mánudagur, 30. nóvember 2009

Mannlegir eiginleikar

Það er óhjákvæmilegt að velta fyrir sér hvort grimmd mannsins eigi sér einhver takmörk, þegar farið er um hverfi gyðinga í Berlín. Sögurnar frá árunum þegar nasistar eru að ná völdunum í Þýskalandi eru svo yfirgengilega skelfilegar. Ekki einungis gagnvart gyðingum, heldur einnig gegn kommúnistum og samkynhneigðum og reyndar öllum þeim sem ekki fylgdu þeim að málum.

Minnismerki frá þessum tímum eru og verða öllum nauðsynleg, til þess að sýna okkur fram á og halda við minningunni um hvernig mannskepnan getur hagað sér. Hún segir svo margt sagan um gömlu hjónin sem áttu kanarífuglana. Nasistar þrengdu sífellt meir að gyðingum, bönnuðu þeim í fyrstu að eiga ullarföt. Síðan kom bann við pelsum og öðrum skjólfatnaði. Bann við viðskiptum þeirra og þeir útilokaðir frá heimi listanna.

Allt miðaði að því að gera gyðingum lífið óbærilegt. Bókabrennan mikla þar sem nasistar brenndu allar bækur þar sem í einhverju var hægt að finna eitthvað annað en það sem var nasistum þóknanlegt. Svo kom bannið við að gyðingar mættu eiga gæludýr. Gömlu hjónin áttu tvo kanarífugla, sem þeim þótti ákaflega vænt um og létu hjá liggja að farga þeim.

Nasistar komust að þessu og eiginmaðurinn var sóttur ásamt fuglunum. Gamla konan spurðist örvæntingafull fyrir um manninn sinn og fékk engin svör fyrstu dagana, en að viku liðinni þá fékk hún símtal þar sem henni var tilkynnt að hún gæti sótt ösku manns síns og fuglanna, en við afhendingu þyrfti hún að inna af hendi greiðslu sem samsvaraði góðum mánaðarlaunum.

Hagfræði nasistaríkisins gekk í raun aldrei upp og var hrein endaleysa, reist á græðgi og þjófnaði frá þeim ríkjum sem þeir yfirtóku. Þar hrifsaði valdastéttin til sín það sem henni þótti sér samboðið, væri einhver með múður var hann settur í fangelsi eða naut þeirrar mannúðar að þurfa ekki að vera barinn og sveltur til bana í fangelsi heldur var einfaldlega skotinn á staðnum.

Hér má vísa til örlaga íslendingsins sem var túlkur á útvarpsstöð nasista. Á hverjum degi eftir að stríðið var komið af stað var útvarpað á flestum tungumálum, þar á meðal íslensku, fréttum sem Göbbel og hans fólk sömdu um velgengni nasista í stríðinu. Einn daginn lauk íslendingurinn sínum lestri á því að segja; „Nú er ekki fleira í fréttum í dag, en ég kem á morgun og les fyrir ykkur sama bullið.“ Um kvöldið var hann sóttur af gestapó og fötluð kona hans og sonur sáu hann ekki framar.

Í sjálfu sér má segja að hagfræði sovéts kommúnista hafi verið reist á sömu stoðum, þegar hún var kominn í hendurnar á samskonar fólki og rak nasistaríkið. Engin sjáanlegur munur á þeim mannlegu gæðum sem þar fengu að njóta sín. Reyndar sér maður nákvæmlega sömu mannlegu eiginleika þar sem rétturinn og sannleikurinn verður eign þeirra sem hafa hrifsað hann til sín, ef horft er á myndir þar fjallað er um mafíurnar í Bandaríkjunum og svo maður tali nú ekki um McCarthyismann.

Nú ef maður fer aðeins nær okkar tíma, þá er ekki langur vegur á milli þessara hagkerfa og hagfræði hrifsunar óhamdrar markaðshyggju sovéts nýfrjálshyggjunnar og hvað það leiddi yfir okkur íslendinga. Þar sem öfl græðginnar áttu að leiða til jöfnunar og þegar bitarnir væru orðnir of stórir hjá þeim sem völdin höfðu, átti ofgnóttin að hrynja af borðunum niður til almúgans. Svo vitnað sé til Regans og Thatcher. Valdaklíkan kom sér strax í þá stöðu að geta hrifsað til sín bestu bitana og reikningurinn liggur í pósthólfi þeirra sem minna mega sín. Sagan endurtekur sig.
Sé litið yfir sögu hagkerfanna þá standa velferðakerfi norðurlandanna upp úr. Þar ríkir öryggi og friður, og Norðurlöndun eru með sveigjanlegasta og samkeppnishæfasta vinnumarkaðinn og þau eru með stærstu hagkerfum heimsins, eða í 8 sæti.

Flestir vilja stefna á sömu mið, ef litið er til þeirrar stefnu sem virðist ríkja meðal forysturíkja ESB eins og t.d. Þýskalands undir forystu hægri miðjumannsins mannsins Angelu Merkel. En málsvarar markaðshyggjunnar og valdahyggjunnar heima, finna því allt til foráttu.

Ég var hér ári eftir hrun múrsins á ráðstefnu evrópskra byggingarmanna. Þar héldu austan mennirnir fagnaðarræður nú væru þeir búnir að opna fyrir kapitalismann og töldu að nú yrði ekki langt til þess að þeir næðu kjörum okkur í vestrinu. Þá stóð upp fulltrúi Breta og fór yfir þau gæði sem frú Thatcher hafð skenkt breskum launamönnum. Salinn setti hljóðan í langan tíma á eftir þeirri ræðu.

sunnudagur, 29. nóvember 2009

Er ekki búið að stinga þessum Hr Oddsson inn?

„Hvernig fóruð þið að þessu?“ „Hvað í ósköpunum voruð þið að gera?“ Þetta eru algengar spurningar þjóðverja þegar þeir heyra að maður er íslendingur. Þjóðverjum hefur alltaf verið hlýtt til íslendinga, við verum eins og litla sæta krúttið lengst upp í norðrinu. Þjóðverjar eru langfjölmennastir ferðamanna sem til Íslands koma.

Þýskir bankar hafa alltaf verið langöflugastir við að lána íslendingum og hafa fjármagnað margt af því sem við höfum verið að framkvæma í gegnum árin. Samkvæmt trúverðugum heimildum þá töpuðu þýskir bankar á Hruninu okkar um allt að 3000 milljörðum króna. „Hvernig í ósköpunum datt bankastjórnunum okkar að lána 300 þús. manna þjóð alla þessa peninga?“ og hann svaraði sér sjálfur strax á eftir; „Engum þeirra hefði dottið í hug að lána 300 þús. manna þorpi hér þessa peninga, ekki einu sinni helminginn.“

„Hvað með Seðlabankastjórnina ykkar, þennan Hr. Oddsson?“ „Gengur hann virkilega enn laus?“ „Er ekki búið að setja hann inn?“ „Eruð þið ekki með Fjármálaeftirlit?“ „Eruð þið ekki með bindiskyldu?“ „Er það virkilega rétt að það er ekki búið að setja neinn mann enn í fangelsi?“

"Hvernig datt mönnum í hug að afnema bindiskylduna og Seðlabankinn að lána bönkunum stórar upphæðir þrátt fyrir að allir vissu hvert stefndi." Það er greinilegt að þýskir fjölmiðlar hafa fjallað ítarlega um okkar mál. Enda eru þýskir fjölmiðlar þekktir við vandaða og ítarlega fréttamennsku.

Þjóðverjarnir tala eins og við höfum sært þá inn að hjartarótum. Þeir skilja ekki svona háttalag. Þeir eru svo skipulagðir og passasamir.

Berlín er vinalega og spennandi borg. Gríðarleg gerjun í menningarlífi. En það er gríðarlega margt sem er eftir að gera. Austrið var í rústum, húsin meir og minna ónýt, samgöngumannvirki einskis virði.

Hér er mikið um framkvæmdir, en það er ekki gert eins heima. Þjóðverjar leggja vel niður fyrir sér hvað þeir ætla að gera og hvernig verði farið að því. Það getur tekið þá allt upp í 20 ár að leggja af stað með verkefni. En þá er líka allt klárt. Allt frá fyrstu skóflustungu upp í síðustu afborgun að fjármögnun. Allt.

Þjóðverjar ættu eiginlega að lána okkur svona eitt sett af stjórnmálamönnum. Þá væri kannski meira af rökréttum aðgerðum og minna af innihaldslausum öskurræðum.

laugardagur, 28. nóvember 2009

Af hverju ekki ESB

Er nú í Berlín í helgarferð og þegar maður röltir hér um strætin í þessu stóra og sterka iðnríki kemst maður ekki hjá því að velta fyrir sem hvers vegna íslendingar vilja ekki starfa meir með þessari öflugu þjóð sem hefur lagt langmesta fjármagn til Íslands.

Það er ekki hægt annað að velta fyrir sér hvernig innviðir Sjálfstæðisflokksins virka. Flokkurinn fékk mjög færa menn til þess að taka saman ákaflega vandaða skýrslu um ESB fyrir síðasta landsfund. En þegar að fundinum kom fékkst skýrslan ekki rædd og höfundar hennar voru ekki á mælendaskrá. Í því sambandi sem ég stjórna kæmist maður ekki upp með svona verklag. (vegna aths. um ég hafi ekki verið á fundinum og þetta sé ekki rétt, þá vill ég taka það fram að ég hef þetta eftir einum skýrsluhöfunda og eins allnokkrum sem voru á fundinum)

Áberandi eru andstæð sjónarmið gagnvart ESB og órökstuddar upphrópanir einkenna umfjöllun forsvarsmanna flokksins. Þetta er enn einkennilegra þegar litið er til þess að innan flokksins eru stærstu heilstæðu hóparnir sem eru fylgjandi ESB, þá sérstaklega úr röðum atvinnurekenda í iðnaði og nýtækni.

Þetta verður enn einkennilegra þegar litið er ESB þingsins og ráðherranefndarinnar. Þar eru hægri miðjumenn í meirihluta. Ákvarðanataka innan ESB er ekki tekinn á grundvelli þess að þingmenn tiltekinna þjóða taka sig saman, heldur eru það hægri þingmenn sem mynda stærsta hópurinn þvert á landamæri aðildarlanda, nærst stærsti hópurinn eru sósíaldemókratar og þá grænir hópar.

Maður finnur samsömum við andstöðu íslenskra stjórnmálamanna og valdafíkla við ESB í því að vilja ekki kalla samanstjórnlagaþing og breyta stjórnarskrá. Hér er ég að vísa til þess ráðherraræðis sem íslenskir stjórnmálamenn vilja verja og þá stjórnarhætti sem þeir viðhafa að virða samstarf við hagsmunasamtök einskis og líta á það sem óþægileg afskipti af störfum íslenskra stjórnvalda.

Því er haldið að okkur af íslenskum stjórnmálamönnum að ESB einkennist af óendanlegum fjölda embættismanna. Staðreyndin er sú að embættismenn hjá ESB eru færri en opinberir starfsmenn hjá hinu örlitla 300 þús. manna samfélagi sem býr á Íslandi.

Á Íslandi eru 37 þús. opinberir starfsmenn. Það eru 491 millj. manns innan ESB og hjá sambandinu eru það 35 þús. starfsmenn, þar af eru 7 þús. túlkar. 1% af fjárlögum aðildarlanda fer til ESB. Innan ESB eru 40% af auðlegð heimsins en þar búa 8% af heimsbyggðinni. (v. aths. þá er hér verið að að benda á hversu fjarstæð hún sú fullyrðing er um hinn óendanlega fjölda sem sé í Brussel)

Talað er um að stóru ríkin fari með öll völd. Malta hefur jafnmikil völd og önnur ríki og getur stoppað löggjöf innan ESB. Það getum við ekki þar sem við höfum enga aðkomu að setningu laga og reglugerða. Við myndum fá 20 starfsmenn það eru þingmenn og ráðherra í ráðherraráðið og aðstoðarmenn þeirra. (lagfært vegna v. aths.)

ESB er ekki með her eins og haldið er fram, það er Nato eins og við vitum sem er samhæfing herja í löndum Evrópu.

ESB á ekki neinar auðlindir og stefnir ekki að því að eignast þær, aðildarlöndin halda sínum auðlindum, t.d. Danir og Bretar eiga sínar olíulindir í Norðursjó.

Það er svo margt sem fullyrt er sem stenst ekki og er fullkomlega út í hött.

Það er svo margt í málflutning ESB andstæðinga sem eru rakalausar dylgjur.

fimmtudagur, 26. nóvember 2009

Flett ofan af ormagryfjunni

Gunnar Andersen sagði á ársfundi Fjármálaeftirlitsins í dag að rannsóknir mála bendi til þess að auk óeðlilegra viðskiptahátta hafi alvarleg lögbrot verið framin innan íslenskra banka. Brotin kunni brotin að varða við hegningarlög, bæði hér á landi og í öðrum löndum.

Frávik frá góðum starfsháttum hafa komið í ljós við skoðun á nýju bönkunum. Þetta tengist áhættustýringu og stjórnunarháttum. Gunnar Andersen segir þetta ósiði sem hafi fylgt þeim frá því fyrir hrun.

Er einhver undrandi? Upphaf hörmunganna má rekja til kvótakerfisins og einkavæðingar bankanna. Kvótakóngar keyptu, innmúraðar og innvígðar klíkur réðu ferðinni. Það er svo einkennilegt að heyra málsvara þessara afla lýsa í dag eftir opnu og gagnsæju samfélagi. Svo einkennilegt að hlusta á málflutning þingmanna fyrrverandi stórnarflokka þessa dagana afstöðu þeirra til þeirrar hörmungar sem efnahags- og peningastjórn leiddi yfir heimili þessa lands.

Firring, græðgi og agaleysi hefur öðlast sérstöðu í okkar menningarheimi. Þjáningar eru orðin neysluvara. Hvar eru mörkin? Verðum við skeytingalaus fyrir óförum annarra? Erum við farinn að samsama okkur við pólitískan boðskap Túskildingsóperunnar um starfsmannaleiguna 2P og Vin litla mannsins Group, sem breyta þjáningum fólks í peninga.

Allt er til sölu, aðgangur að börnum og stúlkum til kynferðislegs ofbeldis. Fasteignir eða tilfinningar fólks. Er engin munur er á því að ræna banka og kaupa banka?

Nú get ég, segja ungpólitíkusar, sem röðuðu sér á listana í vor. Sjálfumglaðir ungkarlar, sem ekki höfðu tíma aflögu til þess að ljúka langskólanámi. Þeir birtast í spjallþáttum, þar sem þeir ræða um spuna sinn, sem er í raun ekkert annað en óraunsær raunveruleikafarsi og á að heita fréttir síðustu viku.

Þeir fylgja hinni niðurnjörvaðri og tilfinningarlausri veröld flokkspólitíkur og telja sig þurfa að segja okkur fyrir um hvernig við eigum að meðtaka boðskap spunafréttanna. Ákafir telja þeir okkur í trú um að þeir séu kjörnir til að leiða lýðinn og vissir í sinni sök bruna þeir beina braut spunans og sjálfumgleðinnar.

Aggressív fréttamennska er nauðsyn nútímaþjóðfélagi, en hún er vandasöm og krefst þekkingar. Hún snýst ekki um sársauka einkalífs eða um niðurlægingu. Hún er ekki spuni, hún á að taka á þeim sem hafa glatað mörkum siðferðis og horfið á braut græðginnar og hrifsunar.

miðvikudagur, 25. nóvember 2009

Klisjurnar

Eitt af því sem einkennir íslenska umræðulist eru rakalausar fullyrðingar, klisjur sem menn hafa einhvertímann búið til í pólitísku karpi og hafa síðan orðið að að einhverjum staðreyndum sem menn byggja síðan framsögn sína á. Þetta leiðir til þess að okkur miðar ekkert í umræðu því hún er einfaldlega innihaldslaust bull.

