fimmtudagur, 27. mars 2014

Góðar kveðjur


Jón Garðar samstarfsfélagi minn til margra ára í starfsmenntakerfi atvinnulífsins, þáverandi eigandi Eyjunnar hafði samband við í nóvember 2007 og spurðist fyrir um hvort ég væri til að skrifa pistla á Eyjuna.

Þá ekki síst um stöðuna á vinnumarkaði væntanlega kjarasamninga sem gerðir voru  fyrri hluta ársins 2008.

Við ræddum einnig þær pælingar sem voru þá uppi um hvað myndi gerast í efnahagslífinu þegar stóru framkvæmdunum lyki og hversu umfangsmikið samdráttarskeiðið yrði.

Síðar eru liðið eitt Hrun og 1372 pistlar með 597.818 heimsóknum.

Þetta hefur verið afskaplega ánægjulegt tækifæri til þess að koma sjónarmiðum okkar starfsmönnum stéttarfélaganna á framfæri og um leið skerpt sjónarhorn mitt þegar fanga var leitað og pistlar skrifaðir.

Ég hef verið að skrifa í Kjarnann í vetur ásamt örfáum pistlum hér, en ætla bætast í hóp pistlahöfunda á nýjum vefmiðli, Herðubreið, og kveð þá Eyjuna – allavega í bili.

Ég þakka fjölmörgum lesendum mínum þessi ár og góðar kveðjur þeirra, bæði hér og ekki síður þá mörgu sem hafa komið til mín á ferðum mínum víða um landið og rætt pistlana mína.

Sendi ykkur mínar bestu kveðjur, en sjáumst á Herðubreið.

sunnudagur, 23. mars 2014

Brottfall og ómenntaður vinnumarkaður

Þessi grein var birt í Kjarnanum þann 13 mars síðastliðinn. Greinin var til eftir ákaflega fróðlegan fyrirlestur Þorvalda Gylfsaona prófessors í háskólanum fyrir skömmu um stöðu Ísland og hvernig sú þróun hefði verið. Þorvaldur kom m.a. inn  á hið mikla brottfall nema hér á landi. Nokkrir af áheyrendum Þorvaldar ræddu brottfallið og stöðuna á vinnumarkaðnum eftir fyrirlesturinn. Þar greindi ég frá nokkrum af þeim viðhorfum sem hefði komið fram meðal okkar sem hafi starfað innan verkalýðshreyfingarinnar að starfsmenntun í atvinnulífinu og var kvattur til þess að taka þau saman og birta.   GG.

Erum við best?
Í alþjóðlegum skýrslum kemur fram að menntastig fólks á íslenskum vinnumarkaði sé mun lakara en í þeim löndum, sem við viljum helst bera okkur saman við. Dálkarnir í skýrslunum um brottfall úr skóla særa þjóðarstoltið. Við erum alin upp í trú um hafa verið leiðandi þjóð í menningarlegu tilliti eins og sjá megi á skinnhandritunum og glæsilegum afrekum sem bókmenntaþjóð.

Kennslubækur síðustu aldar sem margar hverjar voru ritaðar af Jónasi í Hriflu innrættu okkur það sjónarmið að við værum eiginlega best, en fengum ekki að vera það sakir þess að Danir og aðrir útlendingar voru svo vondir við okkur. Reyndar er þetta sjónarmið áberandi í umræðum núverandi stjórnmálamanna.

Hagstofa Íslands skilgreinir brottfall þannig að skrái nemendur í framhaldsskólum sig ekki í skóla ári síðar og hafi ekki útskrifast í millitíðinni, þá teljast þeir til brottfallsnemenda og þannig fæst sú niðurstaða að allt að 43% einstaklinga í 1975 árganginum á Íslandi hafi ekki lokið framhaldsskóla við 24 ára aldur.

Það setur okkur í þá stöðu að vera meðal hinna minnst menntuðu innan OECD landanna og við erum helmingi lakari en þau Norðurlönd sem eru næst okkur í mælingunum. Þetta hlutfall skánar nokkuð ef eldri aldursflokkar eru skoðaðir, greinilegt er að Íslendingar eru seinni til náms en aðrar þjóðir.

Í OECD könnun árið 2012 kemur fram að 67% af aldurshópnum 25-64 ára hafi lokið framhaldskólaprófi hér á landi. Meðal OECD landanna er talið að 80% hlutfall sé ásættanlegt. Ef hlutfallið er skoðað hjá 25-34 ára aldurshópnum er það 72% hjá okkur, sem er 10% lægra en meðaltalið er hjá OECD. Öll hin Norðurlöndin liggja vel yfir 80% hlutfallinu, jafnvel sum yfir 90%. Við erum hins vegar á svipuðu róli og suður Evrópuþjóðirnar.

Stóran hluta starfsævi minnar starfaði ég við uppbyggingu menntakerfis atvinnulífsins og var í nánu samstarfi við kollega mína á hinum Norðurlöndunum. Út frá þeirri reynslu sé ég örfá haldreipi sem við gætum klifrað upp og lagfært stöðu okkar, alla vega til þess að sefa aðeins hið særða þjóðarstolt.

