fimmtudagur, 31. janúar 2008

Af hverju lækka vextirnir ekki?

Undanfarna daga höfum við lesið um stórlaun forsvarsmanna bankanna. Ráðningarsamninga með hundruð milljóna kr. undirskriftarþóknum. Tugmilljónir kr. mánaðarlaun og hundruð milljónir kr. starfslokasamninga.

Á sama tíma má ekki minnast á að lækka vexti. Hvað þá að fækka mætti eitthvað af þessum þjónustugjöldum, sem ekki þekkjast í öðrum löndum.

Kortafyrirtækin sem eru í eigu bankanna hafa orðið uppvís að hrikalegum vinnubrögðum, þar sem verulegum upphæðum hefur verið sópað af viðskiptavinum.

Í stað þess að láta viðskiptavinina njóta góðs gengis, þá hrifsa fáir til sín allan ágóðann. Þetta geta þeir því þeir hinir sömu hafa búið þannig um hnútana að erlendir bankar komast ekki inn á markaðinn í samkeppni.

Viðskiptaráðherra boðaði breytingar og við bíðum.

Nýju föt keisarans

Alltaf kemur það upp fyrr eða síðar hvaða fötum ráðherrar klæðast. Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra, hefur sagt að fjöldi uppsagna séu ýkjur hjá forsvarsmönnun stéttarfélagana. Þetta séu nú barasta 300 fiskvinnuslukonur sem verið sé að segja og sumum bara tímabundið.

Hér er Einar að gera lítið úr launafólki og vinnur að venju með gögn sem hann fær send frá fyrirtækjunum. Heildarvinnutímafjöldi er tekinn og deilt í hann með fullri dagvinnu- og yfirvinnutímafjölda í fullu ársstarfi og út kemur talan 300 í stað tæpra 566 einstaklinga. Þetta fer sjávarútvegsmálaráðherra með í fjölmiðla og lítilsvirðir fiskvinnslufólk. Það er ekki síst athyglisvert þar sem hann er uppalinn í sjávarútvegsplássi og við vitum að hann veit betur.

Ég veit það
og þú veist það.
Og ég veit
að þú veist
að ég veit
að þú veist það.
Samt látum við sem við vitum það ekki
(Jón úr Vör)

Það er í fiskvinnslu eins og mörgum öðrum atvinnugreinum að fólk vill og/eða getur unnið mislangan vinnudag. En í öllum tilfellum er um að ræða fólk, einstaklinga sem er að tryggja sér og fjölskyldu sinni lífsviðurværi. Fólk sem á heimili og fjölskyldu. Það er að auki töluverður fjöldi annarra sem hafa atvinnu sem byggist á því að þessir tæplega 566 einstaklingar hafi vinnu á þeim stöðum sem það býr. Í flestum tilfellum þarf sáralítið til svo nokkrar af þeim byggðum falli saman og þá um leið forsendur nauðsynlegrar þjónustu.

Hroki ráðherra er sá sami og atvinnurekenda; "Ef þú ert ekki sátt vina mín, þá eru dyrnar þarna, og reyndu svo að selja húsið þitt." Hehehehe "Það er sko verðlaust og þú kemst ekkert" Hehehe

Sjávarútvegsráðherra segir þetta allt ýkjur í stéttarfélögunum og hann ásamt ríkisstjórninni lagði fram loforð um aðgerðir til þess að bjarga þessu með því að leggja vegi næsta sumar og líka eftir eitt ár og líka eftir tvö ár og leggja svo á kjörtímabilinu tölvustreng til Bolungarvíkur. Reyndar kannast kjósendur við loforð um flestar þessara framkvæmda. Þau voru nefnilega líka í loforðalistum ráðherranna í síðustu kosningum.

Þolinmæði kjósenda hefur hraðminnkað undanfarna mánuði. Við erum áhorfendur af fjörbrotum hnignandi valdastéttar, sem ekki getur sætt sig við að flett sé ítrekað ofan af henni og hún stendur í nýju fötum keisarans frammi fyrir alþjóð bíðandi eftir því að komast á eftirlaun í kampvínseftirlaunasjóð valdhafa íslenzka ríkisins.

Getur ekki lengur stjórnað umræðunni í gegnum eitt drottnandi dagblað og snúið staðreyndum á hauz.

miðvikudagur, 30. janúar 2008

Standa verkalýðsfélögin í vegi fyrir launahækkunum?

Á ferð minni um bloggheima rakst ég á vangaveltur eins frjálshyggjumanns um að nú stæðu verkalýðsfélögin enn einu sinni í vegi fyrir að samningar næðust og fólk fengi sínar launahækkanir. Það er einkennilegt hvernig sumu fólki tekst sífellt að snúa hlutunum á haus.

Verkalýðsfélögin settu fram í byrjun desember kröfur um hvað þau vildu semja, en Samtök atvinnulífsins hafa ekki fengist til þess að ræða þessar kröfur. Ef verkalýðsfélögin samþykktu það sem þeim stendur til boða þá fengju mjög stórir hópar engar launahækknair, ekki eina kr. Það er aftur á móti helst að skilja á frjálshyggjumönnum að fyrirtækin bíði í ofvæni eftir því að fá heimild verkalýðsfélaganna til þess að að hækka launin. Sú töf sé að þeirra mati ástæðulaus, starfsmenn eigi að fá að taka á móti þessum launahækkunum án afskipta og tilgangslausra tafa verkalýðsfélaganna.

Oft er ekki hægt að skilja framsetningu frjálshyggjumanna öðruvísi en svo að verkalýðsfélögin semji við sjálf sig um launahækkanir, og það sé þeim að kenna að hafa ekki samið við sjálf sig um nægilegar rausnarlegar launahækkanir. Við vitum öll að frjálshyggjumennirnir og sumir stjórnmálamenn munu strax eftir kjarasamninga skammast út í verkalýðfélögin að þau hafi ekki samið um nægilega miklar launahækkanir.

Flest vitum við að sum fyrirtækjanna hækka laun starfsmanna án afskipta verkalýðsfélaganna og oft meir en umsamdar lágmarkslaunahækkanir. Sum fyrirtækjanna hafa þegar frá áramótum hækkað laun sinna starfsmanna um 3-5%, en það á bara við sum fyrirtækjanna og eins suma starfsmenn.

Í þessu sambandi má t.d. benda á ófarir markaðslaunasamninga hjá þeim lægst launuðu. Eitt af stærri verkalýðsfélögum gerði tilraun fyrir nokkrum árum um að setja þetta alfarið í hendur vinnustaðanna með launaviðtölum. Eftir 3ja ára samningstímabil kom að endurnýjum kjarasamninganna og þá kom í ljós að nær allir félagsmennirnir, sem voru á lægstu töxtum höfðu ekki fengið eina kr. í launahækkun allt samningstímabilið og semja varð um sérstaka afturvirka aukahækkun fyrir þann hóp. Og aftur taka upp sérstök gólf og lágmarkslaunahækkanir á hverju ári.

Við höfum einnig séð spretta upp fyrirtæki á undanförnum árum sem ráða hingað fagfólk og greiða því byrjunartaxta unglinga. Þetta fólk fær sumt hvert enga veikindadaga, ekkert orlof og er ekki tryggt. Önnur íslensk fyrirtæki bentu Samtökum atvinnulífsins ásamt verkalýðsfélögunum á að ef hér ætti að ríkja eðlileg samkeppni þá yrðu sömu leikreglur að gilda fyrir alla.

Í þessu samhengi má einnig benda á vinnureglur opinberra fyrirtækja að hafa ætíð almenna starfsmenn á lægstu töxtum. Það á reyndar ekki við um embættismenn og stjórnendur, þeir taka launabreytingum í samræmi við það sem gengur og gerist á almennum vinnumarkaði.

Fyrirtækin ásamt launamönnum komu saman í byrjun síðustu aldar og settu ákveðnar leikreglur sem eru skrifaðar í kjarasamninga. Þar er fyrirtækjum gert að greiða ákveðin lágmarksfjölda veikindadaga, sama gildir um orlof mörg önnur atriði. Einnig eru starfsmönnum sett margskonar skilyrði eins og að þeir verði að mæta í vinnu á umsömdum tíma, umfang neysluhléa, veikinda, orlofs og mörg önnur atriði.

Hvers vegna voru þessara leikreglur settar? Jú það var vegna þess að það voru stanzlausar skærur á báða bóga, fyrirvaralaus verkföll og fleira. Hlutverk stéttarfélaganna er að sjá um að farið sé eftir þessum leikreglum og fylgja friðarskyldu.

Þessi slagsmál standa ekki einvörðungu við þau fyrirtæki sem sniðganga lágmörk samninga, oft þarf að koma launamönum í skilning um að ekki sé innistæða fyrir kröfum þeirra.

þriðjudagur, 29. janúar 2008

Hættið þessu væli og farið að vinna

Ólafur vissi að hverju hann gekk þegar hann gekk að tilboði sjálftæðismanna að splundra meirihlutanum með því að reka hnífinn í bak Dags. Hann er búinn að vera í stjórnmálum í 20 ár og veit að hann er undir stanzlausu eftirliti fjölmiðla og bitbein umræðunnar. Hann vinnur sannarlega ekkert á með því innihaldslausa voli sem fram hefur komið undanfarna daga.

Grínið sem Spaugstofumenn gerðu að umræðunni og útúrsnúningum sjálfstæðismanna laugardagskvöld var gott, mjög gott. Grínið beindist harðast að þeim og ritztjóranum og þeir áttu sannarlega innistæðu fyrir því.

En við bíðum eftir því að menn fari nú að tala um það málin snúast um.

Ætla þeir að halda áfram þessari fram og tilbaka stjórnum hér í borginni, sem skilar okkur ekkert áfram. Helsta verkefni stjórnmálamanna er að komast til valda í Reykjavík sama hvað það kostar, og byrja svo ætíð á því að eyðileggja það sem forverar þeirra voru að undirbúa. Eini sjáanlegi árangurinn er að setja borgarsjóð í þá stöðu að kaupa okkur frá þeim vanda sem stjórnmálamenn skapa með þessu hátterni.

Í því sambandi má benda á fram og tilbaka stjórnun sem hefur átt sér stað í Austurstræti, flugvellinum, Vatnsmýrinni, Laugaveginum og hjúkrunarheimilum. Er ekki hægt að taka endanlega ákvörðun og standa við hana? Það eru alltaf í gangi einhverjar vendettur og önnur orka fer svo í að koma í veg fyrir hugmyndir sem hugsanlega sé hægt að rekja til andstæðingsins. Ekkert annað er í gangi.

Það skiptir okkur æði mörg feikilega miklu máli að tekinn verði endanleg ákvörðun um innanlandsflug. Fram og tilbaka stjórnun hér í borginni hefur staðið í vegi fyrir því að upp komi samkeppni í innanlandsflugi og bæti aðstöðuna og lækki fargjöld um 40%. Við erum nokkur þúsund sem ferðumst reglulega með innanlandsfluginu, ekki bara nokkrir alþingismenn eins og sumir halda fram.

Við erum líka mjög mörg sem höfum sjálfviljug valið okkur þann kost að vilja búa í úthverfum og við viljum að stjórnmálamenn taki til við að druslast til þess að laga umferðahnútinn sem kemur upp af fullkomnu ástæðuleysi tvisvar á hverjum einasta degi á gatnamótunum Bústaðavegar og Breiðholtsbrautar og svo maður tali nú ekki um Sundabrautin.

Við biðjum um alvöru fólk í stjórn borgarinnar takk fyrir.

mánudagur, 28. janúar 2008

Umræðuréttur skrílsins


Undirstaða þess þjóðfélags sem við búum í
Með lýðræðislegri umræðu er ekki einungis átt við skoðanaskipti meðal kjörinna fulltrúa í lokuðu umhverfi, sem lýkur í formi tilkynninga frá hinu opinbera til almennings. Hún fer ekki fram í formi einboðinna skoðanna ritstjóra sem birtast í leiðurum dagblaðanna. Lýðræðisleg umræða stendur ekki yfir örfáa daga fyrir kjördag og lýkur þegar kjörklefum er lokað.

Lýðræðisleg umræða miðar að því að taka ákvörðun um hagi almennings. Hlutverk slíkrar umræðu er að draga fram í dagsljósið þá hagsmuni sem eru í húfi og skilgreina kosti og galla. Almenningur hefur rétt til þátttöku í opinberri umræðu alla daga ársins, sakir þess að hún snýst um ákvarðanatöku sem snertir almannahagsmuni.

Almenningur krafðist þátttöku í lýðræðislegri umræðu um Eyjabakkanna þegar stjórnvöld ætluðu að hefja þar framkvæmdir án lögformlegra heimilda. Stjórnvöld létu sér ekki segjast fyrr en fyrir lá að 80% þjóðarinnar/almennings/kjósenda stóðu fyrir opinberum mótmælum. Almenningur krafðist sömu réttinda þegar kjörnir fulltrúar ætluðu riðja í gegn fjölmiðlalögum þar sem hefta átti þátttöku almennings í lýðræðislegri umræðu. Kjörnir fulltrúar numu þá úr gildi stjórnarskrárvarin rétt almennings um kosningu.

