fimmtudagur, 30. apríl 2009

1. maí

Það blasir við að minnka verður gríðarlegan halla þjóðarbúsins með miklum og sársaukafullum niðurskurði. Samfara því verður að auka tekjur ríkissjóðs. Til þess að minnka vaxtagreiðslur á erlendum skuldum skiptir miklu að ríkisfjármálin verði tekin föstum tökum á næstu fjárlagaárum. Það þarf pólitískan kjark til þess að taka á vandanum og mun reyna mikið á þá ríkisstjórn sem verður við stjórnvölinn næstu misseri. Nú eru gullnir tímar yfirboða og fagurgala tækifærissinna, sem hafa nýtt sér stöðuna til þess að arka fram á sjónarsviðið með ómerkilegar skyndilausnir.

Til lengri tíma verður að líta til þess að hér verði gjaldmiðill sem bíður upp á stöðugleika. Verðbólga verði það lág að vextir verði innan við 4,5% og verðtrygging afnuminn. Það þarf að skapa 20 þús. störf á næstu fjórum árum svo atvinnuleysi verði komið niður fyrir 5%. Ef það tekst munum við á árinu 2013 hafa endurheimt þau lífskjör sem við bjuggum við á síðasta ári. Eigi þessi markmið að nást verðum við að endurheimta traust og tiltrú á íslenskt efnahagslíf, þannig að fjárfestar setji fjármuni til uppbyggingar hér á landi og lánaviðskipti við erlenda banka komist í eðlilegt horf.

Krónan hefur reynst okkur ákaflega dýrkeypt. Hún hefur stuðlað að miklum sveiflum vegna agalausrar hagstjórnar. Sveiflurnar hafa kallað á að meðaltali 3,5% hærri vexti en þeir þyrftu að vera og verðtryggingu. Nærtækasti kosturinn er að sækja um aðild að Evrópusambandinu og láta reyna á hvert við komumst í slíkum viðræðum um forræði í auðlindamálum. Það eru nauðsynlegt að fá úr því skorið hvort við eigum kost á ásættanlegri lausn.

Gildismat hefur breyst á undangengnum áratugum. Hógværð hefur vikið fyrir öðrum gildum. Krafan hefur verið um endalausa velgengni. Hún var sköpuð með Barbabrellum í bókhaldi og skammtíma hagræðingu. Gróinn fyrirtæki voru bútuð niður og seld skúffufyrirtækjum, sem tóku lán og keyptu hlutabréf í sjálfum sér. Eignir móðurfyrirtækja jukust í bókhaldi og sköpuðu rými til enn frekari skuldsetningar. Fjármunum var pumpað út íslenska hagkerfinu og fluttir í skattaskjól. Það er skoðun þessara manna að það sé hlutverk annarra að greiða skatta til samfélagsins og standa undir menntakerfinu, heilbrigðisþjónustunni og samgöngukerfinu. Og það sé annarra að greiða þær skuldir sem þeir skilja eftir sig.

Alvarlegasta ógnunin við framtíð Íslands er skuldsetning hugarfarsins þar sem vantrú ríkir á öllu sem viðkemur einkaframtaki. Við þurfum hugarfarsbreytingu ef atvinnulífið á að skapa 20 þúsund störf fyrir árið 2013. Það gerist ekki með því að fjölga störfum hjá ríkinu, það gerist í atvinnulífinu. Við eigum að leggja áherslu á að laða fram áræðni og frumkvæði.

Þýðingarmesta verkefni okkar er að stuðla að víðtækri sátt um stöðugleika. Styrkleiki okkar liggur meðal annars í miklum náttúruauðlindum, sterkum lífeyrissjóðum, hlutfallslega meira af ungu fólki en hjá öðrum Evrópuþjóðum. Helsti styrkleiki þjóðarinnar liggur í hugarfari; þrautseigju og mestu atvinnuþátttöku sem þekkist í vestrænu landi. Við megum ekki missa þennan styrkleika niður.

Við höfum engan tíma til þess að hrinda þessu af stað.

miðvikudagur, 29. apríl 2009

Gullkorn Hannesar Hólmsteins

Var bent á þessi gullkorn af heimasíðu Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar.

Þarna svarar hann spurningu Mannlífs um hver sé merkasti eða áhrifamesti núlifandi Íslendingurinn. Þetta er skrifað seinni partinn í júní 2008.

Hannes telur merkustu Íslendingana vera þrjá: Björgólf Guðmundsson, Davíð Oddsson og Geir Hilmar Haarde. Rökstuðningurinn Hannesar er óborganlegur. Þetta skýrir eiginlega allt um hvernig komið er fyrir íslensku samfélagi.

En hér eru punktar Hannesar :

Björgólfur Guðmundsson er ekki aðeins einn ríkasti Íslendingur, sem uppi hefur verið, eigandi banka og margra annarra fyrirtækja og fjölmiðla, heldur hefur hann líka öðlast mikið siðferðilegt áhrifavald. Hann er góðgjarn og skynsamur, og menn hlusta á hann. Hann er öðrum fyrirmynd, af því að hann er lifandi dæmi um það, að menn geta ratað í mikla erfiðleika, en brotist út úr þeim aftur og jafnvel orðið meiri og betri menn.

Davíð Oddsson er svo öflugur maður, að hann hefur ekki glatað áhrifum sínum, þótt hann sé ekki lengur í fylkingarbrjósti í stjórnmálum. Rætur áhrifa hans eru tvíþættar. Í fyrsta lagi nýtur hann mikillar virðingar og trausts þorra þjóðarinnar, þótt orðastrákar á kaupi hjá óvinum hans reyni að gera lítið úr því. Menn vita, hversu heill Davíð er og heiðarlegur, hreinn og beinn og hræsnislaus.

Í öðru lagi gegnir Davíð auðvitað enn lykilstöðu sem bankastjóri Seðlabankans. Hann hefur átt drjúgan þátt í því, að bankarnir virðast vera að komast út úr þeirri kreppu, sem þeir voru í. Vandlega er hlustað á Davíð í hinum alþjóðlega peninga- og bankaheimi. Fátt væri fjær Davíð en að láta gamlar væringar stjórna sér, þegar til kastanna kemur.

Geir H. Haarde hefur á stuttum ferli sínum sem forsætisráðherra bætt mjög við það traust, sem hann vann sér sem fjármálaráðherra og utanríkisráðherra. Hann er friðsamur og laginn, og þess vegna fer minna fyrir áhrifum hans en margra annarra, sem hærra gala. En hann er fastur fyrir, þegar á reynir. Öll þjóðin veit, þegar hún sér Geir, að hann vill vel og vinnur vel. Hann hefur líka góða menntun og er ákaflega frambærilegur. Það er til slíkra manna, sem leitað er á úrslitastundum.

þriðjudagur, 28. apríl 2009

Landflótti tæknifólks

Verð að viðurkenna að ég átta mig ekki á því hvert eigi að stefna með atvinnulífið ef ekki verður sótt um inngöngu í ESB og því jafnframt lýst yfir að það eigi að skipta út krónunni yfir í traustari gjaldmiðil. Þessa skoðun byggi ég m.a. á því sem forsvarsmenn tæknifyrirtækja hafa sagt; þeir sjái ekki vöxt þeirra hér og þau muni halda áfram að flytja starfsemi sína til ESB landa.

Nú þegar eru allmörg fyrirtæki flutt frá Íslandi vegna krónunnar, annað hvort alfarið eða með meirihluta starfsemi sinnar. Má þar nefna Hamiðjuna, 66° norður, CCP, Marel, Össur og Actavis. Allnokkur fyrirtæki þar á meðal nokkur lítil til viðbótar við hin áðurnefndu stóru, eru búin að skipta yfir í Evru þó svo þau séu með starfsemi hér, en þau hafa öll lýst því yfir að þau sjái enga framtíð eða vaxtamöguleika hér.

Það þýðir í raun að ef ekki verður af því að Ísland hverfi frá sinni ofurdýru krónu með þeim okurvöxtum sem henni fylgja, þá verða hér einungis í boði störf í svokölluðum grunnstoðum. Það er fiskvinnslu og útgerð. Landbúnaði og álverum, ásamt opinberum starfsmönnum. Í þessum greinum er atvinnuleysi lítið sem ekkert, á meðan það er allt í þjónustu- og tæknigreinum.

Þetta skýrir líklega hvers vegna formaður opinberra starfsmanna sér ekki ástæðu til þess að grípa til þeirra aðgerða sem forsvarsmenn tæknifyrirtækja telja nauðsynleg og leyfir sér að kalla tillögur þeirra „arfavitlausar“. Ég veit ekki hvort menn sjái fyrir sér fjölgun ríkisstarfsmanna um 20 þús. en það er sá fjöldi nýrra starfa sem þarf að verða hér á Íslandi á næstu 4 árum eigi að koma atvinnuleysi niður fyrir 4%. En það er víst að þá er ekki verið að tala um spennandi tæknistörf fyrir velmenntað ungt fólk.

Eins og ég hef áður komið að sé litið til félagsmanna Rafiðnaðarsambandsins, þá hefur ekki verið nein fjölgun í þessum grunnstoðum á undanförnum árum, einungis í tæknigreinum. Öll fjölgun á vinnumarkaði hefur verið í tækni- og þjónustufyrirtækjum. Auk fjármálageirans sem er hruninn og ekki miklar líkur á að hann bæti við aftur þeim mikla mannfjölda sem hefur orðið að hverfa úr þeim geira í vetur.

Það hefur ætíð verið lítið atvinnuleysi utan höfuðborgarsvæðisins vegna þess að fólk sem ekki hefur haft atvinnu hefur flutt frá landsbyggðinni og unga fólkið hefur ekki flutt til heimaslóða eftir að hafa lokið námi. Nú stefnir í að þetta muni breytast á þann veg að nú muni fólkið á höfuðborgarsvæðinu leita til ESB-landa eftir atvinnu og unga fólkið ekki koma heim eftir að hafa lokið framhaldsnámi í ESB-löndum, eins og t.d. Svíþjóð og Danmörku þar sem stærstu námsmannahóparnir hafa verið.

Af gefnu tilefni langar mig svo að taka það fram að það er einhver alnafni minn sem skrifar reglulega í athugasemdadálkana.

mánudagur, 27. apríl 2009

Ætlar VG að viðhalda efnahagslegum þrælabúðum?

Hún er einkennileg umræðan núna þar sem VG gerir enn eina tilraun til þess drepa umræðu um gjaldmiðilinn og ESB á dreif. Steingrímur segir nauðsynlegra að byrja á því að ræða efnahagsmál, atvinnulífið, og heimilin.

Það er nú svo að uppbygging atvinnulífs og fjölgun starfa verður ekki gert með krónu.

Uppbygging bankakerfisins er undirstaða og verður ekki gerð nema að Ísland öðlist traust og takist að skapa eðlileg samskipti við erlenda banka. Við þurfum að nota krónuna í 2 ár, en það verður ekki gert nema að skapa sátt um hana með aðstoð Evrópska seðlabankans. Með skapast möguleikar til nauðsynlegra lána og áhættulagið næst niður.

Úr vandamálum heimilanna verður ekki leyst nema með lækkun vaxta, afnámi verðtryggingar og umtalsverðri minnkun atvinnuleysis.

