sunnudagur, 30. október 2011

Vaxtaviðmið lífeyrissjóða

Allir stjórnarmenn kosnir af launamönnum í þeim lífeyrissjóð sem ég hef greitt til allt frá því ég kom út á vinnumarkað árið 1970, hættu á ársfundi sjóðsins í vor. Það var skorað á mig að gefa kost á mér, þar sem ég væri meðal þeirra sem hefðu greitt til sjóðsins alla hans starfstíð og væri þar af leiðandi meðal þeirra sjóðsfélaga sem ættu mestu hagsmunanna að gæta, auk þess að hafa kynnt mér mjög vel starfsemi sjóðsins okkar. Ég náði kosningu á um fundi liðlega 100 sjóðsfélaga og fór svo í gegnum aðra kosnbingu á ársfundi sjóðsins. Þetta hefur reyndar, eins og ég reyndar vissi, orðið til þess að ég hef verið úthrópaður í ákveðnum spjallþáttum og víðar sem einn þeirra sem sé í hinni gjörspilltu lífeyrissjóðselítu.

Ég hef skrifað nokkra pistla um margskonar fávisku sem einkennir umræðu um lífeyrissjóði og meðhöndlun á sparifé launamanna, og mun halda því áfram, sérstaklega þar sem ég sé að það fer afskaplega í taugarnar á þeim sem vilja halda því fram, að það hafi verið starfsmenn stéttarfélaga gamblandi með fjármuni lífeyrisjóðanna sem hafi leitt til Hrunsins. En öll vitum að þeir sem þar fara fremstir í flokki, gera það til þess að beina sjónum frá því sem raunverulega gerðist.

Sumir halda því fram að 3,5% ávöxtunarkrafa sé gerð af lífeyrissjóðunum og það sé mikill bölvaldur í íslensku efnahagslífi. Þetta er rangt, þetta er vaxtaviðmið notað í tryggingarfræðilegum útreikningum um stöðu sjóðanna og notað til þess að jafna bil milli kynslóða. Ef þetta viðmið næst ekki verður að skerða útgreiðslur til þeirra sem eru fá örorku- eða lífeyrisgreiðslur í dag, annars væri verið að ganga á rétt þeirra sem eru ungir í dag. Taka fjármuni sem ungt fólk á og greiða þá út til annarra kynslóða.

Sjóðsstjórar lífeyrissjóða verða eins og aðrir fjárfestar að láta fjármagnið vinna svo það ávaxtist. Þeir fjárfesta í skulda- og hlutabréfum frá atvinnulífinu og hinu opinbera. Þeir verða vitanlega að sætta sig við þá ávöxtun sem býðst hverju sinni. Ef ávöxtunarkostir eru slakir í dag þarf að skerða réttindi.

Það er gert með árlegum tryggingafræðilegum útreikningum og innistæður og ávöxtun borin saman við skuldbindingar lífeyrisjóðanna. Ef ávöxtun hefur verið undir 3,5% þá verða ársfundir lífeyrissjóða lögum samkvæmt að velja milli þriggja hluta :
a) Breyta starfsreglum viðkomandi sjóðs og skerða réttindi sjóðsfélaga, eins og t.d. skerða makalífeyri eða réttindastuðul eða hækka lífeyrisaldur.
b) lækka lífeyri og örorkubætur
c) hækka iðgjöld, eða hækka lífeyrisaldur.

Mörg lönd hafa verið að hækka lífeyrisaldur og á það hefur verið bent að ef lífeyrisaldur í opinberu sjóðunum yrði settur við 67 ára aldur eins hann er í almennu sjóðunum myndi staða þeirra lagast umtalsvert. En það hefur ekki verið gert og fyrir liggur krafa frá FME um að hækka verði iðgjald í opinberu sjóðina upp 19%.

Í dag ávinna launamenn í almennum lífeyrissjóðum sér árlega lífeyrisrétt sem nemur frá 1.2% til 1,47%. Fyrir sama iðgjald ávinna útvaldir ríkisstarfsmenn sér lífeyrisrétt sem nemur um 1,9%, að allt að 50% hærri réttindi en sjóðsfélagar í almennu lífeyrissjóðanna hafa. Réttindastuðull þingmanna er í dag 2,4% af launum. Þingmenn eru 29 ár að ávinna sér 70% eftirlaunarétt. Almennir launamenn eru 41 ár að ávinna sér 56%, eða 25% mismunun.

Réttindastuðull ráðherra þegar búið er að lækka ávinnslustuðul úr 6% í 4,8% af launum. Ráðherrar eru þar með 14,5 ár að ávinna sér 70% eftirlaunarétt og þurfa eftir það ekki að greiða af launum sínum í lífeyrissjóð svo fremi þeir greiði í lífeyrissjóð opinberra starfsmanna. Til samanburðar má geta þess að þá hafa sjóðfélagar almennu sjóðanna unnið sér inn að meðaltali um 16% lífeyrisrétt eftir 14,5 ára greiðslu í sjóðinn.


Ef lífeyrisréttindi skerðast bitnar það á ríkinu (skattborgurum), útgjöld almenna tryggingarkerfisins munu aukast. Í dag greiða lífeyrissjóðir út um 70 milljarða króna í örorkubætur og lífeyri á meðan Tryggingarstofnun greiðir út 50 milljarða.

Annað veigamikið hlutverk lífeyrissjóðanna hefur verið að skapa möguleika til þess að hægt sé að veita lánum til fólks m.a. til íbúðarkaupa. Fyrstu 40 árin er innstreymi inn í lífeyrissjóðina meira en útstreymi sakir þess að þetta er uppsöfnunarkerfi. Það næst jafnvægi á kerfið upp úr 2030, þá verða útborganir úr kerfinu svipaðar og innstreymi, það er ef ávöxtun hefur náðst.

Sú staða gæti skapast ef viðmið hafa ekki nást að lífeyrissjóðirnir yrðu upp úr 2030 að snúa blaðinu við og taka út fjármagn frá atvinnulífinu. Samfara því gæti einnig orðið skortur á lánsfjármagni í landinu, það er að segja ef ekki er til nægilega mikill inneign í sparifé.

Venjulegt meðalheimili á í dag um 17 millj. kr. inneign í lífeyrissjóð. Ef ekki verða gerðar ráðstafanir til þess að ná stöðugleika hér á landi og ná vöxtum niður (sem þýðir að verðtryggingarákvæði verða gerð óvirk), er verið að snúa til fyrri tíma og gera eignarnám í sparifé heimilanna. Það var ástundað af stjórnmálamönnum í fyrstu og allt sparifé launamanna var reglulega gert upptækt í gegnum neikvæða ávöxtun sem skapaðist með reglulegum gengisfellingum.

Þessu var breytt með Ólafslögum um verðtryggingu. Þá kom fram að tengja laun einnig við verðtryggingu, en þáverandi verkalýðsforingjar höfnuðu því, þar sem það myndi koma í veg fyrir eðlilegt launaskrið. Myndin hér að neðan sýnir að það mat var rétt.

föstudagur, 28. október 2011

Hagfræðingar andskotans

Ég var ákaflega undrandi á fréttamati RÚV í gærkvöldi þar sem fram kom að helsta atriði ráðstefnunnar í gær um stöðu efnahagsmála hefðu verið að krónan væri bjarghringur Íslands, auk þess að fyrirlesarar væru furðu lostnir yfir því að íslendingar vildu skipta henni út fyrir Evru.

Ég sat ekki þessa ráðstefnu, var fastur í vinnu, en vitandi hverjir voru á mælendaskrá var ég viss um að fyrirlesarar væru ekki allir sömu skoðunar, og var næsta viss um að önnur áhugaverð atriði hefðu komið fram. Ég veit það núna að svo var og það voru Mr. Wolf og Krugman sem dásömuðu krónuna ekki aðrir. Það er rétt krónan er fín fyrir skuldlaust efnafólk, krónan gerir það reglulega ríkara með stórkostlegum eignatilfærslum sem gerðar eru með gengisfellingum, þetta sjónarmið virðist fréttastofa RÚV styðja umfram önnur.

Eftir að hafa hlustað á viðtöl við þessa menn, finnst mér að þeir tali eins og það hafi ekki verið líf á Íslandi fyrir Hrun. Þeir koma ekki inn á um hversu stóran þátt spilið með krónuna átti í hamförum heimilanna. Þeir fjölluðu ekki um hvers vegna tugþúsunda íslendingar töpuðu öllu sem þeir átti og stóðu þar að auki frammi fyrir ókleifu skuldafjalli. Hvers vegna stendur íslenskur almenningur mun verr eftir efnahagshrunið en t.d. almenningur í Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi já og jafnvel Írlandi? Þar bjó fólk við gjaldmiðil sem bauð ekki upp sömu geggjun og krónan gerir.

Þeir tala eins og líf hafi byrjað á Íslandi 1. nóv. 2008 með öll mælitæki núllstillt. Það voru margir sem tóku þessu fagnaðarerindi vel, sem RÚV hélt svo ákaft að landsmönnum. Sérstaklega þeir sem eru í þeim flokk sem berst gegn því að þeirra sérhagsmunir verði skertir, eða með öðrum orðum, aðgengi þeirra í vasa almennings, upptaka á launum og sparfé verkafólks verði takmörkuð.

Krugmann, sem hefur ítrekað fengið núlleinkunn fyrir yfirborðskennda umfjöllun sína um íslenskt efnahagslíf, var ekkert að fela það ásamt Mr. Wolf hversu hrifnir þeir voru af hinu íslenska kerfi, þar væri blóðsúthellingalaust auðvelt að gengisfella reglulega kjarabaráttu verkafólks og þeir komu ítrekað inn á þann þátt sem stóran kost. Hér fara menn sem hafa lítinn áhuga og skilning á hugtakinu jöfnuði.

Buiter var á annarri skoðun og sagði að ef hann væri í sporum íslendingar myndi hann biðja fyrir því að aðalviðskiptasvæði Íslands ESB lif'ði af ásamt evrunni. Hann hvatti m.a. til almennrar skuldaafskriftar heimilanna þar sem miðað yrði við 70% verðmæti fasteignalána. Hann varaði við yfirvofandi hruni íslenska fjármálakerfisins. Skýrslunni var þá stungið undir stól í bankanum og af stjórnvöldum. Þegar fréttir af skýrslunni bárust út sumarið 2008 sagði Þorgerður Katrín þávernadi ráðherra að niðurstöður Buiters vektu upp spurningar um hvort hann þyrfti á endurmenntun að halda. RÚV hafði ekki áhuga á því að flytja okkur fréttir af þessu erindi.