Lítum t.d. á bullið sem birt var á besta stað í Mogganum í gær frá lögmanni Baldurs; honum finnst það vera pólitísk ofsókn að Baldur sé rannsakaður, þrátt fyrir að fyrir liggur grunur um stórfelld innherjaviðskipti. Baldur hefur verið einn áhrifaríkasti embættismaður Íslands í tvo áratugi. Það er ekki verið að sakfella hann fyrir pólitískar skoðanir. Í raun er lögmaðurinn að segja að þetta hafi verið pólitíska stefna Sjálfstæðisflokksins að hafa hlutabréfamarkaðinn jafngeggjaðan og hann var og þess vegna séu þetta í fínu lagi.

Eða leiðara Fréttablaðsins í dag: „Ríkisstjórnin er ekki vinstristjórn, eins og það heiti hefur verið skilið hingað til, heldur fyrsta sósíalistastjórn á Íslandi. Allir vita að sósíalistum fellur vel að eyða arði sem frjálst atvinnulíf hefur skapað, en sósíalistum er fátt verr gefið en að blása lífi í frjálst athafnalíf eða örva það til verðmætasköpunar með arðbærum rekstri til kjarabóta fyrir almenning.”

Allir vita að Norðurlöndum eru eitt stærsta hagkerfi heimsins, það sem gengur best og þar sem lýðræði virkar best og þar sem mestur friður og öryggi borgaranna ríkir.

Getum við ekki losnað við þessa gömlu innihaldslausu frasa og farið að tala saman eins og alvöru fólk?

Þessi bjálfalegi frasi gengur upp í íslenskri umræðu og virðast reyndar munu treysta ofurveldi sjálfstæðismanna á ný eins og skoðanakannanir sýna. Sjálfstæðismenn hræða fólk með brjálæðislegum sköttum sem með upphrópunum sem eru rakalaust bull í himinblámann.

Þeir eru að berjast gegn því að ríka fólkið verði skattlagt og þeir sem minna megi sín losni undan þeirri skattpíningu sem þeir sjálfir komu á. Þessa leið styðja núverandi forystumenn Framsóknar og ætla sér að komast með Sjálfstæðismönnum aftur í ríkisstjórn hinna ríku.

þriðjudagur, 24. nóvember 2009

Hið gjörspillta samfélag

Maður kemst ekki hjá að velta því fyrir hvort stjórnendur í íslensku efnahags- og viðskiptalífi séu eitthvað öðruvísi eða lakar menntaðir en gengur og gerist í nágrannalöndum okkar. Sama á við íslenska stjórnmálamenn. Það er svo margt hér á landi sem er allt öðru vísi.

Allt fjármálakerfi Ísland hrundi til grunna, það gerðist ekki annarstaðar. Engin treystir íslenskum stjórnmálamönnum og íslenska ríkinu. Nágrannaríki okkar neita að eiga samskipti við okkur nema í gegnum AGS.

Flest íslensk fyrirtæki eru kominn í þrot, skuldsett út í hafsauga og í gjörgæslu. Þó svo þau gangi prýðilega og séu með gott og vel menntað starfsfólk. Íslenskur sjávarútvegur, sem þarf að fara stutt á auðug mið, er að hruni kominn vegna skulda. Hvað er í gangi?

Siðferði þessara manna einkenndist af siðferði þjófa. Þetta fólk er langflest menntað í íslenskum háskólum. Hverslags kennsla fer þar fram í siðferði? Ég hef nýverið setið fyrirlestra tveggja núv. og fyrrv. háskólarektora. Þeim var tíðrætt um þetta og sögðu að gerendur í íslensku viðskiptalífi og stjórnmálmenn við mótun efnhagstefnu væru allir fyrrv. nemendur þeirra og þetta lægi á þungt á þeim. Traust er eins og meydómur, það tapast aðeins einu sinni. Það vill engin lána okkur nema gegn mjög háum vöxtum og sérstöku áhættuálagi.

Siðferði íslenskra stjórnmálamanna endurspeglast svo vel í því að þeir héldu að okkur áliti erlends fyrirtækis um að hér á landi væri ekki til spilling. Þetta gerðu þeir þrátt fyrir að fyrirtækið og fjöldi annarra bentu á að þetta álit væri ekki marktækt og gæfi alranga mynd af Íslandi, sakir þess að hér væru ekki þau lög og reglur sem mælt væri eftir. Fyrrv. ráðherrar héldu því blákalt fram að þeir sem ekki skyldu velgegni íslensks efnahagslífs ættu að fara í endurmenntun.

Fyrrv. forsætisráðherra og Seðlabankastjóri sem leiddi bankann í gjaldþrot ásamt helstu samstarfsmönnum þvertaka fyrir að nokkuð hafi farið úrskeiðis undir þeirra stjórn og þeir séu beittir pólitískum ofsóknum og hraktir úr starfi??!! Nú er komið fram að við höfum búið í spilltasta samfélagi í vestrænum heimi, jafnvel þó víðar væri leitað.

Ofurskuldsett fyrirtækin hækka vörur og álagningu upp úr öllu valdi til þess að ná inn fyrir skuldum og vöxtum. Siðferði þessara stjórnenda menntuðum í íslenskum háskólum byggist á því að það sé hlutverk eigandans að hrifsa til sín allt fjármagn sem finnanlegt er innan veggja fyrirtækjanna og nýta allar mögulegar leiðir til skuldsetningar. Láta viðskiptavinina borga brúsann. Allt verðlag hér á landi er langt fyrir ofan það sem við þekkjum annarsstaðar, þessir menn hafa búið okkur okursamfélag og finnst eðlilegt að þeir sitja einir að arðinum.

Þrátt fyrir þessa stöðu er okkur gert að hlusta á upphrópanir (ekki yfirvegaðar ræður) fyrrverandi stjórnarþingmanna og ráðherra um að ekkert sé að hér, nema sú ríkisstjórn sem nú er við völd og svo allir útlendingarnir sem séu okkur svo andsnúnir. Þetta fólk setti landið á hausinn fóru fyrir þeirri efnahags- og peningastjórnum sem leiddi okkur í þessa stöðu.

Við búum við lítið hagkerfi, örmynt sem einstaklingar sem hafa aðgang að fjármagni spila á. Það blasir við að öll stærri fyrirtæki verða að flytja höfuðstöðvar sínar erlendis og taka upp Evru. Einhliða upptaka erlenda gjaldmiðils er ekki raunhæfur kostur og því eru aðildarviðræður við ESB eina leiðin til aukins trúverðugleika og trausts og þá verða íslenskir stjórnmálamenn að fara að haga sér eins og kollegar þeirra í nágrannalöndum okkar.

Við gætum haft það fínt og spjarað okkur prýðilega. Við eigum gott atvinnulíf, ef við bara losnum við þá stjórnahætti og þau viðhorf sem innleitt var hér undanfarna tvo áratugi. Og þá gætum við komið á Stjórnlagaþingi og endurskoðað stjórnarskránna, en þingmenn hafa komið í veg fyrir þá endurskoðun árum saman til þess eins að missa ekki þau völd sem þeir hafa hrifsað til sín á íslensku samfélagi.

mánudagur, 23. nóvember 2009

Gott Silfur í gær - Hin pólitíska ánauð

Gott Silfur í gær um klækina og þá pólitísku ánauð sem við höfum búið okkur. Maður verður sífellt meira gáttaður á málfutning þeirra sem hafa farið með völdin hér undanfarna tvo áratugi. Hvers lags lið er þetta?

Birti í þessu tilefni nokkrar Reglur refskákarinnar sem ég snaraði úr bókinni The 48 laws of Power eftir Robert Greene. Þetta er í anda Sun Tzu (Art of War)

Skyggðu aldrei á yfirmann þinn
Leyfðu yfirmönnum þínum ætíð vera í þægilegri stöðu drottnarans. Þó þú viljir ná athygli þeirra, ekki ganga of langt í því að opinbera hæfileika þína. Það getur leitt til hins gagnstæða – vakið ótta og óöryggi. Láttu yfirboðara þína virðast færari en þeir eru og þú munt ná til þín völdum.

Settu aldrei of mikið traust á vini þína. Lærðu að nýta þér óvini þína
Vertu á varðbergi gagnvart vinum þínum – þeir munu fyrr svíkja þig, því öfund þeirra er auðveldlega vakin. Þeir verða einnig spilltir og einráðir. Þú skalt frekar ráða fyrrverandi óvin þinn og hann verður þér traustari en vinur. Sakir þess að hann þarf frekar að sanna sig. Staðreyndin er sú að þú þarft meir að óttast vini þína en óvini. Ef þú átt enga óvini, finndu leið til þess að verða þér út um nokkra.

Leyndu fyrirætlunun þínum.
Haltu fólki óöruggu og óupplýstu með því að gefa aldrei upp ástæður gerða þina. Ef það hefur ekki hugmynd um að hverju þú stefnir, geta þeir ekki undirbúið varnir sínar. Leiddu fólk nægilega langt í villu síns vegar, villtu þeim sýn, þegar þeir uppgötva fyrirætlanir þínar, verður það of seint.

Segðu ætíð minna en nauðsynlegt er
Þegar þú reynir að hafa áhrif á fólk í umræðu, því meir sem þú talar, þeim mun almennari virðist þekking þín og minni sjálfstjórn. Jafnvel þó þú sért að fjalla um eitthverja lágkúru, getur það virst í lagi, ef þú gerir það óljóst, opið og tignarlega. Valdamikið fólk nær áhrifum og kúgað með því að segja sem minnst. Því lengur sem þú talar, eru meiri líkur til þess að þú segir eitthvað rangt.

Það er svo margt sem byggist á orðstý – gættu hans umfram allt.
Orðstýr er hornsteinn valda. Með orðstý einum getur þú kúgað og unnið, en þegar hans missir ertu varnarlaus og munnt sitja undir árásum frá öllum hliðum. Gerðu orðstý þinn óaðgegnilegan. Vertu ætíð viðbúin mögulegum árásum og hindraðu þær áður en þær skella á. Á meðan skalltu finna leiðir til þess að eyða óvinum þínum með því að gera orðstý þeirra tortryggilegan. Stattu síðan álengdar á meðan almennt álit aflífar þá.
Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama.
En orðstír
deyr aldregi
hveim er sér góðan getur.
(Hávamál)

Sæktust eftir athygli með öllum ráðum.
Allt er metið í ljósi þess hvernig það sést, hið ósýnilega hlýtur aldrei dóm. Ekki týnast í fjöldanum, eða grafinn í gleymskuna. Stattu upp úr. Neyttu allra ráða til þess að vera áberandi. Dragðu til þín athyglin með því að koma fram sem stærri, litríkari og dularfyllri en bragðlítill og óframfærin fjöldinn.

Láttu aðra sinna störfum þínum, en gættu þess að fá þakkirnar.
Nýttu þér gáfur, þekkingu og vinnu annarra til þess að ná fram málstað þínum. Það mun ekki einungis spara þér dýrmætan tíma og orku, það mun skapa þér guðumlíka ímynd afkasta og vinnuhraða. Að lokum verða aðstoðarmennirnir gleymdir en þú skráður á spjöld sögunnar. Framkvæmdu aldrei það sem aðrir geta gert fyrir þig.

Fáðu aðra til þess að koma til þín – notaðu agn ef með þarf.
Ef þú þvingar annan til einhvers, gættu þess að það ert þú sem stjórnar. Það er ætíð betra að fá andstæðing þinn til þess að koma til þín, yfirgefa sínar eigin áætlanir. Blekktu hann með miklum ávinning – gerðu svo árás. Þú ert með spilin.

Virkjanakostir

Nokkuð hefur verið spurt um hvaða virkjanakostir séu í boði. Hér er upptalning þeirra sem oftast hafa verið nefndir. Auk þessa eru allmargar bændavirkjanir sem búið er að reisa nýverið eða eru í undirbúningi. Litlar en gætu orðið nokkuð drjúgar í heildina séð (100 MW).

Þjórsársvæðið
Í Þjórsá er Búðarhálsvirkjun 110 MW frágengin og búið gera klárt til þess að grafa jarðgöngin frá Hrauneyjum í gegnum hálsinn að Þjórsá. Í neðri hluta Þjórsár eru áform um 3 virkjanir fyrir neðan Búrfellsvirkjun.

Uppsett afl Hvammsvirkjunar verður 80 MW. Inntakslón verður myndað með stíflu í Þjórsá ofan við Minnanúpshólma og stíflugörðum á austurbakka árinnar. Stöðvarhús verður staðsett nærri norðurenda Skarðsfjalls í Landsveit og verður það að mestu leyti neðanjarðar.

Holtavirkjun verður 50 MW að afli. Inntakslón verður myndað með stíflu í Árneskvísl við bæinn Akbraut í Holtum og stíflugörðum í Árnesi. Veitumannvirki verða byggð við Búðafoss ofan við Árnes og þar verður stærstum hluta Þjórsár veitt í Árneskvísl. Stöðvarhúsið verður staðsett við enda stíflunnar við Akbrautarholt.

Virkjun við Urriðafoss verður 120 MW að afli. Inntakslón verður myndað með stíflu í Þjórsá við Heiðartanga og stíflugörðum upp eftir vesturbakka árinnar. Inntaksmannvirki verða í Heiðartanga og stöðvarhús neðanjarðar nærri Þjórsártúni. Frá stöðvarhúsinu munu liggja frárennslisgöng sem opnast út í Þjórsá nokkru neðan við Urriðafoss.

Þessar neðri virkjanir eru rennslisvirkjanir og lón þeirra eru lítil og ná um 10% út fyrir árfarveginn. Þær nýta enn betur alla vatnsmiðlunina í lónunum fyrir ofan Búrfellsvirkjun.

Skaftárveita
Með Skaftárveitu er fyrirhugað að veita vesturkvíslum Skaftár sem koma undan Tungnaárjökli í Tungnaá, með stíflum milli Fögrufjalla og Skaftárfells. Þar myndi koma 4 ferkm. lón sem nefnt hefur verið Norðursjór. Hætt er við að veita ánni um Langasjó sem miðlunarlón. Með þessu fyrirkomulagi myndi jökulvatn hverfa að mestu úr Skaftá í byggð. Skaftárveita skilar langmestum hagnaði af þeim virkjanakostum sem í boði eru. Hún mun auka vinnslugetu Sigölduvirkjunar, Hrauneyjarfossvirkjunar og allra virkjananna í Þjórsá. Einnig hefur verið bent á möguleika á að veita Hvítá í gegnum jarðgöng fyrir ofan Flúðir yfir í Þjórsá fyrir ofan Hvammsvirkjun. Hér væri um að ræða umtalsverða aukningu í framleiðslugetu þessara virkjana.

Markarfljótsvirkjanir
Í Markarfljótinu eru til skoðunar Sátuvirkjun 120 MW og Emstruvirkjun 100 MW. Þá yrði Markarfljót stíflað með 250 m löngum og háum garði í Fljótsgili ofan við Krók og myndað 11 ferkm. lón á Launfitarsandi, ekki langt frá Álftavatni sem margir þekkja er gengið hafa Laugaveginn. Það næði frá Laufafelli niður Launfitarsandinn í Krók. Vatnið yrði leitt í 0.5 km. göngum í gegnum Sátuhrygginn að orkuverinu og þaðan færi það í árfarveginn aftur.

