fimmtudagur, 29. janúar 2009

Séra Jón og svo við hin

Margoft hefur það verið gagnrýnt hvaða misræmi er í viðhorfum þingmanna og æðstu embættismanna til sjálfra sín og svo annara þjóðfélagsþegna. Fræg er sjálftaka þeirra með tvöfallt dýrari lífeyrisréttindum en aðrir landsmenn hafa og hvernig þeir hafa sífellt vikið sér undan því að leiðrétta það. Einungis helstu skafankar voru hreinsaðir af nú fyrir jólin eftir margra ára deilur.

Annað hefur skollið framan í okkur undanfarna daga það er munur á uppsagnarfresti og dýrum réttindum sem þessir hinir sömu hafa útdeilt til sín. Fram hefur komið að það sé nánast ómögulegt að losna við seðalbankastjóra og það kosti 300 millj. kr. og 12 millj. kr. að losna við ráðherra.

Auk þess þurfi allskonar ástæður fyrir uppsögn seðlabankastjóra og fleira í þeim dúr. Einhvern veginn minnir mig að ráðherrar og þingmenn hafi fyrir nokkru þóttst svelgjast á digrum ráðningarbónusum og starfslokasamningum bankaliðsins.

Einnig og alls ekki síður hrekkur maður við, sé litið hversu harkalega þingmenn sjálfstæðismanna hafa barist gegn staðfestingu á réttindum launamanna í uppsögn, þ.e. ILO 58 reglunni, sem flestar þjóðir í Evrópu og margar í Asíu hafa staðfest. En þar er kveðið á um að vinnuveitandi verði að tilgreina ástæður uppsagnar.

Nú blasir hins vegar við að á sama tíma sömdu þingmenn með Davíð í broddi fylkingar við sjálfa sig um þessi atriði á meðan þeir höfnuðu að staðfesta samskonar réttindi fyrir almenna launamenn.

Maður er svo mörgum sinnum búinn að fá upp í kok á þessu liði og tekur fagnandi tilllögum um stjórnlagaþing þar sem þingmenn og ráðherrar fá ekki að stíga inn fyrir dyrnar.

miðvikudagur, 28. janúar 2009

Morfískeppnin hafin

Sjálfstæðisflokkurinn fór í gegnum síðustu kosningar á upphrópunum um hversu vel hann hefði stjórnað efnahagslífi og allt væri hér í blóma. Þessu var mótmælt af mörgum virtum hagfræðingum innlendum og erlendum, auk hagdeilda vinnumarkaðsins. Þar var m.a. bent á að krónan væri skráð 30% of há, m.a. á grunni mikilla fjármuna, sem hefðu verið fluttir til landsins. Þessu mótmæltu þingmenn Sjálfstæðisflokksins með miklum látum, og töluðu um íslenska efnahagsundrið og hæddust af þeim sem gerðu aths. við skilgreiningar flokksins á stöðu efnahagslífsins.

Þar var framarlega í flokki sú þingkona sem var í Kastljósinu í gær. Hún hélt því hiklaust fram að flokkurinn hefði verið að vinna frábært starf við endurreisn hrunsins, en það væri kynningarfulltrúum að kenna að þjóðin hefði ekki orðið vör við uppbygginguna!! Hún sleppti því að tala um hver hefðu mótað þá stefnu sem olli hruninu og hverjir það voru sem skipuðu þá eftirlitsmenn sem áttu að gæta að hagsmunum almennings. Það var ríkið sem brást, sagði Páll Skúlason háskólaprófessor og heimspekingur, í einni af bestu skilgreiningunni á því gerst hafði.

Enn eru til þingmenn sem halda því fram að það sé afleiðingar erlendra atvika sem flokkurinn hafi ekki komið nálægt.

Undanfarnar vikur hafa þingmenn VG haldið því fram að erlendum lánum hafi verið troðið upp á okkur af Alþjóðasjóðnum með afar kjörum. Fyrir liggja yfirlýsingar ráðherra og seðlabankastjóra allra nágrannalanda okkar að íslendingum stóð ekki til boða ein evra að láni, ef við tækjum ekki til hjá okkur og samþykktum þær aðgerðir sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setti fram.

Það tók ríkisstjórnina allan október og nóvember að fallast á hversu umfangsmikil vandræðin væru hér á landi. Í hverjum fréttatímanum á fætur öðrum er flett ofan af ástandinu. Það hefur komið fram að ráðherrum var þetta ljóst síðasta vor, en vildu ekki horfast í augu við vandann og þaðan af síður að takast á við hann.

Stóru mistök Samfylkingarinnar voru að fallast ekki strax í október á tillögu Geir um að sameina Fjármálaeftirlit og Seðlabanka og losa Sjálfstæðismenn við það að þurfa að segja Davíð upp. Það breytti engu um að við blasti getuleysi sjálfstæðismanna, en þá hefði verið hægt að takast á við vandann í alvöru.

Þá hefðum við allt eins getað handstýrt verðbólgu og vöxtum, við vorum þá hvort sem er með allt bankakerfið í höndunum og allt í steik. Við hefðum þá getað horfið af þeirri braut að gæta einvörðungu hagsmuna auðkýfinganna með háum innlánvöxtum og gætt hagsmuna heimila og íslenskra fyrirtækja.

Þessi vinnubrögð ríkistjórnarinnar hafa valdið því að þjóðin fékk miklar ranghugmyndir um hvað væri í gangi, sem hefur í raun valdið mun meiri óróa og óvissu en efni voru til og þá um leið aukið vandann enn frekar. Þetta er undirstaða þeirra mótmæla sem hafa átt sér stað undanfarnar vikur og þau hafa verið að harðna eftir því sem almenningur hefur verið að átta sig á hvaða sjónarspil stjórnmálamenn léku.

Þetta er ótrúlegt ábyrgðarleysi og sýnir enn einu sinni að stjórnmálamenn setja völd framar hagsmunum almennings. Nú virðist það vera svo að stjórnmálmenn hafi ekkert lært og ætla að bjóða okkur enn einu sinni upp á sandkassasjónleik með Morfískeppni í útúrsnúningum.

Við vildum strax skipta út fjármála- og viðskiptaráðherrum ásamt stjórnum Fjármálaeftirlits og Seðlabanka. Þessu sinnti ríkistjórnin ekki, sem var ábyrgðarleysi og lítilsvirðing gagnvart almenning. Þess vegna féll ríkisstjórnin. Það sem er gerast núna virðist ætla að leiða til þess að ný ríkisstjórn fæðist andvana og þingmenn Sjálfstæðisflokksins dansi af gleði.

Stendur til að gera þann einstakling að fjármálaráðherra, sem hefur fordæmt þær aðgerðir sem hafa verið í gangi og skila öllu. Byrja upp á nýtt og fara þá í gegnum sömu asnastrikin og Sjálfstæðisflokkurinn stóð fyrir í október og nóvember.

Stendur til að gera þann sem hefur verið í margskonar vafasömu fjármálabraski að dómsmálaráðherra?

Ætla stjórnmálamenn þá sérstaklega Sjálfstæðismenn ekki að biðja þjóðina afsökunar á gjörðum sínum?

Getum við ekki fengið utanþingstjórn og gefið þessu liði frí fram á haust?

Það blasir við að nú fara þingmenn í vinsældakeppni, sjá hér. Þetta er nú líklega ósvífnasti útúrsnúingur sem settur hefur verið fram hér á landi, erum við þó ýmsu vön.

Á meðan blæðir þjóðinni út.

þriðjudagur, 27. janúar 2009

Hvað ætlar þú að fá í staðinn?

Allir íslendingar utan nokkurra stjórnmálamanna og embættismanna, vilja sjá nýtt þjóðfélag rísa. Þetta hefur komið vel fram á undanförnum vikum. Það varð til þess að ríkisstjórnin féll. Sjálfstæðisflokkurinn ásamt sínum embættismönnum stóð í vegi að nokkurt mál yrði klárað.

Upp úr rústum ríkisstjórnarinnar standa fjölmörg mál sem einkennast af ógeðfelldri svikamyllu.
Þetta hafa fréttamenn ásamt fleiri mönnum sem þekkja vel verið að draga fram, eins og hefur komið fram í Kastljósum undanfarna viku og Silfrum síðustu helga.

Á forsendum þessa er maður svo undrandi hvernig ungir þingmenn mása og blása þessa dagana og hamast við að þyrla upp moldviðri í samræmi við þau úreltu fræði sem þeim voru kennd í hinum spilltu stjórnmálaskólum og almenningur hefur verið að hafna undanfarið.

Það eru svo fáir í dag sam hafa áhuga á að hlusta á einhver útúrsnúningatrykk. Við viljum heyra hvernig menn ætla að taka á vandanum, bjarga heimlum og koma fyrirtækjunum í gang. Hreinsa upp skítinn eftir þá sem hafa stjórnað efnahagslífinu undanfarna áratugi og hvers vegna Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn sinntu ekki hlutverkum sínum og vörðu eignir samfélagsins.

En það eru sumir fréttamenn sem enn eru í gamla farinu, eins og t.d. þingfréttamaður sjónvarpsins, sem spurði Geir harla einkennilegra spurninga í gær og svo í kvöld þegar hún spurði formann Framsóknar hvaða hyglingu hann vildi fá í staðinn fyrir að verja nýja ríkisstjórn.

Fréttamaðurinn er fastur í hinu gamla fari hyglingarinnar. Einmitt helstu undirstöðu þeirrar andúðar sem ríkir meðal þjóðarinnar á viðteknum vinnubrögðum stjórnmálamanna og flesta dreymir um að hverfi með fallinni ríkisstjórn.

mánudagur, 26. janúar 2009

Enn þráast Sjálfstæðisflokkurinn við

Stundum hættir manni til þess að segja; þetta sagði ég. Það var fyrri hluta nóvember mánaðar sem fram komu hugmyndir m.a. frá verkalýðsforystunni að það ætti að setja fagmenn í ráðherrastóla fjármála og viðskipta. Ryðja ætti stjórn Seðlabanka og Fjármálaeftirlits. Sjálfstæðisflokkur hafnaði þessum hugmyndum og er enn að því í dag og hefur með því stóraukið þann vanda sem við búum við. Einnig má minna þá umfjöllum sem þessi hugmynd fékk.

Ný stjórn með Jóhönnu sem forsætisráðherra, fagmönnum sem fjármála og viðskiptaráðherra ásamt því að skipt væri um seðlabankastjóra og stjórn bankans, sama gilti um fjármálaeftirlits, myndi örugglega skapa nauðsynlegan frið í landinu fram að kosningum. Þann tíma væri unnið að bráðnauðsynlegum endurbótum og hreinsunum.

Það er svo sem tími til þess að gera þetta seinna í dag.

sunnudagur, 25. janúar 2009

Of seint

Þessi afsögn er of sein og breytir í raun litlu. Ráðherra að gera tilraun til þess að eiga möguleika í komandi prófkjörum. Möguleika Samfylkingar til þess að hanga í 20% hlutnum í næstu kosningum. Viðbárur Geirs í dag eru lýsandi fyrir viðhorf sjálfstæðismanna, aldrei að viðurkenna mistök, aldrei að fallast á tillögur annarra. Sýna öllum að það séu þeir sem hafi völdin. Þessi vinnubrögð hafa leitt yfir þessa þjóð margfalt ömurlegri stöðu en þörf var á.

Þjóðin er endanlega búinn að missa allan áhuga á núverandi stjórnkerfi. Hrun íslenskra stjórnmálamanna hófst í glannaskapnum í Ráðhúsinu, þeirri gandreið hefur svo verið vel viðhaldið af þingmönnum. Tilvist stjórnmálamanna og háttsettra embættismanna hefur í vaxandi mæli byggst mætti markaðarins og völdin snúast yfir í að tryggja stöðu sína og viðhalda stólunum. Enda hefur boðberum frelsis og einstaklingsframtaks verið raðað í ríkistryggða stóla prófessora, sendiherra, seðlabanka, hæstaréttar og héraðsdómara.

Nýfrjálshyggjan hefur beitt sér í að losa sig við alla félagslega umgjörð og ekki boðið upp á nein úrræði í stað þeirra sem fjarlægð eru. Af nýfrjálshyggjumönnum er félagsleg umgjörð kölluð slævandi eða deyfandi. Í stað þess hefur verið þrýst á aukin skil á milli efnahagslífsins og hins félagslega umhverfis. Vaxandi hnattvæðing hefur tryggt hreyfanleika auðs og nýtt til skammtímafjárfestinga og skammtímahagræðingu.

