fimmtudagur, 26. apríl 2012

Kanadadollar

Stjórnmálaumræðan hér á landi birtist okkur í hverju furðuupphlaupinu á fætur öðru. Hingað til hefur það verið talið eftirsóknarvert að vera meðal hinna Norðurlandanna, enda þau talin fordæmi þess samfélags og hagkerfis sem önnur lönd vilja ná. Þar hefur ríkt mestur friður og samfélagslegt öryggi fyrir fjölskyldur.

Þess vegna verður maður ætíð undrandi þegar menn mæta í fjölmiðla og segja að það sé eftirsóknarvert fyrir okkur að hverfa frá samstarfi okkar við nágrannalönd okkar og nálgast Kanada eða jafnvel Kína. Taka upp efnahagssamskipti við þá og kanadískan dollar, því við eigum svo mikla samleið og vinasamskipti við Kanada. Um 5% af utanríkisviðskiptum Íslands eru við Kanada en um 70% við Evrópulönd.

Sé litið á einfalda sviðsmynd sem við öllum blasir, er daglegt flug til allra Norðurlandanna og um 5 – 7 flug á hverjum degi allt árið til Kaupmannahafnar, auk þessu 3 – 5 flug til Þýskalands, sama á við um Bretlandseyjar. Dagleg flug eru til Frakklands, Ítalíu og Spánar. Ekkert reglulegt flug er til Kanada.

Við hjónin komum bæði sig úr stórum fjölskyldum, auk þess að ég á tæplega 40 vinnufélaga og hitti reglulega annan eins fjölda á fundum og ráðstefnum, þannig að ég þekki prýðilega til hjá liðlega hundrað fjölskyldum. Við þekkjum marga sem hafa farið til framangreindra landa til náms, í frí eða til þess að heimsækja ættingja, en við þekkjum engan sem hefur farið til Kanada.

Ísland glímir við nokkur stór vandamál, flest tengd ónýtum gjaldmiðli, sem stöðugt tapar verðgildi sínu. Hér er verðbólgan að jafnaði a.m.k. tvöföld við það sem er í nágrannalöndum okkar. Krónan hefur kallað yfir okkur gjaldeyrishöft sem valda stígandi og umfangsmeiri vanda. Það liggur fyrir að við höfum ekki fjárhagslegt bolmagn til þess að komast út úr gjaldmiðilshöftunum án aðstoðar.

Við erum þjóð sem flytur inn og út sem nemur um 40% af landsframleiðslu og erum þar af leiðandi mjög háð því hvernig efnahagssveiflan er í viðskiptalöndum okkar. Evran er helsta utanríkisverslunarmynt Íslendinga og það myndi kalla á minnstu vandamálin ef við sveifluðust með Evrunni. En þar til viðbótar eru mestar líkur á að þar takist að ná samningum um stuðning við að halda krónunni innan ákveðinna vikmarka.

Krónan yrði trúverðugri og stöðugri strax við inngöngu í ERM II og svipuðum samning og t.d danska krónan býr við. Með þeim samning breytist gjaldmiðill okkar í alvöru mynt sem væri hvarvetna gjaldgeng. Vextir myndu lækka og verðtrygging yrði og við gætum reiknað með aukinni erlendri fjárfestingu til landsins.

Nú er því haldið fram að Kanadamenn séu gríðarlega spenntir að við tökum upp Kanadadollar. Eru Kanadamenn virkilega tilbúnir að spandera á okkur þeim fjármunum sem hlýst af því að verja okkar hagkerfi? Eru þeir til í að kaupa allar krónur sem eru í umferð, allt lausafé og skuldabréf og greiða það upp í topp með kanadískum dollurum? Henda svo öllum krónunum í ruslið. Fyrirfinnst enn í heiminum slík gjafmildi og hjartahlýja?

Við eigum ekki nægan gjaldeyrisforða sjálf til að kaupa það magn af viðkomandi gjaldeyri til að mæta lausu fé í umferð. Því yrðum við að fá samþykki AGS og Norðurlandanna að nota lánin frá þeim til þessa arna og það gæti reynst þrautin þyngri. Ljóst má vera að þessar þjóðir myndu ekki vilja fá greitt með krónum fyrir sinn gjaldeyri. Kostnaður við skipti á seðlum og mynt er allt að 41 milljarður króna í beinhörðum gjaldeyri. Allir myndu strax á fyrsta degi til að vera „fyrstir út“ áður en „alvöru“ gjaldeyrisforðinn klárast í Seðlabanka Íslands. Þar sem vitað er fyrirfram að gjaldeyrisforðinn nægir ekki til að losa alla út, vilja allir losna sem fyrst. Loforðið um skiptin er því ógerlegt að efna, nema gjaldeyrisforðinn sé nægilega stór og trúverðugur – sem hann er því miður ekki.