Aðeins neðar yrði svo Emstrulón sem væri svipað að stærð, það væri myndað með 1.700 m langri stíflu neðst í Markarfljótsgljúfri ofan við Hattfellsgil. Lónið væri á milli Torfatinds og Stóra Grænafjalls að norðan og Stórusúlu og Hattfells að sunnan og næði vestur a Lifrarfjöllum. Vatnið færi um 4.1 km göng að stöðvarhúsi sem yrði neðanjarðar austur undir Einhyrningi og vatnið færi svo í Gilsárfarveg í Markafljótið á aurunum norðan við Þórsmörk.

Hólmsárvirkjun
Hólmsá yrði stífluð efst í gljúfrinu við Einhyrningshamra austan við Einhyrning. Stíflan er 340 m. löng og mesta hæð yrði 42 m. Lón yrði lítið eða um hálfur ferkm. og aðeins miðað við dægurmiðlun, því þessi virkjun 70 MW byggist alfarið á stöðugu grunnvatnsrennsli. Úr lóninu er vatninu veitt um 4 km löng göng að stöðvarhúsi neðanjarðar. Það yrði sunnan við Hattsker á móts við bæinn Snæbýli. Frá virkjun eru 7,6 km frárennslisgöng út í Tungufljóti skammt neðan við Bjarnarfoss.

Vestfirðir
Vestur á fjörðum hefur verið rætt um tvær virkjanir Glámuvirkjun 70 MW. Gert er ráð fyrir að sækja vatn um Glámuhálendið með liðlega 30 km jarðgöngum, með því væri safnað saman 6 ám og þeim veitt niður í Hestfjörð.

Hinn kosturinn er að virkja Hvalá, Rjúkandi og Eyvindarfjarðará á Ströndum í tveimur áföngum. Sá fyrri 30 MW. Í honum eru Rjúkandi og Hvalá teknar saman með miðlunum í Vatnalautum og Efra-Hvalárvatni. Þá hverfa myndarlegir fossar í báðum ám. Með seinni áfanga, svonefndri Eyvindarfjarðarveitu, yrði hún 40 MW.

Skagafjörður
Skatastaðavirkjun 180 MW í Austurdal við Austari Jökulsá í Skagafirði. Nokkru neðar fyrir neðan ármót Vestari og Austari Jökulsánna í Héraðsvötnum ekki fjarri þjóðveg 1 þar sem hann sveigir inn í Norðurárdal, er áformað að reisa Villinganesvirkjun 70 MW.

Rekstraröryggi Villinganesvirkjunar myndi aukast verulega með tilkomu Skatastaðavirkjunar. Þessar virkjanir hafa verið gagnrýndar einkum fyrir það að þær eyðileggja alla möguleika til fljótareiðar í þessum ám. Jökulsárnar í Skagafirði eru taldar sakir sérstaklega góðrar aðkomu og með sínum skemmtilegu gljúfrum gefa bestu möguleika í heimi til uppbyggingar á þessum vinsæla og hratt vaxandi útvistarleik og skapað mikil verðmæti í ferðaþjónustu.

Skjálfandafljót og Arnardalur
Til eru drög að virkjunum í Skjálfandafljóti. Önnur er 70 MW, hún er ofarlega í Bárðardal og kennd við Fljótshnjúk og yrði við Aldeyjarfoss.

Neðar eru Hrafnbjargavirkjanir 100 MW við samnefnda fossa.

Einnig eru til áform um risavirkjun í Jökulsá á Fjöllum með því að veita henni til Kreppu þar sem styst er á milli ánna sunnan Þorlákslindahryggjar. Þeim yrði síðan veitt austur fyrir hrygginn þar sem miðlunarlón yrði myndað með stíflu í Arnadalsá. Vatnið yrði síðan veitt um göng að stöðvarhúsi neðanjarðar og þaðan með frárennslisgöngum út í Jökulsá á Brú. Þar yrði lón og svo önnur göng undir Fljótsdalsheiði og stöðvarhús neðanjarðar með frárennsli í Lagarfljótið. Þetta yrðu stórvirkjanir sem ekki yrðu mikið minni en Þjórsárvirkjanirnar (600MW). En það mun sjálfsagt vefjast fyrir mörgum að Dettifoss myndi minnka allverulega. Þessi virkjun hefur verið nefnd í sambandi við útflutning á orku um streng.

Gufuafl
Þessu til viðbótar eru áform um allmargar gufuaflsvirkjanir þar helst; 50 MW á Reykjanesi, 100 MW í Trölladyngju, 300 MW á Hellisheiði, Hágöngu er 120 MW, Krafla 160 MW, Bjarnaflag 80 MW, Þeistareykir 120 MW, Gjástykki 40 MW. Einnig eru til frumdrög af gríðarlega miklum gufuaflsvirkjunum á Torfajökulssvæðinu með um 500 MW orku.

sunnudagur, 22. nóvember 2009

Staða stéttarfélaga í dag


Skógarnes eitt af orlofssvæðum rafiðnaðarmanna

Hún er oft æði grunn umræðan um stéttarfélögin í dag. Sumir líta til stéttarfélaga eins og þau voru um miðja síðustu öld og komast að þeirri niðurstöðu að þar sem vinnubrögðin nú séu ekki þau sömu og þá, sé verkalýðshreyfingin í dag á villigötum??!!


Þetta er svo yfirgengilega vitlaust og svo einkennandi fyrir íslenska umræðulist. Þar sem menn hika ekki við að leggja tvo algjörlega óskilda þætti saman og draga út niðurstöðu, sem vitanlega er dæmd til þess að verða fáránleg. Það þarf ekki annað en að líta á fyrirtækin og atvinnulífið í dag og svo fyrir 60 árum síðan, til þess að sjá hvar í veruleikanum þessir einstaklingar eru staddir.

En sumir spjallþáttastjórnendur og fréttamenn leita ætíð til þeirra fáu einstaklinga innan verkalýðshreyfingarinnar þar sem þeir geta fundið orðum sínum samanstað. Einstaklinga sem eru búnir að einangra sig og engin tekur mark á innan verkalýðshreyfingarinnar.

Ég ætla í þessum pistli að fjalla um starf verkalýðsforingja í dag og það umhverfi sem þeir starfa í. Bera saman vinnumarkað í dag og fyrir nokkrum árum, viðhorf og vinnubrögð. Það verður ekki gert að neinu viti án þess að vera með nokkuð lengri pistil en venjulega.

Staðan fyrir 50 árum
Stefán Ólafsson segir réttilega í bókinni "Hugarfar og hagvöxtur“ að skipulags- og stjórnarfarslega séu Íslendingar ekki eins langt komnir í þróuninni og hinar Norðurlandaþjóðirnar. Íslensk stjórnvöld brugðust við efnahagskreppum og slakri efnahagsstjórn fram undir 1990 með því að fella endurtekið gengi og viðhalda- atvinnu og byggðastefnu með beinum aðgerðum. Stjórnvöld nýttu gengisfall krónunnar og verðbólgu til þess að ná þessum markmiðum.



Verkalýðshreyfingin starfaði þá vitanlega í samræmi við þessa stjórnarhætti og gerði kjarasamninga á þeim forsendum. Þvingað var fram í kjarasamningum lífeyrisjóðskerfi sakir þess að stjórnmálamenn vildu ekki byggja upp samskonar lífeyriskerfi og var annarsstaðar á Norðurlöndunum. Samið var um sjúkrasjóði og mun meiri veikindadagarétt í kjarasamningum á sömu forsendum. Þar liggur meginástæða þess að beinir skattar eru hér um 15% lægri en annarsstaðar á Norðurlöndum. Við greiðum þann mismun í gegnum launakerfið, 1% í sjúkrasjóð, 12% í lífeyrissjóð og veikindagakerfi íslenskra kjarasamninga er um 2% dýrara en það er á öðrum Norðurlöndum.

Reglulega var samið um svimandi launahækkanir og á árunum 1980 - 2000 hækkuðu laun á Íslandi um 2500%. Á sama tíma hækkuðu þau um 100% í Danmörku, en kaupmáttur launamanna jókst svipað í báðum löndunum (hagdeildir SA og ASÍ). Fyrstu áratugina á síðustu öld var hinn íslenski verkalýðsforingi baráttumaður sem hvatti til verkfalla, slóst með handafli við yfirvöldin og hellti niður mjólk.

Máttur hugsjónabaráttunnar hefur minnkað og einstaklingshyggjan vaxið. Launþegar verða ólíkari og skiptast í smærri og sérhæfðari hópa, sem hafa ólíka hagsmuni og áhugamál. Erfiðara er að halda saman stóru hagsmunasamtökunum sakir þess að sameiginlegum baráttumálum fækkar sífellt. Á meðan sérhæfðari stéttarfélög eru að ná meiri árangri og flest stéttarfélögin hafa framkvæmt miklar breytingar á starfs- og stjórnarháttum undanfarna tvo áratugi.



Upp úr miðri síðustu öld fór í vaxandi mæli að bera á að verkalýðshreyfingin og stjórnmálamenn byggðu ákvarðanir sínar á úreltum gildum og voru oft langt á eftir hinum öru þjóðfélagsbreytingunum, sem hófust hófust árið 1970. Þetta leiddi til þess að þeir voru stundum fullkomlega út á þekju í umræðunni þegar líða tók á síðustu öld. Menn stilltu sér upp í gúmmistígvélum í lopapeysu á bryggjusporði, þegar verkalýðsforingjum var lýst í skopleikjum og áramótaskaupum á þessum árum. Sölkur Völkur þess tíma.


Upp úr 1985 kemur fram á sjónarsviðið ný tegund verkalýðsforingja með Ásmund Stefánsson í broddi fylkingar. Menn sem lögðu á sig mikla vinnu við að afla þekkingar og vinna úr henni. Þessir menn ryðja í burtu gömlum viðhorfum um tuga prósenta launahækkanir og að verðbólga sé einhver hlutur sem ekki sé hægt að breyta. Frá því þessi stefna var tekinn upp fyrir 20 árum hefur tekist að hækka kaupmátt meira en næstu 50 ár þar á undan.

Það eru þessir menn sem setja á Þjóðarsátt og ryðja í burtu gömlum gildum og hafna óskhyggju- og kollsteypuaðferðum og taka upp raunsæisstefnu, eins og það hefur oft verið nefnt. Það eru nokkrir, þar á meðal þeir spjallþáttstjórnendur og fréttamenn sem ég vitna til í upphafi þessa pistils, sem samsama sig skoðunum Hannesar Hólmsteins og fullyrða að Þjóðarsátt hafi ekki verið neitt og þar með hafi verkalýðshreyfingin lagt niður störf sín, svo ég vitni til orða þeirra.

Staðan í dag
Íslensk stjórnvöld hafa ekki fylgt þróuninni eftir verða svo uppvís af hinu sama árið 2008 og þau urðu 1990, vera langt á eftir þróuninni og ekki búnir að uppfæra reglur og reglugerðir EES til samræmis við stöðuna í dag. Stjórnmálamenn okkar hamast svo við að telja okkur og um leið sjálfum sér í trú um að það sé óvinveitt nágrannalönd sem hafa hafnað því að hjálpa okkur svo þau geti haldið áfram á sömu braut!!?? Er nema von að íslenskir stjórnmálamenn hafi einangrað sig bæði hér og utanlands og séu utangátta?

Valfrelsi á öllum sviðum er nú sjálfgefið í augum almennings. Við stöndum frammi fyrir mörgum valkostum á öllum sviðum. Sífellt færri launamenn starfa hjá sama fyrirtækinu allan sinn starfsaldur. Flestir reikna með að þurfa að skipta um starf minnst tvisvar á starfsævinni. Sérhæfing fyrirtækjanna hefur vaxið og kröfur til sérhæfingar og sveigjanleika starfsfólksins hefur aukist umtalsvert.


Til að standast samkeppnina, þarf að sjá til þess að 1/3 hluti vinnuaflsins sé að staðaldri að sækja sér aukna þekkingu á símenntanámskeiðum. Samkeppni fyrirtækja grundvallast á því að ná til sín besta starfsfólkinu. Starfsfólk er verðmætasta eign hvers fyrirtækis. Í bókhaldi er steinsteypa, tölvu- og vélbúnaður, jafnvel heimasíður og viðskiptavild fært sem eign fyrirtækisins, en allt sem viðkemur starfsfólki er fært sem kostnaður. Laun, veikindi, orlof, og það furðulegasta af öllu – starfsmenntun – eru færð sem kostnaður. Undanfarin ár hefur verkalýðshreyfingin barist fyrir raunfærnimati fólks sem er að störfum út í atvinnulífinu svo það geti farið til náms og lokið því á réttum forsendum.

Framleiðni í íslenskum fyrirtækjum er lág. Því hafa samtök launamanna í samvinnu við fyrirtækin sameinast um að stórefla starfsmenntun í atvinnulífinu og búa þannig um hnúta að það sé aðgengilegt og eftirsóknarvert að stunda símenntun. Í framsæknustu stéttarfélögunum í dag er starfsmenntun ákaflega fyrirferðamikill þáttur í starfseminni. Það tryggir atvinnuöryggi og um leið betri kjör.

Það gilda sömu lögmál í íþróttum og innan fyrirtækja. Fyrirtækið með best þjálfaða starfsfólkið sigrar. Til þess að ná fram fylgi við þá stefnu sem fyrirtækið fylgir við að auka framleiðni og ná betri árangri þurfa þeir sem eru í keppnisliðinu, starfsmennirnir, að vita að hverju er stefnt. Það eru starfsmennirnir sjálfir sem vita best hvernig er hægt að hagræða til þess að auka framleiðni. Því er haldið fram að þau lönd sem ætla sér að fylgja tækniþróuninni og viðhalda þeim lífsháttum sem við höfum tamið okkur, verði að sjá til þess um 20% af vinnuaflinu sé að jafnaði í starfsmenntanámi.

Starfsmenntun - hryggbeinið í kjarabaráttunni

Grunngildi stéttarfélaga er og verður ætíð það sama, að verja þá sem minnst mega sín. Það hefur verið gert með því að hækka ætíð lægstu gólf kjarasaminga umfram almennar launahækkanir. Til þess að tryggja að þeir sem eru á lægstu töxtum fylgi launaskriði á markaði. T.d. hafa lægstu taxtar í kjarasamningum rafiðnaðarmanna hækkað frá 2000 um 30% umfram almennar launahækkanir.


Fjöldi rafiðnaðarmanna á atvinnuleysisskrá er í dag mun minni en í öðrum starfsgreinum, er um 3,5% á meðan það er víða um og yfir 10%. Meðalheildarlaun rafiðnaðarmanna voru 470 þús. kr. í síðasta septembermánuði samkvæmt víðtækri launkönnun Capacent, meðalvinnuvikan 42 klst. og meðaldaglaun 365 þús kr. Fyrir þessu eru nokkrar ástæður. Starfssvið rafiðnaðarmanna er mjög vítt. Innan við 1.000 eru að störfum á byggingarmarkaði og það er þar sem mesta atvinnuleysið er. Langflestir eru í þjónustustörfum margskonar og á hátæknistörfum.

Margir rafiðnaðarmenn eru farnir í önnur störf, enda eiga þeir oftar auðveldara en margir aðrir með að komast í önnur störf sakir þess að þeir koma mjög víða við í rafiðnaðarstörfum. auk þess hafa rafiðnaðarmenn síðan 1975 lagt gríðarlega fjármuni og vinnu við að byggja upp öflugt starfsmenntakerfi og með því víkkað starfssvið sitt gríðarlega.

