miðvikudagur, 29. september 2010

Hverjir eru skríll?

Mann setti fullkomlega hljóðan við atburði gærdagsins og svo kom viðtalið við Geir Hilmar Haarde fyyrv. forsætisráðherra í þeirri ríkisstjórn sem var við völd í aðdraganda Hrunsins og fram yfir það og hann var þar á undan fjármálaráðherra í þeim ríkisstjórnum sem settu upp þá efnahagsstefnu sem leiddi þjóðina í glötun.

Það er verið að vinna eftir gildandi landslögum, það fara fram kosningar á Alþingi og þar er niðurstaða. Það er ljóst að það var alveg sama hver hún yrði að einhverjir myndu segja að önnur niðurstaða hefði verið heppilegri. En það er ekki málið og maður er í vandræðum að finna orð til þess að lýsa viðbrögðum og yfirlýsingum Geirs Hilmars Haarde og félaga hans í gærkvöldi.

Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis og þingmannanefndarinnar kemur glögglega fram að íslenskum yfirvöldum var margoft gerð grein fyrir þeirri stöðu sem íslenskt efnahagslíf var komið í. En Geir Hilmar Haarde og ráðherrar hans gerðu ekkert, landið var stjórnlaust.

Erlendum lánamörkuðum var lokað á árinu 2007 og íslendingar gátu ekki fengið krónu að láni. Bankastjóri Englandsbanka, bauðst til að veita íslendingum aðstoð við að komast út úr Icesave og norrænu seðlabankarnir vildu koma til hjálpar, en settu skilyrði um að stjórnvöld tækju á vandanum. En íslenskir ráðherrar gerðu ekkert og héldu því fram að allt væri í himnalagi. Það var og er ástæða þess að AGS er hér.

Nú er Geir Hilmar Haarde orðið fórnarlamb að eigin mati og flokksfélaga, sem hin 24 þús. gjaldþrota heimili eiga að vorkenna, þrátt fyrir að það var efnahagsstefna hans og síðar aðgerðaleysi kom þjóðinni á vonarvöl. Stjórnmálamenn fara um sviðið með enn heitarlegri yfirlýsingar í garð hvors annars. Engin þeirra ætlar að axla ábyrgð, allra síst þeir sem voru meðvirkir þátttakendur í þeirri atburðarrás sem Geir Hilmar Haarde fyrrv. fjármálaráðherra og forsætisráðherra og flokkur hans bjuggu til og leiddi þjóðina í þrot.

Upphrópanir þingmanna og fyrrverandi ráðherra um pólitískar hausaveiðar, götuskríl sem kom réttkjörnum stjórnvöldum og Seðlabankastjóra frá eru komnar aftur í umræðuna eins og þar séu á ferð einhverjar boðlegar staðreyndir. Við erum á upphafspunkt og stjórnmálamenn komast ekkert áfram. Allt er stopp og þingmenn halda Alþingi í gíslingu með sínu tilgangslausa sjónarspili.

Og svo eru leidd fyrir dómstóla 9 einstaklingar og þess krafist að þeir fái þyngstu refsingu fyrir að hafa gert hróp að þessu fólki. Það vefst ekki fyrir mér hver það sé sem eigi helst að hljóta tilnefninguna Skríll í þessu samhengi.

mánudagur, 27. september 2010

Sýnið manndóm og horfist í augu við afleiðingar gjörða ykkar.

Það voru 147 einstaklingar kallaðir fyrir hjá Rannsóknarnefnd Alþingis, engin þeirra vildi axla ábyrgð á aðkomu sinni að Hruninu. Síðan þá hafa spunameistarar stjórnarflokkanna gert allt sem hægt er til þess að dreifa málinu um víðan völl, Davíð Oddsson fyrrv. forsætisráðherra, bankastjóri og formaður bankastjórnar Seðlabankans sem varð gjaldþrota undir hans stjórn, fer nú fyrir dagblaði þar sem harla einkennilegur málflutningur um Hrunið og aðdragandi þess er ástundaður.

Ábyrgð efnahagshrunsins liggur fyrst og fremst hjá hugmyndasmiðum frjálshyggjunnar og þeim stjórnmálamönnum sem stóðu að því að hrinda þessari stefnu í framkvæmd. Þar var fjárglæframönnum skapað svigrúm til þess að athafna sig og grafa undan stoðum íslensks samfélags. Þar var farið inn í fyrirtæki, sparisjóði og tryggingarfélag og þau skilin eftir í rústum.

Það liggur fyrir að þegar árið 2006 var komið í óefni. Samt var blásið á varnaðarorð og gefnar út yfirlýsingar um að stefna ætti enn hærra með Íslenska efnahagsundrið. Það hafa komið fram gögn að þáverandi ráðherrum og stjórnarþingmönnum var ljóst hvert stefndi fyrri hluta árs 2008. Samt var gert grín að varnaðarorðum og ekkert gert til þess að spyrna gegn Icesave. Farið var í kynningarferð þar sem efnahagslíf Íslands var dásamað.

Samfélagið flaug var fram af brúninni á fullri ferð undir stjórn þessa fólks, án þess að nokkuð hefði verið gert til þess að draga úr hraðanum. Það leiddi fjölmargra einstaklinga, heimili og ekki síst gamalt fólk, í þá stöðu að tapa aleigunni. Erinda hverra gekk þetta fólk, sem nú hafnar að axla ábyrgð gjörða sinna? Ekki almennings.

24 þús. heimili liggja í valnum, fjölmargir hafa glatað öllu sína sparifé, þar á meðal fjöldi fullorðinna, sem einnig verða að horfast í augu við niðurskurð lífeyris frá lífeyrisjóðum. Stjórnmálamenn ásamt embættismönnum hafa komið sínum málum þannig fyrir að þeir þurfa ekki að óttast að þeirra lífeyrir verði skertur, hann er auk þess töluvert hærri en hinum almenna launamanni stendur til boða.

Ábyrgðarmenn þessa fara nú þessa dagana mikinn á Alþingi og hafna því að axla ábyrgð. Engan þarf að undra þó helmingur kjósenda hafni því að greiða þessu fólki atkvæði sitt. Fólk vill aðra stjórnmálamenn og fá kosningar strax.

sunnudagur, 26. september 2010

Hvert stefnum við?

Við erum mörg sem veltum því fyrir okkur þessa dagana hvernig málin muni þróast næstu vikurnar. Stjórnmálin í upplausn, þingmenn berast á banaspjótum og víkja sér undan allri ábyrgð og vilja telja okkur í trú um að allt sé kerfinu og bankaglæframönnum að kenna. Og svo eigum við að fara að gera kjarasamninga.

Fall efnahagslífsins var í boði íslenskra stjórnmálamanna. Það er Ríkið sem á að setja leikreglur og gæta hagsmuna almennings. Nú liggja fyrir upplýsingar um að það lágu fyrir stjórnmálamönnum upplýsingar um veika stöðu íslenska bankakerfisins í kosningabaráttunni 2007. En þrátt fyrir fóru stjórnmálamenn í gegnum þá baráttu undir fánum traustrar efnahagsstjórnunar og í stjórnarsáttmála Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks vorið 2007 eru ákvæði um að stækka bankakerfið enn frekar.

Þá fyrst varð dansinn í kringum gullkálfinn taumlaus og almenning staðfastlega talið í trú um að hér gæti ekkert gerst, nema þá að yfir okkur myndi flæða enn meiri velmegun. Efnahagsstjórnin var í höndum ábyrgðarlausra lýðskrumara sem börðu sér á brjóst yfir innistæðulausri velsæld, sem þeim var það samt sem áður kunnugt um að myndi ekki standast.

En þeir horfðu á hvert heimilið á fætur öðru ásamt fyrirtækjum í Þórðargleðinni skuldsetja sig út fyrir öll mörk. Sveitarstjórnarmenn eyddu langt um efni fram í hinni hömlulausu fegurðarsamkeppninni sem fram fór milli sveitarfélaganna og þau tóku erlend lán og byggðu fótboltavelli og sundlaugar og sóknarnefndir reistu stórar og glæsilegar kirkjur. Mörg heimili og fyrirtæki eru fallinn eða þjökuð af uppdráttarsýki fallinnar krónu. Þarna er ekki einvörðungu við fjárglæframenn að sakast. Á þessum forsendum fer um mann hrollur þegar hlustað er á umræður þingmanna á Alþingi þessa dagana, ekki síst þeirra sem voru stjórnarþingmenn og ráðherrar fyrir Hrun.

Á fyrstu mánuðum eftir hrun töluðu þessir menn um að áfallið hefði komið sem þruma úr heiðskýru lofti erlendis frá og vonlaust að sjá fyrir. En nú hafa háttsettir skipt um plötu og segja að allt hafa verið fyrirséð og reyndar lítið hægt að gera á árunum 2006 til 2008. Störf ráðherra hefðu falist að fela fyrirsjáanlegar hörmungar sem allra lengst. Lygavefur var spunninn, skattar á hina hæst launuðu lækkaðir til þess að kynda bálið enn frekar.

Hvers vegna var ekki farið að ráðum erlendra vinaþjóða og leitað til AGS árið 2007 í stað þess að fara í hömlulausa kosningaloforðabaráttu, ef allt var á hraðri leið til helvítis? Nei rætt var um snertilendingu seinni hluta árs 2008 og hagkerfið myndi taka flugið óðara þar á eftir. Hvers vegna var ekki farið að ráðum erlendra Seðlabanka og ráðinn fagmaður í Seðlabanka í stað stjórnmálamanns. Á Alþingi er viðurkennt að kerfið hafi brugðist en þingmönnum virðist það virðist vera fyrirmunað að skilja sína ábyrgð, það var kerfið sem brást segja þeir ekki þeir sem stjórnuðu kerfinu. Þessi málflutningur er fullkomlega óskiljanlegur venjulegu fólki sem stendur utan Alþingis og horfir þar inn furðulostið.

föstudagur, 24. september 2010

Hingað og ekki lengra

Forseti Íslands hefur ásamt hluta VG og hluta Sjálfstæðismanna farið offari gegn auknum samskiptum við nágrannalönd okkar innan ESB. Þetta fólk hefur ítrekað sett fram hugmyndir um að taka frekar upp aukin samskipti við Kína og Rússland. Gert hefur verið lítið úr ESB og velferðarkerfi Norðurlandanna.

Ekki eru mörg misseri síðan að Sjálfstæðismenn voru hér við völd og þá var fylgt þeirri stefnu að sveigja sem mest til hægri í átt til Bandaríkjanna. Forsetinn fagnaði þessu ákaft og fór víða til þess að kynna þann boðskap. Afleiðingar þeirrar stefnu blasa við okkur, og hefur fengið ítarlega umfjöllun hér á þessari síðu og á svo mörgum öðrum stöðum.

Það stjórnkerfi sem blasir við okkur hefur fengið lágmarkseinkunn. Samræmi milli ráðuneyta skortir tilfinnanlega. Vantar mælikvarða og virðist vera að það hafi verið gert vísvitandi svo ekki sé hægt að greina hvernig kerfið standi sig. Aðgerðaáætlanir virðast vanta og ef þeim er komið á fót eins og t.d. Stöðugleikasáttmála, þá bregst stjórnkerfið við með því að vilja alls ekki fara eftir samþykktum.

Þau sjónarmið sem framangreindir aðilar færa fram sem rök fyrir sínu máli, er frelsi og fullveldi eins og þeir skilja þau hugtök. Þessi lönd Kína, Rússland og Bandaríkin eiga það sannmerkt að þar eru réttindi launamanna ákaflega léleg, það mætti reyndar taka mun sterkar til orða hvað þetta atriði varðar.

