miðvikudagur, 28. september 2011

Nauðsynlegt að skipta um mynt

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Eyris og stjórnarformaður Marels, sagði á fundi Samtaka atvinnulífsins og Samtaka iðnaðarins á dögunum að hann væri sannfærður um nauðsyn þess að Ísland verði hluti af stóru myntbandalagi. Þar sem 60 prósent af útflutningi Íslendinga fari til Evrópulanda væri þá ráðlegast að taka upp evru. Árni Oddur sagðist einnig þeirrar skoðunar að íslensk matvara væri að verða samkeppnishæf á alþjóðavísu. Því gætu falist tækifæri í því að ganga í ESB til að fá aðgang að þeim markaði.

Frá 1. apríl 2006 til 1. apríl 2010 hækkaði gengisvísitala krónunnar um 91 prósent sem þýðir að virði hverrar krónu fór nærri því að helmingast. Seðlabankinn kynnti nýlega skýrslu þar sem kemur fram að Íslenska krónan hefur rýrnað um 99,99 prósent frá seinna stríði vegna verðbólgu. Bankinn segir sögu peningastefnu og gjaldmiðlamála á Íslandi vera þyrnum stráða. Verðbólga hefur valdið því að kaupmáttur hefur rýrnað afar mikið síðustu áratugi.

Sem dæmi má benda á það þarf 7100 krónur til að kaupa þá vöru og þjónustu sem ein króna hefði keypt undir lok heimsstyrjaldarinnar árið 1944 ef ekki hefði komið til þess að tvö núll voru slegin af krónunni árið 1981. Það er rýrnun upp á 99,99% á rúmlega 65 ára tímabili.

Íslenska krónan hafði verið skráð á pari við dönsku krónuna fram til ársins 1920, en á því ári var ákveðið að skrá gengi hennar sérstaklega. Gengi dönsku krónunnar hefur undanfarið verið liðlega 20 íslenskar krónur, en sé tekið tillit til myntbreytingarinnar 1981 má segja að gengi dönsku krónunnar sé 2000 gamlar krónur. Verðgildi íslensku krónunnar gagnvart hinni dönsku hefur því rýrnað um 99,95 prósent á 90 ára tímabili.

Með því að halda krónunni lágri er verið að skapa gríðarlegan vanda, í formi aukinna skulda upp á þúsundir milljarða. Það veldur mikilli eignarýrnun, greiðsluþroti og gjaldþrotum. Þeir aðilar sem halda því fram að það sé fínt að láta gengið falla til að vinna sig út úr vandanum eru einungis að horfa á rekstrareikning þjóðarinnar, ávinningurinn kemur þá í hlut fárra útvalda (skuldlausra), en ekki er horft á afleiðingar þess á efnahagsreikning þjóðarinnar, og skuldir hækka um tæpa gríðarlega.

Gengisfallið hjálpar einungis skuldlausum aðilum í útflutningi. Á meðan allir aðrir tapa og framkvæmd er stórkostleg eignatilfærsla. Sveigjanleiki krónunnar fælir fjármagn frá Íslandi. Íslenska krónan hækkar því fjármagnskostnað íslenskra fyrirtækja að staðaldri. Yfir tímabilið 1995 til 2007 var þetta krónuálag 5% á ári að meðaltali.

Margir kvarta sáran yfir okurvöxtum og vísitölutengingu lána á Íslandi. En sömu aðilar eru oft svarnir andstæðingar þess að krónunni sé kastað og annar gjaldmiðill tekinn upp í staðinn. Þessir aðilar vilja einir borða kökuna og eiga hana.

þriðjudagur, 27. september 2011

Má bjóða þér 30% launahækkun - til frambúðar?

„Burtu með verðtrygginguna, í stað þess bjóðum við upp á langtímalán með 6,45% vöxtum, sem verða svo endurskoðaðir á 5 ára fresti.“ Auglýsa bankarnir, en í smáa letrinu stendur að það sé betra að halda áfram að taka verðtryggð lán a.m.k. í sumum tilfellum.

Til þess að ákvarða hvort sé heppilegra óverðtryggt lán eða verðtryggt þarf að hafa skoðun á því hvað viðkomandi reiknar með að verðbólgan verði. Ef samtala vaxta og áætlaðrar verðbólgu er lægri en vextir óverðtryggðs láns er skynsamlegt að velja verðtryggt lán.

Nánast undantekningalaust er greiðslubyrði af óverðtryggðum lánum töluvert þyngri en af verðtryggðum lánum á meðan við erum með jafnsveiflukenndan gjaldmiðil og krónan er og verður. Öllum hafa staðið til boða óverðtryggð lán á breytilegum vöxtum, en nánast allir hafa valið verðtryggð lán vegna greiðslubyrðarinnar.

Eins og allir vita sem hafa eitthvað spáð í verðtryggingu umfram það að hrópa einhverjar innistæðulausar fullyrðingar krydduð með fúkyrðum um starfsmenn lífeyrissjóða og stéttarfélaga, þá er það þannig að ef verðbólga fer af stað þá ertu ekki að greiða allt sem þú ættir að greiða á fyrri hluta lánstímans. Hluti ógreidds vaxtakostnaðar er fluttur yfir á seinni hluta lánstímans. Þess vegna lækkar lánið ekki fyrr en á seinni hluta lánstímans.

Okurvextir og verðtrygging eða einshvers konar greiðsludreifing á vaxtakostnaði er óhjákvæmileg á meðan okkur er gert að búa við krónuna. Menn geta svo kallað verðtryggingu alls konar nýjum nöfnum, það er álíka lausn og hin ofurbarnalega tillaga Lilju Mósesdóttir að breyta um nafn á krónunni, þá væru efnahagsvandamál okkar úr sögunni!! Það er örgjaldmiðillinn og herkostnaður vegna hans sem æxlið, ekki verðtryggingin, hún er plástur á okurvaxtabyrðina sem af æxlið veldur.

Í nýjum lánatilboðum birtist herkostnaður launamanna vegna krónunnar grímulaus, það er verið að færa verðtryggingu yfir í annað form, þú greiðir kostnaðinn strax í stað þess að færa hann yfir á seinni hluta lánstímans.

Skatturinn á íslenskt heimili við að koma sér upp meðalstóru húsnæði og fjármagna með íslensku krónunni er um 30 milljónir króna umfram það sem gerist annarsstaðar á Norðurlöndunum. Mismun sem heimilin hefðu til annarra nota, sparnaðar, neyslu eða fjárfestinga og þannig væri efnahagslífið sterkara um leið og heimilin væru betur sett fjárhagslega. Það er fjárhagslega, mesta hagsmunamála heimila og fyrirtækja í landinu, að losna við krónuna og taka upp aðra mynt sem ekki þarf 3-5% vaxtaálag og verðtryggingu sér til viðhalds.

Árið 2005 gerðu Neytendasamtökin könnun á vöxtum á húsnæðislánum í tíu Evrópulöndum. Ef miðað er við að greiddir séu 2% raunvextir er endurgreiðsla 40 ára láns um 1,5 sinnum höfuðstólinn. Séu vextir 4% er endurgreiðslan tvöfaldur höfuðstóll að raunvirði og ef þeir eru 6% þá er endurgreiðslan 2,7 sinnum upprunalegt lán.

Þetta þýðir að endurgreiðsla á íslensku láni er næstum tvöfalt hærri en í samanburðarlöndunum og er þó ekki tekið það tilvik þar sem mestu munar. Lánakostnaður er því tvö til þrefalt meiri á Íslandi en í samanburðarlöndum.

Miðað við 20 milljón kr. lán þýðir 2% munur 400 þús. kr. mismun á ári, sem 4% þýðir að Íslendingar greiða 800 þús. kr. meira en erlendi húskaupandinn. Á mánuði er munurinn 33 – 66 þúsund krónur á mánuði sem samsvara 45 – 90 þúsund fyrir skatta.

Þetta samsvarar 15 – 30% launahækkun, ef miðað er við algeng laun.

mánudagur, 26. september 2011

Stefnt í næsta hrun?

(Uppistaða þessa pistils er úr pistli sem birtist á þessari síðu í des. 2009.)

