miðvikudagur, 29. júlí 2009

Spennitreyja síðdegisútvarps Rásar 2

Ég hlustaði á síðdegisútvarp Rásar 2 í dag þar sem dagskrárgerðarmaður ræddi við alþingismennina Illuga Gunnarsson og Helga Hjörvar. Dagskrárgerðarmaðurinn gat einfaldlega ekki hamið sig og ruddi úr sér sínum pólitísku skoðunum og tönglaðist endalaust á því að það væru norrænu löndin sem væru að reyna að þröngva okkur í spennitreyju. Dagskrárgerðarmaðurinn hélt því fram að við hefðum talið þessi lönd væru vinir okkar, en svo væri greinilega ekki.

Ég verð að viðurkenna að oft hefur mér fundist dagskrágerðamenn síðdegisútvarps Rásar 2 vera ansi blindir á þann veruleika sem við búum við. Þarna snéri dagskrárgerðarmaðurinn öllu á haus og Illugi tók undir með henni og sýndi enn einu sinni hvernig hann og félagar víkja sér sífellt undan því að horfast í augu við þann veruleika sem þeir hafa leitt yfir þjóðina.

Stjórnmálamenn hafa margítrekað tjáð okkur að þeim sé refsað í kosningum, þá séu störf þeirra lögð undir dóm borgara landsins. Þess á milli fari þeir með hið pólitíska vald, reyndar má skilja a.m.k. suma þeirra svo að það eitt að þeir falli í kosningum losi þá undan allri ábyrgð á gjörðum sínum.

Íslendingar kusu endurtekið yfir sig sama vald og sömu efnahagsstjórn. Þar voru þeir að samþykkja þessa stefnu og afleiðingar hennar. Það er ekki hægt núna að vísa þessari ábyrgð yfir á hinar norrænu þjóðirnar. Það er ekki hægt með neinum rétti að halda því fram að það séu núverandi stjórnvöld ásamt norrænum þjóðum sem séu að þvinga okkur núna í þá stöðu sem fyrrverandi íslensk stjórnvöld komu okkur í, með rangri efnahagsstefnu, eftirlitsleysi og hvernig staðið var að sölu bankanna.

Íslendingar eru nú þegar komnir í spennitreyju og það voru þeir sem hafa stjórnað íslensku efnahagslífi undanfarin ár sem saumuðu þessa treyju og það voru íslenskir útrásarvíkingar sem komu íslendingum í hana með aðstoð þáverandi stjórnvalda. Þar voru aftur á móti forsvarsmenn norrænu þjóðanna sem ítrekað en árangurslaust vöruðu stjórn Seðlabankans, Fjármálaeftirlitsins, forsætisráðherra og fjármálaráðherra við þeirri spennutreyju sem væri að myndast og það yrði íslendingum erfitt að komast úr henni ef þeir lentu í henni. Um þetta hefur margoft verið fjallað t.d. hér og hér

Þessu svöruðu forsvarsmenn íslenskra stjórnvalda með ótrúlegum hroka og útúrsnúningum og lítilsvirtu vini okkar á norðurlöndum. Um þetta var ítrekað fjallað í nánast öllum fjölmiðlum, utan síðdegisútvarpsins fram eftir síðasta vetri. Það var afstaða sjálfstæðismanna leiddi til þess að við erum í spennutreyjunni. Það getum við fyrst að síðast þakkað íslendingum, ekki norrænu þjóðunum.

Það eru norrænu löndin sem reyndu að hjálpa okkur og eru enn að. Það er einungis ein leið út úr vanda okkar og nú eru sjálfstæðismenn að leiða yfir okkur enn meiri hörmungar með ótrúlega óábyrgri afstöðu sinni. Þeir eru enn við sama heygarðshornið og síðasta vetur að krefjast þess að við getum haldið áfram á sömu braut eyðslu og óráðsíu og þeir sem varni okkur því séu óvinir okkar.

Göngustígar


Gengið á Hrollleifsborg á Drangajökli

Ég hef eins og ætíð áður þvælst víða um landið í sumar. Ferðamönnum á Íslandi hefur fjölgað gríðarlega síðustu áratugi. Liðlega hálf milljón erlendir ferðamenn sóttu landið heim árið 2008, reiknað er með að sú tala hafa tvöfaldast árið 2016. Jafnframt er íslenskum ferðamönnum sem kjósa að ferðast innan lands að fjölga.

Sérstaða landsins er fólgin í einstæðri náttúru og hversu stórir hlutar þess eru enn lausir við mannvirki og rask. Í þeim svæðum felast möguleikar sem flestar aðrar vestrænar þjóðir hafa eyðilagt með sínu fjölbýli og geta ekki öðlast aftur. Víða hittir maður erlent fólk sem er hér til þess að njóta þessarar sérstöðu. Hálendið skipar þar mikilvægan sess, t.d. má benda á að 26% erlendra ferðamanna í Landmannalaugar, vinsælustu náttúruperlu hálendisins.

Það verður sífellt erfiðara að njóta náttúrunnar vegna of mikils fjölda ferðamanna. Íslensk stjórnvöld hafa ekki sinnt því nægilega að búa ferðamannastaði undir hina gríðarlegu fjölgun sem átt hefur sér stað. Leiðir um svæði hafa ekki verið nægilega vel markaðar, mikill skortur á að göngustígar séu lagðir og skortur er á vel búnum tjaldsvæðum og aðstöðu fyrir ferðafólk. Landnýtingu á hálendinu hefur ekki verið skipulögð, sem hefur leitt til þess að hópar eiga í útistöðum við hvorir aðra.

Víða erlendis er ferðamönnum gert að greiða fyrir aðgang að vinsælum ferðamannaslóðum, með einum eða öðrum hætti. Öllum er ljóst að það kostar fjármuni að leggja stíga, setja upp snyrtiaðstöðu, eftirlit og viðhald. Þetta er hlutur sem margir íslendingar vilja svo ekki sætta sig við hér heima, þó þeir greiði athugasemdalaust nokkrar evrur/dollara í aðgang annarsstaðar, svo einkennilegt sem það nú er.

Ég var á Hesteyri fyrir nokkru, þar vann hópur erlendra manna á vegum World Wildlife Fund (WWF) við lagningu göngustíga í sjálfboðaliðsvinnu. Þeir fá búnað og matvæli frá Umhverfisstofnun. Þegar maður ræðir við þetta fólk þá kemur í ljós að stór hluti þess eru hámenntaðir háskólaborgar sem kjósa að verja hluta af sumarleyfi sínu á þennan hátt. Ég var síðar í nokkra daga í Skaptafelli og gekk þá fram á stóran hóp sem var að vinnu við lagfæringu á göngustígum og þar hitti ég aftur suma af þeim sem voru á Hesteyri.

Burðargeta íslenskra útivistarsvæða er ákaflega takmörkuð. Vaxandi umferð er víða farinn að setja óafturkallanleg spor í náttúruna. Ef ekki verður tekið myndarlega til hendinni í þessum efnum þá verða sum svæði einfaldlega verða lögð í rúst.

Það er umhugsunarefni fyrir okkur íslendinga að við sjálf erum stærstu skemmdarvargarnir. Ef stígar hér á suðvesturhorninu (reyndar ekki bara stígarnir heldur allt umhverfi þeirra), þá sérstaklega á Reykjanesinu og næsta umhverfi Reykjavíkur, útspólað af torfærumótorhjólum.

Það er virkilega þörf að gert verði skipulagt stórátak í þessum efnum. Leggja stíga, marka svæði, byggja snyrtiaðstöður. Velta má því fyrir sér hvort ástand á vinnumarkaði skapi Umhverfisstofnun möguleika í samvinnu við Atvinnuleysistryggingasjóð tækifæri til þess að vinna að enn stærri verkefnum en WWF er að vinna hér á landi.

þriðjudagur, 28. júlí 2009

Hver er sinnar gæfusmiður


(Mynd tekin af fréttavef DV um svipað leiti og svarið umrædda var gefið)

Í viðtali 22. september fyrir ári síðan sagði Halldór J. Kristjánsson þáverandi Landsbankastjóri í eftirminnilegu viðtali að; “Hver væri sinnar gæfusmiður. Hafi menn skuldsett sig of mikið beri þeir vitanlega ábyrgð á því.“

Margir spurðu í kjölfar þessarar yfirlýsngar bankastjórans; "Hvað með þá efnahagsráðgjöf og eignaumsýslu sem bankarnir hafa boðið upp á?" Hún var nú ekki beysin og oftast snérist hún um að fá fólk til þess að afhenda Halldóri og félögum í bönkunum alla handbæra fjármuni til umsýslu. Jafnvel losa um séreignasparnað og flytja hann til bankanna og segja sig úr verkalýðsfélögum.

Almenning var ráðlagt af Halldóri og félögum að selja fjölskyldufyrirtæki, sem fjölskyldan hafði varið með gríðarlega mikilli vinnu allmörgum árum í að byggja upp og fá í staðinn hlutabréf í bönkunum eða setja fjármunina inn á „100% örugga!!“ eignastýringar bankanna. Á sama tíma fengu aðrir þá ráðgjöf hjá Halldóri og félögum hans um að taka mikil lán og kaupa umrædd fyrirtæki. Nú er ljóst að Halldór og félögar vissu hvert stefndi og þessi bréf stefndu í að verða verðlaus bréfsnifsi.

Almenningur fékk þá ráðgjöf hjá Halldóri og félögum að selja hús sín og losa þannig um þá fjármuni sem það átti og setja í 100% örugga eignastýringu hjá Halldóri. En almenning var svo ráðlagt að taka 90-100% lán til kaupa á nýju húsnæði. Þetta fólk nýtti sér ráðgjöf sérfræðinga Halldórs og félaga situr nú í skuldafangelsi í sinni eign með skuld upp í topp og sér fram á þurfa að greiða bankanum sínum mjög ríflega afborganir/húsleigu næstu 40 ár.

