mánudagur, 31. ágúst 2009

Tíðarandinn

Það voru ýmsir, þar á meðal verkalýðshreyfingin, til þess að halda uppi mikilli gagnrýni á þróun efnahagslífsins síðasta áratug. Þar má benda á ályktanir og viðtöl í sambandi við kjarasamninga og endurnýjun þeirra, auk þess að margir fjölmiðlamenn reyndu hvað þeir gátu að fá svör við spurningum um þróunina. En það skorti gagnsæi og upplýsingagjöf hjá stjórnvöldum og stofnunum þess, sem torveldaði fjölmiðlum og almenningi að fylgjast með hvað var raunverulega á seiði. Þessu var ítrekað lýst hér á þessari síðu veturinn 2007 – 2008. T.d. (hér) og (hér) og (hér)

Nú er m.a. komið fram að ráðherrar héldu hjá sér viðamiklum skýrslum um þetta efni, sem sýndu að gagnrýnin átti fullan rétt á sér. Hækkun skuldatryggingaálags endurspeglaði vel álit alþjóðlegs fjármálamarkaðar á íslenska bankakerfinu. Þrátt fyrir þetta fengu forsvarsmenn bankanna aðstoð ráðherra og forseta landsins við að halda því fram að málið snérist um baráttu við óvinveitt öfl í útlöndum. Spilað var á þjóðerniskennd okkar, það er stutt í þá taug og stjórnmálamenn þar á heimavelli.

Í þessu sambandi er nægilegt að minna á dönsku gagnrýnina og viðbrögð ráðherra og forsvarsmanna viðskiptalífsins. En þess má einnig geta að almenningur hafði ekki mikinn áhuga á þessari gagnrýni. Það kom m.a. glögglega fram að þrátt fyrir að hagdeildir atvinnulífisins héldu því fram með góðum rökum að gengi krónunnar væri 30% of hátt skráð vegna þenslu og gríðarlegs innflutnings á erlendu lánsfjármagni og ofboðslegum viðskiptahalla. Góðærið væri í raun yfirdráttur sem einhvertímann þyrfti að greiða. Almenningur kaus frekar að hlusta á stjórnarþingmennina, sem nýttu hvert tækifæri til að halda því á lofti hvað allir hefðu það gott undir þeirra stjórn og þeir voru endurkosnir aftur og aftur.

Hin helkalda staðreynd er nú sú að íslendingar voru of uppteknir í neyslukapphlaupinu og vildu ekki hlusta á gagnrýnina, hún var óþægileg. Það gekk vel, mikill hagvöxtur og kaupmáttaraukning. Það var sakir gríðarlegrar skuldsetningar og fjárfestinga. Flestir höfðu hagsmuni af því að vöxturinn væri sem hraðastur og eignaverð hækkaði sem mest svo það stæði undir veðskuldbindingum vegna aukinna lána.

Aðdáunin á viðskiptasnillingunum var mikil og þar var spilað á þjóðarembinginn. Þrátt fyrir að allir vissu að við stjórn íslensks efnahagslífs og bankanna væri reynslulítið fólk. Gagnrýni á þróunina og athafnaleysi stjórnvalda var ýtt út af borðinu sem öfund og á það spiluðu ráðherrar og stjórnarþingmenn.

En sé litið umræðna stjórnarandstöðu þessa dagana þá er spilað á þjóðarstoltið og að allir séu svo vondir við okkur. Þau viðhorf gagnvart Íslandi sem ég hef heyrt erlendis endurspeglast ákaflega vel í ummælum hollensku fjölmiðlanna sem var farið yfir um helgina í fréttum og ég kom að í síðasta pistli þar sem ég vitnaði í ummæli sænskra fjölmiðla. Ég efast ekki eitt augnablik að þingmönnum sé fullkomlega ljóst hvaða kostir okkur standi til boða hvað varðar Icesave, á þeim forsendum er málflutningur sjálfstæðismanna og framsóknar á svo óendanlega lágu plani.

Ekkert vandamál er lagað nema hægt sé að græða á því. Það er eðli þess hagkerfis sem við búum við í dag, allt verður að skila arði eða hagnaði. Kerfið er varið af fólkinu sem ætti að stuðla að breytingum á kerfinu. Stjórnmálamenn eru kosnir á þing til að tryggja að allt héldist óbreytt. Einstaklingnum talið í trú með taumlausum auglýsingum, að hann skorti nánast allt og alið á græðginni.

Íslendingar eru skorpufólk, allt kemur í gusum. Það er hætta á því að í uppbyggingarstarfinu gleymist mistökin og umræður leiti í sama farið. Nú er rætt um að fjölga ferðamönnum um helming á næstu árum, auk þess að byggja fleiri álver og mörg gagnaver.

Það er í sjálfu sér ekki mikið vandamál að reisa nokkra verksmiðjuskála, en það er tilgangslaust nema að reistar séu allmargar virkjanir, uppistöðulón og borholur. Auk þess að leggja línur til þess að koma orkunni þangað sem á að nota hana. Það skortir umræðu um neikvæð áhrif á umhverfið og náttúruna. Eða þá ofboðslegu þenslu sem miklar framkvæmdir kallar yfir hið litla íslenska hagkerfi.

Erum við tilbúinn í annað þenslutímabil? Höfum við tamið okkur um of að vera litli bróðir og geta tekið það sem okkur finnst gott og þægilegt en láta öðrum eftir að standa struam af þeim kostnaði? Við verðum að gera allt til þess að koma í veg fyrir að við uppbygginguna að við stefnum að sömu örlögum og við okkur blöstu 2008. Það gerum við ekki í einangrun en verðum að velja samskiptaleið í stað einangrunar.

sunnudagur, 30. ágúst 2009

Afneitun

Formaður Sjálfstæðisflokksins gekk fullkomlega fram af manni með ræðu sinni í gær. Þar endurspeglast hin yfirgengilega afneitun flokksins. Það liggur fyrir og hefur verið að koma fram í fréttum undanfarna daga að það voru sjálfstæðismenn sem hnepptu þjóðina í Icesave treyjuna, þar má t.d. vitna til ummæla Tryggva Þórs frá október í fyrra. Eins liggja fyrir athafnir Kjartans framkvæmdastjóra Flokksins og bankastjórnarmanns Icesave bankans.

Þessa dagana fer um embættismannagengið sem Flokkurinn kom á jötuna í valdatíð sinni. Ekkert fer eins illa í Valhöll og að nú standi til að „hreinsa til eftir valdatíð íhaldsins“ svo vitnað sé til ummæla núverandi fjármálaráðherra. Í haust þegar hrunið skall á blasti við okkur fullkomlega vanhæft og ákvarðanafælið embættismannagengi. Þetta endurspeglast í ummælum hvers ráðgjafans á fætur öðrum sem hingað hefur komið, þar sem lagt er margendurtekið til að hingað þurfi að koma erlendir sérfræðingar vegna getulausra og ráðvilltra stjórnunarhátta sem tíðkast hafi hér á landi.

Og í hvert skipti heyrast vandræðaleg andmæli úr Valhöll um pólitískar ofsóknir. Þessi vinnubrögð Flokksins opinberuðust svo kyrfilega þegar stjórn Seðlabankans var skipuð, þegar ekið var fram hjá öllum reglum við ráðningu þekkts háskólaprófessors, hæstaréttar- og héraðsdómara og svo maður tali nú ekki um hina eftirminnilegu ráðningu hinna 9 sendiherra korter áður en Davíð gekk úr ráðuneytinu.

Út yfir allan bálk tekur að heyra þingmenn sjálfstæðismanna og framsóknar tala um föðurlandssvikara og óvinveittar þjóðir. Hvar í veruleikanum er þetta fólk statt? Hvernig í ósköpunum komst svona fólk inn á þing? Umræðulist þessa fólks virðist ráðast af því einu að koma sér upp að minnsta kosti einum ógöngum sem síðan bornar eru á andstæðinginn í endurteknu rakalausu stagli.

Rúið sjálfstæðri hugsun. Ég varð fyrir því í gær að því vera bent á hversu gott allir hefðu haft undir stjórn Sjálfstæðismanna. Mér varð það á að svara; "En það var allt á yfirdrætti þess fjármagns sem pumpað var inn í hagkerfið og við verðum næstu 40 ár að endurgreiða með vöxtum, kaupmáttafalli, glötun eigna og falls á lífeyris- og örorkúbótum."
"Þú ert greinilega Vinstri grænn eða samfylkingarmaður" var eina svarið.

Ég hef undanfarna daga verið í Stokkhólmi í erindagjörðum vegna norræna rafiðnaðarsambandsins. Ég hef áður vitnað nokkrum sinnum til ummæla hinna norrænu vina okkar frá því í fyrra (hér) og (hér) og (hér) Þar í umræðunni allnokkru fyrir hrun að endaleysan á Íslandi gengi ekki lengur og íslendingar yrðu að fara að taka til hjá sér í efnahagsstjórninni. Í ummælum félaga minna og í fjölmiðlum nú fyrir helgina þar sem rætt var við efnahagssérfræðinga um Icesave málið og niðurstöðu Alþingis, kom fram að íslenskir stjórnmálamenn hefðu fullkomlega misst sig í umræðum um málið og sú dramatík sem þeir hefðu dregið upp væri eitthvað svo íslensk og út í hött.

Hinir sænsku viðmælendur voru sammála um að niðurstæðan gæfi þó vonir um að íslendingar væru að átta sig á sinni stöðu og að byrja að horfast í augu við hana. Það væri grundvöllur þess að hægt væri að hefja enduruppbyggingu á Íslandi. Þar talar fólk sem hefur áhyggjur af þróuninni á Íslandi og er okkur afskaplega vinveitt, en veit þó að íslendingar verði að átta sig á sinni stöðu og séu þeir einu sem verði að ráða fram úr þeim vanda sem þeir komu sér í.

Þegar sjálfstæðismenn og og framsóknarmenn létu í ræðum sínum á þingi og í blaðagreinum eins og hrunið sé núverandi stjórnarflokkum að kenna og þeir hafi sjálfir hvergi komið nærri, kom aftur og aftur fram í huga mér eftirfarandi atvik úr lífi nokkurra rafiðnaðarmanna félaga minna: Hópur vinnufélaga fór í afmælisveislu, þar sem vel var veitt og menn urðu alldrukknir. Þegar afmælisveislunni lauk hugðust nokkrir úr hópnum halda gleðinni áfram og tóku leigubíl og stefndu á öldurhús borgarinnar.

Á miðri leið varð einum gleðimanninum bumbult af veitingunum og ældi allt út, yfir félagana í aftursætinu og út um allan bílinn. Leigubílstjórinn brást hin versti við og henti þeim öllum út og þarna stóðu þeir út í ausandi rigningu. Félagarnir verkuðu æluna af vininum eins vel þeim var unnt og sendu hann síðan heim í öðrum leigubíl, en héldu sjálfir á vit áframhaldandi gleði. Þegar þeir mættu til vinnu á mánudeginum spurði vinurinn félaga sína „Hver ældi á fötin mín?“

Þeir sem verið hafa á frjálshyggjufylliríi undanfarin ár, þurfa að fara að átta sig á því að það voru þeir sem ældu allt út. Það fer ekki fram hjá neinum, utan sögusmiðjumönnum Valhallar (þar sem veruleikinn er alltaf gefinn út í endursögn að hætti húsins), að upp úr stendur hvernig Guðbjartur Hannesson formaður fjárlaganefndar leiddi sjálfstæðismenn og aðra þingmenn inn í lausn Icesave málsins.