Stærsta vandamál okkar eru öfgakenndu upphrópanir sem eru áberandi í umræðunni. Í nær hverjum fréttatíma er mættur fulltrúi einhvers hagsmunahóps með furðulegar fullyrðingar og maður verður endurtekið undrandi yfir því hvers vegna fréttamaðurinn spyr ekki viðkomandi um hvað hann eigi við.

Þessi viðtekna umræðuhefð hefur skapað tortryggni, vantraust og óbilgirni. Þessu þarf að snúa við. Það er hægur vandi að ráðast að þeim vanda sem við erum að glíma við. Hér er eitt besta velferðarkerfi í heimi, andrúmsloftið er hreint og öryggi meira en þekkist víðast hvar annars staðar. Hér ríkir mikið frjálslyndi, virðing fyrir mannréttindum og jafnrétti. Og hér eru auðvitað náttúruauðlindir á borð við fisk, orku og náttúru sem geta tryggt þjóðinni efnahagslegt sjálfstæði.

Þeir sem hæst töluðu um sterka lagalega stöðu landsins og börðust fyrir dómstólaleið með Icesave-deiluna og létu sem Íslendingar væru með unnið mál í höndunum, eru þeir sömu og berjast hvað harðast gegn öllum breytingum í okkar samfélagi. Berjast gegn breytingum á Stjórnarskrá og að kannað verði til hlítar hvaða samningar Ísland standi til boða.

Nú óttast þeir að þurfa að horfast í augu við afleiðingar eigin gjörða. Þarna fara forsvarsmenn sérhagsmunahópa sem óttast að missa spón úr aski sínum yfir til almennings takist að breyta um mynt og reyna nú sem fyrr að bregða fæti fyrir alla rökræna um ræðu og ferli sem á endanum á að skila sér í aðildarsamningi sem eðlilegt væri að þjóðin fengi sjálf að meta.

mánudagur, 23. apríl 2012

Mildur dómur

Niðurstaða Landsdóms var mildur dómur og fullur skilnings. En Geir H. Haarde missteig sig illilega þegar hann felldi á blaðamanna fundi þungan dóm yfir Landsdómi, Alþingi og íslensku samfélagi. Öllum nema sjálfum sér.

Geir á væntanlega eftir að sjá eftir því að hafa ausið úr skálum reiði sinnar, honum hefði farið betur að kasta ekki rýrð á dóminn.

Landsdómur telur ekki rétt að Geir H. Haarde hafi einungis brotið formreglu þegar hann fór ekki eftir 17. grein stjórnarskrárinnar og boðaði ekki til funda með ríkisstjórninni til að ræða slæma stöðu í íslensku með því hafi hann stuðlað að því að ekki hafi verið mörkuð pólitísk stefna til að takast á við þann mikla vanda, sem honum hlaut að vera ljós í febrúar 2008, steðjaði að íslensku efnahagslífi.

Geir H. Haarde er sakfelldur fyrir að hafa af stórfelldu gáleysi látið farast fyrir að halda ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni. Ef sú stefna hefði verið til og Geir H. Haarde hefði fylgt henni markvisst eftir, hefði verið hægt að draga úr tjóni sem hlaust af falli bankanna í hruninu.

Það er út í hött að vísa til fyrri vinnubragða ríkisstjórna. Geir mátti vel vera ljóst  að hér var við að etja margfallt umfangsmeira mál og fordæmislaust en áður hafði komið á borð ríkisstjórnar. Með þessu orðalagi eru Geir og fylgismenn hans enn eina ferðina að gera lítið úr þeim vanda sem hann og samstarfsmenn hans komu Íslandi og íslenskum almenning í. Eða að lýsa því yfir að þeir einfaldlega hafi ekki getu og burði til þess að sinna stjórnsýslu.

föstudagur, 13. apríl 2012

Innistæðutryggingar

Skildi vera vonlaust að ætlast til þess að íslenskir stjórnmálamenn fari að tala eins og ábyrgt fólk, í stað þess að vera sífellt í klækjapólitík og upphrópunum til þess að komast í hasarfréttir fjölmiðlanna. Þessi vinnubrögð hafa valdið Íslandi miklum skaða. Öll lönd ásamt Norðurlöndunum neituðu að koma Íslandi til hjálpar nema tekin væru upp hér á landi alvöruvinnubrögð hjá íslenskum stjórnmálamönnum.

