föstudagur, 24. maí 2013

Aukum framleiðni og kaupmátt


Hvers vegna er framleiðni á Íslandi svona slök? Íslendingar skila lengstu vinnuviku af þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Ef borin er saman verðmætasköpun á mann hér landi á hverja unna klst. þá eru afköst Íslendinga einungis tveir þriðju af því sem Bandaríkjamenn ná og Danir eru einungis liðlega 10% á eftir Bandaríkjamönnum.

Í síðasta hefti tímarits Máls og menningar er áhugaverð grein eftir Guðmund D. Haraldsson þar sem hann lýsir könnun sinni á vinnutíma hér. Þar kemur fram að við erum að vinna að jafnaði um 5-6 klst. lengri vinnuviku, en náum samt ekki að hafa svipaðan kaupmátt.

Á árunum 1950 til 1980, þegar vélvæðingin er hvað umfangsmest fækkaði árlegum meðalvinnustundum á Íslandi úr um 2.400 klst. í um 1.900 klst. En á hinum Norðurlöndunum eru sömu tölur um 1.900 klst. árið 1950 og eru komnar niður um 1.600 klst. árið 1980 og halda áfram að lækka niður í um 1.550 árið 2010. Árið 2010 er árlegur meðalvinnutími Íslendinga hins vegar um 1750 klst.

Í þessu sambandi hefur oft verið bent á óstöðugan gjaldmiðil, sem valdi háum vöxtum og verðlagi. Það er ástæða þess að það tekur íslenskar fjölskyldur lengri tíma í að vinna fyrir samskonar lífskilyrðum og eru á hinum Norðurlandanna.

Á Íslandi eru raunvextir allt að 5% hærri en í nágrannalöndum okkar, að meðtöldu vaxtaálagi vegna óstöðugs gjaldmiðils. Þetta þýðir að á Íslandi greiðir fjölskulda tilbaka á 40 árum sem svarar 2,77 íbúðum meðan sambærileg fjölskylda á hinum Norðurlandanna borgar bara 1,4 íbúð tilbaka.

Þetta eru afleiðingar mikillar verðbólga, óábyrgar og ómarkvissra fjárfestinga, auk óhóflegra skuldasöfnunar í útlöndum án fullnægjandi eignamyndunar á móti. Þetta hefur skert lífskjör okkar til langs tíma. Margir íslenskra stjórnmálamanna hafa ýtt til hliðar þessum staðreyndum og frekar látið vinsælar skammtímalausnir ráða för með þessum skelfilegu afleiðingum.

Göran Person fyrrv. forsætisráðherra Svía kom hingað eftir Hrunið til þess að segja okkur frá því hvernig Svíar tókust á við sitt Hrun upp úr 1990. Göran er bóndi og hann benti á að þrátt fyrir að styrkir til bænda á Íslandi væru gríðarlega háir var hann undrandi á því hversu slök kjör þeirra væru. Þarna blasir við staðnað kerfi sem skilar engum árangri í að auka framleiðni.

Framleiðni vinnuafls er 20% minni á Íslandi en í helstu nágrannalöndum, það segir okkur að það eru umtalsverð tækifæri fyrir hendi til að knýja hagvöxt til framtíðar með því að auka arðsemi í fjármagnsfrekum atvinnugreinum og bæta þar með launamönnum upp þann skaða sem þeir hafa orðið fyrir með því að tryggja öran framleiðnivöxt og myndarlegar lífskjarabætur.

Til þess að ná þessu markmiði þarf að auka stöðugleika og fyrirsjáanleika í almennri stefnumörkun til að auka tiltrú fjárfesta og atvinnurekenda. Hér eru takmarkaðar auðlindir, því þarf að skipuleggja nýtingu þeirra til langs tíma og það var gert með vinnu við Rammaáætlun. En þar brugðust stjórnmálamenn enn einu sinni og vildu láta pólitík ráða för og ýttu til hliðar niðurstöðum rannsókna.

Ef við ætlum að tryggja aukinn kaupmátt í komandi kjarasamningum verðum við að endurskoða og skipuleggja upp á nýtt allar grunnstoðir efnahagslífsins.

fimmtudagur, 23. maí 2013

Gangi ykkur vel Sigmundur Davíð


Það er full ástæða til þess að óska nýjum ráðherrum til hamingju og senda þeim óskir um velfarnað í starfi. Það er svo sannarlega þörf á að takast á við þann gríðarlega vanda sem hið íslenska efnahagshrun kom okkur í og skiptir okkur miklu að vel takist í þeim efnum.

Það verður að segjast eins og það er, að í sumu eru talsvert meiri líkur á að þessi ríkisstjórn nái saman við samtök á vinnumarkaði, en sú síðasta. Henni voru í mörgu mislagðar hendur við að ná sambandi við atvinnulífið.