Hvernig hann opinberaði fyrir alþjóð og ekki síst nokkrum þingmönnum sjálfum hvernig tilteknir þingmenn beittu endurteknum innantómum og rakalausum upphrópunum sem höfðu þann tilgang einn að vekja tortryggni og ala á sundurlyndi.

Það eru þessi vinnubrögð íslenskra stjórnmálamanna sem hafa dregið orðspor Íslands langt niður hjá vinaþjóðum okkar og ekki síður í viðhorfum íslendinga sjálfra til þingmanna og starfa Alþingis. Þar hefur Guðbjartur unnið stórvirki og eftir standa sjálfstæðismenn og ekki síður framsóknarmenn með allt niðrum sig í illa lyktandi fötum.

laugardagur, 29. ágúst 2009

Þingmenn ákveða að skerða lífeyrisréttindi

Í lok júnímánaðar s.l. samþykkti Alþingi breytingar á lögum nr. 88/2003 um Ábyrgðasjóð launa í þá veru m.a. að vaxtagreiðslur vegna krafna á vangoldnum lífeyrissjóðsiðgjöldum falla niður.

Alþingismenn völdu að læða þessari breytingu var inn að lokinni 2. umræðu á þinginu án þess að gefa nokkrum tækifæri til þess að skoða hana og koma að andmælum. Lögin voru síðan samþykkt á Alþingi 29. júní s.l. Í nefndaráliti segir að þessi breyting sé “ætlað að vera hvati fyrir lífeyrissjóði til að ganga tímanlega eftir greiðslu vangoldinna lífeyrisiðgjalda í sjóðina.”!!??

Með þessu þá verða sjóðsfélagar af réttindum að öllu óbreyttu. Hér er ástæða til þess að minna lesanda minn á að þetta gildir ekki um lífeyrissjóð þingmanna, þar skiptir ávöxtun og rekstrarkostnaður nefnilega engu, það sem vantar upp á verðtryggðar lífeyrisgreiðslur sækja þingmenn einfaldlega í ríkissjóð. Þingmönnum finnst nefnilega ósæmilegt að bjóða sjálfum sér upp á sambærileg lífeyriskjör að almúginn hefur, en eru svo að senda öðrum tóninn vilji þeir reyna að vernda stöðu sjóðsfélaga almennu sjóðunum. Eins og allir vita þá hefur ítrekað þurft að skerða réttindi í almennu sjóðunum vegna efnahagsástands, á meðan réttindi þingmanna haldast óbreytt.

Það er með ólíkyndum að þingmenn skuli setja það í þingskjöl að það þurfi að hvetja lífeyrissjóði til að ganga tímanlega á eftir greiðslum vangoldinna iðgjalda. Svona eins og starfsmenn lífeyrissjóða séu bara í rólegheitum að horfa á réttindum sjóðfélaga rýrna.

Þessi breyting leiðir vitanlega til þess að auk þess að sjóðsfélagar almennu sjóðanna séu að glata réttindum þá verða starfsmenn lífeyrissjóða að keyra fyrirtæki í gjaldþrot með hraði ef þannig stendur á hjá þeim að geta ekki staðið skil á réttum tíma.

Í dag eru starfsmenn almennu lífeyrissjóðanna semsagt að hóta atvinnurekendum gjaldþroti og fylgja því á eftir með kostnaðarsömum aðgerðum sem leiða ekki til annars en gjaldþrota, svona í boði þingmanna. Það er furðulegt að heyra svo suma þingmenn afsaka sig með því að um mistök hafi verið að ræða í 2. umræðu að taka vextina út. Það hefði verið hreinlegra að viðurkenna að Ábyrgðasjóðurinn stæði ekki undir auknum álögum og taka upp viðræður á þeim grunni.

föstudagur, 28. ágúst 2009

Verðtrygging og Eygló Harðar

Mann setur ítrekað hljóðan þegar þingmenn fara á stúfana og upplýsa okkur um fávisku sína á íslensku efnahagslífi og atvinnulífinu. Þingmenn sem virðast hafa lítið til málanna að leggja utan endurtekinna órökstuddra fullyrðinga þar sem leitað er á mið skyndivinsælda með lýðskrumi.

Verðtryggingarkerfið var sett á af þáverandi forsætisráðherra Ólafi Jóhannssyni og afgreitt af Alþingi til þess að skapa grundvöll fyrir langtímalánum hér í landi óstöðugleikans og hárrar verðbólgu. Fram að þeim tíma gufaði allt sparifé og lífeyrissjóðir upp og það var einfaldlega ekkert fjármagn til að byggja upp langtímalánakerfi, sem er reyndar grundvallaratriði ef venjulegt fólk á að hafa möguleika að koma yfir sig þaki. Þeir sem áttu fjármagn sendu það úr landi eða settu það í steinsteypu og einungis voru stutt lán í boði og það takmörkuð.

Þegar fólk tekur lán getur það valið um breytilega vexti, erlenda myntkörfu eða fasta vexti og verðtryggingu. Verðtrygging er mishá eftir hversu há verðbólgan er. Með föstum vöxtum og verðtryggingu er í raun verið að velja greiðsludreifingarleið þar sem afborganir eru lægri en þær eiga að vera fyrri hluta lánstímans.

Sumir hafa lagt til að strika út verðtryggingu og halda bara föstu vöxtunum, ekki lagt neitt til annað í staðinn og ekki skýrt út hvernig eigi fara að því. Það liggur það fyrir að ef verðtrygging væri strikuð út og neikvæðir vexti viðhafðir myndi það leiða til sömu stöðu og var þegar fyrrv. formaður Framsóknarflokksins lagði frumvarp sitt um verðtryggingu fyrir alþingi. Sparifé myndi gufa upp, eða með öðrum orðum að kostnaður af lánum allra væru færður yfir á gamalt fólk sem er með sparifé sitt í lífeyrissjóðnum sínum og bönkunum.

Mér er óskiljanlegt af hverju á þetta ráðdeildarsama fólk sem hefur safnað upp sparifé, eigi að sætta sig við að það sé nýtt til þess að greiða skuldir annarra? Sjóðsfélagar eru í langflestum tilfellum félagsmenn í stéttarfélögum. Á fundum stéttarfélaga er oft fjallað um lífeyrissjóðina og ávöxtum þeirra og þess krafist að séð verði til þess að farið sé að lögum og fjármunir í lífeyrissjóðum fari einungis í að greiða örorku- og lífeyrisbætur. Ekki í að greiða upp skuldir fólks sem jafnvel er ekki einu sinni í viðkomandi lífeyrissjóð.

Í þessu sambandi hvað varðar endurteknar fullyrðingar nokkurra þingmanna, þá sérstaklega Framsóknar, þá er það Alþingi sem setur lög um starfsemi lífeyrissjóða ekki stéttarfélög og heldur ekki starfsmenn þeirra. Það er hlutverk stjórna sjóðanna að fara að þessum lögum, ástæða er að minna enn einu sinni á að verkalýðsforystan situr ekki ein í stjórnum lífeyrissjóða og það eru ekki nema örfáir formenn verkalýðsfélaga í stjórnum lífeyrissjóða. Hvorki stjórnir sjóðanna eða ársfundir þeirra gætu tekið það upp hjá sjálfum sér að nýta það sparifé sem er í lífeyrissjóðunum til annarra hluta en fram kemur í landslögum sem alþingismenn setja. Þingmenn sem halda öðru fram eru að krefjast þess að lögbrot verði ástunduð.

Ef tekið er lán með breytilegum vöxtum í íslensku hagkerfi, þar sem verðbólga sveiflast upp og niður um tugi prósenta, þá sveiflast vextir líka upp og niður. Ef verðbólgan fer upp fyrir 5% verða afborganir lána á breytilegum vöxtum svo háar fyrri hluta lánstímans að fáir ráða við þær. Svo maður tali nú ekki um þegar verðbólgan er kominn á annan tug prósenta. Það er ástæða þess að tekið var upp greiðsludreifingarkerfi eins og verðtryggingakerfið er.

Það er einungis ein leið til þess að losna við verðtryggingu, hún er að komast með íslenska hagkerfið í umhverfi þar sem verðbólga er lág og stöðugleiki ríki. Það gerist ekki nema að við fáum þingmenn sem hafa til að bera þekkingu á grundvallaratriðum efnahagslífsins. Þingmönnum verði settar sömu skorður hér landi og gert er í nágrannalöndum okkar, að geta endurtekið leiðrétt mistök sín með gengisfellingum og hárri verðbólgu og aðför að sparifé landsmanna og lífeyrissjóðum.

Sumir virðast telja að hægt sé að velja föstu vextina í stað breytilegu vaxtanna og strika svo út verðtryggingu. Mjög einfaldað dæmi : Tekið er 20 millj. kr. lán. í 40 ár. Afborganir af höfuðstól er þá 500 þús. á ári. Ef lánið væri á breytilegum vöxtum, sem hafa verið um og yfir 20% undanfarin misseri, þá væri vaxtagreiðsla þessa láns 4 millj. kr. fyrsta árið. Semsagt viðkomandi þurfti að greiða af láninu 4.5 millj. kr. fyrsta ári, eða tæp 400 þús. kr. á mán.

Með verðtryggingu og föstum 5% vöxtum þá væri afborgunin höfuðstóls vitanlega sú sama 500 þús. kr. á ári og vaxtagreiðsla 1 millj. Afborgun fyrsta árið væri þá 1.5 millj. kr. á mán. eða um 130 þús. kr. á mán. Með þessu er greinilega verið að flytja hluta af vaxtagreiðslu það er 3 millj. kr. yfir á seinni hluta lánstímans. Sá sem tók lánið fær í raun nýtt lán sem bætt er við höfuðstólinn. Ef farið er að tillögum þingmanns Framsóknar þá væri þessar 3 millj. kr. teknar út af spari- og lífeyrisreikningum fullorðins fólks.

Ég þekki engan hvorki í verkalýðshreyfingunni eða annarsstaðar sem er fylgjandi hárri verðbólgu, sem leiðir til hárra vaxta, sem síðan leiða til greiðsludreifingarkerfis eins og verðtryggingarkerfið er. Allir þessir aðilar eru ákafir fylgismenn þess að hér verði skapað umhverfi með alvöru efnahagsstjórn, þar sem við búum við stöðugleika, lága vexti og enga verðtryggingu.

Nytsamir sakleysingjar

Það virðist vera svo að allmargir banka- og umsýslumenn fjármagns ætli að gera tilraun til þess halda ofurlaunum og bónusum. Alræmdir eru bónusar sem viðskiptastjórar banka og verðbréfa var skammtað. Árangurstenging með gríðarlegum bónusum dreif þessa menn í að ná inn eins mörgum samningum og frekast var kostur. Þeir náðu þá að hækka laun sín umtalsvert jafnvel svo skipti tugum milljóna á ársgrundvelli.

