miðvikudagur, 31. desember 2008

Áramót

Háskólaprófessorarnir Páll Skúlason heimspekingur og Sigurður Líndal lögspekingur hafa ítrekað bent á hversu löskuð íslensk umræðulist sé. Hún einnkennist á upphrópunum og órökstuddum klisjum sem menn hendi sín á milli, sjaldan fari fram upplýst umræða.

Á liðnu ári hafa þingmenn ásamt þeim sem þurfa að eiga samskipti við framkvæmdavaldið eins og t.d. ASÍ og SA ítrekað kvartað yfir þeirri óheillanvænlegu þróun að ráðherrar og æðstu embættismenn virði Alþingi einskis. Alþingi virðist vera til þess eins að afgreiða ákvarðanir sem nokkrir ráðherrar ásamt tilteknum embættismönnum hafa þegar tekið án nokkurrar umræðu á Alþingi eða samskipta við aðila í atvinnulífinu.

Ef fylgst er með umræðu á Alþingi fæst staðfesting á fullyrðingum Páls og Sigurðar. Nú má velta því fyrir sér hvort sé afleiðing eða orsök. Hafa ráðherrar og embættismenn gefist upp á því að eiga vitræna umræðu í Alþingi, eða hefur umræðan á Alþingi þróast á þennan veg sakir þess að þingmenn þekkja tilgangsleysi sitt?

Atburðir liðins árs hafa orðið til þess að flett hefur verið ofan af hverri ormagryfjunni á fætur annarri. Hér ríkir klíkuskapur. Afgreiðslur stofnana og ráðherra einkennast af fyrirgreiðslu. Kerfið er spillt og snýst um að tryggja völd. Það blasir t.d. við að æðstu embættismenn séu ráðuneytisstjórar fjármála- og forsætisráðuneytis. Þeir hafa mun meiri völd en ráðherrar og taka hiklaust viljayfirlýsingar ráðherra og umturna þeim og okkur gert að horfa upp á ráðlausa ráðherra gerða ómerka. Störf þessara manna einkennast umfram allt af því að tryggja völd og samtryggingu.

Þjóðinni hefur margoft ofboðið. Í dag kemur fram mjög alvarleg ábending um vinnubrögð ráðherra frá umboðsmanni Alþingis. Hann hefur einnig bent á að lagasetningu Alþingis sé verulega ábótavant, allt að þriðjungur laga sem Alþingi setji stangist á við stjórnarskrá eða gildandi lög.

Á liðnum árum hafa aðilar vinnumarkaðs ítrekað reynt að hafa áhrif á þróun efnahagsmála. Má þar t.d. benda á ábendingar hagdeilda ASÍ og SA á að stjórnvöld ættu frekar að nýta gríðarlegar tekjur þennslu til þess að byggja upp gjaldeyrisvarasjóði til þess að verjast þeirra lægð sem nánast allir hagfræðingar töldu vera óumflýjanlega að loknum gríðarlegum framkvæmdum við Kárahnjúka og nýtt álver.

Þessu til viðbótar var bönkum látnir athugasemdalaust pumpa inn í hagkerfið milljörðum króna ásamt því gríðarlegum upphæðum var hleypt inn í hagkerfið með krónubréfum.

Þingmenn höfðu einnig orð á þessu, en æðstu embættismenn og ráðherrar tóku þá ákvörðun að eyða þessum fjármunum í að lækka skatta, sem varð til þess að þennslan jókst ennfrekar og gengi krónunnar varð 30% of hátt.

Nokkrir hafa haldið því fram að aðilar vinnumarkaðs hafi ekkert gert. Í því sambandi má benda á fréttir liðins árs og frá síðasta hausti um tillögur SA og ASÍ. Einnig ályktanir. Allt hefur þetta verið rakið hér á þessari síðu í hverjum pistlinum á fætur öðrum.

SA og ASÍ kröfðust þess síðastliðin vetur að lagt yrði upp með 2 – 3 ára plan til þess að takast á við hratt vaxandi efnahagsvanda. Í ítarlegum áætlunum sem þessi samtök lögðu fram var bent á að sú peningastefna, sem fylgt hefur verið undanfarin 17 ár gæti ekki leitt til annars en gríðarlegrar sveiflu í efnahagskerfinu með harkalegum afleiðingum fyrir þá sem minnst mega sín.

Margir bæði innlendir og erlendir sérfræðingar tóku undir þetta og bentu jafnframt á að grípa yrði til ráðstafana vegna mikils vaxtar bankanna og skuldsetningar, sú stefna sem fylgt væri í íslensku hagkerfi væri orðið úrelt. Allir kannast við svör ráðherra, þau hafa verið rifjuð upp á fréttum undanfarna daga. Sama á hverju gekk og hvaðan gagnrýni kom, alltaf sögðu Davíð, Geir, Þorgerður og Árni að allt væri í lagi og engin ástæða til þess að taka mark á þessum athugasemdum. Menn ættu bara að fara heim og læra fræðin sín betur eins og Þorgerður komst svo smekklega að orði. Nú er hún með allt niðrum sig

Athafnir embættismanna og ráðherra hafa leitt til þess að tugþúsundir íslendinga hafa tapað ævisparnað sínum og sitja uppi með gríðarlegar skuldir. Þetta fólk hefur ekkert unnið til saka. Fjárglæframenn nýttu sér svigrúm sem slök íslensk reglugerð og eftirlit gaf þeim til þess að skuldsetja þjóðina. Embættismenn og ráðherrar vildu hafa þetta svona og auglýstu Ísland með dyggri aðstoð forseta lýðsveldisins sem fjármálaparadís.

Æðstu embættismenn með Davíð Oddsons seðlabankastjóra og Baldur Guðlaugsson ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytis í broddi fylkingar töldu að þetta skipti engu vegna þess að það stæði ekki til að greiða þessa skuldir, forsætis- og fjármálaráðherra virtust trúa því að þetta væri rétt.

Þrátt fyrir að erlendir ráðherrar og seðlabankastjórar ítrekuðu að íslendingar yrðu að sætta sig við að fara að viðteknum samskiptum og greiddu upp skuldir sínar. Enskir ráðherrar urðu að í lokin að grípa til neyðarlaga til þess að koma íslenskum embættismönnum og ráðherrum þeirra í skilning um að háttsemi þeirra gengi ekki. Þessi fáránlega uppstilling Davíðs og félaga hafði hörmulegar afleiðingar fyrir íslenskan almenning. Á þessu bera framantaldir íslenskir ráðamenn alla ábyrgð. Þeir unnu einfaldlega ekki sína heimavinnu, en lifðu í sinni einangruðu veröld og höfnuðu allri þátttöku í vitrænni umræðu.

Viðbrögð embættismanna og ráðherra þeirra hafa eðlilega vakið tortryggni almennings. Ráðherrar hafa ítrekað verið staðnir af því að greina ekki rétt frá. Segja hálfan sannleik og þar fram eftir götunum. Oft rennir manni í grun að ráðherrar viti ekki betur sakir þess að ráðandi embættismenn hafi ekki sagt þeim allt. Í því sambandi má t.d. benda á þá pínlegu stöðu sem viðskiptaráðherra hefur margítrekað lent í.

Ég sendi hinum fjölmörgu sem lesa þessa síðu góðar áramótakveðjur og þakkir fyrir margar góðar ábendingar og vinsamlegar móttökur.

Ég vona svo sannarlega að okkur takist að nýta þá stöðu sem komin er upp til þess að taka til í klíku- og fyrirgreiðslusamfélaginu og byggja upp nýtt, betra og réttlátara samfélag án þeirrar markaðshyggju sem leitt hefur þá sem mótað hafa íslenska efnhagsstefnu í blindni. Samfélag jöfnuðar og samkenndar.

þriðjudagur, 30. desember 2008

Eftiráspekingur

Hef verið að kíkja á pistla þessa árs til upprifjunar, eins og svo margir gera um áramótin. Verð að viðurkenna að ég hef stundum verið undrandi á þeim fullyrðingum um að verkalýðsforystan hafa ekkert gert og látið þetta allt renna athugasemdalaust framhjá sér.
Hér er pistill sem ég setti saman og birti hér á síðunni 17. marz síðastliðinn :


Í allmörg ár hafa aðilar atvinnulífsins gagnrýnt þá efnahagsstjórn sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur sett hér á landi. Á sama tíma hafa forsvarsmenn þessarar stefnu hrósað sjálfum sér fyrir mikil afrek, ásamt því að gera lítið úr ábendingum atvinnulífsins. Því hefur verið haldið að okkur að með þeirri efnahagsstefnu sem frjálshyggjuarmur Sjálfstæðisflokksins hefur markvisst byggt upp, sé Ísland að verða að gæðaumhverfi sem fjármálastofnanir vilji komast til. Ekkert er fjær lagi, það er gert gys af íslensku efnahagslífi.

Ekki hafa hinir ofurlaunuðu útrásarpiltar aukið á traust okkar, og þeir eru fáir meðal almennings hér á landi sem það gera. Þeir hafa nýtt sér stöðu sína til þess að hrifsa til sín hluta af þeim arði sem launamenn hafa safnað saman í lífeyrissjóðum frá árinu 1970.

Helstu rök valdhafanna gegn því að ganga til liðs við það efnahagsumhverfi sem nágrannaríki okkar hafa byggt upp með góðum árangri, og við höfum reyndar notið góðs af, hefur verið sú að það sé svo gott að hafa okkar eigin gjaldmiðil því þá getum við varið atvinnulífið fyrir atvinnuleysi.

Það hefur oft komið fram að hlutverk þessa gjaldmiðils er það eitt í augum stjórnenda íslenskra efnahagsmála af hafa af launamönnum umsamdar launahækkanir og halda þeim í ríki ofurvaxta og ofurverðlags fákeppninnar.Sú peningamálastefna sem Sjálfstæðisflokkurinn fylgir, hefur í raun einungis aukið sveiflurnar í efnahagslífinu. Íslenskt efnahagslíf er fyrir allnokkru vaxið langt upp yfir örkrónuna.

Seðlabankastjóri og fylgisveinar hans í stjórn bankans hljóta að víkja, ásamt því að vikið verði af slóð glötunar og tekist á við þann vanda sem röng stefna í efnahagsmálum hefur leitt yfir okkur.
Hefja verður skipulagða hreinsun og gera íslenskt efnahagslíf tækt í það evrópska.

mánudagur, 29. desember 2008

Áfram á spillingarbraut

Það eru engin rök fyrir því að halda verði á orku leyndu fyrir eigendum orkuveranna. Það er ekki gert í nágrannalöndum okkar.

Ef þörf er á því að halda því leyndu, þá er eitthvað óhreint á ferðinni.

Sjálfstæðis- og Framsóknarmenn virðast ekki læra af reynslunni, þeir standa áfram að leyndópólitíkinni og baktjaldamakkinu þrátt fyrir allt sem undan er gengið í borgarstjórn, REI-málinu, og svo ekki síst hvernig hlutirnir hafa gengið fyrir sig í bankahruninu.

Stjórnmálamenn þessara flokka ætla greinilega að halda áfram á sömu braut.

Kaupum flugeldana af björgunarsveitunum

Margoft hafa landsmenn notið aðstoðar björgunarsveitanna. Björgunarsveitarfólkið er ekki bara að leita að fólki til fjalla, auk þess hafa verið stórir flokkar úr sveitunum að störfum í þéttbýli með lögreglu og slökkviliðsmönnum við að bjarga eignum fólks frá skemmdum.

Björgunarsveitarfólk um allt land hefur margoft sýnt að starf þess er algjörlega ómetanlegt og oft við aðstæður sem geta verið lífshættulegar.

Innan Landsbjargar starfa um átján þúsund manns í sjálfboðaliðsvinnu. Við skuldum þessu fólki að það geti notað besta fáanlegan búnað. En ekki má gleyma því mikla uppeldishlutverki sem björgunarsveitirnar vinna, þar lærir ungt fólk að umgangast íslenska náttúru og um leið eru byggðir upp heilbrigðir og öflugir einstaklingarFlugeldasala fyrir áramót er mikilvægur tekjupóstur í fjáröfluninni og allt þetta fólk á það inni hjá okkur að við fjölmennum á sölustaði björgunarsveitanna.

En fyrir alla muni notið öryggisgleraugu og varið varlega svo við getum átt slysalaus og gleðileg áramót. Og skjótum upp á gamlárskvöld, er ekki ástæðulaust að vera að því á öðrum tímum.

sunnudagur, 28. desember 2008

Páll Skúlason í viðtali

Nú eru að renna upp þeir dagar sem við nýttum til þess að rifja upp helstu viðburði ársins. Af mörgu er að taka og þegar hefur komið fram í fréttum að búið er að klippa saman ummæli stjórnmálamanna, sem munu gefa landsmönnum gott yfirlit um þróun mála. Það hefur margt komið fram á undanförnum vikum sem segir okkur að stjórnmálamenn vissu mun meir um hvert stefndi en þeir vilja vera að láta og hversu ábyrgðarlaust þeir hafa hagað sér.

Það er ríkið sem hefur brugðist sagði Páll Skúlason í frábæru viðtali við Evu Maríu í kvöld. Það er Ríkið sem á að setja leikreglur sem tryggja stöðu almennings. Ríkið hefur brugðist, þar á bæ hefur ekki verið tekið tillit til ábendinga um hvert stefni og því er Ísland í þessari stöðu.

Það eru stjórnvöld sem setja lögin og þau hafa lagt til hliðar samkennd og jöfnuð, en látið markaðshyggjuna ráða för. Með því hafa þau ákveðið að viðhalda því ástandi sem tryggir áframhald óstöðugleikans og þá um leið að verðtrygging verði hér áfram.

Skattar á þá sem minnst mega sín hafa vaxið, það hefur verið gert með því að láta skattleysismörk sitja kyrr í verðbólgunni og sama gildir um skerðingarmörk bóta almenna tryggingarkerfisins. Á sama tíma ákváðu stjórnvöld að fella niður hátekjuskatt.Við íslendingum blasir hörmuleg staða íslenskra heimila, sem er niðurstaða og árangur þessarar efnahagsstefnu. Það er í sjálfu sér ótrúlegt ábyrgðarleysi af hálfu stjórnvalda, að hafa ekki tekið fyrr á þessum vanda. Þær forsendur sem íslensk stjórnvöld hafa gefið sér eru í senn barnalegar og lýsa veruleikafyrringu.