Sigmundur Davíð, Ögmundur og fleiri héldu því blákalt framað andstæðingar okkar myndu ekki þora að fara með þessi mál fyrir dómstóla. Það lá alltaf fyrir að það myndi verða gert. Það eru líkur á því að Íslendingar tapi málinu. Bæði hvað varðar ríkisábyrgð á innistæðutryggingunni og fyrir brot á jafnræðisreglu. Samningstaða Íslands verður vonlaus eftir þann dóm.

Allir sem minnsta vita hafa á efnahagskerfum og samskiptum þjóðlanda vita að innistæðutryggingar eru mikilvæg í alþjóðlegum samskiptum. Innistæðutryggingakerfum var komið á fót fyrir rúmri öld og flest ríki hafa í samskiptum sínum staðfest að þau undirgangist þær reglur sem um þau ríkja, þar á meðal Ísland.

Innistæðistæðutryggingakerfi voru meðal annars sett á fót til að tryggja að venjulegt fólk, sem ekki hefur tök á að meta gæði útlána eða stöðu fjármálastofanna geti lagt sparnað sinn í viðskiptabanka, undir eftirliti hins opinbera, fullvisst um að fá þetta fé aftur tilbaka, án mikilla tafa eða óvissu um endurheimtur, ef bankinn fer í gjaldþrotameðferð.

Fjármálastöðugleiki og þjóðarhagsmunir hafa vegið þungt í umræðunni á seinni árum. Vantraust á bönkum og áhlaup gera engan greinarmun á vel eða illa reknum bönkum. Innistæðutryggingar eru taldar vera ein leið til þess að draga úr líkum á bankakreppum og minnka þá áhættu sem felst í óstöðugu fjármálakerfi.

Ein helsta forsenda fyrir innistæðutryggingum er að almenningur er yfirleitt ekki í aðstöðu til þess að meta gæði banka. Þetta kom glögglega fram hér á landi, því það var ekki aðeins almenningur sem lét blekkjast, heldur einnig innlendir og erlendir eftirlitsaðilar og þeir gáfu út heilbrigðisvottorð fram á síðasta dag.

fimmtudagur, 12. apríl 2012

Fyrirsjáanleg staða

Það lá alltaf fyrir að Bretar og Hollendingar nytu stuðnings annarra Evrópuþjóða. Icesave III samningurinn endurspeglaði aftur á móti eindreginn vilja þjóðanna þriggja til að leysa málið í sameiningu.

Þeir sem hafa komið að samningamálum voru og eru eindregið þeirrar skoðunar að það borgaði sig langoftast að ná sátt frekar en að fara með mál fyrir dómstóla, jafnvel þótt menn teldu að þeir væru með unnið mál í höndunum.

Það lá fyrir þegar Alþingi samþykkti Icesave III samninginn með auknum meirihluta, að ef við höfnuðum samningnum og málið færi í dómstólafarveginn kæmi fram krafa um bótagreiðslur ásamt vöxtum. Töluverðar líkur voru taldar á dómsniðurstöðu þar sem kostnaður Íslands myndi verða á bilinu 600 til 700 milljörðum króna, samkvæmt útreikningum sem samninganefnd Íslands hafði látið gera.

Reyndar hafa sumir bent á þann möguleika að sett yrði fram krafa byggða á jafnræðisreglu þá væri ekki einvörðungu um að ræða trygginguna, heldur heildarinnistæðu, þá væri verið að tala um ríflega þúsund milljarða.

Icesave III samningurinn gerði aftur á móti ráð fyrir kostnaði sem næmi um 47 milljörðum króna en ekki 479 milljörðum eins og í Icesave II samningnum. Við gerð Icesave III samningsins mættu íslendingar Bretum og Hollendingum á jafnræðisgrundvelli, og það leiddi til þess að samningsniðurstaðan varð sú að Bretar og Hollendingar tóku á sig verulegan hluta af kostnaðinum.

