þriðjudagur, 30. september 2008

Sumir jafnari en aðrir

Það er sama hvert maður kemur, allstaðar er fjallað um hina áhættuhvetjandi ofurbónusa og premíur sem bankaguttarnir hafa tekið sér. Bónuskerfið sem þeir hafa búið sér miðast við viðskipti dagsins, en það kerfi er vitanlega kolrangt því endanlega hagkvæmni af viðskiptum liggja aldrei fyrir strax. Þekkt regla segir að það sé ekki ljóst fyrr en eftir 4 ár. Hér er því um klára eignaupptöku að ræða og ekki neinar reglur frá Alþingi sem hindra það.

Einnig er það ekki ásættanlegt að fjármálaguttarnir skuli hiklaust geta boðið til sölu verðbréf og hlutabréf. En að lokinni sölu til fjárfesta eins og t.d. lífeyrissjóðanna, fara þeir og skuldsetja viðkomandi fyrirtæki í botn. Varan sem seld var í gær er í raun svikin og ekki eru neinar reglur frá Alþingi sem taka á þessu.

Ein aðferðin sem oft er notuð, svokölluð Hannesarleið eins og hún er nefnd á kaffistofunum. Það er að skuldsetja fyrirtækið í botn og kippa svo einhverjum hluta þess út fyrir sviga og stofna nýtt félag, en skilja eftir allar skuldirnar í hina eldra félagi. Ekki eru til neinar reglur frá Alþingi sem taka á þessu.

Fram hefur komið að ekki standi til að skipta um stjórnendur í Glitni, það er klárlega óásættanlegt. Þeir eru rúnir trausti meðal almennings, núverandi eiganda Glitni.

Í fréttum í gær var sett fram sú fullyrðing að þeir milljarðar sem stjórnvöld tóku af almannafé og settu í Glitni samsvari líklega þeim bónusum og ofurlaunum sem fjármálaguttarnir eru búnir að hrifsa til sín á undanförnum. Þessir milljarðar áttu að koma til skipta sem aukin arður til fjármagns- og sparfjáreigenda, en guttarnir kipptu þeim til sín. Og nú eru stjórnmálamenn að greiða út eignir sama almennings til þess að bjarga óförum guttanna.

En það er ekki nóg óréttlætið. Því nú er það svo að sá lífeyrissjóður sem geymir lífeyri opinberra starfsmanna tapaði í gær eitthvað á fimmta milljarð í hlutafé Glitnis. Nokkrir almennir lífeyrissjóðir töpuðu líka. Stjórnmálamenn hafa sett, eins og margoft hefur komið fram og landsmenn þekkja, sér lög um sína lífeyrissjóði og tiltekinna opinberra starfsmanna. Það er að ef þeir eiga ekki fyrir skuldbindingum þá á að sækja það sem upp á vantar í ríkissjóð. Það skiptir semsagt engu þótt LSR hafi tapað öllum þessum milljörðum á efnahagsóförum undanfarinna daga það er greitt inn í sjóðinn úr ríkissjóð. Á sama tíma settu stjórnmálamenn lög um almenna lífeyrissjóði sem kveða á um að ef þeir eigi ekki fyrir skuldbindingum þá verða þeir að lækka elli- og örorkulífeyri.

Sumir eru jafnari en aðrir menn og jafnastir allra eru þingmenn, ráðherrar og æðstu embættismenn með framangreinda tryggingu tekna milliliðalaust úr ríkissjóð og til viðbótar settu þeir sértæk lög um auka eftirlaunasjóð sem kostar ríkissjóða að auki um 600 millj kr. Þessi lög ætla frjálslyndir hægri menn að verja hvað sem það kostar.

Í þessu sambandi velta margir launamenn því fyrir sér í dag hvort forsætisráðherra átti ekki örugglega við að tryggja sparifé alls fólks. Eða átti hann bara við nokkra tiltekna opinbera starfsmenn?

mánudagur, 29. september 2008

Ofurseld þjóð

Eins og ég hef margítrekað komið að í pistlum þessarar síðu þá hefur græðgi og veruleikafirring einkennt svo kallaða útrásarvíkinga. Þeir spilað með lánsfé frá lífeyrissjóðum og áður en arði er skilað til hinna raunverulegu eigenda fjármagnsins hafa þeir hrifsað til sín ofurbónusa og margföld árslaun venjulegra launamanna. Nú er bætt í með því að skattgreiðendur þurfa að axla ábyrgð.

Undanfarna viku hefur okkur verið gert að hlusta á yfirlýsingar 800 millj.kr. mætingabónusmannsins um ágæti aðgerða hans. Ítrekaðar yfirlýsingar forsætisráðherra og viðskiptaráðherra um gríðarlegan styrk og sveigjanleika íslenska kerfisins. Í Silfrinu í gær fóru tveir stjórnarþingmenn mikinn í að gera lítið úr aðvörunarorðum aðila vinnumarkaðs. Sé litið til ummæla þessara stjórnarþingmanna og eins viðskiptaráðherra undanfarna daga þá er ljóst að þeir hafa ekki hugmynd um hvað er í gangi. Sama má segja um viðtal við forsætisráðherra í Mannamáli í gær. Það er Seðlabankastjóri sem ræður og þeir sem gagnrýna stefnuna og stöðuna eru með lýðskrum.

Hluti lausna fjármálasnillinganna er að fá lífeyrissjóðina til þess að taka stöðu með krónunni og flytja heim þá miklu fjámuni sem voru erlendis til þess að setja inn í íslenska hagkerfið. Þetta hefur verið gert að nokkru. En nú blasir við að þeir fjármunir eru að hverfa. Hvert félagið á fætur öðru er að fara á hausin. FL group, Baugur og fleiri eins og t.d. Eimskip í gríðarlegum vandræðum og í dag eru reiddir fram hundruð milljarða af almannafé til að bjarga banka. Hvað með ofurlaunin, premíurunar og bónusana?

Er ekki nóg komið fyrir löngu? Hef reyndar tekið svona til orða allmörgum sinnum áður. Við almenningur í landinu, skattgreiðendur og eigendur lífeyrissjóðanna, ætlum ekki að axla endalaust afglöp óagarðra ákvarðana stjórnmálamanna og græðgi fjárglæframanna. Við viljum losna við þessa ríkisstjórn og þann sem henni stjórnar og fá lýðræðislega og faglega stjórn og ákvarðanatöku.

sunnudagur, 28. september 2008

Er loks eitthvað að gerast?

Lenti í Silfrinu í dag og sat þar á milli tveggja stjórnarþingmanna sem báðir voru í kappræðum um hvað allt væri nú gott sem ríkistjórnin og Seðlabankinn væri að gera, aðrir komust vart að í langhundum þeirra. En samt blasir við að krónan er sífellt að veikjast, verðbólgan vex og fyrirtækin eru að gefast upp þau fá ekki rekstrarfé, sífellt fleiri heimili verða eingarlaus.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur beitt öllum brögðum til þess að bregða fæti fyrir málefnanlega umræðu. T.d. útspil þeirra um að taka einhliða upp Evru og senda Evrópunefndina til Brussel. Það var sneypuför og nefndin send heim með þau skilaboð að tími væri tilkominn að íslensk stjórnvöld færu að vinna heimavinnuna sína og taka til við agaða efnahagsstjórn.

Vitanlega eiga stjórnarþingmenn erfitt með að kingja svona og það kom svo vel fram í Silfrinu, eins og þeir sögðu að nú sé loks búið að koma ríkisstjórninni í skilning um að þörf sé á því að gera eitthvað. Það þurfti aðila vinnumarkaðs til þess að reka af þeim sliðruorðið og rasskelling í Brussel til þess að fá þá til þess að grípa inn með einhverjar aðgerðir, það er vitanlega gott, en það hefði mátt vera fyrr.

Stærsta vandamálið er að engin hefur lengur trú á stjórn Seðlabankans og stefna hans gengur þvert á stefnu ríkisstjórnarinnar. Ríkisstjórnin hefur líka glatað trausti og ekki bættir nú úr að heyra stjórnarþingmenn tala um kjarasamninga af slíku þekkingarleysi og Helgi gerði í Silfrinu í dag.

laugardagur, 27. september 2008

Veruleikafirring stjórnvalda


Eitt siðferðislögmálanna segir að áhrifum fylgi ábyrgð. Fjárfestingaráðgjafar bankanna hafa bein árhif á ákvörðunartöku viðskiptavina sinna og eru siðferðislega ábyrgir fyrir því hvernig komið er fyrir mörgu fólki. Grundvöllur siðferðislegrar varnar frjálshyggjunnar er fólgin í því að einstaklingurinn beri ábyrgð á gjörðum sínum á grundvelli valfrelsis.

Til þess að vörnin sé gild, þá þarf að vera um að ræða raunverulegt valfrelsi – þ.e.a.s. að skilyrðin um ”fullnægjandi upplýsingar” og ”fullnægjandi samkeppni” ( nægjanlegt framboð valkosta) þurfa að vera uppfyllt.Það eru þau svo sannarlega ekki á hinum Íslenska fákeppnismarkaði. Þennan ágalla einokunarumhverfis okkar á Íslandi upplýsa þeir sem telja sig vera boðberar aukins frelsis ekki almenning um.

Stjórnvöld hafa komið í veg fyrir að íslendingum standi boða valfrelsi með peningastefnu sinni og hafa beitt öllum ráðum til þess að komast hjá málefnanlegri umræðu um lausnir. Skoðun á einhliða upptöku Evru átti að taka 5 ár samkvæmt ummælum forsætisráðherra fyrir nokkru. Þar var formaður stærsta stjórnmálaflokks landsins enn einu sinni að víkja sér undan að taka á þeim gríðarlega vanda sem ríkir innan flokks hans. En það bitnar illilega á kjörum almennings.

Ráðamenn í Brussel tóku Evrópunefnd ríkisstjórninnar á hné sér í síðustu viku og settu niður í við nefndarmenn og bentu þeim á að nálgun ráðherra Íslands væru ekki boðleg. Á fundunum kom það íslendingunum á óvart hversu mikla þekkingu ESB menn höfðu á íslensku efnahagslífi og þeirri þróun sem átt hefði sér stað.

ESB menn sögðu að íslensk stjórnvöld hefðu átt að nýta þennsluskeiðið til þess að byggja upp varasjóði frekar en að fara út í skattalækkanir og undirbúa efnahagslífið undir þær breytingar sem hefðu átt sér stað með gjaldmiðil þjóðarinnar. Aðgerða- og ráðaleysi íslenskra stjórnvalda á undanförnum árum væru ástæða vandans, á meðan það væri ekki gert gætu stjórnvöld annarra landa gætu ekki annað en hafnað þátttöku Íslands í ábyrgum aðgerðum.

Útspil borgarstjórnarflokks Sjálfstæðismanna með staðfestingu ríkisstjórnarinnar um hækkun afnotagjalda OR hefur vitanlega hleypt öllum undirbúningi kjarasamninga í uppnám. Enn einu sinni sýna hérlendir valdamenn hversu fjarri öllum veruleika þeir starfa í. Verði það dregið lengur að sett verði langtímamarkmið og ákvarðanir teknar í efnahags- og gjaldmiðilsmálum mun það muni leiða enn alvarlegri og langvinnari efnhagsófarir yfir Ísland.

föstudagur, 26. september 2008

Eignalaust fólk

Hér er bréf sem barst til síðunnar

Ung hjón keyptu sér íbúð á 24 miljónir í upphafi árs 2007. Þau áttu 4 milljónir og tóku 20 milljónir að láni, verðtryggt lán til 40 ára. Nú um næstu áramót stefnir í að staða þessara hjóna verði sú að þó svo íbúðin hafi hækkað í upphafi tímabilsins og var um mitt þetta ár kominn niður í kaupverðið, en verður kominn neðar um næstu áramót. Miðað við 6% verðbólgu á síðasta ári og 15% á þessu ári er skuld hjónanna orðin rúmar 24 miljónir. Fjóru milljónirnar þeirra eru horfnar til eigenda skuldarinnar og þau eru orðin eignalaus. Þó verðbólgan lækki um helming á næsta ári, eiga þessi hjón minna en ekki neitt næstu ár og jafnvel áratugi.

