miðvikudagur, 30. september 2009

Skattlagning inngreiðslna í lífeyrissjóði

Þeir sem hafa stutt að skattleggja eigi inngreiðslur í lífeyrissjóði fremur en að skattleggja lífeyrisgreiðslur hafa sett upp einfalt reikningsdæmi og fengið út úr því að það skipti lífeyrisþega engu hvort þeir greiði skatt strax eða þegar lífeyri sé tekinn út og miða þar við að 3.5% ávöxtun náist í 40 ár allan tímann.

Þetta dæmi er einfaldað, hvort það sé gert vísvitandi eða hvort viðkomandi þekki ekki skattkerfið skal ósagt látið. Það blasir þó við þeim sem þekkja til í skattamálum að inn í málið blandast persónuafsláttur og fjölmörg önnur flókin mál. Þetta ættu þingmenn að þekkja út og inn vegna þess að það eru þeir sem sjá um að setja leikreglur skattamálanna.

Hið rétta er að ef skattfrelsismörk miðast við sömu laun og skattfrelsismörk eins og þau eru nú, gætu greiðslur til lífeyrisþegar (eftir skatt) lækkað um allt að 15%. Til að halda greiðslum til lífeyrisþega óbreyttum þyrftu skattfrelsismörk iðgjalda að miðast við töluvert hærri laun, þar sem lífeyrisgreiðslur eru yfirleitt um 50-60% af þeim launagreiðslum sem iðgjöld hafa verið greidd af, miðað við 40 ára inngreiðslutíma. Stór hluti lífeyrisþega er undir skattfrelsismörkum í núverandi kerfi. Þetta þýðir í framkvæmd að ríkið þarf að greiða sjóðfélaga út þann ónýtta persónuaflsátt sem hann hefði annars nýtt hefði skattur verið dreginn af lífeyrisgreiðslum við útgreiðslu.

Einnig blasir við að ef fara á þessa leið verður að loka núverandi kerfi. Það gæti leitt til þess að skerða þyrfti réttindi sjóðsfélaga um allt að 25% í sumum sjóðum, sem er ekkert smámál þar sem það fellur ekki jafnt á alla hópa. Með þessu vex mismunum milli þeirra sem eru í ríkistryggðu sjóðunum sem flutningsmenn tillögunnar eru í, og svo þeim sem eru í almennu sjóðunum, er þó sú mismunum ærinn fyrir.

Það blasir líka við að ráðstöfunartekjur lífeyrissjóða munu minnka. Þeir verða því ekki jafnvel í stakk búnir að fjármagna nýsköpun í atvinnulífinu, mæta fjárþörf ríkis og sveitarfélaga sem og að taka þátt í endurreisn fjármálamarkaða þegar fram líða stundir.

Meginreglan um skattlagningu til lífeyrisþega innan ESB er að engin skattur er lagður á iðgjöld og fjármagnstekjur en lífeyrir er skattskyldur. Framkvæmdastjórn ESB hefur mælt eindregið með að sú leið verði almennt viðhöfð í aðildarríkjunum og hefur sett fram þá skoðun með ítarlegum rökstuðning í svokölluðum „Communication paper“ (COM-2001-214). Meginkostur varðandi samræmingu beitingu er sú að hún auðveldar flutning launamanna milli landa innan EES-svæðisins, þar sem hún kemur í veg fyrir tvískattlagningu lífeyrisgreiðslna eða að lífeyrir sé greiddur úr óskattaður.

Megineinkenni og styrkur núverandi lífeyrissjóðakerfis er að hver kynslóð stendur undir sínum lífeyri með sparnaði en veltir ekki kostnaðinum yfir á næstu kynslóðir eins og flestar þjóðir gera.

Lífeyriskerfi sem byggir á sjóðssöfnun mun ef það fær að búa við viðunandi starfsskilyrði leiða til samkeppnishæfara atvinnulífs í framtíðinni og þar með betri lífskjara. Það byggir m.a. á því að íslensk fyrirtæki muni ekki þurfa að afla verðmæta til að standa undir tröllvöxnum kostnaði vegna stóraukinnar lífeyrisbyrði sem mun óhjákvæmilega fylgja öldrun þjóða á Vesturlöndum.

þriðjudagur, 29. september 2009

Spjallþættirnir

Ég hef nokkrum sinnum komið að því að mér finnist umræðan, sem fram fer í spjallþáttum vera alleinkennileg, grunnhyggin og byggist að verulegu leiti að því virðist á keppni stjórnenda þáttanna sjálfra við að fá staðfestu á þeirri skoðun sem þeir hafa myndað með sjálfum sér, frekar en að leita eftir forsendum. Leiddir eru fram viðmælendur sem eru þekktir fyrir geip og fullyrðingar. Margir þeirra sem hafa verið leiddir fram hafa orðið uppvísir af hreinu lýðskrumi.

Staðfesting á þessu var t.d. í gærkvöldi. Þar sem gagnrýni er sett fram á væntanlegum tillögum ríkisstjórnar, en um leið tekið fram að þáttastjórnandi og viðmælandi þekki ekki tillögurnar??!!

Ætlast viðmælandi til þess að í framboði sé á lánsfé ef það á að bera neikvæða ávöxtun? Hvenær var verðtrygging sett á og hvers vegna? Viðmælandi vissi ekki svörin við þessu, í stað þess var hann með órökstuddar upphrópanir út og suður. Er þetta boðlegt í ríkisfjölmiðli?

Hver væri staða lántakenda ef þeir hefði valið að taka óverðtryggð lán fremur en verðtryggð lán? Hver væri staðan ef farið væri að tillögum Stiglitz og fleiri að tengja afborganir lána við launavísitölu? Það liggur fyrir að launavísitala hefur hækkað 29% umfram vísitölu neysluverðs síðan 1991. Því er hæpið að lántakendum sé greiði gerður með tengingu höfuðstóls við laun.

Verðbólga er mikið efnahagslegt böl. Sparifé almennings brennur upp. Mikil verðbólga á undanförnum árum og neikvæð ávöxtun leiddi til þess að það var ekkert framboð á lánsfé og það varð að viðteknum hefðum að eyða öllum fjármunum strax og helst fyrirfram enda varð það viðtekin venja á Íslandi að fjárfesta í steinsteypu í stað þess að leggja fjármuni í peningalegar eignir. Almennar sparisjóðsbækur landsmanna báru að meðaltali 14,5% neikvæða raunávöxtun á áttunda áratugnum og voru neikvæðar um 9% á þeim níunda.

