fimmtudagur, 31. mars 2011

Innistæðutryggingar

Björn Ólafsson stjórnmálahagfræðingur skrifar áhugaverða grein í síðustu Vísbendingu um hlutverk innistæðutrygginga. Þar rekur hann ástæðu þess hvers vegna innistæðutryggingakerfum var komið á fót fyrir rúmri öld og hvers vegna flest ríki hafi staðfest að þau undirgangist þær reglur sem um þau ríkja, þar á meðal Ísland.

Innistæðistæðutryggingakerfi voru meðal annars sett á fót til að tryggja að venjulegt fólk, sem ekki hefur tök á að meta gæði útlána eða stöðu fjármálastofanna geti lagt sparnað sinn í viðskiptabanka, undir eftirliti hins opinbera, fullvisst um að fá þetta fé aftur tilbaka, án mikilla tafa eða óvissu um endurheimtur, ef bankinn fer í gjaldþrotameðferð.

Fjármálastöðugleiki og þjóðarhagsmunir hafa vegið þungt í umræðunni á seinni árum. Vantraust á bönkum og áhlaup gera engan greinarmun á vel eða illa reknum bönkum. Innistæðutryggingar eru taldar vera ein leið til þess að draga úr líkum á bankakreppum og minnka þá áhættu sem felst í óstöðugu fjármálakerfi.

Ein helsta forsenda fyrir innistæðutryggingum er að almenningur er yfirleitt ekki í aðstöðu til þess að meta gæði banka. Þetta kom glögglega fram hér á landi, því það var ekki aðeins almenningur sem lét blekkjast, heldur einnig innlendir og erlendir eftirlitsaðilar og þeir gáfu út heilbrigðisvottorð fram á síðasta dag.

Að teknu tillit til þess er það harla langsótt að íslenskum almenningi sé nú ætlað það vandasama hlutverk að leggja mat á áhættuna af nýgerðum Icesave-samningi, þar sem verðmæti eignasafns Landsbankans skiptir miklu máli, auk mats á fleiri þáttum svo sem gengisþróunar.

Alþingi samþykkti að senda samninganefnd til Breta og Hollendinga. Valdir voru bestu menn til þess starfs af Alþingi af fulltrúum allra stærstu flokkanna. Samninganefndin hefur notið aðstoðar færustu sérfræðinga. Yfirgnæfandi meirihluti Alþingis samþykkti samninginn, eftir að hafa haft aðgang að færustu sérfræðingum til þess að meta niðurstöðu samninganefndarmanna. Þetta atriði eitt út af fyrir sig segir til um stöðu þessa samnings og Íslands.

Lagaleg ábyrgð Íslands er útskýrð í áliti ESA vegna Icesave og hefur röksemdafærslunni ekki verið hnekkt að neinu leyti. Í áliti ESA er einnig sýnt fram á að jafnræðisregla EES hafi verið brotin. Verði þessu máli vísað til dómstóla eru yfirgnæfandi líkur á því að Íslendingar tapi málinu. Bæði hvað varðar ríkisábyrgð á innistæðutryggingunni og fyrir brot á jafnræðisreglu. Samningstaða íslands er næsta vonlaus eftir þann dóm.

Sé litið til þeirra vaxta sem íslenskum fyrirtækjum og sveitarfélögum standa til boða vegna stöðu Íslands í ruslflokki lánamála, má benda á að Reykjanesbær var að fá lán með 7% vöxtum. Orkufyrirtækin taka ekki lán þó þeim standi það til boða vegna þess að arðsemi þeirra framkvæmda sem nota á lánin til er þá kominn út í hafsauga. Hátæknifyrirtækni eru annað hvort að flytja höfuðstöðvar sínar til útlanda eða stofna þar útibú, svo þau hafi aðgang að erlendum lánum á viðráðanlegum vöxtum.
Þetta er sú staða sem blasir við ef Icesave samningurinn verður felldur. Það var áhættusækni núverandi kynslóðar sem leiddi yfir okkur Hrunið. Það er því verið að bera í bakkafullan lækinn að bæta um betur og vísa enn meiri áhættu til barna okkar og barnabarna.

sunnudagur, 27. mars 2011

Sjálfskaparvítið

Eins og margoft hefur komið fram þá eru að rekstrarhorfur alþjóðlegra fyrirtækja sem staðsett eru hér á landi slæmar, eiginlega svo slæmar að þau eru að hrökklast úr landi, allavega með aðalstöðvar sínar svo þau hafi aðgang að eðlilegu viðskiptaumhverfi.

Í raun hefur aldrei verið mögulegt að ræða um rekstrarhorfur fyrirtækja í því sveiflukennda ástandi sem hér hafi verið um áratuga skeið. Forsvarsmenn tæknifyrirtækjanna líkja uppbyggingu í atvinnustarfsemi hér á landi við það að búa í árfarvegi. Hann er frjósamur og góður. Þar er fullt af sprotum og mikil gróska. En svo fer að rigna. Þá kemur flóð og það ryður öllum sprotunum í burtu.

Þegar grynnkar aftur í ánni þá fara stjórnmálamenn aftur að talað um hvað farvegurinn sé góður og gott að hafa blessaða krónuna. Þetta gerist á tíu ára fresti og þá fer fram gríðarleg eignaupptaka hjá launamönnum á íslenskum vinnumakaði.

Það er sama hvort krónan er fasttengd, undir höftum eða handstýrð. Það hafa verið reynd ýmis kerfi með krónuna en ekkert virkar. Það er lífnauðsynlegt að finna varanlega lausn á gjaldmiðlamálum Íslendinga.

Myntsvæði heimsins hafa stækkað síðustu ár og orðið einfaldari. Það haldist í hendur við alþjóðavæðinguna og aukinn hraða í samskiptum og viðskiptum. Forsvarsmenn alþjóðlegra tæknifyrirtækja hér á landi hafa margoft líst undrun á andstöðu stjórnmálamanna gegn aðild Íslands að ESB. Þar ráða þeir sem hafa mikla hagsmuni af því að beita sér gegn ESB og beita öllum klækjum til að mála það sem vond útlendingasamtök sem vilji koma höndum yfir allt sem hér er.

Uppbygging og afkoma íslenskra fyrirtæki byggist á því að geta fengið samkeppnishæfa fjármögnun erlendis. Krónan er aftur á móti tæki fyrir stjórnvöld til að stýra kaupmætti almennings án þess að hann upplifi það. Leiðrétta blóðsúthellingalaust of góða kjarasamninga. Aðilar atvinnulífsins gagnrýna harðlega þær tafir sem orðið hafa á endurreisn efnahagslífsins. Það má skrifa á barnaskap stjórnmálamanna.

Þessi litla þjóð sem stendur frammi fyrir þessum mikla vanda má ekki við svona löguðu. „Kerfið“ hefur verið lamað í ár. Það hefði verið auðvelt að díla við hrunið. Grunnhagkerfi landsins beið ekki tjón og enginn dó. En síðan komu stjórnmálamenn með sín vanabundnu meðul; gjaldeyrishöft og umræðunni haldið í málþófi um tittlingaskít og hártoganir í kringum Icesave.

Þetta er okkar vandamál og það er algjörlega sjálfskapað af stjórnmálamönnum þessa lands.

fimmtudagur, 24. mars 2011

Þingmenn vilja hækka laun verkalýðsforingja

Var að sjá í fjölmiðlum að þingmenn Hreyfingarinnar hafa lagt fram frumvarp á Alþingi um þak á laun forsvarsmanns stéttarfélags eða hagsmunasamtaka launafólks og þau eigi að takmarkast við þreföld lágmarkskjör í kjarasamningum viðkomandi stéttarfélags.

Þingmennirnir telja að baki þessarar tillögu séu rík sanngirnissjónarmið enda eru þessi laun greidd úr sameiginlegum sjóðum verkalýðsins. Með þessu telja þau tryggt að hámarkið sé ákvarðað þannig að launin séu samkeppnishæf svo að hæft fólk fáist til starfans. Ég er viss um að margir stjórnarmenn stéttarfélaga komi til með að eiga erfitt með að sætta við svona aðdróttanir um að þeir séu að fara illa með félagssjóð.

Flutningsmenn telja jafnframt rétt að vekja athygli á því að setning hámarks sem er á þennan hátt bundið lágmarkskjörum getur verið forsvarsmönnum mikilvægur hvati til að berjast fyrir bættum rétti félagsmanna þar sem hækkun lágmarkslauna getur leitt til beinnar hækkunar launa þeirra segir í greinargerð með frumvarpinu.

Mér lýst ákaflega vel á þessa tillögu hvað það varðar að þá gæti ég farið fram á allt að þrefalt hærri laun en ég er með í dag, eða um 800 þús kr. daglaun og síðan yfirvinnuálag og stjórnunarálag ofan á þá upphæð. Ég er með, eins og allt starfsfólk Rafiðnaðarsambandsins, laun samkvæmt einum af kjarasamningum sambandsins, sem reyndar hefur komið alloft fram hér á þessari síðu. Ég er með nákvæmlega sömu laun og aðrir starfsmenn hjá sambandinu utan þess að ég er með verkstjóraálag, eins og kveðið er á um í kjarasamningum.

En mér finnst tillaga þeirra aftur á móti ákaflega einkennileg og reyndar í henni ósmekklegar aðdróttanir gagnvart stjórnarmönnum stéttarfélaga. Ég er næsta viss um að hin 18 manna miðstjórn sambandsins, sem ákvarðar laun okkar starfsfólksins sé ekki eins hrifinn. Stjórnin ákvarðar þessi laun og þau eru vitanlega í reikningum sambandsins og borinn upp þar á ársfundum. Um helmingur félagsmanna Rafiðnaðarsambandsins eru með hærri regluleg laun en ég, sem mönnum finnst í lagi og ég hef ekki gert athugasemdir við.

Miðstjórn RSÍ myndi örugglega aldrei samþykkja að ég fengi þrefalt hærri laun en kjarasamningar sambandsins kveða á um og ef henni dytti það í hug þá væri það snarfellt á næsta ársfundi. Ég er líka næsta viss um að stjórnin myndi aldrei samþykkja að breyta núverandi fyrirkomulagi um að við starfsmennirnir séum með laun samkvæmt gildandi kjarasamningum.

En mig grunar aftur á móti að þingmennirnir átti sig ekki á því hvað þeir eru að tala um, það kemur reyndar æði oft fyrir stjórnmálamenn þegar þeir fjalla um kaup og kjör á vinnumarkaði að þeir opinbera fyrir okkur fullkomið skilningsleysi á því hvernig þessu er háttað. þeir séu að bera saman strípuð grunndaglaun lágmarkstaxta við heildarlaun með þeim kjörum sem kjarasamningar og reglur á vinnumarkaði kveða á um. Sá samanburður er oft notaður þegar fólk er að bera saman launakjör og í sumum tilfellum.

En ég væri til í að samþykkja um 34% launalækkun ef ég fengi samskonar lífeyrisréttindi og skattafríðindi og þingmenn hafa. Og ég væri til í að hafa samskonar vinnuskyldu og þeir með sömu sumar- og vetrarfrí.

Starf mitt er reyndar í mörgu mjög svipað og þingmanna, lestur laga- og reglugerða, samningar, samkipti við fólk um allt land og margir fundir og mikil ferðalög. Vinnutímu er langur og óreglulegur. "Þú ert alltaf í vinnunni" segir konan oft, "sama hvar við erum. Síminn í gangi eða þú ert að tala við menn um allskonar vandamál."

Icesave

Nýi Icesave samningurinn gerir ráð fyrir að Tryggingarsjóður innistæðueigenda og fjárfesta (TIF) endurgreiði brestum og hollenskum stjórnvöldum þær fjárhæðir sem þau hafa nú þegar lagt út vegna lágmarkstryggingar við innistæðueigendur Landsbankans í Bretlandi og Hollandi.

