mánudagur, 30. júní 2008

Útúrsnúningar

Mikið óskaplega eru vinnubrögð manna sem vantar rök fyrir sínu máli alltaf fyrirsjáanleg. Nú er því haldið fram að Evrópusinnar hafa alltaf haldið því fram að 90% af reglugerðarverki Evrópuþings taki sjálfivirkt gildi hér á og þetta sé ekkert nema ómerkilegt blaður, eins og fullyrt var í Íslandi í dag í kvöld.

Ég minnist þess ekki að hafa heyrt eða séð þessa fullyrðingu. Ég man eftir að því hafi oft verið haldið fram að 80% af þeim reglugerðum Evrópuþingsins sem taki gildi í Danmörk, Svíþjóð og Finnlandi taki jafnframt gildi hér. Það segir ekkert um dálksentimetralengd þeirra eins og einn þingmanna Sjálfstæðisflokksins og helsti málssvari hans flutti lærðar ræður um, og skrifaði enn kostulegri greinar um í Moggann. Ástæða er að geta þess að þessi nágrannalönd okkar telja ekki að þar hafi farið fram valdaafsal, þvert á móti.

Því var líka haldið fram á sama stað af sama manni í Íslandinu í kvöld að Evrópusinnar hafi haldið því fram að 70% útflutningsviðskipta Íslendinga sé við ESB löndin og það sé ekkert nema þvaður, þess vegna komi dollarinn allt eins til greina.

Ég man ekki eftir því að nokkur Evrópusinni hafi haldið þessu fram. Það hefur ítrekað komið fram að það séu 60% þessara viðskipta, eða nákvæmar 60% af vöruútfluning og 40% af innflutning er til evrulanda. Útrás íslenskra fyrirtækja hefur beinst til Evrópu og þangað leiti langstærstur hluti íslendinga fari hann erlendis, hvort sem um nám eða leik er að ræða.

Mikill meirihluti íslendinga vill ekki lengur búa við það að íslenskir stjórnmálamenn þurfi ekki að vanda sig við efnahagstjórnina og geti leiðrétt mistök sín með því að sveifla genginu um allt að 40%. Þetta bitnar harkalega á launamönnum og eins fyrirtækjunum sem þeir vinna hjá. Þetta bitnar harðast á ungu fólki sem er að reyna að koma undir sig fótunum og leiðir til eignaupptöku hjá þeim sem minnst mega sín.

Við frábiðjum okkur þessa útúrsnúninga tiltekins hóps innan Sjálfstæðisflokksins og málssvara þeirra. Þessi hópur hræðist það að missa þau völd sem hann hefur á íslensku samfélagi. Íslendingar vilja stöðugleika, lægri vexti, lægra vörverð og möguleika til þess að geta greitt upp skuldir sínar á sama tíma og launamenn í nágrannalöndunum. Svo einfallt er það.

sunnudagur, 29. júní 2008

Nýr Moggi?


Morgunblaðið er einkar athyglisvert í dag. Er að koma fram nýr Moggi undir stjórn nýs ritstjóra? Ólafur gerði fína hluti með 24 stundum og bjó til mjög læsilegt blað. Í Morgunblaðinu í dag er ítarlegt viðtal við Jón Ásgeir um Baugsmálin og viðhorf hans. Ef þetta viðtal og þau sjónarmið sem þar eru hefðu verið birt í Fréttablaðinu, er næsta víst að tiltekinn hópur úr Flokknum hefðu rekið upp margendurtekin rammakvein sín um hvernig Baugsmiðlarnir eru misnotaðir af eigendum sínum. Landsmenn ættu að skilja hvers vegna þeir handahafar valdsins vildu setja lög sem stöðvaði svona málflutning.

Tilfinningar Jóns Ásgeirs eru ákflega skiljanlegar t.d. þegar hann rekur það hvernig börn hans og þá um leið vitanlega hann sjálfur, brugðust við þegar Kastljós allra landsmanna kallaði reglulega inn tiltekinn lögmann, sem þekktur er fyrir fylgispeki við tiltekinn hóp, sagði að Jón Ásgeri ætti yfir sér a.m.k 6 ára fangelsi. Þessi lögmaður fékk birtar innrammaðar greinar í Mogganum (gamla?) þar sem hann kallar alla þá sem ekki voru honum og tilteknum hópi í Flokknum sammála; Thalibana og lágkúrulegt vinstra lið.

Einnig er Reykjavíkurbréfið í dag athyglisvert. Þar er talinn ástæða til þess að minna á að Geir hafi réttilega sagt fyrir nokkru að einungis væru tveir kostir séu í stöðunni. Áframhaldandi sama efnahags- og peningastefna, eða Evra og ESB. Geir hefur marglýst því yfir að hann vilji halda áfram á sömu braut. Þrátt fyrir þá kjaraskerðingu sem hún hefir leitt yfir okkur. Höfundur Reykjavíkurbréfs gerir tilraun til þess að kippa Geir inn á rétt spor, eftir ferlegan afleik í viðtölum erlendis í þessari viku, sem er helsta grín þessarar viku. Valhallarvoffarnir hafa að venju rokið til og reynt að réttlæta þessi ummæli á síðum sínum.





Við eigum enga samleið með BNA, hvorki efnahagslega og þaðan af síður menningarlega. Upptaka evru mun auka efnahagslegan stöðugleika. Um 60% af vöruútfluning og 40% af innflutning er til evrulanda. Útrás íslenskra fyrirtækja hefur beinst þangað og þangað leitar langstærstur hluti íslendinga fari hann erlendis, hvort sem um nám eða leik er að ræða.

Annað sem gert er grín af í endurtekinni orðræðu Geirs og tiltekins hóps í Flokknum er að krónan gefi stjórnvöldum betra svigrúm til þess að tekast á við efnahagslegar sveiflur. Þetta endurteka forsætisráðherra og skoðanabræður hans í sífellu þrátt fyrir að það liggi fyrir að þessar efnahagslegu sveiflur væru ekki til staðar ef við tækjum skrefið til samstarfs við nágranna okkar. Norðurlöndin styðja okkur og þangað leitaði Geir til þess að fá yfirdráttarheimild í hjá Seðlabönkum þeirra og hann er að ræða við ESB um frekari stuðning.

Jón Ásgeir tekur undir það sem aðilar atvinnulífsins hafa margítrekað, að þeir sem standi í rekstri erlendis finni í dag fyrir því að vera íslendingar. Umtalið er neikvætt og við erum rúin trausti. Valdhafarnir hafa gert afdrifarík mistök við stjórn efnahagsmála og þeir fóru í gegnum síðustu kosningar á röngum forsendum. Króna var of hátt skrifuð til þess að fela raunstöðu. Hún er ekki samkeppnishæfur gjaldmiðill í nútíma samfélagi. Sama gildir um þau viðhorf sem Geir endurtekur. Þau passa ekki lengur, eru úrelt.

laugardagur, 28. júní 2008

Sérhyggja


Undanfarinn misseri hefur borið á hratt vaxandi áherslu íslenskra ráðamanna að kynna Ísland og skapa góða ímynd. Forseti lýðveldsins ásamt ráðherrum leggja meiri áherslu á ferðalög til að kynna sig en sinna verkefnum hér heima. Lögð er sérstök áhersla á hreina náttúru, hreina orku og hreint land. Það skiptir öllu að ímynd landsins sé góð algjörlega óháð því hvort einhver rök séu fyrir því eða ekki.

Hvert er stefnt og hverra hagsmuna er verið að gæta? T.d. hika kjörnir fulltrúar okkar ekki við að hnika til staðreyndum um hvernig þróunin hafi verið við þróun nýtingar heita vatnsins. Fyrirtæki í eigu almennings eru notuð til þess að skapa arð fyrir einstaklinga, en um leið er farið um veröldina og skrifað undir viljayfirlýsingar í nafni fyrirtækja í eigu almennings. Ef eitthvað skyggir á þessa ímyndarvinnu þá á að þegja yfir því. Fólk í útlöndum gæti farið að trúa málflutning Bjarkar og skoðanabræðra hennar, eins og Erna upplýsingafulltrúi Alcoa orðar það í grein sinni í Morgunblaðinu.

Reyndar er orðið ljóst að almenning er farið að blöskra. Fylgið hrapar í skoðanakönnunum og meiri hluti þjóðarinnar vill skýrari stefnu samfara hreinni nýtingu náttúruauðlinda landsins. Þessu var lofað fyrir síðustu kosningar en hefur ekki verið efnt. Skammtímalausnir ráða ríkjum, nauðhyggja. Nýfjrálshyggjustefnan hefur keyrt okkur upp að vegg. Hin sérstæða íslenska stefna, sem átti að vera svo stórkostleg, er hrunin. Hún hefur leitt yfir okkur stórkostlegar efnhagslegar þrengingar og það mun taka þjóðina mörg ár ef ekki áratugi að vinna sig út þeir skuldum sem þessi stefna hefur leitt yfir okkur.

Hún er svo óendanlega mikil mótsögnin í stefnu íslensku nýfrjálshyggjunnar þar sem postular hennar þrífast ekki án þess að sitja við stjórnvölinn og koma sér fyrir í öruggum ríkissætum með góðu aðgengi að ríkissjóð. Einkavæðingu til valinna vina. Mótsögnin birtist í einbeittri baráttu þeirra í að halda í það stjórnskipulag sem hér ríkti á síðustu öld og halda Íslandi utan þátttöku í ESB og samstarfi við nágrannalönd. Á sama tíma eru fluttar ræður á erlendum ráðstefnum um hið gagnstæða. Komið er í veg fyrir efnahagslegt sjálfstæðis með því að viðhalda oki ónýts gjaldmiðils.

Til þess að tryggja fjölgun atvinnutækifæra er ljóst að við þurfum að virkja, en þjóðin vill vera þátttakandi í þeirri ákvarðanatöku. Það er hægt að skapa mörg tækifæri með náttúrunni, en til þess þarf margfalt betra skipulag þjóðgarða. Þar duga ekki yfirlýsingar á opinberum vettvangi, þegar þeim fylgja engar framkvæmdir með friðun svæða á borð við Fjallabak, betra aðgegni, merktum leiðum og úthýsingu vélknúinna farartækja.

föstudagur, 27. júní 2008

Karlrembur

Hlustaði á viðtal þáttargerðarmanns á Rás 2 við konu sem hringdi inn til þess að fá miða á tónleika. Hún byrjaði samtalið á þeim orðum að karlmenn ættu að skammast sín, nú væru stelpurnar að komnar í öruggt umspil á EM og stefndu á að fara þangað milliliðalaust. Þær væru komnar í 17 sæti á heimslista. Ef karlalandslið okkar væru á þessum stað stæði ekki steinn yfir steini á pöbbum þessa lands. Í öllum útvarps- og spjallþáttum fjölmiðla ásamt kaffistofum vinnustaða væri allt undirlagt í umræðu um velgengni okkar.