Sparnaður hins almenna íslendings fer að langstærstum hluta fram í lífeyrissjóðunum. Áður en verðtryggingu var komið á hafði sjóðunum reitt svo illa af að umræða var um að leggja sjóðmyndunarkerfi og taka upp gegnumstreymiskerfi þegar glórulaus verðbólgutöp blöstu við. Eftir að verðtrygging og vextir voru gefin frjáls snérist dæmið hins vegar algjörlega við.

Nú má spyrja hvaða haldreipi er það sem grípa á til þess að komast upp úr táradalnum? Það eru lífeyrissjóðirinir. Væri það til ef farið væri að tillögum m.a. þáttastjórnenda RÚV og þeirra viðmælenda sem leiddir eru fram?.Væri það hægt ef lífeyrissjóðirnir væru galtómir vegna bruðls eins kemur svo fram í annarri hverri setningu í umfjöllun spjallþáttana um stöðu lífeyrissjóðanna.

mánudagur, 28. september 2009

Farið varlega í endurfjármögnun

Það er full ástæða til þess að biðja alla að skoða vel það sem bankarnir eru að bjóða í formi endurfjármögnun lána. T.d. að skipta úr verðtryggðum lánum yfir í óverðtryggð lán eða endurnýja gengistryggðu lánin.

Reiknið dæmið vel og vandlega, ekki bara stöðuna næstu mánuðina heldur til enda og hver heildargreiðslan verður þegar upp er staðið.

Það sem nú er að gerast er nákvæmlega það sem við höfum verið að vara við, að bankarnir geri þetta á sínum forsendum. Fáið aðstoð aðila sem þekkir vel til. Einnig má benda á reiknivélarnar sem eru á heimasíðum lífeyrissjóðanna.

sunnudagur, 27. september 2009

Heima er best


Af heimasíðu Borgarleikhússins

Tveir bræður leika sama leikritið aftur og aftur undir ógnarstjórn föður síns. Þar er raunveruleikinn endurskapaður og settur á svið með aðferðum farsans. Grófur ofleikur, eldsnögg búningaskipti og ógnvænlegur hraði. Formið er þekkt, leikritið í leikritinu. Annars vegar farsinn sem felur í sér ákveðna baráttu og svo verkið sjálft með undirliggjandi hinn jökulkalda veruleika. Á köflum skarast þessir heimar og renna saman, þannig að maður gerir sér ekki alltaf grein fyrir hvað er farsi og hvað veruleiki.

Það rennur upp fyrir manni þegar líður á verkið, að við okkur blasir sá veruleiki sem við búum við hér á landi í dag. Samfélag þar sem er ekki pláss fyrir neinar efasemdir. Enginn má efast um sannleiksgildi frásagnar valdhafans.

Veruleikinn er endursagður af valdhafanum, því hann vill ráða því hverju við trúum og hann kaupir sér stærsta fjölmiðil landsins til þess að halda að okkur sinni söguskýringu. Við höfðum lifað árum saman við blekkingu sem valdhafinn vildi að við trúðum svo við myndum endurkjósa hann. Haldið er á lofti ýmsum söguskýringum, sem sýna aðeins eina hlið á atburðarásinni. Sá sem kúgar og drottnar ræður söguskýringunni og innilokunin sonanna er vegna þess að fjölskyldufaðirinn framdi óhæfuverk. Ísland í dag.

Verkið er sterkt, en á stundum einum of langdregið, sérstaklega fyrir hlé. Búningar eru mög góðir sama á við um leikmyndina og lýsingu. Leikstjórinn Jón Páll hefur unnið gott verk. Þröstur Leó er í fantaformi og Guðjón g Jörundur fylgja honum vel. Þetta er í fyrsta sinn sem ég sé Guðjón í svona stóru hlutverki og hann lofar góðu. Dóra fer vel með sitt hlutverk.

Þrjár og hálfa stjörnu af fimm.

laugardagur, 26. september 2009

Hvar á að skera niður?


Er þetta fólk ekki búið að skila sínu?

Íslenska heilbrigðiskerfið er á krossgötum, fyrir liggur umtalsverður niðurskurður. Verkalýðshreyfingin hefur á undanförnum árum krafist þess að stjórnvöld skili tilbaka því sem hún hafði af fólki á lægri launastigum með því að láta skerðingarmörk bótakerfisins ekki fylgja verðlagsþróun.

Stjórnvöld hafa undanfarna tvo áratugi markvist dregið úr tekjujöfnunarhlutverki skattkerfisins með því að lækka persónuafsláttinn. Fella hátekjuskatt niður og lækka tekjuskatt með flatri lækkun í stað þess að þrepaskipta skattkerfinu eins og gert er í öllum nágrannalöndum okkar, sem þýddi að þeir tekjuhæstu fengu umtalsvert meiri skattalækkanir en hinir tekjulægri. Skattur af fjármagnstekjum er hafður lægri en af öðrum tekjum og vaxandi hópur vel efnaðs fólks er boðið upp á þau sérréttindi að taka ekki þátt í rekstri samfélagsins.

Verkalýðshreyfingin benti á það á sínum tíma, sjá m.a. (hér) og (hér) og (hér), að stjórnvöld stæðu í þessum niðurskurði á ofboðslegu þennslutímabili og á sama tíma væri verið að selja eignir ríkisins. Nær hefði verið að nýta svigrúmið til þess að byggja upp sjóði og styrkja öryggisnet samfélagsins frekar. Það lægi augljóslega fyrir að þegar hin óhjákvæmileg niðursveifla bresti á seinni hluta 2008 eins og allir spáðu, þá myndu skatttekjur ríkisins alls ekki duga til þess að standa undir því samfélagsformi sem við gerum kröfur um.

Meðan skattar hinna tekjuhæstu lækkuðu umtalsvert voru hinir lægst launuðu sem áður voru skattlausir farnir að greiða skatt. Á meðan nær öll vestræn ríki juku jöfnunaráhrif skatt- og velferðarkerfa sinna, héldu íslensk stjórnvöld markvisst í öfuga átt. Jöfnun með sköttum og bótakerfi velferðarkerfisins hér á landi minnkaði. Skattleysismörkin eru sá þáttur skattkerfisins sem helst jafnar tekjuskiptinguna þegar aðeins er eitt skattþrep. Ef skattleysismörk fylgja ekki launavísitölu er gengið í átt til aukins ójafnaðar í tekjuskiptingunni á Íslandi.

