sunnudagur, 28. júní 2009

Framkvæmdir

Það er ekki af ástæðulausu að mikið var horft var til fjárfestinga þegar ræddar voru leiðir til að blása lífi í efnahagslífið við gerð Stöðugleikasáttmála. Til viðbótar við fyrirhugaðar framkvæmdir á vegum sveitarfélaga og ríkisins var horft til fjárfestingarmöguleika utan ríkisreiknings. Það er hagkerfi Íslands lífnauðsyn að skapa aukna framleiðslugetu í framtíðinni, aukna verðmætasköpun og betri lífskjör til lengri tíma litið. Án fjárfestinga er ómögulegt að viðhalda og auka framleiðslustig hagkerfisins

Staðan í íslensku hagkerfi leiðir til þess að óhjákvæmilega verður mikið fall í fjárfestingum á næstu misserum. Gera má ráð fyrir heildarfjárfestingu á árinu 2009 upp á liðlega 250 milljarða króna samanborið við um 350 milljarða 2008 og 400 milljarða þegar hæst lét 2006. Þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins gerir ráð fyrir að fjárfestingar næsta árs verði 290 milljarðar króna og 340 milljarðar 2011.

Hvað varðar framkvæmdir er helst að telja álver í Helguvík og tengdar framkvæmdir. Endurnýjun álversins í Straumsvík og tengdar framkvæmdir. Gagnaver á Suðurnesjum, Suðurlandi og á Norðausturlandi, sólarkísilverksmiðja, koltrefjaverksmiðja,og orkuver tengd þeim. Hér er um að ræða verkefni sem eru í einkafjármögnun auk þess má allt eins benda á byggingu Landspítalans, Samgöngumiðstöð, tvöföldun Hvalfjarðargangna, Vaðalheiðargöng, Suðurlandsveg, tvöföldun Kjalarnesvegar og Sundabraut.

Áberanda hefur verið í umræðu stjórnmálamanna mikil mótsögn, sem felst í því að talað er um byggingu fyrirtækja en síðan er talað gegn uppbyggingu orkuvera. Það leiðir einnig til þess að framkvæmdatími er í mörgum tilvikum óraunhæfur þar sem orka er ekki fyrir hendi nema að óverulegum hluta.

Í vinnu við stöðugleikasáttmála er talið raunhæft tala um fjárfestingaverkefni upp á 280 – 380 milljarða króna á ári næstu 3 árin. Ljóst er að það mun hafa veruleg áhrif á efnahagsframvindu næstu ára, takist að koma einhverjum hluta þessara framkvæmda á legg.

laugardagur, 27. júní 2009

Íslenska efnahagsundrið - skyldulesning??

Bók Jóns F. Thoroddsen Íslenska efnahagshrunið hefur fengið ákaflega gagnrýnislausa umfjöllun. Ég hef lesið bókina, hún er vel læsileg, vel uppsett og gott flæði í texta. Þar er farið víða og greint frá mörgum einstaklingum. Jón fer meðal annars ekki fögrum orðum um lífeyrissjóði.

Jón hefur sterkar skoðanir á ýmsum hlutum, en umfjöllun hans er sumstaðar óvönduð og ég var dáldið undrandi á því hversu auðveldlega Sigmar lét hann sleppa í Kastljósinu. T.d. er ljóst að hann hefur ekki mikla þekkingu á uppbyggingu og hlutverki lífeyrissjóða, það kemur glögglega fram í bókinni og eins í ummælum hans í fjölmiðlum og ég velti því óneitanlega hvort það eigi við um aðra hluti.

Jón kynnir sig eðli málsins samkvæmt sem fyrrverandi verðbréfamiðlara Byr þó hann hafi lengi vel unnið fyrir NordVest verðbréf, fyrirtæki sem varð nánast gjaldþrota. FME framkvæmdi athugun á starfsháttum NordVest í febrúar 2007 og gerðar voru alvarlegar athugasemdir við fjölmörg atriði á þeim tíma.

Meðal athugasemda voru:
Ekki var sérstaklega haldið utan um viðskipti starfsmanna og stjórnenda. Starfsmenn NVV höfðu í einhverjum tilfellum framkvæmt sjálfir eigin viðskipti. Stjórnendur félagsins gerðu ekki kröfu til þess að leiðbeinandi tilmælum Fjármálaeftirlitsins um lágmarks eignarhaldstíma hlutabréfa væri fylgt enda töldu þeir tilmælin ekki bindandi. Dæmi voru jafnvel um að starfsmenn seldu hlutabréf sama dag og þau voru keypt.

Gerðar voru alvarlegar athugasemdir við að ekki var farið að lögum og reglum um aðgreiningu starfssviða og að starfsmenn störfuðu samtímis á fleiri en einu starfssviði. Þannig hafði sami starfsmaður með höndum eigin viðskipti félagsins, miðlun verðbréfa fyrir viðskiptavini, umsjón með útboði verðbréfa, fyrirtækjaráðgjöf og regluvörslu. Þá hafði annar starfsmaður með höndum miðlun verðbréfa fyrir viðskiptavini, umsjón með útboði verðbréfa og fyrirtækjaráðgjöf.

Hefur Jón efni á því að hrauna yfir allt og alla? Er ekki þarna maður sem reyndi árangurslaust hvað hann gat til að komast inn í bankana þegar vel gekk, en hraunar svo yfir allt og alla þegar allt er hrunið? Það er allavega sú lýsing sem ég hef heyrt. Gott að vera vitur eftir á og þeir sem eru það ekki, er ekki viðbjargandi. Hann er svo sá sem allt sá og ekkert gerði rangt. Gaf hann engar gjafir?

föstudagur, 26. júní 2009

Staða krónunnar

Staða krónunnar er allt of lág. Með því að láta krónuna vera svona lága er verið að skapa nýjan heimatilbúinn og gríðarlegan vanda, í formi aukinna skulda upp á tæpa 1000 milljarða. Það veldur mikilli eignarýrnun, greiðsluþroti og gjaldþrotum.

Þetta er megin vandinn á meðan þetta lága gengi er látið viðgangast. Það verður nú strax að setja stefnuna á annað, annars eru stjórnendur efnahagsmála að magna vandann. Aðgerðarleysi er ákveðin stefnumörkun.

Við þekkjum vel þau viðhorf sem þeir höfðu sem voru við stjórnvölinn í Seðlabankanum. Þeim var lýst mjög vel með margendurteknum orðum fyrrv. stjórnarmanns í Seðlabankanum, rithöfundinum Hannesi Hólmstein, og Pétur Blöndal efnahagsgúrú Flokksins endurtók þau svo oft; „Það er svo gott að hafa krónuna, því þá getum við blóðsúthellingalaust leiðrétt of háa og ranga kjarasamninga verkalýðsfélaganna með því að láta krónuna falla.“

Þeir aðilar sem halda því fram að það sé fínt að láta gengið falla til að vinna sig út úr vandanum eru einungis að horfa á rekstrareikning þjóðarinnar, ávinningurinn kemur þá í hlut fárra útvalda (skuldlausra), en ekki er horft á afleiðingar þess á efnahagsreikning þjóðarinnar, og skuldir hækka um tæpa 1000 milljarða (gengisvísitala 140 - 230 = 60% hækkun)

Þessi vandi er miklu mun stærri og alvarlegri en sá ávinningur, sem kemur fram á rekstrarhlið fárra. Því til viðbótar er það ekki heldur ávinningur fyrir öll venjuleg fyrirtæki m.a. í útflutningi - að hafa svona lágt gengi þó ávinningurinn sé einhver á rekstrarhlið. Gengisfallið skapar miklu mun meiri vanda fyrir venjuleg fyrirtæki á efnahagshliðinni - þar sem aukning erl. skulda þurrkar út allt eigin fé og setur viðkomandi einingu í greiðslu stopp eða mikinn vanda.

Gengisfallið er því ekki að hjálpa neinum - nema kannski skuldlausum aðilum í útflutningi. Með leyfi á gengisstefna að snúast um þá, er ekki nóg komið að þeirri stefnu? Var henni hent úr bankanum með búsáhaldabyltingunni? Á meðan allir aðrir tapa, og yfir standa stórkostlegustu eignatilfærslur Íslandssögunar.

Hvar er kjarkurinn, Jósep Jósep; syngjum við í útilegunni og það á eins við gagnvart stjórnendum efnahagslífsins upp í Seðlabanka.

Í þessu sambandi skal haft í huga, að svona mikið gengisfall er ekki til komið af eðlilegum viðskipta- og efnahagsástæðum. Þar er um að kenna kerfishruni krónunnar og allri umgjörð hennar. Endurreisn á gengi verður því viðkomið með hefðbundnum aðferðum, þær eru ekki lengur fyrir hendi á Íslandi. Þessu veldur breytt í umgjörð krónunnar; hrunið bankakerfi, traust á fjármálamörkuðum, lánshæfnismat Íslands með lokuðum aðgang að erl. Bankakerfi og getuleysi Seðlabankans okkar sem lánveitanda til þrautavara, o.fl. o.fl.- sem gerir það að verkum að ekki er hægt að ná genginu til baka með hefðbundnum aðferðum. Þær gagnast ekki nema að takmörkuðu leiti.

