þriðjudagur, 30. nóvember 2010

Takk fyrir stuðninginn

Byrja á því að þakka þann stuðning sem ég hef fengið, niðurstaðan kom mér þægilega á óvart, þar sem ég sá svo margt frambærilegt fólk í hópi hinna 530 frambjóðenda. Ég notaði ekki krónu í kynningar og gerði ekkert sérstakt átak til þess að kynna mig.

Það er ekki hægt annað en benda á það sem er svo einkennandi fyrir alla fjölmiðlaumræðu hér á landi. Alltaf er leitað að einhverju neikvæðu, sem svo er endurtekið í síbylju.

Í byrjun : Svo rosalega margir buðu sig fram.

Næst : Kosningin er svo flókin.

Þá : Svo fáir sem kusu, ekkert að marka þetta og leitað uppi fólk sem þekkt er fyrir andstöðu sína gagnvart stjórnlagaþingi og það sagðist vita hvaða skoðun þessi 60% hefðu sem ekki nýtti atkvæðarétt sinn.

Og nú : Bara þekktir aðilar af suðvesturhorninu sem náðu kosningu.

Aldrei jákvæðni, bara neikvæðni og nauðhyggja.

Hvernig átti að koma í veg fyrir að fólk sé kosið, sem hefur fyrir því að koma skoðunum sínum á framfæri. Er það fólk verra en aðrir af því það fólk hefur náð eyrum almennings með skilmerkilegri framsetningu á skoðunum sínum?

Hvar í ósköpunum tíðkast það að fólk sem enginn þekkir nái árangri í stjórnmálum? Ef þær skoðanir sem viðkomandi héldi fram væru andstæðar vilja almennra kjósenda, hefðu þeir þá verið kosnir?

Ef tekið væri mið af því sem fjölmiðlamenn halda fram þá ætti það að vera slæmt að vera þekktur. Leiða má að því haldbær rök að allmargir fjölmiðlamenn telji það sé út í hött að verkalýðsforingi nái kjöri, sé litið til þeirrar meðhöndlunar sem við starfsmenn stéttarfélaga fáum reglulega í fjölmiðlum.

Ég veit reyndar hversu mikill munur er á því sem fram fer á fundum í stéttarfélögunum og því sem fjölmiðlamenn halda að almenning. Það sem birt er í fjölmiðlum um starfsemi stéttarfélaga er víðsfjarri öllu sanni og samþykktum félagsmanna. Það er mat mitt að niðurstaðan staðfesti hversu langt frá veruleikanum margir eru hvað þessi mál varðar.

Það hvílir þung ábyrgð á þeim hóp sem var valinn inn á þingið. Ef þessum honum tekst ekki að starfa saman af drengskap án þess átakastíls og skrums, sem hefur einkennt störf stjórnmálamanna og dregið álit Alþingis niður, þá munu vonbrigði almennings verða það þung að Stjórnlagaþing mun aldrei ná sér á flug.

Núverandi Stjórnarskrá hafði ekkert með Hrunið að gera. En ný stjórnarskrá getur verið gott skref til þess að byrja með hreint borð. Stjórnmálin eru löskuð og þurfa að ná til þjóðarinnar á ný, það er gert með því að gera gagngerar breytingar á stjórnskipaninni í stjórnarskrá og senda með því skýr skilaboð um nýtt upphaf og nýja siði.

mánudagur, 29. nóvember 2010

Kjarni málsins

Ef við ætlum að halda úti krónunni kostar það okkur gríðarlega gjaldeyrisvarasjóði og það leiðir yfir okkur enn meiri vaxtakostnað, er þó ærinn fyrir. Ef við skiptum um mynt mun áhættuálag Íslands á alþjóðagjaldeyrismarkaði lækka töluvert. Það munar gríðarlega um hvert prósentustig í vöxtum eins og komið er fyrir Íslandi með hinar svimandi háu skuldir. Hvert prósentustig lækkar vaxtagreiðslur íslenska hagkerfisins um nokkra milljarða.

Íslenska krónan er við hlið evrunnar eins og korktappi við hlið skips af stærstu gerð. Eins og komið hefur fram spiluðu margir á örgjaldmiðilinn okkar og framkölluðu miklar sveiflur og högnuðust mikið á því, á meðan venjulegar fjölskyldur bjuggu við hækkandi verðbólgu og vexti vegna þessa ástands og skuldirnar fóru upp úr þakinu.

Sveiflur krónunnar hafa leitt til þess að sparnaður og aðgát í fjármálum er íslendingum ekki eðlislægt eins og komið hefur fram í könnunum. Fjármálalæsi íslendinga er ákaflega lágt, borið saman við nágrannaþjóðir okkar. Það mun reynast vonlaust að laga það á meðan við búum við örgjaldmiðil.

Danir greiða að jafnaði um 1 – 1,5% hærri vexti fyrir það að vera með danska krónu í stað evru. Það liggur fyrir að við munum greiða a.m.k. 3,5% aukalega hærri vexti á meðan við höldum krónunni en ella þyrfti.

Ísland getur komist inn í ERM2 (eins og Danmörk og Færeyjar) um leið og landið samþykkir aðild að ESB. Trú á framtíðina væri stórkostlegasta kjarabót sem við gætum náð núna. Það er vitanlega eitt skilyrði sem þarf þá að uppfylla, það er að fyrir liggi samþykkt umsókn um aðild að ESB. Þá mun Seðlabanki ESB verða bakhjarl krónuna eins og þeirrar dönsku og tryggja að frávik á genginu verði innan tiltekinna marka.

53% af viðskiptum Íslands fara fram í Evrum, liðlega helmingur af gengisáhættu íslendinga hverfur við upptöku evru. Norska krónan er með 4% af viðskiptum okkar dollarinn 11% og Kanadadollar 1%. Innganga í ESB og upptaka evru er ekki skyndilausn, en hún er nauðsynleg framtíðarlausn ef við ætlum að losna við óábyrga efnahagsstjórn, þar sem mistök íslenskra stjórnmálamanna hafa endurtekið verið leiðrétt með því að sveifla krónunni. Sem hefur kallað yfir 0kkur verðbólgu, hærri vexti og hærra verðlag.

Aðilar vinnumarkaðarins hafa tækifæri til þess að taka á þessu máli núna, en það er kjarkleysis á hinum ýmsu stöðum á að taka á þessu máli. Þetta er kjarni málsins.

Sósíalismi andskotans

Það er eins og stjórnmálamenn læri ekkert. Þeir böðlast áfram í eigin veröld blindaðir af kjördæmapoti og atkvæðaveiðum. Við erum allmörg sem höfum bent á að það er ekki til endalaus orka hér á landi, auk þess að verðgildi hennar mun líklega tvöfaldast á næsta áratug. Djúpboranir eru í dag ekki raunsær möguleiki, tæknin er ekki til. Fyrir liggur sú staðreynd að háhitasvæði má ekki nýta í botn, þá hverfur hitinn og svæðin verða orkulaus á 40 – 50 árum og þurfa þá líklega um 200 ár til þess að jafna sig.

Við höfum dæmi fyrir okkur hvernig óbeislaðir stjórnmálamenn eru búnir að leggja gott fyrirtæki í eigu almennings í rúst. Orkuveitan. Þingmenn vilja að Landsvirkjun skuldbinda sig til þess að afhenda orku til álvers við Húsavík. Það liggur fyrir að það er ekki raunsætt miðað við þekkingu á orkuvinnslu að byggja stærra álver en 250 þús. tonn. Hraðasta uppbygging þess getur verið 8 ár. Ef skynsamlega væri haldið á spilum þá á að láta kaupandann taka áhættuna af því hvort næg orka finnist.

En úr því ég er farinn að tala um stjórnsýslu og þingmenn í kjördæmapoti langar mig til þess að velta upp fleiri spurningum. Það vakti því athygli mína þegar það kom fram í fréttum að uppi hafi verið hugmyndir um að ríkið leggi 1000 miljónir í hafnargerð í Helguvík. Þegar höfnin í Straumsvík var byggð sá ISAL um og kostaði alla framkvæmdina, notaði síðan höfnina án hafnargjalda í 25 ár en afhenti þá Hafnarfjarðarhöfn, höfnina til fullrar eignar. Samkvæmt mínum upplýsingum er um svipað að ræða í Reyðarfirði. Er ekki eðlilegt að Norðurál leggi til fjármagn til að breyta höfninni?

Nú standa yfir deilur um SV línu og SV endi þeirrar línu, endar í sjö km. löngum jarðstrengjum. Þessir jarðstrengir koma til vegna staðsetningar verksmiðjunnar á nesi sem er að mestu lokað af, af flugbrautum Keflavíkurflugvallar og útilokað er að fara með svo stórar loftlínur við enda flugbrautanna. Svona jarðstrengir (220 KV) eru mjög dýrir og samkvæmt mínum upplýsingum kostar hver km yfir 300 miljónir.

Það á að leggja tvö sett (þrír einleiðara strengir í settinu), en áður en verksmiðjan verður fullbyggð, þarf að leggja þriðja settið. Kostnaður við þessa jarðstrengi gæti því numið hátt í 7000 milljónum króna. Áætlað er að Norðurál borgi aukakostnaðinn af þessum jarðstrengjum, umfram loftlínur. Rekstraröryggi jarðstrengja er minna og reksturskostnaður mun hærri ef borið er saman við loftlínur. Ljóst er að þessi aukakostnaður fellur til vegna staðsetningar verksmiðjunnar og því mikilvægt að hann verði greiddur af eigendum hennar en falli ekki á almenning.

Nú stendur til að ríkisfyrirtæki endurbyggi herspítala á vellinum, nánast frá grunni. Samkvæmt mínum upplýsingum er búið að rífa nánast allt innan úr húsinu. Ef leigutakanum mistekst að markaðssetja verkefnið, þá á ríkið fjórar ónotaðar skurðstofur á Suðurnesjum. Hverjir eiga að borga þennan kostnað, mun hann lenda á almenning? Hafa þingmenn enn einu sinni gleymt sér á vaktinni blindaðir af kjördæmapotinu?

Þegar ríkið leggur fé í uppbyggingu einkafyrirtækja hefur verið nefnt Sósíalismi andskotans, en núna virðast stjórnmálamenn þess flokks hélt uppi þeim mótmælum vera kominn í framsveit þessarar gerðar Sósíalisma.

sunnudagur, 28. nóvember 2010

Krónan mesti óvinur launamanna

Flestir útlendingar og margir Íslendingar tala um krónuna eins og hún sé eins alvörugjaldmiðill, þegar alvörugjaldmiðill er felldur hækka skuldir ekki, eins og gerist hér í Krónulandi. Sama á við um þegar Seðlabanki lækkar sína vexti þá lækka húsnæðisvextir í takt í löndum sem eru með alvörugjaldmiðil.