Undanfarin misseri hafa staðið yfir mótmæli almennings við sértækum eftirlaunalögum þar sem kjörnir fulltrúar stóðu að óheftri sjálftöku úr opinberum sjóðum sjálfum sér til handa. Nýverið krafðist almenningur þátttöku í umræðu um skipan dómara sakir þess að ráðherra fór ekki að settum lögum um þrískiptingu valdsins. Almenningur er þessa dagana að krefjast þess að vera þátttakandi í umræðu um skipan stjórnsýslu Reykjavíkurborgar, sakir þess að það er ekki farið að niðurstöðum kosninga. Ef ekki er farið að niðurstöðum kjördags, þá vill almenningur annan kjördag núna.

Mótmæli er þáttur í lýðræðislegri umræðu. Mótmæli er eina leið almennings til þess að koma skoðunum sínum á framfæri, þegar kjörnir fulltrúar fara ekki að settum leikreglum. Almenningur hefur ekki aðgang að lokuðum fundum kjörinna fulltrúa og hann hefur ekki að gang að skrifum leiðara eða Staksteina. Runnin er upp sá tími að almenningur getur sett fram skoðanir sínar án þeirrar hömlu sem ritstjórnir fjölmiðla höfðu, lengst af eins, sem hefur haft þær afleiðingar að ritstjórn þess fjölmiðils hefur aldrei náð sér eftir það ofríki sam hún hafði á stjórn umræðunnar með því að sitja að gátt birtingar og ákvörðunar um hvaða mál voru sett á dagskrá.

Mótmæli almennings, hvort sem það eru verkföll, mótmælagöngur, mótmælafundir fyrir framan Alþingishúsið eða Ráðhúsið, eiga jafnmikinn rétt á sér og fundir kjörinna fulltrúa. Séu gerð hróp og köll að kjörnum fulltrúum þegar þeir standa að vafasömum gjörning, þá eiga kjörnir fulltrúar að staldra við. Mótmæli almennings við valdgræðgi og ráðstöfun á opinberra fjármuna án samþykktra heimilda eru ekki skrílslæti.

Það er svo spurning hvort það sé almenningur eða hinir kjörnu fulltrúar sem séu hin raunverulegi skríll og hafi í frammi skrílslæti. Eins og málin hafa þróast undanfarinn misseri þá virðist það hlutskipti liggja hjá hinum kjörnu fulltrúum og ekki síst fulltrúum stærsta flokksins, og það séu þeir sem standi að mestu skrílslátunum og þeim langdýrustu. Fjármögnuð með sjálftöku úr opinberum sjóðum í eigu almennings.

Sagan segir okkur að ætíð hafi almenningur haft rétt fyrir sér, ekki hinir kjörnu fulltrúar.

sunnudagur, 27. janúar 2008

Til hamingju Danir

Rosalega var ánægjulegt að sjá Danina taka dramadrottningarnar og vælukjóana í gegn og vinna verðskuldað.

Leikaðferðir Króatanna minntu mikið á vælukjóana sem eru að hreiðra um sig í ráðhúsinu

Lífið er ekki bara stóll stjórnarformanns OR

Það er eftirtektarvert hvernig tilteknir aðilar víkja sér alltaf undan því að fjalla um kjarna þess málefnis sem til umfjöllunar er hverju sinni. Nýverið höfum við farið í gegnum umræðu sem snérist um að fá ráðherra til þess að svara fyrir að hann braut lög við skipan héraðsdómara. Það eina sem kom voru ósmekkleg og ómálefnanleg svör ráðherrans og fylgismanna hans, sem innihéldu ásakanir um að fólk væri að ráðast að ungum manni sem hefði það unnið sér það eitt til saka að vera sonur pabba síns. Engin utan þeirra sjálfra hafði tekið þannig til orða. Þeim tókst ætlunarverk sitt að víkja sér undan að svara með málefnanlegum hætti, í bili.

Við erum að upplifa það sama núna, umfjöllun þeirra hinna sömu snýst einvörðungu um að saka aðra um að vera að velta fyrir sér að nýorðin borgarstjóri hafi verið veikur. Og fólk ætti að vera að eyða tíma sínum í að mótmæla gjörðum þeirra, það væri svo ólýðræðislegt. Eru einhverjir aðrir en þeir sjálfir að ræða um það? Það hafa verið settar fram spurningar sem þeir víkja sér að svara eins og t.d. hversu langt þeir hafi gengið til að ná völdum og koma fram hefndum, sama hvað það kostaði borgarsjóð. Hvar væru þau málefni sem þeir fengu atkvæði sín fyrir. Reyndar virðist Hanna Birna vera sú eina sem gerir smá tilraun.

Og borgin rúllar áfram stjórnlaus vegna hjaðningarvíga og verkefnin hrannast óleyst upp. Hinum megin við hornið bíða kennarar og umönnurastéttirnar með lausa kjarasamninga, hafandi öll kosningaloforðin frá því í fyrra um myndarlegar launahækkanir. Þá getur hún orðið erfið sambúðin milli þeirra sem hafa með efnahagstjórnina að gera og þeirra sem ætlast er til að standi við kosningaloforðin.

Kannski (ó)skemmtileg tilviljun, en söguhetjurnar í öllum málsgreinunum hér framan eru þær sömu.

Já hún verður erfið gangan næstu mánuðina hjá Ólafi og Kjartan, mjög erfið. Lífið er ekki bara borgarstjórastóll og stjórnarformennska í OR og ganga þvert á fyrri samþykktir og kaupa upp ónýta gamla húskofa á 600 millj kr.

Og maður fattar ekki ummæla þeirra sem halda því fram að þetta sem bara eitthvert fjölmiðlafár vinstri manna, hér ég að vitna til ummæla nokkurra viðmælenda í fréttum sjónvarpsins í gærkvöldi. Hverjir eru ritstjórar Moggans, 24 stunda og Fréttablaðsins? Hverjir stjórna fréttastofu sjónvarpsins? Það er nú svo að allmörgum sjálfstæðismönnum er ofboðið.

laugardagur, 26. janúar 2008

Ólýðræðisleg vinnubrögð

Í baráttu fyrir jafnari skiptingu þess arðs sem hin vinnandi hönd skapar, upplifa launamenn það ætíð þegar þeir grípa til síns eina vopns, að hafna því að vinna fyrir þau kjör sem eigendur fjármagnsins bjóða og krefjast hærri hlutar við skiptingu arðsins, að tilteknir stjórnmálamenn og málgögn þeirra hefji massívan áróður fyrir því að nú sé beitt ólýðræðislegum brögðum. Þar fari hópur sem beiti fyrir sig ólýðræðislegum brögðum og hrifsi til sín völd sem þeir ekki hafi. Skapi með því óþægindi fyrir saklaust fólk.

Þessi málflutningur ber merki mannfyrirlitningar, með honum er sett fram krafa um að launamenn eigi að sætta sig möglunarlaust við það endurgjald sem þeir fá fyrir vinnu sína og eigi þegjandi og hljóðalaust að halda áfram að vinna. Það eru valdhafarnir sem séu handhafar lýðræðisins.

Borgarstjóri varð í haust uppvís af því með aðstoð eins fulltrúa flokks sem rétt dróg inn í borgarstjórn, að vera kominn á bólakaf með nokkrum harðsnúnum fjármálamönnum að ráðstafa eigum almennings. Þeim varð ekki sætt vegna þess að almenning og flokksystkinum borgarstjórans ofbauð. Hinn staki fulltrúi bjargaði sér með því að stökkva um borð hjá minnihlutanum. Ef þá hefðu farið fram mótmæli í ungliðahreyfingu flokks borgarstjórans, hefðu þau að beinst að hans eigin athöfnum sem urðu til þess að flokkur hans hraktist frá völdum.

Síðan þá hafa valdamenn leitað hefnda gegn borgarfulltrúanum staka. Ljóst var að pólitísku lífi hans var lokið, hann hafði gengið gegn handhöfum valdsins. Nú hefur borgarstjórinn fyrrverandi fengið annan stakan fullrúa sem hefur ekkert bakland, til þess að koma yfir til sín, gegn loforðum um að hann megi ráðstafa hundruðum milljóna af almannafé án þess að fyrir liggi samþykkt, til þess að ganga þvert á áður samþykkt skipulag og verða borgarstjóri í nokkra mánuði. Þá ofbauð fólki, mælir einleiksins var orðinn fullur, ekki bara í einum flokk heldur í öllum.

En viðbrögðin létu ekki á sér standa hjá málsvörunum, leiðarahöfundunum þremur ásamt hinum venjubundnu þátttakendum í spjallþáttunum. Enn er því haldið fram að við öll hefðum rangt fyrir okkur og við séum með ólýðræðislegum brögðum að standa í vegi þeirra. Því er blákalt haldið fram að fólk sé viljalaust og skoðanalaus verkfæri, sem sé smalað svo hundruðum skipti í hóp og skipað að hrópa og stappa gegn lýðræðinu.

Í dag snúast stjórnmál um völd einstaklinga. Það er liðin tíð að bera mál undir flokksráð og stóra fundi þar sem þau eru rædd og afgreidd með lýðræðislegum hætti. Það tekur svo langan tíma kemur fram í svörum hinna stöku valdhafa. Ekki fengum við að kjósa um fjölmiðlalögin, þó svo stjórnarskráin segði að við ættum skilyrðislaust þann rétt. Sami einleikur var uppi þegar við vorum gerð að viljugri þjóð til stríðsleikja. Eftirlaunalögin voru smíðuð á borði fárra einstaklinga sem komu til með að njóta þeirra og rutt í gegnum Alþingi umræðulaust.

Undiraldan vex meðal almennings. Honum er misboðið, ekki bara núna það á sér sögu í endurteknum einleik stjórnmálamanna á undanförnum misserum. Hver viðburðurinn hefur rekið annan þar sem almenning hefur verið freklega misboðið.

Fólk er ekki fífl og það ber að umgangast af virðingu. Málefnin skipta almenning máli umfram valdapot, hagsmuni og sérhyggju einstaklinga. Sú hegðun sem stjórnmálamenn hafa viðhaft undanfarin misseri hefur rúið stjórnmálamenn trausti almennings, það staðfesta skoðanakannanir.

föstudagur, 25. janúar 2008

Þröng og erfið samningsstaða

Þetta eru lýsingarorð Moggans á stöðu kjarasamninga í dag. Það er að renna upp fyrir SA og ríkisstjórninni hversu alvarleg skemmdarverk þeirra voru í fyrstu viku þessa árs og hafa haft víðtæk áhrif. Samningur sem var komin vel í mótunarstigi og fyrirliggjandi samstaða var lögð í rúst með ótrúlega vanhugsuðum yfirlýsingum framkv.stj. SA og hægri kórinn í ríkisstjórninni var fljótur fram á sviðið og lagði undir sig alla spjallþætti morgun og eftirmiðdags og í Silfri Egils þ.13 jan. var staðan jarðsungin.

Það lá fyrir að verkalýðshreyfingin var tilbúinn að koma sameinuð að samningsgerð sem næði yfir þann tíma sem verða erfiðir í hagsstjórn gegn því að ríkisstjórnin kæmi að málinu á ábyrgan hátt. Þessu höfnuðu stjórnarþingmenn algjörlega og því fór sem fór.

Það virðist vera fyrst nú sem það er að renna upp fyrir SA og ríkisstjórninni að það var ekki upp á borðum að þeir gætu bakkað út úr hluta viðræðna, en haldið svo áfram með hinn hlutann eins og ekkert hefði í skorist. Það lá mjög glögglega fyrir af hálfu af hálfu stéttarfélaganna að með þessu útspili urðu fyrirtækin að bæta umtalsvert í launakostnaðarpakkann.

Þetta gátu allir læsir og heyrandi menn séð á yfirlýsingum forsvarsmanna stéttarfélaganna í byrjun desember.

Í lokin ein velviljug ábending til þáttastjórnenda, vegna þess að þeir ræða alltaf við stjórnmálamenn um stöðuna í kjaramálum. Stjórnmálamenn og allra síst öfgasinnaðir hægri menn hafa nákvæmlega engan skilning á því hvernig kaupin á eyrinni ganga fyrir sig og auk þess engan skilning á samskiptum aðila ativnnulífsins.

fimmtudagur, 24. janúar 2008

Af hverju eru allir alltaf að rífast?

Það hlýtur að vera sjálfstæðismönnum umhugsunarefni hvers vegna þeir eru svona oft í deilum við allt og alla. Þeir þurfi ætíð að vera í því hlutverki að verja það að þeir séu á ekki á villigötum, það séu allir aðrir landsmenn sem hafi rangt fyrir sér. Allir rangtúlki skoðanir sjálfstæðismanna og geri þeim upp skoðanir.

Við erum nýkominn út svona ferli sem snérist um hvort matsnefnd dómara fór ekki eftir þeim lögum sem henni voru settar. Ef maður skoðar lögin og forsendur þeirra er ekki hægt annað en taka undir með nefndinni. Það er heldur ekki hægt annað en að taka undir með stjórn dómarafélagsins og eins áliti fjölmargra lögmanna og enn fleiri álitsgjafa og enn fleiri einstaklinga sem hljóma á kaffistofum hvar sem maður kemur.