Þannig má rekja mörg dæmi. "Sérfræðingar!!??" sem bankar voru með á sínum snærum voru ungir og algjörlega reynslulausir. Þekktu ekki niðursveiflu, einungis endalausa hækkun hlutabréfa. Þeir tóku sín laun út í bónusum vegna færslna fram og tilbaka á lánum, verð- og hlutabréfum og sást ekki fyrir í hvaða stöðu þeir hafa komið mörgum sem treystu á ráðgjöf bankanna.

„Hver er sinnar gæfu smiður“ sagði Halldór og yppti öxlum glottandi framan í landsmenn. Sé litið til frétta undanfarinna daga þá er ljóst að Halldór, Sigurjón, Björgólfsfeðgar, Lárus Welding, Bjarni Ármannsson og Einar Sveinsson og þeirra félagar hafa einmitt unnið eftir þessari reglu og þá skipti engu hagur viðskiptavina bankanna, hvað þá þjóðarhagur. Þeir hafa einvörðungu hugsað um eigin hag og ekkert annað.

Seinni hluti svars Halldórs "Hafi menn skuldsett sig of mikið bera þeir vitanlega ábyrgð á því" segir allt um hugarfar þessara manna, hversu veruleikafirrtur og spilltur heimur þessara manna var. Þeir afgreiddu milljarða lán til sjálfra sín sem þeir ætluðu aldrei að bera neina ábyrgð á. Þeir ætluðu alltaf að láta íslendinga og ófædd börn þeirra greiða afborganirnar. Þeir ætla sér heldur ekki að greiða það sem þeim ber til samfélagsins. Ekki standa undir samfélagslegum kostnaði við menntun barna sinna, heilbrigðisþjónustu. Það eiga þeir sem greiða skuldir þeirra líka að gera.

Halldór og félagar lifðu í sérveröld og nutu sérkjara, hrifsuðu til sín áður en til skipta kom arður fjárfestinga ofurlaun, svimandi bónusa og lán með sérkjörum. Þeir nýttu sér afskiptalaus stjórnvöld, settu fulltrúa Flokksins í bankaráð, buðu ráðamönnum í glysferðir og upp á sömu lánakjör til þess að fá frið til þess að stunda starfsemi sína.

sunnudagur, 26. júlí 2009

Bjálfalegasta spurning ársins

Maður er orðin æði þreyttur á því hvernig stjórnmálamenn þvælast kringum staðreyndir og geta bara alls ekki komið sér að því að horfast í augu við stöðuna. Maður er fullkomlega gáttaður á málflutning þingmanna sjálfstæðismanna, þeir eiga að vita nákvæmlega hver staðan er. Þeir voru við stjórnvölinn þegar við flugum fram af bjargbrúninni án þess að þar væri svo mikið sem sentimeters bremsufar, nei þeir voru á ferðalagi um heiminn til þess að sannfæra ráðamenn um að allir spádómar um að Ísland væri að falla væri endaleysa. Þeir voru í fyrstu viðræðum við nágrannalönd okkar og AGS og vita nákvæmlega hvaða kröfur eru gerðar til okkar.

Síðustu tvö af stjórnunartíma þeirra settu aðilar vinnumarkaðs margítrekað fram kröfur um viðbúnað við falli og bentu á að krónan væri a.m.k 30% of hátt skráð og viðskiptahalli væri óviðunandi. Fjöldi erlendra hagfræðinga sendi hingað skýrslur með ábendingum hvert stefndi. Allar þessar aðvaranir virtu ráðherrar Flokksins og stjórn Seðlabanka að vettugi. Fyrrv. menntamálaráðherra veittist að undirrituðum á iðnsýningu og sagði mig kjaftask, auk þess krafðist hún þess að þeir sem hefðu eitthvað við efnahagsstefnuna að athuga færu á eftirmenntunarnámskeið.

Allir landsmenn vita hver staðan er utan nokkurra þingmanna, en svo kemur Atli Gíslason og spyr; Er ný sjálfstæðis- og fullveldisbarátta hafinn?!! Og lætur eins og hann sé ákaflega undrandi. Frá þeim degi sem bankarnir hrundu hefur blasað við öllum landsmönnum að þá hófst ný sjálfstæðisbarátta fyrir tilveru okkar eða þá lóðbeint í gjaldþrot.

Lykillinn að endurreisn er að ná samningum við helstu viðskiptalönd okkar og koma atvinnulífinu í gang. Jón Bjarna ráðherra skilur þetta greinilega ekki. Enda er hann út á þekju í allri umræðu. Gengur hiklaust erinda fárra kjósenda sinna, þvert á hagsmuni annarra atvinnustétta í landinu, þó svo að þær séu mun fjölmennari.

Skuldirnar svakalegar og hegðan íslendinga í alþjóðasamfélaginu varð til þess að engin treysti okkur, jafnvel ekki nágrannalönd okkar. Hér á ég ekki bara við þjófahyskið, sem kallað hefur verið útrásarvíkingar. Heldur ekki síður þá ráðherra og forseta Íslands sem fóru um heimsbyggðina og mærðu þjófanna og lýstu þeim sem sérstöku efnahagsundri.

Það hefur komið ítrekað fram hjá öllum nágrannalöndum okkar að við fengjum ekki krónu að láni fyrr en við tækjum til í okkar ranni. Gerðum upp öll okkar fjármál og breyttum um efnahags- og peningastefnu. Lánafyrirgreiðsla frá Norðurlöndum er skilyrt starfsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Aðkoma lánadrottna að íslensku bönkunum hangir ennfremur saman við Icesavesamkomulagið og viðræður við Evrópusambandið er ekki inn í myndinni ef við stæðum ekki við skuldbindingar okkar gagnvart Evrópska efnahagssvæðinu.

Allt atvinnulífið (fyrir utan nokkra bændur og kvótaeigendur) er búið að benda stjórnmálamönnum að lánafyrirgreiðsla væru lífsnauðsynleg til að bjarga fyrirtækjunum, endurreisa bankakerfið, endurfjármagna gjaldþrot Seðlabankans og tryggja blóðrennsli til íslenska hagkerfisins.

Þrátt fyrir þessar staðreyndir veltast þingmenn um dag eftir dag, viku eftir viku í alls konar útúrsnúningaræðum þar sem þeir keppast við að lýsa því yfir að þeir hafa enn ekki áttað sig á þeirri stöðu sem Ísland er í. Jóhanna og Steingrímur eiga sannarlega heiður skilið fyrir hversu staðföst þau hafa verið. Getuleysi þingmanna endurspeglast svo vel í spurningu Atla um hvort þjóðin sé komin í fullveldis- og sjálfstæðisbaráttu að nýju. Það höfum við öll hin vitað í eitt ár.

Við vitum einnig að heimili okkar og fyrirtækin eru að verzlast upp á meðan þingmenn forðast allar ákvarðanir og víkja sér undan ábyrgð. Það verður ekki undan því vikist að samþykkja samninginn. Þingmenn eiga að gera eins og oft er gert við samþykkt kjarasamninga, að samþykktinni fylgi klár yfirlýsing á því hvernig Íslendingar skilji samninginn.

Höfnun Icesave-samkomulagsins mun seinka endurreisn efnahagslífsins. Þess vegna eru ummæli Jóns Bjarna ráðherra algjörlega út í hött. Því má heldur ekki gleyma að hluti af Icesavepeningunum fór í neyslu og fjárfestingu á Íslandi á undanförnum árum. Við verðum einnig að horfast í augu við að á undanförnum árum höfum verið í gengdarlausu eyðslufylleríi sem var grundvallað á fölskum lífskjörum á Íslandi sem þáverandi stjórnvöld héldu gangandi með erlendum peningum sem dælt var inn í hagkerfið. Met var sett í halla á viðskiptum við útlönd á hverju ári á þessu árabili. Nú er komið að skuldadögum, við verðum einfaldlega að horfast í augu við það.

fimmtudagur, 23. júlí 2009

Uppræting valdastéttarinnar

Eitt af því sem maður lærir við þá vinnu að reyna að tryggja stöðu launamanna og að réttmætur hluti arðs renni til hinnar vinnandi handar, eru hin ítrekuðu og ósanngjörnu afskipti stjórnvalda, eða réttara sagt valdhafanna. T.d. er þekkt og hefur komið fram ítrekað undanfarið að forsvarsmenn valdaklíkunnar hafa hiklaust talið að eðlilegt sé að halda í krónuna því þá sé hægt; “blóðsúthellingalaust að leiðrétta ósanngjarna kjarasamninga verkalýðsfélaganna.” Hér er ég að vitna orðrétt í helstu talsmenn valdhafanna undanfarna áratugi, Hannes Hólmstein og Pétur Blöndal.

Ítrekað var það svo að þó samninganefndarmenn launamanna væru á kraftmiklum bílum náðu þeir ekki heim til sín úr Karphúsinu eftir undirritun kjarasamninga, áður en ráðherrar voru búnir að fella gengið um nær sömu prósentutölu og samið var um. Eins og þeir sem hafa fylgst með samningagerð þá hefur frá gerð Þjóðarsáttarsamninga ætíð verið valin sú leið að tryggja stöðugleika og þá um leið vaxandi kaupmátt og það þýddi að gera varð kjarasamninga í samvinnu við stjórnvöld.