Flest íslensk heimili eru í greiðsluvanda vegna íslensku krónunnar. Ísland er dæmi um hagkerfi þar sem tekjur og skuldir eru í mismunandi gjaldmiðlum. Benda má dæmi um fyrirtæki sem gera upp og reka sig í evrum, þar til kemur að launum. Á þessum forsendum verður maður undrandi þegar hlustað er á hérlenda talsmenn krónunnar benda á Írland sem dæmi um að við eigum að halda krónunni. Það vefst fyrir íslenskum launamönnum að gera langtíma kjarasamninga, sakir þess að stjórnmálamenn hafa endurtekið gengisfellt kjarasamninga til þess að leiðrétta efnahagsleg mistök sín.

Ef Írar færu sömu leið og við erum í þá tækju þeir upp írska pundið fyrir launafólk, en halda skuldum og fjárfestingum eftir í evrum. Lettland valdi ekki þennan kost vegna þess að þeir vildu vernda almenning fyrir gjaldþrotum, eins og við erum að upplifa hér á landi vegna krónunnar. Fjárhagserfiðleikar heimilanna er stærsta vandamálið hér á landi á meðan fjárhagserfiðleikar bankanna eru stærsta vandamálið á Írlandi.

Skýringarnar á þessu er að finna í gengisfalli krónunnar en frá 1. apríl 2006 til 1. apríl 2010 hækkaði gengisvísitala krónunnar um 91 prósent sem þýðir að virði hverrar krónu fór nærri því að helmingast, sem segir okkur að hér er einungis um verðlækkun að ræða frá sjónarhóli útlendinga, samfara því hefur kaupmáttur Íslendinga lækkað. Við verðum að verja meiri tíma til þess að geta keypt daglegar nauðsynjar og matvælaverðið á Íslandi verður hátt til lengdar. Ef við göngum í ESB mun matarverð á Íslandi lækka svo um munar, í það minnsta í þeim vöruflokkum þar sem höftin og tollarnir eru mestir.

Algengt viðkvæði þeirra stjórnmálamanna sem ganga erinda kvótaeigenda og bænda er að verja krónuna með því að halda því fram að lönd innan ESB eigi við efnahagsvandamál að etja. Staðreyndin er sú að okkar stærstu vandamál eru vegna gjaldmiðilsins. Í þeim löndum sem þeir benda á er almenningur ekki að tapa eignum sínum vegna ónýts gjaldmiðils, ofurvaxta og verðtryggingar. Þar getur fólk selt eignir sínar og flutt þær, t.d. til annarra landa. Hér í krónuumhverfinu er hvorugt hægt, við erum í efnahagslegum þrælabúðum.

Ekkert land í Evrópu hefur orðið fyrir jafnmiklu kerfistjóni og Ísland, það er vegna hruns krónunnar. Ekkert Evruríki hefur orðið fyrir jafnmiklu tekjutapi og hér, það er vegna hruns krónunnar. Tekjustofnar ríkissjóðs hafi hrunið um tugi prósenta og er í raun stærsta vandamálið sem Alþingi þarf að glíma við. Ísland er rúið efnahagslegu trausti, það er vegna krónunnar og gjaldeyrishaftanna.

Ef þjóð býr við stöðugan gjaldmiðil verður rekstur fyrirtækja og hins opinbera reistur á traustum grunngildum í stöðugu umhverfi og leiðir jafns vaxtar og skapar störf. Þetta blasir við okkur ef við lítum t.d. til Danmerkur, og það er vegna þessa að þjóðir leita inn í ESB og til að tryggja fullveldi sitt. Það rekur engin fyrirtæki til langframa með bókhaldsblekkingum – Ebita blekkingum.

Vextir hér eru og verða alltaf a.m.k. 5% hærri vegna krónunnar. Vextir leiða til hærra verðlags. Óstöðugur gjaldmiðill leiðir til enn hærra verðlags. Það eru aðstæður og skilyrði sem ákvarða hvort fyrirtæki vaxa og dafna. 25% af launum íslendinga fara í aukakostnað vegna krónunnar. Til þess að hafa svipuð laun og annarsstaðar á norðurlöndunum þurfum við að skila 25% lengri vinnuviku. Ef fjölskylda sem kaupir sér eitt hús á Íslandi og önnur kaupir sér hús t.d. í Danmörku. Þá er staðan sú eftir 20 ár að þá hefur íslenska fjölskyldan greitt sem svarar andvirðis tveggja húsa, séu greiðslur bornar saman við endurgjald dönsku fjölskyldunnar.

Dræm kjörsókn

Dræm kjörsókn er töluverð vonbrigði. Ég spáði að hún myndi verða slakari en í alþingiskosningum og spáði um 50%. Það má benda á mörg atriði sem hafa leitt til þessarar niðurstöðu. Vaxandi hluti þjóðarinnar vill einfaldlega ekki ræða pólitísk mál, það er búinn að fá nóg af öllu sem tengist stjórnmálum. Margir töldu að kosningin væri mjög flókin, auk frétta af löngum biðröðum í Laugadalshöll dag eftir dag sem fældi fólk frá.

Og svo er það vitanlega fólk sem vill ekki hleypa öðrum en útvöldum í breytingar á stjórnarskránni. Það sáum við greinilega í auglýsingum og umfjöllun harðasta kjarna Sjálfstæðisflokksins. Sá hópur óttast að missa tök sín á valdastöðum og auðlindir þjóðarinnar verði endanlega settar í þjóðareign. Og það virtust vera sömu menn sem settu þetta í samhengi við að vernda fullveldið, eins og það var orðað, það er að koma í veg fyrir að Ísland komist inn í ESB.

Veljið skynsamt fólk, var tilskipun frá Valhöll og auglýsingar í MBL byggðu á þessum grunni. Skynsamt fólk vill vernda núverandi stjórnarskrá og þá sérstöðu sem Flokkurinn hefur náð. Skynsamt fólk sér ekkert að því hvernig mál hafa þróast og leiddu til efnahagslegs Hruns og þetta skynsama fólk vill ekki axla ábyrgð á því hvert efnahagsstefna Flokksins leiddi okkur og þá miklu spillingu sem hefur þrifist í skjóli hans. Það var mikil skynsemi fólgin í þeirri misskiptingu sem Flokkurinn hefur staðið fyrir, að mati stefnumótunardeildar Valhallar.

Það er mikil skynsemi í því að hafa krónuna, því þá er auðvelt að leiðrétta of góða kjarasamninga og tryggja það að valdastéttin og séreignarmenn fái sitt á kostnað hins almenna launamanns. Allt er gert til þess að komast hjá umræðu um þessi mál. Öllu er hleypt í bál og brand á Alþingi með upphlaupum og barist með öllum brögðum gegn því að Ísland nái að vinna sig upp úr þeirri sem stöðu sem efnahagsstefnan leiddi okkur í.

Afleiðingarnar eru að koma fram, vaxandi hópur fólks vill ekki búa í svona landi, það er að fara. Það er ekki atvinnulaust fólk, það er velmenntað fólk með mikla menntun. Fólk sem getur valið úr störfum vegna hæfileika sinna. Tillögum atvinnulífs er í engu sinnt og dregið að takast á við vandan í alvöru.

Það eru einkennilegir tímar þegar það er orðin góð hvíld frá amstri dagsins að funda í tvo daga með liðlega 100 trúnaðarmönnum rafiðnaðarmanna, sagði ég við lok trúnaðarmannaráðstefnu Rafiðnaðarsambandsins nýlega. Fundir með trúnaðarmönnum eru þeir fjörugustu sem starfsmenn stéttarfélaganna sitja, ekki síður ef það eru kjarasamningar í nánd og sama var upp á teningum á ráðstefnunni.

Nei munurinn er sá að umræður á fundum innan Rafiðnaðarsambandsins eru málefnalegar, en sú umræða sem okkur er boðið upp á í fjölmiðlum og spjallþáttum og svo maður tali nú ekki um meðal stjórnmálamanna er á svo óendanlega lágu plani. Staðreyndir skipta engu, lýðskrumið ræður öllu. Menn sem setja saman Excel skjöl og boða töfralausnir verða átrúnaðargoð og eru boðaðir í alla spjallaþætti og á fundi þingnefnda. Jafnvel þó það blasi við öllu hugsandi fólki að um reyksprengjur sé að ræða. Það er nefnilega þannig að það sem þú setur inn í Excel ræður niðurstöðunni, og ef þú setur einhverja vitleysu inn, þá kemur hún margfölduð út. Það er eins og spjallþáttastjórnendur og sumir þingmenn átti sig ekki á þessari staðreynd.

T.d. er búið að liggja fyrir í tæp tvö ár niðurstaða hagdeilda samtaka í atvinnulífinu hvað leiðir vegna skuldavanda fyrirtækja og heimila muni kosta. En í tvö ár hafa stjórnmálamenn og spjallþáttastjórnendur hafnað því að líta á þessar niðurstöður. Svo var nú um daginn sett saman nefnd á vegum stjórnmálamanna til þess að reikna þetta út og hún kom með nákvæmlega sömu niðurstöður og legið hafa fyrir í tvö ár.

Stjórnmálamenn og spjallþáttastjórnendur vilja ekki ræða við forsvarsmenn samtaka á vinnumarkaði, allt annað er gert, bara eitthvað annað. Það er ótrúlegt þegar 2 menn sem voru á móti öllum hinum 300 sem voru á fundi nýlega eru þeir sem fara með sannleikann og eru mestu verkalýðsleiðtogar landsins. Þetta þýðir í raun krafa um að gegnið sé gegn niðurstöðum meirihlutans.

Nú er svo komið að komi saman nokkrir einstaklingar og skrifa upp óskalista þá eru þeir kallaðir í alla þættina og á fundi þingnefnda, og þar eru samtök launamanna gerð ábyrg fyrir því að óskirnar nái fram að ganga. Ekki er haft fyrir að kanna hvort þessir listar hafi verið bornir upp til afgreiðslu innan verkalðyðsfélaganna og hvort meirihluti sé þeim fylgjandi. Allt er gert tilþess að niðurlægja samtök launamanna og vilja meirihlutans.

Og lýðskrumarar mæta í hvern þáttinn á fætur öðrum og níðir niður fólk sem skilar ábyrgu starfi, það dregur inn í spjallþættina og þingnefndirnar. Það eru þessi vinnubrögð sem fólk er búið að gefast upp á, því sannleikurinn kemur alltaf fram. Það tekur reyndar stundum óþægilega langan tíma og sífellt fleiri gefast upp og hætta að hlusta.

fimmtudagur, 25. nóvember 2010

Nauðhyggjan við völd

Nú á að reyna ná öllum aðilum saman að einu borði og gera nýjan sáttmála. Á fundum sem ég hef verið undanfarnar vikur með launamönnum er það greinilegt að menn hafa ekki skipt um skoðun á þeim forsendum sem voru fyrir því að víðtæk samstaða náðist um Stöðugleikasáttmála. En meðal launamanna er mikil reiði gagnvart stjórnmálamönnum hvernig þeim tókst að klúðra þeirri niðurstöðu.