Það er ábyrgðarleysi að ætla sér að byrja enn eina ferðina á þessari við skulum gera eitthvað annað umræðu, en ég veit ekki hvað annað. Íslensk heimili og fyrirtæki þola það ekki lengur það umhverfi sem krónan býður upp á.

sunnudagur, 26. apríl 2009

Sigur atvinnulífsins

Niðurstaða kosninganna er í samræmi við þær spár sem hafa verið gerðar, reyndar var kjörsókn mun meiri en ég átti von á. Reyndar finnst mér það vera sigur fyrir Sjálfstæðismenn að tapið skuli ekki vera meira, sé litið til þess að flokkurinn hefur stjórnað og mótað þá efnahags- og gjaldmiðilsstefnu sem fylgt hefur verið og við stöndum yfir sviðinni jörð þessarar stefnu. Niðurstaðan er sigur Evrópusinna og forsvarsmanna atvinnulífsins.

Styrkjamálið hlaut að komu upp á yfirborðið, það er búið að grassera í umræðunni allt þetta ár og hlaut að vera starfsmönnum og þingmönnum flokksins ljóst. Það er að segja ef þeir eru í sambandi við umheiminn. Flokkurinn þáði tugi milljóna í styrki á sama tíma og hann vann með öðrum flokkum við að setja leikreglur sem byggðust á því um að það væri hættulegt lýðræðinu að stjórnmálamenn og flokkar væru að þiggja stóra styrki frá fjármálamönnum og taka frekar aukna fjármuni úr ríkissjóð til stjórnmálaflokkanna.

Það blasir við hvaðan þessi peningar koma í raun og veru, ekki komu þeir af himnum ofan. Ekki er til ókeypis málsverður eins og hugmyndasmiður flokksins hefur réttilega svo oft sagt. Þetta er augljóslega hluti af því góssi sem fjármálamennirnir mokuðu út úr hagkerfinu og nýttu til þess að tryggja áframhald þá verandi gjaldeyris- og efnahagsstefnu. Þetta er hluti af þeim skuldum sem eru að lenda á heimilum landsmanna.

Sjálfstæðisflokkurinn tryggði sér styrkina ásamt fjárframlögunum úr ríkissjóð. Það liggur í loftinu að ekki séu öll kurl kominn til grafar hvað varðar þessi fjárframlög. Það eru líkur á því að einhverjir verði að taka pokann sinn.

Innihaldslaust málþóf þingmanna flokksins í stjórnarskrármálinu og umræðum um stjórnlagaþing og reyndar framkoma þeirra í þinginu í vetur eins og Spaugstofan hefur lýst svo vel og var margspilað í nótt, hefur verið þingmönnum flokksins til mikillar minnkunar.

Hún var einkennileg kosningabaráttan sem flokkurinn setti upp. Einkenndist helst af spuna um hvað aðrir flokkar ætluðu að gera og hvernig Flokkurinn ætlaði sér að koma veg fyrir þessi ímynduðu spellvirki og verja landsmenn. Ekki var nokkur fótur fyrir þessu og ódrengilegt svo ekki sé nú meira sagt. Lítið annað kom fram í kosningabaráttu flokksins.

Niðurstaða landsfundar Sjálfstæðisflokksins í Evrópumálum var ótrúverðug. Þar gekk flokkurinn þvert á vilja atvinnulífsins og gegn nauðsynlegum grunni fyrir uppbyggingu þjóðlífsins. Það hefði nú þótt saga til næsta bæjar fyrir nokkru að Samfylkingin væri orðin málsvari fyrirtækjanna, en Sjálfstæðismenn helsti andstæðingar atvinnulífsins.

Útspil um einhliða upptöku Evru í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn var barnalegt svo ekki sé nú meira sagt. Ekki bættu viðbrögðin þingmanna flokksins þegar svörin bárust. Það væri óþolandi afskipti embættismanna af stefnu Sjálfstæðisflokksins að benda honum á að það væri ekki Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn sem hefði með Evruna að gera.

Líklega spilaði Illugi sig þarna endanlega út úr þessum málaflokki, þetta var svo svakalegur fingurbrjótur. Flokksforystan hlýtur að setjast niður og endurskoða öll atriði. Ekki myndi nú saka ef starfsmenn og þingmenn flokksins myndu byrja á því að taka tilbaka þá fullyrðingu að flokkurinn komi fyrst og fólkið skipti litlu máli. Hætta tilskipunum og hrokanum gagnvart öðrum. Hlusta frekar á fólk af auðmýkt og taka þátt í lífinu í landinu.

T.d. liggur það augljóslega fyrir að Flokkurinn væri í allt annarri stöðu nú að morgni kosningarnætur ef hann hefði t.d. hlustað á það sem við úr atvinnulífinu höfum reynt að koma á framfæri við flokkinn undanfarin ár.

laugardagur, 25. apríl 2009

Stétt með stétt

Einu sinni var helsta boðorð Sjálfstæðisflokksins "stétt með stétt". Flokkurinn var þá hægri sinnaður krataflokkur, sem rúmaði jafnt fyrirtækjaeigendur og launamenn. Menn vildu losna undan höftum og fá frelsi til athafna. Öll mín stórfjölskylda fylgdi flokknum. Ég kaus flokkinn og var í borgarstjórn fyrir hans hönd.

Á undanförnum áratugum hefur Sjálfstæðisflokkurinn leiðst sífellt lengra í átt til sérhagsmunagæslu og frjálshyggju. Undir hans stjórn hefur misrétti aukist jafnt og þétt. Skattar aukist á þeim efnaminni á meðan sköpuð hafa verið undanfæri fyrir þá efnameiri.

Flokkurinn hefur hlaðið undir stóreignastéttina gegnum einkavæðingu og kvóta. Svo langt eru forsvarsmenn flokksins leiddir að þeim finnst ekkert athugavert við að taka við tugmilljóna styrkjum frá fyrirtækjablokkum.

Flokknum finnst ekkert athugarvert við að hafna breytingum á stjórnarskrá og koma á stjórnlagaþingi þó svo mikill meirihluti þjóðarinnar vilji það. Honum finnst ekkert athugavert þó hann beiti lýðræði á Alþingi ofbeldi með innihaldslausu málþófi til þess og tefja með því nauðsynlegar endurbætur fyrir heimilin í landinu.

Flokknum finnst ekkert athugavert að ganga þvert á vilja mikils meirihluta fyrirtækja í landinu og samtaka launamanna og stendur gegn þeim grundvallarbreytingum verður að gera á efnahagskerfinu eigi að reisa atvinnulífið við. Forvarsmenn flokksins leggja meira upp úr að viðhalda völdunum og því stjórnkerfi sem hann kom á.

Ég hef að undanförnu setið fundi þar sem nokkrir forsvarmenn úr atvinnulífinu hafa hitt forsvarsmenn stjórnmálaflokkanna. Allir hlustuðu á það sem við höfðum fram að færa og ræddu vanda atvinnulífisins við okkur og úrbætur. Einn flokkur gerði það ekki, í stað þess að ræða málin þá snéru forsvarsmenn flokksins sér að því að segja okkur fyrir verkum. Við værum á rangri braut. Ekki Sjálfstæðisflokkurinn. Svo einkennilegt sem það nú er þá finnst mér blasa við að meirihluti flokksmanna Flokksins vilji ganga í ESB, en það er flokksforystan sem vill það ekki umkring útgerðarmönnum.

Eftir það sem gerst hefur undir efnahags- og peningastjórn Sjálfstæðisflokksins myndi maður ætla að hann nálgaðist kjósendur af auðmýkt. Svo er ekki. Frambjóðendur flokksins nálgast kjósendur með hroka og þótta. Auglýsingar flokksins hafa einkennst af útúrsnúningum á tillögum annarra. Jafnvel hefur verið gengið svo langt að gera öðrum flokkum upp stefnur og þær síðan auglýstar í heilsíðu auglýsingum.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur mislesið tíðarandann fullkomlega og er á harðahlaupum við að tryggja eigin tilvist. Frammámenn Sjálfstæðisflokksins virðast ekki einu sinni leiða hugann að því að þeir eigi sök á gjaldmiðils- og bankahruninu og keyrðu hagkerfið í kaf, þar ríkir fullkomin afneitun.

Í kosningabaráttunni hika frambjóðendur Flokksins ekki við að halda því fram að þeim einum sé treysta fyrir efnahagsstjórninni!! Flokkurinn er orðinn að afturhalds- og hræðslubandalagi sem sér óvini allsstaðar. Meir að segja í flokksmeðlimum.

föstudagur, 24. apríl 2009

Efnahagslegar þrælabúðir á Íslandi - smá viðbót

Algengt viðkvæði stjórnmálamanna sem verja krónuna er að benda á lönd innan ESB og segja að þar séu mikil vandamál. Þau eiga við efnahagsvandamál að etja, okkar stærstu vandamál eru vegna gjaldmiðilsins.

Ég hef áður bent á að það sé einkennilegt og óábyrgt hjá stjórnmálamönnum að bera okkur saman við lönd án þess að taka tillit til þess að þau eru með verðbólgu sem er innan við 4 - 5% og vexti á svipuðu stigi.

Það eru lönd þar sem fólk er ekki að tapa eignum sínum vegna ónýts gjaldmiðils, ofurvaxta og verðtryggingar. Þar getur fólk selt eignir sínar og flutt þær, t.d. til annarra landa. Hér í krónuumhverfinu er hvorugt hægt.

Ekkert land í Evrópu hefur orðið fyrir jafnmiklu kerfistjóni og Ísland, það er vegna hruns krónunnar.

Ekkert Evruríki hefur orðið fyrir jafnmiklu tekjutapi og hér, það er vegna hruns krónunnar. Tekjustofnar ríkissjóðs hafi hrunið um tugi prósenta og er í raun stærsta vandamálið sem komandi ríkisstjórn þarf að glíma við.

Ísland er fullkomlega rúið efnahagslegu trausti, það er vegna krónunnar.
Hér má vísa til ummæla forsvarsmanna atvinnulífsins undanfarna daga.

Rekstur reistur á traustum grunngildum í stöðugu umhverfi verður stöðugur og leiðir jafns vaxtar og skapar störf. Það rekur engin fyrirtæki til langfram með bókhaldsblekkingum – Ebita blekkingum.

Íslenskt atvinnulíf getur ekki endurfjármagnað sig, það er vegna krónunnar Lönd sem eru með Evru eru ekki í sömu vandræðum. Hér vísa ég einnig til ummæla forvarsmanna atvinnulífsins og hagdeilda aðila vinnumarkaðs.

Hvergi á norðurlöndunum eða í vestan-verðri Evrópu hefur kaupmáttur fallið eins mikið og hér, það er vegna hruns krónunnar. Kaupmáttur hefur fallið um á annan tug prósenta síðustu 10 mán.

Vextir hér eru hærri vegna krónunnar. Vextir leiða til hærra verðlags. Óstöðugur gjaldmiðill gefur af sér enn hærra verðlag. Það eru aðstæður og skilyrði sem ákvarða hvort fyrirtæki vaxa og dafna

25% af launum íslendinga fara í aukakostnað vegna krónunnar. Til þess að hafa svipuð laun og annarsstaðar á norðurlöndunum þurfum við að skila 25% lengri vinnuviku.

Hvergi hefur eignatap einstaklinga orðið eins mikið og hér, það er vegna hruns krónunnar

Stór hluti af verðfalli eigna lífeyrissjóða og sjóða þar sem fólk geymir sparifé sitt er vegna þessa kerfisfalls krónunnar og þessi hluti stefnir í að verða langstærsti þátturinn í verðfallinu.

Vextir hér á landi eru töluvert hærri en annarsstaðar og vaxtamunur verður alltaf a.m.k. 5% hærri á Íslandi en innan Evrusvæðisins, þða er vegna krónunnar.