Saklausu fólki var þvælt út í viðskipti sem fyrirfram voru vafasöm jafnvel dauðadæmd og yrðu viðkomandi ofviða, þó svo hrunið hefði ekki komið til. Þá er ég að vitna til þess að alþekkt var 2007 að króna væri á um 30% yfirgengi vegna ábyrgðarlausrar stjórnar á efnahagslífinu, en í kosningabaráttunni héldu þáverandi stjórnarflokkar því að kjósendum að þeir hefðu fundið upp hina endanlegu alsælu efnahagsundurs og allir hefðu það svo gott og það myndi halda áfram.

Þeir sem gagnrýndu andvaraleysi voru úthrópaðir sem úrtölumenn og öfundsjúkir vinstri menn. Svo ég vitni til auglýsinga og ummæla Flokksins kosningavorið. Of miklu lánsfé hafði verið pumpað inn í hagkerfið og íbúðarverð byggðist á toppi bólunnar. Sumir endurnýjuðu reglulega veðhæfni sína og tóku út ný og hærri lán undir leiðsögn „sérfræðinga?!“ bankanna.

Þeir sem fylgdust vel og voru ekki blindaðir af sól hins Íslenska efnahagsundurs máttu vita að það yrði niðursveifla innan skamms tíma, það kom fram í öllum ræðum hagfræðinga. Þá er ég ekki að tala um banka- og kerfishrun, heldur þá niðursveiflu sem altalað var að myndi koma við lok hinna miklu framkvæmda fyrir austan.

Þetta virtu viðskiptastjórarnir einskis, en létu eigin hagnaðarvon ráða för, engu skipti hagur viðskiptavinar eða bankans. Þóknunin réð för. Eftir standa í dag skuldum hlaðnir sakleysingjar sem trúðu og treysti ráðleggingum „sérfræðinga?!“ bankans. Bankarnir sitja uppi með óseljanlegar eignir og við blasa gríðarlegar afskriftir. Til viðbótar er svo allnokkur hópur fólks sem fór eðlilega miðað við aðstæður, en lenti í klóm hrunsins.

Allt þetta lendir með beinum eða óbeinum hætti á þeim íslendingum sem kjósa að vera skattgreiðendur hér heima næstu áratugina. Óuppgerð eru það tjón sem blasir við bönkunum. Ábyrgð viðskiptastjóranna er mikil sem ábyrgðalausir létu stundargróða ráða för. En ábyrgð liggur einnig hjá stjórnendum bankanna sem byggðu upp þessu árangurstengdu launakerfi.

En mestu ábyrgðina bera þeir stjórnmálamenn sem sköpuðu þetta efnahagsástand og það viðhorf sem alið var á. Full ástæða er t.d. að líta til ummæla fyrrv. bankastjóra Kaupþings um hvernig kunnáttuleysi stjórnenda Seðlabanka og forsætisráðuneytis leiddi yfir þjóðina fleiri hundurð milljarða tjón að óþörfu.

Sé litið til frétta sem hafa verið að birtast undanfarna daga, þá virðist það vera svo að viðskipstjórar og umsjónarmenn eignastýringa vilji ekki hverfa frá þeim háttum sem voru innleiddir á árunum fyrir hrun. Ég átti viðtal við einn af helstu stjórnendum uppbyggingar bankanna í gær, hann sagði að það virtist stefna í að kosta mikil átök til þess að fá viðskiptastjórana til þess að horfast í augu við þessa stöðu og tómt mál væri að tala um að þeir teldi sig hafa eitthvað unnið til saka.

Á þessum vanda verður að taka og það á raunhæfan hátt, en það er ekki auðvelt. Flöt niðurfelling skulda er einfaldlega þjóðfélaginu ofviða ofan á aðra skuldsetningu, auk þess að þar munu þeir sem síst skyldi fá mestu niðurfellinguna. Það er heldur ekki lausn að fólk búi áfram í húsnæði sem bankinn á í raun og veru, þar búi fólk með gríðarlegt lán í frystingu og verði að skilað íbúðinni einhvern tímann verði ekki staðin skil á frystu láninu. Það mun einfaldlega leiða til þess að það mun ekki sjá sér neinn hag í því að viðhalda eigninni og hún drabbast niður.

Það er heldur ekki nægjanlegt að afskrifa einungis skuldir vegna íbúðarkaupa í bankakerfinu, þar verður mismunum gagnvart lánum íbúðarlánasjóðs. Afskriftir þar kalla á framlög úr ríkissjóð og aukna skatta. Ef litið er til lána lífeyrissjóða til íbúða þá leiða afskriftir þar til lækkunar á lífeyri- og örorkubótum. Það er að segja í almennu lífeyrissjóðunum, ekki hinum opinberu, því þeir sækja það í ríkissjóð og það er svo sótt í hærri sköttum.

fimmtudagur, 27. ágúst 2009

Alsgáð vinnubrögð

Á unglingsárum mínum vann ég á veturna sem piccaló á Borginni. Var í borða- og hnappalögðum jakkafötum með pottlok, tók á móti gestum og fór með þá ásamt töskum upp í herbergin. Lyftan var þá handstýrð. Oft komu þjónar innan í sal og báðu okkur piccalóana að hlaupa einhverra snöggra erinda fyrir alþingismenn og útgerðarmenn út í banka eða sækja blöð. Valdastéttin bjó gjarnan á Borginni ef hún var í bænum, eða ef um var að ræða innfædda Reykvíkinga þá héldu þeir oft til á Borginni yfir hádaginn og stundum fram á nóttina.

Jóhannes staðarhaldari bjó á herbergjum 101 og 102 og á hverjum degi var það hlutverk okkar piccalóanna að fara með blöðin til hans, eins ef út kom ný ljóðabók þá varð að sækja hana strax. Jóhannes las svo ljóðin og ef þar voru ljóð sem voru honum ekki að skapi, þá reif hann viðkomandi síðu úr bókinni og henti henni.

Fastir gestir í sal voru þingmenn og efri valdastéttin, þá þótti ekkert tiltökumál þó menn fengju sér eitthvað í glas. Vínsala var bönnuð nema á kvöldin og eins var einn dagur vínlaus. Þetta vafðist ekki fyrir þjónum staðarins. Farið var með mjólkurkönnuna bakvið og sett á hana það sem pantað var út í kaffið.

En þingstörf gengu þó svo ekki færi fram vitræn umræðan í sölum Borgarinnar. Þetta var undanfari þess ástands sem þingmenn hafa kvartað undan á síðustu árum, um að það væri fullkomið ráðherraræði í gildi í þingsölum Alþingis og nánast tilgangslaus tilvera sem almennir þingmenn upplifðu.

Eftir að ég lauk unglingsárum hóf ég nám í rafvirkjun og vann oft á Borginni að viðhaldi og endurnýjun rafbúnaðar þessa virðulega hótels. Sömu viðhorf viðgengust gagnvart víndrykkju í vinnutíma, sama gilti á mörgum funda sem haldnir voru af öðrum eins og t.d. stéttarfélögum, ekki þótti tiltökumál þó menn mættu á svæðið vel í því og færu í pontu og helltu innihaldslausu kjaftæði yfir fundarmenn.

Eftirminnilegt er hvað þingmenn töldu að myndi gerast hjá almenning ef bjórinn yrði leyfður. Í hverri ræðunni fullyrtu þingmenn nýkomnir úr sölum Borgarinnar að almenningur myndi ekki ráða við það ef bjór yrði leyfður og þjóðin myndi vera á gengdarlausu fylleríi ef hann yrði leyfður.
Á þessum tímum voru fundir haldnir á kvöldin eða þá á laugardagseftirmiðdögum. Sem betur fer breyttust viðhorf gangvart þessu upp úr 1980 og undanfarin ár er nákvæmlega engin þolinmæði gagnvart svona háttalagi. Sigmundur Ernir er klárlega ekki sá eini sem mætir í þingsal og heldur ræðu eftir að hafa fengið sér áfengi, en það afsakar ekki hans háttalag.

Eftir að hafa lesið ræðu hans þá er ljóst að hún er fantagóð. Upphrópanir tiltekinna þingmanna úr Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki eru viðkomandi þingmönnum til háborinnar skammar og háðungar. Lýsir í raun ekki öðru en litlum körlum sem ekki þola að heyra hreinskilna lýsingu á þeirra eigin háttalagi og hvernig getuleysi þeirra leiddi þjóðina í þá stöðu sem hún er í. Hver er að viðhafa alsgáð vinnubrögð er í mínum huga klárt.

miðvikudagur, 26. ágúst 2009

Ráðvillt umræða

Umræðan um lífeyrissjóðina er oft með hreinum eindæmum, eins og ég hef reyndar alloft bent á. Upphrópanir og rakalausar klisjur. T.d. á Silfri Egils í gær er birt grein þar sem það er fullyrt að verkalýðsforystan hafa verið að sukka með sjóðina og þeir séu tómir og svo er grein þar fyrir ofan þar sem það er vandamál hversu miklir fjármunir séu til ráðstöfunar í lífeyrissjóðunum og það verði að koma þeim fjármunum út úr bankabókunum í atvinnulífið, það sé bjarghringur Íslands.


Það hefur reyndar aldrei verið útskýrt hvernig menn fá það út að Verkalýðsforystan sé að ráðskast með eignir sjóðanna. Við hvað er átt? Í stjórnum lífeyrissjóða er helmingur úr röðum fyrirtækja sem greiða iðgjöld til sjóðannna og hin helmingur er kosinn af stéttarfélögum sjóðsfélaga viðkomandi sjóðs. Það voru þessir aðilar sem gerðu kjarasamninga um uppbyggingu viðkomandi sjóða. Svo eru til allnokkrir aðrir lífeyrissjóðir. Hlutverk allra sjóðanna er að ávaxta það fé sem er í viðkomandi sjóðs sem best.

Það er útilokað að alhæfa um lífeyrissjóðina, þeir standa ákaflega misjafnlega, eins og margoft hefur komið fram, t.d. eiga þeir mismiklar eignir erlendis. Sumir eiga þar töluvert og þær eignir hafa verið að vaxa mjög hratt undanfarið eins og kom fram í fréttum í síðustu viku.

Einnig eru eignir þeirra í ríkistryggðum skuldabréfum mismiklar, en hjá sumum er það töluvert. Einnig hefur ítrekað fram að undanförnu að eignir á bankabókum safnist nú upp sakir þess að verðbréfamarkaðir séu óvirkir.

Spurningin um tap lífeyrissjóða eins og reyndar tap annarra sem áttu sparifé, snýr að nokkrum af þeim félögum sem útrásarvíkingarnir settu upp. Málið snýst um spil þeirra með bönkunum, þar sem keypt voru upp virk félög í atvinnulífinu og þeim var breytt í fjárfestingarfélög og skuldapíramída án þess að öðrum eigendum væri gerð grein fyrir því og Fjármálaeftirlit eða Seðlabanki stæðu sína eftirlitsplikt. Heldur stóðu forsvarsmenn opinberra eftirlitsstofnana fremstir í flokki sem klappstýrur útrásarinnar og hvöttu fólk og lífeyrisjóði að til þess að vera virkir þátttakendur í spilinu. Þetta mynd hefur sífellt að koma skýrar fram undanfarnar vikur.