Í því sambandi má sérstaklega benda á afstöðuna til krónunnar. Ein helstu rök þeirra sem fara með stjórn efnahagsmála fyrir hönd þjóðarinnar um að halda henni, eins og ég hef svo oft komið að hér, það er að fela eigin efnahagsleg mistök og svigrúm til þess að lækka laun án blóðsúthellinga, svo ég taki mér í munn margendurtekin ummæli efnahagssérfræðinga Sjálfstæðisflokksins. Það er full ástæða að benda á virkilega góða grein Benedikts Jóhannessonar stærðfræðings í Fréttablaðinu í dag um krónuna.

T.d. má velta því fyrir sér hvar stjórnendur efnahagskerfis 300 þús. manna þjóðar séu staddir í veruleikanum þegar þeir ætla sér samtímis að byggja upp eitt stærsta tónleikahús í Evrópu, viðskiptamiðstöð og nýja miðborgarkjarna, nýjan landspítala, færa miðstöð innanlandsflugs og byggja nýjan flugvöll, leggja 10 Mia jarðgöng til þess að tengja saman borgarhluta í Reykjavík, setja orkulindir landsmanna í útrásarverkefni, byggja 2 ný álver og stækka eitt um helming og byggja um leið raforkuvirkjanir, sem voru samtals allt að tvöfallt stærri að orkugetu en Kárahnjúkar til þess að sjá um orkuþörf álveranna.

Hvaðan áttu að koma fjármunir til þessara framkvæmda? Vita þessir menn ekki hver árleg þjóðarframleiðsla er og hversu mikin hluta er hægt að verja til framkvæmda. Þessir hinir sömu lækkuðu skatttekjur hins opinbera og tóku þá mið af hæstu gildum ofsalegrar þennslu og innfluttning þeirra á fjármunum inn í hagkerfið svo milljörðum skiptir í formi Jöklabréfanna.

Auk þess eru þessir hinir sömu stjórnendur samfélagsins lofandi ókeypis skóla fyrir alla, bestu heilbrigðisþjónustu í heimi, miklum endurbótum á vegakerfi landsmanna með veggöngum á nokkurm stöðum í miðjum kjördæmum ötulla þingmanna.

Eru menn ekki búnir að gleyma sér í því hvar lífsgildi þjóðarinnar liggja og hvar sjálfstæði þjóðarinnar er. Er hér að verki hanar galandi á tildurhaugum markaðshyggjunnar? Þessir hanar eru búnir að glutra sjálfstæðinu á meðan hluti þjóðarinnar dansar ofsafengnum dansi kringum gullkálfinn og ákallar hann sem hin sönnu lífsgildi.

laugardagur, 27. desember 2008

Óvissan drepur

Í þeim fjölmörgu jólaboðum sem ér hef setið undanfarna daga þá hefur ríkjandi óvissa verið áberandi í umræðunni. Hvað mun gerast á næstu mánuðum? Hver er stefna ríkisstjórnarinnar? Af hverju tekur hún ekki betur af skarið gagnvart bönkunum um að styðja við fyrirtækin? Verður okkur gert kleift að halda íbúðum okkar?

Af hverju kláraði ríkisstjórnin ekki plan um greiðslujöfnun og niðurfellingu skulda þeirra sem í mestum erfiðleikum eiga? Í stað þess eyddi hún dýrmætum tíma í að þvæla eftirlaunafrumvarpinu fram og tilbaka og gafst svo upp við að afnema þessu ólög. En rúllaði í gegn hverri skerðingunni á fætur annarri gagnvart þeim sem minnst mega sín.

Þessi atburðarráðarás hefur verið stjórnmálamönnnum til minnkunar. Þeir verja mestum tíma í að verja eigin sjálftöku.

Þingmenn hafa ætíð haldið því fram að Kjararáð ákvarði þeirra kjör. En það voru þeir sjálfir sem skömmtuðu sér rífleg eftirlaun úr ríkissjóð, ekki Kjararáð. En þingmenn krefjast svo launahækkunar í stað skerðingar á eftirlaunum, Kjararáð staðfesti sjálftökuna. Þetta er svipað og þjófurinn krefjist þess af dómara að hann bæti sér upp þann ránsfeng sem gerður var upptækur. Hverslags skúrkar eru það sem við höfum valið á þing?

Það er óvissan og efinn sem fer verst með fólk. Þetta er svipuð staða og lenda í svarta þoku eða blindbyl á fjöllum á leið sem maður þekkir ekki og hefur ekki farið áður. Maður tekur upp áttavitann og gengur eftir honum. En fórum við til hægri á réttum stað? Eða sveigðum til vinstri þegar við komum niður holtið? Erum við kannski kominn fram hjá skarðinu sem við urðum að ná í gegnum til þess að komast niður í dalinn þar sem tjaldsvæðið er? Allar þessar hugrenngingar þekkja göngumenn.

Það bætir ekki úr skák að það eru svo fáir sem treysta ríkisstjórninni, það var jú hún sem leiddi okkur inn í þessar ógöngur. Hún stöðvaði ekki þegar henni bárust öll einkennin síðasta vetur. Hún hélt þagnarskyldi yfir þeirri vitneskju. Seðlabankastjóri fullyrðir að hann hafi vitað í hvaða óefni var komið en hann gerði samt ekkert. Fjármálaeftirliðið hugsaði um það eitt að hækka laun forstjórans og laun stjórnar.

Þingmenn eyddu sínum tíma í að að ráða aðstoðamenn og verja eftirlaunarétt sinn.

föstudagur, 26. desember 2008

Áhugavert

Fín og áhugaverð nálgun. Hér

miðvikudagur, 24. desember 2008

Spírall niður á við

Spírall niður á við hefur verið að myndast seinni hluta þessa árs og virðist ætla að herða enn frekar á sér á næsta ári. Stór þáttur myndun þessa umhverfis eru röð rangra ákvarðanna núverandi ríkisstjórnar. Aðilar vinnumarkaðs hafa árangurslaust reynt að koma stjórnvöldum í skilning um hvert stefni.

Það að keyra framkæmdir niður leiðir til þess að fyrirtækin verða draga saman og fækka starfsfólki. Það leiðir til þess að fjölgun verður á atvinnuleysiskrá. Það skapar svo aftur á móti vaxandi fjölda þeirra sem eru tilbúnir að taka til hendinni stund og stund, svart svo þeir falli ekki af bótum og missi margskonar réttindi. Sem skapar aftur að þau fyrirtæki sem nýta sér þessa stöðu geta tekið að sér verkefni fyrir mun lægra verð en fyrirtæki sem eru að reyna að hafa allt samkvæmt reglum samfélagsins.

Þetta leiðir til þess að um 40% af veltunni fer fram í neðanjarðarhagkerfinu. Starfsmenn í þessu umhverfi greiða ekkert samfélagsins, en fá ýmsar bætur vegna lágra tekna. Ég hef margoft leitt rök að því að það kæmi í bak stjórnvalda að draga svona úr framkvæmdastigi.

Norðmenn lánuðu sveitarfélögum umtalsverðar upphæðir vaxtalaust svo þau gætu staðið í nauðsynlegum framkvæmdum. Finnar segja það sín stærstu mistök að keyra atvinnul´fið niður í þeirri kreppu sem þeir lentu í árið 1990. Það er fjöldi verkefna sem eru nauðsynleg fyrir stjórnvöld þó svo við séum á kreppustigi. T.d. er gríðarleg vöntun á félagslegu húsnæði og eins að byggja upp tryggan leigumarkað.

þriðjudagur, 23. desember 2008

Jólaboðskapur þingmanna

Þinmenn ákváðu að jólagjöf ríkisjóðs til stjórnmálasamtaka með því að framlög til "viðurkenndra" flokka hækka úr 310 millj. kr. á síðasta ári í 371,5 millj. kr. fyrir árið 2009. Auk þessa fá þeir flokkar sem ná inn manni á Alþingi framlög úr ríkissjóði. Einnig samþykktu þingflokkarnir heimild til þess að ráða aðstoðarmenn og það kostar um 600 millj. kr. Séu borinn saman þau verkefni sem voru tiltalinn við samþykkt þessara laga þá eru þau hin sömu og borinn voru sem ástæða styrkja til þingflokkanna.

Þarna eru þeir að verja lendur sínar fyrir öðrum verði þeir svo ósvífnir að vilja stofna til nýrra stjórnmálasamtaka.

Einnig samþykktu þingmenn að þeir ættu rétt á 100% hærri ávinnslurétt í lífeyrissjóð en almennir launamenn og áskildu sér rétt til þess að hækka laun sín enn frekar vegna þess að þeir væru með svo slöpp lífeyrisréttindi eftir að hafa þurft að lækka ávinnslurétt sinn úr 150% betri en almennir launamenn hafa. Á sama tíma samþykktu sömu þingmenn að skerða réttindi öryrkja og ellilífeyrisþega. Ásamt því að taka upp margskonar sjúkraskatta.

Peningar blinda oft og verða að kjarna lífsins, jafnvel þó Jesú hafi varað okkur við og sagt að það væri auðveldara troða úlfalda í gegnum auga stoppunálar en fyrir auðugan mann að komast til himnaríkis. Þingmenn feta markvisst í spor bóndasonarins, þegar hann hafði eignast hanann, ásældist hann alikálfinn.

Allt frá því að þingmenn samþykktu sín sérréttindi þá hafa samtök launamanna bent á að þetta muni leiða til ófarnaðar og leiðinda. Það hefur sannanlega ræst, en þingmenn hafa samt ekki leiðrétt stöðuna. Þeir eru í sporum þeirra sem telja sig vera eigendur fjármagnsins og hafi forgang að þeim arði sem hin vinnandi hönd skapar.

Í þessu liggur orsök þess ófriðar sem ætíð mun ríkja á vinnumarkaði. Peningar eru til lítils ef ekki er til staðar þekking til þess að nýta þá. Ágirnd leiðir eilífrar fátæktar, hin blinda auðhyggja að nýta sára fátækt til þess að ná arði. Ef hinn bláfátæki sættir sig ekki við það sem að honum er rétt, þá er honum umsvifalaust hent á dyr í atvinnuleysið og örbirgðina.

Öfgakenndir hægri menn hafa leitt efnahagsstefnuna, málsvarar auðhyggjunnar. Hámörkun arðs á kostnað launamanna. Launamenn berjast fyrir sjálfsvirðingu og atvinnuöryggi þannig að þeir geti horfst í augu við vinnuveitanda sinn ekki á skó hans.

Einn af sjóliðsforingjum Napóleons sagði honum þegar hann kom heim frá Loocho eyju að þar væru engin vopn. Napóleon furðu lostinn; “Hvernig í ósköpunum fara þeir að því að berjast?” Svarið sem Napóleon fékk var; “Þeir berjast aldrei, þeir eiga nefnilega enga peninga.”

mánudagur, 22. desember 2008

Mútuþægni?

Ég fæ stundum sendar einkennilegar og órökstuddar fullyrðingar. En kannski lýsa þær best sendandanum.

Eiríkur Thor sendi inn eftirfarandi athugasemd til mín vegna pistils þar sem ég fjallaði um lífeyrissjóði:
Og svo má ekki gleyma því að almennir sjóðsfélagar hafa ekkert um það að segja hvernig þessum fjármunum er ráðstafað. Það gerir verkalýðselítan með Guðmund í fararbroddi og þeir pótintátar sem þeir koma fyrir til við stjórna sjóðunum, og margir þeirra þiggja mútur fyrir að fjárfesta á "réttum stöðum. T.d. eins og laxveiðiferðir og utanlandsferðir.

Svar :
Í undanfara ársfundar þess lífeyrissjóðs sem flestir rafiðnaðarmenn eru aðilar að, eru kjörnir á fundum stjórnarmenn sjóðsfélaga sem er helmingur stjórnarmanna. Hinn helmingur stjórnarmanna er tilnefndur af samtökum fyrirtækja í rafiðnaði.

Ég hef aldrei verið aðalmaður í stjórn lífeyrissjóðs, en var kjörin sem varamaður í fyrsta skipti fyrir 2 árum í umræddan lífeyrissjóð.

Á ársfundi lífeyrissjóðsins er fjárfestingarstefna lífeyrissjóðsins tekin til umfjöllunar og borinn upp á fundinum.

Ég hef einungis farið til veiða í tveim laxveiðiám. Faðir minn er fæddur og uppalinn á Auðunarstöðum í Víðidal. Systir hans ásamt bónda sínum tóku við búinu þegar afi og amma hættu að búa. Ég var þar í sveit í 10 sumur. Pabbi og Bjössi bóndi mágur hans voru af þeirri kynslóð sem vann alla daga ársins og tók helst aldrei orlof. En pabbi og Bjössi áttu sama afmælisdag 10. september.

Þeir veittu sér þann munað að leigja sér 2 daga í Víðidalsánni, afmælisdaginn og næsta dag við. Þegar þeir tóku að reskjast buðu þeir mér ásamt bróður mínum og mági okkar að skiptast á um að vera með sér við veiðarnar. Þannig að ég fór annað eða þriðja hvert ár að veiða í ánni með þeim pabba og Bjössa. Ég held að ég muni það rétt að ég hafi farið 6 eða 7 sinnum í ánna. Við greiddum sjálfir allan kostnað af þessum túrum.

Ég fór tvö haust með samstarfsmönnum mínum til veiða í Vesturdalsá í Vopnafirði. Við greiddum sjálfir allan kostnað af þessum túrum.

Þar með eru upptaldir allir þeir laxveiðitúrar sem ég hef farið á mínum lífsferli.

Ég hef að auki farið til veiða alloft í nokkrum silungsvötnum. Þann kostnað hef ég tekið að fengnu samþykki makans af heimilispeningunum, enda hef ég tekið börn okkar með í flesta þeirra túra.