Líklegt er að mörg þúsund jafnvel tugþúsund einstaklinga lendi í þessari stöðu. Þetta ástand er og mun valda upplausn í þjóðfélaginu og líklegt að fjölmargir gangi út úr íbúðunum og flyti til annarra landa, þar sem ekki er komið fram við fólk með þessum hætti. Mitt álit er að ríkisstjórnin verði nú þegar að afnema lögin um seðlabankann og taka upp fastgengi, festa gengisvísitöluna í 140 til 145 stigum.

Nú á öllum að vera ljóst að tilraunin með markaðsgengi krónunnar mistókst algjörlega. Þegar búið er að festa gengi krónunnar þarf strax að hefja vinnu við framtíðarskipulag peningamála þar sem væntanlega eru ekki aðrir kostir en upptaka Evru með einhverjum hætti eða binding krónunnar við aðra gjaldmiðla líkt og Danska krónann er bundinn við Evruna. Fastgengi í 140 - 145 stigum ætti að lækka vöruverð mjög hratt og stöðva verðbólguna nú þegar.

Í umræðum hagfræðinga og annara sérfræðinga um þessi mál er stöðugt klifað á stöðu banka og stórfyrirtækja, en þetta eru lang stærstu gerendurnir í þessum óförum.

Ég verð ekki var við að þessir menn ræði stöðu Jóns og Gunnu sem hafa fjárfest aleigunni og stórum hluta tekna sinna næstu 40 árin í að koma sér þaki yfir höfuðið.

Seðlabankastjóri sagði á fundi í vor að hann ætlaði að láta rannsaka hvort gerð hefði verið atlaga að krónunni. Nú er margt sem bendir til þess að þeir sem gert hafa atlögu að krónunni séu ekki Jón Ásgeir og félagar, heldur sá stærsti af góðu gæjunum. Það virðis ekkert bóla á rannsókn Davíðs.

Kveðja H

fimmtudagur, 25. september 2008

Óþarfi að tæma hlöðuna

Miklar framkvæmdir á Austurlandi hafa leitt til fjölmargra ferða minna þangað. Bæði vegna starfsins, það er gaman að koma þangað, landið fallegt, býður upp á fjölbreytileika. Þröngir firðir, sviprík fjöll, stutt inn á hálendið, margar góðar og gríðarlega fallegar gönguleiðir. Fyrir nokkru voru reistar þar alræmdustu vinnubúðir í Evrópu. Margir höfðu af því miklar áhyggjur að þær myndu verða skildar eftir. Fjölmiðlafulltrúi sem á stuttum tíma varð allþekktur innan verkalýðshreyfingarinnar fyrir kaldranaleg viðhorf til launamanna, setti fram þá hugmynd að breyta búðunum í hálendishótel og leitaði eftir kaupendum ókeypis í fréttatímum og spjallþáttum RÚV.

RÚV útvarpaði þessu ítrekað athugasemdalaust, þrátt fyrir þekkta sögu búðanna. Þær væru langt fyrir utan allar reglugerðir og það væri ljóst að tilgangur væri sá einn að losna undan umtalsverðum kostnaði við að fjarlægja búðirnar. Allir sem til þekktu óttuðust það að einhver myndi falla fyrir þessu, búðirnar væru óhæfar til þessa hlutverks og það myndi svo lenda á skattgreiðendum að fjarlægja allt draslið. En nú eru búðirnar komnar í fjölmarga gáma niður á Reyðarfirði og er ætlað hlutverk niður í Afríku. Eftir standa holtin við Kárahnjúkana hrein og fín. Lónið stóra og tilkomumikill foss af yfirfallinu niður í gljúfrin.

Þessa dagana er verið að ganga frá Eyjabakkavirkjun og ljúka greftri ganga og stíflna á svæðinu austan við Snæfellið. Hún heitir reyndar öðru nafni í dag og er aðeins neðar en fyrirhugað var þegar allt varð vitlaust hér um árið. Fljótdalsvirkjun er glæsileg, Landsvirkjun hefur alla tíð lagt mikið upp úr góðum og snyrtilegum frágang við sín mannvirki og er til mikillar fyrirmyndar í þeim efnum. Allstaðar er verið að snyrta og laga til og komið er listaverk í affalsskurð virkjunarinnar. Áttaði mig ekki á því í fyrstu, en það er eitthvert skip sem er svo skemmtilega byggt að það lítur út eins og það hafi verið búið til í leikskóla og síðan hent út í skurðinn.

Nokkru neðar er Hallormsstaður í töfrandi haustlitum með sína Atlavík, þangað sem Stuðmenn fluttu Ringo Starr á sínum tíma og létu hann ráfa um mannfjöldann með mikið pottlok. Engin þekkti karl, þangað til einn miðaldra austfirðingur vel við skál sveif á Ringo og smellti á hann mörgum velblautum kossum. Taldi sig þekkja þar gamlan og góðan smíðakennara sinn út á Eiðum 20 árum áður. Þegar hann gerði svo nokkrar tilraunir til þess að heiðra þennan fyrrum kennara sinn með því að troða pitlu með góðum gambra ættuðum innan úr Jökuldal upp í Ringo, var snarlega gripið til þess ráðs að bjarga trommaraunum þekkta og honum komið upp á svið. Enda hafði Ringo þá nýverið tekist að kveðja Bakkus konung.

Á leið frá Hallormstað er ekið fram hjá kirkjustaðnum Vallanesi þar sem nú er lífrænt ræktað korn með góðum árangri með aðstoð erlendra gesta fullum af hugsjónum og þiggja þau laun ein að fá svefnpláss og hafragraut. Hótelstjóri niður á fjörðum hinum megin heiðar hefur verið tekin í Karphúsið nýlega fyrir að greiða sínu erlenda starfsfólki einungis helming launa eða þar um bil. Hann svaraði fyrir sig með snarpri tiltekt á skrifstofum verkalýðsfélagsins, og reyndar þarfri að mér skillst á framkvæmdastjóra þess.

En í Vallanesi er einnig kirkjusetur sem á sína klerka sem eiga sína sögu. Einum þeirra andstætt við Ringo þótti gambrin í Jökuldalnum góður og sótti þangað. Átti að syngja messur en sleppti því gjarnan og vildi heldur sitja að spilum með bændum. Einhverju sinni mætti þó einn bóndi til messu. Klerkur vilda hafa messufall. Ekki fært að messa yfir einum manni. Bónda krafðist réttar síns og benti klerki á að hann henti út smá tuggu þó svo einungis ein skjáta kæmi heim að hlöðu. Klerkur gat ekki annað fallist á rök bónda og söng fulla messu með miklum tilþrifum yfir honum.

„Og hvernig fannst þér nú?“ spurði hann bónda er þeir gengu út úr kirkju.

„Þó ein skjáta leiti heim, þá tæmi ég nú ekki hlöðuna“; tuldraði bóndi um gekk að hesti sínum.

miðvikudagur, 24. september 2008

Kosningar strax - takk fyrir

Borgarstjórn Reykjavíkur spilaði í dag út innleggi í væntanlega kjarasamninga. Hún leggur til að laun hækki strax um 9.7%. Stjórnmálamenn verða að skilja að launamenn ætla ekki einir að axla ábyrgð á því að reyna að ná niður verðbólgu. Það er ekki hægt að hækka þjónustu- og afnotagjöld án tengsla við launaþróun.

Samtök launamanna stigu síðastliðinn vetur til jarðar af mikilli ábyrgð. Þau hafa ásamt samtökum fyrirtækja ítrekað gert tilraunir til þess að ná sambandi við ríkisstjórnina og lagt til að sest verði að langtímamótun efnahags- og peningastefnu. Það getur ekki nokkur búið lengur við það ástand sem ríki hér á landi. Nema þá kannski bankarnir sem fitna eins og púkinn á fjósbitanum og krónan fellur. Skila milljarða hagnaði og vextir hækka enn frekar. Almenningur og fyrirtæki eru að kikna undan vaxandi greiðslubyrði og gjaldþrotum fer fjölgandi.

Fjármálaráðherra samdi um 21% launahækkun í síðustu viku og samningamenn hans skála í kampavíni í beinni útsendingu. Dettur nokkrum einasta manni sem minnsta vit hefur á launaþróun og samskiptum á vinnumarkaði, horfandi framan í 16% verðbólgu og allir kjarasamningar losni á næstu 4 mánuðum, að launamenn horfi ekki til þessa fordæmis.

Helsti efnahagsráðgjafi Sjálfstæðisflokksins sagði nýverið að það verði að halda í krónuna svo hægt sé að fella hana frjálst og óháð öðrum gjaldmiðlum, þá sé hægt að halda launum í landinu innan tiltekinna marka. Forsætisráðherra og hans flokkur beitir öllum brögðum í bókinni til þess að komast hjá því að ræða efnahags – og peningamál af einhverju viti með innihaldslausum og rakalausum upphrópunum.

Háttalag ríkisstjórnarinnar stefnir öllu í bál og brand. Stefna hennar ásamt borgarstjórnar Reykjavíkur mun að öllu óbreyttu leiða til mjög harkalegra átaka á vinnumarkaði í vetur. Hún mun tryggja vaxandi verðbólgu og að hún muni staldra við hér til langs tíma. Sé litið til þróunnar og framkomu ráðherra undanfarnar vikur, þá væri það klár ósvífni af þeirra hálfu ef einhver ráðherra eða stjórnarþingmaður vogar sér að minnast á að launamenn axli nú einhverja ábyrgð.

Það virðist einungis vera ein leið út þessum vanda, að losna við þessa ríkisstjórn og fá fram kosningar strax í vetur.

þriðjudagur, 23. september 2008

Hver er sinnar gæfu smiður

Hver er sinnar gæfu smiður, segir Halldór Landsbankastjóri. Hafi menn skuldsett sig of mikið beri þeir vitanlega ábyrgð á því. Margir spyrja aftur á móti hvað með þá efnahagsráðgjöf og eignaumsýslu sem bankarnir hafa boðið upp á. Hún hefur í sumu ekki verið beisin og oft snúist um að fá fólk til þess að afhenda guttunum í bönkunum alla sína fjármuni til umsýslu. Mönnum hefur verið ráðlagt að selja fjölskyldufyrirtæki sem þeir hafa varið allmörgum árum í að byggja upp og fá í staðinn hlutabréf. Þeir hinir sömu standa núna uppi eignalausir. Á sama tíma hafa aðrir fengið þá ráðgjöf að taka mikil lán og kaupa umrædd fyrirtæki, nú er allt hrunið og menn sitja upp með skuldina miklu.

Fólk fékk þá ráðgjöf að selja hús sín, sem það átti kannski um helming í, taka 90-100% lán til kaupa á nýju húsnæði og setja fjármuni í hendur eignaumsýsluguttanna. Við þessu fólki blasir nú 25% hækkun greiðslubyrði og situr nú í skuldafangelsi í sinni eign með skuld upp í topp og sér fram á þurfa að greiða bankanum sínum mjög ríflega afborganir/húsleigu næstu 40 ár.
Þannig má rekja mörg dæmi. Bankar sem vilja vera vandir virðingar sinnar eru með á sínum sínum snærum „efnahagssérfræðinga“ sem eru ungir og algjörlega reynslulausir. Þekkja ekki niðursveiflu. Þeir tóku sín laun út í bónusum vegna færslna fram og tilbaka á lánum, verð- og hlutabréfum og sást ekki fyrir í hvaða stöðu þeir hafa komið mörgum sem treystu á ráðgjöf bankanna.

Hver er sinnar gæfu smiður segir Halldór og yptir öxlum framan í landsmenn.

mánudagur, 22. september 2008

Einokun

Íslenskir bankar búa í vernduðu umhverfi sem stjórnvöld hafa búið þeim og vilja viðhalda með því hafna því að breyta peningastefnunni og ganga til viðræðna við aðila vinnumarkaðs um langtíma stefnumörkum um tiltekt á efnahagsstjórn og stefnu á meiri stöðugleika. Í stað þess er okkur boðið upp á endalausar upphrópanir og útúrsnúninga.

Íslenskum almenning er gert að greiða hæstu vexti í heimi og mikinn vaxtamun. Við búum við mikla verðbólgu og hátt verðlag. Þessar tekjur duga þeim ekki, auk þess dynja á okkur endalausar kröfur um allskonar þjónustugjöld. Þessar sértekjur íslensku bankanna duga fyrir öllum launakostnaði þeirra. Í gegnum kortakerfið hafa búið sér einstæða hlutdeild öllum fjármunahreyfingum. Í þessu sambandi má t.d. benda á að í mörgum löndum er manni gert að greiða sérstakt álag vilji maður greiða með korti, t.d. í Danmörk er það um 5%. Hér hafa þeir komið því fyrir að þetta renni til þeirra.