Purkunarlaust lítilsvirtu alþingismenn samstöðu launamanna og gerðu gys að henni með aulabröndurum. Opinberuðu getuleysi til nauðsynlegrar ákvarðanatöku, og eyddu verðmætum tíma í lýðskrum og það eitt að koma sökum á aðra, þá helst samtök launamanna á almennum markaði. Þetta hefur vitanlega leitt til þess að í dag er svo komið að ekkert traust ríki milli aðila og það þarf margt að gerast af hálfu stjórnvalda ef takast á að koma á sameiginlegum kjarasamningum.

Afleiðingar getuleysis þingmanna blasir við, vaxandi fjöldi fólks er að fara úr landi. Það vildi taka þátt í endurreisn landsins, en ætlar ekki að búa lengur við ríkjandi ástand átakastjórnmála hér á landi. Taktu eftir lesandi góður, það er ekki atvinnulaust fólk sem er að fara, það er fólk sem er velmenntað og er eftirsótt á vinnumarkaði.

Hér er fylgt leið nauðhyggjunnar að venju íslenskra stjórnmálamanna og stefnt að því að hækka skatta og skera niður. Ekkert er að gerast á þeim vettvangi að skapa störf og auka við kaupgetu almennings og hjálpa hagkerfinu í gang. Alþingi kom í veg fyrir að leysa Icesave, og nú þykjast alþingismenn vera að uppgötva hvaða afleiðingar það hefur haft fyrir atvinnulífið.

Fyrir lá samningur sem var með endurskoðunarákvæðum sem tók tillit til hvar uppgjör Landsbankans myndi á endanum lenda, þannig að það er ekkert nýtt sem er nú upp á því samningsborði. Þetta mun leiða til þess að Ísland mun tapa út úr hagkerfinu á næstu árum sem svarar einni landsframleiðslu.

Hér má benda á marga pistla á þessari síðu síðasta ár, þar sem vitnað var til ummæla allra forvarsmanna helstu tæknifyrirtækjanna. En lélegir fréttamenn telja þetta eitthvað nýtt sem er að koma upp yfirborðið núna.

Sveitarfélögin sjá einungis hina billegu og óábyrgu Orkuveituleið, það er að auka tekjur með 25% hækkun gjaldskrár, ekki er tekið tillit til þess að heimilin þurfa líka 25% hækkun til þess að geta varið kaupmátt sinn. Nei - heimilunum er gert að taka á sig þau vandamál sem misvitrir og getulausir stjórnmálamenn hafa skapað.

Það eru tæknifyrirtækin sem hafa verið að bæta við sig mannskap og segja að það sé vöntun á starfsfólki með tækniþekkingu. En á sama tíma leggja nauðhyggjustjórnmálamenn fram tillögur um að skera niður kvöldskóla og leggja niður starfsmenntadeildir. Með öðrum orðum að skera á þær leiðir sem fólk á vinnumarkaði hefur getað nýtt til þess að mæta þörfum fyrirtækjanna. Þetta er að leiða til þess að hafinn er innflutningur á erlendum tæknimönnum.

Sé litið til heildarhagsmuna er langtímasamningur bestur, en þá þurfa allir að starfa af heilindum og traust að ríkja milli aðila. Tryggja verður meiri stöðugleika og kaupmátt. Launahækkanir verða að ná til allra. Bæta má stöðu þeirra lægst launuðu sérstaklega í gegnum skerðingarmörk bótakerfisins og frekari tekjutengingar.

Jafna verður lífeyrisrétt landsmanna, endurskoða skattahækkunaráform. Frídögum fyrir veikindi barna verði breytt í réttindi fjölskyldunnar. Stjórnvöld hafa með aðgerðum sínum flutt aðhlynningu sjúkra inn á heimilin og þau sitja með það óbætt. Stöðva verður kennitöluflakk og um leið vaxandi svart hagkerfi. Færa staka frídaga í miðri viku að helgum eins og gert hefur verið í nágrannalöndum, um leið að tryggt verði að þessi frí glatist ekki lendi frídagar á löghelgum dögum og það verði til lengingar á orlofi. Aðfangadagur verði frídagur launamanna.

miðvikudagur, 24. nóvember 2010

Framboð til stjórnlagaþings - 7825

Við höfum tamið okkur slæma stjórnarhætti. Samfélag okkar er ekki byggt upp af skynsemi. Við verðum að tileinka okkar gjörbreytta stjórnarhætti og hefta möguleika ríkisvaldsins til þess að hygla sérhagsmunum og ganga gegn mannréttindum. Við þurfum að byrja með hreint borð eftir Hrunið og eigum að hefja þá ferð með nýrri stjórnarskrá. Hún nauðsynleg til að skýra stjórnkerfi landsins. Stjórnarskráin er ekki ástæða þess hvernig við Íslendingar höfum haldið á málum okkar, en hún hefur reynst stjórnmálamönnum hentug til að tryggja sér völd.

Við eigum einkalíf með fjölskyldu, vinum og starfsfélögum, en verðum að gera margt saman í samfélaginu. Á nokkrum áratugum höfum við byggt upp samfélagskerfi af svo miklum hraða og krafti að ekki stendur steinn yfir steini. Siðferðið hefur setið á hakanum á meðan yfirborðsmennskan hefur orðið hið ráðandi afl. Ef við viljum ná betri þroska verðum við að taka umræðusiði okkar til rækilegrar endurskoðunar og setja okkur reglur sem miða að því að yfirvega lífshætti okkar og breyta þeim svo að börnum okkar finnist eftirsóknarvert að lifa í þessu landi. Leggja grunn að mannsæmandi lífi og koma í veg fyrir hinar endalausu deilur.

Fyrsti áfanginn gæti verið að yfirvega í alvöru, og ekki einungis lögfræðilega, hina dönsku stjórnarskrá frá 1944. Markmiðið á að vera að ný stjórnarskrá endurspegli þær reglur sem við viljum hafa við að leiða sameiginleg mál farsællega til lykta. Valdið sé hjá fólkinu og það geti leitt mál sín til lykta eftir reglum og leiðum sem það sjálft virðir. Tryggja þarf rétt fólksins til þess að grípa inn þróun mála og geti vísað málum til þjóðaratkvæðis. Skerða þarf veldi stjórnmálaflokka og hagsmunasamtaka og setja ýtarleg ákvæði um eignarrétt þjóðarinnar yfir auðlindum.


Mannréttindakaflann þarf endurskoða og setja fremstan í nýja stjórnarskrá.

Vald forsetans þarf að skýra og tryggja. Setja þarf ákvæði í stjórnarskrána um rétt forseta til að mynda utanþingsstjórn, takist Alþingi ekki að mynda starfhæfa stjórn.

Tilskilinn hluti kjósenda þarf að geta vísað lagafrumvörpum til þjóðaratkvæðis. Girða þarf fyrir getu Alþingis til að ganga gegn vilja fólksins í landinu, jafnframt þarf að setja ákvæði sem skerða veldi stjórnmálaflokka og hagsmunasamtaka.

Aðskilja þarf löggjafa- og framkvæmdavald og hindra að of mikið vald safnist á fáar hendur. Fækka á þingmönnum í 33 og ráðherrar ekki fleiri en sjö eða átta og sitji ekki á þingi.

Setja á ýtarleg ákvæði um eignarrétt þjóðarinnar yfir auðlindum, og lögvernd hans. Endurskoða þarf ákvæði um náttúruna og vernd hennar.

Kjördæmaskipaninni þarf að breyta, svo að landið verði eitt kjördæmi.


Núverandi hafði ekkert með Hrunið að gera. En ný stjórnarskrá getur verið gott skref til þess að byrja með hreint borð. Stjórnmálin eru löskuð og þurfa að ná til þjóðarinnar á ný, það er gert með því að gera gagngerar breytingar á stjórnskipaninni í stjórnarskrá og senda með því skýr skilaboð um nýtt upphaf og nýja siði.

Ég hef ákveðið að gefa kost á mér til Stjórnlagaþings og er með auðkennisnúmerið 7825.

laugardagur, 20. nóvember 2010

Agaðri vinnubrögð

14 þingmenn lögðu nýverið fram frumvarp um málshöfðun gegn Bretum, vegna hryðjuverkalaganna. Málflutningur þessa fólks einkennist af staðreyndavillum, skrumi og upphrópunum. Það er full ástæða til þess að taka á Bretum vegna þessa máls, en ef menn ætla að ná árangri verða menn að venja sig á vandaðri vinnubrögð en fram kemur í greinargerð þeirra, sem er full að staðreyndavillum og barnalegum upphrópunum.

Hluti þessa fólks leiddi yfir okkur hið skelfilega Hrun. Það greip ekki til varna, heldur hélt áfram á fullri ferð þar til ekki stóð steinn yfir steini í samfélagi okkar og tugi þúsunda heimila lágu í valnum. Blaðrandi innistæðulaust kjaftæði í pontu Alþingis og með aulabrandara í spjallþáttum.

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis kemur fram að þetta fólk, sem þá var sumt ráðherrar, samþykkti að draga úr umsvifum bankakerfisins gegn því að fá gjaldeyrisskiptasamning við nágrannaþjóðir okkar. Þau stóðu ekki við þá samninga og kölluðu með því yfir okkur þá smán að ríkisstjórnir Norðurlandana höfnuðu að eiga við okkur fjárhagsleg samskipti nema í gegnum AGS. Við fengum þá leið bjarghring frá Norðurlöndum, sem kom í veg fyrir fullkomið hrun hér á landi á vöxtum sem voru langt undir því sem Íslandi stóð til boða annarsstaðar. Þá stóðu blaðurskjóðurnar í pontu Alþingis og héldu ræður um óvini okkar á Norðurlöndum.

Þegar kom að því að ætlast var til þess að við stæðum við alþjóðlegar skuldbindingar hvað varðar Icesave, fór þetta fólk hamförum í pontu Alþingis með mesta skrum sem viðhaft hefur verið á þeim vettvangi og leiddi yfir atvinnulífið enn meiri ófarir og var þar þó nóg komið.

Það er mikil þörf á að Alþingi taki upp vandaðri vinnu brögð og færa Ísland upp á svipað stig og er í nágrannalöndum okkar. Umhverfismál eru einn mikilvægasti málaflokkur evrópskra stjórnmála í dag. Í gildi eru sameiginleg lög um náttúrvernd, útstreymi gróðurhúsalofttegunda og mengunarvarnir. Það liggur fyrir að íslendingar þurfa að stíga nokkur veigamikil skref til þess að standast samskonar kröfur og nágrannalönd okkar gera.