Sömu menn eru enn að störfum í greiningardeildunum, þó svo þessir menn hafi orðið uppvísir að því, að allt sem þeir greindu og allar spár þeirra, reyndust vera rangar. Það eru 100 menn sem eru í leiðandi stöðum helstu greiningarhúsanna og starfa þar án nokkurra laga og reglna. Enn er greint á sömu forsendum og gefnar út spár. Stjórnmálamenn halda því fram að ástæða hrunsins hafi verið áhættusækni í fjárfestingum. Það er keppni í öllu og markaðurinn ræður og hann leiðréttir sig. Hefur hann gert það?

Allir bíða eftir ábendingum greiningardeildanna og hlaupa svo til eftir þeirra spádómum og fjárfesta. Allir veðja á sömu forsendum og verðið getur í raun ekki annað en hækkað. Þjóðir keppa í lækkun skatta vegna fyrirtækjanna. Það getur ekki leitt til annars en lakari skóla, veikari heilbrigðisþjónustu og skuldsettari þjóða.

Ef haldið er áfram á þessari braut getur það ekki leitt til annars en að þau samfélög sem við byggðum upp á síðustu öld munu hrynja. Fórnað á altari samkeppninnar. Það vantar lög sem tryggja hagsmuni almennings gagnvart fjármagnseigendum. Það verður að setja alþjóðlega stjórn á kerfið sem tekur mið af heildarhagsmunum. Það þarf að skilgreina upp á nýtt hver markmiðin eigi að vera.

Kerfið eins og það er nú tekur ekki mið af hagsmunum almennings. Þau viðhorf sem höfð voru að leiðarljósi við uppbyggingu samfélaga eru að glatast og viðhorf fjármálanna hafa tekið yfir. Barnaþrælkun eykst, mansal viðgengst sem aldrei áður, kynlífsþrælkun vex, réttindalausum farandverkamönnum fjölgar og hungrið í heiminum vex.

Margir kenna nýfrjálshyggjunni um Hrunið. Ef við skoðum þróunina á Íslandi síðustu áratugina fyrir Hrun voru við völd menn sem boðuðu frjálshyggju. Þrátt fyrir það var þróunin á Íslandi fullkomlega andstæð stefnumiðum frjálshyggjunnar. Skattar hækkuðu og urðu þeir hæstu í heimi, hér verður að taka mið af því að kostnaður vegna lífeyrisgreiðslna og veikinda á vinnumarkaði fer ekki í gegnum skattakerfið á Íslandi.

Undirrótin að þessu öll var pólitísk spilling, samskonar spilling og ræður ríkjum í þróunarríkjum Afríku. Ísland er ríkt af auðlindum og þar af leiðandi er herfang ráðandi stjórnarflokks mikið. Foringjarnir þeirra sköffuðu vel og með því að deila út herfanginu til þeirra sem sýndi flokkshollustu tryggðu þeir um leið stöðu sína. Þeir sem ekki fylgdu foringjanum fengu ekkert.

Íslendingar glötuðu á síðustu tveim áratugum þeim norrænu samfélagsgildum sem þeir höfðu áunnið með mikilli kjarabaráttu og blóðugum verkföllum fram eftir síðustu öld. Ísland var flutt frá hinu norræna velferðasamfélagi. Íslenskur almenningur er að átta sig á þessari stöðu sættir sig ekki við þann ójöfnuð sem hér ríkir og hafnar því að samfélaginu verði splundrað til þess að verja hagsmuni fárra. Í nýlegri könnun kom fram að um 85% ungs fólks sér ekki framtíð sína á óbreyttu Íslandi.

Við Hrunið afhjúpaðist hin gengdarlausa spilling. Ef einhver benti á hvert stefndi fyrir nokkrum árum lenti hann í deilum við þáverandi stjórnarþingmenn sem þrættu fyrir öll gögn. Íslenskir ráðamenn þrættu við kollega sína í hinum Norðurlöndunum þegar þeir bentu þeim góðfúslega á hvert Ísland óhjákvæmilega stefndi.

Stjórnlagaráð kom inn með ferskan vind inn í íslensk stjórnmál, gömlu stjórnmálaflokkarnir óttast það og berjast hatrammlega gegn innsetningu nýrrar stjórnarskrár. Þar var valið fólk utan flokka, almenningur setti til hliðar tilskipanir stjórnmálaflokkanna um val á fulltrúum á Stjórnlagaþing.

Flokksræðið hefur minnkað og um helmingur kjósenda á Íslendinga í dag hefur valið að standa utan stjórnmálaflokkanna. En það skortir aðra valkosti, eða að núverandi stjórnmálaflokkar skipti um fólk. Í þeirri umræðu hefur komið fram harkaleg viðbrögð stjórnmálavaldsins við því að hér verði myndað nýtt stjórnmálaafl á miðjunni og tekið verði undir að nýrri stjórnarskrá verði komið á.

sunnudagur, 25. september 2011

Fögur er hlíðin

"Fögur er hlíðin svo að mér hefur hún aldrei jafnfögur sýnst, bleikir akrar en slegin tún, mun ég ríða heim og fara hvergi." Svo mælti Gunnar á Hlíðarenda, hann vissi hvaða örlög biðu hans en hann kaus frekar að líta tilbaka en horfa fram á veginn. Bróðir hans Kolskeggur Hámundarson horfði fram á veginn og fór utan, en sagði við það tækifæri að hann væri ekki slíkt lítilmenni að ganga á bak orða sinna. Kolskeggur hélt síðan til núverandi ESB landa, með viðkomu í Noregi, þaðan til Danmerkur og var þar með Sveini konungi tjúguskegg og þaðan til Miklagarðs. Þar giftist hann og kristnaðist og var væringjaforingi. Hann bjó í Miklagarði til dauðadags.

Einangrunarstefna og þjóðremba er einkenni málflutnings þeirra sem berjast gegn því að kannað verði til hlítar hvað íslendingum standi til boða gangi þeir í ESB. Þar birtist okkur forsjárhyggja og lokað samfélag sem beitir öllum brögðum til þess að verja hagsmuni valdastéttarinnar á kostnað launamanna. Drýldin sjálfumgleðin og þjóðremban einkennir málflutninginn. Aldrei horft fram á veginn, sífellt horft til fortíðar og sagan endurrituð svo hún nýtist málflutning þeirra.

Styrkjakerfi íslensks landbúnaðar snýst um mjólkurframleiðslu og lambakjöt. Bændasamtökin sjá um þá gagnagrunna sem ráða hvert styrkir fara og það er það sem verður að breyta göngum við í ESB. Reyndar verðum við að breyta til þess að fylgja eðlilegum reglum. Stærsti hluti verðmyndunar í lambakjöti fer fram í milliliðunum, bændur eru láglaunastétt. Verð á lambakjöti skiptist um það bil til helminga, við borgum helming í búðinni og hinn helminginn í gegnum skatta.

Þrátt fyrir að forsvarsmenn bændasamtakanna beiti fyrir sig þeirri fullyrðingu að þeir berjist fyrir því að vernda dreifbýlið og búsetu í landinu, fer mjólkurbúum fækkandi, nú er verið að leggja af mjólkurframleiðslu á Vestfjörðum. Bændabýlum fækkar sífellt, en þau sem eftir standa verða stærri og reyndar skuldugri.

Íslenskur landbúnaður stefnir í nákvæmlega sömu átt og íslenskur sjávarútvegurinn hefur farið, skuldsett upp fyrir rjáfrið. Íslendingar eiga enga dreifbýlisstefnu, en hún er til hjá ESB. Fjárfestar kaupa sífellt fleiri jarðir og bændabýlin eru að verða það stór að hinir raunverulegu eigendur eru bankarnir, engin hefur efni á því að byrja í búskap. Hér vantar samskonar lög og eru innan ESB að það land sem búið er brjóta undir landbúnað skuli nýtt áfram til landbúnaðar.