Til þess að bæta kolsvörtu ofan á þetta allt saman segja þingmenn frjálshyggjunnar að þeir vilji viðhalda sértækum íslenskum gjaldmiðli svo þeir geti séð til þess að íslenskir launamenn fái nú ekki of miklar launahækkanir. Hér er ég að vísa til endurtekinna ummæla forsætisráðherra og hins dáða efnahagsráðgjafa Péturs Blöndal.

Það er kostulegt að hlusta á þá stjórnmálamenn sem standa fremstir í því að viðhalda þessari einokunarstarfsemi skuli kalla sig frjálshyggjumenn. Þeir eru vitanlega sérhyggjumenn sem berjast fyrir því að gæta eigin hags og velta öllum kostnaði af því yfir á almenning. Forystumenn verklýðshreyfingarinnar eru meiri frjálshyggjumenn en þessir menn.

Hinir íslensku „frjálshyggjumenn??“ koma vísvitandi í veg fyrir að hér ríki venjuleg bankastarfsemi í samkeppnisumhverfi. Það gengur hreinlega fram af manni að vera gert að hlusta á forsætisráðherra og seðlabankastjóra hrósa sér af því að bankar fari á hausinn annarsstaðar í veröldinni, en ekki hér. Séríslensk kímni. Bankar sem búa við eðlilega samkeppni fara á hausinn. Það gera aftur á móti ekki bankar sem búa í þeirri einokunnarveröld sem íslenskir „frjálshyggjumenn“ hafa búið sér.

sunnudagur, 21. september 2008

Hver er ábyrgð bankanna?

Það verður sífellt dýrara að vera Íslendingur og spurning hvar sársaukamörkin eru. Hvað þarf mikið til þess að launamenn, sem skyndilega eru orðnir eignalausir og eru að kikna undan hratt vaxandi greiðslubyrði, segi hingað og ekki lengra og flytji af landi brott. Sjálfsagt er ekkert einhlítt svar við slíkum spurningum. En það er ljóst að ráðstafanir Seðlabankastjórnarinnar virka öfugt, verðabólgan er farinn að næra sjálfa sig.

Líking krónu við fljótandi korktappa á úthafi hefur aldrei átt jafn vel við og nú. En það er lýðskrum, segir Seðlabankastjórinn og vill að við hættum þessum mótmælum. Enn ein upphrópunin. Og svo er bætt við að Evra sé engin skyndilausn. Var einhver að tala um það. Það er eins og sumir séu að fara á taugum. Þeir ráða ekki lengur umræðunni, ekki frekar en efnahagslífinu. En þessir menn kunna lítið annað en þrætubókarlistina og eyðileggja uppbyggilega umræðu.

Það voru ungir áhættusamir karlmenn á prósentum við að koma út lánum sem stútuðu nýfrjálshyggjunni. Græðgin gleypti allt, nákvæmlega sama og gerðist í Sovétinu. Byltingin étur börnin sín. Spyrja má um ábyrgð bankanna, að siga svona illa upplýstu starfsfólki á saklausan almenning. Fólk leitar til bankanna um fjármálaráðleggingar. Afturgreiddir guttar háskólamenntaðir í Armanifötum eru til staðar á bónusgreiðslum frá bönkunum fái þeir fólk til þess að taka lán, bara nógu andskoti mikil lán. Guttar sem nýskriðnir úr háskóla uppfullir af réttmæti þess að hafa mikla aura handa á milli um það snýst lífið að þeirra mati. Hafandi aldrei lent í niðursveiflu, atvinnuleysi, hvað þá langvinnum veikindum berandi ábyrgð á framfærslu fjölskyldu.

Greiðsluáætlunum er hnikað til og miðast við endalausan uppgang, endalausar launahækkanir, ekki einn veikindadag og að fasteignaverð geti ekki gert annað en hækkað endalaust. Hvar stendur það fólk sem leitaði ráðlegginga frá bönkunum í dag og hverjir eru það sem halda bónusunum sínum? Frjálshyggjumenn segja að fólk beri sjálft ábyrgðina. Það hafi tekið lánin. Jú það er satt, en hvert leitaði það eftir ráðgjöf? Við eigum semsagt miðað við þetta að taka ekki mark á ráðleggingum bankanna og “fagfólki!!” þeirra.

Reyndar er til annað dæmi um ráðleggingar fjármálaguttanna á Bensunum og sveru Bimmunum sem fljúga um á þyrlum til þess að fá sér SSpylsu í hléum frá laxveiðunum. Hver var ráðgjöf þeirra þegar DeCode hlutabréfin voru seld. Hverjir fengu sölubónusa og hverjir voru það sem sátu eftir með tóma buddu og þurftu jafnvel að selja húsins sín. Og hverjir voru veiðifélagar þeirra?

En það er almenningur sem stendur straum af kostnaðinum. Þrjátíu prósenta gengisfall og hækkandi vextir leiða til hækkunar dagvöru, þjónustu og hvaðeina sem við þurfum í okkar daglega lífi. Það mun aftur skila sér í hækkandi verðbólgu, sem aftur hlýtur að leiða til vaxtahækkunar Seðlabankans, sé litið til fyrri ákvarðana stjórnenda.

Langt er komið þegar forsvarsmenn efnahagsstefnunnar kalla það lýðskrum og landráð að ræða hratt vaxandi vanda, er ekki komið nóg af þessum mönnum. Eru það ekki þeir sem eru með lýðskrum og landráð? Höfuðstóll lána hækkar og greiðslubyrði vex. Reglubundnar upphrópanir og reyksprengjur forsvarsmanna stjórnvalda duga ekki og þaðan af síður einhverjar samsæriskenningar. Svo taka sumir sig til að hrósa þáttargerðarmönnum að varpa þessum "sannleika!!" yfir landsmenn.

Hvers vegna tóku Danir Svíar og Finnar þá ákvörðun að ganga til samstarfs við önnur Evrópulönd og byggja upp öflugt viðskiptasamband og tengja saman gjaldmiðla sína? Af hverju vilja forsvarsmenn stærsta flokksins ekki ræða þessi mál? Hagsmuni hverja er verið að gæta?

Fórnarkostnaðurinn við núverandi ástand er orðin hrikalegur og hann vex. Fram kom í vor að gera ætti úttekt á peningastefnunni, auk þess að skoða Evrópumálin? Voru þær yfirlýsingar bara enn ein reyksprengjan? Skítt með kerfið og almenning, við Georgarnir þurfum okkar hlut til þess að halda stöðu og völdum. Hefur ekkert breyst. Hvar er Salka Valka, Baden Powel og Svavar Gests eins og hinn óendanlega grátlegi sannleikur Dagvaktarinnar benti okkur á í kvöld? En Georg Bjarnfreðarson er svo lítill kall, svo lítill kall grenjandi undan því fái hann ekki að vera aðalkallinn og afturgreiddu guttarnir segja; "JÁ við viljum meira."

Ráðherrar viðurkenna loks að eitthvað þurfi að gera

Það er ekki hægt að skilja orð formanna stjórnarflokkanna undanfarna daga um að engin töfralausn sé til öðruvísi en svo að þeir en séu nú að átta sig á ástandinu.

Allavega hafa allir færustu hagfræðingar og efnhagspeningar þessa lands klifað á því að ríkisstjórnin verði að taka hendurnar upp úr vösunum og hefja alvöru tiltekt í efnahags- og peningamálum. Jafnframt að setja okkur langtíma markmið. Það muni verða sársaukafullt og kosta átök.

Þessu hafa ráðherrar og þingmenn Sjálfstæðisflokksins hingað til svarað með upphrópunum og reyksprengjum til þess að komast hjá því að fjalla um kjarna málsins.

Það væri mikil blessun ef það hefur nú loks tekist að fá ráðherrana til þess að horfast í augu við eigin gerðir og mistök.

laugardagur, 20. september 2008

Holland og norrænir melludólgar

Amsterdam er ákaflega notaleg borg. Hér er byggingarland greinilega dýrara en á höfuðborgarsvæðinu heima, hús reist á mjög litlum grunnfleti og öll 3 – 4 hæðir. Lítil bílaumferð er í miðbænum, enda er hún ekki í forgangi, fá bílastæði. Allstaðar eru reiðhjólagötur og sporvagnar sem koma með nokkurra mínútna millibili. Ekkert vandamál að þvælast um allt án þess að nota bílinn. Hér eru milljónir á ferð, en á höfuðborgarsvæðinu heima eru um hundrað þúsund. Það getur ekki staðið undir þeirri ferðatíðni sem svona kerfi verða að bjóða upp á, auk þess að ná vel út í íbúðarhverfin.

Hver einasti fermeter land er skipulagður og engin óhreyfð öræfi til þess að vernda, svo landverndarfólk verður að fara til Íslands til þess að mótmæla raski á hálendinu. Fólk situr með jónur á útikaffihúsum og ekki gerðar athugasemdir við það. En það eru takmörk fyrir því hvað löggjafinn hér þolir. Íslendingur sem hér býr ætlaði að fara að flytja inn blátt Opal, þá sagði löggjafinn hingað og ekki lengra. Í Opal væru nokkrum milligrömmum of mikið klóroformi, ef ég man rétt.

Hér er verið að halda Evrópumeistaramót í iðngreinum. Hollendingar eru vel þekktir í starfsmenntageiranum fyrir gríðarlega vel skipulagt og öflugt iðnnám. Verknám nýtur hér virðingar og stjórnvöld hafa stutt vel við bakið á því. Annað en heima þar sem þeir sem stýrt hafa menntakerfinu er einvörðungu fólk með bóknám úr háskóla. Embættismenn sem ekki hafði nokkurn skilning á því að skóli þyrfti meira en stofu, borð og stóla.

Íslensku embættismenn leiddu alltaf hjá sér kröfur um verknáms- og raungreinastofur væru með tækjum og tólum, þó svo þeir staðfestu námskrár sem voru samræmdar við aðrar evrópskar og þar væru gerðar kröfur um verknámstofur. Þetta leiddi til þess að verknám heima var löngum lélegt og naut þar af leiðandi ekki mikillar virðingar og íslendingar hafa komið út úr könnunum sem lakast menntaða þjóð í Evrópu. Þó svo stjórnmálamenn íslenskir berji sér á brjóst og fullyrði að við séum best, þá hefur komið fram á þeim fjölmörgu Evrópsku ráðstefnum sem ég hef setið um starfsmenntun, að við erum alltaf með stystu súlurnar þegar starfsmenn samanburðarkannana eru að kynna niðurstöður sínar, og alltaf taka þeir það sérstaklega fram að það hafi komið á óvart vegna þess að þeim hafi verið talið í trú um annað.

Reyndar er Holland vel þekkt í evrópska byggingariðnaðinum eins og ég þekki vel eftir stjórnarsetu í Evrópska byggingarsambandinu í allmörg ár. Þeir njóta virðingar sem land sem tekur af raunsæi og festu á málum. Fljótlega eftir að opnað var fyrir frjálsan flutning á launamönnum innan Evrópska efnhagssvæðisins kom í ljós að fyrirtæki voru að misnota aðstöðuna og starfsmenn voru ekki tryggðir og nutu ekki réttinda. Slys voru tíð og verkafólk kom inn á hjúkrunarstofanir ótryggt. Gríðarlegur kostnaður lenti á skattborgurum en ekki þeim sem áttu að skila af sér gjöldum til samfélagsins, eins og við þekkjum vel heima. Á þessu var strax tekið af festu í Hollandi á meðan íslenskt stjórnvöld tóku alltaf sjónarmið verktakanna og vörðu þá og tóku slaginn við samtök launamanna og kölluðu okkur rasista??!!. Endu eru viðhorf íslenskra hægri manna til samtaka launamanna og réttinda þeirra vel þekkt. Það tók okkur nokkurra ára baráttu til þess að fá stjórnvöld heima til þess að taka á þessum málum, eiginlega ekki fyrr en Jóhanna kom í stjórnina.