Lagfæra þarf náttúruverndarlög og lög um verndun fugla þurfi að efla til að þau samræmist evrópskri löggjöf. Þar verður að sveigja frá þeirri venju að láta hagsmunaaðila eins og orkufyrirtæki og útvegsmenn ráða ferðinni. Þetta er óháð því hvort aðild að ESB verður samþykkt eða ekki. Í tiltekt eftir Hrun þarf að taka upp mun agaðri vinnubrögð en hér hafa tíðkast. Þar þarf Alþingi að fara fyrir með góðu fordæmi, ekki svona bulli eins og þetta fólk ástundar.

föstudagur, 19. nóvember 2010

Að halda vitinu

Það hefur verið í tísku undanfarið að ráðast að starfsmönnum stéttarfélaga, bera á þá alls konar sakir. Jafnvel hafa menn þar á meðal fyrrv. þingmenn gengið svo langt að halda því fram að Hrunið sé starfsfólki stéttarfélaga að kenna. Það hafi það eitt fyrir stafni að sitja við tölvurnar á skrifstofum stéttarfélaganna og gambla með fjármuni lífeyrissjóðanna. Spilling og valdagræðgi sé allsráðandi meðal þessa fólks. Það standi ekki með launamönnum.

Þetta er reist á þeim stoðum að stéttarfélögin boði ekki til verkfalla og krefjist þess að félagsmenn leggi niður vinnu og mæti á Austurvöll og styðji kröfur sem fámennur hópur fólks hefur sett saman. Kröfur sem gera það eitt að vekja óraunsæjar væntingar hjá fólki sem á í vanda. Allir sem þekkja til þar á meðal ættu fréttamenn vita það helst allra hvaða lög eru ígildi í landinu. Einnig hvað starfsmenn stéttarfélaga starfa við frá degi til dags. T.d. að þeir koma ekki nálægt starfsemi lífeyrissjóða.

Þessu er stillt upp með þeim hætti að það sé á ábyrgð starfsmanna stéttarfélaganna að þessar kröfur nái fram að ganga. Kröfurnar ganga út á það að tekið sé sparifé launafólks í almennu lífeyrissjóðunum og það notað til þess að greiða niður skuldir fólks. Lífeyrissjóðirnir verði lagðir niður og eignir þeirra nýttar til þess að laga greiðslustöðu ríkissjóðs. Þeir starfsmenn stéttarfélaganna sem ekki samþykki þetta séu með því að verja áframhaldandi spillingu og völdum sínum. Hvaða völdum? Það er aldrei skýrt og aldrei er farið til starfsmanna stéttarfélaganna og þeir spurðir.

Þar fara fremstir í flokki spjallþáttastjórnendur sem taka hvert viðtalið á fætur öðru við menn sem eru þessarar skoðunar og hafna því alfarið að taka viðtöl við starfsmenn stéttarfélaganna, eða lífeyrissjóðanna.

Dag eftir dag er starfsmönnum stéttarfélaganna gert að hlusta á þennan boðskap í morgunþáttum og eftirmiðdagsþáttum og í bloggpistlum spjallþáttastjórnenda. Já, lágkúran fer þar um með ofsahraða. Kallaðir eru til spjalls menn sem eru sammála skoðunum spjallþáttastjórnenda. Menn sem vitað er að fari með kolrangar fullyrðingar.

T.d. hefur okkur verið gert að hlusta á það undanfarna daga að hægt sé að lækka rekstrarkostnað lífeyrissjóðanna niður í rekstrarkostnað eins sjóðs með því að sameina þá alla. Allir sem þekkja til í viðskiptum vita að kostnaður við rekstrarráðgjöf og samninga við stóru eignastýringafyrirtækin eru veltutengd. Aftur og aftur upplýsa spjallþáttastjórnendur okkur um fávisku sína, eða kannski frekar á hvaða plani þeir vinna.

Allir vita sem vilja vita og þar ættu fréttastofur og starfsmenn þeirra að vita best allra, að ásama tíma liggja fyrir samþykktir félagsmanna stéttarfélaganna sem ganga þvert gegn þessum kröfum. Auk þess að fyrir hafa legið niðurstöður viðurkenndra sérfræðinga að þessar kröfur geti aldrei orðið að veruleika.

Hversu langt á að ganga? Þessi vinnubrögð spjallþáttastjórnenda eru það ógeðfelldasta sem ég hef séð á mínum ferli, og hef þó upplifað margt. Ég yrði ekki undrandi þó ég heyrði spjallþáttastjórnendur hvetja til galdrabrenna á heimilum starfsmanna stéttarfélaga.

Göngustígar og sjálfboðastarf

Mér var boðið í vikunni að koma sem fyrirlesari á ráðstefnu SEEDS, sem eru samtök sjálfboðaliða sem vinna að náttúruvernd. Þau hafa unnið mikið hér á landi við hreinsun strandlengjunnar og lagningu göngustíga. Þarna eru á ferð fólk á öllum aldri nánast frá öllum löndum heimsins. T.d. hef ég á gönguferðum mínum um Hornstrandir hitt erlenda háskólaprófessora sem voru að störfum við lagningu göngustíga, þeir sögðu mér að þeir eyddu alltaf hluta af sumarfríum sínum í þessi störf. Það gæfi þeim svo mikið að geta unnið að því að berjast gegn spillingu náttúrunnar.

Ég er af þeirri kynslóð íslendinga sem var send í sveit norður í Húnaþing á hverju sumri. Þá lauk skólanum í lok apríl og byrjaði aftur í byrjun október. Maður var í sauðburðinum allan sólarhringinn, stundum var mjög kalt og við tókum nýfædd lömbin sem virtust lágu milli þúfnanna og virtust dauð og fórum með þau heim á bæ og settum þau inn í bakarofninn, þar sem þau stóðu upp eftir skamma stund.

Á sumrin var ég sendur reglulega frá bóndabýlinu upp á hálendið á hestum í hin fjölmörgu vötn sem þar eru og þar veiddum við silung í net. Maður óð út í vötnin alveg upp að öxlum með netin og síðan var beðið og vitjað í þau um miðnætti og svo eldsnemma morguns. Þegar búið var að veiða eins mikið og komst fyrir í töskunum á hestunum fórum við heim aftur.

Það var ólýsanleg upplifun að vera aleinn 30 km. frá næsta sveitabæ, út í miðju heiðarvatni upp á hálendinu. Oft kom þoka á kvöldin þannig að maður sá einungis nokkra metra frá sér. Kyrrðin var algjör utan þess að himbriminn vall með sínu undurfagra hljóm. Oft var það þannig að hann festist í netunum og ég þurfti að eyða löngum tíma til þess að losa hann án þess að skaðast. Minkurinn skaust um í bakkanum og reyndi að stela sér nokkrum fiskum af aflanum og endurnar héldu sér í hæfilegri fjarlægð. Þarna á björtum sumarnóttum lærði maður að meta íslenskt hálendi.

Síðan þá hef ég notað nánast hverja lausa stund á sumrin til þess að komast burt úr frá asanum hér í borginni. Oftast verið milli 30 – 40 nætur í tjaldi á hverju sumri. Við íslendingar höfum á undanförnum árum verið að upplifa breytingar. Göngufólki fer fjölgandi og það kallar á margskonar aðstöðu. Það vill t.d. enginn tjalda á svæði sem er þakið af hvítum pappírssnifsum. Það er sorglegt að þegar göngustígarnir verða sífellt breiðari og oft taka þeir tilgangslausa stefnu út um hlíðarnar og gegnum mosabreiðurnar og skófirnar og það tekur náttúruna áratugi að jafna sig.


Við íslendingar erum að uppgötva að við erum tilneydd til þess að taka upp umferðarreglur á göngugötunum okkar, marka leiðir og smíða palla á þeim stöðum sem flestir stoppa. Girða af þær leiðir sem má fara, til þess að halda þessum mikla fjölda á ákveðnum leiðum og síðast en ekki síst setja upp snyrtingar til þess að losna við hvítu pappírssnifsin af þeim flötum sem maður vill setja upp tjaldið og geta sest niður fyrir framan tjaldið og farið að elda áhyggjulaus um að lenda í uppákomu sem eyðileggur stemminguna og matarlistina.

Hér er risavaxið verkefni, Ísland er stórt land með löngum gönguleiðum og mörgum svæðum sem fólk vill skoða. Í sjálfu sér er fólk endilega að leita sérstökum náttúrufyrirbrigðum, heldur að geta ráfað um náttúruna, án þess að vera að þræða milli húsveggja og vera laus við öskrandi bílana.

Þetta verkefni er svo stórt að við ráðum ekki við það, þess vegna fagnar maður ávalt hópum sjálfboðaliða sem koma hingað og taka til hendinni. Þetta fólk er einnig að kenna okkur handbrögðin, hvernig gera á stígana þannig að þeir séu ekki orðnir að djúpum skurðum eftir leysingarnar næsta vor. Hvernig hægt að beina vatninu út af stígunum.

Á ferðum mínum síðustu sumur hef ég hitt erlent fólk sem hingað er komið í sjálfboðavinnu við að innleiða þessa þekkingu. Ég hef séð það leggja stíga vestur á fjörðum, hér í Esjunni í Skaptafelli og inn í Þórsmörk. Ég er ásamt öðrum íslenskum göngumönnum þessum sjálfboðaliðum afskaplega þakklátur þessu fórnfúsa starfi og horfi með aðdáun á handbragðið. Þar eru margar lausnir, sem eru svo augljósar þegar maður sér þær.

fimmtudagur, 18. nóvember 2010

Lýðskrumið í aksjón

Í örstuttum pistli í gær minntist ég á að það væri búið að valda gríðarlegum skaða á vinnumarkaði, sérstaklega almennum vinnumarkaði með því hversu óábyrgir þingmenn stjórnarandstöðunnar með aðstoð þeirra innan ríkistjórnarinnar sem ekki þora að taka óvinsælar ákvarðanir, hafa verið í umfjöllun um Icesave. Gengu svo langt að telja hluta þjóðarinnar í trú um að með einu stóru feitu Neii gætum við sagt okkur frá Icesave.

Margir urðu vitanlega til þess að trúa reyksprengjunum sem fleygt var á Alþingi að með stóra feita Neiinu segði þjóðin sig frá stærsta hluta síns skuldavanda. Icesave var og er lítill hluti vanda hins íslenska samfélags.

Vill byrja eins og oft áður þegar komið er að Icesave, enginn íslendingur vill greiða Icesave, en margir viðurkenna þá ömulegu staðreynd að Ísland hafi undirgengist samninga þar af lútandi. Það er ekki bara núverandi ríkisstjórn þetta samkomulag er búið að vera í gildi um langt árabil.