Kerfisáhætta krónunnar jókst við fall bankanna. Samningar við ESB og aðstoð Seðlabanka Evrópu er okkur lífnauðsyn, eins og ég hef komið nokkrum sinnum að, með fastgengi þar til evra verður tekin upp eins fljótt og mögulegt er - í samstafi við Seðlabanka Evrópu - byggt á langtíma jafnvægisgegni (gengisvísitölu 135 -140).

fimmtudagur, 25. júní 2009

Tillögur um aukna mismunum í lífeyrismálum

Vegna athugasemda og villandi greina Benedikts Jóhannessonar ætla ég að bæta aðeins við um þetta mál, en vísa einnig til fyrri pistla minna.

Þeir sem hafa stutt þetta mál fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins hafa sett upp einfalt reikningsdæmi og fengið út úr því að það skipti lífeyrisþega engu hvort þeir greiði skatt strax eða þegar lífeyri sé tekinn út og miða þar við að 3.5% ávöxtun náist í 40 ár allan tímann.

Þetta dæmi er einfaldað, hvort það sé gert vísvitandi eða hvort viðkomandi þekki ekki skattkerfið skal ósagt látið. Það blasir þó við þeim sem þekkja til í skattamálum að inn í málið blandast persónuafsláttur og fjölmörg önnur flókin mál. Þetta ættu nú þingmenn að þekkja út og inn vegna þess að það eru þeir sem sjá um skattamálin.

Hið rétta er að ef skattfrelsismörk miðast við sömu laun og skattfrelsismörk eins og þau eru nú, gætu greiðslur til lífeyrisþegar (eftir skatt) lækkað um allt að 15%. Til að halda greiðslum til lífeyrisþega óbreyttum þyrftu skattfrelsismörk iðagjalda að miðast við töluvert hærri laun, þar sem lífeyrisgreiðslur eru yfirleitt um 50-60% af þeim launagreiðslum sem iðgjöld hafa verið greidd af, miðað við 40 ára inngreiðslutíma. Stór hluti lífeyrisþega er undir skattfrelsismörkum í núverandi kerfi. Þetta þýðir í framkvæmd að ríkið þarf að greiða sjóðfélaga út þann ónýtta persónuaflsátt sem hann hefði annars nýtt hefði skattur verið dreginn af lífeyrisgreiðslum við útgreiðslu.

Einnig blasir við að ef fara á þessa leið verður að loka núverandi kerfi. Það gæti leitt til þess að skerða þyfti réttindi sjóðsfélaga um allt að 25% í sumum sjóðum, sem er ekkert smá mál þegar það fellur ekki jafnt á alla hópa. Með þessu vex mismunum milli þeirra sem eru í ríkistryggðu sjóðunum sem flutningsmenn tillögunnar eru í og svo þeim sem eru í almennu sjóðunum, er þó sú mismunum ærinn fyrir.

Það blasir líka við að ráðstöfunartekjur lífeyrissjóða munu minnka. Þeir verða því ekki jafnvel í stakk búnir að fjármagna nýsköpun í atvinnulífinu, mæta fjárþörf ríkis og sveitarfélaga sem og að taka þátt í endurreisn fjármálamarkaða þegar fram líða stundir.

Meginreglan um skattlagningu til lífeyrisþega innan ESB er að engin skattur á iðgjöld og fjármagnstekjur en lífeyrir skattskyldur. Framkvæmdastjórn ESB hefur mælt eindregið með að sú leið verði almennt viðhöfð í aðildarríkjunum og hefur sett fram þá skoðun með ítarlegum rökstuðning í svokölluðum „Communication paper“ (COM-2001-214). Meginkostur varðandi samræmingu beitingu er sú að hún auðveldar flutning launamanna milli landa innan EES-svæðisins, þar sem hún kemur í veg fyrir tvískattlagningu lífeyrisgreiðslna eða að lífeyrir sé greiddur úr óskattaður.

Megineinkenni og styrkur núverandi lífeyrissjóðakerfis er að hver kynslóð stendur undir sínum lífeyri með sparnaði en veltir ekki kostnaðinum yfir á næstu kynslóðir eins og flestar þjóðir gera.

Lífeyriskerfi sem byggir á sjóðssöfnun mun ef það fær að búa við viðunandi starfsskilyrði leiða til samkeppnishæfara atvinnulífs í framtíðinni og þarm eð betri lífskjara. Það byggir m.a. á því að íslensk fyrirtæki muni ekki þurfa að afla verðmæta til að standa undir tröllvöxnum kostnaði vegna stóraukinnar lífeyrisbyrði sem mun óhjákvæmilega fylgja öldrun þjóða á Vesturlöndum.

þriðjudagur, 23. júní 2009

Sérhagsmunabandalagsmenn

Sú samfélagsmynd sem hafði þróast hér á landi undanfarna tvo áratugi fram að hruni var ekki gott samfélag. Þar var markaðshyggja við völd og hverdagsleikinn snérist um að tryggja einstaklingsbundna hagsmuni. Myndast hafði hagsmunabandalag sérhagsmuna.

Nýfrjálshyggjan hefur litið á myndun ríkis með ríkisafskiptum sem illa nauðsyn. Samfélag væri ímynd sem snérist um útópíska draumóra, þá líklega helst einhverra letingja. Þetta kom svo glöggt fram í viðhorfum forystumanna hægri manna hér á landi gagnvart norrænu samfélagi. Í þeirra hugum væri veruleikinn hörð sérhagsmunabarátta með gróða sem höfuðmarkmið. Þetta hefur leitt til skeytingarleysis um mannlegt siðferði, eiginleg verðmæti og afskiptaleysi í garð náungans.

Strax og hrunið blasti við kom upp á yfirborðið hver áætlunin á fætur annarri þar sem nota átti sparifé fólks sem greitt hafði í lífeyrissjóði til þess að greiða upp skuldir allra. Háværustu kallendur í þessu voru einstaklingar sem lítið eða ekkert höfðu greitt til samnignarsjóða og höfðu haft horn í síðu samtryggingarákvæða stéttarfélaga.

Þessu var réttilega mótmælt af eigendum þessa sparifjár. Því var svo svara svarað með sama hætti og Tryggvi Þór í Kastljósinu í gærkvöldi þegar hann var röklaus; „Þeir sem ekki væru honum sammála, væru í hagsmunagæslu fyrir sjálfa sig!!“ Sjáið þið ekki mótsögnina í málflutning sérhagsmunabandalagsmanninum?

Á hverjum einasta fundi meðal félagsmanna Rafiðnaðarsambandsins sem um leið eru einnig sjóðsfélagar í lífeyrissjóð; Í Guðs bænum látið þið stjórnmálamenn ekki komast í lífeyrissjóðina. Ef nota á sparifé sjóðsfélaga lífeyrissjóða til þess að greiða upp skuldir einhverra þá yrði það vitanlega skuldir þeirra sem eiga fjármunina ekki annarra.

Aðferð Sjálfstæðisflokksins skerðir lífeyri sjóðsfélaga í almennu lífeyrissjóðunum. Þessir sjóðsfélagar eiga þá fjármuni Sjálfstæðisflokkurinn ætlar nú að fara að ráðstafa um a.m.k. 15%. Aðferðin mun ekki skerða lífeyri þingmanna Flokksins og opinberra starfsmanna, það sáu þingmennirnir til og hafa allavega hingað til algjörlega hafnað því að jafna þann mun. Í stað þess hafa þeir látið það átölulaust að sjóðsfélagar almennu lífeyrisjóðanna hafa mátt una skerðingum.

Skatttekjur framtíðarinnar dragast saman vegna lækkandi skatttekna frá lífeyrisþegunum. Þá verður að hækka skattprósentuna á lífeyri. Hverjir munu fá mestu skattahækkunina? Jú, það er unga fólkið sem í dag á hvað erfiðast með lánin sín og það eru sömu einstaklingar sem á þann lífeyri sem Sjálfstæðismenn ætla að skattleggja strax.

Skatttekjur ríkisins munu verða þeim mun minni þegar að því kemur að unga fólkið í dag verður lífeyrisþegar. Skattar þess verða hækkaðir sem því nemur. Þannig að þessi kostnaður lendir á fáum og einungis þeim sem eiga þessa fjármuni.

Það er einnig svo ómerkilegt til viðbótar við hið framantalda er að Sjálfstæðismenn hafa verið fremstir í flokki um að leggja ætti lífeyriskerfið niður og auka séreignarsparnað, þegar þeir boðuðu boðskap sérhagsmunabaráttu einstaklinga og skeyttu ekki um annað en veraldlegan gróða.

Margir þeirrar hafa verið þeirrar að skoðunar víkjast ætti undan því að greiða af öllum tekjum til lífeyriskerfisins. Það væri einungis aukaskattur frá verkalýðsfélögunum, svo maður noti þeirra eigin orð. En núna standa þessir hinir sömu og gera hróp að lífeyrissjóðunum og krefst þess að það fái að njóta sparifjár þeirra einstaklinga sem hafa greitt í sameignarsjóðina.

