föstudagur, 31. desember 2010

Ár glataðra tækifæra

Á þessum degi er venja að líta til baka og velta fyrir sér liðnu ári. Frá þeim sjónarhól sem ég stend á er ekki hægt að segja annað en að síðasta ár hafi verið ár glataðra tækifæra. Aðilar vinnumarkaðs, ríkisvalds og sveitarfélaga undirrituðu Stöðugleikasáttmálan í júní 2009. Þar átti að leggja grunn að hraðri endurreisn efnahags- og atvinnulífsins og koma í veg fyrir of mikinn samdrátt í hagkerfinu.

En vandræðagangur á stjórnarheimilinu hefur orðið til þess að ekki tókst að koma af stað verkefnum sem áttu að verða viðspyrnan upp á við. Þetta hefur leitt til þess atvinnuleysi hefur frekar vaxið en hitt ásamt fjölgun þeirra sem flytja af landi brott. Deilan um Icesave samninganna hefur verkað eins og lamandi hönd á bæði samskiptin á vettvangi stjórnmálanna og komið í veg fyrir að íslensk fyrirtæki, sveitarfélög og fjármálastofnanir fái greiðan aðgang að erlendum fjármálamörkuðum sem tafið hefur alla uppbyggingu.

Það sem í framtíðinni mun standa uppi sem eftirminnilegasti atburður ársins er skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis. Viðbrögð aðalleikenda voru fyrirsjáanleg, það sem er svo einkennandi fyrir íslensk stjórnmál. Á meðan stjórnmálamönnum er gert að segja af sér hafi þeir misnotað eignir samfélagsins, þá tíðkast það ekki hér á landi. Skýrsluhöfundar upplýstu okkur um að það sárasta við samantekt skýrslunnar hafi verið fullkomin afneitun allra sem þeir kölluðu til sín.

Það hefur verið mörgum umhugsunar og umtalsefni hverskonar kennsla hafi farið fram í Háskólum landsins. Þaðan komu allir aðalleikendur þeim leik sem leiddi samfélagið fram af hengifluginu með skelfilegum afleiðingum. Skýrslan hefur haft djúp áhrif á íslenskt samfélag. Hvert hefur menning okkar, siðfræði og sjálfsmynd leitt okkur?

Í skýrslunni blasir við mynd af því samfélagi sem við höfðum byggt okkur. Styrmir fyrrv. ritstjóri Moggans maður sem er búinn að vera á fremsta bekk við leiksvið hins íslenska samfélags, lýsti þessu svona, „ Ég er búinn að fylgjast með þessu í 50 ár. Þetta er ógeðslegt samfélag, engin prinsipp, engar hugsjónir. Það er ekki neitt, bara tækifærismennska og valdabarátta.“

Ég hef ritað allmarga pistla á þessu ári þar sem ég hef lýst hvaða áhrif krónan hefur á kjör launamanna. Ég verð oft sorgmæddur þegar ég les þá heiftarlegu haturspósta sem ég hef fengið í kjölfar hvers pistils. Það virðist ekki skipta suma neinu þó við blasi að endurteknar gengisfellingar þar verið er að flytja rekstrartap yfir á starfsmen og hefur leitt til mikils kaupmáttarhruns launamanna, ásamt stökkbreytingu skulda og vonlausrar stöðu um 30 þús. heimila.

Sé staða okkar launafólks borin saman við nágrannalöndin þá gerðist þetta ekki þar, þó sumir af fyrrverandi ráðherrum og stjórnarþingmönnum vilja afsaka sig með því að halda því fram að það hafi verið alþjóðleg efnahagskreppa sem gekk yfir Ísland. Það var annað og meira sem gerðist hér. Það ástand var skapað af íslendingum. Hið séríslenska ástand virðist ekki snerta suma, þeir vilja halda í óbreytt ástand og vilja viðhalda því samfélagi sem Rannsóknarskýrslan lýsir.

Umræðan hefur oft verið dregin inn á villigötur og það virðist vera auðveldara að gera það hér á landi en annarsstaðar, enda eru það hagsmunahópar sem stjórna fjölmiðlunum. Ítrekað er athyglinni beint frá því sem þarf að ræða. Þar má t.d. benda á hvernig tekist hefur að halda athyglinni á lífeyrissjóðunum, það hafi verið þeir og stjórnendur þeirra sem voru helstu bandittarnir í Hruninu.

Þetta hafa landsmenn gleypt athugasemdalaust og aðalleikurunum í Rannsóknarskýrslunni tókst að pumpa þessa umræðu áfram. Fengu til þess góða aðstoð frá mönnum eru verktakar, menn sem reyna allt til þess að greiða sem minnst til samfélagsins og í lífeyrissjóði. Þeir misstu gjörsamlega stjórn á sér þegar í ljós kom að sjóðsfélagar höfnuðu því alfarið að sparfé yrði tekið til þess greiða upp skuldir þeirra. Þar gengu reyndar yfirlýsingar nokkurra ráðherra út yfir allt, þvílík siðblinda.

Það blasir við að fjárhagslegt tap í Hruninu var liðlega 15 falt meira en samanlagðar innistæður í lífeyrissjóðunum og 30 sinnum meira en heildartap lífeyrissjóðanna. Lífeyrissjóðirnir voru einu fjármálastofnanirnar sem komu standandi út úr Hruninu. Samt tókst spillingarmönnum að draga umræðuna út á það plan að starfsmenn lífeyrissjóða væri spilltastir allra. Hrunið væri þeirra sök, þar færu glæpamenn sem gengu um með logsuðutæki og handrukkuðu iðgjöld.

fimmtudagur, 30. desember 2010

Lér konungur

Fór að sjá Lér konung í gærkvöldi. Lér konungur er talið magnþrungnasta verk Shakespeares. Viðfangsefnið er spilling, vald og oflæti. Sýningin er hreint út sagt ákaflega sterkt leikhúsverk, með því betra sem fram hefur komið. Arnar fer fyrir sýningunni með stórkostlegum leik, sama má segja um flesta hinna leikaranna. Sviðsetning er einföld en samt mjög sterk, sama má segja um tónlistina.

Þýðing Þórarins Eldjárns er listilega góð og færir verkið til okkar tíma. Textinn hans er lipur og átakalaust fylgdust áhorfendur með, ekki að setja sig í stellingar og venjast textanum eins og oft er þegar Shakespeare er annars vegar.

Í sýningunni er dregin upp harmþrungin mynd af fallvaltleika alls og hún talar til okkar með ógnvænlegum krafti. Maður kemst ekki hjá því að velta fyrir sér samsömun þess samfélags sem lýst er í verkinu og hvernig komið er fyrir okkar íslenska samfélagi.

Þetta ógeðslega þjóðfélag, þar sem eru engin prinsipp, engar hugsjónir, ekki neitt. Bara tækifærismennska og valdabarátta. Svo vitnað sé í orð þekkts ritstjóra sem er búinn að vera á fremsta bekk í 50 ár og er það að lýsa íslensku samfélagi.

Þeir sem hafa gaman af því að fara í leikhús mega einfaldlega ekki láta þessa sýningu fram hjá sér fara.

þriðjudagur, 28. desember 2010

Áramótapæling - verðum að auka verðmætasköpun

Í tillögum og ábendingum frá aðilum vinnumarkaðs hafa komið fram aðvaranir um að stjórnvöld megi ekki halda áfram að taka ákvarðanir, sem valdi áframhaldandi samdrætti í hagkerfinu. Augljóst er að það sem tekið er út úr hagkerfinu í auknum sköttum og þjónustugjöldum, veldur auknum samdrætti. Þessu til viðbótar er næsta víst að skuldsetning heimila og fyrirtækja leiðir til þess að þau hafa minna aflögu og þurfa að auka sparnað á kostnað neyslu. Skuldsetning takmarkar ríkisumsvif og allar fjárfestingar allra.

Aukin verðmætasköpun og útflutningur er forsenda þess að okkur takist að vinna okkur úr vandanum og styrkja hagkerfinu. Við verðum að skipta um áherslur frá því að vera hráefnisframleiðendi og byggja hagkerfið upp á enn verðmætari útflutningi. Nokkur meðalstór hátæknifyrirtæki eru skapa jafnmörg störf og eitt álver. Þessi fyrirtæki eru aftur á móti ekki að flytja inn dýrt hráefni, umskapa það og flytja út aftur. Þetta kemur ekki oft fram í útreikningum þegar stjórnmálamenn eru að tala um stóriðjuna. Verðmætaaukning hátæknifyrirtækja er að miklu leiti innlend, sköpuð af menntuðu starfsfólki og með litlum innflutningi.

Danir hafa unnið ákaflega markvisst á þessum markaði og tekist að byggja upp gríðarlega verðmætasköpum innanlands og miklum útflutningi. Það er eftirtektarvert t.d. hvernig staðið hefur verið að þessu í samstarfi sveitarfélaga á Jótlandi. Þar eru til sjóðir sem kaupa hlutbréf í áhættufyrirtækjum og koma þeim á legg. Þessi markaður er nánast ekki til hér, en hann er algjörforsenda þess að fyrirtæki verði stofnuð. Það er ennþá alltof mikið enn til af klíkuviðhorfum sem birtast okkur í endalausu poti, sem miðar að því að koma í veg fyrir að aðrir nái sínu fram. Lítið t.d. hvernig hlutirnir hafa gengið fyrir sig milli sveitarfélaganna á Suðurnesjum.

Íslensk stjórnvöld verða að taka frumkvæði og taka á þessu verkefni af metnaði. Meðal hinna Norðurlandanna er verið að auka rannsóknarfé og styðja betur við hátækniiðnaðinn. Undanfarin misseri hefur okkur verið gert að horfa á eftir góðum fyrirtækjum sem eiga langa sögu í íslensku atvinnulífi. Þar voru að verki frumkvöðlar sem með mörgum góðum starfsmönnum hafa á undanförnum árum lagt á sig aukna vinnu og lægri laun til þess að komast í gegnum byrjunarerfiðleika fyrirtækjanna. Þessi fyrirtæki vilja vera áfram hérna, en ástandið hér heima er þeim óbærilegt.

Á undanförnum 2 árum hafa verið stofnuð með stuðningi Nýsköpunarstofnunar um 80 ný sprotafyrirtæki og þau eru í dag með um 400 manns í vinnu. Íslensk fyrirtæki stríða við svo miklar sveiflur í sínum rekstri að þau eru undirseld þeirri stefnu sem stjórnvöld hafa fylgt að bíða eftir næstu innspýtingu sem hafa verið mannaflsfrekar framkvæmdir. Ef ekki verður staðið rétt að næstu "uppsveifla", má búast við hún gæti orðið styttri en oft áður og timburmennirnir enn harkalegri.

Hvað höfum við lært af Hruninu og hvernig munum við ná okkur upp úr lægðinni? Hvers konar samfélag viljum byggja börnum okkar? Hvers konar starfsemi viljum við hafa á Íslandi og hvar á sú starfsemi að vera staðsett? Hvernig viljum við nýta þá orku sem við eigum? Hvenær viljum við gera það? Öllum forsvarsmönnum sem ég hef talað viið ber saman um að innganga í ESB og stöðugur gjaldmiðill sé forsenda að þetta takist. Ég hef endurtekið vísað í þau ummæli hér í pistlum mínum og bendi á þau sem hlut af þessu innleggi.

Við verðum að temja okkur að hugsa í mannsöldrum - ekki misserum, stefna á framtíðargjaldmiðil og eðlileg samskipti við birgja og markaði, í stað einangrunarstefnu. Við erum tilneydd til þess að móta stefnu í skipulagsmálum um leið og atvinnumál og menntamál eru tekin enn fastari tökum en gert hefur verið. Þetta kallar á skipulag innan menntageirans.

Hvernig starfsfólk munu fyrirtæki á Íslandi þurfa? Þetta þarf að vera samfasa við þá atvinnuuppbyggingu sem við ætlum að leggja út í. Kjördæmapot hefur verið mikill skaðvaldur í íslensku samfélagi. Ef við eigum að ná okkur upp verðum að láta af því og starfa saman með samstarfi fræðslustofnana og aðilum atvinnulífsins að fjölga fólki með tiltekna þekkingu og reynslu.

Við verðum að leitast við að horfa björtum augum fram til nýs árs.

Getuleysi til vitrænnar umræðu

Það er hreint út sagt kostulegt að lesa sum þeirra bréfa sem menn senda inn í aths.kerfið. Þóttafullar tilskipanir og aðdróttanir með samblandi af afkáralegum já/eða nei spurningum til þess eins gert að draga athyglina frá viðkomandi pistils. Menn eru að lýsa yfir getuleysi sínu til málefnalegrar umræðu. Það er greinilegt að mörgum er umhugað að geta haldið áfram að senda reikning vegna rekstrarvanda til launamanna í gegnum gengisfellingar.

Sumir eru þeirrar skoðunar að ég megi ekki hafa skoðanir á pólitískum málum sakir þess að ég sé verkalýðsforingi. Þetta hefur verið viðtekin skoðun hjá tilteknum hópi manna sem tilheyra þeim Flokki sem hefur verið meir og minna við völd allan lýðveldistímann. Þetta er með því bjálfalegasta sem maður heyrir. Af hverju má ég ekki hafa skoðanir á stjórnmálum og setja þær fram? Þessi síða er ekki á vegum þess stéttarfélags sem ég vinn fyrir, það félag er með sína eigin síðu, rafis.is.

Mörg stéttarfélög, og þar á meðal það félag sem ég starfa fyrir, hafa sett fram þá skoðun að helsta verkefni í kjaramálum sé að taka til við að móta stefnu í atvinnumálum til langs tíma, þar spila gjaldmiðilsmál stóran þátt. Það sé ekki hægt að halda áfram á þessari braut. Þetta er grundvöllur kjarasamninga og það er í besta falli barnalegt að heyra menn halda því fram að forsvarsmaður stéttarfélags eigi ekki að hafa skoðun á þessu máli, það sé svo pólitískt??!! Þvílíkt bull.

Rafiðnaðarsambandið hefur gert kjarasamninga frá 1970 sem innifela um 3.600% launahækkanir. Á sama tíma hefur Danska sambandið gert kjarasamninga sem innifela 330% launahækkanir og þeir standa betur en við kaupmáttarlega. Það er gjaldmiðillinn sem skiptir mestu. Danir eru eins vitað er með krónu sem er fastengd við Evruna og það samband er bakkaðu upp með gjaldeyrisvarasjóði ESB. Samskonar samband og við gætum náð á tiltölulega stuttum tíma.

Þetta var að mati iðnaðarmanna helsta uppistaða hins svo kallaða Stöðugleikasáttmála og grundvöllur stefnumótunar til langs tíma, en stjórnmálamenn slitu þegar þeir tóku til við að stöðva aðildarviðræður við ESB, og fjármálaráðherra fór ásamt fleirum, þá helst þingmönnum Flokksins að mæra krónuna og láglaunastefnuna.

Ég hef oft svarað með því að setja saman viðbótarpistil, frekar en að eltast við dylgjurnar í aths.kerfinu. En það hefur orðið tilefni hinna einkennilegu til ógeðfelldra aðdróttana og spunaflétta. Engin þessara einstaklinga treystir sér til þess að svara þeim rökum sem sett eru fram í pistlunum.