Stjórnvöld breyttu vaxtabótakerfinu þannig að umtalsverður hópur ungs fólks á höfuðborgarsvæðinu fær ekki þær vaxtabætur sem það gerði ráð fyrir þegar það keypti sína fyrstu íbúð. Barnabætur hafa auk þess lækkað. Allt þetta jók ennfrekar á ójöfnuð.

Ekki hefur verið staðið að uppbyggingu hjúkrunarheimila í samræmi við fjölgun aldraðra og talið að það vanti 800 íbúðir. Deildum hefur verið lokað á spítölum vegna hagræðingar og þannig mætti lengi telja. Stjórnvöld staðið að umfangsmikilli hagræðingu með því að velta stórfelldum kostnaði yfir á heimilin.

Stjórnvöld brugðust við að jafna kostnaðarbyrðar milli þjóðfélagshópa. Það hallar á hópa sem síst skyldi, eins og öryrkja og aldraða og þá sem lægstar tekjur hafa. Góðæristíminn var ekki notaður til að styrkja burði velferðarkerfisins. Á umsvifamesta tímabili Íslandssögunnar var ekki farið að lögum og kosningaloforðum um að reisa sérbúin heimili fyrir þá sem minnst mega sín í samfélaginu.

Hvar á nú að beita niðurskurðarhnífnum?

föstudagur, 25. september 2009

Flóttinn frá veruleikanum

Brottrekstur Ólafs af Morgunblaðinu vakti óneitanlega undrun margra, þar á meðal ritara. Kannski ekki síst þar sem ritari stóð í þeirri trú að Ólafur væri í takt við nýja forystu Sjálfstæðisflokksins og nýja starfsmenn sem verið er að ráða inn í Valhöll. En ekki síður að honum tókst sannarlega að ná árangri með blaðið.

Auk þess var Ólafur í takt við hinn stóra hóp fólks í flokknum, sem vill skoða vel frekara samstarf við ESB annað hvort með inngöngu eða eins og Noregur hefur gert; innleiða nánast allar tilskipanir ESB. Helsta ástæða þess að bankagengið komst upp með hin svakalega vinnubrögð, er að ríkisstjórnir Davíðs klikkuðu á þessum grundvallaratriðum. Vildu frekar halda áfram á braut ameríkanseringarinnar.

Eins og sjá og heyra má á skrifum og umræðum harðlínuhóps Sjálfstæðismanna, þá er honum fullkomlega um megn að horfast í augu við afleiðingar þeirrar stjórnarstefnu sem hópurinn hefur lamið fram undanfarin 18 ár. Jafnvel í andstöðu við hluta flokksins, enda gengu allmargir úr flokknum.

Einnig blasir uppdráttarsýki í þeim valdataumum sem Sjálfstæðismenn voru búnir rækta í embættismannakerfinu og það er meir en harðlínuhópurinn getur afborið. Nú hafa hlutirnir gengið þannig upp að Morgunblaðið er komið í hendur þessa hóps. Sumir telja að þar hafi öfl að tjaldabaki haft hönd í bagga.

Viðbárur Óskars Magnússonar í Kastljósinu í gær voru með hreinum ólíkindum og lýsir vel hvar í veruleikanum hann er staddur. Nú á að hefja hreinsunartrúboð byggðu á stjórnarstefnu harðlínuhópsins. Ætla má að það muni valda nýrri forystu Sjálfstæðisflokksins enn meiri erfiðleikum voru þær þó ærnir fyrir.

En það mun örugglega seinka þeirri siðbót, sem fram þarf að fara hér á landi til þess að sátt náist í samfélaginu. Jafnvel eyðileggja hana. Það er kannski akkúrat það sem stefnt er að, auðvelda harðlínumönnum að komast hjá að horfast í augu við eigin gjörðir og auðvelda flóttann frá veruleikanum. En það góða við þetta er að Mogginn getur ekki lengur komist upp með að kynna sig sem óháð blað.

fimmtudagur, 24. september 2009

Skuldavandinn

Seðlabankinn, ASÍ og Hagsmunasamtök heimilanna hafa hvert um sig látið gera fyrir sig kannanir þar sem m.a. var leitað eftir viðhorfum almennings til skuldavandans.

Samkvæmt gögnum Seðlabankans eru :
24% heimila með heildarskuldir sem nema innan við 200% af ráðstöfunartekjum.
50% heimila með heildarskuldir sem nema innan við 300% af ráðstöfunartekjum.
74% heimila með heildarskuldir sem nema innan við 500% af ráðstöfunartekjum.
26% heimila með heildarskuldir sem eru yfir 500% af ráðstöfunartekjum.

Samkvæmt könnun ASÍ töldu :
82,4% sig ekki þurfa að leita eftir úrræðum.
91,5% að stjórnvöld gerðu ekki nóg til þess að koma til móts við skuldsett heimili.

Samkvæmt könnun Hagsmunasamtanka heimilanna töldu :
44.8% sig geta safnað sparifé.
37.3% ná endum saman með naumindum.
17.9% sig ganga á sparnað og söfnuðu jafnframt skuldum eða töldu sig vera á leið í gjaldþrot.

Verkalýðshreyfingin hefur frá upphafi fjármálakreppunnar í október 2008 lagt áherslu á bráðaaðgerðir til hjálpar þeim heimilum sem verst hafa orðið úti í þessum efnahagsþrengingum. Ítrekað hefur komið fram í könnunum að um fimmtungur heimila býr við mjög erfiðar aðstæður. Mikilvægt er að leysa úr vanda þessara heimila með það að leiðarljósi að taka mið af eignastöðu þeirra og greiðslugetu þar sem gætt er jafnræðis milli heimilanna óháð lánaformi eða lánastofnun.

miðvikudagur, 23. september 2009

Atvinnuleysið

Hrunið hefur haf margskonar áhrif á samfélag okkar og næsta víst að viðhorfsbreytingar verði miklar til lengri tíma litið. Því miður verður að segjast eins og er að umræðan einkennist alltof oft af fullkominni ringulreið, þar sem ólíkum og algjörlega ótengdum hlutum er hiklaust blandað saman, sem veldur því að lesandinn færist enn fjær því að geta dregið ályktanir.

Hrunið hefur haft áberandi áhrif á fall krónunnar, með þeim afleiðingum að verðlag hefur hækkað, kaupmáttur lækkað og þeir sem fóru að ráðum bankanna um að fjárfesta og taka erlend gengistryggð lán frekar en innlend sitja í miklum vandræðum. Fólki stóð til boða að taka bæði óverðtryggð eða verðtryggð innlend lán og valdi frekar verðtryggð lán. Verðbólgan hefur þotið upp með hækkunum á vöxtum og síðast en ekki síst vaxandi atvinnuleysi. Önnur fyrirvinna heimilis hefur oft misst vinnuna og hin hefur minni heildartekjur, heimilistekjur í mörgum tilfellum lækkað um helming.