Þar var vísvitandi verið að blekkja allmarga einstaklinga sem keyptu skuldabréf og hlutabréf tengt þessum félögum. Þetta hefur verið gagnrýnt harkalega hér á þessari síðu í fjölmörgum pistlum. Það hefur einnig verið gagnrýnt að ríkjandi stjórnvöld stóðu ekki vaktina. Þetta athafnaleysi leiddi til þess að útrásarvíkingar fengu svigrúm til þess að spila þennan leik. að sumir lífeyrissjóðir og allmargir einstaklingar hafa tapað fjármunum, hversu miklum er ekki komið fram ennþá og verður ekki ljóst fyrr en skilanefndir eru búnar að ganga frá málum og niðurstaða væntanlegra réttarhalda fæst.

En eins og margoft hefur komið fram á eru í lífeyrissjóðunum gríðarlegar eignir og eru mikið rætt um að það fjármagn geti verið það haldreipi sem gæti komið þessu þjóðfélagi í gang. Spurningin er hvenær efnhags- og atvinnulífinu verður komið í gang og hægt verður að láta þetta fjármagn vinna í stað þess að safnast upp á bankareikningum.

Í Morgunblaðinu í dag er mjög góð grein eftir stjórnarformann Lífeyrissjóð verzlunarmanna. Þar stendur m.a.“ Fréttastofa Stöðvar 2 hefur flutt af því fregnir í sumar og nú síðast 22. ágúst sl. að stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna vilji ekki veita öðrum en stjórnarmönnum sjóðsins upplýsingar um tiltekin atriði í rekstri sjóðsins, einkum gjaldmiðlaskiptasamninga og skuldir stærstu lánþega. Í fréttatíma stöðvarinnar sl. sunnudagskvöld var það ein fréttin að formaður stjórnar lífeyrissjóðsins hefði neitað Stöð 2 um viðtal um þessi málefni.

Fréttamaður Stöðvar 2 innti mig ítrekað eftir því í símtali fyrr um daginn hvort ekki væri ástæða til að sjóðurinn breytti afstöðu sinni til þagnarskyldu sinnar „í ljósi ástandsins í þjóðfélaginu“. Jafn oft minnti ég fréttamanninn á að þagnarskyldan er lögboðin. Ég náði ekki að sannfæra fréttamanninn um að landslög séu rétthærri en „fjórða valdið“, fjölmiðlarnir.

Stjórnvöld eru þessa dagana að kanna hvort efni standi til að breyta lagareglum um trúnaðarskyldu banka og annarra fjármálastofnana. Lífeyrissjóðir hljóta eins og aðrir að sýna biðlund og fylgja því sem lög mæla fyrir um á hverjum tíma. Það er sérkennilegt að menn krefjist þess af öðrum að brjóta lög og gerast þar með sekir um refsivert athæfi. Lögbrot geta ekki innleitt traust og virðingu.“

þriðjudagur, 25. ágúst 2009

Hvert liggur leið okkar?


Sl iceland sýningin í Bjargtangavita í sumar

Í þeirri kreppu sem hefur skollið yfir okkur velta örugglega margir því fyrir sér hvort við þurfum að afsegja kapítalismanum og hverfa tilbaka. Taka upp kommúnisma, marxisma eða þjóðernishyggju. Það hagkerfi sem hefur verið ráðandi undanfarin ár sé aldeilis ómögulegt. Við blasi sviðin jörð kapítalisma og frjálsra markaða.

Við eigum að nýta þetta og það geta verið spennandi tímar á næstunni. Þar sem tekist verður á um grundvallarspurningar um sátt fjármagns og framleiðni hinnar vinnandi handar. Viðhorfsbreytingar gagnvart neyslu og umhverfi okkar, inn í það mun næsta örugglega spila aukin umhverfisvitund og viðhorf til loftslagsbreytinga. Það verður að nást sátt í samfélaginu um skiptingu lífsgæða. Finna leiðir til stöðugleika og aukins kaupmáttar og koma böndum á ofsafengna auð- og neysluhyggju.

Þjóðfélög heimsins hafa áður glímt við svipaða stöðu og niðurstöðurnar breyttu heiminum. Það sama mun gerast í kjölfar yfirstandandi kreppu, en það getur brugðið til beggja átta hvert haldið verður. Aukna einagrun eða aukin samvinna þjóða. Umræða undanfarinn misseri um samskipti og samstarf við aðrar þjóðir vekur upp efasemdir um viðhorf íslendinga á þessu sviði. Á sama tíma og Evrópuþjóðir eru að bindast auknum samtökum og uppbyggingu viðskiptasvæðis til þess að tryggja atvinnuuppbyggingu og samkeppnishæfni við aðra heimshluta, eru áberandi viðhorf hér á landi sem miða að frekari einangrun Íslands, þá sérstaklega þeirra sem eru yst til hægri eða vinstri.

Hvort eigum við að láta þröngsýn pólitísk markmið hér innanlands sníða okkur stakk eða fara sömu leið og nágrannaríki okkar um samstarf og frelsi til þess að komast inn á sameiginlegan markað. Sjálfbærni næst með því að auka framboð samfara að böndum er komið á neysluhyggju. Nýsköpun og hröð tækniþróun er forsenda sjálfbærni, þar hefur orðið mesta fjölgun atvinnutækifæra undanfarin ár. Til þess þarf opið samfélag, ekki einangrun.

Samstarf innan Evrópu hefur spornað gegn því að stóru löndin verði enn stærri og hin litlu ósjálfbjarga. Kapítalisminn á að vera verkfæri, ekki hugmyndafræðilegt markmið eins og hann hefur orðið í höndum frjálshyggjunnar og leitt til ofsafenginnar auð- og neysluhyggju.

Kreppan á áttunda áratugi leiddi til þess að EES var stofnað til þess að standast samkeppni frá Asíu. Margt í stjórnmálaumræðu ungs fólks í dag minnir um margt það sem 68 kynslóðin hélt fram. Það var ekki einangrun það voru hnattræn sjónarmið. Umræður þessa dagana ber merki reiði og óuppgerðra hluta sem kalla á hert eftirlit og strangari lög sér staklega um fjármálamarkað og hegðan stjórnenda þeirra.

En sem betur fer farið að bera á kröfum um viðhorfsbreytingar og endurbætur á mikilsverðum þáttum þjóðskipulagsins.

mánudagur, 24. ágúst 2009

Sýna fleiri viðtöl bæði gömul og ný.

Fer oft í laugar og hef gert mjög lengi. Syndi kannski ekki alltaf en tek þó stundum skorpur ef ég er latur við fjallgöngur eða skokkið. Heitu pottarnir eru fínir og helst vill maður hafa það rólegt þar.

En stundum koma spekingar sem vilja nota tækifærið til þess að koma á framfæri skoðunum sínum. Áberandi er hversu mikla áherslu þeir leggja á að það hafi ekki verið hægri mönnum að kenna hvernig efnahagsmál hafa þróast, það sé Samfylkingin sem sé sökudólgurinn. Síðan koma allskonar endursagnir á raunveruleikanum sem allar enda á fyrirframgefinni niðurstöðu.

Ef maður spyr; En voru það ekki Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn sem voru í stjórn þegar bankarnir voru seldir og settu sína menn til að stjórna Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu og afnámu bindiskylduna. Voru það ekki þeir ásamt Hannesi Hólmstein sem fóru um heiminn og hrósuðu sjálfum sér fyrir hið mikla íslenska efnahagsundur sem nú er komi í ljós að það var ekkert undur einungis Mattadorleikur og skuldapíramídar og byggt á ofsafenginni þenslu í skjóli eftirlits- og andvaraleysi þáverandi stjórnvalda og það hafi ekki getað endað öðruvísi. Það var undir þeirra stjórn sem bankarnir fengu að leiða hvern einstaklinginn af öðrum til efnahagslegrar aftöku.

„Þarna talar greinilega Samfylkingarmaður“ er þá eina svar þeirra og ef maður spyr tilbaka hvort þeir hafi nú ekki einhver önnur rök, þá verða þeir undrandi, pirraðir og svarafátt. Hjá þessum mönnum er nægilegt að afgreiða fólk svona, og þeir hafa komist upp með það í umræðu- og spjallþáttum.

Viðtalið við Hannes Hólmstein í morgun var venjubundinn farsi. Það eru til svo mörg viðtöl, svo mörg erindi og greinar eftir Hannes Hólmstein frá undanförnum árum, þar sem hann hrósar sjálfum sér og vinum sínum, og svo mætir hann í útvarpið með þessar fullyrðingar.

Sjónvarpið á að sína þessi viðtöl á laugardagskvöldum bæði ný og gömul. Þau geta vel komið í stað Spaugstofunnar. Ekki bara við Hólmsteininn það má sína eldri viðtöl við Davíð, Geir og fleiri af fyrrverandi ráðherrum og þingmönnum þáverandi stjórnarflokka.

sunnudagur, 23. ágúst 2009

Siðrof

Fram kom nýverið að liðlega helmingur skráðra fyrirtækja hér á landi væru ekki með neina starfsemi. Allnokkur hluti þeirra voru notuð til þess að auðvelda eigendum þeirra koma sér undan gjöldum til samfélagsins og veita þeim skjól í miklu skuldafeni vegna hlutbréfakaupa.
Sé litið til þeirra viðhorfa sem voru viðtekin í íslensku viðskiptalífi kemur þetta ekki á óvart.

Ráðgjafar banka leiðbeindu fólki við þetta ráðslag. En ekki síður má benda á þau viðhorf sem ráðandi stjórnmálamenn á árunum frá 1990 fram til 2007, þeir sem sveigðu til hægri og stefndu á aukið frelsi, minni skatta þeirra sem áttu fjármagn og stefnu þeirra um að gera Ísland að paradís fyrir auðmenn. Keppa við skattaparadísir annarsstaðar í veröldinni.

Sömu hægri stjórnmálamenn voru sífellt að agnúast út í hið norræna samfélag en litu til repúblikana í USA, þetta leiddi til græðgisvæðingar í samfélaginu. Ef okkur varð það á að fetta fingur út í risabónusa, ofurlaun eða hvernig samfélagsleg viðhorf sem áður höfðu ríkt væru að hverfa. Þá var því svarað með þjósti um að þar væri einungis ummæli sem bæru byggð á öfund yfir velgengni annarra.

Nú blasa við afleiðingar þessarar hægri sveiflu. Oft er einungis talað um þá sem verða gjaldþrota, sjaldnar er talað um þá sem verða í raun fyrir barðinu á gjaldþrotinu. Þar er langoftast um að ræða saklaust fólk, sem átti í einhverjum viðskiptum við viðkomandi, eða átti sparifé í vörslu banka eða lífeyrissjóða.

Nú er talað um að herða þurfi lög og efla eftirlitsstofnanir, en hér þarf fyrst og síðast viðhorfsbreytingar í samfélaginu. Það varð siðrof og margir nýttu sér það ástand. Þessir stjórnmálamenn sem fóru fyrir í hægri sveiflunni, tala nú um að nágrannalönd okkar séu orðin okkur óvinveitt og verið sé að þvinga og kúga litla Ísland og setja okkur í spennitreyju.

Það er álit mitt og hefur reyndar komið nokkrum sinnum fram í pistlum hér undanfarið ár að þessar nágrannaþjóðir okkar eru að þvinga þá stjórnmálmenn sem stóðu fyrir þessari viðhorfsbreytingu til þess að horfast í augu við afleiðinga eigin gerða og ætla sér ekki að láta meiri fjármuni þangað. Bankar og fjármálastofnanir þessara landa eru þegar bún ar að tapa hundruðum milljarða á þróuninni sem hér varð.