Alþingi samþykkti að hefja aðildarviðræður við ESB og 2/3 þjóðarinnar vill að þeim viðræðum verði lokið og niðurstaðan borin undir þjóðina. Þetta óttast embættismenn hjá samtökum bænda og samtökum afurðarsala, þeir fara hamförum gegn vilja þjóðarinnar og samþykktum Alþingis. Í þessu sambandi má rifja upp ummæli þeirra bræðra Hámundarsona.

Finnska leiðin eftir samninga við ESB beinir styrkjum til bænda, ekki kerfisins og milliliðanna eins gert er hér á landi, það var einmitt ástæðan fyrir því að Finnar gengu í ESB. Ef við færum þá leið myndi aðstoð við búsetu vaxa og beinir styrkir til bænda hækka umtalsvert. Það er nákvæmlega það sem embættismannakerfi framangreindra hagsmunasamtakanna berst gegn og óttast komi upp ef við göngum í ESB. En það blasir við jafnvel þó við göngum ekki í ESB, verðum við að taka upp samskonar kerfi og Finnar tóku upp.

Ég heimsótti sláturhús í síðustu viku. Þar unnu tæplega 100 manns, nánast allt erlent fólk. Þar voru þeir lambaskrokkar sem átti að senda út einungis grófsagaðir svo það sé hagkvæmara að flytja kjötið út. Öll vinna við kjötið fer síðan fram innan ESB og í mörgum tilfellum hjá fyrirtækjum sem eru í eigu íslendinga.

Sama á við um fiskinn, íslendingar eiga verksmiðjur sem fullvinna íslenska fiskinn. Í þessum verksmiðjum vinna þúsundir launamanna innan ESB. Íslendingarnir senda síðan einungis heim með þann hluta erlends gjaldeyris sem starfsemin gefur af sér sem dugar til þess að greiða kostnað hér heima, allt annað verður eftir úti. Þetta er afleiðing þess að við erum með krónuna sem kallar á vernd í skjóli gjaldeyrishafta.

Þetta myndi gjörbreytast ef við gengjum inn í ESB, þá gætum við flutt öll þessi störf heim og allur arður myndi skila sér inn í íslenskt samfélag, hér um að ræða nokkur þúsund störf, sem öll gætu verið góð undirstaða í öflugri byggða þróun. Hvers vegna velja íslendingar frekar að vera á bótum en vinna í landbúnaði og fiskvinnslu? Hvers vegna eru kjör bænda svona slök? Hvert fara allir þeir milljarðar sem renna í gegnum styrkjakerfi landbúnaðarins? Það eru sífellt færri sem vinna í þessum greinum og launin eru mjög slök.

Ef við skoðun starfsgeira rafiðnaðarmanna, þá hefur þróunin verið þannig að undanfarin 30 ár hefur engin fjölgun rafiðnaðarmanna verið í orkugeiranum, um 300 rafiðnaðarmenn starfað í þeim geira síðan 1980. Sama á við um í landbúnað og fiskvinnslu þar hafa einnig verið að störfum þennan tíma um 300 rafiðnaðarmenn og sama á við um byggingar- og verktakageirann þar hafa verið um 500 – 800 rafvirkjar og það er í þessum geira sem allt atvinnuleysi rafvirkja er.

Á sama tíma hefur rafiðnaðarmönnum fjölgað úr 2.000 í tæplega 6.000 öll fjölgunin hefur verið í tækni og þjónustustörfum. Í dag hefur rafiðnaðarmönnum í Íslandi fækkað um 1.000 frá Hruni. Íslensk tæknifyrirtæki er flest farinn að gera allt upp í Evrum og mörg hafa flutt stöðvar sínar erlendis. Þau hafa sagt að ef Ísland gengi í ESB gætu þeir flutt heim um 3.000 störf á stuttum tíma.

Tæknifyrirtækin sem hafa verið að bjóða upp á mest spennandi störfin ásamt því að þar hefur öll fjölgum starfa verið, eru að flytja sig til ESB. Þau eru alfarið háð góðum viðskiptatengslum við ESB svæðið, góðum lánamarkaði og ekki síður hlutabréfamarkaði.Við rafiðnaðarmönnum blasir stöðnun í starfsframa hér heima. Í nýlegum könnunum kom fram að 85% ungs fólks sér ekki framtíð sína hér á landi. Ungt og velmenntað fólk menn vilja hafa möguleika til þess að viðhalda menntun og aðgang að tækifærum í vali á góðum störfum.

fimmtudagur, 22. september 2011

Fyrirsjáanleg Icesave staða? með smá viðbót

Allir helstu forsvarsmenn fyrirtækja á Íslandi, sérstaklega í orku- og tæknigeiranum hafa lýst því yfir að Icesave-samningurinn hafi gríðarleg áhrif á afkomu fyrirtækjanna hér á landi, þetta hefur komið fram í nær hverjum einasta fréttatíma undanfarið 2 ár.

Það hefur komið fram hjá samningamönnum Íslands við gerð Icesave-samningsins og öllum ráðgjöfum þeirra, að sá samningur lá fyrir í fyrra myndi hafa minnstu efnahagsleg áhrif á Íslandi, nóg væri komið af áhættusækni. Á þeim forsendum samþykkti yfirgnæfandi meirihluta Alþingis samninginn, eftir að hafa ítarlega yfir hann með sínum sérfræðingum. Ástæða er að minna á að það var Alþingi sem ákvað að fara þessa samningaleið og skuldbatt þjóðina þar með við hana.

Sá Icesave samningur gerði ráð fyrir að Tryggingarsjóður innistæðueigenda og fjárfesta (TIF) endurgreiddi brestum og hollenskum stjórnvöldum þær fjárhæðir sem þau hafa nú þegar lagt út vegna lágmarkstryggingar við innistæðueigendur Landsbankans í Bretlandi og Hollandi.

Vextir vegna samningsins eru fastir út árið 2016 og reiknast frá 1. okt. 2009 í stað 1. jan. 2009. Verði greiðslum ekki lokið að fullu árið 2016 munu vextir verða svokallaðir CIRR vextir, sem eru þeir lægstu sem tíðkast í lánasamningum erlendra aðila. Í samningnum eru efnahagslegir fyrirvarar með þaki á árlegar greiðslur úr ríkissjóð. hvað þessi atriði myndum við standa algjörlega óvarin verði horfið frá samningaleið. Allt eru þetta velkunn atriði og voru mikið rædd þegar Icesave samningar hafa verið til uræðu á undanförnum misserum.

Var að koma heim eftir vinnuferð úr bænum og sá þá að búið er að draga þá frétt sem ég í vitnaði í í morgun til baka. Það er þessi partur pistilsins: "
Nú er komið fram að eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hyggst ekki bíða eftir uppgjöri þrotabús Landsbankans eins og íslensk stjórnvöld hafa óskað eftir heldur fara með Icesave málið fyrir EFTA dómstólinn. ESA lítur svo á að endurheimtur í Landsbankanum komi efnislegum atriðum málsins ekki við.

Allt annað í þessum pistli stendur og við sjáum svo til hvað verður um næstu mánaðarmót.


Ég vona eins og allir aðrir íslendingar að við sleppum út úr þessu, en þegar hefur orðið hundruð milljarða skaði vegna Icesavedeilunnar og hann getur vaxið um nokkur hundruð milljarða til viðbótar. GG

Ísland hafi skuldbundið sig til að greiða lágmarksinnistæðutryggingar og því skuldi landið 675 milljarða króna.

Eins og ég hef bent á framar töldu margir að nóg væri komið af áhættusækni íslendinga og töldu miklar líkur á að þessi staða kæmi upp. Það myndi síðan leiða til þess að rétturinn kæmist að þeirri niðurstöðu að innistæðieigendum hafi verið mismunað á sínum tíma og þá geta bæði Holland og Bretland krafist hámarks innistæðutrygginga. Þá fer Icesave skuld Íslands úr 675 milljörðum króna í rúmlega 1.150 milljarða plús vextir frá árinu 2008, og þá verði ekki um ræða þá lágu vexti sem voru í samningnum sem var felldur, heldur fullir vextir.