Þetta er hárrétt hjá konunni og það mættu ekki nema 4.200 manns á völlinn til þess að sjá stelpurnar taka Grikkland í bakaríið 7 – 0. Þessa dagana er verið að spila auglýsingar frá kortafyrirtæki þar sem konur eru niðurlægðar á allan hugsanlegan hátt. Aðferð auglýsingfyrirtækja er algeng, konur kynntar sem heilalausar og viljalausar verur og karlinn segir henni fyrir verkum. Harla einkennilegt því á undanförnum árum hafa landsmenn ítrekað vilja sinn til þess að komast upp úr þessu fari, en á meðan viðhalda almannatengslafyrirtækin þessu viðhorfi af alefli.

Karlrembingurinn var allsráðandi hér á árum áður. Ofarlega er sagan úr Hrútafirði þar sem húsbóndinn á heimilinu lá rúmfastur í einhverri pest og sendi konuna með bréfsnifsi yfir ísilagðan fjörðinn til kaupfélagsstjórans á Borðeyri. Konan rétti kaupfélagsstjóranum miðann með úttektarbeiðni bóndans; „Ég kemst ekki sjálfur til þín til þess að slá úr nokkrum staupum með þér núna, svo ég sendi konuna og ég bið þig náðarsamlegast að láta hana hafa einn pott af brennivíni og smávegis af tóbaki. En þar sem ísinn á firðinum er svo ótraustur sendi ég ekki peninga með konunni og vænti þess að þú skrifir þetta hjá mér.“

Annað dæmi frá sömu slóðum er af lögreglumanni frá þorpi norðar sem þekktur var að leitast eftir því að koma lögum yfir okkur landsmenn og leitaði jafnvel alla leið suður á Holtavörðuheiði þar sem hann lá í felum bak hóla og hankaði sunnanmenn þegar þeir létu sjálfrennireiðar sínar renna glatt niður heiðina. Í þorpinu bjó gömul kona sem fór ætíð tvisvar í viku og alltaf á sama tíma á bifreið sinni 500 m. spottann út í kaupfélag til þess að ná sér í tvo potta af mjólk og annað til heimilishaldsins.

Ef hinn samviskusami lögreglumaður var á vakt og ekki suður á heiðum, þá fór hann af stöðinni skömmu áður en konan fór í þessa föstu innkaupatúra og faldi sig bakvið næsta húshorn við kaupfélagið og þegar konan ók hjá kveikti hann á blikkandi ljósunum og ók á eftir henni með æpandi sírenuna á inn á kaupfélagshlaðið þar sem hann tók hana fasta og sektaði fyrir að aka um án þess að festa bílbeltin. Einhverra hluta vegna tókst þessi uppeldisaðferð lögreglumannsins ekki betur en svo að honum tókst að ná af gömlu konunni allnokkrum 5 þúsund köllum.

Um leið og ég óska lesendum góðrar helgar þá finnst mér að við karlmenn og ekki síst þeir sem starfa í kynningarbransanum ættum að hugsa okkar gang. En tek mörgum sinnum ofan fyrir stelpunum okkar og óska þeim innilega til hamingju með glæsilegan árangur.

fimmtudagur, 26. júní 2008

Alvörumenn

Sífellt fleiri fyrirtæki og samtök fyrirtækja gefa út yfirlýsingar um að sú peningastefna sem hér sé fylgt gangi ekki. Það sé einfaldlega ekki hægt að reka fyrirtækin í því umhverfi sem þeir er boðin. Undirbúningur aðildar að ESB og upptaka Evru verði ekki lengur skotið á frest.

Þá kemur hreint út sagt kostulega yfirlýsing frá forsætisráðherra utan úr heimi um að hann sé á móti Evru og ESB, hann vilji frekar skoða Dollarann. Allt annað en Evru. Er Geir að tala í alvöru, eða er hér maður sem þorir ekki að leggja í ákvarðanir fyrri formanns? Eins og staðan er nú þá virðist það eina sem vakir fyrir þessum mönnum sé að halda í fyrri stjórnarhætti og þá valdastöðu sem þeir hafa tekið sér í íslensku samfélagi. Hagsmunir almennings og fyrirtækja skipta þá minna máli.

Við erum Evrópsk og viljum ekki vera á lista hinna stríðsglöðu ríkja. Við viljum ekki fá einhverja BNA útfærlsu á okkar samfélagi. Þetta hefur komið fram í hverri könnuninni á fætur annarri.

Þeir vilja viðhalda þeirri stöðu að geta skákað sjálfum sér í mikilvæg stjórnarsæti og höndlað með eigur almennings. Þessa dagana blasa við afleiðingar stjórnahátta þessara manna. Er nema von að fylgið hrynji?

Við höfum búið við einkennilegar yfirlýsingar frá valdhöfnum okkar utan úr heimi undanfarin misseri. T.d. helsta efnahagsráðgjafa Seðlabankans og fyrrverandi ríkisstjórnar um hina séríslensku stefnu sem gangi svo vel, íslendingar séu að leggja undir sig heiminn og undirstaða þess sé að lækka skatta á hinum hærra launuðu. Það sé fjármagnað með því að auka álögur á þá sem minna mega sín. Reyndar hefur hann hljótt um sig þessa dagana, leiktjöldin eru fallin.

Undanfarið hafa borist hingað heim upplýsingar um að um heimsbyggðina fari valdamikill íslenskur forseti. Hann hafi unnið sér það til frægðar að finna upp heita vatnið. Þessi maður brá sér þó heim og hélt ræðu í Kópavoginum um helgina það sem hann hrósaði sjálfum sér og fyrrverandi forsætisráðherra fyrir að hafa fundið upp Þjóðarsáttina. En til þess að koma því í framkvæmd þá plötuðu þeir verkalýðsforystuna og samtök atvinnurekenda upp úr skónum til þess að koma henna í kring.

Þessir menn búa til sjónvarpseríur um eigin afreksverk og kaupa þær af sjálfum sér fyrir mikið almanna fé og taka ákvarðanir um það í ríkisstofnunum sem þeir sjálfir stjórna um að sýna þær á besta tíma og halda þessum heimatilbúna sannleika að almenning í von um að hann trúi því.

Æi - er ekki hægt að gefa þessu fólki frí, þeir hafa líka búið að koma hlutunum þannig fyrir að ríkissjóður er skuldbundinn til þess að greiða þeim ofureftirlaun um aldur og ævi ofan á ritlaun og önnur laun.

miðvikudagur, 25. júní 2008

Úrræðaleysi

“Með því að hafa eigin gjaldmiðil búum við yfir sveigjanleika sem ekki gefst kostur á í myntsamstarfi,” sagði Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sem í morgun ávarpaði málþing fjárfesta í London. Með þessum orðum er forsætisráðherra að segja að hann ætli að halda áfram á þeirri leið sem hefur leitt yfir okkur það ástand sem við búum við og staðfestir úrræðaleysi ríkisstjórnarinnar.

Það liggur fyrir að það dugi vart minna en 1.000 milljarða til þess að koma í veg fyrir sveiflur krónunnar. Ríkissjóður botnskuldsettur sig vegna þessa og kostnaðurinn er gríðarlegur. Þá er ekki upp talinn allur sá kostnaður sem heimilin og fyrirtækin bera. Sá sveigjanleiki sem ríkisstjórnin vill hafa er að bjóða heimilunum og fyrirtækjunum upp á reglulegar 40% rússíbanaferðir gengis krónunnar.

Forsætisráðherra ler að lýsa því yfir að hann vilji viðhalda þeim stjórnarháttum að geta leiðrétt hagstjórnarmistök sín með því að fella laun í landinu og skella á atvinnuleysi á almennum vinnumarkaði. Allir helstu hagfræðingar þessa lands ásamt aðilum vinnumarkaðs hafa bent á að við núverandi aðstæður sé þessi efnhagsstefna óviðundandi. Hún hafi kannski gengið á síðustu öld þegar íslensk fyrirtæki voru minni. Ríkisstjórnin virðist ekki ráða við umræður um langtíma lausnir og það sem verra er skammtímalausnir hennar eru of litlar og koma ætíð of seint fram. Sem segir okkur að hún hefur ekki lausnir, en framkvæmir ætíð litlar skammtalækningar eftir utanaðkomandi þrýsting.

Að lokum þá ætla ég enn einu sinni að koma að Kastljósinu. Í kvöld kom þar fram af hálfu fulltrúa ríkisstjórnarinnar að það væri mikið samráð milli ríkisstjórnarinnar og samtaka launamanna, það eru ósannyndi. Ekkert samráð er þar á milli og hefur ekki verið undanfarna mánuði. Ég er hinni svokölluðu ASÍ forystu og þar hefur ekkert komið fram um eitthvað samráð, frekar hið gagnstæða.

Stjórnarþingmenn hafa oft leikið þann leik að kalla til sín fulltrúa launamanna á stutta fundi og tilkynna þeim hvað þeir ætli að gera. Síðan megum við una því að hlusta á yfirlýsingar þeirra í Kastljósinu og öðrum fréttatengdum þáttum að ríkisstjórnin hafi tekið viðkomandi ákvörðun í fullu samráði við samtök launamanna.

Það hefur nokkrum sinnum verið rætt innan forystu samtaka launamanna hvernig eigi að taka á þessu, það sé erfitt eða reyndar ómögulegt að neita að mæta á fundi ríkisstjórnarinnar. Á þeim fundum sé einhver von um að koma sjónarmiðum launamanna á framfæri, en það sé óþolandi að búa við þennan endurtekna og viðtekna skoillaleik stjórnarþingmanna.

þriðjudagur, 24. júní 2008

Þetta verður að stöðva

Skelfing eru sumir pirraðir yfir því að verið sé að fjalla um “óheppileg” mál. Sem tilteknir ráðherrar hafa kalla “dónaleg” og aðrir ráðherrar “offramboð á skoðunum”

Við eigum að meðtaka mótmælalaust þann boðskap sem tilreiddur er fyrir landsmenn í sjónvarpstöð allra landsmanna og prentfjölmiðlum. Og öllu draslinu er stjórnað af mönnum sem koma úr sama stjórnmálaflokki. Endurtekið heyrir maður sögur frá starfsmönnum um fréttir sem lenda undir stólnum því þær séu óheppilegar tilteknum skoðunum. Ítrekað hefur komið fram að á ritstjórnum stóru fjölmiðlana liggi með fréttir sem bútaðar eru niður og valdir kaflar birtir.

Þið hafið sér þorskinn sem liggur í straumnum og móttekur það sem að honum berst, japlar athugasemdalaust og horfir brostnum augum út í tómið. Ef almennur borgari vill bregða út af þessu hátterni þá er hann að “hrauna yfir fréttamenn.” Svo ég vitni til ummæli eins úr þeirra röðum, í einum þeirra pósta sem ég hef fengið með skömmum um hátterni mitt á þessari bloggsíðu. “Þú ert bara í pólistísku brambolti til það sinna þínum rassi.”