En það blasir við að gjaldmiðilsmál, stöðugleiki og samskipti við langstærsta markaðssvæði íslenskra fyrirtækja, það er EES svæðið, verður átakapunktur sé litið til ummæla nýs forsætisráðherra og ekki síður nýs utanríkisráðherra. Þar liggur stefna samtaka launamanna og fyrirtækja skýr fyrir og hún er svo sannarlega önnur en nýrra ráðherra.

Nýja stjórnin ætlar endurskoða stöðu rammaáætlun um virkjanir og náttúruvernd þannig að mat sérfræðinga en ekki pólitík ráði virkjanakostum. Það er í fullu samræmi við stefnu aðila vinnumarkaðs og reyndar lífsnauðsyn fyrir íslenskt samfélaga að auka fjárfestingar í atvinnulífinu og þá tekjur íslensks samfélags, svo ríkissjóður geti tekið til við að greiða upp þær skuldir sem Hrunið steypti okkur í.

Þetta var einn af hornsteinum Stöðugleikasáttmálans, sem síðasta ríkisstjórn tókst að klúðra með eftirminnilegum hætti.

Í ríkisstjórnarsáttmála er boðað víðtæks samráðs og sáttar við aðila vinnumarkaðarins, stöðugleika í efnahagsstjórn, afnám gjaldeyrishaftanna og við náum trausti helstu viðskiptaþjóða okkar á ný.

Ef ríkisstjórnin ætlar að ná árangri þarf hún að opna íslenskt efnahagslíf og tryggja samkeppnishæfni þess á alþjóðlegum vettvangi, verður að setja langtíma stefnu og hún er ekki raunhæf án nýs gjaldmiðils. Hvernig ætla menn að ná því utan EES og ESB?

Vitanlega vona ég að eins allir íslendingar að það takist að minnka skuldaklafa heimilanna, en vona jafnframt að það verði ekki gert með því að færa þær skuldir yfir á einhverja aðra, t.d. börn okkar.

Ef auðlindagjald, hátekjuskattur og skattur á stóriðju verður fellt niður, lækka tekjur ríkissjóðs. Ríkisstjórn Jóhönnu þurfti að skera töluvert niður í velferðarkerfinu, til þess að ná endum saman. Ég trúi því að ekki að Jóhanna hafi gert það að óþörfu. Ég skil þessar tillögur nýrrar ríkisstjórnar að hún ætli að annað hvort að skera ennþá meira niður í velferðarkerfinu eða hækka einhverja aðra skatta. Þá kemst maður ekki hjá því að spá í hvort það verði gert með hærri þjónustugjöldum, eða skerðingarmörk velferðarkerfisins, eins t.d. barna- og vaxtabótum verði færð niður eins og gert var á árunum 2003 - 2007.

Fyrir liggur að allir kjarasamningar renni út eftir nokkra mánuði. Fram eru komnar kröfur um umtalsverðar kjarabætur, lækkun verðbólgu og vaxta. Sambærilegt dagvöruverð og vinnutíma og er í nágrannalöndum okkar. En við erum að skila um 8 klst. lengri vinnuviku að jafnaði til þess að ná svipuðum kaupmætti.

Þetta eru gríðarlega miklar kröfur, en hvort launamenn verði þolinmóðir og taki nýjum kjarasamning reistum á krónunni og yfirlýsingum um að hún komi til með að standa um aldur og ævi með sínum reglubundnu gengisfellingum.

Svo er það spurning hvort það standi til að viðhalda þeirri umræðuhefð á Alþingi sem tekinn var upp á síðasta kjörtímabili af þeim einstaklingum sem nú eru orðnir ráðherrar.

sunnudagur, 19. maí 2013

Ríkisrekinn landbúnaðurVerulegar framfarir hafa orðið í landbúnaði á síðustu árum. Framboð menntunar í greininni hefur aukist og ýmiss konar hagræðing og nýsköpun átt sér stað. Miklir möguleikar eru fyrir áframhaldandi þróun landbúnaðar og matvælaiðnaðar í landinu, t.d.með markaðsstarfi á grundvelli ímyndar um hreinleika og hollustu. Ísland getur auðveldlega orðið vel kynnt sem grænt land og framleiddi grænar vörur. En gegn því er barist af mikilli hörku af bændum.

Til að losa sem best um þessa sköpunarkrafta þarf að endurskoða núverandi styrkjakerfi í landbúnaði. Stefna ber að umbreytingu úr tollvernd, framleiðslutengdum styrkjum og opinberri verðlagningu yfir í beinar óframleiðslutengdar greiðslur

Landbúnaðurinn fær árlega styrkveitingar sem eru um 13 milljarðar í beinum greiðslum og þessi upphæð fer upp í upp 20 milljarða, ef tollavernd er talinn með. Þetta eru gríðarlegar upphæðir og það eru heimlin í landinu sem Alþingi ákveður að eigi að greiða þetta og eðli málsins samkvæmt eru það barnafjölskyldur sem borga mest.