Um 500 rafiðnaðarmenn hafa síðastliðið ár farið af vinnumarkaði inn í verkmenntaskólana til þess að ljúka sínu námi eða fara í framhaldsnám. Um 100 eru farnir til norðurlanda til starfa. Rafiðnaðarsambandið er hluti af norræna Rafiðnaðarsambandinu og farið þar með formennsku í 6 ár. Öll norðurlöndin er sameiginlegur vinnumarkaður um 160 þús. rafiðnaðarmanna.

Rafiðnaðarmenn reka öflugustu starfsmenntastofnun landsins, Rafiðnaðarskólann, og rafiðnaðargeirinn skattleggur sjálfan sig til reksturs skólans og veitir til hans um 200 millj. kr. ári. Þar hefur námskeiðum verið fjölgað mikið og stuðningur við okkar fólk stóraukinn svo það geti sótt sér framhaldsmenntun á námskeiðum og bætt stöðu sína á vinnumarkaði og sótt inn í fleiri störf með víðari þekkingu.

Að jafnaði eru um 50 rafiðnaðarmenn á fagtengdum námskeiðum, flestir af þeim hluta okkar vinnumarkaðs þar sem atvinnuleysið er. Það þýðir að þau störf sem eru til staðar nýtast betur til þess að lækka atvinnuleysið Rafiðnaðarsambandið hefur notað um 200 millj. kr. það sem af er þessu ári umfram það sem hefur verið á undanförnum árum til þess að styðja sitt fólk í þessum ástandi.

Það blasir við öllum sem kynna sér þessi mál að ef rafiðnaðarmenn hefðu ekki breytt starfsháttum og stefnumálum sinna hagsmunasamtaka þegar líða tók á seinni hluta síðustu aldar þá væru þeir í mun lakari stöðu í dag.

Forystumaðurinn
Einn maður getur lifað á eyðieyju án forystu og líklega tveir ef þeir eru mjög samstilltir. Þegar þeir verða þrír eða fleiri, þarf einhver þeirra að hafa forystu, ella er hætt við að illa takist til. Þessi einfalda regla gildir í þekkingarþjóðfélagi. (Þorkell Sigurlaugsson)

Viðhorf þeirra sem ég vitna til í upphafi hefur lítið breyst þrátt fyrir hinar miklu breytingar sem átt hafa sér stað. Oft kemur fram það álit að formaðurinn eigi að vera á lágmarkslaunum, annað sé svik við hugsjónina, auk þess eigi oft að skipta um verkalýðsforingja.

Rekstur flestra verkalýðsfélaga er í dag umfangsmikill og kallar á víðtæka þekkingu og skilning á mörgum sviðum. T.d. veltir Rafiðnaðarsambandið á þriðja hundrað millj. kr. á ári og eignir sambandsins eru liðlega tveir milljarðar kr. Starfsmenn eru á þriðja tug. Það tekur langan tíma að þjálfa upp forystumann fyrir félagasamtök af þessari stærðargráðu.

Forystusveitin gerir sér grein fyrir að á henni hvílir sú ábyrgð að sjá til þess að velja leiðtoga sem ráða við verkefnin. Hann þarf að hafa staðbundna þekkingu á lögum sem snúa að vinnumarkaði, skilning á undirstöðuatriðum hagfræði, samningatækni og samskipti á vinnumarkaði við önnur stéttarfélög, samtök vinnuveitanda og svo stjórnvöld. Eitt er þó klárt; það eru félagsmenn sem velja sér forystu, ekki utanfélagsmenn sem með athugasemdum sínum upplýsa okkur um að þeir þekkja ekkert til reksturs og starfsemi stéttarfélaga.


Þessir utanfélagsmenn eru einnig sífellt að agnúast út í ýmislegt í starfsemi stéttarfélaga, t.d. rekstur orlofskerfis. Þar má spyrja, hvað kemur einhverjum kverólöntum út í bæ sem allt hafa á hornum sér það við, ef félagsfundur stéttarfélags samþykkir t.d. að verja stöðu sína þannig að geyma fjármuni félagsins í verðmætum eignum sem hægt sé að losa ef á þarf að halda og ekki síður þar sem félagsmenn fái að auki notið þeirra.

Markmiðssetning stéttarfélags skiptir máli og þarf að vera vel skilgreind. Liðið þarf að vita að hverju er stefnt. Það gleymist of oft að stéttarfélag er hagsmunasamtök og hefur því afskipti af ýmsum þáttum samfélagsins. Endurskoðun markmiða þarf að fara fram oft og reglulega. Í þessu sambandi reynir mikið á leiðtogann að skýra út stefnu og leiða félagsmenn til fylgis við hana. Þar skiptir stefnufesta máli, leiðtoginn verður að vera samkvæmur sjálfum sér og heiðarlegur. Hann blekkir engan til langframa og þekking hans á verkefninu verður að vera góð og skilningur á hvaða efnahagsleg áhrif það muni hafa. Gæta þarf þess að félagsmönnum sé það ljóst að sömu stefnu sé fylgt.

"Sá einn veit er víða ratar", segir í Hávamálum. Í bók Ásdísar Höllu Bragadóttur "Í hlutverki leiðtogans" kemur fram í viðtölum að það sem einkennir viðmælendur er mikill lestur. Einnig að tækifæri til þess að kynnast ólíkum samfélögum mótar og eykur víðsýni. Þau stéttarfélög sem hafa verið að ná mestum árangri búa yfir leiðtogum og starfsmönnum sem hafa átt víðtækt samstarf við stéttarfélög í öðrum löndum og farið víða á ráðstefnur.

Þetta þarf ekki endilega að einskorðast við áhugasvið eða störf viðkomandi. Nýjar hugmyndir skapast og víðsýni eykst. Grundvallarskilyrði hæfs leiðtoga í stéttarfélagi er góð yfirsýn. Ákveðin fjarlægð frá vinnustað gefur aðra yfirsýn. Sjónarhornið verður annað.

Bandarískur blaðamaður sagði einhverju sinni að hugurinn væri yndislegt fyrirbæri. Hann hefur starfsemi sína á þeirri stundu sem einstaklingurinn kemur í heiminn og lætur ekki af störfum fyrr en viðkomandi hyggst flytja ræðu opinberlega. Ógætilegar ræður á fundum, vanhugsuð ummæli í fjölmiðlum skaða oft ímynd og stöðu leiðtoga og þess félags sem hann kmeur fram fyrir. Jafnvel svo að hann getur átt erfitt að ná löndum sínum aftur.

Í Hávamálum eru skilaboð um að í þekkingarleitinni sé mikilvægast að nota eyrun og augun en ekki munninn. Leiðtoginn á að leggja áherslu að hlusta og spyrja spurninga. Harði stjórnandinn fer eigin leiðir án þess að hlusta á samstarfsmenn. Munurinn á góðum og slæmum leiðtoga er ekki hvort hann tekur ákvarðanir, heldur hvernig hann gerir það.

föstudagur, 20. nóvember 2009

Skattbreytingarnar

ASÍ hefur stutt þá stefnu sem sænskir efnahagsérfræðingar fóru eftir við endurreisn sænska kerfisins á árunum 1990- 1995. Eins og ég lýsi m.a. (hér) og (hér) og (hér)

Taka mjög ákveðið á vandanum og vinna sig úr honum á 4 -5 árum. Þetta kom m.a. fram við gerð Stöðugleikasáttmála. Það er að tekist verði á við vanda ríkisstjóðs, en þó þannig að þeim sem minnst megi sín verði hlíft.

Með þessum aðgerðum er sannarlega verið að ganga mjög nálægt heimilunum, en staðið er við kjarasamninga um persónuaflsátt og tryggja verðtryggingu á hann.

Eins tekst að verja vaxtabótakerfið og barnabótakerfið sem er mjög verðmætt fyrir ungar fjölskyldur. Hér eru skila sér þau slagsmál sem ASÍ tók við þáverandi ríkisstjórn þegar skerðingarmörk þessa kerfa voru leiðrétt í kjarasamningum 2007.


Á þessari mynd sést hvar jaðarskatta fara að hafa áhrif.



Hér sést hvernig skattar breytast frá núverandi kerfi samanborðið við nýtt kerfi. Skattar byrja að vaxa á tekjum yfir 270 þús. kr. Þetta skattakerfi er nákvæmlega ekkert flóknara en það sm við búum við í dag. Öll Norðurlöndin og flesta Evrópuríkjanna eru með þrepakerfi skatta og þau lifa öll við það. Hræðsluáróður um flókið kerfi er barnalegur.




Rauð lína - sú leið sem farinn var.

Græn lína - óbreytt kerfi.

Blá lína - óbreytt kerfi með 2000 kr. hækkun persónuafls. og 39.5% skatts í stað 37,2%

Bláa leiðin var ákaflega ósanngjörn sérstaklega fyrir millitekjufókið og hefði verið himnsending fyrir hátekjufólkið. Hreint út sagt ótrúlegt að hún virtist eiga sér stuðning innan Samfylkingarinnar!!

Þráhyggja Sjálfstæðisflokksins um að skattleggja inngreiðslur lífeyrissjóðanna bera vott um fullkomið ábyrgðarleysi. Tillögur tillögur um að skerða þær skatttekjur sem börnin okkar, barnabörnin og komandi kynslóðir eiga rétt á í framtíðinni í stað þess að við sjálf leysum þann vanda sem okkar kynslóð hefur skapað.

Í því skattaumhverfi sem Sjálfstæðisflokkur í samvinnu við Framsókn skapaði jókst skattbyrði jókst mest í lægri tekjuhópum en lækkaði hjá hátekjufólki. Skattbyrði flestra fjölskyldugerða jókst en mest þó hjá einstæðum foreldrum og lágtekjufjölskyldum. Ríkustu fjölskyldurnar í landinu margfölduðu hlutdeild sína í heildarráðstöfunartekjum í áratug. Þetta var brjálæðislegt skattkerfi svo notuð séu þeirra eigin orð.

miðvikudagur, 18. nóvember 2009

Félagsmálaráðherra gegn þeim sem minnst mega sín

Það eru greiddir fullir skattar af öllum sem eru á vinnumarkaði auk tryggingargjalda. Allir eiga að hafa jafnan rétt til tryggingarbóta, og atvinnuleysisbóta. Sama á hvað aldri þeir eru, annað er mismunun. Samt ætlar Félagsmálaráðherra að veitast að ungu fólki á aldrinum 18 - 24 ára sem býr heima hjá foreldrum sínum og taka helming atvinnuleysisbóta af því. Það á rétt á 150 þús. kr. í bætur á mánuði, en á einungis að fá 75 þús. kr.

Því er haldið fram að þetta eigi að fara í uppbyggingu námstækifæra. Þetta unga fólk sem er svo ólánsamt að hafa misst atvinnu sína og þarf að flytja heim til foreldra sinna, er gert á það greiða 75 þús. kr. aukaskatt á mánuði (skólagjöld). Af hverju á þetta fólk að greiða svona háa aukasktatta? Af hverju á það að standa undir uppbyggingu skólastarfs?

Hvaða sjónarmið eru þarna að verki? Hverjir eru ráðgjafar ráðherra í þessu efni? Setja þeir einhver önnur markmið ofar en hagsmuni þessa fólks? Hver á að stjórna því hvert þessir fjármunir fara? Af hverju má þetta fólk ekki ráða sjálft hvert það fer til náms? Flest af þessa fólks hröklaðist úr námi og út vinnumarkað vegna eineltis í skóla, lesblindu og annara atriða.

Því stendur til boða margskonar aðstoð ef það kemst í færi við sín stéttarfélög og eins er það skylda samfélagsins að aðstoða þetta fólk eins og aðra án þess að lagðir séu á það aukaskattar. Það er búið að greiða sína skatta og tryggingargjöld og á sama rétt og annað fólk.

Minna má umræðu um skólagjöld á undanförnum árum. Einnig blasir það við að það er verið að leggja aukaskatt á foreldra. Hverjir aðrir munu sjá um framfærslu þessa fólks? Hvernig á það að greiða af sínum lánum? Einnig má velta fyrir sér hvort ekki sé verið að færa hluta þessarar framfærslu yfir á sveitarfélög því þau verða að greiða framfærslustyrk, ef tekjur fólks fara niður í 75 þús. kr.

Við lögðum til að auðlegðarskattur yrði hækkaður í 2% úr 1.25%, það myndi duga til að afla sömu heildarfjárhæðar og nú á að taka af þeim sem minnst mega sín á vinnumarkaði.

Slíkt myndi þýða 800 þúsund krónu skatt á ári fyrir einstakling sem á 200 milljón króna hreina eign og 600 þúsund króna skatt á ári fyrir hjón sem eiga 200 milljón króna hreina eign

Skerðing bótaréttar hjá þessum einstaklingum sem Félagsmálaráðherra sækir að og foreldrum þeirra er hins vegar 900 þúsund krónur á ári!

Hvað er næst á baugi hjá Félagsmálráðherra og ráðgjöfum hans? Skerðing á fæðingarorlofi hjá þeim sem minnst hafa á milli handanna? Eða örorkubótum? Eða umönnunarbætur langveikra barna?

Jafnframt er ráðist að stéttarfélögum innan ASÍ sem eru að mótmæla þessu og bornar allskonar dylgjur á forsvarsmenn ASÍ. Ástæða er að minna á að samkvæmt lögum á Vinnumálastofnun að bjóða atvinnulausu fólki virk úrræði í upphafi atvinnuleysis. Vinnumálastofnun hefur algjörlega brugðist í þeim efnum. Það er fyrst eftir 4 – 6 mánuði sem Vinnumálastofnun er að hafa samband við atvinnulaust fólk vegna úrræða og nú er reiknað með að minnka þessa þjónustu en um 10%.

Verkalýðshreyfingin hefur boðist til þess að taka þennan þátt að sér. Því er svarað með því að veitast með einstaklega ómerkilegum hætti að starfsmönnum verkalýðshreyfingarinnar með dylgjum um að til standi að mismuna atvinnulausu fólki?? Við hvað er átt?

Starfsfólk verkalýðsfélaganna fær ekki upplýsingar frá Vinnumálastofnun um hvaða einstaklingar eru atvinnulausir fyrr en eftir dúk og disk og geta því ekki gengið markvisst í að bjóða aðstoð. Þó er verkalýðshreyfingin að setja umtalsverða fjármuni til aðstoðar við atvinnulaut fólk kosta nám þess og fleira. Það er verið að bjóðast til þess að létta á Vinnumáalstofnun.

Í mínum huga þá ræður Félagsmálaráðherra ekki við verkefni sitt. Hann er með fullkomlega óhæfa aðstoðarmenn sem þekkja ekkert til vinnumarkaðar og hvernig starfsmenntakerfi atvinnulífsins virkar og hefur nákvæmlega engin tengsl við atvinnulífið. Það eru annarleg sjónarmið sem ráða þarna för.

Ágætt væri að þeir sem eru að veitast að verkalýðshreyfingunni vegna þessa máls kynntu sér aðeins betur hvað þeir eru að fjalla um. Svo einkennilegt sem það nú er þá er sama fólk að veitast að verkalýðshreyfingunni að hún geri ekkert??!!

Besti flokkurinn

Jón Gnarr hefur stofnað stjórnmálaflokkinn Besti flokkurinn og segir; „Mig hefur lengi langað til að hafa völd og góð laun. Góð leið til þess er að verða lýðræðislega kosinn, og langar líka að komast í þá stöðu að ég geti hjálpað vinum mínum. Það eru endalaust margar leiðir til þess. Það má úthluta alls konar styrkjum og búa til hinar ýmsu nefndir. Fólk þarf svo ekkert endilega að mæta á fundi, en fær bara borgað."