En aftur á móti er viðurkennt að hvergi búa launamenn við öruggara umhverfi en á Norðurlöndum og ESB hefur sett inn mörg eftirtektarverð atriði til að tryggja stöðu launamanna. Eftirminnilegt hversu erfiðlega gekk að fá ríkisstjórnir Sjálfstæðismanna til þess að staðfesta þær reglur. Framangreindar ástæður segja í raun okkur allt um hver afstaða þessa fólks er gagnvart launamönnum.

Framangreint fólk hefur ítrekað sagt að það vilji halda í krónuna, hún skapi svo góðan sveigjanleika og tryggi minna atvinnuleysi. Það er gert með því að fella krónuna reglulega og um leið ógilda kjarasamninga lækka laun og kaupmátt og tryggja að Ísland sé láglaunasvæði. Samtök launamanna hafa bent á að nú sé nóg komið og segja að það sé tilgangslaust að gera langtímakjarasamninga nema þessum leikreglum verði breytt.

Ég er einn af mörgum sem velta því fyrir sér hvort nú sé komið að uppgjöri. Alþingi og stjórnmálin eru í upplausnar ástandi og allir kjarasamningar lausir eftir nokkrar vikur. Verður það niðurstaðan að halda áfram óbreyttri stefnu og þeir sem hafa náð að skara eld að sinni köku tryggi sín völd á kostnað launamanna eins og svo oft áður?

Alla vega virðist formaður Sjálfstæðismanna skynja að sú staða sé að koma upp og vill nú komast í ríkisstjórn. Samfara þessu lýsir hluti Sjálfstæðismanna því yfir að þeir vilji stofna flokk til þess að verja sín borgaralegu réttindi við að tryggja völd sín á þjóðfélaginu og verjast því að launamenn nái rétti sínum.

fimmtudagur, 23. september 2010

Stéttarfélögin

Hún er oft æði grunn umræðan um stéttarfélögin í dag. Það er áberandi að þeir sem hvað harðast gagnrýna stéttarfélögin eru undantekningalaust ekki félagsmenn. Fólk sem ekki kemur á skrifstofur félaganna og kemur auk þess ekki á fundi. Ég hef nokkrum sinnum tekið þetta umræðuefni fyrir hér á þessari síðu, og geri það enn vegna harla einkennilegra ummæla um stéttarfélögin í umræðunni undanfarna daga og eins sendinga inn á aths. dálka þessarar síðu. Sumir líta til stéttarfélaga eins og þau voru um miðja síðustu öld og komast að þeirri niðurstöðu að þar sem vinnubrögðin nú séu ekki þau sömu og þá sé verkalýðshreyfingin á villigötum í dag.

Reglulega er fullyrt að forystumenn hafa kosið sig sjálfa til forystu án nokkurra afskipta annarra, ákvarði einhendis hver stefnan sé hverju sinni. ástundi sjálftöku í launum og við hvaða verkefni er tekist á hverjum tíma. Það eru félagsmenn sem velja sér forystu og formaður hefur með stjórn og trúnaðarráð, oftast er það um 15 til 20 manns. Ég get fullyrt að félagsmenn Rafiðnaðarsambandsins eru fullfærir um að velja forystu sambandsins og hinna 10 aðildarfélaga sambandsins. Það stendur sannarlega ekki á félagsmönnum að koma sínum athugasemdum á framfæri á félagsfundum eða í samskiptum við skrifstofuna. Utanfélagsmenn eru með fullyrðingum sínum í raun mikið frekar að niðurlægja félagsmenn um getuleysi en okkur í forystunni.

Það er löngu liðinn sá tími að félagsfundir væru eini aðgangur félagsmanna að starfs- og forystumönnum sínum. Ef eitthvað kemur upp, grípa félagsmenn upp símann á staðnum og hafa samband eða senda strax tölvupóst. Við hjá RSÍ fáum um 100 símtöl á hverjum degi auk um 50 tölvupósta. Þar að auki koma hingað fjöldi manns á hverjum degi til þess að sinna sínum erindum við starfsmenn og lögmenn sambandsins. Auk þess eru stjórnir aðildarfélaga með reglulega fundi og svo eru vitanlega félagsfundir og voru á þeim tæpleg 1000 manns síðasta ár. Eftir öllum þessum leiðum er skrifstofa og um leið forysta sambandsins í lifandi sambandi við þá félagsmenn sem hafa eitthvað að athuga við starfsemina eða vilja sambandið beini sjónum sínum að einhverjum nýjum verkefnum.

Rafiðnaðarmenn reka auk þess öflugustu starfsmenntastofnun landsins og rafiðnaðargeirinn skattleggur sjálfan sig til reksturs skólans og veitir til hans um 200 millj. kr. ári, auk þess að sambandið og aðildarfélög greiða umtalsverðar fjárhæðir til fræðslustarfseminnar á hverju ári. Þar hefur námskeiðum verið fjölgað mikið og stuðningur við okkar fólk aukinn svo það geti sótt sér framhaldsmenntun á námskeiðum og bætt stöðu sína á vinnumarkaði og sótt inn í fleiri störf með víðari þekkingu. Að jafnaði eru um 50 rafiðnaðarmenn á fagtengdum námskeiðum í hverri viku, þar fer einnig fram lífleg umræða um vinnumarkaðinn og starfsemina. Ef stéttarfélögin hefðu ekki breytt starfsháttum og stefnumálum þegar líða tók á seinni hluta síðustu aldar þá væru staðan mun lakari í dag.

Frá stofnum Rafiðnaðarsambandsins árið 1970 – 2008 hefur verið samið tæplega 4.000% launahækkanir, en á sama hefur verið samið um 330% launahækkun í Danmörku, en kaupmáttur launamanna jókst svipað í báðum löndunum. Grunngildi stéttarfélaga er og verður ætíð það sama, að verja þá sem minnst mega sín. Það hefur verið gert með því að hækka ætíð lægstu gólf kjarasamninga umfram almennar launahækkanir. Til þess að tryggja að þeir sem eru á lægstu töxtum fylgi launaskriði á markaði. T.d. hafa lægstu taxtar í kjarasamningum rafiðnaðarmanna hækkað frá 2000 um 46% umfram almennar launahækkanir.

Valfrelsi á öllum sviðum er nú sjálfgefið í augum almennings. Við stöndum frammi fyrir mörgum valkostum á öllum sviðum. Sífellt færri launamenn starfa hjá sama fyrirtækinu allan sinn starfsaldur. Flestir reikna með að þurfa að skipta um starf minnst tvisvar á starfsævinni. Sérhæfing fyrirtækjanna hefur vaxið og kröfur til sérhæfingar og sveigjanleika starfsfólksins hefur aukist umtalsvert.

Það gilda sömu lögmál í íþróttum og innan fyrirtækja. Fyrirtækið með best þjálfaða starfsfólkið sigrar. Til þess að ná fram fylgi við þá stefnu sem fyrirtækið fylgir við að auka framleiðni og ná betri árangri þurfa þeir sem eru í keppnisliðinu, starfsmennirnir, að vita að hverju er stefnt. Það eru starfsmennirnir sjálfir sem vita best hvernig er hægt að hagræða til þess að auka framleiðni. Því er haldið fram að þau lönd sem ætla sér að fylgja tækniþróuninni og viðhalda þeim lífsháttum sem við höfum tamið okkur, verði að sjá til þess um 20% af vinnuaflinu sé að jafnaði í starfsmenntanámi. Það er það ásamt gjaldmiðlinum sem skiptir mestu máli í kjarabaráttu dagsins í dag.

Við öllum blasir sú staðreynd að það sem stendur uppi eftir Hrun er starfsemi stéttarfélaganna, þau hafa ekki þurft að skera niður styrki til félagsmanna, frekar bætt við þá, auk þess að aðstoð m.a. með lögmönnum hefur verið aukinn. Fræðslustarfsemi hefur verið aukinn og enginn niðurskurður þar. Lífeyrissjóðirnir eru einu stofnanirnar á fjármálamarkaði sem standa uppi eftir Hrunið.

miðvikudagur, 22. september 2010

Drulluhalar

Allir muna vel þær vangaveltur sem þáverandi stjórnarþingmenn voru með mánuðina fyrir Hrun, mjúk eða hörð snertilending var algengasta viðkvæði þeirra. Í þessu sambandi má einnig rifja upp ummæli sama fólks fyrir kosningarnar 2007.

Íslenska efnahagsundrið, allir hefðu það svo gott og allt væri hér í toppstandi og allir öfunduðu íslendinga sakir þess hversu góða, óspillta og duglega stjórnmálamenn væru hér að störfum. Þeir fóru í hverja ferðina á fætur annarri um heimsbyggðina ásamt forseta vorum, börðu sér á brjóst og boðuðu kennslu í íslenskri efnahagsundursstjórnun og hvöttu landsmenn til þess að njóta lífsins til hins ítrasta.

Ef einhver setti skugga á þessa glæsimynd voru gerð hróp að viðkomandi, hann væri neikvæður afglapi, úrtölumaður, vinstri kommadingull eða eitthvað þaðan af verra. Þeir erlendu sérfræðingar sem bentu á brotalamir íslenska hagkerfisins voru öfundsjúkir vesalingar sem áttu að fara á endurmenntunarnámskeið í hagstjórn.

Og svo kom Hrunið. Þá kom sú skýring frá þessu fólki, að allir hlytu að sjá að hér væri við að sakast bandaríska niðursveiflu. Þeir sem ekki meðtóku þann boðskap, fengu kunnuglegar háðsglósur og aulabrandara um norrænt velferðakjaftæði og fleira.

Og svo kom rannsóknarskýrslan. Hún var mjög skýr og rökfastur áfellisdómur yfir íslensku stjórnkerfi í níu bindum. Þá voru skýringar þessa fólks, að það væri við bankamenn og fjárglæframenn að sakast, þeir hefðu rifið íslenska efnahagsundrið til grunna innan frá, án þess að þáverandi stjórnvöld hefðu tekið eftir því. Íslenskir stjórnmálamenn höfnuðu alfarið að bera ábyrgð.

Og svo var skipuð samkvæmt landslögum rannsóknarnefnd hæstvirts Alþingis. Hún skilaði niðurstöðum þar sem getu- og úrræðaleysi þáverandi ráðherra og stjórnarþingmanna fékk mínus núll í einkunn.

Heyrðu, en þá koma allt í einu fram upplýsingar frá fyrrverandi stjórnarþingmönnum og ráðherrum, um að þeir hefðu allir vitað að Íslenska efnahagsundrið hefði bara verið plat, það hefði verið ljóst allavega frá árinu 2006, og ekkert hefði verið hægt að gera. Um þetta hefðu legið fyrir skýrslur og þær ræddar af þeim. Þeir hefðu bara verið hlutlausir þátttakendur í að ljúga að þjóðinni um hvað allt hefði verið hér gott og platað hana til þess að skuldsetja sig uppfyrir rjáfur.

Þetta væri allt firnt í dag og það væri ósanngjarnt að fella einhverja dóma yfir 4 ráðherrum. Allir tæku vitanlega pólitíska ábyrgð og væru búnir að sitja undir ríflegum skammti af skömmum og þar með væri það ekkert annað en ómannlega hefnigirni að ráðast að þeim litlu sætu sakleysingjunum.