Ef fjölskylda sem kaupir sér eitt hús á Íslandi og önnur kaupir sér hús t.d. í Danmörku. Þá er staðan sú eftir 20 ár að þá hefur íslenska fjölskyldan greitt sem svarar andvirðis tveggja húsa, séu greiðslur bornar saman við endurgjald dönsku fjölskyldunnar.

Krónan heldur íslendingum í efnahagslegum þrælabúðum. Við viljum efnahagslegt frelsi takk fyrir.

Góð grein

Ég er sósíalisti, ég kýs VG, ég ætla að búa í Evrópusambandinu
http://this.is/nei/?p=5094

fimmtudagur, 23. apríl 2009

Efnahagspekingurinn Pétur Blöndal

Það er margt einkennilegt sem fram kemur í yfirlýsingum frambjóðenda á fundum. Eitt það einkennilegasta og reyndar ómerkilegasta sem ég hef heyrt eru fullyrðingar Péturs Blöndals um að hrunið hefði orðið margfalt meira ef við hefðum haft Evru þegar það skall á. Þessi klisja hefur reyndar heyrst allnokkrum sinnum og hefur jafnoft verið leiðrétt en þrátt fyrir það er þessum hræðsluáróðri haldið áfram.

Við búum ekki einungis við bankakreppu eins svo mörg önnur lönd, okkar alvarlega staða er fólgin í gjaldeyriskreppu. Hún kallar yfir okkur mjög háa vexti. Ef við hefðum verið með Evru núna hefðum við verið um 3 - 4% verðbólgu, enga verðtryggingu og vexti á húsnæðislánum um 4% og í viðskiptum um 4 -5%. Fyrirtækin hefðu getað átt eðlileg viðskipti með nothæfum gjaldmiðli og ekki væru hér gjaldeyrishöft. Kostnaður af krónunni er óheyrilegur; fyrir bankahrun áætluðu sérfæðingar að við greiddum að jafnaði 3-3,5% hærri vexti vegna þess að við byggjum við litla og óstöðuga mynt.

Einnig má benda á fall krónunnar og hækkun verðlags fyrir heimili og innflutt aðföng. Gengi krónunnar var ríflega 80% veikara í janúar á þessu ári en á sama tíma í fyrra og innkaupsverð innfluttra vara hefur hækkað í takt við það. Þá höfðu laun í janúar hækkað um 7,5% á síðustu tólf mánuðum, greidd húsaleiga skv. vísitölu neysluverðs hækkað um 27% og almennt verðlag um ríflega 18% á sama tímabili.

Í sjálfu sér er ekki hægt að draga nema eina niðurstöðu af þessu. Pétur Blöndal og hans skoðanabræður eru fullkomlega óhæfir til þeirra starfa sem þeir hafa sinnt. Þeir hafa greinilega ekki minnsta vit á efnahagsmálum, þaðan af síður efnahags- og peningastjórn og allra síst á regluverki og þeirri eftirlitsskyldu sem þeir voru kjörnir til. Það var ríkið sem brást almenning, ekki fólkið stjórnvöldum, eins og þessir þingmenn hafa haldið fram.

Það liggur fyrir að með áframhaldi krónunnar munu stór íslensk fyrirtæki verða að flytja höfuðstöðvar sínar héðan. Við erum búin að glata öllu trausti, og það mun taka okkur langan tíma að byggja það upp á ný.

Ef við náum ekki samkomulagi við þá sem við skuldum mun niðursveiflan dragast enn frekar á langinn. Helsti efnahagsspekingur fyrrverandi ríkisstjórna ætlar í stríð við Bretland, Holland og Norðurlöndin. Hann myndi verða maður af meiri ef hann viðurkenndi að allur málflutningur íslenskra stjórnvalda seinni hluta síðasta árs var rangur og bæðist afsökunar á því. Þessi málflutningur hefur skaðað okkur og valdið óþarfa óvissu hér á landi.

miðvikudagur, 22. apríl 2009

Ræðan á Sammálafundinum

Allnorkir hafa haft samband og beðið um ræðuna mína í Iðnó í gær. Hér er hún (reyndar aðeins ítarlegri) :

Ísland skuldar 1.500 milljarða eða rúmlega eina landsframleiðslu. Við eigum líklega fyrir vöxtunum af þessum lánum ef laun verða skorin niður og útgjöld til heilbrigðis og menntamála minnkuð, ekkert umfram það. Til þess að rífa landið upp þarf að fjölga störfum og auka útflutningstekjur. Forsvarsmenn þeirra fyrirtækja sem hafa tekið við aukningu á vinnumarkaði eru sammála um að það verði ekki gert með krónuna sem gjaldmiðil.

Viðhorf til Íslands eru neikvæð og þau litlu lán sem okkur standa til boða eru á mjög háum vöxtum, vegna þess háa áhættuálags sem við búum við. Það liggur fyrir að ef við breytum um stefnu munu viðhorf til okkar breytast, það hefur komið fram hjá m.a. Finnum og Svíum um aðstoð og lán á hagstæðari vöxtum.

Hrunbylgjan síðastliðið haust hitti hið erlenda lánsfé sem hér var og við töpuðum 80 milljörðum dollara af erlendu lánsfé. Bylgjan í haust lendir milliliðalaust á íslensku atvinnulífi og heimilum. Lykilfyrirtæki munu falla og algjört öngþveiti myndast og við blasir 10 - 15 ára lægð og fátækt.

Vaxtamunur milli Íslands og ESB landa er í dag 14%. Ef við værum með Evru núna værum við með um 3 - 4% verðbólgu, enga verðtryggingu og vexti á húsnæðislánum um 4% og í viðskiptum um 4 -5% og ekki væru hér gjaldeyrishöft. Kostnaður af krónunni er óheyrilegur. Fyrir hrun síðasta haust var vaxtamunur milli Íslands og ESB að jafnaði um 3 - 3,5%. Ef ekkert verður að gert hvað varðar gjaldmiðilinn getum í besta falli reiknað með að ná vaxtamun niður í 6%.

Reikningurinn vegna krónunnar er þar af leiðandi um 200 milljarða króna. Þetta jafngildir hvorki meira né minna en 25% af öllum launum í landinu! Það gefur auga leið að þessi kostnaður leggst á almenning í formi lægri launa, hærra verðlags, hærri skatta og/eða lægra þjónustustigs hins opinbera. Kaupmáttur hefur hrunið síðasta ár um 11% og við blasir að hann muni minnka enn frekar.

Í dag eru um 18 þús. íslendingar atvinnulausir. Inn á íslenskan vinnumarkað koma að meðaltali 2.500 árlega umfram þá sem hverfa af vinnumarkaðnum. Ef við ætlum að koma atvinnuleysi niður fyrir 3% á næstu 4 árum þurfum við að skapa um 22.000 ný störf á þeim tíma. Það þýðir að við þurfum hagvöxt af stærðargráðunni 4.5 - 5% sem er gríðarlega hátt.

Það vantar ekki fólk í fiskvinnslu eða landbúnað. Þar hefur ekki orðið nein fjölgun á undanförnum árum, frekar hið gagnstæða og er ekkert útlit fyrir fjölgun í þessum starfsgeirum. Sem talandi dæmi um atvinnuþróun á Íslandi má nefna að árið 1990 voru félagsmenn í Rafiðnaðarsambandinu um 2000, um 600 unnu í byggingariðnaði og svipaður fjöldi í útgerð, fiskvinnslu og landbúnaði. 300 unnu í orkugeiranum og um 500 tæknigeiranum.

Í dag eru rafiðnaðarmenn tæplega 7000. Ef við tökum stöðuna eins og hún var fyrir hrun það er september 2008 þá unnu um 700 í byggingariðnaði um 600 fyrirtækjum í fisk- og landbúnaðarfyrirtækjum og þjónustufyrirtækjum tengdum þessum atvinnugreinum. Í orkugeiranum vann um 300 manns eða óbreyttur fjöldi En það voru 5000 rafiðnaðarmenn í tæknigreinum. Öll fjölgunin hefur verið þar. Þetta eru lykilmenn tæknifyrirtækjanna og er sá hópur sem hefur mestu möguleikanna til þess að leita sér að störfum annarsstaðar. Þetta er sá hópur sem hefur best fylgst með tækniþróun með markvissri sókn í eftirmenntun.

Forsvarsmenn þeirra fyrirtækja sem hafa byggst upp á undanförnum árum eins og CCP, Marel, Össur og Actavis segja að krónan hafi reynst þeim mjög illa. Krónan sé ástæða þess að þessi fyrirtæki séu með mun fleiri starfsmenn erlendis en hér heima. Þau sjá ekki sína framtíð hér, þó svo þau vildu svo gjarnan. Ef haldið verði áfram á þessari braut verða þau að flytja höfuðstöðvar sína frá Íslandi, næsta vetri vegna þess að annars fá þau ekki nauðsynlega bankafyrirgreiðslu og geta ekki endurfjármagnað lán sín.

Eins og komið hefur fram hjá forsvarsmönnum þessara fyrirtækja að ef Evran hefði verið til staðar þá hefðu þessi fyrirtæki verið byggð næstum alfarið hér á landi og væru með mun fleiri starfsmenn hér heima, jafnvel á þriðja þúsund fleiri. Það hefði skapað afleiður í öðrum fyrirtækjum með enn fleiri störfum.

Næsta vetur verða öll helstu fyrirtækin að endurfjármagna sig og ef ekki verður búið að undirbúa þann jarðveg blasir við önnur bylgja hruns. Meðal þessara fyrirtækja eru Landsvirkjun, Orkuveitan og Hitaveita Suðurnesja. Hjá forsvarsmönnum þessara fyrirtækja hefur komið fram að þær lánasyrpur sem þau eru með vegna framkvæmda við virkjanir á undanförnum árum þurfi að endurfjármagna að mestu leiti næsta vetur.

Nú er svo komið að engin vildi lána Íslandi eða íslenskum fyrirtækjum nema á mjög háum vöxtum og áhættuálagi og veðum. Ekkert íslenskt fyrirtæki ræður við þær kröfur. Ef íslensk fyrirtæki ná ekki að endurfjármagna sig munu erlendir bankar gjaldfella allar skuldir. Það getur ekki leitt til annars en þeir nái undirtökum í m.a. íslensku orkufyrirtækjunum. Og þá eigum við ekki þær auðlindir lengur. Margir velta fyrir sér hvort við það séum við sem eigum kvótan eða hinir erlendu eigendur skuldahala útgerðarinnar.

Kosningar í byrjun næsta árs

Ég hef fullyrt hér á þessari síðu nokkrum sinnum undanfarna mánuði að það eigi eftir að koma upp úr pottum gömli bankanna mál sem geri það að verkum að ný bylgja fordæmingar á stjórnmálaflokkum og stjórnmálamönnum muni ganga yfir landið.

Það hefur verið ljóst um allangt skeið að fjármálamennirnir eiga í handraðanum nákvæmt bókhald yfir þau gæði sem þeir létu renna til stjórnmálamanna. Það bókhald myndi fyrr eða síðar „óvart“ lenda í höndum fjölmiðla. Þessi spádómur er að rætast.

Þetta gerir það að verkum að kjósendur ganga nú óöruggir til kosninga og óánægjan er undirliggjandi. Lítið þarf til þess að upp úr sjóði. Kosningabaráttan einkennist af því að nafnlausum auglýsingum með fullyrðingum um eignaskatta og tekjuskatta sem eru klár ósannyndi.

