mánudagur, 31. mars 2008

Samgönguráðherra leysir vandann?!

Samgönguráðuneytið ásamt öðrum aðilum sem koma að bættri umferð hafa undanfarið barist réttilega fyrir því með mikilli auglýsingaherðferð að bílstjórar hvíli sig reglulega í 15 mín.

En í kvöld kemur samgönguráðherra í sjónvarpið og segist vera að berjast fyrir því niður í Brussel í að stytta hvíldartíma þungaflutningabílstjóra!!

Eins og allir vita sem fara um íslenska vegi þá eru þeir mjóir og ósléttir, á löngum leiðum jafnvel nánast ónýtir. Það kallar á mikla árvekni að fara þar um að breiðum og 20 til 30 tonna bílum.

Allir vita hvers vegna hvíldatímareglurnar voru settar, ekki bara í Evrópu.

Þungaflutningabílstjórar krefjast þess að samngönguráðherra bæti vegi, ekki bara í sínu kjördæmi og fjölgi hvíldarstæðum meðfram þjóðvegum.

Af hverju er það fyrst nú sem samgönguráðherra kemur fram og segist ætla að gera eitthvað. Lengja vökutíma bílstjóra,

sunnudagur, 30. mars 2008

Tilraun til sátta


Undanfarna daga hefur heyrst frá nokkrum stjórnarþingmönnum að þörf sé að ná nýrri Þjóðarsátt til þess að koma skútunni á réttan kjöl.

Á sama tíma og þeir hafa beint þessum orðum til almennra launamanna hafa þeir verið að ráða til sín aðstoðarmenn og fjölga skrifstofum. Reksturskostnaður Alþingis hefur hækkað um liðlega milljarð á stuttum tíma. Þar til viðbótar hafa þingmenn með stjórnarþingmenn í broddi fylkingar þvertekið fyrir að endurskoða hin alræmdu eftirlaunalög.

Almennir launamenn stigu fram fyrir skjöldu og gerðu nýverið mjög ábyrga kjarasamninga sem höfðu það að markmiði að stuðla að lækkun verðbólgu, sem aðgerðaleysi stjórnarþingmanna hefur gert að engu á nokkrum vikum.

Af framansögðu er kannski ekki einkennilegt að Ingibjörg Sólrún stígi nú fram og reyna að ná sáttum við launamenn og segi m.a.: “Fátt hefur mælst eins illa fyrir hjá íslenskum almenningi og sú ákvörðun Alþingis í desember 2003 að bæta eftirlaunarétt ráðherra og þingmanna og auka þannig bilið sem er milli þeirra og almenns launafólks. Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp Valgerðar Bjarnadóttur um að breyta réttindum þeirra eftirleiðis til samræmis við það sem almennt gildir hjá ríkisstarfsmönnum. Ég tel mikilvægt að Alþingi taki á þessu máli og reyni að leiða það til lykta fyrir þinglok.”

Ábyrgðin liggur hjá stjórnvöldum

Það á ekki að hafa komið neinum á óvart að það yrði niðursveifla þegar hinum miklu framkvæmdum fyrir austan lyki. Allir hagfræðingar landsins hafa boðað þetta frá upphafi framkvæmdanna eða í hartnær 5 ár.

Allir forsvarsmenn stærstu fyrirtækjanna ásamt hagfræðingum samtaka launamanna og fyrirtækja hafa í nokkur ár bent á að huga þyrfti að gjaldmiðlinum og peningastjórn.

Sveiflan er harkaleg og afleiðingarnar stefna í að verða mjög alvarlegar fyrir heimilin og fyrirtækin og allt stendur í ljósum logum. Krónan í frjálsu falli og skuldir heimilanna og fyrirtækja í flugferð upp á við ásamt vöxtum. Við blasir 20 – 30% hækkun á allri dagvöru og eldsneyti, samfara gríðarlegri skuldaaukningu og hækkun greiðslubyrði.

Þá flytur forsætisráðherra ræðu um að það sé þörf að fá erlenda sérfræðinga til þess að skoða málið. Einnig hefur verið tekin ákvörðun um að Evrópunefnd ríkisstjórnarinnar haldi sinn fyrsta fund í næstu viku.

Ef þeir sem hafa farið með stjórn efnahagsstefnu landsins hefðu tekið á þessum málum af ábyrgum hætti strax þegar þeir lögðu af stað með framkvæmdirnar fyrir austan þá værum við í allt öðrum málum.

Ábyrgðin liggur ekki hjá einhverjum sem hafa nýtt sér ástandið til þess að hagnast undanfarnar vikur. Hún liggur hjá þeim sem hafa farið með stjórn þessara mála. Þeir eru hinir sömu allt frá árinu 1992.

Reyndar liggur fyrir að þeir boðuðu við upphaf þessa tíma að einungis væri ein leið fær, en einhversstaðar á leiðinni hafa þau markmið týnst.

Og öllum byrðunum er velt yfir á almenning.

laugardagur, 29. mars 2008

Hvernig eru ráðherrar innréttaðir?

Ráðherrar og kerfiskallar þeirra neita að taka til umræðu eftirlaunafrumvarp sitt, þar sem þeir úthlutuðu sjálfum sér úr ríkissjóð margföldum eftirlaunum hins almenna skattgreiðanda. Þessir hinur sömu gerðu nýverið samning um hækkun læstu launa og viðmið bóta um 18.000 kr.

Nú eru efndirnar komnar fram í dagsljósið. Ofureftirlaunaráðherrarnir hafa ákveðið að það sé alveg nóg að ellilífeyrisþegar og öryrkjar fái 4.000 – 5.000 kr. hækkun.

Í hvert einasta skipti sem gerðir hafa verið samningar við þessa herra um lagfæringar í almenna bótakerfinu þá, hafa þeir lagst í þá vinnu að finna út hvort ekki sé með einhverju móti hægt að finna göt í textanum, þannig að þeir þurfi helst ekki að standa við það sem um var rætt.

En það er nú annað upp á teningunum þegar kemur að þeirra eign málum. Þá rennur á þá svo mikið kapp að þeim yfirsést jafnvel að fara að lögum. T.d. eins og gert var við setningu eftirlaunalaganna, þá vor þau ekki kostnaðarmetinn eins og lög kveða á um.

Þáverandi forsætisráðherra hélt því fram að kostnaður yrði í það mesta 6 millj kr. Pétur Blöndal sagði að það væri jafnvel sparnaður af þeim. En almenningur og hagfræðingar verkalýðshreyginarinnar sögðu að þessi lög myndu kosta amk 600 millj kr. og það stóðst.

Sumir hafa verið settir af fyrir minna, en það er reyndar í öðrum lýðræðislöndum en Íslandi. Og þessir háu herrar sitja þessa dagana á frumvarpi um leiðréttingu á ofureftirlaunum þeirra, en á sama tíma skafa þeir 14.000 kr. af umsamdri hækkun öryrkja og ellilífeyrisþega.

Ráðherrarnir hafa svo verið að gefa út tilkynningar um að þeim finnist vera offramboð á skoðunum sem ekki samrýmist þeirra eigin, eins og sjávarútvegsráðherra komst að orði, og spurningar umboðsmanns Alþingis voru með óþægilega nákvæmum orðuðum spurningum til fjármálaráðherra. Aumingjans mennirnir allir svo vondir við þá.

Og svo maður tali nú ekki um hvað hæstaréttardómarar voru ósanngjarnir við að helsta málsvara þeirra. Eins og stendur í ótrúlegri auglýsingu í dag frá "vinum" Hannesar"

föstudagur, 28. mars 2008

Dæmigerð viðbrögð

Það bregst ekki ef einhver tekur sig til og mótmælir að þeir sem telja sig vera eðalborna handhafa valdsins og hins eina sannleika byrja að hrópa.

Þessir aðilar kalla mótmæli skrílslæti eins og valdhafarnir kölluðu mótmæli nýverið í ráðhúsinu. Þau valdi saklausu fólki ónæði eða eitthvað þvíumlíkt eins og sagt um vörubílsstjóra sem voga sér að vekja athygli á því himinhrópandi óréttlæti sem valdhafarnir hafa búið þeim.

Þetta kemur svo greinilega fram í leiðara Morgunblaðsins í dag. Og litlu rakkarnir byrja að voffa á bloggunum sínum um að nú skuli sko ekki látið undan. Engin geta til málefnanlegrar umræðu eins og ætíð áður.

Í öllum þjóðlöndum sem viljum bera okkur saman við, þykja mótmæli sjálfsögð. Til hvers að mótmæla ef það má bara gera það sem ekkert ber á þeim. Þetta vita þeir sem verið er að mótmæla og þess vegna fara mótmælin í taugarnar á þeim. Það er einmitt þess vegna að íslenskir valdhafar vilja gera það sama og gert er í Kína; Fela mótmælin. Enda telja þeir hinir sömu að björg okkar felist í því að gera fríverzlunarsamninga við Kína.

Það er umtalsverður skortur á mótmælum hér á landi. Enda látum við valdhafana vaða yfir okkur út og suður.

Dæmigerð tilsvör íslenskra valdhafa í dag eru svör fjármálaráðherra. Hrokafullur skætingur í garð almennings.

Dæmigerð umfjöllun íslenskra valdhafa um mótmæli er að finna í leiðara Morgunblaðsins í dag.

fimmtudagur, 27. mars 2008

Lestardraumar flótti frá raunveruleika

Eins og lesendur mínir hafa vafalaust tekið eftir þá kem ég alloft að Kaupmannahöfn og norðurlöndum vegna vinnu og ekki síður vegna þess að þar hafa sum barna minna verið við nám og störf, eins og ég. Er þar núna þegar þessi pistill er skrifaður, að kveðja gamlan og góðan samstarfsmann og vin sem Krabbinn tók til sín langt fyrir aldur fram.

Samgöngukerfi borgarinnar við sundin (svo ég sé taki strax upp rómantíkina í samræmi við seinni hluta pistilsins), hefur um langt árabil vakið áhuga og forvitni okkar Frónbúa með sínum lestum samofnu við þéttriðið strætónet og reiðhjólanotkun. Á undanförnum árum er búið að styrkja það enn frekar með tengingu við þéttbýli Málmeyjar og suður Svíþjóðar með Sundagöngum og svo hinum frábæra Metró.

Ekkert mál að komast milli staða á skömmum tíma, en vonlítið og seinfarið á bíl. Engum dettur í hug að eltast við bílastæði eða langar raðir við ljósin. Þessi staða hjálpar borgarstjórnum 5 milljón íbúa þessa svæðis, að byggja upp góðar almenningssamgöngur.

Ástæða þessa pistils er endurtekin umföllum stjórnmálamanna heima um lestarsamgöngur, sem þeir setja á stall þess að vera eitt af eftirsóttum markmiðum og hlutverk þeirra að uppfylla. Átta mig ekki þessu freakr en allmörgu sem þeir segja, þaðan af síður þeim forsemdum sem þeir gefa sér.

Jú það er rétt, við verðum að huga vel að almenningssamgöngum á tímum hækkandi olíu, en við verðum nú að standa með báðar fætur á jörðinni. Er það ekki?

Það var unnin úttekt á lestarsamgöngum ekki fyrir svo löngu af verkfræðistofunni VSÓ að beiðni OR af þáverandi stjórnarformanni Alfreð Þorsteinssyni. Þar kom fram að stofn- og rekstrarkostnaður væri óheyrilega hár og fjárhagslegur ávinningur enginn.

Stofnkostnaður léttlestakerfis áætlaður a.m.k. 40 milljarðar, ef miðað er við svona meðaltalstöðu krónunnar á þessum síðustu og mögrustu tímum. Lestarkerfið kemur til með að nýtast fáum íbúum höfuðborgarsvæðisins vegna dreifra byggða og tekjur þar af leiðandi standa ekki undir rekstri, hvað þá stofnkostnaði. Útilokað að leiðir nái til allra úthverfa og þaðan af síður að ferðatíðni verði til þess að draga verðurbarða farþega til sín.

Nokkrar borgir bæði í norður-Ameríku og í mið-Evrópu með svipað umhverfi og Reykjavíkursvæðið hafa reynt þetta með ömurlegum árangri. En þetta er orðinm að einhverri flóttaleið borgarstjórnarmanna og hins fullkomlega ótengda og kjördæmispotandi samgönguráðherra, frá því að taka á þeim vanda sem við búum við.

Jú í alvöru, það er óneitanlega gaman og rómantískt að ferðast með lestum. En eru markaðsforsendur eitthvað öðruvísi í dag en þegar skýrslan var skrifuð? Miðað við aðstæður og rekstrarkostnað er töluvert ódýrara að hafa ókeypis í strætó og byggja það kerfi enn frekar upp m.a. með forgangi í umferðinni og betri aðstöðu á biðstöðum. Eins og myndu verða byggðar við lestarkerfið . Í þeim könnunum sem gerðar hafa verið um járnbrautarkerfi, er forsenda þeirra ákveðið fjölmenni, en taktu nú eftir lesandi góður, of lítið framboð á umferðarmannvirkjum og bílastæðum. Í aldagömlum borgum Evrópu verður því einfaldlega ekki við komið að bæta þar úr. Hver er staðan á höfuðborgarsvæðinu?

Borgir með lestarkerfum í Evrópu eru byggðar upp í kringum stórt kjarnasvæði með ákaflega takmarkað framboð af umferðarmannvirkjum. Þessar borgarkjarnar byggðust upp á miðöldum löngu áður en bíllinn hóf innreið sína. Við íslendingar búum við annan veruleika, til viðbótar mishæðir og allt annað veðurfar.

Æi, getum við nú ekki kosið yfir okkur alvörustjórnmálamenn sem þora að taka alvöru ákvarðanir í samræmi við raunveruleika studdan af skýrslum. Ekki óskhyggju fámenns hóps viðhlægjenda. Jafnvel þó hann sé órómantískur og einhverjir á móti honum. Já og standa svo á henni.

miðvikudagur, 26. mars 2008

Stefnt í óefni

Efnahagsstjórn síðustu ríkisstjórna hefur oft verið gagnrýnd, þá ekki síst vegna lækkunar skatta á meðal- og hærri tekjur á þennslutímum. Skerðingarmörk hafa setið eftir verðlagsþróun og hafa þessar skattabreytingar leitt til enn lakari stöðu þeirra sem minnst mega sín.