Í dag er staðan sú að atvinnuleysi á Íslandi er meira, en á hinum Norðurlöndunum fyrir utan Finnland, kaupmáttur hefur fallið á Íslandi á meðan hann hefur verið að vaxa á hinum Norðurlandanna. Skuldir heimila launamanna á hinum Norðurlandanna tóku ekki stökkbreytingum. Þar liggja ekki í valnum 25% heimila viðkomandi lands.

Ástæða er að benda á að þær atvinnuleysistölur sem koma frá Vinnumálastofnun segja ekki alla söguna hér á landi. Á það hefur margoft verð bent, einnig hér á þessari síðu. Fjölmargir íslendingar hafa flutt af landi brott, og enn fleiri eru að fara, auk þess að þeirra er ekki getið sem hafa fallið af íslenskri skráningu.

Ein helsta ástæða þess að fólk er flytja er einmitt sú staða sem ég hef verið að gagnrýna, það eru svo margir sem berjast fyrir því að halda áfram á sömu braut með krónuna og vaxandi einangrunarstefnu, þetta drepur endanlega niður vilja fólks til þess að vera hér áfram. Ung menntað fólk er ekki að fara að vinna við fiskvinnslu eða í landbúnaði. Enda eru launin þar svo aum að íslendingar vilja frekar vera atvinnuleysisbótum.

Öll aukning atvinnutækifæra í rafiðnaði hafa verið í tæknigeiranum. Það hefur ekki verið nein aukning í fiskvinnslu, útgerð, landbúnaði, byggingarvinnu og orkugeira undanfarin 25 ár. Í þessum greinum vinna 1.500 rafiðnaðarmenn á meðan um 4.000 vinna í tæknigeiranum.

mánudagur, 27. desember 2010

Ísland láglaunasvæði?

Þótt margt hafi breyst til batnaðar í starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja þurfum við enn að burðast með íslensku krónuna, hina örsmáu og óstöðugu mynt. Íslenskt atvinnulíf starfar í alþjóðlegu umhverfi og við verðum að víkja frá einangrunarstefnunni. Miklar gengissveiflur kalla á hærri vexti en eru í nágrannalöndum okkar. Ef íslensk fyrirtæki eigi að vera samkeppnishæf verði þau að hafa tryggan og greiðan aðgang að erlendu lánsfjármagni og búið við stöðugleika svo hægt sé að gera langtímaáætlanir.

Vandamálið var ekki síst að það var nánast ómögulegt að fá krónur að láni til þess að fara út í framkvæmdir. Vaxtastig á krónulánum var alltof hátt. Lánin voru mjög óhagstæð og hafa í raun verið lengi. Lán í erlendri mynt eru mun ódýrari heldur en krónulánin og því tóku fyrirtækin g einstaklingar erlendar myntir að láni frekar en krónur. Vaxtastigið á þeim lánum var miklu hagstæðara. Eitt af helstu vandamálum Íslendinga er krónan. Hún er alltof dýr og hreinlega ónothæf þegar kemur að fjármögnun stórra framkvæmda.

Launamenn stoppa við þegar menn fara að lýsa kostum krónunnar á þann veg að hún tryggi óvenju lágan launakostnað sem hlutfall af tekjum hjá útflutningsfyrirtækjum. Þessi hugsunarháttur hefur ráðið íslenskum stjórnmálum frá lýðveldisstofnun og komið fram í 25% verðbólgu á ári síðustu 60 ár. 25% verðbólga er færsla 1/4 tekna árlega frá launþegum og sparifjáreigendum til atvinnurekenda. Launþegar hafa eytt 3 mánuðum á ári í 60 ár í að niðurgreiða íslenskt atvinnulíf. Þriðjung starfsævi okkar eyðum við í að greiða herkostnað stjórnmálamanna, sem finnst það eðlilegt að tryggja lágan launakostnað með verðbólgu.

Það er brýnt að annar gjaldmiðill verði tekinn upp í landinu, sé horft til framtíðar, eins og verkalýðshreyfingin og forsvarsmenn allra helstu fyrirtækja hafa bent á. Ef ekki verður gripið til réttra aðgerða verður Ísland láglaunasvæði við hlið hinna norðurlandanna sem eru með lægri vexti, hærri laun, mun lægra verðlag og mun betra öryggisnet. Það kallar á fólksflótta.

Fjórflokkalýðræðið er ekki að endurspegla þann vilja sem maður skynjar á kaffistofum, samtakamátt um að vinna okkur frá því samfélagi sem fjórflokkarnir hafa skapað. Það verður ekki undan því vikist sama úr hvaða átt litið er á þróun mála, að velta því fyrir sér hvort stjórnmálamenn séu á allt annarri vegferð en atvinnulífið, svo uppteknir í sínum átakastjórnmálum og að sverja af sér beina aðild að því að skapa það umhverfi sem olli Hruninu.

Timburmenn krónunnar

Það bendir til skorts á rökum þegar stuðningsmenn krónunnar og andstæðingar ESB vilja sífellt bera Ísland saman við Grikkland. Þeir forðast að bera okkur saman við hin Norðurlöndin, en um leið er þess krafsit að öllum að við búum okkur og börnum okkar sambærilegt samfélag og er á hinum Norðurlandanna. Vandi Grikklands er ekki gjaldmiðilinn, hann er efnahagsstjórn þar sem lifað hefur verið um efni fram. Eignir hafa verið seldar, lífeyrisskuldbindingar langt um efni fram. Gerðar eru tilraunir til þess að víkja sér undan því að taka á vandanum og honum vísað á komandi kynslóðir.

Nú þegar lífeyrisþegum fjölgar hratt í hlutfalli við skattgreiðendur þá stendur engin ríkissjóður undir gegnumstreymiskerfi, þetta er vandi sem blasir við mörgum stjórnvöldum, eins og t.d. Grikkland, Frakkland, Ítalíu og Spáni, þess vegna eru svo margir að fara inn í uppsöfnunarkerfi eins og komið var á hér á landi með kjarasamningum 1970. En þá verða stjórnmálamenn að standa skil á iðgjöldum.

Sá vandi liggur fyrir nokkrum sveitarfélögum hér á landi og reyndar ríkissjóð vegna Lífeyrissjóðs útvalinna opinberra starfsmanna (500 MIA). Þessir aðilar munu í vaxandi mæli verða að skera niður þjónustu, hækka þjónustugjöld og auka skattlagningu til þess að geta staðið undir lífeyrisskuldbindingum. Þar er búið að færa vandan yfir á börnin okkar. Reyndar eins og Sjálfstæðismenn virðast vilja gera með tillögum sínum á Alþingi.

Krónan er ein helsta ástæða þeirra erfiðleika sem við eigum við að etja. Stjórnmálamenn hafa ítrekað á undaförnum áratugum leyst rekstrarvanda útflutningsfyrirtækja með gengisfellingum. Þetta hefur verið rómað af mörgum, en fáir bent á þá staðreynd vandinn hverfur ekki, hann er einfaldlega fluttur yfir á launamenn með því að lækka laun þeirra, þeim er gert að greiða upp afglöp eigenda fyrirtækjanna. Þetta hefur leitt til þess að a.m.k. sum fyrirtæki hafa ekki verið rekin með eðlilegum hætti þar sem forsvarsmenn þeirra hafa ætíð treyst á þessa lausn.

Í lokuðu hagkerfi gekk þetta upp og þegar fiskvinnsla og landbúnaður voru aðalatvinnuvegir þjóðarinnar. Krónan var ein af meginástæðum fyrir aðdraganda hrunsins og hrun hennar hefur sett mörg heimili og fyrirtæki í vonlausa skuldastöðu. Auk þess blasir við sú staðreynd að við verðum að fjölga störfum hér á landi og það verður ekki gert í útgerð eða landbúnaði, þar er verið að hagræða og störfum hefur fækkað og mun líklega fækka enn frekar.

Við þurfum 20 þús. ný störf á næstu 2 árum og þau verða einvörðungu til í fyrirtækjum í tækniiðnaði og þar þarf að koma til erlend fjárfesting og greiður aðgangur íslenskra fyrirtækja að erlendum birgjum og eðlilegum viðskiptum um heim allan. Það verður ekki gert með krónunni. Ekkert erlent fyrirtæki tekur við krónu sem greiðslu og í dag eru íslensk fyrirtæki krafinn af erlendum birgjum um staðgreiðslu í erlendum myntum.

Króna er stór hluti þess vanda sem við eigum við etja. Hún ástæða stökkbreytinga á skuldum heimila og fyrirtækja. Hún hefur orðið til þess að traust á íslensku efnahagslífi ekkert. Fjárfestar vilja komast héðan, frekar en að fjárfesta hér. Það blasir einnig við að ef lífeyriskerfið á að standa við skuldbindingar sínar verður að dreifa áhættunni með fjárfestingum í auknum mæli erlendis, það eru svo fáir fjárfestingarkostir hér á landi. Við reisum ekki efnahagslífið með því að flytja inn malbik og leggja vegi.

Á meðan þessi staða ríkir samfara því að reynt er að stöðva viðræður um aukin samskipti Íslands við nágrannaþjóðir þá er engin von um að það takist að endurreisa íslenskt atvinnulíf, fyrirtækin munu í auknum mæli flytja sig inn á ESB svæðið, fólksflóttinn mun elta störfin þangað.

Verzlum við hjálparsveitirnar

Margoft hafa landsmenn notið aðstoðar björgunarsveitanna. Björgunarsveitarfólkið er ekki bara að leita að fólki til fjalla, auk þess hafa verið stórir flokkar úr sveitunum að störfum í þéttbýli með lögreglu og slökkviliðsmönnum við að bjarga eignum fólks frá skemmdum.

Björgunarsveitarfólk um allt land hefur margoft sýnt að starf þess er algjörlega ómetanlegt og oft við aðstæður sem geta verið lífshættulegar.

Innan Landsbjargar starfa um átján þúsund manns í sjálfboðaliðsvinnu. Við skuldum þessu fólki að það geti notað besta fáanlegan búnað. Ekki bara svo hægt sé að ná til okkar í nauð heldur einnig að það setji sig ekki í aukahættu vegna lélegs búnaðar.

En ekki má gleyma því mikla uppeldishlutverki sem björgunarsveitirnar vinna, þar lærir ungt fólk að umgangast íslenska náttúru og um leið eru byggðir upp heilbrigðir og öflugir einstaklingar Flugeldasala fyrir áramót er mikilvægur tekjupóstur í fjáröfluninni og allt þetta fólk á það inni hjá okkur að við fjölmennum á sölustaði björgunarsveitanna.

En fyrir alla muni notið öryggisgleraugu og varið varlega svo við getum átt slysalaus og gleðileg áramót. Og skjótum upp á gamlárskvöld, er ekki ástæðulaust að vera að því á öðrum tímum.

sunnudagur, 26. desember 2010

Umhverfi okkar


Skrifstofuglugginn minn snýr að Grafarvoginum, þar er mikið fuglalíf. Vogurinn tæmist á fjöru og upp koma leirur með fullar af æti. Skrifstofur Rafiðnaðarsambandsins eru við suðurbakka vogsins og hann er nokkuð brattur. Oft uppstreymi sem krummi og mávarnir nýta til þess að svífa fram og tilbaka.

Ef hvessir bregða krummarnir á leik. Það gaman sjá til flugkúnsta þeirra í uppstreyminu. Þeir fljúga oftast tveir og tveir saman. Velta sér og fljúga á hvolfi velta sér og fara kollhnísa. Oft tekur einhver þeirra spýtukubb og þeir slást um að ná honum á fluginu. Mest gaman er að horfa til flugæfinganna þegar einhver þeirra tekur steinvölu flýgur með hana hátt upp og sleppir henni síðan. Þá steypa þeir sér á eftir henni og keppast um hver sé fyrstur á ná völunni. Snillingar í loftfimleikum.

Við blasir botn vogsins þar sem stendur ónýtt Keldnalandið. Besta staðsetning Landspítalans. Vegamót Vesturlands- og Suðurlandsvegar eru við Keldnalandið. Greiðar leiðir til miðborgarinnar og byggðanna sem eru sunnan við höfuðborgina og til Suðurnesja. Stutt til Geldingarnessins þar sem innanlandsflugið og samgöngumiðstöð væru vel staðsett eftir að 30 ára áætlanir um Sundabrautin yrðu að veruleika. Og við myndum minnka umferð um Miklubrautarhnútinn um einn 5000 manna vinnustað.

Tófan er farinn að rápa um húsgarðana hér í austurbænum segja fréttir. Rebbi hefur fengið frið og gengur á lagið. Rjúpu fækkar, skyttur bölva og jólavenjur eru í hættu. Skolli er klókur og duglegur að bjarga sér, fjölgar sér hratt sé til þess svigrúm. Þetta sést vel sé litið eftir mófugli, sem sumstaðar er nánast horfinn.

Þessa þróun hef ég séð í gönguferðum um Hornstrandir. Melrakki hefur áttað sig á að honum er ekki bráður bani búinn nálgist hann manninn. Frekar að nálægðin sé launuð með góðum bita og kátum kveðjum. Nú er svo komið þegar sest er við tjaldskörina að kvöldi við eldamennsku, kemur Rebbi og sníkir bita og fær fagnandi móttökur, en lætur ekki þar við sitja bölvaður. Ganga þarf vel frá vistum að kvöldi inn í tjaldi, annars stelur Skuggabaldur því yfir nóttina. Gaggandi sendir hann tjaldbúum kveðjur úr hlíðinni ofar tjaldstæði.

Ef maðurinn gengur til veiða verður að huga að heildstæðri mynd. Gengur ekki að veiða einn hluta keðjunnar og svo undrast að hlutföll raskist. Dýrbíturinn er mun duglegri en við til veiða. Fjölgar sér og sækir ekki bara í fuglinn tekur einnig eggin. Að því loknu sækir hann til byggða, hann er fallegur, en það er rjúpan líka.

Ég er af þeirri kynslóð íslendinga sem var send í sveit og var norður í Húnaþingi. Þá lauk skólanum í lok apríl og byrjaði aftur í byrjun október. Á sumrin var ég sendur reglulega frá bóndabýlinu upp á hálendið á hestum í hin fjölmörgu vötn sem þar eru og þar veiddum við silung í net. Maður óð út í vötnin alveg upp að öxlum með netin og síðan var beðið og vitjað í þau um miðnætti og svo eldsnemma morguns. Þegar búið var að veiða eins mikið og komst fyrir í töskunum á hestunum fórum við heim aftur.

Það var ólýsanleg upplifun að vera aleinn 30 km. frá næsta sveitabæ, út í miðju heiðarvatni upp á hálendinu. Oft kom þoka á kvöldin þannig að maður sá einungis nokkra metra frá sér. Kyrrðin var algjör utan þess að himbriminn vall með sínu undurfagra hljóm. Oft var það þannig að hann festist í netunum og ég þurfti að eyða löngum tíma til þess að losa hann án þess að skaðast. Minkurinn skaust um í bakkanum og reyndi að stela sér nokkrum fiskum af aflanum og endurnar héldu sér í hæfilegri fjarlægð. Á björtum sumarnóttum lærir maður að meta íslenskt hálendi.

laugardagur, 25. desember 2010

Hvert viltu fara?


Peningar blinda menn oft og verða að kjarna lífsins, jafnvel þó Jesú hafi varað okkur við og sagt að það væri auðveldara troða úlfalda í gegnum auga stoppunálar en fyrir auðugan mann að komast til himnaríkis. Of margir feta í spor bóndasonarins, þegar hann hafði eignast hanann, ásældist hann alikálfinn.