Jón safnar nú fólki í flokkinn af því hann vill ekki vera einn í honum „eins og hálfviti" og er búinn að setja upp heimasíðu.

Gott að fá alvöru grínista á þing og ég hvet fólk til þess að standa með Jóni. Það má þó segja af alþingismönnum okkar og því fólki sem er í kringum þá að ef það sem fram fer á Alþingi væri klippt niður í stuttmynd þá væri maður líklega kominn með krampa af hlátri yfir svörtum húmornum.

Auðvitað koma húmorslausar niðursveiflur í þennan farsa en það koma líka óborganlegir toppar eins og þegar Yngvi Örn Kristinsson fyrrverandi framkvæmdastjóri verðbréfasviðs Landsbankans af öllum mönnum er settur í það verk að vinna að gerð tillagna um aðgerðir fyrir skuldsett heimili.

Hvort ætli hann hafi verið að hugsa um síðastliðna mánuði: 230 milljónirnar sem hann ætlar að krefjast af þrotabúinu eða hvernig hægt sé að bregðast við skuldavanda heimilanna sem var til vegna uppskáldaðs hagkerfis sem hann var virkur þátttakandi að skapa. Misskildi hann kannski hlutverk sitt og var að hugsa um eigin skuldavanda?

Það er viðbúið að þessi "uppsveifla" ef svo má kalla verði styttri núna en oft áður, þetta er svona "síðasti smókurinn" áður en við hættum alveg. Við erum á sömu slóðum og sí-gjaldþrota fyrirtækjastofnandinn sem endar á því að fá lán hjá afa og ömmu þegar ekki er í önnur hús að venda. Þetta eru margar sögur sem allar enda eins.

Íslenskur vinnumarkaður einkennist af velmenntuðu fólki, hann er velskipulagður, með gríðarlega öflugt starfsmenntakerfi, er sveigjanlegur og er þar afleiðandi fljótur að tileinka sér nýungar. Við getum byggt upp enn öflugri hátækniiðnað. Iðnað sem flytur lítið inn en mikið út.Iðnaður sem byggist í raun á því að geta gert aðeins betur enn hinir og verið aðeins á undan. Verðmætasköpun hins velmenntaða íslenska vinnumarkaðar og hæfilegrar nýtingar orkunnar. Uppbyggingu rafbílaframleiðslu og minnkun jarðefnanotkunar.

Til lengri tíma verður að líta til þess að hér verði gjaldmiðill sem bíður upp á stöðugleika. Verðbólga verði það lág að vextir verði innan við 4,5% og verðtrygging afnuminn. Það þarf að skapa 20 þús. störf á næstu fjórum árum svo meðalatvinnuleysi íslensks vinnumarkaðar fari niður fyrir 5%. Ef það tekst munum við á árinu 2013 hafa endurheimt þau lífskjör sem við bjuggum við á síðasta ári.

Ég hafði eiginlega bundið hálfpartinn vonir við að við værum með svo skert mannorð að við þyrftum loksins að fara að huga að alvöru lausnum, sem er að setja niður stöðugan gjaldmiðil, viðráðanlega vexti og að við gætum þannig skapað verðmæti eins og annað fólk með því að gera hlutina aðeins betur en næsti maður. Fá alvöru stjórnsýslu og afnema ráðherraráæðið. Fá Stjórnlagaþing og nýja stjórnarskrá.

Nei kímnigáfan hefur ekki yfirgefið okkur eða eins og Þormóður Kolbrúnarskáld sagði: "Vel hefur konungur alið oss því hvítt er þessum karli um hjartarætur”

Gerpla er háðsádeila stefnt gegn hetju- og ofbeldisdýrkun hetjunnar, Þorgeirs Hávarssonar, og skáldsins, Þormóðs Kolbrúnarskálds. Laxness hæðist að hinni fornu hetjuhugsjón Íslendingasagna en boðskapur sögunnar á ekki síður við samtímann. Trú á vald og ofbeldi hefur er bjargráð þeirra stjórnvalda sem ekkert óttast meira en þegna sína. Andstæðu þeirra samfélaga þar sem ríkja sterkir leiðtogar eða einræðisherrar. Slíkt fyrirmyndarsamfélag fann hann meðal inúíta á Grænlandi. Frumbyggjarnir þekkja ekki annað en að allir séu jafnir, lifi í sátt og samlyndi - og þeir hafa enga leiðtoga.

mánudagur, 16. nóvember 2009

Af skattaútreikningum Gísla Marteins


Hér sést vel myndrænt hvernig þetta er (græna línan) og hugsanlega verður (tillaga þeirra bláu og þrepatillaga þeirra rauðu.)

Græna lína eru skattar einsog þeir eru. Bláa línan eins skattar yrðu ef farið er með flata hækkun upp í 39.5%

Rauða línan sýnir okkur hvernig þrepakerfið kæmi út. Það er með 36% skatt á laun á milli 123 - 25 þús. 41% 250 - 500 þús. og svo 47% fyrir ofan 500 þús.

Hvernig getur lækkun skatts á lægsta tekjubilinu orðið að skattahækkun? Eru hin lituðu stjórnmálagleraugu svona ofboðslega föst á mönnum. Einnig hafa heyrst hinar fáránlegu útskýringar frá andstæðingum þrepaskatts að þeir sem séu með 600 þús. kr. greiði þá 47% skatta af öllum tekjubilum þar fyrir neðan. Vitanlega fá allir sinn pérsónuaflsátt og greiða allir sama skatt af neðsta skattbili og sama skatt af næsta skattbili þar fyrir ofan, þess vegna verður rauða línan eins hjá öllum.

Og svo er einkennilegt að menn geti ekki sent inn aths. án þess að vera endalaust með einhverjar persónulegar svívirðingar gagnvart fólki sem ekki hefur sömu stjórnmálaskoðanir og þeir álíta hina einu réttu. Eins og stendur á fronti þessarar síðu þá eru aths. vel þegnar, en þær þurfa að vera því marki brenndar að fjalla um það efni sem til umfjöllunar er.

Sumir vilja hækka persónuafsláttinn um verðtryggingu og 2.000 kr. en setja prósentuna í 39,5%. Það er vond niðurstaða, hún gagnast þeim sem eru með tekjur fyrir ofan 600 þús.kr. en er talsvert íþyngjandi fyrir millitekjuhópinn á bilinu 300-600 þús.kr.

Sú hún borinn saman við þrepaskiptinguna þá er það umtalsvert hærri skattlagning á fólk undir 575 þús.

Ef miðað er við þriggja þrepa kerfið með 2.000 kr. hækkun persónuafsláttar verulega íþyngjandi fyrir alla frá 120-600 þús.kr. en himnasending fyrir þá sem eru þar fyrir ofan. Öll vitum við þá verndarstefnu sem Gísli Marteinn og skoðanabræður hans hafa á því fólki og hvaða skoðun þeir hafa á skattlagningu þeirra sem minna mega sín.

sunnudagur, 15. nóvember 2009

Bókhaldsbrellur

Sigurjón Örn Þórsson, stjórnmálafræðingur og framkvæmdastjóri Kringlunnar og fyrrv. aðstoðarmaður ráðherra, heldur því fram að með að flytja húsnæðislán úr gömlu bönkunum yfir í Íbúðalánasjóð verði til nýtt eigið fé sem nýtist til að leiðrétta öll lán, einnig þau sem fyrir voru í sjóðnum. Rangt sé að slík aðgerð sé of dýr fyrir skattgreiðendur því kröfuhafar gömlu bankanna greiði fyrir hana. Hann segist hafa kynnt tillöguna fyrir endurskoðendum, sem telji alls ekki erfitt að selja kröfuhöfunum hana??!!

Sigurjón mat lánasafn sjóðsins á 550 milljarða króna en bankanna á 700 milljarða. Þar sem sjóðurinn hafi ekki orðið fyrir kerfishruni, líkt og bankarnir, hafi hann ekki svigrúm til að lækka höfuðstól lána um 20%. Með samræmdum aðgerðum væri tryggt jafnræði milli lántakenda.

Þessi hugmynd Sigurjóns er ein af þessum töfralausnum sem hafa allt til að bera nema það að ganga upp. Það er auðvitað ekki þannig að hægt sé að búa til eigið fé hjá Íbúðalánasjóði með því að færa kröfur úr bönkunum til sjóðsins.

Það sem einfaldlega gerist í efnahagsreikningi ÍLS er að eignir aukast sem nemur fjárhæðinni sem færð var yfir til sjóðsins þar sem sjóðurinn á þá kröfu á að þeir sem skulduðu bönkunum greiði nú til ÍLS. Á móti hækka skuldir ÍLS þar sem sjóðurinn þarf að greiða bönkunum fyrir þær eignir sem sjóðurinn fékk. Við þessa aðgerð breytist eigið fé ekki neitt.

Það sem síðan gerist í framhaldinu er að ríkissjóður þarf líklega að leggja sjóðnum til meira eigið fé þar sem efnahagsreikningur sjóðsins var að stækka og sjóðurinn verður að hafa a.m.k. 8% eigið fé. Það er alveg ótrúlegt hvað margir halda að við það að bankarnir tapa miklum fjármunum vegna lána sem ekki er hægt að innheimta gefi þeim aukið svigrúm til að færa niður kröfur.

Það er einfaldlega þannig að ef við skuldum bankanum sína milljónina hvor og ég er gjaldþrota en þú ert í góðum málum þá afskrifar bankinn 50% af samanlögðum kröfunum. Bankinn nær því inn með því að rukka þig um 100%, en fær ekkert frá mér. Ákveði bankinn að færa skuldir okkar beggja niður um 50% þá fær bankinn 500.000 frá þér en áfram ekkert frá mér því að ég er jafn gjaldþrota. Afskrift bankans verður því ekki 50% heldur 75%!

Kerfishrun er engin forsenda þess að hægt sé að færa niður höfuðstól vegna verðbólgu. Til þess að það sé hægt þarf að fjármagna það. Það að bankar eigi mikið af kröfum sem ekki eru innheimtanlegar að fullu hjálpa ekki til við að færa niður innheimtanlegar kröfur. Ef það á að gera það verður það ekki gert nema annað tveggja:
a. Að í ljós komi að dómstólar telji að lánasamningur haldi ekki t.d. vegna ólögmætra skilmála eins og margir halda fram með gengistryggðu lánin eða að dómstólar telji að um forsendubrest sé að ræða eins og oft er haldi fram í umræðunni. Að mínu viti geta engir aðrir en dómstólar skorið úr um það.
b. Einhver fjármagni niðurfærsluna og þá eru ekki margir sem koma til greina. Það yrði þá ríkissjóður og mögulega lífeyrissjóðirnir.

Eigið fé er mismunur á eignum og skuldum. Við yfirflutning á lánasafni til ÍLS yrði þá stuðst við verðmat ásafninu. Eigna og skuldahlið efnahagsreiknings ÍLS myndi síðan hækka um sömu upphæð og ekkert nýtt eigið fé myndaðist. Í framhaldinu yrði ríkissjóður mögulega að greiða inn í ÍLS aukið eigið fé þar sem það verður að vera a.m.k. 8% af efnahagsreikningnum.

Það verður einfaldlega ekki til neitt eigið fé við það að breyta um eiganda lána. Eina leiðin til að fá kröfuhöfum gömlu bankanna til að greiða fyrir „leiðréttingu lána“ er að greiða þeim minna fyrir kröfurnar en áætlað er að innheimtist af þeim. Þannig skapa menn svigrúm til að hægt sé að gefa eftir innheimtanleg lán.

Til þess að það sé hægt verður annað hvort að fá kröfuhafana til þess að gefa eftir hluta eigna sinna í frjálsum samningum eða stela frá þeim. Líklega frýs fyrr í helvíti en að kröfuhafarnir gefi eftir eignir sínar.

Og maður spyr sig er þetta enn ein ástæðan fyrir því að Ísland féll. Menn í áhrifastöðum með svona dæmalausar hugmyndir og setja þær fram í fullri alvöru??!! Eða þá þetta (hér)

Einnig má líta til kúlulána bankanna sem þjóna þeim tilgangi einum að veita eigendum bankanna og vinum þeirra hlutdeild í arði af eignamyndum sem kynnt var undir með sífelldu innstreymi erlends lánsfjármagns. Svo er arðurinn innleistur og 10% fjármagnstekjuskattur greiddur.

Þetta hefur gert nokkra íslendinga vellauðuga. Kúlulánin eru svikamylla þar sem þátttakendur njóta arðsins ef innlausn er framkvæmd á réttum tíma, en almenningur þarf að greiða ef það tekst ekki, sé litið til nýrra laga sem rennt var í gegnum alþingi fyrir nokkru.

laugardagur, 14. nóvember 2009

Frábær Þjóðfundur

Var að koma frá Þjóðfundi. Stemmingin var ákaflega skemmtileg. Eindrægni og jákvæðni. Níu einstaklingar sátu við hvert borð ásamt stjórnanda, lagðar voru fram spurningar um viðhorf til uppbyggingar lands og þjóðar. Hver skrifaði sín viðhorf á miða og þeim síðan raðað í flokka og fram fór áherslukosning.

Á þessum flokkum var síðan unnið að frekari úrvinnslu og ný viðhorf dregin fram þar sem einstaklingar skrifuðu sjónarmið sín á miða, sem enn voru flokkuð með áherslu kosningum. Allt slegið jafnharðan inn í tölvukerfin og niðurstöðu lágu fljótt fyrir. Einnig var einstaklingum gert að færa sig á milli borða.

Hinum svokölluðu útvöldu hagsmunaaðilum var dreift á borðin einn við hvert borð. Útilokað var að sá aðili gæti haft afgerandi áhrif á þá vinnslu sem fram fór.

En ég kom heim með staðgóða þekkingu á þeim sjónarmiðum sem svifu yfir vötnunum hjá þjóðfundarfulltrúum. Nákvæmlega eins og til var ætlast.

Niðurstöðurnar urðu í mörgu ekki ólíkar og við rafiðnaðarmenn fengum á 100 trúnaðarmannaráðstefnu Rafiðnaðarsambandsins. En við vorum með svipaða vinnuaðferð í hópavinnu á ráðstefnu okkar í gær.

Þeir sem voru agnúast út í fundin og dæma hann fyrirfram sitja uppi með sínar súru pillur og verða að gleypa þær sjálfir. Verði þeim að góðu.

Áfram Ísland.

Þjóðfundarfulltrúar sektaðir

1500 hundruð manns komu á frábæran Þjóðfund í hliðarhús Laugardalshallar, auk nokkur hundruð starfsmanna. Einnig er sýning í Höllinni sjálfri. Umferðaröngþveiti skapaðist við Laugardalshöllina upp úr kl. 9.30 þegar flestir allir voru að koma og merkt bílastæðin orðin full, einnig við Skautahöllina.

Bílastæðaverðir á vegum Þjóðfundar gripu þá til þess ráðs að vísa þjóðfundargestum með bíla sína út í vegkanta og upp á hin miklu tún sem eru vestan við við Höllina. Þetta var gert svo upphaf fundarins drægist ekki úr hömlu.

Á meðan þjóðfundargestir sátu að störfum innilokaðir frá kl. 10.00 til 16.30 sá lögreglan sér leik á borði og sektaði alla bíla sem ekki stóðu nákvæmlega á merktum stæðum um 2.500 kr.