En það kom mjög vel fram að þeir treystu okkur ekki, vildu ekki loka sig frá dómstólaleiðinni með því að skrifa undir fyrr það lægi fyrir að við myndum samþykkja samninginn. Þeir voru búnir að semja áður við okkur og í bæði skiptin höfnuðum við að standa við undirritaða samninga.

Einnig má minna á að þeir sem börðust gegn því að fara að samþykktum Alþingis, sem hafði samþykkt samninginn með auknum meirihluta, en kröfðust þess að málið færi fyrir dómstóla. Því er það harla einkennilegt að hlusta á þá hina sömu að mótmæla því að málið sé tekið fyrir hjá dómstólum.

Reyndar erum við orðin vön vanhugsuðum upphlaupum á Alþingi eins og urðu í gær og í morgun, sem síðan fjölmiðlar setja fremst í alla fréttatíma. Þar liggur ein stórum ástæðum þess að Alþingi hehfur misst trúverðugleika meðal þjóðarinnar.

Þeir sem hafa verið að störfum í Karphúsinu þekkja þá stöðu vel að ganga til samninga við aðila sem hafa ekki staðið við það sem samið var um. Samningar sem eru reistir á þannig grunni verða viðsemjanda alltaf dýrari en þörf er á. Hér má benda nokkur nýleg dæmi um samninga launamanna við íslenska stjórnmálamenn

Þjóðin hefur verið að greiða skuldir óreiðumanna, óþarft að telja þar upp dæmi, en t.d. sú skuld sem varð til við gjaldþrot Seðlabankans var greidd af þjóðinni, 800 milljarðar króna.

En það náðist upp stemming með upphrópunum og lýðskrumi. Þeir sem fyrir því stóðu standa nú fremst með samskonar hróp. Staðan er hins vegar sú að nú er komið að því að þessir aðilar verða að horfast í augu við sjálfa sig og afleiðinga gjörða sinna og eru með allt niðrum sig.

En það er og hefur alltaf verið einkenni lýðskrumara að þeir hafa aldrei burði til þess að horfast í augu við sjálfa sig í spegli samtímans, vísa ábyrgðinni ætíð eitthvað annað.

Ef menn halda að það sé einhver hótun að við förum ekki inn í ESB ef dómarinn hagi sér ekki eins við viljum, þá er nú kominn tími til að þeir hinir sömu fari að ræða þau mál á grundvelli skynsemi og málefnalegrar nálgunar.

mánudagur, 9. apríl 2012

Sjálfskaparvítið og píslarsýkin

Við búum í landi þar sem landbúnaður fær 14 milljarða í styrki, sjávarútvegur fær 2 milljarða á meðan iðnaðurinn fær einungis 1 milljarð og verslun og þjónusta ekkert. Ef takast á að byggja upp atvinnulíf hér á landi, fjölga störfum og draga úr atvinnuleysi er það einungis hægt með því að efla iðnað og þjónustu. Iðnaðar- og tæknifyrirtækin eru flest þegar búinn að hafna krónunni og segjast ekki geta byggt sig upp í því umhverfi.

Engar líkur eru á því að það verði fjölgun starfa í sjávarútvegi og landbúnaði. Sjávarútvegurinn hafnar því að greiða eðlilega auðlindarentu til samfélagsins og stendur í vegi fyrir því ásamt landbúnaði, að hér verði eðlilegt verð á dagvöru og hafnar því að tekinn verði upp alvöru mynt.

Launamenn hafa í vaxandi mæli hafnað þeirri fullyrðingu sem hefur verið haldið að almenning, að það séu kostir að hafa gjaldmiðil sem tryggi óvenju lágan launakostnað sem hlutfall af tekjum hjá útflutningsfyrirtækjum.

Hér geta menn orðið ríkir á því að spila með krónuna gegn hagsmunum almennings. Hér varð kerfishrun sem var tilkomið vegna þess að það var búið rústa gjaldeyrismarkaðnum með kerfisbundinni atlögu að krónunni í óeðlilegum viðskiptaháttum. Það virðist vera sem svo ef marka má fréttir undanfarinna daga, að útgerðin vilji viðhalda þessari stöðu.

Þessi hugsunarháttur hefur ráðið íslenskum stjórnmálum frá lýðveldisstofnun og birst okkur í 25% meðaltalsverðbólgu á ári síðustu 60 ár. 25% verðbólga samsvarar því að færa fjórðung tekna árlega frá launþegum og sparifjáreigendum til atvinnurekenda.