Ofboðsleg þennsla hefur aukið tekjur ríkisstjóð og skapað svigrúm til þessarra skattalækkana, auk sölu á eignum hins opinbera. Stjórnarþingmenn hafa hrósað sjálfum sér af mikilli fjármálasnilli, meðan aðrir, þar á meðal verkalýðshreyfingin, hafa haldið því fram að stefnt væri í óefni og aukna þennslu. Verið væri að skapa nær vonlausa stöðu þegar þennslan minnkaði og tekjur ríkissjóðs lækkuðu.

Þeirri ríkisstjórn sem þá yrði við völd myndi verða ómögulegt að standa undir opinberum rekstri, án mikilla lántöku og hækkunar skatta. Þá væri í raun kominn upp sama staða og repúblikanar hafi markvisst skapað með hinni heimsfrægu Vodoo hagfræði frálshyggunnar í Bandaríkjunum, með því að lækka skatta þegar þeir hafa komist til valda og svelt skrímslið eins þeir hafa kallað hinn opinbera rekstur.

Þegar demókratar hafa tekið við þá hafa þeir orðið að grípa til óvinsælla aðgerða eins og hækka skatta eða skera enn frekar niður þjónustu. Stríðsleikir repúblikana kostað þjóðina gríðarlegar fjárhæðir og það er ekkert svigrúm. Með þessu hafa repúblikanar tryggt að demókratar ná aldrei að verða lengi við völd.

Nú virðist þessi staða blasa við hér á landi. Slök efnahagsstjórn, útrásarstefna og slæm eiginfjárstaða fyrirtækja, skuldug heimili, ofurvextir, mikil niðursveifla, hækkandi verð nauðsynja er að leiða til gríðarlegs vanda heimilanna. Krónan er orðin að vinsælu fjárfestingartækifæri hjá áhættufjárfestum og við munum að öllu óbreyttu búa við enn öfgakenndari sveiflur, anfvel efnahagslegu hruni.

Það blasir við að ríkisstjórnin verður að koma með myndarlegum hætti að núverandi vanda, en það er ekkert svigrúm til þess. Það er ekki hægt að lækka skatta meir nema þá að skerða opinbera þjónustu enn frekar, nema að snarhækka þjónustugjöld. Nokkuð sem skuldug heimili í mikilli niðursveiflu þurfa síst á að halda.

Það blasir við að hækka verður skatta, eða hætta við boðaðar lækkanir og taka myndarleg lán til þess að laga lausafjárstöðuna og tryggja að hið opinbera geti komið til hjálpar áður en efnarhagsástandið verður enn verra.

Einungis ein leið virðist vera úr vanda of lítillar krónu í átt til aukins stöðugleika, lækkandi vöruverðs og vaxta. Það er að tryggja áframhaldandi rekstur íslenskra fyrirtækja og koma í veg fyrir atvinnuleysi og hrun heimilanna með því að nálgast Evrópusambandið og evruna. Eins og aðilar vinnumarkaðs hafa bent á í mörg ár.

Þá kemur upp sú spurning hvort við höfum burði til þess að taka til hér heima eftir þessa óstjórn. Við blasa mjög sársaukafullar aðgerðir til þess að komast út úr þeirri stöðu sem ríkisstjórnir undanfarinna ára hafa hafa skapað.

þriðjudagur, 25. mars 2008

Viljum fá upplýsingar um baklandið

Það er ekki hægt að segja að viðbrögð Seðlabankans hafi komið óvart í kjölfar þess að forsætisráðherra hélt sérstakan blaðamannafund á þriðjudaginn fyrir páska til að upplýsa bæði þjóðina og fjármálamarkaðina að ekki stæði til að gera nokkurn skapaðan hlut af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Sú yfirlýsing er enn ein staðfesting á afskiptaleysi ríkisstjórnarinnar af efnahagsmálum undanfarinn 15 ár.

Það vantar upplýsingar um bakgrunn atburða síðustu daga. Margir halda því fram að þar eigi bankarnir drjúgan um hlut í afhroði krónunar til þess að bæta stöðu sína í komandi uppgjöri

Það er verið að boða yfir 20% hækkun á innfluttri vöru. Gengisfallið skilar sér inn í verðlagið. Telja verður töluverðar líkur á því að þar sem fall krónunnar hefur verið mikið að það gangi ekki að öllu leyti til baka.

Þetta þýðir á mannamáli að kaupmáttur launa getur lækkað töluvert á næstunni. Almenningur á rétt á því að fá skýrar upplýsingar um það hvort það hafi verið bankarnir sem eru í bakgrunninum að hagnast með óeðlilegum hætti og á kostnað almennings.

Ef svo er þá er það ekkert annað en gróf árás á íslenskt efnahagslíf. Kunningi minn tók þannig til orða eftir að Seðlabankinn ætli að rýmka heimildir bankanna að þetta sé sambærilegt og ef ræningi hafi verið staðinn að innbroti, að löggan mæti á staðinn með stærra kúbein fyrir þjófinn svo hann geti athafnað sig betur.

mánudagur, 24. mars 2008

Aukning á alvarlegum slysum á byggingarstöðum

Vaxandi fjöldi byggingarmanna í vestur hluta Evrópu kemur frá löndum eystri hluta Evrópu eða frá löndum utan álfunnar. Þekking þessa fólks á aðstæðum og tækjum er oft töluvert ábótavant. Starfsmenn stéttarfélaganna hafa gagnrýnt fyrirtækin og ekki síður það opinbera að gera öllum nýjum launamönnum á vinnumarkaðnum að sækja öryggisnámskeið áður en þeir hefja störf.

Á Bretlandseyjum hafa undanfarið ár orðið tvö dauðaslys á byggingarstað í hverri viku, auk fjölda slysa sem leiða til langvarandi veikinda eða örkumlum. Fórnarlömbin eru í yfirgnæfandi meirihluta bláfækir launamenn frá fjarlægum löndum.

Rannsóknir hafa sýnt að í 90% tilfella hefði mátt komast hjá þessum slysum. Viðkomandi fyrirtæki höfðu ekki kynnt starfsmönnum sínum einföldustu öryggisatriði, í nokkrum tilfellum jafnvel fjarlægt viðvörunarbúnað. Oft er erlendum starfsmönnum gert að vinna við aðstæður sem eru fjarri öllum lágmarkskröfum og lög og reglur vísvitandi þverbrotnar til þess eins að standast tímakröfur um hraða uppbyggingar.

Starfsmenn stéttarfélaga hafa bent á að yfirvöld taki drukkna ökumenn og ökuþóra föstum tökum valdi þeir slysum með athæfi sínu, en láti þetta framferði athugasemdalaust.

Í Bretlandi og Írlandi hafa stéttarfélög krafist þess að sambærileg lagaákvæði verði látin ná yfir verkstjóra eða forsvarsmenn fyrirtækja, sem verða uppvísir að fara vísvitandi ekki að reglum um öryggisbúnað um aðbúnað starfsmana sinna. Það eina sem gerist er að dagblöðin fjalla um slysin og birta viðtöl við ekkjur eða föðurlaus börn og ömurlega stöðu þeirra.

Ef trúnaðarmaður eða forsvarsmaður stéttarfélags fer í fjölmiðla og bendir á hvað hefði í raun farið úrskeiðis og valdið slysinu, þá er hann umsvifalaust dregin fyrir dómstóla og sakaður um meiðyrði og dæmdur til að greiða svimandi háar sektir. Það er bannað að segja sannleikann um dólgana.

Þetta könnumst við vel við hér á landi, oft hafa lögmenn eða blaðafulltrúar fyrirtækja sem hafa setið undir ásökunum frá trúnaðarmönnum þurft að sitja undir alvarlegum ávirðingum í fréttatímum Sjónvarpsins.

Hinir raunverulegu sakamenn búa í skjóli dómara og slakra stjórnmálamanna. Í blóðugri slóð dólganna liggja látnir eða örkumla menn, örvæntingafullar fjölskyldur sem hafa misst alla framfærslu og eina úræði þeirra er að senda börnin til dólganna og biðja þá auðmjúklega um vinnu, sama hver launin eru og hvaða aðstæður þeim eru búnar.

Frjálshyggjan leiðir okkur lengra inn á slóðir villta vestursins. Fari launamaðurinn fram á völlinn og mótmæli, er hann úthrópaður sem æsingamaður með skrílslæti af stjórnvöldum.

sunnudagur, 23. mars 2008

Virðingarleysi gagnvart launamönnum

Það er komið bullandi undanhald hjá Sjálfstæðismönnum í umræðunni um efnhagsmálin. Meir að segja Birgir Ármannsson er með grein nú fyrir páska sem ómögulegt er að skilja öðru vísi sem svo að hann sé að opna sér leið út úr þeim hnút sem hann hefur verið í. Það sanda öll spjót á þeim. Indriði fyrrv. skattstjóri staðfestir vel rökstudda gagnrýni á misheppnaðar skattkerfisbreytingar. Einnig komið fram að hinn bullandi uppgangur sem Sjálfstæðismenn væru sífellt að stæra sig er byggður á sandi og það blasir við að þar er helst um að kenna mistökum í efnahagsstjórn

Það er runnið upp fyrir Sjálfstæðismönnum að þeir mátu stöðuna rangt og hefðu átt að vera komnir mun lengra í umræðu um Evrópumál. Þetta hefur hin bráðsnjalli og rökfasti Björn skynjað og nú er reynt að koma sökum á aðra. Það sé öðrum en þeim að kenna að ekki hafi verið gengið lengra í undirbúning eins og t.d. í sambandi við breytingar á stjórnarskrá.

En það blasir við að þar spilar inn en eitt rangt stöðumat þeirra sem um of er mótað af hefndarhug í garð forsetans eftir að hann hlustaði á rödd þjóðarinnar og rasskelti þá í fjölmiðlamálinu. Það mál snýst um þjóðaratkvæðagreiðslur sem fara hrikalega í taugarnar á Sjálfstæðismönnum. Eins og þeir hafa ítrekað haldið fram í umræðunni, þá telja þeir sig fara þeir með öll völd um leið og kjördagur rennur sitt skeið.

Það liggur fyrir að næstu vikurnar verður ríkistjórnin að spila af trúverðugleika úr þessari hrikalegu stöðu. Ríkisstjórnin spilað af sér í skíðaferðum og fríum erlendis fyrir jólin þegar kjarasamningar stóðu yfir. Það sama er upp á teningunum núna, og verður að segjast eins og er að það er ótrúlegt virðingarleysi sem formaður Samfylkingarinnar sýnir almennum launamönnum þessa dagana.

Samfylkingin hefur lagt alltof litla áherslu á að þrýsta fram umræðum um Evrópumálin. En nú er Björn að ná frumkvæðinu með snjöllum útspilum.

laugardagur, 22. mars 2008

Stefnir í allsherjar uppgjör næsta vetur?

Morgunblaðið er dáldið einkennilegur miðill. Þar er oft mjög vönduð og góð umfjöllun og greining unnin af öflugum blaðamönnum. Þó svo margir láti Staksteina fara í taugarnar á sér, þá sést það víða í bloggheimum a.m.k. að þeir eru lesnir og menn taka allavega það mikið mark á þeim að eyða tíma og rúmi í að fjalla um það sem þar er birt. Sama gildir um Reykjavíkurbréf.

Í Reykjavíkurbréfi páskablaðs Moggans er farið yfir þá erfiðu stöðu sem við erum í. Eins og stundum áður er þar svolítil mótsögn. T.d. stendur framarlega að verkalýðsfélögin séu nýstaðin uppfrá gerð kjarasamninga og einstaka verkalýðsforingjar (ekki ólíklegt að þar sé átt við undirritaðan; sjá nýlegan pistil) hafa sett fram þá kröfu að ríkið komi til skjalana og tryggi samningana, og höfundur segir að það sé auðvitað fullkomlega óraunsætt.

Tveimur dálksentimetrum aftar er fjallað um erfiðastöðu ríkistjórnarinnar og höfundur veltir fyrir sér hvort ríkistjórnin, þá sérstaklega Samfylkingarhluti hennar komi til með að ráða við væntanleg verkefni. Ríkisstjórnin eigi eftir að standa frammi fyrir kröfum frá verkalýðshreyfingunni um einhverjar aðgerðir til að tryggja umsamdar kjarabætur og hún eigi eftir að gera kjarasamninga við ríkisstarfsmenn sem hafi lýst því yfir að þeir vilji ekki semja til langs tíma.

Síðan kemur sú klassíska skýring hvernig Davíð hafi bjargað málunum þegar hann komst til valda 1991. Höfundur segir réttilega að það séu allmargir við stjórn fyrirtækja í dag sem ekki muni þá stöðu sem var upp 1967.

Það þarf svo sem ekki að fara mjög langt aftur til þess að rifja upp niðursveiflur. Flestir sem nú eru við stjórnvölin í verkalýðshreyfingunni komu fram á sjónarsviðið undir stjórn Ásmundar Stefánssonar og ruddu nýjum vinnubrögðum leið í kjölfar inngöngu í Evrópska efnhagssvæði í samvinnu við þáverandi forystu samtaka atvinnulífsins. Við sem vorum í þeim hóp munum vel afstöðu margra ráðandi stjónmálamanna þá.

Einhverra hluta vegna virtust valdastólarnir verða þeim svo kærir að þeir snéru af leið og það er helsta ástæða þeirrar stöðu sem íslenskt efnahagslíf er í nú, auk afskiptaleysis þeirra af hátterni bankanna undanfarin ár.

Þáverandi aðilar vinnumarkaðs hófu með gerð Þjóðarsáttar markviss afskipti að efnahagstjórn. Ef litið er yfir farinn veg síðan þá blasir við að í hvert skipti síðan þá hafa þeir við gerð kjarasamninga sett stjórnvöldum ákveðin skilyrði um að stjórnin verði að grípa til ákveðinna aðgerða til þess að tryggja stöðugleikann. Sama hefur verið upp á teningunum við árlega endurskoðun kjarasamninga og eins við undirbúning og gerð nýgerðra samninga, eins og líklega hvert mannsbarn man, enda svo stutt síðan.

