föstudagur, 28. febrúar 2014

Ráðherrar komnir upp að vegg


Ákafi Framsóknarmanna við að leggja fram tillögu um slit á viðræðum hefur vakið marga til umhugsunar. Hvers vegna lá þeim svona á? Hvers vegna ákveða þeir að setja samfélagið á annan endann í miðjum kjaraviðræðum sem eru gríðarlega mikilvægar þar sem tekist er á um að koma böndum á efnahagsvandann.

Ræður hér för örvæntingarfull tilraun til þess að beina sjónum almennings og fjölmiðla frá skelfilegum uppákomum Sigmundar Davíðs? Fyrst hjá Gísla Martein og síðar ræðu hans á Viðskiptaþingi þar sem hann sendi atvinnulífinu „fokkjú“ merki og gaf í skyn að hann ætlaði að reka Seðlabankastjóra fyrir að hafa reiknað út hvaða afleiðingar efnahagsráðstafanir ríkisstjórnarinnar myndu hafa.

Í skýrslu Seðlabanka kom fram að ríkisstjórnin mun irústa þeim árangri sem efnahagslega atvinnulífið er að ná með yfirstandandi kjaraviðræðum. Reyndar var ekki hægt að skilja yfirlýsingar Sigmundur Davíðs í áramótaræðunni öðru vísi en svo að hann gæfi ekki neitt fyrir þau markmið og nú er hann rukkaður um efndir á þeim orðum í viðræðum við opinbera starfsmenn þar sem allt virðist stefna í harkaleg verkföll.

Skýrsla Hagfræðistofnunar var ríkisstjórninni einnig óhagstæð og ráðherrar urðu að tefla fram helstu útúrsnúningamönnum sínum í fréttaþáttum til þess sýna fram á að skýrslan boðaði slit á samningaviðræðum eins og fyrirhugað var þegar skýrlsan var pöntuð.

Allt þetta hefur snúist í höndum ráðherranna og þeir eru daglega staðnir að því að sýna þjóðinni forherta forsjárhyggju. Það berast best í því hvernig ráðherrarnir hafa snúa lýðræðinu á hvolf.

Samkvæmt skoðanakönnunum liggur fyrir að 82% þjóðarinnar vill fá að sjá niðurstöðu samninga og taka þá afstöðu. Vitanlega er ætlast til að þingmenn og ekki síst ráðherrar verndi þjóðarhag og leiti eftir eins hagstæðum samningum og kostur er. En þessu vilja ráðherrarnir ekki una og segjast vera óhæfir til þessara viðræðna.

Ef svo er þá segir lýðræðið að þeir eigi einfaldlega að segja af sér og kjósendur finna síðan mannskap til þess að vinna að þeim niðurstöðum sem þjóðin vill, og síðan ákveða hvort hún samþykka eða hafni.

Athafnir ráðherranna  einkennast af því að hafa safnað í kringum sig hópi sem hafa sömu skoðanir og þeir, í þannig umhverfi verður allt svo einfalt og auðvelt. Á síðasta kjörtímabili kom nær daglega fram á Alþingi harla einkennileg sýn stjórnarandstöðuþingmanna, nú ráðherra, á íslenskt samfélag. Þar voru á lofti töfralausnir á öllum vandamálum og leiddir fram snillingar sem reyndar gátu aldrei skýrt nákvæmlega hvað þeir áttu við. 

Nú þegar þeir eru komnir í valdastólanna þá reka þeir sig á hvern veggin á fætur öðrum, eins og kemur m.a. fram í framangreindum ummælum ráðherra í spjallþáttum og ræðum á þingum og ráðstefnum.

Fullyrt er að ESB-aðild sé einhliða framsal sjálfstæðis, og það sé að öllu leyti eðlis-óskylt aðild að Norðurlandaráði, Evrópuráði, EFTA, EES eða Nato. Sagt er að allir aðildarsinnar telji aðild lífsnauðsyn fyrir Íslendinga, en alls ekki frjálst val sjálfstæðrar þjóðar um hentuga framtíðarkosti.