Aldrei brást það að stjórnvöld sviku þær yfirlýsingar sem þau gáfu út við gerð kjarasamninga. Daginn eftir að búið var að afgreiða kjarasamning kom ætíð í ljós að ráðherrar Sjálfstæðismanna með Baldur Guðlaugsson yfirráðherra í broddi fylkingar tóku upp allt aðra túlkun á því sem sagt hafði verið. Baldur sýndi okkur svo hvern mann hefur að geyma nokkru áður en Landsbankinn féll. Við landsmönnum blasir hverjir eru innstu koppar í búri Landsbankaspillingarinnar, menn úr forystusveit valdaflokksins.

Við höfum á undanförnum áratugum lifað í þeirri veröld að Kolkrabbinn og Samvinnufélögin skiptu á milli sín öllu sem bitastætt var og forysta stjórnarflokkanna gekk hiklaust erinda útvalinna. Þessa daganna blasir við okkur í hverjum fréttatíma að þó svo valdastéttin hefði skipt með sér ríkisbönkunum, þá sat hún áfram að kjötkötlunum og vinnubrögðin hafa verið hin sömu og afleiðingarnar eru jafnhrikalegar og áður.

Það hefur komið fram undanfarið að bankarnir lánuðu valdastéttinni svimandi upphæðir. Þar blasir svo vel við hið tvískipta þjóðfélag. Valdastéttin sem hyglaði sjálfri sér með lánum sem greinilega var ekki lagt upp úr endurgreiðslu, en okkar hinum stóðu til boða hin hefðbundnu lán með veðum og gjalddögum þar til lánin eru greidd. Valdastéttin lætur svo eins og áður þegar hún hefur staðið að stórfelldum eignatilfærslur látið almenning um að borga brúsann.


Valdastéttin er vön þessu fyrirkomulagi og íslendingum virðist svo eðlislægt að láta fara svona með sig. Hyglingar, klíkuskapur og ófagleg vinnubrögð. Slappir fréttamenn sem slepptu valdastéttinni í spjallþáttunum. En ekki skorti á sjálfshólið um að valdastéttin væri að skapa efnahagsundur og og fréttamennirnir slepptu öllum óþægilegu spurningunum. Enda hefur komið fram að ef þær voru settar fram þá var viðkomandi fréttamaður í raun að segja upp starfi sínu.

Öll þekkjum við hvernig valdastéttin hefur laskað íslenska umræðu með en durteknum upphrópunum og yfirlýsingum sem engar innistæður voru fyrir. Beitt áhrifum sínum til þess að taka af dagskrá óþægileg mál og setja á dagskrá umræðu um eitthvað sem var tómt rugl. Þar blasir t.d. við umræðan um eftirlaunaósóman, fjölmiðlamálið, Eyjabakkanna og þannig má lengi telja.

Það blasir við öllum að annað hvort voru forsvarsmenn og þingmenn valdastéttarinnar gjörsamlega sneiddir getu til þess að takast á við efnahagsstjórn eða þá, sem er reyndar nokkuð víst, valdastéttin var blinduð af græðgi bæði til valda og fjármuna og henni töm þessi vinnubrögð.

Það sem íslensku valdastéttinni þótti eðlileg vinnubrögð, þótti útlendingunum skortur á faglegum vinnubrögðum. Sigurganga íslenska efnahagsundursins, sem m.a. stjórnendur Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans ásamt nokkrum ráðherrum reyndu að telja umheiminum í trú um byggðist á því að búta fyrirtæki niður hreinsa út allar eignir og skilja fyrirtækin eftir sem tóma skel sem var ofurveðsett.

Það hefur komið svo berlega fram í viðtölum við ráðamenn nágrannaríkja okkar og þeir treysta ekki íslenskum ráðamönnum. Þeim hefur svo oft ofboðið hvernig íslenskir ráðamenn hafa hagað sér og hvernig þeir láta svik og pretti viðgangast. Sparifé almennings er allstaðar í veröldinni hlutur sem stjórnmálamenn vernda með öllum brögðum. Það hefur ekki gilt hjá íslenskum ráðamönnum, þeir hafa ítrekað staðið fyrir eignatilfærslum og látið sparifé landsmanna gufa upp.

Það er ein helsta ástæða þessa að harðlínuhópurinn í Valdaflokkunum vilja halda í krónuna. Þegar íslenskir ráðamenn slepptu bönkunum lausum í sparifé nágrannaríkja okkar og afnámu bindiskylduna, þá var erlendum ráðamönnum einfaldlega nóg boðið. Þess vegna sitjum við svo illilega í Icesave ruglinu. Rannsóknir sérstaks saksóknara og Rannsóknarnefndar Alþingis mun leiða í ljós að hrunið var af völdum slæmra vinnubragða stjórnvalda og í skjóli þess þrifust svik og svindl og valdastéttin fékk sitt. Uppræting valdastéttarinnar og gagnsæ vinnubrögð eru okkur nauðsyn, svo þetta endurtaki sig ekki. Helsta ástæða andstöðu valdastéttarinnar við ESB umræðu er einmitt ótti hennar við það gagnsæi sem hún verður að taka upp.

þriðjudagur, 21. júlí 2009

Landráðamenn og svikarar

Mér er fullkomlega fyrirmunað að skilja þann málflutning að Þorgerður Katrín og Ragnheiður hafi "svikið" málstað síns flokks. Það hefur legið fyrir að meirihluti sjálfstæðismanna er fylgjandi þeirri skoðun að látið verði reyna á hvað standi íslendingum til boða í samningum við ESB og það borið undir þjóðina. Margir áberandi sjálfstæðismenn, sérstaklega úr atvinnulífinu, eru eindregið þeirrar skoðunar að kanna eigi möguleika Íslands á þessum vettvangi.

Á þessum forsendum er mér einnig fyrirmunað að skilja hvernig menn geti fengið það út, eins og svo oft kemur fram í athugasemdakerfinu, að allir sem fylgi ESB umsókn séu sjálfkrafa Samfylkingarmenn. Stærsta hóp fylgenda ESB er að finna innan Sjálfstæðisflokksins, sé litið til landsfunda flokksins.

Mér er líka fyrirmunað að skilja þann málflutning að þeir VG þingmenn sem studdu aðildarumsókn hafi "svikið" einhvern. Það stendur einfaldlega í stjórnarsáttmálanum að það muni verða gert. Það eru því þeir þingmenn VG sem greiddu gegn aðildarumsókn sem sviku gildandi stjórnarsáttmála, ekki öfugt.

Sama má segja um Borgaraflokkinn. Þar "svíkja?" 3 og Þráinn stendur einn með því sem flokkurinn sagði í kosningabaráttunni.

Mér er líka fyrirmunað að skilja þann málflutning eins og t.d. hjá Jóni landbúnaðarráðherra, að þeir sem séu fylgjandi þessari skoðun liggi marflatir fyrir ESB. Séu skoðanalausir og viljalausir sakleysingjar í höndunum á einhverjum öðrum. Það sé hann og hans skoðanabræður sem sé fólkið með skoðanirnar. Hér er ég að vitna til einstaklega ósmekklegs máflutnings ráðherrans í fréttum nýverið.

Ég þekki allmarga og umgengst í mínu starfi sem eru þeirrar skoðunar að sú efnahags- og peningastefna sem fylgt hafi verið hér á landi gangi ekki lengur og leita verði annarra leiða ætli Íslandi að byggja upp vinnumarkað með nægilega fjölgandi atvinnutækifærum og eðlilegum hagvexti. Það er reyndar grundvöllur þeirrar sjónarmiða sem standa undir tilveru ESB.

Engin þeirra sem ég þekki liggur marflatur fyrir ESB, þeir sjá marga galla við ESB, en meta það sem svo að þeir séu minni en kostirnir. Þetta fólk er ekki landráðmenn, heimóttarlegir og óupplýstir svikarar.

Mér er einnig fyrirmunað að skilja hvernig sumir fá það út að það séu svik mín sem verkalýðsleiðtoga að hafa þessa skoðun, ég sé að ganga gegn hagsmunum félagsmanna minna og annarra launamanna og að ganga hagsmuna Samfylkingarinnar. Með þessu er reyndar verið að fullyrða að Samfylkingin gangi gegn hagsmunum launamanna umfram aðra stjórnmálaflokka, en hún er svo víðtæk þversögnin í hinni löskuðu íslensku umræðulist. Þetta mál hefur ítrekað verið rætt á fundum rafiðnaðarmanna. Þar hefur verið samþykkt að láta reyna á hvað íslendingum standi til boða.

Þetta er gert m.a. vegna þess að sé litið til atvinnuþróunar þá blasir það við að öll fjölgun atvinnutækifæra rafiðnaðarmanna hefur á undanförnum tveim áratugum verið í hátæknistörfum. Allir forsvarsmenn þeirra fyrirtækja hafa ítrekað komið fram og sagt að þeir sjái ekki framtíð sinna fyrirtækja hér á landi við óbreyttar aðstæður.

Hér á ég m.a. við forsvarsmenn Össur, CCP og Marel. Öll þessi fyrirtæki hafa vaxið meir innan ESB en á Íslandi og hafa forsvarsmenn þeirra lýst því yfir að ef ekki verði breytt um gjaldmiðil hér á næstunni þá muni þau alfarið flytja frá Íslandi á næstu 2 – 3 árum.

Það hefur ekki verið nein fjölgun atvinnutækifæra í landbúnaði, eða fiskvinnslu. Sama má segja um byggingariðnaðinn hann er ekki að taka við neinni fjölgun undanfaran áratugi og er notaður sem kæliskápur á hagkerfið. Í þessum grunnstoðum, svo ég noti algegnt orðalag andstæðinga ESB, eru láglaunastörf sem í vaxandi mæli eru unnin af erlendum launamönnum.