Í hinni trylltu Icesave umræðu fyrir ári síðan stilltu formenn stjórnarandstöðuflokkanna ætíð upp með þeim hætti að málið snérist um að losa okkur við heildarskuldbindingar Icesave reikninga. Skuldatölur sem aldrei höfðu verið inn í þeim samningsdrögum sem fyrir lágu. Heldur lá það fyrir allan tíman að eignir Landsbankans myndu duga langleiðina til þess að standa undir samningsdrögunum, sem einungis fjölluðu um 20 þús. evru markið. En dansinn varð sífellt trylltari og öllum brögðum lýðskrumsins beitt. Orðbragð þingmanna snérist upp í mestu lágkúru sem heyrst hefur í þingsölum.

Óábyrgastir allra voru formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar. Forseti lýðveldisins stóðst ekki mátið að stíga lýðskrumsölduna í örvæntingarfullri tilraun til þess að víkja sér undan þeirri smán, að hafa farið næstur á eftir Hannesi Hólmstein sem helsta klappstýra blöðruselanna, sem blésu upp kúluna sem kom Íslandi í þrot. Allt í boði afskiptaleysis Seðlabanka og Fjármálaeftirlits.

Allt rættist sem sagt var um Ísland í nágrannalöndum okkar; Það er ekki hægt að ræða við íslensk stjórnvöld og lána þeim fjármuni til bjargar öðruvísi en í gegnum AGS. Mikil smán sem búið var að kalla yfir landið.

Það er takmarkalaus fantaskapur að nýta sér erfiða stöðu almennings til þess að vekja upp innistæðulausar væntingar. Þetta þekkjum við vel sem höfum starfað við gerð kjarasamninga. Það er ekkert auðveldara en að beita lýðskrumsvinnubrögðum með yfirboðum í skjóli þess að þurfa aldrei að standa við loforðin. Það lendir svo á hinum ábyrgu kynna ganga í gegnum vonbrigðaölduna þegar hinn bitri og súri raunveruleiki blasir við.

En lýðskrumarinn hefur aldrei burði til þess að horfast í augu við afleiðingar gjörða sinna og þær óvinsældir sem raunsæismanninum bíður, frekar stillir skrumarinn sér upp og bendir á að ef hans leið hefði verið farinn þá væri allt betra, en aðrir hefðu komið í veg fyrir að sú leið hefði verið farinn.

Nákvæmlega sömu sögu má segja um þá reyksprengju, að hægt sé að láta skuldir gufa upp, án þess að einhver yrði borga brúsann. Sömu fantabrögðum var beitt gagnvart fólki sem á örvæntingarfullan hátt leitaði leiða til þess að bjarga sér og heimilum sínum. En auðmenn sáu sér þá leik á borði og vildu losa sig við milljarða skuldir.

Virkir urðu skuldsettir verktakar í sætum spjallþáttastjórnenda sem vildu einnig fá að njóta niðurfellingar. Allan tíman lá fyrir að ef þessi leið yrði farinn, dygði hún ekki til bjargar þeim sem verst stóðu og áttu mestan rétt á hjálp. Það kom lýðskrumurum ekki við, þeir stilltu sér fremst í röðina eins og áður og vildi hrifsa til sín bestu bitana, eins og frjálshyggjan jafnan gerir. Öllum vopnum var beitt til þess að vega þá, sem bentu á hversu óraunsæjar tillögurnar væru.

Allt þetta hefur valdið óþarfa eins árs kyrrstöðu á lausnum fyrir atvinnulífið í eðlilegum samskiptum við erlendar lánalínur og tafið viðsnúning á almennum vinnumarkaði. Stór hluti hinna 15 þús. manns sem enn eru atvinnulausir eru það að sakir lýðskrumsins. Sama má segja um úrlausnir á stöðu þeirra fjölskyldna verst standa.

Nú liggur þessi heita kartafla í fangi framangreindra manna og fylgisveina. Sigmundur Davíð gengur enn fram fyrir skjöldu og sýnir okkur þá hlið að hann hefur hvorki burði eða drengskap til þess að axla ábyrgð á gjörðum sínum.

miðvikudagur, 17. nóvember 2010

Þetta sögðum við alltaf

Sá kostnaður sem nú liggur fyrir að hver leið kosti við lausn á skuldavanda heimilanna eftir útreikninga nefndar ríkisstjórnarinnar lá fyrir í útreikningum hagdeildar ASÍ fyrir um einu og hálfu ári og var þá kynntur ríkisstjórninni. Engin vildi trúa þessu og hatursbréfin streymdu.

Sá samningur sem gerður var um Icesave og var búið að staðfesta var með 7 ára gjaldfresti og opnum möguleikum til endurskoðunar þegar lægi fyrir hver útkoma yrði úr þrotabúi Landsbankans. Stjórnarandastaðan bæði innan og utan ríkistjórnar fór hamförum og tók reyndar alltaf nánast tvöfalt hærri upphæð inn í sínar fullyrðingar.

Virðist að semja eigi um svipað og fyrir lá. Stóra feita Neiið og hræðsla um heimsins við stórveldið Ísland sem myndi með því kollvelta hagkerfum heimsins og allar stóru fullyrðingar vor ómerkilegt og innistæðulaust lýðskrum.

Þetta hvort tveggja er búið að valda óþarfa ári í frekara hrun atvinnulífs og seinkað viðspyrnu. Hefur kostað almenning miklar fórnir, kostað þjóðarbúið milljarða. Líklega sem svarar einni ársframleiðslu eins og hagdeild ASÍ reiknaði út fyrir ári og var kynnt.

þriðjudagur, 16. nóvember 2010

Gegnumstreymiskerfið og Gunnar Tómasson

Á svipuðum tíma og Gunnar Tómasson sendi inn pistil um lífeyrissjóðakerfið í janúar 2009 hélt aðalritari OECD, Angel Gurria opnunarræðu í Davos þar sem hann sagði að afturhvarf í hreint gegnumstreymiskerfi yrðu mikil mistök. Ætla mæti að OECD hefði eitthvað til síns máls, en Gurria notaði sömu rök og sett eru fram í grein sem Gunnar vísar til, þó hann hafi komist að annarri niðurstöðu.

Í grein Gunnars segir að “gegnumstreymiskerfi hafi reynst öðrum þjóðum vel.” Eðlilegt hefði verið hjá honum að benda á þær þjóðir máli sínu til stuðnings, en ég leyfi mér að efast um að þar sé átt við Grikkland, Frakkland og Ítalíu enda stórkostleg vandamál þar til úrlausnar, eins og hefur verið nánast daglega í fréttum. Eina heimildin sem vísað er til, er grein eftir tvo starfsmenn Seðlabanka Íslands, eftir þau Guðmund Guðmundsson og Kristíönu Baldursdóttur og haft eftir þeim að: “Ekki er að sjá að stórfelldur peningasparnaður Íslendinga með lífeyrissjóðum hafi leitt til samsvarandi þjóðhagslegs sparnaðar,” sem er svo endurtekið í niðurstöðu greinarinnar.

Af lestri greinar Gunnars mætti ætla að höfundarnir hafi komist að því að við gætum allt eins tekið upp gegnumstreymiskerfi úr því að þjóðhagslegur sparnaður er ekki meiri en raun beri vitni. Í byrjun greinarinnar segir eftirfarandi. “Eftirlaun eru nú alvarlegt áhyggjuefni í ríkisfjármálum flestra iðnvæddra landa. Þau eru að mestu greidd með skattfé og fyrirsjáanlegt að framlög til þeirra þurfa að hækka mikið næstu áratugi. Ástæðan fyrir þessu er að fjölmennir árgangar nálgast eftirlaunaaldur, íbúar landanna ná hærri aldri og eignast færri börn. Hlutfall eftirlaunaþega og fólks á starfsaldri mun því hækka mikið fram eftir 21. öld.”

Hér vísa höfundar til ráðstefnu sem Hagfræðistofnun Háskólans efndi til vorið 2004 í samvinnu við Columbiu háskóla. Þeir sem sátu þá ráðstefnu og reyndar margir aðrir fræðimenn, hafa komist að því að eftirlaun þeirra sem búa við gegnumstreymi er “alvarlegt áhyggjuefni” eins og þau Guðmundur og Kristíana komust að. Má þar nefna skýrslu Alþjóðabankans frá 2001 þar sem mælt er með uppbyggingu á þriggja stoða lífeyriskerfi, kerfi með blöndu af gegnumstreymi fyrir grunnlífeyrisrétt, sjóðasöfnun í samtryggingarkerfi og séreignarsjóði. Sú stefna byggði á ítarlegri greiningu bankans frá 1994 sem birt var undir nafninu “Averting the Old Age Crisis”. Þá hefur OECD ítrekað látið sína skoðun í ljós á málefninu samanber opnunarræðu Gurria í Davos.

Að sjálfsögðu er öllum frjálst að viðra skoðanir sínar á málefninu, en þá væri vel við hæfi að bera þær saman við aðra. Mögulega hefur Gunnar Tómasson rétt fyrir sér og Alþjóðabankinn, OECD og Evrópusambandið rangt. Úr því að vísað er til greinar í Peningamálum frá 2006 hefði verið eðlilegt að vísa til orðalags höfunda að: “Nokkuð almenn sátt virðist ríkja um fyrirkomulag lífeyrismála á Íslandi og við hrósum happi að hafa valið aðra leið en þau lönd sem við líkjumst mest í lífsgæðum.” Sú sátt sem vísað er til er vissulega ekki jafn mikil nú og hún virtist vera fyrir hrun og kannski er ástæðan sú að málefnaleg umræða um lífeyrismál þjóðarinnar felst í einhliða röksemdarfærslum þeirra sem finna kerfinu allt til foráttu. Manna sem halda endurtekið uppi málatilbúnaði í Silfri Egils um kerfið, athugasemda- og gagnrýnislaust.

Er til of mikils ætlast að umræðan verði borin saman við hvað aðrar þjóðir eru að hugsa í þessum efnum, auk annarra stofnana og hagsmunasamtaka sem láta sér málið varða? Orðalagið “við hrósum happi” er ekki orðum aukið. Barátta þeirra þjóða sem stefna út úr gegnumstreymiskerfi verður þrautarganga og öll umræða í Evrópu um þriggja stoða leiðina bendir til þess að við ættum að “hrósa happi” fyrir að vera komin þó þetta nálægt því markmiði að byggja upp slíkt kerfi.

Það er ótrúlegt eftir að hafa lesið í gegnum allar þær skýrslur sem ritaðar eru um málefnið, að hér skuli vera til menn sem vilja brjóta þessa áratuga uppbyggingu niður, af því að þjóðhagslegur sparnaður hefur ekki aukist umfram þau lönd sem búa við gegnumstreymiskerfi. Að hér sé bara hægt að bjarga þúsundum fjölskyldna með því að leggja lífeyriskerfið niður og losa þjóðina við þungar byrðar. Gunnar vill eflaust að úr því að ríkið getur ekki rétt hallann af á lífeyrissjóði ríkisstarfsmanna, sé réttast að þeir sem safnað hafa í sjóði á almennum vinnumarkaði afhendi ríkinu eignirnar í von um að Tryggingastofnun muni þjóna sem lífeyrissjóður allra landsmanna.