Í mjög góðri grein í Morgunblaðinu í gær rekur fyrrv. alþingismaður Kristinn H. Gunnarsson afskaplega skilmerkilega hvaða skuldbindingar við höfum undirgengist. Íslendingum er engrar undankomu auðið og það ættu þingmenn allra best að vita. Í þessu sambandi má vísa til ummæla þessara sömu stjórnmálamanna þegar þeir voru sem ákafast að hrósa sjálfum sér fyrir íslenska efnahagsundrið og uppbyggingu fjármálakerfisins einmitt vegna þess að þeir hefðu undirgengist EES samningana.

Íslensk lög kveða skýrt á um lágmarkstryggingu innistæðna í íslenskum bönkum og lögin um Evrópska efnahagssvæðið taka af allan vafa. Settar voru samræmdar reglur um innistæðutryggingar innan Evrópusambandsins og þær voru teknar upp á EES-svæðinu. Þetta var gert til þess að koma á fót sameiginlegum markaði fyrir bankaþjónustu. Hverju ríki var gert skylt að koma á fót kerfi sem veitti lágmarkstryggingu fyrir innistæður og skyldi það ná til innistæðna í útibúum innlendra stofnana í öðrum aðildarríkjum, eins og skilmerkilega er lýst í frumvarpi sem viðskiptaráðherra lagði fyrir Alþingi 1995 og varð að lögum vorið eftir.

Vilji Íslendingar ekki hlíta reglum EES-svæðisins verður allur EES-samningurinn í uppnámi vegna þess að ekki verður unað við mismunandi framkvæmd þessara mikilvægu laga. Ríkisstjórnir í Evrópu gripu til þess ráðs að gera betur og ábyrgðust innistæður í fjármálastofnunum umfram það lágmark sem er í tilskipun ESB.

Það gerði íslenska ríkisstjórnin líka og ábyrgðist allar innistæður á Íslandi, ekki bara að lágmarki. Það var talið nauðsynlegt til þess að bjarga fjármálakerfi landsmanna. Og hverjir stóðu fyrir þeirri lagasetningu og hvað eru þessir hinir sömu að segja núna í þingsölum? Þessi lög eru gölluð og taka ekki á kerfishruni, en þau eru þarna og eftir þeim verðum við að fara.

Tími hömlulauss kapítalisma og græðgi sem kom Íslandi í koll er liðinn. Hugmyndafræðin þar að baki hafi verið afsönnuð, sem betur fer. Eins og Jóhanna bendir réttilega á í viðtali við fjölmiðla nú um helgina.

föstudagur, 21. ágúst 2009

Rangt mat á veruleikanum

Þessa daga fara hægri menn mikinn í að koma sökum af íslenskum stjórnvöldum yfir á aðra. Þessir hinir sömu hafa í raun ekki breytt málflutning sínum frá því að hrunið varð. Þrátt fyrir að svo margt hafi komi fram sem sýnir að dýpsti hluti hrunsins er heimatilbúin spilling í boði þeirra flokka sem stjórnuðu landinu síðustu tvo áratugi og mótuðu stefnuna fram að hruni.

Þingmaður sjálfstæðismanna einn helsti hugsuður hægri sveiflunnar, Pétur Blöndal, hélt því blákalt í útvarpinu morgun að það væri ESB að kenna að hér hefði orðið hrun!!?? Auk þess halda þingmenn sjálfstæðismanna því fram að það sé af völdum erlendrar niðursveiflu að hér hafi orðið hrun!!?? Pétur hafnaði því einnig blákalt að það hefðu verið forsvarsmenn Sjálfstæðisflokksins sem lögðu grunnin að Icesave samningnum í nóvember, þó svo að það hafi margoft komið fram.

Þessu er haldið að okkur þrátt fyrir að við blasi að það voru skuldapíramídar bankanna sem urðu til vegna þeirrar stefnu sem þáverandi stjórnvöld höfði og því eftirlitsleysi sem þáverandi stjórnvöld höfðu. Því er einnig haldið fram af Benedikt Jóhannessyni að það gangi ekki til lengdar að halda Sjálfstæðisflokknum utan við stjórn landsins, það hafi aldrei gefist vel!! Hvar í veruleikanum eru menn staddir?

Allur þessi málflutningur er jafn veruleikafyrtur og málflutningur eins af græðgisgæðingunum forstjóra Straums – Burðaráss þegar hann segir í Mogganum í dag = „Lögðum rangt mat á veruleikann.“ !!??

Undir afsökunarbeiðni hans er svo beiðni frá Tryggva Þór þingmanni um að hleypa sjálfstæðismönnum að stjórninni. Það er ljóst að það getur ekki orðið fyrr en sjálfstæðismenn átta sig á veruleikanum og horfast í augu og viðurkenna mistök sín. Annars er næsta víst að þeir muni einfaldlega halda áfram eins og ekkert hafi í skorist.

fimmtudagur, 20. ágúst 2009

Húsin í bænum


Í Flatey


Nú líður að menningarnótt og þemað er húsin í bænum. Þetta er vel til fundið þegar við stöndum fyrir fram risavaxna kumbalda og gömul hús sem voru viljandi látinn grotna niður svo það væri hægt að rífa þau og reisa enn fleiri risavaxnar boðfelnnur í gömu hverfin.

Í gömlu húsunum getum við lesið menningarsöguna og sögu hins almenna borgara. Gömlu húsin hafa svo mikið meiri útgeislun en nýju tómu kumbaldarnir. Þær mættu hiklaust vera færri, en frekar fjölga torgum og görðum. Fá torg og fáar styttur er eitt af því sem einkennir Reykjavík og ekki síður fá minnismerki.

Ef ráfað er um götur menningarborga víðsvegar um heiminn eru fallegustu staðirnir oftast stór og víðáttumikil torg og garðar sem innihalda stóra og mikla minnisvarðar um merka viðburði í sögu viðkomandi lands. Þar eru einnig gömlu húsin og þangað leitum við og setjumst niður. Þar er starfsemi sem dregur okkur til sín. Engin fer í nýju hverfin.

Íslenskir stjórnmálamenn hafa alltaf verið svo heimóttarlegir, að þeim hefur einungis komið í hug að setja upp styttur af sjálfum sér og kannski einum eða tveimur dönskum kóngum. Öll vitum við að minnisverðir áfangar í sögu þjóða hafa ætíð komið til þegar almúginn nær einhverju fram eftir langvinna baráttu við ríkjandi stjórnvöld. Þar má minna á kosningarétt fyrir aðra en sérútvalda, hjúalögin, vökulögin og kosningarétt kvenna, nú síðast Búsáhaldabyltingin.

Við eigum að reisa minnisvarða. T.d. mætti taka nokkrar af hálfreistu blokkunum í miðbænum og búa til torg og setja þar upp mikinn minnisvarða um vökulögin. Stækka má Lækjartorg í áttina niður á höfn og að Seðlabankanum setja þar glæsilegan garð með miklum minnisvarða. Hér gæti maður séð fyrir sér minnisvarða þar sem almúginn nær leggur niður ráðherraræðið og fótum treður það. Allt í kring væru gosbrunnar og að auki fjöldi kaffihúsa.

Fyrir framan Landsbankahúsið Icesave minnisstólpa svo að við gleymum ekki þeirri ljótu hneisu, eða gera lítinn garð við höfnina hjá Tónlistarhúsinu með Icesave stólpa hangandi á snöru og bronsaða potta og pönnur til minnis um Búsáhaldabyltinguna.

En til lengri tíma litið leggjum við til að viðhalda þeirri sögu sem litlu húsin segja okkur. Lífsbaráttunni sem hin almenni borgari hefur háð og er enn að. Þar má vísa m.a. til Stykkishólms eða Flateyjar. Ferðamönnum fjölgar þar í beinu hlutfalli við hvert gamalt hús sem gert er upp. Látum gömlu húsin í Reykjavík ljóma. Elstu húsin má nýta, þau eru ekki drasl, frekar en gömul handrit, skjöl, myndverk eða mynt. Þau eru óbætanleg verðmæti.

Ísland fylki í Noregi

Nú er hafinn undirskriftasöfnun á netinu þar sem hvatt er til þess að Ísland og Noregur gangi í ríkjasamband á grundvelli þess að verið sé að þröngva Íslandi í ESB. Þær eru svo margar þversagnirnar um ESB, t.d. heyrir maður frá sama einstakling að sambandið sé að verða risaveldi sem ógni því litla sjálfstæði sem ríki álfunnar njóti, en um leið að sambandið virki ekki og sé að hruni komið.

Eftir hverju er verið að sækjast? Á að flytja stjórnkerfið Osló og taka upp norska krónu? Fá Norðmenn aðgang að auðlindunum okkar. Norskir útgerðarmenn væru hressir með það. Verður Alþingi lagt niður? Ísland og Noregur eru nú þegar í samstarfi á nánast öllum sviðum. Í gegnum EFTA, EES, Norðurlandaráð, Schengen o.s.frv. Hvað verður um EES-samninginn? Á honum eru mikill hluti utanríkisviðskipta Íslands reist. Reyndar liggur það fyrir að íslensk stjórnvöld þverbrutu hann með aðgerðum sínum í október síðastliðnum og nú eru fjölmargir að fara mál við Ísland vegna þess.

Flest íslensku stéttarfélögin eru í nánu samstarfi við norrænu stéttarfélögin og félagsmenn okkar með fullgild réttindi hvar sem þeir starfa á norðurlöndunum. Er það norska krónan sem menn vilja? Fyrir nokkru var norski fjármálaráðherrann hér og svaraði þessu á þann veg að þetta væri út í hött og fáránleg óskhyggja, hvað þá að þeir vilji ríkjasamband með Íslandi.

Við heyrðum í landbúnaðarráðherra fyrir nokkru, reyndar hefur það sama heyrst hjá fleiri andstæðingum ESB, þar sem fullyrt er að allir þeir sem vilja taka upp könnunarviðræður um hvað standi Íslandi til boða gangi það í ESB, þá liggi viðkomandi marflatir fyrir ESB og séu tilbúnir að ganga þar inn sama hvað standi til boða. Sömu aðilar kalla hiklaust jákvæða umfjöllun um ESB áróður, en innistæðu lausar fullyrðingar um t..d að íslenskur landbúnaður leggist í rúst og spánsk fiskiskip munu veiða í Íslenskir lögsögu upp í fjörusteina.

En sumum finnst greinilega sjálfsagt að Íslendingar leggist flatir fyrir Noregi með öllu sem því fylgir svo lengi sem það er ekki ESB. Sjálfstraust Íslendinga er greinilega í það miklum molum

Reyndar virðist það nú vera svo að þeir sem stjórnað hafa Íslandi undafarin ár séu búin að rúa okkur öllu trausti og það sé í raun engin sem vilji nokkuð með Ísland hafa. Þetta er ESB-umræðan hér á landi í hnotskurn. Rakalausar upphrópanir út og suður. Á meðan fellur króna, skuldirnar vaxa, fyrirtækin verzlast upp og við blasir aukið atvinnuleysi og fólksflótti.

miðvikudagur, 19. ágúst 2009

Hræðsluáróðurinn

Í vaxandi mæli verður maður var við hræðsluáróður um að nú komi ríkisafskipti til með að vaxa og frelsið verði afnumið. Við verðum leidd eins og viljalausar skepnur inn í ESB og þá muni sjávarútvegur og landbúnaður leggjast af og engin hafa atvinnu.