Allir þessi bílar voru parkeraðir nákvæmlega eins og þegar landsleikir eru og ég hef sótt þá allmarga og aldrei fengið sektarmiða. En lögreglan metur greinilega Þjóðfund öðruvísi.

Þjóðfundur

Er að fara á þjóðfund. Einn hinna útvöldu 300. Eins og venjulega þá er tilteknir netverjar og fjölmiðlamenn búnir að afskrifa þjóðfundinn, þar munu þessir 300 valta yfir hina í yfirgengilegum kjaftöskrum og ruddagangi. Mér finnst reyndar þessir ritarar vera sífellt að lýsa sjálfum sér, afsakið.

Viðbúið er að niðurstöður fundarins verði hantéraðar eins og netmiðlar og spjallþættir hafa unnið úr niðurstöðum funda í verkalýðshreyfingunni. Fundnir eru kverólantar sem engin nennti að hlusta á. Málum frekar stillt upp þannig að meirihlutinn hafi valtaði yfir þá með því að vera ekki sömu skoðunar og þeir.

Það hentar þessum mönnum efnilega ekki að til sé öflug verkalýðshreyfing með virku lýðræði. Þessir menn lýsa svo einhverju sem verkalýðshreyfingin á að hafa gert, en hefur aldrei gert og hún hafi einhverjar skoðanir sem aldrei hafa komið fram. Allt heimatilbúið.

Steininn tekur úr þegar því er blákalt haldið fram að verkalýðshreyfingin hafi ekkert aðhafst á Kárahnjúkum. En það kom fram í fréttum nánast daglega þar sem trúnaðarmenn voru blóðugir upp að öxlum ásamt starfsmönnum verkalýðsfélaganna í daglegum slagsmálum við verktaka á staðnum. En það hentar ekki niðurrifsmálflutningnum.

Niðurstaða meirihlutans ekki kynnt og ekki farið yfir þær forsendur sem lágu til þess að meirihlutinn komst að sinni niðurstöðu.

Nú eru fundarstjórnendur búnir að lýsa fundarformin Þjóðfundar vel. 9 manns á hverju borði, skrifa skoðanir sínar á tilteknum atriðum á miða og það slegið inn í tölvur. Hver og einn gefur svo þeim sjónarmiðum atkvæði og þannig er niðurstaða smá saman dreginn fram. Þekki þetta form vel, hef unnið á ráðstefnum þar sem það er notað. Síðast í gær á trúnaðarmannaráðstefnu rafiðnaðarmanna.

En þeir sem lifa í veröld leðjuslagsins vilja ekki hlusta á svona skýringar, þær henta ekki þeirra neikvæði veröld. Er nema von að fólk sé hætt að fylgjast með fjölmiðlum?

miðvikudagur, 11. nóvember 2009

Skattamálin

Vegna umræðunnar um skattamál þessa dagana langar mig til þess að rifja upp pistil frá 2007 þar sem ég fjallaði aðeins um skattastefnur fyrri ríkisstjórna. Þær héldu því fast að okkur launamönnum að það hafi verið frábæru starfi ríkisstjórna undanfarinna ára hversu gott allir hefðu það. Hið eina sem verkalýðshreyfingin hefði áorkað hafi stutt verðstöðvun á árinu 1990, kölluð Þjóðarsátt. Svo vitnað sé til hins mikla hugsuðar og gúru Flokksins Hannesar Hólmsteins.

Þessu til áréttingar voru fengnir hingað þekktir frjálshyggjumenn sem kynntir voru sem sérfræðingar í skattamálum fyrir kosningarnar 2006, þar á meðal Prescott nóbelsverðlaunahafi sem er þekktur frjálshyggjumaður og hann var kynntur sem sérfræðingur í skattamálum af þáverandi forsætisráðherra Geir Haarde. Því fór reyndar fjarri að Prescott hefði fengið verðlaunin fyrir þekkingu sína í lækkun skatta, það var fyrir stærðfræðilegt líkan af hagsveiflum. Prescott skrifaði eina fræðigrein um samband skatta og vinnutíma og hún var harkalega gagnrýnd. Sérfræðingar frjálshyggjunnar sögðu að íslendingar skiluðu ekki nægilega löngum vinnudegi??!!

Á það má benda að prófessorar við Harvard og MIT hafa rannsakað mismunandi vinnutíma í vestrænum þjóðfélögum og kannað skýringargildi annarra þátta en skatta. Niðurstöður eru að skattar skýri aðeins lítinn hluta af breytilegu vinnumagni þjóða, það er styrkur og skýr stefna launþegahreyfinga sem skipti þar öllu máli ásamt umfangi velferðarríkja og tekjuskipting.

Ef litið er til fullyrðinga frjálshyggjumanna þá ættu Íslendingar að vinna mun minna en Bandaríkjamenn, við greiðum hærri skatta. Við vinnum hins vegar meir, sé miðað er við atvinnuþátttöku og meðalvinnutíma. Norðurlandabúar ættu að vinna minna en aðrir í Evrópu, en atvinnuþátttaka þeirra er mun meiri en hjá öðrum Evrópumönnum og meiri en í Bandaríkjunum.
Einstaklingur í Bandaríkjunum vinnur að meðaltali 25,1 vinnustundir á viku en í Þýskalandi er meðaltalið 18,6 vinnustundir. Bandaríkjamaðurinn vinnur að meðaltali 46,2 vikur á ári en Frakkinn 40 vikur. Gögn, sem byggja á athugunum á vinnutilhögum, benda til þess að skattar útskýri aðeins lítinn hluta þessa munar. Harvardmenn setja fram vel rökstuddar kenningar um að sterk verkalýðshreyfing á evrópskum vinnumarkaði séu meginástæða þessa munar á milli Bandaríkjanna og Evrópu, með kröfunni um “Styttri vinnutími, vinna fyrir alla”.

Í byrjun áttunda áratugarins voru vinnustundir álíka margar í Bandaríkjunum og Vestur-Evrópu. Nú eru þær næstum 50 prósentum færri í Evrópu en Bandaríkjunum. Bandaríkjamenn vinna nú álíka mikið og árið 1970 en Evrópubúar vinna mun minna. Fræðimenn og stefnumótendur hafa upp á síðkastið beint sjónum að fækkun vinnustunda í Evrópu.

Hér skipta máli áhrif verkalýðsfélaga í kjölfar áfalla innan atvinnugreina eins og þeirra sem áttu sér stað í Bandaríkjunum og Evrópu á 8. og 9. áratugnum. Ef framboð á vinnuafli fer upp á við eykur slíkt vinnustundir. Þar sem samdáttur er í hagkerfi þar sem verkalýðsfélög eru til staðar, hefur slíkt leitt til fækkunar vinnustunda. Við sama áfall í hagkerfi án verkalýðsfélaga aukast vinnustundir.

Einnig var boðinn hingað velkominn af Flokknum "Houdini hagfræðinnar" Arthur Laffer, sem er heimsþekktur fyrir "Voodoo Economics" um hvernig við græddum öll á því að skattar á fyrirtæki og fjárfesta verði lækkaðir. Þegar Ronald Reagan beitti þessari stefnu í Bandaríkjunum upp úr 1980 leiddi það til þess að allur afrakstur hagvaxtarins rann til tekjuhæsta hópsins og fjárfesta, verkafólk sat uppi með kauplækkun og lengdi vinnutíma sinn í kjölfarið til að vinna gegn kjaraskerðingunni og hefur enn ekki komist út úr þeim skaða sem þetta leiddi til.

Laffer bendir á að ef skattprósenta á tekjur einstaklinga væri 0% fengi ríkissjóður vitanlega engar tekjur, sama væri upp á teningnum ef skattprósentan væri 100% af tekjum. Laffer kúrfan er þar á milli er eins og U á hvolfi.

Það veit enginn hvar við erum stödd á Laffer-kúrfunni. Hvað gerist þegar skattprósentan er hækkuð og fer yfir það gildi sem gefur ríkissjóði hæstar tekjur þannig að tekjur lækka við frekari hækkun prósentunnar? Viss störf munu leggjast af, sum flytjast til annarra landa og önnur hverfa undir yfirborðið og fólk fer að koma sér hjá því að greiða skatta. Ekki er hægt að meta hvar hámarkið er á kúrfunni og það er háð efnahagsástandi og skattlagningu í öðrum löndum.

En við vitum um árangur Flokksins hann lækkaði skatta á þá hæst launuðu, en hækkaði þá þeim sem minna máttu sín með því að frysta skerðingarmörk bótakerfisins. Og óku þeir þjóðarksútunni án millimetra bremsufars fram af hengifluginu og þúsundir íslenskra heimila eru gjaldþrota.

þriðjudagur, 10. nóvember 2009

Vindhögg

Vinnubrögð Ragnars stjórnarmanns VR eru ótrúlega ómerkileg og ekki síður er maður undrandi á fjölmiðlum, sem vilja láta taka sig alvarlega skuli láta Ragnar ítrekað leiða sig í gönur með vindhöggum hans.

Umrætt minnisblað var í fjölmiðlum fyrr á þessu ári. Það er ritað af framkv.stj. SA og er innanhúsblað SA eins og kemur fram í hausnum og auk þess í skýringum Vilhjálms í fjölmiðlum á sínum tíma og hefur ekkert með ASÍ að gera. Reyndar stendur ekkert merkilegt í þessu minnisblaði, allavega ekki það sem Ragnar vill lesa úr því.

Í mínu umhverfi er ekki nokkur maður sem tekur mark á upphrópunum Ragnars. En það er leiðinlegt að vita til þess að hann er með góðri aðstoð tiltekinna fjölmiðla að grafa undan starfi samtaka launamanna og í raun að veitast að stöðu þeirra sem minnst mega sín.

Það liggur einnig fyrir að stéttarfélög með um 90% félagsmanna aðildarfélaga ASÍ vildu frekar freista þess að ná framlengingu samninga við SA, frekar en SA myndi segja upp samningum eins og margítrekað kom fram í fréttum fyrr á þessu ári, en virðist hafa farið fram hjá sumum fréttamönnum, þótt ótrúlegt sé. Þar á meðal er það stéttarfélag sem Ragnar er stjórnarmaður. Eins og kom fram á ársfundi ASÍ þá eru félagsmenn annarra stéttarfélaga en VR, orðnir langþreyttir á að Ragnar sé ítrekað að gera öðrum stéttarfélögum upp skoðanir og spinna svo út frá því.

Einnig þykir mönnum harla einkennilegt að Ragnar skuli ekki koma sínum athugasemdum á framfæri á sameiginlegum fundum innan ASÍ og forvitnast þar um skoðanir annarra og skiptast þar á sjónarmiðum, en þar sést Ragnar ekki í ræðustól. Frekar er valinn sú leið að ata félaga sína auri í fjölmiðlum og gera þeim upp skoðanir og allir sem ekki séu honum sammála eru að hans mati viljalaus verkfæri í höndum forseta ASÍ. Sérstök ástæða er minna á að báðir forsetar ASÍ eru í forystu VR. Þannig að Ragnar er í stöðugu sambandi við forsetana, og hefur þar stöðu langt umfram flesta aðra launamenn í landinu.

Á fundum innan ASÍ um þessi mál kom engin andstaða fram af hálfu VR. Þetta kom einnig fram í fréttum. Haldin var formannafundur aðildarfélaga innan ASÍ í byrjun febrúar þar sem aðildarfélögin voru beðinn að kanna afstöðu félagsmanna sinna í málinu. Félögin héldu fjölmarga félagsfundi og skiluðu svo niðurstöðum inn á annan formannafund ASÍ mánuði síðar, einnig það félag sem Ragnar er stjórnarmaður. Allt þetta kom fram í fréttum.

Það er barnalegur spuni sem Ragnar gefur sér í yfirlýsingu sinni um að verkalýðshreyfinginn hefði náð samningum strax um umtalsvert meiri launahækkanir, en fengust með þeirri niðurstöðu sem náðist. Þekkt er að ritstjóri Eyjunnar þekkir afar vel til hvernig mál ganga fyrir sig í Samtökum atvinnulífsins, því vaknar sú spurning hvað það sé í raun sem vaki fyrir Eyjunni með fréttaflutning af þessu tagi. Alla vega eru það ekki hagsmunir launamanna.

sunnudagur, 8. nóvember 2009

Agaleysi

Það er sammerkt með mörgum þeirra sem hingað koma, hvort sem um er að ræða erlenda gesti eða íslendinga, sem hafa verið búsettir um nokkurt skeið erlendis, þessu fólki er tíðrætt um hversu óöguð hin íslenska þjóð er. Margar af helstu orsökum kerfishruns íslenska fjármálakerfisins umfram nágrannalönd okkar má leita í agaleysi. Samskipti á vinnumarkaði bera einkenni af tillits- og agaleysi. Samskipti kynslóðanna einkennast af frekju og tillitsleysi. Sama á við um hegðan í skólum, biðraðamenningu og svo ekki sé talað um íslenska umferðarmenningu. Niðurstaðan verður einatt sú sama; þjóðin er agalítil.

Það er skammt á milli aga og bælingar, sama á við hömluleysi og agaleysi. Íslensk ungmenni búa við óagað umhverfi og eiga jafnvel stundum erfitt með að gera sér grein fyrir því til hvers er ætlast af þeim. Miklar breytingar sem orðið hafa á högum fjölskyldunnar, þar sem langur vinnutími beggja foreldra utan heimilis veldur því að börn og ungmenni eru skilin eftir á eigin ábyrgð, á meðan yfir stendur hömlulítið lífsgæðakapphlaup.

Skólar og aðrar stofnanir hafi tekið við hluta af uppeldishlutverki heimila. Samstarf heimila, skóla, íþróttafélaga og ýmissa samtaka er mjög takmarkað og skilaboð til barna um hegðan og ábyrgð eru misvísandi og óljós. Þetta er það sem kallað hefur verið óagað umhverfi og leiðir m.a. til þess að ungmenni eiga örðugt með að þroska með sér sjálfsaga. Skýrar leikreglur og agað umhverfi er með öðrum orðum forsenda þess að einstaklingur geti náð að þroska með sér.

"Ríkidæmi sem byggt hefur á lánum og skuldsetning undangenginna ára getur ekki talist auðlegð,“ sagði Karl Sigurbjörnsson biskup við setningu kirkjuþings." Eitt mikilvægasta verkefnið nú sé að stuðla að nýjum lífsstíl. Lífsstíll sem virðir takmörk auðlinda og uppörva kristið siðgæði, virðingu og hófsemi, samstöðu, náungakærleika."

"Við ein ríkasta þjóð heims stöndum langt að baki þeim þjóðum sem við vildum mæla okkur við í framlögum til þróunaraðstoðar. Og nú þegar þrengir að hjá okkur er illt til að vita að við hlaupum frá skuldbindingum okkar og vörpum frá okkur ábyrgð. Það er ekki gæfumerki,“ sagði biskup.

Þetta samsamar sig í ummælum okkar um nágrannaþjóðir okkar þegar við sökum þær um óvild í okkar garð þegar þær hafna því að halda áfram að moka fjármagni inn í laskað hagkerfi okkar, svo við getum haldið áfram skefjalausu uppteknu líferni, sem við þróuðum með okkur frá 2000 - 2008 þar sem sjálfumglaðir og agalausir stjórnmálamenn lögðu línuna.