Sömu menn hafa allt frá Hruni komið veg fyrir að fram fari vitræn umræða um efnahagsmál og framtíð Íslands á hæstvirtu Alþingi. Þeir hafa þakkað sér efnahagsbata, sem er vitanlega okkar dásamlegu krónu að þakka. Með henni væri svo auðvelt að handstýra öllu blóðsúthellingalaust. Launum kippt niður um helming. Gróði útflutnignsaðila aukinn upp úr þakinu með því að gera Ísland að láglaunalandi og til sporna við atvinnuleysi. Eigendum lífeyrissjóða og sparifjáreigendum er gert að niðurgreiða innlenda fjármögnun.

Stjórnmálamenn taka svo að venju við ómeðvituðum launahækkunum, sem kosta ekkert, eins og Þorleifur er að gera í borgarstjórn. Nýbúinn að ráðast að verkalýðshreyfingunni fyrir hversu slök hún sé við að drífa upp laun og bætur. Samfara því er Þorleifur ásamt öðrum stjórnmálamönnum að keyra niður laun hjá almenning og skerða allar bætur velferðarkerfisns. En þeir segja um leið að það komi vitanlega ekki til greina að hækka laun í komandi kjarasamningum. Til þess sé ekkert svigrúm.

Sjálftökur stjórnmálamanna eru bara leiðtréttingar, ekki launakostnaðarauki. Þó þeir taki sér lífeyrisréttindi sem eru þrefallt dýrari en hjá venjulegum launamönnum. Þó þeir taki ætíð hækkun lægstu taxta og láti hana fara upp í gegnum öll sín taxtakerfi. Þó þeir taki sér allt aðra skattameðhöndlun á kostnaði en aðrir hafa. En svo þegar kemur að samningum við launamenn þá eiga þeir að sína ábyrgð. En svo daginn eftir að almennir launamenn eru búnir að samþykkja ábyrga kjarasamninga, þá er gengi krónunnar leiðrétt og það eru samtök launamanna sem eru svo slöpp að semja alltaf um allt of lág laun.

Ágæti lesandi, hér er allt óbreytt þrátt fyrir Hrun og skýrslur rannsóknarnefnda. Veröld stjórnmálamanna er fiskabúr einangrað frá samfélaginu, fullt af skrautfiskum sem hafa einungis samskipti sína á milli með spjátrungsfullum hætti. Þeir segja það sem þeim sýnist við almenning og dettur ekki í hug að það þurfi á neinu stigi, að vera í samræmi við nokkrun raunveruleika. Þetta eru ekkert annað en Drulluhalar sagði einn trúnaðarmanna okkar hjá Orkuveitunni.

mánudagur, 20. september 2010

Áfram á sömu braut

Velheppnað Silfur Egils í gær vakti mann til umhugsunar um nokkur grundvallaratriði. Tryggvi Þór upplýsti það að ríkisstjórnin sem var við völd þegar Hrunið skall yfir okkur hefði ekki verið aðgerðalaus, hann hefði verið þar efnahagsráðgjafi og reynt að fá lán frá Rússum og svo Kínverjum. Þetta eru ekki nýjar fréttir ljóst var að Norðurlöndin og BNA höfðu alfarið hafnað frekari lánafyrirgreiðslu, nema þá í gegnum AGS og tryggingu fyrir því að skipt yrði um stefnu í efnahagsstjórninni.

Tryggi Þór var daga fyrir Hrun í sambandi við aðila vinnumarkaðs fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, um hvort við myndum myndu standa með ríkisstjórninni í að fá lífeyrissjóðina til þess að selja allar erlendar eignir sínar og koma með þær heim. (Heildarvirði þessara eigna var þá metið á um 600 Mia kr, ogh það sem væri hægt að losa með skömmum fyrirvara um 300 Mia. Tryggvi Þór taldi á þessum fundum að um 100 Mia myndi duga til þess að komast fyrir horn með íslenska bankakerfið.) Á þessum fundum fékk ríkisstjórnin nákvæmlega sömu svör og þeir höfðu fengið frá Norðurlöndunum, það yrði ekki rætt nema að hagstjórnin yrði endurskoðuð, ekki bara til þess að redda málunum fyrir horn heldur til framtíðar. Þessu hafnaði ríkisstjórn Geirs H. algjörlega. Ég ásamt fleirum upplifði það á þann veg að ríkistjórnin ætlað að halda áfram á sömu braut, þá einna helst sakir þess að annað þýddi að þá væru verið að viðurkenna að gerð hefðu verið alvarleg mistök í efnahagsstjórninni. Enda þurfti umtalsverð átök til þess að koma Seðlabankastjóra og fleirum gerendum í Hruninu frá.

Í dag erum við enn á sama stað, þrátt fyrir að gerður var samningur við núverandi ríkisstjórn um að þessi leið yrði farinn, þeim samning var gefið nafnið Stöðugleikasáttmáli. Sama fólkið er búið að halda Íslandi í gíslingu á Alþingi í tvö ár með því að berjast gegn öllum hagstjórnabreytingum og nauðsynlegum gjaldmiðilsbreytingum. Halda því fram að með bókhaldsbrellum sé hægt að láta skuldir hverfa og eins að láta erlenda skattborgara borga upp töluverðan hlut af skuldum okkar íslendinga og við getum þá haldið áfram á óbreyttum forsendum.

Nú stöndum við frammi fyrir uppgjöri. Margoft hefur verið á það bent hversu vel Norræna módelið hefur heppnast. Þar ríkir mesta hagsældin, öruggasta umhverfið og mesti jöfnuðurinn. Norræna módelið byggir á öflugu velferðarkerfi, vel skipulögðum og öguðum markaðsbúskap. Það er undirstaða að hægt er að fjármagna öflugt velferðarkerfi. Á Norðurlöndum eru öflugustu stéttarfélög í heiminum og hvergi eru þau eins virkir þátttakendur í mótum samfélagsins.

Allt er hér í rúst og það bitnar á kaupmætti og velferðarkerfinu. Valdablokkir hafa náð til sín einokun og hér ríkir fákeppni. Þessar valdablokkir eiga kvótann, matvörumarkaðinn og þannig mætti áfram telja og þær verjast valdamissi með öllum hugsanlegum hætti, eins glögglega sést í helstu fjölmiðlum þessa lands. Allt þetta hefur gerst undir stjórn hinnar svokölluðu hægri manna, nú er það hlutverk núverandi stjórnvalda að reyna að reisa efnahagskerfið upp úr rústum þessarar stefnu.

Hinum Norðurlöndunum er öflugt og agað eftirlit á hendi stjórnvalda. Gegn þessu hefur verið barist hér á landi og það úthrópað sem einhver vinstra kjaftæði. Sagt að það jafnist við kommúnisma ef endurskoða á kvótaeign og fákeppni, eða taka upp agaðri vinnubrögð við stjórnsýsluna með því að tengja hana betur við það kerfi sem ríkir á hinum Norðurlöndunum. Þekkt er að hvernig hinir svokölluðu hægri menn hér á landi hafa haft allt á hornum sér hvað varðar hið norræna velferðarsamfélag og taka vart til máls um það öðru vísi en með allskonar aulabröndurum.

En hin ofsafenga dans sem stigin var hér hefur verið fylgt hefur leitt mörg heimili og einstaklinga í skuldafangelsi. Dansinn varð sífellt trylltari á árunum frá 2004 fram yfir Hrun og þáverandi stjórnarþingmenn ásamt forseta landsins, hvatti almenning til dáða með því að telja öllum í trú um hér væri að gerast Íslenskt efnahagsundur. Allir hefðu svo gott og það gæti ekki annað en batnað. Vitanlega vildi fjöldinn trúa þessu og bankar áttu auðvelt með að fá fólk til þess að taka sífellt stærri lán, kaupa sér stærra og betur búið húsnæði og fleiri bíla. Stór hluti þjóðarinnar eru í dag þrælar skuldanna og allt þeirra líf snýst um að vinna fyrir þeim.

Í seinni hluta Silfursins skilgreindi bandaríski hagspekingurinn Chris Martenson þetta vel og berháttaði Tryggva Þór og stefnu hans. Raunverulegt frelsi fæst aldrei ef við látum ginnast af hinni ofsafengu neysluhyggju sem hér hefur verið boðuð undir nafninu að vera hægri stefna. Þeir sem hafa andæft eru nefndir vinstri menn og það sé eitthvað vont janfvel frá hinu illa, eftir því sem haldið er fram. Frjálsasta fólk sem ég þekki býr á hinum Norðurlöndunum, en þetta fólk er stolt af sinni stefnu með frjálsu hagkerfi sem stendur upp í hárinu á sérhyggju og eignatilfærslum frá mörgum til fárra og ef það er einhver vinstri villa er ég afskaplega stoltur að vera í þeim hóp og fyrir baráttu mína við að koma Íslandi í meira samband við Norðurlöndin.

sunnudagur, 19. september 2010

Vill þjóðarsáttarsamning

Vill þjóðarsáttarsamninga, segir Aðalsteinn Baldursson, var ein aðalfrétt fréttastofu RÚV í gærkvöldi. Aðalsteinn segist svo ekki vita hvort félagar hans í verkalýðshreyfingunni séu honum sammála. Helstu rök Aðalsteins eru að hann telji það vænlegast til árangurs að stjórnvöld, atvinnurekendur, sveitarfélög og verkalýðshreyfingin myndi með sér samtök og geri þjóðarsáttarsamning. Samningurinn myndi byggja á því til dæmis að hækka kaupmátt launa og koma af stað framkvæmdum.

Þeir sem fylgjast með, muna vel að Aðalsteinn ásamt formanni verkalýðsfélagsins á Akranesi voru ákaflega andsnúnir svokölluðum Stöðugleikasáttmála, og fréttastofa RÚV flutti reglulega fréttir þar sem þeir báru mjög þungar sakir á félaga sína innan verkalýðshreyfingarinnar fyrir að hafa gert þann sáttmála, ekki síst þann sem þetta skrifar.

Ef rifjað er upp hvaða forsendur lágu til þess að sá sáttmáli var gerður og samþykktur af 92% af verkalýðshreyfingunni, ekki bara ASÍ heldur einnig öðrum heildarsamtökum, sem er frekar fátítt, þá var það samdóma álit að aðstæður í þjóðfélaginu væru þannig að átök á vinnumarkaði myndi ekki hjálpa okkur úr stöðunni og sameiginlegt átak væri það eina sem gæti komið landinu upp á við, eða með öðrum orðum það sama og Aðalsteinn segir nú, en hann mótmælti harðlega á þeim tíma.

Forsendur Stöðugleikasáttmálans voru meðal annars að lægstu laun voru hækkuð umtalsvert, en til þess að gera það framkvæmanlegt gáfu stórir hópar eftir sinn launakostnaðarauka, t.d. fengu flestir iðnaðarmenn og stórir hópar úr VR nánast enga launahækkun, á meðan stórir hópar þá sérstaklega á landsbyggðinni, þar sem þeir liggja á lægstu töxtum, fengu umtalsverðar launahækkanir og eru þeir einu sem hafa haldið fullum kaupmætti á meðan aðrir hafa fengið skell.

Verkalýðshreyfingin sagði sig frá sáttmálanum í sumar vegna þess að ríkisvaldið stóð ekki við ákveðna þætti eins t.d. hvað varðar atvinnuuppbyggingu, gjaldmiðilsþróun og samning um Starfsendurhæfingarsjóð. Einhverra hluta vegna hefur fréttastofa RÚV ekki séð ástæðu til þess að fjalla um samþykktir hins mikla meirihluta og þær forsendur sem lágu þar að baki.