Í þessu sambandi er áhugavert að skoða samsetningu starfsfólks í rafiðnaðargeiranum, starfsgeira sem hefur rekið umfangsmesta starfsmenntakerfi í íslensku atvinnulífi allt frá árinu 1975 og að jafnaði hefur liðlega fjórðungur starfandi rafiðnaðarmanna sótt árlega eitt eða fleiri fagtengd eftirmenntunarnámskeið.

Í rafiðnaðargeiranum hafa flest vel launuð störf orðið til (ég tel viljandi ekki fjármálakerfið með) og ekki síður þau mest spennandi í hugum unga fólksins. Það endurspeglast í því að rafiðnaðargeirinn hefur haft um helming allra iðnnema í landinu síðasta áratug.

Ófaglærðir og faglærðir
Skipta má þeim sem starfa innan rafiðnaðargeirans í tvo hópa. Í öðrum hópnum eru þeir sem lokið hafa skilgreindri námsbraut með lokaprófi, þeir teljast faglærðir. Hinir eru að störfum innan starfsgeirans, en teljast í skýrslum fólk sem féll úr námi, ófaglært fólk á vinnumarkaði.

Skilgreindar rafiðnaðargreinar eru rafvirkjun, rafeindavirkjun, rafvélavirkjun, rafveituvirkjun og símsmíði, en aðrir starfsmenn innan geirans er nefnt tæknifólk í rafiðnaði, við notum ekki orðið ófaglærður.

Með tæknifólki í rafiðnaði er átt við fólk sem hefur sérhæft sig innan rafiðnaðargeirans en hefur ekki lokið námsbraut sem endar með skilgreindu lokaprófi og er þar afleiðandi skráð sem á lista hinna brottföllnu, og endar sem ómenntað fólk í samanburðarskýrslum, jafnvel þó þeir séu hámenntaðir á sínu sérsviði. Hér er m.a. um að ræða hina margskiptu tölvutækni með öllum sínum sérsviðum, forritun, stýrikerfum, samskiptakerfum, öryggiskerfum, kerfisumsjón, hljóð- og myndstjórn.

Þegar leið á síðustu öld náði tölvutæknin og netbólan sínu striki sínu og það varð mikill skortur á sérhæfðu starfsfólki. Fyrirtækin spurðu viðkomandi ekki hvor hann hefði skilgreint lokapróf, spurningin var „Ræður þú við þetta verkefni?“

Mörg spennandi störf hafa verið í boði og þetta varð til þess að margir rafiðnaðarnemar hurfu því á þessum árum burt af skilgreindum rafiðnaðarbrautum í framhaldsskólunum út á vinnumarkaðinn, og starfsmenntakerfi rafiðnaðarmanna margfaldaðist. Allt þetta fólk er í skýrslunum í dálkinum yfir brottfall.

Rafiðnaðarmenn bjuggu til sína eigin menntabraut sem féll að því starfi sem þeir voru í, „Pick and mix education“ er þetta nefnt á ráðstefnum um starfsmenntun í atvinnulífinu. Einnig er það mjög algengt að ungt fólk fari erlendis áður en það lýkur námi í löggiltri iðngrein og lendir í sömu stöðu, það er skráð sem brottfall í skýrslunum.

Réttur til náms
Hið hefðbundna skólakerfi verður alltaf um það bil 6 – 8 árum á eftir tækniþróuninni, það er að segja það er lágmarkstími sem líður frá tækninýjung kemur fram þar til útskrifast nemi með þessa nýju þekkingu.

Þrátt fyrir margendurteknar yfirlýsingar stjórnvalda um að jafna stöðu verknáms og bóknáms fær verk- og tæknimenntun ákaflega lítið fjármagn hér á landi miðað við það sem gerist í nágrannalöndum okkar. Verkmenntakennarar hafa minni möguleika til þess að endurnýja tækniþekkingu sína.

Hér á landi er þessi viðbragðstími verkmenntaskólanna mun lengri en á hinum Norðurlöndunum vegna þess að framlag til verkmenntunar hér á landi er mun minna. Starfsmenntun í atvinnulífinu er margfalt fljótari að bregðast við, eins og sést t.d. á starfsemi Rafiðnaðarskólans.

Á hinum Norðurlöndunum er rétturinn til þess að ljúka framhaldskólanámi á kostnað skattborgaranna talin varanleg eign einstaklingsins, andstætt því sem hér er. Ef við hér á landi hverfum af einhverjum ástæðum úr framhaldsskólanámi, en viljum síðan ljúka því seinna á ævinni verðum við að greiða svimandi há námsgjöld, en á hinum Norðurlöndunum áttu rétt á því að ljúka náminu og færð fjárhagsstyrki til þess.

ASÍ hefur ítrekað en árangurslaust reynt að fá íslensk stjórnvöld til þess að jafna þessa stöðu, hér er augljóslega ein ástæða þess hvers vegna við liggjum svona neðarlega í könnunum OECD. Annað atriði sem stuðlaði ekki síður að þessari breytingu var fjölbrautarkerfið.

Nánast öllum er beint inn á bóknámsbrautir. Í því sambandi verður ekki hjá því komist að líta til þess viðhorfs sem ætíð hefur ríkt gagnvart verknámi, það sé mun lakari kostur en bóknám. Námsráðgjafar og foreldrar beina unglingum frekar í bóknámsáfanga en verknámsáfanga.