Eða deilunum um fjölmiðlalögin, eða eftirlaunalögin eða framlögðum gögnum prófessora við Háskólann um fjölgun fátækra. Og svo REI og hvers vegna borgarstjórnin sprakk í haust og svo.....

Eða þeim forsendum sem þeir halda fram um myndun nýrrar borgarstjórnar. Nýi borgarstjórinn sagði í Kastljósinu í kvöld að sjálfstæðismenn hafi verið í viðræðum við VG. Þessu hafa sjálfstæðismenn algjörlega hafnað. Verður þetta fóður næstu deilna?

Og alltaf eru það sömu ungu þingmennirnir sem eru sendir í spjallþættina til að fara með fullyrðingar frá höfuðstöðvunum, sem ætíð stangast á við skoðanir allra annarra. Skyldi aumingjans mönnunum ekki leiðast að vera krossfestir og alltaf vera í liðinu sem er upp á kant við alla? Meir að segja marga sem eru í flokknum.

Umboðsmaður Alþingis hefur sett fram það álit að allt að 30% að þeim lögum sem sett eru séu óvönduð og gangi gegn fyrirliggjandi lögum og jafnvel stjórnarskrá. Í skoðanakönnunum kemur fram að traust fólks á stjórnmálamönnum fellur sífellt neðar. Skyldi nokkurn undra? Nema kannski þeim sem eru að öllum líkindum eru helstu arkitektar þessa hruns.

Spekingar í flugvallarmálum

Ég hef stundum komið að því sem ég hef kallað sjálfumgleði og fullvissu 101 liðsins um að þeir séu handhafar sannleikans. Fólk sem telur sig þess umkomið að tala niður til fólks sem hefur kosið að búa úthverfum höfðuborgarsvæðisins eða út á landi.

Í vaxandi mæli er spurt hvaðan hann komi réttur 101 liðsins að senda flugvöllinn út í úthverfin, eða réttur 101 liðsins að krefjast þess að upp sé rifnir með rótum fleiri tugir hektara af skóg sem þar eru að vaxa upp. Hver sé réttur þessa fólks að krefjast þess að þeir fjölmörgu sem búa á höfuðborgarsvæðinu en vinna út á landi eigi að lengja för sína um 3 klst. til vinnu. Hver sé réttur þess fólks að krefjast þess að fólk sem býr út á landi en vill heimsækja fjölskyldur sínar eða á einhver önnur erindi til höfuðborgarinnar eigi að lengja för sína um 3 klst. Hver sé réttur þessa fólks að standa í vegi fyrir því að flugfargjöld innanlands verði lækkuð um 40%. Hver sé réttur þessa fólks að lækka öryggisstuðul fólks sem af einhverjum ástæðum býr eða starfar út á landi.

Það er, jaa á ég að segja óheppilegt, að sá sem stendur fremst í þessum flokki skulu taka sér það orðbragð að kalla það fólk sem ekki er sammála honum „spekinga“.

Það er full ástæða að benda fólki eins og t.d. vini mínum Agli, að það hefur valið sér það hlutskipti að kaupa íbúð í aðflugslínu innanflugs og eins flugtakslínu, hún var þar og er ekki nýtilkominn. Það er harla einkennilegt að hann ásamt takmörkuðum fjölda fólks sem hefur búið sér sama hlutskipti skuli telja sig þess umkomið að senda flugvöllinn eitthvað annað.

Ég lagði til í grein í Mogganum fyrir u.þ.b. ári síðan að flugvöllurinn væri fluttur upp á Hólmsheiði og Landspítalinn ásamt Borgarspítalanum fluttir á Keldnalandið. Borgarspítalanum mætti breyta í íbúðir og hjúkrunarrými og þjónustu við samsvarandi hús sem eru það í grendinni. Landspítalann mætti reka áfram sem t.d. sjúkrahús fyrir afmörkuðu verkefni. Á Keldnalandi Landsspítalinn staðsettur við gatnamót vega til vestur og suðurlands, auk greiðra leiða til allra átta á höfuðborgarsvæðinu.

Síðan þá hafa komið fram mótmæli úthverfa í nýjum hverfum sem eru í uppbyggngu og eins bent á að þetta gengi ekki vegna vatnsverndar á aðrennsli í Gvendarbrunna og skógræktar á svæði sem fer hratt vaxandi í vinsældum til útivistar. Það má flytja til flugbrautir í Vatnsmýninni og jafnvel að hluta til út í sjó. Þessi sjónarmið eiga fyllilega rétt á sér og eru ekki bara sjónarmið einhverra „spekinga“.

miðvikudagur, 23. janúar 2008

Valdabrölt og hæfni stjórnmálamanna

Ég hef stundum velt því fyrir hvers vegna hæfni stjórnmálamanna þá sérstaklega í sveitarstjórnum er aldrei til umræðu. Eins og komið hefur fram undanfarna tvo daga þá er leitað af miklu kappi eftir einhverjum sem geta tekið að sér setu og stjórn í fagstjórnum Reykjavíkurborgar fyrir hönd Ólafs/Frjálslynda flokkssins. Veit eiginlega ekki hvort er en það skiptir svo sem ekki öllu.

Samkvæmt minni þekkingu sem iðnaðarmanns sem hef unnið töluvert lengi við stórar og litlar verklegar framkvæmdir. Þá hefur stjórnmálaleg skoðun og sannfæring ekkert að gera með hvort viðkomandi sé hæfur í sveitarstjórn til mats á þeim verkefnum sem fyrir liggja.

Össur tekur mjög oft þannig til orða að einn eða annar sé mjög fær stjórnmálamaður, en ég hef aldrei heyrt skilgreiningu á því hvað hann eigi við. En mér virðist það þó vera, samkvæmt skilgreiningu Össurs og nokkurra annarra, að viðkomandi sé snjall í því að komast til valda, ná til sín völdum, stinga upp í aðra í orðræðu. Snúa út úr staðreyndum eins og við höfum svo oft upplifað, t.d. nýverið í rökum þeirra, sem þindarlaust reyna að fá okkur til þess að trúa því að það sé einungis óvild í garð Davíðs, sem hafi fengið nánast alla lögfróða menn á landinu ásamt drjúgum hluta almennings að gagnrýna gerðir Árna Matt.

Eftir hverju er farið þegar menn eru settir til æðstu valda við ákvarðanatöku og verklega stjórnun í fagráðum Reykjavíkurborgar? Stjórnmálamenn hafa haldið því fram að þar ráði niðurstaða í prófkjörum, en þar ræður stigaskali Morfís. Þessa stundina virðist það heldur ekki skipta máli.

Sú atburðarrás sem borgarbúum hefur verið boðið upp á á þessu kjörtímabili er vitnisburður hvert valdabrölt í pólitík leiðir menn. Þar ráða ekki hugsjónir eða málefnanleg umræða og þaðan af síður mat á því hvort sett sé til valda í þýðingarmiklum nefndum hæft fólk.

Hefndarhugur ræður för eða snilli í stjórnmálum. En hvað með velferð borgaranna og þau verkefni sem við bíðum eftir að verði framkvæmd. Á hvaða forsendum fengu Sjálfstæðismenn sín atkvæði? Skiptir það engu nú, var það bara sjónarspil að setja fram eitthvað sem vitað var að myndi ganga í fólk og þægilegt til þess að stinga upp í aðra í orðræðu.

Íslenskir stjórnmálamenn virðast telja að þeir þurfi einungis að ná athygli kjósenda á kjördag. Síðan taki við þeirra eigin geðþótti og á hauginn fara öll loforðin. Tilgangurinn er sá einn að ná völdum. Í dag er veifað framan í okkur stefnuskrá nýs borgarstjórnarmeirihluta. Ólafur fullyrðir, og að því virðist með réttu, að þetta sé ljósrit af þeim minnispunktum sem hann tók með sér í viðræður við Vilhjálm og Kjartan.

Eða er þetta kannski allt saman smjörklípa sett fram af Davíð til þess að beina orðræðunni inn á aðrar brautir en þær hafa verið undanfarna daga? Hverju á maður að trúa? Maður hefur ekki einu sinni landsliðið til þess að trúa á.

þriðjudagur, 22. janúar 2008

Trúverðugleiki stjórnmálamanna hrapar og hrapar

Við höfum undanfarið upplifað hvert vandræðamálið á fætur öðru hjá stjórnmálamönnum. Fjölmiðlamálið, eftirlaunamálið, launamál stjórnmálamanna, skipun sendiherra, sala bankanna, hæstaréttadómaramálið, héraðsdómaramálið, REI málið og borgarstjórnarskiptin í haust og vandræðin með málefnalistan þá. Hnífasettin, fatamálið og skattsvik stjórnmálamanna og svo núna borgarstjórnarskiptin aftur.

Sjálfstæðismenn bakka að því virðist umhugsunarlaust í öllum prinsippmálum sínum til þess eins að komast til valda. Forvitnilegt að horfa á svipinn á þeim sem stóðu að baki Ólafs í beinni útsendingu í gærkvöldi, þegar hann las upp hvert loforðið um aukna félagshyggju á fætur öðru í málefnaskrá sem var verðmiði hans á valdastólunum í ráðhúsinu.
Sjálfstæðismenn afgreiddu samskonar verðlista Björns Inga á sínum tíma og svo hinir flokkarnir í haust.

Í spjallþáttum er það liðin tíð að menn fjalli um málefni með rökum. Þar er í síbylju talað um skoðanir einstaklinga, sem oftast er afleiðing spuna einhvers þriðja aðila og svo snýst umræðan um hvort spuninn sé réttur eða rangur. Margir hafa kallað þetta Morfísvæðingu stjórnmála.

Fólk sem er í stjórnmálum í dag er þar ekki vegna sannfæringar sinnar, það eru valdastólarnir. Hvað sem þeir kosta, það er málið.

Það vefst ekki fyrir stjórnmálmönnum að setja hvern mannin á fætur öðrum á starfslokasamning og jafnvel líka á eftirlaunsamning. Allnokkur sveitarfélög hafa verið með fleiri en einn og fleiri en tvo á launum í sama starfinu. Sömu einstaklingar eru í sumum tilfellum að auki á launaskrá á Alþingi eða í öðrum opinberum störfum.

Ég hef haldið því lengi fram að sú aðferð sem við notum til þess að velja fólk á lista, leiði til þess að ákveðin gerð stjórnmálamanna fari inn á lista. Sú gerð er ekki endilega sú týpa sem við viljum. Enda er það smá saman að verða ljósara, þegar litið er til orða og athafna.

Almenningur/kjósendur mun örugglega velta þessu fyrir sér í vaxandi mæli fram að næstu kosningum.

sunnudagur, 20. janúar 2008

Skálafell lokað en Heiðmörkin full


Það er fínt skjól á skokkbrautunum í skóginum

Bestu skíðabrekkur á höfuðborgarsvæðinu eru í Skálafelli. Það er erfitt að sætta sig við að þar sé nægur snjór en allt lokað. Langar raðir voru í Bláfjöllum og það tók langan tíma að koma lyftum inn ef eitthvað fór úrskeiðis. Stjórnmálamenn tóku þá ákvörðun í fyrra að segja öllum starfsmönnum skíðasvæðanna upp, nú er allt í tjóni vegna þess að þekkingin á tækjunum á svæðinu fór vitanlega með þeim. Ég veit ekki nákvæmlega hversu stór fjárfesting er í skíðasvæðum höfuðborgarsvæðisins, en það er örugglega nokkrir milljarðar, sem þarna standa hálflokaðir eða alveg lokaðir.Á skíðum í Heiðmörkinni

Gríðarlegur fjöldi göngumanna hefur undanfarna daga verið í Heiðmörkinni á hinum geysilega fallegu og vel skipulögðu brautum sem þar eru. Það er mikill fjöldi fólks sem notar hið skemmtilega og vel skipulagða göngustíganet í Grafarvoginum sem liggur um hverfin og með sjávarströndinni upp í Mosfellssveit og það er mitt helsta leiksvæði og sótt þangað mikla líkams- og ekki síður hugarrækt.

En Heiðmörkin þá sérstaklega Hjallasvæðið er mitt annað leiksvæði, það býður upp á ákaflega fjölbreyttar göngu- og hlaupaleiðir. Þar er oftast logn í skjóli skógarins þó svo blási annarsstaðar. Nú er búið að troða brautirnar og Heiðmörkin skartar sínu fegursta.

Vilja jarðsetja Fischer á Þingvöllum

Þjóðargrafreiturinn á Þingvöllum hefur einhverra hluta vegna aldrei náð því að verða það sem honum var ætlað. Ég næsta viss um að stór hluti þjóðarinnar hafi ekki hugmynd um reitinn. En það breytir því ekki að Þingvellir eiga sér ákveðin stað í þjóðarsálinni og það að jarðsetja Bobby þar passar einhven veginn ekki.