Umhverfi sauðfjárræktar er þannig að bóndinn fær greiðslur í þessum hlutföllum u.þ.b.: 1000 kr beingreiðsla frá ríkinu, 1000 kr fyrir sölu á kjötinu og athugaðu vel lesandi góður 1000-2000 kr fyrir vinnu utan bús, þannig er búskapurinn niðurgreiddur. Er þetta vitrænt framleiðsluumhverfi? Væri ekki réttara að kalla þetta ríkisrekið hobbý.

Í þessu sambandi mætti benda á að fjármunum ríkisins, t.d. á vinsælum ferðamannaslóðum væri mun betur varið. Í framangreindu dæmi er ekki tekið fyrir skattalegt hagræði af því að vera með búrekstur, en því fylgja margskonar hlunnindi, skattahagræði o.s.frv.

Mikilvægi sauðfjárræktar sem dreifbýlismál er afar mismunandi, hún mikilvæg á sumum svæðum, en alls ekki á öðrum svæðum. Hversu raunhæft er þessi stefna til frambúðar?

En framlenging skyldbindingar heimilanna á þessu kerfi í 10 ár fer reglulega í gegnum Alþingi án teljandi umræðna. Hvernig má það vera að hægt sé að skuldbinda okkur um 100 milljarða án umræðu í Alþingi og án þess að bera það undir heimili landsins. Þetta er ekki borið undir neina hagmuna aðila í landinu, þar er reyndar ein undantekning það eru samtök bænda.

Hinn ríkisrekni hagsmunaaðili Bændasamtök Íslands er feykilega sterkur enda fær hver bóndi sem hlýtur núverandi styrki gríðarlegar upphæðir og vill ekki breytingar. Öllum umræðum um að breikka umræðuna er mætt af gríðarlegri hörku.

Gefið er út blað á kostnað skattborgaranna, sem dreift er um land allt þar sem birtur er linnulaus áróður fyrir þessu kerfi og barist gegn öllum breytingum, þar sem styaðreyndum er haldið til hlés eða snúið á haus.

Það á að skylda þessi samtök að birta reglulega upplýsingar um allar þessar greiðslur, þannig að heimilum landsins sér ljóst hvað Alþingi er að gera með þessum samþykktum. Þetta eru skattpeningar og að auki fer fram skattpíning á heimilum landsins í gegnum tollavernd.

Ef við skoðum hvernig styrkir skiptast á landsvæði. Beingreiðslur, t.d. 10 milljónir á bú (t.d. sauðfjárbú) og verður oft um 200 milljónir í einu sveitarfélagi, jafngildir 2000 milljónir á sveitafélagið á 10 árum. En staða sveitafélagsins breytist ekkert. En hún myndi gera það ef fjármagnið færi í uppbyggingu á nýjum tækifærum, sem ekki þyrfti að fjármagna á hverju ári frá grunni eins og gert er með þessu kerfi.

Ef við skoðum t.d. Snæfellsnes þá hverfist hagkerfið þar æ meira um ferðaþjónustu og skildar greinar. En gríðarlegir fjármunir fara til sauðfjárframleiðslu á svæðinu, en þarna eru nokkur söfn í skötulíki o.fl. sem ekki njóta neinna styrkja. Þjóðgarður í fjársvelti. Sundlaugar og ferðamannaaðstaða víða að grotna niður.

Er sjálfgert að fari t.d. 1000 milljónir á 10 árum í viðhaldi á sauðfjárbúunum við þessar aðstæður en lítið í annað? Sauðfjárbú sem þó berjast í bökkum og flestir vinna utan heimilis, t.d. í ferðaþjónustu til að halda búinu gangandi.

Allar tilraunir til að reifa þessi mál í stjórnmálaflokkum og stjórnsýslu er einhverskonar tabú. Þeir sem tjá sig um þessi mál eru hrópaðir niður sem öfgamenn.

Hver eru raunveruleg áhrif landbúnaðarstyrkja á matarverð eða matvælaöryggi í landinu? Er það ekki skondið eða allavega einkennilegt og segir reyndar mikið um þessa umræðu að matvælaöryggi er ákaft haldið fram í þessu samhengi, þegar Íslensk þjóð veiðir eina milljón tonna af fiski á ári.