Starfsmenn Valhallar eru miklum vanda í ESB málum og ætluðu að spila enn einum millileiknum, en embættismenn í Brussel hafa bent á að tillaga þeirra sé út í hött. En það eru aftur á móti mjög margir sjálfstæðismenn út í atvinnulífinu sem eru allt annarrar skoðunar en Valhöll. Það vissi reyndar meirihluti landsmanna áður. Viðbrögð formanns sjálfstæðismanna eru brosleg. Sjálfstæðisflokkurinn á Íslandi ætli ekki að láta einhverja embættismenn í Brussel segja sér fyrir verkum.

Allt bendir til að það verði aðrar kosningar næsta vetur, það verði nokkrir þingmenn sem verði að segja af sér fljótlega eftir kjördag. Kjósa verði um breytingar á stjórnarskrá, upptöku Evru og aðildarsamning ESB. Þeir samningar verða tilbúnir í lok þessa árs.

Það verður undirstaða og upphaf uppbyggingar atvinnulífsins og útganga úr skuldaklafanum.

þriðjudagur, 21. apríl 2009

Sama gamla tuggan

Þrátt fyrir afleita stöðu fyrir kosningar virðist Sjálfstæðisflokkurinn ætla að nota sömu aðferðir í kosningabaráttunni og áður. Skella fram óframkvæmanlegum hugmyndum um upptöku gjaldmiðils, til þess að reyna að koma í veg fyrir málefnalega umræðu um peningastefnu og efnahagsstjórn.

Með útúrsnúningum um fullveldistap og verndum auðlinda er umræðu um ESB drepið á dreif.

Flokkurinn segist ætla að koma ríkissjóð á réttan kjöl án þess að grípa til skattahækkana eða niðurskurðar á ríkisútgjöldum án þess að skýra hvernig í veröldinni eigi nú að fara að því og kemur þannig í veg fyrir vitræna umræðu um hvernig taka eigi á ríkisfjármálum.

Gefur forsvarsmönnum helstu sprotafyrirtækja langt nef þegar þeir benda á að fyrirtækin muni ekki búið á Íslandi við óbreyttar aðstæður og kemur þannig í veg fyrir vitræna umræðu um uppbyggingu atvinnulífsins.

Síðan er beitt gamalkunnugri aðferð við að gera frambjóðendur annarra flokka tortryggilega með alls konar spuna í nafnlausum auglýsingum.

Stjórnlagaþing og breytingar á stjórnaskránni var vilji yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar. Sjálfstæðisflokurinn kom í veg fyrir þá umræðu með innihaldslausu og málefnalausu málþófi.

Þessi málsmeðferð Sjálfstæðismanna er þekkt. T.d. er eftirminnilegt hvernig hann beitti öllum brögðum í bókinni til þess að koma í veg fyrir umræður um þær breytingar á skattkerfinu sem hann hafði gert fyrir kosningarnar 2007 og hækkað skatta á þeim sem minnst máttu sín á meðan hann lækkaði skatta á þeim efnameiri. Og ekki síður hvernig hann vék sér undan því að taka þátt í umræðu um yfirgegni krónnunnar.

mánudagur, 20. apríl 2009

Takmark tilverunnar peníngar og óraunverulegt glíngur

Á undanförnum áratug hefur markaðs- og auðhyggjan verið við völd hér á landi . Arður, gengi hlutabréfa og viðskipti blindaði. Gagnrýnislaust fjölluðu fjölmiðlar í löngum dálkum og þáttum í sjónvarpi um hagnað á verðbréfaviðskiptum. Allt sem gat skilað auknum arði var talið réttlætanlegt.

Sjónarmiðum launþega var vikið til hliðar, gróðafíknin réð. Mannleg reisn og samskipti gleymdist. Ef minnst var á að verja hluta arðs til þess að hækka laun fólksins á gólfinu var rætt um að mætti raska stöðugleika sem kallaði yfir landsmenn óðaverðbólgu. Ef rætt var um ofurlaun og bónusa var það öfundsýki á velgegni.

Þessu er ágætlega lýst með orðum nóbelsskáldsins; “Verslunarskipulagið dregur manninn niður í gróðafíkn seljanda, sem hefur ekki framar neitt takmark tilveru sinnar annað en það að eignast penínga og óverulegt glíngur. Öll fyrirbrigði mannlegrar tilveru eru gerð að spurníngu um kaupgetu og gjaldþol. Gleypugángurinn er í senn gerður að boðorði, fyrirheiti og takmarki” (Dagleið á fjöllum).

Það gleymdist að fjármagnið væri einskis virði, ef ekki kæmi til hin vinnandi hönd og skapaði verðmætaaukningu í framleiðslu fyrirtækjanna. Hlutskipti gróðafíkla er í dag aumkvunarvert.

Maður áttar sig ekki á boðskap þessa flokks sem hvað harðast gekk fram í markaðs- og auðhyggju að ekki megi lækka laun. Um hverja er verið að tala? Telja launamenn á almennum markaði ekki lengur með í hugum fulltrúa þessa flokks? Það er búið að lækka laun á umtalsverðum fjölda fólks á almennum vinnumarkaði til þess að verja atvinnustigið. Það þarf að skera niður opinber útgjöld um 50 milljarða. Það verður ekki gert með því að segja upp 9 óþörfum sendiherrum sem Flokkurinn réð til starfa og selja sendiráðið í Stokkhólmi.

Sami flokkur gengur gegn því sem forsvarsmenn stærstu sprotafyrirtækjanna telja vera eina leiðin til þess að hefja endurreisn fyrirtækja á almennum vinnumarkaði, það eru samningar við ESB og upptöku Evru.

Það er búið að hafna alfarið einhliða upptöku norrænnar krónu og sama gildir um einhliða upptöku Evru. IMF hefur ekkert með Seðlabanka ESB að gera. Það vita allir, líka Illugi og Bjarni formaður flokksins. Þess vegna er enn eitt af því sem maður skilur ekki nýr boðskapur þessa flokks í gjaldeyrismálum.

sunnudagur, 19. apríl 2009

Að loknum kosningum 2007

Skrifaði þessa grein í Morgunblaðið 24. maí 2007. Það er hægt að birta hana núna nánast óbreytta, eða hvað finnst ykkur?:

Það var harla einkennilegt að hlusta á umræðu margra fylgismanna fráfarandi stjórnar þegar þeir höfnuðu alfarið að ræða á málefnanlegan hátt um stöðu íslensks þjóðfélags á annan hátt en að allt væri hér í besta lagi. Ísland væri hin fullkomna glansmynd og þetta fólk brást reitt við ef bent var á eitthvað sem bætur mætti fara. Þótt lagðar væru fram skýrslur frá viðurkenndum aðilum sem sýndu að við værum ekki á réttri leið eða að það mætti gera betur. Þeim var alfarið hafnað og aðrar dregnar fram, jafnvel frá árinu 2000 og jafnvel skýrslur sem sýndu allt annað en til umræðu var. Það virtist algjörlega vonlaust að koma á dagskrá umræðu um hvort ekki væri ástæða til þess t.d. að bæta aðbúnað aldraðs fólks, ná meiri stöðugleika í efnahagslífinu, bæta stöðu starfs- og símenntunar, endurskoða vaxtabætur og barnabætur og endurskoða skerðingar bótakerfisins.

Fráfarandi ríkisstjórn tókst ekki að skapa sama stöðugleika verðlags og velferðar hér á landi og er í samkeppnislöndum okkar. Eitt helsta verkefni í komandi kjarasamningum verður að stuðla að því að verðbólga festist ekki í háum tölum og mikilvægt er að koma vöxtum í svipað horf og annars staðar. Góð staða þjóðarbúsins er að stærstum hluta til reist á gífurlegri veltu sem skapaðist af miklum viðskiptahalla og olli miklum skatttekjum. Auk þess af sölu fyrirtækja í eigu ríkisins. Kvik staða efnahagslífsins getur leitt yfir okkur geysilegan vanda og erfið ár ef ekki verður við völd sterk stjórn með vilja til þess að taka á efnahagsstjórninni.

Vaxandi fjöldi fólks hefur viljað ræða kosti og galla aðildar að Evrópusambandinu með dýpri, víðari og skilmerkari hætti en nú er gert. Áhrifamikill hópur innan Sjálfstæðisflokksins hefur ekki viljað hleypa umræðu um frekari aðild að ESB af stað, og ýtt öllum tilraunum til umræðu út af borðinu. Aldrei hafa komið fram skiljanleg rök fyrir þessu. Hópurinn hefur látið stjórnast af tilskipunum frá flokksskrifstofunni og innbyrt skoðanir eins og um trúarbrögð væri að ræða. Það er núna ástæða fyrir þennan hóp að óttast vegna þeirrar einföldu staðreyndar að Samfylkingin er Evrópusinnaður stjórnmálaflokkur og í Sjálfstæðisflokknum er vaxandi sá hópur sem gerir sér grein fyrir að það verður þegar til lengri tíma er litið að hætta með sjálfstæðan gjaldmiðil og taka þess í stað upp evru með inngöngu í ESB.

Sú ríkisstjórn sem nú tekur við þarf að ná tökum á efnahagsstjórninni og búa sig undir það tekjutap sem óhjákvæmilega verður þegar einkaneyslan dregst saman. Fyrstu skref sem ný ríkisstjórn verður að taka samræmast fyrstu skrefum í átt til þess að uppfylla þau skilyrði sem gera okkur tæk í myntbandalag Evrópu. Vitanlega þurfa alvörustjórnmálamenn að greina hver yrðu samningsmarkmið þjóðarinnar gagnvart Evrópusambandinu. Talið er að kostnaður við ESB-aðild Íslands sé um 5 milljarðar króna á ári. Kostnaður heimilanna við að verja krónuna er ekki hár í samanburði við þann kostnað sem er af háu vaxtastigi hérlendis og miklum vaxtamun gagnvart nágrannaþjóðunum.

Við eigum að tryggja stöðuga uppbyggingu atvinnulífsins. Auka þarf útflutningstekjur til þess að jafna viðskiptahallann. Byggja þarf á áframhaldandi virkjun fallvatna og jarðvarma, en gæta verður að því hvar borið er niður í þeim efnum. Einnig þarf að efla hvers konar atvinnustarfsemi byggða á nýrri þekkingu og tækni. Tryggja verður að hvorutveggja dafni með öðrum og eldri atvinnugreinum í landinu. Ruðningsáhrif mikilla framkvæmda og samspil við illa skipulagðar og handahófskenndar breytingar á fjármálamarkaði hafa valdið hátæknifyrirtækjum rekstrarvanda. Stjórnvöld verða að taka tillit til íslenskra hátæknifyrirtækja og útrásar íslensks tæknifólks. Möguleikar okkar til frekari uppbyggingar hátækni eru jafnir á við stóriðju. Þar má benda á alþjóðlega tölvuhýsingu og gagnavinnslu. Slík starfsemi þarf mikla orku, mikinn fjölda tæknimanna og er án mengunaráhrifa. Byggja þarf upp öflugt ljósleiðarasamband á milli landa, í eigu og rekstri ríkisins og án gjaldtöku.

Allt of stór hluti launamanna hefur ekki lokið skilgreindu námi. Stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðar eiga að taka höndum saman um að setja sér metnaðarfull og vel skilgreind markmið. Á næsta áratug þarf að gera stórátak í að treysta stöðu þeirra tugþúsunda fólks á vinnumarkaði sem hafa litla formlega menntun, með raunfærnimati, náms- og starfsráðgjöf og sérstöku menntunarátaki. Setja á markmiðið við að innan við 10% vinnuaflsins verði án viðurkenndrar starfs- eða framhaldsmenntunar í lok þessa tímabils. Tryggja á rétt einstaklingsins til að ljúka a.m.k. einu viðurkenndu námi á framhaldsskólastigi á kostnað ríkisins, auk rétts til raunfærnimats og möguleika á að sækja sér aukna menntun með námsorlofi.