Afnám aga bekkjarkerfisins varð til þess að námstíminn lengdist og margir voru komnir um og yfir tvítugt þegar þeir áttuðu sig á því að þeir ætluðu ekki í háskóla og fóru út á vinnumarkaðinn. Stofnuðu heimili og hófu þá skilgreint iðnnám í kvöldskólum.

Meðalaldur þeirra sem lauk sveinsprófi fór í kjölfar þessara breytinga að hækka undir lok síðustu aldar. Á nokkrum árum fór hann frá liðlega tvítugu upp í um þrítugt, þar af leiðandi er stór hluti þessa fólks í dálknum yfir brottfall.

Sé litið á skiptingu þeirra félagsmanna Rafiðnaðarsambandsins sem störfuðu í rafiðnaðargreinum, þá tvöfaldast hann á hverjum áratug frá stofnun sambandsins árið 1970. Fer úr 450 manns við stofnun upp í um 6.000 árið 2008.

Fjölgun í stéttarfélögum rafiðnaðarmanna með sveinspróf stóð undir allri fjölgun félagsmanna RSÍ fram undir árið 1995, en eftir það verður fjölgunin hjá sveinum aðildarfélögum tiltölulega lítil með tilliti til fjölgunar tæknifólksins, þeirra sem ekki höfðu verið brautskráðir í skilgreindri námsbraut.

Í Félagi tæknifólks í rafiðnaði tífaldast hins vegar fjöldi félagsmanna eftir árið 1995 til 2008. Ástæða er halda því auk þess til haga í þessu sambandi, að nánast allir með sveinspróf í rafiðnaðargreinum eru félagsmenn í RSÍ, á meðan mikill fjöldi tæknimanna er í öðrum stéttarfélögum eins og t.d. VR, þannig að fjölgun tæknifólks er gríðarleg á þessum árum.

Raunlaun og staða ófaglærðra
Setji menn hins vegar upp gleraugu kjarasamningsmannsins, þá er fólk með óskilgreinda menntun ákaflega lítið varið fyrir gríðarlegum sveiflum í launum, á meðan hægt er að halda kjörum löggiltra starfsgreina með sveinspróf mun hærri.

Fyrirtækin komust ekki upp með að ráða ófaglært fólk í störfin og greiða því einungis lágmarkslaun kjarasamninganna. Í nágrannalöndum okkar eru umsaminn taxtakerfi mun nær raunlaunum og flestir á launum samkvæmt þeim.

Þetta er ein af afleiðingum gríðarlegra sveiflna hér á landi þar sem samningar um lágmarkslaun eru yfirleitt orðnir úreltir innan ársfjórðungs vegna þess að útflutningsfyrirtækin hafa ætíð haft þau tök, að fá stjórnvöld til þess að „leiðrétta blóðsúthellingalaust of góða kjarasamninga verkalýðsfélaganna“ svo vitnað sé í orð Hannesar Hólmsteins helsta hugmyndafræðings þeirra sem hafa verið við völd á Íslandi.

Launakerfunum hér á landi var ákaflega miðstýrt á tímum verðtryggingar á árunum 1977-1983. Verðtrygging launakerfanna batt þáverandi launakerfi í fjötra, allir taxtar hækkuðu jafnt eftir tilskildum reiknifornmúlum.

Félagsmenn stéttarfélaganna voru ákaflega ósáttir við ekki væri hægt að hækka laun umfram verðbólgu og þá sérstaklega lægstu taxta. Sú farsæla ákvörðun var tekin að rjúfa þessi, frá að þessum tíma hafa meðallaun hækkað um þriðjung umfram verðlagsvísitölu og lægstu laun mun meira.

Það skapast ásýnd nýs kerfis sem varð til á uppgangsárunum eftir árið 1986 og raunlaun sprengdu sig frá öllum kjarasamningum. Grunnlaun urðu reiknitala sem sveiflaðist í takt við efnahagsástandið hverju sinni. Raunlaun náðu hæstu hæðum á árunum 1986 og 1987, enda mikið í gangi hér landi. Bygging flugstöðvar, Kringlunnar og Blönduvirkjunar.

Allt það hrundi niður árið 1989 og raunlaunin með, en þau fara síðan fara hækkandi eftir árið 1993. Hér á landi varð reyndar bankahrun 1990 eins og hinum Norðurlöndum en það tókst að fela það hrun í hinni handstýrðu krónu og efnahagur stórs hluta íslenskra heimila var í rústum á þessum árum. Atburðirnir 2008 eru ekki eina hrunið sem hefur orðið hér á landi, eins og margir virðast halda.

Skráð atvinnuleysi hér á landi var 1,7% af áætluðu vinnuafli árið 1989. Það er sannarlega ekki há tala, alla vega ef hún er skoðuð með tilliti til annarra Evrópulanda. Hún verður hins vegar mjög há í augum íslenskra launamanna þegar litið er til þess að á árunum 1970 - 1988 var atvinnuleysi hér á landi þrefalt minna, eða að meðaltali 0,6%.

Ótti við atvinnuleysi stóran þátt í að þjóðarsáttin náði fylgi í verkalýðsfélögum. OECD skoðaði stöðu verknámsfólks í samanburði við bóknámsfólk. Atvinnuþátttaka fólks á Íslandi er mjög há. Atvinnuþátttaka fólks með starfsmenntun er 86% hér á landi, 73% meðal stúdenta. Atvinnuleysi meðal starfsmenntaðra er þriðjungi minna en hjá þeim sem hafa tekið stúdentspróf.

