mánudagur, 26. apríl 2010

Bullkenningar efnahagshelstefnunar

Ólafur Stephensen ritstjóri er í góðum leiðara í dag á sömu götum og ég hef verið í pistlum hvað varðar þrætubókarlistina sem stuðningsmenn efnahagshelstefnunnar höfðu tamið sér. Hann fjallar um hvernig heimatilbúin rök sem nýtt voru steinliggi núna eftir að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis kom út.

Hann nefnir kenninguna um að íslenska bankakerfið hafi ekki verið í neitt sérstaklega vondum málum haustið 2008, það hafi bara ekki staðist hina alþjóðlegu fjármálakreppu. Ljóst er að þetta er út hött, stjórnvöld hefðu þurft að grípa í taumana strax árið 2006 en gerðu það ekki. Vandi bankanna var heimatilbúinn vandi.

Svo er það umsáturskenningin um að stjórnvöld í nágrannaríkjunum hafi ekki viljað koma Íslandi til bjargar þegar mest á reið og þannig átt sinn þátt í að keyra hagkerfið í kaf. Margoft hefur komið fram að þetta er ekki rétt. Nágrannaríkin voru reiðubúin að hjálpa, en settu það sem skilyrði að íslensk stjórnvöld gripu til aðgerða. Um þetta hef ég margoft fjallað í pistlum allt frá haustinu 2007. Íslensk stjórnvöld nutu lítils trausts á alþjóðlegum vettvangi. Þessi vandi var heimatilbúinn.

Svo er það dellan um gallana á regluverki EES sem áttu að valdið því að stjórnvöld gátu ekki getað stöðvað bankana af. Þetta skýtur rannsóknarnefndin skipulega í kaf; sýnir fram á að íslensk stjórnvöld höfðu svigrúm til að setja sérstakar reglur sem hefðu dregið úr svigrúmi og áhættu bankanna og tekið mið af sérstökum aðstæðum hér á landi, til dæmis varðandi hagsmunatengsl og þröngt eignarhald.

Rannsóknarskýrslan er góð , en það er svo spurning hvort almenningur mun láta stjórnmálamenn komast upp að sökkva henni í málþófi og þrætubókarlist, í stað þess að ræða um hrun bankakerfisins á grundvelli staðreynda.

Hrunið var ekki vegna andvaraleysis og skorts á aðgæslu. Það er ekki nægilegt að ofdrykkjumaður lofi bót og betrun og ætli að fara varlegar og drekka bara bjór á föstudags- og laugardagskvöldum. Sú efnahagsstefna sem hér var innleidd leiddi ekki til aðgerðaleysis. Hún var innleidd af fullum krafti og stjórnmálamenn voru virkir þátttakendur, eins og svo glögglega kemur fram í skýrslunni.

Efnahagshelstefnan hófst með kvótakerfinu, áframhaldið var einkavæðing fyrirtækja í eigu almennings og ofsafengin hægri stefna. Allt rökstutt með bullkenningum sem nú standa einar eftir og upplýsa okkur um hversu vanhæfir stjórnmálamenn hafi verið við völd hér undanfarna áratugi.

sunnudagur, 25. apríl 2010

Nýtt lýðveldi

Átta mig ekki á afstöðu allmargra samborgara minna, þá sérstaklega þeirra sem studdu þá flokka sem stóðu að baki þeirra ríkisstjórna sem mótuðu efnahagstefnuna og sveifluna til ofurhægri. Þar var stefnan tekin á að einkavæða fyrirtæki í eigu almennings. Selja fjölskyldusilfrið svo lækka mætti skatta, sem leiddi til þess að skerða varð tryggingakerfið, lækka skerðingarmörk (voru látinn standa kyrr í krónutölu) og auka tekjutengingu í bótakerfinu. Það leiddi augljóslega til þess að þegar silfrið væri uppurið og þenslan að baki, myndu skattar ekki duga til þess að reka ríkisbáknið. Þeir sem höfðu mikið umleikis myndu hafa það enn betra.

Verkalýðshreyfingin mótmælti þessu kröftuglega ásamt nokkrum hagfræðingum í Háskólanum. Lögð voru fram gögn sem sýndu svo ekki var um villst hvert stefndi, en meirihluti þjóðarinnar valdi frekar hægri leiðinu og endurkaus þessa stjórnarstefnu. Þannig virkar lýðræðið. Þingmenn og talsmenn þáverandi ríkisstjórna fóru hamförum gegn þessum gögnum, þrætubókarlistinni var beitt til hins ýtrasta.

Það er ríkisvaldið sem ákvarðar hvernig almenna tryggingakerfið er rekið og Alþingi sem staðfestir þær ákvarðanir. Ekki verkalýðshreyfingin, en hún mómælti árangurslaust ásamt nokkrum háskólaprófessorum og fékk heldur ekki stuðning, og þjóðin endurkaus þá flokka sem stóðu að þessari stefnu.

Á tímum mikillar þenslu og góðrar stöðu á vinnumarkaði náðist að hækka sérstaklega í hverjum kjarasamningum á fætur öðrum lægstu laun. Í þeim samtökum sem ég stjórna tókst að hækka lægstu taxta 46% umfram umsamdar almennar launahækkanir það sem af er þessari öld. Árin 2006 og 2007 voru meðallaun íslenskra rafiðnaðarmanna með þeim hæstu sem voru á norðurlöndum, hærri en í Svíþjóð og Finnlandi, en svipuð og þau voru í Danmörku og Noregi og kaupmáttur hafði hækkað um 4 - 5% árlega. Meðalheildarlaun hér heima voru þau hæstu á norðurlöndum, en við unnum 46 klst. vinnuviku, eða 6 klst. lengri en á hinum norðurlöndunum.

Verkalýðshreyfingin benti ítrekað á gengi krónunnar væri fallvalt og í mörgum pistlum, ályktunum og fleiru var því komið kyrfilega á framfæri að taka yrði það vald frá stjórnvöldum að geta leiðrétt „blóðsúthellingalaust of góða kjarasamninga með gengisfellingu krónunnar“ svo ég noti orðalag þingmanna hægrimanna og fulltrúa þeirra í stjórn Seðlabankans. Þeir sem stjórnuðu vildu ekki hlusta á andmæli snéru út úr og lögðu fram meðaltöl byggð á margra ára gömlum skýrslum. "Allir hafa það svo gott undir okkar stjórn. Þeir sem ekki skilja Íslenska efnahagsundrið sem við höfum skapað eiga að fara í endurhæfingu." Og þau voru endurkosin. Þannig virkar lýðræðið.

Það eru réttkjörinn stjórnvöld sem ákvarða peningastefnuna og meirihlutinn vildi ekki ræða breytingar á henni.

