sunnudagur, 29. janúar 2012

Náttúrvernd?

Er þessa dagana að þvælast á skíðum í ítölsku ölpunum, eða reyndar Suður Tíról sem var hluti af Austurríki fram til 1918, en nokkrir embættismenn tóku sig til í lok seinni heimstyrjaldarinnar og gáfu Ítölsku ríkisstjórninni þennan hluta Austurríkis vegna þess að þeir stóðu með bandamönnum í fyrri heimstyrjöldinni. Hér tala margir heimamenn ekki síður þýsku en ítölsku.

Hef nokkrum sinnum í fyrri ferðum farið upp á jökul með þyrlu og skíðað niður, en nú hafa náttúruverndarmenn fengið samþykki fyrir því að banna þyrluflug á jökulinn í amk einhvern tíma þar sem þeir ætla að setja upp búðir á jöklinum til þess að mótmæla að verið sé að lenda þar á þyrlum og trufla með því og eyðileggi friðinn sem þar er. Svo sem eitthvað til í því, en það er hægt að missa marks í hvernig staðið er að mótmælum.

Þyrlumennirnir vitanlega ekki hressir með þetta, þeir hafa á undanförnum árum byggt upp öflug fyrirtæki í þessum bransa.

En þegar til kom þá fannst náttúruverndarmönnum svo mikið átak að ganga á jökulinn með búnaðinn svo hægt væri að setja upp almennilegar búðir með góðum tjöldum og gashiturum, að þeir fengu þyrluflugmennina til þess að flytja sig ásamt búnaðinum á jökulinn, og ferja þá síðan reglulega til byggða og byrgðir til þeirra. Það gengur vitanlega ekki að gæslumenn komist ekki í sturtu á og á vatnssalerni.

Tel mig vera mikinn náttúrunnanda, geng á fjöll um allt, fer á skíðum og fjallahjólum víða, en finnst stundum, að þeir sem standa fremst í náttúruverndinni ekki vera í sambandi og ekki vera að vinna málstaðnum fylgi. Staðfesta eins og sumir halda fram að þeir séu týpískt miðbæjarkaffihúsafólk, sem oftast er vönu útvistarfólki tilefni til margskonar stólpagríns.

föstudagur, 27. janúar 2012

Saksóknari Alþingis áminnir þingmenn

Sigríður Friðjónsdóttir, saksóknari Alþingis sat fyrir svörum á fundi stjórnkerfis- og eftirlitsnefndar í gær ásamt Helga Magnúsi Gunnarssyni aðstoðarsaksóknara. Þar gagnrýndu þau þá umræðu sem fram hefur farið um mál Geirs H. Haarde fyrir Landsdómi. Þau bentu á að engar forsendur hefðu breyst í málinu gegn Geir H. Haarde sem styðji afturköllun ákæru á hendur honum.

Það sé Alþingis að taka ákvörðun um framgang málsins sem ákæruaðili. Það þyrfti að hafa orðið veigamikil breyting ef þingmenn ætli að draga tilbaka fyrri samþykktir, en alþingismenn verði að leggja fram greinargóðar ástæður ef þeir ætla sér að gera það.

Þau sögðust ekki sammála því að í þingsályktunartillögunni sé talað um að einhverjum höfuðákæruliðum hafi verið vísað frá. Það sé ekki rétt, málið hafi ekkert breyst. Sú fullyrðing að þetta kosti einhverja peninga eða tefji Hæstarétt, það séu heldur ekki efnisrök í málinu.

Það að einungis einn hafi verið ákærður, en ekki fjórir eða þrír eða hvernig menn vildu hafa það, hafi ekki verið brot á jafnræðisreglunni. Um þetta atriði var búið að fjalla um í dómi Landsdóms og hafi verið vel þekkt. Þetta gerist í sakamálum þegar tekin er ákvörðun um að ákæra einn en ekki annan, hvernig sem mönnum líður svo með það, sögðu þau.

Sagan segir okkur að þegar stjórnmálamenn segjast berjast fyrir réttlætinu og fyrir almenning, þá fyrst sé ástæða til þess að hafa varann á. Í rannsóknum á því hvað hafi gerst í stjórnmálum í vestrænum löndum undanfarna áratugi, þar sem stjórnmálamenn hafa beitt sér fyrir því að færa valdið til fólksins, kemur glögglega fram að valdið og auðurinn hafi með því færst til fárra. Mismunum hefur aukist umtalsvert.

Markaðurinn leiðréttir ekki hlut þeirra sem minna mega sín, andstætt því blasir við að hann tryggir enn frekar stöðu þeirra sem eru í efri lögunum.

Þegar skoðað er hverjir það séu sem fara fyrir stjórnmálamönnum í dag, kemur í ljós að það er undantekningalítið fólk sem kemur frá hinum efnaða hluta samfélagsins. Þetta fólk starfar í fullu samræmi við venjubundna leikjafræði um að tryggja eigin aðstöðu. Sé litið til þeirra sem berjast fyrir því að koma í veg fyrir að Landsdómur kalli fyrir vitni ofg taki málið til umfjöllunar, staðfestist þetta.

Þetta hefur verið að renna upp fyrir þeim sem hafa fylgst er vel með framvindu Landsdómsmálsins og annarra mála þar sem skoða á aðdraganda hrunsins og leiða fram þá sem voru í aðstöðu til þess að hafa áhrif á framvindu mála fram að hinu svokallaða hruni.

fimmtudagur, 26. janúar 2012

Ísland vettvangur pólitískra ofsókna

Undanfarið hefur farið hratt vaxandi umfang málflutnings þar sem lögð er áhersla á að grafa undan trúverðugleika skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, Landsdómi og störfum sérstaks saksóknara.

Þetta er í samræmi spádóma þekkts rannsóknarfólks sem hingað kom um að ekki yrði langt að bíða þess að fram kæmi hópur manna, sem ekki vildi láta grafast fyrir um hvað hefði gerst og hvers vegna hrunið á Íslandi hefði orðið mun umfangsmeira heldur en gerðist í nágrannalöndum okkar. Þessi birtingarmynd blasir við okkur í dag í hverjum fréttatímanum á fætur öðrum. Þar fer reyndar einnig fram óbein en ítarleg kynning á því hvaða menn er um að ræða, en reyndar undir því yfirskyni fréttamanns og almannatengla að þar fari ákaflega saklausir einstaklingar sem sé gert að búa við pólitískar ofsóknir á Íslandi.

Þessir einstaklingar hafa efni á því að ráða til sín þekkta lögmenn og almannatengla, sem hafa greiða leið að fréttamönnum. Áberandi er hvaða fréttamenn flytja þessar fréttir og hvar þessum fréttum er stillt upp í fréttatímanum. Flestar enda á því að við eigum öll að snúa bökum saman og takast á við vandann, ekki láta pólitískar ofsóknir ráða för.

Tillaga um að draga málið tilbaka hefur í raun sett Geir H. Haarde í mun verri stöðu en hann var þó í. Hann hafði áður í hugum margra stöðu sem fórnarlamb óábyrgra stjórnmálamanna og hann fengi gott tækifæri til þess að sýna fram á það fyrir Landsdómi.

Í dag er staða málsins aftur á móti sú sama hvar maður kemur, snýst umræðan um andúð fólks á því hvernig tilteknir aðilar berjist gegn því að fram fari málsmeðferð fyrir dómnum. Verði málið dregið tilbaka samsvari það sönnun sektar Geirs og þess hóps sem berst gegn því að Landsdómur fái að ljúka störfum. Með þessum málatilbúnaði sé Geir gert að bera hér eftir þá sök og fái aldrei tækifæri til þess að losa sig undan þeim áburði. Geir er með öðrum orðum gerður bjarnargreiði með þessum málatilbúnaði.

Okkur var bent á það strax eftir Hrun að hvítflibbaglæpamenn gerðu ætíð allt til þess að komast hjá því að þurfa að svara óþægilegum spurningum. Oftast væri haldið að okkur viðbrögðum byggðum á hugtakinu að um pólitískar ofsóknir sé að ræða en hvergi komið að þeim álitaefnum sem til umfjöllunar eru.

Hvað sagði t.d. sá maður sem mótaði þá efnahagstefnu og afreglun eftirlitskerfisins sem leiddi yfir okkur ógöngurnar. Já kæri lesandi þessi sem setti síðan Seðlabankann í 800 milljarða gjaldþrot. Hann stóð síðan hrópandi í fjölmiðlum þegar búsáhaldabyltingin fór fram og hann borinn út úr bankanum, um að íslenskur almenningur væri skríll sem hefði í frammi pottaglamur og beitti pólískum ofsóknum.

