þriðjudagur, 26. júní 2012

Hver á að borga brúsann?

  
Á Íslandi hefur það tíðkast að hafa gjaldmiðil sem stjórnvöld geti handstýrt. Lengst af hefur í þeim efnum verið litið til stöðu sjávarútvegs og ef rekstrarstaðan þar er erfið hefur rekstrarvandinn verið færður yfir á launamenn með því að fella gengið. Óbeinn skattur sem nokkrir auðmenn hafa ætíð sloppið við að greiða.
Nú er staðan sú að við búum við höft, erum innan girðingar sem reist er utan um krónuna. Seðlabankinn skráir eitthvert gengi og menn reikna út stöðuna út frá því. En svo er til annað gengi sem heitir aflandskróna, sé litið til þess gengis virðist skráð gengi krónunnar vera amk 30% of hátt. Útflutningsfyrirtæki búa við þetta gengi, sem skapar þeim gríðarlegan hagnað. Óbeinn skattur sem nokkrir auðmenn sleppa við að greiða.
 

Eins og landsmenn hafa sé undanfarnar vikur þá eru til gríðarlegir fjármunir til þess að verja þessa stöðu, og það eru þingmenn tiltekinna flokka sem berjast fyrir því að staðan verði óbreytt. Þessir hinir sömu berjast fyrir því að stjórnarskránni verði ekki breytt, það mun leiða til þess að núverandi valdajafnvægi verður raskað, þeir vilja ekki breyta kosningakerfinu á sömu forsendum. Sprota og tæknifyrirtæki ná sér ekki á strik í þessu umhverfi og eru að flytja af landi brott. Ekki er landbúnaður og fiskvinnsla að bjóða upp á fleiri störf og þau laun sem íslendingar sætta sig við, þeir leita annað og erlendir launamenn eru hér á landi til þess að sinna þessum störfum.
 

Við okkur blasir að stefna þessara stjórnmálamanna hefur komið okkur í það stöðu að við komumst ekki hjálparlaust út úr henni, við ráðum ekki við að falla niður gjaldeyrishöftin nema með gríðarlegri eignaupptöku hjá millitekjufólki. Að öllu óbreyttu mun sú stétt að öllum líkindum þurrkast út hér á landi, eða flytjast til hinna norðurlandanna. Alla vega er það svo að umræddir stjórnmálamenn hafa ekki komið með neinar haldbærar tillögur um hvernig við eigum að komast úr þeirri stöðu sem við erum í. Þessir þingmann hafa einnig vikið sér undan því að taka á þeirri gríðarlegu mismunum að hluti þjóðarinnar býr við ríkistryggðan lífeyri á meðan örðum er gert að horfast í augu við skerðingará skerðingar ofan vegna þess gjaldmiðils sem okkur er gert að búa við.
 

Sömu aðilar telja að vandi Grikkja sé sá að þeir séu innan ESB og að þýskir skattgreiðendur séu svo ósanngjarnir að hafna því að greiða skuldir Grikkja. Þessir íslensku þingmenn eru samkvæmir sjálfum sér og finnst í lagi að haldið sé uppi ósjálfbæri lífeyriskerfi fyrir hluta Grísku þjóðarinnar og þjóðverjar borgi.
 

Ljóst er að ef Grikkir hverfa frá Evrunni þá mun bresta á mikill flótti fjármagns úr landinu, sem reyndar er þegar farið að bera á. Grikkir eru með sínar skuldir í Evrum, við þeim blasa tveir valkostir. Fara íslensku leiðina með gjaldmiðil sem verður í höftum og nýttur til þess að greiða afleiðingar slakrar stjórnunar tækifærisinnaðra stjórnmálamanna, eða ná samningum við ESB löndin og koma í veg fyrir að landa í fjötrum ónýts gjaldmiðils og óábyrgra stjórnmálamanna.
 