Sjálfsagt muna flestir hvað var efst á baugi í umræðum aðila vinnumarkaðs í lok nóvember síðastliðnum þegar sett voru fram samningsmarkmið. (Hér er vísað til pistla sem voru birtir hér í desember og byrjun janúar.) Nýta það þrönga svigrúm sem nú væri til þess að hækka lægstu laun nú og betur settir launamenn sættu sig við til þess að leggja sitt af mörkum til þess að tryggja betur þann kaupmátt sem menn hefðu náð. Krafist var tiltekinna aðgerða ríkisins, en það tók reyndar alllangan tíma og tafði samningsgerð um einn og hálfan mánuð.

Það er ástæða að benda á það að þeir samningar sem gerðir voru nýverið eru til eins árs. En það eru framlengingar möguleikar í þeim til tveggja ára til viðbótar. Það hefur þegar verið rætt meðal þeirra sem tóku þátt í því að móta og ná fram þjóðarsáttinni á sínum tíma og skópu þá stöðu að þvinga fram samstöðu stjórnvalda um gerð hennar, að það virðist stefna í að næsta vetur verði menn að grípa til sömu ráða. Það er að segja ef stjórnvöld ætla að halda áfram á þeirra ófremdarleið sem hún hefur verið á.
Hvers vegna stefnir í að allir kjarasamningar verði lausir eftir um það bil eitt ár? Ekki bara tæpur helmingur eins og var nú í desember. Það er ljóst að nokkrir þungaviktarmenn þar á meðal í forystu Sjálfstæðisflokksins eru búnir að átta sig á hvert stefni og tala um nauðsyn þess að setja upp vegvísa til þess að ná þeim markmiðum sem við verðum einfaldlega að stefna að.

Markmið sem forysta sjálfstæðismanna setti sér fyrir 20 árum síðan en gleymdu af einhverjum ástæðum eins og ég kom að hér framar.

föstudagur, 21. mars 2008

Alþýðuhetjan Ástþór

Og svo komu páskarnir með venjubundinni spurningakeppni Ævars og maður varð enn einu sinni svo undrandi yfir því hvers vegna fréttamenn vissu ekki hvað hefði staðið á blaðsíðu 2 og 3 í blöðunum, en voru svo aftur á móti alveg klárir á atriðum sem ekki höfðu verið í blöðunum.

Fórum í sumarbústað bænadagana. Samfara vinnu við að ljúka frágangi við nýja bústaði hitti maður menn úr sveitinni. Svo mikið á jörðinni og með staðgóða þekkingu á hvað væri að gerast í þjóðfélaginu og nákvæmari skilgreiningar en koma fram í spallþáttunum með stjórnmálamönnunum, sem eru fyrir löngu fluttir til Reykjavíkur og búa þar í einangruðu samfélagi. Slitnir í samvistum við fólkið í landinu.

Farið í heitu pottana að loknum vinnudegi og horft í stjörnurnar og á norðurljósin. Svo hressandi að fá kaldan gustinn í kollinn áður en sest var að spilum. Manni rúllað upp, en hvað á maður að gera svo mikið lélegri en hinir.

Vitanlega kom páskahretið og rokið, en svo birti til og föstudagurinn langi bauð upp á frábært færi til langrar skíðagöngu í Hverahlíðum Hellisheiðar milli orkumikilla borholna Orkuveitunnar og til Skálafells þar sem útsjón er svo glæsileg yfir Suðurlandið.

Umhugsunarvert hversu umsvifamikil svæði er búið að leggja undir borholur, vegi og pípulagnir. Mikið stærra svæði en fer undir eitt uppistöðulón.

Heimildarmynd Þorsteins Jónssonar um Ástþór Skúlason bónda á Rauðasandi var áhrifamikil og grípandi. Sagði manni í hverju myndskeiðinu á fætur öðru hversu litla reynslu við höfum sem erum fullfrísk og höfum báða fætur.

Tek mörgum sinnum ofan fyrir Ástþór. Alþýðuhetja sem á skilið allar Fálkaorðunar sem veittar verða á þessu ári.

Séu menn að leita eftir mótframboði við Ólaf Ragnar þá er Ástþór rétti maðurinn. Hann myndi rúlla Ólafi upp án þess að flytja eina einustu kosningaræðu.

fimmtudagur, 20. mars 2008

Erum við fullvalda?

Nú les maður hvern pistilinn af öðrum þar sem fram kemur að við höfum látið guttana í fjármálafyrirtækjunum blekkja okkur. Þeir séu líklega ekki með einhverja sérgáfu umfram útlenska fjármálamenn. Það sé líklega rétt að hinir útlensku séu búnir að búa við alvöru efnahagstjórn í marga áratugi. En okkar bara í 10 ár og reyndar er það kannski ekki alvöru efnahagsstjórn.

Það sé líklega rétt að þeir séu bara eins við hin, hika ekki við að taka lán og kaupa. Og taka svo annað lán til þess að borga hitt lánið og kaupa aðeins meira. Meir að segja forsætisráðherra viðurkennir að þetta hafi ekki verið nægilega gott og ekkert heyrist Hólmsteinunum. Enda komið í ljós að þeir geta ekki hagað sér eins og þeim sýnist og sent frá bækur samdar með ljósritunarvélum.

Ef við lítum tilbaka þá blasir það við að aðilar atvinnulífsins hafa allt frá árinu 1990 sent frá sér aðvaranir um að alltof geyst hafi verið farið og hin íslenska peningastefna gangi ekki upp. Hún gæti ekki leitt annars en ýktra sveiflna. Ekkert atvinnulíf gæti lifað við þessar aðstæður til langframa. Danskurinn gerði grín af okkur og sagði að fjármálajöfrarnir okkar væru glannar og notuðu viðskiptaðaferðir sem þeir vildu ekki. Íslenskt efnahagslíf væri spilaborg byggð á lánum.

En þeir stjórnmálamenn sem hafa verið við völd frá 1991 og stjórnað efnahagsmálunum neituðu sífellt að þetta væri rétt og dásömuðu stöðu okkar utan ESB og fóru með forsetanum til Kína og gerðu þar fríverzlunarsamning og neituðu að gagnrýna viðhorf þarlendra stjórnvalda til launamanna. Einkennileg afstaða forsetans.

Það hefur verið mér umhugsunarefni hversu mótsagnarkenndir við íslendingar erum. Hef verið mikið á norðurlöndum sérstaklega í Danmörku. Hitt þar marga íslendinga sem dásama það hversu mikið betra sé að búa þar. Bara vinna dagvinnu og vera kominn heim til fjölskyldunnar klukkan fjögur. Hafi það fínt, það sé nú annað en heima. Þar hafi þeir alltaf verið blankir og orðið að vinna amk 50 stunda vinnuviku til að endar nái saman. Matvælaverð sé 30 -50% hærra og allt svo dýrt.

En það er svo mikil mótsögn í samanburðinum. Í Danmörku sættir okkar fólk menn sig við að búa í 90 ferm íburðarlítilli blokkaríbúð. Enginn bíl eða í mesta lagi einn lítill bíl 10 ára gamall.

Engum dettur í hug að skuldsetja sig umfram greiðslugetu, enda passa dönsku bankarnir vel upp á það. Það er ekkert vandamál að fá lán fyrir íbúð eða öðru, en áður en þú færð afgreiðslu bankans fer hann vandlega yfir laun og greiðslugetu og segir einfaldlega; „Slepptu þessu vinur minn og fáðu þér íbúð sem hentar buddunni þinni.“ Þar eru vextir stöðugir og á bilinu 2.7 – 3.5% á langtímalánum. Gengið sveiflast lítið. Fullvalda þjóð í ESB og unir sér það vel eins og aðrar þjóðir sem þar eru.

Allt er þetta öðru vísi heima. Stórar íburðarmiklar íbúðir, amk 2 nýlegir bílar. Reglulegar innkaupaferðir í Kringlurnar og Smáralindirnar, ekkert vandamál að fá lán og svo raðgreiðslur og þar á ofan yfirdráttarlán á 24% vöxtum til þess að skreppa til Spánar, á einn eða tvo fótbolaleiki í London og skíðaferð til Ítalíu.

Allt leikur á súðum og óstöðvandi firring. Við verðum brjáluð ef við getum ekki mætt á fótboltaleik 3 mín. áður en hann byrjar og parkerað fyrir aftan markið. Stjórnmálamenn neita að ræða aðild að stöðugleikanum og halda því að okkur að þá fari allt til fjandans og þeir missi völdin og geti ekki stjórnað efnahagslífinu.

Hvaða völd? Völd til þess að fella gengið að loknum kjarasamningum? Erum við fullvalda þjóð? Eru stjórnmálamenn í afskiptaleysi og fávisku sinni búnir að afsala fullveldinu til fjármálaglannanna?

miðvikudagur, 19. mars 2008

Mannauðstjórnun á röngunni

Í orðinu á götunni er verið að fjalla um mál sem hefur verið rætt um meðal starfsmanna í stéttarfélögunum undanfarið. Þetta er ekki einstakt því eitt af því erfiðara sem við glímum við í daglegum störfum okkar hjá stéttarfélögunum eru ungir starfsmannastjórar sem eru nýkomnir úr háskólanum. Viðhorf þessa unga fólks einkennist af miskunarlausri æskudýrkun og hagræðingu.

Þessu fólki hafa verið kenndar í háskólunum ýmsar aðferðir við að hagræða með notkun Exceltaflna, þar sem stungið er inn ýmiskonar tölum eins og t.d. að fækka starfsfólki og láta það sem eftir er vinna aðeins hraðar. Sameina störf og láta konuna sem ekki er alltaf að svara í símann elda kaffi og skúra í dauðum tímum.

Vinsælt er nú að gera fastlaunasamning með inniföldum föstum vinnutíma, en láta svo starfsfólkið vinna langt fram á kvöld og um helgar án þess að greitt sé fyrir það.

Þegar út í atvinnuífið er komið er ekki lengur verið að fást við tilfinningalausar tölvur og skoða glæstar niðurstöður úr Exceltöflum, heldur er verið að fást við lifandi fólk. Oft á tíðum fólk sem hefur skilað inn öllum sínum bestu starfsárum með mikilli trúfestu hjá einu fyrirtæki. Gengið með því í gegnum djúpa dali og tekið á sig skert laun og auka vinnuálagog dregið fyrirtækin til betri stöðu.

Í augum „mannauðsstjóranna“ virðist svo vera að starfsmenn séu ekki mannlegar verur, heldur einhverjar stærðir í Exceltöflu. Við sjáum kennslubókardæmi um þetta í starfsmannastefnu Byr.

Það virðist þó vera einhver snefill af mannlegum tilfinningum hjá „mannauðsstjórnarfólki“ sem búið er að snúa öllum mannauðskenningum á haus. Það er nefnilega áberandi að í öllum samningum sem það leggur fram, að það verði að vera fullur trúnaður um alla ráðningarsamninga og skilyrði að starfsmenn megi alls ekki segja nokkrum lifandi manni frá innihaldi samninga og settar inn fjársektir og margskonar hótanir. „Mannauðsstjóranir“ vita semsagt upp á sig skömmina.

Það er svo sem af mörgu að taka í þessum efnum úr daglegum slagsmálum okkar starfsmanna stéttarfélaganna. Margir halda að við sitjum með hendur í skauti milli kjarasamninga. Og jafnmargir virðast halda að öll fyrirtæki bíði eftir því með öndina í hálsinum að fá að ausa yfir starfsmenn sína launahækkunum og öðrum gæðum ef þau bara fengju að gera það í friði fyrir stéttarfélögunum, sem eru sífellt að setja bönn á svoleiðis hluti í kjarasamningum!! (Hér er vísað til endurtekinna ummæla uppáhalds vitringa minna í starfsmannamálum eins og glöggir lesendur mínir átta sig örugglega á Frjálshyggjumannanna).

Hlustaði nýverið undrandi á forstjóra eins af stærri fyrirtækjum hérlendis, þar sem hann var að hrósa sér að svakalega góðri starfsmannastefnu. Þetta fyrirtæki er alræmt meðal stéttarfélaga og starfsmönnum þess að bannað að vera í stéttarfélögum.

Starfsmönnum er algjörlega bannað að sýna nokkrum manni ráðningarsamninga sína. Þrátt fyrir það höfum við fengið að sjá þá, því margir vilja vera áfram í sínum stéttarfélögum og njóta þess umhverfis sem þau hafa skapað félagsmönnum sínum með margvíslegum fjölskylduryggingum og fleiru. Fyrirtækið kemur sér hjá því að greiða í lögbundna sjóði en réttir svo starfsmönnum sínum árlega einhverja upphæð og hrósar sér af þeirri rausn.

Þessi upphæð eru jafnvel lægri en það þyrfti að greiða lögum samkvæmt og svipuð og önnur fyrirtæki sem greiða lögbundin gjöld í eru að greiða starfsmönnum að auki. Eins og t.d. í líkamsræktarstyrjk og námskeiðstyrki. Þannig að í raun er fyrirtækið að hafa af starfsmönnum sínum umtalsverð réttindi.

þriðjudagur, 18. mars 2008

Aðgerðir strax

Forsætisráðherra var með venjubundnar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar í hádeginu. Við ætlum ekki að taka upp efnahagsstjórn í þessu landi.

Þetta segir ríkisstjórnin þó svo að ávinningur af kjarasamningum er horfinn og almenningur ætlast til þess að hún komi að úrbótum í efnahagsmálum. Það er ekki almenning einn sem á blæða og ríkissjóður hagnast meir en nokkru sinni.

Ríkisstjórnin á að lækka skatta með því að flýta umsömdum hækkunum á persónuafslætti og láta hann koma til framkvæmda á þessu ári og því næsta.

Ríkisstjórnin á að hækka eignastuðla í vaxtabótakerfinu og setja þá í 20 millj. kr. Hún á að samþykkja fjármuni til tilbúinna aðgerða Jóhönnu í húsnæðismálum. Þar gæti ríkisstjórnin nýtt þær 600 millj. kr. sem verða til við afnám eftirlaunafrumvarpsins.