Munur á litlum vinnumarkaði og stórum
Oft hefur komið til tals meðal starfsmanna menntamála að búa eigi til fleiri námsleiðir með skilgreindu lokaprófi. Svo ég nefni einfalt dæmi til skýringar, rafvirkjun (4 ára nám) yrði skipt upp í, raflagnir, heimilistækjaviðgerðir, skipalagnir, símakerfi, iðnstýringar, raforkuvirki, og margt fleira. Nám á þessum fagbrautum yrði eitt til tvo ár.

Nefnt hefur verið að hægt sé að búta niður allar helstu löggiltu iðngreinarnar í dag og búa til allt að 100 nýjar námsbrautir. Sú leið er aftur á móti vandfarin því starfandi iðnaðarmenn vilja ekki að starfsgrein þeirra sé bútuð niður í margar smærri starfsgreinar, með því væri verið að þynna út og eyðileggja löggilt réttindi þeirra.

Á litlum vinnumarkaði eins og hér er þarftu að hafa mun víðtækari þekkingu og um leið löggilt starfsréttindi til þess að tryggja stöðu þína á vinnumarkaði til langs tíma, allt önnur lögmál gilda á stórum vinnumörkuðum.

Þegar fjöldi erlendra manna fór að vaxa á okkar vinnumarkaði, þá staðfestu starfsmenn hins opinbera starfsréttindi á grundvelli samþykkta innan EES. Þar er t.d. skráð að einstaklingur sem hefur t.d. starfað við samsetningu kæliskápa í 5 ár og hefur öðlast réttindi á því, hann er ekki að finna í dálkunum yfir brottfall í viðkomandi landi.

laugardagur, 22. mars 2014

Varsla sérhagsmuna á kostnað launamanna


Ég hef verið fastur pistlahöfundur í norsku blaði, og þessi pistill var birtur nú um helgina.

Það voru tveir stjórnmálaflokkar, sem höfðu verið í stjórnarandstöðu í tvö kjörtímabil, sem unnu stórsigur í síðustu alþingiskosningum á Íslandi fyrir ári síðan.

Þeir fóru mikinn í kosningabaráttunni og lofuðu miklu á báða bóga, m.a. að lækka skuldir heimilanna um 20% með fjármunum sem þeir sögðust geta auðveldlega náð úr sjóðum erlendra hrægammafjárfesta, ásamt loforði um að afnema verðtryggingu.

Margir urðu til þess að benda á að þetta væri hvort tveggja óframkvæmanlegt nema þá með  alvarlegum efnahagslegar afleiðingum. Þrátt fyrir að hafa verið við völd í eitt ár hefur hin nýju ríkisstjórn enn ekki staðið við loforð sín.

Annað áberandi kosningaloforð var að ef þeir næðu kjöri myndu þeir standa fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort ljúka ætti samningaviðræðum við ESB svo að hægt væri að bera samningsdrögin undir þjóðina og hún tekið afstöðu á grunni samningsdraga.

Í andstöðu við þetta loforð lagði ríkisstjórnin fram fyrir tveim vikum frumvarp fyrir Alþingi þar sem ákveðið er að slíta umsvifalaust öllum viðræðum og samstarfi við Evrópusambandið.

Í skoðanakönnun kom fram að 82% þjóðarinnar var algjörlega ósátt við þessa ákvörðun og liðlega 20% kjósenda hefur á örskömmum tíma undirritað áskorun um að ríkisstjórnin standi við kosningaloforð sín og fjölmennir mótmælafundir eru haldnir fyrir framan Alþingishúsið. Samfara þessu hefur fylgi stjórnarflokkanna tveggja hrunið nánast um helming.

Ríkisstjórnin hefur frá upphafi framfylgt harðri andstöðu við inngöngu í Evrópusambandið, sem er rekin áfram af sérhagsmunum þá helst sjávarútvegs. Atvinnuvegur sem gerir reyndar nánast allur upp í evrum EES svæðið er hans særsta viðskiptasvæði, en sjávarútvegsfyrirtækin greiða laun og þjónustu í krónum og græðir á því árlega milljarða króna.

Fyrir utan Evrópusambandsóþolið og krónuástina virðist utanríkisstefna ríkisstjórnarinnar  snúast um að þróa einhverskonar óskilgreint Norðurslóðasamband með aðkomu Kínverja og Rússa. Þetta er stefna sem forseti landsins hefur mótað að mestu leyti með sjálfteknum völdum sínum.

Til viðbótar hefur forsætisráðherra boðað harða afstöðu gegn vondum kröfuhöfum, sem að auki stuðar vitanlega alþjóðlega fjármálakerfið. Þar búa nefnilega liðlega 7 milljarðar manna umfram þá sem búa á Íslandi.

Ef sjálfstæði Íslands á að ganga upp, ætti öllum að vera ljóst að við þurfum að vera í samskiptum við umheiminn og t.d. fara 80% af viðskiptum Íslands við ESB svæðið.

Undanfarnar vikur hafa farið fram árangurslausar tilraunir til þess að ná samningum um veiðar á makríl. Samninganefnd Íslands rauk út af samningafundi og fór heim. Tveim dögum síðar náðust samningar milli ESB, Færeyinga og Norðmanna, sem endurspeglar að afstaða Íslands hafi líklega verið þröskuldurinn.