Há verðbólga eru engin tíðindi hér á landi. Hún hefur oft verið mun hærri og oft hafa húsbyggendur átt í miklum vandræðum. Þar má t.d. benda á tímann 1983 fram undir 1993. Þá voru margir sem ekki sáu til lands, þar á meðal ritari. En fólk vann sig úr vandanum. Sá meginmunur er á að þá voru skuldir heimila minni með tilliti til eigna. Fólki stóð þá ekki til boða hin feiknarlegu lán sem bankar héldu ákaft að fólki í aðdraganda hrunsins. Þar af leiðandi voru keyptar minni íbúðir og þær voru ekki veðsettar upp í rjáfur, en lánin fóru þrátt fyrir að reyndar á tímabili upp úr rjáfrinu. Einnig voru yfirdráttarlán og raðgreiðslur nánast óþekktar á þessum tímum.

Gríðarleg skuldasöfnun heimilanna á þenslutímum var framkölluð vegna óábyrgra kosningaloforða þáverandi stjórnarþingmanna um hækkun húsnæðislána, sem leiddi til miskunnarlausrar samkeppni bankanna við Íbúðalánasjóð til þess að knýja fram einkavæðingu hans. Þetta leiddi til fasteignabólu og nær takmarkalítillar framleiðslu á húsnæði.

Hér voru á ferð óábyrgir stjórnmálamenn í atkvæðavæðum og starfsmenn banka á bónusum tækist þeim að koma lánum út. Fólki var talið í trú um að gengi krónunnar væri rétt þó svo margir bentu á að hún væri í raun 30% of hátt skráð. Fall gengis krónunar og að vindurinn rann úr fasteignabólunni kom í bakið á fólki, sem margt hvert var í grandaleysi að koma þaki yfir fjölskyldu sína. Margir þeirra sem eru á fremsta bekk í spjallþáttum sýndu þó mesta ábyrgðarleysið og eru ekki endilega til þess fallnir að vekja samúð.

Það er full ástæða til þess að koma til hjálpar fjölmörgum fjölskyldum, en einhverra hluta vegna hefur ríkisstjórninni ekki tekist að koma sér saman um að hvernig eigi að gera það. Ég hef lýst sjónarmiðum sem ég hef heyrt hjá allnokkrum og reynt að koma þeim á framfæri. Jafnframt því að skoðanir séu ekki eins einhliða og fram hafa komið í spjallþáttum og í bloggheimum.

Flestir vilja að þeim sem verst eru staddir verði hjálpað, en mmargir eru ekki tilbúnir að greiða fyrir allan dótakassann hjá óreiðufólkinu, sem sumt hvert er með háværustu kröfurnar á hendur lífeyrisparnaði þeirra sem eiga lífeyrissjóðina, samfara kröfum um að verkalýðshreyfingin beri ábyrgð á kröfugerð þeirra.

Atvinnuleysið er sannarlega stærsta vandamál okkar. Það eru mikil ótíðindi að stjórnvöldum og Seðlabanka hafi ekki tekist að endurheimta betra gengi krónunnar, slá á verðbólguna og þá um leið vextina og koma atvinnulífinu í gang. Ofan á allt annað stefnir í að flestir kjarasamningar í landinu falli 1. nóvember næstkomandi. Það verður ekki spennandi verkefni að takast á við, sé litið þess ástands sem ríkir á vinnumarkaði og innan heimilanna og gæti svo farið að launamenn verði samningslausir um langa hríð og á meðan hrynji heimilin.

laugardagur, 19. september 2009

Fleiri en ein skoðun í gangi

Undanfarið ár hafa mætt reglulega í spjallþættina og á blogginu margir einstaklingar með tillögur um lausnir á skuldavanda heimilanna með því að þurrka út skuldir fólks, í það minnsta allnokkurn hluta þeirra og það hafi engan kostnað í för með sér bara gufi upp. Reyndar hafa sumar af þeim stjörnum sem skotið var á loft í spjallþáttum RÚV í fyrra verið afhjúpaðar og brotlent. Mikið lifandi ósköp vildi ég óska það væri hægt að fara einhverja af þessum leiðum. Sama á örugglega við um flesta og örugglega gjörvalla verkalýðsforystuna og alla starfsmenn verkalýðsfélaganna.

Þær eru ófáar ferðirnar sem ég hef farið og rætt við hagfræðinga og aðra sérfræðinga og beðið þá um að sannfæra mig um að þetta sé framkvæmanlegt. Ég hef ítrekað verið spurður um þetta á félagsfundum og vill gjarnan beita okkur fyrir þeirri leið sem létti félagsmönnum lífið. Svör þeirra sérfræðinga sem ég ber traust til eru því miður alltaf á sama veg, skuldirnar eru færðar annað, þær gufa ekki upp. Það geri það að verkum að fara verði þá leið að taka á greiðsluvanda þeirra sem í mestum vanda er, það séu einfaldlega ekki til fjármunir í ríkiskassanum til þess að þurrka í burtu skuldir í stórum stíl.

Ég hef tamið mér þau vinnubrögð að segja mínu fólki eins hreinskilningslega og frekast kostur er frá stöðunni eins og hún er hverju sinni. Félagsmenn eru ekki tómir og taka hiklaust afstöðu byggða á þeim staðreyndum sem liggja fyrir. Sumir þar á meðal spjallþáttastjórnendur og stjórnmálamenn tala oft eins og það sé formaður stéttarfélags, eða jafnvel starfsmenn ASÍ sem einhendis taki afstöðu fyrir allan hópinn. Það er bara ekki svo.

Reglulega hafa komið fram þrýstihópar, sem hafa sett fram kröfulista um hvað hópurinn telji að stjórnvöld eigi að gera. Þeir lýsa óskalistum sínum opinberlega jafnframt því að gera kröfu um að það sé á ábyrgð Verkalýðshreyfingarinnar óskalistinn nái fram að ganga. Með þessu er verið að vekja væntingar hjá saklausu fólki og stilla einhverjum óviðkomandi upp við vegg og gera hann ábyrgan.