Menntaðir íslendingar sækja ekkert í þessar grunnstoðir. Það eru hátækni og sprotafyrirtækin sem hafa verið að taka við fjölgunina á íslenskum vinnumarkaði og þar hefur launaþróun verið í samræmi við það sem félagsmenn minna samstaka ætlast til að séu hér á landi, annars flytji þeir og fylgi atvinnutækifærunum til ESB landanna og þá helst Norðurlandanna eða Þýskalands.

Hér er ég að vitna til hvernig þróunin hefur verið í félagatali Rafiðnaðarsambandsins:
Árið 1995 voru 300 í orkugeiranum, 300 í landbúnaðar- og sjávarútvegi 700 í byggingargeiranum og 500 í tækni- og þjónustustörfum.

Árið 2008 voru allar þessar tölur svipaðar utan þess að það voru tæplega 5.000 í tækni- og þjónustörfum. Sem sagt öll fjölgunin þar.

mánudagur, 20. júlí 2009

Verklegt nám skattlagt

Á undanförnum árum hefur markvisst verið dregið úr fjárframlögum til verknáms. Það hefur verið gert með því að hækka hópviðmið í faglegum áföngum á verknámsbrautum. Þetta er gert með því að breyta forsendum svokallaðs reiknilíkans Menntamálaráðuneytisins. Í gegnum reiknilíkanið hafa minnkandi fjárframlög til framhaldsskóla verið falin.

Þessi niðurskurður bitnar harðast á verknámsskólum landsbyggðinni. Samfara þessu hafa ráðamenn haldið hinar venjubundnu ræður um að gera eigi verknámi hærra undir höfði. Rekstrarlegur grundvöllur fyrir margar verknámsbrautir eru brostnar í verknámsskólum þá sérstaklega skólum utan höfuðborgarsvæðisins. Þessar hópstærðir ganga í bóklegum áföngum. Enn einu sinni virðist það vera svo að fólk með bóknám að baki sé að skipuleggja og taka afdrifaríkar ákvarðanir um skipulag verklegs náms.

Nú er lagt fram frumvarp um efnisgjöld fyrir nema á starfsnámbrautum og þeim gert að greiða vegna faglegra áfanga um 50 þús. kr. umfram það sem nemar á bóklegum brautum þurfa að greiða. Sem leiðir vitanlega til þess að efnalitlar fjölskyldur veigra sér við að senda börn sín í verknám.

Marga undanfarna áratugi hefur umræðan um framhaldskólann snúist um veika stöðu starfsnáms gagnvart bóknámi. Margar ráðstefnur hafa verið haldnar og lærð sjónarmið sett fram, en lítið hefur miðað. Mikið ójafnvægi er milli aðsóknar í bóknám og starfsnám. Þetta er reyndar ekki séríslenskt staða, hún er þekkt víða.

Athygli hefur vakið hvernig Finnar hafa tekið á þessu máli og hvernig þeim hefur tekist að brúa þetta bil, að því virðist á svo einfaldan og augljósan hátt með því að afnema á aðgreiningu starfsmennta- og bóknámsbrauta, endurskilgreina á stúdentsprófið og færa starfsnám upp, gera það jafnrétt hátt undir höfði til framhaldsnáms.

Hingað til hefur verklegt nám og fagleg reynsla ekki verið metin. Nemendur starfsmenntabrauta hafa orðið að ljúka mun fleiri einingum en nemendur bóklegra brauta. Skort hefur starfsmenntaáfanga innan bóknámsbrautanna. Tillögur sem hingað til hafa verið upp á borðum hafa margar hverjar helst snúist um að búta niður skipulagðar starfsmenntabrautir, sem hefur svo leitt til þess að þeim sem ekki hafa lokið skipulögðu námi hefur fjölgað og er Ísland efst á lista hvað það varðar.

Pólitísk umræða um framhaldskólann hefur verið alltof lítil og byggst um of á úreltum gildum síðustu aldar. Gildum sem einkennast af því að gera starfsnámi enn lægra undir höfði, ekki verið áhugavekjandi í augum ungs fólks. Verknámsmenn hafa í mörg ár bent stjórnmálmönnum á að sveigjanleiki og samkeppnisstaða atvinnulífsins sé undirstaða þess þjóðfélags sem við búum í núna. Tæknileg þekking og fagleg geta sé veigamesta undirstaða þessarar þróunar.

Margar brautir starfsmenntanáms eru mun arðsamari en vinsælar bóknámsbrautir og bjóða upp á mun meira atvinnuöryggi. Launajafnrétti þar er einnig mun meira, t.d. er ekkert launamisvægi milli kynja innan rafiðnaðargeirans, meðallaun rafiðnaðarkvenna eru töluvert hærri en í mörgum hinna klassísku háskólagreina.

laugardagur, 18. júlí 2009

Þversagnir

Sjálfstæðismenn tamið sér um of þau vinnubrögð að telja sig vera handhafa sannleikans, allir sem ekki séu sömu skoðunnar er lýst sem einhverjum vinstri mönnum og vaði villu vegar. Undanfarið hafa þessir handhafar sannleikans brigslað öllum öðrum um andstyggð á lýðræðinu og þeir væru á móti þjóðaratkvæðagreiðslum og höfnuðu að skjóta málum til þjóðarinnar. En öll munum við að síðastliðin vetur héldu þingmenn Sjálfstæðismanna uppi málefnalausu málþófi og þæfðu tillögur um þjóðaratkvæðagreiðslur.

Málflutningur þeirra var með hreinum ólíkindum. Allar þeirra leikfléttur eru í samræmi við hana gömlu útúrsnúningaumræðutækni sem þeim eru svo lagnar. Blindaðir af því einu að halda völdum sama hvaða brögðum sé beitt. Leikur þeirra snérist að venju um að koma í veg fyrir að andstæðingar þeirra gætu náð fram umbótaáætlunum, alveg sama hverjar þær voru. En á Þessum tíma var ríkisstjórnin að reyna að koma heimilunum til aðstoðar.

Enn ein fléttan hefur litið dagsins ljós. Hún virðist tilkominn vegna þess að flokksforystan að undanskyldum varaformanni leggur ekki í harðlínuhópinn. Ef litið er til "svipuhögga- og handjárnamálflutningsins" þá verður hann svo óraunsær, sé litið til þess það eru sannarlega stórir hópar fólks sem hafa stutt flokkinn sem eru Evrópusinnar, (líklega er stærsti hópur Evrópusinna hér á landi samankominn innan Sjálfstæðisflokksins), þess vegna vekur það furðu að einungis einn þingmanna flokksins skuli segja já og einn sitja hjá.

En það er sama hvernig við skoðum málin, þá unnu Sjálfstæðismenn mikið óhæfiverk í vetur þegar þeir komu í veg fyrir eðlilegar breytingar á stjórnarskránni sem stefndu m.a. að almennari þátttöku almennings í ákvörðunum sem snerta hag þjóðarinnar. Einnig varð framferði þeirra síðastliðið haust, og svo í vetur eftir að ný ríkisstjórn var tekin við, til þess að allar umbætur til handa heimilum drógust úr hömlu.

Að teknu tilliti til þessa eru allmargir gáttaðir á framferði þingmanna Flokksins þessa dagana, eins og reyndar svo oft áður sé litið til síðustu ára, svona aftur til ársins 2000.

föstudagur, 17. júlí 2009

Merkur maður!!

Við heyrðum svipuhögginn dynja á þingmönnum og maður hefur heyrt handjárnahringlið þegar ríkisstjórnarflokkarnir hafa verið að reyna að tryggja sér framhaldslíf.

Þetta eru orð einkennilegasta þingmanns íslendinga. Aldrei hefur komið fram að hann hafi sjálfstæða skoðun, hann endurflytur einungis hinar maka- og rakalausu tilkynningar frá Valhöll.

Þessa stundina stendur þessi einstaklingur í því að lemja á varaformanni Flokksins og reynir að koma á hana handjárnum sakir þess að hún vann sér það eitt til saka að fylgja sannfæringu sinni. Það er hlutur sem hinn merki maður Birgir Ármannsson hefur aldrei skilið.

fimmtudagur, 16. júlí 2009

Merkur dagur

Þetta er sannarlega merkur dagur í sögu þjóðarinnar. Launþegahreyfingin mun örugglega fagna og eins fyrirtækin í landinu, sé litið til ályktana þessara aðila og stöðugleikasáttmálans.

Á ársfundum ASÍ og eins SA hefur verið samþykkt að kanna hvort náist ásættanleg niðurstaða í viðræðum við ESB, náist hún verði hún borin undir þjóðina. Ef Sjálfstæðismenn hefðu náð sínu fram hefðu þeir getað haldið áfram þeim skollaleik sem þeir hafa leikið undanfarin ár, þar sem út og suður rökum er beitt og allt gert til þess að koma í veg fyrir að vitræn umræða eigi sér stað. Þar má t.d. benda á síðasta þing sjálfstæðismanna.

Málaflutningur sjálfstæðismanna var í dag samkvæmt föstum venjum, bera sakir á aðra og snúa út úr því sem fram hefur komið. Þar má t.d. benda á ummæli Birgis Ármannssonar um þjóðaratkvæði og forsendur þannig afgreiðslan. Það er nefnilega ekki svo langt síðan við fengum að heyra kostulegar skýringar Birgis og Sigurðar Kára á því hvernig Sjálfstæðisflokkurinn smeygði sér undan því að fara að stjórnarskrá og láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um Fjölmiðlalögin.