Áætlað er að samningurinn kosti ríkissjóð um 27 MIA. Sé litið til 500 milljarða útgjalda ríkisins vegna gjaldþrots Seðlabankans, stofnun nýju bankanna þriggja, stuðnings við SpKef, Sjóvá, Lánasjóð landbúnaðarins og Íbúðalánasjóðs er heildarkostnaðurinn vegna skuldbindinga TIF 6,4% af þeirri upphæð. Inn í hana vantar þó líklega hundruð milljóna í annan óbeinan kostnað svo hlutdeild TIF er enn lægri. Stærstu útgjaldaliðurinn er gjaldþrot Seðlabankans upp á 175 milljarða eða 35% af þessari upphæð.

Vextir vegna samningsins eru fastir út árið 2016 og reiknast frá 1. okt. 2009 í stað 1. jan. 2009. Verði greiðslum ekki lokið að fullu árið 2016 munu vextir verða svokallaðir CIRR vextir, sem eru þeir lægstu sem tíðkast í lánasamningum erlendra aðila. Í samningnum eru efnahagslegir fyrirvarar með þaki á árlegar greiðslur úr ríkissjóð. hvað þessi atriði myndum við standa algjörlega óvarin verði horfið frá samningaleið.

Lánshæfi Íslands ekki bara ríkissjóðs heldur einnig allra fyrirtækja í landinu hefur skaðast vegna dráttar á lausn Icesave deilunnar. Lánshæfismat ríkissjóðs lækkaði í kjölfar þess að forsetinn synjaði Icesave lögunum staðfestingar í ársbyrjun 2010. Alþjóðleg matsfyrirtæki telja að leið Íslands út úr efnahagsvandanum sé torveldari á meðan Icesave deilan er óleyst. Þessi afstaða hefur komið fram í lánshæfismati þeirra á Íslandi.

Icesave deilan hefur því áhrif á möguleika Íslands til að fá lán á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og einnig og ekki síður á vaxtakjör á þeim lánum sem kunna að fást. Þetta á við um möguleika okkar við að taka ný lán til fjárfestinga, endurfjármögnun á eldri lánum og svo vaxtakostnað vegna þess.

Þau lán sem hafa fengist eru beint eða óbeint háð því skilyrði að Icesave deilan leysist. Á endurfjármögnum hefur þegar reynt og mun reyna þegar líður á þetta ár og vextir skipta hér gríðarlega miklu. Þetta hefur valdið því að hagvöxtur hefur orðið minni en áætlanir gerðu ráð fyrir og það stefnir í gríðarlegan vanda við gerð næstu fjárlaga. Mun meiri en var síðasta haust. Gatið stefnir í að vera um 30 MIA stærra en gert var ráð fyrir, sem getur ekki leitt til annars en enn meir niðurskurðar og enn meiri skattahækkana.

Hér má minna á að hvert prósentustig í hagvexti gefur árlega 15 MIA og ástæða að geta þess sérstaklega að það er endanlega tapað og tekur síðan tvöfalt meira á í endurreisn að ná því tilbaka. Þannig að við erum töluvert fjær því að ná markmiðum okkar um að minnka atvinnuleysi og auka tekjur í landinu, endurvinna kaupmátt og vitanlega tapar ríkissjóður umtalsverðum skatttekjum.

Takist að hrinda þeim fjárfestingaráformum sem nú er unnið að í framkvæmd mun það hafa úrslitaáhrif á efnahagslífið. Draga myndi úr atvinnuleysi og hagvöxtur aukast sem myndi skila verðmætum sem nema um 120 MIA fyrir þjóðfélagið í heild á næstu þremur árum. fyrir liggur að stór hluti þessara fjárfestinga ráðast af því hvort okkur takist að tryggja okkur lánsfé á erlendum mörkuðum.

miðvikudagur, 23. mars 2011

Samræming lífeyrisréttinda

Samræming lífeyrisréttinda hafa verið áberandi í umræðu á þeim fjölmörgu félagsfunda sem ég hef sótt undanfarin misseri. Óþol hefur farið vaxandi vegna þess óréttlætis sem ríkir milli annars vegar þeirra launamanna sem eru í samtökum opinberra starfsmanna og hins vegar þeirra launamanna sem starfa hjá hinu opinbera en eru félagsmenn í aðildarfélögum ASÍ, ásamt þeim mikla fjölda launamanna sem starfa á almennum vinnumarkaði.

Lífeyriskerfi opinberra starfsmanna er ekki sjálfbært og hefur safnast þar upp um 500 milljarða króna halli sem ríki og sveitarfélög eru í ábyrgð fyrir, með örðumorðum iðgjöld duga ekki fyrir þeim skuldbindingum sem sjóðirnir lofa, þessi vandi heldur áfram að vaxa og er nú að verða óviðráðanlegur. Þessi staða er ekki tilkominn sakir þess að sveitarfélögin og hið opinbera hefi ekki skilað iðgjöldum. Það þarf annað hvort að hækka iðgjöld eða skerða réttindi.

Af hálfu opinberra starfsmanna hefur jafnan verið lögð áhersla á að verja áunnin réttindi opinberra starfsmanna, og að réttindi á almennum vinnumarkaði verði hækkuð til jafns við opinbera vinnumarkaðinn. Samstaða hefur verið að mér hefur skilist meðala allra stéttarfélaga um að allt lífeyriskerfið verði sjálfbært, þannig að hver kynslóð standi undir sínum réttindum, en hvíli ekki á bakábyrgð launagreiðanda.

Félagsmenn aðildarfélaga ASÍ hafa fallist á þessa kröfu, en þeir hafa einnig vakin athygli á því að aðilar verði að gera sér grein fyrir því að það muni leggja gríðarlegar byrðar á ríki og sveitarfélög sem fyrirfram er vitað að muni leiða til niðurskurðar á þjónustu og uppsagna opinberra starfsmanna. Launamenn á almennum vinnumarkaði telja sig hafa skoðun á því í hvað fjármunum ríkis og sveitarfélaga verði varið í framtíðinni.

Launamenn í aðildarfélögum innan ASÍ hafa við samningsgerð í vetur sett fram kröfur um jöfnun lífeyrisréttinda, ekki að réttindi annarra launamanna verði færð niður. SA eftir framkomnar kröfur farið fram á að fá upplýsingar um áform stjórnvalda varðandi lífeyriskerfi opinberra starfsmanna.

Ef ætlunin er að jafna lífeyrisréttindi almenns launafólks að réttindum opinberra starfsmanna, sé mikilvægt að fá upplýsingar um áform hins stjórnvalda og sveitarfélaga í lífeyrisréttindum sinna starfsmanna. Þetta hefur komið fram í viðræðum við stjórnvöld.

Í þeim viðræðum hefur komið fram að öll stéttarfélögin séu sammála um að lífeyriskerfin séu sjálfbær og ekki verði um frekari skuldaaukningu, umfram þá 500 milljarða sem nú þegar hafa safnast upp og lenda munu á skattgreiðendum næstu árin. Sé litið til þessa er útilokað að skilja ummæla sem hafa verið viðhöfð um þessi réttindamál almennra launamanna þar á meðal eins ráðherra og nokkurra þingmanna.

þriðjudagur, 22. mars 2011

Erfiðar ákvarðanir

Umræðunni miðar oft lítið og hlutunum snúið á haus. Það eru stjórnmálamenn sem fara með ákvarðanatöku í atvinnuuppbyggingu. Það voru ekki stéttarfélög sem tóku ákvarðanir um hvort byggja ætti álver í Straumsvík og Reyðarfirði, það voru stjórnmálamenn.

Það reis upp deila í Karphúsinu við gerð Stöðugleikasáttmála þegar stjórnvöld lögðu fram lista um stækkun Ísal, Helguvík og Bakka, ásamt gagnaverum, kísilverum og fleiri orkufrekra framkvæmda og jafnvel streng yfir hafið til Skotlands. Við spurðum árangurslaust hvaðan orkan ætti að koma og hvort búið væri að samþykkja nauðsynlegar línulagnir. Fullyrt var af hálfu stjórnmálamanna og sveitarstjórnarmanna að þetta væri allt á áætlun.

Síðar kom í ljós að svo var ekki, allar aths. ASÍ voru réttar og Stöðugleikasáttmálinn fjaraði út á þeim grunni. Það er fantaskapur af stjórnvöldum að boða fjölgun starfa í svona ástandi vitandi að með því sé verið að vekja óraunsæjar væntingar hjá atvinnulausu fólki.

Á það hefur verið ítrekað bent að að þessi atvinnumálastefnu gangi ekki upp nema þá að ríkisstjórnin taki upp breytta ákvarðanatöku í orkumálum. Stéttarfélögin hafa verið að biðja um atvinnumálastefnu og ekkert sérstaklega um álver og hafa bent á marga aðra möguleika. T.d. hefur á þessari síðu margoft verið bent á hvar fjölgun ativnnutækifæra hafi verið í rafgeirnanum, það er hjá sprota- og tæknifyrirtækjum. Þar má benda á að styrkir til sprota- og tæknifyrirtækja er brot af því sem varið er til stóriðju. Eins nauðsyn þess að hér verði tekinn upp alvöru gjaldmiðill sem er forsenda þess að sprota- og tæknifyrirtæki þrífist í þessu efnahagsumhverfi.

Allir sem þekkingu hafa á þessum málum vita að ef framlögð atvinnustefna stjórnvalda á að ganga upp á næstu 3 - 4 árum, með því sem búið er að samþykkja, er það ekki framkvæmanlegt nema með því að virkja neðri hluta Þjórsár, annað er blekking.

Ríkisstjórnin verður þar af leiðandi að koma fram og segja fólkinu í landinu og ekki síst fólkinu á Suðurnesjum að annað hvort að hún sé hætt við Helguvík eða að hún ætli að virkja Þjórsá.

Nú nálgast lokaferli gerð kjarasamninga. Því hefur algjörlega verið hafnað að þessi atvinnustefnu verði aftur hluti af forsendum kjarasamninga, nema að fyrir liggi marktækar áætlanir um hvernig leysa eigi orkumálin. Það hefur kallað á mikinn vandræðagang þar sem stjórnmálamenn hafa áttað sig á að þeir haga lokað sig inni í eigin blindgötum og eru þessa dagana að undirbúa afsökunarferli með ASÍ og karllægan ásetning atvinnulífsins fremst á blaði.

Það er freistandi eftir gærdaginn að setja þetta í stærra samhengi. Það mun reynast mörgum um megn að horfast í augu við lausnir í orkuvandann, eigi atvinnustefnu þeirra að ganga upp. Hagkerfið er að verslast upp. Þar er stór þáttur óleyst Icesavemál. Margir hafa orðið til þess að slá sér á brjóst og sagt að þeir hafi haft sigur á innihaldlausum hræðsluáróðri um hér myndi allt fara fjandans til ef landsmenn höfnuðu Icesave og þeir hafi sparað íslensku samfélagi milljarðatugi.

Það þarf ekki glögga menn til þess að sjá að spádómar atvinnulífsmanna rættust um vaxandi uppdráttarsýki vegna í óleystra Icesave-samninga. Vitanlega notuðu margir of dökka liti í sínum málflutningi, en afleiðingar þess að atvinnulífið fékk ekki aðgang að eðlilegum tengslum við alþjóðlega markaði og lánalínum blasa við. Þetta hefur komið fram í ummælum margra af forsvarsmönnum stærstu fyrirtækjanna og orkufyrirtækjanna.

Hagvöxtur hefur verið að dragast saman og tekjur samfélagsins að minnka, verðmætasköpun er minni vegna þess að 15% vinnuafls er frá vinnu. Skatttekjur eru þar af leiðandi minni og velta í viðskiptalífinu minni. Þarna á óleyst Icesave stóra sök. Það stefnir í að í fjárlagagatið hafi stækkað um 30 MIA og mun gera fjárlagagerð fyrir næsta haust nánast óbærilega. Það verður ekki hjá því komist að hækka skatta enn frekar og skera enn meira niður við gerð næstu fjárlaga.