Nýfrjálshyggjan þiggur áhrifamátt sinn frá pólitísku og efnahagslegu valdi þeirra hagsmunaðila sem hún stendur vörð um; hluthafann, iðnjörfana og stjórnmálamenn af hægri kantinum. Með þeim má telja miðjumenn sem hafa komið sér notanlega fyrir í uppgjöf afskiptaleysisins.

Eftir situr vanhæfa ríkisstjórn sem senn er á förum. Í Seðlabankanum sitja höfundar íslenska efnhagsundurins Davíð Oddsson og hefur sér til fulltingis sjálfskipað bankaráð með á fremsta bekk talsmann íslenska efnahagsundursins. Nýfrjálshyggjuna í sinni skýrustu mynd Hannes Hólmsteinn Gissurarson. Í skjóli þessara manna nýttu nokkir fjármálaguttar það svigrúm sem íslenska nýfrjálshyggjan hafði skapað með afskiptaleysi afnámi eftirlits.

Eftir situr þjóð með sviðna jörð og nauðgararnir eru sestir að heima hjá fórnarlömbunum og vilja ekki fara. Eins og Illugi lýsti svo snilldarlega.

Tökum bara lífeyrissjóðina

Hvað er lífeyrissjóður? Hann er safn sparifjár þeirra sem greiða 12% af launum í viðkomnandi sjóð.

Hvað á að gera við alla þessa peninga? Það á að greiða þeim sem borga í sjóðinn mánaðarlega upphæð sem samsvarar a.m.k. 57% af þeim launum (verðtryggðum), sem viðkomandi hefur greitt til sjóðsins, frá því að viðkomandi nær 67 ára aldri þar til að hann deyr. Eða ef hann er svo ólánsamur að verða öryrki, að greiða honum sömu upphæð á mánuði þangað til hann verður 67 ára og svo áfram þar til hann deyr.

Hvernig að það hægt, því það hlýtur oft að vera margfalt meira en viðkomandi hefur greitt til sjóðsins? Það er hægt vegna þess að lífeyrissjóður er samtryggingarsjóður, sumir fá minna en þeir greiða og jafnmargir fá meira.

Hvar eru peningar lífeyrssjóða geymdir? Það eru í gildi lög sem setja starfsmönnum lífeyrissjóða mjög ákveðnar skorður við því hvar þeir mega fjárfesta. En þeir verða að ávaxta peningana með að meðaltali 3.5% svo sjóðirinir geti staðið við framangreindar skuldbindingar.

Er hægt að taka lífeyrissjóðina og greiða t.d. upp skuldir þjóðfélagsins, eins og sumir tala hiklaust um? Það jafngildir upptöku á eignun tiltekins hóps einstaklinga, sjóðsfélaga viðkomnandi sjóðs. Í sjálfu sér hljóta þeir hinir sömu að vera að leggja til að það eigi jafnt um sparifé sem geymt er á bankabókum, annars gildir ekki hið margumtalaða jafnræði með landsmönnum.

Ef taka á það fjármagn sem geymt er í lífeyrissjóðum og nota það í annað t.d. eins og greiða upp skuldir samfélagsins, þá verður þá ekki að byrja á því að losa um eignir sjóðanna? Jú það er rétt það þyrfti að selja öll ríkisstryggðu skuldabréfin sem ríkissjóður og sveitarfélögin hafa gefið út. Selja öll hlutabréfin og aðrar eignir sem sjóðirnir eiga. Það myndi þýða að það þyrfti að finna einhvern sem væri tilbúinn að kaupa þessar eignir og svo er þá spurning á hvaða verði þær myndi seljast ef þær væru allar settar á markað.

Myndi það ekki þýða endanlegt gjaldþrot margra íslenskra fyrirtækja og ekki síður hins opinbera? Jú það er rétt hið opinbera þyrfti þá að taka að sér að greiða allar örorkubætur og allan ellilífeyri. Þetta blasir við nokkrum þjóðfélögum eins og t.d. Þýskalandi, Frakklandi, Spáni, Ítalíu og þegar stóru barnasprengju árgangarnir verða 67 ára, það er á árunum eftir 2014 og nær hámarki 2020, þá verða þessi þjófélög gjaldþrota því það sem þau þurfa að greiða í örorku og ellilífeyri verður meira en allar skattekjur þessara ríkja.

Með öðrum orðum ef menn vilja láta taka mark á því sem þeir skrifa í blöð og á bloggsíður, væri þá ekki ágætt að þeir hugsuðu það til enda sem þeir eru að segja? Jú eiginlega væri yfirleitt ágætt að menn temdu sér þau vinnubrögð.

laugardagur, 24. janúar 2009

Þorgerður Katrín á villigötum

Nú þarf hluti ríkisstjórnarinnar að víkja og við þurfum nýtt fólk inn. Það er rangt sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins segir að stjórnarskipti tefji efnahagsbata. Hið réttar er að forysta Sjálfstæðisflokksins hefur beitt afli sínu núna í rúmt ár til þess að standa í vegi fyrir því að endurreisnarstarf geti hafist. Hann hefur sópað út af borðinu ábendingum um nauðsynlegar endurbætur.

Við þurfum að fá inn í ríkisstjórnina fólk sem þekkir sitt þjóðfélag og er ekki tengt einhverjum valdaklíkunum og bundið í báða fætur við að vernda hagsmuni tiltekinna aðila. Ný stjórn á að nýta tímann fram að kosningum til þess að hreinsa til. Reka Seðlabankastjóra og hans stjórn, sama kústinn á að fara með yfir Fjármálaeftirlit. Fyrsta verk þeirrar stjórnar á að vera lækkun vaxta og afnám gjaldeyrishafta. Samfara því á að skapa umhverfi sem gerir fólki kleift að halda heimilum sínum. Verk tvö á vera að taka upp samstarf við aðila vinnumarkaðs um uppbyggingu atvinnulífs.

Ríkisstjórnin á að biðja almenning þessa lands afsökunar á því sem stjórnmálamenn hafa leitt yfir þessa þjóð. Það var ekki erlend kreppa sem hefur farið verst með þessa þjóð. Það eru íslenskir stjórnmálamenn, sem gleymdu sér við að skapa paradís fyrir fjárglæframenn og nutu molana sem hrutu af alnægtarborðum þeirra. Stjórnmálamenn sem hafa haldið að almenning rakalausum klisjum og pólitískum ráðningum. Hyglingum til útvalina.

Það gengur einfaldlega ekki að endurreisa traust á gjaldmiðli sem er vonlaus og vinnur gegn uppbyggingu atvinnu- og viðskiptalífs. Það er óskhyggja. Það er rangt að nota háa vexti gegn gjaldeyriskreppu, lágir vextir eru nýttir gegn banka- og efnahagskreppu. Það verður að leysa sem allra fyrst gjaldeyriskreppunna, hún kemur í veg fyrir eðlilega upprisu fyrirtækjanna og dregur úr frumkvæði og framkvæmdavilja. Atvinnulífið og heimilin berjast við gífurlegan fjármagnskostnað og skort á lánsfé. Kostnaðurinn og skorturinn er að taka atvinnulífið kverkataki 0g hefur hamlandi áhrif. Því lengur sem lausn á þessu dregst þeim mun meiri verður skaði efnahagslífsins.

Íslenskt efnahagslíf hefur ekki efni á því að bíða eftir því að valdaklíkur innan stjórnarflokkanna leysi sín mál. Þorgerður verður einfaldlega að leggja til hliðar hagsmuni flokksins og setja hagsmuni fólksins framar. Það gengur ekki að halda viðskipta- og atvinnulífi í fangelsi hafta ef aðrir kostir standa til boða.

Einhliða upptaka annars gjaldmiðils er valkosturinn sem verður að huga að. Einhliða upptaka Evru í samvinnu við ESB er sú leið sem leggja á stða með núna eftir helgi og er leið frá þeirri haftastefnu sem nú ríkir á gjaldeyrismarkaði.

Á meðan höldum við áfram að mæta á Austurvöll, það er okkar eina leið til þess að veita stjórnmálamönnum bráðnauðsynlegt aðhald. Þeir þurfa að læra það að það sé rangt að þeir þurfi einungis að vera til viðtals kosningavikuna. Þeir eiga að hlusta á þjóðina alla daga ársins og skila sama vinnudegi og aðrir þjóðfélagsþegnar.

föstudagur, 23. janúar 2009

Óskir um bata

Þær aðstæður sem upp eru komnar eru vægt sagt erfiðar. Það er ástæðulaust að endurtaka allt það sem sagt hefur verið um þá gríðarlegu þörf á aðgerðum strax til þess að bjarga heimilum og fyrirtækjum. Aðgerðum til þess að taka á hinni óendanlegu óreiðu sem eru í bönkunum. Vinnu stjórnvalda með aðilum vinnumarkaðs og bönkum til þess að setja markmið og hvernig megi ná þeim.

Það er út af fyrir sig sigur að fá kosningar í vor og stjórnmálamenn geri upp sín mál við kjósendur. En vitanlega hefur verið var gengið út frá því að ríkisstjórn starfi áfram og skili sínum verkefnum til nýrrar stjórnar. Upp kemur spurning um hvort nú sé ekki þörf á starfsstjórn, því stjórnmálaflokkarnir gleymi sér í innbyrðisátökum. Starfsstjórn sem hreinsi út úr Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu og taki til höndum innan bankanna.

En þrátt fyrir allt þetta, þá er mikið áhyggjuefni að formenn beggja stjórnarflokkanna skuli eiga við alvarleg veikindi að stríða. Þó svo Geir hafi mátt sitja undir harkalegum ádeilum þá setur alla hljóða þegar fram koma upplýsingar um alvarleg veikindi.

Geir er gegnheill drengskaparmaður og allir óska honum velgengni í baráttu við illvígan sjúkdóm. Sama gildir um Ingibjörgu.

fimmtudagur, 22. janúar 2009

Það sem launamenn verða að taka afstöðu til

Nú hafa samtök launamanna reynt í heilt ár að ná saman um þríhlið samstarf um að byggja þetta samfélag upp. Reynar aðeins lengur því að í undirbúningsviðræðum á haustmánuðum 2007 koma fram hugmyndir frá aðilum vinnumarkaðs um þríhliða aðgerðir til þess að verja atvinnustig og verja kaupmátt. Þetta var svo betur útfært í viðræðum vegna kjarasamninga í febrúar 2008.

Ríkisstjórnin hefur á öllum stigum haldið sig í stöðu bókmenntagagnrýnandans, þ.e.a.s. að vera ekki þátttakandi í mótun tillagna, en taka við þeim, gera ekkert með þær annað en setja út á þær. Hér má minna á umfjöllun í fréttum allan síðasta vetur.

Sama var upp á teningunum síðastliðið haust. Þar voru háværar kröfur um að ríkisstjórnin lagfærði trúverðugleika með því að víkja nokkrum einstaklingum úr sætum í Seðlabanka, Fjármálaeftirliti og eins ráðherrum sem stjórnuðu þessum stofnunum. Fyrr myndi almenningur ekki sætta við stöðuna. Annars myndi ekki skapast nauðsynlegt traust á milli stjórnvalda og annar í þjóðfélaginu. Þessu var í engu sinnt og ríkisstjórnin er að uppskera þessa dagana.

Við upphaf viðræðna í síðustu viku um endurskoðunarákvæði kjarasamninga kom fram af hálfu forsvarsmanna SA og samninganefnda sveitarstjórna og fjármálaráðuneytisins að það væri ekki grundvöllur að hækka laun eins og gert væri ráð fyrir í endurskoðunar ákvæðinu og til þess að segja samningnum upp. Það myndi leiða til þess að allir samningar í landinu væru lausir. Leiða má líkur til þess að lítið næðist út úr samningaviðræðum og ef einhverjir ætluðu að þvinga fram niðurstöður myndu koma lög sem frystu laun og kjör í landinu um tiltekinn tíma.