Þórarinn tók Tryggva á hné sér

Það var pínlegt að horfa á Þórarinn og Tryggva Þór í Kastljósinu. Grátbroslegt þar sem það kom fram hjá Tryggva að skipti Sjálfstæðismenn engu þó svo það blasti við að launamenn á almennum vinnumarkið myndu tapa umtalsverðum fjármunum á þessu. Þá bara reddum við því með því að samræma lífeyrisréttindi. Það kostar kostar ríkissjóð allmarga milljarða að gera það og ríkisstjórnir Sjálfstæðismanna hafa alltaf hafnað því að samræma réttindin.

Útskýringar Tryggva voru engar, einungis ómerkilegir útúrsnúningar. Við erum búnir að láta tryggingarfræðing fara yfir þetta, sagði Tryggvi. Nú er það svo, það eru tryggingarfræðingar búnir að skrifa greinar í Moggann um þessa tillög þar sem kemur mjög skýrt fram að þessi hugmyndi Sjálfstæðismanna er skelfileg, hreint út sagt hrikaleg.

Og svo spilaði Tryggi sig endanlega frá öllu þegar hann fór að bara það á Þórarinn að viðbrögð hans og þeirra sem væru á móti tillögum Sjálfstæðismanna væru vegna þess að þar væru bara valdasjúkir menn.

Rök ná ekki til Tryggva og svörin voru út í hött. Það kom svo sem glögglega fram í haust þegar yfir stóðu umræður hvernig taka ætti á vandamálum þjóðarinnar.

Athugasemdamenn biðja um skýringar, ég skirfaði pistil fyrir nokkrum dögum um málið þar sem ég rek þessar ástæður sjá hér og einnig sjá hér og svo vitanlega virkilega góðan pistil Þórarins V í M0gganumn
Ekkert vitrænt hefur komið fram frá Tryggva, einungis dylgjur um að einhverjir séu að verja völd sín, sem er vitanlega ekki svaravert.

laugardagur, 20. júní 2009

Kjarkur og þor

Hún er áberandi sú skoðun hjá þeim mönnum sem starfa hjá efnahags- og markaðsstofnunum tengdum Evrópulöndum að innganga í ESB sé eina leið Íslands úr þeim vanda sem þjóðin á við að glíma. Íslendingar ráði einfaldlega ekki við stærsta vandann sem er öflun stuðnings við gjaldmiðilinn. Ef ekki verði tekið strax á þessum vanda þá blasi við enn meira hrun jafnvel gjaldþrot.

Það er kjarkur, þor, reynsla og tengsl okkar við nágrannalönd okkar, sem skiptir mestu máli. Í umræðum forsvarsmanna hinna norðurlandanna hefur komið fram skilningur á stöðu okkar. En þeir þurftu að beita hörku síðasta haust gagnvart þáverandi ríkisstjórn til þess að fá íslenska ráðherra til þess að horfast í augu við stöðuna og fá íslendinga til þess að takast á við vandann. Þeir höfðu reynt það árangurslaust með góðu í alllangan tíma þar á undan, það hefur svo glögglega komið fram í þeim gögnum sem hafa verið að birtast. Vinur er sá er til vamms segir.

Það þarf kjark til þess að stíga fyrstu skrefin í þeim björgunaraðgerðum sem mögulegar eru. Bresti okkar mönnum kjark í alþjóðlegum samningum mun vandinn magnast verulega - er hann þó nægur fyrir. Við sjáum hvernig fyrrverandi ráðherrar og stjórnarþingmenn láta þessa dagana. Þessi menn voru viðhlæjendur útrásarvíkinganna, jafnvel meðspilendur eins og rakið er í þeim bókum sem komið hafa út um málið.

Síðasta haust blasti öllum við ákvörðunarfælni þeirra og hvernig þeim brast kjark til þess að takast á við þann vanda sem þeir sjálfir áttu stærstan þátt í að skapa. Þetta kostaði heimilin, fyrirtækin og þjóðfélagið gríðarlegt eignartap. Almenning ofbauð svo hann fór út á götur og torg og hrakti ríkisstjórnina ásamt stjórn Seðlabanka og Fjármálaeftirlits þá frá völdum. Tillögur þeirra báru og bera reyndar enn með sér skilningsleysi á efnahagsstjórn, þar má t.d. benda á tillögur um lífeyrissjóðina.

Samningar eru ekki unnir fyrirfram, það þekkja a.m.k. þeir sem setið hafi í Karphúsinu. Margir hafa misst af gríðarlegum tækifærum - vegna þess að þá skorti yfirsýn og kjark til að ganga til samninga. Hér má minna á umsókn um ESB og vandræðaganginn hjá sumum gagnvart því máli. Í þessu máli verður að byggja á reynslu og tengslum okkar við nágrannaþjóðir. Uppgjöf nú samsvarar því að kasta frá sér bestu björgunaraðgerðum sem þjóðin á. Afleiðingarnar gætu orðið skelfilegar.

Styrking krónunnar og gengisstöðugleiki á að vera grundvallaratriði í þeim aðgerðum framundan. EES- samningurinn er lamaður á sviði fjármagnsflutninga með skelfilegum áhrifum á hagkerfið á Íslandi, það verður að leysa. Minnsta áhættan og mesti ávinningurinn er að láta reyna á samninga við ESB og Seðlabanka Evrópu. Þetta hefur komið fram hjá aðilum vinnumarkaðsins og þar hefur komið fram eindreginn vilji til aðildar að heildarsamningum, sem er mikilvægt framlag í komandi samningum við ESB.

Kjarni málsins er að láta reyna á slíka samninga ávinningur jafnvel þó hann væri ekki fullkominn væri meiriháttar sigur og reyndar forsenda þess að atvinnulífið komist í gang. Það er nefnilega í atvinnulífinu sem arður og útflutningstekjur myndast og reyndar tekjur heimila til þess að geta náð sér upp úr öldudalnum.

föstudagur, 19. júní 2009

Við höfum látið þetta viðgangast


Það er rétt sem Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra segir um að það sem helst hafi farið úrskeiðis á undanförnum árum, sé að þjóðin hafi sætt sig við alltof oft við að fyrirtæki væru á gráu svæði. Ekki hafi verið brugðist við. Einungis í örfáum undantekningum var staldrað við og sagt;„Þetta er óheilbrigt! Þarna er verið að fara mjög á svig við hinar og þessar reglur.“

„Við létum þetta soldið yfir okkur ganga," segir Gylfi og þykir mestu máli skipta að breyta þessu hugarfari og vill að aðhaldið komi frá viðskiptalífinu sjálfu. Slíkt aðhaldið felst meðal annars í því, að eiga ekki viðskipti við fyrirtæki sem starfi á gráu svæði. Hann telur að það sé skilvirkasta aðhaldið 0g þessi hugarfarsbreyting hjá þjóðfélaginu taki tíma; nokkur ár.

Þar má t.d. minna hvernig stjórnvöld tóku á þeim málum sem risu upp við Kárahnjúka. Þrátt fyrir að nánast hver einasta reglugerð hafi verið brotin. Hver einasti trúnaðarmaður á staðnum hafi kvartað með opinberum hætti í gegnum sitt stéttarfélag um launakjör, aðbúnað og öryggi starfsmanna. Eftirlitsmenn Heilbrigðiseftirlits, Brunaeftirlits og Vinnueftirlit hafi bent á brot á reglum, þá gerði ríkisstjórnin ekkert. Hún felldi niður dagsektir og ómerkti lögbundnar aðgerðir eftirlitsstofnana. Ríkisstjórnin gerði eftirlitskerfið óvirkt, sama var upp á teningunum gagnvart fjármálakerfinu.

Ráðherrar komust átölulaust upp með það í fréttatímum að ráðast gegn verkalýðshreyfingunni og saka hana um eitt og annað, þrátt fyrir að fyrir lægju rök um hið gagnstæða. Fréttamenn stóðu sig ekki í að gagnspyrja. Ef þeir gerðu það þá fengu þeir tilkynningu frá viðkomandi ráðherra um að þeir myndi ekki tala framar við þann fréttamann.

Ríkisstjórnin tók allar eftirlitsstofnanir úr sambandi og vék sér undan að fjalla um raunveruleikann. Ætíð voru mættir á staðin lögmenn þekktir fyrir öfgakennd frjálshyggjuviðhorf og vörðu vafasamar aðgerðir fyrirtækja gagnvart launamönnum.

Með þessu settu þáverandi ríkisstjórnir þjóðinni fordæmi, sem átti eftir að hafa afdrifaríkar afleiðingar. Nánast allt varð heimilt í samskiptum fyrirtækja við umhverfi sitt, svo framarlega að viðkomandi hlaut ekki dóm í réttarsölum. Ef einhver möglaði þá risu upp hinir öfgafullu frjálshyggjulögmenn og hótuðu meiðyrðamálum.

Sjónarmið ráðherranna einkenndist af óábyrgri sjálfumgleði, hér væri spillingarlaust samfélag. Einnig má benda á vinnubrögð ríkisstjórnarinnar við ráðningu hæstaréttardómara, héraðsdómara, sendiherra, háskólaprófessors, eftirlaunaósómann og fleira. Það var Ríkið sem brást og það leiddi til siðrofs í samfélaginu og í hennar skjóli varð ríkjandi það viðhorf að sjálfsagt sé að hámarka sinn arð, sama hvaða aðferðum var beitt.