Ekki það að ég vilji ekki sýna Fischer fulla virðingu. Sé auk þess litið til skoðana og ferils hans, þá finnst manni það á engan hátt passa.

laugardagur, 19. janúar 2008

Hagsmunir öryrkja

Ég verð að viðurkenna að ég hef stundum átt erfitt með að átta mig á því hvers vegna samtök öryrkja eru að eyða orku sinni í innbyrðis átök á opinberum vettvangi. Það tekur virkilega í þegar þessi átök blossa upp hjá þeim að því virðist reglulega. Hvers vegna geta þau ekki leyst sín innri mál á fundum, en nýtt opinberan vettvang til þess að koma sínum málum fram.

Á margan hátt er starfsemi Öryrkjabandalagsins lík starfsemi samtaka launamanna. Hagsmunasamtök sem ráða til sín starfsmenn til þess að koma baráttumálum á framfæri og vinna þeim framgang. Flest baráttumála öryrkja tengjast helstu stefnumálum samtaka launamanna. Breytingar í almenna tryggingarkerfinu og heilbrigðiskerfinu. T.d. eru mjög ofarlega á blaði kröfugerða launamanna í yfirstandandi kjarasamningum veruleg aukning á byggingu félagslegs húsnæðis, ásamt hækkun á skerðingarmörkum almannatryggingarkerfisins og frítekjumörkum.

Svo einkennilegt sem það nú er þá beina stjórnmálamenn oft spjótum sínum í þessum málaflokkum að samtökum launamanna, og saka þá um hver staða þessara mála er. Ég veit ekki hvort það er vegna þekkingarleysis á eigin störfum, en held þó frekar að það sé til þess að víkja sér undan ábyrgð á eigin getuleysi. Öll vitum við að það erAlþingi sem ákvarðar um öll kjaraatriði öryrkja. Samtök launamanna eru þar í sama hlutverki og samtök öryrkja, að setja fram tillögur um lagfæringar og vinna þeim stuðning.

Með harðvítugum innbyrðisdeilum eru öryrkjar að ganga gegn eigin hagsmunum. Öll vitum við að þar eru ær og kýr stjórnmálamanna og þeir setja óðara til hliðar lausn vandamála komist þeir í slíkan slag. T.d. eins og gerðist nú um áramótin þegar samtök atvinnurekenda gleymdu hlutverki sínu í fyrstu viku þessa árs og skelltu sér í skotgrafir stjórnmálamannanna og sökuðu samtök launamanna að vera með tillögur um að setja 67% jaðarskatta á öryrkja og einstæða mæður og það myndi kosta samfélagið 40 milljarða. Þetta var nú líka fóður sem gekk vel ofaní stjórnmálamenn og spjallþættina, þó svo að flestum öðrum væri ljóst hvílík endaleysa og útúsnúningar þetta var. En stjórnmálaleikur SA splundraði vinnu við gerð kjarasamninga og eyðilagði eins og hálfsmánaðar vinnu og setti kjarasamninga á byrjunareit.

Mörg mál sem eru öryrkjum ákaflega verðmæt eru nú í vinnslu hjá stjórnvöldum, þeim er öllum stefnt í voða hleypi öryrkjar stjórnmálamönnum inn á uppáhaldsleikvang sinn, leðjuna.

fimmtudagur, 17. janúar 2008

Kjördæmapot samgönguráðherra

Umfjöllun stjórnvalda þá sérstaklega núverandi og síðustu samgönguráðherra um Sundabraut er hreint út sagt ótrúleg. Sundabraut var sögð forsenda uppbyggingar í Grafarvogi árið 1984 Einnig er forsenda þess að hafnirnar við Faxaflóa gætu sameinast og flytja alla stórflutninga upp á Grundartanga. Þegar ég var í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins á árunum uppúr 1990, þá sat ég allmarga fundi þar sem rætt var um Sundabraut og þar kom fram að hún væri nánast forsenda til þess að leisa hratt vaxandi umferðarvanda.

Landsmenn sem þurfa að fara eftir þjóðveg 1 í gegnum Reykjavík þurfa að una því að sitja allt að 3 klst. á hverjum einasta sunnudagseftirmiðdegi yfir sumarið til þess að komast leiðar sinnar. Öryggi sjúkraflutninga að vestan og norðan fellur langt niður fyrir ásættanleg mörk á föstudagseftirmiðdögum og eftir hádegi á sunnudögum. Þrátt fyrir þetta allt saman hefur samgönguráðherrum tekist að smeigja hverju verkefninu á fætur öðru fram fyrir Sundabrautina og núverandi samgönguráðherra virðist vera enn á þeirri braut.

Vegagerðin leikur sér að því að bera saman tvær gjörólíkar leiðir og notar þar til viðbótar tvær gjörólíkar matsaðferðir til þess eins að því virðist að þjónkast viðhorfum a samgönguráðherra. Hver einasti maður hlýtur að sjá að svokölluð eyjaleið setur tvö bæjarhverfi á annan endan.

Auk þess blasir við að það mun þurfa að byggja mjög flókin mislæg gatnamót í Vogahverfinu, sem ekki eru tekinn í verðmiða Vegagerðarinnar. Það er ekki hægt að bera saman jarðgöngin og eyjaleið þetta eru tvær ótengdar framkvæmdir. Ég myndi frekar halda að það þyrfti að fara í þær báðar áður en um langt líður.

Framkvæmdir við Sundabraut verða að hefjast á þessu ári, til þess að bjarga algjörlega óþolandi ástandi á meðan er ekki hægt að komast hjá því að ljúka við að tvöfalda Vesturlandsveg upp á Kjalarnes. Ég ætla ekki að rifja upp ummæli núverandi ekki síður fyrrverandi samgönguráðherra um þetta mál. En klárt er að Kristján verður að íhuga annað starf ef ekki verður lokið við Sundabrautina á þessu kjörtímabili.

miðvikudagur, 16. janúar 2008

Vilja semja til fjögurra ára

Ríkisúpvarpið hádegisfréttir kl. 12.20 16. jan. 2008

Vilja semja til fjögurra ára.
Samtök atvinnulífsins vilja semja við verkalýðshreyfinguna um kaup og kjör til fjögurra ára. Verkalýðshreyfingin vill hins vegar samning til 13 mánaða. Framkvæmdastjóri SA segir markmiðið að tryggja stöðugleika og ná niður verðbólgu.


Um þessa frétt má blogga svona;Sú staða er nú komin upp að sá strætó sem átti leið um hjá SA og ríkisstjórninni þ. 4. jan. en þeir létu fara hjá án þess að stíga um borð, hafi eftir allt verið sá rétti.
Reyndar virðist það svo vera að hann hafi verið sá eini sem var á leið til þess áfangastaðar sem hluti lausnar hins gífurlega efnahafgsvanda liggur. Það er að segja með sameinaðri verkalýðshreyfingu í samvinnu við SA og stjórnvöld.

Þeir eru að viðurkenna að þeir hafi gert mistök með því að stíga ekki um borð. En spyrjast fyrir um hvort þessi vagn sé væntanlegur aftur fljótlega. Hvað í veröldinni vilja þessir menn? Hver á að treysta þeim eftir svona óvönduð vinnubrögð?“

mánudagur, 14. janúar 2008

Það er ætíð betra að hugsa fleiri en einn leik í einu

Nú hafa landssamböndin tekið fram upphaflegar kröfur, vegna þess að SA og ríkisstjórnin höfnuðu tillögum ASÍ um sameiginlegt átak SA, ASÍ og ríkistjórnarinnar um að bæta kjör þeirra sem minnst mega sín og marka með því efnahagslega stefnu til tveggja ára. Lesendum til upprifjunar þá voru tillögur ASÍ í grunninn byggðar á tillögu framkv.stj. SA frá því í nóvember síðastl. Kröfur landssambandanna innifela hækkun taxtakerfa um 20 þús. krónur og laun almennt um 4%, auk nokkurra annarra atriða eins og betri virkni í ávinnslu orlofskerfisins.

Svör ríkisstjórnarinnar og SA eru ákaflega ábyrgðarlaus og stefna efnahagsmálum í mikla óvissu. Það mikla að ekkert landssamband treystir sér til þess að semja lengur en til eins árs. Engin þarf að undrast þessa niðurstöðu, þetta kom mjög skýrt fram á fundum forystu ASÍ með SA og ríkistjórninni í byrjun desember.

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum undanfarnar vikur, þá gengu nokkrir stjórnarþingmenn og framkv.stj. SA harkalega fram gegn tillögum ASÍ með margskonar ómerkilegum dylgjum og órökstuddum útúrsnúningum. Ríkisstjórnin fylgdi tilmælum SA og hafnaði tillögum ASÍ í síðustu viku og ráðherrar öpuðu hugsunarlaust útúrsnúningana í fjölmiðlum.

Nú er SA og ekki síður ríkisstjórnin kominn í umtalverðan vanda og reynt að draga í land, sé litið til ummæla Hannesar G. Sigurðss. aðstoðarframkv.stj. SA í útvarpinu í kvöld. Það er hreinlega útilokað að skilja hvert SA vill fara, fullkomið stefnuleysi. Fyrir nokkrum dögum höfnuðu þeir þessu alfarið, en grátbiðja núna. Það mun líða langur tími þar til framkv.stj. SA ásamt fyrrv. liðsfélögum sínum, geta bætt fyrir þau skemmdarverk sem þeir hafa unnið. Það ríkir fullkominn trúnaðarbrestur milli aðila.

Golden Globe og ágengir ljósmyndarar

Ég fór fyrir nokkrum árum á Golden Globe hátíðina. Þegar Björk var tilnefnd til verðlauna sem aðalleikona, en Julia Roberts vann fyrir Erin Brockovisch. Björk var einnig tilnefnd til verðlauna fyrir tónlist en Bob Dylan vann. Þar virðist fólk hafa meiri skilning á kjarabaráttu en sumir hér á landi, sé litið til atburða síðustu daga.

Ég gekk rauða dregilinn margfræga með öskrandi blaðamenn og ljósmyndara á báðar hendur. Reyndar ekki á mig ótrúlegt nokk, engin þeirra þekkti verkalýðsforingja frá Íslandi. En það voru margir sem létu öllum illum látum til þess að fá Björk og aðra þekkta einstaklinga til þess að stoppa og stilla sér upp. Sumir kölluðu spurningar til Bjarkar um hverjir væri með henni og báðu svo um að við stilltum okkur upp við hlið hennar.

Á rauða dreglinum fer fram ákveðið leikrit. Dregillinn er svið sem gætt er mjög vandlega af starfsmönnum, engin fær að ganga eftir honum nema fólk sem er að fara inn í sal Golden Globe hátíðarinnar. Ljósmyndarar og aðrir fá að standa á pöllum við hlið hans. Það er einkennilegt hvernig allt gjörbreytist þegar komið er inn í salinn. Í stað leikritsins sem fram fór á dreglinum með öllum sínum uppstillingum, þá urðu allir allt í einu eins og venjulegt fólk. Engu skipti hver þú varst, ert mitt á meðal allra stórstjarnanna og þær voru mjög venjulegt fólk sem töluðu við alla, svona eins og í eftirmiðdagspartý.

En svo gall við aðvörun og allir settust við sitt borð og útsending hófst. Nokkru síðar gall við önnur tilkynning um auglýsingahlé og allir spruttu upp og héldu áfram að rölta um og spjalla við alla um allt og alla. Þannig gekk öll útsendingin. Ég sat við hlið Anthonio Banderas, fínn gæi og mjög skemmtilegur, á hina hlið mér sat Jennifer Lopez og á næsta borði voru Tom Hanks og Mickael Douglas. Semsagt allt aðalliðið.

Það er eftirminnilegt að sjá hvernig ljósmyndarnir láta og hversu aðgangsharðir þeir eru. Sömu læti eru í flugstöðvum þegar þangað er komið og listamenn verða að sýna ótrúlega stillingu. En stundum gengur þetta alltof langt. Sumir ljósmyndararnir grípa til fólks til þess að fá það til að stoppa, jafnvel krafist að farið sé úr jökkum eða öðru og fólk stilli sér upp. Ganga svo langt að grípa til barna listafólksins og þeim hrint í fang foreldris til þess að ná mynd að geðþótta ljósmyndarans. Ef þú mótmælir, birtist eitthvað mjög neikvætt í pressunni daginn eftir.

Flest af fræga fólkinu er með lífverði, eða aðstoðarmenn sem ryður því leið í gegnum flugstöðvarnar. Björk hefur aldrei talið ástæðu til þess og er oft ein á ferð eða með nokkrum nánum vinum. Núna þá er hún á leið til Nýja Sjálands og Ástralíu til tónleikahalds og fer þaðan til Japan. Hún fer á undan hljómsveits sinni sakir þess að hún er á leið yfir í allt annað tímaskeið og búin að vera jólafríi. Til þess hafa tíma til þess að jafna sig á tímamun og fara í ræktina til þess að ná þolinu upp aftur og hita upp röddina.