Umgjörð landbúnaðarins þarfnast skoðunar við, en gegn því berjast gríðarlega sterk ríkisrekin hagsmunasamtök með öflugu málgagni sem fylgir „rétttrúnaðarstefnu“ í veigamiklum málaflokkum.

fimmtudagur, 16. maí 2013

Valdið fært til fólksins?
Ég var að ljúka við lestur greinar Vilhjálms Árnasonar í nýútkomum Skírni. Vor 2013. Nú er það svo að Vilhjálmur hefur verið meðal þeirra fræðimanna sem ég hef metið mikils þar sem hann hefur haldið sig vel til hlés við þann hóp, sem augljóslega hefur látið hagsmuni valdastéttarinnar hafa áhrif á opinberar skoðanir sínar.

Ég er hjartanlega sammála inngangi Vilhjálms, þar sem hann segir m.a. „Ég færi rök fyrir því að þeir veikleikar íslensks samfélags sem dregnir voru fram í rannsókn á orsökum bankahrunsins haldist í hendur við vissa útgáfu af frjálslyndri sýn á lýðræði.

Megináherslan hvílir á því að kjörnir fulltrúar hafi umboð til þess að fara með valdið innan ramma laganna og taki síðan dómi kjósenda í almennum kosningum. Aðrir þættir frjálslynds lýðræðis, svo sem hófsöm temprun valdsins og jafnvægi valdþátta, hafa verið vanræktir.

Ég leitast einnig við að sýna fram á að lýðræðisþróun eftir hrun beri viss einkenni lýðveldislíkansins Til marks um þetta hef ég stóraukna áherslu á beint lýðræði og þátttöku almennings, svo sem þjóðfundum, þjóðaratkvæðagreiðslum og hugmyndum stjórnlagaráðs um beinna lýðræði.

Jafnframt hafa mikilvægir þættir lýðveldishugmynda um lýðræði, svo sem forsendur upplýstrar umræðu og þroskavænlegrar þátttöku, verið hunsaðar. Loks held ég því fram að sækja megi til rökræðulýðsræðis viðmið um það hvernig treysta mætti íslenska lýðræðismenningu og tek nokkur dæmi um tilraunir í þá veru sem taka mið af gagnrýni Vinnuhóps um siðferði og rannsóknarnefndar Alþingis.“
Vilhjálmur segir síðar „Það er mikill ljóður á íslensku lýðræði hve forsendur vandaðra stjórnvaldsákvarðana og upplýstrar umræðu hafa verið vandræktar.“

Og um Icesave, „En með niðurstöðunni vék þjóðin sér undan þeirri ábyrgð að leysa málið með sanngjörnum samningum og ákvað að stefna því í óvissu. Niðurstaðan ól á sundrungu því að allstór hluti þjóðarinnar vildi sýna þann manndóm og þá skynsamlegu varfærni að ljúka málinu með samningum. Þótt niðurstaða dómstóla hafi síðan fallið með okkur, þá breytir það ekki því að samningar voru bæði skynsamlegri og siðferðilega betri kostur á þeim tíma sem hann stóð þjóðinni til boða.“
(Skírnir vor 2013 bls 12-50)

Á þessum grunni lagði ég bjartsýnn af stað inn í greinina. En verð síðan fyrir miklum vonbrigðum eftir því sem ég kemst lengra inn í greinina. Vilhjálmur hefur ekkert um þjóðaratkvæðagreiðsluna að segja annað en það, að hann hefði viljað hafa spurningarnar öðruvísi; hann varðar ekkert um úrslitin og það í ritgerð um lýðræði.

Hann talar um „fræðasamfélagið“ eins og það sé næstum allt á öndverðum meiði við okkur meðlimi Stjórnlagaráðs, sem er í fyllsta máta ósatt. Það voru 5 prófessorar í ráðinu!! Vilhjálmur talar um ráðstefnur Háskólans um málið eins og þær séu betri mælikvarði á fræðasamfélagið, en allir ráðsliðarnir auk allra ráðgjafana sem störfuðu með Stjórnlagaráði. Þar má af mörgum nefna Eirík Tómasson, sem var opinber ráðgjafi ráðsins síðustu vikuna,

Steininn tekur úr þegar Vilhjálmur lýsir Svani Kristjánssyni sem einhvers konar utangarðsmanni fyrir að hafa andmælt fyrirlesurum. Þetta gerir Vilhjálmur án tillits til þess, að Guðrún Pétursdóttir, Njörður Njarðvík, Þorkell Helgason (svo ég nefni bara þrjá háskólamenn) og margir aðrir, sem voru á staðnum, hafa lýst hneykslan sinni á málflutningi Gunnars Helga Kristinssonar o.fl. frummælenda á þessum fundum.