Ég var í því hlutverki, áður en ég fór út í fagpólitíkina um 1990, að starfa við að endurskipuleggja og byggja upp starfsmenntakerfi rafiðnaðarmanna. Við vorum í miklu samstarfi við hin Norðurlöndin og sóttum margt þangað. Þau voru aftur í miklu samstarfi við Holland, sem var í farabroddi. Norrænir rafiðnaðarmenn stofnuðu samstarfsráð, sem hét Nordisk El-Uddannings Kommité, skammstafað NEUK. Við fórum eitt sinn niður til Hollands og vorum þar með ráðstefnu þar sem fengnir voru Hollenskir fyrirlesarar. Þetta var um 1980 ogt þá voru viðhorf um margt önnur en þau eru nú.

Settum upp skilti á hurðina sem á stóð NEUK konferance. Í hvert skipti sem við komum fram í kaffi eða annað var búið að taka skiltið niður. Skildum ekkert í því, þar til einn hollendinganna bentu okkur á að Neuk þýðir ástarleikir á hollensku. Forsvarsmönnum ráðstefnustaðarins fannst það niður lægjandi að það væri auglýst að þarna væru 15 miðaldra norrænir melludólgar á ráðstefnu með innlendum leiðbeinendum og við fengum köldu hliðina. En þessum árum voru Norðurlöndin, þá sérstaklega Danir og Svíar, þekkt fyrir frjálsræði í þessum málum og m.a. voru á þeim árum Dónabúðir voru niður allt Strikið í Köben.

miðvikudagur, 17. september 2008

Afturvirkni launahækkana

Ég hef allnokkrum sinnum komið að siðferði stjórnmálamanna í pistlum mínum. Íslenskir stjórnmálamenn slá gjarnan um sig með erlendri könnun þar sem fram kemur að spilling sé lág á Íslandi. Þetta gera þeir hiklaust í opinberum viðtölum og ræðum á hinu háa Alþingi, þrátt fyrir að fyrir liggi yfirlýsing frá þeim sem könnunina gerði, að hún sé ekki marktæk fyrir Ísland þar sem ekki séu til þær reglur á Íslandi sem könnunin metur í öðrum löndum. Það liggur einnig fyrir að ekki er verið mæla það sem einkennir íslenska spillingu, framapot, fyrirgreiðslur og eigin hagsmunagæsla. Íslenskir frjálshygjjumenn á Alþingi berjast gegn því að settar verði skýrari reglur um athafnir þeirra, svo þeir geti haldið áfram á sinni braut.

Í viðræðum um endurnýjun kjarasamninga fjármálaráðuneytisins við launamenn hefur hingað til verið með eitt óbreytanlegt atriði, samningamenn ríkisstjórnarinnar semji aldrei um afturvirkni kjarasamninga. Á það hefur verið ítrekað bent af hálfu launamanna að seinagangur samningamanna ríkisstjórnarinnar verði oft til þess að það líður alllangur tíma fram yfir gildisttíma kjarasamninga áður en nýr samningar næst. Þenna tíma fá launamenn ekki bættan á hærri launum. Því verður það að hag samningamanna fjármálaráðuneytisins að draga kjarasamninga.

En þegar kemur að þingmönnum sjálfum gilda aðrar reglur í öllu. Þeir hafa önnur og betri eftirlaunakjör en aðrir landsmenn. Þau samsvara um 30% aukalaunum eins og hagdeild Samtaka atvinnulífsins hafa reiknað út. Þingmenn settu lög um að ef lífeyrissjóðir launamanna eigi ekki fyrir skuldbindingum þá verði að skerða örurku og lífeyrisgreiðslur. Þeir settu eaftur á móti reglur um að ekki sé um skerðingar að ræða í þeirra lífeyrissjóð, það sem upp á vanrtar er sótt beint í ríkissjóð.

Þingmenn og ráðherrar fá fulla dagpeninga, en þurfa þrátt fyrir það ekki að standa straum af uppihalds- og hótelkostnaði, reikningar vegna þess eru sendir beint á ríkissjóð. En þeir settu reglur um dagpeningar annarra eigi að nýta þá til þess að greiða þennan kostnað. Þingmenn fá alltaf launahækkanir sem miðast við hækkun lægstu launa verkafólks. Flestir launamenn sem höfðu hærri tekjur en verkafólk fengu lítið sem ekkert úr síðustu kjarasamningum. Það kölluðu þingmenn þá ábyrga kjarasamninga.

Nú voru þingmenn að úthluta sjálfum sér sömu launhækkun og lægst launuðu stéttirnar fengu, og til viðbótar er það afturvirk um 4 mánuði. Fengu ljósmæður afturvirkni í sínum samningum?. Þingmenn skýla sér bakvið Kjarráð sem þeir skipa sjálfir. Pétur Blöndal hefur margoft lýst því yfir að hann sé merkisberi frjálsra athafna og hann vill að menn beri ábyrgð á sjálfum sér. Hann nýtir hvert tækifæri til þess að hnýta í launamenn og samtök þeirra. En þegar kemur að honum hagar hann sér nákvæmlega eins og aðrir forsvarsmenn frjálshyggjunnar, hann er á ríkisjötunni og stundar þar sjálftöku.

Sviðin jörð

Undanfarnar vikur hefur hulan af hátterni nýfrjálshyggjunnar fallið og við blasir sviðin jörð þar sem hún hefur farið. Svo langt er komið að McCain frambjóðandi Repúblikana í BNA sem boðaði stefnu nýfrjálshyggju af miklum ákafa fyrir nokkru og kallaði eftir auknu frelsi, fækkun reglugerða og laga, hefur nú snúið við blaðinu og krefst þess í dag að bönd verði sett á Wall Street. Menn eru að verða hræddir um sparifé sitt, atvinnu og lífeyri. Allt er í rúst og það verður nánast óframkvæmanlegt fyrir Obama að rétta af þjóðarskútuna við nái hann kjöri. Ísland virðist stefna í sömu stöðu með gríðarlega skuldabyrði og of lága skatta. Þennslutekjurnar eru horfnar á braut og tekjur ríkissjóðs duga ekki lengur til þess að standa undir þeirri miklu þennslu sem hefur orðið á þjóðarbúinu á undanförnum árum. Enda hefur boðberum frelsis og einstaklingsframtaks verið raðað í ríkistryggða stóla prófessora, sendiherra, seðlabanka, hæstaréttar og héraðsdómara.

Áberandi er hvernig nýfrjálshyggjan hefur beitt sér í að losa sig við alla félagslega umgjörð og ekki boðið upp á nein úrræði í stað þeirra sem fjarlægð eru. Af nýfrjálshyggjumönnum er félagsleg umgjörð kölluð slævandi eða deifandi. Í stað þess hefur verið þrýst á aukin skil á milli efnahagslífsins og hins félagslega umhverfis. Vaxandi hnattvæðing hefur tryggt hreyfanleika auðs og nýtt til skammtímafjárfestinga og skammtímahagræðingu. Fyrirtækin hafa orðið að aðlaga sig, að öðrum kosti hafa þau glatað tiltrú markaðarins, eins og það er nefnt.

Markmið nýfrjálshyggjunar einkennast af hagræðingu í mannahaldi og launamálum. Allar ákvarðanir taka mið af skammtíma og ekki er um endurnýjun eða uppbyggingu að ræða. Farið er inn í fyrirtækin og þau standa svo eftir óvarin fyrir áföllum, eins og blasir við okkur þessa dagana í áður gömlum og grónum fyrirtækjum. Í þessu sambandi má benda á hvernig farið hefur fyrir járnbrautum, vatnsveitum og rafveitum sem hafa verið einkavæddar. Eftir nokkur ár er búið að hreinsa út öll verðmæti og ekki hægt að tryggja öryggi almennings og annað hvort að verður að verja skattfé til þess að kaupa hin fyrrverandi almenningsfyrirtæki aftur og byggja þau upp frá grunni eða afnotagjöld eru hækkuð ótæpilega.

Nýfrjálshyggjan heldur einstaklingnum utan sviga við efnahagslega formgerð og stefnir markvisst á að draga tennurnar úr fjöldasamtökum með því að varpað er rýrð á allar athafnir þeirra. Þetta hefur glögglega heyrst í málflutning hægri þingmanna og formælenda frjálshyggjunnar, má þar m.a. minna á ummæli eins helsta þeirra í Silfrinu um helgina. Þetta á sérstaklega við um vinnumarkaðinn. Þar ræður för hagræðingin og markaðsetningin. Nýfrjálshyggjan þiggur áhrifamátt sinn frá pólitísku og efnahagslegu valdi þeirra hagsmunaðila sem hún stendur vörð um; hluthafann, iðnjörfana og stjórnmálamenn af hægri kantinum. Með þeim má telja miðjumenn sem hafa komið sér notanlega fyrir í uppgjöf afskiptaleysisins. Í þessu sambandi má benda á viðhorf nokkurra þingmanna á síðasta kjörtímabili, þ.e.a.s. meðan þeir voru við stjórnvölinn.

Nýfrjálshyggjan leggur upp úr að ala á óvissu meðal launamanna, hættunni á uppsögn. Í sumum tilfellum hefur tekist að fjarlægja samtrygginguna sem samtök launamanna hafa komið upp. Með því verða áhrif óvissunnar áhrifameiri. Rekstrarhagfræðilíkön einstaklingshyggjunnar ganga út á tilvist hóps atvinnulausra. Samtrygging hverfur og ráðningar verða tímabundnar og hlutfall ótryggra starfa vex.

Nýjungadýrkunin ræður, einn dagur í einu. Æskudýrkun vex, viðhorf ungs fólks samsama sig betur nýfrjálshyggjunni. Þiggja smábónus gegn því að afsala sér áunnum réttindum. Eldri starfsmenn átta sig betur á mikilvægi samtryggingar og samstöðu. Fréttir fjalla um líðandi stund og minnisleysi fréttastofanna vex. Í skjóli þessa mæta ráðandi menn í spjallþætti og halda því hiklaust fram að stjórnarráðshúsið sé brúnt. Á morgun kemur fram önnur fullyrðing um að það sé rautt. En fréttamaðurinn fer ekki og athugar hver liturinn er í raun, það skiptir hann engu hvort það sé enn hvítt. Athafnaleysið við umfjöllun og könnun á margna af þeim tvíræða sannleik sem borin hefur verið á borð almennings blasir við.

Nýfrjálshyggjan hefur í vaxandi mæli samsamað sig við Sovétið hið gamla. Tilvist stjórnmálamanna og háttsettra embættismanna byggir á vaxandi mæli á mætti markaðarins og völdin snúast yfir í að tryggja stöðu sína og viðhalda stólunum. Hinir ungu frjálshyggjumenn sem komust að stjórnvölunum upp úr Þjóðarsáttinni, eru nú teknir að grána í vöngum og allt snýst um að viðhalda völdunum, þó svo það kosti almenning svimandi fjárhæðir. Samsömunin við gamla Sovétið er að fullkomnast. Í skjóli þeirra alast svo upp þægir og skoðanalausir ungir menn sem kátir þiggja kátir sem falla af borðunum. Hinir hafa glatað tiltrú valdahafanna og markaðarins og fara sömu leið og Þjóðhagsstofnun.

Tryggvi Þór og hagvöxturinn

Hef haft tilhneigingu til þess að trúa því sem Tryggva Þór núverandi efnahagsráðgjafi Geirs hefur sagt. En mér fannst sumt af því sem hann sagði í Kastljósinu í gær ekki ganga upp, meir að segja fjarri því. Samlíking hans um mælistiku hita og svo gjaldmiðils stenst einfaldlega ekki. Ég er reyndar ekki lærður hagfræðingur en hef þó lokið 2ja ára háskólanámi sem lýtur að þessu, auk um tveggja áratuga hörðu starfsnámi í fundarsölum vinnumarkaðsins.

Það sem er að fara með allt hér til andsk... er hin ofsalega sveifla gengisins. Fyrir liggur að hluta þessarar sveiflu má finna í spákaupmennsku með þennan litla gjaldmiðil, sem í raun hefur minnkað mjög mikið vegna gríðarlegrar stækkunar íslensks efnhagsumhverfis. Hluta má finna í röngum ákvörðunum stjórnmálamanna þar sem kosningaloforð ráða meiru en raunsæ efnahagsstjórn. Þar má t.d. minna á loforð um einkavæðingu og 90% húnæðislán. Hluta má finna í rangri ákvarðanatöku í Bandaríkjunum.