Lánshæfi Íslands ekki bara ríkissjóðs heldur einnig allra fyrirtækja í landinu hefur skaðast vegna dráttar á lausn Icesave deilunnar, þeir stjórnmálamenn sem börðust gegn samþykkt Icesave eru að átta sig á þessu og hamast þessa daga að búa til leiktjöld til þess að fela sig bakvið, með málaferlum vegna hryðjuverkalaganna.

Icesave deilan hefur haft mikil áhrif á möguleika Íslands og íslenskra fyrirtækja til að fá lán á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og einnig og ekki síður á vaxtakjör á þeim lánum sem kunna að fást. Icesave málin valdið orðspori íslendinga miklum skaða og seinkað hagvexti. Hér má t.d. minna á að hvert prósentustig í hagvexti gefur árlega 15 MIA og ástæða að geta þess sérstaklega að það er endanlega tapað og tekur síðan tvöfalt meira á í endurreisn að ná því tilbaka. Þannig að við erum töluvert fjær því að ná markmiðum okkar um að minnka atvinnuleysi og auka tekjur í landinu, endurvinna kaupmátt og vitanlega tapar ríkissjóður umtalsverðum skatttekjum.


Úr fundargerðum Alþingis :
Samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innistæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

Til umræðu var 10 ára lán með 6% vöxtum og jöfnum greiðslum.

Alþingi 38. fundur 28. nóv. 2008 úr ræðu Bjarna Benediktssonar Sjálfstæðisflokki :
Virðulegi forseti. Mér sýnist nú sé að ljúka umræðu um þessa þingsályktunartillögu og málið sé á leiðinni til utanríkismálanefndar til frekari skoðunnar. Hér með er óskað heimildar til þess að leiða til lykta samningaviðræður á grundvelli hinna sameiginlegu viðmiða sem liggja til grundvallar samningaviðræðum sem fara síðan afstað í kjölfarið. Þær voru eins og áður hefur komið fram í umræðunni hér í dag og reyndar áður grundvöllur fyrir því að greiða fyrir afgreiðslu lánsins frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Það er mjög áberandi hér í umræðunni að þátttakendur í henni telja sig sjá það fyrir eftir á að hægt hefði verið að fara aðrar og skynsamlegri leiðir, sem hefðu verið líklegri til þess að valda íslenskum skattgreiðendum inni byrðum en sú leið sem, málið hefur ratað í. Það er vísað til að mynda í lögfræðilegt álit í því samhengi.

Ég held að það sé afskaplega mikil einföldun á þessu máli öllu saman að telja í raun og veru að það hafi verið valkostur fyrir íslensk stjórnvöld að standa stíf á lögfræðilegri túlkun og halda henni til streitu, jafnvel fyrir dómstólum, hvort sem það væri á alþjóðlegum vettvangi eða hér heima fyrir íslenskum dómstólum.
....
Það er alveg ljóst að sú leið sem valin var og sá farvegur sem málið er í núna mun alveg örugglega skila okkur hagstæðari niðurstöðu en við hefðum fengið með því að láta reyna á rétt okkar og ef við hefðum síðan mögulega tapað þeirri þrætu fyrir dómstólum. Það er alveg öruggt.
.....
Þegar heildarmyndin er skoðuð er tel ég að ekki sé hægt að komast að annarri niðurstöðu en að vel hafi verið haldið á íslenskum hagsmunum í þessu máli.

miðvikudagur, 21. september 2011

Efnahagslegar þrælabúðir


Helmingur þjóðarinnar vill ekki styðja núverandi stjórnmálamenn. Okkur er daglega boðið upp á stjórnmálamenn skríkjandi í ræðustól að halda þingstörfum í gíslingu í keppni um að halda orðinu sem lengst við að segja ekki neitt. Í hvert sinn sem þingmaður beitir svona brögðum er hann að sýna Alþingi Íslendinga og okkur kjósendum vanvirðingu. Við kusum alþingismenn til þess að setja sig inn í mál svo vel sem þeim eru unnt.
Á árunum fyrir hrun krónunnar vitnuðu þáverandi stjórnarþingmenn helst í tölur um ríflegan afgang af rekstri ríkissjóðs, tölur um góðan hagvöxt, tölur um vaxandi gildi krónunnar og tölur um stöðuga kaupmáttaraukningu og töldu þær sína hversu gott allir hefðu það í hinu íslenska efnahagsundri. Stjórnarandstöðumenn nýttu þessa tölur líka, þeir vildu auka eyðslu ríkisins.

Á sama tíma bentu hagdeildir aðila vinnumarkaðsins ásamt vinum okkar í nágrannalöndunum á tölur sem sýndu vaxandi halla á viðskiptum Íslands við útlönd og ofurþensluna í hagkerfinu og til þess að bjarga okkur frá miklum óförum í hagkerfinu yrði að skera mikið niður og hækka skatta til þess að minnka eyðsluna. Krónan var árið 2008 um 20% of hátt skráð og þjóðin lifði um efni fram á erlendum lánum án þess að nægjanleg verðmætasköpun stæði að baki. Þessar tölur sögðu okkur að það stefndi í hrun gjaldmiðilsins, en þessar ábendingar hentuðu ekki stjórnmálamönnunum.

Útrásarvíkingar fóru um heimsbyggðina í fylgd forsetans og ráðherra og mærðu hið íslenska efnahagsundur. Þar má minna á kaup þeirra á flugfélaginu Sterling, sem allir Danir töldu að væri ekki krónu virði og margfalt gjaldþrota. Í höndum íslenskra fjárfesta jókst verðmæti Sterling úr þremur milljörðum í tuttugu á örskömmum tíma, við það eitt að íslendingar keyptu og seldu sjálfum sér flugfélagið nokkrum sinnum. Forseti Íslands ásamt þáverandi ráðherrum sögðu þeim sem ekki skyldu íslenska viðskiptasnilli að fara á eftirmenntunarnámskeið.

En hin jökulkalda staðreynd er að Íslendingar geta ekki notað krónur til þess að greiða erlendar skuldir. Hætti Grikkir í evrusamstarfinu og taka upp gömlu drökmuna, munu þeir sem lánuðu Grikkjum ekki sætta sig við að fá nýprentaðar drökmur, þeir myndi líklega frekar vilja fá ónotaðan ljósritunarpappír, þeir gætu notað hann. Allir Grikkir sem ættu eitthvað fjármagn myndu gera það sama og gerðist hér heima á hinu ástkæra og ylhýra, flytja allt sitt í erlenda banka.

Þessi hugsunarháttur hefur ráðið ríkjum í íslenskum stjórnmálum frá lýðveldisstofnun og birst almenningi í um 25% meðalverðbólgu á ári síðustu 60 ár. 25% verðbólga samsvarar færslu fjórðungs tekna frá launþegum og sparifjáreigendum til atvinnurekenda. Eða með öðrum orðum íslenskir launamenn hafa eytt 3 mánuðum á ári í 60 ár í að niðurgreiða íslenskt atvinnulíf. Þriðjung starfsævi okkar eyðum við í að greiða herkostnað af efnahagsstjórn stjórnmálamanna, sem finnst það eðlilegt að tryggja lágan launakostnað með verðbólgu og reglulegum gengisfellingum.

Íslenskir launamenn búa í efnahagslegum þrælabúðum. Þeim er talið í trú að þeir hafi samningsrétt um launakjör, en hið rétt er að stjórnmálamenn fara með kjarasamninga eins og þeim sýnist. Staðreyndin blasir við, íslenskir launamenn voru búnir að ná þokkalegum kaupmætti árið 2005 í samanburði við nágrannaþjóðir og það ár erum við með rauntölur, það sem gerðist eftir það fram til október 2008 var froða byggð upp með erlendu lánsfjármagni. Krónan var þá orðin 20% of hátt skráð og erlendur gjaldeyrir á útsölu.

Íslenskum launamönnum hafði tekist frá árinu 2000 til 2008, að ná um 13% kaupmáttaraukningu, en töpuðu henni allri við Hrunið, auk þess að fjöldi heimila tapaði öllum sínum eignum og situr eftir skuldum vafin.

Danir féllu ekkert í kaupmætti við efnahagshrunið og hafa bætt við sig 1% eftir 2008 og tæp 6% það sem af er þessari öld. Auk þess að halda þeir sínum eignum.