Af hverju minnist Vilhjálmur ekki á sjónarmið heimsfrægra sérfræðina um störf Stjórnlagaráðs, þeirra Jon Elster né Tom Ginsburg. Ég hef lent í fjölmörgum viðtölum við erlenda fjölmiðlamenn um þá baráttu sem íslensk alþýða hefur barist, baráttu sem hefur vakið heimsathygli. Tveir erlendir fjölmiðlamenn komu í morgun til mín, og tóku langt viðtal um hvað væri eiginlega að gerast á Íslandi.

Landsmenn urðu vitni af því í beinni útsendingu síðustu tvo vetur hvernig ofbeldis og klækjastjórnmálum var beitt á Íslandi þar sem talsmenn tiltekinna afla drápu frumvarpið vegna andstöðu við auðlindir í þjóðareigu, jafnt vægi atkvæða o.fl. ákvæði. Aldrei komu fram málefnaleg rök eða ábendingar. Það er saga, sem þarf að segja og hún verður sögð, þó síðar verði.

Það sem við erum að upplifa nú er að það er hafinn undirbúningur réttlætingar á því að henda málinu í heilu lagi í ruslafötuna. Sé litið til vinnubragðanna á Alþingi með málþófinu og ofbeldi gegn lýðræðinu, mun sú réttlæting fara fram með markvissum hætti næstu mánuðina.

Lesandi góður ég spái því að áður en langt um líður verður skipuð nefnd til þess að skoða málið. Hún mun svo starfa í 10 ár og taka þá jóðsótt og þá mun fæðast pínulítil mús og greinarmerkjasetning og orðlagi verður uppfært í samræmi þá málvenju sem verður þá uppi. Þannig er lýðræðið á Íslandi, ég stóð í þeirri trú við upphaf greinarinnar að Vilhjálmur vildi breytingar þar á, en lagði Skírni sorgmæddur frá mér að loknum lestri greinar hans í gærkvöldi.
 

föstudagur, 10. maí 2013

Kosningaloforð Framsóknar


Í nýlegum fréttum kemur fram að gjaldeyrisforði Seðlabankans hefur ekki verið minni í þrjú ár. Verðmæti forðans fór undir 500 milljarða króna í apríl og var kominn niður í rétt tæplega 480 milljarða kr. um síðustu mánaðarmót. Forðinn hefur ekki verið minni síðan í maí árið 2010.
 
Í fjármálastöðugleikaskýrslu Seðlabankans er skýrt á öfgalausan og yfirvegaðan hátt hvílík firra málflutningur Framsóknarflokksins í aðdraganda kosninga var. Hann var reistur á því að kröfuhafar þrotabúa gömlu bankanna þyrftu á nauðasamningum að halda við Ísland. Einkennileg nálgun því þrotabúin skulda einfaldlega ekki neitt og þurfa ekki nauðasamninga.
 
Seðlabankinn hefur bent á að við séum í þeirri stöðu að viðskiptaafgangur næstu ára dugi ekki fyrir samningsbundnum skuldbindingum innlendra aðila, hvað þá að skipta aflandskrónum eða eignum þrotabúa föllnu bankanna fyrir gjaldeyri.
 
 
Jafnvel þótt þrotabú föllnu bankanna afhentu Seðlabankanum allar krónueignir án endurgjalds, væri greiðslustaða þjóðarbúsins neikvæð til ársins 2019. Árangurslaust hafa aðilar vinnumarkaðsins bent á að auka þurfi fjárfestingar í atvinnulífinu til þess að auka verðmætasköpun í landinu og auka útflutningstekjur, má þar t.d. benda á Stöðugleikasáttamálann.
 
Það er engin innstæða fyrir eignum þrotabúanna, íslenskar krónur eru skuld þjóðarbúsins en ekki eign. Ef Seðlabankanum tækist að losa um höftin með því að minnka peningamagn í umferð með niðurfærslu eigna þrotabúanna, en nýti það síðan til að greiða niður skuldir annarra aðila, þá eykst peningamagn í umferð vitanlega aftur um sömu upphæð og skuld ríkissjóðs vex aftur.

Niðurfærsla lána heimilanna um 300 milljarða mun hafa þau áhrif að hrein eign heimilanna mun batna sem þeirri upphæð nemur. Það hefur áhirf neyslu heimilanna, allavega sé litið til hins umtalaða fjármálalæsi íslendinga. allar líkur eru á að þau taki lán fyrir nýjum innfluttum vörum og greiðslujafnarvandinn ykist enn meir.

     
Við höfum ekki efni á að losa fjármagnshöftin nema gera annað af tvennu: Gamla gengisfellingaleiðin með tilheyrandi verðbólgu, lífskjararýrnun, gjaldþrotum fyrirtækja og sveitarfélaga. Eða að ganga til samninga um minnkum peningamagns í umferð. Ef leið Framsóknar er farinn mun gengi krónunnar lækka mun meira við afnám haftanna, sem mun svo leiða til mikillar lífskjaraskerðingar, mun meiri og víðtækari en endurgreiðsla á 20% af skuldum heimilanna.
 