Eða svo maður segi það bara beint út; stjórnmálamenn komast ekki hjá því að taka mjög óvinsælar ákvarðanir á næstu vikum eigi að leysa þá hnúta sem fyrir okkur liggja. Þar dugar ekki að reka AGS á dyr og verja öllum gjaldeyrisforaðnum í að losa um jöklabréfin og taka við óviðráðanlegum vaxtakjörum. Ekki heldur að skipta um nafn á gjaldmiðli landsins og það verður að klára Icesave. Ákvarðanir sem eru sumum stjórnmálamönnum er um megn að taka.

laugardagur, 19. mars 2011

Loksins umræða um lífeyrisréttindin

Ég vill byrja á því að þakka forsvarsmönnum stéttarfélaga tiltekins hóps opinberra starfsmanna, sem búa við ríkistryggð réttindi, að koma loksins umræðunni um þessi réttindi í fjölmiðla og viðurkenna forréttindi sín. Hingað til hefur það verið nánast ómögulegt og málinu undantekningalaust rutt út af borðinu þegar við forsvarsmenn stéttarfélaga launamanna á almennum markaði og hluta starfsmanna hins opinbera, höfum vakið máls þessu óréttlæti.

Þar höfum við nefnilega verið að ræða við opinbera embættismenn og stjórnmálamenn sem hafa búið sjálfum sem þessi góðu réttindi. Málið snýst um að á næstu árum verður að skerða lífskjör almennings umtalsvert til þess að standa undir þessum réttindum auk þess að hækka tekjuskatt um 3 – 4%

Á almennum vinnumarkaði eru iðgjöld launamanna og launagreiðenda til lífeyrissjóða samtals 12% af heildarlaunum, en 15,5% hjá ríkinu og 16,0% hjá sveitarfélögunum. Samkvæmt lögum er miðað við að sjóðir á almennum vinnumarkaði tryggi að lágmarki 56% meðalævitekna á mánuði í mánaðarlegan lífeyri en samsvarandi hlutfall er 76% hjá hinu opinbera. Lífeyrisaldur á almennum vinnumarkaði er nú 67 ár en 65 ár hjá opinberum starfsmönnum. Þennan mun vilja launamenn á almennum markaði jafna og búa við samskonar kjör og aðrir, það er hægt sé að sækja skerðingar í ríkissjóð.

Á almennum vinnumarkaði er kerfinu gert að vera sjálfbært og iðgjöld og ávöxtun þeirra standi undir lífeyrisréttindum, en aftur á móti er það ríki og sveitarfélög sem ábyrgjast tiltekin réttindi í sjóðum opinberra starfsmanna. Þar hefur safnast upp verulegur halli og voru lífeyrisloforð umfram eignir í B-deild LSR (og LH) í árslok 2009 um 392 milljarðar króna og í sjóðum sveitarfélaganna um 43 milljarðar.

Halli B-deildarinnar hefur vaxið hratt á liðnum árum einkum vegna hinnar s.k. eftirmannsreglur og viðmiðunar við dagvinnulaun opinberra starfsmanna í stað vísitölu neysluverðs. Skuldir deildarinnar halda áfram að vaxa og að lokum er reikningurinn sendur til á skattgreiðenda í framtíðinni. Almennu lífeyrissjóðirnir verða hins vegar að mæta þessu með skerðingu lífeyrisréttinda sjóðfélaga. Þetta birtist okkur vel við Hrunið þegar almennu lífeyrissjóðirnir þurftu lögum samkvæmt að skerða réttindi lífeyrisþega sinna umtalsvert til að rétta stöðu sjóðanna, en á sama tíma stóðu réttindi tiltekinna opinberra starfsmanna óbreytt og tryggð með skattpeningum almennings.

Hvað varðar eftirlaunasjóð Alþingis má samkvæmt útreikningum hagdeildar Samtaka atvinnulífsins leggja þau að jöfnu við 23 - 35% mánaðarlega launauppbót. Umframlífeyriskjör ráðherra sem gegndi embætti í þrjú kjörtímabil eru ígildi 85 -102 m.kr. starfslokagreiðslu og 66 - 79% mánaðarlegrar launauppbótar. Umframlífeyriskjör þingmanna að jöfnu við 23 - 35% mánaðarlega launauppbót.

Í dag ávinna launamenn í almennum lífeyrissjóðum sér árlega lífeyrisrétt sem nemur frá 1.2% til 1,47%. Fyrir sama iðgjald ávinna útvaldir ríkisstarfsmenn sér lífeyrisrétt sem nemur um 1,9%, að allt að 50% hærri réttindi en sjóðsfélagar í almennu lífeyrissjóðanna hafa. Réttindastuðull þingmanna er í dag 2,4% af launum. Þingmenn eru 29 ár að ávinna sér 70% eftirlaunarétt. Almennir launamenn eru 41 ár að ávinna sér 56%, eða 25% mismunun.

Réttindastuðull ráðherra þegar búið er að lækka ávinnslustuðul úr 6% í 4,8% af launum. Ráðherrar eru þar með 14,5 ár að ávinna sér 70% eftirlaunarétt og þurfa eftir það ekki að greiða af launum sínum í lífeyrissjóð svo fremi þeir greiði í lífeyrissjóð opinberra starfsmanna. Til samanburðar má geta þess að þá hafa sjóðfélagar almennu sjóðanna unnið sér inn að meðaltali um 16% lífeyrisrétt eftir 14,5 ára greiðslu í sjóðinn.

Meginmarkmiðið sem unnið er eftir við endurnýjun kjarasamninga þessa dagana er að allir lífeyrissjóðir starfi á sjálfbærum grunni líkt og sjóðir á almennum vinnumarkaði. Þess verði freistað að standa vörð um þegar áunninn réttindi en stöðva verði áframhaldandi skuldaaukningu lífeyrissjóða opinberra starfsmanna þannig að reikningurinn á skattborgara framtíðarinnar hætti að vaxa. Réttur opinberra starfsmanna til lífeyris í A-deild miðist líkt og á almenna vinnumarkaðnum við 67 ár í stað 65 til að jafna halla sjóðsins. Ríkisárbyrgð á lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna verði afnumin.

Krafan er skýr um jöfnun réttinda í náinni framtíð, ríkisstjórnin verður bæta upp það Hrun sem varð í almennu sjóðunum en ekki í hinum opinberu. Miðað við uppgjör sjóðanna í árslok 2009 samsvarar þetta um 23% aukningu áunninna réttinda.

föstudagur, 18. mars 2011

Trú á framtíðina stórkostleg kjarabót

Nýsköpun krefst fjárfestingar og það er tómt mál að tala um nýsköpun í umhverfi þar sem fjármagn og vilji til fjárfestinga er ekki til staðar. Á Íslandi er sú staða að hlutabréfamarkaður dauður vegna krónunnar og hafta, en hann er helsta vaxtarvon nýrra fyrirtækja.

Fjármagn leitar frekar úr landi en inn í landið. Engin vill lána krónur til langs tíma nema vera þokkalegur tryggður gagnvart því að fá raunvirði með lágmarksvöxtum vöxtum tilbaka. Almennu lífeyrissjóðirnir eru ekki ríkistryggðir og verða að skerða réttindi ef ávöxtun gengur ekki upp, auk þess að stjórnarmenn þeirra fá útreið af hálfu sjóðsfélaga eins og glögglega hefur komið fram undanfarinn misseri.

En þrátt fyrir það krefst ríkisstjórn að í almennu lífeyrissjóðirnir fjármagni gæluverkefni eins og lagningu vega og ganga. Íslenska krónan er alltof dýr til þess að fjármagna stóriðju verkefni með langtímalánum.

Eins og staðan er núna þessa stundina eru líkur á því að kjarasamningagerð verði lögð til hliðar þar til kosning um Icesave er lokið. Nei við Icesave mun framlengja höft segir seðlabankastjóri. Atvinnulífið á allt undir að samningurinn verði samþykktur, það fjármagn sem vantar til þess að koma í fjárfestingar í atvinnulífinu mun ekki koma hingað til lands verði hann felldur. Þá verða á borðinu tilboð um skammtímasamninga og áframhaldandi deyfð og niðursveifla.

Það eru tæknifyrirtækin sem hafa verið að bæta við sig mannskap og segja að það sé vöntun á starfsfólki með tækniþekkingu. En á sama tíma leggja nauðhyggjustjórnmálamenn fram tillögur um að skera niður kvöldskóla og leggja niður starfsmenntadeildir. Með öðrum orðum að skera á þær leiðir sem fólk á vinnumarkaði hefur getað nýtt til þess að mæta þörfum fyrirtækjanna. Þetta er að leiða til þess að hafinn er innflutningur á erlendum tæknimönnum.

Sé litið til heildarhagsmuna er langtímasamningur bestur, en þá þurfa allir að starfa af heilindum og traust að ríkja milli aðila. Tryggja verður meiri stöðugleika og kaupmátt. Launahækkanir verða að ná til allra. Bæta má stöðu þeirra lægst launuðu sérstaklega í gegnum skerðingarmörk bótakerfisins og frekari tekjutengingar.

Trú á framtíðina er stórkostlegasta kjarabót sem við gætum náð núna. Aðilar vinnumarkaðarins hafa ásamt ríkisstjórninni tækifæri til þess að taka á þessu máli núna, en það er kjarkleysi á hinum ýmsu stöðum á að taka á þessu máli. Þetta er kjarni málsins.

fimmtudagur, 17. mars 2011

Hvert eigum við að stefna?

Dr. Michael Porter hefur komið hingað til lands nokkrum sinnum og flutt áhugaverða fyrirlestra. Hann var m.a. hér haustið 2006 og spáði fyrir um að hér væru vaxandi efnahagsvandamál sem menn yrðu að taka strax á. Of mikil þensla og vöxtur bankakerfisins væri áhyggjuefni.

Porter var einnig hér í nóvember síðastliðnum og lagði áherslu á að Íslendingar yrðu sjálfir að hafa frumkvæði að því að vinna sig upp úr vandanum, en við værum einfaldlega ekki að því, heldur eyddum við öllum tíma okkar í að slá pólitískar keilur og koma höggi hver á annan. Pólitíkin væri alls ráðandi. Íslendingar hefðu mikla möguleika til þess að geta unnið sig úr vandanum, ættu mikla orku og í nóvember sagði hann að við ættum að vera komnir lengra af stað í uppbyggingunni. En til þess þyrfti að taka ákvarðanir - og standa við þær.

Íslendingar eru sjálfumglaðir og oft ekki hægt að skilja þá öðruvísi en svo að við teldum okkur vera nánast ein með þekkingu á vinnslu jarðvarma, segir Porter, en svo væri ekki, til væru stór samfélög þar sem væri margfalt meiri jarðvarmanýting en hér.

Þetta kemur upp í hugann bæði vegna yfirstandandi vinnu við gerð kjarasamninga þar sem möguleikar um að koma hagkerfinu í gang eru grandskoðaðir og staldra menn við aukna orkunýtingu. Í erindum sínum hefur Porter velt fyrir sér hvernig íslensk stjórnvöld tækju ákvarðanir. Hann hefur ásamt aðstoðarmönnum sínum leitað mikið eftir gögnum sem sýndu fram á hvaða forsendum íslenskir stjórnmálamenn hefðu tekið ákvarðanir um uppbyggingu orkuvera og stóriðju. Við fundum engar kannanir, engar skýrslur, sagði Porter. Hér virtust ráða för ákvarðanir sem eru að taka mið af einhverju öðru en rannsóknum og staðföstum rökum.

Það liggur fyrir að það er hægt að tvöfalda orkuvinnslu hér á landi á næstu 10 – 15 árum. Verð orku mun hækka og íslenskt samfélag getur líklega tífaldað tekjur sínar af orkusölu, fengið skatttekjur af orkusölu sem duga til þess að reka heilbrigðiskerfið. Hér er ég að vitna tilendurtekinna ummæla Harðar Arnarssonar forstjóra Landsvirkjunar og ummæla Porter.