Einnig má þar benda á umfjöllun Tryggva Þórs um hagvöxtinn. Hann hefur líklega komið að ummælum Geirs fyrir nokkrum dögum um ofboðslegan og óvæntan hagvöxt hér landi. Glitnir sagði í gær að enginn hagvöxtur verði í ár og á næsta ári en muni síðan taka vel við sér árið 2010 og verða 3,6% það ár. Semsagt engin hagvöxtur á þessu ári þrátt fyrir að Geir og Tryggvi Þór haldi því fram að hann sé 4%. Þessi ummæli Geirs og Tryggva Þórs eru mjög óábyrg eins og ég kom að í pistli fyrir nokkrum dögum. Til þess fallinn að vekja væntingar sem engin innistæða er fyrir. Það er hlutur sem menn eiga ekki að leika sér að, og er eitt af því fyrsta sem maður lærir við að hefja störf við gerð kjarasamninga.

Glitnir er á svipuðum slóðum og hagdeild ASÍ um að hagvöxtur ætti að taka við sér á árinu 2010. En í þessu sambandi má reyndar minna það sem Jónas sagði í eftirminnilegu viðtali sínu hjá Agli um síðustu helgi, það réðist af því hvort stjórnmálamenn ætluðu að láta undan freistingum og skreppa út í Ríki og slá fyrir einum kassa og vera búnir að koma á fót nýrri veizlu í næstu kosningum. Eins og gert var í síðustu kosningum. Það er að segja ef við eigum að búa áfram við samskonar efnahagsstjórn reista á kosningaloforðum og kjördæmaplotti, þá verðum við kominn á Vog og verðum að fara í löngu meðferðina innan nokkurra ára.

þriðjudagur, 16. september 2008

Nýju föt efnhagsspekinganna

Maður heggur eftir því að skyndilega er forsætisráðherra farinn að tala um að hluti ástæðna fyrir niðursveiflunni sé óstand á erlendum fjármálamarkaði. Hingað til hefur hann ásamt öðrum flokksmönnum sínum sífellt talað um að þetta sé alfarið komið erlendis frá. Eitthvað sem hann og stjórnendur íslensks efnahagslífs hafi ekkert með að gera.

Þeir eru allmargir hagfræðingarnir sem hafa á undanförnum misserum bent á að stjórnvöld hér heima hafi gert mistök. Viðtal Egils við Jónas virðist hafa endanlega gert út um það að Geir og félagar komist upp með þennan spunakennda málflutning sinn. Við blasir að aðvörunaorð um að betra væri að nýta það fjármagn sem færi í skattalækkanir til þess að búa ríkissjóð undir áföll voru rétt. Þegar þennslan er horfin duga tekjur ríkissjóðs vart fyrir útgjöldum og ríkisstjórnin þarf að taka lán á okurvöxtum.

Það bar mikið á eigin afrekum í lofræðum tiltekinna stjórnmálamanna í síðustu kosningum í stjórn efnahagsmála og glæsilegs árangurs fjármálamanna í skjóli þess ástands sem þeim hefði verið skapað. Ef einhverjir voguðu sér að benda á að þetta væri nú kannski allt eins glæsilegt að af væri látið, voru þeir hinir sömu umsvifalaust afgreiddir með því að þar færi öfundsjúkt vinstra lið. Skipti þar engu hvort viðkomandi hefði gefið síg út fyrir að vera með einhverja stjórnmálaskoðun yfir höfuð eða væri jafnvel félagsmaður í Flokknum. Enn ein rakalausa klisjan úr spunaverksmiðjunni Valhöll.

Nú blasir við öllum hvað fjármálasnillingarnir hafi verið að gera. Undirstaða brambolts þeirra eru lífeyrissjóðir launamanna. Þeir hinir sömu hafa ætíð hallmælt þessum sjóðum og verið jafnvel í fararbroddi fyrir því að brjóta þá á bak aftur, og færa lífeyrisparnað inn í bankana eða til erlendra lífeyrissjóða.

Starfsmenn Kaupþings voru í áróðursherferð um að launamenn ættu að gefa almennu lífeyrissjóðunum langt nef og ganga úr verkalýðsfélögunum. Þetta var purrkunalaust gert þó svo helstu afrek nýfrjálshyggjumanna hafa byggst á því að höndla með fyrirtæki og sjóði sem sem almenningur í landinu og samtök þeirra hafa byggt upp eins og Orkuveitan, bankana, Eimskip og Flugleiði. Hver eru afrekin og hvar lendir reikningurinn?

Margir halda því fram að þetta sé upphaf endaloka nýfrjálshyggjunnar.

mánudagur, 15. september 2008

Nauðgun heimilanna

Lenti í því síðustu viku að það var brotist inn á heimili okkar um miðjan dag, húsið var mannlaust í tæpa tvo tíma. Farið inn um stofuglugga, átti erfitt með að trúa því, þar sem hann er lítill og í nær 2ja metra hæð. En löggan sagði að á ferð væru fimir menn, stundum væru þeir með unglinga með sér sem rennt væru inn um gluggana. Sást greinilega með fingrafaraduftinu hvernig hann hafði farið inn, var í Addidasskóm og með hanska. Þeir fóru um allt heimilið og tóku allt það sem kalla má handhæg verðmæti eins og tölvur, myndavél, harða diska og svo var farið í gegnum náttborðin og hluti skartgripa konunnar teknir. Myndaalbúm fjölskyldunnar síðustu 20 ár horfið, því bæði tölvunni og svo harðadrifið sem var varageymsla var stolið. Í því voru allir fagnaðir og uppákomur, auk vídeóskeiða og sérstökum atburðum. Sagði löggunni að ég hefði verið tilbúinn að rétta þjófunum tölvuna út um gluggan ef þeir hefði sleppt því að koma inn og látið okkur halda þessum minningum.

Sjokkið kom fyrst og svo reiðin. Einhverjir ruddamenn vaða inn á heimili manns og upp í rúmm. Gramsa í öllu og taka með sér hluti sem manni finnst vænt um. Eftir þetta kemur maður heim með allt öðru hugarfari en áður. Eru einhverjir inni hugsar maður þegar rennt er í hlað, og maður lítur eftir því hvort einhver hafi verið á ferð. Búinn að skipta um allar gluggalæsingar og setja upp mun öflugri auk þess að setja spelkur til að hindra inngöngu um opnanleg fög. Það er ömurleg staðreynd að verða breyta heimili sínu í einhvers konar virki.

Blöðin í dag segja að lögreglumönnum hafi fækkað. Einkennilegt með tilliti til þess að mikil fjölgun hefur verið hér á höfuðborgarsvæðinu. Auk þess að við erum með fjölda erlendra gesta, sem sumir hverjir hafa atvinnu af því að stunda neðanjarðarstarfsemi. Þetta hefur komið til viðbótar við hina íslensku. Á þessu verður að taka. Þessi starfsemi er orðin mjög skipulögð, þeir þjófar sem nást eru sumir hverjir með miða í vösunum þar sem eru húsnúmer og upplýsingar um að íbúar viðkomandi hús fari til vinnu og skóla kl. xx og húsið tómt til kl. xx ákveðna daga.

En sumir fara inn að nóttu. Var sagt frá ungri konu sem var fyrir stuttu ein heima með lítið barn, maðurinn erlendis í vinnu. Hún vaknaði við að það stóð maður við rúmkantinn og var að taka hleðslutæki fartölvunnar úr sambandi og taka tölvuna. Hannn var með tösku á öxlinni sem tölvan og fleiri munir hurfu niður í. „Þetta allt í lagi. Ég er að fara“; sagði maðurinn við konuna sem lá stjörf í rúmminu.

Mér hefur einnig verið bent á að margir átti sig ekki á þessir náungar sækja einnig í persónuleg skjöl og nýta þau svo til þess að komast inn á bankareikninga eða opna reikninga í nafni þeirra sem eiga skjölin og hefur stundum tekist. Þannig að þú ert ekki endilega laus við þá þó svo þeir séu komnir út af heimilinu.

Lögregluna verður að efla og bæta hverfagæslu. Hann er borgaryfirvöldum til skammar kjallarinn sem lögreglumönnum í Grafarvogi hefur verið boðið upp á undanfarna áratugi. Friðhelgi heimilisins verður að verja.

sunnudagur, 14. september 2008

Barnaskapur Sigurðar Kára

Það er ótrúleg reyndar barnaleg einföldun hjá Sigurði Kára og skoðanabræðrum hans að samtök launamanna eigi ekki að skipta sér að neinu nema gerð kjarasamninga. Þá virðist hann eiga við að samtök launamanna eigi að fjalla um launaflokka og ekkert annað. Það er nefnilega þannig að stjórnvöld hafa ítrekað gripið til aðgerða sem skerða kjör launamanna sem verður að bregðast við. Eins og t.d. Pétur félagi Sigurðar kom inn á að það væri hluti af efnahagsstefnu Sjálfstæðisflokksins að lækka gengið ef verkalýðfélögin nái of góðum árangri að mati Flokksins.

Þetta er enn ein klisjan sem öfgakenndir hægri menn klifa á þar sem hlutunum er snúið á haus. Öll munum við þegar þeir hvetja launamenn til þess að raska ekki stöðugleikanum með of miklum launahækkunum, það valdi bara meiri verðbólgu og lækkun kaupmáttar. En daginn eftir að búið er að ganga frá kjarasamningum byrja þeir að klifa á að samtök launamanna séu óþörf, þau geri lélega samninga, launin séu lág og fleira í þeim dúr.

Það hefur nú oft verið niðurstaða við gerð kjarasamninga og ekki síður við endurskoðun þeirra að aðrar aðgerðir en beinar launahækkanir komi launamönnum betur. Eins að það væri heppilegra fyrir hagkerfið, sem skilaði sér í stöðugleika og tryggði kaupmátt.
Það er yfirlýst og margsamþykkt stefna samtaka launamanna að byggja á samtrygginu og félagshyggju. Það fer vitanlega fyrir brjóstið á öfgafullum hægri mönnum og þeir vilja koma í veg fyrir að launamenn geti beitt samtakamætti sínum gegn sérhyggju og auðsöfnun fárra á kostnað almennings. Launamenn hafa haft forystu um að móta hið norræna samfélag með beinum afskiptum af stjórnmálum. Þetta norræna samfélag er nú fyrirmynd allra annarra en nýfrjálshyggjumanna.

Þetta kom reyndar einnig fram hjá forsætisráðherra þegar hann gagnrýndi að samtök launamanna og fyrirtækja hefðu á því skoðun hvernig komast mætti út úr þeirri sjálfheldu og kjaraskerðingu sem krónan veldur. Ótrúlegt að forsætisráðherra segi þetta, en skýrist af þeim innanhúsvanda sem Flokkurinn býr við. En það var sterkt hjá Geir hvernig hann tók á grein Óla um flokkinn og sýnir vel hvernig sá armur er að einangrast innan Flokksins. Geir komst að mörgu leiti vel frá Silfrinu og ef hann losar sig við frjálshyggjuarminn er klárt að Flokknum myndi vegna betur.

Krónuna svo halda megi launum niðri

Það er hægt að taka nokkur ummæli í þessari viku frá forystumönnum Flokksins og skrifa pistla um þau. Ákveðin hópur sjálfstæðismanna fjallar um stjórnmál út frá þeirri sjálfumglöðu stöðu að sú stefna sem þeir hafi sé hin rétta, aðrir eru í vinstra liðinu og hafa rangt fyrir sér. Eru Thalibanar eins og þekkur lögmaður kallar þá sem ekki eru honum sammála í sinni öfgafullu hægri trú. Og þar með þarf ekki að ræða málið frekar að þeirra mati. Þetta er eins og bandaríska trúarbragðaumræðan sem stjórnar Repúblikanaflokknum. Eða eins og umræðan um fótbolta, þú heldur með þínu liði sama á hverju gengur.

Óli Björn endurspeglar þetta ákaflega vel í ummælum í þessari viku. Þegar hann ásamt nokkrum öfgafullum hægri mönnum stjórnaði DV þá snérist umfjöllun blaðsins um að koma þessum sjónarmiðum fram. Gengið var svo langt, eins og kom fram hjá blaðamönnum sem hættu á DV, að umskrifa fréttir og viðtöl ef þau þóttu ganga gegn Flokknum. Einn manna Óla gekkst svo upp í því þegar þeir voru komnir á Viðskiptablaðið að gefa út gagnrýni á fréttaumfjöllun annarra blaðamanna!! Það er nú svo að margir hafa yfirgefið Flokkinn vegna þess að sjónarmið þessara manna hafa verið sett fram sem hin eina rétta stefna Flokksins.