Og nú styttist í kosningar og þingmenn búa sig undir að koma fram með kosningaloforð sem verða fjármögnuð að venju með óbeinni skattlagningu í gegnum gengisfellingar krónunnar.
 

Hörðu staðreyndirnar  sem við íslendingum blasir eru að ef ESB lendir í mikilli lægð, eins og framangreindir þingmenn virðast vilja helst og hlakkar í þeim. Helsta markmið ESB var að mynda efnahagssvæði til þess að verja störf og um leið þá tilvist sem við þekkjum. Ef það tekst ekki munu enn fleiri störf hverfa úr Evrópu til Asíu. Verksmiðjum í Evrópu verður lokað vegna þess að þær verða ekki samkeppnisfærar við kínverskar vörur. Í lokin má minna á að velgegni ESB er forsenda þess að íslenskt atvinnulíf nái að dafna.

föstudagur, 22. júní 2012

Forsetakosningar á Íslandi

Ég er fastur pistlahöfundur í norsku dagblaði, hér er júnípistillinn sem birtist þar í dag.

30. júní næstk. verða forsetakosningar á Íslandi 6 frambjóðendur gefa kost á sér. Núverandi forseti Ólafur Ragnar Grímsson hefur setið 4 kjörtímabil eða svipað og fyrrverandi forsetar. Eins og flestir höfðu reiknað með lýsti Ólafur því yfir í nýársávarpi sínu, að nú væri nóg komið og hann vildi snúa sér að persónulegum verkefnum. Þvert á þetta fór nánasti samstarfsmaður Ólafs af stað með undirskriftasöfnun um að hann gæfi áfram kost á sér.

Mikil nettenging íslendinga gerir mögulegt að safna saman miklum fjölda nafna. En það fyrirkomulag sem notast er við er meingallað því þar getur hver sem er skráð inn hvaða nafn sem er, sem veldur því margir sem telja að niðurstaðan sé vart marktæk. Í undirskriftasöfnuninni um endurkjör forsetans voru liðlega 30 þúsund nöfn, þar á meðal voru þeir félagar Mikki Mús og Andrés Önd sem skoruðu eindregið á Ólaf að gefa áfram kost á sér.

Ólafur flutti í kjölfar þessa ávarp í öllum fréttamiðlum þar sem hann sagðist ekki geta móðgað þjóðina með því að hunsað vilja hennar og myndi því gefa kost á sér hálft kjörtímabil, en það væri sá tími sem tæki hann að leiða þjóðina út úr þeim vanda sem hún glímdi við. Þegar Ólafi var bent á að þetta væri fullkotroskin fullyrðing, auk þess að það stæðist ekki að bjóða sig fram til hluta kjörtímabilsins, mætti hann í annað viðtal þar sem hann sór af sér fyrri yfirlýsingar og sagði þær spuna andstæðinga sinna.

Ólafur Ragnar Grímsson var kjörinn árið 1996 með 41% atkvæða. Andstæðingar hans skiptust í tvær nánast jafnstórar fylkingar, hvor um sig með tæplega 30% atkvæða. Ólafur sem áður hafði verið einn af umdeildustu stjórnmálamönnum landsins fór rólega af stað og fylgdi þeim víðtæka skilning að forsetinn ætti ekki að vera beinn þátttakandi í stjórnmálaumræðunni með afstöðu í umdeildum málum, frekar að vera sameiningartákn sem gæti leitt þjóðina á erfiðum tímum.

Þegar dansinn í kringum gullkálfinn blindaði fólk upp úr aldamótum og íslenskir athafnamenn fóru um heiminn í einkaþotum með vasana fulla af lánsfé fengnu með vafasömum hætti og keyptu upp fyrirtæki, var forsetinn fylgisveinn þeirra og flutti lofræður fullar af yfirgengilegri þjóðrembu. Frægust er ræða hans í Lundúnum 3. maí 2005 er bar titilinn „How to Succeed in Modern Business: Lessons from the Icelandic Voyage“ og lauk með þessum velþekktu orðum : „You ain‘t seen nothing yet.“

Forsetinn var því ekki ofarlega á vinsældarlista þjóðarinnar eftir Hrunið og gat þar af leiðandi ekki verið hið leiðandi sameiningarafl sem þjóðin þurfti nauðsynlega á að halda. Hávær krafa var í samfélaginu að stofnanir settu sér ákveðnar siðareglur, þessu hafnaði Ólafur algjörlega og svaraði beiðni Alþingi þar um með miklum þótta.