Ríkisstjórnin á að gera ráðstafnir til þess að verð á matvælum lækki með því að afnema verndartolla.

Ríkissjóður stendur vel og hann á að koma til móts við heimilin í landinu með aðgerðum áður en fleiri falla í verðbólgubálinu.

Ríkisstjórnin á að hefjast strax handa við að taka til í efnahagslífinu. Þar breytir í raun engu hvort við ætlum að gera okkur hæf til þess að sækja um aðild eða ekki að ESB, það er þörf á tiltekt.

Ríkisstjórnin á að efla innviði samfélagsins með því að bæta samgöngur og byrja á því að efla innanlandsflug strax með því að gera samkeppnisaðilum heimilt að hefja starfsemi.

Það liggur fyrir að stórkostlegra úrbóta er þörf í aðstöðu öryrkja og aldraðra þau verkefni eiga að vera í verkefnalista þessa árs.

mánudagur, 17. mars 2008

Endalok peningastefnunnar er runnin upp

Í allmörg ár hafa aðilar atvinnulífsins gagnrýnt þá efnahagsstjórn sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur sett hér á landi. Á sama tíma hafa forsvarsmenn þessarar stefnu hrósað sjálfum sér fyrir mikil afrek, samfara því að gera lítið úr ábendingum atvinnulífsins. Því hefur verið haldið að okkur að með þeirri efnahagsstefnu sem frjálshyggjuarmur Sjálfstæðisflokksins hefur markvisst byggt upp sé Ísland að verða að gæðaumhverfi sem fjármálastofnanir vilji komast til. Ekkert er fjær lagi, það er gert gys af íslensku efnahagslífi.

Ekki hafa hinir ofurlaunuðu útrásarpiltar aukið á traust okkar, og þeir eru fáir meðal almennings hér á landi sem það gera. Þeir hafa nýtt sér stöðu sína til þess að hrifsa til sín hluta af þeim arði sem launamenn hafa safnað saman í lífeyrissjóðum frá árinu 1970.

Helstu rök valdhafanna gegn því að ganga til liðs við það efnahagsumhverfi sem nágrannaríki okkar hafa byggt upp með góðum árangri, og við höfum reyndar notið góðs af, hefur verið sú að það sé svo gott að hafa okkar eigin gjaldmiðil því þá getum við varið atvinnulífið fyrir atvinnuleysi.

Það hefur oft komið fram að hlutverk þessa gjaldmiðils er það eitt í augum stjórnenda íslenskra efnahagsmála af hafa af launamönnum umsamdar launahækkanir og halda þeim í ríki ofurvaxta og ofurverðlags fákeppninar.

Sú peningamálastefna sem Sjálfstæðisflokkurinn fylgir, hefur í raun einungis aukið sveiflurnar í efnahagslífinu. Íslenskt efnahagslíf er fyrir allnokkru vaxið langt upp yfir örkrónuna.
Seðlabankastjóri og fylgisveinar hans í stjórn bankans hljóta að víkja, ásamt því að vikið verði af slóð glötunnar og tekist á við þann vanda sem röng stefna í efnahagsmálum hefur leitt yfir okkur.
Hefja verður skipulagða hreinsun og gera íslenskt efnahagslíf tækt í það evrópska.

Tími háspennulína liðinn!!??


Launafli má líkja við froðu í bjórglasi

Í desember síðastliðnum kom fram að umhverfisnefnd Alþingis vildi skipa nefnd til að móta stefnu um hvernig leggja megi allar raflínur sem nú eru ofanjarðar í jörð á næstu áratugum.

Á forsíðu Moggans í morgun segir varaformaður Orkveitunnar að tími háspennulína sé liðinn, vegna þess að verð á stáli hafi hækkað svo mikið. Jarðstrengir séu í þróunn en háspennulínur ekki. Ósköp væri nú gott ef stjórnmálamenn kynntu sér tækniatriði betur áður en þeir rjúka í fjölmiðla.

Það er skelfilegt þegar stjórnmálamenn detta inn í stjórnir tæknifyrirtækja og valda þar stórkostlegum sköðum með fávisku sinni. Þar er Orkuveitan að verða kennslubókardæmi.

Þeirri stefnu hefur verið fylgt alllengi hér á landi að línur í fjölbýli eru settar í jörð, enda eru þar dreifikerfi sem eru með mun lægri háspennu en eru í flutningslínum frá virkjunum til fjölbýlis. Um allangt skeið hefur verið unnið að því að fella 11 Kv (hér ritaði ég í fljótfærni KW allir sem eitthvað vita um rafmagn sjá það var ekki rétt) milli bæja í sveitum og koma strengjum í jörðu. Í dag fer maður í gegnum heilu sveitarfélögin án þess að sjá loftlínur milli sveitabæja, sérstaklega á Norðurlandi.

Í þessum tilfellum er um að ræða allt aðrar spennustærðir en t.d. eru til stórnotenda eins og t.d. álver. Línurnar þangað bera 220 þús. volt. Það er stórmál að koma stórum línunum í jörð, til þess þarf að byggja mikla steypta stokka og það veldur miklu jarðraski. Þar er mikil olía í notkun og mikil hætta á umhverfisslysum og jarðvatn í mikilli hættu.

Ef koma á 220 þús. volta dreifikerfinu í jörð og hringlínunni, kostar það um 300 milljarða. En það er ekki allur pakkinn. Jarðstrengir auka launafl verulega, sérstaklega á lengri vegalengdum. Launafl veldur miklu orkutapi. Það upphefst mikil orka við launaaflið í strengjunum. Ef allar stóru línurnar okkar verða settar í jörð samsvarar það því að öll orka Búrfells gufaði upp.

Launafli má líkja því við froðu. Á myndinni frá ABB er góð útskýring á því hvað launafl er.

sunnudagur, 16. mars 2008

Umfjöllun um dómsniðurstöður

Undanfarna daga hafa komið fram hugmyndir um að dómarar taki þátt í umræðu um dóma. Kvartað er undan því að þeir sitji undir ósanngjarnri umræðu og niðurstöður þeirra dregnar í efa.

Það er mitt mat að þarna sé umfram annað um að kenna óvandaðri umfjöllun fréttamanna um dóma. Oft fjalla fréttamenn einungis um aðra hlið málsins og fram kemur að þeir hafa lítt kynnt sér dómsorð og rök dómara. Ef dómur er lesinn þá koma þar fram á hvaða forsendum dómari hafi dæmt.

Stundum er það svo að lögmaður er fengin sem álitsgjafi um eigin mál og niðurstöðu dómara. Þetta á sérstaklega við fréttastofu Sjónvarps og Kastljósið. Ítrekað eru það sömu lögmenn sem fengnir eru til þess að mæta.

Þeir úthúða ætíð gagnaðila og hafa jafnvel í frammi allskonar hótanir um meiðyrðamál og fleira. Hér vísa ég sérstaklega til nokkurra mála sem snúa að réttindamálum erlendra launamanna og ummæli um starfsmenn stéttarfélaga sem þessir lögmenn viðhafa.

Maður tekur svo eftir að þegar Hæstiréttur hefur komist að niðurstöðu þá kallar fréttastofa Sjónvarpsins ekki á þann aðila sem var úthúðað skömmu áður. Reyndar varð á þessu athyglisverð 180°breyting í vikunna þegar Hannes Hólmsteinn fékk sinn dóm. Þá var eins og áður kallað í lögmann hans og hann var með harla einkennilegar yfirlýsingar um dóminn og þann „sigur!!?“ sem hann hefði unnið. Ekki var rætt við fjölskyldu Halldórs.

Mér finnst það einkennilegt að hæstaréttardómarar finni hjá sér þá þörf að útskýra sína persónlegu skoðun. Maður stendur allavega í þeirir trú að þeir dæmi eftir lögum eins og þau eru hverju sinni. Ef það kemur í ljós að viðhorf þjóðfélagsins hafi breyst þá er það vitanlega löggjafans að breyta lögum eða setja ný.

laugardagur, 15. mars 2008

Flugkúnstir borgarstjórnar

Skrifstofuglugginn minn snýr að Grafarvoginum þar er mikið fuglalíf. Vogurinn tæmist á fjöru og upp koma leirur með fullar af æti. Suðurbakki vogsins er nokkuð brattur og oft uppstreymi sem krummi og mávarnir nýta til þess að svífa fram og tilbaka.

Ef hvessir bregða krummarnir á leik. Það gaman sjá til flugkúnsta þeirra í uppstreyminu. Þeir fljúga oftast tveir og tveir saman. Velta sér og fljúga á hvolfi velta sér og fara kollhnýsa. Oft tekur einhver þeirra spýtukubb og þeir slást um að ná honum á fluginu. Mest gaman er að horfa til flugæfinganna þegar einhver þeirra tekur steinvölu flýgur með hana hátt upp og sleppir henni síðan. Þá steypa þeir sér á eftir henni og keppast um hver sé fyrstur á ná völunni. Snillingar í loftfimleikum.

Við blasir botn vogsins þar sem stendur ónýtt Keldnalandið. Besta staðsetning Landspítalans. Vegamót Vesturlands og Suðurlandsvegar eru við Keldnalandið. Greiðar leiðir til miðborgarinnar og byggðanna sem eru sunnan við höfuðborgina og til Suðurnesja. Stutt til Geldingarnessins þar sem innanlandsflugið og samgöngumiðstöð væru vel staðsett eftir að Sundabrautin er kominn.

Og við myndum minnka umferð um Miklubrautarhnútinn um einn 5000 manna vinnustað.

En við höfuðborgarbúar höfum kosið háskólakrakka í borgarstjórn og þau kunna ekkert til verklegra framkvæmda og hafa engan áhuga á öðru en opnun listviðburða og tónleikum og lífinu á kaffihúsum 101. Þar fer líka fram þjálfun ungliða flokkanna. Milli þess að þau sitja námskeið í útúrsnúningatækni og keppa svo í þeim leik í sínu starfi.

Engar niðurstöður nást á borgarstjórnarfundum sakir þess að þau eru ekki þjálfuð til þess að taka ákvarðanir. Þau eru þjálfuð til þess eins að koma í veg fyrir að andstæðingurinn nái árangri í starfi. Það hrökkva reyndar í gegn ákvarðanir um hækkun nefndarlauna og launa borgarstjórnarmanna, ásamt fríum tölvum og nýjustu tegund GSM síma.

Laun fyrir að sitja einn ákvarðanalausan fund eru jöfn mánaðarlaunum leiksskólaliða eða um 130 þús. kall. En stelpurnar í borgarstjórn telja að þær geti ekki komist af við rekstur sinna heimila með minna en 600 þús. til milljón á mánuði. En þær samþykkja svo að senda kynsystrum sínum frímiða í sund og á málverkasýningar til þess að bæta upp 130 þús. kallinn og mæta svo í Silfrin og Kastljósin með ræður um launabætur borgarstarfólks, sem eru svo arfavitlausar að maður skiptir yfir á Sýn og horfir frekar á gamlan fótboltaleik.

Á þetta spilar svo samgönguráðherra og nýtir stöðu sína til þess að eyða tugum milljarða í vegaframkæmdir í kjördæmi sínu. Hann ætlar svo að eyða nokkrum milljörðum í að tvöfalda veg sem Vegargerðin hefur nýlokið við að gera góðan. En láta vegaspottan milli Hveragerðis og Selfoss eiga sig, þó svo að safnist upp hver krossinn á fætur öðrum við Kögunarhól til minningar um fallna samborgara á þessari leið.

Og krummarnir leika sér í hver sér snjallastur í flugkúnstum og borgarstjórnarmenn apa það eftir.

fimmtudagur, 13. mars 2008

Slök þekking Heimssýnar

Var á leið upp í Bláfjöll á skíði eftir vinnuna. Veðrið ákaflega fallegt hér niður frá, en þegar upp í lyftuna var komið og leið upp á topp varð hvasst og erfitt skyggni. Heiðmyrkur eins og svo oft er í Bláfjöllunum.

En á leið uppeftir mættu í síðdegisútvarp Rásar 2 Ragnar Arndalds og Stefán Jóhann frá Heimssýn til þess að koma á framfæri sínum sjónarmiðum til jafnvægis við það sem var sagt í gær um nýju bókina um Evruna.

Ætlaði að bíða í bílnum og hlusta á allt viðtalið þó svo ég væri kominn á síðustu metrana. Viðtalið byrjaði á yfirlýsingu þeirra að þeir væru ekki búnir að lesa bókina, einungis inngang og lokaorð, en samt ætluðu þeir að fara yfir innihald hennar. Hmmm??!!

Að þeirra mati var bókin klár einhliða áróður um Evru og ESB og svo kom hin klassíski hræðsluáróður;“Auðvitað vilja íslendingar ekki flytja hingað meðaltöl ESB og menn vita að það er 7% atvinnuleysi innan ESB og það vill engin flytja það inn til Íslands“

Jabb. „Thank you for this program“ hugsaði ég og slökkti á útvarpinu og skellti mér út á skíðin.

Öll vitum við, utan þessara tveggja góðu manna að því virðist, að íslenskur vinnumarkaður er búinn að vera hluti af evrópska efnahagssvæðinu í nokkur ár sem var útvíkkaður yfir öll nýju löndin 1. maí 2006 og við tókum þátt í því. Þannig að innganga í ESB breytir nákvæmlega engu um þetta. Við höfum búið við frjálst flæði launafólks á evrópska efnahagssvæðinu allan þennan tíma og það hefur tekið dyggan þátt í verðmætaaukningunni fyrir okkur hér á hina ísakalda landi sveiflugjarnar krónunar og blankra bankastráka.

Og peningastefnu Hrokkinkolls í Svartstein á Arnarhól, sem gerir ekkert annað en að auka ennfrekar sveifluna ein sog hagfræðingar benda á.

Af hverju eigum við að flytja inn eitthvert meðaltal. Erum við ekki á svipuðum slóðum og þeir bestu innan ESB?? Er það skylda að mati Heimssýnar að stefna að meðaltali hér?