Þessa harða afstaða hafi verið til að verja makrílhagsmuni útgerðarinnar, sem græðir ótrúlega peninga á þeim og ætlar að margfalda þann hagnað með því að veiða líka þann makríl sem hefur gert sig heimakominn í grænlenskri lögsögu. Þótt það hafi verið reynt að selja landsmönnum þá skýringu að viðræðuslit við önnur strandríki með þeirri skýringu að Norðmenn séu ógeðslega ósanngjarnir, sem þeir eru ugglaust, þá skipta Grænlandsveiðarnar örugglega meira máli.

Fyrrverandi ritstjóri stærsta dagblaðs Ísland, sem er í eigu útgerðarmanna, er virkur þátttakandi í pólitískri umræðu og harður andstæðingur ESB. Hann skrifaði í vikunni; „Skrifstofuveldið í Brussel notar ýmsar aðferðir til að láta vanþóknun sína í ljós. Nú hafa þeir ákveðið að ofveiða makríl til að hefna harma á Íslendingum! Norðmenn hafa gætt sín betur í samskiptum við afkomendur þeirra, sem vildu ekki búa í Noregi en þó hafa þeir stundum ekki geta leynt skoðun sinni á bankahruninu 2008. Nú hafa Evrópusambandið og Norðmenn sameinast í baktjaldamakki, sem svo klaufalega er staðið að fingraförin sjást alls staðar.“

Heimspekingurinn Harry Frankfurt hefur gefið út lítið kver sem heitir einfaldlega On Bullshit, eða Um bull. Í þessari bók leitast Frankfurt við að skilgreina hugtakið „bullshit“ og leitar skýringa á því hvers vegna stjórnmálin, einkennast jafnmikið af bulli og raun ber vitni.

Bullarinn þarf ekki endilega að blekkja okkur, og það þarf ekki að hafa verið ætlun hans, hvorki um staðreyndirnar sjálfar eða um það hverjar hann telur staðreyndirnar vera og lýsir ranglega hvað hann hyggst fyrir.

Georg Orwell segir á einum stað; að gangast við pólitískri ábyrgð nú á dögum þýðir því miður að maður beygir sig undir bókstafskreddur. Stjórnmálin ali á siðleysi af tilteknu tagi, það er hugleysi og óráðvendni, ekki síst óráðvendni í meðferð tungumálsins.

Heimspekingurinn Calep Thompson greinir ástandið með eftirfarandi orðum: Almennt talað þá er orðræðu stjórnmálanna ætlað að stýra skynjun fólks á aðstæðum á þann hátt sem samrýmist hagsmunum stjórnmálamannsins og flokki hans, sem þurfa ekki að vera samrýmanlegir hagsmunum áheyrenda.

fimmtudagur, 20. mars 2014

Ríkisstyrktur áróður


Mikið lifandis ósköp finnst mér það illa farið með skattfé mitt að halda uppi forystusveit Bændasamtakanna sem gefa lítið fyrir skoðanir þjóðarinnar.
 
Þjóðin verði að þola ofurtolla og 20 -30% hærra matvöruverð en er í nágrannalöndum okkar.

Þjóðinni komi það bara ekkert við þó stjórn samtaka bænda styrki gengdarlausan áróður og sendi þjóðinni reglulega þverhandar þykka bunka af Bændablaðinu inn á hverja sjoppu 
 
Þessir bunkar eru reglulega hér í anddyri sundlaugarinnar okkar og í öllum sjoppum landsins.

Ríkisstyrkt blað fullt af rangtúlkunum og sóðaskap um nágrannalönd okkar, þau lönd sem endurtekið hafa komið Íslandi til hjálpar.

Ritstjórn þessa snepils hafnar að birta þar greinar sem ekki eru í samræmi við skoðanir hennar.

En belgir sig út af þjóðernishyggju - lífshættulegasta skálkaskjóli alræðisstjórna síðustu aldar.

Með snepil gefin út á okkar kostnað þar sem barist er til hagsbóta fyrir fámennar hagsmunaklíku sem einokar glansskrifstofurnar á Hótel Sögu


og heimili landsins liggja í valnum.
 

föstudagur, 14. mars 2014

Ómöguleikastefnan


Röksemdafærslan um „ómöguleikann“ felur það í sér að ráðherrar eru að lýsa sig óhæfa til þess að fylgja eftir ákvörðunum Alþingis og þjóðar nema það sé í samræmi við þeirra eigin skoðanir og allir séu þeim sammála.

Þeir telja sig ekki geta verið faglegir í störfum sínum innan framkvæmdavaldsins nema það sé í samræmi við þeirra eigin skoðanir. Hvað þá með önnur mál? Hvernig ætla þessir ráðherra að framfylgja lögum ef þeir eru þeim ekki sammála? Hvað með samskipti við aðrar þjóðir.

Ég hef verið stjórnarmaður Evrópskra byggingarmanna í allmörg ár, þetta er 8 millj. manna samtök sem starfa í Luxemborg og Brussel. Helsta verkefni þeirra er að hafa áhrif á reglugerðarsetningu og ákvarðanatöku í Brussel.

Ég þekki því mjög vel hvernig unnið er á þessum vettvangi. Við Norðurlandamenn erum með öflugt samstarf og sammælumst alltaf um hvert við viljum stefna. Okkur hefur orðið vel ágengt í samstarfi við Þýskaland og Belgíu.