Íslenskir launþegar hafa semsagt eytt 3 mánuðum á ári í 60 ár í að niðurgreiða íslenskt atvinnulíf. Þriðjung starfsævi okkar eyðum við í að greiða herkostnað stjórnmálamanna, sem finnst það eðlilegt að tryggja lágan launakostnað með verðbólgu. Ef við notum þeirra eigin orð þá er verið að tryggja atvinnustig með launalausri atvinnubótavinnu í þrjá mánuði á ári fyrir landbúnað og sjávarútveg.

Við erum með mestu verðbólgu í Evrópu, vextir hér eru þeir hæstu sem þekkjast. Enginn vill eiga sparifé varðveitt í íslenskri krónu. Þar af leiðandi er ekki hægt að fá langtímalán í krónum, einungis í verðtryggðum krónum. Það vill engin fjármagna lánakerfið án þess að fá tilbaka sömu verðmæti og lánuð eru. Menn settu niður hælana árið 1980 þegar búið var að brenna upp alla lífeyrissjóði og sparifé landsmanna

Íslenskum launamönnum hafði tekist það sem af var þessari öld, að ná um 13% kaupmáttaraukningu fram að Hruni, en töpuðu henni nær allri við Hrunið, auk þess að fjöldi heimila tapaði öllum sínum eignum.

Danir féllu ekkert í kaupmætti um við efnahagshrunið, en hafa bætt við sig 1% eftir 2008 og tæp 6% það sem af er þessari öld. Auk þess að halda þeir sínum eignum.

Svíar hafa gert betur, þeir hafa bætt við sig 2.3% í kaupmætti eftir efnahagshrunið og 7,3% það sem af er þessari öld, og halda sínum eignum.

Finnland
hefur bætt við sig 4,5% í kaupmætti frá efnahagshruninu og bætt við sig 10,8% það sem af er þessari öld.

Noregur er með mestu kaupmáttaraukninguna af Norðurlöndunum eða 10,8% það sem af er þessari öld, þar af 4,5% frá árinu 2007.

Meðaltal kaupmáttaraukningar í Evrópu það sem af er þessari öld er 12,7%, þar af 2,7% eftir efnahagshrunið. Heimild: Alþjóðavinnumálastofnunin (ILO) árið 2010.

Landsframleiðsla á mann á hinum Norðurlöndunum jókst að meðaltali um 55% á meðan hún minnkaði um 4% á Íslandi. Í þessu sambandi er rétt að halda því vel til haga að við erum í litlu hagkerfi sem er mjög háð innflutningi á nauðsynjavörum.

Við eru fámenn þjóð sem býr í stóru landi en gerum kröfu um sambærilegt velferðarkerfi og er á hinum Norðurlandanna. Hvernig ætlar Ísland að ná sambærilegri stöðu og hin Norðurlöndin og hversu langan tíma ætla menn að taka sér til þess?

Píslarsýkin er kominn hér á landi á það hátt stig að sérhagsmunasamtökum tekst bara með prýðilegum árangri að fá menn til þess að berjast af fullum þrótti til þess að viðhalda því sjálfskaparvíti sem við höfum búið okkur.

fimmtudagur, 5. apríl 2012

Framtakssjóður í vondum málum

Fréttir um ráðningu Brynjólfs Bjarnasonar kom mörgum fullkomlega á óvart. Við vorum mörg sem spurðum hvar voru þessar ákvarðanir teknar? Það var allavega ekki gert í samráði við stjórnir þeirra lífeyrissjóða sem að Framtakssjóð standa.

Þessi ráðning var stefnubreyting frá því sem áður hafði verið ákveðið, voru stjórnarmenn Framtakssjóðs búnir að gleyma hvar lífeyrissjóðirnir töpuðu mest og hverjir stjórnuðu þeim fyrirtækjum. Átti ekki að vinna með þeim hætti að endurvinna traust sjóðsfélaga?

Fyrirtæki undir stjórn Brynjólfs Bjarnasonar hafa ítrekað gerst sek um samkeppnislagabrot. Nú síðast var Síminn sektaður um tæpan hálfan milljarð króna. Síminn sektaði í vikunni um 440 milljónir króna misnotkun á markaðsráðandi stöðu fyrirtækisins. Brotin áttu sér stað yfir sex ára tímabil á árunum 2002 til 2007 og var Brynjólfur forstjóri Símans síðustu fimm árin.