Stefna Flokksins í efnhags- og peningamálum hefur ekki gengið upp og veldur mörgum heimilum og fyrirtækjum miklum skaða þessa dagana. Það er ekki bara erlend efnahagskreppa eins og Flokkurinn tönglast á í vandræðagangi sínum. Efnahagsákvarðanir eins og skattalækkanir og 90% lán í húsnæðismálum voru þær verstu sem hægt var að taka. Það blasir líka við að stefna Flokksins í Evrópumálum er röng, en þeim er um megn að viðurkenna það.

Talandi um ummæli Flokksmanna þá sagði einn helsti efnahagspostuli Flokksins, Pétur Blöndal, í viðtali við Fréttablaðið í vikunni að ekki væri hægt að sleppa krónunni, því þá væri ekki hægt að grípa til gengisfellinga í kjölfar óskynsamlegra kjarasamninga. Þetta sjónarmið hefur einnig komið fram nokkrum sinnum hjá forsætisráðherra. Þetta gengur þvert á eina af helstu klisjum Péturs og nokkurra spekinga Flokksins; að það sé verkalýðshreyfingunni til skammar hversu lág launin séu í landinu. Önnur algeng klisja hjá Flokknum er að aðilar vinnumarkaðsins eigi að semja sjálfir um laun og kjör án þess að vera trufla ríkisvaldið í sambandi við það.

Þessir menn vilja viðhalda ónýtri krónu til þess eins að tryggja völd sín og stöðu. Þeir vilja ekki að launamenn og fyrirtæki geti afskiptalaust samið um kaup og kjör. Þeir halda launum hér á landi niðri vegna þess að það er þeirra hagur. Þetta er reyndar mjög þekkt afstaða nýfrjálshyggjumanna um alla veröld. Það að launamenn myndi samtök til þess að verja kjör sín er eitur í þeirra beinum. Einnig má benda á hverjir það eru sem eru fjölmiðlafulltrúar þeirra fyrirtækja sem hafa gengið lengst gegn kjörum launamanna og hvaðan þeir lögmenn koma sem beita öllum brögðum í bókinni til þess að verja þessi fyrirtæki. Þeir eru svo fengnir sem álitsgjafar í Kastljósið um kjör launamanna!!

Pétur Blöndal tekur af öll tvímæli um þetta. Það er þetta ásamt spillingu sem veldur því að fylgið hrynur. En eftir sitja tæplega 30%, þeir sem hafa hag af núverandi ástandi, ásamt nokkrum sem myndu kjósa kókkassa athugasemdalaust ef Flokkurinn stillti honum upp í framboði.

laugardagur, 13. september 2008

Störf lögreglunnar

Ég er ekki sammála þeirri neikvæðu umræðu sem störf lögreglumanna fá. Það eru reglur í landinu. Þessar reglur eru settar vegna þess að einhverjir eru að reyna að komast upp með athafnir sem ekki eru réttmættar gagnvart rétti annarra. Svo ég noti myndlíkingu; þá gengi það ekki ef einungis annað liðið þyrfti að hlusta á dómarann.

Í þeim hóp sem hingað leitar eru því miður einstaklingar sem ekki eiga neitt erindi. En þessir einstaklingar beita öllum brögðum í bókinni til þess að komast hjá þeim reglum sem við höfum sett, auk þess eru fyrir því rökstuddar ástæður að ætla megi að sumir þeirra hafi ekki hreint mjöl í pokahorninu. Þessir einstaklingar eru hér á kostnað skattborgara og beita öllum brögðum til þess að lengja þann tíma. Þetta bitnar á hinum saklausu. Eins og alltaf - því miður.

Vitanlega er það svo að þeim hinum saklausu finnst það óþægilegt að þeir fái ekki réttláta meðferð. En því miður er það svo að 95% þurfa sífellt að líða fyrir athafnir 5% hlutans og það er vegna athafna þeirra sem sífellt þarf að setja strangari reglur og efla eftirlit. Það hjálpar sannarlega ekki lögreglunni, að í hvert skipti sem hún þarf að grípa til vopna sinna þá rjúki fjölmiðlar upp og stilli málum þannig upp að þetta hafi nú verið óþarfi og of harkalega að málum staðið. Það má t.d. færa rök fyrir því að viðhorf ungu tuddanna sem vaða um miðbæinn um helgar mótist af því hvernig fréttamenn taka á þessum málum. T.d. kom fram í ágætu yfirliti stöðvar 2 nýverið um störf lögreglunnar í miðbænum um helgarnætur, öskur ungs tudda um að honum bæri einhver skylda til þess að lumbra á löggunni af því hún hefði verið svo vond eins komið hefði fram í sjónvarpinu.

Ekki er ólíklegt að viðhorf mitt sé litað af því að ég starfa að vissu leiti við svipaðar aðstæður. Ég get fullvissað þig lesandi góður að þeir sem eru að eigin mati algjörlega saklausir í framkomu gagnvart launamönnum og standa ásamt lögmanni sínum í fjölmiðlum eins og hvít lamb í vorsólinni og úthrópa starfsmenn stéttarfélaganna; þessir hinir sömu hafa undantekningalaust. já ég segi undantekningalaust, reynst vera þeir sem voru sekastir. Svo einkennilegt sem það nú er þá sjá fréttastjórar aldrei ástæðu til þess að fara yfir málalyktir þegar þær liggja fyrir ef þær verða þannig að í ljós kemur að áður hefðu þeir staðið að bullfrétt þar sem rangar ásakanir höfðu verið settar fram gagnvart stéttarfélögunum. Það er kannski birt örstutt málsgrein í tíufréttunum. Ég hef áður fjallað um þetta hér á síðunni.

Það verður sífellt erfiðara að manna lögregluna. Launin eru léleg sé litið til álags. Launin eru jafnvel lélegri en laun fréttamanna og ekki hafa þeir nú verið að reisa fánaborgir og hrópað ferfallt húrra fyrir laununum sínum á þeim starfsmannafundum sem ég hef verið á í Efstaleitinu í hinu tiltölulega verndaða umhverfi séu störf þeirra borin saman við störf lögreglunnar. Það er ekki viðunandi fyrir lögreglumenn að þurfa að sætta sig við þá afstöðu sem sumir dagskrárgerðamenn stilla ætíð upp. Þar bendi ég t.d. á þá afstöðu sem fram hefur komið í síðdegisútvarpi RÚV í þessari viku. Einnig vantaði upp á að viðhorf Útlendingaeftirlits og lögreglu fylgdu með í umfjöllum í fréttum.

Í þessu sambandi má einnig benda á hvernig fjölmiðlamenn fjalla ætíð um slys sem eiga sér stað á sundstöðum, þeir hengja alla ábyrgð ætíð á starfsmenn sundlauganna. Hver er ábyrgð foreldra eða umsjónarmanna ungra barna? Hvernig haldið þið að sálarástand starfsmanna sundlauganna sé að sitja undir svona umfjöllum? Hvernig haldið þið að lögreglumönnum líði að þurfa að sitja undir þessu? Hvernig haldið þið að starfsmönnum stéttarfélaga líði þegar þeir eru úthrópaðir í fréttum, og svo kemur í ljós að sá sem úthrópaði þá í beinni útsendingu á besta tíma eða fékk góðan tíma í Kastljósinu, hafði farið með tóma þvælu og þá er ekki fjallað um málið.

föstudagur, 12. september 2008

Kjarasamningar virðast ekki munu halda

Margt hefur nú dottið út úr stjórnmálamönnum. Miðað við það sem ég heyrt í dag á fólki þá sló forsætisráðherra nýtt met og Morgunblaðið sá ástæðu til þess að prenta það með svörtu letri á forsíðu: „Þeir gerðu kjarasamninga á ákveðnum forsendum sem virðast ekki ætla að halda.“

Í gær kveikti Geir upp væntingar hjá launamönnum um að allt væri hér í blóma, ótrúlega mikill hagvöxtur og kraftur í efnhagslífinu og svo bætir hann þessu við. Eins var útspil hans og fjármálaráðherra að stefna ljósmæðrum það næstvitlausasta sem þeir hafa gert á síðasta sólarhring.

Þeir sem eru að undirbúa kjaraviðræður hafa snarhætt við að velta fyrir sér kreppuástandi og aðhaldi í kröfugerð. Í kjölfar þessara yfirlýsinga munu tíðkast hin breiðu spjót, heyrist á kaffistofunum. Fínt innlegg hjá forsætiráðherra eða hitt þá heldur.

fimmtudagur, 11. september 2008

Óábyrgir lýðskrumarar

Hvernig á maður að taka svona útspili eins og hjá seðlabankastjóra og forsætisráðherra í dag?
Líklega þannig að hvetja félagsmenn okkar til þess að vera ekki að standa í því að sýna ábyrgð gagnvart stöðuleikanum og rekstrargrundvallarræflinum. Stjórnendur og hönnuðir íslenskrar efna- og peningastefnu hvetja launamenn að fara fram með kröfur um að 10% kaupmáttartap á síðustu mánuðum verði bætt í komandi kjarasamningum nú í næsta mánuði og eins við endurskoðun kjarasamninganna semm gerðir voru í febrúar síðastliðnum.

Reyndar er ekki hægt að skilja athafnir forsætisráðherra og eins höfund eftirlaunalaganna á Alþingi öðruvísi en svo að launamenn eigi að fara fram með kröfur um að mótframlag vinnuveitanda í lífeyrissjóð verði hækkað úr 12%, eins og það er hjá launamönnum, í 80% eins að það er hjá ráðherrum og æðstu embættismönnum.

Þessir menn standa gleiðbeittir í dag fyrir framan alþjóð og segja að allt sé í bullandi uppgangi og hagvöxtur hafi aukist um 4% sem er með því alhæsta sem þekkist.

Reyndar byggja þeir þetta byggt á útreikningum miðað við gengi krónunnar árið 2000, og taka ekki mið af því hversu mikið að gengið hefur fallið. Er ekki hægt að losna við svona óábyrga sprelligosa? Hugsið ykkur hvaða skaða þeir eru að valda með svona yfirlýsingum?

Ætlast þessir menn til þess að verkalýðsforystan að halda aftur af kröfum félagsmanna á meðan þeir ástunda svona lýðskrum?

miðvikudagur, 10. september 2008

Nú er nóg komið

Upp úr kl.16.00 sér maður að fólki á leið heim úr vinnunni á reiðhjólum fer að fjölga á götum Kaupmannahafnar. Vinnuvikan á norðurlöndum utan Ísland er 40 klst. Á Íslandi er hún lengri, mun lengri. Vinnuvika íslenkra rafiðnaðarmanna var við síðustu könnun lok árs tæpir 46 tímar og hafði styst um 10 tíma það sem liðið er af þessari öld. Frá gerð þjóðarsáttar hafði meðalvinnuvikan styst hjá rafiðnaðarmönnum um 20 klst. Þetta er afleiðing stöðugleika og vaxandi kaupmáttar. Fólk gat gert langtíma áætlanir og stillti af greiðslubyrði heimilanna og stytti vinnuvikuna.

Smáhnykkur kom á 2000 – 2003 og á undanförnum árum hefur fólk í vaxandi mæli krafist þess að stjórnvöld tryggi áframhaldandi stöðugleika og nálgun þess efnahagsumhverfis sem svo margir kannast við frá hinum norðurlöndunum. Við vorum að sífellt að nálgast á hin norðurlöndin bæði hvað varðar kaupmátt og vinnutíma. En íslensk stjórnvöld brugðust og gerðu alvarleg mistök, sem allir hagfræðingar bentu á að myndi leiða til enn meiri spennu og hratt vaxandi hættu á harkalegri brotlendingu og ójöfnuður fór vaxandi. Þess var krafist að stjórnvöld gripu til varnaraðgerða, en þau gerðu ekkert, utan þess að hrósa sér fyrir mikla efnhagssnilli, sem var byggð á fölskum stoðum. Margir bentu á að svo væri en stjórnvöld og spunameistarar þeirra úthrópuðu þá með allskonar fúkyrðum.