Eigendur fjármagnsins telja að þeir hafi forgang að þeim arði sem hin vinnandi hönd skapar, arðsemi hlutafjár kemur fyrst svo starfsfólkið. Þar liggur orsök þess ófriðar sem ætíð mun ríkja á vinnumarkaði. Peningar eru til lítils ef ekki er til staðar þekking til þess að nýta þá. Ágirnd leiðir eilífrar fátæktar. Kynlífsþrælkun, barnaþrælkun og atvinnukúgun starfsmannaleiga eru orðin áberandi mein á hinu vestræna samfélagi og viðhorf gegn þessu deyfast. Þar er hin blinda auðhyggja að nýta sára fátækt til þess að ná arði. Ef hinn bláfátæki sættir sig ekki við það sem að honum er rétt, þá er honum umsvifalaust hent á dyr í atvinnuleysið og örbirgðina.

Öfgakenndir hægri menn hafa ítrekað reynt að koma í gegn heimild innan Evrópusambandsins um að miða eigi við laun í upprunalandi vinnuafls, ekki á því svæði þar sem vinnan fer fram. Valdamestu ríkin í Evrópusambandinu með Frakkland í broddi fylkingar hafa staðið gegn þessu. Þau hafa bent á það í málflutning sínum, að nái Frjálshyggjumenn sínu fram, jafngildi það að vinnumarkaður Evrópu taki hraðlest niður til þeirra kjara sem lægst eru á Efnahagssvæðinu.

Það er einmitt það sem málsvarar forsvarmenn auðhyggjunnar vilja, svo þeir geti hámarkað arð sinn á kostnað hinna bláfátæku launamanna, og nýta sér ástand þeirra svæða þar sem atvinnuleysið er mest og kjörin lökust. Evrópuríkin stofnuðu með sér samband til þess að auka atvinnu og velmegun, okkur hefur orðið töluvert ágengt, lífskjör fara batnandi. Við erum að berjast fyrir sjálfsvirðingu og atvinnuöryggi þannig að starfsmaðurinn geti horfst í augu við vinnuveitanda sinn ekki á skó hans.

Einn af sjóliðsforingjum Napóleons sagði honum þegar hann kom heim frá Loocho eyju, að þar væru engin vopn. Napóleon varfurðu lostinn og spurði; “Hvernig í ósköpunum fara þeir að því að berjast?” Svarið sem Napóleon fékk var; “Þeir berjast aldrei, þeir eiga nefnilega enga peninga.”

Krossfarar nútímans fara í skjóli ofstækisfullra trúarskoðana og eyða gífurlegum fjárhæðum í vopn. Þeir myndu ná mun lengra og meiri árangri í baráttu sinni gegn hryðjuverkum með því að byggja upp atvinnulífið og gera fátækum launamönnum kleift að berjast fyrir auknum réttindum. Staða bláfátæks fólks leiðir til vonleysis og reiði. Þar skapast frjósamur jarðvegur fyrir uppeldi hryðjuverkamanna. Þar er auðvelt að ná til ungs fólks sem býr í vonleysi láglaunasvæðanna og sannfæra það um nauðsyn óhugnanlegra hryðjuverka.

Í ævintýrinu um Lísu í Undralandi kemur hún að gatnamótum og spurði kött sem þar staddur; “Getur þú nokkuð verið svo vinsamlegur að segja mér hvaða leið ég á að fara?”
Kötturinn svaraði um hæl; “Já, það fer nú heilmikið eftir því hvert þú vilt fara.”
Lísa svaraði “Æi, það skiptir ekki svo miklu máli hvert ég fer!”
Þá svaraði kötturinn sposkur;” Nú, þá skiptir heldur ekki máli hvaða leið þú velur!”

Lífið er fullt af áskorunum og viðfangsefnum, til að ná árangri og lífsfyllingu verðum við að gera upp við okkur hvert viljum stefna. Of oft gerum við það án þess að leggja nokkurt mat á hvert við stefnum og hvað við þurfum að forðast. Hamingjan er ekki við næstu gatnamót og við þurfum ekki að fara langar leiðir til að finna hana. Hún er við hlið þér, felst í þeirri ákvörðun að njóta hennar.

Framtíðin er nokkuð sem maður nær með 60 mínútna hraða á klukkustund, sama hversu gamall þú ert. Ekki dreyma um framtíðina, hún gefur þér ekki hið liðna aftur, hún byrjar í næsta skrefi.

Sendi hinum fjölmörgu lesendum mínum kveðjur um gleðileg jól.

fimmtudagur, 23. desember 2010

Jólapistill


Fyrir liggur eitt erfiðasta ár íslendinga, mikill niðurskurður og í undirbúningi eru kjarasamningar fyrir alla launamenn. Mörgum finnst lítið hafa miðað frá Hruni, of mikilli orku hafið verið eytt í átakastjórnmál og koma höggi hverjir á aðra. Skeytingarleysi hafi verið of áberandi í samfélaginu, of margir hafi látið eins og samfélagið sé eitthvert náttúrulögmál, sem líði áfram undir stjórn einhverra annarra.

Ábyrgð fylgir öllum sem hafa verið þátttakendur í samfélaginu, en óþolinmæði og skeytingarleysi hafa verið of áberandi varð tíðarandinn. Keppni á öllum sviðum. Umræðan hefur einkennst af „með og á móti hópum“ um öll atriði. Sköpuð er hin fastmótaða íslenska keppni, sem í dag heltekur öll samskipti samfélagsins. Málum komið í þann farveg að ekki fer fram vitræn umræða, heldur keppni í hvaða lið vinnur og getur náð athygli fjöldans í núinu og skoðanakönnun vikunnar. Sá vinnur skrumið og útúrsnúningakeppnina.

Í hinu íslenska samfélagi er allt skipulagt í misserum ekki á mannsöldrum eins og hjá þróuðum þjóðum. Margir hafa bent á að taumlaus græðgi, skeytingarleysi og óþolinmæði hafi verið of áberandi í íslensku samfélagi. Nú sé tækifæri til þess að vinna að því að byrja á nýjum grunni, fyrir liggi að endurskoða stjórnarskrá og fyrir liggja þau gildi sem þjóðin vill að verði lögð áhersla á.

Við verðum að spyrja okkur sjálf hvernig samfélag við viljum vera? Viðhorf landsmanna eru nú önnur en þau voru fyrir Hrun. Það felst ekki einvörðungu í að koma réttlæti yfir það sem mesta ábyrgð bera á Hruninu. Fólk vill endurreisa samfélagið á öðrum forsendum og afhenda það næstu kynslóð. Samfélag sem hefur laskast þarf að endurskoða sig og hefja uppbyggingu með öðrum aðferðum en áður voru notaðar.

Skortur á heildarsýn og langtímamarkmið er veikleiki íslendinga. Á meðan rótgróin samfélög hugsa í mannsöldrum, gera íslendingar áætlanir í misserum. Mikið á að fást strax. Til þess að öðlast mikið þarf að leggja mikið á sig. Allt fæst ekki fyrir lítið. Sá sem er of góðu vanur verður oft firringunni að bráð.

Ég óska hinum fjölmörgu lesendum gleðilegra jóla.

Efnahagslegar þrælabúðir krónunnar

Samanburður á verði matvæla eða annarri vöru í hinum ýmsu löndum og hjá okkur segir í raun ekkert. Hann er álíka marklaus ef rætt er um kauphækkanir einar út af fyrir sig. Það er kaupmáttur sem segir okkur til um árangur kjarabaráttu. Hversu langan tíma við þurfum að verja til þess að kaupa nauðþurftir, þak yfir fjölskylduna með rafmagni og hita, sem segir okkur til um raunverð matvæla.

Til að fá marktækan samanburð á verði milli landa er nauðsynlegt að hafa í huga kaupmátt íbúa þeirra landa sem verið er að bera saman. Kaupmáttur launa á Íslandi féll á einni nóttu haustið 2008 um svipað hlutfall og hafði áunnist næstu 8 ár á undan. Auk þess hafa skattahækkanir ásamt minni þjónustu frá velferðarkerfinu valdið því að fólk hefur minna umleikis. Við verðum að verja meiri tíma til þess að geta keypt daglegar nauðsynjar og matvælaverðið á Íslandi verður hátt til lengdar. Ef við göngum í ESB mun matarverð á Íslandi lækka svo um munar, í það minnsta í þeim vöruflokkum þar sem höftin og tollarnir eru mestir. Ellegar væru sérhagsmunahópar á borð við Bændasamtök Íslands ekki á móti því að leyfa tollfrjálsan innflutning matvæla.

Algengt viðkvæði þeirra stjórnmálamanna sem ganga erinda kvótaeigenda og bænda er að verja krónuna með því að halda því fram að lönd innan ESB eigi við efnahagsvandamál að etja. Staðreyndin er sú að okkar stærstu vandamál eru vegna gjaldmiðilsins. Í þeim löndum sem þeir benda á er almenningur ekki að tapa eignum sínum vegna ónýts gjaldmiðils, ofurvaxta og verðtryggingar. Þar getur fólk selt eignir sínar og flutt þær, t.d. til annarra landa. Hér í krónuumhverfinu er hvorugt hægt.

Ekkert land í Evrópu hefur orðið fyrir jafnmiklu kerfistjóni og Ísland, það er vegna hruns krónunnar. Ekkert Evruríki hefur orðið fyrir jafnmiklu tekjutapi og hér, það er vegna hruns krónunnar. Tekjustofnar ríkissjóðs hafi hrunið um tugi prósenta og er í raun stærsta vandamálið sem Alþingi þarf að glíma við. Ísland er rúið efnahagslegu trausti, það er vegna krónunnar.

Ef þjóð býr við stöðugan gjaldmiðil verður rekstur fyrirtækja og hins opinbera reistur á traustum grunngildum í stöðugu umhverfi og leiðir jafns vaxtar og skapar störf. Þetta blasir við okkur ef við lítum t.d. til Danmerkur, og það er vegna þessa að þjóðir leita inn í ESB og til að tryggja fullveldi sitt. Það rekur engin fyrirtæki til langframa með bókhaldsblekkingum – Ebita blekkingum.

Íslenskt atvinnulíf getur ekki endurfjármagnað sig, það er vegna krónunnar. Lönd sem eru með Evru eru ekki í sömu vandræðum. Hvergi á norðurlöndunum eða í vestan-verðri Evrópu hefur kaupmáttur fallið eins mikið og hér, það er vegna hruns krónunnar.

Vextir hér eru hærri vegna krónunnar. Vextir leiða til hærra verðlags. Óstöðugur gjaldmiðill leiðir til enn hærra verðlags. Það eru aðstæður og skilyrði sem ákvarða hvort fyrirtæki vaxa og dafna. 25% af launum íslendinga fara í aukakostnað vegna krónunnar. Til þess að hafa svipuð laun og annarsstaðar á norðurlöndunum þurfum við að skila 25% lengri vinnuviku.

Vextir hér á landi eru töluvert hærri en annarsstaðar og vaxtamunur verður alltaf a.m.k. 5% hærri á Íslandi en innan Evrusvæðisins, það er vegna krónunnar. Ef fjölskylda sem kaupir sér eitt hús á Íslandi og önnur kaupir sér hús t.d. í Danmörku. Þá er staðan sú eftir 20 ár að þá hefur íslenska fjölskyldan greitt sem svarar andvirðis rúmlega tveggja húsa, séu greiðslur bornar saman við endurgjald dönsku fjölskyldunnar.

Krónan heldur íslendingum í efnahagslegum þrælabúðum. Við viljum losna undan þeim viðjum sem þessi valdaklíka heldur okkur í og fá efnahagslegt frelsi takk fyrir.

Forsvarsmenn CCP, Össur, Marel og allra hátæknifyrirtækjanna hafa marglýst því yfir að þeir verði að færa sig yfir í Evrusvæðið ef fyrirtækin eigi að lifa. Þau eru þegar farinn að greiða hluta launa í Evrum. Stjórnendur þessara fyrirtækja telja að innganga Íslands inn í ESB muni leiða til þess að umhverfið sem þeir hafi starfað í síðustu ár róist og verði líkara því sem er í öðrum löndum, þar sem þau geta gengið að flestu vísu, svo vitnað sé í þeirra eigin orð.

Þótt margt hafi breyst til batnaðar í starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja erum við enn að burðast með íslensku krónuna, hina örsmáu og óstöðugu mynt. Íslenskt atvinnulíf starfar í alþjóðlegu umhverfi og við verðum að víkja frá einangrunarstefnunni. Vandamálið var ekki síst að það var nánast ómögulegt að fá krónur að láni til þess að fara út í framkvæmdir. Eitt af helstu vandamálum Íslendinga er krónan. Hún er alltof dýr og hreinlega ónothæf þegar kemur að fjármögnun stórra framkvæmda.

Það er brýnt að annar gjaldmiðill verði tekinn upp í landinu, sé horft til framtíðar. Ísland á miklar auðlindir og mun ná vopnum sínum. Það eru allar forsendur fyrir því að það sé hægt að á skömmum tíma. Ef ekki verður gripið til réttra aðgerða verður Ísland láglaunasvæði við hlið hinna norðurlandanna sem eru með lægri vexti, hærri laun, mun lægra verðlag og mun betra öryggisnet. Það kallar á fólksflótta. Varanleg lausn á gjaldeyriskreppunni er lykill og grunnur að lausn annarra stórra vandamála á Íslandi og um leið forsenda endurreisnar.

Hlutdeild sjávarútvegsins í þjóðarframleiðslunni er innan við 8% og skapar um þriðjung gjaldeyris. Þau 20.000 störf sem þarf að skapa á næstu 4 árum til þess að koma atvinnuleysinu niður fyrir 4% verða ekki í sjávarútvegi og landbúnaði. Ný störf verða til í sömu störfum og atvinnuleysið er nú; þjónustu og tæknigreinum. Það er því kaldranalegt fyrir atvinnulausa fólkið að heyra þá sem hafa atvinnu hafna algjörlega eina möguleikanum að koma þróuninni í réttan farveg og til framtíðar með því að nýta orkuna og byggja upp þekkingariðnað, líftækni, lyfjaframleiðslu og ferðaþjónustu.

Þessar atvinnugreinar eiga það sameiginlegt að búa við stöðugleika. Þau þurfa aðgang að erlendu fjármagni og erlendum mörkuðum, af því að heimamarkaðurinn er of smár. Okkur er lífsnauðsyn að tengjast stærra myntsvæði, sem getur fært okkur stöðugt efnahagsumhverfi. Ella munu atvinnugreinar framtíðarinnar ekki þrífast hér. Unga menntaða fólkið mun flytja úr landi og þeir sem eru að mennta sig núna koma ekki heim.

miðvikudagur, 22. desember 2010

Viltu 30% launahækkun - til frambúðar?

Umræðan um ESB aðild kosti hennar og galla virðast vekja upp hræðslu við breytingar, þjóðernisrembing og ofsafengin viðbrögð sérhagsmunahópa. Þeir þola ekki að bent sé á hvaða hag við hefðum að samstarfi við önnur Evrópulönd. Þeir þora ekki að láta reyna á samninga við ESB og vilja að tryggja óbreytt ástand í efnahags-og stjórnmálum þjóðarinnar.

