sunnudagur, 31. mars 2013

Baráttan um ÍslandÓstöðugur gjaldmiðill er ein meginorsök þess að vextir eru miklu hærri á Íslandi en í nágrannalöndunum. Þessir háu vextir hafa margvísleg áhrif á okkur. Dráttur á lausn Icesave deilunnar kostaði okkur auka vaxtastig og þá um leið allnokkurn slatta af milljörðum, sem birtist okkur launamönnum m.a. í háu vöru- og þjónustuverði og þar af leiðandi lægri kaupmætti.

Frá aldamótum hafa vextir af 5-10 ára ríkisskuldabréfum verið tvöfalt hærri á Íslandi en að meðaltali á Evrusvæðinu. Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur eru með á stefnuskrá sinni að viðhalda þessu ástandi. Hvers vegna? Jú krónan er nefnilega leið til þess að komast yfir miklar eignir, sitjir þú í réttum stól. Skítt með stöðu launamanna.

Undanfarna daga hefur verið áberandi í umræðunni að lífeyrissjóðirnir séu að kaupa bankana. Þetta er afskaplega kunnuglegur inngangur að viðskiptafrétt, og að venju fellur fréttastofa RÚV fyrir henni. Í fréttum og tilkynningum af svona kaupum segir oftast að „hópur fjárfesta undir forystu lífeyrissjóða er að eignast…". Lífeyrissjóðir eru iðulega hafðir í forgrunni flestra stórra viðskipta sem verið er að gera. Það mýkir ásýnd þeirra og dregur úr áhyggjum almennings vegna þeirra.

Og að venju koma svo fram á sjónarsviðið vinsælir álitsgjafar og ausa svívirðingum yfir lífeyrissjóðina og verkalýðsforystuna. Þar eru á ferð nytsamir sakleysingjar sem spilað er með af tilteknum hagsmunaðilum og þeir nýttir til þess að draga athyglina frá því sem er í gangi. Þeim er því hampað í spjallþáttum þeirra fjölmiðla sem eru í eigu hinna tilteknu afla

Hugmyndin um bankakaupin gengur út á að þessir fjárfestar fái að kaupa bankana tvo á mjög niðursettu verði. Fjárfestarnir eru sagðir tilbúnir að greiða fyrir að hluta til eða öllu leyti með gjaldeyri sem þeir eiga erlendis.

Margir þeirra sem hafa verið að fjárfesta mikið á Íslandi eftir hrun voru nefnilega í aðstöðu til að sjá fyrir vandræðin á góðærisárunum og fluttu mikla fjármuni úr landi. Fall krónunnar um tæp fimmtíu prósent, gjaldeyrishöft og aukaafsláttur fjárfestingaleiðar Seðlabankans gerir þessum hinum sömu aðilum kleift að versla á brunaútsölu á Íslandi, á allt að helmingi lægra verði en okkur aumingjunum stendur til boða, við eigum bara ónýtar íslenskrar krónur og það er stefnan hjá þeim sem taka við völdunum í vor að breyta því alls ekki.

En þeir geta ekki komið fram undir réttum nöfnum. Eftir hrun fór stór hluti fyrirtækja til bankanna. Það er hagur þeirra sem vilja eignast þá að tala niður krónuna og festa höftin í sessi. Þá fá þeir enga alþjóðlega samkeppni um þau fyrirtæki sem þeir vilja eignast.

Þá sitja þeir einir að kökunni og geta dundað sér við að prútta við bakarann áður en þeir éta hana. Það er vert að hafa þetta í huga þegar stjórnmálamenn og sjálfskipaðir sérfræðingar spjallþáttanna tala upp krónuna og niður raunhæfa möguleika um upptöku annarra gjaldmiðla. Hér birtist okkur hin raunverulega barátta um valdataumana á Íslandi.

Það eru hér sem alvöru átakapunktar komandi kosninga eru. Takið vel eftir afstöðu forystumanna Framsóknar og Sjálfstæðisflokks. Í hvaða stólum sátu þeir þegar Hrunið var sett saman?

Íslenska ríkið hefur þurft að greiða 4,2% hærri vexti en ríkin á Evrusvæðinu að meðaltali. Í dag skuldar ríkissjóður um 1.400 milljarða. Hvert prósent sem ríkissjóður þarf að greiða í hærri vexti kostar okkur því um 14 milljarða króna.