Sá sjóður sem ég greiði til hefur varið um 30% af eignum í skuldabréf til fjölskyldna í landinu. Á hann þá að afhenda ríkinu hin 70% og vísa sjóðfélögum á Tryggingastofnun ríkisins. Hvað ætlar Gunnar að gera ef lýðfræðilegar spár OECD rætast? Að hér verði hlutfall eldri borgara um 20% af þjóðinni og hlutfall þeirra sem greiða skatt til að fjármagna gegnumstreymiskerfið fari stöðugt lækkandi og jafnvel snarlækki þegar ungt fólk flýr landið í umvörpum vegna skattahækkana.

Í samþykktum frá fundum rafiðnaðarmanna þá kemur fram mjög skýr vilji til þess að halda áfram á þessari braut. Það er ekki uppfinning einhverrra fárra sem eru að mynda sér einhverja valdastöðu. Það einkennir þessa umræðu fullyrðingar að allt þetta fólk sé á villigötum, viljalaus verkfæri í höndum spilltra manna.

Við þessa ákvarðanatöku hefur farið fram upplýst umræða byggða á víðtækri upplýsingaöflun m.a. ráðlegginga OECD og Alþjóðabankans um að við, og reyndar aðrar þjóðir, byggjum á þeim góða grunni sem þegar hefur verið lagður. Niðurstaða þessarar um ræðu er að tryggja eigi lífeyri sem er um 80% af meðaltekjum launamanns. Það komi um 60% frá uppsöfnunarsjóðum og 20% frá gegnumstreymissjóði almannatrygginga kerfisins.

Þekkt er að nokkur hluti fólks hefur kosið að vera verktakar ekki skilað inn greiðslum að fullum tekjum til uppsöfnunarkerfisins og það fólk horfir framan í þá staðreynd að það fái þar af leiðandi lítinn lífeyri, þetta fólk vill vitanlega fá aðrar lausnir. Hættum að birta endalausar hugmyndir um að hér sé bara hægt að losa okkur undan öllum vandamálum með lausnum sem henta öllum og það án fórnarkostnaðar.

mánudagur, 15. nóvember 2010

Trúnaðarmenn

Rafiðnaðarsambandið hélt sín árlegu trúnaðarmannaráðstefnu í lok síðustu viku, ráðstefnuna sátu tæplega 100 trúnaðarmenn af vinnustöðum rafiðnaðarmanna víðsvegar um landið. Trúnaðarmenn eru hryggbeinið í starfsemi stéttarfélaga, tenging stjórna og starfsmanna viðkomandi stéttarfélags við vinnustaðina. Trúnaðarmannaráðstefnur eru lifandi og bráðfjörugir fundir, þar er tekist á um stefnur og málefni. Það sem gerir þá svo sérstaka er að þar eru samankomnir einstaklingar sem hafa mjög góða þekkingu á þeim málum sem til umræðu eru og hafa þjálfun í því að koma skoðun sinni á framfæri.

Það eru starfsmenn viðkomandi vinnustaðar sem kjósa sér trúnaðarmenn, að þeim kosningum koma ekki forsvarsmenn stéttarfélaga eða starfsmenn viðkomandi stéttarfélags. Trúnaðarmaður er einnig valinn af félögum sínum til þess að mæta á ráðstefnur þar sem stefnur stéttarfélaganna eru mótaðar. Þegar trúnaðarmaður hefur verið kjörinn standa honum til boða margskonar námskeið um regluverk vinnumarkaðarins, vinnuvernd og aðbúnað á vinnustað, kjarasamninga og gerð þeirra, grunnreglur í hagkerfinu og fleira.

Það er ekki auðvelt að vera trúnaðarmaður, hann er milliliður fyrirtækis og starfsmanna. Þetta er á báða bóga, starfsmenn með kröfur eða fyrirtækið vill breyta starfsháttum og hagræða. Oft er það svo að kröfur starfsmanna rekast á regluverkið eða fyrirtækin hafna því að verða við þeim. Einnig lenda trúnaðarmenn í því að takast á við andstyggilegar uppákomur þar sem verið er að hlunnfara starfsmenn.

Það er meirihluti félagsmanna sem afgreiðir kjarasamninga, ekki starfsmenn stéttarfélaganna eða trúnaðarmenn. Krónan og efnahagstjórnin hefur langmest um það að segja hvernig þróun kaupmáttar er, en samt er trúnaðarmönnum gert að sitja undir harkalegum ásökunum um slaka kjarasamninga og að regluverkið sem stjórnmálamenn setja sé ekki í samræmi við óskir starfsmanna.

Trúnaðarmenn verða því oft í hugum starfsmanna ímynd þess sem stendur í vegi þess að ýtrustu kröfur náðu ekki fram að ganga. Trúnaðarmenn semja ekki við sjálfa sig eða starfsmenn stéttarfélaga, viðsemjandinn er fyrirtæki, tryggingarfyrirtæki eða einhver eftirlitsstofnun hins opinbera.

Það andstyggilegasta sem ég upplifi er þegar stjórnarmaður stéttarfélags mætir í spjallþætti og lítilsvirðir trúnaðarmenn þessa mikilvægustu samstarfsmenn sína. Öll vitum við að greiðasta leiðin til þess að komast á síður blaðanna eða í spjallþætti er að smella saman andstyggilegri gagnrýni á verkalýðsfélögin. Sumir standast ekki þessa freistingu og eru fatir gestir í spjallþáttunum. Þeir hafa ekki haft erindi sem erfiði á fundum innan eigin stéttarfélags, sakir þess að sú gagnrýni sem þeir eru með stenst ekki nánari skoðun, er reist á röngum forsendum. Oft er það reyndar þannig að þeir mæta ekki á fundi, því þar er þeim gert að standa undir fullyrðingum sínum en geta það ekki.

Við heyrum frá þessum mönnum að þeir hafi jú farið á fund með 300 trúnaðarmönnum víðsvegar af landinu, en tillögur þeirra hafi ekki náð fram að ganga. Hinir þessir 299 trúnaðarmenn séu skoðanalaus og viljalaus verkfæri einhverrar klíku, fundurinn hafi verið Sirkus uppákoma, því hún hafi ekki tekið undir gagnrýni viðkomandi. Þessir menn virða gildandi lýðræðisreglur að vettugi, niðurstöður meirihlutans skipta þá engu.

Fréttamenn og spjallþáttastjórnendur taka alltaf viðtal við þennan eina sem er á móti öllum hinum. Ég hef oft sagt hér í pistlum að það sé áberandi að íslenskir spjallþáttastjórnendur velja sér viðmælendur með það sjónarmið að fá staðfestingu á eigin skoðun. Þeir hleypa ekki að öðrum sjónarmiðum. Lokast inn í sjálfhverfri veröld. Oft er það svo að fréttamenn og spjallþáttastjórnendur eru ekki félagsmenn í stéttarfélögum, eru verktakar. Standa ekki skil á launatengdum gjöldum til samfélagsins og vilja losna undan þeirri ábyrgð. En eins einkennilegt og það er þá eru þeir sífellt með kröfur gagnvart samfélaginu og samtökum um að þau geri eitthvað annað en meirihluti félagsmanna stéttarfélaganna hefur samþykkt.

Ég hef stundum bent að forystu stéttarfélags sé einfaldlega gert að framfylgja samþykktum meirihlutans, þar skipti engu hvaða skoðun formaðurinn hafi. Enda er það stundum svo að skoðanir hans hafa orðið undir í atkvæðagreiðslum. T.d. ber samninganefnd samkvæmt lögum að bera niðurstöðu í Karphúsinu undir félagsmenn, sem taka ákvörðun um hvort þeir samþykki niðurstöðuna eða hvort þeir ætli sér að fara í hörku og verkfall. Ég hef einungis atkvæðisrétt í kosningum um þann kjarasamning sem mín laun eru ákvörðuð eftir, Rafiðnaðarsambandið er með 15 aðra kjarasamninga.

Hún er ansi þreytt sú innistæðulausa klisja að fámenn sjálfvalin klíka stjórni öllu í verkalýðshreyfingunni. Við í RSÍ höfum t.d. ekkert með að gera hvernig aðrir stjórna sínum lífeyrissjóð eða hvernig þeir semja.

sunnudagur, 14. nóvember 2010

Hið innihaldslausa þras

Þeir stjórnmálamenn sem voru við völd þegar gengi krónunnar hrundi og Seðlabankinn varð gjaldþrota, fara nú mikinn og telja lægstu laun til skammar fyrir verkalýðshreyfinguna og bera sig við að koma sökum á hana. Í raun eru þessi menn að upplýsa okkur um hversu slök þekking þeirra er á hagsstjórn. Kaupmáttur hefur ekki hrapað vegna lakra kjarasamninga, heldur vegna rangrar efnahagsstjórnar stjórnmálamanna. Þeir hafa ítrekað nýtt krónuna til þess að leiðrétta eigin efnahagsmistök með skelfilegum afleiðingum fyrir almenning og stórkostlegum eignatilfærslum til hinna efnameiri.

Samtök launamanna hafa á undanförnum áratugum ítrekað þurft að grípa til varna vegna skerðingar stjórnvalda á bótum almannatrygginga, þrátt fyrir það halda stjórnmálamenn því fram að þessar bætur séu allt of lágar og bera sakir á aðra. Sömu stjórnmálamenn og sviku umsamda hækkun persónuafsláttar um síðustu áramót, telja nú að verkalýðshreyfingin hafi ekki staðið sig í að verja kjör hinna lægst launuðu.

Þjóðmálaumræða einkennist þannig af lýðskrumi, upphrópunum, sleggjudómum og falsi. Umræðan á Alþingi einkennist af aulabröndurum, útúrsnúningum og átakastjórnmálum og ekkert miðar. Samtök launamanna gengu fram fyrir skjöldu við Hrun og lýstu yfir vilja til þess að ganga með stjórnvöldum og öllum aðilum vinnumarkaðsins til lausnar á þeim vanda sem við blasti. Alltaf og alls staðar í öllum málum fela stjórnmálamenn getuleysi sitt bakvið skrumið. Yfirlýsingar stjórnvalda um endurreisn atvinnulífsins í Stöðugleikasáttmála voru sýndarmennska og virðist aldrei hafa staðið til að standa við þann samning. Það skortir samráð innan ríkisstjórnarinnar, milli ríkisstjórnarinnar og stjórnarandstöðunnar og milli ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins.