Það er ekki rétt sem haft er eftir Þorkatli Sigurlaugssyni, stjórnarformanni Framtakssjóðsins, um að þeir sem standa að Framtakssjóð beri fyllsta traust til Brynjólfs. Það er svo spurning hvort það sé rétt eftir haft af blaðamanni eða orðalag ónákvæmt hjá Þorkatli. En svo það sé á hreinu þá fer fjarri að Brynjólfur njóti trausts. Því hefur ítrekað verið komið á framfæri við Þorkel, allavega frá okkur í stjórn Stafa lífeyrissjóðs.

miðvikudagur, 4. apríl 2012

Afnám verðtryggingar

Það vefst fyrir stjórnmálamönnum að standa við loforð um afnám verðtryggingar. Það er að renna upp fyrir þeim að ef verðtrygging er afnuminn þá rísa upp önnur vandamál, sem eru erfið viðfangs.

Verðtrygging er óvirk ef verðbólga er innan við 3,5%. Ef við búum við stöðugleika þá er hún meinlaus.

Það er verðbólgan sem er skaðvaldur hins íslenska hagkerfis ekki verðtryggingin.

Verðbólgan er afleiðing slakrar efnahagsstjórnunar. Stjórnmálamenn nýta reglulegar gengisfellingar til þess að leiðrétta þá óstjórn sem þeir ástunda.

Það var ákvörðun stjórnmálamanna eftir tækifærissinnað kosningabaráttu að fara út 100% lán á íbúðarmarkaði sem varð til þess að fasteignaverð flaug upp úr öllu valdi. Þar er að finna ástæðu vandamálanna, ekki í verðtryggingu.

Verðtrygging ver langtímasparnað. Það er henni að þakka að tekist hefur að mynda skyldusparnað sem nú er undirstaða uppbyggingar hér á landi.

Verðtryggingin afnam að miklu leyti þá eignaupptöku sem átti sér stað á sparifé almennings sem hér ríkti fram á níunda áratuginn. Án hennar hefði Þjóðarsátt aldrei orðið að veruleika.

Ég greiddi á tímabili 49,5% vexti af lánum af minni fyrstu íbúð og tapaði á sama tíma öllum inngreiðslum í lífeyrissjóðinn á árunum frá 1970 - 1983 eða sem nam einum árslaunum.

Það var svo Ólafur Jóh. formaður Framsóknar sem bjargaði lífeyriskerfinu frá hruni, því allir vildu hætta að greiða í þessa tilgangslausu hít. Óli Jóh. setti verðtrygginguna á 1983.

Guðm. Jaki hafnaði á sínum tíma að tengja launahækkanir við verðlagsvísitölu, hann sagði að það myndi koma í veg fyrir tilraunir stéttarfélaganna að ná fram kaupmáttaraukningu umfram verðlagsvísitölu. Hann hafði rétt fyrir sér, því laun hafa hækkað að meðaltali um 30% meira en verðlagsvísitalan hans frá 1983.

þriðjudagur, 3. apríl 2012

Staða lífeyrismála

Þessi grein birtist í Fréttablaðinu um síðustu helgi.

Þessa dagana er rætt um framtíð lífeyriskerfisins. Við stofnun almennu lífeyrissjóðanna upp úr 1965 var réttindakerfið reist á þeirri forsendu að lífeyrisþegar ættu tryggan lífeyri sem næmi um 72% af meðalárstekjum, tengdum við verðlagsvísitölu. Um 25% ellilífeyris kæmi frá ríkinu, iðgjald í lífeyrissjóð var miðað við að sjóðirnir tryggðu 57% af dagvinnutekjum launafólks.

Stjórnmálamenn hafa á síðustu áratugum sótt auknar tekjur í ríkissjóð með því að auka tekjutengingar í bótakerfinu og þar með minnka hlut Tryggingarstofnunar í bótakerfinu. Þetta er komið svo langt að að þátttaka TR í lífeyri einstaklings með 75þús.kr. greiðslur úr lífeyrissjóði skerðist um sömu upphæð.