Undir þessari stefnu óx bankakerfið, öllum stóðu lán til boða, fólk var hvatt til þess að framkvæma og fjárfesta. Þeir sem bentu á að þetta myndi ekki standast til langframa og þessi velgegni væri fallvölt, voru hæddir og flokkaðir sem neikvæðir öfundarmenn. Meirihlutinn dásamaði Íslenska efnahagsundrið sem leiddi til að allir höfðu það svo „gott?!“. Þeir sem stóðu þar fremstir í flokki fyrir þessari stefnu fengu tugmilljóna kr. styrki til þess að kynna sig og flokka sína og voru endurkosnir.

Spilling mældist ekki vegna þess að það skortir lög og reglur til þess að marka hvað mátti og hvað ekki má. Engin áhugi var á að setja þannig reglur, það myndi skerða frelsið sem hægrið vildi. Þannig virkar íslensk samfélag og meirihlutinn endurkaus ítrekað þessa stefnu.

Á grundvelli framansagðs er harla einkennilegt að vera gert að sitja undir svívirðingum og ásökunum frá fólki sem ég veit að kaus og studdi þessa stefnu og sendi okkur ú forystu stéttarfélaga tóninni fyrir úrtölustefnu. Það er ekki hægt annað en að efast um að allir mótmælendur séu þess umkomnir að fella þá dóma sem fram eru settir. Það sakar verkalýðshreyfinguna um að bætur séu slakar.

Verkalýðshreyfingin mótmælti en ríkisvaldið hlustaði ekki og fékk til þess stuðning kjósenda, stuðning þeirra sem mótmæla nú og áfella verkalýðshreyfinguna. Menn verða að hafa dug í sér til þess að horfast í augu við eigin ákvarðanir og afleiðingar gjörða sinna, það er grundvöllur þess að hægt sé að ná sér upp úr þessum táradal.

Nú er kvartað undan því að laun séu lág. Það er gengisfall krónunnar sem veldur því og á meðan við höfum hana erum við dæmd til þess að vera láglaunasvæði, á meðan stjórnmálamenn eru að leiðrétta slaka efnahagstjórn sýna og timburmenn eftir ofsafengnar framkvæmdir byggðum á kosningaloforðum. Á þetta hef ég bent pistil eftir pistil á undanförnum árum.

Forsenda þess að við komumst upp úr þessum dal að sökudólgarnir svari til saka og fjárglæframennirnir sæti refsingu, ásamt því að stjórnmálamenn og valdamiklir embættismenn sem stóðu ekki undir ábyrgð segi af sér. En umræðan og ákvarðanatakan verður að vera yfirveguð. Lýðskrumið hefur verið við völd á Alþingi og það verður að stoppa.

Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis staðfestir að spillingin hefur verið yfirgengileg og þjóðin treystir ekki stjórnmálamönnum, Alþingi, ríkisstjórn og eftirlitstofnunum hins opinbera. Það var ríkið sem brást almenning. Það verður ekki haldið lengra á sömu braut. Það hefur orðið siðrof og það verður að leggja nýjan grunn. Brýnt er að kjósa stjórnlagaþing sem allra fyrst og semja nýja stjórnarskrá. Eins fram kemur hér framar vildu ráðherrar það ekki, því þá myndu þeir missa völd. Koma verður brennuvörgunum af staðnum og stofna nýtt lýðveldi með nýrri stjórnarskrá.

laugardagur, 24. apríl 2010

Úrvalslið þrætubókarlistarinnar

Munið þið þau rök sem ráðherrar, þingmenn og starfsmenn þess þingflokks sem hér hefur ráðið ríkjum undanfarna viðhöfðu þegar Árni Mathiesen þáverandi ráðherra gekk fram hjá tillögum matsnefndar um hverjir væru hæfastir til þess að verða ráðnir héraðsdómarar? Sá málflutningur bar öll merki þeirrar ómerkilegu þrætubókarlistar sem sá þingflokkur hefur beitt í öllum sínum málflutning á undanförnum árum.

Þar má einnig minna á þrætur þeirra og útúrsnúninga í umræðum um breytingar á skattkerfinu, svo maður tali nú ekki um tryggingabótakerfinu. Eða aðdraganda Hrunsins, Icesave, já öll mál.

Hér er úrdráttur úr niðurstöðu Héraðsdóms : „Í hnotskurn er málið það að með skipan þess er fékk embættið er gengið þvert gegn vilja löggjafans, þ.e. að styrkja sjálfstæði dómstólanna og auka traust almennings á því að dómarar séu óháðir handhöfum framkvæmdavaldsins.

Þetta var gert án þess að sá er fékk embættið hafi haft uppi athugasemdir við niðurstöðu dómnefndarinnar. Þá tók það stefnda, Árna, mjög stuttan tíma, að undirbúa veitingu embættisins. Ekki aflaði hann frekari upplýsinga eða gagna. Í ljósi menntunar sinnar og starfsreynslu verður að telja að hann hafi ekki faglega þekkingu á störfum dómstólanna.

Við ákvörðun sína byggir hann á því að 4 ára starfsreynsla, sem aðstoðarmaður ráðherra, en lögfræðimenntun er ekki skilyrði fyrir því starfi, upphefji 35 ára starfsreynslu stefnanda sem öll tengist dómstólunum.

Þessi háttsemi stefnda, Árna, er órafjarri skyldum hans sem veitingarvaldshafa við skipun í dómaraembætti og eðlilegt að stefnandi höfði mál á hendur ráðherra persónulega. Er það mat dómsins að stefndi, Árni, eigi persónulega að standa straum af tildæmdum miskabótum. Hins vegar hefur stefndi, íslenska ríkið, byggt á því að það beri vinnuveitendaábyrgð á gerðum ráðherra. Dómurinn er bundinn af þeirri málsástæðu stefnda, íslenska ríkisins, og verður því stefndu gert að greiða stefnanda miskabætur óskipt

Árna Mathiesen og íslenska ríkið greiði stefnanda, Guðmundi Kristjánssyni, óskipt 3.500.000 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., samanber 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 9. febrúar 2009 til greiðsludags og 1.000.000 kr. í málskostnað.“

sunnudagur, 18. apríl 2010

Ábyrgðarleysi

Við hjónin erum búinn að vera í fríi síðustu viku hér suður á Spáni. Löngu fyrirfram ákveðið vegna sérstakrar uppákomu og fjölskyldur okkar sameinuðust um að láta einn draum okkar verða að veruleika. Hef því fylgst með umræðunni heima í ákveðinni fjarlægð, nettenging ekki upp á það besta og reyndar upptekinn við annað. En óneitanlega hefur gosið og svo eftirköst birtingar Skýrslunnar valdið því að maður hefur fylgst með þróun mála með allnokkurri forvitni. Við erum hér um 60 íslendingar og málin rædd ítarlega.