Ég er nú búinn að vera í þessum bransa í 17 ár hjá Rafiðnaðarsambandinu og get ég fullyrt að enginn af stjórnarmönnum í RSÍ eða fulltrúum rafiðnaðarmanna í stjórn lífeyrissjóðsins hafi farið í utanlandsferð eða veiðiferð eða þegið mútur með öðrum hætti af fjárfestum eða öðrum. En Eiríkur Thor telur sig hafa vitneskju um slíkt og hvet ég, eða frekar krefst þess, að hann komi fram sem fyrst með þau mál svo hægt sé að taka á þeim. Ásakanir um mútuþægni eru líka alvarlegar.

Í lokin sendi ég Eirík Thor jólakveðjur með óskum um að hann megi njóta árs og friðar á komandi ári. Sé hann félagsmaður í samtökum rafiðnaðarmanna hvet ég hann eindregið að koma á fundi og taka þátt í kosningum og allri ákvarðanatöku og stefnumótun varðandi kaup og kjör rafiðnaðarmanna.

Sama á við um stefnu lífeyrissjóðsins, gott gengi hans er sannarlega hluti af kjörum rafiðnaðarmanna og félagsmenn Rafiðnaðarsambandsins skipta sér mikið af stefnu og rekstri sjóðsins, enda um 40% sjóðsfélaga. Eins og þeir eiga að gera. Lífeyrissjóður okkar er með töluvert betri réttindi en flestir aðrir sjóðir á almennum markaði, hraðari ávinnslu og töluvert hærri makalífeyri. Það er nefnilega töluverður munur á lífeyrissjóðunum og nánast ekki hægt að tala um þá alla í einni hendingu.

sunnudagur, 21. desember 2008

Græn uppbygging

Það er ánægjulegt að heyra hugmyndir um uppbyggingu kísilflöguverksmiðju í Hvalfirði. Sólarrafhlöður eru einn þeirra þátta sem munu leiða til minni losunnar gróðurhúsaloftegunda í andrúmsloftið. Við eigum að róa á þau mið.

Það eru nánast óendanlegir möguleikar á hinu svokallaða græna sviði sem á sér ört vaxandi stuðning í heiminum í dag. Það eru gríðarlegir möguleikar á sviði lífefnaiðnaðar og mikill áhugi að koma til Íslands. Það er þegar uppgangur á þessu sviði hér á landi en gæti verið töluvert meiri. Einnig liggur fyrir að það sé hagkvæmt að framleiða ákveðnar tegundir af grænmeti hér á landi með vistvænni raforku.

Við fráhvarf Bush og stefnu hans fylgisveina mun á næstu árum valda byltingu á sjónarmiðum gagnvart umhverfinu. Þessum viðhofum hefur verið haldið að íslendingum af hönnuðum þess efnahagskerfis sem hrundi til grunna í október síðastliðnum. Þeir gáfu sig út fyrir að vera sérstakir vinir Bush og þeirra ömurlegu sjónarmiða sem hann og skoðanabræður hafa troðið inn á veröldina síðasta áratug.

Það hefur ekki reynst vel að setja öll eggin í eina körfu. Fiskurinn var ráðandi á sínum tíma og það kostaði okkur margskonar rússíbanaferðir með efnahagslífið. Síðan lögðum við alltof mörg egg í bankakörfuna og slepptum frjálshyggjunni lausri og erum enn eina ferðina að upplifa rússibanaferð, þá svakalegustu allra.

Íslensk orka mun ekki falla í verði, þvert á móti munu verðmæti hennar margfaldast á komandi árum. Það væri því mikill fingurbrjótur ef núverandi stjórnvöld næðu því fram að selja enn stærri hluta af orku okkar í 40 ára samningi til álvera.

Mörg fyrirtæki hafa sýnt áhuga á að koma hingað með framleiðslu á borði við grunn sólarrafhlaðna og aflþynna eins og á að fara framleiða á Akureyri. Koltrefjaverksmiðja er einn af þeim áhugaverðu kostum sem okkur stendur til boða.

Það er er hröð þróun í rafgeymum og rafbílar munu taka við. Það er ekki ólíklegt að eftir 10 ár verði raforka a.m.k. helmingur þeirrar orku sem íslenskur bílafloti nýtir. Ekið verður inn á hleðslustöð og skipt um rafgeyma. Það kallar á orku úr raforkukerfinu sem samsvarar framleiðslu Kárahnjúkavirkjunnar. Þá værum við í mun lakari stöðu að þurfa að ef við værum búinn að selja mikinn hluta hagkvæmustu orkuframleiðslumöguleikan okkar í framvirkum samningum til erlendra auðhringa til margra áratuga.

Miklir möguleikar eru fyrir minni orkuframleiðendur en Landsvirkjun eins og t.d. bændur sem eru að byrja að virkja minni ár í eigin landi. Við getum með þeim hætti framleitt mikla orku vítt og dreift um landið og með því reist vistvænar verksmiðjur af heppilegri stærð, með mannaflaþörf á bilinu 50 – 200 manns.

Með góðri skipulagningu væri ekki um að ræða kollsteypuuppbyggingu eins og ríkisstjórnir okkar hafa tíðkað hingað til. Jafn stígandi mun leiða til stöðugleika, lægri verðbólgu og vöxtum sem gerir verðtryggingu óþarfa.

Jólaverkefni Alþingis


Fyrir stjórnvöldum liggur brýnt verkefni um að lækka vexti á lánum umtalsvert strax um áramótin. Huga verður að sérstökum aðgerðum vegna heimila sem við blasir gjaldþrot. Sérstaklega hjá þeim heimilum ekki hafa staðið í óráðsíu og en eru í skuldum sakir þess eins að vera að koma sér upp heimili og eru að gjalda þess að hafa fjárfest þegar óraunsætt yfirverð var á fasteignum og fá mikla verðbólgu og snarhækkandi vexti.

Hér ætti grípa til vaxtalausra lána í allt að 2 árum eða þartil jafnvægi er komið á efnahags- og atvinnulífið og einhverjum tilfellum gæti þurft að grípa til niðurfelling skulda að hluta. Örvænting og ókleifur múr blasir við mörgum í dag, minnkandi tekjur, jafnvel atvinnuleysi. Mikill kostnaðarauki fyrir samfélagið vegna splundraðra fjölskyldna og gjaldþrota heimila réttlætir að gripið sé til fyrirbyggjandi aðgerða jafnvel þó þær séu kostnaðarsamar.

Ríkisstjórnin ætti að láta af áralöngu þrasi um fokdýr eftirlaunasérréttindi sem hafa kostað samfélagið allt að 12 milljörðum ef marka má fréttir RÚV. Afnema þau og koma á öflugu samstarfi við stéttarfélögin og lífeyrissjóðina nú fyrir jólin með þetta að markmiði.

Það gæfi mörgum fjölskyldum meiri hugarró á jólunum.

Gönguskíði


Hæfileg líkamsrækt er að nauðsynleg til þess að ná ró á hugan. Góður göngu og skokktúr, rölt á Esjuna og svo á þessum árstíma gönguskíðin. Þessa viku er búið að vera fínnt færi í Heiðmörkinni, sama gildir um Leirurnar fyrir ofan Bláfjallaskálana.

Gönguskíðafélagið Usli tók sig til í sumar og tíndi allt stærra grjót úr götunni á Leirunum. Nú þarf minni snjó svo leiðin verði fær, án þess að eiga það á hættu að steypast á hausinn á steinnybbu og skemma auk þess að stigflöt skíðanna.

Þróun díóðuljósa sem í vaxandi mæli eru að koma í stað glóperunnar, hafa leitt til þess að nú eru til feykilega björt ljós fyrirferðalítil og eyða sáralítilli orku. Með þannig ljós spennt á höfuðið er vandalaust að fara af stað í rökkurinu í lok vinnudags. Það er vel ratljóst, sérstaklega ef það er stjörnubjart og kvöldkyrrðin hreinsar vel hugarskotin.

Göturnar í Hjöllunum í Heiðmörkinni fyrir ofan Gvendarbrunna er dýrðlegt útvistarsvæði. Þar hafa margir undanfarana daga vikið frá niðurdrepandi umræðu dagsins og hlaðið sig orku.

laugardagur, 20. desember 2008

Kattarþvotturinn

Þau viðhorf sem koma fram í umræðum þingmanna um eftirlaunalögin segja allt um hvernig þingmenn starfa þegar kemur að þeirra eigin skinni. Þeir afgreiða á nokkrum klst. lög sem skerða kjör öryrkja og lífeyrisþega um 4 milljarða. En það tekur nokkur ár að fá fram umræðu um þau kjör sem þeir skaffa sjálfum sér. Sumir alþingismenn halda því jafnvel hiklaust fram ekki sé um nein umfram kjör að ræða.

Til að minna enn einu sinni á um hvað málið snýst. Umframlífeyriskjör þingmanna að jöfnu við 23 - 35% mánaðarlega launauppbót. Í dag ávinna launamenn í almennum lífeyrissjóðum sér árlega lífeyrisrétt sem nemur frá 1.2% til 1,47%. Fyrir sama iðgjald ávinna ríkisstarfsmenn sem eru á A deild sér lífeyrisrétt sem nemur um 1,9%. Það er 20% hærri réttindi en sjóðfélagar í almennu lífeyrissjóðanna afla sér.

Auk þess hafa ríkistarfsmenn og þingmenn tryggingu frá ríkissjóð um að ávöxtun þeirra sjóðs skiptir engu þar þarf aldrei að skerða. En þingmenn settu aftur á móti lög um að almennir lífeyrissjóðir verði að skerða réttindi eigi þeir ekki fyrir skuldbindingum. Allir lífeyrisjóðir hafa tapað miklu vegna hruns bankanna. Þetta skiptir lífeyrissjóð opinberra starfsmanna og þingmanna engu þeir sækja skaðan beint í ríkissjóð.Réttindastuðull þingmanna er í dag 3%, það er 120% hærri ávinnsla en almennir launamenn hafa. Í kattarþvottatillögunni á að lækka hann í 2,4% af launum. Þingmenn eru 29 ár að ávinna sér 70% eftirlaunarétt. Almennir launamenn eru 41 ár að ávinna sér 56%.

Í kattarþvottartillögunni á ekki að afnema “dúsuna” frægu sem Davíð stakk upp í Össur, Steingrím og Guðjón til þess að fá þá til þess að renna eftirlaunafrumvarpinu í gegn. Kaflinn um sérlaun þingflokksformanna á að standa óbreyttur.

Allt annað en afnám eftirlaunalaganna í heild sinni og að þingmenn og ráðherrar njóti sömu lífeyrisskjara og aðrir opinberir starfsmenn er óásættanlegt og framhald spillingar.

fimmtudagur, 18. desember 2008

Batnandi fréttamennska

Með hverjum deginum sem líður þá batnar umfjöllun fjölmiðla um hrunið og aðdraganda þess. Ég er ekki einn um að hafa gagnrýnt hversu grunn umfjöllun fréttamanna hefur oft verið og ekki síður hvernig sumir viðmælenda þeirra hafa komist athugasemdalaust upp með innistæðulausar og órökstuddar fullyrðingar.

Mjög líklega er ein helsta skýring þess hversu fámennar fréttastofur eru ásamt því hve lítinn tíma fréttamenn fá til þess að kafa í fréttir og fylgja þeim eftir. Hafi næga þekkingu á málinu svo viðmælendur komist ekki upp með innihaldslaus svör, jafnvel komast upp með að beina athyglinni að einhverju öðru en spurt er um, smjörklípuaðferðinni þekktu.

Umræða undanfarinna daga hefur dregið fram með hvaða hætti fjármálamenn hafa í skjóli hliðhollra stjórnvalda leitt yfir íslensk heimili ómælda skelfingu. Loks eru fréttamenn farnir að beina sjónum sínum að rót hins spillta samfélags.

Við munum það svo vel að það voru málsvarar Sjálfstæðisflokksins sem hrósuðu sér fyrir hversu góðu umhverfi þeir hefðu komið á fyrir fjármálamennina og hversu mikla fjármuni það myndi draga ú þjóðarbúið að fá enn fleiri hingað.

Þeir reyndust síðan þjóðinni með þeim hrikalega hætti og komið er fram. En þá vilja Sjálfstæðismenn ekki kannast við gjörðir sínar og sverja af sér þann ósóma sem þeir höfðu alið upp og skapað svigrúm með reglu- og lagaleysi sínu. Frjálshyggjan vill ekki lög og reglur, en öll önnur siðmenntuð stjórnvöld hafa litið á það sem sjálfsagða skyldu sína að verja þjóðfélagsþegna fyrir fjárglæframönnum.

miðvikudagur, 17. desember 2008

Helköld staða

Viðtalið við fyrrv. forsætisráðh. Svíþjóðar í Sjónvarpinu í gærkvöldi var upplýsandi. Ég hef reyndar heyrt þetta allt áður á þeim norðurlanda ráðstefnum sem ég hef sótt seinni hluta þessa árs og fjallað um hér.

Það eru íslenskir stjórnmálamenn sem ekki hafa staðið sig í stykkinu við að setja samskonar lög og halda úti virkum eftirlitstofnunum og eru í öðrum Evrópulöndum um fjármálafyrirtæki, fyrirtæki, upplýsingaskyldu, flutning fjármagns og peningaþvottavélar staðsettar erlendis í eigu erlendra fyrirtækja í eigu íslendinga.

Það voru íslendingar sem kusu stjórnmálamennina og þess vegna eru það íslendingar sem bera ábyrgð á þeim sem þeir kusu til valda, sagði Göran. Það var íslenska frjálshyggjan sem dró íslenska þjóðfélagið í frá norrænu þjóðfélagsumgerðinni. Íslenskir stjórnmálamenn ásamt forseta landsins fóru í boði fjármagnsfurstanna í heimsreisur og auglýstu sjálfa sig og fluttu erindi um að þeir stjórnuðu besta frjálshyggjuríki í heiminum.

Á Íslandi væri svo mikið frelsi fyrir peningamenn að þeim væri frjálst að eiga peningaþottavélar, sem ekki væri skráðar á þá sem ættu þær. Þeir auglýstu eftir fleirum fjárglæframönnum og buðu þeim heim til Íslands, sem þeir væru óðum að breyta í fjármálaparadís.