Ég varð vitni að einni uppákomu í flugstöð í LA. Ljósmyndari áttaði sig á að Björk væri þarna og hann ruddist inn á milli okkar, hrinti okkur til hliðar og barni Bjarkar og krafðist að hún stillti sér upp og hljóp á eftir henni hvert skref. Oft þurftum við að ýta honum til hliðar til þess að komast áfram og að endanum sögðum við honum að nú væri nóg komið. Þá hrópaði hann að þetta væri frjálst land og við skildum bara gæta okkur annars myndi hann kæra okkur fyrir líkamsárás og skerðingu á persónulegu frelsi.

sunnudagur, 13. janúar 2008

Ekki boðlegar umræður

Í Silfri Egils í dag var að venju farið yfir helstu málin í þjóðlífinu í dag. Staldrað var við stöðuna í kjaramálum. Þar kom glögglega fram að þáttastjórnandinn ásamt viðmælundum hafði ákaflega takmarkaða þekkingu á stöðu þessara mála. Klifað var á að verkalýðshreyfingin hefði átt að leggja fram skattatillögur sínar í lok samningaferils.

Agli og viðmælendum hans til upplýsingar hef ég dregið helstu punkta ferilsins saman :
SA lagði fram í nóvember tillögur um fasta krónutöluhækkun á launataxta og launatryggingu og tveggja ára samning, með þessu var lagt til að flytja launakostnaðaraukningu yfir á þann hóp sem tekjulægstur væri. Forysta ASÍ fór yfir tillögurnar og fundaði um þær. Fjölmennir fundir samninganefnda og stjórna félaga í lok nóvember féllust á að fara þessa leið, þrátt fyrir að verið væri að flytja hugsanlega launahækkun stórra hópa sérstaklega í VR og iðnaðarmannahópunum annað. Sett var það skilyrði að skattar yrðu lækkaðir á tekjulægstu hópunum, þannig að þær launahækkanir sem fyrrnefndir hópar voru að afsala sér og færu yfir til hinna tekjulægstu en ekki í ríkissjóð í formi tekjuskatta.

Þ. 12 des. fór ASÍ forystan til ríkisstjórnarinnar og hún spurð hvort þetta kæmi til greina, lagðar voru fram tillögur um aðferðir og bent á nokkrar útfærslur. Farið var fram á svör fljótt því vinna við samningsgerðina væri stopp og myndi verða það þar til svör fengjust. Þann 4. janúar leggur framkv.stjórn SA í herferð gegn tillögum ASÍ með margskonar rangfærslum. Ríkisstjórnin birtir svo svar sitt loksins þ. 9. jan. Ríkisstjórnin hafnaði tillögum um skattaklækkun þeirra tekjulægstu, en boðaði áframhaldandi flata lækkun skatta, sem skilar sér að mestu til þeirra tekjuhæstu. Það er rökstutt með þeim kostulegum hætti að 20 þús. kr. hækkun persónuafsláttar hjá fólki með tekjur undir 300 þús. kr. valdi aukinni fátækt!! Hið rétta er að ráðstöfunartekjur hjóna með 3 börn og samanlagðar tekjur undir 300 þús. aukast um 40 þús. kr. á mánuði, þrátt fyrir aukin jaðaráhrif.

Verkalýðsforystan varð undrandi þar sem hún taldi sig vera að vinna í samræmi við yfirlýsta efnahagsstefnu stjórnarflokkanna. Vonbrigði komu fram sakir hversu lengi ríkisstjórn dró að svara og hafði tafið umræður við gerð kjarasamninga um rúman mánuð.

Verkalýðsforystan hefur vitanlega í kjölfar þessa svars farið þá leið sem hún tilkynnti í byrjun desember, hvert landssamband semur fyrir sig.

Óskandi væri að stjórnandi Silfursins fengi t.d. hagfræðinga ASÍ í þáttinn þegar hann ætlar að fjalla um þróun kjaramála í Íslandi.

Kosningaloforð til sölu

Í ræðu Ingibjargar Sólrúnar á flokksþingi Samfylkingarinnar kom fram að hún teldi enga örðugleika á því að ríkisstjórnin liðkaði til við kjarasamningana. Hún nefndi að ríkisstjórnin gæti gert eitthvað í húsnæðismálunum. Í loforðum stjórnarflokkanna í vor var skýrt tekið fram að flokkarnir ætluðu að taka myndarlega á þessum málaflokki. Enda framkvæmdaleysi við byggingu hjúkrunarheimila og félagslegra íbúða það sem harðast var gagnrýndur í tíð síðustu ríkisstjórnar.

Það var skipuð nefnd til þess að vinna að tillögum, hún átti að skila af sér 1. nóv. síðastliðinn. Nefndin var þá búinn að vinna mikið og gott starf og var með góðar tillögur. Það sem hefur komið í veg fyrir að hún geti lokið störfum, er að fjármálaráðherra hefur algjörlega hafnað að setja nokkurt fjármagn í framkvæmdir. Nefndarmenn hafa bent á hvernig fjármálaráðuneytið hafi komið þessum málaflokki undanfarin kjörtímabil, sem hefur leitt til þess að tiltækar heimildir til þess að reisa félagslega íbúðir hafa ekki verið nýttar. Það væri út í hött að gera það eitt í þessum málaflokki að gefa út enn fleiri tilgangsleusar heimildir.

Nefndarmenn spyrja vitanlega til hvers það væri senda frá sér einhvern óskalista sem hefði þann tilgang einn að vekja upp falskar væntingar og kalla með því á reiði öryrkja, lífeyrisþega og fátæks fólks, sem myndi vitanlega beinast að félagsmálaráðherra. Til þess væri leikurinn líka augljóslega gerður af fjármálaráðherra, eins og við höfum svo ítrekað orðið vitni að á síðustu 12 árum.

Það væri nú alveg í samræmi við hátterni þessara stjórnarherra að ætla að gera þetta kosningaloforð sitt að söluvöru í kjarasamningum, í stað lækkun skatta á þeim sem minnst mega sín. Fátæka fólkið fengi ekki skattalækkun, en eins og komið hefur fram síðustu daga haldið þá verður áfram fylgt stefnu ríkisstjórnarinnar að lækka skatta á þeim sem mestar tekjur hafa en láta einstæðar mæður, ellífeyrisþega og öryrkja kaupa kosningaloforðin. Já, miklir menn erum við.

laugardagur, 12. janúar 2008

Áróðursstríð

Eins og ætíð áður þá leggjast stjórnvöld og samtök atvinnurekenda í áróðursstríð gegn launamönnum þegar þeir reyna að rétta hlut sinn í kjarasamningum. Það bregst ekki að RÚV breytist í Fox og kallar til sín í dægurmálaútvarpið og Kastljósið öfgafulla hægri menn þegar kjarasamningar standa yfir til þess að fá hjá þeim yfirlit um stöðuna í lok vikunnar. Krydduðu með yfirlýsingum um álit þeirra á samtökum launamanna.

Öll þekkjum við álit öfgafullra hægri manna á samtökum launamanna. Það fer í taugarnar á þeim að launamenn skuli mynda samtök til þess að gæta hagsmuna sinna. Það segir okkur allt um álit yfirmanna Fox, æ fyrirgefið ég ætlaði að segja RÚV, á málefnum launamanna, að maður sem margsinns hefur upplýst þjóðina um að hann veit nákvæmlega ekkert um kjarasamninga, skuli ætíð vera fenginn til þess að reka þennan áróður fyrir hönd stjórnvalda og atvinnurekenda í "sjónvarpi allra landsmanna".

Ef Fox stæði eðlilega að málum þá væru forsvarsmenn samtaka launamanna fengnir til þess að fara yfir stöðuna, það vitum við öll.

föstudagur, 11. janúar 2008

Ríkistjórnin og SA reyna að klóra yfir mistök sín

Forsvarsmenn SA reyna að klóra yfir að hafa átt frumkvæði að eyðileggja sameiginlega aðkomu stéttarfélaganna að gerð stefnumarkandi kjarasamninga í samvinnu við stjórnvöld og fyrirtækin. Markmiðið var eins og kom fram í yfirlýsingum stéttarfélaganna í nóvemberlok, að stuðla að stöðugleika sem mynda hafa lækkandi áhrif á verðbólgu.

Framkv.stj. SA fór mikinn í fjölmiðlum um helgina gegn sameiginlegum tillögum launamanna og afleiðingarnar eru komnar fram. Honum hefði átt að vera ljóst hver uppskeran yrði. Hann birtir svo á heimasíðu SA grein undir fyrirsögninni „Skynsemi, raunsæi og framsýni“ og segir m.a. að sé öllum í hag að kjarasamningarnir að varða leiðina að lægri verðbólgu og að launakostnaðarhækkunum sé forgangsraðað til þeirra sem eru með lægstu launin eða þeirra sem ekki hafa notið neins launaskriðs.

Það er ekki hægt annað en álíta sem svo að hér sé framkv.stj. SA að hæðast að launamönnum, eða þá að reyna að stela yfirlýstum markmiðum þeirra og gera okkur upp einhver ankannanleg stefnumið.

Manni er spurn á hvaða forsendum telja forsvarsmanna SA að launamenn hafi tekið undir tillögur SA í nóvember? Þau sjónarmið sem launamenn fóru með á fund ríkisstjórnarinnar þ.a. 12. desember eru vel kunn. Hvers vegna hafa launamenn beðið í heilan mánuð eftir svari? En nú er komið í ljós að forsvarsmenn SA hafa í millitíðinni farið til stjórnvalda og lagst í undirróður gegn tillögum launamanna. Þeirri herferð lýkur svo með því að SA fer í fjölmiðla um helgina og gerir allt sem hægt er til þess að samstarf launamanna rofni.

Forsvarsmenn SA eiga stærstan þátt í því hvernig komið er. Til að bæta svo gráu ofan á svart birtir svo aðstoðarframkv.stj. SA grein á heimasíðu SA þar sem hann reynir að draga upp einhverja ímyndaða fátæktargildru, sem hann veit að var alls ekki markmið launamanna. Það hefur margoft komið fram að ASÍ lagði þ. 12. des. á fundi sínum með ríkisstjórninni fram tillögur um hvernig mætti bregðast við jaðaráhrifum. En það hentar ekki SA að greina frá því vegna þess að þá verður skömm þeirra enn dýpri.

fimmtudagur, 10. janúar 2008

Fram fram veginn gegn þeim sem minnst mega sín


Á undanförnum árum hefur í vaxandi mæli komið fram gagnrýni á stjórnvöld fyrir óréttlátar skattabreytingar, byggð á því að skattbyrði þeirra tekjulægstu hefur verið að vaxa á undanförnum árum með lækkandi skerðingarmörkum og hækkandi þjónustugjöldum, samfara því að skattbyrði þeirra tekjuhæstu hefur lækkað.

Stjórnvöld hafa reynt á ýmsan hátt að slá þessari gagnrýni út af borðinu með því að leggja fram alls konar meðaltöl. En þeir sem eitthvað kunna fyrir sér í stærðfræði vita að meðaltöl segja oft alls ekki allan sannleikann. Vinsæl myndræn líking í þessu sambandi er að maður hafi það að meðaltali gott ef annar fóturinn sé í ísfötu en hinn í sjóðandi vatni.

Í þessu sambandi má benda á meðatöl stjórnvalda um vaxandi kaupmátt á undanförnum árum. En við skulum aðeins skoða betur heita vatnið og ísfötuna.

Árin 2003 – 2004 fékk 81% launamanna kaupmáttaraukningu, en 19% kaupmáttarskerðingu
Árin 2005 – 2006 fékk 60% launamanna kaupmáttaraukningu, en 40% kaupmáttarskerðingu
Árin 2006 – 2007 fékk 55% launamanna kaupmáttaraukningu, en 45% kaupmáttarskerðingu.

Þetta segir okkur að þar sem kaupmáttur hafi vaxið að meðaltali á meðan vaxandi hópur býr við kaupmáttarskerðingu, þá blasir við að það hefur verið að draga mikið í sundur. Þeir sem eru í hærri kantinum hljóta að vera fá mikið meira þar sem meðaltalið er í plús.

Það var þetta sem stéttarfélögin vildu fá stjórnvöld í lið með sér og leiðrétta og gera það samfara kjarasamningum. Á öðrum tíma er það einfaldlega ekki hægt, (Afsakaðu lesandi góður, en hér er verið að kenna tilteknum stjórnarþingmönnum og pistlahöfundum grunntengsl kjarasamninga og efnahagslífs).
Samtök launamanna voru tilbúin að beina miklum meiri hluta launakostnaðarauka við samningsgerðina til hinna lægst launuðu á meðan hinir hærra launuðu sætu kyrrir. Hinir hærra launuðu féllust á þetta svo framarlega að gengið yrði þannig frá málum að það sem þeir væru að gefa eftir í launahækkun færi ekki þráðbeint í ríkissjóð í hækkuðum sköttum hinna lægst launuðu.

Launamenn lögðu til að tekinn yrði upp sérstakur 20 þús. kr. persónuafsláttur til þeirra tekjulægstu, sem færi lækkandi frá 150 þús. kr. á mánuði og rynni út við 300 þús. kr. Samhliða þessu var lagt til að skerðingarmörk barnabóta væru hækkuð úr 90 þús. kr. í 150 þús.kr. ASÍ lagði einnig fram tillögur um ráðstafanir til þess úr jaðaráhrifum.