Það hefur tíðkast í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við, að pólitískt kjörnir fulltrúar og ekki síst ráðherrum er gert að axla ábyrgð gjörðum sínum. Hér á landi þvertaka ráðherrar fyrir að bera ábyrgð á nokkrum hlut. Beita fyrir sig þrætubókarlist, alloft barnalegri svo ekki sé nú meira sagt. Verður þó aldrei dæmt annað en fullkomið ábyrðgarleysi af hálfu formanns Sjálfstæðismanna að lýsa því yfir að hann sé harðákveðinn í því að sitja áfram.

Í sjálfu sér má telja þetta eðlilega ákvörðun, þar sem ábyrgð (-arleysi) virðist ekki hafa nein áhrif á kjörfylgi, alla vega í þeim stjórnmálaflokki sem hefur verið leiðandi í stefnumótun undanfarna áratugi. Hvers vegna ættu ráðherrar og þingmenn þessa flokks að velta slíku fyrir sér? En nú liggur fyrir ítarleg skýrsla, þar sem glögglega kemur fram að það samfélag sem þessir menn hafa búið okkur er gerspillt og gegnumrotið. Það sem meira er að það var þingheimur sem bað um þessa skýrslu og hann getur ekki vikið sér undan henni og hlýtur að verða að taka afleiðingum hennar.

Efnahagslíf landsins er í rústum, atvinnulausir einstaklingar nálgast tuttugu þúsund, tugþúsundir heimila gjaldþrota og atvinnulífið að verslast upp. Landinu hefur verið stjórnað af getulausum tækifærissinnum, sem hafa látið stjórnast af græðgi og blindri valdabaráttu. Samt neita þeir að horfast í augu við afleiðingar gjörða sinna. Undir stjórn þessa fólks og reyndar einnig eftir að þeir komust í stjórnarandstöðu er búið að mála Ísland út í horn meðal nágrannalanda okkar. Fáir vilja eiga fjármálaleg samskipti við landið nema í gegnum AGS og þá með mjög háum vöxtum sem atvinnulífið ræður ekki við og tefur alla uppbyggingu.

Forsvarsmenn þessarar þróunar hafa á undanförnum árum þvertekið fyrir alla umræðu og þá gagnrýni sem sett var fram. Þeir hafa beitt fyrir sig hæðni og þrætum, jafnvel þó þær hafi verið ítarlega rökstuddar með skýrslum og könnunum. Alkunn eru þau vinnubrögð sjálfstæðismanna að bera fyrir sig allskonar meðaltöl, og skýrslur sem jafnvel voru allmargra ára gamlar.

Hér má t.d. vísa til viðbragða sjálfstæðismanna við ábendingum um hvernig þróun bóta- og skattkerfisins og stjórnsýslunnar var í þeirra höndum. Eða svo maður tali nú ekki um viðbrögð þeirra við Hruninu. Þar sem því var og hefur verið haldið fram að það hafi verið erlendum aðilum að kenna og göllum í regluverki EES. Þessi viðbrögð upplýstu okkur um fávisku þeirra í peninga- og hagstjórn, en samt voru þeir ítrekað endurkjörnir.

Nú virðist stjórn Sjálfstæðisflokksins vilja halda áfram á þessari braut og þrætubókarlistinni beitt. Í sjálfu sér er ekkert um það að segja, flokksstjórnin ræður vitanlega því hvernig tekið er á innri málum. En það er verra að þetta virðist ekki hafa áhrif á fylgi hans og völd. Ég hef oft bent á hversu einkennilegt það sé, að stjórn flokksins og þingmenn hans eru í allt annarri vegferð en t.d. forsvarsmenn helstu fyrirtækja og samtaka launamanna á almennum markaði. Það rímar í raun alls ekki við það sem flokkurinn gefur sig út fyrir að vera.

Ég hef einnig margoft fjallað um hversu einkennilegt það sé þegar þingmenn og ráðherrar senda forsvarsmönnum atvinnulífsins tóninn, svo maður tali nú ekki um þann þóttafulla hroka þegar þingmenn og ráðherrar segjast þekkja betur vilja félagsmanna en starfsmenn stéttarfélaganna, og þvertaka á grundvelli þess að ræða nokkrar umbætur. Stjórnmálamenn lokaðir inn í þröngri veröld Já-manna, heimóttalegir, þjakaðir af ofsóknarsýki og einagnraðir frá samfélaginu. Forsvarsmenn atvinnulífsins settu fram á síðasta landsfundi Sjálfstæðisflokksins gagnmerka framtíðarsýn ásamt punktum um samskipti við önnur lönd. Þessu var hent út í horn án umræðu og hlustað frekar á ræðu fyrrverandi formanns og þáverandi Seðlabankastjóra. Það var sök annarra að hann hafði klúðrað málum og pólitískar ofsóknir almennings að krefjast þess að hann axlaði ábyrgð.

Lykillinn að endurreisninni er að gengist verði við ábyrgð á mistökum, þannig að hægt sé að endurbyggja nýtt samfélag. Menn verða að hafa dug og getu til þess að horfast í augu við eigin mistök. Í aðdraganda Hrunsins bentu aðilar vinnumarkaðsins ítrekað á að ekki verði gengið lengra á þessari braut, skipta yrði um gjaldmiðil og peningastjórn.

Launamönnum hefur undir þessari efnahagsstjórn ítrekað verið gert að taka á sig lækkun launa og kaupmáttar eftir mistök. Forsvarsmenn efnahagsþróunarinnar hafa án þess að roðna réttlætt mistök sín með blóðsúthellingalausri gengislækkun, og enn ótrúlegra að 32% þjóðarinnar endurkjósi þann flokk sem finnst kinnroðalaust sjálfsögð eignaupptaka hjá almennum launamönnum til fárra eignamanna.

Þó svo forsvarsmenn flokksins og allnokkur hluti þingmanna hans séu rúnir trausti og bendlaðir við alvarlegar fjármálabrellur þá á að halda óbreyttri stefnu og nú á að beita fyrir sig lagakrókum og brellum til þess að komast hjá umræðu. Það er við almenning í landinu að sakast að þessir menn verði að víkja, ekki þeirra eigin gjörðum.

Hvar í veruleikanum eru íslendingar staddir?

fimmtudagur, 15. apríl 2010

Afneitun

Stjórnmálamenn ætla sér ekki að axla ábyrgð á gerðum frekar enn fyrri daginn. Svo ótrúlegt sem það er nú þá virðist það vera rétt sem margoft hefur verið bent á Sjálfstæðisflokkurinn mun aldrei fara niður fyrir 32% fylgi, sama á hverju gengur. Þetta kom mjög glögglega fram í skoðanakönnum þar sem 40% svarenda sögðust ekki vilja svara og 40% þeirra sem svöruðu sögðust myndu styðja Sjálfstæðisflokkinn, eða með öðrum orðum þessui umræddu 32%.