Ástæða er að halda því til haga að um 80% viðskipta Íslands er við þessar þjóðir. Ef þú sýnir í svona starfi samskonar framkomu og hroka eins fram hefur komið í yfirlýsingum íslenskra ráðherra í garð vinaþjóða okkar, svo maður tali nú ekki um samskonar viðhorf og er að baki ómöguleikanum, þá ert þú einfaldlega sniðgengin, settur á hliðarlínuna.

Þetta hefur birst okkur vel í ummælum ráðanda aðila niður í Evrópu gagnvart okkur í erlendum fjölmiðlum. Eftirtektarvert er að þau eru í æpandi mótsögn við þá „sigra“ sem forseti landsins og ráðherra hafa verið að lýsa hér heima.

Þessi staða er ekki tilkominn af illvilja Norðmanna og Færeyinga í okkar garð, þjóða sem hafa margendurtekið sýnt okkur einstakan velvilja. Þessi staða er í einu og öllu búinn til af framkomu og afstöðu fulltrúa Íslendinga.

Við höfum verið að horfa upp á þetta gerast undanfarin ár og það er ástæða þess að forseti vor og ráðherrar eru farnir að tala um Rússland og Kína.

Vinaþjóðir okkar á hinum Norðurlöndunum og í Evrópu eru einfaldlega búin að fá nóg af fyrri yfirlýsingum og framkomu ráðherra okkar.

Ekki bætti úr skák þegar ráðherrar Íslendinga fóru að krefjast veiðiréttinda í Grænlenskri lögsögu fyrir íslensk veiðiskip sem nýbúið var að færa yfir í félög sem eru að töluverðu leiti í eigu Íslendinga

Fyrir utan það að samkomulagið bindur enda á deilur Dana og Noregs um aðgang að miðum í Norðursjó og bindur einnig enda á viðskiptaþvinganir ESB gagnvart Færeyjum.

Sjónarmið íslenskra stjórnvalda voru talin léttvæg, svo ekki sé talað um þjóð sem margoft hefur verið með belgingslegar yfirlýsingar og sagt að hún ætli sér ekki að standa við gerða samninga, nema þegar henni henti og í samræmi við eigin skoðanir.

fimmtudagur, 13. mars 2014

Icesave blindan


Árangur þeirrar utanríkisstefnu sem forseti landsins og Indefence hópurinn skópu, stefna sem ríkisstjórnin hefur vendilega fylgt, er að koma fram.
 
Ísland er að einangrast.

Hvað annað? Varla getur nokkur maður með heila hugsun verið undrandi.

Þessi hópur er búinn á undanförnum árum að senda nágrannalöndum og helstu viðskiptalöndum okkar langt nef með alls konar ásökunum og dylgjum.

Draumórar um að við séum stjarna norðursins og langt yfir nágrannalönd okkar hafin.

Dylgjur um að Norðurlöndin séu óvinir okkar. Þau hafi svikið okkur og komið okkur í hendur AGS í aðdraganda hrunsins.

Skætingur um að ESB vilji ekkert með okkur hafa og við eigum að snúa okkur að Rússlandi og Kína.

Og þá kemur ráðherra í ríkisstjórn Íslands fram á Alþingi núna áðan og segir að staða okkar á alþjóðavettvangi hafi styrkst!!??

Icesave blindan, þjóðremban og sjálfumgleðin er á góðri leið með að keyra okkur endanlega í kaf.

þriðjudagur, 4. mars 2014

Einungis þjóðaratkvæðagreiðsla kemur til greina


Í Fréttablaðinu í dag kemur fram að SA ásamt ASÍ séu tilbúinn að slaka yfir í tillögu VG. Hvorki ASÍ eða SA hafa neina heimild til svona loforða fyrir hönd þjóðarinnar um einhvern afslátt til handa ráðherrum sem eru búnir að svívirða þjóð sína, heldur hið gagnstæða.

Það er einungis eitt sem kemur til greina það er þjóðaratkvæðagreiðslu um spurninguna

„Vilt þú að samningaviðræðum við ESB verði lokið?“     /   Nei

Báðir stjórnarflokkarnir lofuðu þessu margítrekað í síðustu kosningum og fengu mikið af atkvæðum út á það loforð. Ekkert annað er inn í myndinni.

Jú reyndar eitt enn, afsökunarbeiðni frá ráðherrum á þeirri ósvífnu framkomu sem þeir hafa sýnt þjóðinni, eða afsagnir.

mánudagur, 3. mars 2014

Vald þjóðarinnar


Vald þjóðarinnar er stjórnarskrárvarið, það er hún sem setur stjórnvöldum leikreglur. Í þjóðaratkvæðagreiðslum ræðst niðurstaðan ætíð af vilja meirihluta þeirra kjósenda sem mæta á kjörstað og taka þátt í leynilegri atkvæðagreiðslu.

Vald sem ekki er sprottið frá þjóðinni verður aldrei annað en ofbeldi sem beint er gegn henni. Vilji þjóðarinnar er vilji samfélagsheildarinnar og sá vilji fer saman við almannahagsmuni.