Okkur er gert að búa við gjaldmiðil sem er nýttur til þess að hafa af okkur laun og eignir. 12% af launum fara í að greiða vaxtamun milli Íslands og ESB. 30% af tekjum fara í að greiða allan kostnað heimilanna af því umhverfi sem krónan býr okkur, hluti þess rennur þráðbeint í vasa hin efnaða minnihluta, og vitanlega berst hann gegn öllum breytingum. Hann vill geta selt sína vöru í erlendum myntum, en greitt launamönnum í íslenskri krónu og geymt mismunin í erlendum bönkum.

Fjölmiðlar keyptir og reknir með milljarða tapi til þess að "útskýra!!" málið. Fluttir eru inn sérvaldir sérfræðingar og keyptir stærstu ráðstefnusalir borgarinnar til þess að boða þetta fagnaðarerindi. Hnippt er í rétta aðila á fréttastofu allra landsmanna til þess að boðskapurinn komist inn á öll heimili í landinu og svo væntanlega endurtekinn í Silfri Egils um helgina.

Það er svo annað mál að langtímahorfur íslendinga gætu verið góðar, sama á ekki við um margar aðrar þjóðir. Þær eiga við að etja skuldavanda, lífeyrisvanda og skort á auðlindum. Endurnýjanleg orka er eftirsóttasta vara sem til er. Náttúruauðlindir hafa ekki endilega verið ávísun á ríkidæmi og velgegni. Frekar hið gagnstæða. Þar má benda á Argentínu, Nígeríu og fleiri þjóðir. Hér má benda á hvernig Noregur nýtti sínar auðlindir samanborið við Bretland.

Hvað varðar atvinnulífið er versta afleiðing Hrunsins að öll stærri fyrirtæki landsins hafa, eða eru að flytja höfuðstöðvar sínar frá Íslandi með flutning þúsunda verðmætra starfa frá landinu og fyrirtækin flytja sig útúr krónusvæðinu, sífellt færri er gert að standa undir kostnaðinum af krónunni.

Við höfum nýtt alla orku okkar frá Hruni í að horfa tilbaka, á meðan sitja hundruð manna á sakabekk og bíða rannsóknar. Þetta eru oft miklir hæfileikamenn og með verðmæta þekkingu sem ekki nýtist til uppbyggingar í landinu á meðan.

Í jafnfámennu landi og Ísland er þetta dýrt því þetta veldur því að í mörgum tilfellum er ekki hæfasta fólki að störfum við hin erfiðu verkefni sem við verðum að leysa til þess að komast upp úr hjólförnum. Eftiráspekingum er hampað og spjallþáttastjórnendum hefur jafnvel tekist tekist að finna einhverja málsgrein í blaðagrein sem túlka má þannig að þeir hafi séð Hrunið fyrir.

Afleiðing þessa er kyrrstaða og það verður sífellt lengra í að okkur takist að ná stöðugleika í efnahags- og gjaldmiðilsmálum. Öll helstu fyrirtæki landsins hafa hafnað krónunni og hún er líka ástæða þess að þekkingar/hátækniiðnaðurinn er ekki með Ísland inn á blaðinu sem fjárfestingarkost. Sakir þess að eru hverfandi líkur á því að það takist að fjölga störfum á Íslandi í því magni sem þarf til þess að komast upp út úr viðjum Hrunsins.

Örgjaldmiðillin króna býður upp á að hægt er að skapa þá geggjun sem hér varð, sem varð til þess að heimilin liggja eftir í valnum og hún er einn stærsti þáttur þess að við náum okkur ekki upp úr táradalnum.

miðvikudagur, 26. október 2011

Mr. Martin Wolf stand up brandarakall

Var í kvöld boðið að koma og hlusta á Martin Wolf yfirhagfræðing Financial Times. Heiti fundarins var Ísland í endurreisn eða stefnukreppu.

Vilhjálmur Egilsson SA, Heiðar Már Guðjónsson fjárfestir frá Svisslandi að mér skildist og Katrín Ólafsdóttir fluttu erindi. Öll ágæt og þau nálguðust málefnið ef þekkingu, en frá mismunandi sjónarhornum.

Í fundarlok kom svo mr. Martin Wolf inn með erindi. Hann byrjaði á því að taka það fram að hann þekkti lítið til hér, annað en það sem hefði verið í heimspressunni og baðst fyrir fram afsökunar á því sem hann gæti hugsanlega sagt í innlegi sínu.

Já takk fyrir það mr. Wolf það er rétt hjá þér það var lítið sem þú hafðir fram að leggja. Mr. Wolf elskar greinilega það umhverfi sem gerir fáum kleift að verða ofboðslega ríkir á kostnað almennings. Ljóst er að það er nákvæmlega það sem íslenskur almenningur hefur fengið nóg af undanfarin ár. Hannn dáist af gjaldmiðli sem hægt er að nýta til þess að hafa eignir og laun af almenning og færa það yfir til fárra efnamanna.

Mr. Wolf sagði nokkra ágætisbrandara um ESB og Evruna, en upplýsti okkur svo að hann vissi ekkert um vinnumarkaðinn á Íslandi utan nokkurra alþekktra meðaltalstalna. Hann tók ekkert tillit til þess að í meðaltölum birtist sú staða að sumir standa í heitu vatni og hafa það notalegt á meðan aðrir ísköldu og höfðu það mjög slæmt, en að meðaltali hefðu íslendingar það mjög gott og væru ríkir, já og bætti Mr. Wolf bætti kátur við sterkefnaðir, skítt með þá sem hafa orðið undir.

Við vitum öll að sumir (fáum) tókst að draga til sín gríðarlegar upphæðir og eru sterkefnaðir eftir Hrunið, á meðan sumir (margir) sjá ekki yfir þröskuldinn á svefnherberginu sínu fyrir skuldum. Þetta er umhverfi sem honum finnst gott og vill halda í það, það er það sem íslenskur almenningur mótmælir og krefst jöfnuðar í samfélaginu. Vitanlega er hægt að segja góða brandara um þetta en það á ekki að kynna það sem innlegg í umræðuna um hvert við eigum að stefna.

Það kemur viðhorfum til ESB og gjaldmiðils ekkert við, en ég næsta viss um að aths.ritarar munu endilega vilja tengja þennan pistil við þá umræðu.

Í umræðum á eftir fór hann svo að gera grín af norrænum skattafangelsunum og tala um að við ættum að taka upp kanadískar dollar. Allir vita að ESB stendur mun betur en England með sitt pund og svo maður talinú ekki um USA með sonn dollar sem er í töluvert meir viðskiptahalla en ESB, þarna sagði ég takk fyrir kaffið og fór heim.

Þetta er ágætis standupp brandarakall, og hann dró til sín marga sjónvarpsmenn, svona kalla elska þeir.

þriðjudagur, 25. október 2011

Er verðtryggingin aðalvandinn?

Sé litið til málflutnings um verðtrygginguna má reikna með tillögu á Alþingi um að lengja tommustokkinn um 20 cm. Það valdi 20% lækkun á eldsneytiskostnaði bílaflotans og stóruppbyggingu vegakerfisins.

Það er einblínt á verðtrygginguna sem einhvern vanda og ef henni verði komið frá sé búið að leysa þann vanda sem fólk lenti í þegar það fjárfesti í íbúðarhúsnæði. Verðtryggingin er ekki vandinn, ef verðtrygging er felld niður koma einfaldlega breytilegir vextir í staðinn og fólk situr í enn verri stöðu, eða mjög háir meðalvextir.

Fólki hefur alltaf staðið til boða að velja óverðtryggð lán en hefur hafnað því og valið frekar verðtryggð. Fólk er þá að greiða umtalsvert meira en það þarf þegar verðbólgan er í eðlilegum stærðum. Það er ekki þar með sagt að ekki sé hægt að bæta verðtryggingarkerfið eitthvað eða breyta útfærslum á því, en það leysir ekki þann vanda sem fólk lenti í.

Það þarf að taka á þeim vanda sem við er að etja. Vandinn er að það hafa ekki komið fram sérstakar lausnir til að aðstoða þann fjölda ungs fólks sem þurfti að taka lánsveð til að fjármagna sín fyrstu íbúðakaup. 110 prósenta leiðin svokallaða nýtist þessu fólki eftir og það hefur orðið útundan.

Algeng hefur verið að foreldrar eða ættingjar aðstoða unga fólkið til kaupa á sínum fyrstu íbúðum með því að brúa bilið að fullri fjármögnun fyrir kaupunum. Engar úrlausnir eru í kerfinu fyrir þetta fólk sem talið er að telji minnst fimmtán þúsund manns.

Þeir sem keyptu íbúðir á árunum 2004 til 2008 þurftu yfirleitt að fá lánað veð, oftast hjá foreldrum, til að brúa bilið til að ná fullri fjármögnun. Sú tegund af fjármögnunarformi er ekki reiknuð með í þessum lausnum.

Umræðan um verðtrygginguna hefur tekið á sig öll einkenni íslenskrar umræðulistar. Reyni einhver að benda á veikleika í því sem hefur verið sett fram í gagnrýni, er sá hinn sami umsvifalaust dæmdur til útlegðar og talinn tilheyra elítu sem vill launamenn feiga og ná til sín öllum eigum þeirra.

Nokkrar staðreyndir :
• Verðtrygging er óvirk ef ekki eru verðlagsbreytingar. Ef við búum við stöðugleika þá er hún meinlaus.

• Ef verðgildi krónunnar breytist lagar verðtrygging fjárskuldbindingar að því ástandi, hvort sem um er að ræða rýrnun hans í verðbólgu eða hinu gagnstæða í verðhjöðnun, góður eiginleiki.

• Verðtrygging er ekki einungis til hér á landi hún er víða til, jafnvel í löndum sem búa við stöðugleika. þjóðverjar, Bretar, Svíar og mörg önnur ríki gefa út verðtryggð skuldabréf. Hollenskir lífeyrissjóðir veita verðtryggð lán.