Í sama þætti var í gærkvöldi svo fyrirsjáanleg tilgangslaus og svo óendanlega innihaldslaus umræða um stöðu efnahagsmála í gærkvöldi. "Hjálpi okkur, aumingjans mennirnir", var amma vön að segja þegar hún heyrði einhverja rakalausa dellu hjá stjórnmálamönnunum.

Afsakið augnablik; en hér dettur fréttamaður í sömu gryfju og ég hef verið að gagnrýna, það er að skella fram fullyrðingu til þess eins að losna undan að svara óþægilegri spurningu og fá menn til fara í hina þekktu leið bandarískra repúblikana og margir þingmenn Flokksins hafa tileinkað sér; “Látið helvítin eyða tíma sínum í að afneita.”

Nú er svo komið að það eru jaðarmiðlar eins og tilteknar bloggsíður, sem koma fram með ítarlegri og betur framsetta gagnrýni á samfélagið en hinir dauðhreinsuðu fjölmiðlar. Gott dæmi er að ASÍ heldur úti öflugri Neytendavakt, ekki fjölmiðlar. Meira að segja Dr. Gunni slær út stærstu fjölmiðlana með lítilli netsíðu.

Eða þá mál SÁÁ um fullyrðingar um tiltekna þingmenn í tilteknum flokki sem afgreiddu málið í samræmi við eigin hagsmuni. Eða þá gagnrýni hagfræðinga ASÍ á efnahagsstefnuna á undanförnum árum. Allt, hvert einasta atriði; sem þar hefur verið sett fram hefur reynst rétt. Ekki eitt einasta atriði í mótmælum stjórnarþingmanna hefur staðist, ekkert.

Sjáið þið til lesendur góðir, á næstu misserum mun eiga sér stað niðurskurður á fjölmiðlum, þar er ég að vitna til orða Ara Edwald í tengslum við afskráningu 365. Það stendur til er verið að tala um að leggja niður 24 stundir og sameina prentsmiðjur Mogga og Fréttablaðsins. Þá verðum við kominn á sama stað og við vorum fyrir nokkru þegar Mogginn var einn. Þegar útgáfa Fréttablaðsins hófst, átti að stöðva hana með Fjölmiðlalögunum sakir þess hversu óþægilegt það var að geta ekki stjórnað umræðunni. En þegar það tókst ekki, þá var farinn önnur leið og hún er að takast og ekki má rannsaka hana.

Það eru blikur á lofti stóru fjölmiðlanna. En svo er ekki fyrir jaðarmiðla. Hið sértæka er miklu áhugaverðara, á meðan fjalla stóru breiðu miðlarnir um allt og ekkert og sleppa því sem er óheppilegt fyrir kjörkassana. Eins og einn ráðherra hrópaði taugaveiklaður úr ræðustól Alþingis og veifaði Fréttablaðinu; “Þetta varð næstum til þess að við töpuðum síðustu kosningum.”

Og forsvarsmenn Flokksins ásamt útvöldum fréttamönnum stynja undan offramboði af óheppilegum skoðunum á bloggsíðunum. Skyldi ekki vera hægt að sótthreinsa síðurnar? Hmm þetta gengur ekki.

mánudagur, 23. júní 2008

Endalausar "Akkuru" spurningar

Hvers vegna hrapar Sjálfstæðisflokkurinn í fylgi? Það er vegna utanaðkomandi efnahagsvanda sem við eigum engan þátt í, er svar Flokksins. En við vitum að það á sér enga stoð í veruleikanum. Vextir hér eru mun hærri en annarsstaðar, sama gildir um vöruverð, vexti og verðbólgu. Úrræðaleysi og vandræðagangur blasir við okkur.

Sá veruleiki sem haldið hefur verið að okkur er rangur. Hér væri allt í lukkunar velstandi og einstakur efnahagsuppgangur, en í ljós er komið að það var ekki rétt. Þessi vinnubrögð endurspeglast svo vel í Hannesarmálum. Hann er ráðinn til Háskólans á öðrum forsendum en aðrir. Það er varið af Flokknum út það óendanlega þó Hanens þverbrjóti allar reglur um vinnubrögð. Ég hef nýlega lokið námi við Háskólann á Akureyri og við vorum alltaf tekin á beinið ef verkefnin sem við skiluðum voru ekki samkvæmt settum reglum.

Af hverju eru reglur um rangstöðu? Á hún bara að gilda fyrir fótboltalið sem eru Flokknum þóknanleg?

Sjálfstæðismenn eru með sífellt nöldur um að reglur séu of stífar og forsjárhygggja sé of rík í íslensku samfélagi. Hér ríki ekki nægilega mikið frelsi. En á sama tíma þá stjórna þeir RÚV og öll vitum við að þeir munu aldrei sleppa þeim tökum og aldrei munu þeir loka. En þeir vilja hafa hönd á því hvað fer þar fram og hverju er útvarpað og hvaða sjónvarpsþættir eru keyptir og sýndir á besta tíma. Á sama tíma og þeir flytja þessar ræður margfaldast umfang hins opinbera undir þeirra stjórn.

Flokkurinn gekk þvert á settar reglur við ráðningar dómara. Flokkurinn reyndi að setja lög sem skertu tjáningarfrelsi. Gerð var aðför að forsetanum þegar hann fór að stjórnarskrá og ákvað að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu.

Í gangi eru á kostnað ríkisins árum saman mikil réttarhöld og rannsóknardómar gegn fólki sem ekki eru þeim þóknanleg. Í ljós kom að 90% atriðanna voru uppspuni. Á meðan sigla fram hjá dómsölum alvarlegar ásakanir um sölur á eignum almennings til einstaklinga sem eru Flokknum þóknanlegir, en Flokkurinn neitar að láta skoða hvað hafi orðið til þess að aðför var gerð að þessari fjölskyldu. Og Flokkurinn krefst þess að það sé þagað um þetta mál, það megi ekki fjalla um það. Og þögn Kastjósins æpir á okkur.

Vilji fólk fá svör við spurningum, þá er svör Flokksins að spurningarnar séu óviðeigandi, dónalegar, upphrópanir eða fleira í þeim dúr. Einu svörin innihalda staðhæfingar sem koma málinu ekkert við

Þið eruð alltaf með þetta „Akkuru? Akkuru? Akkuru?“ Kommar, leiðinlegir, illgjarnt vinstra lið og fleira í þeim dúr. Ekki eitt einasta rökstutt svar. Þetta er ástæðurnar fyrir því að ég fór frá Flokknum og það eru greinilega fleiri á sömu skoðun.

sunnudagur, 22. júní 2008

Greinar Svans

Alveg er hann dæmigerður málflutningurinn vegna greina Svans um Hannes Hólmstein. Þar rekur Svanur um hvernig Hannes var ráðinn til Háskólans og sýnir fram á að það hafi verið pólitískar skoðanir Hannesar réðu ráðningu hans ekki hæfileikar. Einnig kemur Svanur að þeim staðreyndum sem hafa verið staðfestar fyrir dómi að Hannes hafi ekki farið að settum akademískum reglum hvað varðar ritun texta og eignað sér texta sem hann átti ekki.

Samkvæmt akademískum reglum átti Hannes að segja af sér eða Háskólaráð að víkja honum. En það hafi ekki verið gert og er ekki í lagi eins og Svanur bendir réttilega á. Ástæða greina Svans er mjög líklega ótti hans, eins og svo margra annarra, að lagabreytingar sem Flokkurinn hefur rutt í gegn sé undanfari fleiri sambærilegra “ráðninga“. Þar höfum við nokkur dæmi eins og ráðningu héraðsdómara og tveggja hæstaréttardómara. Flokkurinn sé að tryggja völd sín á þjóðfélaginu.

Hannes hefur einnig, eins og margoft hefur komið fram, verið harkalega gagnrýndur fyrir að hafa farið rangt með í sjónvarpsþáttum sem hann gerði. Þar hafi hann sniðgengið samtök launamanna og eins kvennabaráttu, en eigni Flokknum í stað þess allt sem þessi samtök náðu fram á síðustu öld stundum með langvinnum verkföllum í andstöðu Flokksins. Það hefur verið gagnrýnt að Flokkurinn hefði séð til þess að þessi sjónvarpsséría var keypt fyrir miklar fjárhæðir og sýnd á besta tíma í ríkissjónvarpinu. Til þess að bæta enn frekar fyrir skömmina var serían líka keypt og send í alla barnaskóla landsins!!

Hannes hefur á undanförnum árum ausið óhróðri í blaðagreinum yfir aðra háskólaprófessora og m.a. uppnefnt þá sem einhver Dyrhólagympi eða hvað það nú var, því þeir voguðu sér að benda á að sú efnahagsstefna sem Flokkurinn stæði fyrir hefði aukið misskiptingu og valdið aukinni skattbyrði á þeim sem minna mega sín og eignatilfærslum til þeirra sem meira hefðu milli handanna. Í því sambandi hefur verið gagnrýnt að Flokkurinn hafi skipað Hannes í stjórn Seðlabankans. Þessi gagnrýni hefur fengið staðfestingu í vetur og sé þáttur í þeim efnahagsmistökum sem valda þeim óförum sem við erum að ganga í gegnum.

En sumum finnst nægilegt að svara þessum ábendingum með því einu að Svanur sé einhver Kommi, hrútleiðinlegur og fleira í þeim dúr. Hvað kemur það málinu við? Mér hefur reyndar skilist að það Svanur sé ekki Kommi. Hann sé á svipuðum slóðum og ég, það er að segja hafa verið stuðningsmaður Flokksins. En það þýðir reyndar ekki að það sé hægt að styðja framangreint.

Eins einkennilegt og það nú er þá kemur fram í vörnum viðkomandi á Hannesi og athöfnum hans, að verið sé að ráðast Hannesi af þeim ástæðum einum hann sé frjálshyggjumaður og engin önnur rök hafi komið fram. En í næstu setningu afgreiða þeir hinir sömu málflutning Svans og skoðanbræðra hans út af borðinu með þeim „rökum“ einum að hann sé bara Kommi eða einhver úr vinstra liðinu og telja sig þar með hafa sett fram nægileg „gagnrök“.

Af framantöldu sést glögglega að málið snýst ekki um hvort Hannes sé frjálshyggjumaður eða ekki, það eru athafnir hans og tiltekinna ráðamanna Flokksins sem verið er að gagnrýna. Það gera jafnt menn sem eru Kommar, í einhverju vinstra liði, Sjálfstæðisflokki eða fyrrverandi stuðningsmenn þess flokks og standa utanflokka.

Greinar Svans eru skyldulesning og ætti að lesa þær upp á sama sýningartíma í Sjónvarpinu og sería Hannesar var sýnd á og eins ætti menntamálaráðherra að kaupa þær og senda í alla barnaskóla landsins.

laugardagur, 21. júní 2008

Tjaldbúðalíf

Er einn þeirra sem hef allt frá því að vera unglingur haft mikla unun af því að fara út í náttúruna með tjald, svefnpoka og nesti. Sef oftast um það bil um 30 nætur í tjaldi/fellihýsi á hverju sumri. Græjurnar orðið umfangsmeiri með árunum. Skipti frá Tjaldborgartjaldi yfir í tjald vagn fyrir um það bil 14 árum og svo yfir í fellihýsi fyrir 6 árum. Lagfæringar á undirvagni gera það að verkum að hin gríðarleg bylting og þægindi fylgja manni til fjalla.