Í núgildandi stjórnarskrá er ákvæði um málskotsrétt forseta, það er að hafna staðfestingu laga og vísa þeim til þjóðaratkvæðagreiðslu. Ólafur hafði sem stjórnmálafræðiprófessor lýst því yfir árið 1977, að málskotsrétturinn væri dauður bókstafur og enginn fyrrverandi forseta hefði því nýtt hann. Öfugt við þá greiningu lýsti Ólafur þeirri skoðun sinni árið 2010 að við lýðveldisstofnunina árið 1944 hefði það vald sem áður var hjá Alþingi og konunginum verið fært til þjóðarinnar. Forseta lýðveldisins væri ætlað að tryggja þann rétt, vera einskonar öryggisventill.

Á grundvelli þessa hafnaði Ólafur staðfestingar á óvinsælum samþykktum Alþingis og vísaði þeim til þjóðarinnar, með því tókst honum að ná til baka vinsældum með því stilla sér upp sem fulltrúa þjóðarinnar gegn Alþingi, þar sem kjörnir stjórnmálamenn glímdu við hið erfiða verkefni að koma gjaldþrota þjóðarskútunni á flot eftir kerfishrun íslenska hagkerfisins.

Hann nefnir sig sem bjargvætt þjóðarinnar þrátt fyrir að fyrir liggi að málið færi fyrir dómstóla og töluverðar líkur á að tilbaka komi töluvert hærri reikningur en náðst hafði samkomulag um. Verdens Gang, útbreiddasta blað Noregs, birtir til dæmis leiðara um málið 7. marz 2010 og kallaði þjóðaatkvæðið á Íslandi háðung við lýðræðið. Ekki sé hægt bera virðingu fyrir forseta sem með fáheyrðum hætti tekur völd af löglega kjörnu þingi og efnir til þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem allir vita fyrirfram hver niðurstaðan verður. Skuldin sé Íslendinga.

Uffe Ellemann Jensen, fyrrv. forsætisráðh. Danmerkur og Mogens Lykketoft, fyrrverandi fjármálaráðherra, voru með vinsælan þátt um stjórnmál líðandi stundar á TV2 í Danmörku. Lykketoft sagði þar að Ólafur væri að misnota vald sitt sem forseti. Mikill meirihluti Alþingis hefði samþykkt Icesave-samninginn en hann síðan hafnað þeim gegn vilja þings. Uffe Ellemann fjallaði einnig um athafnir Ólafs í Berlingske tidende 7. marz 2010 og kallaði þær Fáránleika leikhús, vegna þess að nýr og hagstæðari samningur lá á borðinu þegar Ólafur tók þá ákvörðun að vísa málinu til þjóðarinnar.

Í tillögum Stjórnlagaráðs að nýrri Stjórnarskrá er stutt við málskotsréttinn en hann gerður skýrari og færður til þjóðarinnar, þar með er dregið úr völdum forsetans. Í drögum Stjórnlagaráðs er rauði þráðurinn að þeir sem byggi Ísland sitji við sama borð. Þeir sem hafa hag af því að engar breytingar verði á íslensku samfélagi berjast hatrammlega gegn því að ný Stjórnarskrá verði borinn undir þjóðina.