Framkoma nokkurra fjármögnunarfyrirtækja hafa verið miskunnarlaus og laus allra siðlegra viðhorfa. Þetta hefur leitt til þess að fólk sem varð undir stendur uppi réttlaust og búið að glata öllu og stendur í óviðráðanlegri skuldasúpu og er að grípa til örþrifaráða í tilraun við að opna auga stjórnmálamanna fyrir því hvert þeir hafi leitt þessa þjóð. Ríkisstjórnir undanfarinna ára hafa hreykt sér af því að við höfum komist hjá því að fylgja alþjóðlegum regluverkum í viðskiptum og skapað íslenskt efnahagsundur. Hvert leiddi það okkur? Hvar stöndum við?

Dómkirkjan lokuð 17. júní fyrir öðrum en valdastéttinni, Austurvöllur þakinn löggæslumönnum gráum fyrir járnum. Með hverjum degi vex sú áhætta að gripið verði til enn örlagaríkari aðgerða, en að brjóta niður hús og berja potta og pönnur.

Vegna athugasemda ætla ég að bæta við. 80% þjóðarinnar var á móti því þegar stjórnvöld ætluðu að sniðganga reglugerðir og byggja orkuver í Eyjabökkum. Landsmenn voru ekki endilega á móti orkuverinu, þeir töldu það hættulegt að stjórnvaldið ætlaði að sniðganga eigin lög. Þess má geta að nú er búið að byggja orkuver næstum því á sama stað.

Sama gerðist þegar þáverandi forsætisráðherra setti saman það óbermi sem hann kallaði fjölmiðlalög. Þau voru meingölluð og sama gerðist og í Eyjabakkamálinu. Landsmenn voru ekki á móti fjölmiðlalögum, en þeir voru á mót þeim óskapnaði sem einn maður vildi kalla fjölmiðlalög. En hann lagði ekki í að láta þjóðina kjósa um óskapnaðinn og vildi heldur ekki viðurkenna mistök sín. Það er við þennan einstakling að sakast að þjóðin á ekki sín fjölmiðlalög, það er að segja alvörulög fjölmiðlalög.

miðvikudagur, 17. júní 2009

Tillögur um endanlegt skiptbrot Íslands


Hér hæðist Halldór á frábæran hátt að ummælum þingmanna Flokksins um að það hafi verið reglugerðaverk EES sem tók ákvörðum um að leggja landið í rúst. Þáverandi ráðherrar stóðu í vegi, gera reyndar enn, fyrir einu leiðinni úr vandanum; Að halda áfram á þeirri braut sem lagt var af stað og ganga í ESB. Það er ástæða þess að við stöndum í þessum heimatilbúna vanda Flokksins.

Upplýsingarnar/staðfestingar streyma til okkar daglega hvað gerðist í raun og veru. Það er ljóst að þáverandi stjórnarþingmenn og ráðherrar gerðu gys af ábendingum og aðvörunum um hvert stefndi og voru meðhlæjendur í glysferðum íslenska efnahagsundursins. Það er ekki hægt annað en furða sig á að einhver taki mark á fyrrverandi ráðherrum og stjórnarþingmönnum, sé litið til ummæla þeirra þá og svo nú. Þeir vita harla lítið um vitræna efnahagsstjórn, en samt stilla sumir fréttamenn sér upp fyrir framan þá og taka við þá viðtöl og þeir bulla og bulla og bulla.

En eru þeir að bæta í dótakassann sinn og leggja fram enn eina „það rignir peningum og allir hádegisverðir eru fríir" reddingum. Nú á að bjarga ríkissjóð með því að innheimta fyrirfram skatta af lífeyrisgreiðslum sem greiðast eiga í fjarlægri framtíð.

Hvaðan skyldu nú þeir peningar eiga nú að koma í raun og veru? Skatttekjur framtíðarinnar munu vitanlega dragast saman vegna lækkandi skatttekna frá lífeyrisþegunum framtíðarinnar.

Hvað þá? Hvað verður þá um tekjutengdar bætur, útgjöld ríkissjóðs munu margfaldast samfara snarlækkandi skatttekjum. Vitanlega verður að bjarga tekjutapi ríkissjóðs því með því að að hækka skattprósentuna á þeim sem þá munu fá skattfrjálsan lífeyri. Hverjir eru það? Jú, það er unga fólkið sem í dag. Á það fólk ekki nóg með að standa skil á lánunum sem það situr uppi með eftir efnahagsstjórn þessa flokks, á líka að rísa ellilífeyri þess?"

Tillagan gengur út á að ríkið hirði 40% strax. Hinn hlutinn fer í sjóðmyndunarkerfi eins og því sem allt frjálsa lífeyrissjóðakerfið byggist nú á, og það á þá að greiða skattfrjálsan lífeyri vegna þeirra réttinda sem myndast í framtíðinni. Í raun á að breyta öllu lífeyriskerfinu í gegnumstreymiskerfi. Allt kerfið fer í lífeyrisgreiðslur og kostnað til ríkissjóðs. Það verður engin uppsöfnum.

Hvað á unga fólkið í dag að gera í framtíðinni? Það hefur margoft komið fram að upp úr 2015 fara stóru barnasprengjuárgangarnir að skella á lífeyriskerfinu og upp úr 2020 verður kerfið komið í jafnvægi, það er að sú uppsöfnun sem nú fer fram á að duga fyrir lífeyri þá og það mun fara meir út úr kerfinu en far inn í það.

Í sinni einföldustu mynd að upp úr 2020 verður það hlutfallslega lítill hluti þjóðarinnar sem greiðir skatta, hratt vaxandi hluti þjóðarinnar verða lífeyrissþegar. Framtíðarútreikninga sýna að þá munu skatttekjur ríkisins einungis duga fyrir ellilífeyri, engu öðru. Það var á þessum forsendum sem menn lögðu af stað með uppsöfnunarkerfi, til þess að vera undir það búnir þegar stóru barnasprengjuárgangarnir komast á lífeyrisaldur.

Ef lífeyriskerfinu verður breytt í gegnumstreymiskerfi, eins og Sjálfstæðismenn eru að leggja til, mun koma að skuldadögunum og baggi ungu kynslóðarinnar í dag verður þá óbærilegur.

Lífeyriskerfið í dag er eins sterkt og raun ber vitni vegna þess að hver kynslóð stendur undir sínum lífeyri með sparnaði og veltir ekki kostnaðinum yfir á næstu kynslóðir

Við þeim þjóðum sem ekki hafa byggt upp uppsöfnunarkerfi blasir þjóðargjaldþrot upp úr 2020. Það er þess vegna að t.d. Norðurlandaþjóðirnar eru þessa dagana að hamast við að byggja upp samskonar kerfi og við höfum verið að byggja upp síðan 1970. Okkur dugar „bara“ 12% iðgjald. Iðgjaldið í Danmörku er t.d. 20% vegna þess að þeir byrjuðu svo seint, og það blasir við þeim að þurfa að hækka enn frekar iðgjaldið.

Þingmenn Flokksins hafa margoft sýnt að þeir hafa takmarkaðan skilning á lífeyriskerfinu það kom t.d. fram þegar þeir lögðu af stað með eftirlaunaósómann sinn sem átti ekki að kosta neitt, eða í mesta lagi 6 millj. kr. eins og Davíð sagði og þingmenn og ráðherrar flokksins fögnuðu. Sá kostnaður var kominn langleiðina í milljarð þegar eftirlaunaósóminn var loks afnumin fyrir nokkrum vikum. Tillögur Flokksins um lífeyriskerfið er trygging fyrir endanlega skipbroti Íslands.

Óskandi væri að Flokkurinn stillti alvöru fólki til þingsetu og hætti þessum skemmdarverkum á íslensku samfélagi og láti núverandi kerfi í friði og hætti að veltið skuldbindingum yfir á ungu kynslóðina. Flokkurinn er þegar búinn að koma henni í nægan vanda. Hún ræður ekki við fleiri vandamál.

Fjármunir lífeyrissjóðanna munu taka fullan þátt í endurreisn þjóðarinnar, uppsöfnunin mun reyndar bjarga henni, ef okkur tekst að halda þingmönnum Flokksins frá kerfinu.

mánudagur, 15. júní 2009

Á brún hengiflugsins

Ég hef alloft komið að því hér á þessari síðu að forsenda endurreisnar er aðild að ESB. Ef ekki verður gripið til markvissra aðgerða strax þá mun endurreisn taka langan tíma og mun leiða til ennfrekari eignatilfærslu, langvarandi atvinnuleysi og óhóflegri skuldsetningu.

Aðilar vinnumarkaðs hafa lagt áherslu á að reynt verði hraða allri uppbyggingu og endurskoðun reksturs sveitarfélaga og ríkis verði látinn ganga hratt fyrir sig. Umsókn um aðild að ESB fyrir lok þessa mánaðar er ein helsta forsenda endurreisnar. Ganga þarf til samstarfs við Seðlabanka Evrópu til að treysta bakland og gengi krónunnar, þar til skipt verður um gjaldmiðil.

Þetta er nauðsynlegt ef takast á að reisa bankakerfið og koma á eðlilegum lánaviðskiptum. Byggja verður upp traust og trúverðugleika erlendis á íslenska gjaldeyris- og fjármálakerfinu til að endurreisa krónuna, þar til evra væri tekin upp. Þetta er forsenda þess að fá aðgengi að erlendum fjármálamörkuðum.