Þeim sem vinna við gerð kjarasamninga þessa dagana er vel ljóst eigi þau markmið að nást sem aðilar vinnumarkaðs hafa sett sér um kaupmáttaraukningu á samningstímanum, verði fjárfestingar hér að vera yfir 300 MIA ári meiri en þær hafa verið frá Hruni, ætlum við að ná 3% hagvexti sem er lágmark þess að það takist að laga stöðuna í ríkisbúskap og minnka atvinnuleysi. Fjárfestingar hafa verið undir þeim mörkum og hagkerfið er að dragast saman og hér ríkir vaxandi doði.

Eins og staðan er núna stefnir í 2% hagvöxt á þessu ári, sem er svipað eða minni á næsta ári. Nú er hafinn vinna við undirbúning fjárlaga næsta árs, fyrir liggur núverandi staða leiðir okkur í enn meiri minnkun hagkerfisins og fjárlagagatið stækkar um 30MIA, sem mun kalla á enn meiri niðurskurð og hækkun skatta.

Eina leiðin til komast út er þessu ástandi er að auka hagvöxt, eða með öðrum orðum atvinnu og útflutning. Það þarf að skapa um 30 þús. störf á næstu árum. Ef það á að vera hægt þarf atvinnulífinu að standa til boða nægt lánsfé á ásættanlegum kjörum.

Ef það tækist að ná 2% árlegum hagvexti til ársins 2020, verða lífskjör þá orðin svipuð og þau voru við Hrun 2008. En atvinnuleysi verður enn svipað og það er nú og velferðarkerfið verður umtalsvert laskað.

Ef hagvöxtur verður 3,5% fram til 2020 verða lífskjör svipuð og 2008, en atvinnuleysi verður um það bil helmingi minna en það er í dag, eða um 5%, sem er samt töluvert lakara en það var 2008 og verðferðarkerfið verður í sömu stöðu og það er í dag.

Það þarf 5% hagvöxt til ársins 2020 til þess að losna við atvinnuleysið bæta lífskjör og ná velferðakerfinu í svipaða stöðu að það var fyrir Hrun. Við náum ekki 5% hagvöxt nema þá með því að auka orkuframleiðslu og nýta orkuna vel. Þar ættum við að huga vel að fjölnýtingu jarðvarmans, lífefnaiðnað og framleiðslu matvæla.

Það verður skortur á orku og matvælum í framtíðinni. Flutningskostnaður mun hafa mikil áhrif. Ræktun fisks í landkerum við 27° hita sem gefur kost á hraðvexti er virkilega áhugaverður kostur við fjölnýtingu jarðvarmans. Í samtenginu við það á að reisa gríðarlega stór gróðurhús fyrir matvælaframleiðslu og repjurækt.

miðvikudagur, 16. mars 2011

Takmörkuð sæla í Karphúsinu

Það fer ekki mikið fyrir sælunni sem samninganefndarmenn í Karphúsinu mæta þessa dagana. Að undangengnum Stöðugleikasáttmála þarf trúverðugleiki hugsanlegs 3ja ára nýs kjarasamnings að vera reistur á þokkalega góðum grunni. Sé litið til ummæla ráðherra undanfarna daga getur maður ekki annað en velt fyrir sér hvert þessi mál stefni.

Fjármálaráðherra hefur sagt að hann stefni á krónuna til framtíðar, þrátt fyrir að við launamönnum blasi reglubundið kaupmáttarhrap, stökkbreytingar skulda, ofurvextir og verðtrygging sem rekja má til krónunnar og þess efnahagsumhverfis sem hún skapar.

Forsvarsmenn allra helstu fyrirtækja landsins hafa sagt að það verði ekki byggt upp alvöruatvinnulíf hér á landi með krónu, sem muni valda því að Ísland verði láglaunasvæði.

Þeim sem vinna við gerð kjarasamninga er vel ljóst eigi þau markmið að nást sem menn hafa sett sér um kaupmáttaraukningu á samningstímanum, verði fjárfestingar hér að vera yfir 300 MIA ári. Fjárfestingar hafa verið undir þeim mörkum og hagkerfið er að dragast saman og hér ríkir vaxandi doði.

Þessu tengjast margar fjárfestingar sem eru fastar í stjórnkerfinu. Þá helst í skipulagsnefndum. Í þessu sambandi má benda á byggingar við námsmannaíbúðir við Háskólann, Landspítalann, fangelsi á Hólmsheiði, orkuver og línubyggingar á Suðurnesjum, virkjanir við Þjórsá og þannig mætti áfram telja.

Forsvarsmenn atvinnulífisins segja að það sé sjálfhætt með væntingar um langtímasamning rætist verði Icesave-samningurinn ekki samþykktur. Það muni leiða til þess að ekki verði af nauðsynlegu innstreymi af erlendu fjármagni í íslenskt atvinnulíf og það muni leiða til þess að ríkissjóður kalli á enn meiri skattahækkanir á næsta ári.

þriðjudagur, 15. mars 2011

Sjálfbær orkustefna og álver

Grundvallarmarkmið orkustefnu er að sjá til þess að orkuþörf samfélagsins sé mætt með öruggum og skilvirkum hætti. Þar er átt við að næg orka, á viðeigandi og fjölbreyttu formi, sé jafnan fyrir hendi til að mæta þörfum heimila, grunnþjónustu og almenns atvinnulífs, hvort sem er í eðlilegu árferði eða við óvenjulegar aðstæður sem skapast kunna af völdum manna eða náttúru.

Markmið með sjálfbærri þróun er að hver kynslóð skili orkulindum náttúrunnar jafnsterkum til næstu kynslóðar. Þegar rætt hefur verið um endurnýjanlegar auðlindir (sjálfbærar) hér á landi er oft talað um gufuaflið, eða varmaflæði frá iðrum jarðar til yfirborðs. Gufuhitasvæði á Íslandi eru talin geta gefið um 3.600 – 4.200 MW af rafafli í 50 ár, ef þau væru í fullri nýtingu. Ferlið er í grófum dráttum þannig að með borholu er gufu og heitu vatni, sem hefur myndast á heitu bergi í iðrum jarðar hleypt upp á yfirborð og í stað þess kemur kalt vatn og kælir bergið niður.

Rannsóknir sýna að það taki nokkrar aldir að ná sama hita í bergið aftur. Þetta hefur verið þekkt um alllangt skeið t.d. í jarðvarmavirkjunum í USA og víðar og hefur komið fram hér á landi. Einhverra hluta vegna hefur þessi umræða náð að takmörkuðu leiti til stjórnmálamanna, þegar þeir hafa farið um héruð landsins og lofað stóriðju í hverjum firði, alla vega í hverjum landsfjórðungi, orka landsins væri óþrjótandi.
Það er ekki hægt annað en velta fyrir sér orkupælingunum á Suðurnesjum. Satt að segja virðist þar ríkja miklar efasemdir um hvernig HS ætli að skaffa alla þá orku sem þarf til Helguvíkur og í önnur verkefni, þegar jarðfræðingar benda á að allt bendi til þess að svæðið sé nú þegar ofnýtt.

Talið er að álbræðslan í Helguvík þurfi um 450 MW sem er um 150 MW minna en áður var áætlað, en í upphafi var fullyrt að nóg orka væri fyrirliggjandi til að reisa álbræðslu sem þyrfti um 600 MW. HS Orka er sögð munu útvega 250 MW, Orkuveita Reykjavíkur 120-140 MW og Landsvirkjun hefur sett fram loforð um 60-80 MW.

HS Orka ætlar að stækka Reykjanesvirkjun um 80 MW en flest bendir til að svæðið sé nú þegar ofnýtt enda hefur Orkustofnun ekki séð sér fært að veita leyfi fyrir stækkuninni. Þá hyggst HS Orka reisa 50 MW virkjun í Eldvörpum en þau eru hluti jarðhitasvæðisins í Svartsengi. Því er haldið fram að svæðið sé þegar fullnýtt. Um 130 MW eiga síðan að koma frá Krýsuvíkursvæðinu en tvær djúpar holur við Trölladyngju hafa gefið neikvæða niðurstöðu. Aðrir hlutar svæðisins virðast hafa svipaða eiginleika en þar hefur ekki verið borað sl. 40 ár.

Dr. Michael Porter lagði áherslu á það í fyrirlestri nýverið, að Íslendingar yrðu sjálfir að hafa frumkvæði að því að vinna sig upp úr vandanum, en í stað þess eyddum við öllum tíma okkar í að slá pólitískar keilur og koma höggi hver á annan. Pólitíkin væri alls ráðandi. Við hefðum mikla möguleika til þess að geta unnið okkur út úr vandanum, ættum mikla orku, mannauð og ættum að vera komnir lengra af stað í uppbyggingunni. En til þess þyrfti að taka ákvarðanir - og standa við þær.

Í þessu sambandi verða menn að velta fyrir þjóðhagslegum hagnaði, fjölda starfa, skatttekna og samfélagslega uppbyggingu. T.d. er ekki hægt að sjá að útflutningur raforku myndi skila miklu í íslenskt samfélag. Kostnaður við uppbyggingu stórra orkuvera, samtenging þeirra og eldri orkuver og lagning langs sæstrengs til markaðssvæðis kallar á orkuverð sem er hærra en fæst í sölu. Íslendingar myndu niðurgreiða orkuna, alla vega um langa næstu framtíð, þetta er t.d. það sem norskir skattgreiðendur eru að kvarta undan með miklum hávaða þessa dagana.

mánudagur, 14. mars 2011

Íslendingar til vandræða

Þing norska Rafiðnaðarsambandsins er að ljúka, hefur staðið yfir hér í Osló dagana 10. – 14. marz. Þingið sitja um 270 fulltrúar frá öllum deildum sambandsins, ásamt fjölda gesta frá öllum heimsálfum. Atvinnuleysi og ástand meðal norskra rafiðnaðarmanna er gott og mikið af erlendum rafiðnaðarmönnum hér að störfum.

Umræður hér þinginu eru fjörugar og í flestu svipar þeim sem við eigum að venjast heima. Hér er áberandi stolt yfir því hversu vel hefur gengið með norskt samfélag og oft vísað til þess að hér hafi setið stjórn sósíaldemókratar og Noregur sé ríkasta og best rekna samfélagi í heimi. Þeim hafi tekst betur en öðrum að koma í veg fyrir að stjórnmálamenn fylgi hinni breiðu hraðbraut hægri stefnunnar. Hér hafi hraðatakmarkanir ekki verið fjarlægðar og dregið úr eftirliti í sama mæli og gert var með svo alvarlegum afleiðingum þar sem hægri stjórnir voru við völd.

Norskur vinnumarkaður er ákaflega agaður og mikið eftirlit með öllu. Íslensk fyrirtæki hafa verið að reka sig á veggi hér, sama gildir um íslenska rafiðnaðarmenn. Öllum ber saman um að það sem valdi þessu aukna eftirliti hafi verið hvernig fyrirtæki og starfsmannaleigur komu fram við verkafólk frá Austur-Evrópu og rufu venjubundnar leikreglur á vinnumarkaði og rufu um leið eðlilegar samkeppnisreglur.

Við þessu var brugðist með sameiginlegu átaki samtaka fyrirtækja og launamanna, sem bitnar þá á norrænum fyrirtækjum sem hingað komi. Reyndar verð ég að viðurkenna að við starfsmenn hjá íslenska Rafiðnaðarsambandinu höfum ásamt hinu norska, því miður orðið að taka á nokkrum íslenskum fyrirtækjum, sem hafa verið að að haga sér eins skepnur hér í niðurboðum og hagað sér eins og austur-Evrópu fyrirtækin voru að haga sér heima fyrir Hrun, þannig að þolinmæði gagnvart okkur hér er minni en áður.