Það er því til mikils að vinna að lækka vextina. Tækist okkur að lækka þá varanlega um t.d. 3 prósentustig sparar það okkur 42 milljarða á ári. Þetta eru fjármunir sem samsvara samanlögðum kostnaði við rekstur Landspítalans og Sjúkrahússins á Akureyri, eða þriðjungnum af því sem einstaklingar greiða í tekjuskatt.

Heimilin skulda um 1.500 milljarða. Hvert prósentustig í vöxtum kostar okkur því um 15 milljarða. Frá aldamótum hafa vextir af nýjum húsnæðislánum verið tæplega þrefalt hærri á Íslandi (meðalvextir á Íslandi: 75% Íbúðalánasjóðs og 25% banka) en að meðaltali á Evrusvæðinu. Þessi munur nemur 7,8 prósentustigum. Þegar þú lesandi góður kaupir þér hús, þá greiðir þú fyrir 2,5 hús á meðan danskur launamaður greiðir fyrir 1 hús.

Tækist okkur að brúa þetta bil myndi það spara heimilunum 117 milljarða á ári, sem jafngildir tæplega 17% hækkun á ráðstöfunartekjum heimilanna að meðaltali.

Fyrirtækin skulda tæpa 1.700 milljarða. Hvert prósentustig í lækkuðum vöxtum sparar þeim 17 milljarða á ári. Ef vextir fyrirtækja lækkuðu t.d. um fjögur prósentustig yrði sparnaðurinn um 68 milljarðar króna á ári.

Ef við viljum sambærileg lífskjör og best þekkjast í nágrannalöndum okkar verðum við að ráðast að rót vandans og tryggja hér stöðugleika og lága vexti. Slíkt gerum við með stöðugum gjaldmiðli og agaðri hagstjórn.

Með upptöku evru myndu skuldsett heimili landsins fá ávinning af framlagi ríkisins 60 milljarða og einstaklinga að upphæð 120 milljarðar á ári – til allrar framtíðar.

Sparnaður ríkisins (60 milljarðar) gæti fyrstu 2 – 3 árin farið í að koma til móts við skuldsett heimilin. Eftir þann tíma yrði sá sparnaður ávinningur allra heimila, sem gæti komið kæmi fram í lægri sköttum og meiri framlögum til sjúkráhúsa, skóla, menntunar, lögreglu o.fl.

laugardagur, 30. mars 2013

TöfralausnirAfnám verðtryggingar er það mál sem ber einna hæst í undirbúningi stjórnmálamanna fyrir komandi kosningar. Það eru reyndar margir búnir að tala hátt og mikið um verðtryggingu, hana þurfi að afnema.

Einhverra hluta vegna hafa stjórnmálamenn alltaf hætt að tala um að þeir ætli að afnema verðtrygginguna, þegar þeir hafa skoðað málið vandlega. Af hverju hefur það ekki þegar verið gert? Allir stjórnmálaflokkarnir sem tóku þátt í síðustu kosningum mættu í kosningabaráttuna með ályktanir flokksþinga um afnám verðtryggingar.

Margir virðast halda að í afnámi verðtryggingar sé fólgin kjarabót, þar á meðal eru t.d. nokkrir verkalýðsforingjar, sem hafa farið mikinn í þessum efnum og borið mjög þungar sakir á aðra félaga sína í verkalýðshreyfingunni. Afnám verðtryggingar tekur mjög langan tíma, það er ekki hægt að láta hana gilda afturvirkt. Í dag er sú staða að nánast öll ný íbúðalán sem bankar veita eru óverðtryggð. Lækkuðu reikningarnir eitthvað?

Útlán Íbúðarlánasjóðs hafa hrunið síðustu mánuði og uppgreiðslur lána Íbúðarlánasjóðs nema hærri upphæð en út er lánað. Ef þær fjölmörgu skýrslur sem hafa verið gefnar út um langtímalán eru skoðaðar, kemur alltaf fram sú niðurstaða að verðtryggð lán séu hagstæðari, vegna þess að vextir á óverðtryggðum lánum séu svo mikið hærri.