Sama segir fyrrv. forsætisráðherra í viðtölum við erlenda fjölmiðla þessa dagana.

Birgir Ármannsson þáverandi nefndarformaður stjórnsýslunefndar stakk á sínum tíma undir stól tillögu Valgerðar um afnám Eftirlaunaósómans þar sem tilteknir valdamenn ætluðu sér margfaldan eftirlaunarétt umfram aðra (höfðu reyndar fyrir aldeilis dágóðan rétt, en græðgin hafði blindað þá) með þessum orðum : "Eins og ég gerði grein fyrir í fyrri ræðu minni höfum við fylgt þeirri vinnureglu í allsherjarnefnd að taka mál til afgreiðslu ekki í þeirri röð sem þau berast nefndinni heldur höfum við sett í forgang þau mál sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa staðið saman að. Það er ekkert óeðlilegt í ljósi þess að stjórnarfrumvörp sem slík eru flutt með atbeina og atfylgi meiri hluta þingsins. Fyrirfram má því ætla að þau njóti víðtækari stuðnings í þinginu en önnur mál.“

Nú stendur þessi sami þingmaður fremstur í flokki þeirra þingmanna sem vilja koma í veg fyrir að þeir þurfi að koma fyrir Landsdóm og svara fyrir sín ummæli og athafnir í aðdraganda hins svokallaða Hruns og krefst þess að nýtilkominn tillaga sín og nokkurra manna sem virðast vilja taka frá Geir þann rétt að fá að svara fyrir sig, og tillagan tekin fram fyrir öll mál sem fyrir nefndinni liggja, þ.á.m. mál sem snerta afkomu íslensks almennings. Flutningsmenn hafa margir hverjir ítrekað verið bendlaðir við vafasamt fjármálavafstur, vafninga og skýrslugerð.

Er nema von að íslenskir stjórnmálamenn og Alþingi sé fullkomlega rúið trausti hins íslenska skríls, sem hefur í frammi óviðeigandi pottaglamur og truflar athafnir hinna saklausu þegar krafist er uppgjörs hins svokallaða Hruns?

sunnudagur, 22. janúar 2012

Landið sem rís

Meðal áhugaverðari spjallþáttum er þátturinn Landið sem rís á sunnudagsmorgnum kl. 9. á Rás 1. Í morgun var gestur Steingrímur J. Sumt af því sem þar kom fram varð að efni neðangreindra pælinga.

Ísland er tiltölulega ung þjóð. Um miðja síðustu öld vorum við ein fátækasta þjóð í heimi og rísum á liðlega 50 árum úr því sæti upp í að verða ein ríkasta þjóð í heimi. Á þessum tíma erum við að byggja upp samgöngukerfi, skólakerfið, raforkukerfið, hafnir landsins, færa út fiskveiðilögsöguna og endurbyggja fiskveiðiflotann.

Þessu hafa fylgt margskonar vaxtaverkir sem hafa kallað á gengisfellingar og þeim hafa fylgt mikil verðbólga og óstöðugleiki. Á þessum tíma vöndumst við því að geta tekið tarnir og unnið okkur út úr vandanum, bættum í vinnutímann og áttum fyrir næstu afborgun.

Árin 1962-72 var meðaltal mjög rykkjóttrar verðbólgu 12%, en náði hæst 21,7% 1969, eftir gengisfellingu, og þarnæst 19,5% 1964 eftir yfirhlaðna kjarasamninga. Að lyktum hins langa skeiðs „viðreisnar“stjórnarinnar var sem allar stíflur viðnáms gegn samtakamætti brystu og meðalverðbólga árin 1973-83 varð 46,5%, lægst rúm 31% árin 1976- 77, en hæst 84,3% árið 1983, ef styttri tími er mældur er hæsti toppurinn 132% yfir 4 mánuði miðsett í marz árið 1983.

Á árunum 1980 – 1990 voru gerðir kjarasamningar sem innifólu um 1.600% launahækkanir. Á þessum tíma var tíðni gengisfellinga mikil og verðbólgan hækkaði því enn meir, sem olli því að kaupmáttur laun féll á sama tíma um 10%. Árið 1990 er gerð stefnubreyting og Þjóðarsátt gerð og tekin upp fastgengisstefna.

Samkomulag er gert um að setja launahækkanir í samhengi við samkeppnistöðuna landsins, þetta varð til þess að það tókst að ná 30% verðbólgu á skömmum tíma niður í 2-3%. Í kosningabaráttunni 1999 lofuðu stjórnmálamenn miklum skattalækkunum og það leiddi til mikillar þensluaukningar og þar með fauk fastgengisstefnan út um gluggann og tekin sú stefnubreyting að láta gengið fljóta.

Kosningaárið 2003 bættu stjórnmálamenn í og sömdu um álver og Kárahnjúkavirkjun, stækkun verksmiðjanna í Hvalfirði og umfangsmestu framkvæmdir í vega og jarðgangnakerfi landsins. Bankarnir fóru inn á húsnæðismarkaðinn í samkeppni sín á milli og við Íbúðarlánasjóð. Gríðarlegu fjármagni er dælt inn í hagkerfið á stuttum. Allir mælar hagkerfisins slógu í botn, en hrunadansins verður svo villtur að blindu slær í augu flestra.

Menn virtust telja að nú væri búið að finna hina réttu leið. Við erum að gera annað en áður og það virkar sögðu margir á fjármálamarkaði. Markaðurinn mun leiðrétta sig sjálfur. Stjórnmálamenn fóru í kosningabaráttu undir merkinu „Traust efnahagsstjórn. Allir hafa það betra en nokkru sinni áður. Íslenska efnahagsundrið“.

Þetta olli gríðarlegri tekjuaukningu ríkisins og ríkisbáknið er stækkað gríðarlega og útgjöld ríkisins fara upp langt upp fyrir áður þekkt mörk. Krónan var felld árið 2001 um 25%, árið 2006 um 20% og svo í Hruninu um 50%. Seðlabankinn hækkaði vexti árið 2006 til þess að slá á þensluna, en það leiddi til þess að erlent fjármagn streymdi til landsins vegna vaxtamunar.

Árin 2006 – 2008 voru útflutningstekjur Íslands vegna vöru- og þjónustu einungis um 5-7% af gjaldeyrisviðskiptum, hitt var vegna viðskipta þar sem fjárfestar voru að spila með krónuna og nýta sér vaxtamuninn.

Pólitískar áherslur sem ýttu undir að allt myndi fyrr en síðar fara hér á hliðina. Það hefði gert það jafnvel þó ekki hefði komið til hin erlenda efnahagskreppa. Skuldir fyrirtækja og einstaklinga fóru upp fyrir það að hægt væri að bjarga því með að lengja vinnutímann og spýta í lófana um skamman tíma. Þar stendur gjaldþrot Seðlabankans hæst, það varð langdýrast.

Það voru ekki allir sem tóku þátt í þessari geggjun og lífgæðahlaupi. Margt fólk hagaði sér skynsamleg og var ekki að breyta lífsháttum sínum. Ójöfnuður óx og auknar byrðar lagðar á alla. Réttilega finnst mörgum það ósanngjarnt. Þeir sem höfðu hagað sér óskynsamlega höfðu hæst og kröfðust þess að allir tækju á sig byrðar.

Vantrúin var orðin þannig að engin þjóð vildi lána okkur fjármuni, nema þá í gegn því að AGS tæki að sér að hafa eftirlit með því að hér yrði tekið til í efnahagsmálum. Nágrannaþjóðir okkar voru búnar að fá nóg af því hvernig við höguðum okkur í alþjóðasamskiptum, vildum velja þá þætti sem komu okkur vel, en víkja okkur undan öðrum.

Samstarfið við AGS tókst svo vel að eftir því var tekið. En nú er AGS farið og við erum strax kominn í það far að stjórnmálamenn eru farnir að haga sér með óskynsamlegum hætti og vilja ýta til hliðar óþægilegum staðreyndum, eins svo glögglega kemur fram í umræðum um Vaðlaheiðagöng.