Þegar kemur í ljós að ekki er hægt að standa við þessar væntingar, verður fólk vitanlega reitt. Ef verkalýðshreyfingin á að taka að ábyrgð á einhverju þarf vitanlega að bera það undir félagsmenn hreyfingarinnar. Þar verða menn að átta sig á því að það er ekki alveg víst að allir félagsmenn séu sömu skoðunar og viðkomandi þrýstihópur og ég veit reyndar hvað varðar sumar af þeim tillögum sem lýst hefur verið í spjallþáttum RÚV hafa fallið í grýttan jarðveg með minna félagsmanna.

Þáttarstjórnendur RÚV virðast aftur á móti taka því sem gefið að allir félagsmenn stéttarfélaganna séu sömu skoðunar og þeir spámenn sem leiddir eru fram í spjallþáttunum. Þeim hættir reyndar til að halda því fram verkalýðshreyfingin sé liðónýt og geri ekkert (hér er t.d. vitnað til margendurtekinna ummæli Egils Helgasonar), af því hún skelli sér ekki verkföll til þess að þvinga fram óskum þrýstihópanna.

Hér er Egill að upplýsa okkur um hversu lítið hann veit um íslenskan verkfallsrétt. Ég er heldur ekki viss um að það yrði endilega samþykkt að fara í verkfall til þess að berja fram þeim skoðunum sem Egill hampar. Spjallþáttastjórnendur RÚV ráðast ítrekað að starfsfólki stéttarfélaganna. Þeim um 20 starfsmönnum sem ég stjórna er oft heitt í hamsi þegar það er fá svona neðanbeltishögg frá spjallþáttastjórnendum RÚV.

Reyndar breytti Linda Blöndal í Síðdegisútvarpinu óvænt út af þessi í vikunni, þegar hún spurði einn viðmælanda sinn sem var búinn að telja upp öll vandamálin í þjóðfélaginu og lauk svo máli sínu með venjubundinn RÚV yfirlýsingu að verkalýðshreyfinginn geri ekkert. „Og hvað viltu svo að hreyfingin geri?“ spurði Linda „Ha“ svaraði viðmælandinn undrandi, hafði greinilega ekki gert ráð fyrir því að þurfa að færa rök fyrir sínu máli og gekk út frá að þetta væri viðtekin sannleikur í RÚV og svaraði aumkunarlega; „Hvað? Ha? Ég veit það ekki“ !!?? og hló svo vandræðalega.

Viðtekin er sú RÚVvenja að halda því fram að verkalýðsforystan sé svo upptekin við að verja völd sín í lífeyrissjóðum og stjórnarsetu í fyrirtækjum, að hún hafi ekki tíma til þess að ná fram óskalistum viðmælenda RÚV. Nú er það svo að fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar og eins lífeyrissjóðanna hafa ítrekað farið fram á við RÚV að fá að koma fram og fjalla um þessi mál. Því hefur RÚV ítrekað hafnað. Ástæða er að geta þess að ég þekki ekki einn einasta forystumann í verkalýðshreyfingunni sem situr í stjórn fyrirtækis og af um 100 forystumanna verkalýðsfélaga eru líklega sem svarar fjölda fingra annarrar handar sem sitja í stjórn lífeyrissjóðs.

Það hefur víða komið fram þar sem ég hef farið í störfum mínum, að töluverður munur er á milli þeirra skoðana sem reglulega koma fram í spjallþáttum og á bloggsíðum og svo skoðana hins þögla meirihluta sem við starfsmenn stéttarfélaganna heyrum á félagsfundum. Vitanlega viljum við öll að hægt sé að fella niður skuldir hjá fólki. En ef á að gera það með því að gera eignir sjóðsfélaga lífeyrisjóðanna upptækar, eða snarhækka skatta, þá verður vitanlega að staldra við og spyrja fólk hvaða leið eigi að fara. Það á ekki bara einn hópur að ráða.

Stjórnendur spjallþátta virðast aftur á móti ekki átta sig á að það eru í gangi allt aðrar skoðanir í samfélaginu en þær sem birtast á bloggum og á athugasemda listum. Hann er stór sá hópur sem er ekki í vanskilum og er að neita sér um allt til þess að hlutirnir gangi upp. Þetta fólk veltir því fyrir sér hvers vegna það eigi að halda áfram að borga af sínum skuldum, neita sér um allt og bæta svo á sig skuldum annarra í formi hærri skatta eða lægri lífeyrissjóðsgreiðslna. Þetta eru þau skilaboð sem ég hef ítrekað fengið á félagsfundum. Það er hlutverk mitt að koma þeim á framfæri, sama hvaða skoðun ég hef svo á því hvaða leið eigi að fara.

Ég hef lýst mínum skoðunum hvað það varðar í pistlum hér á þessari síðu. En það eru þingmenn sem ráða hvaða leið er farinn og þeir sem bera ábyrgð á því, ekki starfsmenn stéttarfélaganna. Starfsmenn stéttarfélaganna eru ákaflega uppteknir við að hjálpa fólki sem er vanda, ekki bara vegna atvinnumissis eða venjubundinna deilna á vinnustað, heldur einnig með margskonar styrki. Margir fjasa um að búið sé að rólunda öllum sjóðum, en í næstu setningu tala menn um að nýta sjóðina til þess að byggja upp. Það er oft svo óendanlega mikil þversögn í umræðuni.

fimmtudagur, 17. september 2009

Tillögur verkalýðshreyfingarinnar

Tillögur verkalýðshreyfingarinnar um breytingar á lögum um greiðsluaðlögun, gjaldþrotaskipti, nauðungarsölu og aðför

Markmið: Greiðsluaðlögun verði notendavænt, virkt, fljótlegt og ódýrt úrræði fyrir einstaklinga sem lentir eru í eða sem stefna í veruleg vanskil. Að réttarstaða skuldara verði verulega bætt í lögum um gjaldþrot, nauðungaruppboð og aðför.

Tillaga um breytingar á ákvæðum gjaldþrotalaga nr. 21/1991 um greiðsluaðlögun og lögum nr. 50/2009

Vorið 2009 tók ASÍ virkan þátt í því að hrint var í framkvæmd vilyrði um upptöku greiðsluaðlögunar hér á landi.

ASÍ lagði upp með eitt heildstætt og skuldaramiðað úrræði sem m.a.