Ólafur er fastur gestur í erlendum fréttastofum með yfirlýsingar sem ganga þvert á samþykktir meirihlutans um utanríkisstefnu Íslands, þar á meðal að Norðurlöndin séu helstu óvinir Íslands, þau hafi snúið baki við Íslandi í Hruninu, en Kína ásamt Rússlandi hafi reynst íslendingum vel. Það eru fáir sem skilja þessa fullyrðingu Ólafs þar sem ekki kom nein aðstoð frá þessum löndum, á hinn bóginn komu Norðurlöndin íslendingum til bjargar með stórum lánum á afar hagstæðum kjörum, þegar engin vildi lána íslendingum.

Til skjóli hinnar óljósu stöðu sem Ólafur hefur komið sér í hafa nýlega stofnuð hagsmunasamtök hvatt forsetann til þess að leggja fram frumvarp fram hjá Alþingi varðandi skuldastöðu heimilanna sem myndi kosta ríkissjóð um 400 milljarða króna. Stjórnmálamenn hafa tekist á um þennan vanda á Alþingi en ætíð rekist á hin órjúfanlegu lögmál ríkisreikningsins, skattatekjur og útgjöld. Afstaða Ólafs hefur því hentað vel stjórnarandstöðunni og vitanlega við atkvæðaveiðaveiðar til endurkjörs. Hingað til hafa sitjandi forsetar verið endurkjörnir án sterkra mótframboða, en nú hafa komið fram sterk mótframboð og baráttan um sæti forseta gæti orðið tvísýn.

Ólafur beitti í upphafi baráttu sinnar vel þekktri aðferð til að færa umræðuna inn á það svið sem hann vill hafa hana og binda andstæðinga við það verkefni að hafna og reyna að afsanna fullyrðingum hans. Þessari aðferð hafa klókir stjórnmálamenn beitt hér á landi með góðum árangri. Alltaf þegar svona aðferðum er beitt er ástæða til að hafa áhyggjur af lýðræðinu, því það er svo berskjaldað og viðkvæmt.

mánudagur, 11. júní 2012

Áskorun til fréttastjóra


Undanfarnar vikur hafa fréttastofur kvölds og morgna flutt okkur ítarlegar frásagnir af því hvernig þingmenn virða lýðræðislegar reglur að vettugi og eyða öllum tíma sínum í út og suður ræður. Ræður sem engu máli skipta og eru fjarri því málefni sem er á dagskrá hverju sinni. Tilgangslausir maraþonfundir þar sem þingmenn að eyða tíma sínum í að fara þylja upp svívirðingar hvor um aðra fyrir tómum þingsal.


Þetta svo niðurlægjandi að maður hleypur til og skiptir um rás í útvarpinu þegar kemur að þingfréttum, eða eins og ég verð víða var við, fólk er í vaxandi mæli hætt að hlusta á fréttirnar og spjallþættina.


Af þessum sökum skora ég á fréttastjóra fjölmiðlanna; Í guðs lifandi bænum hættið að flytja fréttir af Alþingi. Sniðgangið allt sem snertir Alþingi í sumar. Setjið Alþingi í fréttabann fram á haust. Leyfið þingmönnum að veltast um í leðjunni og skítkastinu, en hlífið okkur.


Við viljum frekar fá fréttir af fólkinu í landinu sem gengur til sinna starfa og fer í sumarfrí.  Sinnir fjölskyldum sínum og daglegu lífi af virðingu og skyldurækni. Þvert á það sem er orðin viðtekin venja á Alþingi.

föstudagur, 8. júní 2012

Brotlending sægreifanna



Á dýrasta fund sem hefur verið haldin hér  landi mættu einungis liðlega 1.500 manns. Þar af var stór hópur kominn til þess að mótmæla fundinum. Enginn fundur hefur verið auglýstur jafnrækilega. Auglýsingarherferðin kostaði tugi ef ekki hundruð  milljóna. 70 skipum var siglt til Reykjavíkur með miklum kostnaði, hver voru hafnargjöldin? Auk þess voru fríar rútur og veitingar.