Nú þarf að huga að lýðræðisbótum, þjóðin krafðist nýrrar stjórnarkrár í kjölfar hrunsins, þar sem almannahagsmunir og náttúran verða tryggð.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis þarf að taka til umfjöllunar þingályktunartillögu Bjarna Benediktssonar, um afturköllun á ákæru fyrir landsdómi. Fyrir nefndinni liggja mörg mjög merk mál, þar á meðal ný stjórnarskrá lýðveldisins og margar skýrslur frá Ríkisendurskoðun. Tillaga Bjarna Benediktssonar fer vitanlega þar aftast í röðina

laugardagur, 21. janúar 2012

Enn er hægt að tryggja rétt Geirs og okkar hinna

Niðurstaða Alþingis í gær á má greina á tvö vegu. Einhverjir þingmenn hafi tekið afstöðu á þeim forsendum að vilja taka tillögu formanns Sjálfstæðisflokksins til umræðu og fá fram hvort og hvers vegna rétt sé að draga tilbaka ákæruna. Það sé ekki endilega gefið að tillaga Bjarna verði samþykkt.

Og svo á hinn bóginn reikna margir með að tillaga Bjarna fái sömu niðurstöðu og frávísunartillagan. A.m.k. eru nokkrir þingmenn þegar búnir að taka þá afstöðu.

Víða hefur komið fram að það sé mjög hættulegt fordæmi ef Alþingi telji sig geta gripið inn í mál sem komið er fyrir dóm. Með því væri verið að taka frá Geir H. Haarde þau mannréttindi að geta komið fram með rök og andsvör gegn þeim ásökunum sem á hann eru bornar.

En það vegur þyngra í hugum magra að landsmenn eigi ekki síður rétt á að fá fram öll gögn málsins. Það sé forsenda þess að hægt sé að setja þetta mál aftur fyrir okkur, ljúka því.

Verði þessi réttur tekinn frá Geir, og um leið öllum landsmönnum, sé verið að staðfesta það í hugum landsmanna að ákærurnar standist. Reiði almennings og vantrú á stjórnmálamönnum og Alþingi sé þar með viðhaldið. Geir verði þá að bera þennan þunga kross.

Margir hafa bent á að þeir sem þarna fara fremstir í flokki vilji koma í veg fyrir þær vitnaleiðslur sem Landsdómur er búinn að tilkynn. Sá málatilbúnaður staðfesti samtryggingarkerfi þeirra sem telja sig vera handhafa allra hlutabréfanna í Íslensku samfélagi.

Sé úrskurður Landsdóms um frávísunarkröfu verjanda Geirs skoðaður þá liggur fyrir hvað það er sem ákært er fyrir og hvernig taka eigi á þeim sakargiftum. Þess vegna getur maður ekki annað en velt fyrir sér að hvaða blekkingum sé verið að beita með þessum málatilbúnaði formanns Sjálfstæðisflokksins. Allt bendir til þess að tilgangur sé sá einn að koma í veg fyrir að Landsdómur upplýsi okkur.

Þessir hinir sömu standa í vegi fyrir breytingum á Stjórnarskránni. Þetta sé ástæða þess að spilling á Íslandi sé víðtækari en annarsstaðar. Þetta sé ástæða þess hvers vegna Íslandi gengur mun verr en nágrannalöndum, velferðarkerfi okkar á niðurleið og kaupmáttur mun lakari.

Það kosningakerfi sem þingmenn hafa búið til er sérsniðið til þess að tryggja eigin stöðu. Núverandi kosningakerfi tryggir nefnilega að liðlega helmingur þingmanna situr alltaf í öruggum sætum, þessum sætum er úthlutað af flokkseigendafélaginu. Þeir sem hafa komist inn um dyr flokksmaskínunnar þurfa ekki að óttast kjósendur.

Það voru margendurkjörnir þingmenn sem sátu í valdastólunum þegar landið flaug fram af hengifluginu án sjáanlegs bremsufars. Og nú liggja fyrir gögn um að ráðamönnum var vel ljóst hvert stefndi, og sök þeirra er að hafa ekki gripið til nokkurra varna og lágmarka fyrirsjáanlegan skaða.

Þessir margendurkjörnu þingmenn vilja engu breyta og halda í þann möguleika að geta nýtt reglubundið gengisfellingar til þess að leiðrétta slaka efnahagsstjórn. Það er þetta stjórnkerfi sem brást. Það voru þeir sem áttu að sinna eftirlitshlutverkinu en gerðu það ekki og standa í vegi fyrir breytingum.

Málflutningur þessa sjálfhverfa valdakjarna verður sífellt skýrari landsmönnum, enda er svo komið að einungis tæplega helmingur landsmanna vill styðja þetta fólk. Einungis 7% landsmanna styðja stjórnarandstöðuna, þrátt fyrir að staðan sé sú að ríkistjórnin njóti ekki mikilla vinsælda sakir þess að hún hefur orðið að grípa til margra mjög óvinsælla ákvarðana.

fimmtudagur, 19. janúar 2012

Sjálfbærni lífeyrissjóða

Undanfarið hefur verið mikið rætt um sjálfbærni lífeyrissjóða og þær mismundandi kröfur sem þingmenn og stjórnvöld setja lífeyrissjóðum. Þeir hafa sett lög um að allir aðrir lífeyrissjóðir en þeirra eigin verði að vera sjálfbærir, það er að iðgjöld og ávöxtun standa undir útborgun lífeyris. Ef iðgjöld og ávöxtun standi ekki undir skuldbindingum verði að skerða lífeyri. Ef iðgjöld og ávöxtun er umfram útborgun lífeyris verði að hækka lífeyri.

Benedikt Jóhannsson stærðfræðingur hefur farið nokkrum sinnum ítarlega yfir þetta í vikuriti sínu Vísbendingu í vetur og bent á hversu alvarleg staða sé að skapast í lífeyriskerfi þingmanna og ráðherra og nokkurs hóp opinberra starfsmanna. Lífeyriskerfi þessa hóps sé allnokkuð fjarri því að vera sjálfbært og hefur Benedikt sýnt fram að skuldir þessa kerfis skipti hundruðum milljarða og fari hratt vaxandi.

Benedikt hefur margsinnis tekið undir með ASÍ og SA að þetta sé t.d. orðin óbærilegur þáttur í uppgjöri nokkurra sveitarfélaga. Þar vanti allt að 90% að þeirra sjóðir eigi fyrir skuldbindingum. Það liggi fyrir að skerða verði enn frekar í opinberri þjónustu ef standa eigi skil á þessu, en það alvarlega sé að verið sé að vísa lífeyrisskuldbindingum til barna okkar með fyrir liggjandi skattahækkunum. Fjármálaeftirlitið hefur tekið undir útreikninga Benedikts og sett fram þá kröfu að þingmenn og stjórnvöld verði að hækka iðgjöld um 4% eða upp í 19%.

Þingmenn og ráðherrar vilja halda í sín forréttindi og víkja sér undan því að taka á þessum vanda. Að venju er gripið til útúrsnúninga og bent á að þetta sé ekkert vandamál, þeir ætli að láta Tryggingarstofnun redda þessu. Getuleysi samfara ábyrgðarleysi og sérhlífni ræður að venju alfarið för, og tillitleysi til skattborgara og ekki síðir til barna og barnabarna.

þriðjudagur, 17. janúar 2012

Réttlætisvitund samfélagsins ofboðið

Ein af meginniðurstöðum Rannsóknarskýrslunnar var að Geir H. Haarde þáverandi forsætisráðherra hafi sýnt alvarlega vanrækslu í starfi og látið hjá líða að grípa til ráðstafana með skelfilegum afleiðingum. Geir er talinn hafa leynt þjóðinni nauðsynlegum upplýsingum í aðdragandi hrunsins, en reyndi í stað þess að blekkja hana fram á síðustu stundu.

Þar ber líklega hæst höfnun hans á boði Mervins Kings, bankastjóra Englandsbanka, um hjálp við að draga úr stærð íslensku bankanna, þetta hefur m.a. komið fram í máli þáverandi seðlabankastjóra Davíðs Oddsonar, sem verður örugglega kallaður fyrir Landsdóm sem vitni og til þess að staðfesta fyrri orð um að hann hafi ítrekað en árangurslaust aðvarað þáverandi forsætisráðherra.

Niðurstaða Landsdóms mun snúast um hvort Geir H. Haarde hafi orðið á alvarleg afglöp sem forsætisráðherra . Hann er ekki fórnarlamb í þessu máli. Hann var gerandi og það er þjóðin sem er fórnarlambið. Hún ber tjónið, tugir þúsunda heimila í rúst og fjölmargir sem glötuðu öllu sínu sparifé.

Þegar mál níumenninga voru fyrir dómstólum komu víða fram áskoranir til þáverandi dómsmálaráðherra að hann skyldi láta málið niður falla.