Einkennilegt að menn sem gefa sig út fyrir að vera í forsvari fyrir samtök sem hafa það að helsta markmiði að fjalla um þessi mál, skuli ekki vita betur.

Æi, leiðinlegt. Það er nefnilega svo mikið skemmtilegra að skiptast á skoðunum við fólk sem hefur til að bera staðgóða þekkingu.

En eins og maður heyrir svo víða á kaffistofunum, þá er flótti brostinn á liðið og klisjurnar standa óvarðar í fjúkinu. Eins og eyrun mín er húfan hvarf út í buskann er ég sveigaði niður Kóngsgilið með norðvestan garrann í fangið.

Samgönguráðherra uppvís að ósannindum

Ég var einn af mörgum sem furðaði mig á því sem haft var eftir samönguráðherra í byrjun þessa árs þegar hann virtist vera búinn að setja Vaðlaheiðagöng í forgangshrað. Þessu mótmælti ráðherrann harðlega og sagði í fjölmiðlum að þetta væri miskilningur.

Nú er komið í ljós að samgönguráðherra er samur við sig og sagði þjóðinni ósatt og ástundar af krafti venjubundið kjördæmapot.

Hvað varðar jarðgöng þá liggur það fyrir að göng milli Eskifjarðar og Norðfjarðar er framkvæmd, sem var sett sem ein af forsendum þegar ákvörðun var tekinn um að reisa álver í Reyðarfirði.

Sjúkrahúsið er á Neskaupstað og hluti vinnuafls áversins kemur einnig þaðan og ekki síst að þar er sjúkraflugvöllur fyrir Fjarðabyggðirnar. Oft er ófært um Fagradal og Oddskarð.

Göngin um Oddskarð í raun ónýt, þau eru langt upp í fjalli og í göngunum eru flutningabílar að festast og blokkera umferð tímum saman.

Samgönguráðherra er samur við sig.

Áform um Sundabraut eru orðin þrítug og samgönguráðherra ætlar sér að koma í veg fyrir þá framkvæmd eins og forveri hans gerði.

Samgönguráðherra er samur við sig.

Þessu til viðbótar er það klárlega arfavitlaust að byrja á því að tvöfalda veginn yfir há Hellisheiðina. Þetta vitum við sem förum þar um reglulega. Það er spottinn frá Rauðavatni og upp á Sandskeið sem ætti að tvöfalda strax og hafa síðan 2+1 veg yfir heiðina og tvöfalda svo frá Kömbum til Selfoss. Það mætti tvöfalda háheiðina síðar.

En það er nú reyndar svo að það er hættulegt að leggja 2x2 veg yfir háheiðina, sakir þess að umferðarþunginn er ekki nægilegur til þess að hreinsa sporin og það er verið að bjóða óþarfa hættu heim með þessum áformum.

Samgönguráðherra er samur við sig.

miðvikudagur, 12. mars 2008

Kann fjármálráðherra ekki að reikna?

Á undanförnum misserum hafa prófessorar í Háskóla Íslands ítrekað bent á það með mjög góðum rökum að skattbyrði tekjuminna fólks hafi hækkað hér á landi á meðan skattbyrði tekjuhárra hafi lækkað.

Þetta hafa hagfræðingar verkalýðshreyfingarinnar staðfest og t.d. hefur sú krafa verið ofarlega hjá stéttarfélögunum að ríkisstjórin leiðrétti barnabóta- og vaxtabótakerfin. En ríkisstjórnin lét skerðingarmörk vera óbreytta í krónum talið og lækkaði bætur í þessum kerfum um nokkra milljarða á síðustu árum. Sama gilti um persónuafslátt.

Þetta var að nokkru leiðrétt í nýgerðum kjarasamningum og ætti að koma til framkvæmda fljótlega þar sem launamenn eru búnir að samþykkja samningana .

Þessum ábendingum var svarað með miklum þjósti af hálfu ráðherra Sjálfstæðisflokksins í kosningabaráttunni í fyrra og bornar kostulegar sakir á þá voguðu sér að vera þeim ekki sammála. Menn kynnu ekki að reikna, eða væru einhver Dyrhólagimpi og hvað það var nú allt saman sem þeir létu svo smekklega frá sér fara.

Í umfjöllum um skattabreytingar sem voru til umræðu við gerð kjarasamninganna kom fram hjá fyrrv. skattstjóra að þetta væri rétt og skattbyrði hjá hinum tekjulægri hefði aukist um 7% í samnsburði við skatta hinna tekjuhærri.

Nú hefur OECD staðfest þetta. En þrátt fyrir það er fjármálaráðherra með kostulega útúrsnúninga í fréttum þegar hann er spurður út í þetta. Það er ekki hægt annað en velta því fyrir sér hver stærðfræðikunnátta hæstvirts fjármálaráðherra sé. Svo notuð séu hans eigin orð.

Er útilokað að fá vitræna umræðu frá íslenskum stjórnmamönnum?

ASÍ 92 ára


Í grein í Dagskrá árið 1896 um "Félagsskap verkamanna" hvatti Einar skáld Benediktsson til þess að stofnuð yrðu verkamannafélög: ."Hér á landi eru slík samtök nær því óþekkt enn, og er þó auðsætt, að þau gætu komið að miklu gagni hér eins og annars staðar, ef þau aðeins væru sniðin rétt eftir öllum ástæðum lands og þjóðar. Sérstaklega gætu samtök verkamanna í Reykjavík hjálpað miklu til þess að bæta kjör hinna fátækari, starfandi borgarastéttar og jafnframt einnig aukið velmegun bæjarins í heild.

Þannig löguð samtök miða að því að varðveita einstakan verkamann eða iðnaðarmann gegn samkeppni eða undirboði stéttarbræðra sinna og um leið halda uppi réttu hlutfalli milli þess hagnaðar, sem vinnuveitandi hefur, og þeirra launa sem hann geldur fyrir vinnuna. Því meiri sem fátæktin er meðal verkamanna og því lægra sem allar vinnuafurðir eru metnar til peninga, því nauðsynlegri er þessi félagskapur og því meiru góðu getur hann komið til leiðar.


Ef verkamennirnir færu að halda saman mundu auðmennirnir vanda sig betur og græða það á dugnaði og fyrirhyggju sem þeir vinna nú að ódýrleik allra starfsmanna við framleiðslu og iðnað. Og því fyrr sem félagsskapur verkamanna byrjar því fyrr kemst hinn starfandi, arðberandi kraftur í þjóðinni til þeirra valda sem honum ber með réttu, jafnt hér eins og annarsstaðar í heimi".


Saga verkalýðshreyfingarinnar hér á landi hófst í raun þegar skútukarlafélagið Báran var stofnað árið 1894. Fyrr það ár höfðu eigendur þilskipa stofnað með sér Félag útgjörðarmanna við Faxaflóa. Aðalforgöngumaður þess var Tryggvi Gunnarsson bankastjóri, en hann hafði þá nýverið beitt sér fyrir því að keyptir voru 8 stórir kútterar til Reykjavíkur.

Árið 1894 voru íbúar Reykjavíkur 4031, en 9797 árið 1906 þegar verkamannafélagið Dagsbrún var stofnað. Úr vexti bæjarins dró árið 1908 en aftur tók hann kipp árið 1911 og var fólksfjöldinn orðinn liðlega 14.000 í ársbyrjun 1916. Árin 1906-1908 voru gróskuár í upphafi verkalýðshreyfingarinnar.

Sunnudaginn 12. mars árið 1916 var stofnþing ASÍ og Alþýðuflokksins sett í Bárubúð. Fjöldi stofnfélaga var um 1500. Þingið setti Jónas frá Hriflu. Hann var leiðandi maður í samningu stefnuskrár ASÍ og Alþýðuflokksins. Honum er eignuð sú hugmynd að gera þessi tvenn samtök að einni félagslegri heild, en svo var allt til ársins 1940. Á stofnþinginu var Ottó N. Þorláksson kjörinn fyrsti forseti ASÍ.

Verkamenn unnu stórsigur í bæjarstjórnarkosningum árið 1916. Þessi óvænta uppákoma kom eins og köld vatnsgusa yfir borgarastétt Reykjavíkur. Morgunblaðið sagði frá úrslitunum: "Verkamannahreyfingin hér í bæ minnir á kvennahreyfinguna hér um árið, fer geyst á stað og endar með deyfð og áhugaleysi. Öðru vísi getur ekki farið vegna þess að byggt er á óeðlilegum grundvelli. Það er verið að reyna að æsa verkamenn til stéttarrígs, sem hér hefur ekki þekkst áður, og er það illt verk og óheiðarlegt, getur engu góðu komið til leiðar, en mörgu illu. En vér trúum því að alþýða hér hafi svo næma dómgreind að hún sjái villuna áður en í óefni er komið".

Löngun manna til þess að verða sjálfs sín herra var mikil. Menn vildu öðlast frelsi til þess að afla tekna með eigin vinnuafli og njóta afraksturs vinnu sinnar. Margar lýsingar eru til um vinnutíma verkafólks í Reykjavík áður en verkalýðsbaráttan hófst.

Þetta birtist í Ísafold árið 1889:"Í Reykjavík og víðar í verslunarstöðum gengur sama óreglan, að daglaunamenn verða að vinna hjá kaupmönnum óákveðinn vinnutíma og þar á ofan er þar beitt allmikilli hörku, ég vil segja harðýðgi við verkamennina; verða þeir að vinna frá því snemma á morgnana, stundum frá því stundu fyrir miðjan morgun (þ.e. kl. 5.00) til kl. 22.00 á kvöldin; og þar við bætist, að þeir fá engan ákveðinn tíma til að neyta matar, heldur verða nærri því að stelast til að rífa í sig matinn undir pakkhúsveggjum og á bryggjunum, eins og hungraðar skepnur eða siðlausir mannsmenn. Skyldi í nokkrum höfuðstað nokkurs lands vera farið þannig með menn sem eru frjálsir í orði kveðnu? Og á ekki hingað rót sína að rekja sljóleiki sá og hugsunarleysi, deyfð og doði, sem gjörir daglaunamenn almennt svo vanafasta og framtakslausa?"

Á þessum árum var hin alræmda "milliskrift" í algleymingi, þ.e. að vinnulaun voru aldrei greidd í peningum, heldur eingöngu í vörum, er reiknaðar voru hærra en peningaverðið var.

Þjóðólfur komst svo að orði um þessi mál í 32. árg., 180. tbl.: "Hið sanna er, að verstu ævi í þessum höfuðstað vorum eiga gamlir þægir útigangshestar og þar næst gamalt, heilsulaust kvenfólk, sem félaust og munaðarlaust er að reyna að hafa ofan af fyrir sér".

Haraldur Guðnason segir í Vinnunni árið 1945 um "Kjör verkafólks á Íslandi á 19. öld"; "Árið 1870 var hæsta vinnumannskaup á Suðurlandi 48 kr. og auk þess fjögur föt og kindafóður. Sumir vinnumenn sunnanlands höfðu hálfan hlut sinn um vetrarvertíðina í árskaup. Þóttu það hin mestu kostakjör, ef skipsrúm voru góð og miklu betra en 48 kr. Í hlut vinnuveitandans féll svo hálfur vertíðarhluturinn og vinna verkamannsins allt árið utan vertíðar. Vinnukonukaup var 16 kr. á ári að meðaltali eða 12-20 kr., auk 3-4 föt og kindafóður eitt. Kaup norðanlands var svipað víðast hvar.

Verkafólk 19. aldarinnar hafði ekki kosningarétt og konur ekki heldur, þótt húsfreyjur væru. Kosningarétt höfðu einungis búendur. Að vísu höfðu tómthúsmenn kosningarétt, en til þess að öðlast hann, urðu þeir að greiða 6 ríkisdali í útsvar. Með öðrum orðum: eignin hafði kosningarétt. Árið 1855 voru 140 tómthúsmenn í Reykjavík. 6 þeirra greiða 6 rd. í útsvar, 134 eru réttlausir á vettvangi landsmálanna. Árið 1847 var kosningaréttur bundinn við 10 hundraða fasteign. Þá höfðu jafnvel sumir embættismenn ekki kosningarétt, ef þeir áttu ekki áskilda eign."

Pétur Pétursson verkamaður giftist árið 1909 og fór að búa í litlu herbergi með eldunarplássi á Hverfisgötunni. Hann sagði: "Um leið hóf ég þunga göngu sem stóð óslitið í 4 ár og verður mér ógleymanleg eins og ég hugsa að fari fyrir öllum sem hana hafa orðið að þreyta. Ég gekk um eyrina í Reykjavík og snapaði eftir vinnu; elti alla þá, sem höfðu yfir einhverri vinnu að segja, og þá fyrst og fremst verkstjórana. Þarna var ég nafnlaus verkamaður í stórum hóp nafnlausra verkamanna. Ef mér tækist ekki að fá eitthvað að vinna í dag, fengjum við ekkert að éta á morgun. Og allir vorum við undir sömu sökina seldir. Þetta var erfitt líf og niðurlægjandi. Ég fór oft að heiman frá mér án þess í raun og veru að nokkuð væri til á heimilinu; fór eldsnemma morguns og rölti um eyrina, gægðist inn í pakkhúsin og elti verkstjórana. Mjög oft fékk ég ekkert að gera. Gangan heim var þá oft mjög þung en léttari var hún ef manni hafði tekist að næla sér í ýsu á leiðinni heim. En þegar manni tókst að fá eitthvað að gera, virtist manni lífið blasa við, fagurt og heillandi"

þriðjudagur, 11. mars 2008

Afgreiðsla kjarasamninga


Það gilda svoköllið Pálslög um gerð kjarasamninga. Þar segir að þegar ekki er lengra komist í Karphúsinu verði að bera fyrirliggjandi samningsdrög undir þá félagsmenn sem þiggja laun samkvæmt viðkomandi kjarasamning. Sama gildir um þau fyrirtæki sem eiga að greiða þau laun sem samið er um.

Það er niðurstaða þessara kosninga sem ákvarða hvort samningsdrögin taki gildi. Það er ekki samninganefnd stéttarfélaganna sem tekur þessa ákvörðun, eins og allmargir sem fjalla um kjarasamninga virðast halda.