· tæki jöfnum höndum á veðtryggðum og óveðtryggðum skuldum
·
· gæti skilmálabreytt veðskuldum og fellt niður gengistryggingu
·
· væri notendavænt og einfalt
·
· tryggði umsækjanda endurgjaldslausa aðstoð við gerð umsóknar, rafrænt og hjá opinberri stofnun
·
· fæli endurgjaldslausa umsjón með greiðsluaðlögun í hendur opinbers aðila

Í ferlinu féllst ASÍ á þau sjónarmið, að þar sem úrræðið fæli í sér þvingaða niðurfærslu eða afskrift skulda, þyrfti að tryggja réttláta og lögformlega meðferð til þess að aðlögunin héldi gagnvart kröfuhafa. Þetta er í samræmi við norræna löggjöf.

Upphaflegt frumvarp viðskiptaráðherra var frumgagn í málinu, mjög neytendamiðað, um margt þungt og flókið í framkvæmd auk þess sem það tók ekki á veðskuldum. Dómsmálaráðuneytið undir forystu Björns Bjarnasonar lagðist síðan gegn greiðsluaðlögunarhugmyndinni þegar málið fluttist milli ráðuneyta og fékk stuðning til þess úr réttarfarsnefnd. Núverandi dómsmálaráðherra var jákvæðari en réttarfarsnefnd lék áfram lykilhlutverk í vinnslu málsins. Vegna þess tókst ekki að smíða það straumlínulagaða og virka tæki sem ASÍ lagði upp með í sínum tillögum. Út úr vinnunni kom tvenn löggjöf. Annars vegar almenn greiðsluaðlögun sem sérstakur 10 kafli gjaldþrotalaga og hins vegar sérstök greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði. Þessa löggjöf þarf að bæta.

Tryggja þarf betur en gert er að saman sé unnið með almennar skuldir og veðskuldir vegna íbúðarhúsnæðis. Samhliða verði allt ferlið gert fljótvirkara og notendavænna með það fyrir augum að geta sinnt á næstu 6 mánuðum, þeim a.m.k. 10 þúsund fjölskyldum sem eiga við alvarleg greiðsluvandræði að stríða.

Upplýsa verður þann sem eftir aðstoð leitar, um það hverjar afleiðingar þess eru að leitað er eftir greiðsluaðlögun og hvaða hindrunum fólk geti mætt í framhaldinu t.d. hvað varðar yfirdráttarheimildir og kreditkort. Jafnframt þarf að hyggja að því með hvaða hætti sú gerð verður skráð í tölvukerfum banka og lánastofnana þ.e. hvort litið sé á greiðsluaðlögun sömu augum og gjaldþrot og nauðungaruppboð. [ Úr þessu virðist Lánstraust hafa bætt. ]

Það sem betur mætti fara í gildandi löggjöf er t.d. að :

lögin taki til jafnt til þeirra sem stefna í vandræði og þeirra sem í þeim eru hægt sé að sækja um almenna-og veðskuldagreiðsluaðlögun með einni og sömu umsókninni
·
· fellt verði úr lögunum alveg eða tímabundið, það viðmið að þeir fái ekki greiðsluaðlögun sem sköpuðu sér skuldbindingar umfram getu. Það eigi þó ekki við þegar til skulda var stofnað með þeim ásetningi að sleppa undan þeim síðar í skjóli greiðsluaðlögunar
·
· húsaleiguviðmið laganna um greiðsluaðlögun veðskulda verði breytt og sömu reglum beitt gagnvart þeim skuldum eins og gagnvart öðrum þ.e. greiðslugeta ráði
·
· hyggja sérstaklega að þeirri stöðu þegar umsækjendur sitja uppi með óseljanlegt og veðsett lausafé eða óseljanlegt íbúðarhúsnæði umfram þarfir, en meðan það ástand ríkir og meðan leitað er sölu gætu leiguviðmið átt rétt á sér
·
· skýrt verði kveðið á um að heimilt sé að skuldbreyta lánum til langs tíma, fella niður gengistryggingu, breyta verðtryggingu o.fl., allt með það fyrir augum að gera skuldir greiðanlegri og verja þannig bæði hagsmuni skuldara og kröfuhafa til lengri tíma
·
· skýrt verði kveðið á um heimildir til sölu eigna til þess að aðlaga húsnæði að þörfum fjölskyldunnar þegar of stórt hefur verið keypt eða byggt
·
· tryggja betur aðgang borgaranna að tafarlausri og endurgjaldslausri aðstoð við gerð umsóknar og virkja opinberar stofnanir til þess að taka að sér umsjón eða tilsjón
·
· kannað verði sérstaklega hvort Ráðgjafastofna heimilanna geti með einhverjum hætti komið bæði að umsóknar og tilsjónarferlinu þ.a. að skuldari leiti einungis í eina gátt eftir aðstoð. Spurning hvort deildaskipta megi Ráðgjafarstofu þannig að tilsjónardeild starfi undir stjórn og á ábyrgð tiltekins sýslumanns eða hreinlega að tiltekið sýslumannsembætti færi hluta starfsemi sinnar inn á Ráðgjafastofu nauðungarsala stöðvist þegar sótt er um greiðsluaðlögun en ekki þegar úrskurðað er
·
· fyrir liggi strax hvað verði afskrifað af veðskuldum í lok greiðsluaðlögunar enda breytist forsendur hennar ekki meðan á henni stendur ( ljósið við enda ganganna )
·
· tryggt verði að niðurfelling skuldar skerði ekki bætur eða réttindi í trygginga eða lífeyriskerfinu
·
Verði áfram byggt á tvöfaldri löggjöf verði framkvæmd beggja laganna falinn í einni og sömu reglugerðinni.
Eigi að mæta vandræðum a.m.k. 10 þúsund fjölskyldna á næstu mánauðum, er ljóst er að gera þarf greiðsluaðlögunarferlið fljótvirkara og notendavænna og veita verulegum fjármunum til þess og þeirra stofnana sem sjá um framkvæmdina.

Samið verði stutt og einfalt kynningarefni um greiðsluaðlögun og gera það aðgengilegt í afgreiðslu opinberra stofnana, verslunum og almennt sem víðast.

Skipuleggja þarf og halda námskeið fyrir starfsmenn félagsþjónustu sveitarfélaga og ýmissa almanna samtaka sem koma að einstaklingum og fjölskyldum í vandræðum.

Þessu fylgja ítarlegar um breytingar á gjaldþrotalögum nr. 21/1991 og á lögum um nauðungarsölu nr. 90/1991 og lögum um aðför nr. 90/1989

þriðjudagur, 15. september 2009

Lokun á gagnagrunn Jóns Jóseps

Hún virkar einkennilega á mann sú meðhöndlun sem Jón Jósep Bjarnason tölvunarfræðingar hefur fengið í kerfinu, svo ekki sé tekið sterkar til orða. Hann er búinn að greiða 180 þús. kr. leyfisgjald og er í miðri uppfærslu þegar lokað er fyrirvaralaust á hann.