Stjórnvald sem vill kallast réttmætt á hverju sinni að lúta skilyrðislaust niðurstöðum í þjóðaratkvæðagreiðslum. Í öllum lýðræðisríkjum lúta stjórnmálamenn án nokkurra skilyrða niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslna. Þar gildir hið eina að öllum sé tryggður aðgangur að kjörklefa til þess að nýta sér vald sitt, annað er grímulaust valdarán.

Mikilvægir þættir lýðveldishugmynda um lýðræði eru forsendur upplýstrar umræðu en þessir þættir hafa verið  hunsaðar af stjórnmálamönnum. Beint lýðræði með þátttöku almennings með heimildum til þess að tiltekinn hluti þjóðarinnar geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslna var áberandi í kröfum þjóðfunda og tillögum Stjórnlagaráðs.

Auka má og treysta íslenska lýðræðismenningu, þar má taka mið af gagnrýni Vinnuhóps um siðferði og rannsóknarnefndar Alþingis

Fáránleikakenning ríkisstjórnarinnar er þeir séu herrar en ekki þjónar þjóðarinnar. Sú nálgun er hreinlega súrrealískt að þeir telji það ómöguleika að þjóðin ætlist til þess að þeir fylgi eftir faglega og samviskusamlega niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ráðherrum er tíðrætt um óskorað lýðræðislegt umboð sitt á grundvelli alþingiskosninga. Hvernig komast þeir þá að þeirri niðurstöðu að þeim beri ekki að framfylgja í umboði þjóðarinnar í niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu?

Þó að ólík afstaða landsmanna til ESB sé undirliggjandi í þessu máli þá snýst það alls ekki nú um hana. Það snýst um grunnreglur í opinberu lífi í landinu. Um svik við kjósendur, um virðingu við lýðræðið, pólitíska ábyrgð og heiðarleika.

Ríkisstjórnin hefur í svörum sínum og útskýringum afvegaleitt tungumálið, ráðist inn í samband orðs og merkingar á skítugum skónum, reynt að rjúfa og brengla samband orðs og merkingar.

Loforð er ekki lengur loforð, orðið strax þýðir þegar það hentar. Framkoma ráðamanna við tungumálið er hættuspil. Svör þeirra einkennast af hártogunum og útúrsnúningum, með því eru vegið að orðum og hugtökum. Íslenska er grundvöllur samfélagsins og sjálfsmyndar okkar sem þjóðar.

laugardagur, 1. mars 2014

Fjölmennur fundur á Austurvelli - Ríkisstjórnin á að víkja Strax


Austurvöllur var smekkfullur og færri komust að en vildu, ég varð að leggja mínum bíl efst á Hverfisgötunni og ganga niður í bæ. Umferðaröngþveiti var á Sæbrautinni og allt stopp upp að Snorrabraut.

RÚV flutti að fundi loknum harla einkennilega frétt um að nokkur þúsund hefðu verið þar saman kominn og einhverjar ræður fluttar.

Það voru fluttar sterkar ræður um framkomu ríkisstjórnarinnar við 82% landsmanna og tekið rösklega undir af a.m.k. 10 þúsund manns og enn fleiri ef þeir hefðu einfaldlega náð inn á fundinn.

Nokkur stikkorð úr ræðunum :

Ríkisstjórn sem telur það vera ómöguleika að fara að vilja þjóðarinnar á að víkja.

Ríkisstjórn sem tekur hagsmuni örfárra útgerðarfyrirtækja fram yfir hagsmuni almennings á að víkja.

Ríkisstjórn sem veður yfir tungumál okkar á skítugum skónum og rífur í sig merkingu orða á að víkja

Ríkisstjórn sem snýr út úr hverri spurningu sem til hennar er beint á að víkja strax, og það með réttri merkingu þess orðs.

Það er fyrsta verk einræðisstjórna að ráðast að tungumálinu og samskiptum m.a. með því að  eyðileggja merkingu orða. Ríkisstjórn sem staðin er að þannig verklagi á að víkja STRAX.

Skýringar stjórnarþingmanna á hruni fylgis er að sjónarmið þeirra hafi ekki náð að koma fram, þar er hlutunum snúið á haus eins og hverju viðtali og hverri ræðu. Sjónarmið þeirra komust á framfæri við þjóðina og henni ofbauð og þá hrundi fylgið.

föstudagur, 28. febrúar 2014

Ráðherrar komnir upp að vegg


Ákafi Framsóknarmanna við að leggja fram tillögu um slit á viðræðum hefur vakið marga til umhugsunar. Hvers vegna lá þeim svona á? Hvers vegna ákveða þeir að setja samfélagið á annan endann í miðjum kjaraviðræðum sem eru gríðarlega mikilvægar þar sem tekist er á um að koma böndum á efnahagsvandann.

Ræður hér för örvæntingarfull tilraun til þess að beina sjónum almennings og fjölmiðla frá skelfilegum uppákomum Sigmundar Davíðs? Fyrst hjá Gísla Martein og síðar ræðu hans á Viðskiptaþingi þar sem hann sendi atvinnulífinu „fokkjú“ merki og gaf í skyn að hann ætlaði að reka Seðlabankastjóra fyrir að hafa reiknað út hvaða afleiðingar efnahagsráðstafanir ríkisstjórnarinnar myndu hafa.