En þær græjur komast ekki með í gönguferðirnar. Það jafnast fátt við að setja pokann á bakið fara í góða sokka og skó labba eitthvað, bara eitthvað og skoða. Skiptir ekki hvort það sé steinn, blóm, fjall eða vatn. Átta mig ekki á húsvögnunum, svo heftandi hvert maður kemst og hvenær hægt að er fara um, en það skiptir ekki máli. Reyndar ömurlegt að vera nánast ekinn niður af torfæruhjólum og ekki síður hin mikla hljóðmengun sem þeim fylgir.

Öll börnin mín ólust við þetta „ástand“ og hafa viðhaldið því með sínum mökum og börnum. Það sem gerir Ísland sérstakt er að það er hægt að fara um stór svæði án þess að vera innan umfangsmikil mannvirki. Það er grunnur þeirrar náttúrverndarstefnu sem maður aðhyllist. Við byggjum ekki upp landið án þess að virkja og skapa fleiri störf fyrir vaxandi mannfjölda. En við getum auðveldlega ákveðið að láta ákveðin svæði vera ósnert en halda áfram þar sem búið er að raska.

Snjóalög valda því að enn ekki er búið að opna leiðir um Torfajökulssvæðið. Svo ég ligg nú efst í Þjórsárdalnum með Hekluna og Búrfellið við fortjaldið. Fjallabakið er enn ósnert og í því liggja gríðarleg verðmæti. En þar eru líka gríðarlega miklar orkulindir, en það væru skelfileg mistök ef við tækjum við að virkja þær. Átta mig ekki á hverju það breytir að reysa fleiri virkjanir í Þjórsá á svæði sem búið er að snúa við með túnum og öðrum mannvirkjum.

Fátt jafnast við samveruna með góðum vinum á kvöldin fyrir framan tjöldin við grillin við krufningu á mannlífinu í gegnum rauðglóandi birtuna frá rauðvíninu. Nú er skoðun Eyjunnar möguleg í gegnum „punginn“ og taka veðurhæðina í bloggheimum.

föstudagur, 20. júní 2008

Til hamingju Jóhanna og Ingibjörg

Loksins tókst að fá Sjálfstæðiflokkinn til þess að taka á vandanum. Til hamingju Jóhanna og Ingibjörg.

Bankarnir ásamt hægri kanti Sjálfstæðisflokksins gerðu skipulagða aðför að Íbúðarlánasjóði, með skelfilegum afleiðingum fyrir efnahagslífið.

Sömu aðilar gerðu svipaða aðför að lífeyriskerfinu fyrir nokkrum árum, en með sameinuðu átaki aðila vinnumarkaðs tókst að afstýra þeirri árás. Lífeyrissjóðirnir hafa verið undirstaða vaxtar í atvinnulífinu á undanförnum áratug. Nú er Íbúðalánasjóður bjargvætturinn og staða hans styrkt, sem betur fer.

Hvað skyldu útrásardrengirnir vera búnir að valda miklum skaða ef allt væri nú talið?
Fyrirtæki sem áttu góða varasjóði standa nú skjálfandi út í kuldanum skuldsett upp í topp.

Hvert er leitað? Í sjóði almennings, lífeyrissjóðina og íbúðarlánasjóð.

Muna menn eftir ræðunum (og ræðumönnunum) í fyrra og hittifyrra um hin ævintýralega séríslenska uppgang og hvað stæði að baki hans að þeirra mati?

fimmtudagur, 19. júní 2008

Botninum er náð?

Forsætisráðherra hefur ásamt sínu fólki haldið því fram nokkrum sinnum á undanförnum mánuðum að „Botninum sé náð“. Hann ásamt samráðherrum brugðust illa við dökkum spám OECD og aðila vinnumarkaðs og sögðu að þær kæmu þeim á óvart. Margir veltu því fyrir sér hvort ráðherrar væru með þessum yfirlýsingum að staðfesta það sem margir höfðu haldið fram að þeir hefðu ekki gert sér nokkurra grein fyrir hvernig efnahagsástandið væri. Lifðu ennþá í þeirri draumveröld sem þeir hafa haldið að okkur og kynntu í litprentuðum bæklingum í kosningabaráttunni í fyrra.

Ráðherrar hafa nokkrum sinnum sagt að í gangi sé samráð við aðila vinnumarkaðs. Það er ekki rétt, ekkert samráð er í gangi. Hagfræðingar atvinnulífs hafa í allan vetur spáð því að botninum verði fyrst náð næsta vetur. "Úrræðaleysi ríkisstjórnar er algjört" segja hagfræðingar aðila vinnumarkaðs, eftir að hafa mætt á 2 fundi með ríkisstjórn frá áramótum.

Greiningaraðilar efnahagslífs segja að sá litli bati sem var komin af stað hafi hrokkið tilbaka og við sokkið enn dýpra vegna aðgerðaleysis ríkisstjórnar. Ráðherra settu enn nipur er þeir fóru að hrósa sér fyrir sigra sakir þess að þeim hefði tekist að draga lántökur. Ríkisstjórnin hefur valið langdýrustu leiðina. Leið sem bitnar á harðast fyrirtækjum, atvinnuástandi og heimilunum.

Ráðherrar verða með degi hverjum úrillari og hreyta ónotum í þá sem vilja ræða þessi mál. „Við þurfum enga hvatningu“. „Dónaskapur“ að vera með athugasemdir um efnhagsástandið segja ráðherrar. „Eftiráspekingar“ heyrist úr Svörtu loftum frá höfundum hinna miklu efnahagsmistaka sem við erum að upplifa þessa dagana.

Það blasir við að sú glæsta mynd sem „efnhagspekingarnir“ og ráðherrarnir héldu að okkur var falsmynd. Þeir hrósuðu sér að hafa skapað eitthvað sérstakt og rituðu raðgreinar um það í blöðum og snéru útúr athugasemdum hagfræðinga atvinnulífsins og prófessora Háskólans. Enn einu sinni er komið í ljós að þær athugasemdir sem hagdeildir aðila vinnumarkaðs settu fram við málflutning stjórnvalda voru réttar.

Margir héldu því fram að hluti af efnahagsmistökunum hafi verið skattalækkanirnar, sem hafi aukið ennfrekar á þennsluna. Á það var bent að ríkið hefði í raun ekki haft efni á þessu. Skattalækkanir hafi verið gerðar í skjóli gríðarlegs innflutnings á fjármagni vegna mikilla framkvæmda fyrir austan og sölu á eigum ríkisins. Þegar um hægðist myndi koma fram að tekjur ríkissins myndu ekki duga fyrir rekstri þess þjóðfélags sem við viljum búa okkur. Það myndi kalla á óvinsælar skattahækkanir. Nú er einnig komið fram að þessar athugasemdir voru réttar sé litið til nýrra upplýsinga frá Viðskiptaráði um gríðarlega þennslu hins opinbera.

„Efnhagsspekingarnir“ eru komnir með íslenska efnahagskerfið á nákvæmlega sama stað og það er statt í BNA. Þegar íslensku repúblikanarnir hrökklast frá verður íslenska samfélagið komið alllangt frá hinu norræna samfélagi. Við taka demókratarnir og hefja uppbyggingu, á meðan agnúast repúblikanar út í skatta og eyðslu hins opinbera. Á grunni þess komast repúblikanarnir aftur til valda og taka við góðu búi og selja allt sem hönd á festir og lækka skatta, sem bitnar á þeim sem minna mega sín en eykur eignastöðu þeirra sem best hafa það.

miðvikudagur, 18. júní 2008

Tvískinnungur ráðherra í náttúruvernd


Litli sæti Bjössi er svangur núna



Það er auðvelt að gefa út yfirlýsingar um að villt dýr eigi að lifa, það er að segja ef þau eru bara einhversstaðar annarsstaðar, t.d. norður í landi fjarri kaffihúsunum hér á höfuborgarsvæðinu. Svona dýr eiga að halda sig þar sem eru fáir bóndabæir eða eitthvað svoleiðis. Ef bændur sem þar búi vilji ekki hafa bjarndýr í túninu sem éti upp framfærslu þeirra og valdi því að fólk sé í stofufangelsi á heimili þeirra, eru þeir villimenn sem eru á móti náttúruvernd.

Fólk krefst þess að atvinnuástand sé gott og kaupmáttur vaxi. Verðbólga og vextir séu á svipuðu róli og í nágrannalöndum, en það má ekki endurskoða efnahagsstefnuna. Sumir ráðherrar fara suður á Reykjanes og taka þar skóflustungu fyrir álveri, en aka svo að því loknu austur að Þjórsá og mótmæla að þar verði virkjað. En fyrir liggur að þær virkjanir þar eru forsenda álversins.

Forsvarsmenn bankanna vilja virkja og flytja orkuna út. Til þess að það borgi sig að flytja út orku þá þarf að virkja mikið, mjög mikið. Þar hefur verið nefnd virkjun af svipaðri stærð og Kárahnjúkavirkjun. Í þeirri áætlun er gert ráð fyrir að flytja Jökulsá á Fjöllum í Arnardal og veita henni þaðan austur á Hérað til virkjunar. Sem m.a. myndi þýða að Dettifoss yrði túristaspræna. Þegar búið er að reisa eina virkjun skapar hún ein útaf fyrir sig örfá störf en störfin verða til þar sem orkan er nýtt.

Ríkisstjórnir undanfarinna ára hafa í engu sinnt að stuðla að byggja upp úrvinnsluiðnað og skapa hér aðstöðu fyrir sprotafyrirtæki samhliða uppbyggingu þeirra álvera. Tvískinnungurinn er hér alsráðandi eins og í svo mörgu öðru, fluttar eru ræður um þessa uppbyggingu en í raun ekkert gert. Ríkisstjórnir undanfarinna ára hafa einvörðungu hugsað um að viðhalda völdum þeirra sem að henni standa.

Ef rétt umhverfi er skapað dafna sprotafyrirtækin. Þetta sjáum við svo vel hjá Dönum, Finnum og Írum eftir að þeir gengu í ESB. Ef þessu hefði verið sinnt hér þá hefði ekki verið svona mikil þörf á að halda áfram á stóriðjubrautinni. Ráðherrar okkar hafa hliðrað sér við að skapa þetta umhverfi. Á þetta hafa forsvarsmenn hátæknifyrirtækja Össurs, Flögu, Marel, Hampiðjunnar og fleiri ítrekað bent á. Þessi fyrirtæki geti ekki lifað af það efnahagsástand sem ríkisstjórnir undanfarinna ára viðhaldi. Þau hafa nú þegar flutt hluta af sinni starfsemi erlendis og sjá sína framtíð þar og eru komnir með Evru.