Gjaldeyriskreppan er af þeirri stærðargráðu að við hana verður ekki ráðið nema til komi alþjóðleg aðstoð. Með umsókn um aðild að ESB og samstarfi við Seðlabanka Evrópu má gera krónuna af starfhæfum gjaldmiðli, þar til evra væri tekin upp og aflétta höftum á gjaldeyrismarkaði. Einungis með slíku samstarfi er það mögulegt.

Styrking krónunnar myndi létta verulega á greiðslubyrði vegna lána atvinnulífs, einstaklinga, sveitarfélaga og ríkis og forða því yfirvofandi miklum gjaldþrotum og draga umtalsvert úr þörf á niðurskurði í fjárlögum ríkisins. Styrking krónunnar er forsenda endurreisnar og um leið mikilvægasta leiðin til að koma hjólum atvinnulífsins aftur í gang og að ná niður vöxtum á Íslandi.

Takist ekki að komast út úr gjaldeyriskreppunni á skömmum tíma vaxa líkur á því að gengið festist í allt of lágri stöðu. Það mun grafa undan verðgildi lífeyrissparnaðar landsmanna í íslenskum krónum miðað við verð í erlendum gjaldmiðlum. Með því siglum við inn í fátæktargildru til langs tíma. Eignatilfærsla innan þjóðfélagsins yrði stórfelldari og varanleg og er þó nóg fyrir. Þennan skaða verður að stöðva með öllum tiltækum ráðum.

Því er svo mikilvægt að styrkja gengi krónunnar. Slíkt er einungis mögulegt með aðild að Evrópusambandinu og samstarfi við Seðlabanka Evrópu. Með slíku samstarfi mætti tryggja aðgengi að erlendu fjármagni og gengishækkun krónunnar. Það er forsenda þess að það takist að snúa spíralnum við svo hann fari að virka upp á við með endurreisn fjármálakerfisins, sem aftur er forsenda fyrir aðgengi að erlendu lánsfé og lánveitingum til atvinnulífs og heimila, sem kæmi hjólum atvinnulífs og hagvaxtar aftur í gang. Það að koma hjólum atvinnulífsins af stað á ný er algjör forsenda þess að ekki þurfi að skera eins mikið niður hjá ríki og sveitarfélögum.

Staðan á Íslandi er einsdæmi og afar slæm, við stöndum á brún hengiflugsins. Núverandi vandi er svo stór að við hann verður ekki ráðið nema með miklu meira samstarfi við alþjóðasamfélagið. Þess vegna er umsókn um aðild að Evrópusambandinu alger forsenda endurreisnar eins og núverandi stjórnvöld stefna að, þar sem slíkt myndi þegar í stað byggja upp traust og trúverðugleika sem er alger forsenda fyrir aðgengi að alþjóðlegu fjármagni. Annars munu niðurvirkandi spíraláhrifin valda enn meira hruni á næstunni, tíminn er mun skemmri en flestir átta sig á.

Varanleg lausn á gjaldeyriskreppunni

Baldur Pétursson, aðstoðarframkvæmdastjóri Endurreisnar og þróunarbanka Evrópu (EBRD) leggur mikla áherslu á núverandi vandi íslenska þjóðarbúsins sé svo stór að stóraukið samstarf við alþjóðasamfélagið sé lykilatriði varðandi endurreisn hagkerfisins.

Í viðtali við Markaðinn, fylgirit Fréttablaðsins nýlega, segir Baldur meðal annars: ,,Með umsókn um aðild að Evrópusambandinu, líkt og stjórnvöld stefna að, megi byggja upp traust og trúverðugleika sem sé forsenda fyrir aðgengi að alþjóðlegu fjármagni." Umsókn segir Baldur jafnframt nauðsynlega til að forða frá enn meira hruni þótt hún nægi ekki ein sér. ,,Samhliða verður að hefja samstarf við Seðlabanka Evrópu um aðgerðir til að tryggja styrkingu krónunnar og gengisstöðugleika."

Fáir Íslendingar hafa jafn mikla reynslu af samstarfi við alþjóðlegar bankastofnanir og Baldur og því mikilvægt að hlusta á aðila eins og hann sem er með puttann á púlsinum á alþjóðlega bankageiranum.

Lausn á gjaldeyriskreppunni á Íslandi er kjarni vandans, og afar brýnt að finna varanlegar langtímalausnir á því máli sem allra fyrst. Á því verða aðrar grunnaðgerðir að byggja á - m.a. er varðar endurreisn bankanna, og aðgerðir er varða lausn á greiðsluerfiðleikum - fyrirtækja, heimila, sveitarfélaga og ríkis.

Varanleg langtímalausn á gjaldeyriskreppunni er lykill og grunnur að lausn annarra stórra vandamála á Íslandi og um leið forsenda endurreisnar. Það er því allra stærsta viðfangsefnið sem framundan er. Varanleg lausn á gjaldeyriskreppunni verður að finna á allra næstu vikum og mánuðum þannig að gengið geti styrkst um a.m.k. 30% innan árs og komist í langtíma jafnvægisstöðu (gengisvísitalan 140) eftir um eitt ár.

Slíkt verkefni má ekki taka lengir tíma þar sem slíkt hefði í för með sér stórkostleg ný áföll og eignartilfærslur, samhliða því að sparnaðar og lífeyrisskerfi landsins yrði fyrir stórfelldum skaða - enda eyðilegging og tjón því meira sem gjaldeyriskreppur standa lengur. Lausn á slíkum kreppum er því kapphlaup við tímann.

Varanlegar lausnir á gjaldeyriskreppunni verða hinsvegar ekki gerðar nema á grunni umsóknar um aðild að ESB, og notkun á neyðarrétti innan EES sem beita á í samningum við ESB og Seðlabanka Evrópu. Þetta stafar af því að á Íslandi eru ekki til staðar nægjanlega öflug tæki og aðferðir til að ráða við þennan gríðarlega vanda.

Þetta stafar m.a. af því að engin fordæmi eru fyrir svo mikilli gjaldeyriskreppu sem er á Íslandi og því duga ekki gömul tæki og aðferðir. Það var einnig hluti af því áfalli sem þjóðin varð fyrir að of lengi var beitt gömlum tækjum og aðferðum þrátt fyrir að aðstæður væru gjörbreyttar, en það voru mikil mistök á sviði áhættustjórnunar. Slík mistök má ekki endurtaka.

Varanleg lausn á gjaldeyriskreppunni er hið stóra verkefni framundan sem allt veltur á. Þær viðbótaraðgerðir sem þetta krefst varða lögfræði og hagfræði, en þó umfram allt annað - alþjóðleg tengsl og reynslu af alþjóðlegum samningum og samskiptum. Sýn á lausn og hafa diplómatíska festu og þor til að standast álag í samningaviðræðum til að ná þeirri lausn fram sem stefnt er að. Í slíkum samningum er ekkert 100% fyrirfram, heldur eru þetta atriði sem berjast þarf fyrir á yfirvegaðan, diplómatískan og raunsæjan hátt, skref fyrir skref í nauðvörn þjóðar.

Með tilliti til þessa er grein varaformanns Sjálfstæðisflokksins þar sem hún ræðst á regluverk EES og ber á það þær sakir að það hafi tekið efnahagslegar ákvarðanir hér á landi, ekki sú ríkisstjórn sem hún starfaði í. Það sem helst að sakast um er eins og margoft hefur komið fram að ríkistjórn Þorgerðar Katrínar tók ekki á þessu regluverki með því að sækja um aðild að ESB. Það blasir við að það aðgerðarleysi eru alvarlegustu mistök sem gerð hafa verið í íslenskum stjórnmálum.

laugardagur, 13. júní 2009

Fréttir úr Karphúsinu

Það reynir sannarlega á manndóm ráðherranna þessa dagana. Fyrir liggja tveir valkostir, skera rösklega niður ríkisútgjöld og hækka skatta til þess að rífa samfélagið út úr þeirri stöðu sem fyrri ríkistjórnir undir stjórn Sjálfstæðisflokksins hafa komið þjóðinni í og gera það á 2 -3 árum með 25 MIA plani á þessu ári og 50 MIA plani 2010 og 2011.

Hinn kosturinn er að gera lítið, halda áfram og neita að horfast í augu við vandann og þá mun vaxtabyrðin vaxa ennfrekar og íslenskt samfélag í núverandi mynd sökkva með langvarandi atvinnuleysi, fólksflótta og tvöfaldri gengisfellingu.

Sé litið til ummæla ráðherra er greinilegt að sumir vilja taka strax á vandanum, en öðrum er það greinilega ofvaxið. Ljóst er að Ögmundur er í gríðarlegum vanda hafandi verið leiðtogi opinberra starfsmanna og núverandi heilbrigðisráðherra. Hann heldur þessa dagana á mörgum „sjóðheitum kartöflum“ svo ég noti algengt orðlag stjórnmálamanna.