Þá er óhikað fullyrt að allir aðildarsinnar á Íslandi séu ákafir stuðningsmenn hugmynda um aukna sameiningu innan ESB. Þetta er allt langt frá raunveruleikanum en virðist skila árangri í áróðrinum.

Fullyrt er síðan að aðildarsinnar hafi snúist gegn íslensku fullveldi og íslensku sjálfstæði, enda sé hér ekki um frjálst fjölþjóðasamstarf fullvalda ríkja að ræða. Samkvæmt þessu er sagt að vilji til frjálsrar viðskiptasamvinnu með áherslu á opið samfélag og samkeppnishæfni jaðri við föðurlandssvik.

Í fjölmiðlum er sagt að í ESB sé ekki aðgreint ríkisvald aðildarlanda, heldur allt í einu sameinuðu bákni. Ekki er minnt á að Brüssel-báknið er u.þ.b. 2% af vlf. ESB í heild eða minna. Þvert á móti eru öll ríkisumsvif allra aðildarlanda tekin saman í eitt.

Hagsmunagæslu einstakra aðildarlanda er lýst einfaldlega sem fingri á sameiginlegum valdsarmi undir ráðstjórn ESB, jafnvel þótt þessi hagsmunagæsla sé stundum andstæð vilja stofnana ESB.

Forræði aðildarlanda í eigin málum og yfir stofnunum ESB er ekki lýst sem sterkri stöðu þjóðríkjanna, heldur heitir þetta ,,lýðræðisvandi ESB". Þar sem tryggt er að embættismenn ESB fá ekki völd ríkis, fá ekki óskorað ríkisumboð, þá er það kallað ,,lýðræðishalli".

Öll stærstu útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækin reka umsvifamikil viðskipti innan ESB svæðisins og eiga þar stór útgerðarfyrirtæki og þekkja því vel það umhverfi. Þau vilja hins vegar ekki missa valdið hér heima, þar sem þau geta náð fram hagstæðum geðþóttaákvörðunum og svo ekki sé talað um „hagstæðum“ gengisfellingum. Þeir geti rekið sýn fyrirtæki bæði íslenskt og "Evrópsk" í Evrum en greitt laun í krónum.

Nú er svo komið að ríkisstjórnin kemst ekki hjá því að horfast í augu við þá staðreynd að við búum í lýðræðisríki og hún verður að víkja til hliðar hagsmunum fárra. Ráðherrar eiga ekki að komast upp með að velja á milli hvenær þeir fara að vilja þjóðarinnar og hvenær ekki. 

fimmtudagur, 27. febrúar 2014

Málflutningur ráðherra


Í umtöluðu viðtali á RÚV fyrir skömmum kom Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra víða við. Eitt af því var áminning til RÚV um að skortur væri á fulltrúum dreifbýlis í spjallþáttum RÚV, þar setti hann fram klisju sem þingmenn nota gjarnan til þess drepa umræðunni á dreif.

Forsætisráðherra er reyndar þingmaður dreifbýlis, flutti sína búsetu norður í land og var kosinn þar á þing, en ráðherrann virðist afar illa upplýstur um efnahagslega stöðu og horfur, hvort sem horft er til allrar þjóðarinnar eða þess kjördæmis sem hann var kosinn fyrir.
 
Sama má segja um Gunnar Braga Sveinsson dreifbýlisþingmann og ráðherra: ,,ESB er í raun ekki í stakk búið til að taka á móti velmegandi ríki eins og Íslandi og eiga samninga um aðild á jafnræðisgrundvelli.” Þessar fullyrðing lýsir dæmafáu þekkingarleysi á stöðu efnahagsmála og stöðu atvinnulífsins hér á landi.

Kaupmáttur Íslendinga er sá langlakasti á Norðurlöndum og vel undir meðaltali Evrópu. Framleiðni er með því lægsta sem þekkist í Evrópu eða á svipuðu stigi og er í Grikklandi. Tekjur Íslendinga eru tæplega 20% lægri en meðaltekjur í Evrópu. Íslendingar skila lengri vinnuviku en aðrir Norðurlandabúar, en þrátt fyrir það kemur minni kaupmáttur upp úr þeirra launaumslagi.