Svíar hafa gert betur, þeir hafa bætt við sig 2,3% eftir efnahagshrunið og 7,3% það sem af er þessari öld, og halda líka eignum sínum.

Finnland hefur bætt við sig 4,5% í kaupmætti frá efnahagshruninu og bætt við sig 10,8% það sem af er þessari öld. Meðaltal kaupmáttaraukningar í Evrópu það sem af er þessari öld er 12,7%, þar af 2,7% eftir efnahagshrunið. Heimild: Alþjóðavinnumálastofnunin (ILO) árið 2010.

Þau 40 ár sem Rafiðnaðarsambandið hefur verið til hefur það samið um liðlega 3.000% launahækkanir. Á sama tíma hefur danska rafiðnaðarsambandið samið um 330% og býr samt við betri kaupmátt. Danskir rafiðnaðarmenn hafa auk þess ekki þurft að búa við stökkbreytingar skulda. Þeirra gjaldmiðill er tengdur Evrunni. Það er sama hvort krónan er fasttengd, undir höftum eða handstýrð. Það hafa verið reynd ýmis kerfi með krónuna en ekkert virkar.

þriðjudagur, 20. september 2011

ESB og kjarabaráttan

Stærsta kjaramál íslenskra launamanna er að finna varanlega lausn á gjaldmiðilsmálum Íslendinga. Við verðum að horfast í augu við þá staðreynd að ef við ætlum að búa áfram við krónuna verður að taka upp mun strangari efnahagsstjórn en ef við tækjum upp Evru. Krónan kallar á mjög digra og dýra gjaldeyrisvarasjóði, sem veldur því að vaxtastigið þarf að vera um 3,5% hærra en það er t.d. í Danmörku.

T.d. má benda á auglýsingar bankanna þessa dagana burtu með verðtrygginguna, í stað þess bjóðum við upp á langtímalán með 6,45% vöxtum. Hér er verið að færa það sem við borguðum með verðtryggingu yfir í annað form, þú greiðir kostnaðinn strax í stað þess að færa hann yfir á seinni hluta lánstímans.

Í löndum sem búa við stöðugan gjaldmiðil eins og t.d. á hinum norðurlöndunum eru langtímavextir frá 2 – 3%. Ef fjölskylda kaupir sér eitt hús á Íslandi og önnur fjölskylda hús í t.d. í Danmörku, er staðan sú eftir 30 ár að íslenska fjölskyldan hefur greitt sem svarar andvirðis rúmlega tveggja húsa, séu greiðslur bornar saman við stöðu dönsku fjölskyldunnar. Þá er eftir að taka inn í dæmið mismun á verðbólgu, sem ætla má að muni um tvö til þrefalt meiri á Íslandi, sem verður gert upp á 5 ára fresti eins bankarnir bjóða í dag .

Menn strika ekki út háa verðbólgu, sveiflur í efnahagslífi, okurvexti, verðtryggingu, hátt vöruverð, slakan kaupmátt og segjast ætla að taka upp laun eins og þau gerast best í nágrannalöndum okkar, henda verðtryggingu og lækka vexti. Það hefst ekki nema með stórbættri efnahagsstjórn landsins. Ef við ætlum að halda áfram í krónuna kallar á það á mun harkalegri efnahagsstjórn en ef við gengjum í ESB.

Bændasamtökin hafna því að neytendur njóti hins frjálsa markaðar, þeir segja að tollvernd skapi nauðsynlegar rekstrarforsendur fyrir innlendan landbúnað. Bændur mega síðan flytja út niðurgreitt lambakjöt, heimsmarkaðsverð hafi hækkað og kalli á hækkun á heimamarkaði. Þetta er rétt í krónum talið, en hér sleppa stjórnmálamenn viljandi einu smáatriði, íslensk króna féll um helming haustið 2008 og íslenskir launamenn eru helmingi lengur að vinna fyrir helgarlærinu. Íslenskur rafvirki er t.d. 2 klst að vinna fyrir lærinu hér heima, fari hann hins vegar til Danmerkur er hann eina klst. að vinna fyrir íslenska lærinu í danskri búð.

Í dag gera öll stóru fyrirtækin hér á landi upp sinn efnahagsreikning upp í Evrum eða dollurum. Millistóru og litlu fyrirtækjunum er hins vegar gert að nota íslenska krónu, sem leiðir til þess að þau ásamt íslenskum launamönnum standa straum af kostnaðinum við krónuna, ekki stóru fyrirtækin. Þessi staða gerir það að verkum að samkeppnistaða minni fyrirtækjanna er mun lakari og þau geta ekki fjárfest í nýjum tækjum. Þetta leiðir til þess að vöruverð er hér allt að 30% hærra en er í löndunum innan ESB og kaupmáttur okkar hækkar ekki í samræmi við umsamdar krónutöluhækkanir.

Eftir sitja störf sem eru láglaunastörf og krefjast minni menntunar. Fækkun starfa á íslenskum vinnumarkaði hefur numið um 15%. Þetta segir okkur að mánaðarlaunasumman á íslenskum vinnumarkaði er um 6 MIA lægri en hún gæti verið, sem þýðir um 2,5 MIA lægri tekjur fyrir ríkissjóð á mánuði og útgjöld atvinnuleysistryggingasjóðs væru um 2 MIA lægri sem þýðir að Fjármálaráðherra hefði undanfarin 3 ár haft a.m.k. 5,5 MIA meir úr að spila við hver mánaðarmót.

Ísland fær verstu einkunn í áhættumati fyrir erlenda fjárfesta, vegna hættu á pólitískum afskiptum, verkföllum, óeirðum og jafnvel greiðsluþroti íslenska ríkisins. Gjaldmiðillinn og flökt hans skapar einnig mikla áhætta fyrir fjárfesta. Áhættusamara er að fjárfesta á Íslandi en í nokkru öðru ríki Vestur-Evrópu. Erlendir fjárfestar óttast öðru fremur geðþóttaákvarðanir stjórnvalda og ófyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi. Bein erlend fjárfesting er lítil á Íslandi í samanburði við önnur lönd og nær eingöngu bundin við áliðnað.

Við verðum að skapa 20 þús. ný störf á næstu 2 árum og auka verðmætasköpun. Byggja þarf upp öflugan vinnumarkað til þess að vel menntað fólk sækist eftir störfum á svæðinu. Ef þetta tekst ekki blasir við langvarandi kyrrstöðu með slökum kaupmætti og miklu atvinnuleysi. Það er vaxandi samkeppni eftir vel menntuðu og hæfu starfsfólki. Það er einfalt að flytja sig milli landa, sérstaklega á því efnahagssvæði sem við búum á. Stjórnmálamenn komast upp með að setja gjaldeyrismúra, en þeim tekst ekki að múra fólk inni, það brýtur af sér fjötrana.

Ísland er á flestum sviðum búið fyrir löngu að uppfylla öll lágmarksskilyrði fyrir inngöngu í ESB og á sumum sviðum stöndum við framar en mörg ESB ríki. ESB markaðurinn er okkar mikilvægasti viðskiptavinur, sama hvort okkur líkar það betur eða verr. Það er búið að vera frjálst flæði vinnuafls innan ESB og EES svæðisins í nokkra áratugi, sama hvort okkur líkar það betur eða verr.

föstudagur, 16. september 2011

Ábyrgðarlaust fólk

Eins og flestum landsmönnum er kunnugt um þá varð hér efnahagslegt Hrun haustið 2008, mun alvarlegra en í nágrannalöndum okkar. Helstu orsakir þessa Hruns er að þáverandi stjórnmálamenn ásamt Fjármálaeftirliti og stjórn Seðlabanka, ásamt reyndar forseta landsins, sem langar svo til þess að vera virkur í þessu reyndar án nokkurrar ábyrgðar, höfðu í engu sinnt aðvörunum margra, þar á meðal aðilum vinnumarkaðs um að það stefndi í alvarlega erfiðleika ef ekkert yrði að gert.