Þetta var svo endurtekið í fréttamati RÚV í þættinum í vikulokin, þar sem ekki var minnst á niðurstöður fundar um 70 formanna aðildarfélaga og helstu samningamanna ASÍ á fimmtudaginn. Þar var fjallað ítarlega um stöðuna nú og undirbúning kjarasamninga. Aðalsteinn var á þeim fundi og vekja ummæli hans í fréttum gærdagsins því undrun þeirra sem sátu fundinn. En við erum reyndar orðin ýmsu vön frá Aðalsteini og fréttamati RÚV þegar kemur að kjarasamningum.

Á fundinum voru menn sammála um að það væri eina leiðin úr þessari stöðu að menn næðu að standa saman, ekki bara launamenn heldur ekki síður ríkisvaldið. Það liggur fyrir beiðni frá ríkisvaldinu og einnig SA að gera 3ja ára samning á Þjóðarsáttar/Stöðugleikaforsendum, en menn vildu fá að sjá áður en teknar væru ákvarðanir um hvort sú leið væri farinn trúverðugar samningsforsendur frá ríkisvaldinu og á hvaða forsendum ætti að reisa þann samning.

Einnig kom mjög ákveðið fram á fundinum að menn væru búnir að fá sig fullsadda af málflutning og framkomu formannanna á Húsavík og Akranesi, þar sem þeir væri endurtekið í fjölmiðlum að bera á félaga sín ásakanir um svik og annað enn verra og voru þeir ákaft hvattir til þess að semja einir og standa þá við sín stóru orð um ókosti samflots.

Sjá meira HÉR

Í því sambandi komu einnig fram skýr skilaboð að þeir hópar sem ekkert fengu úr síðustu samningum myndu ekki standa upp tómhentir nú. Þar má einnig benda á samskonar yfirlýsingar sem hafa komið nýverið úr röðum samtaka kennara og BHM.

Ég ber mikla virðingu fyrir fréttastofu RÚV og tel hana vera þá trúverðustu af fréttamiðlum landsins. Þessvegna beið ég eftir að heyra fréttamanninn spyrja Aðalstein hvers vegna hann hefðu snúist um 180° í afstöðu sinni um samflot verkalýðsfélaga og eins hvaða niðurstöður hefðu komið fram á hjá hinum 60 formönnum aðildarfélaga ASÍ.

Margir félaga minna hafa haft samband og voru fréttastofu RÚV reiðir vegna þess að halda áfram að flytja einhliða túlkanir Aðalsteins og gera með lítið úr framlagi þeirra sem gerðu það mögulegt að félagsmenn Aðalsteins fengu umtalsvert meiri launahækkanir en flestir aðrir.

föstudagur, 17. september 2010

"Hæstvirt!!??" Alþingi

Í báðum rannsóknarskýrslunum koma fram óhrekjanleg rök fyrir því að orsakir Hrunsins er að finna í atburðum og ákvörðunum sem áttu sér stað fram til ársins 2006 og fyrstu mánuði ársins 2007. Eftir það varð hruninu vart forðað, þótt vissulega hefði verið hægt að draga úr tjóninu og bregðast við með faglegri hætti.

Þingmannanefndin telur að meginástæðu fyrir hruninu megi rekja fyrst og fremst til framferðis og stjórnarhátta stjórnenda og aðaleigenda bankanna sjálfra en rótina að þessum óförum megi hinsvegar rekja til einkavæðingar bankanna fram til ársins 2003 og þess óhefta vaxtar sem stjórnvöld og eftirlitsstofnanir létu viðgangast, og í raun hvöttu til, framundir það síðasta.

Fjármálaeftirlitið og ekki síst Seðlabanki Íslands fá algjöra falleinkunn í þessu samhengi. Þá sé ekki síst orsaka hrunsins leitað í þeim alvarlegu mistökum sem hér voru gerð í efnahagsstjórn á árunum fyrir hrun. Sérstaklega á þetta við um tímabilið frá 2003 til 2007 þegar vöxtur bankakerfisins var sem mestur.

Umræða í aðdraganda að skilum skýrslu þingmannanefndarinnar og fyrstu dagarnir á eftir lituðust nokkuð af forsíðufréttum MBL sem birti fimm daga í röð undarlegar fréttir fullar af alvarlegum aðdróttunum grundvölluðum á óljósum sögusögnum. Óvandaður fréttaflutningur blaðsins um svo mikilvæg mál er enn alvarlegri þegar tekið er tillit til þess að þar ræður ríkjum sá einstaklingur sem m.a. niðurstöður þingmannanefndar benda til að beri mesta ábyrgð, t.d. sem forsætisráðherra á tímum einkavæðingar bankanna og mestu hagstjórnarmistaka Íslandssögunnar og sem seðlabankastjóri og formaður bankastjórnar á þeim tíma sem Seðlabankinn brást algerlega sínum eftirlits- og ekki síst viðbragðsskyldum. Vegna fyrningarákvæða eru störf hans sem ráðherra ekki til umfjöllunar hjá þingmannanefndinni.

En maður verður í sjálfu enn meir undrandi á þeim umæðum sem fram fara á hæstvirtu Alþingi þessa dagana. Þar sem fremstir fara fulltrúar þeirra flokka sem hafa verið í ríkisstjórnum undanfarna tvo áratugi. Þeir vola og fyrra sig allri ábyrg og ganga svo langt í leit sinni að það er helst að skilja að það sé lífeyrissjóðunum að kenna hvernig komið er fyrir þessari þjóð.

Er gjörsamlega útilokað að fram fari vitræn umræða á „hæstvirtu!!??“ Alþingi?

fimmtudagur, 16. september 2010

Formannafundur ASÍ

Í dag 16. sept. er formannafundur aðildarfélaga ASÍ, þennan fund sitja um 60 formenn. Þessir fundir eru haldnir reglulega og eru áhrifamesta valdið milli ársfunda. Væntanlegir kjarasamningar verður vitanlega meginviðfangsefni fundarins, auk þess hefur undanfarið ár farið fram umræða um skipulag ASÍ.

Á fundum innan stéttarfélagana undanfarið hafa verið bollaleggingar hvort það sé grundvöllur til þess að fara fram sameiginlega til samninga, eins og gert hefur verið í síðustu tveimur samningum. Margir eru þeirrar skoðunnar að forsendur skorti, en flestir eru sammála að samstarf aðila vinnumarkaðs, sveitarfélaga og hins opinbera sé aftur móti vænlegasta leiðin til þess að koma fótunum undir atvinnulífið.

En það þarf margt að gerast ef takast á að gera sameiginlegan samning til nokkurra ára og það mun örugglega taka langan tíma, verði ákveðið að fara þá leið. Þar spilar langstærstu rulluna krónan og hagstjórnin. Ríkisstjórnin fæst ekki til þess að ræða ESB vegna þess að það er óþægilegt mál innan hennar veggja.

Valdamenn innan hagstjórnarkerfisins gefa verkalýðshreyfingunni langt nef og segja að slaki á vinnumarkaði sé það mikill að verkalýðshreyfingin geti ekki gert neitt annað en að þiggja það sem að henni verði rétt, og þeir sjá í raun enga ástæða til þess að vera að trufla sig á því að taka þátt í neinum viðræðum við stéttarfélögin.

Það blasir við launamönnum að stjórnmálamenn hafa viðhaldið því fyrirkomulagi að láta launamenn og almenning um það hlutskipti að sitja við árarnar í bátnum, ríkisstjórn og stjórnendur hagkerfisins hafa haldið sig til hlés. Hagstjórnarmistök eru leiðrétt með því að fella gengið og þá um leið rústa öllum forsendum sem kjarasamningar voru reistir á.

Margir benda á ofsfengin gróða útflutningsfyrirtækja og þá ekki síst útgerðarfyrirtækjanna. Staðan er reyndar sú að um þriðjungur útgerðarfyrirtækja hefur verið svo illa rekinn undanfarin ár að ekkert getur bjargað þeim, vitanlega væri best fyrir samfélagið að þessi fyrirtæki fari á hausinn sem fyrst svo hægt sé að koma veiðiréttindum í hendur manna sem hafa meiri samfélagslega ábyrgð.

Ljóst er að ekki er hægt að undirbúa langtímakjarasamning á þess að vita á hvaða forsendum eigi að reisa hann. Ætla stjórnvöld að nota krónuna sem aðalgjaldmiðil til framtíðar eða á gera einhverjar breytingar?

Kjarasamningar undanfarinna ára hafa einkennst af því að sá launakostnaðarauki sem til skiptana var hefur verið settur nær allur í lægstu launataxtana á meðan hærri taxtar hafa fengið mun lægri hækkanir. Þar má t.d. benda á taxtakerfi rafiðnaðarmanna, lægstu taxtar þar hafa frá 2001 hækkað um 46% umfram almennar launahækkanir. Samkvæmt tölum Hagdeildar þá hafa lægstu taxtar haldið í við verðbólguna. Það er engin launung á því að það eru margir sem eru þeirrar skoðunnar að nú verði að semja um hækkanir sem ná upp í gegnum öll launakerfin.

miðvikudagur, 15. september 2010

Tryggvi Þór og Sigmundur Davíð

Hlustaði á Tryggva Þór og Sigmund Davíð á ÍNN í gærkvöldi, kostulegasti þáttur sem ég hef heyrt. Ætla að reyna að endursegja það sem um huga minn fór meðan þeir ræddu um hversu aðilar vinnumarkaðs ásamt fjölmiðlum væru ósanngjarnir gagnvart þingmönnum.

Þingmenn eru undanfarin ár búnir að halda íslensku samfélagi greipum sér, en hafna alfarið að axla ábyrgð á eigin gjörðum.

Þingmenn þeirra tveggja flokka sem framangreindir þingmenn standa fyrir ákváðu að gefa örfáum aðilum fiskinn í sjónum umhverfis landið ásamt því að láta ríkisbankana til örfárra. Og svo gerðu þeir samning um stórkostlegar framkvæmdir sem umturnuðu samfélaginu og gáfu auk þess út skipun um að hækka öll veðmörk húsnæðislána 10 cm upp fyrir rjáfur allra húsa, alveg sama hversu mikið þessi aðgerð myndi valda mikilli hækkun á söluverði.

Þá bárust til Alþingis víða að aðvaranir um að halda þyrfti til haga þeim aukafjármunum sem kæmu í ríkiskassann vegna þenslunnar. Þessu var ekki sinnt af stjórnarflokkunum og skattar þeirra sem mest áttu voru lækkaðir svo þeir gætu fjárfest og aukið þensluna enn meir.

Öllum aðvörunum var vísað á bug og þingmenn eyddu öllum tíma Alþingis í að rífast um hvort allir mættu segja það sem þeim sýndist í fjölmiðlum.

Þá komu aðvaranir frá ríkisstjórnum og seðlabönkum nágrannaríkja okkar um að Íslenskt hagkerfi væri komið fram á bjargbrún.

Þá brugðust þingmenn og ráðherrar þessara stjórnarflokka við með því að lýsa því yfir að ráðherrar nágrannaríkja og bankastjórar væri svo fávísir, að þeir þyrftu að fara á endurmenntunarnámskeið og læra um hversu klárir íslenskir ráðherrar og þeirra fylgifiskar væru við að hrinda af stað efnahagsundrum.

Og þeir eyddu síðan öllum tíma Alþingis í innihaldslausar umræður um hversu óspilltir íslenskir þingmenn væru.