Á þinginu er mikið rætt um að bæta starfsmenntun og umhverfisvernd, eins og ég hef komið að í fyrri pistlum héðan. Hagræðing í menntakerfinu muni einungis leiða til lakari stöðu á vinnumarkaði og samkeppnisstöðu norskra fyrirtækja. Þau verði að geta keppt við láglaunasvæðin og Noregur eigi að leggja allt kapp á að auka menntunarstöðu vinnumarkaðsins og halda áfram að keppa í efstu deild. Auka eigi fjárfestingar hins opinbera í rannsóknum og á í orkuframleiðslu.

Á göngunum fyrir framan fundarherbergin erum við íslendingar endurtekið spurðir um hvernig gangi að koma atvinnulífinu í gang. Norskir rafiðnaðarmenn þekkja vel hvaða orkuframleiðslumöguleika íslendingar hafa, og skilja ekki hvers vegna við séum ekki á fullu að nýta þá til Þess að koma fótunum undir samfélagið.

Þegar maður fer að ræða við þá kemur oft fram að menn séu hættir að skilja stefnuleysi okkar og maður skynjar ekki þá samúð sem var hér fyrst eftir Hrun. Þetta virkar á mig eins og norðmenn nenni eiginlega ekki að velta þessum vandamálum íslendinga meira fyrir sér.

Krónan verður áfram króna

Krónan er ein helsta ástæða þeirra erfiðleika sem við eigum við að etja. Til þess að geta rekið örgjaldmiðil þurfum við að eiga gríðarlega öflugan gjaldeyrisvarasjóð og það er dýrt og veldur því að hér þurfa vextir að vera um 3.5% hærri en ella. Þar til viðbótar hafa stjórnmálamenn reglulega leyst rekstrarvanda fyrirtækja með gengisfellingum.

Launamenn stoppa því við þegar menn fara að lýsa kostum krónunnar á þann veg að hún tryggi óvenju lágan launakostnað sem hlutfall af tekjum hjá útflutningsfyrirtækjum. Enn meiri vangaveltur koma fram þegar hagfræðingar fara að lýsa þekkingu sinni á íslensku atvinnulífi með því að segja að nægilegt sé að skipta um nafn á krónunni og aðrir segja að það þurfi einungis að bæta efnahagsstjórnina.

Þetta er tært bull sem byggir á því að reyna að byggja upp trúverðugleika með blekkingum. Við höfum áður reynt að stofna ,,nýkrónu‘‘ með því að skera tvö núll aftan af án þess að breyta neinu í því atferli stjórnmálamanna sem er hin undirliggjandi orsök þeirra sveiflna (yfir tíma eru þessar sveiflur ávallt niður á við og endurspeglast vel í því hvernig krónan hagar sér þegar maður hendir henni í Peningagjánna – hún sveiflast niður á botn!). Því varð ,,nýkrónan‘‘ frá 1981 ekki grundvöllur að neinum trúverðugleika, nema síður sé.

Þessi hugsunarháttur hefur ráðið íslenskum stjórnmálum frá lýðveldisstofnun og komið fram í 25% verðbólgu á ári síðustu 60 ár. 25% verðbólga er færsla fjórðungs tekna frá launþegum og sparifjáreigendum til atvinnurekenda. Launþegar hafa eytt 3 mánuðum á ári í 60 ár í að niðurgreiða íslenskt atvinnulíf. Þriðjung starfsævi okkar eyðum við í að greiða herkostnað stjórnmálamanna, sem finnst það eðlilegt að tryggja lágan launakostnað með verðbólgu. Þetta ástand mun vaxa enn frekar með vaxandi tenging íslensks atvinnulífs við erlenda markaði.

Íslenskum launamönnum hafði tekist frá 2000 að ná um 13% kaupmáttaraukningu fram að Hruni, en töpuðu henni allri við Hrunið,auk þess að fjöldi heimila tapaði öllum sínum eignum.

Danir féllu ekkert í kaupmætti um við efnahagshrunið og hafa bætt við sig 1% eftir 2008 og tæp 6% það sem af er þessari öld. Auk þess að halda þeir sínum eignum.

Svíar hafa gert betur, þeir hafa bætt við sig 2.3% eftir efnahagshrunið og 7,3% það sem af er þessari öld, og líka halda sínum eignum.

Finnland hefur bætt við sig 4,5% í kaupmætti frá efnahagshruninu og bætt við sig 10,8% það sem af er þessari öld.

Noregur er með mestu kaupmáttaraukninguna af Norðurlöndunum eða 10,8% það sem af er þessari öld, þar af 4,5% frá árinu 2007.

Meðaltal kaupmáttaraukningar í Evrópu það sem af er þessari öld er 12,7%, þar af 2,7% eftir efnahagshrunið. Heimild: Alþjóðavinnumálastofnunin (ILO) árið 2010.

Vextir hér á landi eru töluvert hærri en annarsstaðar og vaxtamunur verður alltaf a.m.k. 5% hærri á Íslandi en innan Evrusvæðisins, það er vegna krónunnar. Ef fjölskylda sem kaupir sér eitt hús á Íslandi og önnur kaupir sér hús t.d. í Danmörku. Þá er staðan sú eftir 20 ár að þá hefur íslenska fjölskyldan greitt sem svarar andvirðis rúmlega tveggja húsa, séu greiðslur bornar saman við endurgjald dönsku fjölskyldunnar.

Íslenskt atvinnulíf getur ekki endurfjármagnað sig, það er vegna krónunnar. Lönd sem eru með Evru eru ekki í sömu vandræðum. Hvergi á norðurlöndunum eða í vestan-verðri Evrópu hefur kaupmáttur fallið eins mikið og hér, það er vegna hruns krónunnar.

Við þurfum 20 þús. ný störf á næstu 2 árum og þau verða einvörðungu til í fyrirtækjum í tækniiðnaði og þar þarf að koma til erlend fjárfesting og greiður aðgangur íslenskra fyrirtækja að erlendum birgjum og eðlilegum viðskiptum um heim allan. Það verður ekki gert með krónunni. Ekkert erlent fyrirtæki tekur við krónu sem greiðslu og í dag eru íslensk fyrirtæki krafinn af erlendum birgjum um staðgreiðslu í erlendum myntum.

laugardagur, 12. mars 2011

Sjálfbær orkustefna

Ég er þessa dagana staddur í Osló á þingi norska rafiðnaðarsambandsins. Hér áberandi umræða um orkusparnað og betri nýtingu endurnýjanlegrar orku. Í þessari umræðu eru loftslagsbreytingar áberandi og hvað sé hægt að gera til þess að minnka óheppilega losun í lofthjúp jarðarinnar.

Lönd velmegunar eru að nýta of mikið af því sem jörðin getur gefið, umgengni okkar kynslóða hefur haft mikil áhrif á lofthjúp jarðar og er að valda margskonar breytingum á umhverfinu eins og t.d. veðurfarinu. Það stefnir í að auðlindir munu sumar hverjar tæmast innan ekki margra ára og verð á orku mun tvöfaldast á næstu árum. Það mun hafa mikil áhrif á kaupmátt og ráðstöfunartekjur okkar og um leið verða til þess að við verðum að breyta mörgu í lífsháttum okkar.

Núverandi kynslóðir verða að taka höndum saman og vinna á mun ákveðnari hátt á móti frekari hlýnun jarðar og halda henni innan við +2 gráður. Þetta kallar á að minnka verður losun kolefna í andrúmsloftið um 30% fyrir árið 2020. Þau lönd sem búa yfir endurnýjanlegum orkugjöfum verða að nýta þá og vera virkir þátttakendur svo það sé hægt að ná þessum markmiðum.

Hlýnun jarðar mun ekki einungis leiða til þess að yfirborð hafsins hækki, endurspeglun í hinum miklu ísbreiðum mun hverfa og í stað þess koma jafnstór svæði sem draga til sín sólahitann. Milljarðar tonna af frosnu metan mun losna út í andrúmsloftið það mun valda enn meiri hlýnun jarðar og það kallar á enn fleiri skógarelda, þessa hringrás verður að stöðva.

Nýta verður alla möguleika á vatnsaflsvirkjunum, fjölga vindorkuverum, auka nýtingu sólarkorku og orkuframleiðslu í straumum hafsins. Þetta kallar á endurskoðun fyrri ákvarðana hvað varðar vatnsorkuna og dreifikerfin. Ekki verður komist hjá því að leggja nýjar háspennulínur og fram eru komnar kröfur um fleiri virkjanir. Fyrir liggur að á næstu 3 árum á að minnka orkunotkun í Evrópu á óendurnýjanlegum orkugjöfum um 20%. Til að ná þessu markmiði verður að auka notkun rafbíla, styrkja almenna flutningakerfið, auk margra annarra þátta sem leiða til minni orkunotkunar.

Gríðarleg verðmæti eru fólgin í endurnýjanlegum orkugjöfum og núverandi kynslóð hefur ekki heimild til þess að taka þann arð frá komandi kynslóðum og selja hann í dag á hrakvirði til einkaaðila. Markmið með sjálfbærri þróun er að hver kynslóð skili orkulindum náttúrunnar jafnsterkum til næstu kynslóðar.

Vatn er verðmætasta auðlindin og hér eru uppi kröfur um að settar verði mun hertari reglur um uppistöðulón sem geyma ferskt vatn og stækka þau. Sala á orku til annarra þjóða auk vaxandi orkuþarfar innanlands hefur leitt til þess að á mestu orkunýtingartímabilum vetrarins er verið að nýta of mikið af uppistöðulónunum á þeim tíma, sem veldur því að þau standa nú orðið stundum í hættulega lágri stöðu þegar líður á sumarið, eftir þurrkatímabil. Veðráttan hefur verið að breytast og við þessu verður að bregðast. Þetta hefur einnig mikil áhrif á náttúruna og aðrar vatnsmiðlanir á leið affallsvatns orkuveranna til sjávar.

Einkavæðing orkufyrirtækja og dreifikerfa hefur leitt til þess að rekstraröryggi hefur minnkað mikið. Þetta er afleiðing arðsemiskrafna fjárfesta sem hafa leitt til þess að dregið hefur úr endurnýjun og uppbyggingu dreifikerfa. Viðhaldsflokkum hefur verið fækkað og nú eru orkunotendur í dreifðum byggðum Noregs í vaxandi mæli að upplifa það að dreifikerfin falli út, og oft á tíðum í langan tíma.

Sjálfbært samfélag kallar á fleiri störf, orkusparnaður kallar á styttingu á framleiðslutíma sem mun aukinni framleiðni og styttingu vinnutímans.

föstudagur, 11. mars 2011

Kjarasamningar á hnífsegginni

Það sem varð til þess að verkalýðsforystan kaus að fara öll upp í sama Strætó og láta virkilega reyna á hvort hægt væri að ná þríhliða langtímasamning, eru sannfæring að það sé eina leiðin eigi að takist að rjúfa kyrrstöðuna, það geti leitt til kaupmáttaraukningar reistri á aukinni atvinnu og a.m.k. 15% styrkingar krónunnar. Þetta skiptir öllu um hvort það takist að lagfæra kaupmátt og skuldastöðu heimilanna.

Við erum öll mikið brennd og samningamönnum er ljóst að það verða ekki slegnar neinar keilur í þessum málum, staða íslensks þjóðfélags er þannig. Útspil bankanna undanfarna daga er blaut tuska framan í þá sem hafa unnið að gerð kjarasamninga undanfarnar vikur, en styrkir þá stöðu að það verður ekki gengið lengra á braut niðurskurðar og kyrrstöðu í kjaramálum.

Viðræður um launaliði kjarasamninga eru í sjálfheldu, ef gera á kjarasamninga til 3ja ára verður að liggja fyrir vissa um ákveðin atriði. Launakröfur tengjast þeim, sama á við um þær tryggingar sem setja verði inn í samninga.

Atvinnulífið er í efnahagslegu stofufangelsi vegna krónunnar og gjaldeyrishaftanna. Hvernig á að taka á þeim málum og hver verður efnahags- og gjaldmiðilsstefna næstu árin?