Í dag er rætt er um þak á hækkun verðtryggingar umfram 4%. Ef lántakandi fengi lán á 4,35% vöxtum með 4% þaki ætti hann rétt á endurgreiðslu á þeirri upphæð sem færi upp fyrir þakið.

Hér er mynd af 12 mánaða verðbólgu og svo meðaltalsverðbólgu. Byggt á upplýsingum frá Hagstofu Íslands




Það er eitt að tala um verðbólguálag en ekki er komist hjá því að bæta við verðbólguáhættu sem felst í áhættu á tímabundnum toppum eins og m.f. mynd sýnir.

Áhættulausir 20 ára verðtryggðir jafngreiðsluvextir eru í dag um 2,8%. Sjóðsfélagalán lífeyrissjóða bera í dag um 0,5 – 1,5% álag á áhættulausa vexti og boðið er upp á um 4% vexti ásamt verðtryggingu svipuð kjör og Íbúðalánasjóður býður.

Verði þakinu komið á þýðir það aukið álag á grunnvexti og húsnæðislán í dag yrðu þá um 6,4 - 7%. Líttu á myndina aftur og sjáðu lesandi góður hvernig þetta hefði verið ef meðaltalslínan lægi við 7% í töflunni hér ofar. Er það það sem verið er að biðja um, það er að segja að sætta sig við að greiða okurvexti, í stað þess að tekið verði á vandanum og komið á stöðugleika til framtíðar.

Með því kerfi sem verið hefur þá færist vaxtatalan niður þega verðbógan fer niður.

Ég ætla aðeins að koma inn á þær fullyrðingar að verkalýðsforystan standi gegn hagsmunum launamanna með því að samþykkja ekki að úr lífeyrissjóðunum verði teknir 235 milljarðar til þess að greiða niður skuldir fólks, í langfæstum tilfellum sjóðsfélaga.

Því hefur verið haldið fram að þar væru einhverjir örfáir einstaklingar farnir að taka sér völd sem þeir hafi ekki. Í fyrsta lagi hafa engir heimild til þess að taka sparifé launamanna sem er í lífeyrissjóðum til þess að nýta það í eitthvað annað en að greiða út lífeyri eða örorkubætur, jafnvel þó þeir séu breiðir verkalýðsforingjar. Það er stjórnarskrárbrot og reyndar líka lögbrot.

Á fundum í með sjóðsfélögum kom skýrt fram að þeir myndu aldrei sætta sig við þá leið. Þannig að þeir verkalýðsforingjar sem kynntu þessa afstöðu voru að fara eftir vilja félagsmanna, ekki ganga gegn þeim. Mesti hluti ávöxtunar lífeyrisjóðanna hefur komið í gegnum hagnað á hlutabréfum og skuldabréfum, enda minnihluti eigna lífeyriskerfisins bundið í verðbundnum bréfum. Á móti eru allar útgreiðslur bóta eru verðtryggðar. Rekstur lífeyrissjóðakerfisins yrði mun auðveldari ef verðtrygging yrði lögð niður.

Margoft kom fram í þessari umræðu að hópur sjóðsfélaga lýsti því yfir að þeir myndu fá sér lögmenn um leið og fjármagn væri tekið út úr sjóðunum til úthlutunar án endurgreiðslukrafna. Sjóðsfélagar ætluðu þá að stefna stjórnum viðkomandi sjóða ef þetta yrði gert, þær eru ábyrgar fyrir því að farið sé að settum lögum.

Stjórnun lífeyrisjóða er gert skylt samkvæmt lögum að ávaxta þá fjármuni sem eru í lífeyrissjóðum og það er gert m.a. með því að kaupa hlutabréf og skuldabréf af í atvinnulífinu, enda eru gerðar kröfur um að lífeyriskerfið sé á þeim markaði sem er í sjálfu sér eðlilegt. Þetta er allt annað en þær fyrirætlanir að taka úr sjóðum lífeyrisjóðanna fjármuni til úthlutunar. Hvar myndi það fordæmi enda ef stjórnmálamönnum væri hleypt inn í sjóðina með þeim hætti.

sunnudagur, 23. október 2011

Auðmenn í Silfrinu

Settist við Silfrið til þess að hlusta á viðtal Egils við Richard Wilkinson. Hann er ásamt Kate Pickett höfundur bókarinnar The Spirit Level: Why More Equal Societies Almost Always Do Better. Bókin vakti feikilega athygli þegar hún kom út. Kenning bókarinnar er sú að samfélögum þar sem jöfnuður ríkir vegni betur en þar sem ójöfnuður er mikill – þetta er stutt ýmsum gögnum og samanburðarrannsóknum. Wilkinson kemur að efninu úr nokkuð óvenjulegri átt – hann hefur eytt ævinni í rannsóknir á heilsufari og á sviði faraldursfræði.

Viðtalið við hann og þær niðurstöður sem hann kynnti var ákaflega áhugavert. Og svo skemmtilega vildi til að það var í fullkominni andsögn við það sem hafði komið fram í umræðum fyrr í Silfrinu þar sem voru þrír auðmenn sem eru talsmenn íslenskra fjármála- og auðmanna. Þeir fóru mikinn í því að mæra krónuna og vildu leggja allt í að hún væri nýtt áfram hér á landi.

Íslensku auðmennirnir vilja beita öllum brögðum til þess að komast hjá því að ræða þær hörmungar efnahagsstjórn þeirra flokka leiddi yfir okkur, þar var krónan í aðalhlutverki. Hún hefur líka verið í aðalhlutverki þegar hluti launa og eigna hefur verið yfirfærður í gegnum gengisfellingu til þeirra hagsmuna aðila sem þeir standa vörð fyrir. Við hefðum ekki farið svona illa út úr Hruninu ef við hefðum verið með alvöru gjaldmiðil. Málið snýst um þetta en það forðast þeir að ræða.

Auðmennirnir gengisfelldu rök sín með því að nota Grikkland sem rök fyrir ómögulegri evru, allir vita (einnig þeir) að það er spilling og slök efnahagsstjórn sem hefur komið Grikklandi í þá stöðu sem landið er í. Og svo vísuðu íslensku auðmennirnir (sem eru reyndar einnig þingmenn í aukastarfi) í Krugmann máli sínu til stuðnings, enn önnur gengisfelling á málflutning þeirra.

Krugmann talar um heppni íslendingar yfir að hafa krónuna, en sleppir því hversu margir hafa flúið land, þeir eru ekki á atvinnuleysiskrá. (þar á meðal eru t.d. um 1.000 rafiðnaðarmenn, eða um 20% af starfandi rafiðnaðarmönnum hér á landi) Það hafa tapast um 15.000 störf, það verður að taka það inn í dæmið ef menn ætla að fara út í raunsæjan samanburð, einnig þann fjölda sem fór af vinnumarkaði í skóla við Hrun og svo hversu margir hafa kosið að vera áfram í skóla frekar en að koma út á vinnumarkað eða heim að loknu námu erlendis.

Í rannsóknum á íslenskum vinnumarkaði á undanförnum árum kemur víða fram að íslenskur vinnumarkaður sé í mörgu töluvert öðruvísi en aðrir, sérstaklega með tillit til þess hversu lengi íslendingar eru á vinnumarkaði og þar kemur fram að með þeim meðtöldum ásamt þeim sem fara í nám þegar að sverfir á íslenskum vinnumarkaði, samsvari allt að 10% af vinnuaflinu, þetta rugli umtalsvert allar rannsóknir og samanburð. Þess vegna er ekki stafkrók að marka það sem Krugmann og aðrir eru að rugla um að við höfum það svo svakalega gott hér á Íslandi eftir Hrun.

Þar til viðbótar verður að taka mið af því að við höfum krónuna og hún hefur verið nýtt til þess að halda atvinnustigi háu, á kostnað launamanna með því að fella laun reglulega og auka þar með hagnað fyrirtækja þá sérstaklega útflutningsfyrirtækjanna. Frá Hruni höfum við búið við takmarkalausan hagnað útflutningsfyrirtækja, en þau hækka ekki laun sinna starfsmanna, en til þess að friðþægja samviskuna er bónusum skenkt til starfsmanna. Þetta er sjónarmið sem fellur auðmönnum vel í geð.

Jón Daníelsson, hagfræðingur í London hefur fjallað um skrif Pauls Krugman um Ísland og segir að Krugmann eigi skilið að fá falleinkunn fyrir það sem hann segir. Ástæða er að minna lesendur á að íslensk heimili töpuðu flest öllum sínum eignum við hrun krónunnar og mörg sitja í algjörlega vonlausri skuldastöðu.

Í þessu sambandi ætla ég að koma aðeins inn á orð sem féllu í öðru viðtali í Silfrinu, og eru endurtekið ítrekuð í Silfrinu ef ekki af gestum þá af Agli sjálfum um að verkalýðsforystan standi gegn hagsmunum launamanna með því að samþykkja að úr lífeyrissjóðunum verði teknir 235 milljarðar til þess að greiða niður skuldir fólks, í langfæstum tilfellum sjóðsfélaga.

Því var haldið fram að þar væru einhverjir örfáir einstaklingar farnir að taka sér völd sem þeir hafi ekki. Í fyrsta lagi hafa engir heimild til þess að taka sparifé launamanna í lífeyrissjóðum til þess að nýta það í eitthvað annað en að greiða út lífeyri eða örorkubætur, jafnvel þó þeir séu breiðir verkalýðsforingjar. Það er stjórnarskrárbrot og reyndar líka lögbrot.

Einnig má minna á það var gerð könnun meðal félagsmanna í stéttarfélögum og þar kom fram að um 86% höfnuðu að fjármagn úr lífeyrissjóðunum yrði nýtt til þessara hluta, en jafnmargir vildu að framkvæmd væri skuldaleiðrétting á skuldastöðu heimilanna. Hér vísa ég m.a. til hinna 10 aðildarfélaga innan RSÍ. Þannig að þeir verkalýðsforingjar sem kynntu þessa afstöðu voru að fara eftir vilja félagsmanna, ekki ganga gegn þeim.