Ögmundur svaraði þá ; „Ég get ekki, sem dómsmálaráðherra, haft afskipti af málinu meðan það er í þessum farvegi. Það er fyrir dómstólum og það er ekki á mínu valdi að hafa afskipti af málinu meðan það er þar. Við höfum haft okkar skoðanir á því hvort þetta mál ætti að fara inn í þann farveg sem það fór. Það gerði það hins vegar. Það er fyrir dómstólum og við sjáum hvað kemur út úr því."

Það er óbærilegt horfast í augu við að nú hefur sami dómsmálaráðherra skipt um skoðun og telur sjálfsagt að Alþingi grípi inn í dómsmál sem dómstóll hefur tekið til umfjöllunar.

Hvers vegna vill Ögmundur að koma í veg fyrir að okkur takist að lagfæra Ísland. Leiðrétta stöðu okkar gagnvart klíkusamfélaginu sem hefur svo sterk ítök. Hvers vegna? Er Ögmundur að afhjúpa sig sem fulltrúa samtryggingakerfis stjórnmálastéttarinnar?

Nánast á hverjum degi eru fluttar fréttir af því þegar öllum brögðum í bókinni er beitt til þess að komast hjá því að lenda fyrir dómstólum. Þar koma ekki fram nein rök þar sem tekið er á inntaki kæru. Hingað hafa komið margir heimsfrægir einstaklingar í baráttu gegn spillingu. Þeir hafa allir varað okkur við þessu, miklum fjármunum verði varið í að koma í veg fyrir að kafað verði í hvað gerðist og hvað menn höfðust að.

Það varð hér fullkomið kerfishrun á meðan Geir var við völd. Fyrir liggja gögn um að honum hafi verið fulljóst hvert stefndi og hann hefði getað gripið í taumana og komið í veg fyrir að afleiðingar þess yrðu ekki svona alvarlegar yfir fjölskyldur þessa lands. Vitanlega fær Geir tækifæri til þess að skýra sitt mál.

Það er þetta sem virkar svo illa mann, þessi nálgun staðfestir að klíkusamfélagið er sterkt og samtryggingin er að takast að koma í veg fyrir að kallaðir verði fyrir Landsdóm fyrrv. ráðherrar, stjórnarmenn Seðlabanka, Seðlabankastjórar, þingmenn og embættismenn sem komu með einum eða öðrum hætti að stjórn (réttara að segja stjórnleysi og afskiptaleysi) landsins sem leiddi til þess að Hrunið varð mun víðtækara hér en annarsstaðar og bitnaði mun harðar á almennum borgurum.

Eigum við að gefast upp og hætta að taka á málum?

Samþykkja það sem virðist vera orðin viðtekin skoðun á Alþingi. Virða einskis skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis?

Láta klíkusamfélagið koma í veg fyrir að skoðað verði hvað fór úrskeiðis, svo hægt sé að læra af mistökunum?

Það er svo margt komið fram, sem segir okkur að það er búið að ljúga mjög miklu að þessari þjóð. Réttlætisvitund okkar krefst þess að þessir menn mæti í réttarsal eiðsvarnir um að segja satt og rétt frá.

Ef það verður ekki gert, þá eru þingmenn að upplýsa okkur um að þeir séu samtvinnaðir klíkusamfélaginu. Krabbameinið mun grafa sig enn dýpra í þjóðarsálinni.

Réttlætisvitund okkar segir að ef menn hafi ekkert að óttast og Geir hafi ekkert gert rangt af sér, þá ættu þessir hinir sömu að berjast fyrir því að réttarhöldin fari fram fyrir opnum tjöldum og séð til þess að fjölmiðlamenn fjalli ítarlega um allt það sem fram komi fyrir Landsdóm.

Þá fyrst getur þjóðin kveðið upp sinn dóm byggðum á eiðsvörnum vitnaleiðslum. Þá kemur loks fram hvort skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis eigi við rök að styðjast.

Við eigum þetta skilið eftir allt það sem á okkur hefur dunið. Við getum ekki sætt okkur við að fáir einstaklingar samtvinnaðir klíkusamfélaginu taki þann rétt frá okkur og geri okkur að búa áfram í hinu eitraða andrúmslofti.

Réttlætisvitund samfélagsins ofbýður ef nú eigi að nema staðar og slíta Landsdómi.

sunnudagur, 15. janúar 2012

Gjaldmiðillinn og fullveldið

Á ráðstefnu ASÍ um gjaldmiðilinn í vikunni sýndu Ragnar Árnason prófessor við HÍ, Arnór Sighvatssonar aðstoðarseðlabankastjóri og Friðrik Már Baldursson prófessor við HR fram á að slök efnahagsstjórn undanfarna áratugi hafi skapað þann vanda sem við erum í með gjaldmiðilinn. Stjórnendur peningamála hafi gert alvarleg mistök í aðdraganda þess að gjaldmiðillinn ofreis og hrundi með falli bankanna í kjölfarið og gjaldþrots Seðlabankans.

Þeir sem stjórnuðu hér á landi á meðan þetta gerðist halda því fram að þeir hafi gert allt rétt og stöðugleikinn snúist bara um að hafa góða stjórnun á krónunni!!??

ESB andstæðingar verja krónuna á hverju sem gengur. Gott sé að hafa sveigjanlegan gjaldmiðil svo leiðrétta megi slaka efnahagsstjórn með því að færa peninga frá launafólki til útflutningsfyrirtækja. Það væri skerðing á fullveldi sérhagsmuna ef krónan væri lögð niður sagði Ragnar Árnason.

Í könnunum hagfræðinga kemur fram að jafnaði hafi um 30% tekna heimilanna undanfarna áratugi hafi horfið við þessar leiðréttingamillifærslur. Eignaupptaka hjá launamönnum er réttlætt með því að verið sé að halda uppi atvinnustigi í atvinnubótavinnu þar sem afraksturinn rennur milliliðalaust frá heimilunum til fárra efnamanna.

Í þessu sambandi má einnig líta til túlkunar á hugtakinu fullveldi. Hvað er fullveldi á tímum hratt vaxandi alþjóðlegra samninga og margháttuðum samskiptum ríkja? Hvernig stendur á því að þeir stjórnmálamenn sem stóðu að gerð EES samninga og margra annarra milliríkjasamninga fullyrða nú að innganga í ESB jafngildi afsali fullveldis?

Ísland hefur á undanförnum áratugum undirgengist umtalsverða skerðingu á fullveldi hvað varðar getu stjórnvalda til að ákvarða hvaða lög og reglur gilda hér á landi, þá helst til þess að tryggja samkeppnishæfni atvinnulífsins. Fullveldi ríkja er í dag fremur hugsjón en regla, ekkert ríki er algert eyland í margþættum samskiptum nútímans þar sem Ísland er aðili að frjálsu flæði fjármagns og vinnuafls.

Ég hef starfað mikið á Norðurlöndum og veit að Danir og Svíar upplifa sig sem fullvalda ríki. Þeir hafa reyndar beinan aðgang að ákvörðunartöku innan ESB, en við ekki. Erum við kannski ekki fullvalda ríki á meðan Danir og Svíar eru það?

Hvernig á að halda uppi vitrænni umræðu þegar menn halda fram svona mótsögnum?

Ef við rennum yfir efnahagsstefnu Íslands frá 1993 hefur verið miðað að því að viðhalda hagvexti með opinberum inngripum. Nokkru fyrir aldamót fór að gæta ójafnvægis í þjóðarbúskapnum, í stað þess að beita auknu aðhaldi lofuðu stjórnvöld andstætt öllum hagfræðikenningum miklum skattalækkunum í kosningabaráttunni 1999, það var reyndar ein8ngis ger tá hæstu launum.

Svo kom næsta kosningaár 2003 og stjórnmálamennirnir yfirbuðu hver annan. Samið var um stærsta verkefni sem lagt hafði verið í hér á landi, álver og Kárahnjúkavirkjun og farið var í umfangsmestu framkvæmdir í vega- og jarðgangnakerfi landsins.

Seðlabankinn hækkaði vexti til þess að slá á þensluna, en það leiddi til þess að erlent fjármagn streymdi til landsins vegna vaxtamunar. Krónan styrktist og afkoma útflutningsfyrirtækja versnaði, en innflutningur jókst umtalsvert. Einkaneysla fór upp úr þakinu og viðskiptahallinn fór yfir 20%.