Þó svo helmingur þingliðs Sjálfstæðismanna sé bendlaður við allskonar ósóma í gríðarlegum styrkjum og lánum sem gufa upp, svo ekki sé talað um vafninga í braski með tryggingarsjóði auk þess að vera höfundar að kollsteypu íslensks efnahagslífs, þá víkja þeir sér undan allri ábyrgð halda því fram að það sé Bretum, Hollendingum og öðrum óvinum Íslands að kenna hvernig komið sé fyrir okkur.

Geir H. Haarde heldur sig við skýringar sem Valhöll útbjó á sínum tíma um að þetta hafi verið gölluðu regluverki Evrópusambandsins og bönkunum að kenna. Skýrslan segir: (5. bindi, bls. 38-39) ,,Ekki var tekið tillit við innleiðingu reglna, til sérstakra aðstæðna á Íslandi, t.d. hættu á nánum hagsmunatengslum og aukinnar áhættu og hagsmunaárekstra með samþjöppun eignarhalds."

„Í öllum atriðum voru reglur rýmkaðar og athafnafrelsi lánastofnana aukið verulega. Lágmarkskröfur tilskipana ESB um starfsemi lánastofnana fjölluðu ekki beinlínis um þessar auknu starfsheimildir. Íslandi var því ekki skylt vegna EES samningsins að auka starfsheimildir lánastofnana á þennan hátt“

,,Í kjölfar aðildar Íslands að EES-samningnum voru starfsheimildir íslenskra lánastofnana og þar með fjármálafyrirtækja rýmkaðar verulega. Þetta var gert samhliða því að tilskipanir Evrópusambandsins um fjármálamarkaðinn voru innleiddar í íslenskan rétt en þær tilskipanir fólu almennt í sér lágmarkssamræmingu á tilteknum atriðum sem snertu stofnun og rekstur lánastofnana ásamt meginreglunni um gagnkvæma viðurkenningu. Tilskipanirnar bönnuðu hins vegar aðildarríkjunum ekki að viðhalda eða setja sér strangari reglur en þar var kveðið á um gagnvart lánastofnunum í viðkomandi heimaríki enda væru þá uppfyllt ákveðin meginsjónarmið sem reglur Evrópusambandsins og EES-samningsins gera kröfu um. Í úttekt sem unnin var fyrir rannsóknarnefndina um innleiðingu gerða samkvæmt EES-samningnum á sviði fjármálaþjónustu í íslenskan rétt, og birt er sem viðauki 6 með rafrænni útgáfu skýrslunnar, kemur fram að hér á landi var almennt ekki valin sú leið að nota það svigrúm sem leiðir af gerðunum, þ.m.t. tilskipunum, til setja strangari reglur um starfsheimildir fjármálafyrirtækja. Ljóst er af skýringum sem fram komu á Alþingi þegar framangreindar breytingar voru gerðar á lögum að þar réðu fyrst og fremst sjónarmið um að bæta samkeppnisstöðu íslensku fjármálafyrirtækjanna á Evrópska efnahagssvæðinu og skapa þannig einsleitni og gagnkvæm starfsskilyrði fyrir fjármálafyrirtæki. EES-samningurinn opnaði erlendum fyrirtækjum leið til að bjóða upp á fjármálaþjónustu hér á landi og íslensku fyrirtækin gátu hafið starfsemi í aðildarríkjum samningsins, t.d. með stofnun útibúa."

Ennfremur segir: ,,Það var hluti af hinni pólitísku stefnumörkun stjórnvalda um það hvaða lagaumhverfi þau vildu búa innlendum lánastofnunum innan þess ramma sem reglur Evrópusambandsins og EES-samningsins settu."

Það hefur alltaf legið fyrir að íslensk stjórnvöld höfðu fullar heimildir til þess að hafa mun virkara eftirlit með fjármálastofnunum og þeim aðgerðum sem þau sjálf stóðu fyrir! Regluverk ESB var því ekki hindrun í þeim efnum.

mánudagur, 12. apríl 2010

Skýrslan til fyrirmyndar

Skýrslan var mun ítarlegri og ákveðnari í efnistökum en ég átti von á. Hún styður margt af því sem fjallað hefur um hér á þessu bloggi og reyndar ekkert sem kemur mér á óvart. Einnig er Skýrslan í fullu samræmi við þær aðvaranir sem settar voru fram af verkalýðshreyfingunni m.a. gagnvart efnahags- og peningastefnu og ekki síður skattalækkunum.

Hér vísa ég til fjölmargra pistla sem eru hér á þessari síðu og voru settir inn veturinn 2007 – 2008.

Ég átti samtal við góða æskuvinkonu mína í gær. Hún færði í tal færslur mínar hér á Eyjunni og sagði m.a. þú ert svakalega rótækur Guðmundur og svo harður gagnvart ákveðnum mönnum.

Þessi góða kona er, eins reyndar allmargir í föðurfjölskyldu minni af gamalgrónum Sjálfstæðisættum. Margir úr þeirri ætt hafa haft orð á því sama við mig undanfarin misseri.

Ég svaraði frænku minni, að ég væri henni ekki sammála, allt sem ég hefði sagt um tiltekna menn væri sett fram með rökum. Það væri frekar að ég hefði verið of linmæltur. Sé litið til Skýrslunnar þá verð ég eiginlega að biðjast afsökunar á því að hafa ekki verið enn harðorðari en ég hef verið.

Nú verður fróðlegt hvort sömu aðilar og hafa splundrað allir umræðu hér á landi, haldi áfram og takist að skella fram nýjum Smjörklípum. Einnig verður fróðlegt hvort einhverjir fyrrv. stjórnarþingmenn og ráðherrar verði ekki við óskum almennings og taki pokann sinn.

Einnig verður forvitnilegt að sjá hvernig Reykvíkingar taki á borgarstjórnarmeirihlutanum sem sannarlega var á bólakafi í REI.

sunnudagur, 11. apríl 2010

Jákvæðar lausnir

Nú erum við búinn að eyða heilu ári í að rífast um Icesave og tafið með því nauðsynlegar aðgerðir til þess að koma atvinnulífinu í gang. Það liggur fyrir að allir halda að sér höndum í ákvarðanatöku um framkvæmdir og lántökur til fjárfestinga á meðan óvissan er til staðar. Fram hjá þessari staðreynd verður ekki litið, sama hversu harkalega stjórnarandstöðumenn og Ögmundur berja hausnum við steininn og ástunda þrætubókalistina.

Skýrslan verður birt á morgun og ástæða til þess að óttast að enn lendi umræðan í gryfju þrætubókarinnar og ekkert miði áfram. Það er nauðsynlegt að ljúka uppgjöri meðal þjóðarinnar við það sem gerðist og koma böndum á þá sem áttu þátt í ólöglegum athöfnum. Allt uppgjörið getur ekki farið alfarið fram í dómsölunum, þá er ég að tala um uppgjörið við þá stjórnmálamenn sem skópu það umhverfi sem fjárglæframennirnir þurftu til sinna athafna og reyndar undir miklum fagnaðarlátum þáverandi stjórnarþingamanna og forseta landsins. Það siðrof sem varð til í skjóli þeirra hugmyndafræði sem hér var við völd.