Á meðan Icesave-deilan er óleyst er fullkominn mikil óvissa um hvernig mál muni þróast. Nýjustu tölur sýna alvarlegar afleiðingar þess hvernig haldið hefur verið á þessum málum. Útflutningur hefur minnkað um 2% og ekkert bendir til annars en að hann muni dragast enn meir saman.

Tæknifyrirtækin eru að flytja úr landi og með þeim starfsfólk með verðmæta þekkingu og möguleikar til viðsnúnings, fjölgunar starfa og aukningu í útflutning minnka með hverjum deginum. Eins og margoft hefur komið fram í fréttum og viðtölum þá segja forsvarsmenn fyrirtækja sem eiga í alþjóðlegum viðskiptum að ef Icesave-samningurinn verði felldur verði um leið slökkt á öllum væntingum í um viðreisn í atvinnulífinu í 2 -3 ár. Drátturinn á afgreiðslu hans sé þegar búinn að valda atvinnulífinu gríðarlegu tjóni. Kjarasamningamenn fyrir almenna vinnumarkaðinn eru sammála um að verði Icesave-samningurinn felldur verði sjálfhætt við gerð langtímasamnings.

Stefnuleysi stjórnvalda í orkumálum hefur valdið miklum skaða, sú viðspyrna sem þau boðuðu með átaki í atvinnumálum gengur ekki upp á meðan ekki eru teknar ákvarðanir í virkjananálum. Það er ekki nóg að boða stækkun, álvera, kísilverksmiðjur, gagnaver auk margra annarra verkefna ef ekki er hægt að koma saman heildstæðri áætlun um hvað eigi að virkja.

Það þarf ekki mikla þekkingu til þess að sjá að staðan í gufuaflsvirkjunum á Reykjanesi hafa sett málin í þá stöðu að ekki verður farin þessi leið sem ríkisstjórnin hefur boðað nema að virka neðri hluta Þjórsár sem næsta verkefni, á meðan beðið er eftir niðurstöðum í rannsóknum og öðrum atriðum hvað varðar næstu gufuaflsvirkjanir.

Nú hafa svör stjórnvalda snúist yfir í að það sé frekja af aðilum atvinnulífs að ætlast til að þau standi við þær yfirlýsingar sem ríkisstjórn gaf ítrekað út við gerð Stöðugleikasáttmála. Dæmigerð viðbrögð íslenskra stjórnmálamanna.

Það er skýr krafa iðnaðarmannahópanna að samið verði þannig að launahækkanir skili sér til allra eigi þeir að vera áfram í sama strætó og hinir. Allar samþykktir félagsfunda í iðnaðarmannaumhverfinu eru á þá leið. Millitekjuhóparnir hafi fengið lítið í síðustu kjarasamningum auk þess að þeir hafi orðið fyrir mesta kaupmáttarhruninu auk þess að skattahækkanir lendi á þeim.

En um leið hefur komið fram að ekki verði tekið á kaupmætti þeirra sem eru lægstu laununum öðru vísi en með krónutöluhækkunum, samfara því að taka á tekjutengingum í bóta-og skattakerfinu þar verða stjórnvöld að verða þátttakandi. Um þetta er tekist í bakherbergjum samninganna, ekki bara milli stéttarfélaganna, heldur er þetta brotpunktur í viðræðunum við samtök fyrirtækjanna.

Allt þetta segir til um að staða kjarasamninga í dag er á hnífsegginni, einn hnerri ráðherra getur ráðið til um hvorum megin þeir falla.

miðvikudagur, 9. mars 2011

Kennitöluflakk

Ég hef fengið nokkrar spurningar um grein mína um þann þátt kjarasamninga þar sem aðilar vinnumarkaðs vilja sporna gegn kennitöluflakki. Málið snýst um að aðili útvegar sér nýja kennitölu, flytur eignir eða verðmæti eldri kennitölu yfir á glænýja og kemur sér með því undan ábyrgð á rekstri.

Séu skoðaðar skýrslur skattsvikanefndar kemur í ljós að gjaldþotaslóð einstakra athafnamanna hefur færst í aukana á undanförnum árum. Það er fyrst með skýrslu skattsvikanefndar frá árinu 2003 sem fjallað er um þetta mál og er það rakið til gífurlegrar fjölgunar einkahlutafélaga frá því að lög um einkahlutafélög tóku gildi í upphafi ársins 1995.

Tjón ríkissjóðs, birgja og launamanna af rekstri sem stofnað hefur verið til gagngert til að komast undan sköttum og skyldum í skjóli takmarkaðrar ábyrgðar er gríðarlegt. Hér er um að ræða vanskil á vörslusköttum, vangreiðslu opinberra gjalda, ábyrgð á launum vegna gjaldþrota, vanskil á launatengdum gjöldum. T.d. gjöldum vegna iðgjalda til lífeyrissjóða , áunnum réttindum launamanna eins og veikindadaga og orlofs og réttinda í sjóðum og tryggingum.

Margir hafa bent á að bankar og starfsmenn banka séu umsvifamiklir á þessu sviði. Bankarnir flytja eignir, lager og verkefni yfir á nýjar kennitölur ásamt skuldum viðkomandi fyrirtækis við viðkomandi banka og ver þannig sína stöðu, en bankarnir láta síðan eldri kennitöluna fara í gjaldþrot með öðrum skuldum, sköttum og launakostnaði.

Þrátt fyrir fjölda dóma á umliðnum áratug vegna vanskila á vörslusköttum samfara bókhaldsbrotum, hefur ekki dregið úr kennitöluflakki og þekktir eru nokkrir með slóð gjaldþrota, þar sem launamenn, hið opinbera og viðskiptavinir hafa setið uppi með mikinn skaða.

Mörg nágrannalönd hafa tekið markvisst á þessu, en einhverra hluta vegna þá sitjum við í þessari súpu og það er sameiginlegur áhugi launamanna, samtaka fyrirtækja og ríkisskattstjóra að taka á þessu vandamáli.

þriðjudagur, 8. mars 2011

Rafkonur með hærri laun en rafkarlar

Vegna umfjöllunar um launamun kynjanna :

Hjálagt eru svör frá RSÍ við könnun Háskólanna í Rvík og á Bifröst

Hefur stéttarfélagið einhverja stefnu hvað varðar launajafnrétti kynjanna?
Svar : Það eru engar skilgreiningar milli karla og kvenna í kjarasamningum Rafiðnaðarsambandsins


Hvernig framfylgir stéttarfélagið þeirri stefnu? (Með eftirliti og/eða refsiaðgerðum, eða öðrum leiðum?)
Svar : Það hefur 2x gerst að rafkonur hafa kært að rafkarlar voru með hærri laun en konur, í báðum tilfellum kom í ljós að það var sakir þess að rafkarlarnir höfðu sótt aukalega fagtengd námskeið umfram konurnar, en kvartanir kvennanna urðu til þess að karlarnir voru lækkaðir í launum.

Ef engin stefna varðandi launajafnrétti, af hverju ekki?
Svar : Vegna þess að þá væri verið að mismuna kynjum


Stendur til að setja fram þess háttar stefnu?
Svar : Það er fullkominn samstaða um að gera það ekki

Í árlegri launakönnun sem Capacent gerði meðal rafiðnaðarmanna í september 2010 komu fram m.a. eftirfarandi upplýsingar. Þessi könnun hefur verið gerð árlega í 5 ár. Úrtakið var 1.172 eða um 20% félagsmanna RSÍ, 51% svaraði.

Meðalyfirvinnutími rafiðnaðarmanna með sveinspróf eða meira í septembermánuði
Rafkonur 9 klst.
Rafkarlar 21 klst.

Meðalheildarlaun í septembermánuði
Rafkonur kr. 478.061
Rafkarlar kr. 461.667
Sé reiknað út frá sama vinnutíma, það er 9 yfirvinnutíma í septembermánuði, þá eru rafkonur með 10.2% hærri heildarlaun en rafkarlar

Meðalregluleg laun
Rafkonur kr. 426.164
Rafkarlar kr. 371.909
Rafkonur eru með 14,6% hærri regluleg laun en rafkarlar .
Með reglulegum launum er átt við það sem greitt er fast fyrir 40 klst. vinnutíma á viku að öllu meðtöld

Þessar tölur hafa verið svipaðar niðurstöðum í fyrri könnunum. Þegar kannanirnar hafa verið birtar, hafa örfáir karlar, áberandi ungir rafkarlar, krafist þess að settar væru reglur til þess að jafna bil karla við konur, en því hefur algjörlega verið hafnað af hálfu stjórnar sambandsins.

Það er erfitt að skilja hvers vegna konur sækja ekki meira í rafstörf en ruan ber vitni. Rafstörf snúast oft um tæki sem konar hafa jafnvel meiri þekkingu en karlar.

Reykjavík 26. jan. 2011
Virðingarfyllst
Fh. Rafiðnaðarsambands Íslands Guðmundur Gunnarsson form.

sunnudagur, 6. mars 2011

Skortur á heildarsýn og rökrænni umræðu

Þegar við talsmenn almenna vinnumarkarins hlustum á ræður stjórnmálamanna áttar maður sig fljótt á því að þar á ferð eru nær eingöngu einstaklingar sem hafa verið opinberir starfsmenn, fólk sem þekkir ekki almenna vinnumarkaðinn og hvernig kaupin ganga fyrir sig á eyrinni.

T.d. má velta því fyrir sér hvar stjórnendur efnahagskerfis 300 þús. manna þjóðar séu staddir í veruleikanum þegar þeir ætluðu sér samtímis að byggja upp eitt stærsta tónleikahús í Evrópu, viðskiptamiðstöð og nýja miðborgarkjarna, nýjan landspítala, færa miðstöð innanlandsflugs og byggja nýjan flugvöll, leggja 10 Mia jarðgöng til þess að tengja saman borgarhluta í Reykjavík, byggja 2 ný álver og stækka eitt um helming, reisa kísilverksmiðjur og gagnaver, samfara því að byggja um leið raforkuvirkjanir, sem voru samtals allt að tvöfalt stærri að orkugetu en Kárahnjúkar til þess að sjá um orkuþörf álveranna og einkavæða þekkingu í jarðvarma og selja hana til landa þar sem enn öflugri jarðvarmaþekking var til staðar.

Hvaðan áttu að koma fjármunir til þessara framkvæmda? Vissu þessir ráðamenn ekki hver árleg þjóðarframleiðsla var og er og hversu miklum hluta er hægt að verja til framkvæmda.

Pólitísk skilgreining hefur riðlast, nú hafa þeir sem eru lengst til beggja kanta í pólitíkinni vinstri og hægri sameinast undir merki Nei-sinna í Heimsýn, ekki bara gegn ESB, þessi hópur virðist eiga margt fleira sameiginlegt. Þetta staðfestir þær ábendingar að kenningar nýfrjálshyggju hafi verið reistar á hugmyndafræðilegum arftaka marxisma. Marxistar byggðu á allsherjarlausnum, sem hrundu til grunna sakir þess að það skorti heildræna yfirsýn, nákvæmlega sama og gerðist hjá þeim sem leiddu Ísland fram af bjargbrúninni án bremsufara undir fagnaðarhrópum þeirra klappstýra sem fóru um heimsbyggðina og lofuðu hið íslenska efnahagsundur.

Gamla demókratíska miðjuhægrið og hið norræna kratíska hægravinstri er aftur á móti að sameinast undir merkjum Já-sinna í varfærinni og yfirvegaðri nálgun við þann veruleika sem íslenskt samfélag býr við í dag með mikilli viðskiptalegri tengingu íslensks vinnumarkaðar og menntakerfis við ESB-svæðið. Á það er bent að hvergi í uppsveiflunni hafi verið gert ráð fyrir því að aukin verðmæti í samfélaginu ættu að bæta hag launamanna eða færa þeim varanleg verðmæti.