Svo hrundi íslenskt efnahagslíf og með því hin íslenska króna

Þá eyddu þingmenn öllum tíma Alþingis í að ræða um hversu óvænt og ósanngjörn amerísk kreppa væri gagnvart Ísland.

Þá komu ábendingar um að Íslenska hrunið væri heimatilbúið og bent réttilega á að ekki væri heimili og fyrirtæki að hrynja annarsstaðar en á Íslandi.

Þá eyddu þingmenn öllum tíma Alþingis í að ræða um þá fjárglæframennina sem plötuðu þá.

En þá var spurt um hvers vegna eftirlitskerfi íslenskra stjórnvalda hefði ekki virkað.

Þá eyddu þingmenn öllum tíma Alþingis í að ræða um þá endurskoðendur sem hjálpuðu fjárglæframönnum að plata þingmenn.

Svo kom krafa um að Íslendingar stæðu við skuldbindingar sínar og greiddu innistæðutryggingar.

Þá héldu þessir þingmenn Alþingi uppteknu í nokkra mánuði við að ræða hversu ósanngjarnt þessi krafa væri. Þeir ásamt forseta Íslands hefðu hafnað því að Ísland stæði við skuldbindingar sínar með einu risastóru NEI og fullyrtu að umheimurinn óttaðist þá svo gasalega mikið.

En þá kom skýrsla Rannsóknarnefndar, þar stóð að það væri íslensk stjórnsýsla sem væri stærsti orsakavaldur þess sem hér hefði gerst.

Þá eyddu þingmenn öllum tíma Alþingis í að ræða hvort það ætti að virkja á Íslandi, þeir hefðu reyndar lofað kjósendum sínum þremur stórum álverum, þremur kísilverksmiðjum og jafnmörgum gagnaverum.

En þá var birt skýrsla rannsóknarnefndar þingmanna, sem staðfesti umfjöllun hinnar fyrri um störf þingmanna og ráðherra.

Þá tóku þingmenn til við að halda Alþingi uppteknu við að rífast um hversu ósanngjarnt það sé að ætlast til þess að kjörnir þingmenn þyrftu að taka óvinsælar ákvarðanir og axla ábyrgð gjörða sinna. Ásamt því að væla um hvernig óvægin umfjöllun fjölmiðla valdi því að þingmenn þori ekki að halda uppi vitrænni rökræðu á Alþingi hvað þá að taka sjálfstæða ákvörðun.

Niðurstaða mín var að þingmenn lifa í eigin veröld og upplifa sig sem miðju samfélagsins, en ekkert miðar og samfélagið er að verslast upp.

Svört staða

Ég skynja mikinn meirihluta fyrir því að koma hagkerfinu úr þeirri stöðu sem það er í, sama hvort við ætlum í ESB eða ekki. Það er sama hvort við ætlum í ESB eða ekki gera verður miklar leiðréttingar á efnahagsstjórninni. Það er einnig mikill vilji fyrir því að ljúka Icesave því það er helsta ástæða þess að fyrirtæki landsins eru í miklum fjárhagsvanda. Þar má t.d. benda á OR, Icesave stendur í vegi fyrir endurfjármögnum fyrirtækisins.

Eftir fundi undanfarinna daga má segja að það sé ákaflega fátt sem bendi til þess að samstarf verði innan verkalýðshreyfingarinnar í komandi kjarasamningum. Stjórnvöld hafa nýtt sér gengi krónunnar til þess að ómerkja kjarasamninga og það virðist ekki vera nokkur áhugi hjá stjórnmálamönnum að breyta því, þeir vilja halda þeim rétti.

Fjármálaráðherra og annar helsti leiðtogi ríkisstjórnarinnar hefur margoft lýst því yfir að krónan sé bjargvættur, með henni sé hægt að halda launum og kaupmætti niðri og tryggja gríðarlegan hagnað útflutningsfyrirtækjanna. Hann hefur einnig lýst því yfir að hann vilji ekki ræða nálgun að ESB.

Ef semja á til langs tíma verður það að liggja fyrir hvaða gjaldmiðil menn ætla að hafa hér til framtíðar. Ef það á vera krónan verða menn að semja með það að leiðarljósi. Krónan kallar á allt aðra efnahagsstjórn og mikla gjaldeyrisvarasjóði, sem mun draga verulega úr kraftinum til þess að takast á við niðurskurð í ríkisfjármálum. En ef stefnan er tekin á ESB og nýjan gjaldmiðil er stefnan allt önnur.

Það er forsenda fyrir langtímasamningum að krónan styrkist verulega og kaupmáttur vaxi. Það kallar á styrkari og faglegri stjórnun hagkerfisins. Þar eru enn til staðar miklar kerfisvillur, sem voru mikilvirkur þáttur í því hvernig fór. Eins og ég margoft bent á í pistlum um krónuna, að hún veldur því að í peningakerfi Íslands er mikill innbyggður ójöfnuður, óhagkvæmni og óstöðugleiki.

Á óbreyttum forsendum munu flest stéttarfélög næsta örugglega frekar semja hvert fyrir sig og þá til skamms tíma og horfið verður frá opnum kjarasamningum til eldri tíma með bundum kauptöxtum og kauphækknunum sem ná upp í gegnum allt launakerfið. Það kemur verst út fyrir þá sem minnst mega sín.

þriðjudagur, 14. september 2010

Dapurlegt hve lítið hefur breyst

Ég tek undir það sem hefur komið fram hjá nokkrum þingmönnum og svo mjög mörgum utan þings, að sé dapurt hve lítið hafi breyst í starfsháttum Alþingis þrátt fyrir hrunið. Veikleiki löggjafans blasi við gagnvart framkvæmdavaldinu, þetta hefur komið sífellt betur í ljós eftir því sem lengra líður frá hruni fjármálakerfisins.

Minni reyndar á allnokkrar umræður fyrir nokkrum árum um það vinnulag sem var innleitt af Davíð og Halldóri, það er að þeir störfuðu tveir saman ásamt nokkurm ráðuneytisstjórum og tóku nær allar veigamestu ákvarðanirnar án samráðs við þingið. Þetta gekk svo langt að nokkrir stjórnarþingenn voru farnir að kvarta, en margur þorði því ekki, þá áttu þeir það á hættu að vera teknir út úr öllum veigamiklum nefndum og settir út í horn. Það ríkti fullkomið ráðherraræði.

Kastljósið í gær var um margt óvenjulega gott. Búið að vinna hlutina vel og umræðuefnin sett skýrt og skipulega fram. Það sem vakti athygli mína hvaða fólki var stefnt fram að flokkunum. Það var ekki heil brú í tilsvörum sumra þeirra og þar fór Guðlaugur Þór fremstur.

Ég tek fyllilega undir það sem margir hafa bent á Geir og Ingibjörg eru ekki efst á þeim lista sem ætti að beina spjótum að. Það eru langefstir Davíð og Halldór og sú hirð sem var í kringum þá. Það var þetta lið sem skóp það ástand sem leiddi íslenskt efnahagslíf fram af brúninni. Davíð var það við stjórnvöllin allan tímann. Og hann var við stjórnvölinn í Sjálfstæðiflokknum allan tímann, hann hikaði ekki við að henda út af dagskrá undir dynjandi lófataki landsfundar flokksins vel unnun skýrslum um hvernig ætti að taka á vandanum.

Þetta er erfitt segja þingmenn, já þetta er mjög erfitt. Ég hef fulla samúð með sumu af þessu fólki sem nú liggur undir ásökunum, en þetta virðist vera því miður eina leiðin til þess að fá stjórnmálamenn til þess að axla ábyrgð og taka upp vönduð vinnubrögð. Það er búið að reyna með góðu og illu í nokkur ár, en ekkert hefur gengið. Ástandið er að verða svo slæmt að það verður þá að grípa til enn harkalegri aðgerða til þess að reka suma til starfa, og aðra í burtu.

mánudagur, 13. september 2010

Valdaskrímslið

Þær eru í fersku minni ræður fyrrverandi ráðherra og stjórnarþingmanna þar sem þeir héldu því fram að hið íslenska Hrun hafi alfarið verið afleiðing alþjóðlegrar fjármálakreppu, og gerðu grín af þeim sem héldu því fram að efnahagsstjórnin hefði verið röng. Þrátt fyrir að fyrrv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra höfðu ásamt Seðlabankastjóra fengið alvarlegar aðvaranir frá erlendum Seðlabönkum um hvert stefndi.

Þingmenn sjálfstæðismanna tóku vart til máls í pontu Alþingis án þess að minna á hversu óspillt stjórnmál og embættiskerfið væri á Íslandi, og vitnuðu þar í erlenda könnun sem átti að sanna það. Á það var bent að sú könnun segði ekkert til um Íslands, hér væru ekki í gildi þær reglur sem mælt væri eftir. Til þess að splundra orðræðunni gripu sömu menn ítrekað í allskonar skýrslur, stundum voru þær 15 ára gamlar og sögðu í raun ekkert til um það sem deilt var um.

Árið 2006 var svo komið að ekki var komist hjá hruni íslenska bankakerfisins, sem var hvort tveggja í senn, fyrirsjáanlegt og fyrirbyggjanlegt. Í skýrslu rannsóknarnefndar eru veigamikil rök fyrir því hvernig hin pólitíska forysta hafði brugðist skyldum sínum við að grípa til fyrirbyggjandi ráðstafana. Þessu var í engu sinnt og hagkerfi Íslands flaug fram af brúninni á fullri ferð og með skelfilegum afleiðingum.

Þáverandi stjórnmálamenn voru búnir að lofa álveri fyrir norðan, álveri á Reykjanesi, tvöföldun álvers í Straumsvík, nokkrum gagnaverum og kísilverksmiðjum, auk þess að leggja streng til útlanda og flytja um hann orku frá Íslandi. Alltaf töluðu stjórnmálamenn eins og ótakmörkuð orka væri til staðar hér á landi.

Ég spurðist nokkrum sinnum fyrir um, t.d. í umfangsmikilli vinnu við undirbúning Stöðugleikasáttmála, hvar ætti að fá orku til þess að uppfylla alla þessa drauma og benti á að ef út í þetta væri farið á þeim framkvæmdatíma sem rætt var um, þyrfti að flytja hingað helmingi fleiri erlenda launamenn en voru hér við uppbygginguna fyrir austan, eða um 30 þús. manns. Eftirköstin yrðu helmingi alvarlegri en þau voru í lok þeirra framkvæmda. Aldrei fékk ég alvöru svör og málinu ævinlega eytt.

Ábyrgðarmenn þeirrar efnahagshelstefnu sem var fylgt undanfarna tvo áratugi eiga það sameiginlegt, að ekki einn einasti þeirra vill kannast við að bera nokkra ábyrgð á Hruninu. Það er óumflýjanlegt að gera upp við fortíðina og menn verði dregnir til ábyrgðar. Ekki síst sakir þess þeirrar söguskoðunar, sem þessa dagana er haldið að okkur um að Ísland sé fórnarlamb utanaðkomandi afla. Nágrannaþjóðir séu óvinir og við berum enga ábyrgð á Hruninu.

Þar eru sömu menn enn eina ferðina vísvitandi að leiða umræðuna inn á villigötur með þeim afleiðingum að okkur miðar lítið við úrbætur í hagkerfinu. Þetta ástand veldur mikilli reiði meðal almennings og leiðir til þess að umræðan er á heiftúðugum brautum upphrópana og rakalausra fullyrðinga.