Það eru jákvæðar lausnir til, en við þurfum að skapa umhverfi til þess að komast af stað. Íslendingar geta byggt upp enn öflugri hátækniiðnað. Iðnað sem flytur lítið inn en mikið út. Verðmætasköpun hins velmenntaða íslenska vinnumarkaðar og hæfilegrar nýtingar orkunnar. Til lengri tíma verður að fá gjaldmiðil sem bíður upp á stöðugleika. Verðbólga verði það lág að vextir verði innan við 4,5% og verðtrygging afnuminn. Það þarf að skapa 20 þús. störf á næstu fjórum árum svo meðalatvinnuleysi íslensks vinnumarkaðar fari niður fyrir 5%. Ef það tekst munum við á árinu 2013 hafa endurheimt þau lífskjör sem við bjuggum við á síðasta ári.

Krónan hefur reynst okkur ákaflega dýrkeypt. Hún hefur stuðlað að miklum sveiflum vegna agalausrar hagstjórnar. Sveiflurnar hafa kallað á að meðaltali 3,5% hærri vexti en þeir þyrftu að vera og verðtryggingu. Nærtækasti kosturinn er að sækja um aðild að Evrópusambandinu og láta reyna á hvert við komumst í slíkum viðræðum um forræði í auðlindamálum. Það eru nauðsynlegt að fá úr því skorið hvort við eigum kost á ásættanlegri lausn.

Gildismat hefur breyst á undangengnum áratugum. Hógværð hefur vikið fyrir öðrum gildum. Græðgi hefur markað för og krafan hefur verið endalaus velgengni. Alvarlegasta ógnunin við framtíð Íslands er skuldsetning hugarfarsins þar sem vantrú ríkir á öllu sem viðkemur einkaframtaki. Hugarfarsbreytingu þarf ef atvinnulífið á að skapa 20 þúsund störf fyrir árið 2013. Það gerist ekki með því að fjölga störfum hjá ríkinu, það gerist í atvinnulífinu. Við eigum að leggja áherslu á að laða fram jákvæðni, áræðni og frumkvæði.

Þýðingarmesta verkefni okkar er að stuðla að víðtækri sátt um stöðugleika. Styrkleiki okkar liggur meðal annars í miklum náttúruauðlindum, sterkum lífeyrissjóðum, hlutfallslega meira af ungu fólki en hjá öðrum Evrópuþjóðum. Helsti styrkleiki þjóðarinnar liggur í hugarfari; þrautseigju og mestu atvinnuþátttöku sem þekkist í vestrænu landi. Við megum ekki missa þennan styrkleika niður.

fimmtudagur, 8. apríl 2010

Ögmundur og stjórnarandstaðan

Eins og komið hefur fram í skoðanakönnunum þá er njóta stjórnmálamenn ákaflega lítils trausts hér á landi, skiljanlegt sé litið til athafna þeirra, 40% þjóðarinnar hafnar stjórnmálamönnum. Ekkert mál leysist, einungis er stunduð átakastjórnmál og þrætubókarlist. Glundroði er skapaður og honum viðhaldið. Það eina sem virðist gerast við stjórnarskipti er að þeir sem voru á móti verða með, og þeir sem voru með verða á móti.

Forsvarsmenn stærstu orkufyrirtækjanna segja að það sé ekki hægt að fara í framkvæmdir vegna þess að Icesave sé ekki lokið sakir þess að aðgangur íslendinga að lánsfé sé svo óhagkvæmur. Staðreynd sem er búinn að vera uppi frá því nokkru fyrir Hrun og allir landsmenn vita utan stjórnarandstöðuþingmanna og skoðanabræðrum þeirra; Ögmundi ásamt Liljunum.

Engin stefna engar hugsjónir, bara innihaldslausar upphrópanir út og suður. Einhver prinsipp sem enga samleið eiga með þeim markmiðum sem stefnt er að. Við launamönnum á almennum markaði blasir að viðhorf og sjónarmið byggjast einvörðungu á skilgreiningum opinbera geirans. Meðal stjórnmálamanna eru örfáir sem hafa einhvern skilning á rekstri fyritækja á almennum markaði, og virðist vera fyrirmunað að sjá að þar fari fram sú verðmætasköpun sem skapar útflutningstekjur, sem er eina leiðin til þess að komast úr vandanum.

Ég var á fundi um daginn þar sem allir helstu forsvarmenn atvinnulífsins voru, á næsta borði fyrir framan mig sátu tvær af forystukonum sjálfstæðismanna og þær gerðu gys að öllum sem voru í ræðustól. Þær töldu sig nú vita betur hvernig atvinnulífið ætti að ganga.

Var í vor ásamt forsvarsmönnum allra stærstu sprotafyrirtækja landsins þátttakandi í fundaseríu hvernig mætti ná enn lengra í uppbyggingu þessara fyrirtækja og flytja um 3000 störf heim, þar tók önnur þessara kvenna varformaður flokksins, sig til í lok fundarins og reif minnisblöð sem lögð voru fram í tætlur fyrir framan okkur og gerði gys að fundarefninu og forsvarmönnum CCP, Marel, Össur og fleiri góðum fyrirtækjum.

Í dag græða örfá sjávarútvegsfyrirtæki ofboðslega í því ástandi sem stjórnarandstaðan ásamt Ögmundi viðhalda, á meðan hvert fyrirtæki á fætur öðru hrynur í blóðugri undirboðsbaráttu á útboðsmarkaði, þar sem launum er sífellt þrýst neðar og sífellt fleiri fyrirtæka fara á hausinn og fleiri launamenn verða atvinnuleysinu að bráð.

Þetta blasir svo vel við þegar litið er til þess hvernig Alþingi hefur starfað frá Hruni. Stór ef ekki stærsti gerandi í að skapa þessa stöðu er Ögmundur Jónasson. Hann skrifar alveg stórfurðulega grein í Fréttablaðið í gær. Þar fullyrðir Ögmundur að allir sem ekki séu honum sammála séu fífl, þeir sjá ekki þann sannleika sem hann búi yfir.

Líklega hafa engir þingmenn valdið íslenskum launamönnum á almennum markaði og heimilum jafnmiklum skaða undanfarið ár og Ögmundur. Hann hafnar algjörlega að líta til þess að íslenskum fyrirtækjum, þá sérstaklega í orkuiðnaði er fyrirmunað að fjármagna framkvæmdir á meðan þeim standi einungis til boða lán á þeim ógnarkjörum sem íslendingum standa til boða á meðan Icesave er ekki leist.

Einnig verða gjaldeyrishöft ekki afnumin og krónan mun ekki styrkjast á meðan þetta ástand varir. Skuldir heimilanna og fyrirtækja eru því að hækka enn frekar og kaupmáttur lækka vegna hækkandi verðlags, í stað þess að það gæti gengið í andstæða átt.