Öll munum við hvernig þingmenn Sjálfstæðismanna voru reknir áfram skoðanalausir af ráðherrum flokksins, með svipuhöggum svo ég noti hin smekklegu orð Kerfiskalls Frjálshyggjunnar. Svo langt gekk að þeir voru sumir hverjir farnir að tala um að þingseta þeirra væri fullkomlega tilgangslaus. En Þorgerður Katrín og Ragnheiður sýndu að nú hillir undir lok þessa.

Bogarakflokkurinn er búinn að vera. Þráinn er sá eini sem fer að því sem flokkurinn boðaði og fékk stuðning okkar allmargra. Ég undrast ekki það sem Þráinn hefur að segja um málið. Það eru svo margir sem hafa einmitt viljað styðja inngöngu í ESB þó svo ef það væri einungis til þess að rífa stjórnmálin upp úr hinu aldagamla fari hyglingar og klíkustarfsemi.

Nú er hægt að hefja uppbyggingu úr rústum þess samfélags sem Frjálshyggjan lagði að velli. Hefja undirbúning að hér fáist gjaldmiðill sem ekki er hægt að nota að hentugleikum í spilverki Frjálshyggjunnar og Hyglingarhentiseminni sem ráðið hefur ríkjum hér á landi allt of lengi. Sem ég hélt reyndar eins og svo margir aðrir að Borgaraflokkurinn og hinir nýja forysta Framsóknar ætlaði að byggja á. En Sigmundur Davíð er lúser númer tvö í þessu.

þriðjudagur, 14. júlí 2009

Hesteyri og Hornsstrandir


Læknishúsið Hesteyri

Er búinn að fara í allmargar gönguferðir á Hornstrandir á undanförnum árum. Sigldi frá Ísafirði yfir á Hesteyri í síðustu viku og var þar í nokkra daga. Hesteyri er eyðiþorp við Hesteyrarfjörð í Jökulfjörðum á norðanverðum Vestfjörðum. Þorpið fór í eyði rétt eftir miðja síðustu öld.

Á Hesteyri eru nú 9 hús sem notuð eru sem sumarhús. Þar er einnig tjaldsvæði og margir sem fara þangað með hinum daglegu ferðum frá Ísafirði. Flest húsanna eru frá fyrri hluta síðustu aldar en nokkur voru reist fyrir aldamótin 1900. Í Læknishúsi er rekin ferðaþjónusta á sumrin og boðið uppá svefnpokagistingu og kaffiveitingar. Búið er að endurbyggja flest húsanna.

Rúmum tveimur kílómetrum innan við þorpið stóð áður hvalstöð, reist 1894, sem síðar varð síldarbræðsla. Stöðin var reist af norðmönnum en komst síðan í eigu íslendinga. Stöðin var starfrækt fram í seinna stríð. Í dag er lítið eftir af stöðinni nema rústir og strompur mikill sem enn stendur.

Kirkja var reist á Hesteyri árið 1899. Norðmenn áttu hvalverksmiðjuna á Stekkeyri gáfu Hesteyringum kirkjuna, hún var flutt hingað tilhöggvin frá Noregi. Árið 1962 var Kirkjan tekin niður og flutt til Súðavíkur þar sem hún stendur enn. Yfirvöldum láðist að fá leyfi heimamanna fyrir töku kirkjunnar og enn heyrist mikil reiði meðal Hesteyringa þegar hún berst í tal og jafnvel tekið þannig til orða að Biskup hafi stolið kirkjunni.

Hesteyrarþorp fór í eyði 1952. En afkomendur halda húsum og öðrum mannvirkjum við og nýta sér til ánægju á sumrin. Þar sem kirkjan stóð áður hefur nú verið reistur minnisvarði með bjöllu og koparskildi með teikningu af kirkjugarðinum og lista yfir þá sem þarna eru grafnir.

Sífellt fleiri sækja þau fáu svæði þar sem enn er hægt að ráfa um ósnortna náttúru í hvíld frá hraða og firringu borgarsamfélagsins, þar sem hver spilda hefur verið skipulögð, umsnúin og byggð mannvirkjum. Ferð um Hornstrandir er auk þess áskorun, prófsteinn sem hver setur sjálfum þér.


Krakkar að leik í fjörunni við Hesteyri um síðustu helgi

Gróðurinn í Jökulfjörðum og á Hornströndum er ótrúlega kraftmikill og fjölbreyttur, þar skiptir mestu að ekkert sauðfé er á þessu svæði. Um leið og snjóa leysir tekur gróðurinn við sér af miklum krafti og unir sér vel við rakann, sem rennur frá bráðnandi snjósköflunum. Í sandfjörunum má víða sjá íðilfagrar breiður af blálilju, fjöruarfa, tágamuru og baunagrasi og sumstaðar er melgresi. Ofan við fjörunar ber mest á kröftugum grastegundum ásamt maríustakk, blágresi, fíflum, smjörgrasi og við gömul bæjarstæðin stendur hvönnin manni í axlarhæð.

Víða eru góð berjalönd með krækiberjalyngi, bláberjalyngi og aðalbláberjalyngi. Kjarrgróður með birki, fjalldrapa og víðitegundum í lágum breiðum finnst víða. Á holtunum tekur við geldingarhnappur ásamt lyfjagrasi, ljósbera, ólafssúru, burnirót og lambagras og þegar ofar dregur milli vindbarinna steinana að jökulrótum brosa við manni til augnayndis jöklasóley og melasól, mosi og fléttur ásamt smávíði.

Fuglalíf er með fádæmum fjölbreytt við rekumst á steindepil, lóu, spóa, hrossagauk og sólskríkju. Skoppandi um læki og tjarnir fer hvikur óðinshaninn. Álftir, endur og lómurinn fylgjast með manni úr hæfilegri fjarlægð og senda aðvörun til unganna. Fuglabjörgin miklu eru varpstöðvar sjófuglanna og allar syllur þéttsetnar af langvíu, álku, ritu og fýl.

Á klettum úti fyrir ströndinni sjást iðulega selir þar sem þeir liggja sofandi ósnortnir af ys og þys þjóðfélagsins eða horfandi í stóískri ró upp í himinhvolfið. Refur sést víða og þarf hann ekki að hafa mikið fyrir lífinu, fuglinn nánast flýgur upp í hann. Sumstaðar er hann orðinn heldur spakur og heimtufrekur og vissara að skilja ekki óvarðar matarbyrgðir undir tjaldskörinni. Í árósum og fyrir ströndinni má oft setja í sjóbirting.

Skipta má ferðum um Hornstrandir í þrjá flokka. Léttar ferðir, þar er farið á einn stað tjald sett upp eða sesta að í skála og svo farið í dagsferðir þaðan. Þeir staðir sem eru þannig staðsettir og bjóða upp á fjölbreytt úrval gönguleiða eru t.d. Hesteyri, Aðalvík, Hornvík og svo Reykjafjörður. Næsti flokkur er tiltölulega léttar ferðir þar sem ekki er mikið um hæðarbreytingar, hér má nefna ferðir frá Snæfjallaströnd í Grunnuvík og inn í Leirufjörð. Þaðan er hægt að fara inn í Hrafnsfjörð og um lágan fjallveg um Skorardal í Furufjörð. Einnig má benda á Hesteyri og þaðan í Sæból í Aðalvík um Sléttuheiði sem er lág og farið um markaðan veg að hluta. Þaðan væri farið um fjöruna að Látrum í Aðalvík og tilbaka að Hesteyri um Hesteyrarskarð um merkta götu að hluta til. Vinsæl leið í þessum flokki er á milli Reykjafjarðar og Ófeigsfjarðar.

Erfiðasti flokkurinn eru gönguleiðir með miklum hæðarbreytingum um svæði þar sem aðgangur að skálum er takmarkaður og því verður að hafa með allan útbúnað. Vinsælasta leiðin í þessum flokki er leiðin frá Hornvík með ströndinni til Reykjafjarðar, margir telja að þessi leið sé hin eina og sanna gönguleið á Hornströndum. Í þessum flokk má einnig nefna leiðirnar frá Aðalvík til Hornvíkur um Fljótavík, eða frá Hesteyri í Hornvík. Þar er um tvær leiðir að velja algengara er að fara um Hlöðuvík, en einnig má fara inn Jökulfjörðu og upp úr Veiðileysufirði um Hafnarskarð í Hornvík eða Lónafirði um Rangalaskarð í Hornvík. Þegar í Lónafjörð er komið má halda áfram inn Jökulfjörðu og fara í Hrafnsfjörð.

Leiðin liggur oftast um götur sem markast hafa á þúsund ára veru forferðra okkar. Bæirnir lágu innst í grunnum víkum með litlu undirlendi og götur milli þeirra um fjöruna, sjávarbakka og upp grasivaxnar hlíður upp í fjallaskörð, sem eru oftast um 200 - 400 metra há. Þegar upp fyrir 200 m hæð er komið liggur gönguleiðin oft um snjóskafla og um urð og grjót. Helsta fæðuöflun hefur ekki verið í búfénaði, sumur eru stutt og grastekja of lítil til þess að hægt sé að ná saman vetrarforða fyrir mikinn bústofn.

Oftast hefur verið um eina kú að ræða, eina til tvær lambær og kannski einn hest. Matur var sóttur á miðin sem lágu stutt undan ströndinni, mikið er um sel og mestu fuglabjörg heims voru ótæmandi matarkistur. Tekjur byggðust á dúntekju og rekaviði. Í umhverfinu má lesa við hvaða aðstæður fólk lifði, og þær hafa verið nánast óbreyttar frá því land byggðist. Það var svo í byrjun þessarar aldar að falla fór undan byggðinni í kjölfar breyttra þjóðfélagshátta, vélskipaútgerð og iðnvæðingar. Unga fólkið sætti sig ekki lengur við frumstæð skilyrði og flutti að heiman. Afkomendur hafa nú endurbyggt sum bæjarhúsanna og nota þau sem orlofshús.