„Á þessu bera íslenskir kjósendur ábyrgð. Þeir geta ekki sent þá ábyrgð annað“, sagði Göran kúabóndi og fyrrv. forsætisráðherra Svíaríkis.

Það voru margir sem vöruðu við hvert stefndi í fyrir síðustu kosningar. En frjálshyggjumennirnir sögðu að þar færi öfundarmenn og afturhaldssinnaðir norðurlandakratar og við kusum þá áfram til valda.

En nokkrir vildu trúa og tóku hvert lánið á fætur öðru. Lán til þess að kaupa sér stærra hús, og annað til þess að kaupa sér stærri bíl. Svo eitt lán til þess að byggja sumarbústað og annað lán til þess að fá sér heitan pott og skella sér til útlanda á fótboltaleik og kaupa leikföng.

Þessi lán voru tekin í banka sem var í eigu þeirra sem áttu líka flugfélagið og leikfangabúðina í London og fótboltafélagið. Þeir áttu svo útbú erlendis, sem tóku að sér að geyma sparnað fyrir enskan og hollenskan almenning til þess að geta skaffað nógu mikið af lánum heima á Íslandi og tóku svo sjálfir drjúgan hlut af þessu og fluttu erlendis í athafnalausu skjóli íslenskra stjórnmálamanna og embættismanna þeirra, sem héldu að þeir væru búnir að finna upp hina eilífu paradís og buðu hingað helstu predikurum frjálshyggjunnar. Sjálfur forsætiráðherra tók á móti þeim og blessaði í fréttum Stjónvarpsins

„Færðu séreign þína úr lífeyrissjóðnum þínum til okkar“ auglýstu bankarnir, og hættu að borga í verkalýðsfélagið og sjúkrasjóðinn og láttu okkur fá þessa peninga og við búum til „special díl“ fyrir góða kúnna.

Við skulum ávaxta peningana þína þá á okkar sérhönnuðu reikningum og peningarnir munu vinna fyrir þig. En nú er hinn sérhannaði reikningur horfinn og bankinn svarar ekki símanum., kvartar fólkið undan þegar það hringir örvinglað í okkur starfsmenn stéttarfélaganna.

Og nú er annað stórt vandamál að koma upp á borð starfsmanna Vinnumálastofnunar, neðanjarðarhagkerfið. Þeir fjölmörgu sem unnu svart og voru „verktakar“ eru að uppgötva að þeir eiga engan rétt í kerfinu vegna þess að launatengdum gjöldum hefur ekki verið skilað.

En svo voru reyndar mikið fleiri íslendingar, sem fóru varlegar. Þetta fólk krefst þess að þeirra hagsmuna sé líka gætt. Það hefur greitt 12% af sínum launum í lífeyrissparnað og stóð í skilum með sína skatta, á meðan aðrir nýttu þessa fjármuni í einkaneysluna og gerðu grín af litlum bílum og umsvifum hinna skilvissu. En nú krefst þetta fólk þeirra sparifé fara ekki til þess að að greiða upp skuldir annarra.

Það eru helkaldar afleiðingar sjálfumglaðra stjórnmálamanna og embættismanna þeirra sem nú liggja á borðum Alþingis og eru að taka stefnuna pakkaðar í gluggaumslög inn um póstlúgur íslenskra heimila.

Hverja skyldu íslendingar kjósa næst?

þriðjudagur, 16. desember 2008

Fjölmiðlar

Já hún er neyðarleg uppákoman á DV. Álit á fjölmiðlum hefur fallið undafarið ár álíka mikið og álit á stjórnmálamönnum. Fjölmiðlar hafa ekki staðið við hlið almennings, þeir hafa ætíð tekið á stjórnmálamönnum með silkihönskum og nú er komin fram staðfesting á að sá fjölmiðill sem hefur verið að hrósa sjálfum sér fyrir að þora, að hann þorir einungis gegn einstaklingum sem standa höllum fæti og geta ekki borið hönd fyrir höfðuð sér, en þorir ekki gegn einstaklingums em eiga peninga.

Það hefur svo sem blasað við okkur öllum hvernig fjölmiðlar hafa tekið með einkennilega á málum. Þar mætti taka til mörg mál. T.d. er ekki langt síðan að fréttaskýringaþáttur og reyndar einnig þekktur spjallþáttur hleyptu athugasemdalaust einstakling í beina útsedningu, þar sem hann bar saman ávöxtun í sameignarlífeyrissjóð saman við bankabók. Hann áætlaði með 3,5% hjá lífeyrissjóðnum en með 8% ávöxtun í bankabókinni.

Allir yfir fermingu og sem kunna margföldunartöfluna sáu að þetta gat ekki verið annað er endaleysa. En stjórnendur þáttanna sem báðir eru í ríkissjónvarpinu gerðu enga athugasemd og grófu þar vísvitandi undan þeim þætti þjóðlífsins hefur reynst eina bjargvon landsins.

Til viðbótar við mismunum í ávöxtun vita allir sem fylgjast með utan líklega þáttarstjórnendanna að sameignarlífeyrissjóður þurfa allir að taka þátt í örorkubótakerfinu, sem hefur farið hratt vaxandi á undaförnum árum og jafngilti líklega um 3% skattahækkun ef hann væri fluttur yfir í almenna tryggingarkerfið.

Fleira mætti taka. Ég hef t.d. í pistlum margoft vísað til ummæla frétta- og tæknimanna þar sem þeim hefur verið gert að spyrja ráðherra ekki ákveðinna spurninga og ekki senda út efni sem gæti verið skaðlegt ráðandi valdhöfum. Nú einnig mætti benda á að fyrir einungsi nokkrum vikum þá gerðu nær allir fréttamiðlar nánast grín af þeim sem voru að mótmæla og tóku undir með stjórnvöldum þegar þau töluðu um skrílslæti, eða svo maður vitni til ekki svo gamalla ummæla í fréttum, að það væri verið að saurga Alþingi með því að mótmæla á Austurvelli.

Sama gerðu fjölmiðlar þegar verkalýðshreyfingin mótmæli harkalega setningu eftirlaunalaga, og sérstakri hækkun launa alþingis og embættismanna á meðan laun almennings voru skert með ákvörðunum á Alþingi. Já svona mætti lengi telja.

En manni virðist fjölmiðlar hafi tekið sig verulega á, en svo kom þessi skellur og fjölmiðlar hrapa aftur í áliti.

mánudagur, 15. desember 2008

Eftirlaunalögin

Enn reyna ráðherrar að viðhalda sérstöðu sinni í lífeyrismálum og vilja halda liðlega tvöfallt hærri lífeyrisréttindum en aðrir opinberir launamenn. Það tók þá nokkrar klst. að lækka lífeyrisréttindi annarra landsmanna núna fyrir helgi, sama gilti um að keyra niður launakjör almennra launamanna.

En þegar að þeim sjálfum kemur þá draga þeir fæturna.

Það er einungis ein lending í þessu máli. Afgreiða lagafrumvarp Valgerðar um afnám eftirlaunalaganna, eins og Samfylkingin lofaði í síðustu kosningabaráttu.

Verðtrygging

Í umræðum um verðtryggingu kemur sjaldnast fram hvað fólk vill í staðinn. Þegar fólk tekur lán getur það valið um breytilega vexti, erlenda myntkörfu eða fasta vexti og verðtryggingu. Verðtrygging er mishá eftir hversu há verðbólgan er. Með föstum vöxtum og verðtryggingu er í raun verið að velja greiðsludreifingarleið þar sem afborganir eru lægri en þær eiga að vera fyrri hluta lánstímans.

Fjölmargir hafa undanfarið útskýrt mjög vel hvernig lánakerfið virkar. Auk þess eru nokkrir sem hafa gefið út þær yfirlýsingar að verðtryggingin eigi að fara. Ég er því algjörlega fylgjandi og taka upp breytilega vesti eins og tíðast í nágrannalöndum okkar. Ég hef kynnt mér málið eins vel og ég get og komist að þeirri niðurstöðu að það sé einungis ein leið fær, það er að losna við krónuna og taka upp alvöruefnahagsstjórn hér á landi og fylgja nágrannaþjóðum okkar.

Sumir hafa lagt til að strika einfaldlega út verðtryggingu, ef ekkert annað væri að gert, leiðir það til þess að verið væri að færa greiðslur á lánum allra yfir á gamalt fólk og öryrkja sem er með sparifé sitt í lífeyrissjóðnum sínum og bönkunum. Mér er óskiljanlegt af hverju á þetta ráðdeildarsama fólk sem hefur safnað upp sparifé, eigi að sætta sig við að það sé nýtt til þess að greiða skuldir annarra?

Sumir lýðskrumarar hafa þá sagt að þetta sé allt verkalýðsforystunni að kenna, hún hugsi einungis um hagsmuni lífeyrisjóðanna. Það er einfaldlega ekki rétt. Lífeyrissjóðirnir eiga engar eignir. Það eru aftur á móti sjóðsfélagar í viðkomandi lífeyrissjóð sem eiga sparifé sitt í lífeyrissjóðum.

Sjóðsfélagar eru í langflestum tilfellum félagsmenn í stéttarfélögum. Á fundum stéttarfélaga er oft fjallað um lífeyrissjóðina og ávöxtum þeirra og þess krafist að séð verði til þess að farið sé að lögum og fjármunir í lífeyrissjóðum fari einungis í að greiða örorku- og lífeyrisbætur. Ekki í að greiða upp skuldir fólks sem jafnvel er ekki einu sinni í viðkomandi lífeyrissjóð.

Í þessu sambandi hvað varðar verkalýðsforystuna er einnig ástæða að geta þess að það er Alþingi sem setur lög um lífeyrissjóði. Það er hlutverk stjórna sjóðanna að fara að þessum lögum. Hvorki stjórnir sjóðanna eða ársfundir þeirra gætu tekið það upp hjá sjálfum sér að nýta það sparifé sem er í lífeyrissjóðunum til annarra hluta en fram kemur í landslögum.

Ef tekið er lán með breytilegum vöxtum í íslensku hagkerfi, þar sem verðbólga sveiflast upp og niður um tugi prósenta, þá sveiflast vextir líka upp og niður. Sama gildir um verðmöt. Ef verðbólgan fer upp fyrir 3% verða afborganir lána á breytilegum vöxtum svo háar fyrri hluta lánstímans að fáir ráða við þær. Svo maður tali nú ekki um þegar verðbólgan er kominn á annan tug prósenta. Þess vegna var tekið upp greiðsludreifingarkerfi eins og verðtryggingakerfið.

Það er einungis ein leið til þess að losna við verðtryggingu, komast með íslenska hagkerfið í umhverfi þar sem verðbólga er lág og stöðugleiki ríki. Það verður aldrei hægt að losna við verðtryggingu meðan við höfum krónuna.

Sumir virðast telja að hægt sé að velja föstu vextina í stað breytilegu vaxtanna og strika svo út verðtryggingu. Það er að segja greiða einungis hluta afborgunar lánsins. Valið stendur á milli breytilegra vaxta eða fastra vaxta og verðtryggingar.

Mjög einfaldað dæmi : Tekið er 20 millj. kr. lán. í 40 ár. Afborganir af láninu sjálfu eru 500 þús á ári.

Á breytilegum vöxtum sem hafa verið upp á síðasta ári 20% þá væri vaxtagreiðsla þessa láns 4 millj. kr. fyrsta árið. Það er að viðkomandi þyrfti að greiða af láninu 4.5 millj. kr. fyrsta ári, eða tæp 400 þús. kr. á mán.

Með verðtryggingu og föstum 5% vöxtum þá væri afborgunin eftir sem áður 500 þús. kr. á ári og vaxtagreiðsla 1 millj. Afborgun fyrsta árið væri þá 1.5 millj. kr. á mán. eða um 130 þús. kr. á mán. Með þessu er greinilega verið að flytja hluta af vaxtagreiðslu það er 3 millj. kr. yfir á seinni hluta lánstímans. Einhver verður að inna af hendi þessa greiðslu.

Svo það sé ljóst vegna margendurtekinna ummæla á aths. síðunum. Þá þekki ég engan hvorki í verkalýðshreyfingunni eða í samtökum atvinnurekenda sem er fylgjandi hárri verðbólgu, sem leiðir til hárra vaxta, sem síðan leiða til greiðsludreifingarkerfis eins og verðtryggingarkerfið er.

Verðtryggingarkerfið var samið af þáverandi forsætisráðherra Ólafi Jóhannssyni og sett á af Alþingi, til þess að koma á langtímalánum hér á landi óstöðugleikans og hárrar verðbólgu.

sunnudagur, 14. desember 2008

Fram fram gegn þeim sem minnst mega sín

Enn liggur frumvarp Valgerðar um afnám eftirlaunasómans undir stól Birgis Ármannssonar að skipan Geirs og Valhallar. En á föstudaginn var á einum degi rúllað í gegnum Alþingi frumvarpi þar sem lífeyrir þeirra sem minnst mega sín var skertur um 4 Mia.

Mörg okkar héldu á sínum tíma að það hefði verið Davíð og Halldór sem ruddu þessu í gegnum þingið á sínum tíma, en nú er ljóst að það eru fleiri. Davíð hélt því fram að frumvarpið kostaði ekki nema 6 millj. kr. Þekktir hagfræðingar sögðu að kosntaðurinn myndi nema nokkrum hundruðum milljónum kr. Síðar kom í ljós að það var rétt, kostnaðurinn við eftirlaunaósómann var nálægt 600 millj. kr.

Samkvæmt útreikningum hagdeildar Samtaka atvinnulífsins má leggja umframlífeyriskjör þingmanna að jöfnu við 23 - 35% mánaðarlega launauppbót. Umframlífeyriskjör ráðherra sem gegnir embætti í þrjú kjörtímabil eru ígildi vel á annað hundrað milljóna króna starfslokagreiðslu og 66 - 79% mánaðarlegrar launauppbótar. Umframlífeyriskjör forsætisráðherra sem situr í tvö kjörtímabil eru ígildi tæplega 200 milljóna kr. starfslokagreiðslu eða 122% launauppbótar.