Það er ekki hægt að afnema verðtryggingu, eða lækka vexti nema að skipta út krónunni. Vaxtamunur Íbúðalánasjóðs, langstærsta veitenda verðtryggðra lána er einungis 0,27 prósent og vextir verðtryggra lána eru um helmingi lægri en óverðtryggðra, það gerir gæfumuninn þegar til langs tíma er litið.

Verðbólguhringrásin byggir a tveimur forsendum: Í fyrsta lagi að lífeyrisréttindi eru verðtryggð og lífeyrissjóðirnir hafi því náttúrulega eftirspurn eftir verðtryggðum eignum. Í öðru lagi að útgáfur Íbúðalánasjóðs njóti ríkisábyrgðar en án hennar eru skuldabréf sjóðsins aðeins með veð í fasteignum og geta ekki haft svo þungt vægi i eignasöfnun lífeyrissjóða eins og nú er, samkvæmt eðlilegum viðmiðum í eignastýringu.

Fyrir heimili landsins virkar hringrásin þannig að þau borga verðtryggða vexti til lífeyrissjóðanna af húsnæðislánum sínum yfir vinnuævina sem þau fá síðan til baka með verðtryggðum eftirlaunum.

Spurningin um það hvort banna eigi verðtryggingu snýst því um hvort það eigi að loka þessari„verðbólguhringrás“ eða breyta henni með einhverjum hætti. Það er þó ekki hægt að breyta einum hlekki í ferlinu án þess að hafa áhrif á alla hina. Ef verðtrygging er lögð af í lánaviðskiptum liggur jafnframt fyrir að mjög erfitt verður fyrir lífeyrissjóðina að lofa verðtryggðum lífeyrisréttindum.


Sigmundur Davíð formaður Framsóknarflokksins hefur dregið fram gamalt loforð um 20% flata skuldaafskriftir og segir réttilega að það kosti um 240 milljarða króna, það samsvarar liðlega 40% af áætluðum tekjum ríkissjóðs á þessu ári. Hann er ekki einn um þetta, vinsælir álitsgjafar í spjallþáttum hafa einnig slegið um sig með þessum loforðum.

T.d. var einn þeirra Ólafur Arnarson í Silfri Egils nýlega, en hann gat ekki með nokkrum hætti útskýrt hvernig ætti að framkvæma þetta, en staglaðist endurtekið á innihaldslausum upphrópunum og skrumi, sem besti blaðamaður þessa lands um efnahagsmál „Þórður Snær Júlíusson“ leiðrétti jafnharðan. Það var pínlegt að horfa upp á Ólaf Arnarson í þeim þætti.

Lausn „snillinganna“ snýst um að láta kröfuhafa föllnu bankanna standa straum af þessum kostnaði. Hugmyndir sem jafngilda þjóðnýtingu erlendra eigna kröfuhafa. Allar niðurfærslur á krónueignum kröfuhafa fara í að vinna á snjóhengjunni, það er ekki hægt að nota sömu fjármuni tvisvar. Eignarrétturinn er friðhelgur og það sem þessir menn boða er brot á alþjóðasamningum sem Ísland hefur skuldbundið sig til að virða.

Þessir hinir sömu snillingar halda því ákaft fram að þeir hafi unnið mikinn sigur í Icesave málinu. Dráttur á lausn Icesave deilunnar leiddi til þess að Ísland hefur að óþörfu búið við slaka viðskiptastöðu í nokkurn tíma, það hefur margoft komið fram hjá forsvarsmönnum atvinnulífsins. Icesave hefur valdið okkur gríðarlegum skaða þrátt fyrir að dómsmálið hafi unnist.

Seðlabanki Íslands á í Icesave uppgjörinu ógreiddar kröfur vegna hinna svokölluðu ástarbréfa að upphæð um 127 milljarð króna. Auk þess hefur ríkissjóður þurft að leggja nýja Landsbankanum til 122 milljarða króna í eigið fé og þar til viðbótar þarf nýi Landsbankinn að greiða 300 milljarðar króna í þrotabú hins gamla fram til ársins 2018.

Það á að greiðast í erlendum gjaldeyri sem ekki er til. Þarna situr hnífurinn blýfastur í blekkingarkú ofursnillinga spjallþáttanna og kosningabrellnanna.