Við erum íslendingar, aðrir eru það ekki

Kosningabaráttan er farinn af stað og ekki stendur á yfirlýsingum. „Hinir eru á móti Íslandi og öllu sem íslenskt er. Við viljum verja Ísland,“ sagði fyrrverandi ráðherra þeirrar ríkisstjórnar sem leiddi okkur út í mitt fenið í fyrra. Þetta er klárlega mesta lágkúran sem ég hef heyrt hingað til.

Íslenska krónan er ónýtur gjaldmiðill og með henni mun ekki fara fram lífnauðsynlegt endurreisnarstarf. Það er andstætt íslenskum hagsmunum að vilja drepa málinu á dreif með því að leggja enn einu sinni til einhliða upptöku Evru. En sumir eru svo litlir að geta ekki horfst í augu við eigin gjörðir og viðurkennt mistök. Sjónarmið þessa fyrrv. ráðherra eru að leiða Ísland í enn meiri glötun, það er hann sem fer á móti Íslandi og öllu sem íslenskt er. Atvinnulífið mun hrynja og við blasir fólksflótti frá landinu og langvarandi ofuratvinnuleysi.

Félagsmaður hafði samband við mig nú í vikunni og sagði að hann ásamt konunni væru búin panta orlofsferð suður á bóginn. Þau ættu töluvert af vildarpunktum og hann spurði; „Er ekki betra að ég greiði ferðina með laununum sem ég fæ útborgað næst, en geymi frekar vildarpunktana okkar. Þeir munu standa betur en allt útlit fyrir að krónan falli.“ Þetta segir allt um hvernig komið er fyrir krónunni í huga fólks, hún er ekki bara bönnuð í erlendum viðskiptum.

Við erum á leið í annað hrun í haust ef ekki verður gripið til aðgerða nú þegar. Það verður okkar eigin hrun, ekki á kostnað erlendra kröfuhafa eins og gerðist í haust. Þá munu innistæður í íslenskum bönkum ekki halda og ekki heldur eignir lífeyrissjóðanna. Í þeirri stöðu munu erlendir lánadrottnar taka bein veð í auðlindum okkar. Afstaða Sjálfstæðisflokksins er að leiða okkur í þá stöðu að innan skamms höfum við glatað öllum helstu virkjunum þessa lands, auk þess að kvótinn verður kominnn í hendur erlendra aðila.

Þjóðin getur komist hjá því - en til þess þarf djarfar ákvarðanir sem stjórnmálaflokkarnir virðast ekki færir um að ráða við. Við höfum byggt okkar þjóðfélag á sandi. Sumir stjórnmálamenn ætla að bjóða börnum okkar upp á slíkt hið sama, því þeir eru að verja hagsmuni fárra.

Við nýtum allan okkar starfsaldur til þess að kaupa íbúð og greiða í lífeyrissjóð og það verður skyndilega einskis virði vegna slakra stjórnmálamanna.

Þetta er það sem skilur svo glögglega á milli hinna gömlu rótföstu þjóðfélaga í Evrópu og svo Íslands. Þær hafa gjaldmiðla sem valda því að eignir standa af sér tímabundna niðursveiflu. En við höfum Matador peninga varða af Sjálfstæðisflokknum og sérsniðna fyrir lítinn hóp manna í útgerð svo framkvæma megi blóðsúthellingalausan niðurskurð á kjörum landsmanna gangi útgerðinni ekki allt í haginn.

Það leiðir til þess að aðrir í Evrópu standa betur en við í þó svo þar ríki niðursveifla. Það fólk byggir sín hús á steini og á sína fjármuni í tryggum gjaldeyri.

laugardagur, 18. apríl 2009

Við stöndum á nýrri bjargbrún

Ísland skuldar 1.100 milljarða. Við eigum líklega fyrir vöxtunum af þessum lánum ef laun verða skorin niður og útgjöld til heilbrigðis og menntamála minnkuð, ekkert umfram það. Til þess að rífa landið upp þarf að fjölga störfum og auka útflutningstekjur. Forsvarsmenn þeirra fyrirtækja sem hafa tekið við aukningu á vinnumarkaði eru sammála um að það verði ekki gert með krónuna sem gjaldmiðil.

Fyrirtækin, utan útgerðar eru sammála um að eina leið Íslands úr þessum vanda sé að hefja strax aðildarviðræður við ESB og stefna á upptöka Evru. Það muni endurvinna okkur nauðsynlegt traust, lækka vexti á erlendum lánum og skapa okkur stöðu til þess að semja um ásættanlegt greiðslu lána eða jafnvel niðurfellingu hluta þeirra.

Endurtekið útspil Sjálfstæðisflokksins um einhliða upptöku er fjarstæðukennt fálm. Þar er farið að sjónarmiðum LÍU, ekki annarra fyrirtækja. Sjálfstæðisflokkurinn er að einangrast og er í andstöðu við öll fyrirtækin nema útvegsmenn.

Með því að setja verndun hagsmuna LÍÚ fremst stefnir Flokkurinn þjóðinni í mikla hættu, tefur uppbyggingu efnahagslífsins og er að tryggja viðvarandi atvinnuleysi, lág laun og slakan kaupmátt. Áframhaldandi háa vexti og verðtryggingu.

Næsta vetur verða öll helstu fyrirtækin að endurfjármagna sig og ef ekki verður búið að undirbúa þann jarðveg blasir við önnur bylgja hruns. Sjálfstæðisflokkurinn kann tökin á því að undirbúa slíkt og ætlar að því virðist að endurtaka leikinn.

Svo var komið síðasta haust að engin vildi lána Íslandi, nema við myndum undirgangast skilyrði IMF. Ekki einu sinni hin norðurlöndin vildu lána okkur krónu. Það varð að þvinga íslensk stjórnvöld til þess að breyta um stefnu. Þrátt fyrir þessar staðreyndir ætla sömu stjórnmálamenn að halda áfram á sömu braut.

Viðhorf til Íslands eru neikvæð og þau litlu lán sem okkur standa til boða eru á mjög háum vöxtum, vegna þess háa áhættuálags sem við búum við. Það liggur fyrir að ef við breytum um stefnu munu viðhorf til okkar breytast, það hefur komið fram hjá m.a. Finnum og Svíum um aðstoð og lán á hagstæðari vöxtum.

Fyrri bylgjan hitti hið erlenda lánsfé sem hér var og við töpuðum 80 milljörðum dollara af erlendu lánsfé. Bylgjan í haust lendir milliliðalaust á íslensku atvinnulífi og heimilum. Lykilfyrirtæki munu falla og algjört öngþveiti myndast og við blasir 10 - 15 ára lægð og fátækt.

Það hefur ekki verið fjölgun starfa í byggingariðnaði, sjávarútvegi eða landbúnaði, jafnvel frekar fækkun í sumum þessara greina þá helst í fiskvinnslu. Fjölgun atvinnutækifæra hefur átt sér stað í sprota- og tæknifyrirtækjum og þar eru möguleikar til þess að fjölga störfum og auka útflutningstekjur. Ungt íslenskt fólk sem hefur leitað sér menntunar sér ekki atvinnutækifæri í landbúnaði eða fiskvinnslu.

Í þessu sambandi má t.d. benda á samsetningu félagsmanna Rafiðnaðarsambands Íslands. Árið 1990 voru félagsmenn um 2000, um 600 unnu í byggingariðnaði og svipaður fjöldi í útgerð, fiskvinnslu og landbúnaði, 300 í orkugeiranum og um 500 tæknigeiranum. Í dag eru rafiðnaðarmenn tæplega 7000. Sami fjöldi vinnur í öllum geirum og árið 1990 utan tæknigeirans, þar vinna í dag 5000 rafiðnaðarmenn. Öll fjölgunin hefur verið þar. Þetta eru lykilmenn tæknifyrirtækjanna og er sá hópur sem hefur mestu möguleikanna til þess að leita sér að störfum annarsstaðar.

Forsvarsmenn þeirra fyrirtækja sem hafa byggst upp á undanförnum árum eins og CCP, Marel, Össur og Actavis segja að krónan hafi reynst þeim mjög illa. Krónan sé ástæða þess að þau eru með mun fleiri starfsmenn erlendis en hér heima. Þau sjá ekki sína framtíð hér, þó svo þau vildu svo gjarnan. Ef haldið verði áfram á þessari braut verða þau að flytja höfuðstöðvar sína frá Íslandi.

Ef Evran hefði verið til staðar þá hefðu þessi fyrirtæki verið byggð næstum alfarið hér á landi og væru með mun fleiri starfsmenn hér heima, jafnvel á þriðja þúsund fleiri. Það hefði skapað afleiður í öðrum fyrirtækjum með enn fleiri störfum.

Það er með hreinum ólíkindum hvar minn gamli flokkur stendur gagnvart þessum staðreyndum og er orðin eins steingerfingur sem rökstyður sín við'horf með úreltum klisjum og upphrópunum.
Það er alrangt sem stjórnmálamenn halda fram að veik krónan sé góð til uppbyggingar, segja forsvarsmenn tæknifyrirtækjanna. Það á einvörðungu við sjávarútveginn. Veik króna leiðir til veikra fyrirtækja sem falla sama dag og krónan styrktist. Íslensk stjórnvöld eru að brjóta lög og reglur EES samningsins með gjaldeyrishaftastefnu og þolinmæði EES er þrotin.

Svíar taka við forystu ESB í júlí og þeir hafi gefið það út að ef við viljum viðræður þá muni þeir aðstoða okkur við það, en við verðum að fara fram á viðræður fyrir 15. júní næstk. En það virðist vera svo að stjórnmálamenn ætli að leiða yfir Ísland enn meiri hamfarir.

fimmtudagur, 16. apríl 2009

Úrslitastund nálgast

Það liggur fyrir að ef Ísland á að komast út úr efnahagsvandanum verður að greiða niður höfuðstól erlendra skulda hratt. Það verður ekki gert án þess að byggja upp atvinnulífið og auka útflutningstekjur. Það er útilokað að gera með þeim gjaldmiðli sem við búum við. Hann er ónýtur.

Þessi uppbygging verður ekki gerð án þess að náð verði samningum við þá sem Ísland skuldar og skapaðir möguleikar á að erlendir aðilar vilji leggja fram fjármagn og lán til fjárfestinga í íslensku atvinnulífi, án þess að það sé á okurvöxtum. Það verður ekki gert án aðstoðar Evrópska Seðlabankans.

Ekkert atvinnulíf og þaðan af síður heimili þola þá vexti sem tilvist krónunnar veldur. Það verður enging uppbygging á þesusm vöxtum. Ef ekkert verður gert í þessum málaflokki á allra næstu vikum blasir við gríðarlegt fall fyrirtækja í landinu. Þau hafa haldið sér gangandi á eigin fjármagni, en nú blasir við að ekki verður lengra komist á þeirri braut.

Það er ótrúlegt að þetta skuli ekki vera aðalmál í pólitískri umræðu fyrir komandi kosningar. Ef ekki er verður af viðræðum við ESB á næstunni blasir við þjóðinni gríðarlegt fall og við blasir fjöldagjaldþort íslenskra fyrirtækja og brottflutningur annarra. Gríðarleg aukning á atvinnuleysi sem mun verða langvarandi jafnvel 10 – 15 ár.

Spírall niður á við hefur verið að myndast í vetur. Það að keyra framkvæmdir niður leiðir til þess að fyrirtækin verða draga saman og fækka starfsfólki. Það leiðir til þess að fjölgun verður á atvinnuleysiskrá.