Á fundi aðila vinnumarkaðs í byrjun þessarar viku voru aðilar sammála um nauðsyn þess að leggja upp með áætlun til tiltekins tíma um uppbyggingu íslensks þjóðfélags með nauðsynlegir þátttöku ríkisstjórnar. Ef það næðist niðurstaða um sveigjanleika og frestun væri hugsanlega hægt að og ná einhverri niðurstöðu. Viðbrögð ríkisstjórnarinnar voru nákvæmlega þau sömu og áður. Vera áfram í hlutverki bókmenntagagnrýnandans. Engar tillögur um aðgerðir, engar tillögur um hvernig bregðast eigi við um uppbyggingu atvinnulífs og svo hótanir um að ef þvingaðar verði fram einhverja launabætur muni það þýða enn frekari uppsagnir starfsfólks.

Á fundi miðstjórnar ASÍ í gær kom mjög glögglega fram að þolinmæði manna væri á þrotum. Búið væri að þreyja þorrann í 100 daga von um að ríkisstjórnin gerði eitthvað og hreinsaði til. Ekkert gerðist og ríkisstjórnin vildi halda áfram á sömu braut. Stjórnir stéttarfélaganna hafa setið undir hratt vaxandi óánægju félagsmanna og kröfum um aðgerðir.

Það eina sem hefst upp úr samskiptum við þessa ríkisstjórn í dag virðist vera að reyna að framlengja líf með því að gera 2ja ára samning við hana, sem væri í fullkominni þversögn við vilja félagsmanna. Einnig lægi fyrir sé litið til fyrri reynslu að ríkisstjórnin hefði enga burði og engan vilja til þess að efna samkomulag.

Það var mat miðstjórnar ASÍ í gær að ákvörðun um framhald þyrfti að fara fram í stærri hóp og ákveðið að boða til formannafundar á morgun.

miðvikudagur, 21. janúar 2009

Ríkisstjórnin víki strax


Staða þjóðfélagsins kallar á að allir aðilar taki höndum saman við það að byggja upp nýtt Ísland. Á hverjum degi koma fram upplýsingar sem sýna fram á hversu gjörspillt þjóðfélagið Ísland er. Þetta minnir mann á síendurteknar og einkennilegar ræður Sjálfstæðismanna um að Ísland sé minnst spillta land í heimi.

Hingað til hefur ríkisstjórnin í engu sinnt köllun aðila vinnumarkaðs um samstarf um að tekið verði á þessum þáttum. Má þar minna á viðbrögð ríkisstjórnar við gerð samninga í febrúar 2008. Sama gerðist í haust.

Á undanförnum vikum hafa aðilar vinnumarkaðs unnið að undirbúningi að því að takast á við endurskoðunarákvæði kjarasamninga. Viðbrögð stjórnavalda hefa verið með sama hætti og áður (engin). Ríkisstjórnin virðist hafa það markmið eitt að koma því til leiðar að ekki verði komist að niðurstöðu í rannsókn bankakerfisins. Háværar raddir segja að það sóðalegasta sé enn ekki komið uppá yfirborðið.

Núverandi ríkisstjórn nýtur sannarlega ekki traust þjóðarinnar. En staðan kallar á 2ja til 3ja ára áætlun sem allir taki þátt í að mynda til uppbyggingar þjóðfélagsins úr þeim rústum sem núverandi ríkistjórn stendur yfir.

Ef gengið væri til endurskoðunar núverandi kjarasamnings við núverandi aðstæður er vart hægt að túlka það öðruvísi en svo að aðilar vinnumarkaðs ætli sér að vinna áfram með núverandi ríkisstjórn. Fyrir því er ákaflega takmarkaður vilja innan verkalýðshreyfingarinnar. Þar er sagt hingað og ekki lengra.

Krafa félagsmanna er að ríkistjórnina víki strax og Alþingi sæki sér nýtt umboð til þjóðarinnar. Á meðan gæti starfsstjórn tekið við og klárað skoðunina á spillingunni og lagt vitræn plön með aðilum vinnumarkaðs um hvernig staðið verði að endurreisn atvinnulífs í landinu. Það er ljóst að núverandi ríkisstjórn er það um megn.

Burt með skrílinn í Alþingishúsinu

Ummæli ráðherra og þingforseta á meðan á mótmælum stóð í gær lýsa vel veruleikafyrringu og hroka þess fólk sem situr Alþingi Íslendinga. Í skjóli þessa fólks, og reyndar með þátttöku nokkurra þeirra (eða maka), hefur þrifist mesta eignaupptaka sem þekkst hefur.

Ítrekað hefur komið fram í ummælum þessa fólks, að fólk sé skríll. Mótmæli það ummælum eða athöfnum yfirstéttarinnar, svindli þess og svínaríi. Þrátt fyrir vaxandi mótmæli og aðvaranir hagsmunasamtaka sem ráðamenn virtu að vettugi hafa innviðir samfélagsins hrunið og eftir stendur sviðin jörð. Ekkert kemur fram um úrbætur, það eina sem leiðir þetta fólk áfram er að halda stólunum og völdunum.

Aðilar atvinnulífs og stjórnir lífeyrissjóða settu ríkisstjórninnni algjörlega stólinn fyrir dyrnar í leit þeirra eftir miklum lánum og heimflutning fjármuna lífeyrissjóðanna erlendis í október síðastliðnum. Sett voru skilyrði um tiltekt en því höfnuðu ráðherrar algjörlega, í kjölfar þess hrundu bankarnir. Það var röng ákvörðun ráðherra sem því olli.

Þá leituðu ráðherrar til seðlabanka í nágrannalöndum okkar og fengu nákvæmlega sömu svör. Viðbrögð íslenskra ráðamanna voru þau að allir væru óvinir þeirra. Þráast var við fram í desember að sætta sig við þau skilyrði sem seðlabankar norðurlandanna og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setti íslenskri ríkisstjórn. Hún er svo rúin trausti að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ásamt seðlabönkum norðurlanda afhenda lánsfé í skömmtum. Ríkistjórnin verður að framkvæma ákvena hluti svo hún fái næsta skammt.

Í ræðum stjórnarþingmanna og ráðherra var þetta allt erlendu hruni að kenna. Nú liggur fyrir að þeir vissu betur en lugu að þjóðinni. Á hverjum degi koma upp ný mál sem upplýsa þjóðina um að ráðherrar þekktu vel til í svínaríinu, en gerðu ekkert. Einkafyrirtæki fengu í þessi skjóli að stunda sýndarviðskipti á ábyrgð íslenskra skattgreiðaenda. Þrátt fyrir að forsvarsmenn hagsmunasamtaka hefði legið á hurðarhúnum ríkisstjórnarinnar um viðbrögð og prófessorar í háskólanum settu fram aðvarnir.

Viðbrögð stjórnarþingmanna og ráðherra voru þau að hæðast af öllum sem bentu á að sú glansmynd sem ríkisstjórnin vildi halda að almenning væri blekkingar og svik.

Ríkisstjórnin og fylgisveinar hennar eins og stjórnir Seðlabanka og Fjármálaeftirlits er algjörlega rúið trausti. Þetta fólk verður að víkja strax.

þriðjudagur, 20. janúar 2009

Mótmælin í dag


Var á mótmælunum í dag. Það var álíka hópur fyrir framan Alþingishúsið á Austurvelli og fyrir aftan húsið. Ekki ólíklegt að það hafi verið samtals um fjögur þúsund. Á Austurvelli var mikill meiri hluti fólk á miðjum aldri og upp úr. Það mótmælti á friðsamlegan hátt. En bak við húsið var meðalaldur fólks lægri og meiri læti.

Eins og áður á þessum fundum hitti maður fólk víða úr þjóðfélaginu. Þverskurð. Margir starfsmanna stéttarfélaganna eru þarna meðal fólksins. Hörður hefur ásamt sínum samstarfmönnum kynnt að þeir vilji ekki tengja mótmælin ekki við nein hagsmunasamtök. Það er næsta víst að sum stéttarfélaganna vilja koma að þeim og hafa gert það með óbeinum hætti.

Lögreglan er vægt sagt í erfiðu hlutverki þarna. Það sem ég sá til fyrir framan húsið þá tóku þeir skynsamlega á öllu. En þegar ég kíkti bak við þá var allt í háalofti inn í garðinum.

Það er blaut tuska framan í almenning að setja á dagskrá við þessar aðstæður sérstakt áhugamál frjálshyggjuþingmanna að fá að selja vín í matvöruverslunum. Vitanlega ætti þingforseti að segja af sér, þvílíkur fingurbrjótur.

Skilaboðin eru ákaflega skýr og hafa reyndar verið um alllangt skeið. En viðbrögð þingmanna og ráðherra einkennast úrræða- og getuleysi og ekki síður ótta við að kosningar.

Á meðan kemur fram mikil undrun á forsíðum stórblaða um víða veröld að þrátt fyrir mesta efnahagslegt hrun þjóðar, sjá engir Íslenskir ráðherrar, seðlabankastjórar eða fjármálaeftirlitsmenn ástæðu til þess að axla ábyrgð.

Alþingi kemur saman

Alþingi kemur saman í dag að loknu jólaleyfi sem staðið hefur síðan 22. desember. Almennir launamenn fengu 3 daga í frí. Almennir launamenn eru flestir með um 26 daga í orlof á með aþingismenn taka sér 3ja mánaða frí á fullum launum.

Þingfundur hefst klukkan hálftvö með óundirbúnum fyrirspurnum sem fimm ráðherrar verða viðstaddir.

Meðal þingmála í dag verður frumvarp um breytingu á ýmsum lagaákvæðum varðandi sölu áfengis og tóbaks.

Almenningur er hættur að reikna með að Alþingi taki á vanda heimilanna eða rekstrarvanda fyrirtækja þessa lands og vaxandi atvinnuleysi.

Það er orðið öllum ljóst að meðal alþingismanna, aðstoðarmanna og embættismanna er ekki fólk sem hefur getu til þess. Fólk sem lifir í sjálfbærri veröld ótengdri við samfélagið. Veröld þar gætt er að þeir sem inn hana falla verði strax hluti af samtryggingarkerfi. Auðmenn spila svo með samfélagið og lána hvor öðrum og einkahlutafélögum þingmanna eða maka þeirra fjármuni bankanna á sérkjörum án ábyrgðar.

Raddir fólksins boða til friðsamlegrar mótmælastöðu á Austurvelli í dag klukkan 13. Hörður hvetur fólk til að mæta með söngbækur, potta, sleifar, flautur og hrossabresti.„Við ætlum að koma saman friðsamlega, vera þarna í kringum þingið, syngja og hafa hátt og láta þessa fulltrúa okkar vita að við séum til því þeir virðast ekki hlusta mikið á okkur"

mánudagur, 19. janúar 2009

Sterkt útspil Framsóknar

Það blasir við að þing framsóknarmanna gerði það eina rétta í stöðunni. Kvaddi fortíðina og valdi nýja forystu. Það er kallað á breytingar og nýtt upphaf, segir nýkjörin formaður réttilega. Hann hefur góða kynningu út á við og gæti gert góða hluti fyrir Framsókn. Það á svo eftir að koma í ljós hvernig hann verður kominn á þing.

Staða Framsóknar gæti orðið sterk. Í skoðankönnunum undanfarið hefur fylgi sjálfstæðismanna ekki bara hrunið, heldur hafa mjög margir verið óákveðnir jafnvel allt að 40%. Það er klárt að margir sem hafa kosið Sjálfstæðisflokkinn geta ekki hugsað sér að kjósa Samfylkinguna og VG, en þeir gætu örugglega frekar hugsað sér að kjósa nýjan Framsóknarflokk. Sama gildir um marga Samfylkingarmenn sem eru óánægðir með sitt fólk í ríkisstjórn.

Ég verð að segja að ég er undrandi á því að Páll Magnússon fái 18% fylgi. Hann er umtalaður spunameistari og með þekktan feril sem klækjarefur. Beint tengdur við fortíð flokksins. Við rafiðnaðarmenn lentum í spunum Páls þegar verið var að reisa Kárahnjúkavirkjun. Þar snéri hann ályktunum á haus, ruglaði saman baráttu okkar fyrir réttindum launamanna við svæsnar starfsmannaleigur og túlkaði það sem baráttu gegn virkjuninni og framförum í landinu!!