Með núverandi efnahagsstefna verðum við aldrei neitt annað er stóriðjuland. Einu fjárfestarnir sem koma hingað eru þeir sem vilja fjárfesta í álverum. Og bankarnir nýta sér einnig þetta ástand til þess að spila á krónuna.

Fara nú ekki að koma þeir tímar að við fáum alvöru stjórnmálamenn? Ráðaleysi og tvískinnungur þeirra sem við höfum nú er niðurlægjandi.

mánudagur, 16. júní 2008

Atvinnuleysi er grafalvarlegt mál

Hlustaði á umræður tveggja manna undir stjórn hins þriðja, sem er vinsæll þáttagerðarmaður. Þeir ræddu um atvinnuástandið á föstudaginn í síðdegisútvarpinu á Rás 2 og veltu fyrir sér tillögum aðila vinnumarkaðs um vinnuaflsfrekar framkvæmdir. Umræður þeirra snérust um hvort lagt væri til að fá fólk til þess að setjast niður og prjóna stórar peysur eða parkera vinnuvélum og fá launamönnum í stað þess skóflur og því fylgdu nokkrir aulabrandarar um störf og stöðu fólks á bygginga- og verktakamarkaði.

Þarna voru að tala saman 3 opinberir starfsmenn, sem gerðu grín að stöðu þeirra sem horfast í augu við það þessa dagana að missa jafnvel vinnuna á næstunni. Eins og landsmönnum er kunnugt um, kannski fyrir utan þessa 3, að það liggja fyrir spár um 6 – 8% atvinnuleysi þegar líður á þetta ár. Það muni bitna á almennum vinnumarkaði ekki hinum opinbera, og mun í raun þýða um 15% atvinnuleysi í vissum geirum á almennum vinnumarkaði.

Það er ótti í starfsfólki á þessum markaði og skildi ekki nokkurn undra. Fyrirtækin fá ekki rekstrarlán frá bönkunum og það hefur fljótvirk keðjuáhrif.

Forsvarsmenn aðila vinnumarkaðs hafa bent á að nú ætti hið opinbera og sveitarfélögin að setja fjármuni í viðhald opinberrabygginga, enda sé ekki vanþörf á í mörgum tilfellum. En það er nú svo að alloft hafa stjórnmálamenn nýtt sér þessa stöðu til þess að skella sér í einhverjar vegaframkvæmdir í heimakjördæmum ef tækifæri skapast til þess að fá aukaaur til framkæmda. Þannig framkvæmdir framkalla fá störf, mun færri en sömu upphæðir myndu skapa í viðhaldi byggingu eða nýbygginga. Þetta vita allir á hinum almenna vinnumarkaði og skilja vel, en það virðist vefjast fyrir þessum tilteknu opinberu starfsmönnum.

Verð að viðurkenna að ég hef ekki smekk fyrir svona bröndurum þar sem gantast er með lífsviðurværi annarra í skjóli þess að viðkomandi þykist öruggur. Þetta gæti kannski gengið upp í Svalbarða og Spaugstofunni, en ekki hjá Útvarpi allra landsmanna í fréttaskýringaþætti sem vill láta taka sig alvarlega. Þá á ég vitanlega sérstaklega við þáttagerðamanninn. Hinir geta vitanlega haldið sig við sína venjubundnu aulabrandara á kostnað annarra.

sunnudagur, 15. júní 2008

Stakir frídagar

Ég setti fram fyrir nokkrum árum pælingar um hvort ekki sé ástæða til þess endurskoða frídaga á Íslandi og taka upp svipaða hætti að þekkjast í flestum nágrannaríkjum okkar. Það er að færa staka frídaga að helgum og eins að ef frídagar lenda inn á helgum komi í stað þess frídagur mánudag eftir helgi.

Setti upp pistil hér á síðunni 1. maí síðastliðinn, en þá féllu saman tveir frídagar, uppstigningardagur og 1. maí. Stakir frídagar í miðri viku eru fyrirtækjum mjög óhagkvæmir, lélegar mætingar, veikindi eða annað. Einnig óhagkvæmt að keyra framleiðslu niður í miðri viku og svo upp aftur í sömu vikunni.

Tillagan snérist um að fimmtudagsfrídagarnir sumardagurinn fyrsti og uppstigningardagur væru nýttir til þess að mynda langa helgi að sumri í kringum þjóðhátíðardaginn. Eins og t.d. nú þá er 17. júní á þriðjudegi þá væri innlagður frídagur tekinn út á mánudeginum 16. júní og fólk fengi 4 daga helgi.

Næsta ár er 17. júní á miðvikudegi þá væru innlagðir frídagar teknir út á fimmtudag 18. og föstudag 19. júní og þá væri 5 daga fríhelgi. Árið þar á eftir er 17. júní á fimmtudegi og þá er frídagur tekinn út á föstudegi. Þegar 17. júní lendir inn á helgi þá er frídagur tekinn út á mánudeginum.

Þetta kerfi gengur upp á 7 árum og þetta kostar atvinnulífið ekki aukafrídaga og launamönnum myndu nýtast þessir frídagar mun betur. En þetta er ekki framkvæmanlegt nema að þetta gangi yfir allan vinnumarkaðinn ásamt skólakerfinu.

föstudagur, 13. júní 2008

Meira um ofurlaun

Það er fínt að hafa opið fyrir athugsemdir við pistlana. Oft koma fram góðir punktar sem manni hafa yfirsést og bæta innlegg pistilsins. En stundum koma líka athugasemdir sem maður áttar sig ekki á. Þær hafa í raun ekkert með innlegg pistilsins að gera.

Ágæt dæmi þar um eru athugasemdir sem komu við pistilinn um ofurlaun. Þar er ég að gera athugasemdir við að ákveðnir stjórnendur nýta sér aðstöðu sína til þess að hrifsa til sín umtalsverðan hluta af arði áður en hann kemur til skila til þeirra sem eiga í raun fjármagnið sem verið er að spila með. En það er eins einhverjir vilji taka á sig skömmina og rembast við að afsaka sig með því koma einhverri sök á Samfylkinguna og eitthvert vinstra lið (hvað sem það nú er) með því þeir séu að hygla sjálfum sér og vinum sínum. Ef svo er þá er það vitanlega ekki í lagi, en það afsakar ekkert þetta athæfi forstjóranna og er í raun ekkert annað en þessi margumtalaða smjörklípa. Í þessu sambandi má benda á að ég er búinn að skrifa ótalda pistla þar sem ég hef gagnrýnt sjálftöku stjórnmálamanna.

Einnig hef ég séð í sambandi við þessa gagnrýni aðdróttanir um að laun verkalýðsforkólfana séu engu betri. Það er í sjálfu sér það sama ef þau eru ekki lagi þá er það vitanlega gagnrýnisvert en hefur ekkert með réttmæti ofurlauna forstjóranna að gera. Reyndar má benda þeim hinum sömu að upplýsingar um laun flestra helstu verkalýðsforkólfa þessa lands eru í Tekjublaðinu umtalaða, sem frjálshyggjumenn vilja banna. Laun þeirra eru í grend við þingfararkaup, en þeir hafa aftur á móti ekki samskonar lífeyrisréttindi og önnur gæði sem þingmenn hafa tekið sér og samsvara allt að 40% tekjuauka.

En talandi um ofurlaun þá vil ég endilega benda öllum á nýútkomna bók um sem fjallar meðal annars um þessi mál og fór beint í fyrsta sæti á metsölulista Eymundsson yfir ævisögur/handbækur - fjórða sæti á aðallistanum... Það er bókin um karlinn, Warren Buffett, sem er allt öðruvísi en aðrir kapítalistar (sérstaklega á Íslandi)

Lesið þessa bók... hún er æðisleg...Hér eru smá brot úr henni :

Fégræðgi forstjóra og hjarðeðli
Í bréfi sínu til hluthafa árið 2001 skrifaði Buffett: „Ég og Charlie fyllumst viðbjóði á því ástandi sem viðgengist hefur undanfarin ár. Á sama tíma og hluthafar hafa tapað milljörðum hafa forstjórar, framkvæmdastjórar og aðrir háttsettir einstaklingar sem fóstruðu þessar hörmungar, gengið frá borði með fúlgur fjár. Reyndar hefur það oftsinnis gerst að hinir sömu hvöttu aðra til að fjárfesta í fyrirtækjum sínum á meðan þeir seldu sín eigin bréf og beittu jafnvel klækjum til að fela slóðina. Þeir líta á hluthafa sem ginningarfífl en ekki félaga ... Það virðist enginn skortur á slíkri svívirðu innan bandarísks viðskiptaheims."(24)

Bókhaldshneyksli undanfarinna ára hafa hringt viðvörunarbjöllum víðsvegar um Bandaríkin og reyndar um allan heim. Sérstaklega hjá þeim sem höfðu lagt fé í söfnunarreikninga eða lífeyrisreikninga innan fyrirtækja. Hluthafar hófu upp raust sína og spurðu spurninga þess eðlis hvort fyrirtæki þeirra stæðu vörð um hagsmuni eigendanna og væri stjórnað með heiðarleik og gagnsæi að leiðarljósi. Í kjölfarið komu alvarlegir misbrestir kerfisins í ljós. Forstjórar og aðrir stjórnendur fá ofurhá laun en nota á sama tíma peninga fyrirtækjanna í einkaþotur og oflátungslegar veislur. Undirmenn þeirra gerast ennfremur sekir um að kvitta upp á allar ákvarðanir sem stjórnendur þeirra taka, hversu ógáfulegar sem þær kunna að vera. Það virðist sem enginn forstjóri geti staðist freistingu hins ofurljúfa lífs sem hinir forstjórarnir njóta. Þetta er hjarðhegðun í sinni verstu mynd.

Buffett telur lítið hafa áunnist til að koma í veg fyrir þessa hegðun. Í bréfi sínu til hluthafa tveimur árum síðar tekur hann ærlega á því sem hann kallar „græðgifaraldurinn." Hann skrifar: „Óhóflegar þóknanir stjórnenda hafa stigmagnast undanfarinn áratug í formi launauppbóta sem hinir allra, allra gráðugustu fengu. Um þessi „heiðurssæti" var gífurleg samkeppni svo þetta hátterni var skjótt hermt eftir á öðrum stöðum.

Kaupréttarsamningar
Til viðbótar þessum ofurlaunum er æðstu stjórnendum kauphallarfyrirtækja venjulega úthlutað kaupréttum að hlutabréfum á ákveðnu gengi. Oft eru kaupréttirnir tengdir ákveðinni lágmarksframmistöðu fyrirtækisins – en sjaldnast frammistöðu stjórnandans sjálfs.

Þetta stríðir algerlega gegn hugsjónum Buffetts. Þegar kaupréttarsamningar eru veittir í allar áttir leiðir það til þess að stjórnendum sem reynast undir meðallagi góðir er gert jafnhátt undir höfði og þeim sem reynast með afbrigðum vel. Samkvæmt Buffett borgar maður ekki varamanni á bekk jafn vel og markakónginum.