Þetta lokar okkur innan gjaldeyrishaftamúranna, sem eykur á verðbólguvandann og skerðir verulega möguleika okkar til þess efnahagsbata og þeirra kjarabóta sem við leitum að með logandi ljósi í endurnýjun kjarasamninga næsta haust.

Icesave-deilan var skrímsli sem tætti í sundur þjóðina, þjóð sem sannarlega hefði þurft að standa saman og takast á við efnahagsvandann í stað þess að gera tilraun að kjósa hann í burtu ýta honum þar með á undan sér. Þeir sem benda á þessar staðreyndir eru umsviflaust kallaðir ljótum nöfnum eins og þjóðníðingar eða eitthvað þaðan af verra.

Kosningavíxlar eins og þeir sem hér hafa verið taldir upp kalla yfir okkur enn verri stöðu en við erum þegar í, það eru ekki til einföld töfrabrögð eins og halda því fram að afnám verðtryggingar sé auðveld og leiði til umsvifalausra kjarabóta, skuldaniðurfelling kosti ekkert og Icesave reikningurinn hafi verið sendur eitthvað annað.

Sumir þessara reikninga liggja nú þegar í gluggaumslagi á skrifborði fjármálaráðherra. Ef farnar verða framangreindar leiðir eru allar líkur á að fleiri reikningar verða settir í gluggaumslög næsta haust og allir þessir reikningar verða áframsendir til íslenskra heimila á næstu árum í formi hærri skatta og lægri launa.

miðvikudagur, 27. mars 2013

Enn eitt "fixið"


Stjórnmálamönum hefur undanfarin ár verið tíðrætt um að til standi að lagfæra stökkbreytingu lána og það yrði gert með því að strika verðtryggingu út. Ráðherrar komu fram í fjölmiðlum veturinn 2010 og sögðust ætla að gera þetta með því taka þá fjármuni, sem til þessa þyrfti úr lífeyrissjóðunum.

Í kjölfar yfirlýsinga ráðherranna höfðu allmargir sjóðsfélagar samband við stjórnir sjóðanna og bentu á að það væru í gildi landslög og reyndar einnig stjórnarskrá, sem gerði þessa leið ófæra. Þingmenn gerðu ásamt nokkrum þekktum lýðskrumurum hróp að sjóðsfélögum og nefndu meðal annars „þrönga lagatúlkun!!“

Þessi leið hefði þýtt líklega allt að 3% skerðingu á bótum lífeyris- og örorkuþega í sumum almennu sjóðanna. Sjóðsfélagar opinberu sjóðanna myndu ekki verða fyrir skerðingum. Skuld ríkissjóðs við opinberu lífeyrissjóðina er í dag um 500 milljarðar og hækkar um tugi milljarða á ári og mun vaxa hraðar á komandi árum sakir þess að stóru barnasprengjuárgangarnir eru að nálgast á lífeyrisaldur.

Útgjöld Tryggingarstofnunar hækka ef lífeyrir frá lífeyrissjóðunum lækkar. Auknar skuldir ríkisjóðs vegna lífeyrisskuldbindinga og aukin útgjöld TR, kalla á enn frekari niðurskurð eða hækkun skatta. Hagdeild ASÍ telur að ekki verði komist hjá um 4-6% hækkun skatta og sú ákvörðun verði ekki dreginn lengur en í mesta lagi 4 ár. Ef lífeyriskerfið verður lagt í sömu rúst að það lá árið 1980, mun það kalla þar að auki á umtalsverða skattahækkun.

Flöt lækkun lána kemur þeim best sem mest hafa milli handanna, 80% af þeim fjármunum hafnar í vösum þeirra sem ekki þurfa á því að halda. Það sem nær til þeirra sem eru í vanda, það er að segja barnafjölskyldur og einstæðir foreldrar, verður of lítið til þess að bjarga þeim frá vandanum.

Í dag bendir flest til þess að kjósendur vilji að stjórnmálamenn hleypi efnahagslífinu í enn eitt verðbólgubálið. Þeir lofa að gera „allskonar ýmislegt“ fyrir landsmenn komist þeir til valda. Þeir nefna ekki hver eigi að standa straum af kostnaðinum, en það blasir við að þeir ætla að taka enn eitt fixið, detta bara einu sinni í það aftur og lofa svo að þeir verði edrú eftir það.