Nú hefur kaupmáttur fallið á Íslandi um 10% og verðbólgan vex og er kominn upp 15%, ástæða er að geta þess að kaupmáttur hefur nánast staðið í stað á hinum norðurlöndunum og verðbólgan er innan við 5%. Ástæða þess að ég tak það fram er að sjálfstæðismenn klifa á því að þetta sé ekki þeim að kenna heldur erlend fjármálakreppa. Greiðslubyrði heimilanna eykst. Staða íslenskra launamanna krefst þess að þeir lengi aftur vinnuviku sína til þess að standa undir vaxandi greiðslubyrði. Nú drögumst við aftur úr félögum okkar á hinum norðurlöndunum og nálgumst kaupmáttinn eins og hann var 2003. Það þýðir meðalheimilið verður að lengja vinnuvikuna um 5 -6 klst. Fara að vinna um helgar og fram á kvöldin.

Það sem Jónas sagði í Silfrinu um helgina var vel fram sett stöðumat. Þar var ekkert nýtt á ferðinni, margir hafa bent á þetta á undanförnum árum. Ma. hér á þessari síðu þar sem rakin hafa verið gögn frá hagdeildum SA og ASÍ. Á stjórnarheimilinu ríkir það ástand eins og ráðherrar séu að sannfæra sjálfa sig og aðra um að þörf sé að grípa til samræmdra aðgerða og leita samráðs við aðila vinnumarkaðs. Þeir ásamt spunameisturum sinna eru að sannfæra sjálfa sig um að það sé frá þeim komið að gripið verði til aðgerða.

Lausnir efnahagssérfræðinga Sjálfstæðisflokksins hafa alla tíð verið þær sömu, kollsteypur, það á að redda málunum í einu skrefi. Skora 3 mörk í næstu sókn. Á meðan höfum við horft á félaga okkar á hinum norðurlöndum ganga af festu og með jöfnum gangi fram. Þar ríkir ögun og stjórnmálamenn virða það aðhald sem þeim er veitt andstætt því sem hér er. Verðbólgu er haldið innan við 5% og yfirleitt um 2 – 3% og vextir innan við 6%. Kaupmáttur hefur vaxið um 1.5 – 2.5% á ári. Stöðugleiki. Á þennan hátt hafa þeir sigið fram úr okkur. Á þessu átti verða breyting með sameiginlegu átaki í Þjóðarsátt, en stjórnmálamennirnir okkar misstu móðinn og duttu inn í sama farið aftur. Ítrekað hafa aðilar vinnumarkaðs þurft að þvinga fram efnahagsaðgerðir við gerð kjarasamninga og endurskoðun þeirra, eins og þú lesandi góður mannst örugglega.

Efnahagsstjórn íslenskra stjórnmálamenn eru kollsteypur, skuttogara inn á alla firði á einu bretti, og svo nýjar hafnir á alla firði, og svo ný frystihús á alla firði. Og svo risastórt, á íslenskan mælikvarða, álver og hin stóra Búrfellsvirkjun keyrt í gegn á eins stuttum tíma og hægt er. Og þannig hefur þetta verið og nú á að keyra í gegn tvöföldun álframleiðslunnar á 8 árum. Það var í fréttum í gær að Danir ætla að byggja eina brú yfir til Þýskalands til þess að flytja hæfilegt fjármagn inn í atvinnulífið, sú framkvæmd á að standa yfir í jafnlangan tíma.

Allt leikur á súðum og íslenska stjórnmálmenn skortir alla ögun og vilja til þess að leggja langtíma áætlanir og láta þær standast. Hér snýst byggist á glundroða, upphrópunum, valdabaráttu og klíkumyndunum. Rífa niður það sem hinir gerðu. Stórkarlalegar aðgerðir sem eiga að bjarga öllu á svipstundu, ef einhver mótmælir þá er að skríll. Þeir eru svo gjörsamlega sneiddir öllum tengslum við almenning í sinni veröld spunameistaranna og sérvalinna ráðgjafa.

Þeir vilja halda í krónuna svo hægt sé að viðhalda þessari veröld. Fella hana með tilheyrandi atvinnuleysi svo þeir geti á auðveldan hátt leiðrétta reglubundin efnahagsmistök sín með því að fara í rússibanaferð með heimili og fyrirtæki landsins. Fyrirtækin eru sum hver að hugsa sér til hreyfings og ég er næsta viss um að þegar heimilin fara að hrynja sem er reyndar að gerast þessa dagana þá muni margir flytja til hinna norðurlandanna. Þar er næg atvinna, stöðuleiki, meiri kaupmáttur og vinnuvikan er töluvert styttri.

"Nú er nóg komið", sagði Jónas við okkur í Silfrinu og við tökum heilshugar undir það. Við viljum ganga inn í umhverfi þar sem íslenskum stjórnmálamönnum eru settar þær skorður að þeir verði að fara að vanda sig í vinnunni og fá alvörufagfölk að efnhagstjórninni.

mánudagur, 8. september 2008

Órökstuddar klisjur

Hef allnokkrum sinnum komið inn á hinar fáfengilegu klisjur sem setjast að í íslenskri umræðu. Klisjur sem engin rök eru fyrir en verða að áberandi rökum. Ein þeirra rifjaðist upp á rölti mínu um Kaupmannahöfn í morgun þegar ég sá nokkra dýra bíla eins og Maserati og Bugatti og svo dýrar týpur af þýskum og enskum bílum, sem sjást ekki heima.

Margir hafa notað það sem nothæft innlegg í umræðuna að við höfum flutt inn fleiri Range Rovera en gervöll norðurlöndin samanlagt. Ég fullyrði að það eru að minnsta kosti jafnmargir (hlutfallslega) dýrir og jafnvel dýrari bílar á hinum norðurlöndunum.

Norrænir efnamenn hafa takmarkaðan áhuga á 4x4 bílum, þeir kaupa hraðskreiða bíla sem hægt er að nota á hraðbrautunum. Ég hef farið með nokkra af norrænum vinum mínum upp á jökla og hálendið og inn í Þórsmörk. Þeir súpa hveljur þegar ekið er út í jökulárnar og beint af augum yfir aura og jökla. „Nú skil ég hvers vegna þið eigið svona bíla“ sagði einn danskur vinur minn. „Heima á Jótlandi höfum við ekkert að gera við svona bíla. Það eina sem við gerum er að grafa nokkrar holur út á engi og fylla þær af vatni og spóla þar svo á laugardagseftirmiðdögum.“

Hann var búinn að greina íslenska jeppamenn þegar við komumst inn í Bása í Þórsmörk. „Þeir sem eru á stærstu jeppunum, ganga um á sandölum. Það er til þess að sýna og sanna fyrir öðrum að þeir þurfi ekki að hafa áhyggjur af ánum og vöðunum“, sagði hann. Við lentum í þeim ævintýrum að vera á leið inn eftir í beljandi rigningu og það var mikið í ánum, upp á glugga. Hann var stundum fölur og fár á leiðinni inneftir, en tók kæti sína þegar við vorum búin að tjalda inn á Goðalandi og fá okkur bjór og hafði gaman af því að sjá hluta hópsins standa við jeppana og metast á um hverjir þeirra væru nú í lagi.

sunnudagur, 7. september 2008

Hvað svo?

Mörgum er vafalaust vel í minni ítrekuð upphlaup og upphrópanir Sjálfstæðismanna vegna hinna svokölluðu Baugsmiðla. Þar sem þeir voru sakaðir um að birta einungis það sem væru eigendum þóknanlegt og sannleikurinn skrumskældur. Síðan var bent á einhver fáfengileg dæmi sem áttu að sanna þetta.

Þetta átti að vera næg ástæða til þess að semja í snarhasti fjölmiðlalög til þess að koma böndum á þessa miðla. Þessa dagana er sífellt að koma betur í ljós að hinir hatrömu hefðu átt að líta sér nær. Miðlar undir stjórn manna frá Flokknum hafa gengið mjög langt í að stinga undan fréttum sem þeim þóttu ekki „heppilegar“.

Reyndar er nú svo komið að allir fjölmiðlar og ljósvakamiðlar eru undir ritstjórn manna úr sama stjórnmálaflokk, líka hinir svokölluðu Baugsmiðlar. Samfara því hafa upphrópanirnar þagnað. Og við heyrum að sú iðja sé stunduð að flokka fréttir og ef fréttamenn eru óvægnir við stjórnmálamenn Flokksins þá eru þeir settir í skammarkrókinn.

Ísköld niðurstaða hvert nýfrjálshyggjan hefur leitt okkur blasir nú við. Við erum orðin skuldugasta þjóð í heimi, þær eignir sem snillingarnir okkar tóku erlend lán fjárfestu í eru ekki eins sniðug og haldið var að okkur. Það mun taka okkur langan tíma að komast út úr þessari stöðu. Það mun bitna harðast á fjölskyldum og heimilum þessa lands.

Af hverju hafa fjölmiðlarnir ekki tekið á þessu og af hverju hafa þeir ekki farið yfir feril þessara mála? Hverjir það voru sem slepptu auðhyggjumönnunum, seldu þeim bankana og breyttu bindiskyldunni og slepptu peningastrákunum á lausum á kostnað þjóðarinnar? Hverjir voru það sem héldu hástemmdar ræður um hversu mikil snilld væri í þessari stjórnarstefnu?

Við blasir vaxandi verðbólga, hækkandi vextir, minnkandi kaupmáttur. Og því er haldið að okkur að það sé engin kreppa. Leiðin sé að byggja nokkar gufuaflsvikjanir á Reykjanesinu og á svæðinu fyrir ofan Mývatn. 4 vatnsaflsvirkjanir í Þjórsá og eina fyrir vestan og í Skagafirði. 2 ný álver og stækkun þeirra sem fyrir eru. Þetta á að gerast á næstu 10 árum, það mun skapa öllum fulla vinnu og líklega upp undir 30 þús. erlendum launamönnum og gríðarlega þennslu.

Hvað svo? Getum við ekki fengið alvörustjórnmálamen og fagmenn í peningastjórnina.

laugardagur, 6. september 2008

Sirkusinn í BNA

Það er skelfileg tilhugsun ef það verður niðurstaða bandaríkjamanna að bjóða heimsbyggðinni áfram upp þá stefnu sem Bush og nótar hans hafa búið okkur. Auðhyggjan ræður þar för, fátækt vex og þeir ríku verða auðugri. Reyndar hafa sumir apað upp þessa stefnu hér á landi og hafa gefið sig út fyrir að vera sérstakir vinir Bush og repúblikana. Eins og það sé nú eitthvað til þess að hreikja sér af!!

Sá einu sinni smá skot af ræðu Bush þegar ég var í New York fyrir nokkrum árum, sem lýsir honum og hans fylgifiskum svo vel. „Demókratar aka um á evrópskum bílum og fara í hugleiðslu og svoleiðis kjaftæði. Repúblikanar aka um á Lincoln og eiga byssu“ og það var hrópað og klappað lengi. Það er hreint út sagt ótrúlegt hvað stjórnmálmenn bjóða fólki upp á. En reyndar enn ótrúlegra hvað fólk lætur þá komast upp með.

Og við kjósum sama liðið aftur og aftur.

fimmtudagur, 4. september 2008

Erfiðir tímar framundan

Flóknasta verkefni hvað varðar kjaramál er að nokkrir hópar hafa fengið umtalsverðar launabreytingar á undangengnum misserum, á meðan aðrir hafa fengið lítið. Það verður að vera svigrúm til þess að að verja þá sem minnst hafa fengið. Það dugar ekki að allir fái það sama eins og stefnan hefur verið undanfarið. Í almennum kjarasamningum ASÍ/SA í febrúar var tekið á þessu. Þeir sem höfðu fengið mesta launaskriðið fengu lítið sumir ekkert, á meðan aðrir fengu 5.5%. Úr því varð til krónutala sem notuð hefur verið í samningum sem gerðir hafa verið síðan þá. 20.300 kr., sem er 5.5% af meðalheildarlaunum. Krónutalan leiðir til þess að þeir sem eru á lægri töxtum eru að fá hlutfallslega meira og það hefur verið stefnan.

Ljósmæður eiga skilning allra, en það eru líka margir sem eiga eftir að semja á næstu vikum. Það eru fyrirferðamiklir kjarasamningar sem ekki runnu út síðastliðinn vetur, en renna út í október og nóvember. Auk þess eru hópar sem ekki náðu saman í vor. Nú reynir á menn. Verðbólgan er farin að nærast á sjálfri sér. Vextir setja fyrirtækin í þá stöðu að verða að senda hækkandi rekstrarkostnað út verðlagið, sem aftur veldur enn meiri verðbólgu. Hvert ætla menn með launin? Munu stjórnmálamenn leggja lóð á vogarskálarnar og leggja sitt af mörkum? Afnema eftirlaunafrumvarpið og fella niður þá spillingu að þeir fái dagpeninga sem þeir stinga í eigin vasa en senda svo hótel- og uppihaldsreikninga til ríkissjóðs. Út í löndum er ráðherrum og þingmönnum gert að segja umsvifalaust af sér verði þeir uppvísir af svona háttalagi. Ekki á Íslandi.