Það lágu reyndar fyrir stuðningsyfirlýsingar rafiðnaðarmanna með virkjuninni og Páll hikaði við að gera okkur og ekki síst mér upp skoðanir, sem aldrei höfðu verið settar fram og virti að vettugu leiðréttingar sem honum voru sendar. Þegar starfsmaður Rafiðnaðarsambandsins hringdi í ráðuneytið fyrir nokkru og vegna kynningarherferðar á starfsmenntun og fékk samband við aðstoðamann ráðherra notaði Páll tækifærið þó svo það kæmi viðkomand máli ekkert við og jós spunanum yfir hann og fúkyrðaskömmum og hafnaði algjörlega að spunar sínir væru rangir!!

Páll er ímynd þess stjórnmálamanns sem fólk er að reyna að losa sig við. Ég myndi ekki einu sinni treysta Páli til þess að taka til í hanskahólfinu í bílnum mínum. Enda eru þar sólgleraugu sem kosta um 3.500 kr.

sunnudagur, 18. janúar 2009

Eastwood lýsir íslensku samfélagi

Fór í vikunni að sjá Changeling nýjustu mynd Eastwoods. Það rífur virkilega í að horfa á baráttu móður gegn gjörspilltu yfirvaldi og maður fyllist reiði. Reiði sem fær enga útrás, þú situr bara og bíður eftir næsta atriði.

Myndin lýsir í raun afskaplega því sem við höfum mátt búa við hér á landi undanfarin ár. Hvernig íslenskir stjórnmálamenn haga sér sem hafa haldið um valdataumana. Margir hvort sem það eru þingmenn eða hagsmunasamtök hafa kvartað yfir því að hafa einungis mætt yfirlætislegum hroka þegar bent hefur verið á að þjóðfélagið hafi verið að þróast í aðra átt en almenningur vildi.

Fyrir liggja mýmörg atvik þar sem sitjandi ráðherrar ásamt næstu embættismönnum hafa framkvæmt ámælisverðar athafnir. Jafnvel svo alvarlegar að umboðsmaður Alþingis hefur gert alvarlegar athugasemdir. En svo er komið fyrir íslensku lýðræði að ráðherrar virða það einskis. Fjármálaeftirlit og Seðlabankastjórn unnu eftir reglum frjálshyggjunnar, markaðurinn ætti að setja sér sjálfur reglur.

Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins lýstu yfir aðdáun sinni á Thacherismanum og töldi það sér til ávinnings að vera vinir Bush. Ráðherrar tóku sjálfa sig fram yfir fólkið í landinu. Mönnum sem voru þeim handgengnir fengu afhenta milljarða gjafir á kostnað almennings. Athugasemdalaust og undir ferföldum húrrahrópum seðlabankastjóra og forsetans uxu bankarnir landinu yfir höfuð þjóðarinnnar. Seðlabankinn, ríkisstjórnin og Fjármálaeftirlitið höfðust ekki að.

Þrátt fyrir aðvaranir vanrækti Seðlabankinn að byggja upp gjaldeyrisvarasjóð til að vega á móti skuldasöfnun bankanna. Þrákelkni ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans í efnhags- og peningstefnu hefur nú í raun teflt fjárhagslegu sjálfstæði landsins í tvísýnu.

Þeir sem halda um valdataumana ætla sér að halda þeim áfram. Það er búið að skuldsetja okkur um tvær þjóðarframleiðslur. Sé litið til áætlana um tekjur ríkissjóðs næstu tvö árin liggur fyrir að við munum vart eiga fyrir vöxtum af ofurlánunum, hvað þá afborgunum. Samt mætir fjármálaráðherra og segist ætla að greiða niður skuldirnar um helming á þeim tíma. Hann hafnar því að að sýna á spilin þegar menn spyrja í forundran hvernig hann ætli að fara að því.

Það á að láta þá sem ollu vandandum um rannsóknir. Það er vegna ótta ráðamanna vegna eigin lánamálum og öllum einkahlutafélögunum. Sem voru færð í sktyndi í hendur annarra og skuldir afskrifaðar. Þetta gæti orðið ráðherrum og embættismönnum skeinuhætt. Mótmælum almennings er gefið langt nef og þau brotin á bak aftur með lögreglukylfum og gasi.

Nú er að hefjast vinna við endurskoðun kjarasamninga. Allir aðilar vinnumarkaðs báðum megin borðs hafa lýst því yfir að allir verði að taka höndum saman um að endurbyggja atvinnulífið. Verði það ekki gert, mun þjóðin búa við vaxandi og langvinnt atvinnuleysi. Eigi þetta að takast verða allir aða taka höndum saman, ekki bara aðilar vinnumarkaðs, heldur einnig ríkisstjórnin og bankarnir. Hingað til hefur ríkisstjórnin ekki virt óskir um ábendingar og viðræður eins og margoft hefur komið fram.

Þetta verður ekki framkvæmanlegt án þess að settar verði nýjar leikreglum með endurnýjun í röðum stjórnmálamanna.

laugardagur, 17. janúar 2009

Verðtryggingarófétið

Hún hefur vafist fyrir mörgun verðtryggingin og hvaða tilgangi hún þjónar. Margir hafa afgreitt hana á afskaplega barnalegan hátt eins og Guðmundur Ólafsson komst að orði í viðtali vikunnar.

Vafalaust hafa nokkrir fréttamenn og spjallþáttastjórnendur fengið þar smá fiðring í magann, enda umfjöllun þeirra um þetta mál gjörsamlega út úr korti. Þar því hefur verið haldið fram að verðtrygging sé einhver uppfinning starfsmanna stéttarfélaga.

Hér er til viðbótar ágætis útskýring á þessu fyrirbæri.

fimmtudagur, 15. janúar 2009

Nú eru það íslenskir launamenn

Alltaf finnast einstaklingar sem nýta sér slaka stöðu annarra til þess að hagnast sjálfir. Öll munum við íslendingana sem stofnuðu starfsmannaleigur og nýttu sér slaka stöðu Austur-Evrópu manna og þennsluna hér til þess að hagnast.

Fluttu þá hingað, stungu þeim inn í lakar vinnubúðir og seldu þá út á iðnaðarmannatöxtum. En greiddu þeim svo verkamannalaun sem voru greidd í heimalandi viðkomandi, sviku þá að auki oftast um réttindi og stungu mismuninum í vasann.

Þetta var ákaft stutt af íslenskum frjálshyggjumönnum og fóru þeir hamförum í að níða niður starfsmenn íslenskra stéttarfélaga, þegar þeir voru að reyna lagfæra stöðu hinna erlendu starfsmanna.

Frjálshyggjumenn hafa haldið því fram og það ætti að greiða viðkomandi þau laun sem tíðkast í heimalandi, ekki þar sem vinna fer fram. Margir bentu á að þetta væri sama og setja alla launaþróun í hraðlest til lægstu kjara í Evrópu.

Sjálfstæðisflokkurinn sendi sem fulltrúa Íslands á þing Efnahagsbandalagsins og greiddi hann atkvæði með því að þessu fyrirkomulagi. Þessi maður er nú ráðherra. Hans helsti stuðningsmaður var ætíð lögmaður þeirra fyrirtækja, sem voru að reyna að svíða hina erlendu verkamenn. Og skrifaði greinar í Moggann þar sem hann kallaði alla sem ekki voru þeim sammála í pólitískum skoðunum “Thalibana”

Nú eru íslenskir launamenn komnir í þessa stöðu. Og svo kaldhæðið sem það nú er, þá er það vegna athafna og stjórnunar frjálshyggjumanna á íslensku efnahagslífi.

Hér eru partar úr bréf frá rafiðnaðarmanni sem er að fjalla um stöðu íslenskra rafiðnaðarmanna í Noregi þessa dagana :

Sæll Guðmundur.
Mér datt í hug að segja frá því að ég varð vitni að því að verið er að senda rafvirkja, til Noregs til að vinna með norskum rafvirkjum. ................

Ég efast ekki um að farið verður að lögum, en launin hjá þessum mönnum verður helmingur af launum Norskra heimamanna. Þeir eiga að vinna eftir íslenskum kjarasamningum og launin í íslenskum krónum..............

Nú eru íslenskir rafvirkjar í Noregi í sömu stöðu og pólskir menn voru á Íslandi.


Er þetta ekki starfsmannaleiga sem er núna að níðast á íslenskum launamönnum?

Vextirnir allt að drepa

Hinir himinháu stýrivextir Seðlabankans eru í dag 15% hærri en í nágrannalöndum okkar. Seðlabankar annarra landa keppast við að lækka vexti til þess að hamla gegn samdrætti, en hér er ekkert gert þó svo samdráttur hér sé kröftugri.

Vaxta kostnaður heimila og fyrirtækja hér er almennt yfir 20% og fjármögnun fyrirtækja að færast yfir í dýr skammtímalán. Þetta veldur því að fyrirtæki sem jafnvel eru með prýðilegan rekstur eru að fara í þrot.

Þetta þýðir vitanlega háa innlánsvexti og hlýtur að vera umhugsunarefni hversu mikla vexti við erum að greiða út úr íslenska hagkerfinu af hinum gríðarlegu miklu fjármuna í eigu „erlendra aðila?“ sem er hér í m.a. Jöklabréfum. Það er svo spurning hvort það séu í raun erlendir aðilar sem njóta góðs af þessu.

Sé litið til þess sem upp er koma á hverjum degi velta margir því fyrir sér hverra hagsmuna sé verið að gæta. Óneitanlega hafa margir hrokkið við þegar viðskipta- og fjármálaráðherrarnir eru allt í einu farnir að mæta á fundi í nýju bönkunum og farnir að skipta sér af ráðningu nýrra bankastjóra. Þeir vel þekktir af því að fara alls ekki eftir reglunum við skipan dómara og fl.

þriðjudagur, 13. janúar 2009

Ískaldur veruleiki

Á undanförum árum hefur ítrekað komið fram í viðtölum við forsvarsmenn valdhafanna og eins auðmanna að þeir hefðu ekki ekki trú á gildi þess að Ísland gengi í ESB. Þeir hafa haldið því að sambandið myndi takmarka möguleika Íslendinga og þann sveigjanleika sem Ísland hefði.

Við gætum náð fríverslunarsamningum og hefðum möguleika á því að verða fjármálamiðstöð eins og Lúxemborg eða Ermasundseyjar. Því var haldið að almenning að sá möguleiki væri ekki til staðar ef Ísland væri í ESB.

Hagdeild ASÍ ásamt viðurkenndum hagfræðingum, innlendum og erlendum, sýndu fram á umtalsverðan ávinning fyrir íslensk heimili og fyrirtæki, ef gengið væri í ESB og skipt um gjaldmiðil. Vaxtastig myndi lækka og þá sérstaklega af langtímalánum og til boða stæðu mun hagstæðari kjör á íbúðalánamarkaði en nú er. Neysluverð myndi lækka vegna þess að fákeppni yrði brotin á bak aftur auk þess að evran myndi lækka viðskiptakostnað fyrirtækjanna.

Hagdeildir aðila vinnumarkaðsins sýndu fram á það á síðasta ári að krónan væri töluvert of hátt skráð og sú staða sem forsvarsmenn stjórnvalda héldu að almenning væri byggð á röngum forsendum.

Í dag blasir við ískaldur veruleikinn eins rakinn var á fundinum í gærkvöld og ekki síður í síðdegisútvarpinu og svo í Kastljósinu. Það hefur oft verið eftirtektarvert hvernig þáttargerðarmenn RÚV í síðsdegisútvarpi hafa hanterað umræðu um efnahagstefnu stjórnvalda, örvæntingarfull framíköll þáttagerðarkonu til þess að reyna að stoppa Guðmund Ólafsson þegar hann rakti skelfingarferil stjórnvalda og ekki síst Seðlabankastjórnar sagði allt um þessa stöðu.

Í stað þess að leggja upp áætlun um hvernig tekið væri á vandanum hafa stjórnvöld ætíð komist upp með að svara með innistæðulausum klisjum. Það voru stjórnvöld og þeirra helstu spunamenn sem gengu erinda auðmanna. Þetta er rifjað upp í nánast öllum fjölmiðlum þessa dagana. Ekkert bólar á afsögnum í Seðlabanka, Fjármálaeftirliti eða þeim ráðherrum, sem hafa verið staðnir að því ganga frekar erinda fárra auðmanna en almennings.