Það er ákaflega erfitt fyrir okkur verkalýðsleiðtoga að sitja dögum saman í Karphúsinu undir endalausum útskýringum og útreikningum hagfræðinga, sem starfa hjá aðilum vinnumarkaðs, sveitarfélögum og stjórnvöldum, þegar þeir fara yfir þjóðhagslega stærðir hvað hin eða þessi aðgerð muni spara mikið og hversu mikið hinn eða þessi skatturinn muni auka tekjur ríkisins. Þar liggja undir hnífnum margt af því sem verkalýðshreyfinginn hefur lamið í gegn hvað varðar samfélagsgerðina og aðstoð við þá sem minnst mega sín.

En á hinn bóginn blasir það við að best væri að fara þá leið sem Göran Person sænski ráðherrann sagði við okkur í vetur þegar hann fór yfir það hvernig Svíar unnu sig út samsvarandi vanda á árunum 1992 – 1996. "Horfist í augu við vandann. Takið strax á honum og gerið það á eins stuttum tíma og hægt er."

Ég hef spáð því nokkrum sinnum hér á þessari síðu að það muni verða núverandi stjórnmálamönnum um megn að gera þetta og það verði kosningar næsta vetur. Reyndar ætla ég að bæta við; það blasir við að ekki hjálpa margir af embættismönnum okkar upp á þetta ástand. Það virðist vera þeim tamt að gera það sem þeim finnst þægilegast. Ef óþægilegar tilskipanir berast þá fara þeir ekki eftir þeim eða draga framkvæmd þeirra eins og hægt er. Eins og höfum séð í vetur.

Það blasir við okkur þessa dagana að eitt af stóru vandamálum íslensks samfélags er og hefur verið; afburða slakir embættismenn, sem hafa komist í stólana á því einu að vera þægir ríkjandi flokksforystu helmingaskiptaflokkanna undanfarin 18 ár. Samfara tiltekt í efnahagsmálum þarf að fara fram allsherjar hreinsun í embættismannakerfinu.

Það er forvitnilegt að heyra allan tvískinnunginn gagnvart lífeyrissjóðunum. Margir hafa sagt að losa eigi þjóðina sem fyrst við þá, en allir tala um að eignir lífeyrissjóðanna sé eini bjarghringur okkar. Nú hafa Sjálfstæðismenn lagt fram tillögu um að taka 40% af eigum þeirra og setja í ríkiskassann, skítt með þó það hafi alvarlegar afleiðingar í framtíðinni.

En á sama tíma eru líka uppi tillögur um að nota alla tiltæka fjármuni lífeyrissjóðanna til framkvæmda í atvinnulífinu (líka þessi 40%), samhliða tillögum um að taka alla tiltæka fjármuni þeirra og kaupa ríkistryggð skuldabréf sveitarfélaga, samhliða tillögum um að setja alla tiltæka fjármuni í uppbyggingu orkuvera.

Lausnin virðist vera samsagt fólgin í því að nýta sömu fjármunina 3 – 4 sinnum. Reyndar gleyma flestir því að ef losa á fjármuni lífeyrissjóðanna þá þarf að selja ríkistryggð skuldabréf íbúðarlánasjóðs og leggja hann í rúst, jafnframt því að selja aðrar eignir. Hverjir eiga að kaupa þessar eignir svo fjármunirnir séu tiltækir?

Reyndar má benda á annað, hvernig ætla menn að fara að því að byggja stækka álverið í Straumsvík, byggja nýtt í Helguvík, reisa 2 gagnaver, byggja koltrefjaverksmiðju, reisa kísilverksmiðju Elkem í Hvalfirði án þess að virkja allt sem hægt er að virkja í Þjórsá? Ef það má ekki þá þarf að virkja eitthvað annað t.d. Hvítá í Borgarfirði og Hvítá í Árnessýslu og Jökulsá á Fjöllum.

Og lítil spurning í restina hvernig ætla menn að fjármagna þessa uppbyggingu orkuveranna án þess að selja þau í hendur erlendra aðila? Það hefur komið fram að við blasi að það verði erfitt ef ekki næstum ómögulegt að fjármagna íslensku orkuveiturnar, nema þá að hækka gjaldskrár þeirra um helming. Það er reyndar ekki hægt gagnvart stærstu kaupendunum, þeir eru með 40 ára samninga. Þannig að það verður að senda þann reikning til íslenskra heimila í sama umslagi og skattahækkanir verða og tilkynningar um hækkun á þjónustugjöldum og niðurfellinga á bótum í tryggingarkerfinu.

Já lesandi góður þú skilur kannski hvernig okkur líður í Karphúsinu þegar við lesum glærusýningar hagfræðinganna.

föstudagur, 12. júní 2009

Hlutverk og ábyrgð stjórnarmanna í lífeyrissjóðum

Hjálagt er erindi sem undirritaður flutti við kynningu á siðareglum ASÍ til stjórnamanna lífeyrissjóða.

Umfjöllun um lífeyrissjóðina í vetur var ákaflega grunn og byggðist að verulegi leiti á órökstuddum upphrópunum. Hinni venjubundnu aðferð að koma ábyrgð yfir á aðra, sem er ákaflega rík í íslendingum. Það er lögreglunni að kenna ef börnin okkar eru full niður í bæ um helgar. Það er sök kennarans ef börnin okkar fá lélegar einkunnir og aðgerðaleysi löggunnar um að kenna takist þér að ná heim á bílnum mínum, þó svo þú sért búinn að svolgra 6 tvöfalda.

Sjóðsfélagar komast ekki hjá því að horfast í augu við þær kröfur sem þeir hafa sett fram og rökstutt af miklum krafti. Hámarks ávöxtun. Ávöxtun sem sé vel yfir því sem ríkistryggð skuldabréf gefa af sér. Það hefur reyndar tekist og lífeyrissjóðir hafa ávaxtað sitt pund það vel að þeir hafa unnið upp það tímabilið frá 1970 – 1980 þegar eignir þeirra brunnu upp á verðbólgubálinu.

Sjóðsfélagar verða einnig að líta til þess ramma sem löggjafinn hefur sett lífeyrissjóðum hvað varðar fjárfestingar. Þriðjung í erlendum eignum og hitt í skráðum félögum eða tryggðum bréfum. Við lifum í örhagkerfi með takmörkuðum fjárfestingarkostum. Lífeyrissjóðirnir urðu í sumum tilfellum einfaldlega að taka áhættu ef þeir ætluðu að uppfylla kröfur sjóðsfélaga og samfélagsins um hámarksávöxtun.

Sjónarmið íslendinga hafa í vaxandi mæli um of einkennst af óábyrgri sjálfumgleði. Við séum fremst í heimi og hér sé spillingarlaust samfélag. Stjórnarþingmenn undanfarinna tvo áratuga hafa farið þar fremstir í flokki um að telja okkur í trú um þessa stöðu og skapað með því falskt öryggi og jafnvel kæruleysi.

Siðrof varð í samfélaginu og ríkjandi það viðhorf að sjálfsagt sé að hámarka sinn arð, sama hvaða aðferðum var beitt. Markaðshyggja og sérhyggja hefur verið vaxandi hér undir forystu frjálshyggjusjánarmiða með áherslu á eigin hagsmuni og frelsi til allra athafna, án þess að tillit sé tekið til hagsmuna annarra eða afleiðinga. Viðhorf margra hafa í sinni einföldustu mynd verið að allt sé réttlætanlegt, á meðan þú hlýtur ekki dóm í réttarsölum.

Í viðskiptum hér á landi hefur á undanförnum árum ekki verið gerður munur á Pókerspili þar sem blekkingar eru eðlilegur hluti leiksins og svo viðskiptum þar sem traust og siðferði á að ríkja. Staðan hefur oftar en ekki verið sú að það sé þér að kenna ef þú gerðir ekki ráð fyrir því að sá sem þú áttir viðskipti við beitti þig vísvitandi blekkingum.

Þessa dagana eru að birtast í fréttum lýsingar á því hvernig ráðandi aðilar í viðskiptalífi og um leið í bönkunum spiluðu á kerfið og beittu vísvitandi blekkingum. Fyrir liggja upplýsingar um að á sama tíma og sölumenn bankanna héldu fjárfestingarkostum að lífeyrissjóðum sem tryggum og góðum kostum, þar má t.d. nefna hluti í góðum og traustum fyrirtækjum eins og Flugleiðum eða Eimskipum eins og þessi fyrirtæki voru þegar þau voru í eðlilegum rekstri. En á sama tíma voru sömu aðilar að skipta þessum félögum upp og færa þaðan eignir og skuldsetja fyrirtækið.

Skyndilega án nokkurrar aðvörunar frá söludeildum bankanna áttu lífeyrissjóðir ekki hlutabréf í góðu fyrirtæki, en sátu uppi með hlutabréf í einhverju vafasömu og skuldsettu fjárfestingarfyrirtæki. Verðmætin voru horfin af yfirborði íslenskrar jarðar til skattaskjóla einhvers staðar út í heimi. Eftir stóð lífeyrissjóðurinn með verðlítil hlutabréf.

Siðareglur eru ekki lög og geta aldrei komið í stað þeirra. Það er ekki hægt að setja reglur um alla skapaða hluti. Eldhúsveggirnir myndu ekki duga ef við skrifuðum þar allt það sem börnin okkar mættu ekki gera. En við ölum þau upp við traust og siðferðilegt innsæi.