Jafnvel þótt litið sé á kaupréttarsamninga sem réttmætan hlut í úthlutun þóknunar til stjórnenda hvetur Buffett til þess að gefa því gætur hvernig þeir eru settir fram í ársreikningum hlutafélaga. Hann telur að líta beri á þá sem útgjöld svo áhrif þeirra á hagnað fyrirtækisins séu augljós. Þetta viðhorf virðist óumdeilanlegt, en því miður lítur fjöldi fyrirtækja málið ekki sömu augum.

Buffett telur þetta viðhorf endurspegla almenna viðurkenningu á ofurlaunum. Í bréfi til hluthafa Berkshire árið 2003 skrifar hann: „Þegar forstjórar koma fram fyrir launanefndir mun önnur hlið samningaborðsins – hlið forstjóranna – hafa mun meira vægi í tengslum við það hvernig samningar nást. Forstjórinn mun alltaf sjá gífurlega stóran mun á því að fá kauprétt fyrir 100.000 hluti eða 500.000. Fyrir launanefndina er munurinn ekki svo stórvægilegur, sérstaklega þegar tillit er tekið til þess, eins og reyndin hefur verið hjá mörgum fyrirtækjum, að munurinn hefur engin áhrif á bókfærðan hagnað. Undir slíkum kringumstæðum munu fjármunirnir fá yfirbragð leikpeninga."(26)

fimmtudagur, 12. júní 2008

Fjármálasnillingar á ofurlaunum

Ég hef nokkrum sinnum velt upp hrifsun ákveðinna stjórenda á arði áður en hann kemur til skiptingar hjá hluthöfum. Þessri menn eru að greiða sjálfum sér laun sem eru frá um 200 föld árslaun verkamanna eins og stjórnendur Kaupþings eru að greiða sér. Það tók stjórnanda Kaupþings frá áramótum til 10. marz á þessu ári að vinna sér inn ævitekjur verkamanns. Stjórnendur Glitnis greiða sér 150 föld meðallaun verkamanna, en síðan er fall Landsbankinn greiðir „einungis“ 40 föld. Margir hljóta að velta fyrir sér með tilliti til frétta undanfarinna hversu miklir „fjármálasnillingar“ séu þarna á ferð. Fá þeir launalækkun nú eða verður þeim gert að endurgreiða til hluthafa.

Skýring á þessari hrifsun er fjarlægð eigenda. Stærsti hluti hlutabréfa í skráðum hlutafélögum er ekki í eigu einstaklinga heldur ýmissa fjárfestingafélaga og lífeyrissjóða. Mótsögnin er að forsendur þeirra fjármuna sem þessir "snillingar" eru að spila með, koma frá sjóðum sem stéttarfélögin hafa byggt upp til þess að tryggja afkomu launamanna lendi þeir í örorkuslysum eða þegar þeir fara á ellilífeyri. Bankamennirnir eru með í vinnu ráðgjafa sem ráðleggja fólki að ganga úr stéttarfélögum og færa alla launareikninga, og bankarreikninga yfir til bankanna.

Sá skaði sem þessir "snillingar" hafa valdið íslensku fjármálalífi er gífurlegur. Blindaðir í skammtímagróða hafa þeir vaðið inn á íbúðamarkaðinn í skjóli misvitra stjórnmálamanna sem fengu að njóta veizluhaldanna í glæstum „viðskiptaferðum“ og nýttu sér falsrökin í kosningabaráttu um að þessi „uppgangur“ væri byggður á grunni sem þeir hefðu skapað.

Þegar umræðan berst að launakjörum almennra launamanna er ætíð vísað til samfélagslegrar ábyrgðar, verðbólgu og óstöðugleika í efnahagslífinu. Verkalýðshreyfingunni beri að sýna samfélagslega ábyrgð í kjarasamningum. Launamenn axli ábyrgð. Þegar kemur að launakjörum æðstu stjórnenda og valdhafa ríkja önnur viðmið. Það er mikil undirliggjandi reiði í íslensku samfélagi í dag.

Launamenn eru ófúsari til þess að ganga í gegnum lægðir, en áður. Tryggð sem áður ríkti milli fyrirtækja og starfsmanna er fokinn fyrir löngu með hagræðingum og fyrirvaralausum uppsögnum. Þegar „fjármálasnillingarnir höfðu lokið við að búta niður fyrirtækin og hrifsa til sín varasjóðina til nota í áhættufjárfestingum, skildu þeir fyrirtækin eftir algjörlega bjargarlaus og óvarin fyrir sveiflum.

Nú er svo komið fyrir allmörgum heimilum fyrir tilstilli háttalags banka með því að halda að fólki ótakmörkuðum lánum, yfirdrætti og raðgreiðslum, að það stjórnar sínu lífi ekki lengur. Það á altt sitt undir bönkunum. Hvað gerist í haust þegar 5 ára samningar um 4.15% vexti renna út og bankarnir hafa það í hendi sér hvaða vexti þeir gera fólki að greiða. Afborganir af íbúðuðum munu hækka jafnvel tvöfaldast hjá fólki sem þegar er í botni með greiðslubyrði sína.

Þetta fólk vildi trúa málflutning þeirra stjórnmálamanna sem hafa farið með stjórn efnahagsmála um að hér ríkti stöðugleiki og endalaus uppgangur. Það voru bara leiktjöld sem stillt var upp í aðdraganda kosninga og eru að falla þessa dagana. Verðbólgan var mun meiri og króna er kolvitlausu gengi.

miðvikudagur, 11. júní 2008

Pant vera Evrópusinni

Það er spaugilegt, en reyndar sorglegt, að lesa sumar greinar fótgönguliða Valhallar. Ragnheiður Elín Árnadóttir alþingismaður og fyrrv. aðstoðarmaður forsætisráðherra er einn þeirra. Í síðustu kosningabaráttu skrifaði hún nokkrar kostulegar greinar þar sem hún hélt því fram að við sem hefðum bent á að misskipting væri að aukast í íslensku samfélagi færum villu vegar og beindi ýmsum ómerkilegum aðdróttunum að þeim háskólaprófessorum sem höfðu sýnt fram á hvert ameríkanasering ríkisstjórnarinnar var að leiða okkur. Mál sitt studdi hún með dæmum þar staðreyndum var snúið á haus.

Í dag hefur sannarlega komið fram að ábendingar um að skattar voru auknir á þeim sem minnst mega sín um 7% og aðvaranir um efnhagstefnuna voru réttar, sem segir okkur að greinar Ragnheiðar voru kosningaáróður. Öll sú mikla velmegun sem hún og skoðanabræður hennar héldu fram að ríkti hér á landi var fölsuð með röngu gengi og mikilli skuldsetningu. Öll þekkjum við að það hefur verið í gildi bann meðal sjálfstæðismanna um að ræða ekki Evrópumál og borið fyrir sig ýmsar upphrópanir eins og "Horngrítis kjaftæði" sem Árni Johnsen hreytti í okkur, "Offramboð af Evrópuskoðunum" frá ráðherrum. Því hafa fylgt órökstuddar fullyrðingar þar sem staðreyndum er snúið á haus að venju eins og þeir vilja auka atvinnuleysi, þeir ætla að afsala fullveldi þjóðarinnar hafa þeir hrópað að fólki sem hafa haldi uppi Evrópuumræðu.

Nú er svo komið að meirihluti þjóðarinnar er búinn að átta sig á innihaldsleysi skeytanna frá upphrópunarmönnunum og vill ekki lengur búa í því efnahagsumhverfi sem okkur hefur verið búið. Á hverjum degi fáum við staðfestingu á því að það efnahagsástand sem við búum við í dag er orsök rangra ákvarðanna þeirra sem við völdin hafa verið. Þar má m.a. benda á umfjöllun í Viðskiptablaðinu 10. júní, sama blaði og grein Ragnheiðar er.

Íslendingar sætta sig ekki lengur við rússibanaferðir krónunnar. Þeir sætta sig ekki lengur við þá misskiptingu sem stjórnvöld hafa staðið að. Þegar þetta blasir við koma þeir sem hafa reynt að koma í veg fyrir Evrópuumræðu fram úr skúmaskotunum eins og t.d. Ragnheiður segir í Viðskiptablaðinu; "Ég hef alltaf verið svo mikill Evrópussinni. Við höfum alltaf viljað ræða Evrópumál, en bara ekki í upphrópunarstíl"!!

Ekki vex trúverðugleiki þingmannsins.

þriðjudagur, 10. júní 2008

Krónan dýr

Þessa dagana er ríkisstjórnin að leita eftir 500 milljarða láni til þess að styrkja stöðu krónunnar, þetta kemur til viðbótar 200 milljörðum sem við eigum í gjaldeyrisvarasjóði, sem tekið var lán fyrir í fyrra. Á það hefur verið bent að þetta dugi vart og 1.000 milljarðar sé hið minnsta sem til þurfti til þess að koma í veg fyrir sveiflur krónunnar. Vextir af þessum miklu lánum er gríðarlegir og verið er að botnskuldsetja ríkissjóð vegna þessa. Þá er ekki upp talinn allur sá kostnaður sem heimilin og fyrirtækin bera.

Margir hafa bent á að aðskilja þurfi innlenda starfsemi bankanna frá hinum erlendu áhættufjárfestingum. Staðan í dag gerir þetta ekki framkvæmanlegt og vextir þeirra lána sem bankarnir eru með byggjast á núverandi starfsemi og myndu verða töluvert hærri ef þessi breyting yrði gerð.

Það kostar okkur líklega um 500 milljarða að halda í krónuna. Þetta ástand er tilkomið vegna fyrirhyggju- og andvaraleysis þeirra sem hafa haft með efnahagsstjórnina að gera á undanförnum árum og hefur sett okkur í sjálfheldu. Fyrirtækin í landinu fá ekki lán og reksturinn er að stöðvast. „Það er svo sem nóg að gera, en ég fæ ekki borgað“, er algengt viðkvæði meðal verktaka í dag.

Það er akkúrat núna sem ríkisstjórnin á að koma fram og styrkja atvinnulífið. Hún á að styrkja íbúðarlánasjóð og gera honum kleift að koma til hjálpar heimilum sem eru að missa húnæði sitt. Setja á í gang opinberar framkvæmdir, þá helst mannfrekar framkvæmdir, ekki bara verkefni fyrir nokkrar jarðvinnuvélar.

Fella á niður söluskatt á viðgerðum húsa þá sérstaklega þeim sem hafa skaddast í jarðskálftum undanfarið. Það myndi kippa upp á yfirborðið mikilli starfsemi úr neðanjarðarhagkerfinu og skila tekjum. Alkunna er að margar opinberar byggingar hafa ekki fengið nægilegt viðhald og nú er lag að setja þau verkefni í gang.

mánudagur, 9. júní 2008

Frestun framkvæmda

Þær eru svo dæmigerðar fyrirætlanir fjárlaganefndarmanna um að slá af Sundabraut og byggingu Landsspítala. Afleiðing rangrar efnahagstjórnunar blasa við og verktaka- og byggingariðnaðurinn er að hrynja saman og atvinna 18 þús. byggingarmanna er í hættu.