Ein helsta orsök Hrunsins var sú að hingað flæddi ódýrt lánsfé sem átti að ávaxtast á okurvöxtum á Íslandi. Uppgjör bankana á árinu 2008 leit vel út m.a. vegna gengishagnaðar. Hefði þjóðin haft nothæfa mynt í stað krónunnar, árin fyrir hrun, hefði líklega hvorugt átt sér stað. “Lífskjarabatinn” sem rekja má til óeðlilega sterks gengis krónunnar hefði ekki orðið. Íslenskur almenningur býr við stökkbreytingar á skuldum og um 25 þús. heimili liggja í valnum. Á meðan ekkert slíkt gerðist á hinum Norðurlandanna.

Kostnaðurinn íslendinga við að hafa krónuna kemur fram í hærri vöxtum hér á landi og verðtryggingu, því enginn fjármagnseigandi, hvorki innlendur né erlendur vill lána krónur án verðtryggingar. Skoðum kostnað við 20 milljón króna íbúðarláni hér á landi annarsvegar og í öðru Evrópulandi:

Dæmi um lán á Íslandi.
Íbúðarlán hjá Íbúðarlánasjóði 20 milljónir til 25 ára með 5% vöxtum verðtryggt.
Endurgreiðsla, vextir, verðbætur og annar kostnaður 64,2 milljónir króna.

Dæmi um lán í Evrópulandi innan ESB.
Íbúðarlán hjá evrópskum banka 20 milljónir til 25 ára með nú 3,79% til 4,24% vextir, en mjög fjölbreytileg kjör eru í boði og finna mátti hagstæðari kjör en þessi.
Endurgreiðsla, vextir og annar kostnaður kr. 32,6 milljónir króna. Engar verðbætur.

Mismunurinn er 31,6 milljónir króna eða að meðaltali 105 þúsund krónur á mánuði, hvern mánuð í 25 ár.

Mest munar þar um að verðbætur á tímabilinu eru 29,1 milljón eða 9,1 milljón króna umfram upphaflegan höfuðstól lánsins.

Verðbólgan hefur alltaf verið mun hærri hér en markmið stjórnvalda/Seðlabankans hafa verið. Síðustu 20 árin hefur meðaltals verðbólga verið rúmlega 4,5% á meðan verðbólgumarkmið Seðlabankans hafa verið 2,5%. Verðbólgan hefur því verið ca. 80% hærri að meðaltali en markmið stjórnvalda/Seðlabankans hafa verið. Þetta segir allt sem segja þarf um stjórn efnahagsmála á síðustu tveim áratugum.

Skatturinn á íslenskt heimili við að koma sér upp meðalstóru húsnæði og fjármagna með íslensku krónunni er um 30 milljónir króna umfram það sem gerist annarsstaðar á Norðurlöndunum. Mismun sem heimilin hefðu til annarra nota, sparnaðar, neyslu eða fjárfestinga og þannig væri efnahagslífið sterkara um leið og heimilin væru betur sett fjárhagslega. Það er fjárhagslega, mesta hagsmunamála heimila og fyrirtækja í landinu, að losna við krónuna og taka upp aðra mynt sem ekki þarf 3-5% vaxtaálag og verðtryggingu sér til viðhalds.

Árið 2005 gerðu Neytendasamtökin könnun á vöxtum á húsnæðislánum í tíu Evrópulöndum. Ef miðað er við að greiddir séu 2% raunvextir er endurgreiðsla 40 ára láns um 1,5 sinnum höfuðstólinn. Séu vextir 4% er endurgreiðslan tvöfaldur höfuðstóll að raunvirði og ef þeir eru 6% þá er endurgreiðslan 2,7 sinnum upprunalegt lán.

Þetta þýðir að endurgreiðsla á íslensku láni er næstum tvöfalt hærri en í samanburðarlöndunum og er þó ekki tekið það tilvik þar sem mestu munar. Lánakostnaður er því tvö til þrefalt meiri á Íslandi en í samanburðarlöndum.

Miðað við 20 milljón kr. lán þýðir 2% munur 400 þús. kr. mismun á ári, sem 4% þýðir að Íslendingar greiða 800 þús. kr. meira en erlendi húskaupandinn. Á mánuði er munurinn 33 – 66 þúsund krónur á mánuði sem samsvara 45 – 90 þúsund fyrir skatta. Þetta samsvarar 15 – 30% launahækkun, ef miðað er við algeng laun.

Krónan banamein kaupmáttaraukningar

Seðlabankinn kynnti skýrslu í vikunni þar sem kemur fram að Íslenska krónan hefur rýrnað um 99,99 prósent frá seinna stríði vegna verðbólgu. Bankinn segir sögu peningastefnu og gjaldmiðlamála á Íslandi vera þyrnum stráða. Verðbólga hefur valdið því að kaupmáttur hefur rýrnað afar mikið síðustu áratugi.

Sem dæmi er nefnt að í ágúst síðastliðnum hefði þurft meira en 7100 krónur til að kaupa þá vöru og þjónustu sem ein króna hefði keypt undir lok heimsstyrjaldarinnar árið 1944 ef ekki hefði komið til þess að tvö núll voru slegin af krónunni árið 1981. Það er rýrnun upp á 99,99% á rúmlega 65 ára tímabili.

Íslenska krónan hafi verið skráð á pari við dönsku krónuna fram til ársins 1920, en á því ári var ákveðið að skrá gengi hennar sérstaklega. Gengi dönsku krónunnar er nú um 20 íslenskar krónur, en sé tekið tillit til myntbreytingarinnar 81 má segja að gengi dönsku krónunnar sé 2000 gamlar krónur. Verðgildi íslensku krónunnar gagnvart hinni dönsku hefur því rýrnað um 99,95 prósent á 90 ára tímabili.

Alþjóðavinnumálastofnunin í Genf birti einnig í vikunni skýrslu þar sem borinn er saman áhrifum fjármálakreppunnar á kaupmátt launafólks um víða veröld. Í henni er staðfest það sem margoft hefur verið bent á þessari síðu. Krónan er mesti óvinur íslenskra launamana og heimila. Kaupmáttaraukningin sem verkalýðshreyfingunni tókst með kjarasamningum að byggja upp á þessari öld þurrkaðist út í Hruninu.

Ég hef oft í pistlum bent á hversu miklu hærri launahækkanir við höfum orðið að semja um en launþegasamtök í öðrum löndum, en samt hefur ekki tekist að viðhalda kaupmættinum, auk þess sitja íslensk heimili í skuldasúpu og sum eru þegar sokkinn. Innganga Íslands í ESB og upptaka evru er stærsta hagsmunamál launþega og heimila í þessu landi, og eina færa leiðin út úr kollsteypu hagkerfinu.

Elvar Örn Arason er menntaður í alþjóðasamskiptum og evrópskum stjórnsýslufræðum, hefur tekið saman áhugaverða skýrslu um þetta.

Þar kemur fram að íslenskum launamönnum hafði tekist það sem af var þessari öld, að ná um 13% kaupmáttaraukningu fram að Hruni og töpuðu henni nær allri við Hrunið,auk þess að fjöldi heimila tapaði öllum sínum eignum.

Danir féllu ekkert um við efnahagshrunið og hafa bætt við sig 1% eftir 2008 og tæp 6% það sem af er þessari öld. Auk þess að halda þeir sínum eignum.

Svíar hafa gert betur, þeir hafa bætt við sig 2.3% eftir efnahagshrunið og 7,3% það sem af er þessari öld, og líka halda sínum eignum.

Finnland hefur bætt við sig 4,5% í kaupmætti frá efnahagshruninu og bætt við sig 10,8% það sem af er þessari öld.

Noregur er með mestu kaupmáttaraukninguna af Norðurlöndunum eða 10,8% það sem af er þessari öld, þar af 4,5% frá árinu 2007.

Meðaltal kaupmáttaraukningar í Evrópu það sem af er þessari öld er 12,7%, þar af 2,7% eftir efnahagshrunið. Heimild: Alþjóðavinnumálastofnunin (ILO) árið 2010.

Alþjóðavinnumálastofnunin byggði niðurstöðu sína á launatölum frá Hagstofu Íslands og verðþróun hér á landi.

þriðjudagur, 21. desember 2010

Hrein eign lífeyrissjóða??

Umræðan um lífeyrissjóðina hefur oft verið einkennileg og í mörgu einkennst af þekkingarskorti og skilningsleysi á því hvernig kerfið starfar. Og síðast en ekki síst hvað sjóðsfélagar hafa samþykkt á sjóðsfélagafundum. Einkennilegt því það er búið skrifa einhver ósköp um lífeyriskerfið á undanförnum árum og eins liggja fyrir á netinu ákaflega greinargóðar útskýringar.

Vart hægt að varast þá hugsun að umræðan undanfarið um lífeyrissjóðina sé rekin áfram til þess eins að draga umræðuna frá þeim alvarlegu málum sem hafa verið að koma upp á yfirborðið um athafnir innan bankakerfisins og í stjórnkerfinu. Þetta virðist blasa við þegar skoðað er hverjir það eru sem reka umræðuna áfram og hvar hún fer fram. Margt er fjarri öllu sanni, t.d. að lífeyrissjóðirnir hafi fjármagnað þensluna sem leiddi til Hrunsins. Það hefur margoft komið fram að tap erlendra banka hér á landi í Hruninu hafi verið u.þ.b. 7 sinnum meira en allar innistæður sem eru í lífeyrissjóðunum.

Auk þess er það fjármagn sem tapaðist hjá innistæðueigendum í bönkunum og fjármagnseigendum meira en lífeyrissjóðirnir töpuðu. En samt er því haldið fram að þetta sé allt stjórnendum lífeyrissjóðanna að kenna. Þetta er í besta falli barnalegt. En sumir láta nota sig til þess að draga umræðuna frá því sem raunverulega gerðist. Þetta er í samræmi við aðvaranir sem hingað hafa borist frá þeim einstaklingum sem fjalla um samskonar vandamál, þ.e. að fyrrv. valdamenn og fjárglæframenn muni leggja allt í sölurnar til þess að trufla eðlilega umræðu með því að þyrla upp moldvirði og henda reyksprengjum inn í umræðuna.

Sumir spyrja hver sé tilgangur lífeyrissjóða. Sáralítið sé greitt út til lífeyrisþega af inngreiðslum til sjóðsfélaga og lífeyrissjóðir séu reknir með ofboðslegum hagnaði sem notaður sé til þess að fjárfesta í viðskiptalífinu. Hrein eign lífeyrissjóðanna sé mikil.

Lífeyrissjóður er uppsafnað sparifé þeirra sjóðsfélaga sem greitt hafa í viðkomandi sjóð, íslenska lífeyriskerfið er uppsöfnunarkerfi ekki gegnumstreymiskerfi og það er nákvæmlega þess vegna sem aðrar þjóðir eru að taka upp samskonar kerfi. Hluti inngreiðslu kemur beint frá sjóðsfélaga og hluti frá vinnuveitanda hans, en öll upphæðin er eign starfsmannsins, sjóðsfélagans. Hún er hluti lögbundinna launa hans. Lífeyrissjóður á engar eignir utan skrifstofuáhalda og þess húsnæðis sem starfsemi hans fer fram í.

Hlutverk lífeyrissjóðs er að taka á móti iðgjöldum sjóðsfélaga og ávaxta þau með besta hætti sem til boða stendur hverju sinni og greiða lífeyri til sjóðsfélaga. Kerfið er stillt þannig af að sjóðsfélagi sem greiðir allan sinn starfsaldur, það er frá 25 ára til 67 ára, á þá í sínum sjóð innistæðu fyrir lífeyri sem svarar til um 60% af meðallaunum frá 67 ára aldri til dauðadags. Ef viðkomandi hefur greitt í styttri tíma verður lífeyririnn minni í réttu hlutfalli við það sem upp á vantar.

Flestir lífeyrissjóðirnir voru stofnaðir árið 1970, en það er ekki fyrr en 1989 sem farið er að greiða til sjóðanna af fullum launum. Það þýðir að það er ekki fyrr en um 2031 sem til verða sjóðsfélagar með full réttindi og skýrir hvers vegna sjóðsfélagar eru að fá ákaflega mismundi mikinn lífeyri í dag. Auk þess hvers vegna mun meira kemur inn í sjóðina en fer út, en þetta mun snúast við eftir 2020 þegar meir fer að streyma út úr kerfinu en kemur inn í það.

En almennu lífeyrissjóðirnir eru eins margoft hefur komið fram í umræðu um þá að glíma við tvö feikilega erfið vandamál. Meðalaldur er sífellt að lengjast og örorka hefur vaxið langt umfram það sem gert var ráð fyrir þegar menn settust niður árið 1970 og reiknuðu út hversu mikið þurfti að greiða í lífeyrissjóð, þá var meðalaldur um 9 árum minni en hann er í dag og gert ráð fyrir að um 15% af útgreiðslum sjóðanna færi til örorku, en er komið upp í 40% í sumum sjóðanna í dag.

Auk þess blasir við að fjárfestingarmöguleikar lífeyrissjóðanna eru mjög takmarkaður hér á landi og mikil áhætta fyrir þá að vera með svona hátt hlutfall í fjárfestingum hér á landi.

fimmtudagur, 16. desember 2010

Undirbúningur kjarasamninga

Við erum mörg sem finnst lítið hafa miðað frá Hruni, of mikilli orku eytt í átakastjórnmál og koma höggi hver á aðra. Skeytingarleysi hafi verið of áberandi í samfélaginu, of margir hafi látið eins samfélagið sé eitthvert náttúrulögmál, sem renni áfram undir stjórn einhverra annarra. En ábyrgð fylgir öllum þeim sem hafa verið þátttakendur í samfélaginu, en óþolinmæði og skeytingarleysi hefur verið of áberandi, of margir sem fylgdu straumnum umhugsunarlaust.

Við verðum að spyrja okkur sjálf hvernig samfélag viljum við vera? Samfélag sem hefur laskast þarf að endurskoða sig og hefja uppbyggingu með öðrum aðferðum en áður voru notaðar. Skortur á heildarsýn og langtímamarkmið er veikleiki íslendinga. Á meðal rótgróin samfélög hugsa í mannsöldrum, gera íslendingar áætlanir í misserum. Mikið á að fást strax. Til þess að öðlast mikið þarf að leggja mikið á sig. Allt fæst ekki fyrir lítið. Sá sem er of góðu vanur verður oft firringunni að bráð.

Fyrir liggur eitt erfiðasta ár íslendinga, mikill niðurskurður og í undirbúningi eru kjarasamningar fyrir alla launamenn. Ríkisstjórnin hefur ásamt atvinnurekendum lagt til að gerður verði a.m.k 3ja árasamningur. En mörg stéttarfélög hafa hafnað því, en jafnframt bent á að sé litið til heildarhagsmuna samfélagsins er langtímasamningur bestur, en þá þurfa allir að starfa af heilindum og traust ríkja milli aðila. Það traust er ekki til núna og ekki hefur það batnað með tillögum ríkisstjórnar í nýjum fjárlögum.

Þar er ekki staðið við ákvæði sem ríkisstjórnin eru í gildandi samkomulögum um atvinnuleysistryggingasjóð og starfsendurhæfingarsjóð. Gert er ráð fyrir að atvinnutryggingagjald skili 30,6 mia.kr. á næsta ári en að heildarkostnaður atvinnuleysistryggingarsjóðs verði 22,8 mia.kr. Ríkissjóður ætlar semsagt að taka til sín 7,8 mia.kr. úr atvinnuleysistryggingarsjóð í önnur verkefni á næsta ári. Þetta jafngildir því að ríkissjóður hrifsi til sín sem nemur 1% af launasummunni án skilgreiningar.