Kröfur um launahækkanir eru háværar ásamt því að tekið verði með festu á efnahagstjórn og gjaldmiðilsmálum til framtíðar. Verði það ekki gert mun það taka Ísland langan tíma að vinna sig tilbaka upp úr aðsteðjandi vanda og Ísland stefnir í að verða láglaunasvæði til óþarflega langs tíma. Félagsmenn stéttarfélaganna gera kröfur um að grípið verði til harkalegra aðgerða til þess að reka stjórnmálamenn upp úr hjólförum doðans til raunsærra aðgerða. Þjóðarsátt verður ekki gerð nema með aðkomu launafólks, ekki með innistæðulausum yfirlýsingum og skrumskældum veruleika.

Það er óhjákvæmilegt að endurskoða lögum um vinnustöðvanir og fá þar inn sambærileg ákvæði og tíðkast í nágrannalöndum okkar um pólitíska mótstöðu launamanna, ef stjórnvöld sýna andvaraleysi í veigamiklum málum. Verkalýðshreyfingin hefur á undanförnum árum einbeitt sér að fagpólitík án stjórnmálatengsla, en hefur ekki náð ásættanlegum árangri í deilum í mikilvægum málaflokkum, það kallar á breytta vinnuhætti.

miðvikudagur, 10. nóvember 2010

Framtakssjóður

Hvað gengur mönnum til er reka áfram umræðu um Framtakssjóð lífeyrissjóðanna. Sá ofsi sem einkennir málflutning tiltekinna manna, setur mann nú orðið í varnarstöðu. Þeir sem vilja koma á í veg fyrir málefnalega umræðu kasta oft reyksprengjum út og suður og reyna með því að draga umræðuna frá því sem raunverulega skiptir máli.

Starfsmenn lífeyrissjóða hafa það hlutverk að ávaxta fjármuni í samræmi við lög og fjárfestingastefnu hvers sjóðs. Lífeyrissjóðir hafa alla tíð fjárfest í hlutabréfum í atvinnulífinu og fáum þótt athugavert. Hvað veldur því að nú sé slíkum áróðri viðhaldið til að gera alla starfsemi Framtakssjóðsins tortryggilega.

Það er allmargt í þessum málflutning sem minnir á málflutning tiltekins hóps manna í hinum svokallað valdahóp. Manna sem ástunduðu það af krafti að fjárfesta í fyrirtækjum, gengu að lánsfjármagni í bönkunum, bútuðu þau niður, seldu öll verðmæti úr þeim og flúðu svo með peninganna til Sviss skömmu fyrir Hrunið, eða á hulda reikninga á Huldueyjum.

Fyrirtækin lágu eftir í rústum og bankarnir sátu uppi með verðlausar eignir og ógreidd lán. Margt af því sem þessir einstaklingar gerðu fellur mjög líklega undir það hugtak að vera fullkomlega siðlaust og í sumum tilfellum saknæmt. Upplýsingar um þessar athafnir liggja í bönkunum.

Alþekkt er að eftir Hrun verði uppgangur og þá gefa fjárfestingar í hlutabréfum hvað mestan arð. Hvað er að því að sá arður gangi til sjóðfélaga lífeyrissjóðanna, nóg hefur þeim blætt. Og þá kem ég að pælingu minni, og reyndar fjölmargra annarra.

Innkoma Framtakssjóðs fer greinilega ákaflega í taugarnar á þeim sem eiga peninga (þá sem ég talaði um hér framar) og vilja eins og áður getað athafnað sig á þessum hlutabréfamarkaði nánast einir. Fyrir þeim er því óþolandi að Framtakssjóðurinn sé að flækjast fyrir nú.

Eftirtektarvert er að þingmenn sem hafa þegið digrar greiðslur í kosningarsjóði frá þessum herrum skuli m.a. nota ræðustól alþingis til að dreifa slíkum áróðri. Öllu er snúið á haus og búnar til Grýlur í öllum hornum og arfaslakir fréttamenn spila mótþróalaust með.

Fyrirtæki sem umræddir menn fóru höndum um, eru nú sum hver að komast í hendur sjóðs í eigu almennings og þá munu koma fram upplýsingar sem hingað til hafa verið geymdar í bakherbergjum bankanna. Við erum mörg sem treystum því að þetta verði til þess að framangreindir menn verði gerðir ábyrgir gjörða sinna og þeim haldið utan við uppbyggingu heilbrigðs atvinnulífs og hlutabréfamarkaðar.

sunnudagur, 7. nóvember 2010

Litið yfir farinn veg

Nokkru eftir að ég hóf störf innan verkalýðshreyfingarinnar upp úr 1985 hitti ég forsvarsmenn annarra norrænna rafiðnaðarsambanda. Þar var m.a. rætt um kjarasamninga og fram kom að þeir hefðu samið um 2 – 4% launahækkanir. Við höfðum þá nýlega lokið samningum sem innifólu tæplega 40% launahækkanir og ég greindi þeim frá þessu með miklu stolti. Við stæðum töluvert framar en þeir. Viðbrögð þeirra komu mér í opna skjöldu, í stað viðurkenningar horfðu þeir sogmæddir á mig og spurðu „Hvað segirðu Guðmundur, voruð þið að semja um 40% launahækkun? Ef svo er þá hljótið þið að glíma við mjög alvarleg efnahags vandamál.“ Ég hef mikið lært síðan þá, búinn að fara á nokkra kúrsa í Háskólum í rekstrarstjórn, hagfræði og heimspeki, og skil í dag vel þeirra málflutning.

Við glímdum þá við nokkurra tuga prósenta verðbólgu og ég var að glíma við að koma mér upp litlu timburhúsi með aðstoð vina og vinnufélaga, mest í eigin vinnu eða skiptivinnu. Við hjónin höfðum þá klárað það að mestu að utan en allt ófrágengið að innan, búið að setja upp hluta af eldhúsinnréttingu og skrúfa niður klósettið. Þannig fluttum við inn, borðuðum Ora fiskibollur í öll mál, tókum engin frí, áttum tvo 10 ára bíla, sem ég hélt gangandi með viðgerðum fyrir utan húsið á kvöldin eftir langa vinnudaga. Manni tókst einhvernvegin að skrapa saman fyrir afborgunum af síhækkandi lánum og draga fram lífið með margskonar skuldbreytingum.

Reglulega birtust myndir af húsinu okkar í hinum vönduðu og sannleikselskandi dagblöðum og það kynnt sem glæsivilla verkalýðsforkólfs og hann æki um á Hondu og Cherokee jeppa, en þess gætt að minnast ekki á að samtals verðmæti bílanna var töluvert minna en ein ný Lada sport kostaði og húsið væri hálfklárað. Þar var fyrst árið 2005 að við kláruðum baðherbergið og þvottahúsið.

Stjórnmálamenn tóku sig til á þessum tíma og settu mjög hert lög um verkföll, sögðu að misvitrir verkalýðsforkólfar notuðu verkfallsvopnið til pólitískra afskipta og væru með því endurtekið að grípa fram fyrir hendurnar á réttkjörnum fulltrúum þjóðarinnar á hæstvirtu Alþingi. Þetta var í sumu rétt, en það þarf að endurskoða þessi lög og gera verkalýðsfélögum kleift að boða til útfunda og mótmæla, án þess að eiga yfir höfði sem uppsagnir starfsmanna, hýrudrátt, og stefnur um skaðabætur. Eftir þessa lagasetningu var einungis hægt að fara í verkfall eftir árangurlausar sáttatilraunir ríkissáttasemjara í kjaradeilum, undir engum öðrum kringumstæðum er hægt að boða til verkfalla. Síðan þá hefur þessi gerð stjórnmálamanna og fréttamanna hæðst að verkalýðshreyfingunni fyrir að vera orðin liðónýt. Það væri nú annað hér á árum áður, þá gengu verkalýðsforingjar um í gúmmístígvélum, tóku í nefið og helltu niður mjólk, skelltu sér í löng og góð verkföll til þess að efla félagsandann og sömdu reglulega um tugaprósenta launahækkanir.

Rafiðnaðarsambandið er þessa dagana að halda upp á 40 ára afmæli. Frá stofnun höfum við samið um tæplega 4000% launahækkanir, á sama tíma hefur danska sambandið samið um 330% launahækkanir, en þeir standa samt betur en við í kaupmætti. Í sjálfu sér segir þessi setning allt sem segja þarf um efnahagstjórnina hér á landi, en svo furðulegt sem það nú er þá voru sömu stjórnmálamenn endurkosnir til valda, og fréttamenn virðast alls ekki skilja svona augljósar og einfaldar staðreyndir, eða þeir séu leiddir áfram af einkennilegum. Taka endurtekið viðtöl við þá verkalýðsleiðtoga sem eru tilbúnir að skella sér í lýðskrumsgallanum og kóa með þessari gerð stjórnmálamanna og saka félaga sína og samstarfsmenn um að gera kjarasamninga sem eru verkalýðshreyfingunni til skammar.

Það er ekki hægt að skilja suma af þeim sem fjalla um kjaramál öðru vísi en svo að verkalýðhreyfingin semji við sjálfa sig um laun, og standi í vegi fyrir launahækkunum. Standi niður í Karphúsi og hrópi á vinnuveitendur, „Nei takk alls ekki meiri launahækkanir, nú er sko nóg komið af þeim.“ Meir að segja eru tveir verkalýðsforingjar reglulega í fjölmiðlum og halda þessu einnig fram. Og þetta birta fréttamenn athugasemdalaust allsgáðir. Og maður heyrir á kaffistofunum; „Hvers lags hyski er þetta fréttamannadót?“

Nú eru launamenn að undirbúa kjarasamninga og þessir stjórnmálamenn búnir að skipta yfir í hinn venjubundna málflutning vikurnar fyrir kjarasamninga um að verkalýðshreyfingin verði að sýna ábyrgð, er vælt utan í okkur eins og venjulega. Að venju kóa fréttamenn spjallþáttastjórnendur með og setja upp virðulegan svip, hella úr eyrunum, draga augað í pung og birta bullútreikninga um ofurlaun verkalýðsforkólfa.

Ætíð er það svo að daginn eftir að við höfum afgreitt kjarasamninga, skiptir þessi gerð stjórnmálamanna um gír og hæðist af verkalýðsforystunni um að gera arfaslaka kjarasamninga, launin sé þeim til minnkunar. En bak við tjöldin berjast þeir fyrir því að halda krónunni til þess að geta „blóðsúthellingalaust leiðrétt óábyrga kjarasamninga“ með því að fella gengið, svo notuð séu þeirra eigin orð. Alltaf eru tilbúnir nokkrir fréttamenn og spjallþáttastjórnendur til þess að taka þátt í því að níða niður samtök launamanna. Liðónýt samtök, en ekki talað um óábyrga liðónýta efnahagsstjórn, sem reglulega var leiðrétt með handstýrðum gjaldmiðli og jafnharðan ónýtt kjarabarátta launamanna.