Árin 2006 – 2008 voru útflutningstekjur Ísland vegna vöru og þjónustu einungis um 5-7% af gjaldeyrisviðskiptum, hitt var vegna viðskipta þar sem fjárfestar voru að spila með krónuna og nýta sér vaxtamuninn milli Íslands og annarra landa. Á þeim tíma frá því að tekinn var upp fastgengisstefna var krónan felld árið 2001 um 25%, árið um 2006 um 20% og svo í Hruninu um 50%. Fram að Hruni voru engar mótvægisaðgerðar kynntar.

laugardagur, 14. janúar 2012

Meira um prívat lífeyrisréttindi þingmanna

Þingmenn hafa sett lög um að skattleggja sérstaklega það sparifé sem launamenn eiga í lífeyrissjóðum. Þessi skattur kemur þannig út þegar upp er staðið að það verður að skerða réttindi örorkubótaþega og lífeyrisþega í almennu sjóðunum um 2 – 3%, bótaþegar í sjóðum þingmanna og útvalinna opinberra starfsmanna verða ekki fyrir þessari skerðingu. Þingmenn hafa nefnilega komið því þannig fyrir að það skiptir engu hvort þeirra eigin lífeyrissjóður eigi fyrir skuldbindingum, það sem upp á vantar er einfaldlega sótt í ríkissjóð. Þeir hafa hins vegar sett lög um að ef aðrir sjóðir eigi ekki fyrir skuldbindingum verði þeir að skerða réttindi.

Það hefði verið einfaldara fyrir þingmenn að varpa af sér huliðshjúpnum og leggja þennan nýja skatt beint á örorkubótaþega og lífeyrisþega sem ekki eru í sama lífeyrissjóð og þingmenn og ráðherrar. Nú er að renna eindagi á þessa skattgreiðslu, ef ekki er greitt þá verða þessir bótaþegar að greiða dráttarvexti.

Þetta kom mjög glæsilega fram, eða hitt þá heldur, við hið svokallaða Hrun sem var bein afleiðing af hversu slaklega þingmenn höfðu staðið að efnahagsstjórn þessa lands. Hið svokallað hrun leiddi til þess að verðbréf og hlutabréf féllu í verði. Það skipti þingmenn engu þeir þurftu ekkert bera ábyrgð á gjörðum sínum og skerða réttindi í sínum prívatlífeyrissjóð, á meðan almennu lífeyrissjóðirnir urðu lögum samkvæmt að skerða réttindi sinna örorkubótaþega og lífeyrisþega. Þetta er einungis gert á Íslandi og er kallað á því landi pólitískt réttlæti

Sjóðsfélagar í almennu lífeyrissjóðunum hafa margsinnis en árangurlaust bent á að það sé verulegur vafi á réttmæti og lögmæti þessarar skattheimtu ekki eingöngu vegna sjónarmiða um vernd eignarréttarins og jafnræðisreglunnar. Meginreglan er sú að framlög launþega til lífeyrissjóðs eru frádráttarbær frá tekjuskattsstofni launþegans en útborgaður lífeyrir sætir hins vegar fullri skattlagningu eins og hver önnur laun.

Það er einnig mikilvægt að líta til þess að iðgjöld þau sem sjóðsfélagar hafa innt af hendi hafa allt þar til í desember 2011 miðast við þá grundvallarforsendu að starfsemi lífeyrissjóðanna og hagnaður þeirra væri skattlaus en að útgreiddur lífeyrir yrði h.v. skattlagður að fullu eins og hver önnur laun. Má þá velta því upp hvort skattlagning þessarar eignar nú sé hugsanlega andstæð ákvæðum stjórnarskrárinnar sem banna afturvirkni skattalaga.

Staðfest er í dómaframkvæmd að lífeyrisréttindi teljast vera eign og njóta því verndar sem slík í skilningi eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar. Lífeyrissjóðir eru undanþegnir tekjuskatti og hefur svo verið um áratugaskeið enda fæli önnur tilhögun í sér að fjármagnstekjur lífeyrisþeganna af sjóðsinneign sinni væru í raun tvískattlagðar, þ.e. bæði hjá sjóðnum sjálfum en einnig við útborgun lífeyrisins. Hinn nýi eignarskattur er afturvirkur og hlýtur að vera ólögmætur.

Við gerð síðustu kjarasamninga viðurkenndi ríkisstjórnin hugsanlegt ójafnræði og gaf vilyrði fyrir því að það ójafnræði verði bætt af fjármunum ríkisins til lengri tíma litið.

Sjóðfélagar á almennum vinnumarkaði hafa ítrekað bent á að fyrirhuguð skattlagning felur í sér ólögmæta mismunun sem brýtur gegn jafnræðisreglu og eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar, þar sem hún mismunaði gróflega milli launþega á almennum markaði annars vegar og hjá hinu opinbera hins vegar.

Mismunun milli almenna og opinbera markaðarins kemur til vegna þess að opinberir lífeyrissjóðir njóta ríkisábyrgðar á skuldbindingum sínum við lífeyrisþegana og því mun ekki koma til skerðingar greiðslna til þeirra. Almennu lífeyrissjóðirnir þurfa hins vegar að aðlaga réttindi sjóðsfélaga sinna og greiðslur til þeirra raunverulegri fjárhagsstöðu sjóðsins og heildarvirði eigna hans.

Í kjölfar efnahagshrunsins hér á landi er staða þessara sjóða í mörgum tilvikum þannig að þeir geta vart tekið við frekari virðisrýrnun eða kostnaði án þess að skerða réttindi sjóðsfélaga sinna að sama skapi. Launamenn á almennum markaði þurfa því að sæta skerðingu sinna réttinda og til viðbótar bera í gegnum almenna skattkerfið þann aukna kostnað sem ríkið þarf að leggja opinberu lífeyrissjóðunum til vegna ríkisábyrgðarinnar. Þetta er óásættanleg mismunum þar sem hún kemur þannig út að verið er að leggja um 3% skatt á þröngan hóp fólks og þann hóp sem síst skildi, því hann verður einvörðungu innheimtur hjá núverandi örorkubóta- og lífeyrisþega í almenna lífeyriskerfinu í formi skerðingar réttinda.

Einnig hefur verið gagnrýnt að með þessu sé verið að hleypa stjórnmálamönnum í sparifé launamanna, undir því yfirskyni að verið sé að skattleggja hreina eign lífeyrissjóða. Hún er ekki til, þar í lögum er kveðið á um skuldbindingar lífeyrissjóða um að skerðinga séu ekki fyrirliggjandi innistæður fyrir skuldbindingum, og svo á hinn bóginn að auka réttindi séu inneignir umfram skuldbindingar.

fimmtudagur, 12. janúar 2012

Lífeyrisréttindi þingmanna og Magnúsar Orra

Magnús Orri skrifar grein um lífeyrisréttindi sín og annarra þingmanna og sver af sér að hann búi einhver sérkjör umfram launamenn.

Í dag ávinna launamenn í almennum lífeyrissjóðum sér árlega lífeyrisrétt sem nemur frá 1.2% til 1,47%. Fyrir sama iðgjald ávinna þeir ríkisstarfsmenn sem fá að vera í opinberu sjóðunum með þingmönnum sér lífeyrisrétt sem nemur um 1,9%, þeir eru með allt að 50% hærri réttindi en sjóðsfélagar í almennu lífeyrissjóðanna hafa. Þar er í mörgum tilfellum um að ræða sem vinnur samskonar störf á sama stað t.d. sumstaðar í heilbrigðiskerfinu. Annar hópurinn er í ASÍ félagi á meðan hinn er í stéttarfélagi sem þingmenn hafa velvilja á.

Þar til viðbótar eru þau tryggð í gegnum ríkissjóð, það sem vantar upp á að lífeyrissjóðir þessa tiltekna hóps opinberra starfsmanna og þingmanna eigi fyrir skuldbindingum er sótt í ríkissjóð á meðan lífeyrisþegar á almennum markaði er gert að búa við skerðingar samkvæmt lögum sem þingmenn settu og gilda um aðra lífeyrissjóði en þeirra eigin.

Í síðustu kjaraviðræðum samþykkti ríkisstjórn að þetta yrði jafnað með því að bæta almennu lífeyrissjóðunum það sem upp á vantðai. Þennan samning vill ríkisstjórnin ekki standa við.

Í sjóðum opinberra starfsmanna hefur safnast upp verulegur halli. Í nýlegu yfirliti kemur fram að skuldbindingar nokkurra af sveitarfélagalífeyrissjóðnum séu ríflega 80% umfram skuldbindingar og það vanti allt að 500 milljarða inn í opinberu sjóðina. Halli B-deildarinnar er 350 milljarðar og hefur vaxið hratt á liðnum árum vegna hinnar s.k. eftirmannsreglur og viðmiðunar við dagvinnulaun opinberra starfsmanna í stað vísitölu neysluverðs sem þingmenn settu í lög að ættu að gilda um aðra lífeyrissjóði en þeirra eigin.