Ef við skoðum þetta frá öðru sjónarhorni, það er ávinnsluhraðanum. Í dag ávinna launamenn í almennum lífeyrissjóðum sér árlega lífeyrisrétt sem nemur frá 1.2% til 1,47%. Fyrir sama iðgjald ávinna ákveðnir ríkisstarfsmenn sér lífeyrisrétt sem nemur um 1,9%. Það er 20% hærri réttindi en sjóðfélagar í almennu lífeyrissjóðanna afla sér.

Réttindastuðull þingmanna er í dag 3%, það er 120% hærri ávinnsla en almennir launamenn hafa og þeir ætla að lækka hann í 2,4% af launum í þeim kattarþvotti sem lagður var fram um daginn. Þingmenn eru 29 ár að ávinna sér 70% eftirlaunarétt. Almennir launamenn eru 41 ár að ávinna sér 56%.

Réttindastuðull ráðherra er í dag 6% það er 240% hærra en almennir launamenn hafa. Í kattarþvottinum er lagt til að hann verði 4,8% af launum. Ráðherrar eru þar með 14,5 ár að ávinna sér 70% eftirlaunarétt og þurfa eftir það ekki að greiða af launum sínum í lífeyrissjóð svo fremi þeir greiði í lífeyrissjóð opinberra starfsmanna. Til samanburðar má geta þess að þá hafa sjóðfélagar almennnu sjóðanna unnið sér inn að meðaltali um 16% lífeyrisrétt eftir 14,5 ára greiðslu í sjóðinn.

Þegar samið er um laun á almennum markaði er ætið tekið mið að heildarlaunakostnaði fyrirtækjanna, en þegar þingmenn fjalla aftur á móti um sín launakjör fjalla þeir ætíð einungis um lágmarkslaunataxta, þ.e.a.s. þingfararkaup um hálfa milljón kr. Í raun eru laun þingmanna helmingi hærri eða vel á aðra millj. kr. á mán. að jafnaði og laun ráðherra liðlega 2 millj. kr.

Það er gífurlegt ósamræmi á milli þeirra lífeyriskjara sem lögfest hafa verið hér fyrir almenning í landinu og fyrir opinbera starfsmenn í A-deild lífeyrissjóða og hins vegar þess sem alþingismenn og ráðherrar hafa lögfest fyrir sjálfa sig. Hér er um að ræða stærstu og dýrustu starfslokasamninga sem um getur hér á landi og eru gríðarlega dýrir fyrir skattborgara landsins.

Í fjárlögum hvers árs er veitt háum fjárhæðum til að greiða niður þessar skuldbindingar sem þar hafa hrannast upp, en það dugar það hvergi nærri til að halda í horfinu. Þessar skuldbindingar eru á annað hundrað milljarðar króna þrátt fyrir að B-deildinni hafi verið lokað 1997, en þetta er svo enn í gangi í svokölluðum lífeyrissjóði alþingismanna og ráðherra.

Almenningur gerir þá kröfu að þingmenn fari fyrir öðrum frekar en að setja sjálfum sér einhver forréttindi. Á meðan þetta er ekki leiðrétt eru á Alþingi samankominn spilltasti hópur þessa lands.

laugardagur, 13. desember 2008

Ósannindi

Í gær kom forsætisráðherra fram í fjölmiðlum og sagði ASÍ vera með ósannindi um að þær hækkanir sem ríkisstjórnin keyrði gegn myndu hækka vísitöluna og um leið lán landsmanna. Hann kom svo aðeins síðar og viðurkenndi að þetta hefði verið rétt hjá ASÍ, en svo komu aldeilis fáránlegar útskýringar og útúrsnúningar. Manni er talið í trú um að Geir sé velmenntaður hagfræðingur.

Geir hefur margítrekað verið staðinn að því að fara með ósannindi um hag landsins og oftast hengt sig í einhverjum ásökunum á samtök launamanna. Í þessu sambandi má vísa til ummæla hans um efnahagsmál og stöðu bankanna þegar ASÍ krafðist þess síðasta vetur lagt væri upp 2 – 3 ára plan til þess að takast á við efnahagsvandann. Geir gaf alltaf út yfirlýsingar um að allt væri í lukkunar velstandi og hann ætlaði ekki að láta atvinnulífið segja sér fyrir verkum.

Nú hefur komið fram að allir forsætisráðherrar og seðlabankastjórar Norðurlandanna ásamt forsætisráðherra Englands ræddu oft við Geir fyrri hluta þessa árs um hversu alvarleg staða Íslands væri. Einnig segist Seðlabankastjóri Ísland hafa átt fund með ríkisstjórninnu í vor og bent henni á að íslenskir bankar væru í raun gjaldþrota. Það kom síðar fram að þetta var víst eitt símtal við Geir. En það liggur fyrir að Geir sagði þjóðinni sísvitandi ósatt.

Dagana fyrir hrunið sagði Geir við þjóð sína að þetta myndi bjargast ef lífeyrissjóðirnir kæmu heim með 200 Mia af eignum sínum. Forsvarsmenn lífeyrissjóðanna sögðust ekki gera það nema að Geir gengi til samstarfs við aðila vinnumarkaðs um 2 – 3 ára plan um að takast á við efnahags- og gjaldeyrisvandan, því annars væri verið að henda þesusm peningum á glæ. Þessu hafnaði Geir og gaf út þá yfirlýsingu að hann teldi kröfur lífeyrissjóðanna óaðgengilegar. Nokkrum dögum síðar hrundi allt og kom fram að það var rétt að Geir ætlaði sér að henda þessum fjármunum á glæ, bara til þess að bjarga málunum í nokkurn tíma.

Síðan þá hefur Geir verið með allskonar aðdróttanir garð samtaka launamanna og ekki síður í garð nágrannalanda okkar. Nú hefur komið í ljós að allt frá því um miðjan október hefur legið fyrir samkomulag við Alþjóðagjaldeyrisvarasjóðinn og hvað ríkisstjórnin yrði að gera. Allan þennan tíma hefur Geir sagt þjóð sinni ósatt.

Nú reiknar maður með að aðrir ráðherrar hafa búið yfir samskonar vitneskju. En ef marka má ummæli viðskiptaráðherra þá er nú ekki einu sinni hringt í hann og hann fær fréttir af því hvað ríkisstjórnin er að gera í Morgunblaðinu.

Stjórnvöld

Á bannárunum kom Björn Blöndal framlengd hönd stjórnvaldsins til þess að fá íslendinga til þess að hætta að drekka brennivín, til höfuðstaðar Þingeyjarsýslu og ræddi við yfirvaldið um hvernig best væri að standa að því að finna bruggara í sýslunni. Yfirvaldið sem var þekkt fyrir að vera raunsætt og vel á nótunum um skoðanir fólksins í landinu, taldi best væri að fá bændur til að leita á eigin landi, því þeir þekktu það best. Ekki leyst Blöndal á áætlun yfirvaldsins.

Nú er því haldið að okkur að tímarnir séu breyttir.

Er það svo? Stjórnvaldið hefur falið yfirmönnum bankana að passa upp á gögn og rannsaka sig sjálfa.

Þegar Rússar og Kínverjar sendu hvorum öðrum tóninn, skömmuðu þeir alltaf Albaníu, en allir vissu við hvað þeir áttu. Nú eru innanflokksátök í Sjálfstæðisflokknum komin á það stig að þingmenn flokksins eru farnir að krefjast afsagnar ráðherra Samfylkingarinnar en eiga augljóslega við eigin ráðherra.

Ef ég skil ummæli formanns og varaformanns Sjálfstæðisflokksins rétt, þá voru þeir rétt í þessu að finna upp snjalla lausn framtíðarlausn fyrir Ísland. Það er samstarf við nágrannalönd okkar sem einnig eru í samstarfi sem heitir Evrópusambandið. Þessu lönd eru einnig með gjaldmiðil eftir því sem forystumenn Sjálfstæðisflokksins voru að uppgötva og heitir Evra

Austurvöllur kl. 15.00

Austurvöllur 13. desember 2008, klukkan 15.00
Margar glæsilegar ræður hafa verið fluttar á Austurvelli á fjölmennum mótmælafundum undanfarnar 9 vikur. Yfirskrift þeirra hefur verið Breiðfylking gegn ástandinu. Í undanfara jólanna hefur skiljanlega dregið úr aðsókn á fundina. Mæður og feður vilja búa börnum sínum gleðileg og friðsæl jól. Slíkt er sjálfsagt og eðlilegt, en um leið er engin ástæða til að leggja fundina af.

Þessar aðstæður kalla hins vegar á breytt fundarform.Því hefur verið brugðið á það ráð að fresta ræðuhöldum, með tilheyrandi kostnaði vegna leigu á tækjabúnaði, og halda þess í stað kyrrðar og friðarstund. Fólk er hvatt til að mæta á Austurvöll nk. laugardag, 13. desember, klukkan 15.00 og sýna samstöðu gegn ástandinu með 17 mínútna þögn.

Í fyrstu fréttatilkynningunni um þennan viðburð var fólk hvatt til að lúta höfði en það er hérmeð tekið til baka.

Á bakvið tjöldin er unnið af mikilli elju og dugnaði við að undirbúa frekara andóf gegn ríkisstjórninni, sem er rúin trausti mikils meirihluta þjóðarinnar. Stefnt er að öflugum aðgerðum strax að hátíðum afloknum og fyrr ef ástæða þykir.

Raddir fólksins

Kveðja, Hörður Torfason

fimmtudagur, 11. desember 2008

Endalaus nauðhyggja

Enn einu sinni virðist eiga að nota bygginga- og verktakaiðnaðinn sem yfirfallsventil í lausn efnahagsmála. Forsvarsmenn Noregs, Svíþjóðar og Finnlands sem öll hafa lent í bankakrísum síðan 1990 hafa sagt í umfjöllun sinni að það séu nokkur grundvallaratriði sem verði að varast.

Gera ráðstafanir til þess að lágmarka gjaldþrot heimila. Það hafi kostað ríkið meiri fjármuni þegar upp var staðið, að hafa ekki varist betur á þeim vígstöðvum.

Og ekki síður gera ráðstafanir til þess að lágmarka atvinnuleysi. Finnar segja til dæmis að það sé stærsta glappaskotið sem þeir gerðu og þeir séu enn að glíma við afleiður þess vanda.

Norðmenn lánuðu sveitarfélögunum vaxtalaust til þess að halda uppi byggingarstarfsemi. Hún sé súrefnið sem haldi atvinnulífinu gangandi. Það blasir t.d. við hvort við séum í niðursveiflu eða ekki að þjóðin er að eldast. Það er að segja að á næstu árum fara barnasprengjuárgangarnir stóru að komast á lífeyrisaldurinn.

Íslenska lífeyriskerfið er miðað við að þola það fall með mikilli uppsöfnun fram að þeim tíma. Margir hafa misreiknað sig illilega á þessu þegar þeir eru að sjá ofsjónum yfir þeim miklu fjármunum sem eru að safnast upp í kerfinu, en eins þekkt er þá byrja þeir sópast út eftir árið 2014.

Í síðustu kosningum kom fram að það væri nauðsynlegt að byggja allt að 1.000 íbúðum með félagslegu umhverfi bæði fyrir öryrkja og ellilífeyrisþega á þessu kjörtímabili og annað eins á því næsta.

Það væri nú aldeilis verðugt verkefni að nýta þá fjármuni sem annars færu beint í tilgangslaust atvinnuleysi til þess að taka á þessu verkefni. Þetta hafa stéttarfélög byggingarmanna reyndar hamrað allt síðasta ár þess að fá nokkrar undirtektir hjá ríkistjórninni.

Nú blasir við að atvinnuleysi er hratt vaxandi og því er spáð að það geti farið allt upp í 50% meðal byggingarmanna á vissum svæðum eftir áramót verði ekkert að gert. Hér ekki einungis um iðnaðarmenn að ræða, einnig arkitekta og verkfræðinga ásamt byggingarverkafólki.

Fjárlagadrögin eru áfall fyrir þetta fólk. Hreint út sagt reiðarslag. Það er lenska hjá íslenskum stjórnvöldum að ráðast aldrei að lausnum vandamála fyrirfram. Það er ætíð unnið aftur fyrir sig og eins og nú er að koma fram þá eru þeir búnir að veltast um með vandamál allt þetta ár, leyna öllum sannleikanum.

Endalaus nauðhyggja einkennir vinnubrögð þessara vonlausu einstaklinga. Sem 30 menn og 3 konur eru búnar að spila með eins og dúkkulísur og nú á að fara setja einhver afturvirk lög til þess að reyna hisja upp um sig.

Reyndar hljóta menn að velta fyrir sér hvert þeir hafa farið milljarðatugirnir sem ríkissjóður hefur hrifsað til sín á undanförnum árum í hratt vaxandi sköttum og óbeinum sköttum. Væri ekki hægt að hreinsa eitthvað til í ríkiskerfinu. Þarf þetta allt að bitna á almenna vinnumarkaðn um?

miðvikudagur, 10. desember 2008

Góður gestur

Göran Person fyrrverandi forsætis- og fjármálaráðherra Svíþjóðar er áhugaverður og þarfur gestur er hér á landi. Maður sem getur kennt íslenskum ráðamönnum margt hafandi stýrt Svíum í gegnum bankakreppu í byrjun síðasta áratugar. Hann segir að Evrópusambandsaðild hafi skipt sköpum fyrir Svía til að vinna bug á kreppunni.

Svíar þurftu að endurskipuleggja nánast allt sitt fjármálakerfi. Göran leggur á það áherslu að við verðum að endurheimta trúverðugleikann. Yfirvöld verði að hafa skýra aðgerðaáætlun. Fólk verði að vita hvert eigi að stefna og þekkja markmiðin. Hafi fjármunum verið komið undan í bankahruninu væri lífsnauðsyn að ná aftur eins miklu af því fé því það væri eign þjóðarinnar.