Þær lausnir sem draga á upp verða að taka mið af þessu. Það verður að skapa trúverðugleika á krónunna og stöðugleika. Það er mikilvægt að aðilar vinnumarkaðs og móti í sameiningu áherslur sínar hvað varðar samskipti við og stjórnvöld. Stjórnvöld verða að reka af sér það spillingarorð sem af þeim fer.

miðvikudagur, 3. september 2008

Linkind fréttamanna II

Ég hitti reglulega marga tæknimenn fjölmiðla nýja og fyrrverandi í tengslum við störf mín. Þessu fylgja einnig innskot frá frétta- og dagskrárgerðarmönnum. Þeir hafa sumir hverjir hnippt í mig undanfarna daga vegna pistils um linkind fréttamanna gagnvart ráðherrum og stjórnarþingmönnum. Láti þá sleppa frá ósvöruðum spurningum eða láta þá komast upp með augljósa rökleysu.

Nýjum þingfréttamönnum mætir oft það viðhorf frá ráðherrum og stjórnarþingmönnum; „Þú ert greinilega nýr hér. Ef þú ætlar þér að vera hér í allan vetur og fá viðtöl við okkur þá skaltu spyrja réttu spurninganna og láta þér nægja svör okkar.“

Þetta kemur strax fram í þingbyrjun ef nýjir þingfréttamenn spyrja óþægilegra og nærgöngulla spurninga um stefnu og störf ríkisstjórnar. Þetta jókst hratt að mér hefur verið tjáð á seinni helming stjórnartíðar Davíðs og hefur viðgengist síðan. Þetta kom m.a. glöggt fram í vor í viðhorfum og viðbrögðum núverandi forsætisráðherra þegar hann var spurður „dónalegra“ spurninga að hans mati þegar hann var inntur eftir aðgerðum í efnahagsmálum. Eða viðbrögðum ráðherra og þingmanna Flokksins þegar þeir hafa verið spurði um aðgerðir vegna eftirlaunafrumvarpsins. Það var að þeirra mati "Ósmekklegt einelti!!"

Annars þarf svo sem ekki að hjálpa ráðherrumn að upplýsa okkur um getuleysi sitt. Í viðtölum í gær upplýsti meðal annars Heilbrigðisráðherra okkur um kunnáttuleysi sitt um efnahagsmál, þegar hann endaði viðtal með því að segja að hérlend stjórnvöld hefðu ekkert með yfirstandandi efnahagsvanda að gera þetta væri alfarið erlendur vandi.

Hvers vegna er þá verðbólga á hinum norðurlandanna milli 4 og 5%, hún er hér 15%? Eða vextir á hinum norðurlandanna um 6%, en eru hér um 15 -17%? Eða verðlag hér á dagvöru allt að 40% hærra? Greiðslubyrði fjölskyldu vegna húsnæðiskaupa þreföld á við það sem þekkist þar?

Forsætisráðherra sagði að það væri sigur að við hefðum í dag þann kaupmátt sem við höfðum náð 2006, gæti verið að við stefndum að sama kaupmætti sem var 2003, eða hann félli um 10%. En það væri væri svo augljóslega að hans mati glæsilegur árangur, því kaupmátturinn 2003 var svo mikið betri en hann var nokkrum árum áður!!

Ástæðan efnhagsvandas blasir við í svari ráðherrans. Í ríkisstjórn Íslands eru menn sem hafa greinilega engan skilning eða þekkingu á efnahagsmálum.

Ráðherrar og stjórnarþingmenn hafa komið sér upp friðhelgi í bómullarveröldinni og vilja fá að vera þar í friði með sinn heimasmíðaða veruleika, eru þau viðhorf sem ég hef heyrt um þennan pistil minn.

Flugvöllurinn

Fyrsta spurningin um innanlandsflugið hlýtur að snúast um hvort við ætlum að flytja völlinn. Ekki ganga út frá því að það verði að flytja hann.

Borgaryfirvöld hafa um of langt skeið fengið að sauma að vellinum eins og það sé búið að ákveða að hann fari. Það hefði verið betra að taka þessa ákvarðanir fyrir nokkru og ekki vera að bakka fram og tilbaka með venjubundnum hringlandahætti stjórnmálamanna.

Getum við fært flugbrautir þannig til og lengt þær út í Skerjafjörð þannig að ásættanlegt verði?
Ef það gengur ekki, þá skulum við taka á dagskrá þá spurningu hversu langt við sættum okkur við að flugvöllurinn verði færður.

Í mínum huga er það Viðey, Geldingarnes eða Löngusker. Úr því Hólmsheiði virðist fá falleinkunn. Keflavík jafngildir niðurfellingu innanlandsflugs að mestu.

þriðjudagur, 2. september 2008

Hvort villtu vera skotinn eða hengdur?

Jæja Geir spilaði út 30 milljarða kr. láni. Er það stórmannlegt að hakk aí sig Evrópusambandið í hvert skipti sem það ber á góma, en leita svo á náðir styrkleika þess þegar á bjátar.

Ein helsta útflutningsgrein íslendinga þessa daga er atvinnuleysi, erlendir launamenn sendir heim. Í dag leka úr hagkerfinu allmargir milljarðar á ári í erlendar vaxtagreiðslur og þetta er hratt vaxandi þáttur stenir í yfir 20 milljarða kr. Þetta kemur til frádráttar á útflutningstekjum og er í raun afleiðing af röngum ákvörðunum hjá þeim hafa farið með peningamálastjórnina með því að leyfa hömlulausan innflutning á fjármagni ekki bara í beinum lánum heldur einnig í innflutning á fjármagni með sölu krónubréfanna.

Efnahagsstjórnin og ráðaleysi ríkisstjórnarinnar hefur leitt okkur í þá stöðu að þurfa að velja á milli hvort við viljum vera :

Skotin : Lækkun vaxta sem mun leiða til þess að þeir sem eiga krónubréfin munu innleysa þau vegna þess að þá eru þeirra hagsmunir horfnir. Gengi krónunnar mun þá falla enn meir – Verðbólgan mun hækka enn meir – Atvinnuleysi mun ekki aukast mikið frá því sem það verður um komandi áramót.

EÐA

Hengd : Leið þeirra sem hafa farið með peningamálastjórnina - Háir vextir áfram – Minni verðbólga – Fyrirtæki munu fara á hausinn vegna vaxtakostnaðar og skorts á lánsfé- Meira atvinnuleysi.


Við höfum áður verið sett í svona stöðu af stjórnvöldum eins t.d. fyrir 1990 og svo aftur 2001 þá þurftu við að grípa inn í efnahagsstjórnina vegna ráðaleysis stjórnvalda og völdum það sem veldur minna atvinnuleysi.

Það gengur greinilega ekki lengur að ríkisstjórnir okkar hafi frítt spil um að standa að efnahagsstjórninni með jafnóábyrgum hætti og gert hefur verið.
Aðilar vinnumarkaðs hafa í vaxandi mæli og munu örugglega láta heyra kröftuglega í sér heyra á næstunni og krefjast þess að ríkisstjórnir Íslands verði að taka ábyrgar ákvarðanir með því að leggja fram framtíðaáætlanir og losi okkur við krónuna.

Spá um stefnuræðuna

Ég ætla að spá því svona í morgunsárið að hin þýðingarmikla stefnuræða forsætisráðherra í dag snúist um ekkert og fullyrðingar um að hann hafi mikið samráð við alla. Fyrir liggur að aðilar vinnumarkaðs hafa margítrekað lýst því yfir að ekkert samráð hafi verið. Einungis tilgangslitlir fundir þar sem ráðherrar hafi horft ráðleysilega upp í loftið á meðan þeir sötruðu kaffisopann. Í þessu sambandi má benda á að formenn stjórnmálaflokkanna héldu því fram í viðtölum í gærkvöldi að engir nefndarfundir hafi verið haldnir í hinu geysilanga sumarleyfi Alþingis.

Skýrsla forsætisráðherra í dag muni snúast um upptalningu á því hvað ríkisstjórnin hafi nú verið gasalega dugleg og gert margt. Hann mun telja upp allt mögulegt og ómögulegt og leggja það allt út sem mikla sigra. T.d. hversu mikla sigrar það hafi nú verið að gera ekki neitt. Þar hafi sparast miklir fjármunir fyrir ríkissjóð. Ekki verður fjallað um hvað það hafi kostað almenning og fyrirtækin. Það mun ekki verða fjallað um þau mistök sem gerð hafa verið í peningamálastjórninni. Hann mun jafnvel ganga svo langt að halda því fram að það sé nú engin kreppa, þrátt fyrir að krónan hafi fallið um 30% og stærsta útflutningsvara okkar sé atvinnuleysi, það er að senda út erlenda starfsmenn og lífeyrissjóðirnir hafi flutt inn í sumar liðlega 200 milljarða af erlendum fjárfestingum sínum til þess að styrkja krónuna.

Hann mun telja upp, eins og fjármálaráðherra gerði nýverið, ýmis verkefni sem reyndar hafa verið í bígerð flest hver árum saman en dregist vegna skorts á framtaki stjórnvalda. Ekki munu koma fram yfirlýsingar um að tekinn verði lán og lagt út mannfrek verkefni. Einnig talið til sigurverka ríkisstjórnarinnar það sem verkalýðshreyfingin þvingaði fram í kjarasamningunum í febrúar síðastliðnum. Ástæða er að minnast þess að sumt af því kemur ekki til framkvæmda fyrr en í lok kjörtímabilsins og mun ekki virka núna.

Með öðrum orðum það mun ekkert koma fram um hvernig ríkisstjórnin ætli að taka á vandanum og í raun mun forsætisráðherra vera að viðurkenna ráðaleysi sitt.

Set þetta á blað núna vegna umræðna sem ég hef lent í, en mun glaður draga þetta allt tilbaka ef forsætisráðherra sýnir nú rögg og tekur af skarið og telur upp eitthvað markvert.

mánudagur, 1. september 2008

Linkind fréttamanna

Í kvöldfréttum sjónvarpsins þar sem fjallað var um niðurstöður skoðanakönnunar, sögðu formenn stjórnarandstöðuflokka að ekkert hefði verið unnið í sumar og nefndir ekki kallaðar saman. Forsætisráðherra sagði að þetta væru ekki rétta stjórnarandstaðan fyldist greinilega ekki með.

Eru nefndir ekki skipaðar mönnum úr stjórnarandstöðu? Annar hvort eru formenn stjórnarandstöðu ekki að segja satt, eða forsætisráðherra að skýra þjóð sinni rangt frá. Af hverju spurði fréttakonan forsætisráðherra og formenn stjórnandstöðu þessarar spurningar? Einhverja hluta vegna finnst manni að það sé forsætisráðherra sem ekki er að segja satt.

Fréttakonan spurði forsætisráðherra um vinnu við eftirlaunalögin eins hann hefði lofað í vor. Svarið var að þetta væri ekki rétt það væri búið að halda tvo fundi. Samkvæmt því sem áður hefur komið þá var þessi nefnd fyrst kölluð saman fyrir viku. Það er að segja í lok ágúst. Forsætisráðherra var þarna að segja þjóð sinni ósatt. Það hefur ekkert verið gert í þessu máli. Af hverju spurði fréttakonan forsætisráðherra ekki frekar út í þetta?

Fjármálaráðherra sagði í viðtali fyrir skömmu að þaðværi ekki rétt að hann hefði ekkert gert til þess að bæta atvinnuástand. Hann væri búinn að setja af stað vinnu við vegarspottan yfir Lyngdalsheiði. Fór yfir hana í dag, fer reyndar alloft þá leið vegna vinnu minnar. Það er rétt að vinna er hafinn við vegarspottann. Þar voru að störfum ein grafa, ein jarðýta og tveir vörubílar og einn mælingamaður. Semsagt fjármálaráðherra er búinn að skaffa 5 ný störf. Á undanförnum vikum hefur um 2.000 manns verið sagt upp störfum sé. Eftirtektarverður árangur.