Það er ekki síst vegna rangrar efnahags- og peningastefnu, sem valda reglulegum gengisfellingum og leiða til þess að vextir íbúðalána hér eru a.m.k. tvöfalt hærri en í Evrópu og á Norðurlöndunum. Verðbólga hér er að jafnaði allt að þrefalt hærri en í nágrannalöndum okkar.
 
Seðlabankinn og reyndar fleiri hafa bent á að þær aðgerðir í efnahagsmálum sem Framsóknarflokkurinn hefur skipulagt muni leiða til enn frekari hækkunar verðbólgu og vaxta. Allt að fjórðungur þess sem kemur upp úr launaumslaginu fer í þessa gjaldmiðilshít.

Ráðherrarnir forðast endurtekið að ræða hina raunverulega stöðu mála og draga umræðuna frekar ofan í skotgrafirnar með klisjum, eins og að dreifbýlið búi við einhverskonar samsæri af hálfu þéttbýlinga.
 
Því er stundum haldið fram að ef bæta eigi stöðu dreifbýlis gagnvart þéttbýlinu þurfi að viðhalda mismunandi vægi atkvæða, það muni stuðla að fjölgun atvinnutækifæra í dreifbýlinu og bættum launakjörum, þannig sé þéttbýlinu gert að taka þátt í að lagfæra hina slöku félagslega stöðu dreifbýlisins.

Þetta er þekkt aðferð ákveðinna tegundar stjórnmálamanna og valdhafa, það er að beina athyglinni frá getuleysi ráðamanna og skapa til einhvern óvin. Á Íslandi er og hefur ætíð verið mesta misvægi atkvæða sem þekkist á Norðurlöndunum og hafa verið gerðar aths. við þetta kerfi. Þrátt fyrir þessa stöðu blasir við að mesta atvinnuleysið og um leið lakasta félagsleg staða hérlendis er í úthverfum höfuðborgarsvæðisins, ekki í dreifbýlinu.

Dæmi frá alþingiskosningunum 2007 varpa ljósi á kosningakerfið íslenska. Sjálfstæðisflokkurinn fékk 35,4% atkvæða í Reykjavíkurkjördæmi norður og fjóra þingmenn kjörna, en Samfylkingin 29,2 prósent og fimm þingmenn. Framsóknarflokkurinn fékk þrjá þingmenn í Norðausturkjördæmi með 5.726 atkvæðum en engan þingmann með 4.266 atkvæði í Reykjavík.
Samfylkingin fékk 26,8% atkvæða í Suðurkjördæmi og tvo þingmenn, sama þingmannafjölda og Framsókn bar úr býtum í sama kjördæmi með 18,7% atkvæða.
Í Suðvesturkjördæmi voru um 4.600 atkv. bak við hvern þingmann á meðan það voru liðlega 2.000 atkv. í Norðvesturkjördæmi.
(Ath, orðalag lagfært og gert skýrara í þessari málsgrein eftir ábendingu kl 14:10 gg)

Ákvörðun ríkisstjórnarinnar að draga tilbaka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu er afdrifarík fyrir fyrirtæki og almenning í landinu, segja forsvarsmenn íslenskra tæknifyrirtækja, þau munu missa aðgang að innri markaði EES, þeim samning verði rift þegar viðræðum við ESB verður slitið. Þessi ákvörðun setur rekstrarskilyrði margra fyrirtækja í uppnám.

Í könnunum undanfarin misseri kemur fram að 85% ungs fólks sættir sig ekki við þau kjör sem í boði eru á Íslandi og lítið framboð á spennandi atvinnutækifærum. Tæknifyrirtækin eru að flytja vegna stjórnunar efnahagsmála hér á landi. Flestir þeirra sem eru að fara úr landi er vel menntað fólk í góðum störfum, við ákvörðun um brottflutning ráða allt önnur sjónarmið en dreifbýlingar halda fram og þingmenn nota til þess að koma sér undan því að ræða stöðu Íslands.
 