Sumir taka þannig til orða, oftast stjórnmálamenn, að það sé viðkomandi stéttarfélag sem einhendis geri kjarasamninga við sjálft sig og það sé samninganefnd viðkomandi stéttarfélagi til skammar hversu lág laun hún semji um.

Hér eru stjórnmálamenn að lýsa eigin vinnubrögðum, sem með sjálftöku lagfæra eigin laun, eins og mikið hefur verið rætt að undanförnu. Þeir hafa svo að auki tekið sér það vald að hafna kröfum skattgreiðenda með því að beita fyrir sig kerfisköllum sem eru settir sem formenn nefnda.
Steininn tekur svo úr þegar aðalkerfiskall Alþingis mætir í fjölmiðla og hreykir sér af því hversu mörgum óþægilegum málum honum hafi tekist að stinga undir stól og sendir landsmönnum tóninn með sínu einstaklega hrokafulla orðalagi eins og „Auðvitað er .....“, „Augljóst er....“, „Vitanlega sjá allir...“, "Það þarf ekki að ræða það frekar......."

Það er eins og sumir telji að stéttarfélögin starfi í sama umhverfi og þeir. Atkvæðagreiðsla félagsmanna skipti engu, þó svo þeir hafi nú sjálfir sett umrædd lög um hvernig eigi að framkvæma þær. Ætla má sé litið til orða þeirra að formaður viðkomandi stéttarfélags leggi fyrir forsvarsmenn fyrirtækjanna tilbúinn kjarasamning og þau samþykki hann umyrðalaust.

Ef félagsmenn samþykkja samningin er málið dautt, eins og menn segja í dag. Þá eru stéttarfélögin bundin friðarskildu til næstu samninga. Ef félagsmenn aftur á móti fella samningsdrögin, þá fyrst geta samninganefndarmenn leitað eftir verkfallsheimildum eða öðru til að þrýsta á um að ná lengra.

Kjarasamningar voru hér á árum áður ætíð afgreiddir á félagsfundum með handaruppréttingu. Sem leiddi til þess að oftast var verið að afgreiða kjarasamninga með ákaflega lágu þátttökuhlutfalli og sá fjöldi fór sífellt lækkandi. Enda fólk ekki duglegt við að sækja þannig fundi.

Í framangreindum Pálslögum var tekið á þessu máli og sett það skilyrði að ef kjarasamningur væri afgreiddur á félagsfundi þá urðu að vera amk 20% sem greiddu atkvæði, ef þátttaka var undir því skoðast samningurinn samþykktur sama hver niðurstaða atkvæðagreiðslunnar er.

En ef kjarasamningur er afgreiddur með allsherjar póstatkvæðagreiðslu þá gildir einfaldur meirihluti.

Þeir samningar sem nú er verið að afgreiða snúast um að hækka lægstu laun sérstaklega. Það virðist vera svo að þeir fjölmörgu sem ekki eru að fá launabreytingar nú vegna þessa, vilji ekki taka þátt í kosningum um samningana. Þetta sé aðgerð sem þeir vilja ekki skipta sér að.

Reyndar er það svo að það er verið að afgreiða óvenjuleg mörg atriði sem hafa staðið deilur um á undanförnum árum, enda eru kjarasamningarnir allmargar blaðsíður og munu marka tímamót í nokkrum málum.

mánudagur, 10. mars 2008

Ekki allir stjórnmálamenn fáfróðirFékk smá bréfkorn frá einum af föstum álitsgjöfum Silfurssins, með ábendingu um að það væri of sterkt til orða tekið hjá mér að tala um að umræða allra stjórnmálamanna í Silfrinu beri þess merki að menn væri ekki búnir að kynna sé málið.

Það er kannski rétt að einhverju leiti, en hér er smá útskýring.

Það eru nú svo að t.d. VG menn vilja fá vandaða greiningu. Hún er til.

Félagslegur jöfnuður er eitt aðaleinkenni þess sem ESB reglugerðir einkennast af og hefur haft í mörgum tilfellum góð áhrif á stöðu launamanna hér á landi.

Styrkir til samgöngubóta jaðarbyggða er eitt af einkennum fjármálastefnu ESB og myndi koma okkur að góðum notum við lagfæringu á okkar meingallaða samgöngukerfi.

A.m.k. sumir framsóknarmenn eru með fullyrðingar um landbúnað, sem eru ekki í samræmi við það sem fram hefur komið um styrki ESB til landbúnaðsins og þá sérstaklega á jaðarsvæðum.

Frjálslyndir eru ásamt Sjálfstæðismönnum með fullyrðingar um sjávarútveginn sem ekki standast. Það hefur komið fram á ráðstefnum hér heima frá toppum ESB og eins erlendis, að við komum til með eftir sem áður að stjórna okkar veiðum. Jafnvel fá styrki frá sambandinu ef eitthvað fari úrskeiðis.

Sömu aðilar eru með hræðsluáróður um vinnumarkað og yfir okkur flæði atvinnulaust fólk í tugþúsunda vís. Við erum búin að vera aðilar af frjálsu flæði launafólks á ESB svæðinu í allmörg ár og útvíkkuðum það fyrir tveim árum.

Erlendir launamenn sem hingað hefur komið fylla upp í störf sem við viljum ekki, a.m.k. á meðan þessi spenna er á vinnumarkaði og hið erlenda fólk er fyrst til þess að fara þegar atvinna minnkar hér. Erlendir launamenn eru nefnilega alveg eins og við, vilja helst vera heima hjá fjölskyldu sinni og hafa engan sérstakan áhuga á að vera hér of lengi. Enda koma a.m.k. sum fyrirtæki þannig fram við þá að ég skil þá allavega mjög vel. Enda verið sektaður fyrir að segja það.

Hinir erlendu gestir okkar hafa í raun verið ein af undirstöðum þeirrar verðmætaaukningar sem átt hefur sér stað undanfarin misseri og haldið auk þess verðbólgu niðri.

Sú uppbygging sem átt hefur sér stað í kjölfar uppbyggingar ESB hefur leitt til aukins kaupmáttar í Evrópu og umtalsverðar stækkunar þess markaðar sem við erum að selja okkar vörur inn á. Einnig er hún undirstaða þeirrar útrásar sem íslensk fyrirtæki hafa staðið að á undanförnum árum.

Á þeim grundvelli er t.d. gjörsamlega útilokað á hvaða forsendum Sjálfstæðismenn byggja sína afstöðu. Því Illugi og Hólsmteinarnir allir saman eru ætíð að hrósa hinni séríslensku leið og þeirri tekjuaukningu sem hún hefur verið að skila íslenskum fyrirtækjum. Hvert eru þeir í raun að fara með málflutning sínum? Ég bara skil það ekki og það á við mjög marga.

Eftir stendur það sem ég hef margoft sagt, þeir sem hafa verið við völd frá 1992 virðast einungis vilja passa upp á sín völd og óttast að sú tiltekt sem fara verður fram ef við viljum ganga inn, muni staðfesta þá heiftarlegu gagnrýni sem aðilar vinnumarkaðsins hafa sett fram um efnahagsstjórn undanfarinna ára. Og öll þau öfugmæli sem þeir hafa byggð sína afstöðu á.

Ég mun allavega standa í þessari trú þangað til annað kemur fram.

Drottin blessi heimilið og friðinn, það er nú full þörf á því þessa dagana.

sunnudagur, 9. mars 2008

Umræðan um Evrópuaðild


Í Silfrinu í dag kom enn einu sinni glögglega fram hversu lítt grunduð umræða stjórnmálamanna er um Evrópuaðild. Endurteknar fullyrðingar byggðar á tilfinningarökum. Það virðist vera í raun einungis eitt sem komi í veg fyrir eðlilega umræðu, það er ótti tiltekinna stjórnmálamanna að viðurkenna þá staðreynd að þeir hafi haft rangt fyrir sér.

Fram kom fullyrðing um opnun atvinnumarkaðar og hræðsluáróður um flutning atvinnuleysis til Íslands. Ísland er hluti af Evrópska efnahagsvæðinu og við höfum búið við frjálst flæði vinnuafls af því svæði í nokkur ár. Oft er vitnað til atvinnuleysi á þeim svæðum sem lakast eru sett innan Evrópusambandsins.

Það er nú svo að ástand vinnumarkaðs er ákflega misjafnt innan Evrópusambandsins og staða okkar mun ekkert breytast nemar síður væri. Þar má vitna til ummæla allra forstjóra íslenskra fyrirtækja sem stunda útflutning, þeir eru sammála um að það myndi styrkja stöðu fyrirtækjanna töluvert ef Ísland gangi í sambandið. Þeir gera grín af orðum Illuga og annarra sjálfstæðismanna um að við séum í sterkari stöðu utan sambandsins.

Rætt er um að Ísland sé smáríki og hafi engin áhrif á gang mála í Brussel. Við höfum búið við það í allmörg ár að 75 - 80% af reglum og lögum Evrópusambandsins taka gildi hér án nokkurra afskipta okkar. Það væri nú nær að við gerðumst þátttakendur og hefðum þá einhver áhrif.

Fullyrt að að við afsölum okkur fullveldi og verðum amt í Evrópusambandinu. Er hin norðurlöndin búin að afsala sér fullveldi. Ég er töluvert þar við störf og hef ekki heyrt nokkrun Dana, Svía eða Finna taka þannig til orða.

Því er hiklaust haldið fram af þeim sam hafa kynnt sér þessi mál og starfað í Brussel að íslenskur landbúnaður fengi umtalsvert meiri stuðning ef við værum aðilar.

Sama gildi um styrki til þess að byggja um samgöngukerfið á landsbyggðinni.

Kvótaúthlutun innan Evrópusambandsins er ákveðin á grundvelli veiðireynslu og ríki ESB veiða ekki í íslenskri lögsögu. Það tryggir að kvóti í stofnum innan íslenskrar efnhagslögsögu mun haldast hjá íslenskum stjórnvöldum sem geta ráðstafað honum með þeim hætti sem þau sjálf kjósa.

Sú staðreynd liggur fyrir að staða heimilanna mun styrkjast umtalsvert ef af inngöngu verður sama gildir um stöðu fyrirtækjanna.

En við búum aftur á móti við stjórn kerfiskalla sem óttast að það eitt að missa völdin. Það hefur margítrekað komið fram að þeim er slétt sama um allt annað.

laugardagur, 8. mars 2008

Lífeyrissjóðir bankanna

Undanfarinn áratug eða svo hafa bankarnir sótt mjög inn á lífeyrissjóðamarkaðinn, ekki síst séreignasjóðina. Þeir hafa verið með margskonar boð í gangi um sérkjör þeirra sem flytji sig frá almennum lífeyrissjóðum atvinnugeiranna, yfir til bankanna með lífeyris- og séreignasparnað sinn.

Bankarnir hafa varið hundruðum milljóna króna í auglýsingar og kynningarherferðir, á meðan þingmenn settu ströng lög sem takmörkuðu svigrúm almennu lífeyrissjóðanna á þessum vettvangi.

Kynningarfulltrúar bankanna fóru víða og varð vel ágengt. Þeir byggðu söluaðferðir sínar oft á því að gera almennu lífeyrissjóðina tortyggilega og fólk ætti ekki að setja öll eggin í eina körfu.

Allir sem eitthvað þekkja til á fjármálamarkaði vita að þetta er fjarstæða og villandi áróður bankanna, engir eru með með eins dreifðar fjárfestingar og einmitt almennu lífeyrissjóðirnir.

Við höfum síðan orðið vitni að því hvernig bankarnir hafa notað þetta fé til útrásar og svo æðisgenginna launasamninga sinna forkólfa, ásamt bólgnum starfslokasamningum, ráðningarsamningum, kaupréttarsamningum og hvað þetta heitir nú allt saman. Öll vitum við að fjármunir til þessara útgjalda bankanna rignir ekki niður af himnum, þau eru tekin út í lakari kjörum sparifjáreigenda og ávöxtun lífeyrisjóðanna sem þeir stjórna.

Nú er sú staða kominn upp að nettó skuldir íslendinga eru komnar upp í 1800 milljarða og það mun taka okkur áratugi að komast út úr þessu. Það hlýtur þessa dagana hljóta að vera renna vomur á margra þeirra sem trúðu sendifulltrúum bankanna og treystu þeim fyrir lífeyrissparnaði sínum.

En bankaforkólfarnir eru svo bíræfnir og hafa reyndar fengið undirtektir hjá nokkurm þingmönnum um að nú eigi almennu lífeyrisjóðirnir að koma til hjálpar strákunum í bönkunum og láta þá líka fá það sparifé sem er í almennu lífeyrissjóðunum.

Reyndar úr því ég er kominn á þessar slóðir, þá er kannski rétt að benda þeim sem oft eru að beina spjótum sínum að vali stjórnarmanna í almennu lífeyrissjóðanna. Sú gagnrýni er að því leiti rétt að framkvæmdastjórn SA skipar helming stjórnarmanna, á meðan eigendur sjóðanna kjósa einungis helming þeirra.

En það er svo undarlegt að aldrei fjalla þingmenn um hvernig staðið sé að kjöri stjórnamanna í þá lífeyrissjóði sem bankarnir hafa með höndum. Hver er ávöxtun þeirra, hver er rekstrarkosnaður þeirra og svo frv.

Þingmenn styðja sjálftöku

Það er ljóst að yfirgnæfandi meirihluti kjósenda í landinu var misboðið þegar eftirlaunlög ráðherra og þingmanna voru sett. Ráðherrar og þingmenn villtu um fyrir almenning með því að fara mað rangar upplýsingar um hver kostnaður vegna þessara laga yrði. Hann er 100 sinnum meiri en gefið var upp á meðan lögunum var rennt á methraða í gegnum þingið, ekki 6 millj. kr. heldur 600 millj. kr.

Sé litið til umræðunnar ætlast fólk til þess að þessi lög verði afnumin. Því eru tilsvör ráðherra og ekki síst Birgis Ármannssonar ósvífin og lýsa ákaflega vel hvaða augum hann lítur fólk í landinu og kjósendur. Hann sér ekkert athugavert við það að sitja á þessu í þeirri nefnd sem hann stýrir og svarar með sínum venjubundna hroka kerfiskallsins.