Margt að af því sem beint hefur verið að forsvarsmönnum og starfsmönnum ASÍ og stéttarfélaga innan þeirra samtaka, í tilsvörum á gagnrýni þeirra og ekki síður meðhöndlun nokkurra fréttamanna og spjallþáttargerðamanna, sýna svo berlega á hverjir það eru sem í raun hafa gengið erinda auðmanna.

Uppbygging atvinnulífs

Ráðherrar hafa ítrekað sagt að grundvöllur uppbyggingarinnar sé falinn í að tryggja að hjól atvinnulífs stöðvist ekki. Tryggja verði atvinnu og bæta kjör. Margar ræður hafa verið fluttar um hversu mýmörg tækifæri Íslendingar eigi. En ekkert kemur fram af þeirra hálfu og fyrirtækin eru að verslast upp.

Það er borin von að atvinnulíf og heimili geti þrifist við þau vaxtakjör sem hér ríkja. Fyrirtækjunum er lífsnauðsyn að hafa aðgengi að fjármagni. Sama gildir um sprotafyrirtæki þau þurfa aðgengi að þolinmóðu fjármagni og umhverfi sem veitir þeim rými til þess að komast yfir þróunarskeið.

Þrákelkni stjórnvalda undanfarinna ára í að halda í krónuna hefur leitt til mikils vanda meðal sprotafyrirtækjanna. Mörg þeirra munu flytja úr landi verði ekki stefnubreyting hjá stjórnvöldum og þeim mun fylgja velmenntað ungt fólk. Sú efnahagstefnu sem fylgt hefur verið hefur leitt okkur sífellt lengra inn á þá braut að vera hráefnisframleiðandi. Einhverra hluta vegna virðist eiga að halda áfram á þeirri leið.

Lífeyrissjóðirnir hafa síðasta áratug árangurslaust kallað eftir því að stjórnvöld breyti lögum um fjárfestingar sjóðanna. Ef þetta væri gert skapaði það forsendur fyrir virkari aðkomu lífeyrissjóðanna að endurreisn atvinnulífsins. Núverandi lög þvinga fjárfestingarstefnu sjóðanna um of í áhættufjárfestingar. Sýnt hefur verið fram á að töp lífeyrissjóðanna hefðu verið töluvert minni ef stjórnvöld hefðu farið að óskum lífeyrissjóðanna.

Þar má benda fyrst og síðast á lög um forsendur í áhættumati í eignastýringu lífeyrissjóðanna. Gera þarf lífeyrissjóðum kleift að fjárfesta í fasteignum eða fasteignafélögum, t.d. eignum sem leigðar eru einstaklingum og fyrirtækjum eða sveitarfélögum og ríkinu. Það er góður fjárfestingarkostur fyrir langtímafjárfesti eins og lífeyrissjóði að eiga fasteignir.

Í þessu sambandi mætti benda á hversu mörg störf það skapaði ef uppbygging Landspítalans yrði sett á fullt í þessum mánuði.

mánudagur, 12. janúar 2009

Benedikt Gröndal um "Storhedsvanvid" fyrir 110 árum

Benedikt Gröndal skrifaði Valtý Guðmundssyni fyrir nákvæmlega 110 árum og ræðir m.a. stjórnmál, ástandið í samfélaginu, flóttann til Ameríku, sem Benedikt var afar andsnúinn.

Benedikt skrifaði : "... það er aðalgrundvöllurinn fyrir allri okkar existens að geta haldið fólkinu í landinu, en nú er það orðið ært og örvita af óróa og tryllingu – og hvað hefur mest valdið þessu?

Hvað nema blöðin, sem alltaf prédika fyrir fólkinu allan þremilinn og þykjast vilja "koma landinu upp"!

Aldrei er það álitið nóg að mönnum líði vel, nei, heldur að "keppa við aðrar þjóðir" –gufuskipaflota, botnvörpur, raflýsing, fossa-afl, járnbrautir – en svo á ekki að miða við Dani eða Norðmenn, þeir eru alltof litlar þjóðir, heldur við Englendinga og Ameríkumenn.

Íslendingar þjást af "Storhedsvanvid", þess vegna er allt eins og það er."

Bréfið er skrifað 8. janúar 1899 og er að finna í einni sendibréfabók Finns Sigmundssonar, Gömul Reykjavíkurbréf (1965), bls. 264.

sunnudagur, 11. janúar 2009

Tengslasamfélagið

Carsten Valgreen fyrrum yfirhagfræðingur Danske Bank skrifar mjög athyglisverða grein í Fréttablaðið í dag. Hann segir að rót kreppunnar á Íslandi liggi í miklum og þéttum innbyrðis tengslum í okkar litla þjóðfélagi. Þjóðin hegði sér á ýmsan hátt eins og fjölskylda. Í því geti falist styrkleiki á erfiðleikatímum eins og nú en hættulegur veikleiki við aðrar aðstæður eins og á góðæristímanum.

Valgreen varð þjóðkunnur á Íslandi snemma árs 2006 þegar hann sagði umbúðalaust sannleikann um að íslenskt viðskiptalíf og efnahagur stæði á brauðfótum. Davíð og félagar áttu vart orð til þess að lýsa vanþóknnun sinni á yfirlýsingum Valgreen.

Í grein Valgreen í gær kemur í raun ekkert nýtt fram. Allt það sem hann segir hefur komið fram íí hverjum pistlinum á fætur öðrum frá hagfræðingum og áhugamálum um þessi mál. Ég vill t.d. benda enn einu sinni á aðvaranir hagdeilda aðila vinnumarkaðs allt síðasta ár og svo fyrri hluta þessa árs og kröfur til stjórnvalda um fyrirbyggjandi aðgerðir til þess að lækka flug hagkerfisins og taka á stærð bankanna og ofurlaunum. Það var gríðarlegur þungi í þessum aðvörunum og ekki síður ásökunum á stjórnvöld um aðgerðarleysi fyrstu mánuði þessa árs.

Öll viðbrögð stjórnvalda voru á sama veg og viðbrögð Davíðs við ummælum danskra efnahagsfræðinga. Sama gilti um fylgisveina þeirra, hæðst var að þeim sem settu fram þessar aðvaranir. Á vissan hátt spilaði stór hluti þjóðarinnar með. Hún herti á hrundansinum og hún tók í engu mark á þessuma aðvörunum.

Nú má spyrja hvort það sé sama fólkið sem hvað harðast gengur fram í að gagnrýna þá okkar innan ASÍ sem gengum hvað harðast fram í að gagnrýna stefnu og viðbragðaleysi stjórnvalda. Ég minnis t.d. ekki viðbragða með okkur frá þeim sem hvað harðast skjóta í daqg á okkur í verkalýðshreyfingunni, ég minnist frekar hins gagnstæða. Við værum öfundsjúkt úrtölufólk og stæðum í vegi fyrir þróuninni. Það var svo sem ekki tekið undir þetta í öllum samtökum launamanna. En það breytir ekki þeirri staðreynd að umtalsverður meiri hluti hreyfingarinnar gerði það.

Ég fjallaði t.d. í nóvember 2007 um ráðstefnu sem skipulögð var af heimastjórnarklíkunni þar sem sjálfur "Houdini hagfræðinnar" Arthur Laffer var fengin til þess að koma. Hann er heimsþekktur fyrir "Voodoo Economics", sem fjalla um hvernig við græðum öll á því að skattar á fyrirtæki og fjárfesta verði lækkaðir. Laffer heldur því fram að ef skattprósenta á tekjur einstaklinga væri 0% fengi ríkissjóður engar tekjur. Ef skattprósentan væri 100% af tekjum, þ.e. ef launþeginn fengi ekkert fyrir vinnu sína, hverfa tekjur ríkissjóðs.

Þessari stefnu var beitt í Bandaríkjunum eftir 1980 og leiddi til þess að allur afrakstur hagvaxtarins rann til tekjuhæsta hópsins og fjárfesta. Verkafólk sat uppi með kauplækkun og lengdi vinnutíma sinn í kjölfarið til að vinna gegn kjaraskerðingunni. Nýlega var sýnd kraftmikil kvikmynd um hvernig kerfið virkar í draumalandinu, varla vilja íslendingar komast þangað með sitt heilbrigðiskerfi.

En frjálshyggjan er klók og fljót að sjá út leiðir til þess að nappa góðum bitum og sérréttindum og leggur töluvert á sig að verja sína stöðu. Á undanförnum áratug nálguðumst við íslendingar þá stöðu sem tókst að skapa í Bandaríkjunum með Houdini hagfræðinni og fjarlægðumst norræna velfrðamódelið. Fámennur hópur hrifsaði til sín stærri hluta af þjóðarkökunni á meðan fátækum fjölgaði. Þetta var falið í meðaltölum stjórnvaldsins. Skattalækkanir náðu ekki til þeirra sem fátækastir eru en skilað sér ríkulega til þeirra sem mest hafa.

Ég minnist þess ekki að tekið hafi verið undir þessi orð mín af forsvarsmönnum mótmæla. Nú er ég ekki að draga úr gildi mótmælanna og hef ítrekað lýst yfir fullum stuðning við þau hér á síðunni ásamt því að vera ræðumaður þar. En mér finnst fólk verði að vanda sig betur til þess að missa ekki marks og glata tiltrúnni.

Það er nefnilega það sem er farið að bera á og vinur minn Hörður Torfa hefur þurft að grípa inn í þróunina og eins hafa fleiri og fleiri lýst yfir andúð á sumu af því sem fram kemur í nafnlausum athugasemdum og eins og athöfnum grímuklæddra manna.

föstudagur, 9. janúar 2009

Mótsagnir um lífeyrissjóði

Hún er oft svo ótrúlega mótsagnarkennd umræðan um lífeyrissjóðina. Nokkrir ræðumenn hafa að undanförnu risið upp og skammast út lífeyrissjóðina fyrir slappa ávöxtun. Þetta sé jú væntanlegur lífeyrir sjóðfélaga og ávöxtun megi ekki fara niður fyrir 3.5% svo lífeyrissjóðirnir eigi fyrir skuldbindingum og þurfi ekki að skerða réttindi.

Þegar lántökur eru svo teknar á dagskrá þá rísa sömu menn upp og skammast út hvers vegna í ósköpunum lífeyrissjóðirnir vilji nú ekki lána fjármuni á neikvæðri ávöxtun. Reyndar eru til viðbótar áberandi í þessum hluta umræðunnar einstaklingar sem aldrei hafa greitt í lífeyrissjóði. Þeir vilja ráðstafa sparifé annarra til þess að greiða niður eigin skuldir. Einnig má spyrja af hverju eru þessir menn að fjalla um hvernig eigi að ráðstafa sparifé annarra.

Steininn tekur svo úr þegar stjórnmálamenn eins og t.d. Óskar Bergsson skammast í gær út í lífeyrissjóðina fyrir að vilja ekki lána í verkefni Reykjavíkurborgar á neikvæðri ávöxtun (4% í 18% verðbólgu) og stillir þannig upp að það sé við lífeyrissjóðina að sakast að börn komist ekki í skóla!! Ég held að þetta sé með því lægsta sem stjórnmálamenn komast, eru þau reyndar orðin lág þrepin sem þeir hafa stigið og ekki síst í borgarstjórninni.

Flestir vita að stjórnmálamenn og starfsmenn þeirra hafa komið því þannig fyrir að ávöxtun þeirra lífeyrissjóða skiptir engu máli. Lífeyrir og bætur úr þeirra lífeyrissjóð er tryggður úr ríkissjóð. Þeir settu lög um að ríkisjóður leggi árlega fram nokkra tugi (farið að nálgast hundrað) milljarða kr. í lífeyrissjóð þeirra til þess að bæta upp neikvæða ávöxtun.
Þeir hinir sömu þ.á.m. Óskar og hans félagar settu lög um að ef almennu lífeyrissjóðirnir eiga ekki fyrir skuldbindingum verða þeir að skerða réttindi.

Í lokin þá vill ég enn einu sinni endurtaka af gefnu tilefni að allavega lífeyrissjóður rafiðnaðarmanna hefur margoft lýst því yfir að hann sér tilbúinn að fjármagna með langtíma lánum byggingar íbúða fyrir aldrað fólk og þá sem þurfa séraðstöðu. Vandamálið er hins vegar að stjórnmálamenn hafa ekki fengist til þess að tryggja rekstrarstöðu þessara bygginga. Og reyndar er það þannig að það er til ónotað húsnæði vegna þess að stjórnmálamenn hafa ekki haft fjármagn til rekstursins.