Flatey


Hef verið á flakki með undanfarið og haldið mig á Breiðafirðinum og á Vestfjörðum. Flatey hefur ákveðna sérstöðu í hugum margra. Flokkast undir ákveðna rómantík, seiðmagnað andrúmsloft sem hefur komið fram í myndum og bókum. Í sjálfu sér er það fábreytnin sem verður til þess að maður nýtur þess sem eyjan hefur upp á að bjóða. Rólegur göngutúr um eyjuna er góð afslöppun. Fuglalífið er fjölbreytt og fuglarnir eru óvenjulega spakir. Krían situr róleg á næsta girðingarstaur í nokkurra metra fjarlægð, en grípur til sinna aðgerða fari maður inn fyrir þar sem er hennar umráðasvæði.

Hvíldin felst í því að það er góður tími til þess að skríða jafnvel upp í aftur og lesa aðeins meira og fara svo aftur í stuttan göngutúr. Húsin í þorpinu hafa flest verið endurbyggð í sína upprunalegu mynd með myndarlegum hætti.

Ég hitti Guðmund Pál Ólafsson rithöfund, skólastjóra, kennara, náttúru- og heimildaljósmyndara, kvikmyndagerðarmann, smið, kafara, náttúruverndari og fyrirlesara. Hann sýndi okkur gamla kaupfélagshúsið þar sem hann býr nú hluta ársins. Hann hefur endurbyggt húsið af ótrúlegum hagleik. Þar stendur en gamla verzlunin með sínum flóknu og vönduðu innréttingum.

Breyting hefur orðið á ferðamenningu með tilkomu hótelsins. Þar er búið að endurbyggja þrjú hús á listilegan hátt. Fágað og vandað handbragð iðnaðarmanna blasir við hvar sem litið er. Ingibjörg Á. Pétursdóttir hótelstýra hefur stutt við það andrúmsloft sem er í húsunum með góðu vali á húsgögnum og munum.

En Ingibjörg er meistari meistaranna í eldhúsinu og þeir réttir sem hún laðar fram eru hreint út sagt óviðjafnanlegir. Matseðilinn er sóttur í Breiðafjörðinn. Fiskisúpan er sú besta sem ég hef smakkað, er þó vel inn í þeim málum sakir dálætis á súpum og hef prófað þær víða auk þess að glíma við þær í eldhúsinu heima. Þorskurinn hennar, fiskibollurnar, léttreykti svartfuglinn, sjávarréttaþrennan og þannig mætti halda áfram. Allt þetta dregur mann inn í unaðsheima eldhúss sem er í heimsklassa.

Enda það orðið eftirsótt að gista á hótelinu og það fullbókað á næstunni. Haustið með sínum stillum og myrkum kvöldum eru seiðmögnum í Flatey. Skyndilega er allur fuglinn farinn yfir hafið til vetursetu í öðrum löndum og þögnin er mikil. Engir bílar, engar hraðbrautir.

fimmtudagur, 9. júlí 2009

Aths. Guðmundar Gunnarssonar

Af marggefnu tilefni vill ég enn einu sinni taka fram að það er virkur einstaklingur í athugasemdakerfinu sem er alnafni minn. Margir þ.á.m. lögfræðingar hafa viljað komast í samband við hann og ræða skrif hans.

Það litla sem er í athugasemdakerfinu frá mér er greinilega merk mér sem skráðum pistla höfundi á Eyjunni.

Bestu kv. GG

miðvikudagur, 8. júlí 2009

Meir um uppruna velferðarkerfisins

Við skoðun á velferðakerfinu á þjóðveldisöld þá kemur fram að Grágás tengir Ómagabálk við Kristinna laga þátt, sem bendir til þess að velferðakerfið á þjóðveldisöld hafi í raun verið tveggja stoða kerfi.

Fyrsta stoðin, Ómagabálkur þar sem fram kemur í 1. gr. að „sinn ómaga á hver maður fram að færa hér á landi“. Frumskyldan var að fjölskyldan sá um sína og deildi því skv. Ómagabálk og fjármagnaði með eigin framlagi. Allt niður njörvað og ekki hægt að víkja sér undan á nokkurn hátt. En ef ómagaskyldir menn lýstu yfir vanefnum skv. 10. gr. voru ómagar gerðir að hreppsómaga og hreppnum gert skylt að framfæra viðkomandi þar til dæmt var í málinu.

Hreppurinn varð þannig að einskonar annarri stoð og fjármagnaði þessa framfærslu með skiptitíund skv. tíundarlögum. Talið er að Gissur biskup Ísleifsson hafi sett tíundarlög um 1100, en tíundarlögin eru hluti af „Kristinna laga þátt“ Grágás sem er í báðum elstu handritunum, Konungsbók og Staðarhólsbók. Báðar þessar bækur eru taldar vera ritaðar um 1250 til 1260.

Samkvæmt 45. gr. Kristinna laga þáttar (tíundarlaga) var hreppsmönnum gert skylt að skipta hvers manns tíund á fjóra staði (skiptitíund). Fjórðungur rann til þurfamanna (þurfamannatíund), innanhreppsmanna er þurftu á ómagabjörg að halda. Restinni var skipt á biskup, presta og kirkju skv. 46. og 47 gr.

Það fé sem skylt var að gefa þurfamönnum átti að vera í vaðmálum, vararfeldum, ull, gærum, mat eða kvikfé, öllu öðru en hrossum. Samkvæmt lögunum var öllum körlum og konum 16 ára og eldri skylt að greiða tíund. Erlendis greiddu menn 1/10 hluta tekna sinna sem samsvarar 10% tekjuskatti. Hér var tíundin ekki lögð á annað en þær 10% tekjur sem komu af skuldlausri eign. Hér var því tíundin eignaskattur, af hreinni eign.

Samkvæmt 40. gr. var sá er átti sex álna aura fyrir utan föt sín, hversdagsbúning, skuldlausa, skylt að greiða öln vaðmals eða ullarreyfi það er sex gerði í hespu, eða lambsgæru. Þá hækkaði greiðslan eftir því sem hrein eign var meiri.

Önnur stoðin í velferðakerfi Íslendinga á þjóðveldisöld var því einskonar gegnumstreymiskerfi, fjármagnað með eignaskatt eftir efnahag, þar sem þeir ríkustu lögðu mest af hendi. Skv. 10. gr. Ómagabálks virðist þó ekki hafa verið gert ráð fyrir að hreppurinn væri lengi með hreppsómaga og fjölmörg úrræði til staðar í Ómagabálk til að dæma einstaklinga ómagaskylda, ella sekta þá með háum greiðslum.

Þetta fyrirkomulag er lýsandi fyrir það sem við erum að upplifa í dag. Biskup, prestar og kirkjan tóku ¾ af skatttekjum en létu ¼ renna til lífeyrismála og ekki ólíklegt að hreppsmenn hafi tekið toll fyrir innheimtuna. Hér á landi áttu einungis svokallaðir embættismenn rétt á eftirlaunum á ellidögum. Auk þess að prestlærðir menn fengu hlut af skiptitíundinni, guldu þeir svokallaðan spítalatoll. Hann greiddu prestlærðir menn frá því um 1300 til loka 15 aldar. Spítalatollurinn var notaður til þess að reka „Lærðra manna spítala“ eða prestaspítala. Einn þeirra var að Kvíabekk í Ólafsfirði og annar í Gufunesi hér við Reykjavík og var ætlaður landsetum konungs.

Fyrsti vísir að lífeyrissjóði samkvæmt íslenskum lögum mun vera frá árinu 1855 þegar sett voru lög „um skyldu embættismanna til að sjá ekkjum sínum borgið með fjárstyrk eftir sinn dag.“ Fyrsta frumvarp um alþýðutryggingar eða stofnun styrktarsjóðs handa alþýðufólki var flutt á Alþingi 1887 af Þorláki Guðmundssyni. Frumvarpið var samþykkt í Neðri deild en fellt í Efri deild m.a. með þeim rökum Sr. Arnljóts Ólafssonar að í frumvarpinu fælist „communisme“. Fyrsti lífeyrissjóðurinn í núverandi mynd var stofnaður 1921 fyrir barnakennara og embættismenn sem síðar varð að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins.

Ríkið sér um sína og þegar skatturinn dugir ekki fyrir réttindum, er það sótt til skattgreiðenda. Fyrir stuttu vildu Hreppsmenn koma á sértækum eftirlaunalögum sér til handa og leggja þeir hinir sömu til að að almennir lífeyrissjóðir verði skattlagðir til að bjarga réttindum ríkisstarfsmanna og viðhalda stjórnlausum ríkisstofnunum, sem þurfa ekki og jafnvel kunna ekki að draga saman í rekstri. Sagan endur tekur sig hjá valdastéttin og finnur sig í tillögum Sjálfstæðismanna um fyrirfram skattlagningu lífeyrissjóða í raun.

þriðjudagur, 7. júlí 2009

Glatað frelsi

Þegar litið er yfir þá sviðnu jörð sem nokkrir auðmenn hafa með aðstoð misvitra stjórnvalda skilið eftir sig í íslensku samfélagi, rifjast upp hversu oft almenningur hefur mátt sætta sig við sambærilega stöðu. Karl Marx setti fram ýmsar kenningar um eignaskiptingu og verkamanninn. Verkamenn þyrftu ekki að nota nema hluta af tíma sínum til þess að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða, en vegna atvinnuleysisvofunnar væri unnt að halda launum í lágmarki og þess vegna færi drjúgur hluti vinnutímans í að skapa verðmætaauka í vasa eiganda fyrirtækisins. Marxisminn varð fræðilegur grundvöllur í baráttu verkalýðsins í sókn hans gegn auðvaldsskipulaginu.