Ástæðan fyrir því að það þarf að semja um niðurfærslu krafna er að hér eru gjaldeyrishöft, ástæðan fyrir því að það eru höft er að það er alltof mikið peningamagn í umferð, ástæðan fyrir því að það er alltof mikið peningamagn í umferð er að það var gefið út alltof mikið af skuldaviðurkenningum í formi prentunar á verðlausum pappír sem er merktur sem krónur sem ríkissjóður segist ætla að ábyrgjast.
 
Næsta haust hefjast viðræður um endurnýjun allra kjarasamninga í landinu. Eins og margoft hefur komið fram, er þolinmæði launamanna gagnvart krónunni löngu þrotin. Kaupmáttur er reglulega skertur með gengisfellingum og verðbólgan skekur skuldastöðu heimilanna.
 
Háværasta krafa launamanna er að þennan vítahring verði rjúfa. Taka verði frá stjórnmálamönnum þann möguleika að leiðrétta reglulega hagstjórnarmistök með gengisfellingu og verðbólguskoti. En það er einmitt það sem er undirliggjandi í tillögum Framsóknarflokksins.
 
Helsti fjármálasérfræðingur Framsóknar sagði í spjallþáttum í kosningabaráttunni að þetta sé ekki vandamál, það séu nægir peningar til í lífeyrissjóðunum. Það jafngildir því að senda skuldasúpuna til næstu kynslóðar, enn ein skyndiredding hins íslenska stjórnmálamanns.
 
Oft er sagt að verðbólga sé einungis alvarlegt vandamál vegna þess að hvorki stjórnmálamenn taki vandamálið alvarlega, heldur kjósa ætíð að ýta því á undan sér í stað þess að taka á sig óþægindin því það kosti atkvæði. Það endurspeglast vel í nýliðinni kosningabaráttu. Það hefur komið fram að launamenn eru tilbúnir að ræða raunverulega leið úr þessum gríðarlega, en það verður þá að vera alvöru lausn til frambúðar.
 
Losun gjaldeyrishafta verður ekki sársaukalaus en það er óhjákvæmilegt að taka strax á þeim vanda, annars mun Ísland falla enn neðar og kjör fólks verða enn lakari. Stefna Framsóknarflokksins miðast að því að senda reikninginn til barna okkar og læsa Ísland inni í höftum til langframa í skiptum fyrir vinsæla skammtímalausn.

Og svo er það spurninginn, Hvað var átt við þegar sagt var í kosningabaráttunni "Afnemum verðtrygginguna"? Engar skýringar hafa komið hvað þetta þýði. Margar nefndir m.a. með þingmönnum xB hafa reynt en alltaf gefist upp þegar búið var að greina hvað þetta þýddi.

mánudagur, 6. maí 2013

Bakhlið hins íslenska efnahagsundurs


Vegna þeirrar raunstöðu sem kom upp á yfirborðið í nýafstaðinni kosningabaráttu, þegar tveir flokkar lofuðu alveg hægri-vinstri að útdeila skulda- og skattalækkunum og þeir hefðu í bakhöndinni 300 milljörðum til þess að deila út til heimila landsins, langar mig til að endurbirta pistil sem ég birti hér 6. ágúst síðastliðinn.


Ég er fastur pistlahöfundur í norsku dagblaði hér er ágústgreinin:

Þegar erlendir menn eru að skoða Ísland í dag og „hið íslenska efnahagsundur“ virðast þeir ekki gera sér grein fyrir ákveðnum séríslenskum einkennum. Þar ber vitanlega hæst liðónýtur gjaldmiðill, sem er varinn með gjaldeyrishöftum og útflutningsfyrirtækjum bjargað með því að færa rekstrarvandann yfir á launamenn í gegnum reglubundnar gengisfellingar krónunnar og þá um lækkun launa. Þetta veldur því að verðbólga hér er helmingi hærri en þekkist í nágrannalöndum okkar og vextir eru þar afleiðandi tvöfalt hærri hér en í þeim löndum sem við berum okkur saman við.

Við upphaf 21 aldarinnar voru gerðar umfangsmiklar breytingar í peningaumhverfi Íslands. Gengisskráning er gefin frjáls, Seðlabankinn er gerður sjálfstæður, tekin er upp verðstýrð peningastefna, og bankarnir eru einkavæddir. Opnað er á frjáls flæði fjármagns og afleiðingarnar koma strax fram í gífurlegri aukningu peningamagns í umferð. Þessi hömlulausa prentun krónuseðla var afleiðing á fjármálastarfsemi bankanna og vaxta- og peningastefnu Seðlabankans. Afleiðingar innstreymis erlends lánsfjár, aflandskróna og hlutabréfafúsks. Þarna er að finna snjóhengjuna margumræddu.