Sé litið til vinnumarkaðs hafa á þessum tíma sprottið upp fyrirtæki þar sem allir hugsanlegir möguleika eru notaðir til þess að hagnast á bágri stöðu bláfátæks verkafólks. Sérhyggjumenn setja athugasemdalaust upp fyrirtæki þar sem fólk er í framleigu til hverskonar starfa á niðursettu verði. Fyrirtæki sem eru í raun ekkert annað en röð kennitalna. Lánlausu fólki eru settir afarkostir, ef það fer ekki í einu og öllu eftir því sem leigudólgarnir vilja, annars glatar það tilverurétt og er komið í óviðráðanlegar fjárhagslegar skuldbindingar við dólgana.

Nú höfum við tækifæri til þess að taka til í þessum efnum og verður spennandi að sjá niðurstöður Þjóðfundar.

laugardagur, 7. nóvember 2009

Neðanjarðarhagkerfið

Sé litið þróunar undanfarinna ára eftir að frjáls för verkafólks varð almennari á evrópskum vinnumarkaði, þá hefur neðanjarðarhagkerfið vaxið hratt og tugir milljarða eru ekki að skila sér til samfélagsins. Auk þess þurfa stofnanir samfélagsins að þjónusta einstaklinga, sem ekki hefur greitt af nein tryggingargjöld og hafa engin réttindi. Slösuðu fólki er ekki varpað á dyr, en kostnaður vegna þessa hefur vaxið gríðarlega og sumum svæðum þar sem mikið er um erlendra farandverkamenn, þá ráða heilsugæslustöðvar ekki við vaxandi verkefni og ekki nein leið að leita eftir auknu fjármagni vegna þess að svo stór hluti fólksins er ekki til í opinberum gögnum.

Svört atvinnustarfsemi þrífst í skjóli undirverktöku og ólögleg starfsemi þrífst í þessu umhverfi, jafnvel harðsnúin glæpastarfsemi eins og t.d. mansal. Verkafólk er flutt á milli landa og nýtur ekki lágmarksréttinda og er gert að búa við óviðunandi aðstæður, fær takmarkaðan hluta launa og nýtur ekki tryggingarverndar, lögbundins frítíma og veikindaréttar.

Noregur er það norrænu landanna sem er komið lengst í að taka á þessu vandamáli með því að setja skýrar reglur um ábyrgð aðalverktaka. Þessar reglur nefndar „Samábyrgð“ og verða innleiddar 1. janúar 2010. Þar er kveðið á um að kjarasamningar ákvarði laun og kjör allra sem eru á norskum vinnumarkaði, og það sé á ábyrgð aðalverkataka. Það sé við hann sem sé samið um viðkomandi verkefni.

Reynsla norðmanna er sú að röð undirverktaka hver undir öðrum í skjóli þess að einungis sé hægt að sækja að aðalverktaka, sem síðan víkur sér undan allri ábyrgð á undirverktökum sínum. Þetta er ekki óþekkt hér á landi. Þannig hefur þessi starfsemi þróast án þess að hægt sé að taka efnislega á henni, sem hefur leitt til margskonar undanskota frá ábyrgð, sem hefur leitt til þess að samfélagið og launamenn hafa beðið umtalsverðan skaða. Hér einnig bent á að oft er ekki hægt að ná fram lagfæringum á verksvikum og efnislegum frágangi. Undirverktakasamfélagið er röð kennitalna, sem sumar hverjar verða nánast gjaldþrota í lok hvers vinnudags.

Gengið er frá verksamningum við aðalverktaka sem uppfylla öllu sett skilyrði samfélagsins, en síðan komast undirverktakar upp með að stinga undan umtalsverðum hluta af réttindum og kjörum starfsmanna sinna. Hér er ekki einungis átt við laun, heldur er vinnutíma oft óhóflega langur, launamenn njóti ekki veikindaréttar, lögbundinna frídaga, lágmarkstrygginga og orlofs og þannig mætti lengi telja. Auk þess er ekki skilað tilskildum gjöldum til samfélagsins og viðkomandi starfsmaður réttindalaus í samfélaginu.

Samkvæmt nýju lögunum á hvaða starfsmaður sem er sem vinnur við tiltekið verk að geta leitað til aðalverktaka og krafist þess að hann njóti réttra launa og allra lögbundinna kjara og aðbúnaðar. Aðalverktaka eru gefnir 3 mán til þess hafa samband við þann undirverktaka sem starfsmaðurinn vinnur hjá og koma máli viðkomandi starfsmanna í réttan farveg.

Á hinum norðurlandanna eru lög og reglur um þessi mál óskýrari. Í Danmörku voru 1. janúar 2009 sett lög um ábyrgð aðalverktaka á virðisaukasköttum í öllu verkinu og gegnum það kerfi hafa Danir getað fylgst að nokkru með starfsemi undirverktaka. Á norðurlöndunum öllum eru skýr ákvæði um öryggismál á vinnustöðum, en töluverður brestur á að því sé fylgt eftir.

Slys á byggingastöðum eru langflest slysa á vinnumarkaði. Mörg dæmi eru þekkt, t.d. vakti það gríðarlega reiði í Noregi fyrir 2 árum þegar verkamaður fannst stórslasaður á fáförnum vegi upp í sveit. Hann talaði ekki norsku. Vinnuveitandi hans hafði farið með hann á þennan stað og skilið hann þar eftir til þess að komast hjá því að þurfa að fara með hann á slysavarðstofu, en þar hefði komist upp að vinnuveitandinn hafði svikist um að greiða öll tryggingargjöld og skatta af fjölmörgum erlendum starfsmönnum sínum.

Deilur hafa snúist um að tryggja lágmarkslaun og félagsleg undirboð. En reynslan hefur þó sýnt og það á m.a. við um reynslu Rafiðnaðarsambandsins að þó svo takist að fá verktaka til þess að fara að kjarasamningum um kaup og kjör, þá er ekki tryggt að viðkomandi starfsmaður haldi þeim launum þegar heim er komið. Hér er vísað til til rússnesku línumannanna sem settu upp Búrfellslínu 2. Þegar línumennirnir komu til síns heima í Úkraníu að loknu verki komu handrukkarar komu heim til þeirra og sóttu þær leiðréttingar á launum sem RSÍ hafði náð fram er þeir fóru heim í verklok. Einnig má benda á þau slagsmál sem stéttarfélögin og eftirlitsstofnanir á vinnumarkaði þurftu ítrekað að taka við undirverktaka á Kárahnjúkasvæðinu.

fimmtudagur, 5. nóvember 2009

Kolefnislosun

Ég sit nú ársfund Norræna byggingarsambandsins stendur nú yfir í Stokkhólmi. Umhverfismál taka mikið rými í dagskránni. Loftslagsbreytingar hafa verið miklar undanfarin 150 ár. Helstu orsakir er að finna í vexti iðnaðar í hinum svokölluðu þróuðu ríkjum. Sé litið til ályktana Sameinuðu þjóðanna þá er allra helstu orsaka loftslagsbreytinga að finna í hátterni mannkyns. Hátterni okkar hefur mótast undanfarna áratugi af stefnu frjálshyggjunnar, sem líkja má við að hestum sé sleppt lausum og eftirlitslausum út á ræktaða mörkina. Vaða þeir strax að bestu bitunum og hrifsa þá til sín og troða allt niður sem á vegi þeirra verður án tillits til afleiðinganna.

Enn höfum ekki náð botninum, og verra ástand nálgast hratt. Viðnám við loftslagsbreytingum er veigamesta verkefni mannkyns á 21 öldinni. Við erum tilneydd að breyta lifnaðarháttum, má þar t.d. benda á einn af daglegum þáttum. Ef litið á framleiðsluferli kaffis þá þarf 14 lítra af vatni til þess að framleiða það kaffi sem er í einum meðalstórum kaffibolla. Vatn er eitt af þeim atriðum sem blasir við að muna verða skortur á í náinni framtíð. Aukin tækniþekking hefur nú þegar minnkað útblástur mikið, en stjórnvöld verða að setja enn meiri fjármuni til rannsókna í þessum efnum.

Í ályktun Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál frá 1992 var kveðið á um að ríki skyldu forðast gjörðir sem gætu haft hættuleg áhrif á loftslagið. Engu síður heldur losun gróðurhúsalofttegunda áfram að aukast. Bandaríkin neituðu að undirrita Kyoto-bókunina árið 1997 og hafa ekkert gert til þess að koma böndum á útblástur.

Helsta ástæða þess er að 25 ríkja í Bandaríkjanna framleiða kol, sem nýtt eru til þess að framleiða stóran hluta af raf- og hitaorku þeirra. Þar sem aðgerðir gegn loftslagsbreytingum beinast fyrst og fremst gegn minni kolanotkun, óttast kolaríkin í Bandaríkjunum efnahagslegar afleiðingar af útblásturskvótum. En þar hafa einnig viðhorf til bílanotkunar mikil áhrif.

Þar til nýlega hefur verið talið að Kína og Indland kæmu ekki koma að samningaviðræðunum um aðgerðir í loftlagsmálum. Kína hefur hins vegar tilkynnt um stórtækar aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með því að auka notkun sólarorku, vindorku, kjarnorku og auka kolefnisbindingu. Indverjar hafa einnig lagt fram heildstæða aðgerðaráætlun um sjálfbæran orkubúskap.

Evrópuríkin hafa sett sér það markmið að minnka orku notkun um 20% á næstu 4 árum og að sama skapi draga umtalsvert í framleiðslu orku með jarðefnum. Þetta setur aukna pressu á Bandaríkin til að bregðast við, hratt vaxandi umhverfisvitund mun ekki að leyfa sérhagsmunum að stefna framtíð jarðarinnar í voða.

Í byggingar- og tréiðnaði vinna um 200 millj. manns í heiminum öllum. Á norðurlöndum eru það um 700 þús. manns. Þessi iðnaður hefur mikil áhrif á útlosun kolefna. Eyðing skóga er næststærsta orsök kolefnaútlosunar, eða 18%. Byggingariðnaður veldur 8% af kolefnaútlosun. Mesta útlosunin er vegna orkuframleiðslu, þar er helsti orsakavaldur nýting jarðefna við framleiðslu orku.




Stjórnvöld verða að vera í forystu um í baráttunni við að ná viðsnúning í þessari þróun. Pólitísk stefnubreyting verður að eiga sér stað. Nokkrar ríkisstjórnir hafa nú þegar tekið veigamiklar ákvarðanir. T.d. hafa frönsk stjórnvöld ákveðið að tvöfalda hraða við endurbyggingu eldri húsa með græn sjónarmið að leiðarljósi. Fyrir árslok 2015 á að vera búið að endurbyggja 800. þús. byggingar með betri orkunýtingu og sjálfbærni að leiðarljósi.

Þjóðverjar tóku þessa ákvörðun árið 1998, og það hefur skapað 2 milljón starfa í Þýskalandi, samfara samdrætti í losun kolefna. Stjórnvöld í Hollandi hafa gengið fram samþykktum um endurnýja 200 – 300 þús. íbúðir á ári næstu árin. Nokkur önnur lönd þar á meðal Bretland hafa sett fram markmið í minnkun orkunotkunar og einnig fækkun orkuvera sem nýta jarðefni. Grænn byggingariðnaður er vaxandi í Bandaríkjunum og stendur á traustum fjárhagslegum fótum, á meðan hinn almenni byggingariðnaður er í vanda.

Tré eru einstök hvað varðar baráttu gegn losun kolefna í andrúmsloftið, sakir þess hversu mikið af kolefnum þau binda. Við brennslu trjáviðar losnar sama magn kolefnis og þau hafa bundið í vexti. Hver rúmmetri af timbri bindur um 1,1 tonn af kolefnum. Sé litið til byggingaraðferða þá minnkar hver rúmmetri af timbri sem nýttur í byggingariðnaði kolefnaútlosun um 2,1 tonn. Áætlað er að landbúnaður muni árlega eyða um 7,3 milljón hekturum af skógi næstu árin.

Sement er mikill skaðvaldur í vaxandi útlosun kolefna. Notkun steypu er tvöfalt meiri í byggingariðnaði en nokkurs annars byggingaefnis. Í steypu er um 10-15% sement. Þau hráefni sem nýtt eru við framleiðslu á hverju tonni af sementi valda 1,6 tonn af kolefnaútlosun. Um 2,6 billjón tonn af sementi eru framleidd á hverju ári í heiminum. Reiknað er með að útlosun vegna steypunotkunar fjórfaldist fram að árinu 2050. Það er því gríðarleg þörf á auknum rannsóknum á sementi og steypu svo minnka megi útlosun innan byggingariðnaðar. Einnig þarf að herða á rannsóknum um endurnýtingu á steypu.

Benda má á þá sjálfbærni sem er í timburhúsum. Það grær nýr skógur þegar timbrið er tekið í húsið. Kolfnin eru bundin í timbri húsins. Við endurnýjun húsa er hægt að endurnýta nánast allt húsið við orkuvinnslu.

miðvikudagur, 4. nóvember 2009

Hverjir mega hafa skoðanir?

Það er með hreinum ólíkindum að hlusta á stjórnarþingmenn þessa dagana þegar þeir eru vælandi í fjölmiðlum um að það séu þeir sem einir hafi leyfi til þess að hafa skoðanir, þeir hafi verið kjörnir til þess, ekki aðrir. Hvað verkalýðsforystan sé að vaða upp á dekk. Hverslags dót er þetta fólk? Málið snýst ekki um það, það snýst um að þeir tuskist til þess að fara að gerðum samningum og standi við sitt.

Ég skrifaði í fyrstu pistlunum hér á þessu Bloggi haustið 2007, að mér finnist kostulegt að heyra Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn kvarta ítrekað undan því að hagsmunahópar væru að skipta sér að stjórnvaldinu. „Við eru kjörnir fulltrúar fólksins og valdið liggur hjá okkur“ var endurtekið viðkvæði þáverandi stjórnarþingmanna.

Ég benti á að þetta segði til um að þáverandi stjórnaþingmenn væru orðnir of heimaríkir. Búnir að hafa völdin of lengi. Þeir væru til viðtals við kjósendur vikuna fyrir kjördag, en viðtalstíma lyki um leið og kjörklefum væri lokað og væri lokað næstu 4 ár. Þó svo að fram kæmi eftir kosningar að þeir væru að gera eitthvað allt annað, en þeir hefðu lofað og um væri samið. Undir þetta tóku þá VG- og Samfylkingarmenn.

Stéttarfélög eru samtök hópa úr ákveðnum starfstéttum sem taka sig saman og mynda samtök um að gæta hagsmuna sinna. Þetta fólk leggur pening í pott sem notaður er til þess að ráða fólk til þess að gæta hagsmuna hópsins og vinna þeim framgang. Þeir sem valdir er til þessara starfa eru kosnir.

Það hefur verið samdóma álit íslendinga, sem kemur m.a. fram í stjórnarskrá, að það séu fleiri en stjórnmálamenn sem megi hafa skoðanir, t.d. sé almenning heimilt að hafa skoðanir. Það sé líka heimilt að stofna samtök utan um hagsmuni og skoðanir án afskipta stjórnmálamanna. Samkvæmt landslögum er stéttarfélögum heimilt að gera samninga m.a. við stjórnvöld. Almenningur er kjósendur og um leið félagsmenn stéttarfélaga, hann er líka sjóðsfélagar í lífeyrissjóðum og á þá fjármuni sem þar eru.

Samkvæmt venjulegum samskiptareglum þá er venjulega ætlast til þess að menn og stjórnmálamenn standi við gerða samninga og uppgefnar skoðanir.

Oft er sagt að maðurinn (þá sérstaklega stjórnmálamaðurinn) hafi ekkert langtímaminni, og afar slappt skammtímaminni. Forseti ASÍ hefur fengið harkalega útreið í fjölmiðlum og þá sérstaklega frá núverandi stjórnarþingmönnum. Í því sambandi vill ég minna þá að það sem stendur hér ofar.