Reyndar er afstaða þingmanna og ráðherra Samfylkingarinnar þeim til enn meiri minnkunar. Þeir eru orðnir meðsekir varðhundar hins stjórnarflokksins í því að verja þessa sjálftöku úr ríkissjóð. Hugsa sér gott til glóðarinnar og eru sestir að kjötkötlunum.

Einnig veltir fólk því fyrir sér hvers vegna ekki sé meiri hávaði vegna þessa hjá stjórnarandstöðuþingmönnum.

Verðum að taka til

Það er hárrétt sem Össur og Þorgerður sögðu í gær um aðild að Evrópusambandinu kallar á tiltekt. Þetta eru reyndar ekki ný tíðindi, það hefur lengi legið fyrir að staða efnahagsmála hér sé með þeim hætti að uppfylla ekki þau skilyrði sem sett eru. Það er ekki öfugt eins og sumir stjórnarþingmenn hafa haldið fram.

Sú mikla velgengni sem stjórnvöld hafa haldið fram að sé árangur góðrar efnahagsstjórnar, er byggð á sandi ofboðslegrar skuldsetningar og það verður ekki gengið lengra á þeirri braut. Reyndar er það einnig svo að heimilin verða einnig að taka til hjá sér og það er þörf á viðhorfsbreytingu. Það er sama hvert farið er í Evrópu, maður upplifir ekki þar þessa miklu fyrringu og hömlulausu eyðslu og skuldsetningu.

Aðilar atvinnulífsins hafa ítrekað bent á þann óstöðugleika sem stefna stjórnvalda kalli yfir Ísland og það verði að bæta stöðu heimilanna og fyrirtækjanna. Það er óneitanlega dáldið einkennilegt að heyra það fyrst nú frá leiðandi stjórnmálamönnum, að það þurfi tiltekt.

Sé litið til skoðanakannana þá blasir við að það er álit vaxandi fjölda íslendinga, að kolröng efnahagsstjórn, reyndar frekar afskiptaleysi stjórnvalda af þróun efnahagsmála, sé helsta forsenda þeirrar stöðu sem við erum í.

Tiltekt mun opinbera þessa stöðu og þá um leið hversu fráleit rök hafi verið viðhöfð þegar Evrópusambandið hefur borið á góma.

Umræðan um ESB og Evru er ekki flótti frá vandanum. Það er verið að krefjast þess að stjórnmálamenn horfist í augu við þann vanda sem þeir hafa skapað með rangri efnahagsstjórn og tekist verði á við hann. Við ættum ef rétt hefði verið haldið að spilunum að vera á lokastigi tiltektarinnar og við hefðum heldur ekki farið svona illilega út af sporinu.

fimmtudagur, 6. mars 2008

Hættið þessu horngrítis kjaftæði


Ríkisstjórnin og þingmenn hennar vilja fá að vera í friði. Við nennum ekki að hlusta lengur á kjaftæði um að hér sé ekki allt í lagi, segir stjórnarþingmaður. Hvað er almenningur að skipta sér af okkur. Almenningur á að skilja að hann á að þegja.

Almenningur á að vita að stjórnarþingmenn eru einungis til tals á kjördag. Reyndar kvartar einn stjórnarþingmaður undan því að það sé yfirleitt ekki hlustað á neinn, ekki bara almenning heldur einnig almenna þingmenn.

Aðalkerfiskall landsins neitaði að leggjast svo lágt að koma í fréttaþátt og svara spurningum almennings og almenns þingmanns um hvers vegna hann hefði nýtt sér stöðu sína sem formaður þingnefndar og stungið frumvarpi þingmanns um afnám sjálftöku ráðherra úr ríkissjóð undir stól. Þau boð voru látin berast til fréttamanna að ríkisstjórnin væri sjálf með í undirbúningi frumvarp vegna ofureftirlaunanna, þingmannafrumvörp væru ekki tekinn til umræðu.

Til hvers erum við með 63 þingmenn? Af hverju þurfa þeir aðstoðarmenn? Af hverju erum við ekki bara með ráðherra og nokkra kerfiskalla, sem hlýða möglunarlaust og hafa engar skoðanir á neinu. Þeir eru forritaðir að morgni dags um hvað þeir eigi að segja. Almenningur er til þess eins að borga skattana, svo kerfiskallarnir geti haldið áfram sjálftöku sinni.

Haldið þið kjafti við ætlum að taka verðbólgumarkmiðin úr sambandi og hleypa verðbólgunni á skrið með vaxtalækkun til þess að bjarga okkur út úr þeim efnahagsvanda sem við höfum skapað með afskiptaleysi okkar á bönkunum, svo gæjarnir geti haldið áfram í stórkallaleik á kostnað sparifjár almennings í lífeyrissjóðunum.

Með því leysum við vandann fram að næstu kosningum og skítt með það þó vandanum sé velt yfir á almenning og heimilin. Hann skiptir hvort eð er engu máli, hann á að vita það að það er hann sem ber ábyrgð á stöðugleikanum og á ekki að vera ekki með óraunsæjar kröfur.

Ein af dætrum mínum hafði samband í gær og sagði, „Heyrðu pabbi, ég held að ég sé að verða tilbúin í smá byltingu.“

miðvikudagur, 5. mars 2008

Kerfiskallar frjálshyggjunnar


Undanfarna áratugi hefur verið áberandi stefna í heimsbyggðinni nefnd frjálshyggja. Þessi stefna felst í því að minnka umsvif hins opinbera og auka frelsi einstaklingsins til ákvörðunartöku um ráðstöfun eigin aflafjár með því að lækka skatta.

Eitt af aðalgildum þeirra er að lækka bætur í almenna kerfinu svo fólk sé ekki að hanga heima á bótum í einhverri leti, heldur drífi sig út á vinnumarkaðinn. Einnig er því haldið fram að séu skattar lækkaðir þá verði launafólk viljugt til þess að vinna mjög langan vinnudag.

Hér á Íslandi eru nokkrir einstaklingar innan tiltekins flokks, sem gefa sig út fyrir að vera sérstakir málsvarar þessara stefnu. Þeir hafa greinilega eitthvað miskilið þetta allt saman. T.d. er atvinnuþátttaka á Íslandi langt umfram það sem þekkist í öðrum löndum og vinnudagur með þeim lengri og ekkert tilefni til þess að lengja hann eða auka atvinnuþátttöku.

Á ráðstefnum hafa hinir íslensku frjálshyggjumenn útlistað hversu langt þeir hafi náð. Ef marka má yfirlýsingar þeirra í fjölmiðlum, erum við heimsmeistarar. Guðfaðir frjálshyggjunar hér á landi hefur svo farið í fyrirlestrarferðir um veröldina, til þess að skýra út fyrir útlendingum hversu flinkir frjálshyggjumenn íslendingar eru. Reyndar er það svo ef maður les það sem er haft eftir honum, þá er það víðs fjarri öllum veruleika hér á landi.

Hann heldur því fram að þeir hafi t.d. bætt hag hinna efnaminnstu. En staðreyndin er aftur á móti sú, eins og fyrrv. skattstjóri segir, að þeir hafi lækkað skatta á þeim efnamestu og aukið þá aftur á móti um 7% á þeim efnaminni. Barnabætur og vaxtabætur hafa verið lækkaðar umtalsvert með því að taka skerðingarmörk út fyrir sviga í verðlagsþróun.

Fyrrv. skattstjóri segir einnig að það sé ekki rétt sem frjálshyggjumenn halda fram, að efnamenn keppist við að borga skatta á Íslandi sakir þess að þeir séu svo lágir, nú hafa komið fram gögn sem sýna 77 milljarðar séu geymdir í skattaparadísum.

Forsvarsmenn frjálshyggjunar hér á landi eru allir forhertir kerfiskarlar og engin þeirra vinnur á almennum vinnumarkaði. Þeir hafa skipað sjálfa sig í margskonar stöður eins og prófessora, bankastjóra, sendiherra, dómara og eru einnig sumir hverjir alþingismenn. Sumir þeirra eru svo líka í allskonar stjórnum hjá hinu opinbera, sem þeir hafa tekið þá ákvörðun að greiða sér tvöföld laun mánaðarlaun láglaunafólks fyrir einn fund.

Ef almenningur hefur verið svo ósvífin að mótmæla og benda á að ekki sé farið að lögum, þá hafa mætt í fjölmiðla fótgönguliðar frjálshyggjunnar, snúið öllu staðreyndum á haus og hrósað sjálfum sér fyrir hversu duglegir þeir séu. Betri en allir aðrir og þeir séu að bjarga íslendingum frá sjálfum sér.

Forsvarsmenn frjálshyggjunnar hafa nýtt sér stöðu sína á Alþingi með því að auka eigin réttindi á kostnað skattborgara. T.d. rúlluðu þeir í gegnum Alþingi eftirlaunalögum þar sem þeir juku eftirlaunaréttindi sín margfalt umfram aðra landsmenn. Kostnaður vegna þessa er nálægt 700 millj. kr. á ári. Einnig hafa þeir tekið sér ýmis skattfríðindi sem aðrir landsmenn hafa ekki.

Aðalmaður frjálshyggjumanna sagði við kynningu á þessum lögum sínum, að þetta myndi kosta ekkert eða í mesta lagi 6 millj. kr. Almenningur mótmælti þessu, en þá sögðu frjálshuyggjumennirnir að það væri ekki ástæða til þess að svara þessum almenning, hann gæfist alltaf upp á því að standa í einhverjum skrílslátum.

Fríblöð birtu allskonar óþægilegar upplýsingar um þessi mál, en þá settust frjálshyggjumenn niður og sömdu lög þar sem banna átti útgáfu fjölmiðla sem væru með einhverjar óþægilegar fréttir um athafnir frjálshyggjumanna. Forseti Íslands sagði að þetta gengi ekki og væri brot á stjórnarskránni og vildi fá þjóðaratkvæðagreiðslu. Það þorðu frjálshyggjumenn ekki og viðhöfðu um forsetann viðurstyggileg ummæli og settu þjóðina á annan endan.

En úr því þeta tókst ekki, þá hafa þeir komið því þannig fyrir að allir ritstjórar helstu fjölmiðla í dag koma úr þeirra flokki. Það var mjög góð kennslustund um hvernig frjálshyggjumenn vinna í fréttaþættinum 60 mín. í gærkvöldi. Þegar þessi þáttur var sýndur í Landi Frelsins duttu einhverja hluta vegna út sjónvarpstöðvar í þeim fylkjum sem eru undir stjórn frjálshyggjumanna, nákvæmlega þann tíma sem tók að sýna þáttinn. Ótrúleg tilviljun.

Þeir hinir sömu hafa unnið að því hörðum höndum að koma upp Gúllögum víða um heimin, þar sem þeir setja inn óþægilega einstaklinga án dóms laga o gán nokkurs konar málsmeðferðar. Frelsið er við völd, það er að segja frelsi útvalinna skoðanna bræðra til þess að haga hlutunum eftir eigin höfði. Frjálshyggjan er nefnilega komin í staðin fyrir Sovétið alræmda sem þeir segjast berjast við, en eru í raun að ganga lengra gegn frelsi einstaklingsins.

Nú hefur verið reynt í alllangan tíma að fá frjálshyggjumenn til þess að afnema þau rausnarlegu eftirlaunafríðindi sem þeir tóku sér. En einn helstu fótgönguliði þeirra situr sem formaður þeirrar alþingisnefndar sem á að fjalla um þetta mál, hefur setið á því í 4 mán. og ætlar sér greinilega að draga það svo lengi að málið nái ekki inn í umræðu á þessu þingi.

Á hverjum degi koma fram upplýsingar sem svipta huluna ofan af fullyrðingum frjálshyggjunnar, það stendur einfaldlega ekki steinn yfir steini í málflutning þeirra.

þriðjudagur, 4. mars 2008

Björk styður TíbetHér lýsir Björk því hvernig Ísland reif sig undan Danmörku á sínum tíma, þegar hún fékk verðlaun Norðurlandaráðs.

Björk styður sjálfstæðisbaráttu Tíbet og hefur á undanförnum árum spilað á stuðningstónleikum fyrir sjálfstæðisbaráttu Tíbetbúa.

Eins og marga sem eru yfir 40 ára rekur vafalaust minni til þá réðust Kínverjar inn í landið með skelfilegum aðförum og lögðu landið undir sig. Í Tíbet býr friðsamasta þjóð heimsins. Þessu var mótmælt með margskonar uppákomum um allan hin vestræna heim.

Þess vegna undrast ég fyrirsögn Eyjunnar að Björk sé að móðga Kínverja með því að lýsa yfir stuðning við Tíbet. Við íslendingar hljótum frekar að taka undir með Björk. Enda voru það ráðandi stjórnvöld en ekki kínverskur almenningur sem stóð fyrir þessari innrás.

Skæruliðar í innanlandsflugi

Það er hreint út sagt skelfilegt hvernig ráðaleysi og stefnuleysi borgarstjórnarmanna í skipulagsmálum tefur árum saman (líklega frekar áratugum nú orðið) að hér komist á eðlilegt ástand og samkeppni í flugmálum. Það kaldranalegasta við það allt saman að það eru stjórnmálamenn sem taldir eru frekar á þeim kanti að teljast frjálshyggjumenn sem standa hvað harðast í þeim málum að því virðist.

Flugvallarmálið er búið að vera í bitbein stjórnmálamanna árum saman. Á meðan líða landsmenn fyrir það að þjónusta á Reykjavíkurgflugvelli er ekki boðleg. Bílastæði eru alltof lítil og starfsmenn borgarinnar sitja um menn með sektarmiða sína, ef menn lenda í þeim vandræðum að verða að skilja bíla sína eftir fyrir utan yfirfull bílastæði í einhverjum moldarflögum.

Og síðast en ekki síst verð á innanlandsflug er upp í himinhæðum. Það kosta álíka mikið að fljúga til Egilsstaða og til London.