Ég hef reyndar komið að þessu öllu nokkrum sinnum áður í pistlum hér á síðunni, þar sem ég hef verið að vitna í ummæli nágranna okkar frá ráðstefnum sem ég hef verið þátttakandi á. Margoft hefur komið fram að Svíar hafa ásamt öðrum nágrannalöndum sett íslenskum ráðamönnum ákveðin skilyrði. Það var gert vegna þess að íslenskir ráðamenn hafa allt fram á síðustu daga þverskallast við að horfast í augum við staðreyndir og hafa forsætisráðherra ásamt samflokksmönnum hingað til kallað ráðleggingar annarra Norðurlanda kúgun. Það segir okkur hversu veruleikafyrrtir íslenskir ráðherrar eru.

Hverju breytir ESB aðild fyrir íslenska neytendur?

Ég hlusta óneitanlega dáldið undrandi á ræður þeirra sem hafna því að ræða við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (AGS), auk þess að því er hafnað að skipta um gjaldmiðil og því er hafnað að ganga í ESB.

Staðreyndin er nú sú að allir sem voru tilbúnir að lána okkur fjármuni settu það sem skilyrði að það færi í gegnum AGS, annars fengjum við ekkert. Þetta átti m.a. við öll Norðurlöndin. Þar var m.a. átt við að taka yrði á þeirri spillingu sem væri hér í fjármálum og þeirri „hyglingu“ sem ráðandi stjórnmálamenn nýttu sér.

Ljóst er að ef við fengjum engin lán þá var þjóðargjaldþrot og allur innflutningur legðist af, lyf, matvara, eldsneyti og fl. Allir erlendir bankar settu sömu skilyrði.

Íslenska krónan hefur verið nýtt af fjármálamönnum til þess að hagnast á óförum hennar og hún er svo lítil að þeir geta auðveldlega skapað sveiflur sem eru þeim hagstæðar en bitna á íslenskum heimilum í formi falls krónunnar, hækkandi verðbólgu og vaxta.

Í nágrannalöndum okkar sem eru innan ESB er verðlag lægra, verðbólga 2 – 4%, vextir 4 – 6%. Þar ríkir stöðugleiki og þar er getur fólk gert langtímaáætlanir um uppbyggingu heimila sinna sem standast.

Fyrirtækin segjast ekki geta rekið sín viðskipti með krónunni og utan ESB, störfum hér fækkar.

Á þessu skoðuðu bíð ég eftir að menn útskýri fyrir mér hvað menn ætli þá að gera annað.


Hverju myndi ESB aðild breyta fyrir íslenska neytendur?
Evrópufræðasetrið við Háskólann við Bifröst hefur unnið skýrslu fyrir Neytendasamtökin „Hverju myndi ESB aðild breyta fyrir íslenska neytendur?“ Í skýrslunni eru skoðaðir kostar og gallar og þeir metnir út frá hagsmunum íslenskra neytenda.

Helstu niðurstöður eru:
· Með aðild að ESB yrði Ísland um leið aðili að tollabandalagi ESB. Því myndu þeir tollar sem enn eru milli Íslands og ESB landanna falla niður og munar þar mestu um landbúnaðarvörur. Þetta myndi skila sér í lægra verði á þessum vörum. Tollar gagnvart ríkjum utan ESB gætu í sumum tilvikum hækkað.

· Með aðild að tollabandalaginu myndu netviðskipti við fyrirtæki innan ESB verða ódýrari og einfaldari. Slíkt myndi auka samkeppni gagnvart ýmsum innlendum fyrirtækjum.

· Ljóst er að samhliða aðild þyrfti að endurskipuleggja íslenskan landbúnað á sama hátt og Svíar og Finnar gerðu áður en þessi lönd gengu í ESB. Draga þyrfti úr stuðningi við íslenskan landbúnað en nú er sá stuðningur með því hæsta sem gerist. Það er hins vegar ljóst að við eigum góða möguleika að ná samningum varðandi stuðning við innlendan landbúnað miðað við þá samninga sem Finnar náðu fram, þar sem allt Ísland fellur undir skilgreiningu um landbúnað á harðbýlu svæði eða heimsskautalandbúnað. Vegna þessa eru möguleikar á að fá meiri styrki til íslensks landbúnaðar frá ESB en lönd sunnar í álfunni fá. Einnig er mögulegt að íslensk stjórnvöld fengju heimild til að styrkja landbúnað sinn meira en gildir um önnur lönd innan ESB.

· Talið er að matvælaverð geti lækkað um allt að 25% með inngöngu Íslands í ESB.

· Með aðild að myntbandalagi ESB má gera ráð fyrir að vextir á íbúðarlánum myndu lækka töluvert. Erfitt er hins vegar að segja til um hve mikil sú lækkun yrði. Minnt er á að hvert prósentustig hefur mikla þýðingu fyrir heimilin.

· Með aðild að ESB og myntbandalaginu myndi viðskiptakostnaður lækka og ætti slíkt að leiða til lægra vöruverðs.

· Ætla má að með aðild myndu viðskipti og fjárfestingar erlendra aðila aukast hér á landi og þar með yrði samkeppnin meiri.

· Með aðild að ESB myndu Íslendingar geta sótt í ýmsa sjóði sem ekki er mögulegt í dag. Þar má nefna styrki til landbúnaðar og til byggðamála. Einnig yrði samstarf við lönd ESB öflugra á ýmsum sviðum eins og í mennta- og menningarmálum, rannsóknum og félagsmálum.

Rétt er að taka fram að Neytendasamtökin eru ekki með þessari skýrslu að taka afstöðu hvort við eigum að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Neytendasamtökin vilja hins vegar leggja sitt að mörkum til að fram fari opinská og málefnaleg umræða um kosti og galla slíkrar aðildar og er skýrslan framlag samtakanna til þeirrar umræðu.

þriðjudagur, 9. desember 2008

Losun séreignasparnaðar

Í séreignarsparnaði landsmanna eru um 250-300 milljarðar. Nú spá sumir stjórnmálamenn í hvort breyta eigi lögum þannig að eigendur séreignarsparnaðar geti nýtt hann til þess að mæta greiðsluerfiðleikum. Reyndar verður að telja að það sé frekar fólk undir miðjum aldri sem á þessu þurfi að halda, en það er einmitt það fólk sem hefur hvað minnst sinnt því að greiða í séreign.

En þetta er ekki eins einfalt og sumir vilja vera láta, því séreignarsparnaður er ekki laust fé. Reyndar virðist vera hér á ferðinni enn ein sönnun þess hversu lítið stjórnmálamenn vita um lífeyriskerfið, eins og ég hef margoft komið að.

Séreignasparnaður er eins og annað vörslufé fjárfest í mismunandi sjóðum og leiðum. Eins og flestir vita þá er seljanleiki á verðbréfamörkuðum í dag lítill og ekki hlaupið að því að losa fjárfestingar sjóðanna. Einhver verður að kaupa þær fjárfestingarnar sem séreignarsparnaðurinn á í dag. Sá aðili verður líklega vandfundinn.

Vandséð er að lífeyrissjóðir geti keypt eignir séreignarsparnaðar til þess að gera útgreiðslur mögulegar. Þegar atvinnuástand var í lagi höfðu lífeyrissjóðir um 150 Mia kr. á ári í ráðstöfunarfé. Þetta er einmitt það fjármagn sem ríkissjóður og sveitarfélög hafa litið til í útgáfu á skuldabréfum til þess að afla sér framkvæmdafjármagn.

Líklega verða það ríkisskuldabréf sem sett verða í sölu til þess að lágmarka eignatap. Ef stjórnmálamenn opna aðgang að séreignarsparnaði eru því umtalsverðar líkur á að eignaverð lækki verð fjárfestinga séreignasjóðanna. Það myndi þá einfaldlega leiða til að það fjármagn sem yrði til ráðstöfunar myndi lækka.

Í sumum tilfellum er lífeyris- og séreignarsparnaður verðmætasta eign einstaklinga. Sérstaklega í ljósi þess að þessar eignir eru ekki aðfarahæfar. Það er því þörf á að huga vel að öllum hliðum þessa máls, vitanlega með hag heimilanna efst í huga.

Eðlilegra væri fyrir stjórnmálamenn að byrja að því að huga að vaxtabótum og barnabótum eins og ég hef nokkrum sinnum komið að í fyrri pistlum. Til að fjármagna það mætti t.d. afnema eftirlaunalögin og þá sparast 600 millj. kr. fyrir ríkissjóð.

Hlutdrægur fundarstjóri

Mér var stillt upp á svið í Háskólabíó í gærkvöldi ásamt 12 öðrum. Forsetar ASÍ, ásamt VR formanni, formanni Eflinga, og svo vorum við þarna tveir iðnaðarmannaformenn. Auk þess voru formenn BSRB, BHM, kennara og sjúkraliða. Hrafn og Árni frá lífeyrissjóðunum og svo Benedikt Jóhannesson stærðfræðingur.

Og svo voru tvær þingkonur úr VG búnar að stilla sér upp á sviðinu og Steingrímur J. á fyrsta bekk!?

Bíóið var vel liðlega hálfsetið og fjöldi fréttamanna. Fundurinn var í mörgu ágætur. Oft ágætar fyrirspurnir utan úr sal, en sumar þeirra voru reyndar frekar fullyrðingar án þess að vera rökstuddar. En það gerist oft á fjöldafundum. Sum svör mátti gagnrýna. En ég velti fyrir mér hvers vegna verið var að bjóða öllum þessum fjölda upp á svið.

Það hefði verið líklegra til árangurs að fá lífeyrissjóðsspekingana og stærðfræðinga sér og einbeita sér að umræða um þau mál, ásamt viðskiptaráðherra. Hvers vegna er verðtrygging? Hvað er hún? Er eitthvað annað betra til? Af hverju lagfærir Alþingi ekki lögin um starfsemi lífeyrissjóðanna? Á sviðinu voru eins og sagði fyrr voru menn sem hafa mjög mikla þekkingu á þessum málum og hafa skrifað mikið um þau eins og t.d. Benedikt og Árni, en þeir fengu ekki eina einustu spurningu.

Taka svo innri mál verkalýðshreyfingarinnar fyrir á öðrum fundi. Það að hræra saman mörgum málum slátrar svona fundum. Það liggur fyrir að ekki er hægt að tala um verkalýðshreyfinguna í heilu lagi í mörgum atriðum eins og Gunnar fundarstjóri vísvitandi gerði. Þau eru ákaflega misjöfn stéttarfélögin og heildarsamtök þeirra. Fundurinn snérist um upphrópanir eins og Gunnar fundarstjóra stefndi að. Hann var fádæma lélegur. Greinilega frekar að hugsa um eigin ímynd en málefni fundarins.

Gunnar spilaði fundinn upp og kom oft vísvitandi í veg fyrir að fram kæmu svör við spurningum. Mér er kunnugt um að honum höfðu fyrir fundinn verið gerð grein fyrir sumum svaranna, en það þjónaði ekki tilgangi hans að fá þau fram. Það kom glögglega fram í hvert hann beindi spurningum og vísvitandi skellti jafnvel 3 spurningum samtímis á þá sem honum augljóslega var í nöp við. Og gaf þeim tvær mínútur til þess að svara 3 flóknum spurningum. Gunnar sniðgekk markvisst þá sem höfðu svörin á, milli þess að kynna reglulega þingmenn VG og klappa fyrir þeim. Gunnar er búinn að slátra þessu fundarformi.

Á leiðinni heim hlustaði ég svo á Steingrím J. í þætti hjá Bubba. Ja hérna og ég skipti yfir á rás 1.

Eitt í lokin, ég hef verið ræðumaður á fundum Harða Torfa og ég hef séð á þessum fundum marga úr verkalýðsforystunni. Hörður og Borgarsamtökin hafa ítrekað tekið það fram að það mætti ekki undir neinum kringumstæðum tengja þessa grasrót við samtök af einhverju tagi.

Hvers vegna Gunnar og fleiri tuða svo á því hvers vegna verkalýðshreyfingin sniðgengið þessa fundi er furðulegt. Svarið er einfalt þau voru beðin um að koma ekki að fundunum og verkalýðsfélögin hafa þess vegna staðið fyrir tugum funda á undanförnum vikum og mánuðum á eigin vegum.

mánudagur, 8. desember 2008

Uppl. til þeirra sem skrifa í aths.bálkinn

Það er einhver sem í sífellu klifar á því í athugasemdakerfinu hvaða laun ég hef. Þessar upplýsingar má finna á heimasíðu Rafiðnaðarsambandsins. Einnig hafa laun mín verið birt á launablaði Frjálsrar verzlunnar. Þar er reyndar einhver útreiknuð tala.

Hér er bréf til RSÍ sem birt var á heimasíðunni:
Sæl öll, í ljósi umræðunnar undanfarna daga langar mér til að spyrja RSÍ hvort félagið eða félög innan RSÍ hafi átt fulltrúa í bankastjórnum einhverra banka líkt og VR sannanlega átti ?
Situr einhver á vegum lífeyrissjóðsins okkar í sambærilegum nefndum eða stjórnum?
kveðja, Árni Haraldsson

Sæll Árni. Nei engin úr forystu RSÍ eða aðildarfélaga situr eða hefur setið í stjórn banka.
Sama á við um stjórnarmenn eða aðra hvað varðar lífeyrissjóðinn okkar

Undirritaður situr í einni launaðri nefnd þ.e. starfsmenntaráði Félagsmálaráðuneytis og fæ fyrir það 5 þús. kr á mán.

Ég hef aldrei verið aðalmaður í stjórn lífeyrissjóðs, en hef ég verið varamaður í stjórn lífeyrissjóðs rafiðnaðarmanna síðustu 2 ár. En stjórnarmenn eru heilsuhraustir þannig að ég hef ekki þurft að mæta í stað aðalmanns.

Ég sat fyrir um 10 árum í stjórn SR á vegum lífeyrissjóðsins, það er eina stjórn fyrirtækis sem ég hef setið í á vegum Rafiðnaðarsambandsins og lífeyrissjóðsins. Nýtti stöðu mína til þess að gera kröfur um leiðréttingar á launum starfsmanna sem voru að byggja verksmiðjuna í Helguvík. Leiðarahöfundur Moggans missti stjórn á sér og helti sér yfir mig að nýta aðstöðu mína með þessum hætti og mér var hent úr stjórninni á næsta aðalfundi.