Nágrannaþjóðir okkar höfnuðu algjörlega að koma að því að koma landinu til hjálpar nema að settur yrði yfirfrakki á íslenska stjórnmálamenn, þ.e.a.s. AGS. Síðan lánuðu Norðurlandaþjóðirnar ásamt Pólverjum og AGS þá fjármuni á mjög góðum kjörum sem þurfti til þess að koma Íslandi á lappirnar aftur.

Reyndar undir háværum, ómaklegum og ómerkilegum ásökunum íslenskra stjórnmálamanna og forseta landsins um að þar færu helstu óvinir landsins vegna þess að þau höfðu ekki viljað gera þetta nema með skilyrðum um að íslenskir stjórnmálamenn myndu taka upp á því að haga eins og fullorðið fólk og tæki störf sín alvarlega.

Nú er AGS farið og við landsmenn höfum verið að vona að Hrunið og eftirleikur þess hafi orðið til þess að íslenskir stjórnmálamenn og forseti landsins bættu ráð sitt. En undafarna daga hefur komið í ljós að þessir menn hafa ekkert lært og stefna landinu hraðbyri aftur í sama hjólfarið. Í nýlegum skoðanakönnunum kemur fram að helmingur þjóðarinnar vill þetta fólk í burtu.

Gríðarlega mörg áríðandi mál eru á dagskrá Alþingis en þá sýnir stjórnarandstaðan enn einu sinni fullkomið ábyrgðarleysi. Hér er t.d. dæmi um það: Á kvöldfundi í gærkvöldi hefur það meðal annars borið til tíðinda að Ásmundur Einar Daðason og Árni Johnsen hafa skipst á skoðunum um sauðnautarækt.

Árni hefur ennfremur sagt sögur af hlýðni hunda, Ásbjörn Óttarsson hefur rætt um öryggismál sjómanna og Vigdís Hauksdóttir hefur sagst ætla að tileinka sér íslenskt orðfæri.

Þetta fólk er á fullum launum hjá okkur landsmönnum og eru sannarlega ekki að sinna störfum sínum. Á meðan bíða heimilin eftir því að tekið verði á málum þeirra og vitinu komið fyrir bankana.

fimmtudagur, 15. september 2011

Hamfarir heimilanna

Í gærkvöldi sýndi Sjónvarpið merkilega heimildarmynd um hina svokölluðu Hamfarakenningu. Hvernig frjálshyggjan og böðlar hennar hafa undanfarna áratugi sópað upp eignum almenning og flutt þær til valdastéttarinnar og um leið hiklaust myrt og fangelsað hundruð þúsunda. Allt sem fjallað var um í myndinni þekkjum við íslendingar vel, því miður alltof vel.

Þetta hefur verið gert reglulega hér á landi í gegnum gengisfellingar krónunnar. Afleiðingar Hrunsins blasa við í valnum liggja um 20 þús. íslensk heimili vegna stökkbreyttra skulda og fjöldi fólks er í skuldafangelsi. Fámennur hópur manna sogaði til sína gríðarlegt fjármagn og kom því undan til skattaparadísa.

Fólk sem á sparifé sitt í lífeyrissjóðum hefur ekki farið varhluta af þessari eignaupptöku því þessum aðilum tókst að soga upp umtalsverða hluta að sparifé landsmanna. Þetta hefur ætíð verið meginhluti þeirrar eignaupptöku sem framkvæmd er reglulega á Íslandi með óskatæki valdastéttarinnar Krónunni.

Þar höfum við séð framarlega t.d. forsvarsmenn stjórnmálaflokka sem eru sterkefnaðir eftir Hrunið en berjast svo harkalega gegn því að tekið verði á vandanum og vilja viðhalda stöðu sinni til þess að vera í stöðu þeirra sem geta hirt til sín arð vegna næstu gengissveiflu , sem verður samkvæmt venju eftir um það bil 7 ár.

Nú eru bankarnir farnir að skila tuga milljarða hagnaði ásamt útgerðunum. Hingað eru mættir erlendir spámenn sem segja að það sé aðdáunarvert hversu vel íslendingum hefur gengið að ná sér upp.

Þar er einungis horft á afkomu fjármálafyrirtækja og arðsemisgreiðslur. Ekki er fjallað um þau heimili sem liggja bjargarlaus í valnum. Manni verður flökurt að hlusta á fréttir af þessu tagi, eins og t.d. í fréttum RÚV í gær þar sem þetta var birt athugasemdalaust.

Ef við lítum til nágrannalanda okkar,þá varð þar efnahagsleg niðursveifla. En almennir launamenn urðu ekki fyrir kaupmáttarhrapi, allstaðar hefur verið kaupmáttaraukning, reyndar minni en oft á en m,enn liggja plús megin.

Í þessum löndum hélt almenningur eignum sínum, og varð ekki fyrir stökkbreytingum skulda.

Í þessum löndum eru vextir umtalsvert lægri en hér, og þeir ruku ekki upp í tugi prósenta. Í mörgum þessara landa eru verðtryggingar á langtíma lánum en verðbólgan reis ekki það hátt að hún færi í gang eins og hún gerði kyrfilega hér vegna Hruns krónunnar. Nú er reyndar farið að tala um að bjóða lán án verðtryggingar, en takið eftir að þau lán eru með allt að 3x hærri vöxtum er þekkist í nágrannalöndum okkar.

Krafan hlýtur að vera að tekið verði á þessum málum af alvöru, framkvæmdar verði skuldaleiðréttingar og breytingar á peningastefnunni til framtíðar. Ekki einungis þannig verði tekið verði sparifé þeirra landsmanna sem hafa lagt til hliðar sparnað sinn í lífeyrissjóði og það nýtt til þess að greiða þann kostnað og bankarnir og útflutningsfyrirtækin njóti ein hagnaðar af lágri krónu.

sunnudagur, 11. september 2011

Forseti lýðveldisins

Ég hef sjaldan verið sammála Ólafi Ragnari og ekki verið stuðningsmaður hans, en mér fannst hann standa sig ágætlega til að byrja með og tók oftar en ekki afstöðu með honum þegar streymdu frá Valhöll einstaklega ómaklegar, ósmekklegar og hatursfullar aðdróttanir.

En Ólafur Ragnar missti flugið fullkomlega í hrifningu sinni af útrásarvíkingunum og þeim ræðum sem hann hélt í ferðum sínum um heimsbyggðina með þeim, þar hófst ferðalag hans með málsvörum frjálshyggjunnar, sem stendur enn yfir.

Ólafur Ragnar hefur alltaf verið tækifærissinni og fer hiklaust hring eftir hring í málflutningi sínum, það er reyndar einkenni margra íslenskra stjórnmálamanna. Hann er búinn að valda atvinnulífinu miklum skaða á undanförnum árum, þá sérstaklega hvað varðar Icesave-málið og við erum ekki búinn að súpa seiðið af þeim ákvörðunum sem forseti vor tók. Reyndar er ég þeirrar skoðunnar að Ólafur sé búinn að átta sig á þeim afleiðingum sem munu koma upp innan skamms og sé byrjaður að undirbúa vörn sína.

Eins og allir vita þá hafa allir stjórnmálaflokkarnir viðurkennt að Ísland beri ákveðnar skuldbindingar í því máli og samningarnir snérust ekki um það, heldur með hvaða kjörum það yrði gert, þá skiptir öllu sú vaxtaprósenta sem gildir við endurgreiðslu á því láni sem Hollendingar og Bretar tóku til þess að gera upp skuldbindingar við innlánseigendur á Icesave. Sú upphæð gæti allt að fimmfaldast frá þeim vaxtakjörum sem voru í síðasta samning sem Ólafur Ragnar setti fótinn fyrir og það er langt frá því að útséð með að það hafi verið sá happafengur sem hann vill halda fram þessa dagana.

Bara til þess að hafa það nú á hreinu, þá er ég ekki að sækjast eftir því að fá að borga þessar skuldir, en við verðum einfaldlega að horfast í augu við staðreyndir, getum ekki borið fyrir okkur innistæðulaust skrum.