Það eru nákvæmlega svona upplýsingar sem þurfa að vera aðgengilegar. Lokun á þær vinna gegn því sem samfélagi okkar er svo mikil þörf á; undirstöðu trausts.

Í Kastljósinu í gær ræddi Jón um að útvíkka grunninn m.a. með upplýsingum um stjórnarmenn lífeyrissjóða. Jón gaf það reyndar í skyn að það gæti mætt einhverri andstöðu.

Í því umhverfi sem ég starfa myndi því vera tekið fagnandi vegna þess að í gangi eru svo margar órökstuddar og ómaklegar dylgjur um saklaust fólk. T.d. eins og RÚV hefur verið að útvarpa í Kastljósinu að forsvarsmenn stéttarfélaga séu allir á bólakafi í stjórnarsetum fyrirtækja, og eins að allir forsvarsmenn stéttarfélaga sitji í stjórnum lífeyrissjóða.

Þessu hefur verið mótmælt og farið fram á að fá að koma í Kastljósið og Silfrið til þess að leiðrétta hinar makalausu aðdróttanir sem RÚV útvarpar ítrekað um starfsmenn stéttarfélaga. RÚV hefur alfarið hafnað því!!??

Skelfing væri nú gott að fá grunn Jóns til þess að upplýsa okkur um tengsl og hagsmuni manna í viðskiptaheimum og ekki síður um hina einlægu sannleiksást RÚV. Svo einkennilegt sem það nú er heyrir maður svo mikið allt annað á félagsfundum en kemur fram hjá RÚV og stofnunin vill halda að fólki.

sunnudagur, 13. september 2009

ESB - langtímalausn

Þrátt fyrir að fyrrverandi ráðherrar og stjórnarþingmenn haldi því ákaft fram að Hrunið hafi ekki orsakast af innlendum áhrifum, þá virðast margir vera annarrar skoðunar. OECD kemst að þeirri niðurstöðu að kreppan á Íslandi eigi meira og minna rætur í heimatilbúnum orsökum. Bankarnir hafi vaxið alltof hratt eftir að þeir voru einkavæddir og uppbygging þeirra verið alltof flókin fyrir íslenska eftirlitsaðila, meðal annars vegna krosseignatengsla. Það verði að byggja upp smærra og einfaldara bankakerfi á Íslandi undir strangara eftirliti.

Megintillögur OECD til framtíðar fyrir Ísland er að landið aðlagist evrusvæðinu og nái Maastricht-skilyrðunum fyrir inngöngu í Evrópusambandið og gangi síðan í sambandið. Að öðrum kosti verði Íslendingar að halda áfram þeirri peningamálastefnu sem rekin hefur verið undanfarin ár og byggi á verðbólgumarkmiðum en sú stefna hafi reynst Íslendingum bæði dýr og erfið. Þetta er sama og hagdeildir samtaka í atvinnulífinu hafa haldið fram undanfarin ár.

Það er afskaplega erfitt að fóta sig á málflutningi andstæðinga ESB, sem einkennist af upphrópunum og órökstuddum fullyrðingum. Þar má t.d. benda á fullyrðingar þeirra um að við ESB-aðild myndu fiskimiðin fyllast at erlendum fiskiskipum og að við missum yfirráð yfir orkulindum landsins. Það liggur fyrir að lagaumhverfi varðandi orkulindir yrði nánast óbreytt frá því sem nú er. Evrópusambandið á ekki neinar auðlindir. Svíþjóð selur sína umframleiðslu á raforku til annarra Evrópuríkja. Olíulindir Breta og Dana hafa ekki verið framseldar og verða aldrei. Allt eru þetta fullvalda ríki í samstarfi við önnur lönd. Rétt eins og Ísland er í samvinnu við önnur lönd.

Fiskveiðistefna ESB byggir á sögulegum veiðirétt. Öll vitum við, eða ættum allavega að vita; að önnur ESB ríki eiga ekki þann rétt hér. Sameiginleg fiskveiðistefna Evrópusambandsins er eins og fiskveiðistefna Íslands, það er ef um er að ræða sameiginlega stofna, sem margar þjóðir nýta þá á fiskveiðistjórnun þeirra að vera sameiginleg meðal viðkomandi þjóða. Hér má benda á þá stofna sem við veiðum úr og eru sameiginlegir með öðrum þjóðum þ.e. kolmunna, síld og loðnu og karfann hér suður af landinu. Við erum þessa dagana að gera kröfu nákvæmlega um þetta grundvallaratriði hvað varðar veiðirétt í flökkustofnum makríls.

Á það má benda að hið fullvalda ríki Danmörk á litlar auðlindir, en þeir eru duglegir í viðskiptum og stunda gríðarlega útflutning á landbúnaðarvörum. Aðild að ESB er eina tækifæri íslendinga til þess að komast á stóran erlendan markað með fullunnar vörur, án núgildandi takmarkana. Það gefur okkur möguleika sem við höfum ekki um hagræðingu og vöxt í landbúnaði og sjávarútvegi með aðgengi að markaðinum sem opnast við aðild að ESB.

Allir forsvarsmenn íslenskra sprota- og tæknifyrirtækja hafa margítrekað komið fram á þessu ári og bent á að það sé engin framtíð hér á landi fyrir þessi fyrirtæki nema með að aðild að ESB og nýjum gjaldmiðli. Þessi fyrirtæki eru nú þegar flest að taka út allan sinn vöxt í Evrópu inn á ESB-svæðinu og sum þeirra þegar alfarið flutt þangað.

Ef við stöndum utan ESB blasir við fækkun starfa, eða réttara sagt stöðnum. Hvorki landbúnaður eða sjávarútvegur geta búist við vexti vegna eftirspurnar á innlendum markaði. Frekari hagræðing og framlegð mun þannig fyrst og fremst byggja á fækkun starfa. Þau 15 þúsund sem þarf að skapa hér á næstu 3 árum verða ekki til í óbreyttu ástandi og sannarlega ekki í landbúnaði og sjávarútvegi.