Eftir því sem ég best veit þá situr einn miðstjórnarmaður í Rafiðnaðarsambandinu í velferðarnefnd á vegum sveitarstjórnar.

En allnokkrir forystumenn í Rafiðnaðarsambandinu eru virkir í fjölmörgum nefndum á vegum íslenskrar og norrænnar verkalýðshreyfingar. Þær eru allar ólaunaðar
Kv GuðmundurÚr launakönnun Capacent innan Rafiðnaðarsambandsins í september síðastliðnum, Úrtak var 1.200 og svörun 63%:

Meðalregluleg laun (það eru laun fyrir 40 stunda vinnuviku, að öllu meðtöldu, bónusum og hverskonar öðrum greiðslum.

Karlar með sveinspróf eða meira 354.þús. kr.
Konur með sveinspróf eða meira 407.þús. kr.
Rafkonur eru með 15% hærri regluleg laun er rafkarlar.

Meðalheildarlaun rafiðnaðarmanna
Karlar með sveinspróf eða meira 474.þús. kr. Meðalyfirvinna rafkarla er 31 klst. á mán
Konur með sveinspróf eða meira 449.þús. kr. Meðalyfirvinna rafkvenna er 19 klst. á mán.


Laun starfsmanna Rafiðnaðarsambandsins eru bundin einum kjarasamninga sambandsins í einu og öllu og er haldið utan um þau á vegum kjörinnar launanefndar. Engin starfsmanna situr í þeirri nefnd.

Laun formanns Rafiðnaðarsambandsins eru þau sömu og aðrir starfsmenn hafa. Starf formanns er í raun framkvæmdastjórastarf fyrir sambandið. Nokkrir starfsmanna auk formanns vinna út á mörkinni og er gert að mæta á eigin bifreið vegna flækings á milli vinnustaða og fundarstaða og fá fyrir það greiddan fast km.gjald samkv. umræddum kjarasamning, það tekur mið af meðalakstri.

Vinnutími hjá stéttarfélagi er ákaflega óreglulegur, mikið um kvöld og um helgar til þess að hitta félagsmenn utan þeirra vinnutíma og sitja fundi. Þeir sem sinna þessu starfi fá greiddan fastan yfirvinnutíma.

Formaður RSÍ er með 12 klst. fleiri yfirvinnustundir en fram kemur í kjarakönnuninni hér að ofan og verkstjóraálag í samræmi við kjarasamninginn. Starfsmenn RSÍ eru 11. Auk þess eru 2 á Fræðsluskrifstofu rafiðnaðar. 1 er á Ákvæðisvinnustofu og 5 fastráðnir i í Rafiðnaðarskólanum auk fjölda lausráðinna kennara.

Heildarlaun formanns Rafiðnaðarsambandsins með öllu eru um 700 þús. kr. á mán. Hér er átt við pylsuna brauðið, sinnepið steikta laukinn og allt. Allir bónusar, bílapen. og yfirv.
22% félagsmanna Rafiðnaðarsambandsins eru með hærri launen formaðurinn, samkvæmt könnun Capacent.

Formaður RSÍ býr í timburhúsi í Grafarvogi sem hann byggði að mestu sjálfur ásamt sonum og tengdasonum fyrir 22 árum síðan. Enda er hann iðnaðarmaður og starfaði sem slíkur alllengi. Húsið er 85 ferm. að grunnfleti með innbyggðum 35 ferm bílskúr. Efri hæð er undir risi og er um 70 ferm. Formaður RsÍ brá á það ráð fyrir 8 árum síðan að byggja 10 ferm. sólstofu undir altani efri hæðar, til þess að geta tekið á móti börnum og barnabörnum. En hann býr við mikið barnalán, á 6 börn og 11 barnabörn.


Í lok þessa má minna á að kjarasamningar eru ákvæði um lágmörk í þeirri starfsgrein sem samið er um og á því svæði sem starfað er á. Öðrum stéttarfélögum er fullkomlega heimilt að semja um betri kjör en RSÍ og eins er öllum vinnuveitendum heimilt að greiða hærri kjör. Þetta er tekið fram vegna fullyrðinga um að RSÍ standi í vegi fyrir því að aðrar starfstéttir geti ekki samið. Sem er vitanlega út í hött.

Spilling þingmanna

Sá kattarþvottur sem formenn stjórnarflokkanna standi fyrir á Eftirlaunalögunum sé algjörlega óþolandi. Vitanlega á að afnema lögin strax, annað er eins og blaut tuska framan í almenning frá ríkistjórninni, sem þessa dagana þurfa að horfa upp á að glatast hafa hundruð milljóna úr lífeyrissjóðum launamanna vegna slakrar frammistöðu stjórnmála- og embættismanna . Þingmenn, ráðherrar og æðstu embættismenn eiga að njóta sömu lífeyriskjara og aðrir opinberir starfsmenn. Eftirlaunalögin er dæmi um spillingu á hæsta stigi.

Sú mismunum, sem launamenn á almennum markaði verða að búa við gagnvart opinberum starfsmönnum er óásættanleg. Um áramótin stefnir í að það þurfi að flytja allt að 30 milljörðum króna úr ríkissjóð í lífeyrissjóð opinberra starfsmanna svo hann geti staðið undir skuldbindingum, á sama tíma verða almennu lífeyrissjóðirinir að skerða réttindi vegna slakarar efnahagsstjórnunar valdahanna sem setja lögin. Þessir 30 milljarðar verða vitanlega sóttir í auknum sköttum á alla landsmenn.

Á sama tíma þurfa almennir launamenn að horfa upp á skerðingar í sínum lífeyrissjóðum, sem stjórnmálamenn ætla reyndar til að fela með því að færa skerðingarmörk almennum lífeyrisssjóðanna úr 10% upp í 15%, eins og ríkistjórnin er að bauka með núna í þingsölum í sínum venjubundnu kattarþvottum í kringum lífeyriskerfi landsmanna.

Stéttarfélögin hafa oft í gegnum árin gagnrýnt afskipti stjórnmálamanna af lífeyriskerfinu, með afskiptum sínum hafa þeir sílfellt aukið sín gæði á kostnað almennings.

sunnudagur, 7. desember 2008

Góð umfjöllun í Mogganum í dag

Loksins er alminnileg umfjöllun um lánamál almennings eins og er í Morgunblaðinu í dag. Það hefur verið einkennilegt hversu lengi fjölmiðlar hafa dregið að kryfja stöðu lánamála. Á sama tíma óábyrgar og órökstuddar fullyrðingar riðið röftum. Þar hafa populistar vakið væntingar sem ekki er innistæða fyrir hjá því fjölmarga fólki sem á í vandræðum.

Ómerkilegastur allra er akureyringurinn sem hefur tekið sér þá heimild að lofa því í ræðum og spjallþáttum að öryrkjar og ellilífeyrisþegar muni taka að sér að greiða upp lán landsmanna. Þessi hinn sami sá um digran sjóð í eigu 50 þús. Íslendingar og sem gufaði upp í höndum hans og hann er illa þjakaður af Davíðsyndróm, kennir öðrum um. Nú vill hann taka til við sparifé launamanna.

Nú þykist hann vera að leiðrétta stefnu verkalýðshreyfingarinnar. Sú stefna hefur alltaf verið skýr og ekkert breyst, það er að taka á vandanum, og skapa það ástand að háir vextir og verðtrygging hverfi hér á landi. Vaxtabætur verði leiðréttar og komið verði á greiðsluaðlögun.

En skyldu stjórnmálamenn taka á eftirlaunalögunum fyrir jól? Sá kattarþvottur á Eftirlaunalögunum sem formenn stjórnarflokkanna hafa sett fram fullkomlega óþolandi.

Vitanlega á að afnema lögin strax, annað er eins og blaut tuska framan í almenning, sem þessa dagana að horfa upp á að glatast hafa hundruð milljóna úr eigin lífeyrissjóðum og sparnaði vegna slakrar frammistöðu stjórnmála- og embættismanna . Vitanlega eiga þingmenn, ráðherrar og æðstu embættismenn eiga að njóta sömu lífeyriskjara og aðrir opinberir starfsmenn. Eftirlaunalögin er dæmi um spillingu á hæsta stigi.

Hún kallar einnig á okkur sú mismunum, sem launamenn á almennum markaði búa við gagnvart opinberum starfsmönnum. Um áramótin stefnir í að það þurfi að flytja allt að 30 milljörðum króna úr ríkissjóð í lífeyrissjóð opinberra starfsmanna svo hann geti staðið undir skuldbindingum. Þessir 30 milljarðar verða vitanlega sóttir í auknum sköttum á alla landsmenn.

Á sama tíma þurfa almennir launamenn að horfa upp á skerðingar í sínum lífeyrissjóðum og þingmenn hafa komiðp því þannig fyrir að þær má ekki sækja í ríkissjóð, almnnum launamönnum er aftur móti gert að greiða kostnaðin af leiðréttingu hinna.

Þingmenn ætla hins er fela þennan ójöfnuð með því að færa skerðingarmörk almennu lífeyrisssjóðanna úr 10% upp í 15%, eins og ríkistjórnin er að bauka með núna í þingsölum í sínum venjubundnu kattarþvottum í kringum lífeyriskerfi landsmanna.

Myrká

Ég hef gaman af bókum Arnaldar. Þær eru vel skrifaðar, gott rennsli og ekki mikið um dauða kafla. Það er einn stærsti galli krimmanna, þegar höfundar fara út í einhverjar pælingar út um víðan völl um eitthvað sem kemur söguþráðinum ekkert við, með þann tilgang einn að lengja bókina og koma henni upp fyrir 300 bls.

Myrka er klárlega í betri helming bóka Arnaldar, þétt alla leið. Pæling um réttlætið og refsingar. Karaktereinkenni sögupersóna koma vel fram og eru skýr. Erlendur í frí. Arnaldur kann að koma lesendum sínum á óvart.

Allt þetta gerir það að verkum að maður býður alltaf eftir næstu bók og er tilbúinn að setjast strax niður og býr til tíma til þess að klára bókina.

Fullt hús

laugardagur, 6. desember 2008

Háskólabíó á mánudag

Það var haft samband við mig símleiðis í fyrradag og tilkynnt að ég ætti að mæta upp á svið í Háskólabíó á mánudaginn. „Nú jæja“ svaraði ég; “Hver tók þá ákvörðun.“
„Við“
var svarið.
„Hverjir eru þið og hverjir verða þarna?“ spurði ég.
„Við erum borgarar og erum ekki alveg búinn að ákveða hverjir eiga að vera þarna“ og svo voru nokkur nöfn nefnd. Sum þeirra endurspegla ekki íslenska verkalýðshreyfingu að mínu mati.

Ég benti á að mínar skoðanir væri öllum aðgengilegar. T.d. kæmi það glögglega fram í pistlum þessa ársgömlu bloggsíðu, að ég teldi mesta mein íslensks samfélags sú efnahags- og peningastefna sem fylgt hefur verið á undanförnum árum. Hún hefði leitt til meiri verðbólgu, hærra verðlags og hærri vaxta en þekktust annars staðar, alla vega í okkar heimshluta.

Vextir væri svo háir að fólk réði ekki við að greiða þá nema þá með því að dreifa greiðslum þeirra eins og gert væri með verðtryggingu sem Ólafur Jóhannesson þáverandi forsætisráðherra hefði komið á.

„Verður þú í Reykjavík á mánudaginn?“ var spurt.
„Já“ svarði ég.
„Hm, þá kemur þú á fundinn“ var mér tilkynnt í lok samtalsins.

Það er nefnilega það. Á fjölmennum fundi í forystu rafiðnaðarmanna í gær var þetta rætt. Það eru jú þeir sem kjósa mig og gagnvart ég þarf að standa skil á í störfum mínum. Frábært að starfa í þeim hóp. Skelleggur og liggur ekki á skoðunum sínum og fundir líflegir. Allavega hefur stefna og markmið Rafiðnaðarsambandsins alltaf verið skýr og verið komið skilmerkilega á framfæri.

Rafiðnaðarmenn eru á móti hárri verðbólgu, háum vöxtum og verðtryggingu, auk þess að há verðbólga veldur erfiðleikum við að halda kaupmætti. Það hefur legið fyrir um alllangt skeið að við teljum einungis eina leið út úr þessu ástandi, það er að gera það sama og nágrannalönd okkar hafa gert, það er að taka upp Evru og ganga í Evrópusambandið.

Við eigum nefnilega ekki olíusjóð og erum að auki með afspyrnu slaka og spillta stjórnmálamenn. Stjórnmálamenn sem hafa kallað yfir okkur þetta ólán sem við búum við, þrátt fyrir margítrekaðar aðvarnir aðila vinnumarkaðs.

Það sem hefur bjargað okkur og er eina lífsvon okkar eru þeir fjármunir sem íslensk verkalýðshreyfing hefur skapað með samstöðu sinni, lífeyrissjóðirnir.

Með inngöngu í ESB lækka vextir og verðtrygging hverfur, þeir duttu t.d. á 6 mánuðum úr 20% í 5% í löndum sem gengu í ESB þar má t.d. nefna Portúgal, Spán, Ítalíu og Grikkland.

Fundur á Austurvelli kl. 15.00

Austurvöllur 6.des.kl.15.00

Áfram halda hinur mjög svo þörfu fundir Harðar Torfa með friðsamlegum mótmælum á Austurvell.

Þanga að hafa streymt þúsundir manna á Austurvöll til þess að krefjast afsagnar núverandi stjórnar Seðlabankans, afsagnar núverandi stjórnar Gjaldeyriseftirlitsins og nýrra kosninga.

Þessir fundir hafa greinilega farið í taugarnar á valdhöfum, þeir hafa ásamt fjölmiðlum gert lítið úr aðsókn oft gefið upp tölur sem eru einungis brot af þeim fjölda sem komið hafa. Í fyrstu kölluðu valdhafa þetta skrílslæti og saurgun á þjóðfélaginu. En almenningur hefur ekki látið sér segjast og haldið áfram og að undanförnu hafa fjölmiðlar farið að fjalla um fundinu. En þetta ferli segir okkur allt um hvert þjóðfélag okkar var komið, með spilltustu stjórnmálamenn Evrópu í broddi fylkingar.