Viðskiptablaðið 10. janúar 2012. Með því að greiða 7,8 milljarða króna árlega í 40 ár mun B-deild LSR eiga fyrir skuldbindingum sem á sjóðnum hvíla.

Iðgjöld launamanna og launagreiðenda til almennu lífeyrissjóða eru samtals 12% af heildarlaunum á almennum vinnumarkaði, en eru 15,5% hjá ríkinu og 16,0% hjá sveitarfélögunum. Framlag þingmanna í sinn sjóð er 4% eins og hjá öðrum launamönnum, mismun iðgjalds kemur frá vinnuveitanda þeirra, ríkissjóð.

Nú liggur fyrir að þingmenn ætla að hækka mótframlag ríkissjóðs í sinn eigin lífeyrissjóð um 4% svo ekki þurfi að skerða lífeyrisréttindi þeirra.

Með öðrum orðum þingmenn hafa komið málum þannig fyrir að þeirra vinnuveitandi ríkissjóður greiðir

Það mun ekki greiða niður 500 milljarða skuldina, heldur koma í veg fyrir að hún vaxi enn meir. Allt þetta kallar á enn hærri skatta og meiri niðurskurð hjá hinu opinbera.

Var einhver að halda því fram að hann hefði ekki margfalt betri lífeyrisréttindi en launamenn á almennum markaði?

Fanný og Alexander

Sá Fanný og Alexander í gærkvöld í Borgarleikhúsinu. Þetta verk fjallar um hina fjölmennu og samhentu Ekdahl fjölskyldu. Alexander og systir hans Fanný búa hamingjusöm á ástríku heimili, en faðir þeirra deyr skyndilega.

Móðirin giftist þá biskupi, heimili hans er algjör andstaða því áhyggju- og agaleysi var í veröld Ekdahlanna, biskupinn leysi stjórnar heimili sínu með hörku og aga. Biskupinn beitir miskunnarlausri grimmd í að brjóta þau á baka aftur. Seinni hluti leikverksins snýst baráttu fjölskyldunnar við að ná þeim úr þessum aðstæðum.

Búningahönnun Þórunnar Sigríðar Þorgrímsdóttur er frábær og eins leikmynd Vytautas Narbutas er glæsileg, lýsing Björns Bergsteins virkilega góð. Töluvert er sungið í sýningunni og tónlistarstjórn er í öruggum höndum Jóhanns G. Jóhanssonar. Stefán Baldursson leikstjóri heldur vel utan um 20 manna leikhóp.

Sýningin er glæsileg, vel unnin og stílhrein. Góð nýting á hringsviðinu tryggir mjög gott rennsli þó atriðin séu fjölmörg.

En mér fannst sýningin alltof flöt, ekki nýtt nægilega vel þau tækifæri sem bjóðast í leikritinu að byggja upp ris og átök. Jóhann Sigurðsson reif mann reyndar upp nokkrum sinnum með fantagóðum rispum.

þriðjudagur, 10. janúar 2012

Fréttamat RÚV í lægstu hæðum

ASÍ var með morgunverðarfund fyrr í dag. Þar talaði Gylfi Arnbjörnsson um nauðsyn á stöðugum og traustum gjaldmiðli til að tryggja bætt lífskjör. Hann fór yfir ítarlega útreikninga hagdeildar ASÍ auk gagna frá Seðlabönkum nágrannalanda um kostnað heimilanna og stöðu almenna launamanns í umhverfi krónunnar, sem kallaði á mjög háa vexti. Sé litið yfir þróunina undanfarna áratugi þá færi um þriðjungur tekna heimilana að standa undur kostnaði sem kæmi til vegna óstöðugleika örgjaldmiðilsins.

Síðan fór Arnór Sighvatsson aðstoðarbankastjóri Seðlabanka Íslands yfir hvaða valkosti við ættum í gjaldmiðilsmálum. Arnór var með mikið ítarefni með sínu erindi. Hann komst að þeirri niðurstöðu við hlytum að skoða vel hvernig við gætum komist út úr þeim vanda sem gjaldmiðillin hefði valdið.

Þá fjallaði Friðrik Már Baldursson um mun á því að taka upp gjaldmiðil einhliða eða taka upp evru með aðild að ESB, hann hafði gert margskonar útreikninga til þess að styðja sitt mál. Friðrik taldi upptöku einhliða gjaldmiðils ekki vera raunhæfur valkostur.

Þessir þrír voru sammála um meginniðurstöður að efnahagsvandi Íslands væri slök og agalaus efnahagstjórn. Ljóst væri að sá agi sem hefði fylgt yfirstjórn AGS hér undanfarin misseri sýndi fram á að hægt væri að ná árangri hér með ögun, en menn yrðu síðan að meta það hvort vænta mætti einhverra breytinga á efnahagsstjórn stjórnmálamanna þegar þeir hefðu ekki þann aga. Benda mætti á margt í umræðum stjórnmálamanna á milli einnig í dag sem gerði menn ekki bjartsýna.

Í lokin flutti Ragnar Árnason prófessor við HÍ erindi um kosti sveigjanlegs gjaldmiðils við hagstjórn. Lítið var um ítarefni í hans erindi og hans helsta niðurstaða var að það væri mikill kostur að stjórnvöld hefðu gjaldmiðil sem hægt væri að gengisfella sem atvinnurekendur í útflutningi ættu í erfiðleikum, það væri skerðing á fullveldi ef þetta væri tekið af sérhagsmunaaðilum með því að taka krónuna burtu.

Ragnar svaraði ekki spurningum hvers vegna launamenn ættu að halda áfram að bera einir kostnað af slakri efnahagstjórn og 25 þús heimili hefðu orðið gjaldþrota fyrir skömmu vegna gengisfellinga krónunnar, það hefði ekki gerst í nágrannalöndunum. Ragnar skautaði síðan fram hjá öllum atriðum sem fram höfðu komið í fyrri erindum.

Athygli vakti að fréttastofa RÚV flutti einungis fréttir af erindi Ragnars í aðalfréttatíma útvarpsins kl. 18:00. Það er ekki fyrsta skipti sem málefni launamanna njóta lítils fylgis hjá fréttastofu Útvarpsins og þar er gætt vandlega sérhagsmuna ákveðinna aðila.

Hvers vegna launamenn vilja losna við krónuna?

Hér er grein sem ég skrifaði nú um hátíðarnar sem birtist í norsku tímariti um áramótin og var birt á Já Ísland í gær.

Hvers vegna launamenn vilja losna við krónuna?
Margir af norskum kunningjum mínum spurst fyrir um hvað liggi helst að baki áhuga íslendinga á því að ganga inn í ESB. Ég ætla hér að fara yfir helstu atriði sem rædd hafa verið innan íslenskrar verkalýðshreyfingar undanfarin misseri.

Því er ákveðið haldið að almenning á Íslandi að krónan sé bjarghringur Íslands af tilteknum hópi fólks. Krónan er góð fyrir skuldlaust efnafólk og það er einmitt það fólk sem stendur hvað ákafast gegn breytingum hér á Íslandi. Í reglulegum gengisfellingum krónunnar verður þessi hluti þjóðarinnar sífellt ríkari með stórkostlegum eignatilfærslum innan íslensks samfélags.

Í umræðum þessa fólks um stöðuna er talað eins og líf hafi byrjað á Íslandi í október 2008 eftir algjört kerfishrun og 50% gengisfellingu krónunnar með öll mælitæki núllstillt. Öll tiltæk ráð eru nýtt til þess að halda í gjaldmiðil sem valdhafar geta gengisfellt til að leiðrétta efnahagsleg mistök með því að færa hluta að launum verkafólks til sín.

Fjöldi er hins vegar annarrar skoðunar og bendir á hversu stóran þátt krónan átti í þeim hamförunum sem skullu á landinu haustið 2008. Þá tapaði fjórðungur íslenskra heimila öllu og þau standa auk þess frammi fyrir ókleifu skuldafjalli. Kaupmáttur féll þá um 20% og atvinnuleysi nær þrefaldaðist. Hvers vegna stendur íslenskur almenningur mun verr eftir efnahagshrunið en t.d. almenningur í Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi og jafnvel Írlandi? Þar bjó fólk við gjaldmiðil sem bauð ekki upp sömu geggjun og íslenska örmyntin gerir í ógnarlitlu hagkerfi.