Eins og ég hef komið að í pistlum hér framar, fóru nokkrir stjórnarþingmenn hamförum gegn þessu með harkalegum ummælum í garð launamanna (að venju). Og svo kom SA (já virkilega af öllum) og fór fram á það við ríkisstjórnina að hún vísaði þessu frá, sem hún gerði eftir að hafa dregið kjarasamningagerð í einn mánuð.

Vonbriðgi launamanna urðu vitanlega mikil. Og urðu reyndar enn harkalegri þegar ríkisstjórnin og málsvarar hennar veittist að samtökum launamanna um óvönduð vinnubrögð með kostulegum skýringum um jaðaráhrif. Steininn tók úr þegar fram kom að stjórnvöld ætla ekki að breyta stefnu sinni um að lækka skatta á þeim tekjuhæstu. En í stað þess gefur hún þeim tekjulægstu langt nef, með því að hafna að taka þátt í sameiginlegu átaki sem launamenn gerðu kleift með tilslökunum í kjarasamningum.

miðvikudagur, 9. janúar 2008

Leikreglur kjarasamninga

Oft er tekið þannig til orða að það sé við verkalýðshreyfinguna að sakast að laun að séu lág. Þetta orðatiltæki er sérstaklega tamt tilteknum stjórnmálamönnum. Þeir hinir sömu veitast einnig oft að verkalýðshreyfingunni þegar fjallað er um bætur í almannatryggingakerfinu.

Hlutunum er nú einhverja hluta þannig fyrirkomið að verkalýðshreyfingin semur ekki við sjálfa sig. Hún semur við samtök atvinnurekenda eða við einstök fyrirtæki. Ég hef aldrei upplifað það að samningamenn verkalýðshreyfingarinnar standi í samningaherbergjum og segi; “Nei nú er nóg komið af launahækkunum. Alls ekki hærri launatilboð takk fyrir.” Ég hef aftur á móti upplifað það við gerð hvers einasta kjarasamnings að samningamenn launamanna rífi hár sitt og skegg og skelli hurðum sakir þess að þeir ná ekki fram þeim launahækkunum sem þeir sækjast eftir.

Samkvæmt landslögum þá er það stjórnarþingmenn á Alþingi sem ákveða bætur í almenna tryggingarkerfinu, ekki verkalýðshreyfingin. Verkalýðshreyfingin hefur æði oft lagt til að persónuafsláttur sé hækkaður, eða skattar lækkaðir á lægstu laun, matarskattur lækkaður, eignastuðull í vaxtabótakerfinu hækkaður, skerðingarmörk í barnabótakerfinu hækkuð, frítekjumörk ellilífeyrisþega og öryrkja hækkuð og þannig mætti lengi telja. Langoftast með daufum undirtektum stjórnarþingmanna og stundum hafa þeir reyndar gengið í öfuga átt, sérstaklega á síðustu árum.

Þessa dagana erum við einmitt að upplifa það að stjórnarþingmenn eru að hafna tillögum launamanna/kjósenda um lagfæringar á kjörum hinna lægst launuðu. Það er ekki langt síðan þeir hinir sömu stjórnarþingmenn töluðu um að lægstu laun væru alltof lág. Verkalýðshreyfingin gaf stjórnvöldum tækifæri til þess að taka þátt í Þjóðarsátt til þess að lagfæra þetta en þeir hafa nú hafnað því, en vilja frekar viðhalda uppteknum hætti að lækka skatta ennfrekar á þeim sem hafa mest til hnífs og skeiðar.

Stjórnarþingmenn settu á sínum tíma undir forystu hins merka húnverska bónda Páls Péturssonar þáv. Félagsmálaráðherra lög um gerð kjarasamninga, svonefnd Pálslög. Þar segir að þegar samningamenn í Karphúsinu telja að ekki verði lengra komist, þá verða þeir samkvæmt lögunum að bera samningsdrögin undir viðkomandi félagsmenn. Það eru svo félagsmennirnir sem taka ákvörðun um hvort samningsdrögin séu að þeirra mati ásættanleg, ekki samninganefndin.

Ef félagsmenn samþykkja samningin þá er málið dautt, eins og menn segja í dag. Samninganefndarmenn geta ekki meir og stéttarfélögin eru bundin friðarskildu til næstu samninga.

Ef félagsmenn aftur á móti fella samningsdrögin þá fyrst geta samninganefndarmenn leitað eftir verkfallsheimildum eða öðru til að þrýsta á um að ná lengra.

Einnig eru í þessum lögum margskonar ákvæði sem setja kosningum margskonar skorður.

Alltof oft tala íslenskir stjórnmálamenn eins og þeir viti ekki hvaða lög hafa verið sett á Alþingi í lýðveldinu Ísland.

Nýlega setti dómnefnd mönnuð einvala úrvalsmönnum eftir farandi fram um störf núverandi stjórnvalds : Ráðherra fór langt út fyrir slík mörk og tók ómálefnalega ákvörðun. Ráðherra gekk í berhögg við yfirlýst markmið um að styrkja sjálfstæði dómstólanna og auka traust almennings á því að dómarar séu óháðir handhöfum framkvæmdarvaldsins og viðhafði óvanda stjórnsýslu.

Greinarhöfundi finnst þessi dómur um stjórnvaldið athyglisverður.

Kjarasamningar á byrjunarreit

Við undirbúning viðræðna í desemberbyrjun var ákveðið að láta reyna á hvort samstaða næðist milli aðila vinnumarkaðs og stjórnvalda um verulega hækkun launa og ráðstöfunartekna þeirra sem minnst mega sín. SA spilaði út krónutöluhækkun á lægstu taxta og ákveðna launatryggingu til handa þeim sem ekki hefðu fengið launaskrið umfram sett mörk.

Stéttarfélögin tóku jákvætt í að skoða þessa leið að því tilskildu, að ríkisstjórnin myndi beina skattalækkunum í þann farveg að tryggja auknar ráðstöfunartekjur láglaunafólks. Með því næðust þau lágmarksmarkmið sem stéttarfélögin höfðu sett sér um aukningu ráðstöfunartekna þeirra sem voru á lægstu töxtunum. Augljóst var jafnframt þessu að stórir hópar meðal iðnaðarmannahópanna og innan VR myndu fá litlar launahækkanir, en féllust á að taka þátt í þessu sérstaka átaki á grundvelli.þess að væri leið til þess að ná verðbólgu niður.

Nú er liðinn einn mánuður frá því að tillögur stéttarfélaganna voru kynntar ríkisstjórn og hafa viðræður legið niðri. Á meðan hafa nokkrir stjórnarþingmenn farið mikinn í fjölmiðlum gegn þessum tillögum. Þeir vildu viðhalda stefnu stjórnvalda undanfarinna 8 ára og lækka skatta mest hjá þeim tekjuhæstu. Framkvæmdastjóri SA gekk svo fram fyrir skjöldu nú fyrir helgi og gagnrýndi tillögur ASÍ og vildi að skattleysismörkin yrðu frekar hækkuð um nokkur þúsund kr. og þannig að þau skiluðu sér upp allan tekjustigann. Hækkun persónuafsláttar yrði samkvæmt þessu vitanlega töluvert lægri en tillögur ASÍ hljóðuðu upp á og stærsti hluti tekjutaps ríkissjóðs skilaði sér til hinna tekjuhæstu.

ASÍ fékk svo í kjölfar þessa loks í gærkvöldi svar frá ríkisstjórninni, þar sem fallist á tillögur SA og tillögum ASÍ hafnað. Fram kom að ríkisstjórnin hefði markað sér stefnu um að halda áfram á þeirri leið að lækka tekjuskatt flatt og skila skattalækkun mest til hinna tekjuhæstu. SA og ríkisstjórnin var það vitanlega fulljóst að verið var að koma í veg fyrir sameiginlegt átak um að hækka lægstu laun sérstaklega og auka ráðstöfunartekjur þeirra sem minnst mega sín.

Samningaviðræður eru því komnar á byrjunareit og landssamböndin fara fram í sitthvoru lagi. Líklegt verður að telja nú verði stefnt á skammtímasamninga, þar sem ljóst er að þetta mun leiða til enn meiri óróa í efnahagfslífinu, sem hefur þó verið ærinn undanfarið.

Eins og kunnugt er þá hafa stjórnmálamenn hafa byggt upp væntingar um miklar launahækkanir hjá hópum í umönnunargeiranum og meðal kennara. Kjarasamningar þessara hópa renna út eftir rúman mánuð.

Efnahagsstefna stjórnvalda hefur valdið mörgum hugarangri og sá hausverkur hefur nú vaxið um allan helming.

Stefnuleysi stjórnmálamanna og flugvöllurinn

Það er of oft sem við skattgreiðendur verðum að borga brúsann fyrir ístöðuleysi/stefnuleysi stjórnmálamanna. Það er komin tími til og það reyndar fyrir löngu að borgaryfirvöld taki ákveðna stefnu í uppbyggingu miðbæjarins. Hvað hún ætli að gera og standi þá við hana, sama úr hvaða flokk menn koma.

Á undanförnum árum höfum við mátt horfa upp á ákvarðanir sem hafa verið teknar en svo breytt ef einhver hópur mótmælir. Hvað er t.d. búið að breyta Austurstrætinu oft. Nú erum við að tapa 700 millj. kr. á ístöðuleysi friðurnarnefndar og borgarstjórnarmanna vegna niðurníddra og ónýtra húsgarma. Þessar 700 millj kr. væru mikið betur settar í að lækka Morgunblaðshöllina um 3 hæðir, setja nýtt þak á húsið og aðra framhlið. Þá væri kominn endanleg og heildstæð mynd á Grjótaþorpið.

Í þessu sambandi má einnig benda á flugvöllinn. Það er kominn tími til og það fyrir löngu, að tekin sé ákvörðum um hvað menn ætli að gera. Áberandi hafa verið sjónarmið þröngs hóps fólks sem býr á 101 svæðinu. En sá hópur sem býr út á landi ásamt fólki sem býr hér á höfðuborgarsvæðinu og þarf að fara reglulega út um allt land vegna vinnu sinnar, líður fyrir stefnuleysi og ódug stjórnmálamanna að taka ákvörðun.

Áberandi stór hluti þess fólk sem stjórnar spjallþáttum býr á 101 svæðinu. Sama gildir um nánast alla borgarstjórnarmenn. Þetta fólk talar í sífellu niður til úthverfanna og landsbyggðarinnar. Úthverfin er eitthvað sem er upp til heiða og 101 fólkið virðist halda að fólk búi þar gegn vilja sínum. Grafarvorgurinn er t.d. mun lægri miðað við sjávarlínu en t.d. Skólavörðuholtið, sama gildir um Mosfellsbæinn. Það er einfaldlega mikill fjöldi fólks sem ekki vill búa á 101 svæðinu. Úthverfin bjóða upp á margt sem miðbærinn getur aldrei boðið upp á. En munurinn er sá að úthverfafólkið talar aldrei niður til 101 fólksins og kemst sjadnast að með sjónarmið sín. Hinn þegjandi meirihluti.

Ef flugvöllur yrði fluttur til Keflavíkur þá lengist ferðatími með innanlandsflugi til allra staða á landinu um 3 klst. þá er miðað við fram og tilbaka og venjubundinn biðtíma í flugstöðvum. Það tekur 3 klst. að aka langleiðina til Akureyrar, auk þess getur að viðkomandi lagt af stað þegar honum hentar og tilbaka á sömu forsendum. Flugtíma er oft breytt með litlum fyrirvara og ef viðkomandi er kominn til Keflavíkur þá situr hann þar án þess að tími nýtist.

Það er samdóma álit þeirra sem nýta innanlandsflugið að flutningur þess til Keflavíkur sé sama og taka ákvörðun um að leggja það niður nema þá til Egilsstaða og Ísafjarðar. Flugvöllur í nágrenni við Landspítala er mikið öruggisatriði fyrir þá sem búa utan Reykjavíkur og ekki síður þá sem vinna utan Reykjavíkur. Þessi ákvörðun myndi hafa mjög afdrifaríkar neikvæðar afleiðingar gagnvart ungu fólk sem hugsanlega vildi vildi flytja út á land.

Fjölskylda með 2 börn og vill ferðast til Reykjavíkur til þess að sækja einhverja þjónustu eða heimsækja vini og skyldmenni þarf í dag að greiða um 80 þús. kr. í fargjöld. Þetta skiptir þar af leiðandi geysilega miklu máli ef það á að heppnast að jafna byggð í landinu að innanlandsflug sé á Reykajvíkursvæðinu. Það er afstaða þessa fólks að flugvöllurinn eigi að vera þar sem hann er.

Samkeppnisaðili Flugfélagsins hefur boðað 40% lækkun fargjalda sem væri geysilega mikil aðstöðubót fyrir ofangreint fólk. Grundvöllur þess er að félagið fái aðstöðu á flugvellinum. Á þessum forsendum er það sé óafsakanlegt að stjórnvöld séu ekki fyrir löngu búinn að byggja öfluga samgöngumiðstöð við Reykjavíkurflugvöll.