Í umræðu stjórnmálamanna er málum oftast skipt niður í box, umræða grundvölluð á heildarsýn fer sjaldan fram. Rætt er um að byggja margskonar orkufrek fyrirtæki, leggja sæstreng yfir til Evrópu og að flytja út orku. Þannig muni skapast umtalsverðar skatttekjur sem muni hjálpa fámennri þjóð til þess að standa undir dýru velferðarsamfélagi, hugmyndir sem praktískt séð standast skoðun.

Stjórnmálamenn eru síðan spurðir hvar eigi að framleiða alla þessa orku þá er svarið að það verði rætt í orkuboxinu. Þegar við mætum í þá umræðu þá eru í veginum margskonar fyrirvarar, skipulagslög, umhverfisvernd, samskiptavandamál við margskonar nefndir og fleira. Eða á mannamáli, það stendur ekki til að framleiða alla þá orku sem til þarf svo hægt sé að standa við þau fyrirheit sem gefin eru í framkvæmdaboxinu.

Semsagt það umræðan í framkvæmdaboxinu stenst ekki, það er ekki hægt að skaffa orku til Helguvíkurálversins öðruvísi en að virkja í neðri hluta Þjórsár. Það verður heldur ekki til það umframmagn af orku, sem þarf til þess að útflutningur orku borgi sig. Til þess þarf að virkja umtalsvert meir en þegar hefur gert. Endurbyggja þarf rafflutningskerfið og tengja Kárahnjúka saman við Þjórsársvæðið með línu yfir Sprengisand og virkja þá staði sem menn vilja ekki gera þegar í orkuboxið er komið.

Ég hef oft bent á umræðuhefð hér á landi einkennist af kappræðu, eða ofbeldi eins og háskólaprófessorarnir Páll Skúlason heimspekingur og Sigurður Líndal lögspekingur hafa ítrekað bent á. Hún einkennist á upphrópunum og órökstuddum klisjum sem menn hendi sín á milli. Kappræða sem hefur það markmið eitt að snúa út úr því sem síðasti ræðumaður sagði.

Í stað þess að fjalla um málefnið í góðri heildarsýn, er andstæðingum gerðar upp skoðanir og andsvör byggð á þeim grunni og ekkert miðar við að ná vitrænum niðurstöðum. Þegar ég hef bent á einfaldar staðreyndir eru viðbrögðin oft þannig að halda því fram að ég sé með gífuryrði. Hér á ég við ábendingar mínar um að vextir séu háir hér á landi vegna hins sveiflukennda örgjaldmiðils sem við höfum, það sé gjaldmiðillinn sem valdi því að kaupmáttur falli ekki slakir kjarasamningar, eða þegar ég bendi á götin í umræðu um framkvæmdir og orkuöflun.

Svo maður tali nú ekki um viðbrögðin þegar bent er á að launamenn á almennum vinnumarkaði gera samþykktir sem lýsa þeiri skoðun að þeir ætli ekki að sætta sig við að búa við versnandi lífeyrisréttindi samfara því að vera gert að búa við hækkandi skatta til þess að tiltekinn hópur opinberra starfsmann geti viðhaldið sínum lífeyrisrétti óbeyttum. Lífeyrisrétti sem eru ekki sjálfbær, styrkt úr ríkissjóð og langt umfram það sem almennu launafólki stendur til boða. Það koma engin gagnrök einungis persónulegar ásakanir og dylgjur. Þetta er í sjálfu sér nákvæmlega sama staða þegar skattgreiðendur í Þýskalandi neita að greiða niður lífeyrisskuldbindingar í spilltra stjórnvalda í Grikklandi.

Undanfarin misseri hafa forsvarsmenn tæknifyrirtækja sagt að gjaldmiðill okkar valdi því að fyrirtæki þeirra geti ekki vaxið hér á landi og verði að flytja héðan, þetta hefur verið endurtekið undanfarna daga. Forsvarsmenn litlu sprotafyrirtækjanna segja að þeir geti ekki byggt upp fyrirtæki hér á landi vegna þess að hér sé engin grundvöllur fyrir hlutabréfamarkað á meðan við höfum krónuna.

Í umboði hverra er forseti lýðveldisins með yfirlýsingar í erlendum heimsmiðlum um að hér eigi ekki að skipta um gjaldmiðil? Það sé svo gott að hafa gjaldmiðil sem hægt sé að aðlaga að efnahagserfiðleikum og það standi ekki til að opna íslenskt hagkerfi fyrir erlendu lánsfjármagni. Eða með öðrum orðum forseti lýðveldisins er að boða áframhaldandi stöðnum og að Ísland verði láglaunasvæði til framtíðar.

Sé litið til umræðunnar þá hefur það opinberast berlega fyrir okkur hversu löskuð umræðan er hér landi. Ekki bara hjá stjórnmálamönnum heldur hafa þar verið áberandi einstaklingar sem hafa verið ósparir á yfirlýsingar og sleggjudóma. Karl Sigurbjörnsson biskup sagði einu sinni;

“Níð og mannorðsmorð eru söluvara og ósjaldan stundað af þeim sem hæst hrópa og ákafast veifa fánum siðavendninnar. Áður hefðu Íslendingar verið þekktir fyrir orðheldni og heiðarleika. Menn stóðu við orð sín, handsöluðu skuldbindingar og stóðu við þær. Nú er sem mörgum finnist munnlegir samningar og fyrirheit lítils virði, flestallt sé afstætt. Stjórnmálin hafa lengi snúist um ímyndir og slagorð, sýndarmennsku og gylliboð.”

laugardagur, 5. mars 2011

Velferðarkerfi kjarasamninganna

Sé litið til þróunar á Norðurlöndum og leitað orsaka hvers vegna þar hefur tekist að byggja upp það samfélag sem öll þjóðríki vilja stefna að, stöðvar maður við öfluga og vel skipulagða verkalýðshreyfingu sem hefur lagt mikla áherslu afskipti og samstarf við stjórnmálaflokka við þróun velferðarkerfisins. Þróunin hér á landi hefur ekki verið alveg sú sama, íslensk stjórnvöld hafa oft á tíðum verið tregari til þessa samstarf og að standa uppbyggingu samskonar tryggingarkerfis og var þróað á hinum Norðurlöndunum.

Hér á landi hafa lengst af verið við stjórnvölinn stjórnmálaflokkar sem hafa verið tengdir landbúnaði og útgerð og ætíð tekið frekar mið af þeirra sjónarmiðum en kröfum samtaka launamanna. Þar má sérstaklega benda á tryggingar og aðbúnað auk gjaldmiðilsmála. Fyrir 100 árum fékk launafólk greitt út í miðum sem voru kallaði peningar, en var einungis hægt að nota í tilteknum verslunum og það bjó við hjúalög og átthagafjötra gat ekki selt eignir sínar og flutt annað.

Sama myntkerfi er hér enn við lýði hér og sömu flokkar berjast hatramlega gegn því að þessu verði breytt. Þeir leggja allt í sölurnar til að viðhalda þeirri stöðu að geta flutt rekstrarkostnað yfir á launamenn með því að geta blóðsúthellingalaust ógilt of góða kjarasamninga, svo notuð séu orð þeirra eigin efnahagspekinga. Embættismenn og þingmenn þessara flokka komu sér upp forréttindakerfi með sjálftöku úr ríkissjóð.

Íslensk verkalýðshreyfing lét andstöðu ráðandi stjórnmálaflokka ekki stöðva sig og knúði fram í gegnum kjarasamninga tryggingarkerfi, sem er í sumum tilfellum betra en er á hinum Norðurlandanna.

Hér á ég við veikindadagakerfið í kjarasamningum, sem er umfangsmeira í íslenskum kjarasamningum, til að jafna meiri rétt í gegnum almenna tryggingarkerfið á hinum Norðurlandanna. Sama á við um sjúkrasjóði, starfsmenntasjóði og lífeyrissjóði. Þegar skattasamanburður er gerður gleyma stjórnmálamenn gjarnan þessum atriðum.

Í gegnum launatengda liði kjarasamninga er verið að greiða margar af þeim bótum sem almenna tryggingarkerfið gerir á hinum Norðurlandanna. Þetta veldur því að hluti launa hér á landi rennur aðra leið og verða þar af leiðandi alltaf eitthvað lægri en annarsstaðar á Norðurlöndum og um leið eiga íslenskir skattar að vera lægri.

Þessi gleymska stjórnmálamanna, ég held nú reyndar að sé frekar þekkingarleysi, veldur því að ítrekað verður íslensk verkalýðshreyfing að grípa til vopna sinna þegar stjórnmálamenn fara í raun að tvískatta launamenn, það er að segja að færa kostnað úr almenna tryggingakerfinu yfir á launamenn með tekjutengingum og jaðarsköttum.

En þetta þýðir jafnfram t að þeir sem reka sig sem einkahlutafélög verða sjálfir að standa undir eigin veikindarétti, lífeyrisrétti og fleiri atriðum. Það eru svo þessir einstaklingar sem standa og hafa hæst í kröfum á hendur hins opinbera og stéttarfélögum. Eru búnir að koma sér í sjálfskaparvíti og vilja koma ábyrgð yfir á aðra.

Í þessu er að finna hvers vegna kjarasamningar verða oft flóknari en margir skilja. Gjallarhorn hinna umræddu stjórnmálaflokka, krefjast þess reglulega að þessum afskiptum stéttarfélaganna af rekstri samfélagsins verði hætt og að venju vilja þeir koma launamönnum aftur í sama far og þeir voru, að vera þægir og nytsamir sakleysingjar ofurseldir valdastéttinni.

Staða kjaraviðræðna

Undanfarna daga hafa viðræður í vinnunefndum snúist um veikindarétt og kostnað sem lendir á starfsmönnum. Deilur eru um tryggingar vegna ferða til og frá vinnustaðar og rétt til launaðra fjarvista vegna veikinda. Miklar deilur eru um útfærslur á yfirvinnuálagi þegar vinna fellur utan skilgreinds dagvinnutíma.

Flóknar umræður eru um jöfnun lífeyrisréttinda. Á almennum vinnumarkaði eru iðgjöld launamanna og launagreiðenda til lífeyrissjóða samtals 12% af heildarlaunum, en 15,5% hjá ríkinu og 16,0% hjá sveitarfélögunum. Á almennum vinnumarkaði er kerfinu gert að vera sjálfbært og iðgjöld og ávöxtun þeirra standi undir lífeyrisréttindum, en aftur á móti er það ríki og sveitarfélög sem ábyrgjast tiltekin réttindi í sjóðum opinberra starfsmanna.

Meginmarkmiðið sem unnið er eftir við endurnýjun kjarasamninga þessa dagana er að allir lífeyrissjóðir starfi á sjálfbærum grunni líkt og sjóðir á almennum vinnumarkaði. Þess verði freistað að standa vörð um þegar áunninn réttindi en stöðva verði áframhaldandi skuldaaukningu lífeyrissjóða opinberra starfsmanna þannig að reikningurinn á skattborgara framtíðarinnar hætti að vaxa.

Kröfur eru um að tekið verði á kennitöluflakki, svartri atvinnustarfsemi og ábyrgð á tilboðum undirverktaka. Kröfur iðnaðarmannafélaganna eru í fullu samræmi við kröfur ríkisskattstjóra og harla einkennilegt að stjórnvöld taki ekki á þessum málum. Okkur er gert að hlusta á umræður á Alþingi þar sem þetta ástand er varið sem frelsi til athafna. Bankar, lögmenn og sumir embættismenn virðast vilja viðhalda núverandi ástandi jafnvel þó við öllum blasti sá veruleiki að verið væri að spila á kerfið.