Ítrekað er hamrað á því að það hafi einungis verið fáir fjárglæframenn sem voru valdir að hruninu. Það hafi sannarlega ekki verið af völdum efnahags- og peningastefnu þáverandi stjórnvalda sem innleiddu frelsið á undanförnum einum og hálfum áratug.

Þess er gætt að skilgreina þetta ekki nákvæmlega hvað átt er við, en endurtekið hamrað á að Vinstrið (það eru allir aðrir en þeir sem eru ekki sammála frjálshyggjumönnum) þekki ekki annað en kommúnisma og það muni gera Ísland að einhverri Kúbu.

Ekki er minnst á að það voru Bandaríkin sem settu viðskiptabann á Kúbu og það var það sem leiddi Kúbu í þá stöðu sem þeir eru. Kúbufólk vildi losna við þá spillingu sem kom frá Bandaríkjunum. Það er sambærilegt við að það er stefna Sjálfstæðismanna (sem þeir tóku upp eftir Bush og félögum) sem hefur leitt til þess að nágrannaríki okkar vilja ekki eiga samskipti við okkur fyrr en við erum búin að taka til eftir hægri beygjuna hér.

Þetta eru í sjálfu sér venjubundin vinnubrögð Valhallargengisins, sem eru að fara á taugum yfir því að þrátt fyrir að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi reynt af fremsta megna að þvælast fyrir með málþófi og fyrirslætti, þá miðar áfram.

Þjóðin er furðulostin og harmi slegin yfir fréttum sem birtast daglega yfir þá gengdarlausu spillingu sem þessi stefna var búinn að innleiða hér. Fólk er slegið yfir innleggi Kjartans framkv.stj. Sjálfstæðisflokksins og innsta kopps í búri Icesave bankans. Eða ekki síður mótmælastöðu Davíðs á Austurvelli í síðustu viku við slöppu eftirliti Seðlabankans með Icesave bankanum.

Og svo koma fyrrv. ráðherrar eins og t.d Guðlaugur Þór í fréttirnar í gærkvöldi og býsnast yfir að ekki sé búið að hjálpa heimilunum, án þess að skilgreina hvað hann eigi við og fréttamaður Sjónvarpsins gætti sín á því að spyrjast ekki fyrir um það. T.d. hefði mátt spyrja Guðlaug hvort hann vilji þá eftir allt saman taka upp norræna félagshyggjustefnu um aðstoð við heimili og hvort hann sé þá t.d. andsnúinn heiftarlegri andstöðu bandaríkjamanna við stefnu Obama.

Guðlaugur Þór er einn af tiltölulega fáum íslendingum sem á stóran þátt í því hvernig komið er fyrir heimilunum þessa lands og gerði það á fullum launum ásamt myndarlegu styrkjum frá fyrirtækjum útrásarmanna.

Hann á einnig stóran þátt í málþófi í vor og upphlaupum við að tefja fyrir frágangi á Icesave málum að tefja framgang mál um hvernig koma megi heimilum til hjálpar. Öll vitum við að það er ekki hægt fyrr en búið er að koma bönkunum á flot. Öll vitum við að það er ekki hægt fyrr en búið er að ná lendingu í lánamálum m.a. við hin Norðurlöndin. Öll vitum við að þau lán standa ekki til boða fyrr búið er hreinsa til eftir tilraunir frjálshyggjunnar með Guðlaug Þór og skoðanafélaga í broddi fylkingar.

mánudagur, 17. ágúst 2009

Afleiðingarnar

Allmarga setti hljóða í síðustu viku við lestur greinar fyrrv. varaformann bankaráðs Landsbankans og framkv.stj. Sjálfstæðisflokksins. Eða þá að sjá fyrrv. Seðlabankastjóra á mótmælafundi á Austurvelli þar sem m.a. var mótmælt afleiðingum eftirlitsleysis Seðlabankans. Hjá þessum mönnum og félögum þeirra heyrist ekkert, sem bendir til þess að þeir sjái eigin þátt í því hvers vegna hrunið varð margfalt dýpra hér en annarsstaðar.

Og nú eru komnar fram yfirlýsingar allra stærstu erlendu viðskiptabankanna, þeir eru búnir að fá nóg af íslendingum. Svo sem eftir því sem við var að búast. Við erum búinn að tapa um 6 þús. MIA evra af erlendu lánsfé og forsvarsmenn íslensks efnahagslífs og stjórnmálamenn hafa verið með allnokkrar vafasamar yfirlýsingar um skuldirnar og uppgjörin.

Ljóst er að íslenskar eftirlitstofnanir brugðust algjörlega. Framangreindum mönnum var mikið niðri fyrir vegna hryðjuverkalaganna sem bresk stjórnvöld settu á íslensku bankana í október. Íslensku bankarnir störfuðu ekki samkvæmt eðlilegum leikreglum, á það hafði verið ítrekað bent en íslenskir ráðamenn skelltu við því skollaeyrum, sama gilti um íslenskar eftirlitsstofnanir.

Hagfræðingurinn Mishkin segist hafa ofmetið eftirlitsstofnanirnar á Íslandi. Gefin voru út heilbrigðisskýrteini sem byggðu á röngum forsendum grunduð á sjálfumgleði þessara manna. Fjármálaeftirlitið var ónýtt, sama gilti um Seðlabankinn og búið var að leggja niður Þjóðhagsstofnun vegna hún skyggði á sjálfumgleðina. Allir voru vísvitandi og markvisst blekktir, og þar brást Ríkið eins og ég hef svo oft komið að.

Íslenskur almenningur og lífeyrissjóðir voru fengnir til þess að fjárfesta í skuldapíramídum. Margir spyrja hvaða ljótu leyndarmál komi til með að verða afhjúpuð og þá um leið fá betri vitneskju um hvers vegna Bretar beittu þessari löggjöf gegn íslendingum. Stjórnarþingmenn gátu vart komist í gegnum viðtal í spjallþáttum eða fréttatímum, án þess að geta þess sérstaklega að hér væri engin spilling.

Sannleikurinn mun koma í ljós og ekki ólíklegt að það bresti á önnur bylting hér á landi, einmitt vegna afstöðu þessara manna. Ég spáði því ítrekað í vor að á komandi vetri myndi það gerast. Allt sem ég benti á þar hefur verið að koma fram. Ef við eigum að komast út úr kreppunni verðum við að geta sett aftur fyrir ákveðin mál og til þess að það verði hægt verður uppgjörið að fara fram. Ákveðnir menn verða að stíga fram og biðjast afsökunar og sína iðrun.

Það er fólk sem er flutt frá landinu og það er fleira að undirbúa flutning. Langstærsti hluti þessa fólks er vel menntað og færir tæknimenn. Þetta sé ég vel í mínu umhverfi. Það var mikil fjölgun á erlendu vinnuafli á þensluárunum, en flestir þeirra hafa yfirgefið landið. Eftir sitja nokkrir sem sinna störfum sem íslendingar vilja ekki sinna.

Margir Íslendingar eru sárir og leita eftir betri framtíð. Þeir vilja komast hjá skattahækkunum og niðurskurði. Það liggur fyrir að allmörg fyrirtæki, þá ekki síst í tækniiðnaði sögðu upp fólki í sumar og það fólk missir vinnu í lok september, vegna þess að ekkert hefur gengið hjá stjórnvöldum að ganga frá grunnþáttum í efnahagslífinu, sakir þess að stjórnarandstöðuflokkar hafa verið svo uppteknir í pólitískum hráskinnaleikjum. Engar virkjanir eru komnar af stað, sem eru þó undirstaða þess að hægt sé að komast af stað með uppbyggingu í Helguvík og stækkun í Straumsvík, eða það uppbyggingu gagnvera.

Íslenslur almenningur kaus endurtekið yfir sig það stjórnvald sem gerði bönkunum þetta kleift með því að klúðra einkavæðingu bankanna. Stjörnvöld sem stungu höfðinu í sandinn þrátt fyrir fjölda aðvarana. Á undanförnum áratugum er eins fólk hafi kosið frekar af trúarbrögðum en að skoða pólitíska stefnu. Hvar í veröldinni fengi stjórnmálaflokkur sem stóð fyrir stefnu sem leitt hafði yfir þjóðina fullkomnu hruni jafnmikið fylgi og niðurstaða í síðustu kosningum sýndi. Þar blasir við hversu mikið afhroð umræðulistin á Íslandi hefur goldið. Aftur og aftur er umræðu um þörf málefni verið stungið undir stól eða umræða eyðilögð með útspili og upphrópunum í fjölmiðlum og endurteknum fullyrðingum þingmanna sem gengu þvert á viðkomandi málefni.

laugardagur, 15. ágúst 2009

Skuldlaus þjóð?

Sjálfstæðismönnum er tíðrætt um að þeir hafi skilað skuldlausu þjóðarbúi. Þetta kemur m.a. fram í grein í Morgunblaðinu í vikunni eftir einn helsta efnahagspeking sjálfstæðismanna Pétur Blöndal. Eitt af því sem maður lærir í starfi við gerð kjarasamninga, viðhaldi stöðugleika og eflingu kaupmáttar, auk viðgangs lífeyrissjóða er að taka varlega mark á yfirlýsingum Péturs Blöndal.

Það er rétt að í góðærinu greiddi ríkissjóður niður mikið af skuldum. En ástæða er að halda því til haga að á sama tíma seldu frjálshyggjumennirnir Pétur og félagar fjölskyldusilfrið (einkavæðing), en nýttu þá peninga ekki nema takmarkað til að byggja upp varasjóð til framtíðar eins og við í ASÍ gagnrýndum harkalega og kom fram í bréfum og ályktunum á þessum árum. Það sem þeir hefðu átt að gera var að leggja meira fyrir til að eiga þegar harðnaði á dalnum, en það blasti alltaf við að það myndi gerast að loknum framkvæmdum fyrir austan.

Nú eru þessu sterku fyrirtæki, sem skiluðu árlega milljarða arðgreiðslum til ríkissjóðs, tómar skeljar sem riða til falls skuldsettar upp í rjáfur og það verður hlutverk okkar skattborgaranna að greiða þær skuldir, í formi hærri skatta og þjónustugjalda. Hér er ég t.d. að ræða um Landssímann og bankana. Einnig má benda á aðför Péturs og félaga að sparisjóðunum þar sem hann og fleiri töldu sig vera einborna gæslummenn fjárs án hirðis.

Við erum þessa dagana að axla ábyrgð á þeirri risavöxnu hægri tilraun sem hin frjálshyggjusinnuðu stjórnvöld leiddu hina íslensku þjóð út í, eins og Kristin Halvorsen fjármálaráðherra Noregs bendir því miður réttilega á.

Annað sem er mjög gagnrýnivert er að ekki skyldi byggður upp öflugur gjaldeyrisvaraforði þegar tekjur ríkisins voru miklar og gengið of hátt til að það gæti staðist. Hefðu menn gert það væru raunir okkar minni í dag. Pétur og félagar hefðu átt að nota góðæristekjur ríkissjóðs og andvirði eignasölu til að efla gjaldeyrisforðann á hagstæðu gengi þegar gengi krónunnar var óeðlilega sterkt.