Íslenskir launamenn búa við sveiflukenndan örgjaldmiðil sem hefur valdið því að síðan 1980 hafa að jafnaði farið um 12% af launum í að greiða vaxtamun milli Íslands og ESB, sem veldur hærra vöruverði og meiri húsnæðiskostnaði. Heildarkostnaður heimila launamanna á Íslandi af krónunni á þessum tíma samsvarar því að 30% af tekjum heimilanna.

Þetta ástand verja fyrirtækin í útflutningi af öllum mætti, þau vilja geta selt sína vöru í erlendum myntum, en greitt launamönnum í íslenskri krónu. Öll stærstu fyrirtæki Íslands gera upp í evrum eða dollurum, rekstrarkostnaður krónunnar lendir þar af leiðandi á minni fyrirtækjum og launamönnum.

Íslenska krónan er svæsnasti óvinur íslensks launafólks og veikindi hennar nærast á lækkuðum kaupmætti fólksins. Fjórða árið í röð verður fólk að spara við sig og það er í vaxandi mæli óánægðara með afkomu sína. Sífellt fleiri verða að spara við sig í nauðsynjum, auk þess eru sett ný þjónustugjöld í skólum og aðkomugjöld að í heilbrigðisþjónustu.

Það er búið að þrengja mikið að ráðstöfunartekjum venjulegs launafólks þegar það er farið að spara við sig í lyfjakaupum. Í dag hafa um 6.500 manns flutt frá Íslandi til Noregs, það er ekki atvinnulausa fólkið sem er að flytja heldur er það vel menntað ungt fólk sem sættir sig ekki við aðstæðurnar.

Það er svo annað mál að langtímahorfur íslendinga í samanburði við margar aðrar þjóðir eru góðar. Þær eiga við að etja skuldavanda, ellilífeyrisvanda og skort á auðlindum. Endurnýjanleg orka er eftirsóttasta vara sem til er. Náttúruauðlindir hafa ekki endilega verið ávísun á ríkidæmi og velgegni. Þar má benda á Argentínu og Nígeríu. Í þessu sambandi má einnig bera saman hvernig Noregur nýtti sínar auðlindir í samanburði við Bretland.

Við erum að missa hæfileikafólk úr landi og með verðmæta þekkingu. Í jafnfámennu landi og Ísland er þetta dýrt því þetta veldur því að í mörgum tilfellum er ekki hæfasta fólki að störfum við hin erfiðu verkefni sem við verðum að leysa til þess að komast upp úr hjólförnum.

Afleiðing þessa er kyrrstaða og það verður sífellt lengra í að okkur takist að ná stöðugleika í efnahags- og gjaldmiðilsmálum. Öll helstu fyrirtæki landsins hafa hafnað krónunni og hún er líka ástæða þess að þekkingar- og hátækniiðnaðurinn er ekki með Ísland inn á blaðinu sem fjárfestingarkost. Sakir þess að eru hverfandi líkur á því að það takist að fjölga störfum á Íslandi í því magni sem þarf til þess að komast upp út úr viðjum Hrunsins.

Hagvöxtur verður að aukast og vera a.m.k. 3,5% næstu árin. Skapa þarf 20 þús. ný störf eigi að ná atvinnuleysinu niður. Það er talin borin von að það takist með lokað hagkerfi. Erlendir fjárfestar fara ekki með fjármuni inn í hagkerfi þar sem ekki er hægt að ná arðinum tilbaka.

sunnudagur, 8. janúar 2012

Heimsljós

Ég sá leikgerð Kjartans Ragnarssonar á Heimsljósi Halldórs Laxnes í Þjóðleikhúsinu í gærkvöld. Kjartan vinnur þarna úr fyrri leikgerðum byggðum á fyrstu hlutum Heimsljóss, Ljós heimsins og Höll sumarlandsins sem sýndar voru við opnun Borgarleikhússins. Í þessari sýningu er verk Halldórs tekið fyrir í heild sinni.

Játa að ég hafði lesið á netinu ummæli nokkurra um verkið og var búinn undir leiðinlegt kvöld þar sem sumir myndu sofa og nokkrir fara út í öðru hvoru hléinu.

Mér leiddist ekki, ég sá engan sofna og það fækkaði ekki í salnum. Verkið er langt, þrír og hálfur tími með tveimur kortershléum, en það rennur hnökralaust og heldur manni við efnið.

Það mætti vafalaust stytta verkið, en ég treysti mér ekki til þess að benda á hvað mætti fara út. Kjartan er flinkur leikhúsmaður trúr texta Halldórs og tekst að skapa heilsteypta og áhrifamikla sýningu þar sem dregin er upp skýr mynd af Ólafi Kárasyni. Athyglinni er beint að konunum í lífi hans og hversu mikil áhrif þær hafa á hann.

Myndin sem Halldór dregur upp af leiðtogum í verkalýðshreyfingu og hvernig afstöðuleysi getur leikið menn grátt, þegar reynt er að vera trúr öllum samsamar sig vel við þann veruleika sem ég þekki úr mínu starfi.

Leikararnir standa sig með prýði. Mér fannst Ólafía Hrönn bera af. Hún er reyndar ein af mínum uppáhaldsleikurum þannig ég er kannski hlutdrægur. Pálmi Gestsson fór hreint út sagt á kostum sem Pétur þríhross. Hilmir Snær stóð sig frábærlega, ég var ekki eins hrifinn af Birni Thors, hann er fínn leikari, en einhvern veginn passaði hann ekki við hlutverkið.

Mér finnst ein stjarna eins sumir þekktir leikgagnrýnendur hafa gefið verkinu alltof lítið, 3,5 væri nær lagi. Þeir sem ekki hafa gaman af miklum texta og dramatískum pælingum ættu að fara á aðrar sýningar. Mér fannst þessu laugardagskvöldi vel varið.

laugardagur, 7. janúar 2012

Hundahald

Frá því að ég var 10 ára gamall fram undir tvítugt var ég á hverju sumri hjá föðursystur minni í sveit á stóru búi norður í Húnaþingi og fór þangað í nær hverju orlofi eftir að ég hafði lokið námi og fór að vinna. Þekki því vel til skepnuhalds og allra bústarfa.

Mér er fullkomlega ómögulegt að skilja hvers vegna sumt fólk er að halda hunda, meir að segja sumir marga hunda. Þetta kemur fram í hugann eftir fréttir undanfarinna daga vegna hunda sem hafa bitið börn, eða hunda sem er hent út um dyrnar vegna þess að eigandinn var búinn að fá leið á honum.

Hundar eru tilfinningaverur, ekki leikföng sem hægt að kasta út í horn eða á dyr. Þeir haga sér eins og húsbóndinn ætlast til af þeim. Fólk upplýsir mann um fáfræði sína á skepnuhaldi ef það heldur því fram að einhver hundategund sé hættulegri en önnur. Háttalag hunds endurspeglar eiganda sinn.

Það er ekki á allra færi að eiga hunda. Þeir þurfa allir uppeldi og sumir mjög strangt uppeldi. Doberman og Rotweiler eru ekki endilega allir hættulegir, en þeir eru öflugir. Í sumum löndum gilda strangar reglur um hundaeign öflugra hunda og þar þurfa tilvonandi hundaeigendur að taka ákveðin próf og fá leyfi til að halda hund af þessum tegundum.

Ég hef starfað í tvo áratugi hjá stéttarfélagi sem rekur mörg orlofshús og stórt tjaldsvæði. Það koma reglulega upp vandamál vegna hundahalds. Við starfsfólkið vitum af fenginni reynslu að það eru ekki hundarnir sem eru vandamálið, það eru eigendur þeirra. Sama á við um börnin, því kynnumst við vel þegar rætt er við foreldra barna sem hafa verið staðin að skemmdarverkum.

Í heilbrigðisreglugerðum og reglugerðum sveitarfélaga eru margskonar ákvæði um hundahald. Allsstaðar eru skýr ákvæði um lausagöngu hunda. Öll þekkjum við fréttir af því þegar lausir hundar hafa ráðist á búfénað. Borgarhundar þekkja ekki umgang við búfénað.

Það er bannað að hafa hunda í húsnæði sem er leigt er út, t.d. hótelherbergi og orlofshús, vegna þess að sumt fólk er með heiftarlegt ofnæmi gagnvart hundum. Þrátt fyrir þetta bann finnum við reglulega hundahár í rúmum og sængum orlofshúsa. Við höfum lent í nokkrum mjög alvarlegum ofnæmistilfellum þar sem fólk leigði hús hjá okkur og vaknaði upp með ofsaofnæmiskast og varð að fara á sjúkrahús.