Nágrannalönd okkar eru búin að taka á þessum málum en Ísland er þar langt á eftir. Þetta frelsi til athafna felst í frelsi til þess að níðast á réttindum launamanna, svíkja undan sköttum og koma kostnaði á ábyrgðarsjóð launa, eða með öðrum orðum á skattborgarana. Gott dæmi kom fram í fréttum sjónvarps í vikunni. Þar stóð einn þekktur kennitöluflakkari og sagði borubrattur að engin hefði nokkru sinni tapað einni krónu á sínum 23 gjaldþrotum. En hvað með launatengdu gjöldin spurði fréttmaður og fékk svar „Nú þar tapaði engin neinu Ábyrgðarsjóður launa greiddi það allt.“ Hér á landi þykir sjálfsagt að menn reki sjálfa sig sem einkahlutafélög og beiti öllum brögðum til þess að komast hjá gjöldum til samfélagsins. En þeir hinir sömu standa fremstir í flokki með kröfur gagnvart samfélaginu, stéttarfélögunum og lífeyrissjóðunum.

Sá kaldi veruleiki er að birtast samningamönnum þessa dagana að stjórnvöld eru að mæta algjörlega óundirbúin til leiks, þó svo að þau séu búinn að vera með allar kröfur frá miðjum janúar. Öllum á að vera ljóst að ekki verða gerðir langtímasamning án þess stefnt verði að traustri efnahagsstjórn. Gríðarlegar mótsagnir eru ræðum ráðherra um hvernig stjórnvöld ætla að koma atvinnulífinu af stað.

Stjórnvöld tala um mikil og orkufrek fyrirtæki og sölu á orku til útlanda og gríðarlegar tekjur til samfélagsins, en þegar kemur að umræðum um hvar eigi virkja þá snýst allt við. Orkugetu þeirra virkjana sem þeir ætla að hleypa af stað nægir einvörðungu fyrir um fjórðung af þeirri orku sem þarf til þess að koma Helguvík af stað. Það er ekkert sérstakt keppikefli stéttarfélaganna að fá álver um allt, en það er krafa um að stjórnvöld geri alvöruáætlanir um hvað eigi að gera. T.d. er Helguvík inn í öllum hagstjórnarmódelum stjórnvalda, en útilokað að sjá hvernig fara eigi að því að ljúka þeim framkvæmdum þar sem allar áætlanir um orku standast ekki.

Lítið hefur verið rætt um launalið samninganna, það eru ákaflega skiptar skoðanir um svokallað krónutöluleið og prósentuhækkanir. Sá kostnaðarauki sem SA hefði nefnt er langt frá þeim væntingum sem samningamenn stéttarfélaganna hafa. Eftir helgina ætti að taka til við launaviðræður og menn væri með inn í sínum vinnuplönum að ljúka launaviðræðum um miðjan marz.

föstudagur, 4. mars 2011

4% hækkun tekjuskatts vegna sjálftöku úr ríkissjóð

Launamönnum á almennum vinnumarkaði ofbýður það gríðarlega ójafnræði sem stjórnmálamenn og embættismenn hafa búið launamönnum á almennum markaði í lífeyrismálum. Þessir menn hafa sett þær reglur að lífeyrissjóðum á almennum vinnumarkaði er gert að standa undir skuldbindingum sínum og skerða réttindi þegar illa árar, en þeir hinir sömu hafa sett þær reglur að innistæða skipti engu í opinberu sjóðirnir.

Það sem upp á vantar er sótt í vasa skattgreiðenda og lífeyrir algjörlega ótengdur greiðslugetu viðkomandi lífeyrissjóðs, með þessu er þessi hópur verið að færa lífeyriskostnað sinn yfir á börn okkar. Þessu til viðbótar vilja þessir menn skattleggja almennu lífeyrissjóðina fyrirfram og senda með því enn stærri reikning til barna okkar.

Launamönnum á almenna vinnumarkaðinum er gert taka á sig tvöfalt högg vegna fjármálakreppunnar. Annars vegar skerðingar réttinda í almennu sjóðunum og hins vegar stórauknar skattaálögur til að standa undir ósjálfbæru lífeyriskerfi opinberra starfsmanna. Að óbreyttu verður reikningurinn fyrir þessu verður sendur til skattgreiðenda. Halli b- deildar og a-deildar er á fimmta hundrað milljarða.

Þennan reikning þarf að greiða auk þess að það verður að koma í veg fyrir að þessar skuldir vaxi. Ef ríkissjóður tæki í dag lán til þess að greiða þessa skuld og tæki lán með 3,5% vöxtum til 30 ára væri árleg afborgun um 17 milljarðar króna, sem þýðir að það þurfi að hækka tekjuskatta um 4 prósent í þann tíma eða loka nokkrum leikskólum eða grunnskólum.

Verði hin barnalega tillaga sumra þingmanna um að leggja sjóðinn niður og fjármagna hann sem gegnumstreymissjóð, mun vandinn verða einfaldlega ennþá stærri og kalla á enn meiri skattahækkanir.

Fyrir nokkrum árum átti að jafna þennan mun og aðildarsamtök ASÍ sömdu við SA árið 2000 um aukin framlög til lífeyrisréttinda með það að markmiði að jafna réttindi á við opinbera starfsmenn. Deila um óréttláta misskiptingu landamanna hvað lífeyrisréttindi varðar hafði þá staðið yfir um árabil og viðhorf samtaka opinberra starfsmanna hafði jafnan verið ,,að jafna ætti kjörin upp á við‘‘.

Með samkomulaginu við SA árið 2000 vildu félagsmenn ASÍ jafnframt koma á ákveðnum sveigjanleika í sínum réttindum þannig að þeir gætu flýtt starfslokum sínum án skerðinga á grunnréttindum, líkt að sjóðfélagar í opinberu sjóðunum hafa – en ríkið hafði áður samið um lægri lífeyrisaldur fyrir þá ríkisstarfsmenn sem aðild áttu að tilteknum samtökum opinberra starfsmanna.

Þessi tilraun til jöfnunar réttinda tókst ekki, því strax í kjölfarið samdi ríkið við samtök opinberra starfsmanna um að bæta þessum réttindum ofan á þau réttindi sem fyrir voru, í stað þess að gefa færi á auknum sveigjanleika innan kerfisins. Því má segja að aðferðafræðin um ,,að jafna ætti kjörin upp á við‘‘ hafi fallið um sjálft sig og eftir stendur það veigamikla verkefni að jafna lífeyrisrétt landsmanna.

Nú hefur komið fram að á hinum miklu þenslutímum greiddu þáverandi ríkisstjórnir ekki iðgjöld til lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna, en samt stóðu þeir hinir sömu gleiðfættir í fjölmiðlum og sögðust vera með nánast skuldfrían ríkissjóð. Hann virðist vera óendanlegur sá blekkingarleikur sem hinir vanhæfu þingmenn hafa búið almenningi þessa lands.

Þetta ástand er algjörlega óásættanlegt og þessi sýndarveruleika og sjálftöku úr ríkissjóð verður að linna. Sá mikli munur sem er á lífeyrisréttindum á almennum vinnumarkaði og hjá hinu opinbera fær ekki staðist. Víki þingmenn sér enn einu sinni undan því að taka á þessum vanda nú, mun það einvörðungu leiða til þess að vandinn verður enn stærri. Í samþykktum innan verkalýðshreyfingarinnar eru áberandi kröfur um að tekið verði á þessu vandamáli núna og launamenn beiti öllu sínu afli til þess að þrýsta á stjórnvöld um viðunandi lausn.

þriðjudagur, 1. mars 2011

Deilurnar um jöfnun lífeyrisréttinda

Á almennum vinnumarkaði eru iðgjöld launamanna og launagreiðenda til lífeyrissjóða samtals 12% af heildarlaunum, en 15,5% hjá ríkinu og 16,0% hjá sveitarfélögunum. Samkvæmt lögum er miðað við að sjóðir á almennum vinnumarkaði tryggi að lágmarki 56% meðalævitekna á mánuði í mánaðarlegan lífeyri en samsvarandi hlutfall er 76% hjá hinu opinbera. Lífeyrisaldur á almennum vinnumarkaði er nú 67 ár en 65 ár hjá opinberum starfsmönnum.

Á almennum vinnumarkaði er kerfinu gert að vera sjálfbært og iðgjöld og ávöxtun þeirra standi undir lífeyrisréttindum, en aftur á móti er það ríki og sveitarfélög sem ábyrgjast tiltekin réttindi í sjóðum opinberra starfsmanna. Þar hefur safnast upp verulegur halli og voru lífeyrisloforð umfram eignir í B-deild LSR (og LH) í árslok 2009 um 392 milljarðar króna og í sjóðum sveitarfélaganna um 43 milljarðar.

Halli B-deildarinnar hefur vaxið hratt á liðnum árum einkum vegna hinnar s.k. eftirmannsreglur og viðmiðunar við dagvinnulaun opinberra starfsmanna í stað vísitölu neysluverðs. Skuldir deildarinnar halda áfram að vaxa og að lokum er reikningurinn sendur til á skattgreiðenda í framtíðinni. Almennu lífeyrissjóðirnir verða hins vegar að mæta þessu með skerðingu lífeyrisréttinda sjóðfélaga. Þetta birtist okkur vel við Hrunið þegar almennu lífeyrissjóðirnir þurftu lögum samkvæmt að skerða réttindi lífeyrisþega sinna umtalsvert til að rétta stöðu sjóðanna, en á sama tíma stóðu réttindi tiltekinna opinberra starfsmanna óbreytt og tryggð með skattpeningum almennings.

Hvað varðar eftirlaunasjóð Alþingis má samkvæmt útreikningum hagdeildar Samtaka atvinnulífsins leggja þau að jöfnu við 23 - 35% mánaðarlega launauppbót. Umframlífeyriskjör ráðherra sem gegndi embætti í þrjú kjörtímabil eru ígildi 85 -102 m.kr. starfslokagreiðslu og 66 - 79% mánaðarlegrar launauppbótar. Umframlífeyriskjör þingmanna að jöfnu við 23 - 35% mánaðarlega launauppbót.

Í dag ávinna launamenn í almennum lífeyrissjóðum sér árlega lífeyrisrétt sem nemur frá 1.2% til 1,47%. Fyrir sama iðgjald ávinna útvaldir ríkisstarfsmenn sér lífeyrisrétt sem nemur um 1,9%, að allt að 50% hærri réttindi en sjóðsfélagar í almennu lífeyrissjóðanna hafa. Réttindastuðull þingmanna er í dag 2,4% af launum. Þingmenn eru 29 ár að ávinna sér 70% eftirlaunarétt. Almennir launamenn eru 41 ár að ávinna sér 56%, eða 25% mismunun.

Réttindastuðull ráðherra þegar búið er að lækka ávinnslustuðul úr 6% í 4,8% af launum. Ráðherrar eru þar með 14,5 ár að ávinna sér 70% eftirlaunarétt og þurfa eftir það ekki að greiða af launum sínum í lífeyrissjóð svo fremi þeir greiði í lífeyrissjóð opinberra starfsmanna. Til samanburðar má geta þess að þá hafa sjóðfélagar almennu sjóðanna unnið sér inn að meðaltali um 16% lífeyrisrétt eftir 14,5 ára greiðslu í sjóðinn.

Meginmarkmiðið sem unnið er eftir við endurnýjun kjarasamninga þessa dagana er að allir lífeyrissjóðir starfi á sjálfbærum grunni líkt og sjóðir á almennum vinnumarkaði. Þess verði freistað að standa vörð um þegar áunninn réttindi en stöðva verði áframhaldandi skuldaaukningu lífeyrissjóða opinberra starfsmanna þannig að reikningurinn á skattborgara framtíðarinnar hætti að vaxa. Réttur opinberra starfsmanna til lífeyris í A-deild miðist líkt og á almenna vinnumarkaðnum við 67 ár í stað 65 til að jafna halla sjóðsins. Ríkisárbyrgð á lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna verði afnumin.

Krafan er skýr um jöfnun réttinda í náinni framtíð, ríkisstjórnin verður bæta upp það Hrun sem varð í almennu sjóðunum en ekki í hinum opinberu. Miðað við uppgjör sjóðanna í árslok 2009 samsvarar þetta um 23% aukningu áunninna réttinda.