Ríkissjóður er rekinn með gífurlegum halla og mörg fyrirtæki í landinu eru í mjög erfiðri stöðu. Ísland er að dragast aftur úr hinum Norðurlöndunum og þar með aukast líkur á því að okkur haldi áfram að fækka. Hin Norðurlöndin eru með öflug hagkerfi sem byggja á vel skipulögðum og öguðum markaðsbúskap, sem er forsenda þess að þau geti staðið undir öflugu velferðarkerfi. Margir hugsa þessa dagana hvað bíði þeirra hér, hvort þeir og börn þeirra hafi möguleika til þess að búa í skipulegu og öguðu samfélagi með fjölbreyttum atvinnumöguleikum.

Endurtekinn pólitísk afskipti af vinnumarkaðnum einkennast af sérlausnum innrömmuðum í stundarhagsmuni atkvæðaveiðara. Oft á tíðum ganga þær þvert á hvor aðra og eru þar að auki ekki í samræmi við reglur og skipulag. Allstaðar blasa við geðþótti, fúsk og óvönduð vinnubrögð í stjórnkerfinu. Alþingi nær ekki að klára Icesave og atvinnulífið hefur þar af leiðandi ekki aðgang að fjármagni, ekkert miðar við að endurskoða kvótakerfið og allskonar höft eru á erlendum fjárfestingum.

Það er Ríkið sem hefur brugðist, það á að setja leikreglur og sjá til að þeim sé fylgt, en það hentar hentistefnupólitíkusum ekki. Þetta ástand leiðir til þess að haldið er í krónuna, því hún er eini gjaldmiðillinn sem fúnkerar í svona fársjúku gervihagkerfi slakra stjórnvalda og þar með komið með því í veg fyrir að kaupmáttur geti hækkað, vextir verða háir, skuldirnar vaxa og fátækt verður mun víðtækari.

sunnudagur, 12. september 2010

Vitanlega er þetta svona

Það var fyrirséð hver afstaða sjálfstæðismanna yrði í rannsóknarnefndinni. Það var fyrirséð að þeir myndu reyna að splundra nefndinni, sami leikur og þeir viðhafa á Alþingi. Þar má t.d. benda á Icesave og fleiri mál, þar sem ógæfa almennings birtist í því hvernig þeim hefur tekist að splundra þingflokkum og halda umræðunni á Alþingi á lægsta stigi.

Það var einnig fyrirséð hvernig MBL myndi fjalla um málið, þar er t.d. rætt um þrjá ráðherra, ekki minnst á Geir.

Afstaða Bjarna formanns í fréttum gærkvöldsins endurspeglar allt þetta og það er fyrirséð hvernig málflutningur þingmanna flokksins verður um þetta mál næstu daga. Það er auk þess fyrirséð hvaða lögmenn muni hjálpa þeim við að splundra umræðunni um þessi mál.

Það var fyrirséð að þeir myndu ekki vilja ásamt Framsókn skoða athafnir Hrunkvöðla þessa lands þegar þeir úthlutuðu kvótanum til útvalinna, einkavæddu bankanna í hendur handvalinna vina, afsettu Þjóðhagsstofnun og komu Seðlabankanum í þrot.

Það er líka fyrirséð að þrjátíu og eitthvað prósent þeirra kjósenda sem mæta á kjörstað og styðja þennan flokk. Þetta er sá hópur sem hefur hag af óbreyttu ástandi og þeirri spillingu sem hér hefur viðgengist. Þeir óttast að alvöruviðræður um ESB muni opinbera hver staða þeirra er og grafi undan þeim tökum sem þeir hafa á landinu með tryggum aðgang að valda- og embættisstéttinni.

Það er fyrirséð að þessi hópur ver sína stöðu og hagsmuni með öllum brögðum í bókinni. Hann vill vera áfram í þeirri stöðu að geta ráðið verðgildi launa sem greidd eru í landinu, með spili sínu á krónunni og eyðileggja kjarabaráttu launamanna og standa að eignatilfærslu frá fjöldanum til fárra.

laugardagur, 11. september 2010

Stóra Icesave NEIið

Nú er Icesave aftur komið á dagskrá og enn virðist stjórnarandastaðan, bæði innan og utan ríkisstjórnar ætlar að víkja sér undan því að horfast í augu við afleiðingar gjörða sinna. Það hefur komið fram staðfesting hjá mörgum forsvarsmönnum að ófrágengið Icesave hefur valdið fyrirtækjunum gríðarlegum skaða og er í raun ein stærsta ástæða þess að okkur hefur ekki tekist betur við að koma atvinnulífinu í gang.

Leikurinn í kringum Icesave varð að stóru skrímsli í ofsafenginni og stjórnlausri umræðu, sem hefur einkennst af dramatískum stóryrtum fullyrðingum og gekk svo langt að margir einstaklingar trúðu því að lausn vanda Íslands væri falinn í því að kjósa sig frá Icesave og senda AGS heim. Þar með hyrfi fjárlagagatið stóra og við þyrftum ekki að skera niður í velferðakerfinu. Það væri annarra en íslendinga að greiða þær skuldir, og sjá um að við getum búið hér eins ekkert hafi í skorist, til viðbótar 7 földu umfangi íslenska hagkerfisins sem erlendir aðilar hefðu þegar tapað á íslenska efnahagsundrinu.

Sérstaða Íslands sem umheimurinn skyldi ekki nú frekar en fyrri daginn Sérstaða Íslands væri að mati stjórnmálamannanna ekki lengur fólgin stórfenglegu Efnahagsundri, heldur í stóru NEI sem myndi valda straumhvörfum um gjörvalla heimsbyggðina. Nú væri Ísland ekki bara komið fram úr öðrum með efnahagsundri, heldur væri stórt íslenskt NEI það sem erlendar ríkisstjórnir ættu eftir að uppgötva og óttuðust.

Málið lenti í sjálfheldu, engin hinna fjölmörgu erlendra manna sem ég hef rætt við hefur skilið hvert væri stefnt og grínuðust með að íslenskir stjórnmálamenn sem teldu sig vera handhafar hins algilda sannleika. Lifðu að hætti meistara Altungu í sögu Voltaires, "í blekkingu og loka augunum fyrir því hversu hörmulegur heimurinn í rauninni er. Núið sé besti mögulegi veruleikinn." Atvinnulífið fær enga fyrirgreiðslu og getur ekki endurfjármagnað sig, nema á afarkjörum, sakir þess að skuldaálag Íslands er komið í ruslakörfuna og hér ríkir fullkominn glundroði.

Afleiðing þessa er nú vilja NEI menn að málið fari fyrir dóm til þess að skera sig niður úr snörunni. Bretar og Hollendingar hafa alltaf sagt að það væri hagstæði leið fyrir þá en óhagstæð fyrir íslendinga. Það komi ekki til greina að láta skattgreiðendur annarra ríkja greiða upp skuldir íslendinga, nóg sé komið af því nú þegar.

Margir sem hafa tekið undir að það séu allmörg atriði sem bendi til þess að málið muni tapast. Íslendingar muni þurfa að greiða vexti frá fyrsta degi, sé litið til stöðu Íslands í ruslflokkinum er næsta víst að þeir munu verða mun hærri en samið var um. Einnig er bent á jafnræðið Íslendingum voru bættar allar innistæður og það ætti að gilda um alla, ekki bara fyrstu 20 þúsund evrurnar.

Stóra feita NEIið hefur snúist upp í andhverfu sína og hinir litlu kallar á Alþingi hafa ekki burði til þess að horfast í augu við afleiðingar gjörða sinna. Tapið nemur hundruðum milljarða króna, langvinnara atvinnuleysi og háum skuldum heimilanna.

fimmtudagur, 9. september 2010

Komdu með eignir þínar til okkar og byrjaðu að græða

Í tilefni þeirra upplýsinga sem hafa verið að koma fram undanfarna daga um háttalag bankanna, varðandi séreigna- og peningasjóði þeirra langar mig til þess að rifja upp nokkur atriði úr pistlum sem sem ég skrifaði veturinn 2008 og 2009. Æðsti stjórnandi Kaupþings var á árinu 2006 tvo mánuði að vinna fyrir ævitekjum eins verkamanns og það tók 321 fullvinnandi verkakonur allt árið 2006 að vinna fyrir launum æðsta stjórnanda Kaupþings. Á sama tíma héldu stjórnendur Kaupþings lánum og yfirdráttum að ungu fólki.

Í forstofum allra stórmarkaða voru agentar peningasjóða bankanna og í öllum blöðum voru birtar heilsíðuauglýsingar. Því voru boðin „góð“ kjör ef það flytti öll sín bankamál og lífeyrissjóðsmál tilviðkomandi banka. Margt af unga fólkinu stóðst skiljanlega ekki freistingarnar og eyðslan var gríðarleg. Hún byggðist á því að áfram yrði sami uppsveiflan í a.m.k 40 ár.

Allar greiðsluáætlanir sem bankarnir héldu að unga fólkinu voru byggðar á þeim forsendum og dæmið gekk þannig upp. Vitanlega voru keyptar rúmgóðar íbúðir og þær innréttaðar með glæstum hætti og nýjir bílar stóðu í hlaðinu. Og í sjónvarpinu glumdu auglýsingar um að unga fólkið ætti að byrja að græða og fara í fótbolta- og innkaupaferðir til London, golf- og skíðaferðir til Ítalíu á yfirdrætti sem væri bara með 20% vöxtum. Komdu og byrjaðu að græða og taktu lán hjá okkur hljómaði í síbiljunni.

Á þessam tíma komu félagsmenn á skrifstofur RSÍ og lýstu símtölum sem þeir höfðu fengið frá agentum peningsjóðanna. Þeim voru boðin sérstök kjör á lánum og yfirdrætti ef þeir flyttu öll sín lánamál til viðkomandi banka. Þeir ætti einnig að flytja lífeyrissjóð sinn til viðkomandi banka. Þeir ættu að ganga úr stéttarfélaginu og hætta að greiða í þá hít og láta bankana það eftir að ávaxta þá peninga. Fyrirtækin væru þreytt á að láta segja hversu mikla kauphækkun þau ættu að útdeila, oft vildu þau hækka laun mikið meira en gætu það ekki vegna þeirra skorða sem kjarasamningar verkalýðsfélaganna settu þeim.

Agentar bankana á premíum og bónusum sögðu að launamönnum stæðu til boða launahækkun ef þau hættu að greiða í sjúkrasjóð og aðra sjóði stéttarfélaga. Félagsmenn spurðu agentinn hvað með tryggingarþátt sjúkrasjóðanna. Svar agenta bankanna var að það skipti engu því öllum stæðu bætur Tryggingarstofnunar til boða!! Til upplýsingar þá býður sjúkrasjóður Rafiðnaðarsambandsins félagsmönnum 80% launatryggingu komi upp langvinn veikindi upp á heimilum félagsmanna, auk annarra margháttaðra bóta. Á síðasta ári voru styrkir til félagsmanna á annað hundrað millj. kr. meiri en í venjulegu árferði.

Á sama tíma kom fram hver hagfræðingurinn á fætur öðrum og benti á að þetta gæti ekki endað öðruvísi en með harðri lendingu efnahagslífsins, þeir sem tækju mikil lán lenda í erfiðleikum vegna þess að verðbólgan myndi sveiflast upp og krónan falla. Ríkisstjórnin setti almennum lífeyrissjóðum skorður í kynningu á starfsemi sinni á meðan bankarnir nutu frelsis. Nú er komið upp að á ferðinni voru skattsvik af hálfu bankanna upp á hundruð milljóna króna sem virðist eiga að lenda á okkur skattborgunum, þá að stærstum hluta þeim sem stóðu „eðlilega“ að sínum málum og hlustuðu ekki á agenta bankanna.