Eins og staðan er í dag þá á að fjármagna kosningaloforðin með enn einni gengisfellingunni, bara eitt verðbólgubálið enn. Lækka á verðgildi launa og framkalla eignaupptöku hjá launamönnum. Þessi aðferð hefur undanfarna áratugi jafngilt því að fjórðungur launa hafi verið tekinn úr launaumslögunum áður en þau ná í vasa launamanna.

Afnám verðtryggingar leysir engan vanda. Hækkun verðtryggðra lána er sakir þess að viðkomandi er ekki að greiða nema hluta vaxtakostnaðar. Verðtrygging er í raun greiðsludreifingarkerfi á ofurvöxtum, sem er afleiðing mikillar verðbólgu, sem er afleiðing óagaðrar efnahagsstjórnunar. Ef greiðsludreifingin er afnuminn verður fólki einfaldlega gert að greiða ofurvextina með öðrum hætti.

Ef við byggjum við stöðugleika ESB og hefðum samsvarandi verðbólgu og er í nágrannalöndum okkar, þyrftum við ekki verðtryggingarkerfi, eða með öðrum orðum þó svo við hefðum það áfram þá myndi verðtryggingarkerfið aldrei fara í gang.

Vextir mótast af verðbólgu auk raunvaxtakröfu og áhættuálagi. Ef samið er um verðtryggingargreiðsluform þá er áhætta mun minni og vaxtakrafa og áhættuálag lægra.
 
Í þessu sambandi má benda á að vaxtakrafa verðtryggðra lána er ríflega helmingi lægri en á þeim óverðtryggðu lánum sem er verið að bjóða í dag. Það þýðir að þegar verðbólga er lág, er lántaki að greiða umtalsvert hærri vexti á óverðtryggðum lánum, en verðtryggðum. Þarna er að finna ástæðu þess að verðtryggð lán hafa reynst mun hagstæðari sé til langs tíma litið.

Umræða þeirra sem telja að afnám verðtryggingar sé einhver lausn jafngildir því að reikna með því að meinið hverfi við það plástur sé fjarlægður af sárinu.

föstudagur, 22. mars 2013

Lýðræðið lítilsvirt


Eftir að ljóst var að okkur væri að takast að losna undan einveldi konungs í byrjun síðustu aldar tóku Íslenskir stjórnmálamenn til við að undirbúa yfirtöku flokksræðis. Þýdd var dönsk stjórnarskrá og þar sem ráðherraræði var tryggt án of mikillar aðkomu þjóðarinnar.

Pilsfaldakapítalisminn var búinn til og helmingaskiptaregla flokksræðisins varð alls ráðandi.

Lýðræðið náði aldrei hingað, nema þá í stuttan tíma eftir búsáhaldabyltinguna, en Hæstiréttur afnám þá stuttu tilvist með ógildingu kosningar þjóðarinnar til Stjórnlagaþings.

Alþingi er þessa dagana að tryggja niðurstöðu Hæstaréttar með ógildingu þjóðaratkvæðisgreiðslu um nýja stjórnaskrá saminni af þjóðinni, sem átti að tryggja að þjóðin kæmist undan ofríki flokksræðisins.

Íslendingar kusu um framtíðina 20. okt. síðastliðinn, það var tækifæri sem margar þjóðir öfunduðu okkur af, á Íslandi væri samfélag þar sem lýðræði virkaði í alvöru, en ekki kæft eða skrumskælt af þingmönnum og hagsmunaöflum.

Fjölmargir erlendir fjölmiðlar sendu fréttamenn til Íslands til þess að fjalla um byltinguna sem íslenska þjóðin framkallaði árið 2009 með því að stilla sér upp fyrir framan Alþingishúsið.

Dáðst var að þjóðinni sem síðan kaus 25 einstaklinga í þjóðaratkvæðagreiðslu til þess að setja stjórnvöldum nýjar reglur og gerði það í beinu sambandi við þjóðina sem var virkur þátttakandi í þessu verki. Allt þetta vakti heimsathygli. Sú von vaknaði meðal þjóðarinnar að stjórnmálamenn myndu eftir þetta taka vilja þjóðarinnar alvarlega, ekki síst eftir að Rannsóknarskýrslan birti sín járnbundnu rök um spillinguna og fáránleikann.

