má á hvað Norðurlöndin sögðu við þáverandi ríkisstjórn og stjórn Seðlabanka fyrri hluta árs 2008; Hingað og ekki lengra íslendingar. Þið fáið ekki frekari aðstoð frá nema þið takið á vandamálum ykkar. Auk þess má minna á aðvaranir frá hagdeildum aðila íslensks vinnumarkaðsins á þessum tíma.

Þáverandi ráðherrar okkar hlustuðu ekki þær aðvaranir og síðan var lagst í þær umræður að saka ráðamenn í nágrannalöndum okkar um að þeir væru að valda efnahagslegum vanda hér á landi með því að hafna því að láta okkur hafa meiri peninga, Norðurlöndin væru okkur óvinveitt!!??

Ef farið hefði verið að þessum ráðum strax árið 2007 þá værum við í allt annarri stöðu. Heimilin skulduðu mun minna og við hefðum verið í stöðugum hagavexti eins og hin norðurlöndin hafa verið frá því að botni hagsveiflunnar var náð haustið 2008.

þriðjudagur, 12. júlí 2011

Einangrunarstefna sérhagsmunamanna

Davíð Oddsson þáverandi forsætisráðherra sagði í viðtali 2002 að upptaka evrunnar yrði, að hans mati, dauðadómur fyrir Ísland sem íslenska sjálfstæða þjóð. Davíð er enn á sömu skoðun og hefur sagt í fjölmiðlum að það sem skiptir máli fyrir sjálfstæða þjóð sé eigin gjaldmiðill. Það skiptir Davíð engu hversu illa fljótandi gjaldmiðill hefur leikið launamenn, enda hugsar hann greinilega frekar um hagsmuni vinnuveitenda sinna sem vilja greiða laun í krónum en gera upp við sjálfa sig í Evrum.

Þekkt eru mörg dæmi um sjálfstæðar þjóðir sem ekki telja brýna þörf að nota eigin mynt. Þar má t.d. nefna Lúxemborg með innan við hálfa milljón íbúa, eitt af stofnríkjum Evrópusambandsins og smáríkið Möltu með tæplega 400.000 íbúa. Eystrasaltslöndin þrjú, Eistland, Lettland og Litháen, sem fagna frelsi í Evrópusambandinu eftir langa ánauð og eru að taka upp Evru. Finnar nota Evru, Danir og Færeyingar eru með sinn gjaldmiðil fasttengdan við Evru, þannig mætti lengi telja.

Leiðtogar framangreindra þjóða eru ekki landráðamenn sem vinna gegn sjálfstæði þjóða sinna og geri hana að þrælum. En íslenskir launamenn búa í efnahagslegum þrælabúðum. Þrátt yfir að þeir hafi í raun samningsrétt um launakjör sín, þá fara stjórnmálamenn með kjarasamninga eins og þeim sýnist. Staðreyndin blasir við, íslenskir launamenn voru búnir að ná þokkalegum kaupmætti árið 2005 í samanburði við nágrannaþjóðir, en það var þurrkað út með gengisfalli krónunnar. Þetta hefur gerst reglulega allan lýðveldistímann.

Í könnunum kemur fram að íslenskir launamenn eru harðastir allra Evrópuþjóða í verkföllum og vinnudeilum. Íslenskir launamenn eru ekki öðruvísi fólk en gengur og gerist annars staðar á Vesturlöndum. Skýringanna er frekar að leita í umhverfinu. Aðstæðurnar eru öðruvísi. Það er nánast ómögulegt að semja um laun þar sem efnahagsumhverfi er óstöðugt og verðbólgan og gengisfall eru nýtt til þess að eyðilegt allt á svipstundu til hagsbóta fyrir fáa.

Sífellt þarf að huga að „rauðum strikum" og vera á varðbergi gagnvart dýrtíð og kaupmáttarrýrnun vegna hugsanlegrar gengislækkunar. Ætla má að slíkar aðstæður séu áhrifarík uppskrift að vinnudeilum. Veik króna stuðlar að verkföllum og óstöðugleika á vinnumarkaði. Það er verulegur ávinningur í því að nota mynt sem skipar traustan sess á alþjóðavettvangi, en upp á slíka stöðu býður Evran.