Það má með sanni segja að stjórnendur lífeyrissjóða hefðu mátt vera áberandi í umræðu um ábatasamninga bankanna, kaupréttarsamninga og ofurlaun. Þeir fjármunir sem í það runnu komu sannarlega fram í minni arði hlutahafa. Sama gilti starfslokasamninga og ráðningarsamninga. En starfsmönnum lífeyrissjóða eiga nokkra réttlætingu, þar vísa ég til þess sem ég sagði hér fyrr um örhagkerfið. Staðan hefur verið sú að ef lífeyrissjóður samsamaði sig ekki þeim leikreglum sem bankamenn og verðbréfasalar ástunduðu, þá stóð lífeyrissjóðunum einfaldlega ekki til boða kaup á ábatasömum bréfum.

Einnig er ástæða að minna á í þessu sambandi þau lög sem í gildi eru um takmörkun á erlendum fjárfestingum lífeyrissjóða og eins bann við kaupum á fasteignum.

Við í verkalýðshreyfingunni höfum mátt sitja undir ásökunum um nánast allt sem miður hefur farið. Ákvarðanir um fjárfestingar eru ekki teknar á skrifstofum verkalýðsfélaga, en við erum þó hinn eini aðili sem hefur axlað ábyrgð. Formaður VR varð að víkja. En án þess að ég ætli að dæma hans stöðu, þá er það þó ljóst að innan bankakerfisins og meðal opinberra embættismanna eru margir sem hafa unnið til mun víðtækari saka, en sitja enn sem fastast.

Vitanlega eigum við að geta gert okkur grein fyrir því hvort gjöf eða boð í einhverja glysferð sé í samræmi við stöðu okkar. Það á að vera óþarfi að setja um það reglur. Öllum hlýtur að vera ljóst að laxveiði hefur ekkert með fjárfestingar lífeyrissjóðs að gera, eða þaðan af síður knattspyrnuleikur í London þangað sem farið er á einkaþotu og ríkulegir málsverðir ásamt glæstum gistingum fylgja.

En það er samt sem áður nauðsyn að setja upp ramma. Viðhorf fylgja tíðaranda í samfélaginu og viðhorf árið 2007 eru allt önnur en í dag. Það er eðlilegt að nýta þann lærdóm sem við höfum á svo sársaukafullan hátt orðið fyrir. Eðlilegt að skrá hann niður sem minnismiða fyrir þá sem taka við af okkur.

Í vinnu lífeyrisnefndar ASÍ kom í ljós að flestar stjórnir lífeyrissjóðanna annað höfðu sett sér leiðandi reglur eða samþykkt að fylgja reglna Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar og vegvísis OECD fyrir fjölþjóðleg fyrirtæki um ábyrgan fyrirtækja rekstur. Einnig er ástæða að taka það fram að í vinnu nefndarinnar kom ekkert fram sem benti til annars en að stjórnarmenn nýttu eðlileg siðferðileg viðhorf við mat sitt við ákvarðanatöku. Á öllu er hægt að finna einhverja undantekningu, en það er ekkert sem hefur komið sem gefur tilefni til þeirra alhæfinga sem viðhafðar hafa verið. En það breytir engu um að ástæða er að setja leiðbeinandi reglur og eins að þessi vinna haldi áfram.

Hér eru þær reglur sem er full samstaða um að vinna eftir .

Miðstjórn ASÍ beinir því til stjórnarmanna í lífeyrissjóðum að fram fari opin og lýðræðisleg umræða um samfélagslega ábyrgð í fjarfestingum sjóðanna. Slík umræða er mikilvægur hluti af því endurmati sem nú fer fram í samfélaginu. Miðstjórn leggur til að unnið verði útfrá neðangreindum hugmyndum lífeyrisnefndar ASÍ að reglum um samfélagslega ábyrgar fjárfestingar lífeyrissjóðanna en leggur jafnframt áherslu á mikilvægi áframhaldandi upplýstrar umræðu um innihald, tilgang og gildi slíkra reglna. Lagt er til að stofnuð verði sérstök Siðanefnd lífeyrissjóðanna á vettvangi Landssambands lífeyrissjóða sem fái það hlutverk að móta reglurnar áfram og fjalla um álitamál sem upp kunna að koma. Miðstjórn beinir því jafnframt til íslenskra stjórnvalda að þau beiti sér fyrir kynningu á framgangi Vegvísis OECD fyrir fjölþjóðleg fyrirtæki (OECD Guidelines for Multinational Enterprises) sem eru víðtækar fyrirmyndarreglur um ábyrgan fyrirtækjarekstur fyrir öll fyrirtæki.

Hugmyndir Lífeyrisnefndar ASÍ að reglum um samfélagslega ábyrgar fjárfestingar lífeyrissjóðanna :

  • Sjóðurinn tekur ekki þátt í fjárfestingum sem orka tvímælis út frá almennum siðferðisreglum.

  • Sjóðurinn leggur ítarlegt mat á fjárfestingarkosti sína og kappkostar að fjárfesta í fyrirtækjum sem eru vel rekin og hafa jafnframt siðræn gildi að leiðarljósi. Í því felst m.a. að viðhafa góða stjórnunarhætti, sýna samfélagslega ábyrgð og ábyrgð í umhverfismálum
  • Sjóðurinn leggur áherslu á að þau fyrirtæki sem fjárfest er í starfi samkvæmt lögum og reglum, virði alþjóðlega sáttmála um mannréttindi, réttindi launafólks, barnavinnu og umhverfisvernd.
  • Sjóðurinn leggur áherslu á að fyrirtæki sem fjárfest er í starfi innan ramma alþjóðlegra leiðbeinandi reglna, s.s. reglna Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar og vegvísis OECD fyrir fjölþjóðleg fyrirtæki um ábyrgan fyrirtækja rekstur.
  • Sjóðurinn leggur heildstætt mat á stjórnun og starfsemi fyrirtækis út frá þáttum á borð við: framleiðsluvörur þess, framleiðsluferli, sambandi við viðskiptavini, fyrirtækjamenningu, eignarhald og hagsmuni eigenda. Meðal annars metur sjóðurinn hvort fyrirtæki komi beint eða óbeint að framleiðslu á vopnum sem notuð eru á þann hátt að það brýtur gegn grundvallar mannréttindum.
  • Sjóðurinn byggir mat sitt á opinberum upplýsingum og upplýsingum sem fyrirtækið sjálft veitir. Mat er lagt á afstöðu stjórnar og ábyrgð fyrirtækis og stjórnun með hliðsjón af ofangreindum þáttum.
  • Sjóðurinn fylgir eftir öllum fjárfestingum sínum og skal ekki eiga hlut í fyrirtækjum sem uppfylla ekki reglur sjóðsins um samfélagslega ábyrgar fjárfestingar.
  • Sjóðurinn tekur tillit til ákvarðana Siðanefndar lífeyrissjóðanna og fjárfestir ekki í fyrirtækjum sem nefndin leggst gegn að fjárfest sé í.
  • Sjóðurinn skal í árskýrslu sinni gera grein fyrir fjárfestingum sínum með sérstakri hliðsjón af stefnu í samfélagslega ábyrgum fjárfestingum.

sunnudagur, 7. júní 2009

Umsvif útrásarvíkinga skipulögð glæpastarfsemi?


Fréttir undanfarna daga sannfærir mann að umsvif íslenskra auðmanna og útrásarvíkinga var skipulögð og meðvituð glæpastarfsemi. Hið íslenska efnahagsundur sem sjálfstæðismenn hrósuðu sér svo ákaft af og fóru um heimsbyggðina og stærðu sig af var óskhyggju. Í skjóli afskiptaleysis þessarar sjálfumglöðu óskhyggju dældu nokkrir einstaklingar úr íslenska hagkerfinu öllum verðmætum sem þeir komust yfir og fluttu í leynileg skattaskjól. „Það var Ríkið sem brást“ hefur Páll Skúlason heimspekingur sagt og það er svo satt.

Félagar okkar í nágrannalöndum vöruðu við, en svör höfunda efnahagsstefnunnar segir okkur allt um hver staða stjórnarþingmanna var. Innistæðulausar fullyrðingar um að ekki væri hægt að bera hið íslenska efnahagsundur saman við önnur hagkerfi, það sem þeir hefðu skapað upp á Íslandi væri svo sérstakt og mun betra.

Þegar íslensk stjórnvöld voru sökuð um sofandahátt og aðgerðaleysi á meðan hér stefndi hraðbyri í þrot svaraði Þorgerður Katrín; að þessir erlendu menn ættu að skella sér í endurmenntun. Hvað vissu þessir menn um íslenska aðstæður? Þekktu þeir ekki hina einstöku kosti íslensku útrásarvíkinganna, sem væru öðrum mönnum snjallari í viðskiptum undir þetta tók forseti Íslands og hyllti íslensku útrásarvíkingana og fjárfestingar þeirra á alþjóðavettvangi.

Nú blasa við veruleiki hinnar skelfilegu efnhagsstjórnar hrikalegur niðurskurður og ofboðsleg skuldsetning. Ríkið hefur á undanförnum árum þanist út undir stjórn þess flokks sem hefur gefið sig út fyrir að vera andstæður auknum ríkisafskiptum. En nú hrylla sig þessir hinir sömu þingmenn þeirra flokka, sem voru hvað lengst í ríkisstjórn yfir þeim niðurskurði sem er væntanlegur.