Það skapar svo aftur á móti vaxandi fjölda þeirra sem eru tilbúnir að taka til hendinni stund og stund, svart svo þeir falli ekki af bótum og missi margskonar réttindi. Sem skapar aftur að þau fyrirtæki sem nýta sér þessa stöðu geta tekið að sér verkefni fyrir mun lægra verð en fyrirtæki sem eru að reyna að hafa allt samkvæmt reglum samfélagsins.

Þetta leiðir til þess að um 40% af veltunni fer fram í neðanjarðarhagkerfinu. Starfsmenn í þessu umhverfi greiða ekkert samfélagsins, en fá ýmsar bætur vegna lágra uppgefinna tekna. Spírallinn herðir á sér.

miðvikudagur, 15. apríl 2009

Froða skattahækkunarflokksins

Afstaða Sjálfstæðismanna gagnvart breytingum á stjórnarskrá og andstaða þeirra gagnvart stjórnlagaþingi hafa ekki komið á óvart. Flokkurinn hefur aldrei þorað að leita til fólksins í landinu og verið andstæður þjóðaratkvæðagreiðslum.

Allt er nú á bólakafi í óútskýrðum ofurstyrkjum á sama tíma og forsvarsmenn Flokksins reyndu að telja fólkinu í landinu í trú um hreinleika sinn með setningu laga sem takmarka áttu styrki til stjórnmálamanna og flokka þeirra. Einungis hafa verið gefnir upp styrkir til móður Flokksins, en ekki hafa verið gefnir upp styrkir til hverfafélaga og annarra stofnana flokksins. Þekkt er að prófkjör innan Flokksins hafa sum hver kostað óhemju fjárhæðir.

Sé litið til viðbragða formanns Flokksins og starfsmanna hans gagnvart beiðnum um að upplýst verði um þessa styrki, má telja öruggt að þar sé eitthvað sem ekki þoli dagsins ljós.

Það sem gerir þetta allt svo ógeðfellt er að fjármálastefna og ofsafengna Frjálshyggja í stjórnartíð Flokksins undanfarin 18 ár er tengd stefnu flokksins. Það er reyndar með ólíkindum að heyra ummæli þingmanna í fjölmiðlum og á Alþingi þessa dagana. Fyrir liggur mikill fjárlagahalli, tekjufall ríkissjóðs, en á sama tíma er talað eins og hægt sé að gefa í og sniðganga skattahækkanir. Það blasir við að skapa verður stöðu til þess að greiða niður þær skuldir sem stefna Flokksins hefur steypt þjóðinni í.

Á sama tíma stóð Flokkurinn fyrir mikilli hækkun á sköttum þeirra lægst launuðu með því að láta persónuafslátt og skerðingarmörk bótakerfisins standa kyrr þrátt fyrir verðbólgu. Með því voru t.d. barnabætur og vaxtabætur lækkaðar um nokkra milljarða.

Launamenn á almennum markaði búa nú við miklar launalækkanir, ekki bara missi á yfirvinnu á afkastatengdum tekjum. Auk þess er mestur hluti atvinnuleysis á þeim hluta vinnumarkaðs.

Eftirtektarverð hreinskilni kom fram í framsetningu Katrínar menntamálaráðherra í gær um stöðu opinberra starfsmanna og stóðu orð hennar langt fyrir ofan alla þá ómerkilegu froðu sem flýtur um sali stjórnmálamanna þessa dagana, þá sérstaklega frá þingmönnum Flokksins. Katrín er líklega eftirtektarverðasti stjórnmálamaður dagsins í dag.

mánudagur, 13. apríl 2009

Um staðreyndir

Það er alltaf ástæða til þess að staldra við og skoða hvað sé nú á seiði þegar forsvarsmenn Sjálfstæðisflokksins sjá ástæðu til þess að taka það sérstaklega fram hversu heiðarlegir þeir séu og aðrir óheiðarlegir. Í gær birti fyrrv. sjávarútv.ráðherra sprenghlægilega grein þar sem hann fer á kostum í lýsingum á heiðarleika Flokksins.

Það er undantekningalaust eitthvað óhreint á ferðinni þegar þessi flötur birtist. Valhöll er tekinn til við spunann og ástæða til þess að endursemja söguna. Þetta er svo minnistætt frá Eyjabakkamálinu, Fjölmiðlamálinu, Eftirlaunamálinu, skipan háskólaprófessors, tveggja hæstarréttardómara, héraðsdómara, seðlabankastjóra og svo 9 sendiherra. Sjá hér, og hér og hér og hér

Nú telja sjálfstæðismenn sérstaka ástæðu til þess að taka fram hversu heiðarlegir hafa verið hvað varðar OR og REI málið. Hér er greinargóð yfirlitsgrein úr Morgunblaðinu um málið.

sunnudagur, 12. apríl 2009

Krónan

Nú stendur yfir í boði stjórnvalda blóðsúthellingalaus leiðrétting á kaupmættinum, eins og stuðningsmenn krónunnar segja til varnar áframhaldandi tilvistar hennar. Krónan er okkur dýr, rándýr. Tilvist hennar kallar á miklar sveiflur og hærri vexti. Áætlanagerð er nánast vonlaus og tilvist krónunnar býr okkur umhverfi hárra vaxta og verðtryggingar.

Útflutningur er forsenda búsetu í landinu og áhrifamikill um gengi krónunnar. Náttúrulegar sveiflur í fiskveiðum ásamt sveiflum í verðlagi hafa verið leiðréttar með handafli stjórnvalda í gengi krónunnar. Aukning orkubúskapar og aukinn iðnframleiðsla hefur unnið að nokkru á þessum sveiflum hefur skapað aukna möguleika á stöðugleika, þ.e.a.s. ef efnahagsstjórnun er rétt.

Harla einkennileg umræða hefur farið fram í vetur um verðtryggingu og hafa þeir sem hæst hafa haft ekki litið til þeirra forsenda, sem urðu til þess að stjórnvöld gripu til þess ráðs að setja á lög um verðtryggingu 1983. Stórkostleg eignaupptaka átti sér stað á áttunda áratugnum. Stjórnvöld settu á neikvæða vexti þannig að allt sparifé og lífeyrissjóðir gufuðu upp. Gríðarlegt fjármagn var fært til þeirra sem nutu þeirra forréttinda að fá lán.

Til þess að vinna gegn þessu og skapa forsendur lánsfjármagns tókst loks að ná þjóðarsátt um stöðugra verðlag og jákvæða ávöxtun. Það skapaði forsendur til að fólki stóð til boða langtímalán. Verðtrygging er greiðslumiðlun á háum vöxtum og nú er Landsbankinn að bjóða upp á annað form greiðslumiðlunar á háum vöxtum, sem þó svipar til þess eldra.

En stjórnendur fjármálakerfisins þróuðu með sér nýtt form forréttinda fólgið í að útvöldum stóðu til boða gríðarleg lán án þess að þurfa að leggja fram tryggingar, sem nýtt voru til þess að gíra upp hlutabréf og ná út úr hagkerfinu milljörðum króna. Ofurlaun, bónusar, premíur, styrkir auk pólitískra hyglinga og kúlulána varð að skiptimynt innan útvalins hóps.

Fjármagn til þessa kom ekki af himnum ofan frekar en áður. En stjórnarþingmenn undanfarinna 18 ára virðast hafa staðið í þeirri trú að þeir væru ásamt fjármálamönnum og forseta Ísland búnir að finna upp kostnaðarlausa aðferð til þess að útbýta ókeypis málsverðum, glysferðum erlendis og á bökkum íslenskra laxveiðiperlna, ásamt tugmilljóna styrkjum til stjórnmálaflokka. Það var fjármagnað okurþjónustugjöldum og gríðarlegum vaxtamun, ásamt lakari ávöxtun eða verðfalli á eignastýringum sparifjáreigenda.

Greiðandinn var hinn sami og áður, almennir launamenn og skattgreiðendur. Það er einungis ein leið út úr þessum vanda, hún felst í því að koma stjórnkerfinu inn í annað umhverfi þar sem stjórnmálamenn komast ekki upp með jafnóvandaða stjórnarhætti og þeir hafa þróað í tíð ríkisstjórna síðustu 18 ára.

Ná verður stöðugleika og lágri verðbólgu. Það er forsenda lágra vaxta og endanlegu afnámi verðtryggingar, hvaða nafni sem bankamenn kjósa að kalla hana. Upptaka annars gjaldmiðils mun taka einhvern tíma. Eitt brýnasta verkefni nýrrar ríkisstjórnar er að hefja þetta ferli strax eftir kosningar og þá með því að endurskoða vísitölugrunninn.

Pólitísk stefna til sölu

Þær voru um margt harla einkennilegar yfirlýsingar Guðlaugs Þórs, formanns Sjálfstæðisflokksins og nokkurra annarra þingmanna flokksins í fréttunum í gærkvöldi, í kjölfar þess að tveir menn gáfu út yfirlýsingu um að þeir hafi farið að beiðni Guðlaugs um að fá tugmilljóna styrki frá fyrirtækjum. Þar með fannst Guðlaugi og félögum málið afgreitt og það myndi ekki hafa neinar afleiðingar. Þetta segir okkur allt um virðingu þessara manna fyrir kjósendum.

Á sama tíma og unnið er að því baksviðs að hesthúsa tugmilljóna styrki eru þessir hinir sömu þingmenn á hinu hæstvirta Alþingi að vinna að lagasetningu reistri á þeim rökum að það sé óhæfa að fyrirtæki geti greitt stjórnmálaflokki stórar fjárhæðir og með því haft áhrif á pólitíska stefnu viðkomandi flokks.

"Minn Flokkur hefur ekkert að fela í fjármálum, en það verður að eyða tortryggni um fjármál stjórnmálaflokka," sagði Geir Haarde opinberlega um þetta, en skrapp svo baksviðs og tók við styrkjunum.

Fyrirtækin greiddu vitanlega þessar gríðarlegu fjárhæðir til Flokksins til þess að stuðla að pólitískri stefnu sem væri þeim þóknanleg, svo þau gætu haldið áfram að athafna sig í því umhverfi sem þau vildu hafa. Afskiptaleysi hins opinbera á fjármálamarkaði.

Öll vitum við hvernig þetta afskiptaleysi Flokksins og athafnir þessara fyrirtækja leiddi íslenska þjóð fram af hengifluginu án þess að það væri svo mikið sem millimeters bremsufar á bjargbrúninni. Lýsingar á því hafa verið í hverjum einasta fréttatíma í allan vetur.

Í fréttunum í gær var einnig fjallað um gríðarlega skuldsetningu stjórnmálaflokkanna. Óábyrg fjármálastjórn stjórnmálaflokka hefur sett pólitíska stefnumótun í þá stöðu að hún fer fram í boði fjármálamanna. Þrátt fyrir að stjórnmálaflokkarnir séu að fá gríðarlegar fjárhæðir úr ríkissjóð, sem hafa verið auknar reglulega á undanförnum árum.

Það breytir engu. Sett eru upp leikrit um heiðarleika og ábyrgð á Alþingi gagnvart kjósendum, en baksviðs fer fram uppboð á hinni pólitísku stefnu.

Og þingmönnunum sem voru í fréttunum í gærkvöldi fannst ekkert athugavert við þetta. Einungis væri verið að bjarga Flokknum þeirra út úr erfiðri fjármálastöðu, skítt með hvaða afleiðingar það hefði fyrir almenning.

föstudagur, 10. apríl 2009

Gjörspilltir stjórnmálaflokkar

Eftir að hafa heyrt hver atburðarásin var, þá er það auðljóst að rausnarlegir "styrkir!!" voru til þess að liðka fyrir ákveðnu ferli í forystu tveggja stjórnmálaflokka. Árni M. Mathiesen, þáverandi fjármálaráðherra, og Jón Sigurðsson, þáverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra ákváðu t.d. að selja öll hlutabréf ríkissjóðs í Hitaveitu Suðurnesja og það var Glitnir sem lýsti áhuga á að kaupa þennan hlut ríkisins í HS.