Lífeyrissjóðir launamanna geta ekki fjárfest á erlendum markaði og tapa hundruðum milljóna á því. Af þessu virðast Ögmundur og aðrir þingmenn ekki hafa miklar áhyggjur, því lífeyrir þeirra er baktryggður í ríkissjóð, á meðan launamenn á almenum markaði er gert að horfa upp á skertan lífeyri og örorkubætur.

Nú krefst Ögmundur ásamt skoðanabræðrum sínum í Sjálfstæðisflokkunum að hinu gríðarlega ríkisbákni sem flokkurinn byggði upp í stjórnartíð sinni, verði viðhaldið með sérstakri skattlagningu á lífeyrissparnað launamanna á almennum markaði, sem þeir halda lokuðum inn í landinu.

Það blasir þó við að það er ekki lausn, heldur einungis tilfærsla á vanda og í raun atlaga að almennum lífeyrissjóðum. Hið litla hagkerfi Íslands getur ekki staðið undir þessu mikla ríkisbákni, nema þá að skera enn meira niður í velferðar- og bótakerfinu.

Það er svo einkennilegt hversu mikill munur er á Íslandi og hinum norðurlöndum hvað þetta varðar, þar standa kratar saman, sama hvar í flokki þeir eru, ásamt verkalýðshreyfingunni saman að uppbyggingu velferðarkerfisins og hinum öruggu samfélögum sem tekist hefur að byggja þar upp.

Hér upplifir maður endurtekið að stjórnmálamenn senda fólki úr atvinnulífinu tónninn, og sýn þeirra nær ekki út fyrir hið opinbera umhverfi.

þriðjudagur, 6. apríl 2010

Nýr þjóðfélagssáttmáli

Það sem hefur einkennt íslensk stjórnmál frá stjórnmálum nágrannaríkja er ráðherraræði tengt valdahópum, sem nýta stöðuna sína til þess að tryggja sér hagsmuni umfram aðra. Sé litið til þess hvernig komið er fyrir íslensku samfélagi í samanburði við nágrannaríki okkar má rekja það til gallaðrar stjórnskipunar reistri á hraðsoðinni og óendurskoðaðri stjórnarskrá, grundvallaðri á dönsku konungsríki.

Í Hruninu kom í ljós að ýmsar ríkistofnarnir höfðu ekki gætt öryggis landsins, Margt hafði farið úrskeiðis á vettvangi stjórnmála þar sem ráðherraræði var við völd samofið valdahópum. Þingmenn hafa vikið sér undan því að halda stjórnlagaþing. Enn er ekki hafin vinna við endurskoðun stjórnarskrárinnar til þess að eignast öruggt og gott ríki. Við erum með ríkisbákn sem hæfir miklu stærri þjóð. Við verðum að sníða okkur stakk eftir vexti. Við höfum ekki unnið með sama hætti að endurskoðun stjórnskipunnar og stjórnarskrárinnar og nágrannaríki okkar hafa gert.

Í skjóli þess hafa valdahópar náð tökum á samfélaginu. Þetta hefur kallað á skipulagða endursögn á sögunni sem er þá hluti af sátt við samfélagið. Þar má minna á endurritun sögu síðustu aldar hjá málpípum stjórnvalda þar sem þeim voru eignaðar allar framfarir, barátta almennings hefði hvergi komið þar nærri. Þessir þættir voru sýndir í sjónvarpi allra landsmanna á besta tíma og þáverandi menntamálaráðherra keypti þá fyrir alla grunnskóla landsins.

Ríkinu er stjórnað af valdahópum sem eru sífellt að skipta sér af okkur, en um leið að draga til hagsmuni frá einstaklingunum. Valdahópum sem sífellt eru að maka krókinn á kostnað almennings. Hér má t.d. benda þær hugmyndir sem stjórnmálamenn gera sér um vald sitt til þess að ráðskast með sparifé launamanna sem er í lífeyrissjóðunum, til þess að tryggja stöðu ofvaxins stjórnkerfis og koma sér undan því að takast á við þann vanda. Þetta mun leiða til þess að lífeyrisskerfið mun skaðast umtalsvert og fólk mun hætta að leggja peninga í þetta sparnaðarform sakir þess að ekki er hægt að treysta þingmönnum fyrir því að falla í þessa freistingu.

Ríkið á tryggja grundvallaröryggi allra landsmanna, en hefur ekki gert það því stórir hópar eru mjög ósáttir. Stjórnvöld þurfa að snúa við blaðinu og hafa frumkvæði að því að stuðla að sátt við okkur sjálf og tryggja að við getum verið sjálfstæð þjóð. Við höfum lagt alltof mikið upp úr veraldargæðum, það sé grunnurinn að öllu. Það er margt í félagslegum veruleika okkar sem hefur mikið meira gildi. Þjóðfélagssáttmálinn á að vera ofinn úr hugmyndum sem tengjast reglum og siðum sem taka mið af einstaklingum, fjölskyldum og félagslegum veruleika.

sunnudagur, 4. apríl 2010

Land forréttinda

Á Íslandi hefur þróast sjálftökusamfélag þar sem myndast hafa valdahópar sem hafa með nánu samstarfi við stjórnmálamenn skapað sem forréttindi umfram með því að skammta sjálfum sér hlunnindi og fé á kostnað almennings. Nú er rykið byrjað að setjast sem fótgönguliðar þessara hópa hafa þyrlað upp í kjölfar Hrunsins og við okkur blasir gerspillt veröld.

Blekkingarleikir hafa verið ástundaðir um langan tíma. Siðferði skipti þar engu, ef það var ekki bannað með lögum var það heimilt og eðlilegt í augum þessara einstaklinga að ástunda hrifsun á eignum ríkisins og almennings. Sífellt hraðari taktur varð í hrunadansinum og þáverandi stjórnarþingmenn og ráðherrar létu stjórnast af digrum styrkjum og glysferðum.

Ef gerðar voru athugasemdir eða bent á vaxandi ójöfnuð, þrættu fótgönguliðar valdhópanna fyrir það með kostulegum útúrsnúningum og svo einkennilegt sem það nú var voru þeir endurtekið kjörnir til valda. Þessi valdahópar berjast nú af öllu valdi til þess að viðhalda sinni stöðu.

Nú verður ekki lengur undan því vikist að horfast í augu við þessar óþægilegu staðreyndir. Sérstakt rannsóknarteymi frá Deutsche Bank skoðar nú starfssemi Landsbankans fyrir hrun og reyna að meta hvort íslensk og þýsk lög hafi verið brotin.