Ef maður lítur tilbaka sjáum við að það eru sömu stjórnmálamenn og hafa verið við stjórnvölinn undanfarna áratugi, sem hvað harðast berjast þessa dagana fyrir því að halda í krónuna. Þrátt fyrir að þeir hafi keyrt efnahagslífið kyrfilega í þrot a.m.k. þrisvar á þessum tíma og í ábót tókst þeim að gera Seðlabankann gjaldþrota. En það eru þessir menn sem vilja halda í þá stöðu að geta viðhaldið möguleikum á eignaupptöku hjá launamönnum. Þetta eru sömu menn sem börðust við okkur í undanfara Þjóðarsáttar, en okkur tókst að þvinga stjórnmálamenn til þess að taka upp bætta efnahagsstjórn.

Það eru þessir menn sem börðust við launamenn um að flytja lífeyrissjóðina inn í bankanna, „Vildu ekki vera að greiða 10% skatt til verkalýðshreyfingarinnar“ eins og orðuðu það og fréttamennirnir kóuðu. Okkur tókst að hrinda áhlaupi þeirra með gríðarlegum átökum og maður spyr í dag hvar eignir lífeyrissjóðanna væru núna ef þetta hefði tekist hjá þingmönnum frjálshyggjunnar. Almennu lífeyrissjóðirnir eru einu fjármálastofnanirnar sem stóðu af sér Hrunið, sama má segja um verkalýðsfélögin og starfsemi þeirra. Um það er ekki fjallað í fréttum og spjallþáttum.

Mér er oft hugsað til þess tíma sem ég var að koma út á vinnumarkaðinn um 1970 eftir 6 ára nám, fékk vellaunaða vinnu og var þar að auki í 2 öðrum störfum, hafði mikil laun og vann alla daga vikunnar langt fram á kvöld. Á þessum tíma voru almennu lífeyrissjóðirnir stofnaðir. Eftir að hafa greitt 10% af háum launum mínum í rúm 10 ár nam innistæða mín árið 1980 um það bil verði eins lambalæris. Hvert fóru þeir fjármunir, peningar gufa ekki upp, við vitum öll hvaðan þessir milljarðar hinna 3.000 eigenda þeirra, eru komnir sem bjargað var með neyðarlögum Geirs Haarde.

Þá sögðu launamenn hingað og ekki lengra, þessa eignaupptöku valdhafanna á sparifé okkar verður að stöðva og það tókst. En núna er í raun sama staða uppi, þessi gerð stjórnmálamanna flytur margskonar tillögur þar sem þeir ætla að ráðstafa þessu sparifé launamanna og nýtt það til þess m.a. að greiða upp skuldir annarra og ýmissa annarra hluta. Ef menn voga sér að benda á að það sé andstætt lögum og stjórnarskrá, er manni gert að sitja undir málflutning sem ekki einu sinni væri tækur á málfundi í menntaskóla.

Misvitrir fréttamenn og spjallþáttastjórnendur mæta vitanlega á svæðið kóandi og fara mikinn í áróðrinum gegn samtökum launamanna. Er nema von að álit fólks á stjórnmálamönnum og fréttamönnum sé af skornum skammti?

Þessari gerð stjórnmálamanna tókst að keyra Ísland í þá stöðu að allar þjóðir þar á meðal Norðurlandaþjóðirnar neituðu algjörlega að lána eina einustu krónu til Íslands, nema tekið væri á efnahagsstjórn landsins. Vinur er sá sem til vamms segir og þeir treystu ekki íslenskum stjórnmálamönnum meir en svo að þeir settu það sem skilyrði að það yrði gert undir stjórn AGS. En svo ræðir þessi gerð stjórnmála- og fréttamanna um að reka AGS heim. Skilja menn ekki að þá gilda ekki lengur hin hagstæðu vaxtakjör og við verðum að endursemja um öll þessu lán, og þjóðin færi líklega endanlega á hausinn.

"Hverslags málflutningur er þetta, heyrir maður á kaffistofunum? Eru þessir menn svona illa að sér í efnahags- og kjaramálum eða er þetta allt með ráðum gert til þess að draga til sín völd og auð, skítt með það þó í valnum liggi 30 þús. heimili? "

Lesandi góður, ég er sannfærður um hvort á við.

miðvikudagur, 3. nóvember 2010

Glundroðinn við völd

Nú eru tímar lýðskrums og yfirboða. Um helgina kom niðurstaða skoðanakönnunar. Engin undrast niðurstöður hennar, allir eru óánægðir með hversu hægt gengur að koma hagkerfinu í gang og fá niðurstöður í skuldamál heimilanna. Virkaði ekki vel þegar Jóhanna kynnti það sem vilja ríkisstjórnarinnar að ná heildarsamkomulagi á vinnumarkaði til þess að koma atvinnulífinu í gang.

Þetta samkomulag er búið að vera í gangi í nokkurn tíma og var kallað Stöðugleikasáttmáli, þar lágu fyrir hvaða aðgerðir aðilar væru sammála um að þyrfti að grípa til hvað varðar atvinnulífið, en endalausar deilur innan ríkisstjórnarinnar urðu til þess að lítið gerðist. Öll fyrirtækin settu þar fram þá skoðun að forsenda þess að eðlilegt viðskiptaástanda kæmist á yrði að leysa Icesave.

Þetta hefur komið rækilega fram og ljóst að afstaða stjórnarandstöðunnar með órólegu deildinni er orðin mjög stór Þrándur í götu gagnvart upprisu íslensks atvinnulífs. Stjórnarandstaðan hefur gert allt sem á hennar valdi stendur til þess spila undir með órólegu deildinni og skapa enn meiri glundroða, þar hafa hagsmunir launamanna og fyrirtækja ekki verið hafðir til hliðsjónar.

Sjálfstæðisflokkurinn skellti fram óraunsæjum gylliboðum og finnst það vera innlegg í stöðuna, segir allt um veruleikatenginguna þar á bæ. Sjálfstæðisflokkurinn stóð fyrir skattahækkunum hjá hinum lægst launuðu með því að að láta skerðingarmörk í bótakerfinu ekki fylgja verðlagi og þurrkaði nánast út m.a. vaxtabætur hjá ungu fólki á suðvestur horninu. En hann lækkaði svo skatta hjá þeim sem mest höfðu milli handanna. Um helgina kom fram einn eitt yfirboð Sjálfstæðismanna þar sem þeir vilja viðhalda glundroðanum. Hann sagði skattahækkanir ríkistjórnarinnar vera að sliga heimilin.

Það sem er að sliga heimilin og fyrirtækin er fyrst og síðast gjaldmiðilshrun sem er bein afleiðing efnahagsstefnu undir forystu Davíðs Oddsonar og hans stjórnar í Seðlabankanum. Hækkun skulda, kaupmáttarfall, lífskjaraskerðing, erfiðleikar atvinnulífs, allt þetta má rekja til gjaldmiðilsins og efnahagstjórnar Davíðs og félaga.

Engin þeirra sem stóð að þessari stefnu hefur fengist til þess að horfast í augu við afleiðingargjörða sinna. En það er mun verra að engin þeirra hefur fengist til þess að takast á á við vandan. Frekar hafa þeir valið þann kost að skapa enn meiri glundroða og þyrla upp ryki til þess að fela hin skelfilegu mistök og þá spillingu sem viðgekkst undir þeirra stjórn.

þriðjudagur, 2. nóvember 2010

Sjálfumglaðir Íslendingar

Hún var á margan hátt afskaplega þörf sú áminning sem Dr. Michael Porter þrumaði yfir okkur í Háskólabíó í gær. Hann lagði áherslu á að Íslendingar yrðu sjálfir að hafa frumkvæði að því að vinna sig upp úr vandanum, en við værum að eyða öllum tíma okkar í að slá pólitískar keilur og koma höggi hver á annan. Pólitíkin væri alls ráðandi. Við hefðum mikla möguleika til þess að geta unnið okkur út úr vandanum, ættum mikla orku, mannauð og ættum að vera komnir lengra af stað í uppbyggingunni. En til þess þyrfti að taka ákvarðanir - og standa við þær.

Porter sagði hreint út að Íslendingar væru sjálfumglaðir og oft ekki hægt að skilja þá öðruvísi en svo að við teldum okkur vera nánast ein með þekkingu á vinnslu jarðvarma. Svo væri ekki, til væru stór samfélög á nokkrum stöðum á jörðinni þar sem væri umfangsmeiri jarðvarmavirkjanir en hér. Þessi svæði veittu okkur, eða myndu örugglega veita okkur mikla samkeppni. Þau væru á sumum sviðum framar en við og betur búinn tækjum.

Mesta þekkingin og reynslan í jarðborunum væri í gas- og olíubransanum. Framleiðsla á tækjabúnaði vegna borana, pípna, hverfla og annars tæknibúnaðar væri ekki hér og fyrir lægi að hér væri ekki fjárhagslegt fjármagn til þróunar á þannig búnaði. Hér væri til góð þekking og reynsla á rekstri veitna.

Hann velti einnig mikið fyrir sér á hvaða forsendum íslensk stjórnvöld tækju ákvarðanir. Þeir hefðu í vinnuhópnum leitað mikið eftir gögnum sem sýndu fram á vegna íslenskir stjórnmálamenn hefðu kosið frekar að reisa álver, en setja fjármagn og raforku í gagnver, hugtæknibúnað og líftækniframleiðslu.

Við fundum engar kannanir, engar skýrslur, sagði Porter, þar sem sýnt væri fram á að Ísland væri að fá meiri arð af þeim kílówöttum sem færu í álframleiðslu en ef það væri sett í aðra þætti. Hér virðast ráða för ákvarðanir sem eru að taka mið af einhverju öðru en rannsóknum og staðföstum rökum.

Í þessu sambandi verða menn að velta fyrir þjóðhagslegum hagnaði, fjölda starfa, skatttekna og samfélagslega uppbyggingu. T.d. væri ekki með nokkrum hætti hægt að sjá að útflutningur raforku myndi skila miklu í íslenskt samfélag. Kostnaður við uppbyggingu mikilla orkuvera og lagning langs sæstrengs til markaðssvæðis kallaði á orkuverð sem væri hærra en fengist í sölu. Íslendingar myndu niðurgreiða orkuna, alla vega um langa næstu framtíð.

Íslendingar geta lært mikið af Klösum sem hafa verið byggðir upp í kringum vinnslujarðvarma, t.d. í Nevada og Nýja Sjálandi. Þið eigið að senda fólk þangað og koma á samböndum. Þið hafið alla möguleika til þess að geta byggt upp mjög sterka Klasa í kringum þekkingariðnað og jarðvarmavinnslu og sjálfbært grænt hagkerfi . Klasi er samstarf margra aðila og það er það sem þið þurfið að gera. Þið hafið takmarkað fjármagn, en ef þið gætuð komið ykkur saman um stefnu, tekið ákvarðanir þá myndi ykkur ekki skorta fjármagn til þess að framkvæma þessa hluti.