Forseti lýðveldisins hefur alloft sagt í erlendum fjölmiðlum að meginástæða þess að Ísland hafi sótt um aðild að ESB hafi verið efasemdir eftir hrun um að Ísland gæti staðið undir eigin gjaldmiðli. Hann bendir aftur á móti á að gengislækkun íslensku krónunnar hafi hinsvegar hjálpað íslenskum útflytjendum mikið í kreppunni en krónan sé enn um þrjátíu prósentum minna virði en árið 2008, en tekur ekki fram að 24 þús. heimili liggja í valnum.

Kaupmáttur íslenskra launamanna hefur fallið um 15% frá Hruni á meðan hann hefur vaxið um 3 – 15% í nágrannaríkjum okkar. Löndum sem eru innan ESB og eru annað hvort með Evru eða gjaldmiðil sem er fastengdur við Evru.

Nokkrir hafa ásamt forseta lýðveldisins nýtt bók nóbelshöfundar okkar Sjálfstæðu fólki til þess að skilgreina baráttu sína gegn ESB. Í sjálfu sér lýsir þessi bók vel hvert þessi eingrunarstefna mun leiða íslendinga, en það er reyndar hið gagnstæða sem þeir virðast telja ná með því að bera baráttu Bjarts í Sumarhúsum saman við baráttu sinni gegn ESB aðild.

Bjartur notaði allt sítt líf til þess að verða sjálfstæður. Hann er einþykkur hrotti sem fer illa með alla sína nánustu og hugsar aldrei um þarfir annarra en sjálfs sín. Hann berst alla ævi við að halda svokölluðu sjálfstæði sínu en færir fyrir það miklar fórnir og í sögulok hefur hann tapað öllu og er á leið enn lengra inn í heiði, á enn aumara kot.

Bjartur víkur aldrei góðu að nokkrum, segir aldrei neitt fallegt við nokkra sál. Hann leggur aldrei neinum lið. Halldór dregur upp mynd í bók af andstyggilegum manni. Fanti sem fór illa með konur sínar og skepnurnar á bænum. Allt skal lúta valdaþrá hans.

mánudagur, 11. júlí 2011

Baráttan fyrir efnahagslegu fullveldi

Íslendingar náðu fullveldi sínu 1. des. 1918 og hafa stoltir haldið þar til farið var inn á braut takmarkalaus frelsis og fjárglæframönnum sleppt lausum. Hraðatakmarkanir fjarlægðar og dregið úr eftirliti. Viðhorf heimtufrekju og siðlausra tóku völd, þeir sem minna mega sín dæmdir til þess að verða undir.

Efnahagslegt fullveldi Íslands glataðist og vinaþjóðir settu þau skilyrði að sett yrði sérstök vakt á íslenska stjórnmálamenn, ef þær ættu að koma að því að bjarga þjóðinni frá gjaldþroti. Það var ítrekað búið að vara þáverandi ríkisstjórn og stjórn Seðlabanka, en á árangurs.

Krónan var orðin liðlega 20% of hátt skráð og erlendur gjaldeyrir á útsölu, ástand sem var skapað með ótakmörkuðu erlendum lánsfé, sem svo var ekki skilað. Erlendir bankar töpuðu um 8 þús. MIA á Íslandi. Sumir vilja miða við þetta falsaða gengi krónunnar eins og það var í ársbyrjun 2008 og ríghalda í það í allri sinni samanburðartækni. En um leið eru þeir að upplýsa okkur um hversu mikið fals og ómerkilegur málflutningur þessara manna er. Þeim sem til þekkja telja eðlilegt að miða við stöðuna áramótin 2005 og 06. það heufr komið fram hjá öllum viðurkenndum hagfræðingum að allt sem gerðist eftir það var ekkert annað en innistæðulaus loftbóla.

Braskarar græddu milljarða á braski með krónuna og voru tilnefndir til verðlauna sem hið íslenska efnahagsundur. Þeir sem ekki skildu þessa snilli áttu að fara á endurhæfingarnámskeið að kröfu þáverandi ráðherra. Þáverandi stjórn Seðlabanka, sem hafði að uppistöðu mótað þessa helstefnu hagkerfisins, keyrði bankann í þrot og íslenskt efnahagslíf hrundi með skelfilegum afleiðingum fyrir almenning.