þriðjudagur, 8. janúar 2008

Það er þetta með flugeldana

Það er fastur liður í mínu fjölskyldulífi að allir komi saman á gamlárskvöld og hafi skemmtilegt kvöld og kryddi það með því að vera meir og minna úti og kveikja í margskonar dóti. Mest minniháttar dót sem krakkarnir geta höndlað, en svo um áramótin eina-tvær kökur og nokkrir alminnilegir. Þetta er ómissandi.

En það er svo oft með okkur íslendingana að geta ekki gert neitt nema að keyra langt fram úr öllu hófi. Sem leiðir svo til þess að það verður að setja allskonar skorðandi reglur. "Forsjárhyggja" hrópum við svo svekkt. "Og mig sem langaði svo til þess að styrkja hjálparsveitinar!!"

Það stendur núorðið yfir samfelld sprengjuhátíð frá öðrum í jólum nánast allan sólarhringinn fram yfir þrettándann. Jaa á meðan ég er að skrifa þetta um hábjartan daginn núna 8. Janúar, þá eru að fljúga upp heilmiklir flugeldar. Það er ekki hægt að sitja heima á kvöldin yfir hátíðarnar spjalla og lesa eða horfa á sjónvarpið, án þess að hrökkva margoft við eða þurfa að hækka upp úr öllu valdi.

Við hrukkum upp á mínu heimili kl. 07.15 að morgni þess 29. des. við þessa líka svaka sprengjuhátíð í götunni sem stóð í allangan tíma. Og það var snarbrjálað veður, suðaustan 15 með slyddudrullu og ekki nokkur lifandi maður úti við. Núorðið getur maður ekki einu sinni snúið sólarhringnum við í jólafríinu og lesið fram á nótt eða púslað möndlugjöfinni. Og svo skilja menn allt draslið eftir á gangstéttinni eða út á götu. Ábyrgðinni er lokið og einhver annar á að sjá um hreinsunina.

Með þessu áframhaldi erum við að kalla yfir okkur samskonar lög og eru gildandi í mörgum öðrum löndum, þar sem rokeldspýtur og stjörnuljós er hámarkið.

„Ert´ ekk´ að grínast í mér afi. Fáum við þá ekki að kaupa alminnilegt gamlársdót?“ „Ja ef þessu heldur áfram, þá verður það aðaltekjulind hjálpasveitanna að vera á vakt á vegum hins opinbera og hánka þá sem sprengja fyrir utan tímann milli 20.00 -00.01 á gamlárskvöld“.

Er ekki með sameiginlegu átaki rétt að koma þessu í eitthvert vitrænt horf áður en það verður of seint?

mánudagur, 7. janúar 2008

Skortur á yfirsýn

Nú þegar þenslan er byrjuð að slakkna falla hlutbréf ásamt því að íbúðareigendur sitja í ofmetnum fasteignum. Sumir svo skuldugir fari fasteignin á sölu, dugar raunverð hennar ekki fyrir lánunum sem tekin voru við kaupin. Sama gildir um þá sem tóku lán til að kaupa hlutabréf á fyrri hluta síðasta árs. Þegar fer nauðungaruppboðum fjölskyldna fjölgandi. Flestir hjónaskilnaðir eiga upphaf sitt í fjárhagsörðugleikum.

Á svona tímum gildir hagstjórn miklu. Hún hefur á undanförnum árum um of einkennst af hlutleysi á hliðarlínu ofboðslegrar þenslu, í kjölfar ákvörðana um byggingu stærsta orkuvers á Íslandi og álvers. Mestu mistökin voru að sleppa bönkunum afskiptalausum inn á íbúðalánamarkaðinn til þess að efna kosningaloforð.

Í ljósi þessa sitja forsvarsmenn launamanna nú undrandi yfir svörum forsætisráðherra og útúrsnúningum framkv.stj. SA. Það hefur alltaf legið fyrir að ef ríkisstjórnin komi ekki að málinu með ábyrgri efnahagstjórn, þá liggur fyrir að tilboð SA sem er helmingi lægra en verðbólgan og verður enn lægra þegar líður á árið vegna, sem bein afleiðing rangrar afstöðu ríkistjórnarinnar. Þá er hætt við að ráðherrar þurfi enn hærri aukaábót á launin sín, en þessi auka tvö prósent sem þeir fengu sér núna um áramótin.

Hvernig ætla stjórnvöld að landa loforðum sínum og væntingum sem þeir vöktu í haust hjá þeim hópum sem fara í viðræður í næsta mánuði? Stjórnvöld og SA skortir greinilega yfirsýn til þess að sjá hversu miklu tillaga ASÍ hefði skilað inn í þá lausn.

Hafa stjórnvöld ekki áttað sig á því að núverandi ástand kallar á stefnubreytingu í efnhagsstjórn?

sunnudagur, 6. janúar 2008

Mér finnst þetta gaman

Allmargir gagnrýndu ákvörðun Árni um að skipa son Davíðs sem héraðsdómara. Gagnrýnendur bentu á að nefnd sem hefði það hlutverk að meta hæfni umsækjenda hefði talið aðra mun hæfari. Árni sagði að rök nefndarninnar stæðust ekki, þar sem þau væru önnur en hann hefði sjálfur. Innvígðir sjálfstæðismenn fóru hamförum yfir þessari gagnrýni, en treystu sér ekki til þess að ræða málið málefnanlega, og völdu þá ógæfusömu leið að tengja persónu og ættir hins ungan manns í málið. Engin hafði minnst á það.

Maður tók sérstaklega eftir því hvernig Össur vék sér undan að svara spurningum um þetta mál, sakir þess að leiða má að því töluverð rök að hann hefði farið mikinn í þessu máli áður en hann varð ráðherra. En svo kom ástæðan í ljós, á sama tíma var hann að ganga framhjá mjög vel menntaðri konu með mjög góða þekkingu og reynslu og réð gamlan vin sinn.

„Mér finnst þetta gaman“ sagði Össur um að hafa vald ráðherra á bloggsíðu sinni og í áramótasilfrinu. Um leið sagðist hann vilja fá harða gagnrýni, það er svo spurning hvort hún virki. Hún hefur allavega ekki gert það hingað til hvað varðar ráðherra, því þeir víkja sér ætíð undan því að fjalla um málin á málefnanlegan hátt ef fram eru borin óþægileg gagnrýni eins og í þessum tveim málum hér ofar. En ég ítreka þó það sem ég hef sagt í síðustu pistlum, ummæli forsætisráðherra um áramótin vöktu hjá manni væntingar um að nú ætluðu þeir að taka um ábyrgari vinnubrögð.

Þetta dundar Össur sér við á sama tíma og flokksbróðir hans og meðráðherra talar um að lögsetja kynjakvóta á ráðningar í stjórnunarstöður. Jafnframt því að flest okkar muna örugglega eftir öllum ræðum samfylkingarmanna um kynjajöfnun.

Ég læt þér svo eftir lesandi góður að giska á hvers vegna niðurstöður í könnun Gallup eru þær að Alþingi njóti einungis trausts 29% almennings og hafi lækkað um 14 prósentustig frá síðasta ári og aldrei verið eins lítið síðan mælingar hófust í ágúst '93. Í kjölfar þess eru það svo pistlar um persónuleg vandamál Britney Spears sem stjórnendur bloggheima halda að almenning frekar en umfjöllun um þjóðmál.

laugardagur, 5. janúar 2008

26 milljarða útúrsnúningur

Í gögnum sem hagfræðingar ASÍ hafa unnið við undirbúning viðræðna um endurnýjun kjarasamninga, er rætt um að inn komi sértækur persónuafsláttur sem fari minnkandi og hverfi við 300 þús. tekjur auk breytinga á skerðingarmörkum í barnabóta- og vaxtabótakerfinu. Heildarkostnaður verði um 14 milljarða, sem yrði dreift á 3 ár, ekki 40 milljarðar strax. Þessar aðgerðir leiða til þess að ráðstöfunartekjur hjóna með tvö börn um 300 þús. kr. myndu vaxa um 40 þús. kr. á mán.

Vilhjálmur framkv.stj. SA á greinilega erfitt með að sætta sig við það frumkvæði sem ASÍ tók í viðræðunum með tillögum sínum og reynir að ná því tilbaka með útúrsnúningum í hádegisfréttum í dag. Þeir eru greinilega búnir að samstilla sig hann og forsætisráðherra, viðtalið í dag er framhald að viðtalinu í gær við forsætisráðherra.

Með því að því að slá fram tölum um 40 milljarða tekjutap ríkissjóðs, sem eru jú réttar ef þessi persónuafsláttur væri látinn ná upp allan tekjuskalann. Landsmenn vita nákvæmlega að það sem verkalýðshreyfingin hefur gagnrýnt hvað harðast, er að þær skattalækkanir sem stjórnvöld hafa staðið fyrir ná fyrst og síðast til þeirra tekjuhæstu, en skila litlu sem engu til þeirra tekjulægstu.

Ítrekað hefur komið fram í viðræðum við forsvarsmenn stéttarfélaganna, að þeir vilji láta þá fjármuni sem stjórnvöld vilji setja í skattalækkanir ná einungis til þeirra sem minnst mega sín. Sjálfstæðismenn hafa algjörlega hafnað lægra skattþrepi og settu stéttarfélögin fram umrædda tillögu sinni. Nú á er reynt með sjónarspili í fjölmiðlum að eyðileggja þessar tillögur launamann með það að markmiði að halda fyrri stefni að skattalækkanir haldi áfram að skila sér að stærstum hluta fram hjá þeim tekjuhæstu.

Á fréttavef RÚV stendur um viðtalið; „Vilhjálmur segir atvinnurekendur tilbúna til að hækka laun um 3 til 3,5%, hækka lágmarkslaun, færa kauptaxta nær greiddum launum og hækka þá sem setið hafa eftir í launaskriðinu.” Þetta er mjög ónákvæmt hjá fréttamanni, ég heyrði Vilhjálm segja; “Atvinnurekendur eru tilbúnir til að setja 3 til 3,5% launakostnaðarauka í dæmið og nýta það til þess að hækka lágmarkslaun og færa með því kauptaxta nær greiddum launum. Þeir sem hafa fengið mikið launaskrið þurfa ekki launahækkanir”

Það er ekki nóg og þessvegna sendu launamenn umræddar tillögur til stjórnvalda. Deilan stefnir hraðbyri í hnút og verður líklega kominn til sáttasemjara í lok næstu viku.

föstudagur, 4. janúar 2008

Af drykkjuvenjum Bjarkar

Samgönguráðherra brást harkalega við þegar Fréttablaðið setti á forsíðu, að ráðherra væri búinn að setja jarðgöng í sinni heimabyggð fram fyrir Sundagöngin. Þjóðina setti hljóða og brást svo harkalega við. Sundagöng eru ekki einkavegur Reykvíkinga, þetta er hluti þjóðvegar 1. Þjóðin kemst ekki leiðar sinnar nema að aka í gegnum Reykjavík og býr við í dag að þurfa oft á tíðum að bíða í allt að 3 klst. í allt að 70 km. löngum biðröðum. Samgönguráðherra sagði að þetta væri skáldskapur Fréttablaðsins.

Maður veit stundum ekki hverju maður á að trúa í fréttum og á ferðum um bloggheima kemst maður ekki hjá því að verða reyndar stundum undrandi á því efni sem verið er að birta og ekki síður viðhorfum sumra. Þá á ég sérstaklega við slúðurdálka“fréttirnar“. En það er eins og sumir vilji trúa hinu versta upp á aðra og geti ekki fjallað um efni án þess að snúa sér að persónunni með skítkasti og gera viðkomandi upp hið versta.

Vitanlega hafa menn misjafna sýn á stefnur og ákvarðanir í stjórnmálum eða þjóðfélagslegum efnum og rökræða þau mál með réttu. Í bloggheimum hafa menn meira frelsi til þess að koma skoðunum sínum á framfæri. Þurfa ekki að una því að bíða marga daga eftir því hvort efni þeirra birtist í prentmiðlunum og þá stundum að löngu liðinni umræðunni. Um það efni fjalla menn án þess að vera að skipta sér af viðkomandi persónu eða einkalífi hennar.

Einhver hrekklausasta manneskja sem ég þekki er Björk. Hún fæddist með mikla hæfileika og hefur nýtt þá til þess að skapa sér atvinnu og gengið prýðilega. Reyndar látið allmarga íslenska tónlistamenn og hljóðmenn njóta velgengi sinnar og nýtt hvert einasta tækifæri til þess að kynna landið. Nú er vitanlega til fullt af fólki sem vill hlusta á aðra tónlist og hið besta mál, það er einfaldur hlutur að slökkva, skipta um stöð eða setja annan disk í spilarann.

Ég er klár á að Björk hefur aldrei drukkið Vodka hvorki blandað eða óblandað. Ég þori að fullyrða að þetta vita líka ráðandi menn á Moggablogginu. Það er t.d. frétt á Moggablogginu í morgun þar sem fram kemur að umsjónarmaður þess er einn af þeim sem hefur skrifað mest um Björk. Þeir sem koma nálægt þessu vita að Björk reynir gífurlega á rödd sína á tónleikum og verður að gæta mjög vel að því sem hún neytir til þess að halda henni hreinni. Eins og allavega hluti þjóðarinnar veit þá er Björk á 2ja ára tónleikaferðalagi, því fylgir algjör breyting á lifnaðarháttum á meðan á því stendur. Hvaða tilgangi þjónar það birta athugasemdalaust frétt um að Björk viðhafi sömu siði og afi hennar og amma að þamba einn lítra af Vodka á föstudagskvöldum.