Í nýju yfirliti frá Hagstofunni yfir laun 7.500 félaga innan ASÍ byggðu á pöruðum launauppgjörum fyrirtækja kom m.a. fram að á þeim samningstíma sem nú er að renna út (sept. 2007 - sept. 2010) hafi laun innan ASÍ hækkað að meðaltali um 18%. Umsamdar lágmarkshækkanir voru tæplega 13%. Laun iðnaðarmanna hækkuðu að meðaltali um 14%. Laun verkafólks hækkað að meðaltali um 23%, þar spila sterkt inn sérstakar hækkanir á lægstu töxtum.

Það eru ekki kjarasamningar sem hafa mest áhrif á raunlaun okkar og kaupmátt, það er gengi krónunnar sem spilar þar mest inn. Á þessu tímabili hefur kaupmáttur félagsmanna ASÍ fallið að meðaltali um 9,7%. Kaupmáttur iðnaðarmanna hefur fallið um 12.8%. Kaupmáttur tæknifólks hefur fallið um 11.4%. Kaupmáttur skrifstofufólks hefur fallið um 9.5%. Kaupmáttur verkafólks hefur fallið um 6.3%.

miðvikudagur, 15. desember 2010

Meiri jákvæðni

Hún hefur sannanlega verið einkennileg umræðan frá Hruni. Rekinn áfram af neikvæðni, rætni og heimtufrekju. Nái menn ekki sínu fram, þá er veist að þeim sem taldir eru standa í vegi með ógeðfelldum ásökunum. Þessari kröfuhörku hefur oft verið líkt við hátterni alkóhólista, hann vill fá meira að drekka, hann er á hröðum flótta undan sjálfum sér inn í framtíðina. Hafnar því að horfast í augu við sjálfan sig.

Sé skoðað hverjir viðhafa mestu ásakanirnar og hafa hæst skýrist málið. Hann hefur eytt um efni fram, var virkur þátttakandi í þenslunni og krefst þess hiklaust án umhugsunar að fá sparifé annarra til þess að fjármagna áframhaldandi neyslu. Hann er ekki virkur þátttakandi í stéttarfélögum, en veitist að þeim með uppspunnum dylgjum byggðum á þekkingarleysi.

Upp á þetta hefur okkur verið boðið í beinni útsendingu í ljósvakamiðlum og þeir sem stjórna þeirri umræðu hafa leitað uppi aðra sömu skoðunar til þess að fá staðfestingu á sinni skoðun. Niðurstaðan er ákveðin fyrirfram.

Nú er komið fram að það sem bent var á fyrir tveim árum og ekki verður lengur undan því vikist að horfast í augu við staðreyndir og fara að lögum og gildandi samningum. Svo einkennilegt sem það nú er þá hafa nokkrir stjórnmálamenn ásamt bæði fyrrv. og núverandi ráðherrum verið virkir þátttakendur í því að ala á væntingum um að sniðganga megi lög.

Er ekki kominn tími til þess að skipta um aðferðarfræði og hætta að ala á neikvæðni og innistæðulausum væntingum? Fyrir liggur eitt erfiðasta ár íslendinga, mikill niðurskurður og í undirbúningi eru kjarasamningar fyrir alla launamenn.

Talið er að nú flytji héðan um 10 fjölskyldur á mánuði, þetta er ekki atvinnulaust fólk, þetta er velmenntað fólk á besta aldri og er að flytja sakir þess að það er búið að gefast upp á því samfélagi sem hér hefur myndast. Ein helsta meinsemd íslensks samfélags að þar hefur ekki verið sátt um grunngildin. Þeir sem hafa haft valdið beittu brögðum til þess að tryggja völd sín enn frekar. Spilltu valdinu og nýttu stöðu sína til þess að hrifsa til sín eignir samfélagsins og skópu með því ófrið.

Í fyrsta kafla finnsku stjórnarskrárinnar stendur þessi yfirlýsing: „Stjórnarskráin skal tryggja friðhelgi mannvirðingar, frelsi og rétt einstaklingsins og stuðla að réttlæti í samfélaginu.“ Engin slík yfirlýsing er í hinni íslensku. Stjórnendur ljósvakamiðla ættu að hefja nýtt ár með því að endurskoða með hvaða hætti þeir geta stuðlað að meiri jákvæðni í umræðunni. Stjórnmálamenn vanda betur og ígrunda það sem þeir láta frá sér fara. Við verðum öll að taka höndum saman og vanda okkur ef ekki á að fara enn verr.

mánudagur, 13. desember 2010

Erum við á réttri leið?

Ég er ekki alveg að skilja af hverju stjórnmálamenn telja að leiðin upp með hagkerfið sé fólgin í því að grafa göng og leggja vegi og flytja inn tjöru. Ef við ætlum að stækka hagkerfið og ná að greiða niður skuldir okkar þá er ein leið hún er að leggja alla áherslu á að skapa grundvöll fyrir frekari fjárfestingum og koma atvinnulífinu í gang.

Auka verður útflutning, en hann hafi staðið í stað undafarið. Tekjur samfélagsins vaxa einungis með meiri verðmætaaukningu í atvinnulífinu og auknum útflutning með meiri erlendum tekjum. Við þurfum á þeim að halda eigi að komast yfir risavaxna skuldabagga íslensks samfélags. Samfélagslegar aðgerðir eins og vegalagning og veggöng skila ekki tekjuauka í formi aukinna útflutningstekna, þó svo þær séu mikilvægar.

Það verður að skapa traust og stöðugleika eigi að fá fyrirtækin og heimilin til þess að fjárfesta. Bæta aðgang að erlendu lánsfjármagni og ryðja gjaldeyrishöftum í burtu. Starfsmenntakerfið verður að styrkja svo það geti mætt þörfum atvinnulífsins og styrkja framgang sprotafyrirtækja. Það væri best gert með samspili atvinnuleysistryggingasjóðs og starfsmenntasjóða atvinnulífsins, með því verður vinnumiðlun skilvirkari.

Svartagallsrausið

Eins og svo oft áður þá bregðast þeir harkalega við sem hafa verið með hvað ómerkilegustu ásakanir í garð starfsmanna lífeyrissjóða, þegar bent er á götin í málflutning þeirra. Neita því ekki að ég hef lúmskt gaman að horfa upp á örvæntingarfull viðbrögð þeirra við pistlinum sem ég skrifaði í gær. Sumir reyna að snúa út úr með því að ég þoli ekki að gert sé grín af mér í Spaugstofunni. Málið snýst ekki um það, það er sú lágkúra þegar mjög óvægnar sakir eru bornar á saklaust fólk byggðar á því svartagallsrausi sem hefur heltekið umræðuna.

Ég er og hef verið ákafur aðdáandi Spaugstofumanna, en mér leiðist þegar þeir byggja spaug sitt á röngum forsendum og veitast að saklausum starfsmönnum. Svona til þess að árétta það þá er ég ekki starfsmaður lífeyrissjóðs.

En í hvert skipti sem einhver skrifar eitthvað annað en svartnætti og niðurtal fyllist athugasemdakerfið af rætnum skrifum og yfir mann dynur hrúga af haturspóstum með útrúrsnúningum þar sem manni eru gerða upp allskonar smánarlegar skoðanir. Komist maður í færi við þessa einstaklinga fara þar langoftast menn sem standa helst utan samfélagsins með því að vera verktakar og hafa ekki staðið við greiðslur til samfélagsins og reyna að koma sökum á aðra.

Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagði í mjög góðu viðtali á Sprengisandi á laugardaginn að svartagallsraus „gáfumanna“ ekki sanngjarnt enda margt skárra nú en áður, en margir séu að blogga sig í hel á þessum forsendum og draga úr þeirra bjartsýni sem svo mikil þörf sé á þessa dagana. Ríkissjóður hefði fjármagnað sig með láni með óverðtryggðum vöxtum til tveggja ára. „Allir í heiminum í kring horfa á þetta með öfundaraugum," sagði Már en aðspurður hver hafi lánað ríkinu svaraði hann því til að það hefðu verið lífeyrissjóðirnir.

Lífeyrissjóðirnir eru nú að endurreisa fyrirtæki og samfara því að tryggja sjóðsfélögum sínum ávöxtun. „Gáfumennirnir“ heimta að það sé ekki gert heldur einungis keypt ríkistryggð skuldabréf eða þá í fyrirtækjum sem ekki eru í samkeppni!! Er það líklegt til þess að endurreisa atvinnulífið? Það er sorglegt að nokkrir þingmenn reyna að slá sér upp með því að taka undir þennan málflutning.

Umræðan er rekin áfram á forsendum sem eru rangar byggðar á kolrugluðum Excel-skjölum, reynt hefur verið að leiðrétta það án árangurs. Þeir sem sömdu þessi skjöl hafa verið fastir viðmælendur í spjallþáttum, þar sem þeir hafa úthúðað starfsmönnum stéttarfélaga og lífeyrissjóða og borið á þá mjög þungar sakir. Athugasemdalaust hafa þessi einstaklingar sífellt gegnið lengra, ákaft hvattir af spjallþáttastjórnendum.

Margoft hefur komið fram að skaði lífeyrissjóðanna vegna Hrunsins voru 8% af nafnvirði eigna sjóðanna eða um 340 milljarðar, ekki þriðjungur eða 800 milljarðar. Þetta tap var einungis brot af tapi annarra, eins og ég hef komið margoft að og er reyndar oft í fréttum, en margir virðast ekki tengja það saman. Lífeyrissjóðirnir eru undir öruggri stjórn orðnir að kjölfestu samfélagsins og það eina sem ekki hrundi til grunna í fjármagnsgeiranum.

sunnudagur, 12. desember 2010

Lífeyrissjóðirnir

Hún er á afar lágu stigi umræðan um lífeyrissjóðina og starfsmenn þeirra. Þeim er purkunarlaust lýst sem hreinræktuðum og harðsvíruðum glæpamönnum. Lágkúran náði lægstu hæðum í Spaugstofunni í gærkvöldi. Því er blákalt haldið fram að stór þáttur Hrunsins sé vegna þess að starfsmenn lífeyrissjóða og stéttarfélaganna hafi setið við tölvur sínar og spilað með fjármuni lífeyrissjóðanna. Það hafi verið fjármunir lífeyrisjóðanna sem sköpuðu þensluna.

Á sama tíma ræða sömu menn um þá hundruð milljarða komu hingað til lands í gegnum sem Icesave og þær 7 þúsundir milljarða sem erlendir bankar höfðu lánað hingað og töpuðu. Eða þá mörg þúsund milljarða sem erlendir fjárfestar settu inn á íslenska reikninga sakir þess að vextir voru hærri hér en annarsstaðar.

Staðreyndir er sú að lífeyrissjóðirnir töpuðu minnst allra eða um 8% af nafnvirði eigna sinna og eru þeir einu sem standa í fæturna af fjármálafyrirtækjum landsins. Því hefur verið haldið fram í spjallþáttum og fréttum að lífeyrissjóðirnir stæðu gegn því að heimili í skuldavanda fengju úrlausn sinna mála, þrátt fyrir að það liggi fyrir að lífeyrissjóði er óheimilt samkvæmt lögum að gefa eftir kröfur sem teljast innheimtanlegar.

Það virðist vera að þeir sem hæst hafa um þessi mál séu einstaklingar sem höfðu reist sér innistæðulausar væntingar um að taka mætti sparifé sjóðsfélaga og nýta það til þess að greiða upp skuldir allra. Þegar í ljós kemur að mikill meirihluti sjóðsfélaga hafnar því alfarið, er brugðist við með því að úthúða starfsmönnum lífeyrisjóða og draga sem svörtustu mynd af þeim. Þessi málflutningur er á yfirgengilega lágu plani.

Deilur hafa verið með ríkinu og lífeyrissjóðum um fjármögnun vegaframkvæmda. Formaður samninganefndar ríkisins fór í fjölmiðla með yfirlýsingar um að hann teldi að lífeyrissjóðirnir átti sig ekki á því að vextir væru að lækka og því hefðu þeir átt að ganga að kröfum ríkisins um lægri vexti á lánum til fjármögnunar vegaframkvæmdanna. Enn upplýsa menn okkur um hversu fáfróðir þeir eru og hversu lítið lög landsins skipta. Þó eru hér á ferð alþingismenn og fyrrverandi ráðherra ásamt blaða- og fréttamönnum sem koma frá fréttastofnum sem vilja láta taka sig alvarlega.

Lífeyrissjóður á ekki eina krónu, hann er sparifé þeirra sem greiða í sjóðinn. Það gilda lög í landinu um skyldusparnað og þetta er oftast eina sparifé þeirra sem hafa greitt í sjóðinn. Það er með hreint út sagt ótrúlegt að fólk sem jafnvel hefur greitt lítið eða ekkert í lífeyrisjóð sé með kröfur um að tekið sé sparifé annarra og það nýtt til þess að greiða upp skuldir einstaklinga sem hafa farið óvarlega og tóku þátt í þennslunni með illa ígrunduðum fjárfestingum. Á meðan umræðan er á þessu stigi miðar okkur ekkert.

Lífeyrssjóðir eru ákaflega misjafnir og sumstaðar er fullkominn andstaða við að sameinast öðrum sjóðum vegna þess að þá þyrfti að skerða réttindi umtalsvert. Hér er ég t.d. að tala um þann sjóð sem ég er í. Á þeim forsendum er ákaflega einkennilegt að heyra menn sem hafa allt á hornum sér gagnvart lífeyrissjóðum tala um að sameina eigi sjóðina í einn sjóð. Sú krafa hlýtur að eiga að koma frá sjóðsfélögum viðkomandi sjóðs, eigi hann að sameinast öðrum.

laugardagur, 11. desember 2010

Niðurstaða Icesave-samninganefndar

Ég tek undir með þeim sem segja að það sé einungis eitt hægt að gera núna í Icesave málinu, taka hið nýja Icesave-samkomulag og afgreiða það sem lög frá Alþingi eins fljótt og hægt er og ljúka þar með einhverjum leiðinlegasta kafla umræðunnar sem frá Hruni. En eins og búast mátti við eru komnir fram menn með einkennilegar reikniskúnstir um að nú hafi af þeirra völdum unnist miklir sigrar.

Icesave er einn stór ósigur frá upphafi, ómerkileg brella sem lenti á þjóðinni. Hún er búinn að valda okkur miklum búsifjum eins og margir af forsvarsmönnum stærstu fyrirtækja landsins í orku og hátækni hafa bent á. Lánstraust er minna og orðspor Íslands hefur laskast mikið eins og ég bent á nokkrum pistlum þar sem ég hef verið að vitna til ummæla á erlendum ráðstefnum og fjölmiðlum.

Það er útilokað að vera með einhverja „ef og hvað ef“ útreikninga á hversu miklir fjármunir og tækifæri hafa glatast vegna áhrifanna á lánstraust Íslands og fjárfestingar í íslensku atvinnulífi. Nú liggur fyrir að reikningurinn sem sendur er til skattgreiðenda er samkvæmt nýja samkomulaginu aðeins þriðjungur af því sem hann hefði verið samkvæmt gamla samningnum. Reyndar má benda á endurskoðunarákvæði hins gamla samkomulags og fara á þeim forsendum út í „hvað ef“ pælingar.