Aðilar vinnumarkaðs hafa bent á að nú ætti að hið opinbera að setja í gang framkvæmdir bæði við uppbyggingu og viðhald opinberra bygginga. Í viðhaldi opinberra bygginga er nú ekki vanþörf á að taka til hendinni, eins og fjárlagagerðarmönnum er örugglega kunnugt um. Nú væri hægt að fá hagkvæm tilboð og hið opinbera ekki í samkeppni við almenna markaðinn.

En þá ætla efnhagsspekingarnir í fjárlaganefnd að slá af framkvæmdum!! Eru afleiðingar stefnu þeirra ekki nægilega miklar? Þarf að auka dífuna enn frekar og tryggja atvinnuleysi verði enn meira?

Ég reikna reyndar ekki með að Kristján ætli að slá af Vaðlaheiðargöngum eða stoppa Siglufjarðargöngin. Þær framkvæmdir standa framar í hans huga og samgönguráðherra en lagfæringar á stærstu umferðarhnútum þessa lands, sem kosta allmarga lítra af eldsneyti á hverjum degi þegar þúsundir bíla standa í lausagangi og bíða.

Aðstaðan sem starfsmönnum og sjúklingum er boðinn á Landsspítalanum er ekki ásættanleg og hefur um langt árabil verið gagnrýnd.

sunnudagur, 8. júní 2008

Óþægilegar staðreyndir

Ég fæ ekki séð að það tengist embættisfærslum Ingibjargar Sólrúnar að vera að senda sérstaklega frá sér yfirlýsingar vegna eins dómsmáls," segir Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks.

Þessi setning segir svo margt. Hún staðfestir fyrst og síðast það sem svo margir hafa bent á sem einn stærsta ókost forystu Sjálfstæðisflokkisins, það má ekki ræða mál sem falla utan þeirrar veraldar sem Valhöll vill að við borgararnir trúum að þeir búi okkur. Allir vita að að Baugsmálið er sóðalegasta pólitíska aðför sem íslensk stjórnvöld hafa staðið fyrir, byggð á hatri. Þetta má ekki ræða.

Setningin er einnig svo dæmigerð um þau ruglrök sem Valhallarvoffarnir nota. Ingibjörg Sólrún er formaður stjórnmálaflokks. Hún hefur fjallað um Baugsmálið og gagnrýnt þá málsmeðferð. Það er eðilegt að hún tjái sig um málið, það hefur ekkert með það að gera hvort hún sé utanríkisráðherra.

Borgarar þessa lands lands ætlast til að þeir sem sem stóðu fyrir þessari herför verði afhjúpaðir opinberlega og látnir sæta ábyrgð. Þeir eru reyndar flestir búnir að flýja í skjól, og foringinn lét það verða sitt síðasta verk að renna í gegn þægilegum eftirlaunaréttindum svo þeir gætu haft það huggulegt í skjólinu. Og svo voru níu litlir aðstoðarmenn sem ekki gátu nýtt sér eftirlaunalögin, þeir urðu allt í einu sendiherrar!?

Fall Davíðs er rosalegt. Hann fór glæsilega af stað og naut víðtæks stuðnings. Hann kemur fram á nákvæmlega réttum tíma og tekur upp þá stefnubreytingu sem aðilar vinnumarkaðs höfðu unnið að frá 1988 og náðu í gegn 1990 eftir mikil átök. Í kjölfar þess að er EES samningurinn gerður. Þær ræður sem Davíð flutti á þesum árum gáfu tilefni til mikillar eftirvæntingar um að nú tækist að ná Íslandi upp úr aldagömlum hjólförum bændasamfélagsins.

En honum fataðist flugið og sjónum hans var beint vestur á bóginn frá Evrópu. Því fylgdi mikill dómgreindarskortur og hver ósigurinn á fætur öðrum kom fram í dagsljósið; bankasölurnar, Íraksmálið, Fjölmiðlamálið, Baugsmálið, Eftirlaunamálið. Og svo sá stærsti afhjúpun á þeirri efnahagsstefnu sem fylgt var, þrátt fyrir aðvaranir allra færustu hagfræðinga landsins. Og við blasir þreföld sú verðbólga sem þekkist meðal nágrannaríkja okkar, sama gildir um vexti. Verðlag á dagvöru þriðjung of hátt vegna fákeppni, sem er dyggilega vernduð með þessari stefnu. Sama gildir um einokun íslenskra banka. Atvinnuleysi töluvert hærra en þekkist í nágrannalöndum okkar.

Allt í fullkominni andstöðu við það sem lagt var upp með sé litið til málflutnings á árunum fram undir aldamótin.

laugardagur, 7. júní 2008

Hraðlest til lægstu kjara

“Þeir erlendu innflytjendur sem hér hafa sest að myndu samt margir velja að vera um kyrrt á atvinnuleysisbótum sem eru oft á tíðum mun hærri en laun verkamanna í þeirra heimalöndum,” sagði Guðjón Arnar formaður Frjálslynda flokksins auk þess sagði hann. “Þessi þróun sem ég vara sérstaklega við gæti mjög líklega orðið við harða lendingu efnahags- og fjármála ef atvinnuleysi fær að vaxa við núverandi aðstæður.”

Málflutningur Frjálslyndaflokksins gagnvart erlendu fólki er einstaklega ósmekklegur og ómerkilegur hræðsluáróður. Hvað skyldu margir íslendingar hafa farið erlendis og verið þar á atvinnuleysisbótum? Þeir skipta þúsundum. Viðhorf Frjálslyndaflokksins og reyndar hluta Sjálfstæðisflokksins ber í sér að vilja fá allt frá Evrópu, en gefa ekkert. Þau viðhorf eru studd með málflutning á borð við þennan.

Þetta eru dæmigerð frjálshyggju viðhorf. Ísland er aðili að Evrópska efnhagssvæðinu og á því byggist útrás og uppgangur íslenskra fyrirtækja. Á þessu svæði gilda samsvarandi reglur um frjálsa för launamanna og fyrirtækja. Þessar reglur eru grundvöllur uppbyggingar í Evrópu til þess að fjölga atvinnutækifærum og gera svæðið samkeppnishæft við önnur svæði í heiminum. Ef það hefði ekki verið gert þá hefði stefnt í að evrópskir launamenn og evrópsk fyrirtæki yrðu að leita til Asíu og Afríku eftir störfum og verkefnum.

Þegar erlendir launamenn koma hingað til starfa gerum við þær kröfur að komið sé fram við þá á sama hátt og aðra. Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum á undanförnum 4 árum þá höfum við starfsmenn stéttarfélaganna þurft að leggja í hörku slagsmál við óprúttna náunga sem vilja nýta sér bága stöðu hinna erlendu launamanna.

Sömu kröfur gera íslendingar sem fara til starfa í öðrum löndum. Undirstaða í umönnun, fiskvinnslu og framkvæmdum í verktöku hérlendis eru erlendir launamenn. Margir þeirra fara langt frá heimhögum og fjölskyldu, sumir una hag sínum vel hér og vilja setjast hér að. Sama gildir um marga íslendinga sem hafa farið erlendis til náms og/eða starfa.

Nú hlýtur maður að spyrja;

Vill Guðjón og skoðanabræður hans að íslendingar sem fara erlendis til starfa búi við skert kjör og réttindi vegna þess að þeir séu íslendingar?

Vill Guðjón og skoðanabræður hans að við í verkalýðshreyfingunni sjáum til þess að erlendir launamenn sem hingað komi búi við skert launakjör?

Vill Guðjón að fyrirtæki sem nýta sér erlenda launamenn búi við betri samkeppnistöðu en fyrirtæki sem nota íslenska launamenn?

Ef farið væri að sjónarmiðum Guðjóns og skoðanabræðra hans færi vinnumarkaður í Evrópu með hraðlest til lægstu kjara á svæðinu.

föstudagur, 6. júní 2008

Ömurleg útreið

Nú er komin niðurstaða í hina blindu hatursherferð gegn Baugsfjölskyldunni sem runnin er undar rifjum pólitískrar valdagæslu. Herferðin hefur tekið á sig margar myndir þar á meðal fjölmiðlalögum sem var beint gegn henni, en þá ofbauð almenning þegar skerða átti tjáningarfrelsið.

Hundruðum milljóna og allir kraftar opinberra stofnana voru nýttir til þess að koma höggi á fjölskylduna. Á meðan gengu flokksgæðingar um og framkvæmdar voru sölur á bönkum og ríkisfyrirtækjum til útvalinna í skjóli helmingskiptareglunnar. Af hverju eru bankasölurnar, Símasalan og salan á Íslenzkum aðalverktökum ekki skoðuð? Er spurt á kaffistofum vinnustaðanna um land allt.

Á meðan hafa bankarnir gengið lausbeizlaðir og afleiðing eftirlitsleysis stjórnavalda með þeim og starfsemi þeirra er nú að bitna á fjölskyldum og fyrirtækjum á almennum markaði. Eftirtektarverð eru svör flokksformanna nú í hádegisfréttum og þau segja okkur allt um hvar valdið liggi og að þaðstandi ekki til að breyta því. Og eignatilfærslurnar munu halda áfram frá hinum efnaminni.

Niðurstaðan er ömurleg útreið þeirra sem lögðu af stað í þessa herferð.

fimmtudagur, 5. júní 2008

Botninum ekki náð

Á undanförnum vikum hafa ráðherrar reglulega sent frá sér yfirlýsingar um að botninum sé náð. Þar á milli hafa komið fram greiningarmenn frá aðilum vinnumarkaðs og spáð að botninum verði náð seinni hluta þessa árs, og uppganga úr táradalnum hefjist í byrjun næsta árs og standi fram á árið 2010.

OECD birtir spá í fyrradag sem er í samræmi við spár aðila vinnumarkaðs. Þá segja ráðherrar að þetta komi þeim á óvart. Þar staðfestist enn einu sinni hvers vegna niðursveiflan hér er mun dýpri en í öðrum löndum. Ráðherrar eru úti að aka, lifa í sýndarveröld sem þeir haga skapað sér. Það er búið að vara þá við í 4 ár, en þeir hafa allan þann tíma sagt að við séum best og allt í fínu lagi.

Það var búið að benda þeim á að gengið væri rangt skráð og þær yfirlýsingar sem þeir gáfu út um stöðu efnahagslífsins hefðu verið rangar. Þeim var bent á að það þyrfti að undirbúa efnhagslífið undir harða lendingu en þá urðu þeir pirraðir og sögðu að menn ættu ekki að vera að reyna að þyrla upp ryki til þess að eyðileggja góðan árangur þeirra.