Umtalsverður meirihluti viðskipta okkar fer fram í Evrum, gengisáhætta íslendinga minnkar við upptöku evru, og losar okkur undan því að viðhalda stórum gjaldeyrisvarasjóðum til þess að verja krónuna með ærnum tilkostnaði, eða um 2% aukavaxtakostnaði og kallar á verðtryggingarákvæði með einhverjum hætti á langtímalán. Áhættuálag Íslands lækkar töluvert. Það munar gríðarlega mikið um hvert prósentustig í vöxtum, vegna hinna svimandi háu skulda okkar. Hvert prósentustig lækkar vaxtagreiðslur íslenska hagkerfisins um nokkra milljarða.

Krónan hefur leitt til þess að hér á landi hafa stjórnvöld ekki tileinkað sér þann aga og stefnufestu sem þarf að ríkja við efnahagsstjórn. Ef búa á við krónuna áfram og ná ásættanlegum stöðugleika, þarf að taka upp mun harkalegri og agaðri efnahagsstjórn en tíðkast hefur hingað til, mun harkalegri ef gengið væri í ESB og evran tekin upp.

Hér tíðkast ákvarðanir sem miða við misseri á meðan þau lönd sem búa við stöðugleika gera áætlanir til áratuga, atvinnuleysi myndi aukast, hlutfall láglaunastarfa aukast og það mun leiða til enn frekari brottflutning velmenntaðs ungs fólks.

Ástand krónunnar hefur leitt til þess að sparnaður og aðgát í fjármálum er íslendingum ekki eðlislægt. Tapaður-er-geymdur-eyrir-viðhorfið. Fjármálalæsi íslendinga lítið og verður þannig á meðan við búum við örgjaldmiðil. Danir eru greiða aukalega 1 – 1,5% hærri vexti fyrir það að vera með danska krónu í stað evru. Fyrir greiðum við um 3,5% aukalega í hærri vöxtum á meðan við höldum krónunni.

Störf hafa verið send úr landi til svæða þar sem launakjör eru lág. Félagsleg niðurboð leysa engan vanda, þau leiða einungis til þess að lélegur aðbúnaður þeirra sem verst hafa það verður enn lakari. Ísland getur ekki keppt við láglaunasvæðin og með einangrunarstefnu er Íslandi stefnt í neðri deild og þar erum við með fyrirfram tapa stöðu í samkeppni við samfélög með milljarða íbúa.

Ísland á að leggja allt kapp á að bæta menntun vinnumarkaðsins og viðhalda stöðu okkar til þess að keppa áfram í efstu deild. Við þurfum að skapa um 20 þús. störf hér á landi á næstu árum, þau störf verða einungis til á almennum vinnumarkaði og þá helst í tæknifyrirtækjum. ekki í sjávarútvegi eða landbúnaði.

Tæknifyrirtæki okkar(sem hafa skapað flest ný vellaunuð störf á undanförnum árum, á meðan þeim hfur fækkað í sjávarútvegi og landbúnaði) hafa margoft látið koma fram að aðild að myntsamstarfi við Evruna muni draga úr kostnaði félaganna við að verja sig gagnvart hinum gríðarlegu miklu gengissveiflum krónunnar. Þetta snertir ekki síður stöðu launamanna. Kjarasamningar myndu þá halda í stað þess að falla í hvert skipti sem íslensk stjórnvöld grípa til gengisfellinga og flytja kostnað yfir á launamenn með því að lækka laun í landinu. Auk þess að skuldastaða heimila og fyrirtækja tekur stökkbreytingum.

Fjárfestingar í atvinnulífi hafa fallið og eru um 13% af vergri landsframleiðslu og eru innan við 200 MIA. Stjórnvöld verða að tryggja að lágmarksfjárfestingar í atvinnulífi verði 280 MIA árið árinu 2011, 345 MIA á árinu 2012 og 365 MIA á árinu 2013. Fjárfesting fari þá upp í 21% af vergri landsframleiðslu sem er lágmark fyrir viðunandi hagvexti.

Hagvöxtur er eina leiðin úr þeirri stöðu sem Ísland er í. Ef það tekst að ná 2% árlegum hagvexti til ársins 2020, verða lífskjör orðin svipuð og þau voru 2008. En atvinnuleysi verður enn svipað og það er nú og velferðarkerfið verður umtalsvert laskað.