Við starfsmennirnir fáum reglulega klögumál þar sem lítil börn þeirra hafa verið að leika sér á tjaldsvæðinu og foreldrar komu að þeim útbíuðum í skít í framan og á fötum þeirra, vegna þess að stórir hundaskítsdrjólar höfðu verið skildir eftir. Ég ætla að sleppa því að hafa eftir þau ummæli sem foreldrar barnanna þuldu yfir okkur starfsfólkinu.

Reglulega lendum við í deilum við menn sem sleppa hundum sínum lausum. Margt fólk er verulega hrætt við stóra hunda og flýr inn í fortjöldin. Hundar eru vitanlega ljúfir við eigendur sína, en það þarf ekki að gilda um aðra. Þegar við starfsmenn höfum svo rætt við eigendurna hafa þeir rifið kjaft og ekki gefið sig fyrr en við höfum skipað þeim að taka saman sitt dót og yfirgefa svæðið.

Ég hef nokkrum sinnum haft orð á því í pistlum hversu hvimleitt það sé þegar maður fer um göngustíga, t.d. Esjunnar, og þeir eru varðaðir plastpokum með hundaskít. Það er svo óendanlega ruglað að hafa fyrir því að pakka inn hundaskít og skilja svo plastpokann eftir á göngustígnum. Hver á að taka hann upp annar en hundaeigandinn sjálfur?

Það er mikill minni hluti hundahaldara sem er til vandræða og ættu að gera eitthvað annað en eiga hunda. En það eru þeir sem eru í raun að kalla mjög strangar reglur yfir alla hina. Það er reyndar eins og með allar reglur, þær eru settar vegna þessara 5% sem ekki er færir um að taka tillit til annarra.

þriðjudagur, 3. janúar 2012

Kosningar og tillögur Stjórnlagaráðs

Umræðan tekur oft á sig hinar ótrúlegustu myndir, reyndar fyrirsjáanlegar hjá sumum einstaklingum. Oft veltir maður fyrir sér hver þekking stjórnmálamanna og jafnvel ráðherra eða fyrrv. ráðherra sé á lögum og gildandi reglum?

Tökum t.d. sameiningu ráðuneyta og fækkun ráðherra. Í mörg herrans ár hefur verið krafa um fækkun ráðherra og skilvirkari stjórnsýslu og margir komið að því máli. Þetta er í stjórnarsáttmálanum. Unnið hefur verið að þessu í ákveðnum skrefum á kjörtímabilinu, en nú er hrópað um einræðistilburði og einelti.

Í þessu sambandi má t.d. nefna margendurteknar fullyrðingar um að auðlindirnar lendi í höndunum á ESB. Í stofnsáttmála er skýrt tekið fram að auðlindir séu í höndum aðildarþjóðanna sjálfra. Danir og Bretar halda t.d. sínum olíulindum í Norðursjó, Finnar sínum skógum og þannig má lengi telja.

Einnig má benda á fullyrðingu um að skattborgarar eins ESB-ríkis muni koma til með að greiða skuldir annars. Slíkt er ekki heimilt samkv. stofnsáttmála Evrópusambandsins. Vitanlega gildir það ekki um ef ríki fara í eitthvað sameiginlegt verkefni. Það er gert að gefnu samþykki þeirra sem ætla að vera þátttakendur í viðkomandi verkefni.

Nú eru þeir sem ég tala um í fyrstu málsgrein, farnir að blanda væntanlegum forsetakosningum saman við ESB umræðuna. Það er gengið svo langt að fullyrða væntanlegur forseti muni ráða því hvort við göngum í ESB eða ekki. Svona mál verður að bera undir þjóðina sama hvaða skoðun sitjandi stjórnvöld eða forseti hafa.

Ólafur Ragnar hefur breytt ásýnd embættisins og það mun hafa áhrif á væntanlegt forsetakjör. Á næstu mánuðum mun fara fram mikil umræða um forsetaembættið og hvernig fólk vilji hafa það. Þessi umræða var áberandi innan Stjórnlagaráðs og varð til þess að ástæða þótti að setja skýrari ákvæði um embættið, ekki að það væri verið að breyta hlutverki forsetans, heldur frekar að staðfesta stöðu hans.

Öll stjórnvöld lenda í því að þurfa að afgreiða óvinsælar ákvarðanir. Ástandið eins og það hefur þróast hefur um of þóknast lýðskrumurum og á því verður að taka.

Í tillögum Stjórnlagaráðs er málskotsrétturinn gerður skýrari og hann aukinn. Almenningur fær einnig málskotsrétt án milligöngu forsetans. Með þessu er augljóslega verið að svara umdeildum athöfnum sitjandi forseta.

Einnig var rætt hvort setja ætti skýra ákvæði um að forsetinn haldi sig við ríkjandi stefnu og sé ekki að reka eigin utanríkisstefnu, eða vera með yfirlýsingar um hagsmuni launamanna sem ganga þvert á samþykkta stefnu samtaka launamanna.

Þessi atriði frumvarps að nýrri Stjórnarskrá voru sett ekki til þess að efla stöðu stöðu forsetaembættisins, heldur til þess að auka lýðræði í landinu. Styrkja þingræðið og aðkomu hins almenna kjósanda.

Ákvarðanataka og stefnumótun fari ekki eftir duttlungum og pólitískum skoðunum sitjandi forseta og svo deilum milli hans og sitjandi forsætisráðherra. Hér má vísa til tveggja mála, afgreiðslu fjölmiðlafrumvarps og svo Icesave samnings sem var með yfirgnæfandi meirihluta samþykki Alþingis.

Tilgangur Stjórnlagaráðs var ekki síst að sporna gegn því að fara í fyrra horf, þegar að engum umdeildum málum var vísað til þjóðarinnar og jafnvel ekki til sitjandi Alþingis. Hér var vísað til ástandsins eins og það var um síðustu aldamót. Í höndum tveggja ráðherra og nokkurra embættismanna sem sátu við hlið þeirra hvaða lögum og reglum var rúllað í gegnum hæstvirt Alþingi.

Öll þessi atriði þurfa að liggja skýr fyrir þegar þjóðin gengur til kosninga í vor. Það er því óhjákvæmilegt að búið verði að marka skýra stefnu hvernig frumvarp til nýrrar Stjórnarskrár verður afgreitt.

sunnudagur, 1. janúar 2012

Fyrirsjáanleg niðurstaða forsetans

Í viðtali við Ólafur Ragnar í gær kom fram að síðasti Icesave samningurinn hafi verið það góður og hann hafi ekki átt von á þjóðin myndi fella hann. Í dag tilkynnir hann að hann muni ekki bjóða sig fram í vor. Þetta var fyrirséð að mínu mati.

Í september skrifaði ég pistil þar sem m.a. kom fram að Ólafur væri búinn að átta sig á þeim afleiðingum sem myndu óhjákvæmilega koma fram og væri farinn að undirbúa vörn sína.

Allir stjórnmálaflokkarnir hefðu viðurkennt að Ísland hefði undirgengist ákveðnar skuldbindingar og Icesave-samningarnir snérust ekki um það, heldur með hvaða kjörum það yrði gert. Þar skipti öllu sú vaxtaprósenta sem gildir við endurgreiðslu á því láni sem Hollendingar og Bretar tóku til þess að gera upp skuldbindingar við innlánseigendur á Icesave.

Sú upphæð gæti allt að fimmfaldast frá þeim vaxtakjörum sem voru í síðasta samning sem Ólafur Ragnar setti fótinn fyrir í tækifærissinnuðu útspili. Það væri langt frá því að útséð að það útspil hefði verið sá happafengur sem hann vill halda fram.

Í Stjórnlagaráði var mikið talað um málskotsrétt forsetans, hvort setja ætti skorður við hvaða málaflokkum hann mætti skjóta til þjóðarinnar og hvort hann ætti að bera á ábyrgð sínum á eigin orðum og gerðum t.d. með afsögn Niðurstaðan varð sú að gera það ekki.

Túlkun Ólafs Ragnars á niðurstöðum Stjórnlagaráðs í september um að forsetinn ætti að vera afgerandi þátttakandi í stjórnmálum voru að mínu mati vel úthugsaðar af Ólafi. Sú túlkun hentaði mikið betur í æviminningunum og þeim vörnum sem hann yrði að grípa til þegar Íslendingum yrði gert að standa við staðfestar skuldbindingar þjóðarinnar.

Að lokum vill ég að gefnu tilefni að ég hef engan áhuga á að greiða þessar skuldir að óþörfu, en tel að samningar hefðu verið mun hagstæðari niðurstaða en væntanlegur dómur.