Í þjóðaratkvæðagreiðslu kom glögglega fram að þjóðin vildi setja valdhöfum skýrari leikreglur og leiðrétta þá misskiptingu sem hér er. Það birtist í niðurstöðunum, 67 % kjósenda samþykkti að Alþingi skyldi fara eftir tillögum stjórnlaganefndar um nýja stjórnarskrá. 82% vildu að náttúruauðlindir væru í eigu þjóðarinnar, 77% vildu auka persónukjör til Alþingis, 71% vildu auka beint lýðræði. Allt eru þetta ákvæði í tillögum að nýrri stjórnarskrá.

Í öllum ríkjum sem vilja láta flokka sig meðal lýðræðisríkja lúta stjórnmálamenn án nokkurra skilyrða niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslna. Annað er grímulaus tilraun til valdaráns. Ræðustóll Alþingis hefur undanfarna 20 mánuði verið hertekinn með innihaldslausu málþófi þar sem lýðræðið hefur verið skrumskælt.

Sigmundur Davíð formaður Framsóknarflokksins hefur nýlega bent á það í spjallþætti að ef flytja ætti  stjórnarskrármálið fram á næsta haust, þá lendi það inni á sama tíma og umræða fari fram um fjárlögin.

Sigmundur upplýsti okkur um hvaða vinnubrögð hann hefur tamið sér vinnubrögð með því að segja „þá væri auðvelt að beita málþófi til að eyðileggja málið.“ Hér talar sá stjórnmálamaður sem beitir sér ásamt formanni Sjálfstæðisflokksins, fulltrúum pilsfaldakapítalismans og helmingaskipta flokksræðisins, hvað harðast fyrir því að viðhalda þeim ofurtökum sem forverar þeirra tókst að ná á Íslensku hagkerfi.

Þeir eru ásamt sínum aðstoðarmönnum ætíð alltaf búnir að leggja línurnar um hvernig hægt verði að halda áfram á þeirri braut.

Mér er algjörlega misboðið hvernig formenn núverandi stjórnarflokka gengu í lið með þeim sem hafa lítilsvirt þjóðina undanfarna mánuði, undirgengust ofurveldi flokksræðisins og eru búnir að klúðra síðustu von okkar að nú tækist að ná fram vilja fólksins.

Hér er stefnt á að viðhalda flokksræðinu og koma í veg fyrir að íslenskur almenningur fái notið lýðræðis.

Nú er búið að koma því í gegn að á Íslandi telji Alþingi sig ekki skuldbundið að fara eftir niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslna. Jafnvel þó fyrir liggi hvað 67% þjóðarinnar vilji.

Þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar hafa undanfarin misseri ítrekað lýst því yfir að þeir muni ekki taka mark á þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB, gangi niðurstaðan gegn þeirra eigin skoðunum!!!

Bætum hag heimilanna og spörum fyrir skuldunum


Seðlabankinn áætlar að með upptöku evru sparist 5 til 15 milljarðar króna á ári í beinan viðskiptakostnað sú mynt sem við höfum virki sem viðskiptahindrun. Sá kostnaður lendir á öllum viðskipum sem eiga sér stað með erlendan gjaldeyri. Einnig verður að benda á þann sparnað sem hlýst af því að þurfa ekki að halda úti stórum gjaldeyrisforða til að styðja við smáa mynt.

Á meðan við erum með sjálfstæða mynt verðum við að halda úti gjaldeyrisvarasjóð, við eigum ekki fyrir honum og verðum sakir þess að taka hann allan að láni. Vaxtakostnaður vegna gjaldeyrisvarasjóðsins Íslands er um 33 milljarðar króna á ári. Auk þess verðum við að greiða hærri vaxtaprósentu. Samkvæmt gögnum frá hagdeildum vinnumarkaðsins og Viðskiptaráði, er vaxtamunur á ríkisskuldabréfum og húsnæðislánum 4,2-4,5% hærri hér á landi en innan Evrulandanna. Þessi vaxtamunur stafar af verðbólgu og óstöðugleika sem rekja má beint til krónunnar, þar sem hún er allt of lítil.