Þær eru svimandi upphæðirnar sem Ísland hefur kostað erlenda aðila, oft talað um 7 MIA Evra. En það er einnig hér heima fjöldi manns sem varð fyrir barðinu á athöfnum íslenskra fjármálamanna. Þar má ekki síst nefna íslensk heimili sem nýttu sér sérfræði ráðgjöf íslenskra fjármálafyrirtækja og sama á við um þá sem stjórnuðu fjárfestingum lífeyrissjóðanna.

Fótgönguliðar hinna íslensku valdaklíkna hafa markvist þyrlað upp moldviðri með því að beina smjörklípum sínum að þeim sem áttu viðskipti við bankana eins t.d. lífeyrissjóðina, ekki stjórnendur bankanna sjálfra. Með því hefur tekist hingað til þess að komast hjá því að fjallað væri um innri starfsemi t.d. Landsbankans og þeim sem þar störfuðu.

Nú ætlar traustur erlendur banki með langa sögu og öflugar rannsóknardeildir að rannsaka þessa starfsemi og þann blekkingarfe sem virðist hafa verið spunnin til þess að ná fjármagni. Sami blekkingarvefur sem beint var að íslendingum. Banki sem var svo tengdur þeim valdahópum sem voru innst í þeim stjórnmálaflokkum sem hefur farið með völdin hér á landi undanfarna áratugi. Það var jú í skjóli þessa flokka sem Ísland forréttindahópanna varð til. Það samfélag sem hrundi undir þeirra stjórn til grunna.

föstudagur, 2. apríl 2010

Fallega pissar Brúnka

Ég hef oft velt fyrir mér málflutning fyrrverandi stjórnarliða hér í pistlum. Hvernig þeim virðist vera um megn að horfast í augu við afleiðingar þeirrar efnahags- og peningastefnu sem þeir fylgdu. Þessi hópur bjó sér umhverfi með því má að taka skýrslu erlends aðila um spillingu og nýta sér hana til stuðnings við fullyrðingar á borð við að hér þekktist engin spilling. Þó svo hinir erlendu skýrsluhöfundar bentu ítrekað á að skýrslan væri marklaus hvað varðar spillingu á Íslandi.

Einnig má líta til skýrslu ríkisskipaðrar nefndar á vegum forsætisráðuneytis í marz 2008 sem fékk það verkefni að skilgreina þjóðareinkenni Íslendinga og koma með tillögur um hvernig mætti nota þau einkenni til að byggja upp jákvætt alþjóðlegt orðspor, einkum í þágu viðskiptaútrásarinnar.

Skýrsluhöfundar notuðu þar kunnugleg stef eins hinn séríslenska kraft, sem búi í þjóðinni og leggi grunn að kröftugu viðskiptalífi. Hinn náttúrulega kraft sem greini þjóðina frá öðrum þjóðum og hafi skilað okkur í hóp samkeppnishæfustu landa heimsins. Ísland sé best í heimi, land sem bjóði mestu lífsgæði sem þekkist.

Þeir fjalla um hin náttúrulega kraft sem einkenni það ferskasta í menningu og einstakan hljóm nýsköpunar í tónlist og sjónlistum, sem kallist á við hrynjanda rímna og Íslendingasafna. Mikilvægasti menningararfur sé hin íslenska tunga lifi í máli þjóðarinnar og Bjartur í Sumarhúsum búi í hverjum manni á Íslandi.

Já minna má það nú ekki vera, þessi þjóðarrembingur og einangrunarstefna hefur einkennt allan málflutning fyrrveranda stjórnarliða. Nákvæmlega það sem einkennir allar athafnir Bjarts, en stjórnmálamenn virðast ekki átta sig á því þegar þeir vísa til karlsins, en eru án þess að átta sig á því að lýsa eigin stefnu.

Ímyndarskýrslan endurspeglar þá ímynd sem þáverandi leiðtogar landsins vildu að íslenskir kjósendur og erlendar þjóðir aðrir hefðum um Ísland. Ritskoðuð útgáfa um glansmynd. En það er ekki langur vegur milli oflofs og háðs. Grunnhygginnar sjálfumgleði byggðri á efnishyggju.

Í þessu sambandi má rifja upp nokkur dæmi um séríslenskar athafnir eins og t.d. þegar Íslendingar drápu síðasta geirfuglaparið 1844. Atferli sem íslendingar vilja ekki láta bendla sig við, stuttu leiðina að skjótum gróða, eins og t.d. austfirðingar sem átu útsæðið. Þessi atburður gróf því um sig í samvisku þjóðarinnar. Þar til fréttist af uppboð á erlendum uppstoppuðum geirfugli.

Söfnun hófst meðal íslendinga og andvirði góðrar 3ja herbergja íbúðar safnaðist og viti menn fuglinn var sleginn íslendingum á uppboðinu á nákvæmlega sömu upphæð, og samviska þjóðarinnar fékk fullnægingu. Sömu lýsingar eiga við þegar fjallað er um sparifé almennings í nágrannlöndum, og skattfé sem var flutt hingað því yfirskyni íslendingar stæðu við skuldbindingar sínar, en réttlættist skyndilega í ræðum og fjölmiðlum þegar 9 menn voru sendir til Haiti.

Að líkja sjálfum sér og öðrum íslendingum við Bjart í Sumarhúsum eins allmargir stjórnmálamenn gera, er í raun niðurlæging. Halldór skrifaði Sjálfstætt fólk ekki til þess að lofsyngja frelsisneistann og manngæsku Bjarts í Sumarhúsum. Þvert á móti er bókin hörð árás á þrjósku hans og þvermóðsku.

Bjartur tróð sjálfsvirðingu allra sem næst honum stóðu í svaðið, ekki einungis manna heldur einnig skepna. Eftirminnilegasta lestraratvik mitt er þegar Halldór er lýsa meðferð hans á konum sínum og kúnni og fer með kálfinn til byggða. Sú lýsing vakti hjá mér fullkomna fyrirlitningu á þessari mannskepnu. Manns sem hugsaði aldrei um þarfir annarra en sjálfs sín.

Það er góð samlíking sem Illugi bendir á í fantagóðum pistli sínum um Bjart í Sumarhúsum. Illugi bendir réttilega á ef við vildum líkja Bjarti við eitthvað í samtíma okkar væru það útrásarvíkingunum og hinum pólitísku klappstýrum þeirra. Útrásavíkingarnir vildi vera sjálfstæðir. Þeir notuðu sama siðgæði og Bjartur og fullkomið samræmi er á milli húss Bjarts og fokheldum 600 ferm. sumarhúsum víkinganna í Borgarfirði og Fljótshlíð.

Útrás Bjarts með húsbyggingunni misráðnu, þá fór allt út um þúfur. Hann kenndi heimsstyrjöldinni um, rétt eins og útrásarvíkingar nútímans ásamt fyrrv. stjórnarliðum kenna heimskreppunni um sínar ófarir og geyma skýrsluna góðu á náttborðinu.

Miklir menn vorum við Hrólfur minn ...... og fallega pissar Brúnka.”