Ef hagvöxtur verður 3,5% fram til 2020 verða lífskjör svipuð og 2008, en atvinnuleysi verður um það bil helmingi minna en það er í dag, eða um 5%, sem er samt töluvert lakara en það var 2008 og verðferðarkerfið verður í sömu stöðu og það er í dag. Það þarf 5% hagvöxt til ársins 2020 til þess að losna við atvinnuleysið bæta lífskjör og ná velferðakerfinu úr því falli sem það hefur verið undanfarin 2 ár.

Ef það á að takast verðum við að auka traust á íslensku samfélagi, og ekki síður meðal okkur sjálfra og það verður ekki gert í sama umhverfi og áður, sem hefur með um eins áratug millibili leitt yfir okkur efnahagslegt hrun.

föstudagur, 8. júlí 2011

Tekst að rjúfa umsátrið um íslenskt samfélag?

Ég hef verið nokkuð duglegur við að rita pistla hér á Eyjuna, búinn að skrifa rúmlega 1.100 frá því ég hóf að skrifa hér haustið 2007. Hef að auki ritað mikið að heimasíður innan verkalýðshreyfingarinnar og í prentmiðla hér á landi og á hinum norðurlandanna. Fengið yfirleitt ákaflega jákvæð og málefnaleg viðbrögð, en verða viðurkenna maður sér stundum ekki tilganginn.

Einmitt þetta er umræðuefni margra þessa dagana, hversu lítið okkur miði og við séum frekar á öfugri leið og fjarlægjumst nágrannalönd okkar. Áberandi séu hvernig þeir vinni stjórnmálamennirnir sem leiddu yfir þjóðina spillinguna og sköpuðu forsendur Hrunsins og svo þeir sem nýttu sér þessa stöðu og drógu til sín milljarða króna. Það virðist sem það eiga að ráða áfram framgangi mála hér á landi tengsl við tiltekin flokkspólitísk öfl, það skiptir litlu hversu vel unnar og rökfastar framlagðar tillögur eru.

Margir vonuðust til þess að það góða sem myndi hljótast af Hruninu að sá tími myndi nú renna upp að hægt væri að tala opinberlega á heiðarlegan og opinskáan hátt. En tök valdastéttar stjórnmálanna á samfélaginu, þá sérstaklega armur tiltekins Flokks, eru gríðarleg, mikið meiri en ég hafði gert mér grein fyrir, það fyllir mann af sorg, já óendanlegum trega-Blús. Þessi hópur sem hefur þessi völd ætlar ekki að sleppa þeim. Þeir ásamt hjörð sinni, sem lifir í velvildarskjóli valdastéttarinnar, trúa því að engir aðrir hafi getu og burði til þess að stjórna landinu.

Þrátt fyrir að við blasi að það var vinnulag og stefna þessarar valdastéttar sem leiddi yfir landið Hrunið gengdarlausa spillingu og olli gríðarlegu eignatapi almennings og kaupmáttarhrapi. Erlendar vinaþjóðir væru búnar að aðvara þáverandi forsvarsmenn í íslenskum stjórnmálum allt frá árinu 2007. Sama á við aðvaranir frá aðilum vinnumarkaðs. Um þetta má m.a. lesa fyrstu pistlum mínum veturinn 2007 - 2008. Einnig segja viðbrögð tiltekins hóps manna úr Flokknum við því að kosið var til Stjórnlagaþings og tilraunum til þess að breyta Stjórnarskránni.

Þessi sjónarmið eru helsti dragbíturinn á að jákvæðar breytingar nái fram að ganga í íslensku samfélagi þar er barist fyrir viðskiptahöftum og sérhagsmunum til þess að verja hagsmuni fárra á kostnað almennings.

Þessi valdastétt vill endursegja söguna sér í hag og fyrirskipa almenning að trúi því að það sem hefur gerst eftir Hrun sé ástæða fyrir núverandi stöðu Íslands. Það er ekki í fyrsta skipti sem það er gert, sömu menn fengu sinn sagnameistara (sem valdastéttin setti sem prófessor við Háskóla Íslands!!) til þess að endursemja sögu síðustu aldar og var sjónvarp allra landsmanna fyrirskipað að kaupa þá þætti dýrum dómum og sýna á besta útsendingartíma. Samfara því að öllum grunnskólum skipað að kaupa seríuna og sýna hana öllum unglingum landsins reglulega.