Mesti hluti ávöxtunar lífeyrisjóðanna hefur komið í gegnum hagnað á hlutabréfum og skuldabréfum, enda minnihluti eigna lífeyriskerfisins bundið í verðbundnum bréfum. Á móti eru allar útgreiðslur bóta eru verðtryggðar. Allur rekstrarvandi lífeyrissjóðanna myndi hverfa ef verðtrygging yrði lögð niður, en lífeyrisþegar fengju umtalsvert skertan lífeyri, verið væri að rukka núverandi lífeyrisþega fyrir eyðslu annarra.

Auk framangreinds hefur komið fram að hópur sjóðsfélaga var búinn að lýsa því yfir að þeir myndu fá sér lögmenn um leið og ein króna væri tekinn og henni úthlutað án endurgreiðslukrafna. Sjóðsfélagar ætluðu að stefna stjórnum viðkomandi sjóða ef þetta yrði gert, en þær eru ábyrgar fyrir því að fara að settum lögum. Það fyrst þá sem ríkisstjórnin áttaði sig á því að þessi leið var ófær,. En því hefur verið að venju snúið upp í einhverjar ógeðfelldar ásakanir gegn starfmönnum stéttarfélaganna. Það gengur líka í spjallþáttunum og það þjónar hagsmunum fjárglæframannanna sem gera allt til þess að beina sjónum almennings frá eigin gjörðum og beita sínu fólki í fjölmiðlunum til óspart til þess.

Afleiðingar þeirrar efnahagsstefnu sem hefur verið fylgt á Íslandi frá lýðveldisstofnun hefur valdið um 25% meðalverðbólgu á ári. Til þess að ná álíka kaupmætti höfum við orðið að skila að jafnaði um 10 klst. lengri vinnuviku en tíðkast í nágrannalöndum okkar.

25% verðbólga samsvarar færslu fjórðungs tekna frá launþegum og sparifjáreigendum til atvinnurekenda. Íslenskir launamenn hafa því eytt 3 mánuðum á ári í 60 ár í að niðurgreiða íslenskt atvinnulíf. Þriðjungi starfsævinnar eyðum við í að greiða herkostnað af efnahagsstjórn stjórnmálamanna, sem byggist á því að tryggja lágan launakostnað með verðbólgu og reglulegum gengisfellingum. Þetta er það sem auðmenn vilja halda í og talsmenn þeirra á Alþingi ganga hart fram í því að viðhalda þessum forréttindum.

Manni verður flökurt þegar maður heyrir tvískinnung þessara manna og svo maður tali nú ekki um þegar þeir fara að klæða það í búning þess að þeir séu að ganga erinda launamanna og heimilanna í landinu.

laugardagur, 22. október 2011

Vaxandi tungl



Lýður Árnason læknir, lífskúnstner og kollegi minn úr Stjórnlagaráði bauð í gærkvöldi á frumsýningu á nýrri mynd sinni Vaxandi tungl í Bæjarbíói.

Lýður sagði í innsetningu sinni að hér væri á ferð rammvestfirsk mynd, vestfirskur harðfiskur. Hún var tekin upp á Suðureyri á síðasta ári. Ég þekki ekki alla leikarana, en mér skilst að þetta sé allt saman fólk af Vestfjörðum. Í aðalhlutverkum eru Pálmi Gestsson og Elva Ósk Ólafsdóttir. Auk þess Elfar Logi Hannesson, Ársæll Níelsson og hin fransk-danska-súgfirska Rakel Valdimarsdóttir. Einnig er ungt fólk í stórum hlutverkum.

Myndin hefst á útför móðir tveggja bræðra og síðan tekur við deila þeirra um móðurarf og móðirin fylgir okkur alla myndina í bakgrunninum. Annar bróðurinn er rammvestfirskur karakter í fiskvinnslu og vill vera þar áfram, á meðan eiginkona og elstu börnin vilja suður. Hinn bróðurinn er fluttur suður og er í braski og í að manni finnst frekar ólánlegu sambandi og parið vill eignast barn en hefur ekki tekist.

Þráður myndarinnar er mjög góður og úrvinnsla fín, en ferlið stundum dáldið hægt. Stundum erfitt að greina hvað sumir ungu leikarana voru að segja, og í nokkrum senum hefði mátt leggja aðeins meiri vinnu í æfingu leikarana. Geysilega fallegar náttúrusenur og gott yfirlit um lífið í vestfirskum þorpum, reyndar frekar íslenskum þorpum.

Myndin er af framleidd af kvikmyndafélaginu Í einni sæng, Íslandssögu á Suðureyri og Klofnings. Helsti styrktaraðili myndarinnar er Menningarráð Vestfjarða. Leikstjóri er Lýður Árnason.

Lýður sagði okkur að kvikmyndahúsin hefðu ekki haft áhuga á myndinni, vegna þess að enginn var drepinn og ekkert ógeð í myndinni. Það er rétt hún lýsir mannlegum samskiptum og vanda sem við þekkjum úr lífinu.

Sjónvarpinu leist aftur á móti vel á myndina og hún verður jólamynd þess í ár. Á það sannarlega skilið að mínu mati.

fimmtudagur, 20. október 2011

Hvað eigum við að gera? (framhald af Tjöldin fallin)

Pistillin gær virðist hafa farið mjög víða og ég hef fengið mörg bréf og fyrirspurnir.

Í mörgum þeirra var með beinum eða óbeinum hætti beint til mín : "Og hvað viltu þú gera í málunum Guðmundur?"

Svar :
Í dag eru um 15 þús. íslendingar skráðir atvinnulausir, auk þess að um 4 – 5.000 launamenn hafa flutt erlendis. Inn á íslenskan vinnumarkað koma að meðaltali 2.500 árlega umfram þá sem hverfa af vinnumarkaðnum við eðlilegar aðstæður.

Ef við ætlum að koma atvinnuleysi niður fyrir 3% á næstu 4 árum þurfum við að skapa um 22.000 ný störf á þeim tíma. Það þýðir að við þurfum hagvöxt af stærðargráðunni 4.5 - 5% sem er gríðarlega hátt og næstum óframkvæmanlegt nema með hagkerfið í 39 stiga hita og stökkvum upp í 42 stig.

Það vantar ekki fólk í fiskvinnslu eða landbúnað, enda launakjör þar svo slök þar að íslendingar fara frekar erlendis eða eru á atvinnuleysiskrá. Þar hefur ekki orðið nein fjölgun á undanförnum árum, frekar hið gagnstæða og er ekkert útlit fyrir fjölgun í þessum starfsgeirum. Öll fjölgun hefur verið í störfum tengdum tæknistörfum og þjónustu.

Íslendingar verða að að leggja það niður fyrir sér hvernig þeir ætli að nýta þá takmörkuðu orku sem eftir er að virkja. Ef menn vilja byggja álver verða menn einfaldlega að horfast í augu við það að við höfum orku fyrir um 2 ný álver, sé litið til þeirrar orku sem rammaáætlun gerir ráð fyrir og almennrar orkuaukningar. Við værum með því að útiloka mjög marga aðra kosti.

Að teknu tilliti til þessara þátta hljótum við að skoða hvernig getum við nýtt þá orku sem við eigum eftir til þess að skapa sem flest störf og hvaða umhverfi við verðum að skapa til þess að við getum náð þeim markmiðum.

Við getum vitanlega selt alla orkuna á stuttum tíma í stóriðju og svo um streng erlendis og haft af því tekjur prýðilegar tekjur eins og forstjóri Landsvirkjunar hefur margsinnis bent á. En þá erum við í raun að staðfesta að við reiknum með að ekki verði mikil fjölgun á vinnumarkaði hér á landi, fjölgunin fari eitthvað annað og leiti sér að störfum. Þar er svo sem valkostur, en við verðum þá að gera það með opnum augum og viðurkenna að okkur sé ljóst hvert sé stefnt.

Ég er búinn skrifa mikið um þetta, enda tengt því sem ég hef starfað við nánast allan minn starfsferil, fyrst sem starfsmaður í tæpan áratug við hátæknistörf, síðan áratug við kennslu í notkun og viðhald hátæknibúnaðs og svo 17 ár sem forystumaður í samtökum rafiðnaðarmanna hér á landi, auk þess að hafa verið formaður samtaka norrænna rafiðnaðarmanna í 6 ár. En þeir eru um 150. þúsund.

Hér eru nokkrar af þessum fjölmörgu pistlum mínum :
Hér

Hér

Hér

miðvikudagur, 19. október 2011

Tjöldin eru fallin

Öll þekkjum við vinnubrögð stjórnmálamanna í kosningabaráttu. Lofað er aukinni atvinnu og talinn upp verkefni sem viðkomandi ætli sér að hrinda í framkvæmd nái hann inn á þing. Stjórnmálamenn hafa undanfarna áratugi talað eins og það sé ótakmörkuð orka á Íslandi.

Í þessu sambandi má minna á málflutning stjórnarflokkanna eftir aldamót og þeir eru að endurtaka þessa dagana. Lofað var Kárahnjúkavirkjun og stóru álveri fyrir austan, bara sú framkvæmd velgdi hagkerfið töluvert. Þar til viðbótar var bætt í með 100% fasteignalánum og á örskömmum tíma margfaldaðist byggingariðnaðurinn og hagkerfið hrundi með skelfilegum afleiðingum fyrir næstum alla landsmenn.

Auk þess var byrjað á að reisa stóra tónleikahöll, alþjóðlega viðskiptamiðstöð og risahótel við höfnina í Reykjavík, samfara því að staðið var að margföldum bankakerfisins. Á sama tíma átti að byggja nýtt hátæknisjúkrahús. Sundabraut, Vaðlaheiðagöng og tvöfalda Hvalfjarðargöng. Þar til viðbótar var lofað tveim nýjum stórum álverum í Helguvík og Bakka. Stækka álverið í Straumsvík og fyrirheit um að skoða álver í Þorlákshöfn. Jafnvel að stækka álverið á Reyðarfirði, þar sem afgangsorka væri í Kárahnjúkum.

Á dagskránni voru einnig nokkur risavaxin gagnaver og nokkrar verksmiðjur víðsvegar um landið. Koltrefjaverksmiðja, kísilverksmiðjur og þannig mætti lengi telja. Margir bentu á að ef af þessu yrði væri búið að virkja allt sem virkjanlegt væri á Íslandi með núverandi tækni. Stjórnmálamenn fundu svar við þessu þeir lofuðu ómældri orku með djúpborunum. Tækni sem er óþekkt í dag.