Þess í stað kyntu þeir undir bálinu með því herða enn á þennslunni með skattalækkunum á þeim tekjuhæstu og töldu að þeir væru mestu efnahagsspekingar í sólkerfinu og héldu þessar klappstýrur hrunsins í ferðir um heimsbyggðina og kynntu íslenska efnahagsundrið sem þeir hefðu skapað. Nú er komið fram að þar töluðu þáverandi ráðherrar gegn betri vitund þegar þeir reyndu að telja erlendum fréttamönnum í trú um að allt væri hér í lukkunar velstandi. Þeir sem ekki væru þeim sammála ættu að fara á endurmenntunarnámskeið í hagstjórn.

Einnig má minna á að á þessum tíma þá ýttu sjálfstæðismenn undir ójafnvægið í hagkerfinu þannig að neikvæð erlend staða þjóðarbúsins (erlendar eignir þjóðarbúsins – erlendrar skuldir þjóðarbúsins) margfaldaðist. Varðandi skuldir ríkissjóðs þá eigum við verulegar eignir á móti. T.d. fer hluti lána ríkissjóðs til að endurlána Seðlabanka vegna gjaldeyrisforða. Pétur velur að hengja sig í þetta viðmið nettó, því að þannig getur hann haldið því fram að allt hafi verið í himna lagi.

Það er hins vegar stóra myndin sem skiptir máli eða allt það ójafnvægi sem Pétur og félagar lögðu grunnin að sem komu okkur í þá stöðu sem við erum í. Þetta ójafnvægi laðaði að sér jöklabréfin og annað innstreymi gjaldeyris m.a. Icesave peningana, sem er núna eins og millusteinn um háls okkar.

Spakur maður sagði víst „það þarf sterk bein til að þola góða tíma“. Slík bein virðast ekki hafa verið til hjá Pétri og félögum og um leið bent er á þetta þá byrja bréfin að koma og því haldið fram að allt sé þetta órökstuddar dylgjur. Þrátt fyrir að allt þetta hafi margsinnis komið fram í framlögðum skýrslum og greinargerðum. En það passar ekki inn í endursögnina eins og þeir vilja hafa hana. Hér er ég t.d. að vitna til endursagnar Sigurðar Kára í eftirmiðdagsútvarpinu í gær á ummælum Davíðs þegar hann lýsti því yfir að íslenska ríkið ætlaði ekki að standa við skuldbindingar sínar, eðasvo maður minnist ekki á hvernig þeir vilja hafa endursögnina af fjölmiðlalögunum.

föstudagur, 14. ágúst 2009

Leðjuslagur

Þjóðin situr uppi með skuldir óreiðumanna, sem hún stofnaði ekki til og naut að litlu leyti. Hin erlendu lán fóru að stórum hluta í fjárfestingar erlendis. Öll erum við ósátt við þessa stöðu og vildum svo gjarnan losna undan henni.

En við erum ekki saklaust fórnarlamb, við völdum ítrekað sömu flokka sem gerðu Ísland að holdgervingi nýfrjálshyggju. Ríkisbankarnir voru afhentir auðmönnum af þessum valdhöfum, sem voru skjólstæðingar þessara flokka. Þeir breyttu bönkunum í áhættusækna vogunarsjóði í samræmi við yfirlýsta stefnu Sjálfstæðisflokksins um að gera Ísland að alþjóðlegri fjármálamiðstöð.

Helsti hugmyndafræðingur þessa var Hannes Hólmsteinn sem ásamt Davíð Oddssyni lýstu Íslandi sem paradís frjálshyggjunnar. Forsvarsmenn Sjálfstæðisflokksins vöruðu ítrekað við því að litið væri til Norðurlandanna sem fyrirmyndar. Ísland væri svo sérstakt og stæði þeim miklu framar að flestu leyti. Núna halda sömu menn ræður um að þetta séu óvinir okkar. Vandi okkar sé vegna þess að þeir vilji ekki lána okkur takmarkalaust peninga, á sama tíma eigum við að neita að standa við skuldbindingar.

Það voru hinir íslensku valdhafar sem sköpuðu auðmönnum skjól og svigrúm til þess að setja Ísland á hausinn. Nú eru haldnar ræður í Alþingi og á Austurvelli af málsvörum þessara flokka þar sem m.a. ASÍ er lýst sem svikara sakir þess að þaðan heyrast raddir sem benda á þessar staðreyndir.

Eins kemur fram í fréttum frá Norðurlöndum getur það orðið okkur til bjargar að forsvarsmenn hinna þeirra vita að nú sitja ekki lengur frjálshyggjupostularnir í hinum íslensku valdastólum og þar eru allt önnur viðhorf til samstarfs við nágrannaþjóðir okkar og ESB. Þetta hræðast forsvarsmenn gömlu flokkanna auk þess að það geti orðið til þess að núverandi stjórnarflokkum takist að leysa þennan.

Það og frekar en að horfast í augu við staðreyndir og takast á við stöðuna halda forsvarsmenn þessara gömlu valdaflokka uppi leðjuslag vikum saman. Á sama tíma er almenni vinnumarkaðurinn að verzlast upp og það stefnir í að .það muni einnig lenda á opinbera vinnumarkaðnum, því útflutningstekjur og skattar skapast að mestu leiti við verðamætasköpun á almennum vinnumarkaði.

fimmtudagur, 13. ágúst 2009

Upp úr pólitískum hjólförum

Nú er rætt um að það sé að takast að ná Icesave umræðu þingmanna upp úr flokkspólitískum hjólförum. Það var mikið. Því er haldið fram að Sjálfstæðismenn standi á bak við útifund Indefence á Austurvelli í dag. Sjálfstæðismenn hafa ætíð afgreitt alla útifundi með því að þar færu einungis fram skrílslæti sem ekki væri mark takandi á. „Enda gefast þeir alltaf upp ef við svörum þeim ekki“ svo ég vitni til ummæla þingmanna Sjálfstæðiflokksins um mótmæli ASÍ við eftirlaunalögunum og sjálftöku í launakjörum á sínum tíma.

En það var bara á þeim tíma sem Sjálfstæðismenn voru við stjórnvölinn og það er svo margt sem hefur breyst. T.d. standa þeir fremstir í ræðustólum "klappstýrur hrunsins" þessa dagana sem settu upp efnahagslíf með 30% yfirverð á krónu og yfirgengilegum viðskiptahalla og keyrðu það í þrot og kenna óvinveittum frændþjóðum um glæpinn og núverandi ríkisstjórn. Margir sem fengu glæsilega styrki til þess að standa í dýrri stjórnmálabaráttu og hugguleg kúlulán sem ekki þurfti að greiða upp nema viðkomandi hefði grætt einhver ósköp umfram afborganir

Því ber að fagna að raunsætt mat á stöðunni sé að taka við fullyrðingum um glæsilega niðurstöðu samninganefndar eða landráðabrigsl. Það er ekki hægt að líta hjá þeirri niður stöðu sem náðist þann 14. nóvember með samþykkt umsömdu Brussel-viðmiðanna svonefndu eftir erfiðar samningaviðræður Íslands, Bretlands, Hollands og Frakklands sem formennskuríkis ESB.

Allir aðilar samþykktu viðmiðin sem grundvöll samningaviðræðna og Alþingi Íslendinga ályktaði i framhaldinu að Ísland gengi til formlegra samningaviðræðna á grundvelli Brussel-viðmiðanna. Þar er sá grunnur sem lá fyrir og hann var lagður af þáverandi ríkisstjórn og þar voru sjálfstæðismenn.

En það er klárlega stærstu mistök sem Steingrímur fjármálaráðherra hefur gert að ætla sér að klára málið einn og senda Svavar í málið. Steingrímur átti vitanlega að láta sjálfstæðismenn vera með í að klára málið. Það voru þeir sem voru búnir að semja um hvernig samningurinn myndi verða og með því hefðu þeir orðið að samþykkja eigin gerðir, sem þeir eru þessa dagana að reyna að víkja sér undan.

Og þá getum við loks staðið fyrir framan frændþjóðir okkar og sagt að íslendingar virði alþjóðlegar skuldbindingar. Það var nefnilega ekki hægt á meðan fyrrverandi ríkisstjórnir okkar sendu reglulega ráðherra og sendiboða með forseta landsins í broddi fylkingar og báru þar á borð forsvarsmanna, að Ísland væri sérstakt Efnahagsundur í boði frjálshyggjunnar og allt annað sem sagt væri um landið væri bull og vitleysa og þeir sem ekki væru sammála því sjónarmiði ættu að fara á endurmenntunarnámskeið.

miðvikudagur, 12. ágúst 2009

Innihaldslaust geip út í himinblámann

Það eru nokkrir sem létu færsluna í gær fara í skapið á sér. Svo mikið að ég sleppti því að birta sumar aths. enda snérust þær ekki um það sem í pistlinum stóð. Inntak pistilsins er að það yrði mikill sigur fyrir Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn takist þeim að fella ríkisstjórnina á Icesave-málinu með hamslausum og rakalausum áróðri gegn samningum, sem þjóðin var í raun búin að skuldbinda sig til undir þeirra stjórn og við verðum að standa við ef við viljum teljast siðmenntuð þjóð.

En formenn helmingaskiptaflokkana blindaðir af valdagræðgi sést ekki fyrir hverjar afleiðingarnar verða og virða að vettugi óskir atvinnulífsins. Þeir ryðja úr sér, þá sérstaklega Sigmundur, endalausum og órökstuddum spuna. Ögmundur og Guðfríður Lilja eru leiksoppar þessara flokka og ráða því hvort gömlu valdaflokkarnir höfundar þeirrar efnahagstefnu sem leiddi yfir okkur hrunið komist aftur til valda.

Dettur einhverjum lifandi manni í hug að embættismenn þessara flokka nái betri samning?! Við okkur blasa afrek þeirra, þau leiddu okkur í lóðbeint hrun. Aðildarríki EES eru bótaskyld gagnvart innstæðueiganda ef tryggingakerfi sem viðkomandi hefur innleitt veitir ekki lágmarksvernd.

Innstæðutryggingar, sem komið var á með íslenskum lögum, veita ekki fullnægjandi lágmarksvernd gagnvart innstæðueigendum Landsbankans í Englandi og Hollandi og er íslenska ríkið því skaðabótaskylt. Í dag vitum við að eftirlit með íslensku bönkunum var algerlega ófullnægjandi. Starfsemi Fjármálaeftirlits og Seðlabankans undir stjórn Sjálfstæðisflokksins var framkvæmt af fullkomnu kunnáttu- og dómgreindarleysi. Íslenska ríkið mun ekki geta leyst sig frá ábyrgð.

Einarður og rökfastur málflutningur Steingríms J. fjármálaráðherra og samstaða þingmanna Samfylkingarinnar einkennist af festu, sem skorti svo ákaflega þegar frjálshyggjan var við völd. Verndarar sérhyggjuaflanna létu hagsmunagæslu fárra endurtekið leiða sig af réttri braut. Við þessar aðstæður fékk Landsbankinn átölulaust að láta greipar sópa í sparifé almennings í Bretlandi og Hollandi. Allt fram að hruni fékk Landsbankinn í skjóli Seðlabanka og FME að taka milljarða króna lán sem notað var til að hreinsa upp ríkistryggð verðbréf. Á sama tíma var haldið að lífeyrissjóðum og almenning skuldabréfum og hlutabréfum í bönkunum haldið uppi með brellispili. Þetta verða íslenskir skattgreiður að standa skila á og geta þakkað Sjálfstæðisflokknum einum sérstaklega fyrir það.