Marx boðaði að auðvaldsskipulagið yrði hemill á framleiðsluna, andstæður yrðu skarpari milli auðvalds og öreigalýðs og aðeins þjóðfélagsbylting gæti bjargað því frá efnahagslegu hruni. Aðeins verkalýðshreyfingin sem upplýst fjöldahreyfing gæti haft forystu í slíkri byltingu. Þetta leiddi til skelfilegrar þróunar þar sem varð til valdastétt, sem taldi sig yfir almenning hafinn. Sovétið varð til og murkaði lífið úr almennum borgunum til þess að vernda eiginn hag.

Það var gríski heimspekingurinn Plató, sem var uppi á 4. öld f. Krist sem fyrstur er talinn hafa hugsað sér þjóðfélagsskipun byggða á grundvelli jafnaðarins. Hans kenning var að vitrustu og bestu mennirnir ættu að stjórna. Þeir áttu að efla menntun og siðgæði og allt það sem horfði til almenningsheilla. Þeir máttu ekkert eiga sjálfir annað en þau laun, sem þeir fengu hjá þjóðinni fyrir sitt starf. Hver maður átti að stunda það starf, sem hann kaus sér sjálfur og var færastur til eða hneigðastur fyrir. Konur og karlar áttu að hafa sömu réttindi.

Þróun norræna módelsins hófst á víkingaöld og kemur fram í Ómagabálki Grágásar, lagasafni íslenska þjóðveldisins. Ómagabálkur var einskonar framfærslulöggjöf Þjóðveldisins. Þar segir frá því hvernig framfærsluskylda ættmenna og hreppa var háttað. Í fyrstu grein segir að sinn ómaga á hver maður fram að færa. Móður sína fyrst, en ef hann orkar betur, þá skal hann færa fram föður. Ef hann orkaði meir þá skal hann framfæra börn sín, systkini og aftur í fimmta ættlið.

Miðaldir voru hörmulegar en í lok nítjándu aldar tóku ýmsir til við að leggja niður fyrir sér hvernig bæta mætti hag verkalýðsins. Frá Marx kom sú kenning að vinnan væri uppspretta þjóðarauðs. Verkamaðurinn fengi laun sín fyrir vinnu, eigandi framleiðslufjár vexti af því og jarðeigandinn jarðrentu. Laun gætu ekki verið hærri en hrykki fyrir brýnustu nauðsynjum.

John Stuart Mill setti fram þá skoðun, að ríkisvaldið yrði að hlaupa undir bagga með þeim sem stæðu höllum fæti í lífsbaráttunni. Hann vonaði enn fremur að útrýma mætti allri fátækt með réttlátri jarðeignaskiptingu, takmörkun barneigna og með stofnun samvinnufélaga. Hann varaði við því að gera heiminn að ríkisreknum vinnubúðum þar sem sköpunargleði einstaklingsins fengi ekki að njóta sín. Stuart Mill studdi stofnun verkalýðsfélaga sem hefðu verkfallsrétt.

Fjölmörg þeirra réttinda sem vinnandi fólki þykja sjálfsögð í dag kröfðust mikillar baráttu og fórna. Það á við um samningsrétt, uppsagnarfrest, fæðingarorlof, vinnuvernd, orlofsrétt og margt fleira. Uppbygging velferðarkerfisins með virkri þátttöku verkalýðshreyfingarinnar er talinn helsta ástæða hvernig norræna módelið hefur mótast og þróast. Fyrstu lögin um almannatryggingar voru sett árið 1936 eftir margra ára þref.

Með almannatryggingunum var viðurkennt að allir í samfélaginu bæru ábyrgð á að framfleyta þeim sem ekki höfðu tök á því sjálfir, hér má vitna til Ómagabálksins. Það er Ríkið sem á að setja leikreglur og tryggja stöðu almennings, en íslenska Ríkið brást skyldu sinni. Þar á bæ var ekki tekið tillit til ábendinga um hvert stefni, æðst menn stjórnvaldsins gleymdu sér í dansinum á tildurhaug markaðshyggjunnar.

Það eru stjórnvöld sem setja lögin, en lögðu til hliðar samkennd og jöfnuð. Þetta sjá helstu forsjármenn íslensks samfélags síðustu tveggja áratuga nú, en hafa ekki bak til þess aðs tanda og horfast í augu við skelfilegar afleiðingar gjörða sinna. Í stað þess láta þeir hirðblaðamenn sína taka þeir drottningarviðtöl við sig, þar sem þeir sverja allt af sér og saka aðra um. Aldrei hefur annað eins lýðskrum sést á síðum íslenskra blaða.

En það er mikilvægt að það gleymist ekki að það var almenningur sem kaus yfir sig það stjórnvald sem klúðraði einkavæðingu bankanna og sleppti þeim lausum á íslenskan almenning með afnámi bindiskyldunnar ásamt því að ljúka ekki að setja þær leikreglur sem þurfti að setja í framhaldi af EES samningnum. Sama stjórnvald jók misvægi með því að lækka skatta á þeim efnameiri en um leið aukið óbeina skatta á þeim sem minna höfðu til hnífs og skeiðar með því að láta skerðingarmörk bótakerfisins ekki fylgja verðlagi.

Við blasir hörmuleg staða íslenskra heimila, niðurstaða og árangur efnahagsstefnu Davíðs og fylgisveina hans. Það var ótrúlegt ábyrgðarleysi af hálfu stjórnvalda, að ekki var tekið fyrr á þessum vanda. Þetta skafa menn ekki af sér í viðtali við Agnes sem Mogginn birtir svo á forsíðu. Davíð gleymdi hvar lífsgildi þjóðarinnar liggja og hvar sjálfstæði þjóðarinnar er.

sunnudagur, 5. júlí 2009

Hvað annað en ESB?

Með tilliti til þeirra skoðana sem settar eru fram í athugsemda dálkinum við síðust grein spyr ég hvert eigi að stefna með atvinnulífið ef ekki verður sótt um inngöngu í ESB og því jafnframt lýst yfir að það eigi að skipta út krónunni yfir í traustari gjaldmiðil. Þessa skoðun byggi ég m.a. á því sem forsvarsmenn tæknifyrirtækja hafa sagt; þeir sjái ekki vöxt þeirra hér og þau muni halda áfram að flytja starfsemi sína til ESB landa.

Nú þegar eru allmörg fyrirtæki flutt frá Íslandi vegna krónunnar, annað hvort alfarið eða með meirihluta starfsemi sinnar. Má þar nefna Hamiðjuna, 66° norður, CCP, Marel, Össur og Actavis. Allnokkur fyrirtæki þar á meðal nokkur lítil til viðbótar við hin áðurnefndu stóru, eru búin að skipta yfir í Evru þó svo þau séu með starfsemi hér, en þau hafa öll lýst því yfir að þau sjái enga framtíð eða vaxtamöguleika hér.

Það þýðir í raun að ef ekki verður af því að Ísland hverfi frá sinni ofurdýru krónu með þeim okurvöxtum sem henni fylgja, þá verða hér einungis í boði störf í svokölluðum grunnstoðum. Það er fiskvinnslu og útgerð. Landbúnaði og álverum, ásamt opinberum starfsmönnum. Í þessum greinum er atvinnuleysi lítið sem ekkert, á meðan það er allt í þjónustu- og tæknigreinum.

Þetta skýrir líklega hvers vegna formaður opinberra starfsmanna sér ekki ástæðu til þess að grípa til þeirra aðgerða sem forsvarsmenn tæknifyrirtækja telja nauðsynleg og leyfir sér að kalla tillögur þeirra „arfavitlausar“. Ég veit ekki hvort menn sjái fyrir sér fjölgun ríkisstarfsmanna um 20 þús. en það er sá fjöldi nýrra starfa sem þarf að verða hér á Íslandi á næstu 4 árum eigi að koma atvinnuleysi niður fyrir 4%. En það er víst að þá er ekki verið að tala um spennandi tæknistörf fyrir velmenntað ungt fólk.

Eins og ég hef áður komið að sé litið til félagsmanna Rafiðnaðarsambandsins, þá hefur ekki verið nein fjölgun í þessum grunnstoðum á undanförnum árum, einungis í tæknigreinum. Öll fjölgun á vinnumarkaði hefur verið í tækni- og þjónustufyrirtækjum. Auk fjármálageirans sem er hruninn og ekki miklar líkur á að hann bæti við aftur þeim mikla mannfjölda sem hefur orðið að hverfa úr þeim geira í vetur.

Það hefur ætíð verið lítið atvinnuleysi utan höfuðborgarsvæðisins vegna þess að fólk sem ekki hefur haft atvinnu hefur flutt frá landsbyggðinni og unga fólkið hefur ekki flutt til heimaslóða eftir að hafa lokið námi. Nú stefnir í að þetta muni breytast á þann veg að nú muni fólkið á höfuðborgarsvæðinu leita til ESB-landa eftir atvinnu og unga fólkið ekki koma heim eftir að hafa lokið framhaldsnámi í ESB-löndum, eins og t.d. Svíþjóð og Danmörku þar sem stærstu námsmannahóparnir hafa verið.

laugardagur, 4. júlí 2009

Lækkum vexti og verðlag

Það eru nokkrir sem hafa hafnað því að ræða aðild að ESB og að skipta um gjaldmiðil. Sumir hafa afgreitt málið með því að þeir nenni að ekki að ræða svona skyndilausnir. Það blasir þó við að þetta er ekki skyndilausn, þetta er framtíðarlausn. En það er áberandi meðal andstæðinga þess að skipta út krónunni að þeir hafa ekki bent á neitt annað.