Inngrip stjórnmálamanna í kerfið hefur haft ákaflega letjandi áhrif á þátttöku fólks í lífeyriskerfinu og framkallar vaxandi þátttöku í neðanjarðarhagkerfinu og undanskotum í kostnaðarþátttöku til velferðarkerfisins. Um er að ræða umtalsverðar fjárhæðir ef frítekjumarkið væri t.d. hækkað upp í 20 þús. kr. myndi upptaka ríkisins á lífeyrisgreiðslum frá lífeyrissjóðum minnka um 3 milljarða.

Nokkrir halda því fram að lækka eigi ávöxtunarviðmiðið úr 3,5%, ekki síst stjórnmálamenn sem vilja sækja fé til lífeyrissjóðanna á neikvæðum vöxtum til þess að standa við kosningaloforðin. Þetta myndi ekki breyta miklu hjá þeim sem eru þegar á lífeyri eða eru að nálgast þann aldur, en hefði aftur á móti gríðarleg áhrif hjá ungu fólki. T.d. myndi væntanlegur lífeyrir fólks sem er í dag innan við 35 ára skerðast um 25% ef farið væri með ávöxtunarviðmiðið niður um 0,5% eða í 3%.

Ástæða er að benda sérstaklega á að á Íslandi er ávöxtunarkrafan lág sé litið annarra landa með uppsöfnunarlífeyriskerfi, t.d. er ávöxtunarkrafa í Bandaríkjunum 4,35%. Í þessu sambandi væri mikið eðlilegra og heilbrigðara að lífeyrissjóðirnir byðu sínum sjóðsfélögum sérstök lán á vildarkjörum til þess að kaupa sína fyrstu íbúð.

Fram hafa komið hugmyndir að fella niður uppsöfnunarkerfi og taka upp gegnumstreymiskerfi. Ef tryggja á samsvarandi lífeyri, örorkubætur, makalífeyri og barnabætur og uppsöfnunarlífeyriskerfið er að greiða í dag, þarf iðgjald í gegnumstreymiskerfi að vera 36%. Ef sú leið væri farinn má reikna með að núverandi iðgjald væri óbreytt, en það myndi kalla á að framlag ríkissjóðs inn í kerfið þyrfti að vera vel ríflega það sem kemur inn með núverandi iðgjaldi. Þetta er ekki flókið því liðlega helmingur sem lífeyrisþegi fær útgreitt eru vextir og vaxtavextir af sparnaði hans í uppsöfnunarsjóð.

Nokkrir, þar á meðal ráðherrar, ræða um að sameina á alla lífeyrissjóðina í einn. Ef þetta verður gert er ekki komist hjá því að taka ákvörðun um hvort ætlunin sé að skerða réttindi hjá einhverjum hópum, eða jafna réttindi allra við það besta. Eðli málsins samkvæmt er ekki framkvæmanlegt að jafna réttindin nema að hækka iðgjöldin umtalsvert hjá þeim sem búa við lakari réttindi.

Tryggingarfræðilega séð eru hópar á á vinnumarkaði ákaflega mismunandi. Þar er að finna ástæðu þess að sumir sjóðir geta verið með mun dýrari réttindakerfi en aðrir. Ef t.d. lífeyrissjóðirnir á almenna markaðnum yrðu t.d. sameinaðir án þess að iðgjaldi væri hækkað, myndi það valda allt að 20% skerðingu á réttindum í sumum lífeyrissjóðanna, þá sérstaklega iðnaðarmannasjóðunum.

Með öðrum orðum það væri þá verið að flytja umtalsverðar eignir frá einum hóp til annarra, ásamt umtalsverðan flutning á fjármunum milli kynslóða. í þessu sambandi er ástæða að benda á að Fjármálaeftirlitið hefur gefið það út að til þess að standa undir óbreyttu kerfi opinberu sjóðanna, þurfi að hækka iðgjald upp í 19% eigi þeir að vera sjálfbærir. Það þýðir að ef jafna öll lífeyrisréttindi án þess að staða nokkurs hóps væri skert þyrfti að hækka iðgjöld umtalsvert, eða allt að 7%.