Ef gjaldeyrishöftum á Íslandi verður aflétt án þess að gripið verði til sérstakra varnarráðstafana, mun að öllum líkindum skella á önnur risavaxinn efnahagslega kreppa í formi mikillar gengisfellingu krónunnar, sem myndi valda miklum verðbólguskell og ofurvöxtum sem myndi kaffæra til viðbótar fjölda heimila og fyrirtækja. Sá árangur sem nú er kallaður hið íslenska efnahagsundur er framhlið leiktjalda handstýrðs gjaldmiðils.

Aflandskrónur, erlendar krónueignir kröfuhafa bankanna og krónueignir margra landsmanna sem myndu vilja skipta í erlendan gjaldeyri, eru svo stór vandi að hann er vart skiljanlegur venjulegu fólki. Það sem verra er, vandinn fer vaxandi. Það er einungis ein raunsæ leið úr þessu og hún er að ná samningum við Seðlabanka ESB um upptöku Evru og fá aðstoð til þess að komast í gegnum hina ógnvænlegu snjóhengju.

Sé t.d. þau húsnæðislán skoðuð sem íslenskum fjölskyldum standa til boða  borin saman við húsnæðiskaup danskrar fjölskyldu, þá greiðir íslenska fjölskyldan þegar upp er staðið tvöfalt meira fyrir sitt hús, en sú danska. Vöruverð á Íslandi er hærra. Ísland náði botni í kreppunni árið 2010, þá var kaupmáttarstigið svipað og verið hafði árin 2001-2. Við höfum í dag endurheimt um helming af falli kaupmáttarins frá toppi bóluhagkerfisins árið 2007. En það segir ekki allt um lífskjaraskerðinguna, kjörin versnuðu meir vegna skemmri vinnutíma, meira atvinnuleysis og aukinnar skuldabyrði heimilanna.

Lífskjaraskerðingin kom til vegna gengisfalls krónunnar, sem íslenska valdastéttin dásamar og vill alls ekki vera án. Lífskjörin á árunum 2001 til 2007 voru að umtalsverðu leyti byggð á froðu, með flæði ódýrs lánsfjár inn í landið og spilagaldra fjárglæframanna, sem kom fram í aukinni skuldsetningu fyrirtækja og heimila, of hátt skráðu gengi og misheppnaðri peningastjórnun Seðlabankans.

Við Hrunið afhjúpaðist siðferðisleg og hugmyndafræðileg kreppa, þar opinberaðist þjóðinni stétt manna, sem töldu sig óbundna að þurfa að greiða til samfélagsins. Þeir tæmdu bankana innan frá, keyptu upp fyrirtæki seldu öll verðmæti úr þeim og komu þessu góssi undan í erlendum skattaskjólum. Í dag er enn við lýði stór atvinnugrein sem beitir öllum ráðum til þess að koma sér hjá því að þurfa að skila samfélaginu samgjörnum arði af nýtingu þeirra á þjóðarauðlindinni sem er í hafinu umhverfis Ísland. Þessi hópur berst með öllum ráðum gegn því að Stjórnarskrá landsins verði breytt og eignaréttur þjóðarinnar tryggður, þeir hafa úr miklum sjóðum að spila til þess að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og styðja „rétta“ aðila í kosningum.

80% þjóðarinnar býr við það ástand að vera gert að þola skert laun í gegnum endurteknar gengisfellingar krónunnar. Launamönnum eru með því gert að greiða aukaskatt vegna Hrunsins og fjármagna uppgönguna, á meðan litli hluti þjóðarinnar kemur sér undan því að vera þátttakandi í þeirri skattlagningu. Um 20 þús. íslensk heimili misstu allt sitt, það gerðist ekki í nágrannalöndum okkar þrátt fyrir að þar væri á ferð efnahagskreppa. Þessi staða er enn til staðar, íslensk heimili eru ennþá í meiri vanda en heimilin á hinum Norðurlandanna.

Á þessu ári hafa verið ört vaxandi útflutningstekjur af miklum makrílveiðum, sem gæti verið tímabundinn arður þar sem ekki hafa náðst samningar við aðrar þjóðir um hvernig skipta eigi þessum veiðum. Auk þess skiptir miklu aukning er í ferðaþjónustu vegna lágs gengis krónunnar. Ef ekki tekst að takast á við efnahagsvandan umheimsins þá er allar líkur á að útflutningstekjur Íslendinga minnki umtalsvert. Í ferðaþjónustu hafa skapast ný störf, en það eru ekki hálaunastörf og mikið um aðflutt fólk sem fer í þau störf.