Á sama tíma gerði ríkisstjórnin ekkert til þess að styrkja stoðir efnahafslífsins og setja bönkunum skorður í innflutning á erlendu lánsfjármagni. Ráðherrar fóru í stað þess mikinn og slógu sér á brjóst og bentu fólki á hversu snjallir þeir væri. Ísland væri best, af því þeir sætu við stjórnvölinn og væri að leggja undir sig heiminn með sinni efnhagssnilli. Þeir gerðu gys af hagfræðingum sem bentu á veilurnar í efnahagstefnunni og sögðu að þeir væru einungis þjakaðir af öfundsýki í garð þeirra sem velgengi nytu. Ráðherrarnir fóru í kosningar undir þessum merkjum og fólk vildi trúa að allt gengi svona vel og það myndi halda áfram og kaus í samræmi við það.

miðvikudagur, 8. september 2010

Efla hátækniiðnað og rannsóknir.

Það hefur ítrekað komið fram að íslensk tæknifyrirtæki séu að flytja úr landi eða að undirbúa það. Forsvarsmenn hafa hver á fætur öðrum lýst hver staðan hér sé og að fyrirtækin séu nauðbeygð til að flytja starfsemi sína af landi brott. Ástæðan séu óstöðugur gjaldmiðill og háir vextir. Mörg svæði í öðrum löndum bjóða fyrirtækjunum margskonar ívilnanir, vilji þau flytja starfsemi sína þangað.

Aðrar þjóðir og þá kannski sérstaklega ákveðin svæði, ganga langt fram í því að laða til sín hátæknifyrirtæki og skapa þeim aðlaðandi umhverfi. Þetta vantar hér á landi. Íslensk stjórnvöld verða að taka frumkvæði og taka á þessu verkefni af metnaði. Íslendingar hafa varið svipuðu hlutfalli og aðrar þjóðir í rannsóknir. Meðal hinna norðurlandanna er verið að auka rannsóknarfé og styðja betur við hátækniiðnaðinn. Einnig verðum við að styðja enn betur við háskólana og þá sérstaklega starfstengt framhaldsnám. T.d. ræða Danir það nú að stighækka á næstu árum það hlutfall sem rennur til rannsókna og nær tvöfalda það árið 2015.

En hér heima hverfa erlend fyrirtæki frá vegna vandræðagangs í stjórnsýslunni. Það tekur mánuði jafnvel ár að fá niðurstöður frá skipulagsnefndum og samningum milli sveitarfélaga, eins og við sjáum svo glögglega þessa dagana á Suðurnesjum. Sama á við um skattgreiðslur og skil á virðisauka. Þetta er ekkert nýtt þetta hefur komið margoft fyrir á undanförnum árum. Vinnumarkaðurinn getur ekki búið við sérlausnum stjórnmálamenna byggðum á einhverjum prinsippum án tillits til heildarhagsmuna. Grundvöllur leikreglna verður að vera öguð og skýr stefna

Undanfarin misseri hefur okkur verið gert að horfa á eftir góðum fyrirtækjum sem eiga langa sögu í íslensku atvinnulífi. Þar voru að verki frumkvöðlar sem með mörgum góðum starfsmönnum hafa á undanförnum árum lagt á sig aukna vinnu og lægri laun til þess að komast í gegnum byrjunarerfiðleika fyrirtækjanna. Þessi fyrirtæki vilja vera áfram hérna, en ástandið hér heima er þeim óbærilegt.

Vaxandi fjöldi rafiðnaðarmanna er að horfa á eftir störfum sínum fluttum til annarra landa. Þeir hafa tekið þátt í að byggja þessi fyrirtæki upp. Rafiðnaðargeirinn og samtök rafiðnaðarmanna hafa varið hundruðum milljónum króna á hverju ári til þess að bæta menntunarstig íslenskra rafiðnaðarmanna. Í þessu fólki er fólgin gífurlegur auður fyrir íslenskt atvinnulíf. Þetta fólk skiptir sköpum við að skapa íslenskum fyrirtækjum samkeppnishæft umhverfi.
En nú stendur þetta fólk í vaxandi mæli frammi fyrir því að verða að velja á milli atvinnuleysis, lágt launaðra starfa, eða fylgja fyrirtækjunum erlendis, eins og mörgum þeirra stendur til boða. Það er verið að eyðileggja áratuga umfangsmikið og kostnaðarsamt uppbyggingarstarf.

Á undanförnum 2 árum hafa verið stofnuð með stuðningi Nýsköpunarstofnunar um 80 ný sprotafyrirtæki og þau eru í dag með um 400 manns í vinnu. Á árunum fyrir Hrun komust fá fyrirtæki af stað vegna þess viðhorfs sem þau mættu hjá fjármálastofnunum, sem má lýsa með margendurteknum lýsingum á því hverju menn mættu í bönkunum; „Hvaða fífl ertu að setja peninganan þína í áhætturekstur, láttu okkur frekar fá þá og við setjum á þá í 100% örugga peningasjóði okkar. Láttu peningana vinna fyrir þig.“ Afleiðingarnar þekkjum við.

Íslensk fyrirtæki stríða við svo miklar sveiflur í sínum rekstri að þau eru undirseld þeirri stefnu sem stjórnvöld hafa fylgt að bíða eftir næstu innspýtingu sem hafa verið mannaflsfrekar framkvæmdir. Ef ekki verður staðið rétt að næstu "uppsveifla", má búast við hún gæti orðið styttri en oft áður og timburmennirnir enn harkalegri. Sumt af því sem stjórnmálamenn ræða um lítur út eins og "síðasti smókurinn" áður en við hættum alveg.

Er okkar björg fólgin í því að verða með svo skert mannorð að við fáum ekki lán erlendis frá? Í þeirri stöðu að verða að fara að huga að alvöru lausnum, sem eru að setja niður stöðugan gjaldmiðil, viðráðanlega vexti, þannig að við gætum skapað verðmæti eins og annað fólk með því að gera hlutina aðeins betur en næsti maður. Það er nefnilega undirstaða viðskiptahugmyndar og eðlilegrar uppbyggingar atvinnulífs ásamt hugmyndum sem skapa 3 – 20 manns atvinnu þar sem unnið er að því að skapa verðmæti.

Ruglið í Óla Birni og skoðanabræðrum

Sú krafa hefur verið áberandi í umræðunni í mörg ár að lífeyrissjóðir fjárfesti með peningum almennings í fyrirtækjum og tryggi þar með íslenskt atvinnulíf og þá um leið að þar séu starfsmenn sem greiði til sjóðanna. Lífeyrissjóðirnir hafa reyndar alltaf gert þetta og hafa verið umsvifamiklir á hlutabréfamarkaði og eins kaupum á bréfum frá fyrirtækjum.

Allt er þetta eðlilegt, ef rétt er að málum staðið. En það hefur hins verið áberandi af hálfu tiltekins hóps fólks, eins og t.d. sumum þingmanna Sjálfstæðisflokks að almenningur kunni ekki fótum sínum forráð í í fjárfestingum í fyrirtækjum. Þar eigi fjárfestar að fá fyrirtækin og lífeyrissjóðirnir að vera hlutlausir.

Þetta er klætt í búning þess að hér sé á ferðinni umhyggjusemi fyrir almenningi. Við sjáum vel afleiðingar gjörða og græðgi Hrunkvöðlana. Hagsmunum sjóðsfélaga hefur sannarlega ekki verið best fyrir komið með slíkri forræðishyggju. Hrunkvöðlar hafa viljað sitja að gróðanum en senda síðan tapreikninginn til skattgreiðenda. Þessar úrtöluraddir hefta aðgang fyrirtækja að fjármagni og draga að óþörfu þróttinn úr starfsemi þeirra.

Hrunkvöðlar vilja halda áfram á braut sérlausna og pólitískra afskipta. Launamenn sjá vel að þetta fyrirkomulag hefur ekki verið að færa landsmönnum bætt lífskjör. Ljóst er að það hagkerfi sem Norðurlöndin hafa starfað eftir og byggt upp hefur verið að skila bestu samfélögunum. Þar starfa auk heimamanna milljónir farandverkamanna við bestu og öruggustu skilyrði sem til eru. En þingmenn sjálfstæðismanna hafa aftur á móti verið fastir í aulabröndurum um norræna velferðarkerfið og berjast með kjafti og klóm að okkur takist að byggja upp samskonar samfélag. Til þess njóta þeir dyggan stuðning órólegu deildar VG þessa dagana.

Ísland var fyrir Hrun í efstu sætum þegar staða landa er skoðuð, en afleiðingar hagstjórnar og stefnu Hrunkvöðlana hefur leitt okkur til setu mun neðar á þeim listum. Við þurfum ekki heimasmíðaðar sérlausnir útvalinna, heldur að taka upp sömu stefnu og hin Norðurlöndin.

þriðjudagur, 7. september 2010

Sumarið og lífsgildin

Nú er byrjað að hausta og litirnir í náttúrunni að hefja sína stórkostlegu litasýningu. Sumarið er búið að vera óvenju gott. Við Helena erum búin að gista í fellihýsinu og tjöldum um 35 nætur í sumar, einungis einu sinnu fengum við rok sem einhverju máli skipti. Það var upp í Kerlingafjöllum eina nótt og svo þegar við gengum á Snækoll morgunin eftir. Fórum um gamla skíðasvæðið og Hveradalinn. Ég hef verið frekar óvenju latur við fjallgöngur, en komst samt á nokkur fjöll, það hæsta var Kerling í Eyjafirði. Fór reyndar ekki alla leið upp, sleppti síðustu 150 metrunum. Er ekki mikið fyrir að skríða á fjórum fótum í snarbröttu klettaklifri, sérstaklega ef ég er einn á ferð.

En það er ótrúlegt að hafa verið í íslensku sumri dag eftir dag í um og yfir 20 stiga hita, og svo allt þetta logn sem búið er að vera í sumar. Að venju voru bækur með í kerrunni, eins eitt barnabarnið kallar alltaf fellihýsið. „Ætlið þið að sofa í kerrunni, ekki tjaldi?“ Mest las ég norrænar sakamálasögur, eitthvað á annað tuginn, þægilegt lesefni þegar maður er að vakna á morgnana, áður en skriðið er fram úr. En sú bók sem situr eftir í minningunni er „Kvöldverðurinn“ eftir Karl Koch, frábærlega uppbyggð, grípandi og góðar persónulýsingar. Fór reyndar ekki fram úr fyrr en ég var búinn með bókina, þá var komið vel yfir hádegi.

Sama hvar maður kom og settist niður með fólki, umræðurnar bárust ætíð að ástandinu í þjóðfélaginu og hversu mikið siðrof hefði átt sér stað og hversu erfiðlega tæki að fá samfélagið til þess að taka markvisst á því. Íslendingar verða að íhuga þau gildi sem mestu skipta. Umskipti hafa orðið á síðustu misserum á þjóðfélaginu og ekki er undan því vikist að endurskoða það gildismat og þann hugsunarhátt sem ríkt hefur. Það var reyndar eitt af því sem maður vonaðist til að myndi gerast í kjölfar Hrunsins og útgáfu skýrslu Rannsóknarnefndar.