FL Group var þá kjölfestufjárfestir í Glitni. Í kjölfar þessa hófust umræður um sameiningu dótturfyrirtækis Orkuveitu Reykjavíkur, Reykjavík Energy Invest, og Geysis Green Energy, sem var að stórum hluta í eigu FL Group. Landsbankinn átti einnig margvíslega og mikilvæga hagsmuni undir ákvörðunum þeirra, sem með ríkisvaldið fóru.

Þetta heitir reyndar ekki "styrkir" þetta eru mútur. Nú bíðum eftir því að heyra hversu mikið aðrir fengu, t.d. Framsóknarflokkurinn. Það blasir við.

Ef þetta var svona þegar undirbúningur stóð yfir að hleypa fjármálamönnum inn í orkubransan, fóru þá ekki fram einhverjar „styrkveitingar“ þegar sömu aðilar seldu bankana.

Vinahyglingin hefur blasað við okkur öllum og í raun er enginn undrandi á þessu. Þetta er einungis staðfesting á því sem við vitum, hversu gjörspilltir þessir stjórnmálaflokkar eru.

Það er engin afsökun þó Guðlaugur eða Kjartan segjast ekki hafa vitað af þessu og það trúir því ekki nokkur lifandi maður. Allir vissu hvaða löggjöf var á leiðinni í gegnum þingið og hvað þótti eðlilegt í þessu sambandi. Það er svo stutt síðan upphlaupið varð í borgarstjórn og allir muna aðkomu Guðlaugs að því máli.

Forysta stjórnarflokkanna virti skoðun almennings einskis eins og alltaf áður. Ætlunin var að ná forskoti á hina flokkana með þessum „styrkjum“ áður en þeir lokuðu á möguleika annarra í komandi kosningum með löggjöfinni. Þessir hinir sömu höfðu áður gengið fram af þjóðinni við sölu bankanna, en höfðu greinilega ekkert lært.

En „styrkirnir“ voru ekki nægjanlegir. Þessir hinir sömu stórhækkuðu framlög úr ríkissjóð til flokkanna. Nokkru síðar stórhækkuðu þeir framlögin, þá með því að ákveða að setja 32 kosningasmala og spunameistara á launaskrá Alþingis.

Þessi veröld er svo sjúk, og það er í skjóli þessara viðhorfa sem fjármálalífið blómstraði á þann veg sem það gerði og hvers vegna Ísland er í núverandi stöðu, gjaldþrota og rúið öllu trausti.

Munið þið svo eftir hvernig þessir hinir sömu létu utan í Herði Torfa fyrir nokkrum dögum. Þar fóru Sjálfstæðismenn með Björn B. í broddi fylkingar með ásökunum um mútuþægni og að Hörður væri á vegum einhverra peningamanna, þá helst Baugs. Nú er komið fram að Björn og félagar fengi tæplega 100 millj kr. í mútur svo maður noti þeirra eigin orð.

Þetta fólk er á svo lágu plani, svo óendanlega lágu plani

fimmtudagur, 9. apríl 2009

Við erum óspilltustu menn í heimi

Það var venja þingmanna SjálfstæðisFlokksins fyrir hrun, að fara reglulega í pontu Alþingis og lýsa því yfir að þeirra stjórnmál væru spillingarlaus og vísuðu ætíð til erlendrar úttektar.

Reyndar var tekið fram í þeirri úttekt að hún væri vart marktæk á Íslandi sakir þess að á Íslandi væru í mörgum tilfellum ekki þau lög sem dæmt væri eftir. Það er að segja þó svo Ísland fengi ekki mínus fyrir tiltekin atriði, þá væri það vegna þess að það atriði væri ekki mælanlegt og það setti Ísland svo ofarlega sem raun bæri vitni. Þingmenn SjálfstæðisFlokksins hæddust af þeim sem bentu á þetta. Nú er kominn fram staðfesting á því að þingmenn SjálfstæðisFlokksins töluðu gegn betri vitund.

Margir hafa hér á Eyjunni velt því fyrir sér hvers vegna forsvarsmenn ríkisstjórnarflokkanna kölluðu ekki á efnahagslögregluna strax á fyrsta degi hrunsins. Hvers vegna ráðherrar SjálfstæðisFlokksins drógu allar aðgerir og skipuðu svo flokkstryggan, þægan og góðan dreng ofan úr Borgarfirði í rannsóknarstjórn og létu hann hafa litla skrifstofu og ekkert annað. Það blasti við hvað átti að gera. (réttara sagt ekki gera)

Heimildarmenn mínir héldu því fram að það væri vegna þess að forsvarsmenn Flokksins vildu ekki að tiltekin atriði kæmu upp á yfirborðið. Þar væri um að ræða lán og framlög til flokksins og eins nokkurra þingmanna.

Ég hef nokkrum sinnum á þessari síðu haldið því fram að næsta kjörtímabil yrði stutt vegna þess að rannsóknarnefndir hefðu ekki lokið sínum störfum. Búsáhaldabyltingin færi aftur í gang þegar öll gögn kæmu upp á borðin og það kallaði á að fleiri lykilstjórnmálamenn yrðu að taka pokann sinn.

Nú liggja fyrir svör hvers vegna SjálfstæðisFlokkurinn hafnaði ætíð að opna bókhald sitt. Aldrei hefur það verið augljósara hversu nátengd stjórnmál og atvinnulíf eru. Ítrekað hefur komið fram hér á Eyjunni gagnrýni á störf skilanefndanna. Hvaða fyrirtæki fá að lifa og hver ekki?; hafa Samtök atvinnulífsins spurt. Eiga hagsmunir stjórnmálamanna að ráða því?

Nú liggja fyrir skýringar á klækjapólitík SjálfstæðisFlokkursins í orgarstjórn þar sem spillað var með málefni OR á borði upp í Valhöll. Þar voru hagsmunir borgarbúa virtir að vettugi og með jöfnu millibili var farið í fréttatíma Sjónvarpsins og hrópað; "Við erum óspilltustu menn í heimi"

Hagsmunir valdakjarna Flokksins réðu þar öllu. Pólitískum ferli Guðlaugs Þórs er greinilega lokið.

Mjög fáir hafa séð nokkur einusti rök í innihaldslausu málþófi þingmanna Flokssins undanfarna daga og baráttu þeirra gegn breytingum á Stjórnarskránni. Þeir óttast valdatap.

Nú ligga fyrir skýringar á því hvers vegna Flokkurinn vill við halda krónunni og ekki ganga í ESB, þá kemst hann ekki upp með þá spillingu sem hann hefur þrifist á.

Svona í lokin, er ætlast til þess að flokksforystan viti ekki af tugmilljóna innleggi í flokksjóðinn. Á því gætu verið tvær skýringar.
1. Það væri svo algengt að menn væru hættir að taka eftir því

2. Þessir menn væru orðnir svo vanir að segja bara það sem þeim finnst best í hvert skipti, án þess að það þurfi endilega að vera í nokkrum tengslum við nokkurn skapaðan hlut.

Það höfum við reyndar orðið svo oft vitna að og blasir við ef skoðaðar eru skýringar þessara hinna sömu á Íslenska efnahagsundrinu fyrir svona liðlega ári síðan og svo það sem þeir eru að segja þessa dagana í ræðustól hæstvirts Alþingis, í innihaldslausustu og málefnalausustu umræðu þar sem þeir tefja nauðsynlegar bætur fyrir fjölskyldur, en það varnir valdanna standa þar framar.

miðvikudagur, 8. apríl 2009

14% vaxtamunur vegna krónunnar

Eftir 1,5% lækkun vaxta í dag er vaxtamunur milli Íslands og ESB landa 14%. Ef við værum með Evru núna værum við með um 3 - 4% verðbólgu, enga verðtryggingu og vexti á húsnæðislánum um 4% og í viðskiptum um 4 -5% og ekki væru hér gjaldeyrishöft.

Kostnaður af krónunni er óheyrilegur. Fyrir hrun var vaxtamunur milli Íslands og ESB að jafnaði um 3 - 3,5%. Eftir hrun má gera ráð fyrir að þessu vaxtamunur verði enn meiri. Hagfræðingar segja að við gætum í besta falli reiknað með að ná vaxtamun niður í 6%.

Þá er reikningurinn vegna krónunnar farin að nálgast 200 milljarða króna. Þetta jafngildir hvorki meira né minna en 25% af öllum launum í landinu! Það gefur auga leið að þessi kostnaður leggst á almenning í formi lægri launa, hærra verðlags, hærri skatta og/eða lægra þjónustustigs hins opinbera.

Sumir berjast gegn Evru og ESB og vilja halda áfram í krónuna. Hvar eru rökin? Þau hafa aldrei komið fram. Svíþjóð og Finnland þakka inngöngu í ESB skjótan bata eftir þeirra hrun. Öll vitum við að Svíþjóð, Finnland, Danmörk og fleiri lönd innan ESB eru fullvalda ríki.

þriðjudagur, 7. apríl 2009

Steingeld kosningabarátta

Nú er kosningabaráttan að fara á fullt. Einhvern veginn átti ég von á að kosningarnar myndi snúast um hvert við ættum að stefna í peninga- og efnahagsmálum. Hvaða lærdóma við hefðum dregið af atburðum síðustu ára. Gríðarlega sveiflur gjaldmiðilsins, erfiðleikar fyrirtækja, gríðarlegur kostnaður vegna krónunnar, há verðbólga hátt verðlag og háir vextir.

En það virðist stefna í enn eina kosningabaráttuna þar sem stjórnmálamenn hafa ekki dug í sér að takast á um framtíð Íslands. Þeir ætla að rífast enn eina ferðina um hvort teknar verði upp strandsiglingar og hvar eigi að setja veggöng. Sjálfstæðismenn tala eins og þeir hafi ekki verið á landinu undanfarin 18 ár og hinir leggja fram sannanir um að svo hafi verið. Það er innihald umræðna.

Stefnan í peningamálum er óbreytt. Umsókn um aðild að Evrópusambandinu er ekki forgangsverkefni. Þrátt fyrir að það liggi fyrir að Ísland mun ekki losna úr viðjum gjaldeyrishafta og hárra vaxta á meðan krónan er gjaldmiðill landsins. Ísland mun ekki geta náð niðurstöðu um skuldirnar fyrr en samkomulag liggur fyrir við önnur Evrópulönd.

Svo ótrúleg sem það nú er þá treysta stjórnmálamenn sér ekki til þess að fjalla um þetta mál, þrátt fyrir að forsvarsmenn atvinnulífsins hafi lýst því yfir að það sé forsenda eigi að takast að byggja fyrirtækin upp Aðgerðaleysi stjórnmálamann mun valda því að atvinnuleysi mun halda áfram að vaxa og verða langvinnara.

Hvernig í veröldinni má það vera að verið sé að leggja af stað í einhverjar afdrifaríkustu kosningar, með engar raunhæfar framtíðarlausnir.

laugardagur, 4. apríl 2009

Þú ert hér

Þessa dagana er boðið upp á raunveruleikhús í Borgarleikhúsinu. "Þú ert hér" tekur til umfjöllunar atburði dagsins í dag. Textann þekkjum við öll hann er setningar úr ræðum og viðtölum ráðamanna íslensks samfélags. Veraldar sem er leið undir lok á einu kvöldi í haust og forsætisráðherra mætti í beina útsendingu og sagði „Guð blessi Ísland.“

Hann hefði reyndar átt að biðjast afsökunar á því hvernig hann hefði komið fram við þjóð sína. Eða eigum við kannski frekar að skammast okkar fyrir hversu trúgjörn við vorum? Áttum við kannski aldrei sjéns á að eignast Porsche? Í alvörunni!!