En eitt þarf að taka reglulega fram, bæði fyrir stjórnmálamenn og svo aðra. Lífeyrissjóðirinir eru eign sjóðsfélaga. Í hverjum lífeyrissjóð er sparifé tiltekins hóps einstaklinga. Sumir virðast telja að þessir fjármunir séu almennaeign sem hægt sé að ráðstafa að vild.

sunnudagur, 1. apríl 2012

Verndarar sérhagsmuna

Ég hef verið á mörgum átakafundum innan samtaka launafólks undanfarna tvo áratugi. Þar er oft hart barist og snaggaralega tekið til orða. Ég minnist ekki að hafa heyrt eða séð þar þá lágkúru og fólsku sem okkur hafa birst í störfum Alþingis undanfarna daga. Hafi menn ekki sömu skoðanir og sjálfstæðismenn þá eru þeir úthrópaðir sem kommúnistar, líkt saman við fjöldamorðingja.

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins var hinn eini sem barðist fyrir því að koma í veg fyrir að fólkið í landinu fengi að svara nokkrum lýðræðislegum spurningum um auðlindir og jöfnun atkvæðisréttinda. Kvöldið áður höfðu þeir og læðst út um bakdyrnar til þess að koma í veg fyrir lýðræðislega kosningu í þinginu.

Það kom svo vel fram í vikunni hver afstaða þingmanna gagnvart stjórnarskrármálinu og samskiptum við fólkið er í raun. Það er síðan prýðilega tekið saman í leiðara Fréttablaðsins nú um helgina, þar sem sömu bellibrögðum er beitt.

Í stjórnarskrármálinu hafa helstu, og reyndar einu, rök sjálfstæðismann verið að málið sé vanreifað og óklárað af hálfu Alþingis og það sé mikil blessun að þjóðin skuli ekki verða spurð álits á tillögum Stjórnlagaráðs, og svo kemur afsökunin fyrir framkomu sjálfstæðismanna gagnvart þjóðinni, stjórnarmeirihlutans geti kennt sjálfum sér hvernig komið sé og engum öðrum. Bíddu við var það ekki þingflokkur Sjálfstæðismanna sem stendur í veginum fyrir því að málið sé borið undir þjóðina? Alþekkt er að tillögur Stjórnlagaráðs eru unnar upp úr margra ára vinnu sérfræðinga sem hafa komið að þessum málaflokki og henni fylgdi rúmlega 200 bls. greinargerð. Ekkert hefur komið fram frá þingmönnum sjálfstæðismanna um hvað það sé sem þeir vilji gera, engar málefnanlegar tillögur, einungis að þetta sé ómögulegt og Stjórnlagaráð sé einhver kjaftaklúbbur.

Það er almennt viðurkennt að tillaga Stjórnlagaráðs að stjórnarskrá er betri en öll þau plögg sem Alþingi hefur náð að gera undanfarin 50 ár. Þekkt er hvert sjálfstæðismenn stefna með sinni klækjapólitík í þessu máli, kalla á saman lagatækna og „sérfræðinga“ í loðnu orðalagi og fá þá til þess að eyðileggja stjórnarskrárdrögin. Semja stjórnarskrá sem er ritskoðuð af sérhagsmunahópunum sem standa að þingflokki Sjálfstæðisflokksins.

Það kom glöggt fram á Þjóðfundi og í samskiptum almennings við Stjórnlagaráð, þegar drög að nýrri Stjórnarskrá voru samin, að hann vill sjá það fyrir sér að þjóðin geti með einhverjum hætti haft meira aðhald með stjórnvöldum, þ.e. með ríkisstjórn og Alþingi.

Þegar þjóðin þurfti helst á því að halda í október 2008 að til væri aðili sem hún gæti treyst og trúað og gæti tekiðö að sér leiðtogahlutverk, var staðan sú að forsetinn hafði verið beinn þátttakandi í spilverki fjármálaaflanna. Sama átti við um Alþingi stjórnarþingmenn þingmenn og ráðherrar voru beinir þátttakendur í aðgerðum fólust í því að dylja raunveruleikann og það varð til þess að efnahagshrun hér á landi varð mun alvarlegra fyrir heimilin ílandinu og fyrirtækin en íöðrum löndum.

Ráðherrar og stjórnarþingemnn höfðu haldið því að okkur að Ísland ætti ekki að bera sig saman við Norðurlönd og ætti ekki að taka mark á ábendingum þaðan, aðstæður væru allt aðrar á Íslandi. Leyndarhyggjan við völd. Regluverk og ábendingar Norðurlanda þóttu of íþyngjandi. Þingmenn sjálfstæðismanna berjast fyrir því að engu verði breytt og vilja kom aí veg fyrir að fólkið í landinu geti komið að eigin málum.