Við blasir sú staðreynd að við höfum búið við efnhagsstjórn sem hefur leitt yfir okkur mun meiri sveiflur en ástæða var á. Auk þess skelfir það að forsætisráðherra er margbúinn að lýsa því yfir á undanförnum vikum að hann ætli sér að halda áfram á þessari leið.

miðvikudagur, 4. júní 2008

Myllusteinsmálefnasamningur

Hefði verið betra að sleppa málefnasamningnum, hann var gerður í miklu flýti og var hraðsoðinn, segir borgarstjóri á borgarstjórnarfundi í gær. Enn ein staðfestingin á þeim flumbrubrögðum sem notuð voru við valdatökuna, þar sem hefnigirnin blindaði.

Vitanlega gátu Vilhjálmur og Kjartan ekki staðið að valdatöku í borginni án þess að hafa málefnasamning, vegna fyrri málflutnings Sjálfstæðismanna sem höfðu út í hið óendanlega klifað á því að það væri óásættanleg að valdataka Tjarnarkvartettsins hefði farið fram í málefnasamningsleysi. Það voru reyndar ekki mjög margir sem skyldu hvert Sjálfstæðismenn voru að fara í þeim efnum, þetta var ein af órökstuddum klisjum úr verksmiðjunni í Valhöll.

En nú er komið í ljós að þeir höfðu gert málefnasamning, bara einhvern, skipti engu þó tekin væri kosningaloforðalisti Ólafs og skipt um haus á honum og hann skýrður málefnasamningur. Nú segir Ólafur að kosningaloforðalisti sinn (málefnasamningur Sjálfsæðisflokksins) sé orðin myllusteinn meirihlutans.

Hvar ætlar þessi farsi að enda? Látum verkin tala segir borgarstjóri. Þau gera það svo sannarlega og atkvæðin fjúka burtu.

þriðjudagur, 3. júní 2008

Spilling borgarfulltrúa

Endurnýjun kjarasamninga starfsfólks við OR hafa gengið erfiðlega. Því er ekki að leyna að starfsfólk er ákaflega svekkt yfir því hvernig stjórnmálamenn hafa nýtt fyrirtækið sem pólitískan leikvöll og komið fram eins og starfsfólkið séu skynlaus verkfæri. Starfsfólkið hefur byggt upp góðan vinnustað sem hefur verið að skila góðri þjónustu til borgarbúa. Og þar sjá spilltir stjórnmálamenn tækifæri til þess að hrifsa til sín völd og gæði.

Með réttu er hátterni borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins innan OR að verða þeim banabiti. Þeir hafa verið með yfirlýsingar um milljarða fjárfestingar á vegum fyrirtækisins, jafnframt því að stjórnarformaðurinn hefur verið í fjölmiðlum nýverið með yfirlýsingar um launakjör nýráðins miðbæjarfulltrúa og vitanlega vakið með því væntingar starfsmanna um samsvarandi leiðréttinga við samningamborðið. En samningamenn starfsmanna mæta svo allt öðrum viðbrögðum í Karphúsinu.

Það hefur verið starfsmönnum pínlegt að hlusta á tæknilegar yfirlýsingar stjórnmálamanna þegar þeir koma fram í fjölmiðlum sem forsvarsmenn OR. Þeir hafa skipað sjálfa sig í stjórnir og nefndir ávegum fyrirtækisins, samþykkt að greiða sjálfum sér stjórnrlaun sem samsvara allt að mánaðarlaunum starfsfólks. Farið á vegum fyrirtækisins til annarra heimsálfa og spókað sig þar og undirritað viljayfirlýsingar um efni sem þeir hafa ekki minnsa skilning á og þaðan af síður nokkra tæknilega þekkingu.

Allt þetta hefur spillt starfsandan innan fyrirtækisins, en er sem betur fer er þetta hátterni að koma í bakið á þeim hinum sömum spilltu stjórnmálamönnum. Starfsmenn vilja með réttu losna við hina sjálfumglöðu og sjálfhygglandi stjórnmálamenn úr fyrirtækinu og fá starfsfrið. Það er nóg að þeir hafi sitt dýra leiksvið í Tjörninni.

mánudagur, 2. júní 2008

Segðu mér hverjir vinir þínir eru

Einhvern veginn finnst manni að það hafi ekki getað farið öðruvísi en fylgi Sjálfstæðisflokksins myndi hrapa. Valdatakan í borginni í vetur var stærsti afleikur sem leikinn hefur verið í pólitík alla vega upp á síðkastið. Einnig voru viðbrögð flokksins þegar hann missti völdin yfir til Tjarnarkvartetsins röng. En á landsvísu er það gjaldþrot efnahagstefnu flokksins og tilraunir til þess að viðhalda henni áfram.

Sú sjálfumgleði og sjálfbirgingsháttur sem hefur einkennt málflutning málssvara flokksins er þreytandi. Opinská umræða á bloggsíðum hefur flett ofan af þeim innihaldslausu klisjum sem málsvarar flokksins klifa á og hafa vikið sér undan að útskýra og bera fram frambærileg rök.

En heiti boltinn liggur hjá Ingibjörgu, t.d. mun það örugglega hafa mikil áhrif á þróun mála hjá henni hvort Samfylkingin muni láta Sjálfstæðisflokkinn komast upp með að framkvæma einhvern ómerkilegan kattarþvott á eftirlaunafrumvarpinu. Ekki síður hvort henni takist að koma umræðunni um langtímalausn efnhagsmála á dagskrá þar á meðal ESB umræðuna.

Geir hefur gefið út þá yfirlýsingu nokkrum sinnum á undanförnum 4 vikum að botninum sé náð í efnhagslægðinni, það væri óskandi að svo væri, en við höfum sífellt sokkið dýpra. En flest vitum við að þetta er óskhyggja og í raun yfirlýsing um getuleysi Sjálfstæðismanna að horfast í augu við eigin gerðir og rangfærslur undanfarinna ára. Næsti vetur mun að öllum líkindum verða mörgum erfiður, ekki bara forystu Sjálfstæðisflokksins, heldur mörgum heimilum sem munu upplifa afleiðingar ábyrgðarlausrar þráhyggju.

Segðu mér hverjir vinir þínir eru þá veit ég hvern mann þú hefur að geyma. Það er svo stutt síðan að forysta Sjálfstæðisflokksins lýsti yfir afdráttarlausum stuðning við Bush og stefnu hans. Efnahagstefna Bush gengisins náði hingað með þeim afleiðingum sem við erum að upplifa. Þessa dagana eru margir af næstu samstarfsmönnum Bush að upplýsa okkur um hvern mann hann hafði að geyma og á hverju stefna hans var uppbyggð. Næsta vetur mun líklega fara fram uppgjör við þá stefnu í BNA.

sunnudagur, 1. júní 2008

Lífið hefur tilhneigingu til þess að leita jafnvægis

Lífið hefur tilhneigingu til að leita jafnvægis, en það tekur stundum óþægilega langan tíma. Tveir ungir karlmenn hafa nú fengið skaðabætur frá Bótanefnd ríkisins vegna ítrekaðra kynferðisbrota sem þeir urðu fyrir af hálfu fyrrv. kennara sins á unglingsaldri. Nefndin úrskurðaði þeim hámarksbætur, um 600.000 krónur hvorum.

Mennirnir lögðu fram kæru til lögreglu í árslok 2005 gegn kennaranum fyrir að hafa ítrekað beitt þá kynferðisofbeldi um nokkurra ára skeið þegar þeir voru unglingar. Málið hlaut mikla umfjöllun í fjölmiðlum eftir að DV birti frétt um það á forsíðu. Talið var að hinn grunaði hefði svipt sig lífi í kjölfar birtingarinnar. Það liggja fyrir upplýsingar um að kennarinn hafi aldrei séð umrætt eintak af DV, þar sem blaðið hafi legið í flugafgreiðslu Flugfélagsins í Reykjavík og ekki verið komið vestur, þegar hann greip til hins skelfilega að taka eigið líf.

Mikael Torfason þáverandi ritsjóri DV fékk ákaflega harkalega umfjöllum eftir þann atburð. Margir kunningjar kennarans fyrrverandi töldu áburðin rangan og átöldu harkalega fréttaflutning DV. Þar á meðal undirritaður sem hafði kynnst honum í nokkrum gönguferðum um Hornstrandir þar sem kennarinn hafði verið leiðsögumaður. Hinir ungu menn fengu einnig köldu hliðina hjá mörgum fyrir vestan fyrir að þeir skyldu hafa rætt við DV og í kjölfar þess að kært atburðinn. En nú er enn einu sinni komið fram að það hafi víða viðgengist óhuggulegt framferði gagnvart ungum drengjum í skjóli þagnarinnar.

Símhleranir

Ég hef nokkrum sinnum komið að því hversu fullviss hópur tiltekinna hægri manna er um að hann hafi rétt fyrir sér og talar niður til allra annara og kallar þá vinstra liðið. Engin skilgreind pólitísk mörk eru önnur en eitthvað sem þeir nefna frelsi til athafna. Menn sem hafa fylgt Sjálfstæðiflokknum voru hiklaust settir í vinstra liðið, ef þeir voru ekki sannfærðir um hina óheftu frjálshyggju.

En þessir hinir sömu eru þeir hörðustu í því að skerða frelsi annarra. Þar má t.d. nefna fjölmiðlafurnvarpið þar sem átti að hefta tjáningafrelsi og svo viðbrögð þeirra þegar forsetinn hlustaði á rödd þjóðarinnar og vildi fá þjóðaratkvæðagreiðslu. Fjölmiðill þeirra var um langt árabil sá eini á markaðinum og þar viðgekkst að velja fréttir fyrir landsmenn. En þegar annar fjölmiðill kom fram átti að stöðva þá útgáfu. Ráðherrar stóðu í pontu Alþingis og veifuðu örvæntingarfullir Fréttablaðinu og hrópuðu „Þetta verður að stöðva, þessi málflutningur var næstum því búinn að fella okkur í síðustu kosningum!!“

Eins má nefna viðhorf þeirra til útvarpsþátta sem fjölluðu um þjóðfélagsleg mál og drógu oftar en ekki gagnrýnisverða þætti fram í daglsjósið. Fram komu skoðanir um að „Hjóðviljann“ yrði að stoppa og fleira í þeim dúr.

Einnig má benda á ummæli þessara manna, eins og þá breytum við bara stjórnarskránni ef hún passar ekki við það sem við viljum. Eða það sé offramboð af óþægilegum skoðunum. Eða gagnrýni á eftirlaunafrumvarpið sé einelti. Eða sú staðreynd að allt að þriðjungur frumvarpa þessara manna standast ekki stjórnarskrá eða gildandi landslög.

Þessa dagana er komin fram staðfesting á að þeim sem höfðu ætíð rétt fyrir sér og jafnari en aðrir íslendingar, létu umhugsunarlaust hlera síma hjá mönnum sem voru með „óheppilegar“ þjóðfélagslegar skoðanir. Mér finnst ekki hægt að komast neðar en það að vilja hlera einkasamtöl. Af hverju vilja ráðherrar ekki biðjast afsökunar? Er eitthvað í gangi sem ekki er komið upp á yfirborðið?