Ef þeim sem ekkert kunna annað en átakaumræður tekst að róta upp moldviðri og taka til við digurbarkalegar upphrópanir og hafna því að afgreiða hið nýja Icesave-samkomulag, þá liggur fyrir áhættusöm dómstólaleið, jafnframt því að verið er að bjóða vinaríkjum Íslands í birginn og gefa alþjóðlegum fjármálamarkaði langt nef. Þá lægi endanlega fyrir að Ísland ætlaði ekki að standa við skuldbindingar sínar. Flestir þingmenn ásamt forseta okkar hafa rætt um óhagstæð kjör, en alltaf sagt að Ísland muni standa við skuldbindingar sínar, hvað ætla þeir að gera núna?

Ef við verðum dregin fyrir EFTA-dómstólinn mun það taka langan tíma og á þeim tíma mun uppdráttarsýki atvinnulífsins halda áfram með enn meira atvinnuleysi og minnkandi hagkerfi. Sem mun valda enn meiri niðurskurði og enn meiri landflótta.

Bara svo í lokinn (vegna venjubundinna aths.skrifa) ætal ég að benda enn einu sinni á að ég er ekki að óska eftir því að skattgreiðendur taki við Icesave reikningnum, heldur benda á að við verðum, þó ósanngjarnt sé, að standa við gerða samninga og skuldbindingar sem Íslenskir ráðamenn hafa undirgengist á undanförnum áratugum.

Bæti svo við uppbyggilegu ræðukorni úr bókum Alþingis :

Samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innistæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.
Til umræðu var 10 ára lán með 6% vöxtum og jöfnum greiðslum.

Alþingi 38. fundur 28. nóv. 2008 úr ræðu Bjarna Benediktssonar Sjálfstæðisflokki :
Virðulegi forseti. Mér sýnist nú sé að ljúka umræðu um þessa þingsályktunartillögu og málið sé á leiðinni til utanríkismálanefndar til frekari skoðunar. Hér með er óskað heimildar til þess að leiða til lykta samningaviðræður á grundvelli hinna sameiginlegu viðmiða sem liggja til grundvallar samningaviðræðum sem fara síðan afstað í kjölfarið. Þær voru eins og áður hefur komið fram í umræðunni hér í dag og reyndar áður grundvöllur fyrir því að greiða fyrir afgreiðslu lánsins frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Það er mjög áberandi hér í umræðunni að þátttakendur í henni telja sig sjá það fyrir eftir á að hægt hefði verið að fara aðrar og skynsamlegri leiðir, sem hefðu verið líklegri til þess að valda íslenskum skattgreiðendum inni byrðum en sú leið sem, málið hefur ratað í. Það er vísað til að mynda í lögfræðilegt álit í því samhengi.

Ég held að það sé afskaplega mikil einföldun á þessu máli öllu saman að telja í raun og veru að það hafi verið valkostur fyrir íslensk stjórnvöld að standa stíf á lögfræðilegri túlkun og halda henni til streitu, jafnvel fyrir dómstólum, hvort sem það væri á alþjóðlegum vettvangi eða hér heima fyrir íslenskum dómstólum.
....
Það er alveg ljóst að sú leið sem valin var og sá farvegur sem málið er í núna mun alveg örugglega skila okkur hagstæðari niðurstöðu en við hefðum fengið með því að láta reyna á rétt okkar og ef við hefðum síðan mögulega tapað þeirri þrætu fyrir dómstólum. Það er alveg öruggt.
....
Þegar heildarmyndin er skoðuð er tel ég að ekki sé hægt að komast að annarri niðurstöðu en að vel hafi verið haldið á íslenskum hagsmunum í þessu máli.

föstudagur, 10. desember 2010

Sjúkleg efnishyggja

Öll umræðan í samfélaginu snýst um fjármál. Efnishyggjan er sjúkleg og blindar mönnum sýn. Maður er hreint út sagt gáttaður á ummælum þingmanna, ráðherra og fyrrv. ráðherra um lífeyrissjóðina. Þeir eru með ummælum sínum og athöfnum búnir að grafa undan lífeyriskerfinu. Hafa reyndar notið góðrar aðstoðar nokkurra spjallþáttstjórnenda.

Þar er talað af fullkomnu ábyrgðarleysi og eins æði oft algjöru þekkingarleysi. Lítum til ummæla Kristjáns Möllers,kjördæmapotara veglagningar- og gangnamanns. Hann segist ekki hafa náð lífeyrissjóðunum niður á jörðina hvað varðar vexti. Bíddu aðeins, í lögum eru kröfur um lágmarksávöxtun, annars verði allir lífeyrissjóðir að skerða réttindi.

Annar ráðherra sem er reyndar í stjórn ofursjóðsins með ríkisábyrgðina sem við hin styrkjum með hækkandi sköttum, segir að það sé ekkert mál að lána úr þeim sjóð fullt af peningum á lágum vöxtum, það skipti engu því það sem upp á vantar verði bara sótt í sköttum á aðra landsmenn. Hans lífeyrisréttindi eru ríkistryggð.

Forsætisráðherra segir að það sé óskiljanleg níska!!?? í stjórnarmönnum lífeyrissjóða að hafa ekki afhent henni 200 milljarða til þess að greiða upp skuldir fólks. Af hverju fór hún ekki til bankanna og bað um bankabækur og tók út úr sparireikningum launamanna 10% af innlánsreikningum þeirra?

Á sama tíma rignir hér inn mótmælum sjóðsfélaga og kröfum um að lífeyrissjóðirnir séu varðir fyrir misvitrum stjórnmálamönnum sem séu blindaðir af lýðskrumi líðandi stundar. Forsætisráðherra sendir sjóðsfélögum tóninn og segirt níska þeirra standi í vegi fyrir réttlætinu??!!

Það er þetta fólk sem stjórnar landinu og setur því lög á Alþingi, en það vill ekki fara eftir þeim og lætur hafa eftir sér rök sem eru gjörsamlega fjarstæðukennd. Það liggur fyrir að ef tekið verður fjármagn út úr sjóðunum til þess að greiða upp skuldir annarra eða til óskaverkefna vega- og gangnalagningarmanna í kjördæmapoti, þá munu sjóðsfélagar taka sig saman og hefja málsókn gegn stjórnum sjóðanna.

Það liggur fyrir að 73% félagsmanna RSÍ, og reyndar eru samskonar niðurstöður til á fleiri stöðum, þar sem fólk hafnar þessari leið. Er ætlast til þess að stjórnarmenn og starfsmenn gangi gegn vilja meirihlutans, gegn gildandi landslögum og stjórnarskrá? Hvenær linnir þessu lýðskrumi?

mánudagur, 6. desember 2010

Staðan

Gríðarlegan halla þjóðarbúsins verður að minnka með miklum og sársaukafullum niðurskurði. Samfara því verður að auka tekjur ríkissjóðs svo minnka megi vaxtagreiðslur á erlendum skuldum. Verðbólga verði það lág að vextir verði innan við 4,5%. Það þarf að skapa 20 þús. störf á næstu fjórum árum ef koma eigi atvinnuleysi niður fyrir 5%. Ef það tekst munum við á árinu 2013 hafa endurheimt þau lífskjör sem við bjuggum í upphafi froðu áranna 2006.

Næstu vikur geta haft mikið með það að segja hvert muni stefna á næstu misserum. Tekst að leiða til lykta deilum um hvernig taka eigi á skuldum heimila og fyrirtækja. Næst lending í Icesave málum. Tekst að skapa tiltrú og bjartsýni, þannig að einstaklingar og fyrirtæki fari að fjárfesta og skapa með því fleiri atvinnutækifæri. Eða verður stefnan tekin með yfirboðum og höfrungahlaupi í Karphúsinu, hækkandi verðbólgu og minnkandi kaupmætti?

Í hverjum fréttatímanum á fætur öðrum heyrum við lýsingar á ógeðfelldum og fársjúkum viðskiptaháttum sköpuðum með Barbabrellum í bókhaldi og skammtíma hagræðingu. Gróinn fyrirtæki voru bútuð niður og seld skúffufyrirtækjum, sem tóku lán og keyptu hlutabréf í sjálfum sér. Fjármunum pumpað úr íslenska hagkerfinu og flutt í skattaskjól. Það er skoðun þessara manna að það sé hlutverk annarra að greiða skatta til samfélagsins og standa undir menntakerfinu, heilbrigðisþjónustunni og samgöngukerfinu. Það sé annarra að greiða þær skuldir sem þeir skilja eftir sig.

Við þurfum hugarfarsbreytingu ef atvinnulífið á að skapa 20 þúsund störf fyrir árið 2013. Það gerist ekki með því að fjölga störfum hjá ríkinu, það verður að gerast í atvinnulífinu með vaxandi verðmætasköpun. Styrkleiki okkar liggur meðal annars í miklum náttúruauðlindum, sterkum lífeyrissjóðum, hlutfallslega meira af ungu fólki en hjá öðrum Evrópuþjóðum. Helsti styrkleiki þjóðarinnar liggur í hugarfari; þrautseigju og mestu atvinnuþátttöku sem þekkist í vestrænu landi. Við megum ekki missa þennan styrkleika niður.

sunnudagur, 5. desember 2010

Stjórnlagaþing

Nú hafa nýkjörnir þingmenn Stjórnlagaþings komið saman og farið yfir undirbúning þingsins sem hefst um miðjan febrúar. Ljóst er að þingið mun kalla á umtalsverða vinnu og gögn sem þarf að fara yfir eru mikil að vöxtum. Væntingar eru miklar til þingmanna um að þeim takist að skila tímabærri endurskoðun á stjórnarskránni. Sé litið þeirrar umræðu sem fram fór á undirbúningsfundinum virðist vera breið samstaða þingheims um mörg af helstu málum sem fyrir liggja og ástæða til bjartsýni um árangursríkt þing.

Óhætt er að fullyrða að væntingar um drengilega og ígrundaða umræðu á Stjórnlagaþingi eru miklar meðal almennings. Þolinmæði almennings gagnvart átakaræðulist og klækjapólitík er engin í dag. Fólk vill heyra siðmenntað samtal velmeinandi fólks um framfarir og umbætur á umgjörð samfélagsins. Ný stjórnarskrá geti orðið að sáttmála og nýtt upphaf þar sem deilur verða settar til hliðar og þjóðin nái að sameinast að nýju.

Sú nefnd sem Alþingi kaus til að undirbúa stjórnlagaþingið mun leggja fram tillögur auk niðurstöðu nýafstaðins Þjóðfundar. Það eykur líkur á að árangur náist. Alþingi hefur brugðist því fyrirheiti frá 1944 að endurskoða stjórnarskrána í heild. Stjórnmálastéttin því talin óhæf til þess verks. Sú ábyrgð liggur hjá nýjum Stjórnlagaþingmönnum að tillögur að breyttri stjórnarskrá verði þannig að mikill meirihluti þjóðarinnar geti sameinast um þær.

Undanfarna daga hafa margar spurningar borist til hinna nýju þingmanna þar sem fjölmiðlar og hagsmunaaðilar vilja fá já eða nei svör við tilteknum atriðum. Oft eru spurningarnar þannig að það er útilokað að svara með einu orði, en þetta er viðtekin venja hjá fjölmiðlum, búa til hasar og draga fólk í með eða á móti dilka. Það blasir við ef litið er til síðustu ára að sú umræðulist skilar okkur engu, ekkert miðar og deilur vaxa frekar en hjaðna með slíku vinnulagi.

Í samræðu setja menn fram sín sjónarmið og hlusta á rök annarra og vinna að sameiginlegri og skynsamlegri niðurstöðu. Óskandi væri að fjölmiðlar yrðu þátttakendur í þessu starfi frekar en að leggja allt í sölurnar í að búa til fylkingar og etja þeim saman. Fólk vill sjá upplýsta og nærandi umræðu um störf þingsins, eitthvað sem samfélagið þráir eftir hamfarir undanfarinna missera. Þær spurningar sem liggja fyrir Stjórnlagaþingmönnum eru ekki einfaldar og þær krefjast vandaðrar ígrundunar og skoðanaskipta, sú niðurstaða sem þjóðin kallar eftir verður ekki til í hanaslag og keppni í útúrsnúningum.

laugardagur, 4. desember 2010

Lágkúran og lýðskrumið

Formaður Framsóknarflokksins fullyrti í Kastljósinu í gær að formaður Rafiðnaðarsambandsins fagnaði því að ríkisstjórnin leiðrétti einungis hluta skulda heimilanna. Þetta er ómerkilegt framhald lýðskrumsins sem tíðkast á hæstvirtu Alþingi.

Hið rétta er að formaður Rafiðnaðarsambandsins benti á í Kastljósinu síðastliðinn fimmtudag, að loks nú eftir mikið stapp væri að takast að fá stjórnmálamenn til þess að horfast í augu við það sem starfsmenn stéttarfélaganna hefðu haldið fram í tæplega tvö ár væri rétt.

Forsvarsmenn lífeyrissjóða ásamt umtalsverðum meirihluta sjóðsfélaga hafi ítrekað bent á þá lögfræðilegu staðreynd, ef sjóðsfélagar geta ekki greitt upp skuldir sínar og eignir duga ekki fyrir skuldum, þurfi að leysa mál viðkomandi með sérstökum aðgerðum. Einnig hafa legið fyrir samþykktir á annað ár frá sjóðsfélagafundum nokkurra lífeyrissjóða um að taka á vanda sjóðsfélaga í viðkomandi lífeyrissjóð, nákvæmlega það sama og verið er að ganga frá í gær. Því hefur ítrekað verið algjörlega hafnað að tekið verði sparifé launamanna í lífeyrissjóðum og það nýtt til þess að greiða upp skuldir allra í landinu, jafnvel eignamikilla þingmanna. Pirringur nokkurra vegna þessa felst nákvæmlega í þessari staðreynd, þeir geti ekki komið óráðsíu sinni yfir á aðra.

Í tæp tvö ár hafa legið fyrir nákvæmir útreikningar á þeim leiðum sem þingmenn og nokkrir einstaklingar hafa haldið fram, þeir útreikningar voru síðan staðfestir af nefnd sem þingmenn settu á laggirnar fyrir mánuði eða svo. Þessi úrræði voru kynnt, allavega í þeim lífeyrissjóð sem ég greiði til, í maí 2009 og er Alþingi loks nú að staðfesta það.

Fáir hafa nýtt þessa leið sakir þess að stjórnmálamenn hafa með skrumi boðað almenna niðurfellingu og færslu á sparifé launamanna til eignamanna, aðgerð sem er ólögleg. Það er óheimilt að fella niður skuldir ef eignastaða er jákvæð. Eigi að breyta því þarf að breyta stjórnarskrá og landslögum, skiptir þar engu hvaða skoðun menn hafa á þessu eða hvort skrifaðir hafa verið upp óskalistar um eitthvað annað og tunnur barðar.

Lögmenn hafa tekið undir þetta og bent á eignarréttinn og jafnræðissjónarmið. Þetta var staðfest í Hæstarétti fyrir skömmu. Með því að samþykkja slíkt væru stjórnendur lífeyrissjóða að kalla yfir sig persónulega skaðabótaábyrgð, eins og landslög kveða á um.