Aðdróttanir Ólafs Ragnars og fylgismanna hans úr Valhöll gagnvart okkar helstu vinaþjóðum eru einstaklega ómaklegar og reynda einfaldlega ógeðfelldar. Öll vitum við að það voru Norðurlandaþjóðirnar ásamt Pólverjum ásamt AGS sem komu okkur til hjálpar með miklum lánum á einstaklega góðum kjörum.

Það er eftirtektarvert hvernig þeir menn sem stjórnuðu hér á landi síðustu tvo áratugi og mótuðu þá efnahagsstefnu sem leiddi okkur fram að bjargbrúninni mæra Ólaf. „Sammála hverju einasta orði sem Ólafur sagði“, segja ritstjórar MBL í greinum undanfarna daga.

Það segir okkur allt um hæfi þessara manna til þess að stjórna og móta efnahagsstefnuna og skýrir vel fyrir okkur hvers vegna Ísland fór mikið verr út úr kreppunni en aðrar þjóðir. Þá á ég vitanlega sérstaklega við íslenska launamenn og heimilin.

Í Stjórnlagaráði var mikið talað um málskotsrétt forsetans, hvort setja ætti skorður við hvaða málaflokkum hann mætti skjóta til þjóðarinnar og hvort hann ætti að bera á ábyrgð sínum á eigin orðum og gerðum t.d. með afsögn Niðurstaðan varð sú að gera það ekki.

Öll vitum við að Ólafur Ragnar veltir því vel fyrir sér hvað hann segir áður en hann fer í fjölmiðla. Nýjasta útspil Ólafs Ragnars er að mínu mati úthugsað. Hann er að grípa niðurstöðu Stjórnlagaráðs og ætlar sér að hafa frumkvæði í að túlka hana á þann veg að forsetinn verði í komandi framtíð afgerandi þátttakandi í stjórnmálum.

Jafnvel þó hann hætti í vor, þá hentar sú túlkun mikið betur í æviminningarnar.

Zombíljóðin

Sá Zombíljóðin í gær. Í verkinu er dreginn upp sú hrikalega mynd sem haldið er að okkur í nánast hverjum fréttatíma. Þetta er orðið í svo miklu magni að við lítum ekki upp þó í fréttatímum sem farið yfir hrottaleg ofbeldisverk og rakti mannlegir harmleikir.

Verð að segja eins og er, mér fannst verkið ekki nægilega vel unnið og fór vonsvikinn heim.

laugardagur, 10. september 2011

Helmingur er búinn að fá nóg

Daglega birtast stjórnmálmenn í fréttum fjölmiðla þar sem þeir standa í ræðustóli, innihald ræðunnar er útúrsnúningakeppni, á meðan hrópar þingheimur barnalegar yfirlýsingar utan úr sal. Fréttamenn og spjallþáttastjórnendur eru virkir þátttakendur í þessari kappræðu. Athugasemdalaust birta þeir innistæðulausar fullyrðingar skrumara og sumir spjallþáttastjórnendur bæta um betur í skruminu.

Þeir sem gera tilraun til þess að halda uppi málefnalegri umræðu, sem eru reyndar vissulega margir, fá ekki aðgang að fréttum og ef þeim er boðið í spjallþætti þurfa þeir að standa í orðaskaki við spjallþáttastjórnandann. Hér á ég sérstaklega við við morgun- og eftirmiðdagsþætti útvarpsstöðvanna.

Áberandi er sú hefð hér á landi að ræða ekki um málefnið. Ef einhver setur fram skoðun eða gerir aths. við framsetningu þeirra sem verja sérhagsmunina, þá er viðkomandi umsvifalaust dreginn í einhvern dilk og það er talið nægjanlegt innlegg í umræðuna, ekki er minnst á viðkomandi málefni. Þú ert svona, við vitum hvaðan þú kemur. Þú ert að verja hagsmuni. Allt snýst um að gera viðkomandi ótrúverðugan.

Valdastéttin beitir öllum brögðum til þess að halda samfélaginu föstu sama hjólfarinu og verja eigin stöðu svo þeir geti staðið að reglulegum eignatilfærslum frá launamönnum til hinna fáu. Forsjárhyggjan er áberandi, almenningur hefur ekki gott af því að fá að velja. Við skulum sjá um það fyrir þjóðina.

Það kemur ekki á óvart að innan við helmingur aðspurðra í skoðanakönnun Fréttablaðsins og Stöðvar tvö treystir ekki núverandi stjórnmálaflokkum og helmingur vill að forsetinn fari. Þeim fækkar sífellt sem vilja taka afstöðu til stjórnmálaflokkanna. 85% ungs fólks sér ekki framtíð sína hér á landi. Vel menntað fólk flyst af landi brott og fólk sem er að ljúka námi erlendis kemur ekki heim.

Það ástand sem hefur ríkt eftir Hrun er kjörland fyrir skrum og yfirboð. Það dugar ekki lengi því hið rétta kemur alltaf upp á yfirborðið og sífellt fleiri sjá í gegnum skrumið og vill ekki vera þátttakandi í því.

Í svona ástandi þarf að taka óvinsælar ákvarðanir og það þarf staðfestu umfram annað. Það veit hinn almenni borgari og hann sættir sig ekki við upplausnina á Alþingi. Það eru einungis þeir sem umgangast sinn stjórnmálflokk eins og trúarbrögð og kjósa hann sama á hverju gengur sem taka afstöðu í skoðanakönnuninni og þeir eru vel innan við helmingur kjósenda.

þriðjudagur, 6. september 2011

Heimsyfirráð eða dauði

Nú blasa við afleiðingar þess að ekki var tekið á þjóðlendumálum af festu og þjóðinni tryggður eignaréttur á afréttinum og náttúruverðmætum. Endurtekið erum við að súpa seiðið af sérhagsmunastefnu og forsjárhyggju valdastéttarinnar. Nú vill hún koma í veg fyrir að landsmenn fái að taka afstöðu til hugsanlegra samninga um betri kjör og stöðugri kaupmátt.

Þeir sem gefa sig út fyrir að vera í forsvari fyrir frelsi í viðskiptum og frjálsu samfélagi, standa alltaf fremstir í að viðhalda forsjárhyggju og lokuðu samfélagi til þess að verja hagsmuni valdstéttarinnar. Þetta hefur afhjúpast svo vel eftir Hrunið, hið sjálfskapaða Sovét þeirra sem hafa tekið upp sambúð á samyrkjubúinu Heimsýn.

Hegðum íslendinga samsamar sig við söguþráð þekktra hasarkvikmynda. Hinn vondi er einhver útlendingur sem vill beita íslensku þjóðina ofbeldi og ná með heimsyfirráðum. Minna má það nú ekki vera. Forsvarsmenn Íslands mæta svellkaldir í erlenda fjölmiðla og halda því fram að ESB muni riða til falls takist þeim ekki að ná undir sig auðlindum Íslands og bjarga þar með endurnýjanlegri orkuþörf og efnahagsvanda alls ESB svæðisins.

Drýldin sjálfumgleðin og þjóðremban einkennir málflutninginn, vonglaðir horfa menn til þess að Ísland verði aftur hernaðarlega mikilvægt og þá náum við fyrri lykilstöðu í nýju köldu stríði milli Kína og allra hinna. Þá getum við fengið allt það sem við viljum. Þegar allt norðurheimsskautssvæðið rennur undir landhelgi Íslands með takmarkalausum olíu- og gaslindum auk öflugra nýrra fiskimiða sem koma undan ísnum. Eru menn búnir að gleyma samningum um miðlínur milli landa?

Nú er allt þetta í hættu nú takist ekki að koma í veg fyrir að Kína nái að kaupa harðbýlt heiðarbýli upp á hálendi Íslands og reisa þar risavaxið heilsárshótel og golfvöll. Dregin er upp svört draugamynd af því hvernig kínverska fjárfestar hafa keypt upp land og náttúruauðlindir um allan heim.