Mig langar einnig til þess að minna á nokkur eftirtalin atriði sem forysta launamanna, allra samtaka launamanna ekki bara ASÍ, gerðu samning við núverandi stjórnaflokka í sumar.

Þar var rætt um ákveðin skatthlutföll og hámark skattálagningar. Forseti ASÍ hefur verið fyrirskipað af aðildarfélögum sambandsins að mótmæla harðlega þeim hugmyndum sem fram komu í fjárlögum þessa hausts. Þar átti að innheimta mun hærri skatta en um hafði verið samið. ASÍ hefur einnig mótmælt því að það virtist vera svo að stjórnvöld ætluðu sér ekki að standa við ákvæði síðustu kjarasamninga um tengingu persónuafsláttar við verðlag og væntanlega hækkun persónuafsláttar um næstu áramót.

Forysta ASÍ er ekki á móti auðlindaskatti og setti reyndar fyrst allra fram kröfur um auðlindaskatt.

Það var SA, ekki ASÍ sem setti sig á móti hugmyndum stjórnvalda um það fyrirkomulag auðlinda- og orkuskatts sem fram kemur í fjárlögum.

Í ályktunum ASÍ eru og hafa verið ákvæði um uppbyggingu sprota- og tæknifyrirtækja. Þar er einnig að finna gagnrýni á það háttalag stjórnmálamanna undanfarin ár að lofa stóriðju í nánast hverjum firði án þess að huga að orkuöflun. Þar hafa stjórnmálamenn verið að vekja væntingar hjá fólki, sem ekki er í einhverjum tilfellum að standa við. Stjórnmálamenn verða að axla sjálfir þá ábyrgð og hafa manndóm í sér að mæta reiði þess fólks sem þeir eru að svíkja.

ASÍ vill að stjórn kvótakerfisins verði endurskoðað og setti fram aðrar hugmyndir þar um en SA. ASÍ hefur alfarið hafnaði þeim hugmyndum sem LÍÚ hefur sett fram.

Ég vill fyrir hönd þeirra samtaka sem ég er í forsvari fyrir taka það fram að við áskiljum okkur sama rétt og stjórnmálamenn, það er að hafa skoðanir og koma þeim á framfæri ekki bara þegar stjórnmálamönnum þóknast að hlusta á fólk dagana fyrir kjördag.

Við áskiljum okkur einnig þann rétt að krefjast þess að stjórnvöld standi við gerða samninga.

Við upplifum það nefnilega á hverjum degi að stjórnvöld krefjast þess að við stöndum við okkar samninga og virðum friðarskyldu.

þriðjudagur, 3. nóvember 2009

Umtöluð ræða

Nokkuð hefur verið rætt um innlegg mitt á síðasta ársfundi ASÍ. Hér er það :

http://www.rafis.is/index.php?option=com_content&view=article&id=1064

mánudagur, 2. nóvember 2009

Jákvætt hugarfar

Það kemur mér alltaf jafnskemmtilega í opna skjöldu þegar ég hitti félagsmenn mína og mæti þeirri málefnalegu umræðu sem þar fer fram og jákvæðninni í stað neikvæðrar niðurrifsumræðu hinna kverúlantasæknu ljósvakavíkinga og illskiljanlegrar stefnulausrar umræðu stjórnmálamanna. Eins og einn félagsmanna orðaði það svo ágætlega í dag.

Er búinn að halda þrjá félagsfundi síðustu viku. Sauðárkrók, Akureyri og svo í Reykjavík í dag. tæplega 100 manns sóttu fundinn í dag og um 50 sóttu hina fundina. Ný skoðanakönnun Capacent sýnir mun sterkari stöðu rafiðnaðarmanna á vinnumarkað en spáð hafði verið.

Meðalheildarlaun eru um 470 þús. kr. á mán. Vinnuvikan er 42 klst. og daglaun eru 370 þús. kr. Atvinnuleysi er um 4%, þrátt fyrir metfjölgun í sveinsprófum í rafiðnaðargreinum. Um 400 nemar hafa lokið sveinsprófum í rafiðnaðargreinum á síðustu 2 árum og um 600 eru í rafiðnaðarnámi.

Rafiðnaðarmenn hafa á undanförnum árum ítrekað bent á að loforð stjórnmálamanna um stóriðju í hverjum firði kosti gríðarlegar virkjanir mun meiri en raunhæft er að ráðast í sé litið til núverandi tæknilegrar getu við byggingu jarðvarmavirkjana.

Síðasta áratug hefur fjöldi rafiðnaðarmanna tvöfaldast frá 3.000 í 6.000. Sé skoðað hvert rafiðnaðarmenn hafa sótt ný störf á undanförnum árum, blasir við að engin fjölgun hefur verið í byggingariðnaði, landbúnaði og sjávarútvegi. Öll fjölgun starfa rafiðnaðarmanna er að finna í hátæknistörfum, hjá sprotafyrirtækjum.

Við blasir að íslendingar geta byggt upp enn öflugri hátækniiðnað. Iðnað sem flytur lítið inn en mikið út.Verðmætasköpun hins velmenntaða íslenska vinnumarkaðar og hæfilegrar nýtingar orkunnar. Uppbyggingu rafbílaframleiðslu og minnkun jarðefnanotkunar.

Til lengri tíma verður að líta til þess að hér verði gjaldmiðill sem bíður upp á stöðugleika. Verðbólga verði það lág að vextir verði innan við 4,5% og verðtrygging afnuminn. Það þarf að skapa 20 þús. störf á næstu fjórum árum svo meðalatvinnuleysi íslensks vinnumarkaðar fari niður fyrir 5%. Ef það tekst munum við á árinu 2013 hafa endurheimt þau lífskjör sem við bjuggum við á síðasta ári.

Krónan hefur reynst okkur ákaflega dýrkeypt. Hún hefur stuðlað að miklum sveiflum vegna agalausrar hagstjórnar. Sveiflurnar hafa kallað á að meðaltali 3,5% hærri vexti en þeir þyrftu að vera og verðtryggingu. Nærtækasti kosturinn er að sækja um aðild að Evrópusambandinu og láta reyna á hvert við komumst í slíkum viðræðum um forræði í auðlindamálum. Það eru nauðsynlegt að fá úr því skorið hvort við eigum kost á ásættanlegri lausn.

Gildismat hefur breyst á undangengnum áratugum. Hógværð hefur vikið fyrir öðrum gildum. Græðgi hefur markað för og krafan hefur verið endalaus velgengni. Alvarlegasta ógnunin við framtíð Íslands er skuldsetning hugarfarsins þar sem vantrú ríkir á öllu sem viðkemur einkaframtaki. Hugarfarsbreytingu þarf ef atvinnulífið á að skapa 20 þúsund störf fyrir árið 2013. Það gerist ekki með því að fjölga störfum hjá ríkinu, það gerist í atvinnulífinu. Við eigum að leggja áherslu á að laða fram jákvæðni, áræðni og frumkvæði.

Þýðingarmesta verkefni okkar er að stuðla að víðtækri sátt um stöðugleika. Styrkleiki okkar liggur meðal annars í miklum náttúruauðlindum, sterkum lífeyrissjóðum, hlutfallslega meira af ungu fólki en hjá öðrum Evrópuþjóðum. Helsti styrkleiki þjóðarinnar liggur í hugarfari; þrautseigju og mestu atvinnuþátttöku sem þekkist í vestrænu landi. Við megum ekki missa þennan styrkleika niður.

sunnudagur, 1. nóvember 2009

Í Bítið

Var fyrir austan fjall á föstudagsmorgun að hlaupa í störf eins starfsmanna RSÍ sem sér um orlofssvæði okkar við Apavatn, vegna veikinda hans. Þá hringdi í mig Heimir í Bítinu á Bylgjunni og spurði hvort ég ætlaði ekki að koma í þátt hans á mánudagsmorgun. Hann hefði verið með Ragnar Ingólfsson stjórnarmann hjá VR í þættinum um morguninn, sem hefði sagt ýmislegt ekki par fínt um mig og mín störf fyrir launamenn. „Ég hlustaði ekki á þáttinn, en er það ekki bara fínt“, svaraði ég „Þú ert búinn að senda ummæli hans út, en það skapar þér ekki stöðu til þess að krefjast þess að ég verði þátttakandi í þessu leikriti.“

„Boltinn er hjá þér“ sagði Heimir. „Nei“ svaraði ég „hann er hjá þér. Þú stillir fólki ekki upp með þessum hætti“ Ég hlustaði á þáttinn þegar ég kom heim. Heimir og Ragnar í hörkustuði. Heimir hélt þar því fram sem ég hlustaði á síðar að ég hefði haldið því fram í pistli hér að hann mætti ekki ræða við Ragnar. Það er fortakslaus og ómerkileg lygi. Ég hef sérstaklega tekið fram að gagnrýnendur framsettra sjónarmiða eigi að fá rými, en það sé áberandi að sumir spjallþáttastjórnendur tala aldrei við þá sem verða fyrir því óláni að vera í meirihlutanum (sé vitnað til ummæla þeirra félaga) og hvers vegna meirihlutinn komst að viðkomandi niðurstöðu og á hvaða forsendum.

Ragnar jós athugasemdalaust órökstuddum svívirðingum yfir alla þá sem ekki eru honum sammála, þ.á.m. mig. Gerði mér upp skoðanir. Þessi þáttur er dæmigerður fyrir það sem gagnrýnt er í vaxandi mæli, hina löskuðu umræðu á Íslandi, sem renni út í sandinn því hlutirnir eru persónugerðir.

Ragnar hélt því fram að ég væri pólitískur taglhnýtingur og vinni að því að heilaþvo fólk og ætli m.a. að troða því í ESB. Ragnari kemur ekkert við hvaða pólitískar skoðanir ég hef. Ég var einu sinni í Sjálfstæðisflokknum, sagði mig úr honum þegar hann hallaðist yfir í frjálshyggjuna og hef ekki verið virkur í flokkspólitík síðan.

Ég játa mig sekan um að hafa haldið því fram að við verðum að losa okkur við óvandaða stjórnarhætti, sem hafa valdið miklum sveiflum á krónunni, kalli yfir okkur verðbólgu, háa vexti, sem kalli á greiðsludreifingu eins og verðtryggingu og kaupmáttarskerðingu. Hátt verðlag og fákeppni. Sprotafyrirtæki þrífist ekki í þessu óstöðuga umhverfi. Stjórnvöld leiðrétti endurtekið efnahagsleg mistök með því að fella krónuna, og leiðrétti blóðsúthellingalaust ef verkalýðsfélög geri of góða kjarasamninga, svo vitnað sé í algeng orð forystumanna Sjálfstæðismanna.

Mikil meirihluti ASÍ hefur samþykkt að skoða þá möguleika sem við höfum til þess að losna út úr þessu. Þar á meðal hvort aðild að ESB gæti orðið til þess. Ragnar virðist vera á móti því að þetta verði skoðað. Meirihlutinn þarf ekki að sitja undir svívirðingum Ragnars.

Ég kem frá 6.000 manna sambandi á meðan Ragnar er stjórnarmaður í 30.000 manna sambandi. Hvernig í veröldinni á ég að geta valtað yfir Ragnar? Það eru 19 rafiðnaðarmenn á 290 manna ársfundi, en þeir eru 80 frá VR og 100 frá SGS. Við eigum einn miðstjórnarmann af 18 í ASÍ, þar eru 5 frá VR (báðir forsetar eru frá VR) og 7 frá SGS.

Við í RSÍ mótum okkur sameiginlega stefnu og erum virkir þátttakendur í starfi innan ASÍ og reyndar víðar. Rafiðnaðarmenn eru ekki alltaf sammála og oft hef ég orðið að láta í minni pokann. En það er mitt hlutskipti að kynna og vinna að því að því sem afgreitt er af meirihluta. Jafnvel þó um sé að ræða mál sem ég hafi verið andsnúinn. Það er nefnilega þannig sem félagstarf fúnkerar innan RSÍ og reyndar ASÍ líka.

Nokkrir einstaklingar halda því blákalt fram í spjallþáttum að 110 þús. manns séu viljalaus verkfæri í höndum fárra valdhafa í ASÍ. Með því er verið að lítilsvirða þá fjölmörgu sem koma að mótun stefnu ASÍ. Fullyrt er að ég sé ekki í sambandi við mína félagsmenn og sé í fílabeinsturni. Síðustu kjarasamningar voru gerðir í ársbyrjun 2008 og voru ítarlega kynntir á fjölmörgum fundum og samþykktir með afgerandi hætti í póstkosningu. Við endurskoðun kjarasamninga hélt RSÍ allmarga félagsfundi, rúmlega 500 manns sóttu þá fundi. Auk þess héldu stjórnir og trúnaðarráð 10 aðildarfélaga RSÍ fundi um málið auk 45 manna sambandsstjórnar, 18 manna miðstjórnar og 130 manna trúnaðarráðstefnu. Þar var samþykkt að við myndum ekki standa að uppsögn samninga.

Ef einhver vill segja á upp kjarasamningum hlýtur sá hinn sami hafa borið það upp í sínu félagi. Hann á ekkert með að leyfa sér að skamma önnur stéttarfélög fyrir að fara eftir samþykktum eigin félagsmanna. Það hefur komið fram í fréttum kvölds og morgna í heilan mánuð að málið snúist um hvort SA ætli að segja upp samningum, en Heimir og Ragnar ræða eins og yfir standi viðræður um kaup og kjör og verðtryggingu!? Samningar eru ekki opnir.

Við rafiðnaðarmenn erum langþreyttir á því að vera gert að sitja undir ásökunum um að við förum ekki eftir því sem einhverjir einstaklingar í öðrum stéttarfélögum vilja, eða tökum umræðulaust upp á arma okkar óskalista frá baráttuhópum út í bæ. Með þessu er verið að lítilsvirða félagslegt starf og krefjast þess að gengið sé gegn samþykktum sem teknar eru af meirihluta félagsmanna.

Á ársfund ASÍ fara fram miklar umræður bæði í sal og eins inn í vinnuhópum. Ragnar kom aldrei í ræðustól salsins og lýsti sínum skoðunum. Ég fór tvisvar í ræðustól, fyrri daginn til þess að lýsa niðurstöðu umhverfisnefndar og seinni daginn til þess að mótmæla vinnubrögðum og dylgjum í okkar garð. Ég var ekki í sama vinnuhóp og Ragnar, en mér skilst að þar hafi hann orðið uppvís að fádæma þekkingar- og skilningsleysi á starfsemi stéttarfélaga og lífeyrissjóða.

Stefna RSÍ er mótuð í félagslegu starfi innan RSÍ og komið á framfæri þar sem við á; í opinberum nefndum eða innan ASÍ. Sú stefnumótum fer ekki fram í Bítinu hjá Heimi. Þrátt fyrir það gengur okkur bara prýðilega í RSÍ og rekum gríðarlega sterkt samband. Höfum ráðstafað vel á annað hundrað milljóna til þess að styðja við bakið á atvinnulausa fólkinu okkar það sem af er þessu ári. Rekum lífeyrissjóð þar sem allir stjórnarmenn úr rafiðnaðargeiranum og eru sjóðsfélagar og kosnir. Sjóð sem hefur hækkað réttindi um 47% á síðustu árum og er með mun verðmætari réttindi en aðrir sjóðir eins og t.d. hærri makalífeyri. Þurftum að lækka réttindi í fyrsta skipti á síðasta ársfundi um 6%.