Skuldir ríkissjóðs eru c.a. 1400 milljarðar, skuldir einstaklinga 1500 milljarðar og skuldir fyrirtækja 1700 milljarðar, eða samtals 4600 milljarðar. 4,2% aukavextir af 4600 milljörðum nemur 193 milljörðum á hverju ári. Allur kostnaður af vöxtum hvort sem er frá ríki eða fyrirtækjum lendir vitanlega á almenningi beint eða óbeint. Þessi upphæð jafngildir 2,5 milljóna aukaútgjöldum sem hver 4ra manna fjölskylda þarf að bera á Íslandi umfram Evrulönd á hverju ári.

Kostnaður alls heilbrigðiskerfisins er um 116 milljarðar á ári og allur útflutningur á sjávarafurðum er um 230 milljarðar. Árlegur kostnaður landsmanna vegna krónunnar samsvarar öllum útflutningstekjum sjávarafurða.

Árlegur rekstrarkostnaður Landsspítalans er um 35 milljarðar og byggingakostnaður ný Landsspítala um 100 milljarðar. Árlegur aukakostnaður krónunnar er 6 sinnum árlegur rekstrarkostnaður Landsspítalans og tvöfaldur byggingakostnaður Landsspítalans. Þessi aukakostnaður vegna krónunnar jafngildir 14% af landsframleiðslu. Engin þjóð þolir slíkan kostnað af sínum gjaldmiðli.

Menn halda svo hvern fundinn á fætur öðrum og tala um að bæta hag heimilanna í landinu og segjast jafnframt leita að sparnaðarleiðum. Stærsti sparnaður Íslandssögunnar yrði með því að taka upp annan gjaldmiðil. Þjóð sem notar svo dýran gjaldmiðil er langt komin með að gera stóran hluta þegna sinna eignalausa.

Við hefðum getað sparað 1000 milljarða sl. 5 ár og aðra 1000 milljarða næstu 5 ár. Það eru 2000 milljarðar eða 25 milljónir á hverja 4ra manna fjölskildu. En lesandi góður það liggur nefnilega fyrir að allur gjaldeyrir landsins verður búinn 2016, sem þýðir ekki nema eitt auknar erlendar lántökur á enn hærri vöxtum en áður, sem magna mun vandann enn frekar

Lækkun vaxta myndi hafa gríðarleg áhrif á greiðslubyrði heimila vegna íbúðarlána. Samkvæmt nýlegum útreikningum ASÍ getur árlegur sparnaður fyrir íslensk heimili numið um 15 milljörðum króna fyrir hverja prósentu í lægri vöxtum.

Til þess að dreifa þessum gríðarlega vaxtakostnaði eru húsnæðislán á Íslandi 40 ár í stað 20 ára eins og er í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Íslensk fjölskylda greiðir 2,4 sinnum meira fyrir sína íbúð þegar upp er staðið. Til þess að geta það þarf íslenska fjölskyldan að skila um 10 klst. lengri vinnuviku en sú danska, ekki í 20 ár heldur 40 ár svo öllu sé til haga haldið.

Íslenskum launamönnum er gert að búa í efnahagslegum þrælabúðum.

Sem dæmi má nefna að Rafiðnaðarsambandið hefur frá árinu 1970 samið um launahækkanir sem nema um 3.500% launahækkunum, á sama tíma og Danska rafiðnaðarsambandið samdi um 330% launahækkanir. Þetta segir reyndar allt sem þarf að segja um þetta mál.

Við höfum undanfarnar vikur fylgst með óróleika meðal heilbrigðistétta, sú snjóhengja sem þar hefur safnast upp var ekki leyst endanlega með samningum við hjúkrunarfræðinga. Það vitum við öll.

Það að dæma verðtryggingu ólöglega leysir ekki lánavanda heimilanna, lánavandinn mun einfaldlega breytast og ekki endilega batna. Það vitum við öll.