Stjórnmálamenn og aðrir (t.d. fjölmiðlamenn) sem fjalla um lífeyrissjóði verða að átta sig á þeirri staðreynd að það eru til þrenns konar lífeyrissjóðir í landinu og það er útilokað að tala um þá alla í einni hendingu.

Fyrst : Lífeyrissjóður opinberra starfsmanna þar sem stjórnmálamenn skipa helming í stjórnarmanna og samtök opinberra starfsmanna sem kjósa hinn helming. Þetta er stærsti sjóður landsins og er rekinn á ríkisábyrgð.

Annað : Lífeyrissjóðir bankanna. Þar eru það framkvæmdastjórnir bankanna sem skipa alla stjórnarmenn. Undanfarnar vikur hefur það reynst mörgum erfitt að átta sig á hvar þeirra fjármunir eru. Starfsmenn bankanna fóru hamförum og fengu almenna launamenn með allskonar gylliboðum til þess að fara úr almennu sjóðunum yfir í bankasjóðina. Engum stjórnmálamanna datt í hug að kanna hvaðan þessum sjóðum kom rekstarfé til auglýsinga upp hundruð milljóna eða hvert peningar þeirra fóru. En þeir hirtu t.d. margra mánaða inngreiðslur af sjóðsfélögum til þess að greiða þennan kostnað.

Og svo : Almennu lífeyrissjóðirnir sem starfa undir mjög ströngum lögum frá stjórnvöldum og gríðarlegu umfangsmiklu eftirliti opinberra stofnana. Þar kjósa sjóðsfélagar helming stjórnarmanna og SA tilnefnir hinn helminginn. Þessir sjóðir eru ekki ríkistryggðir, en þar eru aftur á móti fjármunir sem stjórnmálamenn ætla sér að nýta til allra hugsanlegra hluta, án þess að tryggja endurgreiðslu.

Tilvist sjóða yfir höfðuð, þar á meðal lífeyrssjóða, byggist á því að ávöxtun sé í samræmi við áætlanir. Ef hún er ekki til staðar gufa sjóðir upp, lífeyrissjóðir sem og aðrir og hverfa. Og þá eru ekkert eftir til þess að lána. Í þessu sambandi má minna á hvernig allt sparifé og allir lífeyrissjóðir gufuðu upp og hurfu fram til ársins 1982 þegar kerfinu var breytt.

fimmtudagur, 8. janúar 2009

Grillum almenning - meira um steikingu skulda

Útgerðarmenn seldu tekjur framvirkt á tilteknu gengi og spiluðu þar með á krónuna. Þegar aðilar í útflutningi gera þetta einhliða á tekjuhliðinni en láta lánahliðina standa óvarða, er verið að taka einhliða stöðu í skiptasamningi til að græða á því sérstaklega umfram framlegðina af rekstrinum, og þar með er verið að rjúfa þá náttúrulegu vörn sem er í fjárhagslegri uppbyggingu fyrirtækisins.

Sjávarútvegsfyrirtæki þurfa í sjálfu sér ekki gengisvarnir – þær eru til staðar í rekstrar- og efnahagsreikningi fyrirtækjanna. Ef krónan fellur hækka lánin en tekjurnar hækka líka.

Afleiðusamningurinn setur þak á hversu mikið tekjurnar geta hækkað (líka lækkað) en útgerðarmenn hugðu ekki að því að verja lánahliðina, sem samkvæmt planinu átti að lækka en því miður hækkaði bara.

Ef þeir hefðu t.d. tekið sömu ,,varnir‘‘ á lánahliðinni og þeir voru með á tekjuhliðinni (og þar með í raun nettað hvor aðra út) hefðu þeir haft hagnað á skuldahlið á móti tapi á tekjuhliðinni. Afleiðingin af þessari stöðutöku þeirra er að þeir tapa á þessu – tapa á braskinu.

Það er hægt að hafa skilning á því að fyrirtæki sem var með erlend langtímalán sé ,,tæknilega‘‘ gjaldþrota þar sem lánin reiknast núna mjög há og þurrka þar af leiðandi út eigið fé, en fyrirtækið engu að síður greiðsluhæft þar sem það hefur jákvætt sjóðsstreymi og getur staðið við allar sínar skuldbindingar, eigi að sigla í gegnum þennan ólgu sjó.

Hvorki bankar né aðrir munu tapa á slíkri ákvörðun. Það að ,,redda‘‘ þeim fyrirtækjum sem voru að braska með eigið fé fyrirtækjanna með einhliða stöðutökum og jafnvel rjúfa innbyggða áhættuvörn eru að sönnu gjaldþrota – bæði fjárhagslega og siðferðilega.

Ég stend sem sagt að fullu við það sem ég sagði.

Jafnræði á meðal skuldara er einfaldlega stjórnarskrárvarin krafa. Ef einn aðili fær niðurfellingu á kröfum þá munu aðrir vitanlega óska eftir því sama. Ef forsendan er vitlaust gengi, eins og Einar ráðherra talaði um, þá gildir það vitanlega um öll viðskipti sem byggja á gengisskráningu ISK. Nema að hann hafi verið að meina (eða túlka með pólitískum gleraugum) að þetta gengi útvegsmanna sé sérstaklega vitlaust.

Stór neikvæð staða vegna afleiðuviðskipti útgerðamanna bendir til þess að framvirku viðskiptin hafi verið (Sala EUR – Kaup ISK). Þegar krónan byrjar að veikjast verður að gera upp slíka samninga með mjög miklu tapi. Þetta er svipað og hjá lífeyrissjóðunum sem eru með stórar neikvæðar stöður á slíkum samningum.

Útgerðarmenn voru að gambla með krónuna (efnahagsreikninginn) og töpuðu einfaldlega á því og þar með tapað fyrirtækinu!

Ég ætla mér ekki að borga þann reikning og ég veit að ég mæli einnig fyrir munn barna minna, sem sum hver eru að drukkna í afborgunum af lánum sem þau tóku þegar þau komu heim úr háskólanámi og eru að reyna að koma sér fyrir í íslensku samfélagi.

En það eru fírar sem vilja strika út sínar skuldir og bæta þeim við skuldir almennings. Það er nóg komið af þannig þjóðfélagi. Þjóðfélagi frjálshyggjunnar með ótakmörkuðu frelsi valdhafanna til að skuldsetja almenning og hrifsa til sín auðlindir samfélagsins og þá um leið arðinn af þeim. Hingað til hefur það verið gert með því að valdhafarnir hafa haft frelsi til þess að fella krónuna og þá um leið lækka kaupmátt og og bæta í verðbólguna. Þeir berjast nú um hæl og hnakka til þess að viðhalda því kerfi. Það sést svo vel í ESB umræðunni

Takk fyrir aths. en það er nóg komið af þessu. Við venjulega fólkið sem borgum okkar venjulegu skuldir sem við sjálf setjum okkur í til þess að byggja upp venjulegt heimili með venjulegum tekjum viljum nefnilega líka komast af. Ekki vera þrælar frjálshyggjuliðsins.

miðvikudagur, 7. janúar 2009

Að steikja skuldirnar

Nokkrir stórtækir útgerðarmenn krefjast þessa dagana þess að skuldum þeirra vegna framvirkra samninga verði aflétt. Af hverju á að aflétta framvirkum lánum þessara fyrirtækja, en ekki annarra fyrirtækja spyrja forsvarsmenn Samtaka iðnaðarins.

Þeir útgerðarmenn sem stóðu að þessum tóku með því þátt í að „steikja krónuna“

Eiga þeir útgerðarmenn sem ekki eiga fyrir skuldum að losna við skuldirnar og fá síðan fyrirtækin afhent aftur skuldlaus?

Þessir útgerðarmenn stóðu að þessum veðmálum til þess að hagnast og voru vafalaust búnir að ná inn myndarlegum gróða á hruni krónunnar fyrir banakhrundið. En aðgerðirnar bitnuðu á íslenskum almenning og nú vilja þeir senda reikninginn til íslenskra skattgreiðenda.

Þessi útgerðarfyrirtæki eru nú í eigu íslenskra skattborgara og þau á að nýta til þess að greiða niður skuldir íslensks samfélags.

þriðjudagur, 6. janúar 2009

Frjálshyggjan misheppnuð


Í hverri fréttinni á fætur annarri er upplýst að helstu fyrirtæki skuldi milljarða króna. Hafi fengið lán hjá bönkum án nokkurra veða og allt í tjóni. T.d. eins og þær fréttir sem hafa verið að koma fram um Morgunblaðið og fjölmiðlaveldi Baugsmanna. Fermingarbarn hefði getað rekið fyrirtækin, ekkert mál einungis sótt meira rekstrarfé í bankana ef ekki er til aur. Hverjir greiða þennan rekstur þegar upp er staðið?

Í gærkvöldi kom einn af íslenskum viðskiptasnillingunum fram í Kastljósinu og baðst afsökunar á getuleysi sínu og reyndi soldið að kenna öðrum um. Allt sem hann hefur gert er hrunið og í slóð hans sitja eftir milljarða skuldir. Hann virðist aftur á móti hafa stungið spilapeningunum í eigin vasa og er orðin sterkefnaður. Býr erlendis og passar aurana sína sem hann hefur pumpað út úr íslensku efnahagslífi. Hverjir greiða þennan kostnað þegar upp er staðið?

Nú eru komin fram gögn frá Háskólanum sem staðfesta að hagvöxtur var mun meiri á tímabilinu frá 1960 til um 1980 en tímabilið eftir 1995. Frjálshyggjutímabilið stendur fyrri góðærum talsvert að baki. Hagvöxtur allra áranna frá 2003, ná ekki máli fyrri góðæranna. „Efnahagsundur“ Sjálfstæðisflokksins var byggt á gríðarlegri skuldasöfnun og sölu á eigum ríkissins. Hverjir áttu þessar eignir og greiða upp skuldirnar þegar upp er staðið?
Hvar standa þessi áður traustu fyrirtæki í dag? Landssíminn, bankarnir, Flugleiðir sem fengu ríkisaðstoð, Eimskip, öll þessi fyrirtæki eru tæknilega gjaldþrota í dag. Eignir og varasjóðir horfnir. Úr landi að því virðist.

Hvert einasta atriði sem hagfræðingar aðila vinnumarkaðs vöruðu við og hefur svo margoft verið rakið hér, er komið fram. Allan þann tíma hafa efnahagsspekingar frjálshyggjunnar ásamt ráðherrum og þingmönnum sínum virt aðvaranir að vettugi og haldið alröngum veruleika að almenning og hvatt hann til þess að taka ekki mark á aðvörunum.

Ekkert stendur eftir af „efnahagsundri“ frjálshyggjunnar. Ríkissjóður skuldsettur í botn og eigur ríkissins horfnar í útsölum til valinna vina. Heimilin riða til falls og fyrirtækin hrynja hvert af öðru.

Og forsvarsmenn Sjálfstæðisflokksins hamast við í öllum fréttatímum að lýsa því yfir, að þeir séu svo undrandi á því að til sé fólk sem vilji slíta samstarfinu við þá. Stór hluti almennings krefst afsagna ráðherranna. Hvað þarf að gerast svo þessum mönnum sé komið frá?

Hagsmunasamtök heimilanna opinn fundur 8. jan.

Opinn vinnufundur í Borgartúni 3 - þann 8. janúar 2009 kl. 20.00

Unnið er að stofnun hagsmunasamtaka heimilanna í ljósi þess efnhagsástands sem ríkir og stöðu heimilanna í landinu. Ljóst er að engin samtök hafa tekið að sér að gæta hagsmuna heimilanna í landinu á sama tíma og samtök eru til fyrir ýmsa aðra hagsmunahópa og samtakamáttur þeirra í kröfum til stjórnvalda og fjármálafyrirtækja því til staðar, s.s. eins og fjármagnseigendur, launþega, atvinnurekendur.

Undirbúnings­nefnd samtakanna hefur ákveðið að boða til opins vinnufundar og leitast við að virkja fólk til þátttöku í mótun áherslna og tilgangs þeirra. Tilgangur vinnufundarins er að skilgreina betur þær áherslur sem lagðar verða til grundvallar starfsemi samtakanna, svo sem hlutverk, markmið, nafn, lög og meginkröfur og að ræða stjórnarmyndun samtakanna.