Í skýrslu Seðlabanka kom fram að ríkisstjórnin mun irústa þeim árangri sem efnahagslega atvinnulífið er að ná með yfirstandandi kjaraviðræðum. Reyndar var ekki hægt að skilja yfirlýsingar Sigmundur Davíðs í áramótaræðunni öðru vísi en svo að hann gæfi ekki neitt fyrir þau markmið og nú er hann rukkaður um efndir á þeim orðum í viðræðum við opinbera starfsmenn þar sem allt virðist stefna í harkaleg verkföll.

Skýrsla Hagfræðistofnunar var ríkisstjórninni einnig óhagstæð og ráðherrar urðu að tefla fram helstu útúrsnúningamönnum sínum í fréttaþáttum til þess sýna fram á að skýrslan boðaði slit á samningaviðræðum eins og fyrirhugað var þegar skýrlsan var pöntuð.

Allt þetta hefur snúist í höndum ráðherranna og þeir eru daglega staðnir að því að sýna þjóðinni forherta forsjárhyggju. Það berast best í því hvernig ráðherrarnir hafa snúa lýðræðinu á hvolf.

Samkvæmt skoðanakönnunum liggur fyrir að 82% þjóðarinnar vill fá að sjá niðurstöðu samninga og taka þá afstöðu. Vitanlega er ætlast til að þingmenn og ekki síst ráðherrar verndi þjóðarhag og leiti eftir eins hagstæðum samningum og kostur er. En þessu vilja ráðherrarnir ekki una og segjast vera óhæfir til þessara viðræðna.

Ef svo er þá segir lýðræðið að þeir eigi einfaldlega að segja af sér og kjósendur finna síðan mannskap til þess að vinna að þeim niðurstöðum sem þjóðin vill, og síðan ákveða hvort hún samþykka eða hafni.

Athafnir ráðherranna  einkennast af því að hafa safnað í kringum sig hópi sem hafa sömu skoðanir og þeir, í þannig umhverfi verður allt svo einfalt og auðvelt. Á síðasta kjörtímabili kom nær daglega fram á Alþingi harla einkennileg sýn stjórnarandstöðuþingmanna, nú ráðherra, á íslenskt samfélag. Þar voru á lofti töfralausnir á öllum vandamálum og leiddir fram snillingar sem reyndar gátu aldrei skýrt nákvæmlega hvað þeir áttu við. 

Nú þegar þeir eru komnir í valdastólanna þá reka þeir sig á hvern veggin á fætur öðrum, eins og kemur m.a. fram í framangreindum ummælum ráðherra í spjallþáttum og ræðum á þingum og ráðstefnum.

Fullyrt er að ESB-aðild sé einhliða framsal sjálfstæðis, og það sé að öllu leyti eðlis-óskylt aðild að Norðurlandaráði, Evrópuráði, EFTA, EES eða Nato. Sagt er að allir aðildarsinnar telji aðild lífsnauðsyn fyrir Íslendinga, en alls ekki frjálst val sjálfstæðrar þjóðar um hentuga framtíðarkosti.

Þá er óhikað fullyrt að allir aðildarsinnar á Íslandi séu ákafir stuðningsmenn hugmynda um aukna sameiningu innan ESB. Þetta er allt langt frá raunveruleikanum en virðist skila árangri í áróðrinum.

Fullyrt er síðan að aðildarsinnar hafi snúist gegn íslensku fullveldi og íslensku sjálfstæði, enda sé hér ekki um frjálst fjölþjóðasamstarf fullvalda ríkja að ræða. Samkvæmt þessu er sagt að vilji til frjálsrar viðskiptasamvinnu með áherslu á opið samfélag og samkeppnishæfni jaðri við föðurlandssvik.

Í fjölmiðlum er sagt að í ESB sé ekki aðgreint ríkisvald aðildarlanda, heldur allt í einu sameinuðu bákni. Ekki er minnt á að Brüssel-báknið er u.þ.b. 2% af vlf. ESB í heild eða minna. Þvert á móti eru öll ríkisumsvif allra aðildarlanda tekin saman í eitt.

Hagsmunagæslu einstakra aðildarlanda er lýst einfaldlega sem fingri á sameiginlegum valdsarmi undir ráðstjórn ESB, jafnvel þótt þessi hagsmunagæsla sé stundum andstæð vilja stofnana ESB.

Forræði aðildarlanda í eigin málum og yfir stofnunum ESB er ekki lýst sem sterkri stöðu þjóðríkjanna, heldur heitir þetta ,,lýðræðisvandi ESB". Þar sem tryggt er að embættismenn ESB fá ekki völd ríkis, fá ekki óskorað ríkisumboð, þá er það kallað ,,lýðræðishalli".

Öll stærstu útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækin reka umsvifamikil viðskipti innan ESB svæðisins og eiga þar stór útgerðarfyrirtæki og þekkja því vel það umhverfi. Þau vilja hins vegar ekki missa valdið hér heima, þar sem þau geta náð fram hagstæðum geðþóttaákvörðunum og svo ekki sé talað um „hagstæðum“ gengisfellingum. Þeir geti rekið sýn fyrirtæki bæði íslenskt og "Evrópsk" í Evrum en greitt laun í krónum.

Nú er svo komið að ríkisstjórnin kemst ekki hjá því að horfast í augu við þá staðreynd að við búum í lýðræðisríki og hún verður að víkja til hliðar hagsmunum fárra. Ráðherrar eiga ekki að komast upp með að velja á milli hvenær þeir fara að vilja þjóðarinnar og hvenær ekki.