Á sama tíma er rætt um að innan nokkurra ára verði búið að rafvæða drjúgan hluta bílaflotans (þarf orku sem samsvarar afli Kárahnjúkavirkjunar) og spara með því gríðarlega fjárhæðir í erlendum gjaldeyri. Á sama tíma er rætt um að leggja sæstreng til Evrópu og selja orku þangað.

Vinnubrögð af þessu tagi eru í raun skemmdarverk, því endurtekið er verið að beina athyglinni að einhverju óraunverulegu, en viðráðanleg verkefni og undirbúningur þeirra komast ekki í umræðu.

Nú standa formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar í pontu Alþingis að segja "að tjöldin séu fallinn og verið sé svíkja loforð sem landsmönnum hafi verið gefinn."

Hverjir voru það sem gáfu þessi loforð? Hlustandi á þennan málflutning þá rennur upp fyrir manni hvers vegna varð kerfishrun undir stjórn þessara manna.

Ef reisa á samkeppnishæft álver þarf það um 450 – 500 MW eins og kunnugt er. Nú er búið að lofa um það bil 100 – 150 MW til nokkurra verkefna á NA-landi Lítum á hvaða möguleikar eru til framleiðslu orku á þessu svæði.

Skjálfandafljót og Arnardalur Til eru drög að virkjunum í Skjálfandafljóti. Önnur er 70 MW, hún er ofarlega í Bárðardal og kennd við Fljótshnjúk og yrði við Aldeyjarfoss.

Neðar eru Hrafnbjargavirkjanir 100 MW við samnefnda fossa.

Einnig eru til áform um risavirkjun í Jökulsá á Fjöllum með því að veita henni til Kreppu þar sem styst er á milli ánna sunnan Þorlákslindahryggjar. Þeim yrði síðan veitt austur fyrir hrygginn þar sem miðlunarlón yrði myndað með stíflu í Arnadalsá. Vatnið yrði síðan veitt um göng að stöðvarhúsi neðanjarðar og þaðan með frárennslisgöngum út í Jökulsá á Brú. Þar yrði lón og svo önnur göng undir Fljótsdalsheiði og stöðvarhús neðanjarðar með frárennsli í Lagarfljótið.

Þetta yrðu stórvirkjanir sem ekki yrðu mikið minni en Þjórsárvirkjanirnar (600MW). En það mun sjálfsagt vefjast fyrir mörgum að Dettifoss myndi minnka allverulega. Þessi virkjun hefur verið nefnd í sambandi við útflutning á orku um streng.

Gufuafl. Þessu til viðbótar eru áform um allmargar gufuaflsvirkjanir þar helst. Háganga 120 MW, Krafla 160 MW, Bjarnaflag 80 MW, Þeistareykir 120 MW, Gjástykki 40 MW. Hér er miðað við raunsæjar áætlanir og auk þess bent á að hvernig áætlanir um gufuaflsvirkjanir hafi hintað til staðist.

Sé litið til norðurlandanna þá er búið fyrir allmörgum árum að loka á frekari stórvirkjanir út frá náttúruverndarsjónarmiðum. Það sem eftir er að virkja t.d. í Noregi eru minni virkjanir þar sem bændur eru virkja árnar í löndum sínum. Hér á Íslandi nálgumst við sömu stöðu, erum þegar búinn að nýta um 1/3 af þeirri orku sem landsmenn munu samþykkja að verði virkjað.

Það eru ekki margir möguleikar á stórvirkjunum eftir, nema þá að fara á staði sem hætt er við að vekja heiftarleg viðbrögð almennings. Gullfoss er spennandi kostur og síðan mætti grafa skurð og göng undir Flúðir og veita Hvítanni í Þjórsá og stækka væntanlegar virkjanir í neðri hluta Þjórsár um helming.

Það er hægt að reisa fjölmargar smærri virkjanir víða um land, enda eru nokkrir íslenskir bændur þegar farnir að virkja heimaár sínar og margir eru komnir á undirbúningsstig.

sunnudagur, 16. október 2011

Lífeyrissjóðir mikilvægur hlekkur í hagkerfinu

Lífeyrisþegum fer fjölgandi í hlutfalli við virka launamenn á vinnumarkaði og það hlutfall á eftir að vaxa hraðar á næstu 15 árum þegar stóru eftirstríðsárgangarnir ná lífeyrisaldri. En þrátt fyrir þetta hafa greiðslur Tryggingastofnunar lækkað, sé miðað við verðlag 2005 er lækkunin 12%, enn eitt dæmið um h vernig stjórnmálamenn ganga á sparifé launamanna.

Um síðustu aldamót fóru út í hagkerfið um það bil jafnháar greiðslur frá lífeyrissjóðunum og frá almenna tryggingarkerfinu. Það sem af er þessari öld hafa lífeyrissjóðirnir verið að síga fram úr í útgreiðslum.

Þegar jöfnuður næst í lífeyriskerfið, það er þegar þeir sem byrjuðu að greiða inn hafa öðlast full réttindi eftir árið 2030, mun inneign sjóðsfélaga samsvara um 1,5 landsframleiðslu. Um síðustu aldamót var inneign sjóðsfélaga um 1 landsframleiðslu.

Almenna tryggingarkerfið væri ekki svipur hjá sjón ef lífeyrisjóðanna og sjúkrasjóðanna nyti ekki við, reyndar má bæta þar við mun umfangsmeira veikindadagakerfi sem er í íslensku kjarasamningunum. Í flestum nágrannalöndum okkar er það kerfi í gegnum skattkerfið og almenna tryggingarkerfið. Allt þetta samsvarar um það bil 15% tekjuskattshækkun ef velferðarkerfið sem íslenski vinnumarkaðurinn rekur væri lagt niður og fyrirkomulag þess fært í sama horf og það er í nágrannalöndum okkar.

Stjórnmálamenn hafa undanfarin áratug aukið tekjutengingar í bótakerfinu og lækkað frítekjumörkin, sem veldur því að láglaunafólk fær ekki krónu af inneign sinni lífeyrissjóð, stjórnmálamenn hafa breytt kerfinu þannig að fyrstu 70 þús. kr. sem greiddar eru úr lífeyrisjóðum rennur krónu fyrir krónu beint í ríkissjóð. Nú stíga stjórnmálamenn enn eitt skref í þessa átt og ætla að ná til sín séreignarsparnaðinum.

Framlag launamanna í lífeyrissjóði er hluti af endurgjaldi fyrir vinnuframlag. Það virðist vera sérstök ástæða að minna á að endurgjald fyrir vinnu er stjórnarskrárvarinn eign viðkomandi launamanns, þetta ætti að vera ritað skýrum stöfum á vinnuborð stjórnmálamanna.

Sé fylgst með því sem skrifað er um lífeyriskerfið virðast margir ekki gera sér grein fyrir mismun á gegnumstreymiskerfi og uppsöfnunarkerfi, en það tíðkast hér á landi og mörg lönd eru byrjuð að byggja upp samskonar kerfi. Líkja má uppsöfnunarkerfinu við lón fyrir ofan virkjun, sem síðan nýtist til þess tryggja jafnan rekstur virkjunarinnar (samfélagsins). Gegnumstreymiskerfi er aftur á móti eins og virkjun án lóns. Ef áin er vatnsmikil og jafnstreymi í henni gengur virkjunin vel og jafnvel flýtur fram hjá henni óntt afl. En ef bresta á þurrkatímar er virkjunin gagnslaus.

Í Hruninu fóru allar fjármálastofnanir sem stjórnmálamenn og háskólamenntaðir sérfræðingar stjórnuðu lóðbeint á hausinn. Seðlabankinn, Íbúðarlánasjóður allir bankarnir, sparisjóðir, eignarstýringasjóðir bankanna, sveitarfélögin, opinberir lífeyrissjóðir og þannig má lengi telja. Einu fjármálastofnanirnar sem komu standandi út úr þessu voru almennu lífeyrissjóðirnir og þeir eru eina hreyfigetan sem er til staðar til þess að komast upp úr táradalnum.

Ef þessi sparnaður væri ekki til staðar og hann nýttur til þess að byggja upp samfélagið og halda uppi framkvæmdum, hefði samfélagið fallið. Á undaförnum árum hefði heldur ekki verið í boði langtímalán til þess að tryggja eðlilega uppbyggingu í íbúðarkerfum landsmanna og skortur á þolinmóðum og öflugum fjárfestum á hlutabréfamarkaði.

Það verða alltaf þeir sem eru á vinnumarkaði sem halda samfélaginu gangandi. Þess vegna verður að nýta inneignir lífeyrissjóðanna til þess að halda atvinnulífinu gangandi. Með því að fjárfesta erlendis er verið að dreifa áhættunni að hluta til yfir á erlent atvinnulíf, mætti orða það þannig að fá fleiri til þess að standa undir því. Sé litið til framtíðar blasir einnig við að þegar lífeyriskerfið er farið að virka að fullu munu lífeyrisþegar verða drjúgir þátttakendur rekstri samfélagsins.

Eignir lífeyrissjóðanna voru eini bjarghringurinn sem var til á Íslandi við Hrun. Þá varð skyndilega stopp á allar erlent fjárstreymi til landsins. Menn verða að líta á þá staðreynd að það sem myndaðist eftir 2005 fram að Hruni var innistæðulaus froða, sem hvarf. Sú inneign var í raun aldrei til, það er tilgangslaust að halda því fram að það sé tap, þessi inneign var ekki til staðar.

fimmtudagur, 13. október 2011

Ríkir lífeyrissjóðir

Umræðan um lífeyrissjóðina hefur oft verið einkennileg og einkennst af þekkingarskorti og skammsýni. Því er haldið fram að sáralítið sé greitt út til lífeyrisþega af inngreiðslum til sjóðsfélaga og lífeyrissjóðir séu reknir með ofboðslegum hagnaði. Sú niðurstaða er fundin út með því að benda á hvað renni til lífeyrissjóðanna og hvað þeir greiða út í dag. Þar sé töluverður mismunur og hvort þarna sé ekki fundið fé til þess að greiða niður rekstarkostnað samfélagsins og t.d. upp skuldir fólks.