Vægi atkvæða hefur ekkert með atvinnu- eða kjaramál að gera. Í ummælum forsvarsmanna íslenskra tæknifyrirtækja staðfestist vanþekking núverandi ráðherra á efnahagslegri stöðu Íslands og þeir eru að leiða landið inn í enn lakari stöðu.

Það er nánast allt sem bendir til þess að ríkisstjórnin vilji komast hjá málefnalegri umræðu um skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, þar er nefnilega margt sem mælir með því að Ísland ljúki samningaviðræðunum. Ráðherrarnir vilja gera allt sem hægt er til þess að komast hjá umræðu við atvinnulífið og væntanlega skýrslu Alþjóðastofnunar Háskóla Íslands. Þá er gripið til framangreindra vopna, sprengja umræðuna í loft upp og koma af stað djöfulgang um slit viðræðna.

fimmtudagur, 20. febrúar 2014

Mogginn á morgunverðarborðinu


Árum saman las ég Morgunblaðið á hverjum morgni. Fann þar vel skrifaðar fréttir, áhugaverðar greinar og innlegg í umræðuna, sem opnuðu margskonar vinkla á þjóðmálunum.

Svo breyttist Mogginn allt í einu í ofstopa  og rætinn skæting og ég afþakkaði að fá blaðið sent heim ásamt fjölmörgum öðrum og mér skilst að sá flótti standi enn.

En nokkur fyrirtæki virðast ekki sætta sig að boðskapur Moggans nái ekki inn á morgunverðarborð landsmanna og leggja reglulega í þann kostnað að koma blaðinu þangað.

Í morgun lá blaðið undir póstlúgunni. Í boði eru á greinar umfram leiðara ritstjórans eftir Jón Bjarnason, Guðna Ágústsson, Sigríði Andersen, og skoðanabræður þeirra í Staksteinum, ásamt ítarlegri umfjöllun um hvernig maður eigi að skilja nýja skýrslu Framsóknarflokksins um váfuglinn ESB. Einnig eru viðtöl við Birgi Ármannsson og Óskar Bergsson.

Mikið rosalega er ég þakklátur Hamborgarafabrikkunni að koma þessu til mín. Eftir að hafa skoðað Moggann í dag í boði þessa fyrirtækis get ég nefnilega svo auðveldlega tekið upplýsta ákvörðun um að ég mun ekki gerast áskrifandi
 
Ásamt því að vera upplýstur um hvaða skoðanir Hamborgarafabrikkan vill að ég og fjölskylda mín hafi.

miðvikudagur, 19. febrúar 2014

Ísland er best í heimi


Utanríkisráðherra Íslands  á Alþingi í umræðu um samstarf Íslands við þau ríki þar sem 80% viðskipta Íslands eiga sér stað.

„Hvað þá ríki eins og Íslandi sem státar af mörgu af því besta sem fyrirfinnst í álfunni, hvort sem litið er til hagstærða, samfélagsgerðar eða stjórnkerfis.“

Og svo „ESB er í raun ekki í stakk búið til að taka á móti velmegandi ríki eins og Ísland og eiga samninga um aðild á jafnræðisgrundvelli.“

Smá spurning; "Af hverju telja íslenskir launmenn að þeir við um 30% lakara kaupmátt en launamenn í nágrannaríkjum okkar?"
 
Þessi fullvissa launamanna er samansett af þessum atriðum :
a) 25-30% hærra verð að dagvöru.
 
b) Þrefalt hærri vöxtum.
 
c) 20% lengri vinnutíma en samt 20% lægri laun.
 
Smáríkið Kaupfélag Skagfirðinga og útgerðarríkið LÍÚ í Vestmanaeyjum hafa reyndar mjög gott, enda greiddu þau tug milljóna í kosningasjóð utanríkisráðherra..

Ísland, afsakið Kaupfélag Skagfirðinga og LÍÚ, er bezt í heimi, amk í allri Evrópu.