Fyrir lok mánaðarins er áformað að halda stofnfund samtakanna þar sem m.a. verður farið yfir niðurstöður vinnufundarins, þær lagðar fram til samþykktar og stjórn samtakanna kosin. Undirbúnings­nefnd bindur vonir við að stofnfundurinn verði mjög fjölmennur og þátttakendur taki virkan þátt í að móta megináherslur samtakanna og að hann veki verðskuldaða athygli.

Samtökin munu starfa sjálfstætt og án afskipta annara hagsmunaaðila eða stjórnmálaflokka. Öllum er velkomið að leggja málstaðnum lið og eru allir áhugasamir hvattir til að hafa samband eða mæta á fundina.

F.h. undirbúningsnefndar
Ásta Rut Jónasdóttir // astry74@hotmail.com

mánudagur, 5. janúar 2009

Cracks in the crust

Eitt af því sem ég fékk sent um jólin var þessi ágæta grein úr Economist.

Þar er ábending hvernig losna megi við Mr. Oddsson, annars gæti farið svo að við þyrftum að búa við hann jafnlengi og nágranna hans á Arnarhólnum, Mr. Arnarson, eða í 1100 ár. Þeir verða þar með sama útsýni yfir hálfkarað tónlistarhúsið sakir þess að kínverska þjóðin neiti að útbúa sérstakt lán fyrir „Game Over“ þjóðina.

Tónlistarhúsið sé reyndar ágætisminnismerki um þá efnahagstefnu sem Mr. Oddsson of félagar hafi stefnt íslensku þjóðinni út í. Í raun eins afsteypa af dauðum hval í hafnarminni Reykjavíkurborgar, þar sem Mr. Oddsson hafi búið og starfað alla sína starfstíð.

AN ARTICLE FOR YOU, FROM ECONOMIST.COM -
CRACKS IN THE CRUST
Dec 11th 2008

Iceland's banking collapse is the biggest, relative to the size of an economy, that any country has ever suffered. There are lessons to be learnt beyond its shores

ATOP a hill near Reykjavik's old harbour is a bronze statue of Ingolfur Arnarson, the first Nordic settler of inhospitable Iceland. It overlooks a bunker-like building: the central bank, headed by David Oddsson, a man who more than 1,100 years later has shown similar survival skills. Before chairing the central bank's board of governors, Mr Oddsson was prime minister for more than 13 years, a record, during which time Iceland became one of the richest countries in the world. For years he was Iceland's most popular politician, privatizing most of the banking system with a Thatcherite zeal and floating the currency, the krona.

But the collapse of the krona and nationalization of the country's three largest banks in early October, which forced the country to secure help from the IMF, have left Iceland's economic miracle and Mr Oddsson's reputation in tatters. For weeks, protesters have gathered in Reykjavik's main square each Saturday calling for his removal from office. On the chilly afternoon of December 1st a few hundred of them, shouting "David out, David out", gathered at the Arnarson statue and marched down the hill to the central bank. In the lobby, they were met by riot police, who eventually defused the situation.

Such protests are almost unheard of: the only previous mass demonstrations to shake the country, against NATO membership, took place in 1949. But the economic crisis has exposed deep fissures in the nation of 300,000 people. In the same building the next day, Mr Oddsson barely smiles when he tells THE ECONOMIST, "They say that the only way to get to paradise without dying is to be governor of a central bank. This has not been true in Iceland."

So far, such protests are the most tangible evidence of the troubles besetting Icelandic society. The landscape bears scars too. From the central bank, the view of snow-dusted Mount Esja across the estuary is blocked by a half-finished grey edifice, sprawled like a dead whale across the harbour-front. This was to have been Iceland's most spectacular building, crowning 15 years of economic growth: a concert hall facing out to the North Atlantic, covered in glass prisms imported from China meant to resemble glaciers and lava. But since the collapse of the bank that led the funding, construction has almost ground to a halt.

Likewise, blocks of half-built luxury flats stand half-finished along the waterfront. Instead of glass prisms, Icelanders are looking forward to a different Chinese cargo in the dying weeks of the year: fireworks. They set off more per person each new year than any other country in the world. Such is the demand that the Chinese manufacturers are making a special loan to Icelanders to buy them, according to a local newspaper.

Almost no other private creditor is lending them anything; Iceland has
turned instead to the IMF. In November the fund agreed to a $2.1
billion two-year standby programme, which was supplemented by promises
from Nordic countries and Poland, as well as Britain, the Netherlands
and Germany. The package will be worth $10.2 billion in total--more
than half of Iceland's GDP.




The IMF calls the collapse of the banks the biggest banking failure in history relative to the size of an economy. In 2007 Iceland's three main banks made loans equivalent to about nine times the size of the booming economy, up from about 200% of GDP after privatization in 2003 (see chart 1). Only about one-fifth of those loans were in kronur; interest rates on these were punitively high. Ordinary citizens instead borrowed from their banks in cheaper currencies such as yen and Swiss francs to buy even the most modest homes and cars.




But after the banks collapsed in early October, the currency slumped and domestic interest rates rose sharply (see chart 2). Exchange controls imposed in the heat of the crisis have severely restricted access to hard currency. Initially, there were fears for the payments system. But after an initial panic, credit and debit cards appear to work normally again; Reykjavik's stores are filled with Christmas shoppers, and restaurants still serve up expensive delicacies such as grilled whale.

But people are mostly living on borrowed time as well as borrowed money. The IMF programme forecasts that the economy will contract by 9.6% next year. Many workers have been laid off but, thanks to Iceland's labour laws, they have three months' notice, so the impact is not yet being fully felt. Many young Icelanders, who have never known unemployment, are expected to lose their jobs as businesses shut down. Vilhjalmur Egilsson, head of the Confederation of Icelandic Employers, the main business organization, says that "corporate Iceland is technically bankrupt" because of its foreign debts. It is unable to refinance loans because the new capital controls mean all credit to the country has dried up.

With unemployment rising, citizens talk openly about defaulting on their home and car loans (those flashy Range Rovers are now known dryly as "Game Overs"). Principal payments on local-currency mortgages are indexed to inflation, which is expected to be 20% this year. Because of this and their foreign-currency exposure, many households' debts have doubled in krona terms. Sirry Hjaltested, a pre-school teacher who joins in the Saturday protests, says that her grocery bills have gone up by half in a few months. She blames the country's reckless bankers for the ruin of the economy. "If I met a banker," she says, "I'd kick his ass so hard, my shoes would be stuck inside."

The scale of what confronts Ms Hjaltested and other Icelanders is only just becoming clear. According to the IMF, the failure of the banks may cost taxpayers more than 80% of GDP. Relative to the economy's size, that would be about 20 times what the Swedish government paid to rescue its banks in the early 1990s. It would be several times the cost of Japan's banking crisis a decade ago.

Abroad, there are also stark lessons from Iceland's woes. There may also be important consequences for cross-border banking regulation all over Europe. Iceland's tale exemplifies why central banks around the world are spraying liquidity at the financial system to keep banks in business. When liquidity vanishes, banks quickly become insolvent. When that happens to foreign-currency loans and deposits, the central bank's abilities as lender of last resort are tested, and Iceland shows how quickly a small country with a thinly traded currency can fail that test.

Iceland was uniquely overextended, but other countries, too, have big banking industries relative to the size of their economies supported by lots of borrowing. Britain is one. Willem Buiter of the London School of Economics, who prepared a report on Iceland earlier this year that gave warning of the risk of disaster, asked in a recent, widely discussed blog[1] whether London could be "Reykjavik-on-Thames".

A GEYSER UNDER LONDON
The balance-sheet of Britain's banking system, at 450% of GDP, was half the (relative) size of Iceland's at the end of last year. But that is still high. Like Iceland, Britain does not have a global reserve currency, such as the dollar or the euro, to draw on if it needs to act as lender of last resort. Its net foreign-exchange exposure is nil, but Iceland was in a similar position, and its banks have not been able to liquidate foreign assets to cover their foreign debts.

Mr Buiter acknowledges that Britain has access to currency swap lines from the world's biggest central banks, which would help it prevent a run on the banks. But he argues that the cost of this insurance will make London less competitive as a global financial centre. He thinks this makes a good case for Britain to adopt the euro. Among larger European countries, he says, the British government's exposure to its banking sector is by far the highest. "Switzerland, Denmark and Sweden are in a similar pickle," he adds.

Iceland found, to its peril, that its access to the leading currencies was not as sure as it had hoped. In fact, as troubles mounted, it succeeded only in securing swap lines worth EURO1.5 billion ($2.3 billion) from three Nordic central banks in May, hardly enough to prevent a run on its banks. The Federal Reserve, the European Central Bank (ECB) and the Bank of England all rejected Iceland's requests, stating, according to the Central Bank of Iceland, that the Icelandic financial system was too large relative to the size of the economy for plausible swap lines to be effective. They also wanted Iceland to talk to the IMF, which the authorities appear to have done only half-heartedly at first.

Why were the foreigners so tight-fisted? A big problem was the increasingly rickety business model of Iceland's two largest banks, Landsbanki and Kaupthing Bank. Because Iceland is so small, the banks could attract only paltry sums in domestic deposits, which made them overly reliant on international capital markets. But in 2006, in what one of their chief executives describes as a stroke of genius, they hit upon the idea of creating internet accounts to attract foreign deposits, using the cost savings from online banking to offer higher interest rates to savers. Their strategy was so successful that soon they were sucking deposits away from bricks-and-mortar banks across Europe.

Financial officials in several countries say it became clear early this year that these online banks might pose a systemic threat across the region. Landsbanki, for example, had used Iceland's membership of the European Economic Area (which gives countries access to the European single market without having to join the European Union) to develop its online banking presence. Under the EEA's "passport" system, it could set up bank branches abroad that were supervised from Reykjavik, notably its internet operations in Britain and the Netherlands, called Icesave[2].

But as Icesave grew, European authorities realized that Iceland's coffers were far too small to provide deposit insurance to savers, and that its central bank lacked reserves to act as a credible lender of last resort in the case of a run. The British authorities pressed Landsbanki to create a subsidiary in London that would be supervised by British banking authorities, as its compatriot, Kaupthing, had done. It never did. When Landsbanki collapsed in October, the country ended up owing $8.2 billion to foreign internet depositors of its banks, an amount almost half the size of Iceland's entire economy.

At the time, other big cross-border banks, such as Fortis, a Benelux bank, and Dexia, a Belgo-Dutch bank, were in deep trouble, and there were growing concerns among European officials that a country could be overwhelmed if it was home to a big international bank that failed. Landsbanki made this fear into reality. Partly as a result of the Iceland fiasco, the British government has written to the European Commission seeking urgent consideration of improvements to legislation of cross-border banking in the EEA, including better ways of protecting depositors in branches of foreign banks.

FOREVER IN YOUR DEBT
In Iceland there are still many misgivings about repaying the huge debts incurred, as there are about other aspects of the IMF programme. A report in MORGUNBLADID, a national newspaper, claimed that relative to Iceland's size, the debt to Icesave depositors is bigger than the reparations demanded of Germany by the Treaty of Versailles. Mr Egilsson of the employers' confederation has written to the IMF's local boss in Iceland urging him to scrap what he describes as ruinous capital controls.

In his unassuming whitewashed offices near the central bank, Geir Haarde, the prime minister, appears sympathetic to some of these concerns. "There is still a lot of legal argumentation saying we should not pay" the debt to Icesave depositors, he says, though he stresses that his government has agreed to reimburse them.

He suggests that the government also thought long and hard before turning to the IMF. Already the country is chafing under interest rates that were pushed up by six percentage points to 18% during talks with the fund. "The interest-rate policy is probably the most difficult part for Icelanders to accept and understand," he says. He hopes that rates will start to fall quite quickly early next year, but knows the IMF is concerned about a premature relaxation of monetary policy. "We will need to do it in a very careful way. [But] we have had high interest rates here for a long time and people are tired of them."