En ætíð er það svo að málflutning af þessu tagi er slegið upp með stórum fyrirsögnum af fréttamönnum, og ætíð er það svo að starfsmönnum og stjórnarmönnum er sendur tónninno jafnvel talað um einhvern ofsafenginn gróða í lífeyrissjóðunum. Þetta er svo yfirgengilega barnalegt og einkennist af svo mikilli rætni. Fréttamenn hljóta að vita betur, og maður spyr hverra hagsmuna eru þeir að gæta?

Stóru barnasprengjuárgangarnir sem komu í heiminn á árunum eftir seinna stríð fram til ársins 1960, eru í dag safna upp sínum lífeyri og munu skella á lífeyriskerfinu af mjög vaxandi þunga upp úr 2020 og fullum þunga eftir árið 2031. Fram að þeim tíma fer vitanlega fram mikil uppsöfnun í sjóðunum, en eftir þann tíma munu útgreiðslur úr sjóðunum verða meiri en innstreymi og þá byrja sjóðirnir að ganga á eignir sínar, eða með öðrum orðum eigendur sparifjárins fara að taka út lífeyrissparnað.

Ástæða er að benda á að ef þessi uppsöfnun fer ekki fram, eða menn láta undan freistingum og taka til við að nýta það sparifé sé liggur inn á reikningum lífeyrissjóðanna til annarra hluta en að greiða út lífeyri og örorkubætur, mun það einfaldlega leiða til þess að eftirlaunavandinn mun lenda á skattgreiðendum framtíðarinnar í gegnum almenna tryggingarkerfið.

Í því sambandi má t.d. benda á þann vanda sem Grikkir, Ítalir og Spánverjar eru að glíma við í dag, með því að hafa vísað lífeyrisvandanum til framtíðarinnar það er að segja til barna okkar og barnabarna. Margir spyrja erum við ekki nú þegar búinn að framvísa nægu af þeim vanda fram í tímann. Undanfarinn ár höfum við núlifandi íslendingar komið okkur fyrir í því vafasama sæti að vera mestu eyðsluklær jarðarinnar og þær frekustu til fjárins.

Reyndar getum við litið okkur nær og litið á þá stöðu sem stjórnmálamenn eru með fyrirhyggjuleysi sínu búnir að koma opinberu lífeyrissjóðunum í, þá vantar í dag um 500 milljarða til þess að eiga fyrir skuldbindingum sínum og stefnir í enn hærri fjárhæði verði ekkert að gert, eins og forsvarsmenn stéttarfélaganna á almennum markaði hafa ítrekað bent á.

Þar má t.d. benda á að það vantar í Eftirlaunasjóði sveitarfélaganna um 60 – 95% upp á innistæður svo þeir eigi fyrir skuldbindingum, þar standa verst lífeyrissjóðir Vestmannaeyjabæjar og Akraneskaupstaðar.

Þessi staða er þrátt fyrir að í dag er verið að greiða um 4% hærri iðgjöld í þessa sjóði en almennu sjóðina og Fjármálaeftirlitið krefst þess að það verði hækkað um 4% til viðbótar eða uppundir 20% iðgjald. Þeir fjármunir verða vitanlega sóttir í hærri sköttum, því stjórnmálamenn hafa sett annarskonar lög yfir þessa sjóði, þeir þurfa ekki að vera sjálfbærir eins og almennu sjóðirnir ávöxtum og rekstrarkostnaður þar skipti engu máli.

Í almennu lífeyrissjóðunum er staðan hins vegar sú að þeir sumir hverjir eiga fyrir sínum skuldbindingum, en flestir þeirra þurfa að bæta eignastöðu um 5% stöðu, en allar líkur á að það takist að ná jafnvægi innan nokkurra ára takist að koma vinnumarkaðnum í gang.

Þessir sjóðir búa ekki við sömu forréttindi og stjórnmálamenn hafa sett opinberu sjóðunum, almennu sjóðirnir verða að sækja það sem upp á vantar ekkert annað en til sinna sjóðsfélaga með því að skerða réttindi. Ef við látum undan freistingunni og gerum það sparifé sem er í almennu lífeyrissjóðum upptækt og nýtum það núna þá blasir við að það þarf að hækka tekjuskatta innan 10 ára um 10%.

Lífeyrissjóður er uppsöfnun sparifjár þeirra sjóðsfélaga sem greitt hafa í viðkomandi sjóð. Hluti inngreiðslu kemur beint frá sjóðsfélaga og hluti frá vinnuveitanda hans, en öll upphæðin er eign sjóðsfélagans. Hún er hluti lögbundinna launa hans. Lífeyrissjóður á engar eignir utan skrifstofuáhalda og þess húsnæðis sem starfsemi hans fer fram í.

Lífeyrissjóðir starfa undir mjög ströngum lögum og eftirliti opinberra stofnana. Landslög veita lífeyrissjóðum einungis heimild til þess að greiða viðkomandi sjóðsfélögum þá innistæðu sem þeir eiga inni í sínum lífeyrissjóð, þegar þeir fara á ellilífeyri eða verða fyrir því óláni að fara á örorku. Lífeyrissjóðirnir greiða einnig makalífeyri.

Í skoðanakönnunum sem hafa verið gerðar meðal sjóðsfélaga almennu sjóðanna hefur komið að tæp 90% sjóðsfélaga hafnar því að sparifé þeirra verði nýtt til þess að greiða upp skuldir annarra. Þeir hafa réttilega bent á að með því væru verið að skapa gríðarlegt ójafnræði meðal launamanna. Þeir sem vinna á almennum markaði búa við skerðingar í sínum sjóðum og verða þar til viðbótar að greiða hærri skatta til þess að greiða upp halla opinberi sjóðanna. Sjóðsfélagar þeirra sjóða eiga ekki á hættu að þeirra réttindi verið skert.

Mikill meirihluti sjóðsfélaganna vilja að tekið verði á skuldavanda heimilanna, en þann reikning á ekki einungis að senda til sjóðsfélaga almennu lífeyrissjóðanna. Einnig hefur verið bent á að þeir sem eru með háværustu kröfurnar og bera mestan ásakanir á almennu lífeyrissjóðunum eru áberandi opinberir starfsmenn og verktakar sem greiða lítið til almennu íslensku sjóðanna.

þriðjudagur, 11. október 2011

Launamunur kynjanna

Umræða um launamun kynjanna er ofarlega á baugi og eins og svo oft hér er hún komin ofan í hjólför og einkennis af endurtekningu reistri á lítt könnuðum rökum, eins og Guðmundur Andri fór svo vel yfir í Fréttablaðinu í gær, sjá hér

Ég ætla hér á eftir að kafa aðeins í þetta umræðuefni. Svona að fenginni reynslu úr aths. dálkunum ætla ég að byrja á því að taka það fram að ég er ekki á móti jöfnun launa kynjanna.

Launamunur rafkvenna og rafkarla
Í árlegum launakönnunum sem framkvæmdar eru á vinnumarkaði rafiðnaðarmanna eru rafkonur með um 11% hærri regluleg laun en rafkarlar, sé litið til sama vinnutíma. Sjá hér .

Helsta ástæða þessa er að rafkonur eru hlutfallslega fleiri á svokölluðum pakkalaunum en rafkarlar. (Pakkalaun er launafyrirkomulag sem mikið er notað innan rafiðnaðargeirans, það er samið um föst laun fyrir ákveðin verkefni og inn pakka en allt sett inn, truflunarálag, ferðatíma og ferðapeningar og föst yfirvinna).

Rafkonur sækjast frekar eftir þessu launafyrirkomulega en karlar, sakir þess að þær vilja síður vinna óreglulega yfirvinnu. Það gera fleiri karlar aftur á móti vegna meiri tekjumöguleika. Pakkalaun standa reyndar mörgum körlum ekki til boða vegna þess að fyrirtækið gerir kröfur um að þeir vinni fyrirvaralaust lengri vinnutíma, vegna aðstæðna sem skyndilega koma upp.

Nokkur séríslensk einkenni.
Mun stærra hlutfall launamanna á íslenskum vinnumarkaði en þekkist í nágrannalöndum, eru á launum sem liggja töluvert fyrir ofan umsaminn lágmarkslaun. Fyrir því er ein meginástæða verðbólga og gengisfall krónunnar. Í áratugi hefur íslenskum launamönnum verið gert að búa við það ástand að kjarasamningar haldi ekki út samningstímann, sökum þess að stjórnmálamenn hafa reglulega fellt krónuna til þess að leiðrétta efnahagsleg mistök og hafa framkvæmt reglulega gríðarlega eignarupptöku hjá launamönnum og fært hana til útflutningsfyrirtækjanna og þeirra sem voru skuldlausir.

Þetta hefur síðan valdið því að reglulega fóru fram launaleiðréttingar á vinnustöðunum á miðju samningstímabili. Það ásamt góðu atvinnuástandi leiddi til þess að árum saman lögðu samningamenn áherslu á að launahækkanir skiluðu sér inn í öll laun. Afleiðing þessa varð vitanlega að lágmarkslaun drógust sífellt meir aftur úr meðalraunlaunum. Samningamenn fyrirtækjanna gerðu lítið með kröfur stéttarfélaganna um að taxtar væri færðir að raunlaunum og bentu réttilega á að fáir voru á lágmarkstöxtum.

Íslenskir fulltrúar þáverandi ríkisstjórna kröfðust þess á fundum innan EES að kjarasamninga heimalands giltu, en því var svarað af hálfu leiðtoga landa sem ekki voru um of þjökuð af nýfrjálshyggju, að það gæti ekki leitt til annars en að laun inna EES tækju hraðlest til lægstu kjara. Nálgun íslenskra stjórnmálamanna að vinnumarkaði og þeim kjörum sem þar gilda hefur alltaf verið til mikillar bölvunar fyrir launamenn.

Upp úr síðustu aldamótum skapast skyndilega nýtt ástand á íslenskum vinnumarkaði. 15 þús. erlendir launamenn voru fluttir til landsins á skömmum tíma, og voru á tímabili um 10% af starfandi launamönnum á Íslandi. Þeir voru annað hvort á launum sem viðgengust í heimalandi eða lægstu töxtum sem þekktust í gildandi kjarasamningum.