Í dag berst valdastéttin heiftarlega og af fullri hörku gegn því að Stjórnarskrá sé breytt, krónunni verði viðhaldið, fiskveiðistjórnunarkerfinu verði ekki breytt, Íslandi haldið utan ESB, með áframhaldandi háu verðlagi á dagvöru, háum vöxtum og verðtryggingu. Þetta veldur því að að margir eru fara af landi brott eða lýsa því yfir að þeir að óbreyttu vilji ekki búa í svona samfélagi.

Í nýlegri skoðanakönnun kom fram að 98% ungs fólks ætlar að leita að störfum erlendis, það sér ekki framtíð sína í fiskvinnslu og landbúnaði, enda launin svo lág að fólk vill frekar vera á atvinnuleysisbótum en vinna þar. Það eru ekki einungis atvinnulaust fólk sem er að fara það er frekar velmenntað fólk sem lætur ekki bjóða sér svona þjóðfélag.

Rannsóknarskýrsla Alþingis er hlutlaus heimild um aðdraganda hrunsins og skilgreinir mjög vel þá ábyrgð sem menn báru. Listi mistaka og vanrækslu er langur, en við blasir skeytingarleysi þáverandi stjórnmálaleiðtoga og fylgismanna þeirra gagnvart staðreyndum. Framtíð landsins snýst um að ná fram breytingum til hagsbóta fyrir samfélagið allt.

Við stjórnlagaráðsmenn höfum upplifað mikla jákvæðni almennings í garð starfa okkar undanfarna mánuði. En erum þessa dagana að upplifa aukna ágengni flokksbundinna valdakarla í að reyna að hafa áhrif á niðurstöðu ráðsins, þeir óttast greinilega að hér geti verið á ferðinni eitthvað sem gæti orðið þeim að farartálma í örvæntingarfullri viðleitni sinni í að viðhalda tangarhaldi sínu á íslensku samfélagi.

Tekst okkur í sameiningu að rjúfa þetta umsátur? Ef ég á segja eins og er þá vildi ég trúa því, en er farinn að efast um að það takist.

fimmtudagur, 7. júlí 2011

Tónleikar Bjarkar

Björk er þessa dagana með tónleika á listahátíð Manchesterborgar og er aðalnúmerið þar. Tónleikarnir eru í stóru og gömlu húsi sem hefur verið grænmetismarkaður um langt árabil, ekki ósvipað og gömul járnbrautarstöð. Svið er miðju hússins og svo upphækkaðir pallar allt um kring. Inn í húsið er hleypt 1.800 manns ásamt gestum.

Tónleikarnir eru með tveggja daga millibili fram til 16. júlí, löngu uppselt á alla og langar biðraðir fyrir hverja tónleika í von um að einhverjir miðar séu ekki sóttir. Þeir eru afhentir sama dag og tónleikarnir við innganginn, svo ekki sé hægt að kópera þá, sem er orðið mikið vandamál í dag þar sem margir tölvunördar eru með græjur til þess gera slíka hluti heima hjá sér.

Gríðarlega góð stemming á tónleikunum. kynnir er Sir Richard Attenborogh og hann flytur erindi í upphafi sem er óður náttúrunnar og tengingu hljóðs við hana og tónleikarnir snúast um það. mikil myndræn sýning fer fram á stórum skjám yfir sviðinu, þar er mikið spilað á grunn alls lífs, einfrumunga. Myndirnar eru úr seríum Attenboroghs og vitanlega stórkostlegar.

Gríðarlegur undirbúningur hefur verið unnin síðust tvö ár við þetta verkefni og Björk nálgast það frá mörgum hliðum. Platan Biophilia kemur svo út í haust. Hlustendur geta unnið með þau áfram í app fyrir iPad tölvu.

Björk lét smíða tvö orgel fyrir tónleikana, annað er pípuorgel og auk þess breyta celestu sem hún á. Einnig fékk hún rafmagnsverkfræðinga í MIT háskólann í Bandaríkjunum til þess að smíða gríðarlega stóra hörpu sem byggist á 4 stórum örmum sem sveiflast fram og tilbaka og verður að keyra upp sveiflur í 30 mín. áður en farið er að spila á hörpuna, til þess að ná að samhæfa sveiflurnar og fá nákvæmlega réttum hraða.