Yfirskrift fundanna hefur verið "Breiðfylking gegn ástandinu ". Fundurinn hefur einnig það markmið að sameina þjóðina og skapa meðal hennar samstöðu og samkennd.Svo sannarlega er farið að gæta titrings meðal valdamanna vegna mótmælanna en betur má ef duga skal. Ekkert óttast sitjandi valdamenn meira en fjölmenn mótmæli og því er um að gera að fjölmenna.

Að þessu sinni ávarpa fundinn:Gerður Kristný, rithöfundur og Jón Hreiðar Erlendsson

föstudagur, 5. desember 2008

Ríkir lífeyrissjóðir?

Umræðan um lífeyrissjóðina hefur oft verið einkennileg og í mörgu einkennst af ótrúlegum þekkingarskorti og skilningsleysi. Einkennilegt því það er búið skrifa einhver ósköp um lífeyriskerfið á undanförnum árum og eins liggja fyrir á netinu ákaflega greinargóðar útskýringar á því eins og t.d. á heimasíðu landssambands lífeyrissjóða.

Það er dáldið einkennilegt að stjórnendur spjallþátta og eins morgunþátta, sem vilja láta taka sig alvarlega, skuli athugasemdalaust taka minnisblað með fullyrðingum um að gjörvalt lífeyriskerfið sé ein ruslahrúga. Sáralítið hlutfall sé greitt út til lífeyrisþega af inngreiðslum til sjóðsfélaga og lífeyrissjóðir séu reknir með ofboðslegum hagnaði.

Lífeyrissjóður er uppsöfnun sparifjár þeirra sjóðsfélaga sem greitt hafa í viðkomandi sjóð. Hluti inngreiðslu kemur beint frá sjóðsfélaga og hluti frá vinnuveitanda hans, en öll upphæðin er eign starfsmannsins, sjóðsfélagans. Hún er hluti lögbundinna launa hans. Lífeyrissjóður á í sjálfu sér engar eignir utan skrifstofuáhalda og þess húsnæðis sem starfsemi hans fer fram í. Í dag er það svo að þær innistæður sem eru í sjóðunum duga ekki fyrir skuldbindingum og við blasi að lækka verði örorku- og ellilífeyri. Þetta hefur margítrekað komið fram.

Hlutverk lífeyrissjóðs er að taka á móti iðgjöldum sjóðsfélaga og ávaxta þau með besta hætti sem til boða stendur hverju sinni og greiða lífeyri til sjóðsfélaga. Kerfið er stillt þannig af að sjóðsfélagi sem greiðir allan sinn starfsaldur, það er frá 25 ára til 67 ára, á þá í sínum sjóð innistæðu fyrir lífeyri sem svarar til um 60% af meðallaunum frá 67 ára aldri til dauðadags. Ef viðkomandi hefur greitt í styttri tíma verður lífeyririnn minni í réttu hlutfalli við það sem upp á vantar.

Það eru stóru barnasprengjuárgangarnir sem komu í heiminn á árunum eftir seinna stríð fram til ársins 1960, sem eru í dag að safna upp sínum lífeyri. Þeir munu skella á lífeyriskerfinu í hratt vaxandi þunga eftir 2014 og með fullum þunga eftir árið 2031. Fram að þeim tíma fer fram mikil uppsöfnun í sjóðunum. Eftir þann tíma munu útgreiðslur úr sjóðunum verða meiri en innstreymi og þá byrja stóru árgangar sjóðanna að ganga á eignir sínar, eða með öðrum orðum eigendur sparifjárins fara að taka lífeyri sinn út.

Stærðfræði sjóðanna byggist í sinni einföldustu mynd á því að sjóðsfélagi greiðir 12% af launum sínum í iðgjald til lífeyrissjóðs í rúm 40 ár. Þá dugar innistæða hans fyrir framangreindum lífeyri til meðalaldurs. En lífeyrissjóður lofar í lífeyrisgreiðslum til dauðadags. Almennu lífeyrissjóðirnir eru sameignarsjóðir og geta staðið við þetta loforð vegna þess að jafnmargir falla frá fyrir meðalaldur og þeir sem lifa lengur.

Í dag eru áberandi nokkrir aðilar sem vilja taka það sparifé sem sjóðsfélagar eiga í lífeyrissjóðunum og nýta það til þess að greiða uppskuldir annarra. Nokkrir þeirra sem hafa haft sig hvað mest í frammi með þetta hafa aldrei greitt krónu í almenna lífeyriskerfið. En þeir vilja sem sagt nýta sparifé annarra til þess að greiða upp sínar skuldir.

Með þessu orðum er ég á engan hátt að gera lítið úr skuldastöðu heimila. Við bíðum eftir að stjórnvöld taki á greiðsluvanda heimilanna, eins og ég haf marga oft fjallað um hér. Vandinn liggur hjá bönkunum og íbúðarlánasjóð eins og svo vel kom fram í Kastljósinu í gærkvöldi, ekki lífeyrissjóðunum.

Skuldastaðan á ekki við alla, sumir hafa skuldsett sig til þess að spila á markaði og verða að taka ábyrgð sjálfir á þeim skuldum.

fimmtudagur, 4. desember 2008

Laddi

Stökk út af samningafundi í gær og fór í Borgarleikhúsið að sjá sýningu Ladda, en fram hefur komið að sýningarnar séu að hætt. Laddi er fyrir löngu orðin þjóðareign eins og fram kemur í aðsókn á sýningar hans, 120 sýningar og alltaf uppselt.

Það var fín stemming í húsinu, sýningargestir á öllum aldri allt frá 10 ára og upp úr. Laddi hentar öllum aldurshópum. Sýningin samanstendur af leiknum „sketsum“ og uppistandi. En tónlistin er ráðandi alla sýninguna.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunnar að Laddi sé einn albesti karlrokksöngvari sem við íslendingar höfum átt. Hann er mjög taktviss og með áberandi gott „timing“. Röddin og raddsviðið fellur mjög vel þessari tegund tónlistar.

Mér hefur einnig fundist að skort hafi umfjöllun um hveru góður lagasmiður Laddi er. Um textagerðina þarf ekki að fjalla.

Semsagt mjög kvöldstund. Margfallt betri og skemmtilegri en margra daga þjark og löngum fundum um kaup og kjör.

Hvar er botninn?

Hvar er botninn? Hversu langt niður þurfum við að falla? Almenning er farið að þyrsta eftir að geta staðið í fæturnar og spyrnt sér upp á við.

Það er búið að afskrifa 30% af lánum bankanna. Lækka laun hjá nokkrum hluta þjóðarinnar um allt að 10%. Það er 18% verðbólga. Vextir 25%. Krónan fallið um helming. Kaupmáttur hrapað um 15%.

Búið að taka liðlega eina landsframleiðslu að láni. Atvinnustigið hrapar í hverri viku og stefnir í að vel á annan tug þúsunda verði atvinnulaus í byrjun næsta árs og álíka fjöldi er horfinn af vinnumarkaði og farinn erlendis. Auk þess hafa um 5000 horfið af vinnumarkaði inn í skólana.
Eru stjórnvöld að sökkva þjóðfélaginu dýpra en þörf er á?

miðvikudagur, 3. desember 2008

Nýja efnahagsstjórn

Íslendingar hafa valið sér það hlutskipti að búa við eigin gjaldmiðil. Þrátt fyrir að aðilar vinnumarkaðs hafi á undanförnum misserum krafist þess að tekinn verði upp annar gjaldmiðill, þá hafa þeir sem fara með stjórn efnahagsmála alfarið hafnað því. Rök forsætisráðherra, fjármálaráðherra og seðlabankastjóra hafa verið þau að gott sé að vera með einangraðan gjaldmiðil sem þeir geti fellt að eigin vild m.a. skapi það svigrúm til þess að halda launum í landinu niðri, leiðrétta „óskynsamlega“ kjarasamninga, eins og fram hefur komið í svörum m.a. Péturs Blöndal og Hannesar Hólmsteins. Það kallar reyndar á hækkun verðbólgu.

Krónan er veik og þeir sem hafa haft möguleika til hafa flutt fjármuni sína yfir í aðra gjaldmiðla. Bankar og fjárfestar hafa nýtt sér veikleika krónunnar til þess að taka stöðu gegn henni og hafa hagnast verulega á því. Allt þetta hefur kallað yfir okkur háa verðbólgu með háum vöxtum sem síðan veldur hækkun verðtryggingar.

Langlundargeð íslendinga gagnvart mistökum stjórnvalda er með ólíkindum, þrátt fyrir margítrekaðar aðvaranir samtaka vinnumarkaðs og virtra hagfræðinga hættu krónunnar, þá hefur meirihluti íslendinga hingað til tekið undir með stjórnvöldum og ekki viljað skipta. Seðlabanki hækkaði stýrivexti upp úr öllu valdi, þrátt fyrir hávær mótmæli aðila vinnumarkaðs, sem bentu á að þetta tryggði enn hærri verðbólgu og vaxta og enn hærri verðtryggingar. Þrátt fyrir það hafa íslendingar ekki viljað skipta um gjaldmiðil.

Verkalýðsfélögin hafa á undanförnum misserum ítrekað sett fram kröfur um að tekið yrði á þessum vanda. Tekið yrði á efnahagsvandanum með því að skipta um gjaldmiðil, sem myndi leiða til stöðugleika. Krafan var studd með því að setja inn í kjarasamninga heimildir til þess að fá laun greidd í öðrum gjaldmiðlum og fyrirtæki vildu fá að gera upp í erlendum gjaldmiðlum. En stjórnendur efnahagsmála skelltu skollaeyrum við þessum kröfum. Seðlabankastjóri ásamt fjármálaráðherra og forsætisráðherra komu ítrekað fram í fjölmiðlum og sögðu að krónan væri ekki vandinn. Nú hefur krónan fallið um tæp 100% og verðlag er farið að hækka ótæpilega, verðbólga kominn að 20% og skuldir heimila hækka.

Þetta ástand hefur leitt til mikillar spillingar og ósiðlegra stjórnarhátta. Verðskyn hefur brenglast og stjórnendur komist upp með að kaupa eignir hver af öðrum á yfirverði og hagnast umtalsvert á því. Greitt sér há laun og margskonar bónusa í kjölfar þessara viðskipta sem skiluðu miklum „verðmætum“.

Það eru sannarlega runnir upp tímar mikilla breytinga og uppstokkunar og þó fyrr hefði verið. Stjórnvöld hafa sannarlega ekki verið að gæta hagsmuna launamanna og þaðan af síður fyrirtækja. Bankamálaráðherra, fjármálaeftirlit og seðlabanki látið alla spillingu afskiptalausa.

Kröfur verkalýðshreyfingarinnar og samtaka fyrirtækja um stöðugleika, lága verðbólgu, lága vexti og enga verðtryggingu hafa hingað til ekki náð upp á borð forsætisráðherra, seðlabankastjóra og fjármálaráðherra. Nú hefur almenningur loks vaknað og tekið þessar kröfur upp og halda kröftuga mótmælafundi. Íslenskt viðskiptaumhverfi er fársjúkt og læknarnir (bankamálaráðherra, fjármálaeftirlit og seðlabanki) steinsofandi. Nú er að sjá hvort valdhafa fáist til þess að hlusta á þjóð sína, eða ætla þeir enn að ganga leið sérhagsmuna valdhafa sem sífellt skara eld að eigin köku með skipulagðri eignaupptöku.

þriðjudagur, 2. desember 2008

10 ráð til að hætta að drepa fólk

Hef haft lítinn tíma til þess að sinna pistlagerð. Er þessa dagana á kjarasamningafundum frá morgni til kvölds.

En hef þó tíma til þess að líta í bók. Las bókina hans Hallgríms Helga 10 ráð til að hætta að drepa fólk og byrja að vaska upp.

Hafði mjög gaman af fyrri hluta bókarinnar, hún datt aðeins niður seinni hlutann. Bókin er ekta Hallgrímur, leikur sér með textann og rennsli hans.

*** af 5

mánudagur, 1. desember 2008

Leiðir til lausna

Þær eru oft einkennilegar fréttirnar og eins það sem menn fjalla um í spjallþáttum. T.d. kynnti Benedikt Jóhannsson í lok Silfursins í gær að við ættum að leita lausna og hann kom með tillögu. Það sem hann benti á er mjög gott enda er það nákvæmlega það sama og ASÍ hefur verið með í tillögum sínum undanfarin 2 ár. SA hefur einnig tekið undir þetta.

Hér er t.d. brot úr ársgamalli ályktun frá Rafiðnaðarsambandinu og sem einnig hefur verið í ályktunum annarra samtaka á almennum vinnumarkaði;

“Einungis ein leið virðist vera úr vanda of lítillar krónu í átt til aukins stöðugleika, lækkandi vöruverðs og vaxta. Það er að tryggja áframhaldandi rekstur íslenskra fyrirtækja og koma í veg fyrir atvinnuleysi og hrun heimilanna með því að nálgast Evrópusambandið og evruna. Eins og aðilar vinnumarkaðs hafa bent á í mörg ár.”

Ekkert hefur gengið til þess að fá þann flokk sem hefur haft forystu á Íslandi undanfarna áratugi til þess að taka mark á þessu og allt er hér í kalda koli

Svo kom frétt á mbl.is í dag þar sem við erum sökuð um að einblína um of á vandann en ekki koma með lausnir. T.d. stóð þetta í fréttinni;

„Á kínversku er orðið krísa skrifað með tveimur táknum. Annað táknið merkir tækifæri meðan hitt táknið þýðir háski. Íslenska þjóðin þarf að gera upp við sig hvort hún vill sækjast eftir tækifærunum sem felast í núverandi krísuástandi eða feta braut háskans,“ segir Claus Møller, stofnandi Time Manager International (TMI) og sérfræðingur í krísuráðgjöf, en hann er meðal frummælenda á fullveldisfundi Útflutningsráðs sem haldinn er í dag.

Ég vísa til þess hér stendur ofar einnig langar mig til þess að benda á þær 100 lausnir sem margir hafa sett fram með Björk í broddi fylkingar.