Atvinnurekendur sem voru með íslendinga í vinnu á venjulegum launum voru skyndilega í vonlausri samkeppnisstöðu. Þeir stormuðu upp á skrifstofur stéttarfélaganna og kröfðust þess að þau sæju til þess að þetta væri leiðrétt og stéttarfélögin gengju í skrokk á þeim fyrirtækjum sem nýttu sér láglaunafólk til þess að niðurbjóða verkin.

Í þessu sambandi er ástæða að benda á nýlega umfjöllun um íslensk fyrirtæki á norskum vinnumarkaði í dag, sem vilja greiða íslensk laun í norsku launaumhverfi!!

Samningamenn stéttarfélaganna héldu nú á nýju og beittu vopni í Karphúsinu og atvinnurekendur fóru að hlusta á kröfur stéttarfélaganna um að færa taxta að raunlaunum. Afleiðing þessa birtist t.d. í því að lægstu taxtar Rafiðnaðarsambandsins hafa hækkað frá aldamótum til dagsins í dag um 50% umfram umsamdar lágmarkslaunahækkanir. Þessar sérstöku hækkanir ullu sáralitlum launakostnaðarauka, vegna þess að það voru sárafáir einstaklingar á lægstu töxtunum.

Launajöfnun kynjanna
Nú er gerð krafa um sérstakt átak í jöfnun launa kynjanna. Þessi krafa getur leitt til þess að fyrirtækin telji sig ekki geta leyst þessar deilur öðruvísi en að allir fari á umsamda taxta, eins og reyndar tíðkast víða erlendis. Núverandi fyrirkomulag hefur reyndar verið lýst þannig í flestum ef ekki öllum skýrslum um íslenskan vinnumarkað að þetta geri hann mun sveigjanlegri en aðra vinnumarkaði.

Um síðustu aldamót var um 60% munur á umsömdum lágmarkstöxtum rafiðnaðarmanna og meðalraunlaunum. Um síðustu áramót hafði þessi munur lækkað umtalsvert eða um helming og var kominn í um 35%. Þar endurspeglast þessi 50% umsamda sérhækkun lágmarkstaxta frá aldamótum, sem getið er um hér ofar.

Þetta segir okkur að ef laun rafiðnaðarmanna verða í auknum mæli færð yfir á umsaminn lágmarkslaun þá blasi við rafiðnaðarmönnum allt að 30% launalækkun. Það gerist ekki bara hjá körlum heldur einnig konum, en mesta launafallið verður vitanlega í heildarheimilistekjum.

Niðurstaða
Ef vinnumarkaðurinn á að ná fram jöfnun launa kynjanna, þarf að byrja á því að færa umsaminn lágmarkslaun að raunlaunum, þá fyrst verður hægt að taka á þessum vanda. Og að lokum ef það á síðan að tryggja kaupmátt þeirra samninga er það ekki gert nema með því að taka upp gjaldmiðil, sem heldur þokkalega sínu raungildi út samningstímann hverju sinni.

Einnig er ástæða til þess að benda á sé litið til þeirra gagna sem við höfum unnið með í Karphúsinu að allt sem gerðist í launaskriði árin 2005 til október 2008 var byggt á froðu sem varð til við takmarkalausan innflutning á erlendu lánsfjármagni. Við gerð síðustu kjarasamninga var talið raunsætt að ná þeim kaupmætti sem var 2005 árið 2012- 13. Í dag má frekar reikna með að það gæti orðið 2013 – 14.

mánudagur, 10. október 2011

Bændasamtökin og ESB

Í könnunarviðræðum þar sem draga á fram hvað Íslandi standi til boða vilji landsmenn ganga í sambandið. 2/3 landsmanna vilja ljúka þessum viðræðum og fá að taka afstöðu til niðurstöðunnar. Í vinnunefndum eru allmargir aðilar, þar á meðal nokkir frá samtökum launamanna og er undirritaður í einum þessara vinnuhópa.

Við ESB blasir sá pólitíski vandi við að Bændasamtök Íslands og ráðherra landbúnaðarmála hafa verið samtaka í því að draga varnalínur sem stöðva frekari framvindu í vinnu nefndanna, auk þess að ráðherra hefur staðið gegn því að heimila þá vinnu sem þarf til þess að viðræður geti verið með eðlilegum hætti.

Þessir aðilar hafa sett fram þær kröfur að viðhalda tollvernd á innfluttum landbúnaðarafurðum við aðild Íslands að ESB, auk þess að viðhalda öllum styrkjum sem eru í dag og fá til viðbótar þá styrki sem í boði eru frá ESB. Öllum sem þekkja til aðildarviðræðna nýrra ríkja vita að þessu krafa er óraunhæf. Fram hefur komið vilji hjá allmörgum nefndarmanna frá Íslandi að fara hina svokölluðu finnsku leið, það er að heimild verði til þess að íslenskir bændur geti haldið öllum innlendum styrkjum og ákvarðanatöku um þá.

Hún er mörgum aftur á móti umhugsunarverð afstaða Bændasamtakanna til samningaviðræðnanna. Samtökin gera kröfu um gagnsæ vinnubrögð og saka aðila um að vinna bak við tjöldin. Hvergi hefur verið staðfest að þetta eigi við rök að styðjast. Því er haldið fram af þessum aðilum að áherslumál ESB séu ekki á hreinu.

Þetta stenst engan veginn, það liggur mjög skýrt fyrir hver afstaða ESB sé og um hvað þurfi að semja. Ísland þarf að setja fram skýra áætlun um hvernig breyta eigi regluverki hér á landi um beingreiðslur og tryggja að stofnanir séu fyrir hendi til þess að sjá um stjórnsýslu og framkvæmdir. Gerðar hafa verið aths. að Bændasamtökin sjálf sjái um þá gagngrunna og eftirlitsstofnanir sem nýttir eru til þess að ákvarða styrki og fylgjast með nýtingu þeirra.

Ísland er á flestum sviðum búið fyrir löngu að uppfylla öll lágmarksskilyrði fyrir inngöngu í ESB og á sumum sviðum stöndum við framar en mörg ESB ríki. 60% allra viðskipta íslenskra fyrirtækja er við ESB svæðið og íslensk fyrirtæki hafa mörg hver komið sér upp dótturfyrirtækjum innan ESB, sum hafa flutt aðalskrifstofur sínar þangað.

ESB markaðurinn er okkar mikilvægasti viðskiptavinur, sama hvort okkur líkar það betur eða verr. Það er búið að vera frjálst flæði vinnuafls innan ESB og EES svæðisins í nokkra áratugi, sama hvort okkur líkar það betur eða verr. Mikill fjöldi íslendinga hefur nýtt sér það. Sama á við um íslensk fyrirtæki. Íslenskir námsmenn njóta margskonar aðstoðar innan ESB svæðisins. ESB styrkir íslenskt mennta- og rannsóknarkerfi um 2 milljarða á ári hverju.

Í íslenskum verksmiðjum innan ESB vinna þúsundir launamanna, líklega á annan tug þúsunda. Íslendingarnir senda síðan einungis heim þann hluta erlends gjaldeyris sem starfsemin gefur af sér, sem dugar til þess að greiða kostnað hér heima. Allt annað verður eftir úti. Þetta er afleiðing þess að við erum með krónuna sem kallar á vernd í skjóli gjaldeyrishafta. Ef við flyttum þessi störf heim myndi allur arður myndi skila sér inn í íslenskt samfélag. Hér um að ræða nokkur þúsund störf sem öll gætu verið góð undirstaða í öflugri byggðaþróun.

Við verðum að skapa 20 þús. ný störf á næstu 2 árum og auka verðmætasköpun. Byggja þarf upp öflugan vinnumarkað til þess að vel menntað fólk sækist eftir störfum á svæðinu. Ef þetta tekst ekki blasir við langvarandi kyrrstaða með slökum kaupmætti og miklu atvinnuleysi. Það er vaxandi samkeppni eftir vel menntuðu og hæfu starfsfólki. Ísland ver milljörðum í að mennta upp unga fólkið í trausti þess að það komi inn á íslenskan vinnumarkað. Ef það gerist ekki er fjárhagslegur skaði fyrir íslenskt hagkerfi umtalsverður. Sú fjárfesting sem við höfum sett í unga fólkið skilar sér ekki inn í okkar hagkerfi.

sunnudagur, 9. október 2011

Svartur hundur prestsins

Fór í gærkvöldi í leikhúsið og sá frumraun Auðar Övu Ólafsdóttur á leiksviðinu. Verkið fjallar um fjölskyldu sem kemur saman í vöffluboð og þar kynnumst við samskiptum fjölskyldunnar. Verkið er einfalt, gerist allt á rauntíma í vöffluboðinu Leikmyndin og lýsing er einföld og fellur vel að sviðinu í Kassanum.

Kristbjörg Kjeld fer með aðalhlutverkið, hlutverk móðurinnar og fer á kostum. Stórglæsileg. Í upphafi virðist móðurinn vera elliær og hálfrugluð, en þegar líður á verkið kemur fram að hún er heilbrigðust allra.

Þegar maður kynnist systrunum eru þær snarruglaðar, týpur sem maður hittir oft í kaffiboðum.

Allir leikararnir skila sínu vel og eru í fínu formi húmorinn alltaf stutt undan og gaman að fylgjast með þeim. Margrét Vilhjálmsdóttir, Nanna Kristín Magnúsdóttir, Atli Rafn Sigurðarson og Baldur Trausti Hreinsson.

Já bara fínt laugardagskvöld. Auður á örugglega eftir að láta meir að sér kveða í leikhúsinu.

föstudagur, 7. október 2011

Táknmálið loks viðurkennt - frábærir tónleikar






Félag heyrnarlausra hélt í gærkvöldi glæsilega tónleika í Langholtskirkju til þess að fagna því að loks væri íslenska táknmálið orðið jafnrétthátt íslensku þjóðtungunni. Þessi barátta hófst á vegum félagsins árið 1980 og hefur staðið í 30 ár. Það eru ekki mörg ár síðan kennarar slógu á hendur heyrnarlausra og ætluðust til þess að heyrnarlausir lærðu að tala!!?? Þetta kom fram í setningu tónleikanna hjá Erni Árna, sem fór sannarlega á kostum í kynningum sínum milli laga.