Upphaflega var niðurstaða verkfræðinga að armarnir þyrftu að vera 48 til þess að ná þeim hljóðum og töktum sem Björk setti upp, en með því að smíða gríðarlega flókinn og vandaðan búnað neðst á armana, sem eru hjól með hörpustrengjum og á hverri uppistöðu er gítarnögl. Strengjahjólunum er stýrt með tölvustýrðum rafmótor sem snýr viðeigandi streng að gítarnöglinni þegar armurinn sveiflast framhjá. Þetta er allt tengt saman og úr þessu verður afar sérstakur hljómflutningur.

Allar þessar græjur ásamt hljóðgervlunum og myndvörpunum eru tengdar saman í gegnum Apple tölvubúnað og þar er búið að vera náið samstarf Bjarkar við eiganda Apple og tæknimenn hans um þetta dæmi sem er búið að taka 2 ár.

Svo er þarna 3ja tonna spiladós smíðuð úr rústfríu stáli. Hún er vistvæn með sólarsellum sem skapa rafmagn nægilegt fyrir 24 volta DC mótora sem drífa áfram allt verkið. Stór tromla er undir staðan þar er raðað stálnöglum og tekur um tvær og hálfa klukkustund að raða inn venjulegu Bjarkarlagi, einnig er tónborð á spiladósinni þar sem hægt að spila á strengjaverkið beint. Það verður að gera því tromlan er ekki nægileg stór til þess að ná öllu laginu sem Björk vill að sé spilað.

Undir fyrsta lagið er spilað á háspennukefli sem er kyrfilega lokað frá áhorfendum, þar sem neistarnir hlaupa um tæpa tvo metra á milli pólanna, nokkur þúsund volta skot og á þetta er spilað og næst fín laglína sem er undirleikur undir söng Bjarkar. Umhugsunarefni fyrir rafiðnaðarmenn, alla vega hefði engin sagt mér að það væri hægt að spila tónverk eftir nótum á háspennukeflin í spennustöðvum Landsvirkjunar.

Inn í allan flutning tónleikanna spilar stórt hlutverk 24 manna stúlknakór úr Langholtskirkju sem syngur ákaflega sérstaklega, enda skrifaði Björk laglínu kórsins eins og fyrir fiðlur. Kórinn er búinn að æfa í allan vetur og æfir á hverjum degi um 3 – 4 klst. Þau eru einnig að bæta smá saman fleiri af eldri lögum Bjarkar. Björk hefur í undanförnum heimsreisum sínum tekið með hóp af íslenskum tónlistamönnum, þar má minna á að síðast var Wonderbrass hópurinn, stúlkur sem spiluðu á brasshljóðfæri og þar á undan strengjasveitin sem fór með henni.

Björk beitir að venju röddinni af fullri orku og nær gríðarlega sérstökum raddhæðum, enda er hún á sérstöku fæði nokkra mánuði fyrir tónleika og 2 klst. raddæfingum og jóga á hverjum degi og má svo helst ekki tala mikið á milli tónleika.

Áheyrendur tóku Björk mjög vel, þetta er allt annað en rokktónleikar, allir þegja á meðan flutningur fer fram og hlusta og meðtaka allt bæði hljóðrænt og myndrænt. En svo er fagnað gríðarlega í lok hvers lags. Með Björk eru 52 einstaklingar sem starfa við tónleikana. Björk ætlar eins og áður þegar hún hefur gefið út nýjar plötur að fara í tveggja ára heimsreisu og kynna plötuna og er ætlunin að koma hingað heim í haust.

Þessir tónleikar hafa fengið gríðarlega umfjöllun í heimspressuni öll stóru blöðin í Englandi og New York hafa m.a. fjallið um þá, en lítið sem ekkert á pressunni heima. Umfjöllunin einkennist öll af gríðarlega hástemdu lofi.

föstudagur, 1. júlí 2011

Björk með glæsilega tónleika

Björk var með opnunartónleika á listahátíð Manchester í gærkvöldi. Er hér með 24 manna kór skipaðan íslenskum stúlkum og notar einnig sérsmíðuð hljóðfæri. Tónleikarnir eru óður til náttúrunnar og eru haldnir í húsi sem áður hýsti grænmetismarkað. Öll blöð hér eru full af lofi.