Og þeir hrylla sig enn meir þegar flett er ofan af þeirri stöðu sem þjóðin situr eftir þeirra stjórnartíma. Flest okkar hafa vonast til þess að samstaða náist um að taka á vandanum. Aðilar vinnumarkaðs hafa tekið með ábyrgum hætti þátt í greiningu vandans og mótun tillagna um úrlausnir.

Á meðan tala forystumenn stjórnarandstöðuflokkanna digurbarkalega um úrræða- og aðgerðarleysi stjórnarinnar. Engin málefnaleg umræða af þeirra hálfu og ekki liggja fyrir neinar tillögur frá þeim um niðurskurð eða hvernig auka megi tekjur ríkissjóðs. Þessir flokkar sem einbeittu sér að hagsmunagæslu í valdauppbyggingu og pólitískri uppskiptum á eigum ríkisins. Ísland þróaðist undir þeirra stjórn í að verða spilltasta land í hinum vestræna heimi.

Þingmenn horfðust í augu við það sem fyrir lá í kosningabaráttunni í vor, mikill niðurskurður og aukning tekna ríkisins. Atvinnuleysistryggingasjóður verður gjaldþrota eftir tvo mánuði. Þetta vissu stjórnmálamenn þegar þeir buðu sig fram buðu sig fram til starfa og nú eru þeir komnir á launaskrá skattgreiðenda til þess að takast á við vandann.

Almenningur hefur í allan vetur krafist þess að stjórnmálamenn taki til við málefnalega umræðu og vinnubrögð, ekki tilgangslaust og innihaldslaust málþóf. Icesave og AGS eru staðreyndir sem íslendingar geta ekki vikið sér ekki undan. Það vita þeir sem eru núna í stjórnarandstöðu, sé litið til ummæla þeirra þegar þeir voru fyrr í vetur hinum megin við borðið. Þetta er harðasti andstæðingur þessara staðreynda þá Steingrímur J. búinn að átta sig á núna og viðurkenna villu síns vegar.

Íslensk umræðulist er verulega löskuð. Hún einkennist á upphrópunum og órökstuddum klisjum sem menn hendi sín á milli, sjaldan fer fram upplýst umræða á Alþingi. Það var óheillavænlegu þróun þegar ráðherrar og æðstu embættismenn virtu Alþingi einskis. Alþingi varð að afgreiðslustofnun ákvarðana sem nokkrir ráðherrar ásamt tilteknum embættismönnum tóku án nokkurrar umræðu á Alþingi eða samskipta við aðila í atvinnulífinu.

Hvort er afleiðing eða orsök? Hafa ráðherrar og embættismenn gefist upp á því að eiga vitræna umræðu í Alþingi, eða hefur umræðan á Alþingi þróast á þennan veg sakir þess að þingmenn þekkja tilgangsleysi sitt?

Icesave-samkomulagið er eina leið Íslands að alþjóðasamfélaginu. Það hefur legið ljóst fyrir og ég hef margoft komið að því í pistlum hér að ef Ísland vildi fá aðstoð frá nágrannaþjóðum þá varð Ísland að spila eftir settum leikreglum. Aðkoma AGS fékkst ekki fyrr en það lá fyrir að Ísland myndi semja um Icesave. Það var einnig skilyrði lána norrænu vinaþjóða okkar. Þetta hefur legið fyrir alveg í alllangan tíma.

fimmtudagur, 4. júní 2009

Áfram frost

Aðilar vinnumarkaðs, ekki bara ASÍ og SA heldur öll heildarsamtök launamanna auk samningamanna sveitarstjórna og fjármálaráðuneytis hafa unnið undanfarnar vikur að því að ná saman stöðuleikasáttmála, sem er grundvöllur þess að við komumst í gegnum þennan öldudal og náum atvinnulífinu í gang.

Það eru því gríðarleg vonbrigði að stýrivextir skyldu ekki hafa verið lækkaðir meira en um eitt prósentustig í morgun. Hér fylgir Seðlabankinn hávaxtastefnu sinni, þrátt fyrir að það blasi við að hún hefur alltaf virkað öfugt. Hún hefur aukið verðbólgu og erfiðleika, ekki lækkað verðbólgu. Seðlabankinn tók upp þessa stefnu við mótun þeirrar peninga og efnahagstefnu sem sigldi öllu hér í strand október síðastliðinn.

Hvar í veruleikanum stjórnendur Seðlabankans eru liggur ekki fyrir, en það er alveg ljóst að þessi vaxtastefna útilokar að það verði hér einhverjar fjárfestingar sem er forsenda þess að efnahagslífið fari að hjarna við. Ekkert fyrirtæki tekur lán til framkvæmda sama á við um heimilin. Fasteignasala verður áfram í sama frosti. Verðlag verður áfram hátt vegna mikils vaxtakostnaðar.

Sé litið til yfirlýsinga forsvarsmanna SA undanfarið þá eru umtalsverðar líkur að það verði áfram frost í Karphúsinu og þeir fari heim úr Karphúsinu á morgun og snúi sér að öðrum verkefnum. T.d. að undirbúa 17. júní.

mánudagur, 1. júní 2009

Viðkvæm staða í Karphúsi

Nú eru samningaviðræður í Karphúsinu á viðkvæmu stigi. Telja má næsta víst að í lok þessarar viku liggi fyrir hvaða stefna verði tekin. Það var í byrjun þessa árs sem Samtök atvinnulífs lögðu fram tvo kosti, annars vegar að segja samningum upp eða fresta launahækkunum sem koma áttu 1. mars til 1. janúar 2010 og launahækkunum 1. janúar 2010 yrði frestað til loka árs 2010 og hún yrði hluti af upphafshækkun í næsta kjarasamningi.

Þetta kom síðan opinberlega fram í bók þeirra í febrúar ,,Hagsýn framsýn og áræðin atvinnustefna.á bls. 11: ‘’Samtök atvinnulífsins telja mikilvægt að leita samkomulags um breytingar og æskilegt er að tryggja frið á vinnumarkaði á næstu misserum. Þær leiðir sem til greina koma eru m.a. að fresta öllum launahækkunum fram á haust og taka þá ákvörðun um framlengingu samninga eða uppsögn en þá mun liggja betur fyrir hvernig efnahagslægðin þróast og hversu mikið vextir og verðbólga hafa lækkað.

Þá kemur til greina að ákveða strax nýja tímapunkta fyrir þær hækkanir sem samið hefur verið um annað hvort með eða án opnunarákvæðis á milli hækkana til þess að endurmeta stöðuna. Ennfremur kemur til greina að launahækkunum 1. Mars verði frestað og taki gildi t.d. í byrjun næsta árs. Á síðari hluta árs 2010 verði síðan ákveðið hvenær umsamin launahækkun 1. janúar 2010 komi til framkvæmda.’’

Báðum þessum hugmyndum hafnaði samninganefnd ASÍ strax, ekki yrði samþykkt svona mikil frestun á launahækkunum. Þegar ljóst var að kosið yrði til Alþingis 25. apríl lagði samninganefnd ASÍ að freista þess að ná sameiginlegri niðurstöðu með nýrri ríkisstjórn með Stöðugleikasáttmála frekar en segja samningum upp og taka upp viðræður um það. Niðurstaða yrði að liggja fyrir í júní 2009.

Aðildarfélög ASÍ með um 95% félagsmanna sambandsins samþykktu að fara þessa leið. Stjórnir 6 stéttarfélaganna með 5% félagsmanna ASÍ hafa voru þessu ósammála og hafa forsvarsmenn þessara félaga beint ákaflega ómaklegum og ódrengilegum aðdróttunum í garð forsvarsmanna allra hinna félaganna, sem hafa unnið sér það eitt til saka að fara að samþykktum sinna félagsmanna og reynt að verja kjör og hagsmuni þeirra við aðstæður sem vart eiga sér hliðstæðu í hinum vestræna heimi.

Viðræður ASÍ og SA hanga nú á bláþræði, en samninganefndin hefur algerlega hafnað að semja um frekari frestun launahækkana en orðið er. SA hefur á sama hátt algerlega hafnað að greiða launahækkanirnar að fullu frá 1. júlí n.k. og fátt sem getur leyst þennan hnút.

Samninganefndir landssambanda munu funda næstu daga um framhaldið. Sé litið til fullyrðinga forsvarsmanna hinna 6 stéttarfélaga eru líkur á að upp samstöðunni slitni og samningsumboðið fari til hvers landssambands. Þau munu síðan hvert í sínu lagi hefja undirbúning að nýjum viðræðum með mótun kröfugerðar, gerð viðræðuáætlunar og í framhaldi af því samningaviðræður.

Þær viðræður munu örugglega taka alllangan tíma, sumarið er komið og engin staða til þess að þrýsta á viðræður. Á meðan verður ekki um það að ræða að ganga frá neinum Stöðugleikasáttmála og hafa aðkomu að mótun ríkisfjármála eða velferðarkerfisins, sem væri miður sé litið þeirrar stöðu sem er uppi í atvinnulífinu þessa daganna.