Það blasir við að þingmenn hafa valdið mörgum miklum skaða með því að draga á langinn raunhæfar aðgerðir og vakið upp og viðhaldið innistæðulausum væntingum hjá fólki. Það er ómerkilegt lýðskrum og fantaskapur gagnvart fólki sem er í vandræðum að gera slíkt. Þetta skafa þingmenn ekki af sér í Kastljósi með því að bera sakir á aðra.

Einnig má benda á einstaklinga sem hafa komið saman og skrifað upp óskalista og reynt að gera stéttarfélögin ábyrg fyrir því að þeir nái fram að ganga. Jafnvel þó óskalistarnir gangi gegn meirihluta samþykktum félagsmanna stéttarfélaganna. Svo einkennilegt sem það nú er þá hafa jafnvel þekktir spjallþáttastjórnendur og fréttamenn krafist þess að forsvarsmenn stéttarfélaga gangi gegn samþykktum sinna stéttarfélaga, ella séu þeir svikarar við almenning í landinu??!!

Stjórnmálamenn hafa á Alþingi látið sem svo að talsmenn óskalistana tali fyrir munn félagsmanna og með því vísvitandi lítilsvirt með því samþykktir meirihlutans. Hversu lágt komast menn í málflutningi sínum?

Þegar nú er endanlega flett ofan af lágkúrunni og lýðskruminu líður sumum illa og hafa ekki manndóm til þess að horfast í augu við eigin gjörðir.

föstudagur, 3. desember 2010

Ólukkans verðtryggingin

Því er haldið fram að verðtrygging sé einvörðungu til vegna kröfu lífeyrissjóðanna og hún sé ein helsta orsök vandamála heimilanna. Ástæða er að taka það fram að einungis tæplega helmingur fjármuna lífeyrissjóða er á verðtyggingu. Þeir sem vilja muna nokkra áratugi aftur í tímann skilja og muna af hverju verðtryggingu var komið á. Það var í kjölfar stórkostlegustu tilfærslu fjármuna á milli kynslóða í sögu landsins.

Það voru stjórnmálamenn sem komu verðtryggingunni á, til þess að skapa vitrænan grundvöll í sparnaði og möguleika til langtímalána. Fram að þeim tíma voru það fáir útvaldir sem fengu lán og þá til skamms tíma. Samfara þessu var lífeyrissjóðum gert samkvæmt lögum að verðtryggja skuldbindingar sinna sjóðfélaga, en eiga satt að segja í vandræðum með það í núverandi efnahagsumhverfi. Það væri myndi gera rekstur lífeyrissjóðanna mun auðveldari ef verðtrygging væri afnumin.

Margir halda því fram að verðtrygging sé séríslenskt fyrirbrigði, svo er ekki hún er vel þekkt í Bandaríkjunum, Bretlandi og víðar. Það eru ekki einungis lífeyrissjóðir sem eiga íslensk verðtryggð skuldabréf, þar eru einnig fyrirferðamiklir erlendir fjárfestar á ferðinni. En hugmyndir um útstrikun hefði í raun einungis lent á sjóðsfélögum almennu lífeyrissjóðanna í skerðingu bóta. Allir hinir, bæði hinir erlendu og svo ekki síður sjóðsfélagar opinberu sjóðanna með þingmenn og ráðherra í broddi fylkingar sleppa.

Þeir sem krefjast afnáms verðtryggingar verða að gera sér grein fyrir það að það verður ekki gert bara öðrum megin, heldur verður einnig að afnema verðtryggingu örorkubóta og lífeyris. Því fer fjarri að það sé lífeyrissjóðum í hag að verðbólga sé mikil. Skuldbindingar hækka meira en sem nemur hækkun eigna þar sem aðeins hluti eigna er bundinn í verðtryggðum eignum. Það sjá það allir sem vilja.

Það er í hæsta lagi barnalegt að leggja mál upp með þeim hætti að lífeyrissjóðurinn græði ef verðbólga er mikil og sjóðfélagi tapi. Slík framsetning er í besta falli villandi en í versta falli heimska. Ef lífeyrissjóðir yrðu leystir undan þeirri kvöð að verðtryggja skuldbindingar 100% væri viðhorfið án efa öðruvísi. Markmið lífeyrissjóða er að tryggja sjóðfélögum sínum að lífeyrisgreiðslur dugi fyrir neyslu á hverjum tíma. Það er til lítils að eiga sjóð, ef hann brennur upp í óðaverðbólgu.

Það er verðbólgan sem er skaðvaldur hins íslenska hagkerfis, helstu orsök hennar er að finna í örgjaldmiðlinum sem við höldum úti að kröfu valdastéttarinnar. Óhjákvæmilegar sveiflur hennar og sífelldur flótti stjórnmálamanna við að taka óvinsælar en nauðsynlegar ákvarðanir valda sveiflum, þar sem verið er að flytja vandann yfir á og skattborgarana með tilheyrandi kaupmáttarhrapi og eignatilfærslu frá hinum mörgu til fárra.

Sjóðfélagar hafa greitt mislengi til lífeyrissjóða. Með almennum niðurfærslum skulda væri verið að hlífa þeim er greitt hafa lítið til lífeyrissjóða á kostnað þeirra sem lengi hafa greitt. Miklu réttara að slíkar aðgerðir, séu þær nauðsynlegar, séu greiddar úr sjóðum almennings.

Landsmenn eru skyldaðir til að greiða til lífeyrissjóða. Af hverju skyldi það hafa verið gert? Nauðsynlegt var að stofna umgjörð þar sem enginn gat komist upp með að greiða ekki til lífeyrissjóða og þurfa hámarksaðstoð frá ríkinu þegar kom að töku lífeyris. Þannig þyrftu þeir sjóðfélagar sem greitt hefðu allan sinn starfsferil til lífeyrissjóðs einnig að greiða í formi skatta til þess sem ekki hafði greitt með sama hætti.

Vandamál íslenska lífeyrissjóðakerfisins er að of stór hluti sparnaðarins í kerfinu er fjárfestur innanlands í stað erlendis. Kerfið er einfaldlega of stórt fyrir innlendan markað. Á þessu þarf að taka og breyta þeim hlutföllum sem þingmenn hafa sett fjárfestingarstefnu sjóðanna.

Margir urðu til þess að benda á þá staðreynd í upphafi uppbyggingar uppsöfnunarsjóðanna, að þegar uppsöfnun í sjóðakerfinu yrði hvað hröðust, það er árin áður en stóru árgangarnir hefja töku síns lífeyris, þá yrðu lífeyrissjóðirnir nánast ómátstæðileg freisting fyrir tækisfærissinnaða stjórnmálamenn og það yrði erfitt að halda þeim frá sjóðunum þar til jafnvægi skapaðist í innstreymi og útstreymi lífeyrissjóðanna. Þessa tíma erum við að lifa akkúrat núna. Uppsöfnunin hefur verið, eins og alltaf ver reiknað með, hröðust undanfarin ár og upp úr 2015 fara stóru árgangarnir að lenda á sjóðunum og jafnvægi innstreymi og úrstreymis verður upp úr 2025.

Það eru reyndar fleiri sem eru sekir um þetta, þar fara fremstir lýðsskrumarar sem boða það fagnaðarerindi að það sé hægur vandi að leysa úr vandamálum þeirra sem hafi eytt um efni fram þar sem nú sé svo mikið fjármagn í lífeyrissjóðunum, að það muni engu um þótt þaðan séu teknir nokkrir tugir milljarða. Svo einkennilegt sem það nú er þá fer þar fremst formaður efnahagsnefndar Alþingis, kona sem er menntaður hagfræðingur!!??

En það er klárt að við losnum ekki við ólukkans verðtrygginguna fyrr en við fáum stöðugri gjaldmiðil.

fimmtudagur, 2. desember 2010

Svarti Pétur lýðskrumaranna

Stjórnmálamenn hafa um langt skeið boðið landsmönnum upp á þann heimasmíðaða veruleika að sá kostur standi til boða, að þeir geti leyst efnahagsvandamál með því að ráðstafa sparifé launamanna, það er að segja ef það sé í almennum lífeyrissjóðum. Þingmönnum virðist það ekki skipta neinu þó landslög og stjórnarskrá standa í vegi fyrir þessu og stilla málum upp með þeim hætti, að það séu óbilgjarnir stjórnendur lífeyrissjóða sem standi í vegi fyrir því „réttlæti“ sem þeir boða.

Fréttamenn og spjallþáttastjórnendur hafa gleypt við þessu og úthúða starfsmönnum lífeyrissjóða og reyndar alla sem voga sér að benda á að þetta standist ekki.

Ráðherrar og þingmenn virðast telja að þeir geti einhendis samið við um starfsmenn ASÍ eða samtaka lífeyrissjóða um þessi mál, þessi afstaða er fullkomlega óskiljanleg og eitthvert ómerkilegasta lýðskrum sem sést hefur.

Um lífeyrissjóði gilda lög sem Alþingi setti árið 1997, þar eru settar mjög ákveðnar leiðir um meðferð þess sparifé sem sjóðsfélagar eiga í sjóðunum. Ef þingmönnum tekst þetta ætlunarverk sitt og virða með að vettugi landslög og stjórnarskrá, spyrja sjóðsfélagar hvar það fordæmi endi. Fjölmargir lögmenn halda því fram að slíkt sé í raun óheimilt og benda á eignarréttinn og jafnræðissjónarmið. Með því að samþykkja slíkt er líklegt að stjórnendur væru að kalla yfir sig persónulega skaðabótaábyrgð. Þetta verður ekki gert nema með því að kalla saman fundi sjóðsfélaga og kanna hug þeirra.

Lífeyrissjóðir hafa fylgt þeim starfsreglum sem ársfundir sjóðanna hafa sett, ef sjóðfélagar geta ekki greitt og eignir duga ekki fyrir skuldum, er tekið á viðkomandi máli. Enda hafa mjög fá mál á þeirra vegum farið í gjaldþrot. Úrræðin hafa verið kynnt, en þau ekki nýtt sakir þess að stöðugt er beðið eftir almennri niðurfellingu. Aðrar leiðir hafa ekki verið samþykktar enda eru þær ekki færar, sama hversu margar tunnur eru barðar og hvað lýðskrumarar á Alþingi lofa.

Starfsmönnum ríkisins er ekki ætlað að losa almenning úr skuldum með sama hætti og þingmenn ætla sjóðsfélögum á hinum almenna vinnumarkaði. Tugmilljarða niðurfærslur hafa í för með sér skerðingu lífeyrisréttinda fyrir sjóðsfélaga á hinum almenna vinnumarkaði. Á meðan þurfa sjóðfélagar í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins ekki að óttast slíka skerðingu enda réttindi ríkistryggð.

Sjóðfélagar á hinum almenna vinnumarkaði greiða því fyrir almenna niðurfellingu skulda annars vegar með skerðingu á sínum lífeyrisréttindum og hins vegar með hækkunum skatta og greiða það sem tapast hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Er til of mikil mælst að þingmenn kynni sér þessi mál með þeim hætti að hægt sé að nálgast viðfangsefnið af meiri fagmennsku.

Sjóðfélagar hafa greitt mislengi til lífeyrissjóða. Með almennum niðurfærslum skulda er verið að hlífa þeim er greitt hafa lítið til lífeyrissjóða á kostnað þeirra sem lengi hafa greitt. Miklu réttara að slíkar aðgerðir séu greiddar úr sjóðum almennings. Í skoðanakönnunum sem gerðar hafa verið meðal landsmanna kemur fram að mikill meirihluti vill ekki að stjórnmálamenn geti tekið sparifé launamanna úr lífeyrisjóðunum og ráðstafað því. Auk þess liggja fyrir samþykktir funda sjóðsfélaga og t.d. hefur skrifstofu Rafiðnaðarsambandsins borist fjöldi símtala og tölvupósta þar sem þess er krafist að menn standi í fæturna gagnvart háværum minnihlutahópum og stjórnmálamönnum á atkvæðaveiðum.

Þingmenn eru enn einu sinni búnir að mála sig út í horn í lýðskrumi sínu og reyna á örvæntingarfullan hátt að koma Svarta Pétri yfir á almennu lífeyrissjóðina, með því að þverbrjóta landslög. Það er reyndar ekki óþekkt, í könnun sem gerð var fyrir 2 árum kom fram að liðlega 30% af framlögðum lagafrumvörpum hefðu stangast við lög eða stjórnarskrá.

miðvikudagur, 1. desember 2010

Móðir mín

Nútímamanni er fyrirmunað að skilja hvernig húsfreyjur fyrri tíma fóru að. Ekkert rafmagn og ekkert af þeim hjálptækjum sem í dag eru talin grundvallarnauðsyn. Í því umhverfi sem ég ólst upp í, hvort sem væri á heimili pabba og mömmu eða þar sem ég var í sveit, tók húsmóðirin fullan þátt í umræðum um þjóðfélagsleg efni og mótaði umhverfi sitt og viðhorf barna sinna.

Mikil réttlætiskennd og áhyggjur af því hvernig lagfæra mætti þjóðfélagið, svo þeir sem minnst máttu sín gætu orðið bjargálna. Konur öðrum frekar lögðu grunninn að þeirri þjóðfélagsgerð, sem byggð var upp á síðustu öld. Eiginmenn, synir og dætur, fóru af heimilinu mótaðir af viðhorfum þeirra.

Körlum er síðan reistir minnisvarðar sakir þess að talið er að þeir hafi komið málum í höfn. En í viðtölum við þá kemur ætíð glöggt fram hvað varð til þess að móta lífsstefnu þeirra. Forskotinu var síðan glutrað niður á þeim fáu árum sem liðin eru af nýrri öld þar sem jöfnuður varð að víkja fyrir ofsafenginni karllægri keppni.

Móðir mín var af þeirri kynslóð sem hefur upplifað mestu breytingar á samfélaginu. Hún var oft ekki sammála þeirri umræðu sem fram fór um stöðu konunnar. Gagnrýndi gjarnan viðhorf þeirra kynsystra sinna, sem mest höfðu sig í frammi þegar jafnræði kynjanna bar á góma og töluðu niður til þeirra kvenna sem völdu að sjá um rekstur heimilis og umsjón barna. Það var að hennar mati frekar staðfesting á karllægum viðmiðum, en baráttu fyrir jafnræði kynjanna og minni ójöfnuði í samfélaginu.

Í orðræðu hennar var konan sjálfstæð án þess að bera þyrfti það á torg, tók sínar ákvarðanir og framfylgdi þeim. Hún sá um rekstur heimilisins meðan faðir minn var fjarverandi við það að afla tekna. Tekið var á hlutum með útsjónarsemi svo þeir rúmuðust innan hins þrönga ramma. Saumaði öll föt á fjölskylduna samkvæmt nýjustu tísku hverju sinni, átti alltaf góðar saumavélar og fylgdist vel með nýjustu árgerðum þeirra.

Tókst samt að hafa tíma til þess að læra á hljóðfæri og söng, vera í kórum og þátttakandi í öllum óperum Þjóðleikhússins. Fara í Myndlistarskólann og ljúka þar fjögurra ára námi. Finna svigrúm í rekstri heimilisins til þess að fjárfesta í ísskáp og tæma þar með pokana með matvælum heimilisins hangandi út um eldhúsgluggann.

Kaupa bíl og taka bílpróf á undan föður mínum. Stolt fór hún snemma á fætur á sunnudagsmorgnum smurði nesti og bauð síðan bónda sínum og börnum í bíltúr til Þingvalla.