Íslenska krónan hefur verið nýtt af fjármálamönnum og vogunarsjóðum til þess að hagnast á óförum hennar og hún er svo lítil og bakhjarl hennar veikur að þeir geta auðveldlega skapað sveiflur sem eru þeim hagstæðar en bitna á íslenskum heimilum í formi falls krónunnar, hækkandi verðbólgu og vaxta.

Í nágrannalöndum okkar sem eru innan ESB er verðlag lægra, verðbólga 2 – 4%, vextir 4 – 6%. Þar ríkir stöðugleiki og þar er getur fólk gert langtímaáætlanir um uppbyggingu heimila sinna sem standast.

Fram hefur komið hjá öllum forsvarsmönnum sprotafyrirtækja að þau sjá ekki framtíð sína hér á Íslandi vegna krónunnar. Vaxandi fjöldi starfsmanna Össur, Marel, CCP og fleiri íslenskra fyrirtækja er erlendis. Forsvarsmennirnir segja að þeir gætu flutt þessa starfsemi heingað heim ef við værum innan ESB og með Evru.

Með aðild að ESB verður Ísland aðili að tollabandalagi ESB og tollar sem enn eru milli Íslands og ESB landanna falla niður og það mun leiða til töluvert lægra vöruverðs. Matvælaverð mun lækka um allt að 25% með inngöngu Íslands í ESB.

Kostnaður vegna viðskipta milli fyrirtækja innan ESB verða ódýrari og einfaldari. Slíkt myndi auka samkeppni gagnvart ýmsum innlendum fyrirtækjum og mun leiða til lægra vöruverðs.

Allmörg íslensk fyrirtæki hafa þegar skipt yfir í Evru. Það er nánast sama hvar borið er niður í ferðaþjónustu hér á landi öll verð eru tengd við Evru.

Vextir á íbúðarlánum myndu lækka töluvert og hin alræmda verðtrygging hverfa. Talið er að tilvist krónunnar kalli á 3 – 4% hærri vaxta hér á landi en þeir þyrftu annars að vera. Fyrir venjulega launamann þýðir þetta að um ein mánaðarlaun fara í þennan aukakostnað á hverju ári.

Í dag forðast fjárfestar Ísland vegna krónunnar, með aðild myndu viðskipti og fjárfestingar erlendra aðila aukast hér á landi.

Með aðild að ESB opnast aðgangur að mörgum sjóðum. Þar má nefna styrki til landbúnaðar og til byggðamála. Einnig yrði samstarf við lönd ESB öflugra á ýmsum sviðum eins og í mennta- og menningarmálum, rannsóknum og félagsmálum.

föstudagur, 3. júlí 2009

Hvar er sómatilfinningin?

Hvar er sómatilfinning þeirra sem létu allar aðvaranir sem vind um eyri þjóta? Hlustuðu ekki á aðvörunarbjöllurnar glymja. Hvað segja Bjarni Ben, Þorgerður Katrín og Guðlaugur Þór núna? Þau höfnuðu alfarið aðvörunum vinaþjóða okkar og hafa hreytt ónotum í norræna velferðarkerfið. Hér á eftir eru nokkur brot úr pistlum mínum frá október og nóvember 2008.

Íslensk stjórnvöld voru virkir þátttakendur á hömlulausu eyðslufylleríi bankanna og ýttu undir skuldaaukningu almennings með því að láta krónuna vera 30% of sterka. Þau messuðu yfir þjóðinni um að allt væri í toppstandi. Felldu niður skatta til þess að ýta undir enn meiri eyðslu. Vitanlega vildi almenningur trúa þessu og 40 þúsund Íslendingar keyptu 70 þúsund bíla hvattir af íslenskum bönkum sem slógu 120 milljarða króna lán fyrir kaupunum frá breskum, hollenskum, þýskum, japönskum og svissneskum almenningi. Sami hópur tók lán og stækkaði við sig og endurbætti húsnæði. Allt eftir ráðleggingum sérstakra ráðgjafa bankanna og undir hvatningu þáverandi stjórnarþingmanna.

Þetta er helmingur landsmanna á lántökualdri. Stór hluti þeirra eiga erfitt með að standa við greiðslur vaxta og afborgana af lánunum. Nú er þess krafist að tekið sé sparifé fólks í lífeyrissjóðum til þess að greiða upp þessar skuldir ásamt því að þeir útlendingar sem féllu fyrir gylliboðum íslenskra banka og létu þeim í hendur sparifé sitt. Ákaft hvattir af íslenskum ráðherrum, forsetanum og helstu efnahagsráðgjöfum Flokksins, sem fóru um heimsbyggðina og lýstu hinu íslenska efnahagsundri. „Við erum fremst í heimi og þeir sem ekki trúa því eiga að fara á endurhæfingarnámskeið. Við stöndum við skuldbindingar okkar.“

Íslensk þjóð hefur glatað trausti nágranna sinna ekki bara útrásarvíkingarnir. Í nágrannalöndum okkar er talað um íslensku þjóðina, hvernig fyrir henni er komið og hvaða ábyrgð hún ber. Ráðherrar vinaþjóða okkar vöruðu árangurslaust íslenska ráðherra við um alllangt skeið. Hingað komu erlendir sérfræðingar og bentu íslenskum ráðherramönnum á að það stefndi í óefni.

Seðlabankar norðurlandanna lýstu sig tilbúna til þess að koma okkur til hjálpar en það yrði ekki gert nema að tekið væri til á Íslandi. En íslenskir ráðherrar þráuðust við allt síðasta haust þar til almenning þraut þolinmæðina og hrakti þá frá völdum. Svo fór að öll vinaríki okkar tóku sig saman og sögðust ekki lána okkur krónu nema í gegnum Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

„En þá verðum við að taka á móti ráðleggingum og ganga að kröfum um að taka til hjá okkur“ svöruðu íslensku ráðherrarnir óttaslegnir. „Það er einmitt lóðið“ sögðu norrænu ráðherrarnir, „Við treystum ykkur ekki til þess að gera það sjálfviljugir.“ Íslensk þjóð er rúin trausti. Hún fær einungis lán í skömmtum eftir að hafa uppfyllt skilyrði hvers áfanga í betrunarbótinni.

Að þessu upprifjuðu er algjörlega útilokað að skilja málflutning þingmanna og fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins þessa dagana.

miðvikudagur, 1. júlí 2009

Börnin greiði mistök foreldra

Frá því að Sjálfstæðisflokkurinn lagði það til að iðgjöld í lífeyrissjóði yrði skattlögð hefur Tryggvi Þór Herbertsson verið í forsvari fyrir flokkinn, varið tillöguna og gert lítið úr rökum þeirra sem ekki eru honum sammála og þeim afleiðingum sem þessi kerfisbreyting hefur í för með sér. Tryggvi Þór hefur viðurkennt að tillagan hafi galla, en vikið sér undan að ræða þá efnislega. Tillagan muni draga úr þjóðhagslegum sparnaði, ásamt því að vera flókin í framkvæmd og leitar er eftir stuðning um að búa til plástra hér og þar til að sátt náist um framgang hennar.

Í dag beita fjölskipaðar nefndir innan Evrópusambandsins sér fyrir því að þær örfáu þjóðir innan ESB sem búa við það kerfi sem Sjálfstæðismenn vilja taka upp, leggi það fyrirkomulag niður og taki upp sama kerfi og íslendingar. Þar er talið að skattlagning á lífeyrisgreiðslum sé rökrétt þar sem skattfrjáls iðgjöld í lífeyrissjóði minnki skattbyrðina og hvetur til sparnaðar til efri árana.

Þjóðin er að eldast og styttist óðum í að barnasprengjuárgangarnir skelli á kerfinu. Þá verður hlutfall eldri borgara mjög hátt, skatttekjur ríkisins síga og hlutfallslega fækkun atvinnubærra einstaklinga. Við okkur blasir að auki sú mikla vá að það muni bresta á landflótta yngra fólks vegna ástandsins hér. Tillagan mun þrýsta enn frekar á þessa þróun.

Viljum við kalla yfir okkur fyrirsjáanlegar lögsóknir sem byggja á milliríkjasamningum um frjálst flæði vinnuafls, verslunar og þjónustu og flæði fjármagns? Við höfum stofnað til milliríkjadeilna til að varðveita innlánssparnaðinn í bönkunum og til að viðhalda greiðslumiðlun. Látið ríkisbankana leysa til sín umdeild verðbréfa peningamarkaðssjóða, reyndar bara þeirra sem bankarnir stýrðu. Allt gert til að viðhalda tiltrú á sparnaði.

En svo kemur tillaga um að ganga gegn sparnaðarformi lífeyrissjóðanna. Ef einhverjir mótmæla, þá er því blákalt haldið fram að forsvarsmenn lífeyrissjóðanna séu ekki að verja hagsmuni lífeyrisþega framtíðarinnar, heldur að verja völd. Á það má benda að þá er um leið verið að saka helstu forsvarsmenn evrópsku lífeyriskerfanna um það sama.

Núverandi lífeyriskerfi er það kerfi sem flestir vilja taka upp og er fyrirmynd sem Evrópusambandið og fjölmargar aðrar alþjóðlegar stofnanir mæla með. Ef vandamálið okkar er það stórt að leggja þurfi í þessa vegferð, þá er hlýtur það að vera umhugsunarefni hvort við sjóðsfélagar eigum ekki að leggja til að lífeyrissjóðir selji öll innlend ríkisskuldabréf og flytji alla fáanlega fjármuni frá Íslandi. Með þessari tillögu er verið að taka lán hjá börnunum til að bæta fyrir mistök foreldrana.