Ég vísa á frábæra grein Auðar A. Ólafsdóttir; Ímynd Íslands, saga, menningararfurinn og hin ýmsu sjálf Íslnedingsins í Sögu tímariti Sögufélagsins 2008, sem frekara ítarefni.

fimmtudagur, 1. apríl 2010

Rauðliðakjaftæði - með smá viðbót

Um langt skeið hefur hún verið umtöluð stefna repúblikana í BNA, þar sem þeir skera niður skatta og þá mest hjá efri millistéttum og upp úr. Þegar demókratar komast til valda er ríkisbúskapurinn í svo miklum vanda erfitt að koma á félagslegum umbótum og nauðsyn að grípa til skattahækkana til þess að koma ríkisbúskapnum í lag. Þetta nýta repúblikanar til þess að ala á óánægju, gera hróp að skattpíningarstefnu demókrata, sem nýtt sé til þess að ala upp ónytjunga.

Ríkisstjórnir Davíðs byggðu á sömu stefnu, talsmenn hennar gerðu gys að norræna velferðarkerfinu og töldu sig byggja upp Íslenskt efnahagsundur. Landssíminn og bankarnir seldir og lagt í umfangsmestu framkvæmdir Íslandssögunar, sem leiddu til þess að tekjur ríkissjóðs jukust um helming hinn fyrirsjáanlega þenslutopptíma. Gert var gys af viðvörunum hagdeilda aðila vinnumarkaðsins og ráðleggingum um að betra væri að leggja þessar auknu tekjur ríkisins til hliðar og geyma til mögru áranna sem við blöstu.

Undir stjórn talsmanna "Báknsins burt", blés ríkisbáknið út og um leið útgjöld ríkisins.var svarað með gysi og útúrsnúningum. „Hættið að bera okkur saman við nágrannalöndin, við erum kominn svo langt fram úr þeim.“ Og „Sendið þá sem ekki skilja velgegni okkar á endurhæfingarnámskeið.“

Vinum og vandamönnum var raðað á garðanna, ríkistofnunum fjölgað, ríkisstarfsmönnum fjölgaði hraðar en starfsmönnum á almennum markaði, fjöldi nýrra sendiherra var settur til starfa við verkefni sem enginn vissi hver væru. Allt menn sem komu úr flokksvélinni og höfðu lítið aðhafst annað en að skipuleggja þjóðhátíðir og glysferðir um heimsbyggðina þar sem efnahagsundrið var lofað, gjarnan í fylgd þekktra öfgamanna úr röðum frjálshyggjunnar.

Í ljós kom að allt var byggt á sandi, engar forsendur voru fyrir skattalækkunum, sem gerðar voru á toppi þensluskeiðs og fyrirséð að ríkið myndi ekki eiga fyrir útgjöldum þegar eðlilegt ástand tæki við. Nú er kominn til valda Kratastjórn og hún horfist í augu við sama vanda og repúblikanar hafa skapað í BNA. Fara í hið óvinsæla verkefni að hreinsa upp eftir hina dýru hægri sveiflu. Gríðarlegt fjárlagagat blasir við og upp í það verður að fylla. Það verður ekki gert nema með miklum niðurskurði í ríkisbákninu.

Stjórnir nágrannaríkja okkar segja að íslendingar verði sjálfir axla ábyrgð á þessum óförum. Þeir hafi sjálfir endurtekið kosið þessa stjórnmálastefnu til valda og um leið gert gys af Norðurlöndunum. Viðbrögð sjálfstæðis- og framsóknarmanna hafa ekki staðið á sér og nú er hópað; „Rauðliða-skattapíning og norrænt velferðarkjaftæði.“ En málið snýst ekki um það, hún snýst um hvort við ætlum sjálf að standa undir því þjóðfélagi sem við búum í.

Málsvörn fyrrverandi stjórnarþingamanna virðist vera sú ein engu megi breyta, afþakka AGS og krefjast þess að nágrannalöndin láni okkur enn meiri fjármuni. Ef það verði ekki gert séu viðkomandi óvinir Íslands og þeir íslendingar sem standi ekki í fæturna með stjórnarandstöðunni séu landráðamenn. Sama rakalausa Icesave-bullið og við höfum þurft að hlusta á undanfarið ár, sem hefur skilað 3.000 nýjum atvinnuleysisplássum á almennum vinnumarkaði. Það blasir við stjórnarandstaðan með dyggri aðstoð Ögmundar er nákvæmlega slétt sama um launamenn á almennum vinnumarkaði og þeir ætla sér aftur á móti að verja ríkisbáknið.

Nágrannalönd okkar hafa undanfarin tvö ár haldið einföldum boðskap að íslenskum stjórnmálamönnum, sem margir þeirra hafa alfarið hafnað að meðtaka. Á meðan íslendingar hafna því að axla ábyrgð á skuldbindingum sínum, fái þeir enga aðstoð. Þegar sé búið að taka alltof mikið af skattpeningum þessara landa í íslenska efnahagsundrið, líklega um 7 þús. milljarða Evra. En ef íslendingar vilji ræða greiðslukjör og vexti þá standi þeim allar dyr opnar um aðstoð, það hefur staðið í skilmálum í öllum útgáfum hinna fjögurra Icesavesamninga sem gerðir hafa verið.

Jóhanna vill ganga í verkið á beinan hátt, og segir ásamt fjármálaráðhera að ekki sé fært að hækka skatta meir. Aukin skuldsetning til þess að standa undir rekstri hins mikla Bákns sem sjálfstæðis- og framsóknarmenn bjuggu til sé leið til enn meiri ófara. Þetta verkefni mun reyna enn meira ríkisstjórnina en Icesave-deilan, sem kallar á einungis um 12% af erlendri greiðslubyrði ríksins -eftir 7 ár og þá í fá ár.

Lántökur til að fylla upp í fjárlagagatið kostar skattgreiðendur tugi milljarða í vaxtagreiðslur á hverju ári. En ekki stendur á tillögum sjálfstæðismanna; "Færum vandann til næstu kynslóða með því skattleggja sparifé í lífeyrissjóðunum."

En margir hagfræðingar hafa bent á að það sé það vitlausasta sem hægt væri að gera, sakir þess að þá munu skatttekjur augljóslega lækka sem nemur sömu tölu (peningum rignir ekki niður, ef þú tekur skatttekjur núna tekurðu þær ekki aftur seinna), þegar það fólk sem á þennan lífeyri fer á lífeyrisaldur. Þegar að því kemur verður hlutfall skattgreiðanda gagnvart lífeyrisþegum gjörbreytt, lífeyrisþegar verða þá álíka margir og vinnandi íslendingar og það þýðir einfaldlega að hækka yrði skatta á börnum okkar umtalsvert þegar að þessu kemur eða sem nem,ur svipaðri upphæð. En sumir vilja ekki sjá þennan einfalda sannleika.