Fyrir nokkrum árum var ég vegna starfs míns á norrænum vettvangi gestgjafi varaforseta Kínverska Alþýðusambandsins. Hún var þá talin vera 8. valdamesti maðurinn í Kína, var vel inni í íslenskum málum, spurði mikið út í hvernig stéttarfélög störfuðu hér á landi og stöðu heimilanna. Ég bauð henni heim svo hún gæti séð íslenskt heimili. Hún þáði boðið og við ókum heim í Grafarvoginn umkring lífvörðum. Við Helena búum í litlu timbureinbýlishúsi innst í botnlanga og erum þar af leiðandi með rúmgóða lóð með margskonar ræktunarmöguleikum.

Þegar við gengum kringum húsið spurði frúin, „Hversu margar fjölskyldur eiga þennan garð?“ Ég skyldi ekki spurninguna og bað um skýringu, þá benti hún á nokkrar 8 hæða háar blokkir sem eru í grenndinni og spurði, „Hvar eru garðar fólksins sem býr í þessum húsum?“

Ég útskýrði íslenska fyrirkomulagið og við ættum ein þennan garð. Þá sagði frúin, „Ef þið íslendingar væruð með sama fólksfjölda og við, þá byggju á Íslandi tæplega 100 milljónir manna.“ Ég var í París um helgina í fyrsta skipti, við fórum um borgina með góðum íslenskum leiðsögumanna, sem benti okkur á að París með sína 2,2 millj. íbúa væri á jafnstóru svæði og Reykjavík og nágrannabyggðir, eða um 12 km á annan veginn og 16 km á hinn.

Ummæli kínversku frúarinnar hafa ítrekað komið fram í huga minn á undanförnum árum. Kínverjar hugsa langt fram í tíman, mun lengra en við á Vesturlöndunum. Eitt skref er upphaf langs ferðalags. Þessi hugsunarháttur er fjarri okkur íslendingum. Kínverjar hafa nýtt hinn hratt vaxandi sparnað til þess að kaupa ríkisskuldabréf af Bandaríkjunum og Evrópu og hafa einnig keypt upp risavaxin ræktunarlönd í Afríku.

Hvert stefna Kínverjar? Erum við í þeirri stöðu að geta hafnað stórum fjárfestum og komið í veg fyrir yfirtökur og fjárfestingar í innviðum íslensks samfélags? Höfum við efni, sjálfstjórn og aga til þess að segja nei takk?

Þeir sem skipulögðu efnahagsstefnu sem leiddi okkur fram af bjargbrúninni með ofurskuldsetningu þjóðarinnar, vilja ávísa þeim kostnaði fram í tímann, með því að taka út mikinn hluta af þeim sparnaði sem er í lífeyrissjóðunum og nýta það strax í dag.

Afleiðingar af þessu ráðslagi er augljós, sem sumir hafna að horfast í augu við. Heimtufrekjan ræður för að venju. Börn okkar og barnabörn verða þá að halda uppi mun dýrara lífeyriskerfi, sem verður í raun gegnumstreymiskerfi. Hlutfall lífeyrisþega hefur þá tvöfaldast samanborið við skattgreiðendur og skatttekjumöguleikar ríkissjóðs verulega skertir.

Leiddu hugann að því lesandi góður hverjir það eru sem vilja fara þessa leið? Það eru þeir hinir sömu sem mótuðu efnahagstefnuna, sem leiddi yfir okkur Hrunið og berjast með öllum ráðum að stigin verði skref upp úr því hjólfari sem þeir hafa verið fastir í undanfarna áratugi.

Sláandi munur á lánum

Fréttaflutningur af lánakjörum hefur verið áberandi allt frá Hruni af eðlilegum ástæðum. Lýðskrumarar hafa átt auðveldan aðgang að fjölmiðlum með yfirlýsingar um skyndireddingar. Þessu hefur réttilega verið lýst á þann veg að verið sé að ráðast að framleiðendum plástra um getuleysi þeirra að koma í veg fyrir afleiðingar stórslysa.

Íslenska stórslysið er slök efnahagstjórn og krónan, en ekki verðtryggingin. Örgjaldmiðill veldur miklum efnahagssveiflum, sem síðan valda háum vöxtum, það kallar á einhverskonar greiðsludreifingu komi verðbólguskot, svo fólk ráði við að greiða þau lán sem það tekur. Áður en þetta kerfi var tekið upp átt sér stað stórfelld eignaupptaka hjá sparifjáreigendum, ríkissjóður skattleggur reyndar þessa neikvæðu eignamyndun í gegnum fjármagnstekjuskatta. Þetta bitnar harðast á venjulegum launamönnum sem ekki eru í ríkistryggðum lífeyrissjóðum.

Við gerum kröfu til þess að fréttastofa RÚV vandi til verka. Í gær var t.d. gerður samanburður á verðtryggðum og óverðtryggðum lánum. Bæði eru lánin uppá 20 milljónir króna annað verðtryggt, hefðbundið íbúðalán með 4,3% vöxtum en hitt óverðtryggt lán með 6,45% vöxtum. Vextirnir eru fastir til fimm ára en verða að þeim tíma loknum endurmetnir. Miðað var við 5% verðbólgu. Greiðslubyrði óverðtryggða lánsins er helmingi hærri, en greiðslubyrði hins lánsins þegar tekið er tillit til 5 ára endurreiknings vaxta. Að fimm árum liðnum hefur lántaki greitt tæpar sjö milljónir af óverðtryggða láninu en um sex milljónir af hinu. Hann hefur ekki greitt allt sem honum bar vegna verðbólgunnar og sá hluti er færður aftar á lánstímann. Ósköp einföld stærðfræði.

Verðtrygging er óvirk ef ekki eru verðlagsbreytingar umfram verðbólguspár Seðlabanka. Við stöðugleika hún meinlaus. Verðtrygging er ekki einungis til hér á landi hún er víða til, jafnvel í löndum sem búa við stöðugleika. Þeir sem krefjast afnáms verðtryggingar verða að gera sér grein fyrir það að það verður ekki gert bara öðrum megin, heldur verður einnig að afnema verðtryggingu örorkubóta og lífeyris.

Það var ákvörðun stjórnmálamanna að fara út 100% lán á íbúðarmarkaði sem varð til þess að fasteignaverð flaug upp úr öllu valdi. Það var ákvörðun bankanna og vinnulag starfsmanna þeirra sem varð til þess að haldið var að fólki lánum sem fyrirfram var vitað að voru töluvert meiri en raunverð var. Þar er að finna ástæðu vandamálanna, ekki í verðtryggingu.

Sumir virðast telja að hægt sé að velja fasta vexti í stað breytilegra vaxta og strika svo út kostnað sem hlýst af verðbólgu umfram 2,5%. Hér er ákaflega einfaldað dæmi : Tekið er 20 millj. kr. lán. í 40 ár. Afborganir af höfuðstól er þá 500 þús. á ári. Ef lánið væri á breytilegum vöxtum, sem fóru upp fyrir 20% á tímabili, þá hefði vaxtagreiðsla þessa láns verið 4 millj. kr. það árið. Semsagt viðkomandi hefði þá þurft að greiða af láninu 4.5 millj. kr. það árið, eða tæp 400 þús. kr. á mán.

Með verðtryggingu og föstum 5% vöxtum þá væri afborgunin höfuðstóls vitanlega sú sama 500 þús. kr. á ári og vaxtagreiðsla 1 millj. Afborgun 20% verðbólguárið væri þá 1.5 millj. kr. á mán. eða um 130 þús. kr. á mán. Þarna var fluttur hluta af vaxtagreiðslu það er 3 millj. kr. yfir á seinni hluta lánstímans, eða með öðrum orðum lánið óx um 3 millj. kr.

Það liggur fyrir að meðan við höfum ekki stöðugan gjaldmiðil þá verður til greiðsluform sem er verðtrygging í einhverskonar formi. Ef hún verður afnumin mun engin setja fjármuni í langtímalán og afborganir af lánum verða óbærilegar vegna þeirra ofurvaxta sem íslenska krónan kallar á. Kannanir sýna að vextir af verðtryggðum lánum eru að jafnaði lægri en vextir af lánum með breytilegum vöxtum. Verðtryggð lán eru þekkt víða, en það reynir sjaldan á verðtrygginguna vegna þess að það er í umhverfi stöðugs gjaldmiðils.