Við verðum að ráðast að rót vandans, gjaldmiðilsmálum.

fimmtudagur, 7. mars 2013

Flokksræðið við völd

Íslenskir stjórnmálamenn tóku þá stefnu eftir að ljóst varð að við værum að losna undan einveldi konungs að undirbúa yfirtöku flokksræðis. Lýðræðið náði aldrei hingað, nema þá í stuttan tíma eftir búsáhaldabyltinguna, en Hæstiréttur afnám þá stuttu tilvist með ógildingu kosningar þjóðarinnar til Stjórnlagaþings. Alþingi er þessa dagana að tryggja niðurstöðu Hæstaréttar með ógildingu þjóðaratkvæðisgreiðslu um nýja stjórnaskrá saminni af þjóðinni, sem átti að tryggja að þjóðin kæmist undan ofríki flokksræðisins.
 
Íslendingar kusu um framtíðina 20. okt. síðastliðinn, það var tækifæri sem margar þjóðir öfunduðu okkur af. Fréttin um kosningarnar fór víða og þar kom fram að á Íslandi væri samfélag þar sem lýðræði virkaði í alvöru, en væri ekki kæft eða skrumskælt af þingmönnum og hagsmunaöflum.
 
Fjölmargir erlendir fjölmiðlar sendu fréttamenn til Íslands til þess að fjalla um byltinguna sem íslenska þjóðin framkallaði árið 2009 með því að stilla sér upp fyrir framan Alþingishúsið. Dáðst var að þjóðinni sem síðan kaus 25 einstaklinga í þjóðaratkvæðagreiðslu til þess að setja stjórnvöldum nýjar reglur og gerði það í beinu sambandi við þjóðina sem var virkur þátttakandi í þessu verki. Allt þetta vakti heimsathygli.
 
Eftir byltinguna fannst flestum útilokað að þingmenn myndu voga sér að halda áfram á sömu braut, því búið væri að fletta svo rækilega ofan af spillingu, dugleysi og svikum að ekki yrði aftur snúið. Sú von vaknaði meðal þjóðarinnar að stjórnmálamenn myndu eftir þetta taka vilja þjóðarinnar alvarlega, ekki síst eftir að Rannsóknarskýrslan birti sín járnbundnu rök um spillinguna og fáránleikann.
 
Í þjóðaratkvæðagreiðslunni kom glögglega fram að þjóðin vildi setja valdhöfum skýrari leikreglur og leiðrétta þá misskiptingu sem hér er. Það birtist í niðurstöðunum, 67 % kjósenda samþykkti að Alþingi skyldi fara eftir tillögum stjórnlaganefndar um nýja stjórnarskrá. 82% vildu að náttúruauðlindir væru í eigu þjóðarinnar, 77% vildu auka persónukjör til Alþingis, 71% vildu auka beint lýðræði.
 
Allt eru þetta ákvæði í tillögum að nýrri stjórnarskrá. Í öllum lýðræðisríkjum lúta stjórnmálamenn án nokkurra skilyrða niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslna. Annað er grímulaus tilraun til valdaráns. 
 
Ræðustóll Alþingis hefur undanfarna 20 mánuði verið hertekinn með innihaldslausu málþófi þar sem lýðræðið hefur verið skrumskælt með því gera að engu niðurstöðu mikils meirihluta þeirra kjósenda sem mæta á kjörstað.
 
Í spjallþætti í gær kom fram hjá Sigmundi Davíð formanni Framsóknarflokksins að ef að flytja ætti stjórnarskrármálið fram á næsta haust, þá lendi það inni á sama tíma og fjárlögin. Hann upplýsti okkur um vinnubrögð sín með því að segja „þá væri auðvelt að beita málþófi til að eyðileggja málið.“ Hér talar sá stjórnmálamaður sem beitir sér hvað harðast fyrir því að viðhalda flokksræðinu og er þegar farinn að leggja línurnar um hvernig hægt verði að halda áfram á þeirri braut.
 
Mér er misboðið hvernig formenn stjórnarflokkanna hyggjast ganga í lið með þeim sem hafa lítilsvirt þjóðina undanfarna mánuði. Ég féllst á að vera á lista Samfylkingarinnar í vor vegna drengilegrar baráttu Samfylkingarinnar í þessu máli, en sú ákvörðun mín virðist hafa verið byggð á misskilning. Hér er stefnt á að viðhalda flokksræðinu og koma í veg fyrir að íslenskur almenningur fái notið lýðræðis.