Það er skiljanlegt að þingmenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðismanna hamist við að koma allir sök af herðum sér. Það er þetta sem veldur því að erlend stjórnvöld treysta okkur ekki lengur. Ef þessi hákarlaleikur tekst, verður það fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar undir forystu Sjálfstæðisflokksins að leita til þessara stjórnvalda, sem eru búin að afskrifa embættismenn Sjálfstæðisflokksins, eftir endurnýjun Icesave- samningsins. Hvorki Sjálfstæðisflokkurinn né Framsóknarflokkurinn hafa bent á neinar aðrar raunhæfar lausnir. Einungis rakalaust og innihaldslausan spuna og geip út í himinblámann.

þriðjudagur, 11. ágúst 2009

Ögmundur á leið í Sjálfstæðisflokkinn

Það virðist vera að renna upp fyrir Ögmundi í hvaða stöðu hann er búinn að láta sjálfstæðismenn stilla sér í, en reynir að sverja af sér glæpinn.

Við vitum öll hverjir mótuðu þá efnahagsstefnu sem leiddi okkur í þær ógöngur sem við erum í.

Við vitum líka að :
Norðurlandaþjóðirnar sömdu síðastliðið vor við Davíð þáverandi seðlabankastjóra og Geir þáverandi forsætisráðherra um yfirdrátt og því fylgdi krafa um tiltekt hér heima, sem ekki var farið í

Geir og Davíð höfðu undir höndum skýrslur sem sögðu til um hvert stefndi, en þeim var stungið undir stól og þeir félagar fóru í ferðir erlendis og boðuðu að allt væri í fínu standi á Íslandi

Geir og hans aðstoðarmenn lögðu grunninn að Icesave samningnum í nóvember síðastliðnum

Ef ekki verður gengið frá Icesave samningum mun Ísland falla niður í ruslflokk í lánshæfismati og ríkið, Landsvirkjun, Orkuveita Reykjavíkur og fleiri íslensk fyrirtæki munu ekki ná að endurfjármagna sig á næsta ári

Öll viðskiptalönd okkar munu sniðganga okkur. Íslendingar eru búnir að glata nokkur þúsund milljörðum af erlendu lánsfé og vilja ekki fara að settum leikreglum á alþjóðlegum fjármálamarkaði. Erlendu bönkunum er slétt sama um hvar við lendum.

Við höfum ekki verið að uppfylla ákvæði EES samninga og Bretar og Hollendingar munu örugglega krefjast þess að lokað verði á tollaívilnanir íslendinga

Ef við göngum ekki að Icesave samkomulaginu mun það leiða yfir okkur enn ömurlegri stöðu og það mun sökkva vinnumarkaðinum í enn dýpri og langvinnari lægðir og meira atvinnuleysi

Þetta vita stjórnarandstöðumenn en vilja losa sig undan ábyrgð og búa til þá stöðu að það séu gerðir núverandi ríkisstjórnar og óvinveittra nágrannaþjóða sem hafi leitt yfir okkur þessa stöðu og hinn ömurlega Icesave samning.

Þeir hafa eignast 3 fylgismenn í VG fyrir þeim fer Ögmundur Jónasson formaður BSRB, sem er að leiða hrikalegt hrun yfir almenna vinnumarkaðinn með afstöðu sinni.

Hér blasir líklega við pólitísk kreppa í boði fullkomlega óábyrgrar stefnu Bjarna Benedikssonar og félaga og þá er spurning nái inn í kosningunum sem verða í vetur hvort Ögmundur nái inn sem þingmaður Sjálfstæðismanna og fái aftur það verkefni að semja um Icesave. Sá samningur verður ekki hagstæður og íslendingar verða þá búnir að tapa margfalt þeim kostnaði sem við okkur blasir nú.

Og brostinn verður á fólksflótti.


Ég veit það
og þú veist það.
Og ég veit
að þú veist
að ég veit
að þú veist það.
Samt látum við sem við vitum það ekki
Jón úr Vör

miðvikudagur, 5. ágúst 2009

Hetjur Villta vestursins

Ég hef nokkrum sinnum bent á að það sé með hreinum ólíkindum að hlusta á málflutning þingmanna og fyrrv. ráðherra Sjálfstæðisflokksins. Þeir hamast þessa dagana við að koma fram þeirri söguskýringu að það séu núverandi stjórnvöld og svo nágrannar okkar á Norðurlöndum sem séu að koma okkur í vandræði. Þar sé að finna hina raunverulega óvini íslendinga.

Það er hreint út sagt ömurlegt að hlusta ábyrgðarlausan málflutning Ólöfu Norðdal þingmanns, konu sem stóð í miðju þenslunnar. Eða þá Bjarni Benediktssonar formanns Sjálfstæðisflokksins. Manns sem var í forsvari umsvifamikils fyrirtækis, sem eitthvað tengist þessari umræddi lánabók. Málflutning Björns Bjarnasonar eins af ráðherrunum sem sat við stýrið í gegnum allan aðdraganda hrunsins og stýrði fram af bjargbrúninni á fullri ferð og þrástagaðist á einhverjum einkennilegum ummælum sem gengu þvert á atburðarráðsina og hafnaði alfarið að horfast í augu við afleiðingarnar gjörða sinna.

Við munum svo vel málflutning hans og félaga það er Davíðs þáverandi seðlabankastjóra, þegar þeir lugu að þjóðinni um stöðuna og fóru í ferðir erlendis til þess að fara með rangindi um efnahagslega stöðu landsins, svo Icesave fengi eins mikið af sparifé erlends almennings og hægt væri. Almenningur þurfti að leggja í umfangsmikil mótmæli á götum úti til þess að koma þessu fólki frá völdum. Og þetta fólk taldi að með því værið verið beita því pólitískum afsóknum og mótmælin væri skrílslæti!!

Þetta fólk getur aldrei vikið sér undan því að það skapaði grundvöll Icesave og það getur ekki með sögufölsunum sniðgengið eigin ábyrgð. Það ásamt og embættismönnum sínum stefndu að því að gera Ísland alþjóðlegri viðskiptamiðstöð. Helsti hugsjónasmiður þeirra, Hannes Hólmsteinn Gissurarson stjórnarmaður þessa hóps í Seðlabanka, rithöfundur og prófessor fékk stuðning þessa fólks til að rita endurgerða sögu síðustu aldar, sem sett var inn í alla grunnskóla landsins og gaf síðan út dæmalausa bók um hvernig Ísland gæti orðið ríkasta land í heimi. Þetta fólk setti lög í samræmi við þessa ætlan sína um alþjóðleg viðskiptafélög, sem áttu að greiða 5% skatt og vera undanþegin eignaskatti og stimpilgjaldi.

Þetta fólk skapaði hér „villta vesturs“ umhverfi og það var í sérstöku boði þess að íslenska fjármálakerfið hrundi. Þegar þetta fólk var við völd var ekkert gert til þess að grafast fyrir um hvað hefði orðið til þess að þetta ástand skapaðist. Það setti 3 gamla vini í að rannsaka hlutina og setti litlar 50 millj.kr til þess að standa straum af þeim kostnaði. Augljóst að ekki átti að finna orsakir.

Það var þetta fólk sem samtök launamanna þurfti að taka alvarlegan slag til við Kárahnjúka þess að koma í veg fyrir að það gæti innleitt „villta vesturs“ umhverfi á íslenskum vinnumarkaði. Það voru þingmenn úr þessum hóp sem fóru til Brussel og kröfðust þess að tekin væri hraðlest til lægstu kjara á íslenskum vinnumarkaði með því að hér ættu að gilda viðmiða lökustu kjarasamning Evrópu.

Það er þetta fólk sem hefur gert allt sem það getur til þess að leiða umræðu um úrbætur í efnhags- og peningamálum inn á villigötur og er ú raun með því að viðhalda gömlum atvinnuháttum með því að verja sérréttindi fárra í landbúnaði, fiskiðnaði og álverum, en kasta tæknifyrirtækjum fyrir borð.

þriðjudagur, 4. ágúst 2009

Hinir arfaslöku stjórnmálamenn

Maður kemst ekki hjá því þegar hlustað var á fréttir undanfarinna daga þar sem flett var ofan af svikamyllu starfsmanna og eigenda bankanna, að rifja upp ummæli stjórnmálamanna í aðdraganda hrunsins og svo fram eftir síðasta vetri. T.d. hvernig þáverandi stjórnarþingmenn klifuðu á að menn yrðu að muna að hér væri um að ræða efnahagserfiðleika af völdum erlendra áhrifa og hefði ekkert með innlend mál að gera. Umfjöllun hér heima væri svo röng, þar sem allt snérist um að finna sökudólga.

Það blasir við öllum hvernig Ríkið brást þegnum sínum. Hvernig stórtækir glæpamenn léku lausum hala í skjóli afskiptaleysis stjórnvalda, Ríkið sem á að setja leikreglur og sjá um að þeim væri fylgt og verja hinn almenna borgara. Það blæasir við öllum hversu gjörspillt stjórnvaldið var orðið. Afleiðingarnar eru skelfilegar. Fjöldi saklaus fólks búið að missa aleigu sína og situr í ókleifri skuldasúpu. Stjórnir Seðlabanka og Fjármálaeftirlits og þeir sem settu þær stjórnir og vörðu þær bera hér stærstu ábyrgðina.

Þar rifjast upp ummæli þingmanna og ráðherra, þar sem efnahags- og peningastefnan var varinn og því haldið að okkur að umræðan snérist um rakalausar ofsóknir í garð eftirlitsstofnana Ríkisins. Stjórnmálamennirnir héldu því að okkur að þeir hefðu átt þátt í að skapa sérstakt efnahagsundur sem leitt hefði til þess að allir hefðu það svo gott.

Hvað stendur eftir? Engin uppbygging nýrra fyrirtækja. Fyrirtæki sem stóðu vel og veittu hundruðum atvinnu eru nú eignalaus og standa uppi sem innan tóm skel sem riðar til falls.

Íslenska efnahagsundrið var innan tóm bóla og þögn stjórnmálamanna æpir á okkur. Séu ummælin þeirra rifjuð upp og borin saman við stöðuna í dag, getur maður vart annað en komist að þeirri niðurstöðu að íslenskir stjórnmálamenn hafa ekki nokkurn skilning hvað þá getu til að sinna þeim störfum sem þeim hafa verið falin. Ummæli þeirra einkennast af innistæðulausum upphrópunum byggðum á stöðu þess augnabliks sem þau eru viðhöfð.

Það rifjast upp þau viðbrögð sem aðilar vinnumarkaðs fengu þegar þeir hafa á undanförnum misserum farið á fund ráðherra með áætlanir um uppbyggingu og viðbrögð við þeirri niðursveiflu sem við blasti að myndi verða í lok hinna gríðarlegu framkvæmda fyrir austan. Þessum áætlunum var lýst hér á þessari síðu á upphafsdögum hennar haustið 2007 sem og viðbrögðum.

Reyndar rifjast einnig upp viðbrögð nokkurra höfunda athugasemdadálkanna. Það var sama hvar maður kom nú um helgina, alls staðar snérist umræðan um hina arfaslöku stjórnmálamenn sem við íslendingar höfum sett til valda á undanförnum árum.