Niðurstaðan blasir við, þjóðin vill breytingar á þessu, hún vill ekki að um 50 fjölskyldur fái að sitja einar um aldur og ævi að sameign þjóðarinnar. Arðurinn hefur verið fluttur úr starfsgreininni til þess að sólunda í þyrlur, bílaumboð, kaup á verslanahöllum og þar eftir götunum. Engir eru jafn erfiðir viðfangs í Karphúsinu og sægreifarnir, og eru ávallt með kröfur um að færa kostnað yfir á starfsmenn sína.

Greinilegt er að þjóðin vill breytingar á þessu. Þetta eru skilaboð til þeirra sem hvað harðast berjast gegn þessu á Alþingi, þeir eru ekki að vinna fyrir þjóðina, þeir eru að vinna fyrir sérhagsmunaliðið sem vill óbreytt Ísland. Þessir þingmenn eru að berjast fyrir því að Ísland sé fyrir sérhagsmunagengið.

þriðjudagur, 5. júní 2012

Ólögleg verkföll og pólitískar þvingar

Nánast daglega sjáum við hvernig stjórnmálamenn skipta um ham eftir því hvort þeir séu í stjórn eða stjórnarandstöðu þessa stundina, aðgerðir samtaka útgerðarmanna. Það virðist ekki skipta alþingismenn neinu hvort farið sé að gildandi landslögum eða Stjórnarskrá, hér á ég m.a. við tillögur um eignaupptöku á sparifé launamanna.

Alþingi setti á sínum tíma undir forystu hins merka húnverska bónda Páls Péturssonar á Höllustöðum þáv.  félagsmálaráðherra (1995 – 2003) lög um gerð kjarasamninga, svonefnd Pálslög. Þau skilgreina að ekki hægt að boða verkföll nema um kjaradeilu sé að ræða og að búið sé að vísa viðkomandi deilu til sáttasemjara og hann hafi haldið árangurslausar sáttatilraunir.

Með öðrum orðum, ekki verður farið verkfall nema um skilgreind atriði í kjaradeilu sé að ræða og félagsmenn viðkomandi stéttarfélags/félags atvinnurekenda hafi verið kynnt það með ásættanlegum hætti um hvað deilan snúist og samþykkt að fara í verkfall/verkbann. Ólöglegt er að stéttarfélag/félag atvinnurekenda eða samtök stéttarfélaga/samtök atvinnurekenda taki höndum saman og boði til aðgerða til þess að þvinga stjórnvöld í pólitískri deilu.

Sérstök ástæða er til þess að minna t.d. núverandi þingflokksmann Sjálfstæðismanna, þegar hún hvetur samtök útgerðarmanna til verkfallsaðgerða í pólitískum tilgangi, að þessi lög voru á sínum tíma sett á að kröfu Sjálfstæðismanna. Þeir héldu því fram að forysta verkalýðsfélaganna hefði ítrekað misnotað verkafallsvopnið til þess að koma höggi á pólitíska andstæðinga og þvinga stjórnvöld til aðgerða/aðgerðaleysis. Það er hægt að sýna fram á að Páll og sjálfstæðismenn höfðu rétt fyrir sér í einhverjum tilfellum.

Allnokkrir hafa á undanförnum misserum ítrekað hallmælt verkalýðsfélögunum fyrir að hafa ekki gripið til verkfalla til þess að mótmæla gerðum/aðgerðaleysi Alþingis eftir Hrun. Hér má fullyrðingar nokkurra stjórnmálamanna og þekktra spjallþáttastjórnenda um að núverandi verkalýðsleiðtogar séu aumingjar og landeyður sakir þess að þeir hafi ekki skellt sér í verkföll til þess að mótmæla þvinga stjórnvöld til aðgerða. Það var akkúrat megintilgangur laganna, þáverandi meirihluti Alþingis þótti stjórnir stéttarfélaga nýta sér verkföll um of í pólitískri baráttu gegn sitjandi ríkistjórnum.