Áhorfendum er gert að horfast í augu við sjálfa sig í rúman klukkutíma. Þann skelfilega veruleika að það sem okkur þótti frambærilegt á hæstvirtu Alþingi og virðulegum spjallþáttum fyrir nokkrum mánuðum er texti í sprenghlægilegum farsa í dag.

Hvar erum við stödd í veruleikanum? Hvað gerðist? Hvert á að stefna? Hverjum eigum við að treysta?

Þetta er það sem við viljum, atvinnuleikhús bregðist við atburðum sem eru að gerast. Leikararnir komast vel frá hinum ýmsu hlutverkum sínum. Leikstíllinn er góður og spuninn rennur kolsvartur fram. Porsche jeppinn stendur stífbónaður með íslenska fánanum fyrir framan hálfbyggðar rústir hins íslenska efnahagsundurs. Öll vinaríki litla Íslands eru svo vond, vilja ekki lána okkur meiri aur.

Stundum vita áhorfendur ekki hvort þeir eigi að hlægja. Það er eiginlega ekki viðeigandi því það eru þeir sem eru aðalþátttakendur farsans, hirðfíflin.

Góð skemmtum samfara því að vera þörf áminning til okkar. Skemmtun sem springur í lokin í orðsins fyllstu merkingu framan í aðalleikendur, áhorfendur.

föstudagur, 3. apríl 2009

Skjóta fyrst og spyrja svo

Í Mogganum í morgun á miðopnu er fjallað um ályktun miðstjórnar ASÍ um skýrar siðareglur og þá kröfu að skilgreint verðir hverjir fóru í laxveiði og glysferðir erlendis. Í greininni kemur fram að það virðist vera samkvæmt könnun Landsambands lífeyrissjóða að sögn Arnars Sigmundssonar um sé að ræða einn mann í eitt skipti hjá almennu sjóðunum.

Á hverju voru afhjúpunar greinar Morgunblaðisins um spillingu almennu lífeyrissjóðanna byggðar? Voru það kannski sögur sem áttu við bankalífeyrissjóðina? Það er brýn nauðsyn fyrir alla að fá allt upp á borðið. Hversu margar voru glys- og laxveiði ferðirnar? Hverjir voru það sem fóru í þær? Voru þeir frá almennu lífeyrissjóðunum, eða frá fjárfestingasjóðunum og bankalífeyrissjóðunum. Það eru komnar fram skýrar kröfur frá sjóðsfélögum að þeir sem fóru í þessar ferðir taki ábyrgð á gjörðum sínum.

Það er búið að skaða almenna lífeyriskerfið gríðarlega mikið með allskyns sleggjudómum. T.d hefur nokkrum sinnum komið fram í Silfri Egils ungur maður með fullyrðingar studdar með Ecxeltöflum um lífeyrissjóðina, sem bera þess merki að hann hefur nákvæmlega enga þekkingu á kerfinu. Egill hefur ásamt útvarpsstjóra algjörlega hafnað því að einhver með þokkalega þekkingu fái að koma og sýna fram á að hversu rangar forsendur eru í útreikningum hins unga manns. Hverra hagsmuna voru þeir að gæta?

Einnig má benda á auglýsingar Sælgætisframleiðanda í Hafnarfirði sem ætíð setur fram nokkru fyrir mestu sælgætishátíð landsins auglýsingar með kröfur um að sparifé þeirra launamanna sem hafa greitt í lífeyrissjóði verði tekið eignanámi og sett í að byggja og reka hjúkrunarheimili. Alltaf nær hann markmiði sínu að komast í alla fréttatíma þar sem hann stendur við hlið Páskaeggjanna sinna.

Ásökunum hefur verið beint gegn félögum sjóðsfélaga, en stjórnarmenn SA og samtök fyrirtækja hafa algjörlega sloppið. Af hverju? Hverra hagsmuna er verið að gæta?

En eitt stendur óhaggað eftir það eru launakjör nokkurra forsvarsmanna lífeyrissjóðanna, allavega eins. Þau taka um of mið að því sem var, ekki af því sem er. Voru það stjórnamenn frá sjóðfélögum sem tóku þá ákvörðum eða voru það stjórnarmenn frá SA? Hver voru launakjör stjórnenda bankasjóðanna og opinberu sjóðanna?

Skjóta fyrst og spyrja svo er oft sagt. En skaðinn er til staðar.

fimmtudagur, 2. apríl 2009

Fullveldi

Það virðist vera svo að stjórnmálamenn okkar muni ekki komast upp úr því fari að eyða allri sinni orku í að leysa vanda gærdagsins. Velja á milli tveggja lakra kosta, sé litið til fyrri haftatíma þá var ferlið nákvæmlega þannig og þjóðin sökk sífellt dýpra.

Það liggur fyrir að þjóðin vill að tekið verði á stjórnskránni, hún sé úrelt og taka verði á því ráðherraræði sem hún hefur skapað. Þingmenn sem hafa verið í ráðandi stjórnmálaflokkum undanfarin áratugi eru búnir að velta öllum tillögum um endurnýjun og breytingar á undan sér.

Framsýn og stefnumörkun vantar í alla umræðustjórnmálamanna, þrátt fyrir að öll rök bendi á að ákvarðanataka á næstu mánuðum verði ákaflega afdrifarík hvar varðar þróun efnahagslífsins.

Það þarf að skapa um 20.000 þúsund störf hér á landi á næstu 4 árum ef það á að takast að koma atvinnuleysi niður fyrir 5%. Það kalla á 4 – 5% hagvöxt. Svipaðan hagvöxt og var hér á nýliðnu háspennuhagvaxtar skeiði, sem reyndar hafði ekki alltof þægilegar afleiðingar.

Í fréttum í gær kom fram hjá dönskum bankamanna að lokað íslenskt hagkerfi útilokaði að erlendir fjárfestar myndi vilja flytja hingað fjármagn. Þetta er staðfesting á því sem aðilar vinnumarkaðs hafa verið að benda á undanfarið.

Ef við ætlum ekki að lenda í 10 – 15 ára ládeyðutímabili markað af höftum og háum vöxtum, þá komast stjórnvöld ekki hjá því að taka á gjaldmiðilsmálum. Það er gjaldmiðilskreppan sem skapar hin séríslenska vanda. Það hefur í vetur nokkrum sinnum komið fram að það sé vilji innan ESB að taka á þessum vanda með okkur, en það virðist vera svo að þetta verði ekki til alvarlegrar umfjöllunar meðal stjórnmálamanna.

Við höfum glatað fullveldi okkar í hendur eigenda erlendra skulda og jöklabréfa. Ef við ætlum að ná sama fullveldi og Finnar og Svíar náðu með inngöngu í ESB þá er ekki eftir neinu að bíða.

miðvikudagur, 1. apríl 2009

Alhæfingar og siðblinda

Hlustaði í morgun á Rás 2 þar sem var m.a. rætt við Sölvi Tryggvason sem nú er á Skjá einum. Sölvi er sannarlega einn af betri fréttamönnum okkar. Mjög góður spyrjandi, einkennilegt að hann skyldi hafa verið látinn fara af Stöð 2, hann hefur borið af í spjallþáttum fréttastofanna.

Sölvi fjallaði í morgunútvarpinu um samskipti sín við einhverja lífeyrissjóðamenn og sagði farir sínar ekki sléttar, hann hefði m.a. setið undir hótunum ef hann hætti ekki að spyrjast fyrir um spillingarmál, sem tengdur sjóðunum.

Það er nauðsynlegt að fletta ofan af þessari spillingu, hverjir það hafi verið og hvernig hún er tilkomin. Laxveiðar, golfferðir, skíðaferðir, ferðir á erlenda fótboltaleiki, úrslitaleik í meistarakeppninni eða á formúluna, tengjast klárlega ekki fjárfestingastefnu lífeyris- eða fjárfestingasjóða og sjóðsfélögum er réttilega misboðið.

Þátttakendur í glysferðum bankanna eiga refjalaust að gera sjóðsfélögum viðkomandi lífeyrissjóðs grein fyrir þátttöku sinni. Sundurgreina verður hvers konar ferðir var um að ræða og hverjir fóru. Var það með vitund stjórna sjóðanna og fóru stjórnir sjóðanna einnig. Ekki er nægjanlegt að gefa upp einhverja meðalheildartölu undanfarinna ára og um hafi verið að ræða ferðir sem tengdust fjárfestingum.

Sölvi sagði í viðtalinu í morgun að hann hefði einungis sagt að einhver frá lífeyrissjóðum hefði farið og ekki skilgreint neinn og skildi ekki hvers vegna verið væri að hóta honum. Hvers vegna sumir hefði verið að senda honum póst með kröfum um skýringar. Nú má spyrja Sölva voru það þeir sem hann hafði undir grun sem höfðu samband, eða var það saklaust fólk sem baðst undan svona ásökunum?

Það er nákvæmlega þarna sem ég er ekki sammála Sölva, líklega í eina skiptið. Það eru allnokkrir lífeyrissjóðir að störfum hér á landi. Hluti þeirra er rekinn af bönkunum, hluti er erlendur, hluti opinberir sjóðir og svo almennu sjóðirnir. Hjá þessum sjóðum starfa allmargt fólk. Fréttamönnum hættir of oft til þess að stilla upp málum með sama hætti og Sölva talaði um. Það er að alhæfa um alla, þá liggja allir starfsmenn undir grun, og snýst yfir í það að allir verða að sanna að þeir séu ekki skúrkar.

Ef fréttamaður af þeirri gráðu sem Sölvi er, varpar fram svona ásökun verður hann að huga vel að þessu. Það eru til fréttamenn sem fáir taka mark á og skiptir kannski minna hvað þeir gera. Það gerðist nákvæmlega það sama þegar fréttamenn stilltu upp málefnum bankanna með þessum hætti fyrr í vetur. Allir bankastarfsmenn voru meðhöndlaðir sem glæpamenn og urðu fyrir aðkasti.

Það hefur komið fram nú á seinni stigum að í sumar þessara ferða fóru fáir, kannski ekki nema einn. Það hefur ítrekað komið fram á undanförnum misserum að skipuleggjendur glysferða bankanna og fyrirtækja útrásavíkinganna hafi sett upp í sameiningu plön og þar sem þeir hafi boðið hvor öðrum á víxl.

Það verður að birta hvaða menn og frá hvaða fjárfestinga- og lífeyrissjóðum þáðu þessar ferðir. Eins og ég skrifaði um fyrir nokkrum dögum, það verður að fara fram siðbót innan lífeyris- og fjárfestingasjóða kerfisins og henni verður að vera lokið fyrir ársfundi sjóðanna í vor, og þá hugsanlega með einhverjum uppsögnum.

Framferði eins starfsmanns lífeyrissjóðs er um leið yfirfært á alla sjóðina. Það eru ekki allir starfsmenn lífeyrisjóða með 30 millj. kr. á ári og á Lincoln jeppa með fríu benzíni, það er bara einn. Það eru heldur ekki allir sem fara í bara 2 -3 laxveiðiferðir á ári eins og einn svaraði. Maður sem hefur þetta gildismat á að fá uppsagnarbréf daginn eftir.