En þetta eru skammtímalausnir, það blasir við íslendingum að þurfa að leysa úr gjaldmiðilsmálum sínum til framtíðar. Krónan hefur reynst vel við að auka útflutningstekjur með því að gengisfella hana, en vert er að halda því vel til haga að krónan var mikill gerandi í því að hér varð fullkomið kerfishrun haustið 2008, það gerðist ekki í nágrannalöndum okkar. Stígandi lukka er best, stóra vandamálið er óleyst við búum við gjaldmiðil sem ver lítinn hluta þjóðarinnar, hann hagnast á því að viðhalda þessum gjaldmiðli, á meðan stóri hlutinn býr við lakari kost en þekkist í nágrannalöndum okkar.

Það blasir við Íslendingum ákaflega erfið ár og mjög þungar afborganir ríkissjóðs á næstu tveim árum.

miðvikudagur, 1. maí 2013

Stakir frídagar

Það hefur lengi verið baráttumál að fá viðurkennt frí á aðfangadag. auk þess að oft hafa launamenn séð eftir umsömdum fríum inn í löghelga frídaga.

Í allmörgum löndum er fyrir margt löngu búið að flytja alla staka frídaga að helgum. T.d. er fyrsti vinnudagur á nýju ári víða frídagur, vegna þess að hátíðardagar hafa lent á laugardegi eða sunnudegi. Sumir halda því fram að hér á landi séu mun fleiri frídagar en í öðrum löndum, það er alrangt, þeir eru í mörgum tilfellum töluvert færri hér á landi.

Það er ekki síður áhugamál Íslenskra fyrirtækja og margra launamanna að taka upp þetta fyrirkomulag og er reyndar farið að gera það í nokkrum fyrirtækjum.

Í mörgum iðnfyrirtækjum þarf að taka saman að lokinni vinnuviku, þrífa vélar og keyra þær niður. Stakur vinnudagur á föstudegi er þessum fyrirtækjum ákaflega óhagstæður. Keyra vélar upp til þess að vinna stuttan tíma og byrja svo að keyra þær niður aftur um hádegi. Sama á við um fyrirtæki sem þurfa að senda starfsmenn langt út á örkina til verkefna. Stakir frídagar eru þeim ákaflega óheppilegir og dýrir.


 

• 1. ár 17. lendir á fimmtudag.

• 2. ár 17. lendir á föstudag, tekur bara uppstigningardag út. Starfsmaður á inni einn dag

• 3. ár 17. lendir á laugardag

• 4. ár 17. lendir á sunnudag
• 5. ár 17. lendir á mánudag og tekur bara uppstigningardag út. Við inneign starfsmanna bætist annar dagur. Hann á inni 2 daga.

• 6. ár 17. lendir á þriðjudag.

• 7. ár 17. lendir á miðvikudag. Hér fer annar inneignardagur starfsmanns þar sem hann fær 3 frídaga plús 17. júní. Hringnum er lokað og starfsmaður á inni 1 dag.

Ef tekið væri inn í dæmið frí á aðfangadögum þá dugar inneign starfsmanns upp í tvo aðfangadaga, en fyrirtækin kæmu út með 2 og hálfan dag í mínus. En á móti má benda á hagræðið, auk þess að 17. júní er 2 daga inn á helgardögum, þannig að það jafnast út. SA hefur bent á nýgerða danska kjarasamninga sem fyrirmynd, þar var samið um frí á aðfangadagsmorgun.

Ef uppstigningardagur og sumardagurinn fyrsti væru fluttir að 17. júní, væri hægt mynda góða helgi fyrir fjölskyldur í lok skólaárs. Það fyrirkomuleg gefur umtalsverðar fjárhæðir inn í hagkerfið með aukinni ferðamennsku.

Sama á við um aðfangadag og staka frídaga mörg fyrirtæki gefa frí eða starfsmenn tilkynna einhverskonar fjarveru. Þar sem þetta er ekki síður hagstætt fyrirkomulag fyrir fyrirtækin er ekki óeðlilegt að leggja til að til þess að jafna upp stöðuna að setja inn í þetta dæmi frí á aðfangadögum.

Þetta kerfi gengur upp á 7 árum og er fyrirtækjum og launamönnum til hagsbóta og samfélaginu öllu.

En þetta verður ekki gert í nokkrum fyrirtækjum, heldur þarf að gera þetta í öllu samfélaginu, það er að samstilla atvinnulíf við frídaga skóla og leikskóla. Það er t.d. algjörlega óskiljanlegt og reyndar óásættanlegt, að skólar geti verið með frídaga (starfsdaga) kennara úr öllum tengslum við atvinnulífið og starfsdaga foreldra