Manni bregður ekki síður við að sjá viðbrögð Moggabloggara og umsagnir þeirra. Kannski ekki síst að ég hélt að allir vissu að Breska slúðurveitan er líklega sú alræmdasta í veröldinni. Hvers vegna þeir vilja draga Moggabloggið niður á það stig skil ég ekki. Kannski ekki síst sakir þess að Árni Matt er að veitast að dóttur minni og saklausum háöldruðum foreldrum.

fimmtudagur, 3. janúar 2008

Ísland er tengt Evrópu

Ég verð alltaf jafnundrandi þegar stjórnmálamenn sem vilja láta taka sig þokkalega alvarlega taka þannig til orða að þeir vilji ekki ganga í Evrópusambandið, sakir þess að þá séu þeir að afsala sér með því fullveldi og fá yfir sig allt það reglugerðarfargan sem því fylgir. Hafa Svíþjóð, Danmörk eða Finnland virkilega afsalað sér fullveldi?

Nokkrir stjórnmálamenn gripu enn einu sinni til þessara ummæla nú um áramótin. Reglulega kemur fram í umræðum um þessi efni þegar þátttakendur eru einstaklingar sem hafa þekkingu á þessu sviði, eins og t.d. prófessorar og lektorar háskólanna, að við erum hluti af ESB og viðskipti Íslands við EES-ríki (ESB og EFTA) eru um 70% af öllum utanríkisviðskiptum Íslands og liðlega helmingur þeirra fer fram í evru og hlutfall evrunnar fer vaxandi í heildarviðskiptum okkar. Viðskipti okkar við Bandaríkin eru um 10% og fara minnkandi.

Ísland yfirtekur sjálfvirkt um 80% af reglum ESB. Viðskiptalíf Íslands fylgir þar af leiðandi ákvörðunum ESB. ESB er langstærsta viðskiptaveldi heims, með hartnær tvöfalt meiri utanríkisviðskipti en Bandaríkin. Við aðild að ESB fengju íslensk fyrirtæki sömu kjör og samkeppnisaðilar í ESB. Ísland er hálfgildings ESB ríki en á ekki aðild að ákvarðanatökuferlinu.

Sem betur fer tókst einangrunarsinnum ekki að koma í veg fyrir samþykkt EES-samningsins fyrir rúmum áratug. Sú samþykkt á stærstan þátt í þeirri velmegun sem við búum við í dag samfara því að aðilum vinnumarkaðs tókst að koma á Þjóðarsátt árið 1990 og fá stjórnvöld til þess að taka þátt í henni.

Það sama á við í núverandi stöðu okkar. Staða íslensku krónunnar veldur efnahagslífinu miklu tjóni og kemur í veg fyrir áframhaldandi jákvæða þróun atvinnumála hér á landi. Hagfræðingar hafa sýnt fram á að matvælaverð myndi lækka hér á landi við inngöngu í ESB og raunveruleg samkeppni á sviði bankamála mun leiða til lækkandi vaxta og matvælaverðs myndi þýða mikla kjarabót fyrir almenning hér á landi.

miðvikudagur, 2. janúar 2008

Landkynning?

Ég hef frá árinu 1975 dvalist töluvert á hinum Norðurlandana vegna náms og vinnu, mest í Danmörk. Ég varð oft undrandi á spurningum frænda okkar, reyndar frekar fullyrðingum, um hver væru viðhorf okkar og hvernig daglegt líf gengi fyrir sig á Íslandi. Fullyrt var að allt líf á Íslandi mótaðist af veru varnarliðsins. Íslendingar töluðu jafnvel frekar ensku en íslensku, klæddust amerískum fötum og horfðum og hlustuðum á ekkert nema kanasjónvarpið og útvarpsstöð hersins. Bandarísk lágmenning væri það eina sem þrifist á Íslandi.

Í mínu umhverfi skipti varnaliðið ekki miklu og ef ég reyndi að mótmæla þessu varð mér lítið ágengt. Ég áttaði mig svo á hvers vegna þessi viðhorf voru svona rík hjá hinum norrænu vinum mínum, ítrekað voru sýndir viðtalsþættir á norrænu ríkissjónvarpsstöðvunum um lífið á Íslandi. Alltaf við sömu konurnar, þar fremsta í flokki vinsælan barnabókahöfund og alþingismann, sem lýstu með áferju einhverri veröld sem ég kannaðist lítið við. Einnig voru algeng blaðaviðtöl við sama fólkið og alltaf var hamrað á sömu viðhorfunum.

Við værum að fara til fjandans með hernáminu. Öll íslensk sjónarmið væru að hverfa og amerísk að taka við. Allar stúlkur lægju undir könum og íslenskir karlmenn væru hugmyndalausir plebbar sem dúnkuðust á milli sveitaballanna á amerískum bílum blindfullir og í slagsmálum. Myndirnar sem fylgdu viðtölunum sýndu okkur frá þessu sjónarhorni. Það var ömurlega leiðinlegt að sitja undir þessu og nánast óframkvæmanlegt að koma inn annarri mynd um okkur.

Það var áberandi hvað blaðamönnum og spyrjendum fannst þetta skemmtilegt viðfangsefni. Þeir völdu greinilega viðmælendur sem höfðu þessi viðhorf, og svarendur sem höfðu áhuga á að koma þessu áliti inn hjá frændum okkar. Þetta var í sjálfu sér ekkert annað en skemmdarverkastarfsemi. Það var ekki fyrr en tók að nálgast aldamótaskiptin að það fór að draga úr þessu áliti frænda okkar.

Þetta rann svona upp fyrir mér þegar ég sá að enn einu sinni er sjálfskipaður blaðafulltrúi okkar að hrósa sér af því að hann hafi birt greinar í suður og norður Ameríku um hversu stórkostlegt allt sé hjá okkur, sakir þess þess hversu langt við séum kominn fram á veg Frjálshyggjunnar, með því að lækka skatta á hinum hæstlaunuðu, samfara því að hækka óbeina skatta á þeim sem ekki nenna að vinna og minna mega sín með hertum skerðingum í bótakerfinu, lækkun persónufrádráttar og hækkun þjónustugjalda í heilbrigðis- og umönnunarkerfinu.

Öll þessi endalausa hamingja hafi byrjað með tilstilli eins manns þegar hann komst til valda árið 1991. Aðrir eins t.d. verkalýðshreyfingin hafi svo sem verið að þvælast fyrir honum með einhverju kjaftæði eins og Þjóðarsátt, sem var vitanlega ekkert nema nokkurra mánuða verðstöðvun.

Þessi hinn sami samdi nýja sögu íslenska ríkisins síðustu aldar. Þar voru það hægri menn sem björguðu landinu og íslenskum almúga frá sjálfum sér, í fullkominni andstöðu við alla aðra. Þessir þættir voru svo sýndir í sjónvarpi allra landsmanna á besta sýningartíma og seldir í alla grunnskóla landsins.

Ég er aftur á móti sammála því sem kemur fram í áramótaummælum núverandi forsætisráðherra, að í forystusveit launamanna og vinnuveitenda séu viðhöfð ábyrg vinnubrögð sem hafi skilað okkur fram á veg vaxandi kaupmáttar og aukinnar velmegunnar umfram annað.

þriðjudagur, 1. janúar 2008

Myndun ríkisstjórnarinnar

Það er ekki hægt að segja annað en að ummæli forsætisráðherra nú um áramótin hafa verið drengileg og varpað skýrara ljósi á myndun núverandi ríksstjórnar. Geir hefur verið gagnrýndur af ýmsum m.a. Morgunblaðinu, fyrir myndun þessarar stjórnar ekki síst fyrir að hafa með því bjargað pólitísku lífi Ingibjargar Sólrúnar og jafnvel átt að hafa komið í veg fyrir mikla niðursveiflu Samfylkingarinnar. Svo sem hvort tveggja ásteytingarsteinar byggðir fyrst og fremst af óskhyggju. Afstaða nokkurra innan Sjálfstæðisflokksins í garð Ingibjargar hefur verið byggð á barnalegu hatri og kostulegum klisjum, svo vægt sé til orða tekið, frá þeim tíma er hún náði Reykjavíkurborg á sínum tíma.

En Geir svarar þessu drengilega að mínu mati í áramótaávarpi sínu, um að það sé ekki meginhlutverk sitt sem forystumanns í stjórnmálum, að koma öðrum stjórnmálaforingjum fyrir pólitískt kattarnef. Flokkar takist á um stefnur, en illvíg persónuleg átök milli einstakra manna tilheyri liðinni tíð. Það geti ekki verið markmið að halda tilteknum einstaklingum frá völdum hvað sem það kostar, á meðan þeir hlíta almennum leikreglum stjórnmálanna, heldur hitt að tryggja landinu trausta og öfluga ríkisstjórn. Ríkisstjórn sem tekur í öllum höfuðatriðum mið af stefnumálum Sjálfstæðisflokksins.

Þorgerður sagði um helgina að aðkoma Vinstri grænna að þingskaparfrumvarpinu sýndi að þau væru ekki stjórntæk og Geir tekur í sama taum í áramótagrein sinni með því að segja að stjórn VG og Sjálfstæðisflokksins hefði orðið kyrrstöðustjórn og málefnalega dýru verði keypt. Þetta eru svo sem skýr skilaboð til tiltekins hóps innan flokksins og ekki síður Moggans.

Þetta eru mun hreinskiptari og drengilegri samskipti en maður hefur átt að venjast. Þau eru til þess fallin að auka traust almennings á stjórnmálamönnum, enda sannarlega ekki þörf á sé t.d vísað til könnunar Gallup. Þar kemur fram að traust til allra stofnana hefur dalað, í mismiklum mæli, frá því í febrúar 2006. Alþingi nýtur minnst trausts en einungis 29% svarenda sögðust bera traust til þingsins, sem er lækkun um 14 prósentustig frá síðasta ári og hefur aldrei verið eins lítið síðan mælingar hófust í ágúst '93.

En hin hliðin er síðan sú að skipan dómara nýverið var svo sem ekki til þess fallinn að auka traust fólks á stjórnmálamönnum.

Gott skaup - Baráttunni gegn fíkniefnum sýndur verðugur sómi

Skaupið í gær var mjög gott, laust við aulabrandara og rætna umfjöllun. Það hafði reyndar komið fram í viðtölum við þá sem að skaupinu stóðu þetta árið. Þeir hafa verið afkastamiklir á síðasta ári og gert góða hluti.

Mikill sómi af því hjá Fréttastofu 2 að heiðra fólkið sem stendur í slagnum við fíkniefnabarónana. Þar er mannfallið mest og glatast mikil auðæfi þegar hæfileikar ungs fólks daprast eða slökkna í vímunni.

Jákvætt á síðasta ári

Ef litið er yfir málefni vinnumarkaðar á síðasta ári, þá mun þessa árs líklega verða minnst með þeim hætti að loks virtust stjórnvöld viðurkenna hver staða erlendra launamanna hér á landi væri og taka markvisst á málum af festu með nýjum félagsmálaráðherra.

Starfsmenn stéttarfélaganna höfðu árangurslítið staðið í glímu við starfsmannaleigur og bent á að þær kæmust upp með brot, sem íslensk fyrirtæki væru tekin í bakaríið ef þau reyndu slíkar kúnstir. Þetta svigrúm höfðu tilteknar leigur nýtt til þess að sniðganga allar reglur. Á undanförnum árum hafa stéttarfélögin mátt sitja undir allskonar aðdróttunum frá stjórnvöldum og ákveðnum stjórnmálamönnum, sem með kostulegum málatilbúnaði héldu því fram að stéttarfélögin væru á móti þróun og væru með fasisma gagnvart erlendu fólki.

Það er fyrst í haust sem stjórnvöld taka á þessum málum af stefnufestu og í raun viðurkenna það sem starfsmenn stéttarfélaganna hafa ætíð haldið fram. Fyrir ári voru sett hér framsækin lög um úrbætur í skráningu á erlendu launamönnum og eftirliti með fyrirtækjum og starfsmannaleigum. Verkalýðshreyfingin átti drjúgan þátt í mótum þessara laga og fagnaði staðfestingu þeirra, reyndar með undantekningu sem virtist tengjast kosningabaráttu eins flokks.

Eigendur starfsmannaleiga hafa nýtt sér stöðuna, ef einhver fjallaði opinberlega um framferði þeirra, var hinum sama hótað meiðyrðamálum. Ef við lítum til byggingamarkaðarins þá sjáum við að lág laun erlendra byggingarmanna og lakur aðbúnaður hefur ekki skilað sér í lækkandi verði fasteigna, þvert á móti. Það eru einungis fjárfestar og eigendur starfsmannaleiganna sem hafa hagnast á þessu ástandi. Eftir sitja hlunnfarnir erlendir launamenn og íslenskir byggingarmenn með lakari launaþróun og svo kaupendur íbúðanna sem voru að greiða aukinn arð til fjárfestanna.