The status of the nationalized banks is another sore point. After being seized by the government (Kaupthing was given an unhelpful shove into bankruptcy when the British government put its London subsidiary into administration), they have defaulted on their huge international liabilities. These have been placed into "old banks", while local-currency deposits and loans are in "new banks" that are meant to restore a semblance of normality to Iceland's financial system. However, even the new banks have written off about 50% of their loans, implying that they do not expect that portion to be repaid. With interest rates as high as they are, and principal payments indexed to inflation, Jon Jonsson, an Icelandic international banker, says the solvency of even the new banks remains in doubt.

Mr Haarde says one possible solution is to hand the banks over to their biggest foreign creditors. Talks are under way with some, such as Germany's Bayerische Landesbank, he says. (On December 1st the German bank announced huge job cuts and said it would receive about EURO30 billion of state support, partly because of its losses in Iceland. It is not keen to take over an Icelandic bank.)

The key to stabilizing Iceland will be the currency, and here the responsibility falls most heavily on Mr Oddsson. In recent days the krona has shot up in value against the euro, partly because the central bank has eased the controls on inflows of foreign exchange. But capital outflows are still restricted and there are growing fears among business people that the capital controls will drive the last vestiges of foreign investment out of Iceland.

It is also clear, however, that lifting the controls too quickly may lead to huge capital flight. Mr Oddsson makes little attempt to conceal his disquiet over these matters. Capital controls are "not a line taken from the Bible," he says. "They were the recommendation of the IMF. It was the government's call and after it was done we supported it." That hardly amounts to a ringing endorsement.

The currency is also where the politics of the crisis are likely to prove most troublesome. It is not just left-wing agitators who blame Mr Oddsson for the crisis. (Ever the politician, he expresses sympathy, saying the protests "describe a huge disappointment of the people".) He has regularly tussled with members of the country's business elite and the large parts of the media that are owned by Baugur, Iceland's most prominent international firm. In an impassioned speech to Iceland's Chamber of Commerce last month, he urged the police to investigate the activities of bank executives. One Icelandic firm had debts of 1 trillion kronur ($5.3 billion) to the three big domestic banks, more than all the banks' equity combined, he said. "The Central Bank of Iceland should probably place dead last on the list of those in need of investigation," he declared.

The bankers, in turn, blame him for almost everything, especially the blundered rescue of Glitnir, the smallest of the three banks, in late September, which turned a private-banking crisis into a sovereign-debt one. He has been criticized for his handling of the overvaluation of the krona, which caused all manner of unhealthy speculation. He is also accused of overlooking the inadequacy of the central bank's lender-of-last-resort facility.

AN ANSWER ACROSS THE SEA
Whatever the merits of these arguments, the blame game complicates a debate which some consider crucial to Iceland's attempts to escape from its crisis: a move towards adopting a hard currency, specifically the euro. The nationalistic Mr Oddsson, who has spent his working life in Reykjavik, is thought to be against this. (He dismisses the euro zone as a "Shangri-La".) Iceland's international business people, buoyed by the arguments of academics such as Mr Buiter, believe that the crisis has exposed the dangers of relying on a small, fragile currency.

It would not be an easy decision. Iceland has kept out of the EU, not least to safeguard its cod-fishing quotas. The ECB has made clear that Iceland cannot adopt the euro unless it joins the EU first, which might take years. Some academics suggest unilateral "euroisation", as Montenegro has done. This could be done with as little as EURO100m to replace notes in circulation, a fraction of Iceland's EURO3 billion of international reserves. But such a unilateral step runs the risk of antagonizing the EU. And it might not stop capital flight.

The Independence Party, which Mr Oddsson long led, has brought forward its national convention to January to discuss these matters, but it is divided on the issue. With the krona on life support, cool heads will be needed to stop the debate splitting the country. Mr Jonsson, the banker, believes the euro question could be as significant, in its way, as Iceland's decision to adopt Christianity and throw out its pagan gods 1,000 years ago. If the krona finally goes the way of the pagans, there is a good chance that Mr Oddsson will go with it.

sunnudagur, 4. janúar 2009

Kosningaár

Á þessu ári verður íslenska valdastéttin að víkja og eyða þarf þeim klíkum sem halda landinu í fjötrum. Það var þetta fólk sem settu almenning á hausinn. Við þurfum ekki að bíða eftir næsta landsfundi. Sú umræða sem þar mun fara fram mun snúast um hvernig valdastéttin ætlar að viðhalda völdum sínum og víkja sér undan ábyrgð.

Fremst í flokki valdastéttarinnar fer ríkisstjórnin með sínum embættismönnum. Þetta fólk er svo nátengt öllu sem varðar hrunið og aðdraganda þess. Ríkistjórnin ætlar sér að standa í vegi fyrir uppgjöri við auðstéttina. Síðustu kosningar fóru fram á fölskum forsendum, þess vegna viljum við fá að kjósa upp á nýtt.

Við verðum að fá að vita hvernig skuldir okkar eru tilkomnar, hvað þær eru miklar og hverjir eru ábyrgir fyrir þeim. Forysta Sjálfstæðisflokksins ætlar ekki að taka ábyrgð á þeim ógöngum sem hún hefur leitt þjóðina í með efnahagsstefnu sinni. Það er einkennilegur jafnaðarmannaflokkur sem heldur Flokknum við völd, og kvittar um leið undir þá hugmyndafræði sem nú hefur gert þjóðina gjaldþrota.

Það er hugmyndafræði óreiðumanna, sem þeir nú bera ábyrgð á. Mönnum sem komu milljörðum úr landi, og skenktu sér hundruð milljóna í bónus fyrir það eitt að fá þá hugmynd að ræna þjóðina efnahagslegu sjálfstæði.

Í heilbrigðum samfélögum væri búið að setja þetta fólk í járn. En á Íslandi sitja þeir áfram eins og ekkert hafi gerst og neita þátttöku í aðild að eignarhaldsfélögum, sem þeir settu á takmarkaða skatta og nýttu til þess að storka út skuldir.

Já hér eru jafnvel ráðherrar að verki. En þeir fara til Kína og taka viðtal við sjálfan sig og láta senda heim í beinni útsendingu, í stað þess að vera heima og biðjast afsökunar á því að hafa nært þjóðina á lygum.

Við þurfum nýtt fólk, fólk sem þekkir sitt þjóðfélag og er ekki í einhverri af valdaklíkunum. Venjulegt fólk þekkir mannvæn gildi og getur lifað á venjulegum launum og búið í venjulegu húsi. Það var röng stefna að Ísland ætti að verða paradís fyrir fjárglæframenn eins efnahagsspekingar stjórnvalda hafa unnið að því að skapa. Árum saman höfum við mátt búa við umhverfi byggt á rakalausum klisjum og pólitískum ráðningum. Hyglingum til útvalinni.

Mig langar til þess að búa hér áfram og hafa börn mín og barnabörn nálægt mér. Við þurfum skapandi lausnir með skynsamri og umhverfisvænni orkunýtingu. Orkulindir eiga að vera í eigu þjóðarinnar. Við eigum að semja við eigendur jöklabréfa um að leggja fjármagn í arðvæn orkuvirki og fá lífeyrissjóðanna til þess að byggja upp sprotafyrirtæki . Umhverfisvæn hátækniver.

En svo við getum hafist handa verðum við að losna við pólitísku klækjarefina, þeir geta haldið sín flokksþing og lagt þar sína pólitísku kapla og strokað út sínar skuldir.

fimmtudagur, 1. janúar 2009

Nýtt ár

Í upphafi árs er ástæða til að horfa til framtíðar. Markmið séu öllum skýr og raunsæ. Vinnubrögð stjórnmálamanna hafa einkennst um of af valdabrölti og pólitískum fléttum. En það er skýr krafa almennings að byggt verði upp á ný það samfélag sem við þekktum. Greiðsluvanda heimila og fyrirtækja í landinu er bráðavandi sem verður að leysa á fyrstu mánuðum ársins.

Grunnurinn í endurreisnarstarfi verður að vera byggður á gagnkvæmu trausti almennings og stjórnvalds. Ég er þeirrar skoðunnar að íslenskt efnahags- og atvinnulíf sé komið í þá stöðu að við náum ekki settum markmiðum án þess að að sækjast eftir aðild að Evrópusambandinu, byggðu á réttlátum samningum í auðlindamálum.

Stjórnvöld stóðu í haust frammi fyrir banka- og gjaldmiðilskreppu, sá kostur virtist einn upp að taka há erlend lán. Lán til þess eins að reyna að endurreisa traust á gjaldmiðli sem aðilar vinnumarkaðs hafa undanfarin ár bent á að sé vonlaus og vinni gegn frekari uppbyggingu atvinnu- og viðskiptalífs. Vandinn í þessari glímu eru háir vextir sem notaðir eru gegn gjaldeyriskreppu, á meðan lágir vextir eru nýttir gegn banka- og efnahagskreppu. Það verður að leysa sem allra fyrst gjaldeyriskreppunna, hún kemur í veg fyrir eðlilega upprisu fyrirtækjanna og dregur úr frumkvæði og framkvæmdavilja.

Enn eru til menn sem trúa því að krónan eigi sér framtíð. Það er óskhyggja. Nú er okkur búin sú staða að brjóti menn gjaldeyrislögin eiga þeir á hætti að fara í fangelsi í allt að tvö ár. Það eitt út af fyrir sig lýsir trú seðlabankastjóra, forsætisráðherra og fjármálaráðherra á krónuna.

Á meðan berst atvinnulífið við gífurlegan fjármagnskostnað og skort á lánsfé. Kostnaðurinn og skorturinn er að taka atvinnulífið kverkataki 0g hefur hamlandi áhrif. Því lengur sem lausn á þessu dregst þeim mun meiri verður skaði efnahagslífsins.

Ísland er í bráðum vanda og spurning hvort íslenskt efnahagslíf hafi efni á því að bíða. Stjórnvöldum og embættismönnum ber skylda, að kynna sér fordómalaust þá kosti sem eru í stöðunni. Það gengur ekki að halda viðskipta- og atvinnulífi í fangelsi hafta ef aðrir kostir standa til boða. Einhliða upptaka annars gjaldmiðils er valkosturinn sem verður að huga að. Einhliða upptaka Evru í samvinnu við ESB gæti verið leið frá þeirri haftastefnu sem nú ríkir á gjaldeyrismarkaði.

Alþjóðasamskipti og öflug utanríkisviðskipti eru mikilvæg forsenda þess að börn okkar geti búið við góð lífskjör í framtíðinni. Það er því grundvallaratriði að vera í góðu sambandi við umheiminn og endurreisa ímynd og traust landsins. Hluti af því er að ganga frá skuldamálum gömlu bankanna.

Við erum fámenn og það verða að ná samningum um skuldaniðurfellingu, annars bíða okkur endalausar og kostnaðarsamar lögsóknir frá erlendum aðilum. Þar verða stjórnvöld að sætta sig við alþjóðalög, barnalegar og illa ígrundaðar upphrópanir um kúgun og óvinveittar athafnir gagnvart Íslandi leysa þar engan vanda. Ef það tekst batnar samningsstaða Íslands er kemur að því að íslendingar setjist niður og semji um þau skilyrði sem fylgja aðild að Evrópusambandinu.

Undanhald samkæmt áætlun

Forseti lýðveldisins Ísland ávarpaði að venju þjóðina á nýársdag.
Eftir að hafa hlustað á Ólaf kom upp í hug mér ljóð eftir Stein:



Undanhald samkvæmt áætlun
Ég var móðgaður, hæddur, svívirtur, kvalinn og kúgaður
Af kumpánum nokkrum, sem allt virtust geta og mega.
Og þótt ég sé maður á sigur sannleikans trúaður,
Sýndist mér stundum því von minni í flestu geiga.

Að endingu sagði ég yfirdrottnunarvaldinu
í alvöru stríð á hendur, án nokkurrar vægðar.
Og styrkur minn liggur allur í undanhaldinu,
Þótt einhvernjum, sýnist það málstaðnum lítið til þægðar.

Og stríð mitt er nútímastríð, en ekki af því taginu,
að standa til lengdar í tvísýnum vopnabrýnum.
Þið vitið að jörðin er líkt og knöttur í laginu.
Og loksins kemst maður aftan að fjandmanni sínum.

Steinn Steinar. Ferð án fyrirheits.



Ég sendi öllum innilegrar áramótakveðjur og þakkir fyrir góðar viðtökur á liðnu ári.