Fólk sem aldrei notar innanlandsflugið vill svo fá að ráð þessu og tillögur þeirra snúast allar um að leggja innanlandsflug niður. Þau segja það ekki beint ef en tillögur þeirra eru skoðaðar þýða þær það. Öll vitum við að það verður ekki flutt til Keflavíkur.

Fjarlægðin er slík að það kemur ekki til mála og þar eru veður oftar þannig að innanlandsvélarnar geta oft á tíðum ekki lent þar, þó svo hinar öflugu og stóru millilandaþotur ráði við það.

Að legga járnbrautalest til Keflavíkur er a.m.k. 10 ára verkefni og kostar óhemju fjármuni.

Á meðan verða menn sem stunda vinnu um land allt, sem eru fjölmargir, ásamt fólki sem býr út á landi, sem er enn fleira, að búa við þetta ástand, sem þessir tiltölulega fáu einstaklingar halda málinu í.

mánudagur, 3. mars 2008

Útburður sumarbústaðaeigenda

Hún kemur víða niður græðgisvæðingin. Öll þekkjum við þá ástúð sem fólk tekur við sumarbústað sinn og þá lóð sem honum fylgir. Sumarbústaður er hvíldarstaður frá erli dagsins, þar sem skipt er um umhverfi og horfið frá borgarmenningunni í faðm og frið náttúrunnar. Oftast hefur verið um þann hluta jarða að ræða sem bændur hafa haft minnst not af.

Sumarbústaðaeigendur hafa smá saman komið sér upp íveruhúsi með útsjónarsemi og mikilli vinnu. Jafnframt hefur verið lögð mikil vinna í að gera lóðina að unaðsreit með miklum gróðri sem dafnar vel í skjóli natinnar umhirðu.

Þessi hleðsla batteríanna verður fólki fíkn og skilar borgarmenningunni og fyrirtækjunum þróttmiklum og úthvíldum starfsmönnum á mánudagsmognum, sem jafnframt hafa endurnýjað samskiptin við sjálfan sig og maka sinn.

Nú hafa peningamenn áttað sig á því að þarna eru tækifæri til þess að kvelja út peninga úr fólki. Þeir hafa setið um bændur sem vilja jafnvel draga sig í hlé og gert þeim tilboð í jarðirnar. Daginn eftir undirritun kaupsamnings er saklausu fólki sendar hótanir um að annað hvort kaupi það lóðinu undir bústað sínum fyrir okurfé eða það hafi sig á brott.

Gengið er svo langt í græðginni að krefjast sama lóðarverðs og er í vinsælu þéttbýli. Án tillits til þess að það var sumarbústaðaeigandinn sem hefur skapað öll verðmætin í landbótum, slóðum að lóðinni, veitukerfum og skolplögnum og rotþróm. Til boða stendur takmörkuð þjónusta eins og við sorphirðu og brunavarnir. Það kemur hinum nýju landeigendum ekkert við.

Blindaðir af græðginni eru sett upp verð og leitað til lögmanna, ef þeir eru það ekki sjálfir, og fólki er hótað útburði.

Í trausti þess að fólk hafi tekið svo miklum tilfinningartengslum við sumarbústað sinn og tilbúið að fórna miklu til að fá notið áframhaldandi hvíldar í þeim reit sem viðkomandi hafa búið sér.

Hvers vegna stjórnvaldið hefur verið seint til viðbragða er erfitt að skilja. En fyrir liggur loks drög að löggjöf sem á að tryggja rétt fólks að nokkru, en græðgisvæðingin berst um til að tryggja sinn aðgang að fjármunum fólks, sem hefur unnið sér það til saka að vilja vera í nálægt við náttúruna og skapað sér unaðsreit. Því er nú gert að kaupa þau verðmæti af mönnum sem hafa sölsað þau undir sig í skjóli nætur.

sunnudagur, 2. mars 2008

Lögbrot að segja sannleikann

Í nokkrum tilfellum hefur verið vitnað til deilu starfsmannaleigu við mig vegna ummæla og dóms vegna þeirra og síðar sýknu.

“Formaður Rafiðnaðarsambandsins var dæmdur til að greiða forsvarsmönnum starfsmannaleigu 1,5 milljón króna í miskabætur og málskostnað. Hann hafði látið hörð orð falla um vinnubrögð fyrirtækisins 2B í garð pólskra verkamanna við Kárahnjúka. Hann hafði reynt að gæta hagsmuna lítilmagnans, sem fyrirtækið hafði fótum troðið. Dómurinn fylgir nýjum sið íslenzkra dómstóla að dæma háar fébætur fyrir meiðyrði og brot á persónufrelsi. Þessir misvitru dómar munu smám saman draga úr gegnsæi þjóðfélagsins, efla fasisma og leiða vandræði yfir þjóðfélagið.” jonas.is

“Guðmundur Gunnarsson var dæmdur fyrir sönn ummæli um starfsmannaleigu sem níddist á útlendingum. Það má semsagt fara illa með Pólverja en það er lögbrot að segja frá því.”Dofri Hermannsson

Hæstiréttur sýknaði flestar ómerkingar Héraðsdóms, í nokkrum tilfellum voru það fullyrðingar blaðamannanna sem tóku viðtalið sem Héraðsdómari hafði dæmt ómerk, ekki mín.

En eftir stóðu í niðurstöðu Hæstaréttar svör mín við spurningum blaðamanns um fundargerð fundar sem aðaltrúnaðarmaður hélt með pólverjunum á svæðinu. Þar kom m.a. fram að forsvarsmenn starfsmannaleigunnar hefðu hvatt verkstjóra á svæðinu að ganga í skrokk á pólverjunum, þeir væru vanir því frá heimaslóðum. Túlkur sem var á fundinum ásamt tveim verkstjórum á Kárahnjúkasvæðinu höfðu staðfest það fyrir Héraðsdómi að fundargerðin væri rétt.

Hæstiréttur taldi að þetta væri ekki fullsannað og taldi 250 þús. kr. væri hæfileg sekt. Eftir stendur spurningin ummæli hverra er Hæstiréttur að dæma ómerk.

Það er umhugsunarefni og reyndar einnig áhyggjuefni hvernig fréttamenn fjalla um svona mál. Hvers vegna fjalla þeir ekki um sína aðkomu?

Hvers vegna tóku fréttamenn langt viðtal við forsvarsmann starfsmannaleigunnar þar sem hann úthúðaði verkalýðshreyfingunni og starfsmönnum hennar, þegar dómur Hérðsdóms féll. En þegar Hæstiréttur fellir sinn dóm með sýknu í flestum atriðum og ath.s. við umfjöllun fréttamanna, er ekkert fjallað um þá niðurstöðu.

Í þessu tilfelli má benda á fjölmörg mál þar sem forsvarsmenn fyrirtækja og ekki síður lögmenn þeirra hafa viðhaft gífuryrði um starfsmenn stéttarfélaganna og borið á þá þungar sakir, þar fá þeir frían aðgang að Kastljósi og fréttum, en svo þegar það kemur síðar í ljós að starfsmenn stéttarfélaganna höfðu í einu og öllu rétt fyrir sér, þá er ekki minnst á það einu orði í fréttatímum.

Umsvifamikil verkefni þegar í gangi

Var að hlusta á Silfrið. Átta mig ekki fyllilega hvers vegna sífellt er talað að verkefni í atvinnulífinu séu ekki til staðar, nema þá að hafist verið handa við byggingu á álverum í Helguvík og Bakka, ásamt stækkun álvers í Straumsvík og orkuverum samhliða því. Reyndar er ég viss um að þessar framkvæmdir munu fara af stað ekki langt inni í framtíðinni.

Það er í dag verið að byggja eitt stærsta og flóknasta hús landsins í miðborginni, tónlistahúsið. Þar á að byggja að auki stórt hótel, viðskiptahöll, bílastæðahús og verzlunarmiðstöð.

Auk þess þarf samfara þessu að koma Sæbrautinni í gegnum hafnarsvæðið út á hið mikla athvafnasvæði í gamla Slippnum og á Grandasvæðinu, þar sem framkvæmdir eru þegar hafnar.

Við fótinn á Öskjuhlíðina í Nauthólsvík er þegar hafinn uppbygging á feykilega miklum byggingum Háskóla Reykjavíkur. Þetta dæmi gengur heldur ekki upp nema með miklum endurbótum á umferðaræðum í báðar áttir.

Á þessu ári eru fyrirhugað að fara að eyða símapeningum í að hefja framkvæmdir við Landspítalann.

Það var verið að ganga frá samningum um að byggja feykilega stórt gagnaver á Keflavíkurflugvelli, sem kallar á 25 megawatta orkuver. Auk þess eru framkvæmdir við álþynnuverksmiðju á Akureyri að hefjast.

Landsvirkjun hefur látið það koma fram að til standi að hefja framkvæmdir við Búðarhálsvirkjun, en öllum undirbúningsframkvæmdum er lokið fyrir allnokkru, leggja alla vegi og báðir gangnamunnar tilbúnir til jarðgangnaframkvæmda.

Ég get upplýst lesendur mína, hafandi haldgóða þekkingu á vinnumarkaði og sem iðnaðarmaður, að þessar framkvæmdir kalla á töluvert fleiri iðnaðarmenn en voru við framkvæmdirnar fyrir austan.

Veruleikafirring borgarmeirihluta

Það verður að segjast eins og það er þau eru hreint út sagt ótrúleg tilsvör borgarstjóra og fulltrúa Sjálfstæðisflokks undanfarin sólarhring þegar þau eru spurð um níu prósentin.

„Við komum og björguðum borgarbúum undan upplausninni sem ríkti áður en við komumst til valda.“ Þetta er veruleikafirring í toppklassa.

Björn Ingi gafst upp á upplausninni sem ríkti meðal Sjálfstæðismanna í kjölfar REI málsins og myndar meirihluta með hinum. Sá meirihluti nýtur stuðnings meirihluta í könnunum.

Sjálfstæðismenn blindast af hefnigirni og ná að véla Ólaf með því að skrifa undir kosningaloforð hans og kalla það málefnaskrá sína og moka hundruðum milljóna úr borgarsjóð í ónýt hús. Kjartan skipar sjálfan sig formann allra nefnda sem sjáanlegar eru og Ólafur mætir í fjölmiðla og fer í sífellu með hið eina svar sitt við öllum spurningum fréttarmanna.

Algjör vandræðagangur á öllum sviðum. Borgarfulltrúar skammast sín svo fyrir verk sín að þeir neita að taka upp símann og læðast út um kjallaradyr.

Reyndar er hægt að segja eitt þeim til afsökunar, það er ekki bara á sviði borgarmála sem Sjálfstæðisflokkurinn er að lenda vandræðamálum og þeim umræðum er fjarri því lokið eins og reyndar Mogginn tilkynnir daglega. Hann er vanur því að geta sent út svona tilkynningar, frá þeim tíma að vera einn á fjölmiðlamarkaði og geta sett mál á dagskrá og tilkynnt hvenær umræðu er lokið. Héraðsdómaramálið er enn í umræðunni og ekki síður ESB og Evran og afrakstur rangrar efnahagstefnu flokksins.

Niðurstaðan ákaflega fyrirsjáanleg; þeir skora með níu prósent fylgi, það eru enn til níu þrep niður í skalanum. Ef haldið er áfram á "Það er hinum að kenna"-brautinni spái ég því að níu prósentin ekki botninn, eins og félagi Egill spáir.

laugardagur, 1. mars 2008

Falleinkunn borgarstjórnar og Impregilo

Hef verið á Austurlandi síðasta sólarhring. Ótrúleg uppbygging hvert sem litið er í bæjarfélögunum næst álverinu. Samt heyrir maður kvartað undan því að vanti meiri kraft í félagslega afþreyingu, og svo hið svimandi verð á flugmiðum. Vilji hjón skreppa til höfuðborgarinnar, kostar það 50 þús. kall.

Margir eru svektir á stefnu- og ráðaleysi borgarstjórnar Reykjavíkur í flugvallarmálum, sem hefur leitt til þess að sífellt dregst að Flugfélagið fái samkeppni. Er ekki undrandi á því að borgarstjórnin fái falleinkun hjá landsmönnum.

Algengt er að heyra í samræðum þar sem við starfsmenn stéttarfélaganna komum samanburð á byggingaraðilum Fjarðaáls og svo Kárahnjúka nú þegar framkvæmdum er að ljúka.

Við byggingu Fjarðaáls störfuðu fleiri en við Kárahnjúka. Þrátt fyrir það voru engin slys á fólki og almenn ánægja með öll samskipti við Bechtel, sem í öllu gættu jafnræðis og að í öllu væri farið samkvæmt íslenskum reglum við uppgjör launa og samskipti við hið opinbera. Aðbúnaður í skálum og mötuneytum til fyrirmyndar.

Það slær alveg á hinn kantinn þegar verktakan við Kárahnjúka ber á góma. Fólk er ósátt við að Landsvirkjun skuli hafa staðið að því að dengja þessu fyrirtæki yfir íslenskan vinnumarkað. Endalausar deilur um launakjör og aðbúnaður fyrir neðan allar hellur.

Slys á Kárahnjúkum voru fleiri en svo að menn muni þá tölu og sum mjög alvarleg. Rætt er um að enn fleiri starfsmenn hafi brotnað saman vegna framkomu og vinnuaðstæðum. Lýsingar sem maður heyrir um framkomu hinnar ítölsku hástéttar eru þess eðlis að þær eru ekki prenthæfar.

Fáir skildu hvers vegna fjölmiðlafulltrúinn, eða orðhákurinn mikli eins og hann er oftast nefndur, fékk ekki sjálfur meiðyrðadóm, samskipti hans við fólk hafa ekki þótt til fyrirmyndar. Ég sá á einhverju blaðanna á leið í bæinn, að hann hafi unað sér svo einstaklega vel í þessum hóp að hann er búinn að ráða sig til annars ítalsks fyrirtækis sem mun reisa verksmiðju á Akureyri.

Það þarf svo sem ekki endilega að þýða að það fyrirtæki taki upp samskonar framkomu við launamenn og austfirðingar lýsa að tíðkuð hafi verið hjá fyrri vinnuveitanda hans.