Hún þurfti ekki að setja á langar ræður til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, en hlustað var á hana meðan hún talaði án endurtekninga og upphrópana. Uppeldinu fylgdu ekki hótanir eða bönn, en maður lærði að axla ábyrgð á afleiðingum gjörða sinna. Gera gott úr því sem var, án öfundar í garð annarra. Minn besti vinur.

þriðjudagur, 30. nóvember 2010

Takk fyrir stuðninginn

Byrja á því að þakka þann stuðning sem ég hef fengið, niðurstaðan kom mér þægilega á óvart, þar sem ég sá svo margt frambærilegt fólk í hópi hinna 530 frambjóðenda. Ég notaði ekki krónu í kynningar og gerði ekkert sérstakt átak til þess að kynna mig.

Það er ekki hægt annað en benda á það sem er svo einkennandi fyrir alla fjölmiðlaumræðu hér á landi. Alltaf er leitað að einhverju neikvæðu, sem svo er endurtekið í síbylju.

Í byrjun : Svo rosalega margir buðu sig fram.

Næst : Kosningin er svo flókin.

Þá : Svo fáir sem kusu, ekkert að marka þetta og leitað uppi fólk sem þekkt er fyrir andstöðu sína gagnvart stjórnlagaþingi og það sagðist vita hvaða skoðun þessi 60% hefðu sem ekki nýtti atkvæðarétt sinn.

Og nú : Bara þekktir aðilar af suðvesturhorninu sem náðu kosningu.

Aldrei jákvæðni, bara neikvæðni og nauðhyggja.

Hvernig átti að koma í veg fyrir að fólk sé kosið, sem hefur fyrir því að koma skoðunum sínum á framfæri. Er það fólk verra en aðrir af því það fólk hefur náð eyrum almennings með skilmerkilegri framsetningu á skoðunum sínum?

Hvar í ósköpunum tíðkast það að fólk sem enginn þekkir nái árangri í stjórnmálum? Ef þær skoðanir sem viðkomandi héldi fram væru andstæðar vilja almennra kjósenda, hefðu þeir þá verið kosnir?

Ef tekið væri mið af því sem fjölmiðlamenn halda fram þá ætti það að vera slæmt að vera þekktur. Leiða má að því haldbær rök að allmargir fjölmiðlamenn telji það sé út í hött að verkalýðsforingi nái kjöri, sé litið til þeirrar meðhöndlunar sem við starfsmenn stéttarfélaga fáum reglulega í fjölmiðlum.

Ég veit reyndar hversu mikill munur er á því sem fram fer á fundum í stéttarfélögunum og því sem fjölmiðlamenn halda að almenning. Það sem birt er í fjölmiðlum um starfsemi stéttarfélaga er víðsfjarri öllu sanni og samþykktum félagsmanna. Það er mat mitt að niðurstaðan staðfesti hversu langt frá veruleikanum margir eru hvað þessi mál varðar.

Það hvílir þung ábyrgð á þeim hóp sem var valinn inn á þingið. Ef þessum honum tekst ekki að starfa saman af drengskap án þess átakastíls og skrums, sem hefur einkennt störf stjórnmálamanna og dregið álit Alþingis niður, þá munu vonbrigði almennings verða það þung að Stjórnlagaþing mun aldrei ná sér á flug.

Núverandi Stjórnarskrá hafði ekkert með Hrunið að gera. En ný stjórnarskrá getur verið gott skref til þess að byrja með hreint borð. Stjórnmálin eru löskuð og þurfa að ná til þjóðarinnar á ný, það er gert með því að gera gagngerar breytingar á stjórnskipaninni í stjórnarskrá og senda með því skýr skilaboð um nýtt upphaf og nýja siði.

mánudagur, 29. nóvember 2010

Kjarni málsins

Ef við ætlum að halda úti krónunni kostar það okkur gríðarlega gjaldeyrisvarasjóði og það leiðir yfir okkur enn meiri vaxtakostnað, er þó ærinn fyrir. Ef við skiptum um mynt mun áhættuálag Íslands á alþjóðagjaldeyrismarkaði lækka töluvert. Það munar gríðarlega um hvert prósentustig í vöxtum eins og komið er fyrir Íslandi með hinar svimandi háu skuldir. Hvert prósentustig lækkar vaxtagreiðslur íslenska hagkerfisins um nokkra milljarða.

Íslenska krónan er við hlið evrunnar eins og korktappi við hlið skips af stærstu gerð. Eins og komið hefur fram spiluðu margir á örgjaldmiðilinn okkar og framkölluðu miklar sveiflur og högnuðust mikið á því, á meðan venjulegar fjölskyldur bjuggu við hækkandi verðbólgu og vexti vegna þessa ástands og skuldirnar fóru upp úr þakinu.

Sveiflur krónunnar hafa leitt til þess að sparnaður og aðgát í fjármálum er íslendingum ekki eðlislægt eins og komið hefur fram í könnunum. Fjármálalæsi íslendinga er ákaflega lágt, borið saman við nágrannaþjóðir okkar. Það mun reynast vonlaust að laga það á meðan við búum við örgjaldmiðil.

Danir greiða að jafnaði um 1 – 1,5% hærri vexti fyrir það að vera með danska krónu í stað evru. Það liggur fyrir að við munum greiða a.m.k. 3,5% aukalega hærri vexti á meðan við höldum krónunni en ella þyrfti.

Ísland getur komist inn í ERM2 (eins og Danmörk og Færeyjar) um leið og landið samþykkir aðild að ESB. Trú á framtíðina væri stórkostlegasta kjarabót sem við gætum náð núna. Það er vitanlega eitt skilyrði sem þarf þá að uppfylla, það er að fyrir liggi samþykkt umsókn um aðild að ESB. Þá mun Seðlabanki ESB verða bakhjarl krónuna eins og þeirrar dönsku og tryggja að frávik á genginu verði innan tiltekinna marka.

53% af viðskiptum Íslands fara fram í Evrum, liðlega helmingur af gengisáhættu íslendinga hverfur við upptöku evru. Norska krónan er með 4% af viðskiptum okkar dollarinn 11% og Kanadadollar 1%. Innganga í ESB og upptaka evru er ekki skyndilausn, en hún er nauðsynleg framtíðarlausn ef við ætlum að losna við óábyrga efnahagsstjórn, þar sem mistök íslenskra stjórnmálamanna hafa endurtekið verið leiðrétt með því að sveifla krónunni. Sem hefur kallað yfir 0kkur verðbólgu, hærri vexti og hærra verðlag.

Aðilar vinnumarkaðarins hafa tækifæri til þess að taka á þessu máli núna, en það er kjarkleysis á hinum ýmsu stöðum á að taka á þessu máli. Þetta er kjarni málsins.

Sósíalismi andskotans

Það er eins og stjórnmálamenn læri ekkert. Þeir böðlast áfram í eigin veröld blindaðir af kjördæmapoti og atkvæðaveiðum. Við erum allmörg sem höfum bent á að það er ekki til endalaus orka hér á landi, auk þess að verðgildi hennar mun líklega tvöfaldast á næsta áratug. Djúpboranir eru í dag ekki raunsær möguleiki, tæknin er ekki til. Fyrir liggur sú staðreynd að háhitasvæði má ekki nýta í botn, þá hverfur hitinn og svæðin verða orkulaus á 40 – 50 árum og þurfa þá líklega um 200 ár til þess að jafna sig.

Við höfum dæmi fyrir okkur hvernig óbeislaðir stjórnmálamenn eru búnir að leggja gott fyrirtæki í eigu almennings í rúst. Orkuveitan. Þingmenn vilja að Landsvirkjun skuldbinda sig til þess að afhenda orku til álvers við Húsavík. Það liggur fyrir að það er ekki raunsætt miðað við þekkingu á orkuvinnslu að byggja stærra álver en 250 þús. tonn. Hraðasta uppbygging þess getur verið 8 ár. Ef skynsamlega væri haldið á spilum þá á að láta kaupandann taka áhættuna af því hvort næg orka finnist.

En úr því ég er farinn að tala um stjórnsýslu og þingmenn í kjördæmapoti langar mig til þess að velta upp fleiri spurningum. Það vakti því athygli mína þegar það kom fram í fréttum að uppi hafi verið hugmyndir um að ríkið leggi 1000 miljónir í hafnargerð í Helguvík. Þegar höfnin í Straumsvík var byggð sá ISAL um og kostaði alla framkvæmdina, notaði síðan höfnina án hafnargjalda í 25 ár en afhenti þá Hafnarfjarðarhöfn, höfnina til fullrar eignar. Samkvæmt mínum upplýsingum er um svipað að ræða í Reyðarfirði. Er ekki eðlilegt að Norðurál leggi til fjármagn til að breyta höfninni?

Nú standa yfir deilur um SV línu og SV endi þeirrar línu, endar í sjö km. löngum jarðstrengjum. Þessir jarðstrengir koma til vegna staðsetningar verksmiðjunnar á nesi sem er að mestu lokað af, af flugbrautum Keflavíkurflugvallar og útilokað er að fara með svo stórar loftlínur við enda flugbrautanna. Svona jarðstrengir (220 KV) eru mjög dýrir og samkvæmt mínum upplýsingum kostar hver km yfir 300 miljónir.

Það á að leggja tvö sett (þrír einleiðara strengir í settinu), en áður en verksmiðjan verður fullbyggð, þarf að leggja þriðja settið. Kostnaður við þessa jarðstrengi gæti því numið hátt í 7000 milljónum króna. Áætlað er að Norðurál borgi aukakostnaðinn af þessum jarðstrengjum, umfram loftlínur. Rekstraröryggi jarðstrengja er minna og reksturskostnaður mun hærri ef borið er saman við loftlínur. Ljóst er að þessi aukakostnaður fellur til vegna staðsetningar verksmiðjunnar og því mikilvægt að hann verði greiddur af eigendum hennar en falli ekki á almenning.

Nú stendur til að ríkisfyrirtæki endurbyggi herspítala á vellinum, nánast frá grunni. Samkvæmt mínum upplýsingum er búið að rífa nánast allt innan úr húsinu. Ef leigutakanum mistekst að markaðssetja verkefnið, þá á ríkið fjórar ónotaðar skurðstofur á Suðurnesjum. Hverjir eiga að borga þennan kostnað, mun hann lenda á almenning? Hafa þingmenn enn einu sinni gleymt sér á vaktinni blindaðir af kjördæmapotinu?

Þegar ríkið leggur fé í uppbyggingu einkafyrirtækja hefur verið nefnt Sósíalismi andskotans, en núna virðast stjórnmálamenn þess flokks hélt uppi þeim mótmælum vera kominn í framsveit þessarar gerðar Sósíalisma.

sunnudagur, 28. nóvember 2010

Krónan mesti óvinur launamanna

Flestir útlendingar og margir Íslendingar tala um krónuna eins og hún sé eins alvörugjaldmiðill, þegar alvörugjaldmiðill er felldur hækka skuldir ekki, eins og gerist hér í Krónulandi. Sama á við um þegar Seðlabanki lækkar sína vexti þá lækka húsnæðisvextir í takt í löndum sem eru með alvörugjaldmiðil.

Flest íslensk heimili eru í greiðsluvanda vegna íslensku krónunnar. Ísland er dæmi um hagkerfi þar sem tekjur og skuldir eru í mismunandi gjaldmiðlum. Benda má dæmi um fyrirtæki sem gera upp og reka sig í evrum, þar til kemur að launum. Á þessum forsendum verður maður undrandi þegar hlustað er á hérlenda talsmenn krónunnar benda á Írland sem dæmi um að við eigum að halda krónunni. Það vefst fyrir íslenskum launamönnum að gera langtíma kjarasamninga, sakir þess að stjórnmálamenn hafa endurtekið gengisfellt kjarasamninga til þess að leiðrétta efnahagsleg mistök sín.

Ef Írar færu sömu leið og við erum í þá tækju þeir upp írska pundið fyrir launafólk, en halda skuldum og fjárfestingum eftir í evrum. Lettland valdi ekki þennan kost vegna þess að þeir vildu vernda almenning fyrir gjaldþrotum, eins og við erum að upplifa hér á landi vegna krónunnar. Fjárhagserfiðleikar heimilanna er stærsta vandamálið hér á landi á meðan fjárhagserfiðleikar bankanna eru stærsta vandamálið á Írlandi.

Skýringarnar á þessu er að finna í gengisfalli krónunnar en frá 1. apríl 2006 til 1. apríl 2010 hækkaði gengisvísitala krónunnar um 91 prósent sem þýðir að virði hverrar krónu fór nærri því að helmingast, sem segir okkur að hér er einungis um verðlækkun að ræða frá sjónarhóli útlendinga, samfara því hefur kaupmáttur Íslendinga lækkað. Við verðum að verja meiri tíma til þess að geta keypt daglegar nauðsynjar og matvælaverðið á Íslandi verður hátt til lengdar. Ef við göngum í ESB mun matarverð á Íslandi lækka svo um munar, í það minnsta í þeim vöruflokkum þar sem höftin og tollarnir eru mestir.

Algengt viðkvæði þeirra stjórnmálamanna sem ganga erinda kvótaeigenda og bænda er að verja krónuna með því að halda því fram að lönd innan ESB eigi við efnahagsvandamál að etja. Staðreyndin er sú að okkar stærstu vandamál eru vegna gjaldmiðilsins. Í þeim löndum sem þeir benda á er almenningur ekki að tapa eignum sínum vegna ónýts gjaldmiðils, ofurvaxta og verðtryggingar. Þar getur fólk selt eignir sínar og flutt þær, t.d. til annarra landa. Hér í krónuumhverfinu er hvorugt hægt, við erum í efnahagslegum þrælabúðum.

Ekkert land í Evrópu hefur orðið fyrir jafnmiklu kerfistjóni og Ísland, það er vegna hruns krónunnar. Ekkert Evruríki hefur orðið fyrir jafnmiklu tekjutapi og hér, það er vegna hruns krónunnar. Tekjustofnar ríkissjóðs hafi hrunið um tugi prósenta og er í raun stærsta vandamálið sem Alþingi þarf að glíma við. Ísland er rúið efnahagslegu trausti, það er vegna krónunnar og gjaldeyrishaftanna.

Ef þjóð býr við stöðugan gjaldmiðil verður rekstur fyrirtækja og hins opinbera reistur á traustum grunngildum í stöðugu umhverfi og leiðir jafns vaxtar og skapar störf. Þetta blasir við okkur ef við lítum t.d. til Danmerkur, og það er vegna þessa að þjóðir leita inn í ESB og til að tryggja fullveldi sitt. Það rekur engin fyrirtæki til langframa með bókhaldsblekkingum – Ebita blekkingum.

Vextir hér eru og verða alltaf a.m.k. 5% hærri vegna krónunnar. Vextir leiða til hærra verðlags. Óstöðugur gjaldmiðill leiðir til enn hærra verðlags. Það eru aðstæður og skilyrði sem ákvarða hvort fyrirtæki vaxa og dafna. 25% af launum íslendinga fara í aukakostnað vegna krónunnar. Til þess að hafa svipuð laun og annarsstaðar á norðurlöndunum þurfum við að skila 25% lengri vinnuviku. Ef fjölskylda sem kaupir sér eitt hús á Íslandi og önnur kaupir sér hús t.d. í Danmörku. Þá er staðan sú eftir 20 ár að þá hefur íslenska fjölskyldan greitt sem svarar andvirðis tveggja húsa, séu greiðslur bornar saman við endurgjald dönsku fjölskyldunnar.