Það er einhvernvegin svo ótrúlegt að þessi barátta hafi þurft að fara fram á Íslandi í dag. Þar rifjaðist upp fyrir mér örvhentum manninum þegar mamma, sem einnig var örvhent, sagði mér frá því að vinstri hendi hennar hafi verið bundin fyrir aftan bak í barnaskóla og hún knúin til þess að skrifa með hægri.

Á tónleikunum komu fram margir listamenn, þar á meðal Gunnar Þórðar, Hörður Torfa, Ellen og KK, Páll Rósinkranz, Egill Ólafss, Guðrún Gunnarsdóttir, kór Langholtskirkju og táknmálskórinn. Með öllu listafólkinu komu fram heyrnarlausir listamenn sem fluttu samstímis lagið á sínu tungumáli, táknmálinu. Þar voru í aðalhlutverkum Kolbrún Völkudóttir, Eyrún Ólafsdóttir, Hulda Halldórsdóttir, Elsa G. Björnsdóttir og Anna Jóna Lárusdóttir.

Allir fluttu söngvararnir velþekkt lög og gerðu það virkilega vel. Langholtskirkja er frábær tónleikastaður, með þeim bestu í bænum og húsið var smekkfullt. Ég verð að viðurkenna að flutningur heyrnarlausu listamannanna við hlið söngvaranna bókstaflega opnaði fyrir mér nýja hlið á lögunum og textunum, í orðsins fyllstu merkingu. Kom mér í opna skjöldu og ég var fullkomlega heillaður.

Ég skil ekkert í táknmáli, en við túlkun laga og texta sem maður þekkti svo vel, varð mér ljóst að táknmálið er a.m.k. jafnlitríkt og tungumálið, það kom svo vel fram í tjáningu og innlifum hvers hinna heyrnarlausu listamanna. Hún var tilfinningarík náði fram öllum boðskap textanna, maður lifði sig mun betur inn í texta og boðskap hvers lags.

Glæsilegir og vel heppnaðir tónleikar og sérstök ástæða til þess að óska heyrnarlausum til hamingju með sigur sinn á íhaldssömu samfélagi, ég biðst afsökunar fyrir hönd okkar hinna, innilega.

þriðjudagur, 4. október 2011

Fórnarlömb nýrrar stjórnarskrár

Stjórnarskrár eru til þess að styrkja opinbera ákvarðanatöku. Í frumvarpsdörgum Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá er markvisst og yfirvegað stefnt að því að yfirstíga þær mörgu hindranir sem valdahópar höfðu í skjóli flokksræðis komið sér upp í íslensku samfélagi. Markmiðið Stjórnlagaráðs var að bæta ákvarðanatökuferli með því að tryggja, og reyndar krefjast opinnar umræðu til þess að koma í veg fyrir að ákvarðanir séu teknar af fljótræði.

Íslensk stjórnmál hafa einkennst af hrifsun forréttinda til fárra, oftast hefur það verið gert undir þeim formerkjum að viðkomandi stillir sér upp sem fórnarlambi. Verið sé að beita þá ofbeldi, með þessu hefur flokksmaskínum tekist að ná ávinning til meintra fórnarlamda og tekist að afla sínum stjórnmálaflokk forréttindi og völd. Þessir hópar hafa eftir Hrunið lagt mjög hart að sér til þess að viðhalda sinni stöðu. Þetta birtist okkur daglega í greinum á netmiðlum, bókum og í spjallþáttum.

Engu virðist skipta þó stjórnmálaflokkar hafi glatað tiltrú almennings og blasi gríðarleg spilling sem þreifst í skjóli stjórnmálaflokkanna sem voru við völd. Í dag vitum við að ef þáverandi stjórnmálamenn hefðu gripið til aðgerða árið 2006 byggðri á þeirri þekkingu sem þeir höfðu, hefði verið hægt að koma í veg fyrir að Hrunið yrði íslenskum almenning margfalt dýrkeyptara en almenning í nágrannalöndum okkar. Hér er skipulega reynt að draga athyglina frá rökum og vitrænni umræðu. Hér sé verið að kenna valdhöfum um, þeir eru fórnarlömb ósanngjarna ásakanna.

Valdhafarnir vilja ekki missa spóninn úr sínum aski, þeir eru orðnir svo maður vitni til ummæla í varnarræðum þeirra, fórnarlömb sundurlausrar hjarðar frægra og þekktra einstaklinga, sem ætla að koma sjálfum sér að til þess að sinna mikilvægu löggjafarstarfi á hæstvirtu Alþingi með persónukjöri.

Til þess að gera sitt mál trúverðugara er mikið vísað til sögulegra þátt, reyndar er það oft gert með þeim hætti að snúa hlutunum á haus. Gunnar á Hlíðarenda elskaði land sitt og við eigum að fylgja í hans fótspor. Bjartur í Sumarhúsum er orðin að sjálfstæðishetju, maður sem var einþykkur hrotti og fór illa með alla sína nánustu, hugsaði aldrei um þarfir annarra en sjálfs sín.

Þessir menn hafa gleymt hvar lífsgildi þjóðarinnar liggja og hvar sjálfstæði þjóðarinnar er. Hanar galandi á tildurhaugum markaðshyggjunnar, búnir að glutra sjálfstæðinu á meðan hluti þjóðarinnar dansaði ofsafengnum dansi kringum gullkálfinn og ákallar hann sem hin sönnu lífsgildi.

Eftir Hrun kom fram skýr krafa um nýtt samfélag reist á nýrri stjórnarskrá. Skýr mörk yrðu sett milli framkvæmda og löggjafarvalds. Staða löggjafavaldsins yrði styrkt gagnvart ráðherraræðinu. Gegn þessu var unnið af stjórnmálaöflunum. Undirbúningsstarf sem unnið var í Þjóðfundi og í Stjórnlaganefnd var sá grundvöllur sem Stjórnalagaráð vann á. Það starf grundvallast á kröfunni um að hefta möguleika ríkisvaldsins til þess að hygla sérhagsmunum og ganga gegn mannréttindum.

Markmiðið var að ný Stjórnarskrá endurspegli þær reglur sem við viljum viðhafa við að leiða sameiginleg mál farsællega til lykta. Valdið sé hjá fólkinu og það geti leitt mál sín til lykta eftir reglum og leiðum sem það sjálft virðir. Fólkið geti vísað málum til þjóðaratkvæðis og sett ýtarleg ákvæði um eignarrétt þjóðarinnar yfir auðlindum.

mánudagur, 3. október 2011

Er útifundaformið dautt í Reykjavík?

Ég hef áður velt því fyrir mér hér á þessari síðu hvort búið sé að eyðileggja útifundaformið hér í Reykjavík. Á undanförnum misserum hafa verið áberandi á útifundum í Reykjavík fámennur hópur ungs fólks, sem hefur það markmið eitt að stofna til óláta og vera með líkamlegt ofbeldi. Þessu fólki tekst vitanlega að ná til sín athygli fjölmiðla og þá er tilganginum náð.

T.d. má benda á 1. maí hátíðarfundi stéttarfélaganna og svo fund Hagsmunasamtaka heimilanna nú um helgina. Fjöldi fólks sniðgengur þessa fundi, ekki sakir þess að það sé andstætt þeim boðskap sem kynntur er á fundinum. Á sama tíma eru stéttarfélögin með öll stærstu veitingahús borgarinnar á leigu, þar eru töluvert fleiri samankomnir og þar fer fram málefnaleg umræða. Það er langur fjallvegur á milli þeirra skoðana sem ég heyri á félagsfundum og svo þeirra sem koma fram í spjallþáttum og í bloggheimum.

Við starfsmenn stéttarfélaganna höfum stundum forvitnast hvað það sé sem ólátabelgirnir eru að mótmæla og fengið kostuleg svör reistum á órökstuddum klisjum. Tilgangslaust hefur verið reyna að ræða við þetta fólk, það eina sem fram kemur er fúkyrðaflaumur og öskur.

Þjóðmálaumræðan einkennist endurteknum upphrópunum og skrumi. Þrátt fyrir að sýnt sé fram með fullgildum rökum að margar af þessum klisjum standist ekki skoðun er haldið áfram að hrópa og okkur miðar ekkert. Margir hafa gagnrýnt umræðuhefðina sem sumir þingmenn hafa tileinkað sér og hafa ítrekað hertekið ræðustól alþingis og komið í veg fyrir umræðu.

En það má með sömu rökum spyrja hvort sumir þeirra sem kallaðir hafa verið fram sem ræðumenn á útifundunum séu eitthvað málefnalegri en þeir sem starfa innan veggja alþingis. Þar hafa stundum verið einstaklingar sem eru vel þekktir í samfélaginu af öðru en uppbyggilegri og málefnalegri nálgun og leggja oft á tíðum meira upp úr innistæðulausum fullyrðingum og persónulegu skítkasti.

Í máli þessara manna er þess oft krafist að starfsmenn stéttarfélaganna gangi þvert á meirihluta samþykktir félagsmanna. Svo einkennilegt sem það nú er þá fara þar einstaklingar sem eru í sumum tilfellum forsvarsmenn félagasamtaka, jafnvel stéttarfélaga og maður spyr: Hvernig fer fram ákvarðanataka í þeirra félögum? Þessir einstaklingar ganga svo langt að kynna sig sem „þjóðina“.

sunnudagur, 2. október 2011

Frjálsleg túlkun forsetans

Eftir að hafa hlustað á ræði forsetans við þingsetningu í gær rifjaðist upp fyrir mér pistill sem ég birti hér á þessari síðu 11. september.

Þar stóð m.a. „Í Stjórnlagaráði var mikið talað um málskotsrétt forsetans, hvort setja ætti skorður við hvaða málaflokkum hann mætti skjóta til þjóðarinnar og hvort hann ætti að bera á ábyrgð sínum á eigin orðum og gerðum t.d. með afsögn. Niðurstaðan varð sú að gera það ekki.

Öll vitum við að Ólafur Ragnar veltir því vel fyrir sér hvað hann segir áður en hann fer í fjölmiðla. Nýjasta útspil Ólafs Ragnars er að mínu mati úthugsað. Hann er að grípa niðurstöðu Stjórnlagaráðs og ætlar sér að hafa frumkvæði í að túlka hana á þann veg að forsetinn verði í komandi framtíð afgerandi þátttakandi í stjórnmálum.

Jafnvel þó hann hætti í vor, þá hentar sú túlkun mikið betur í æviminningarnar.“