Íslenskt samfélag hefur tengst siðum annarra þjóða í ríkum mæli í kjölfar þess að vaxandi fjöldi hefur verið við nám og störf utan Íslands og ekki síður sakir þess að vinnumarkaður og fyrirtæki hafa í vaxandi mæli starfað í nánari tengslum við önnur lönd. Landbúnaður og sjávarútvegur hafa undanfarna tvo áratugi ekki tekið við neinni fjölgun á vinnumarkaði, þannig að við höfum orðið að taka upp önnur viðmið og nálgun við gerð kjarasamninga og stjórnun efnahagslífsins. Við þurfum að skapa 35 þús. störf á næstu árum, ætlum við að halda fólki hér heima og fá unga fólkið heim að loknu námi.

Þeir sem vilja halda Krónunni virðast telja að tilgangur mannlífsins sé að þjóna hagkerfinu, en ekki öfugt. Þau gildi hafa gleymst að menntun er fólgin í eflingu dómgreindarinnar og þroska hugsun sína um lífið og tilveruna ásamt því að læra að sjá sér farborða. Öll viljum við eiga þátt í því að móta á Íslandi gott og réttlátt samfélag. Það gerist ekki af sjálfu sér, eins og sumir virðast trúa. Mestu skiptir að þeim efnislegu lífsgæðum sem þjóðin aflar sé skipt réttlátlega milli okkar, í stað þess að fáir fengu of mikið og samfélagið sundraðist. Bilið milli þeirra sem minna mega sín og hinna ríku jókst. Þeir ríku hafa komið sér hjá því að borga til samfélagsins og eiga ekki samleið með okkur hinum.

Framagjarnir einstaklingar þar einna helst stjórnmálamenn hafa einangrast frá þjóðinni og við erum nú að súpa seyðið af sérhyggja hefur vikið fyrir samhyggju. Aðkoma að kjötkötlunum varð helsta keppikeflið og að skara eld að eigin köku. Sú mikla áhersla sem lögð hefur verið á efnahagsmálin í þjóðfélagi okkar síðustu árin, hafa orðið til þess að stjórnmálin hafa orðið að leikvelli tiltölulega fámenns hóps, sem óspart hefur tekið ákvarðanir að eigin geðþótta. Við verðum að tileinka okkur annan hugsunarhátt og gildismat en það sem ríkt hefur í íslensku þjóðfélagi. Setja efnahagslífi og stjórnmálum þau markmið sem eru í samræmi við þau gildi sem við viljum að séu ráðandi.

Ef við göngum inn í ESB verðum við að gera það sem sjálfstæð þjóð, sem hefur sýnt og sannað að hún stendur á eigin fótum og fær um að leiða til lykta djúpstæðan ágreining. Við verðum að geta staðið upprétt andspænis öðrum þjóðum og gengið til samninga við þær á ábyrgan hátt. Það er áberandi að ekkert, nákvæmlega ekkert af þeim tillögum sem settar hafa verið fram til lausna hafa náð fram að ganga.

Alltaf er tekið viðtal í Kastljósunum við þann eina sem er á móti öllum hinum. Aldrei er fjallað um hvers vegna meirihlutinn komst að einhverri sameiginlegri niðurstöðu og á hvaða forsendum. Öll umræðan fer út um víðan völl í upphrópunum og rakalausum dylgjum, þar eiga fjölmiðlarnir stóra sök. Menn hafa tamið sér tala í upphrópunum og beita alls kyns brögðum til þess að draga inn í Kastljósin. Fyrir liggur að við verðum að byggja upp annað samfélag þar lögð verði áhersla á þau gildi sem við viljum hafa í hávegum og vanda til þess hvernig við deilum með okkur sameiginlegum gæðum.

mánudagur, 6. september 2010

Hverjum er krónan að hjálpa?

Með lágri skráningu krónunnar er verið að búa til risavaxna skuldakreppu og viðhalda henni. Jafnframt því er komið í veg fyrir hagvöxt og Íslandi haldið niðri við botninn. Íslenska krónan er rúinn trausti erlendis. Erlendir fjárfestar forðast landið og okkur standa ekki til boða erlend lán. Sama viðhorf ríkir hér heima útgerðarfyrirtæki hafa verið að skipta yfir í Evru, allmörg tæknifyrirtæki hafa þegar skipt yfir í Evru og greiða út laun í evrum.

Stærstur hluti lána fyrirtækja er í erl. gjaldmiðli og eykur því skuldavandann gífurlega. Þetta kemur fram m.a. í ummælum forsvarsmanna OR og Landsvirkjunar, sama á við um sveitarfélög og einstaklinga. Allt of lágt gengi skapar meiri verðbólgu en ætti að vera, sem veldur miklu hærri vöxtum en þyrftu að vera, sem aftur hamlar því að gerlegt sé að taka lán til framkvæmda og gerir svo verðtryggingu nauðsynlega eða platar fólk yfir í gengistryggð lán.

Króna heldur vöxtum um 5% hærri en þeir þyrftu að vera. Vöruverð er hátt, lyfjaverð er of hátt og öllum er gert erfitt fyrir. Ef þú kaupir þak yfir fjölskylduna ertu að greiða vegna krónunnar tvöfalt verðið til baka, ef þú kaupir t.d. 30 millj.kr. íbúð ertu að greiða um 100 þús. kr. aukalega á mánuði. Semsagt kjarasamningar eru jafnharðan ógiltir í gegnum gengistýringu krónunnar og kaupmáttur feldur.

Hverjum er krónan að hjálpa? Ég get bara ekki komið auga á neinn. Utan nokkurra útgerðamanna, sem eru þessa daga að fá ofsafengin gróða vegna þessarar stöðu. Leikurinn með krónuna er helst fólgin í því að fela staðreyndir og taka ekki á hinum raunverulega vanda sem þessi þjóð glímir við.

Atvinnuleysi hér er mun meira en í nágrannalöndum okkar og orðið útflutningsgrein, þá einna helst til Noregs. Íslendingar eru í vaxandi mæli að greiða atkvæði með fótunum, þeim fer fjölgandi sem eru að flytja héðan og þeim mun fjölga enn frekar ef það verður niðurstaðan verður að hafna viðræðum við ESB og ríghalda í krónuna með hækkandi sköttum og of háum vöxtum.

laugardagur, 4. september 2010

Skröpum botninn

Við erum mörg sem finnst það hafa verið slök skipti að setja Rögnu út og Ögmund inn. En þau voru auðskiljanleg ummæli forsætisráðherra í gær. Fyrir ríkisstjórn liggja mjög erfiðar ákvarðanir á næstu vikum og þetta væri eina leiðin til þess að tryggja framgöngu þeirra. Í sjálfu sér segir þetta í raun allt sem segja þarf um störf Ögmundar og félaga í ríkisstjórnarflokknum.

Þau voru ákaflega ómakleg ummæli Ögmundar í garð okkar fyrrverandi félaga sinna, starfsmenn stéttarfélaganna, um að við gengjum erinda AGS og vildum skera niður velferðarkerfið. Þar sleit hann viljandi, og ekki í fyrsta skipti, úr sambandi forsendur þeirra ákvarðana sem lágu að baki samþykktri stefnu verkalýðshreyfingarinnar. Þetta er taktík sem stjórnmálamenn nota í atkvæðaveiðum en um leið upplýsir það okkur um heilindi viðkomandi stjórnmálamanns.

Það er samdráttur í hagkerfinu og þar spilar inn vöxtur svarta hagkerfisins. Fjárfestingar hafa dregist saman um 50%, þar er fyrirferðamest minnkun fjárfestinga hins opinbera eða um 30% og svo fjárfestinga í bygginga og verktakaiðnaði eða um 25%. Kaupmáttur reglulegra launa hefur minnkað um 17-18% og kaupmáttur ráðstöfunartekna um 25-26%. Hrapið og atvinnuleysið er mest á almenna markaðnum og það segir okkur að þar hefur farið fram mesta kaupmáttarhrapið, í sumum atvinnugreinum eins og t.d í byggingariðnaði er það líklega allt að 50% að jafnaði.

Það er rétt sem forsætisráðherra segir að botninum er náð og við höfum aðeins ná okkur af stað, en það sem skiptir okkur mestu er hversu öflug viðspyrnan frá botninum verður. Álver er ekki heildarlausn og skiptir ekki öllu máli, en það skiptir miklu máli þegar svona mikill doði er í hagkerfinu og það gæti skipt sköpum um hversu öflug viðspyrnan frá botninum verður. Við verðum með öllum tiltækum ráðum að auka verðmætasköpun.

Landsvirkjun, OR ásamt fleiri fyrirtækjum fá ekki lán vegna þess að Icesave málin eru ekki frágengin og það er búið að kosta Ísland gríðarlega fjármuni og hefur bitnað harkalega á almenna vinnumarkaðinum. Allt útlit er á að OR hafi ekki bolmagn til þess að fara í Bitru og Hverahlíðavirkjanir. Vinnubrögð Ögmundar og félaga í góðri samvinnu við stjórnarandstöðuna er að leiða til þess að við sjáum fram á að þurfa að vera á botninum um alllangt skeið, líklega 10 – 15 ár.

Það er klárt að við munum aldrei ná okkur upp frá botninum til framtíðar með krónunni. Við verðum að taka til og það duglega hvort sem við göngum í ESB eða ekki. En það er ljóst að ef við stefnum markvist að ESB þá munum við komast í var og fá stuðning til þess að mynda nauðsynlegan stöðugleika.

Krónan er eins korktappi út á reginhafi hinna öflugu heimsmynta og við höfum séð hvaða afleiðingar það hefur þegar fjárfestar hafa verið að spila á þessa örmynt okkar. Danir eru með sína krónu, en yfirlýsing Evrópska seðlabankans um að hann muni tryggja stöðu hennar styrkir dönsku krónuna gagnvart fjárglæframönnum, með aðildarviðræðum er möguleiki að við kæmumst í var undir Grænuhlíð með korktappann.

Danskir launamenn eru ekki í sömu stöðu og við. Íslenskum launamönnum er í kjarabaráttu sinni gert að hlaupa á hlaupbretti þar sem stjórnmálamenn stýra hraðanum. Við hlaupum sem best við getum, en erum nánast alltaf á sama stað. Búin að semja um tæplega 4.000% launahækkanir á meðan danskir launamenn hafa samið um 330% og ganga fram örugglega, án þess að vera gert að standa á hlaupabrettinu, til vaxandi kaupmáttar við stöðuleika og lága vexti með eignir sínar varðar í stöðugu hagkerfi á meðan 24 þús. íslensk heimili liggja í valnum.

Yfir stendur svo venjubundinn eignatilfærsla frá almenning til fárra. Ofsafengin gróði útvegsmanna sem þeir nýta til þess að verja séreignastöðu sína. Mér er eins fjölmörgum öðrum fullkomlega óskiljanlegt á hvaða forsendum Ögmundur fyrrv. verkalýðsforingi gengur með Heimsýnarmönnum gegn hagsmunum launamanna.

Þar má reyndar einnig benda á baráttu hans gegn Starfsendurhæfingarsjóð. Við þekkjum það mjög vel, fótgönguliðar stéttarfélaganna sem erum út á mörkinni, þann ótrúlega árangur starfsfólk Starfsendurhæfingarsjóðs hafa náð í sínu starfi með þeim sem minnst mega sín í Íslensku samfélagi. Þetta er klárlega það besta sem verklýðshreyfingin hefur gert á þeim vettvangi. En við sem störfum út á vígvellinum með launamönnum skiljum reyndar æði oft ekki hvert sumir stjórnmálamenn eru að fara þegar þeir fara að blaðra um vinnumarkaðinn og stöðu launamanna. Þar upplýsa þeir okkur ansi oft um sitt fullkomna þekkingar- og skilningsleysi.