Ef við ætlum að komast upp úr dalbotninum þurfum við að skapa á okkur traust og sýna fram á að það standi til að breyta frá fyrri háttum. Með því er atvinnulífinu skapað svigrúm til þess að hefja uppbyggingarstarf. Það þarf að gera með langtímaáætlunum, ekki þessum venjubundnu íslensku „þetta reddast“ skyndilausnum eins og t.d. reisa nokkur álver og virkja allt sem hönd á festir. Forsvarsmenn íslenskra sprotafyrirtækja hafa sýnt fram á að ef þeim er sköpuð eðlileg aðstaða geta þeir byggt upp öflug fyrirtæki með hálaunastörfum fyrir okkar menntaða tæknifólk. Þau störf er ekki að sjá í óbreyttum landbúnaði og sjávarútvegi.

Frida


Mynd af heimasíðu Þjóðleikhússins

Frida er nýtt íslenskt verk eftir hina frábæru listakonu Brynhildi Guðjónsdóttir. Sýningin er ferðalag um einstæðan hugarheim Fridu Kahlo mexíkóskar listakonu sem er ein forvitnilegasta listakona 20. aldar. Brynhildur er í hlutverki Fridu Kahlo og með hlutverk Diegos Rivera fer Ólafur Darri Ólafsson og tekst þeim vel ásamt öðrum leikurum. Leikstjórn er í höndum Atla Rafns Sigurðarsonar. Leikmynd eftir Vytautas Narbutas. Tónlist eftir Egill Ólafsson Lýsing hönnuð af Jóhanni Bjarna Pálmasyni.

Sýningin er ferðalag um einstæða veröld þessarar tilfinningaríku konu, sem hneykslaði heiminn með taumlausu líferni. Stormasamt hjónaband með Diego Rivera, einum þekktasta myndlistarmanni síns tíma var vinsælt umfjöllunarefni. Þó að margir yrðu til að heillast af list hennar meðan hún lifði var það ekki fyrr en eftir dauða hennar sem hún hlaut heimsfrægð.

Ást hennar er okkur framandi og stundum erfitt að skilja hana. En það elska engar tvær manneskjur eins. Frida var sérlunduð, eigingjörn en gædd óvenjulegum hæfileikum og tókst þrátt fyrir veikindi að afla sér heimsfrægðar með sjálfsmyndum sínum, táknmyndum um hennar eigið líf. Verkið er ögrandi. Uppsetningin ákaflega litrík, leikmynd og búningar frábærlega gert, með því besta sem ég hef séð. Sama á við um lýsingu. Tónlistin er góð og flutningur frábær.

Þrátt fyrir allt þetta jákvæða þá vantaði eitthvað í flæðið, manni leiddist næstum því stundum.

föstudagur, 11. september 2009

Stefnumörkun og stefnufesta

Allt bendir til þess að komandi vetur verði mjög erfiður efnahagslega. Atvinnuleysi mun vaxa sakir þess að fyrirtæki og einstaklingar halda að sér höndum. Fjárfestingar verða í lágmarki, ríki og sveitarfélög munu draga úr útgjöldum og framkvæmdum.

Stöðugleikasáttmálinn sem undirritaður var í sumar af sveitarstjórnum, ríkisstjórn, samtökum launamanna og fyrirtækja átti að vera forsenda viðsnúnings í væntingum. Sett var fram spá um 15.000 ný störf sköpuðust á næstu 3 árum, en settur á fyrirvari að það tækist ekki nema að hagvöxtur yrði a.m.k. 4-4,5% á hverju ári, sem er reyndar nokkuð bratt. En ef það markmið á að nást þarf að efla traust og trú á íslenskt efnahagslíf, örva innlendar fjárfestingar í atvinnulífinu, stuðla að beinum erlendum fjárfestingum hér landi og koma á eðlilegum lánaviðskiptum við fjármálamarkaði erlendis.

En hér hefur skort á staðfestu og ákveðna stefnumörkun. Það er búið að samþykkja hugsanlega einhver álver, en fram og tilbaka keyrsla í orkumálum gerir landið ótrúverðugt í augum fjárfesta. Það liggja fyrir fullhannaðar virkjanir en einhverra hluta vegna liggja ekki fyrir ákarðanir um framkvæmdir. Í stöðugleikasáttmála kemur að ríkisstjórnin muni greiða götu stórframkvæmda, en það er eins og allir ráðherrarnir hafi ekki verið á staðnum.

Eins og ég hef nokkrum sinnum komið að hér það verða þessi verkefni ekki að veruleika nema að virkjað verði í neðri hluta Þjórsár auk Búðarhálsvirkjunar. Þær virkjanir eru fullhannaðar og eru langhagkvæmustu og umhverfisvænstu virkjunarkostirnir. Það hafa komið fram allmargir ókostir við rekstur gufuaflsvirkjana og líftími þeirra líklega mun skemmri en áætlað var. Auknar fjárfestingar í atvinnulífinu styrkir fjárhag hins opinbera. Grunnur þessa alls eru fjárfestingar í orkugeiranum.

fimmtudagur, 10. september 2009

Glæst framtíð að baki

Framtíðin er að sigla hjá. Strax við upphaf hrunsins blasti við ótrúlega veik stjórnsýsla haldinni mikilli ákvarðanafælni. Til Íslands hafa leitað fjöldi fyrirtæki með tillögur um uppbyggingu kísilmálverksmiðju, sólarselluvinnslu, koltrefjavinnslu, a.m.k. 3 gagnaver, álver í Helguvík, stækkun í Straumsvík og álver á Bakka.

Þessir aðilar hafa nú sumir hverjir þegar farið, aðrir eru að gefast upp. Ástæður hafa komið fram í ummælum nokkurra þeirra; Ekki hefur verið hægt að ná samkomulagi um afgreiðslu og svör á ásættanlegum tíma. Skipulagsnefndir geta ekki afgreitt mál og þannig mætti lengi telja.

Allt er í frosti hjá stjórnmálamönnum, sem hafa varið öllum sínum tíma undanfarið ár í tilgangslausar deilur um dægurflugur og lóðamörk milli flokkanna. Fram hefur farið hefðbundin keppni í sölum Alþingis og í spjallþáttum um að tala allt niður og ala á svartsýni. Með þessu halda stjórnmálamenn allri uppbyggingu atvinnulífs í fjötrum og draga úr framtaki þjóðarinnar.

Það hefur legið fyrir allt síðasta ár að fyrir lok þessa sumars yrði að taka ákvarðanir um uppbyggingu orkuvera. En ríkisstjórnin getur ekki náð niðurstöðu og er klofinn, þar með eru forsendur framkvæmda brostnar og fyrirtækin á leið annað. Enginn tekur lán á þeim kjörum sem í boði eru, hvorki einstaklingar eða fyrirtæki. Þannig að sá markaður er hruninn.

Við blasir hrikalegur vetur. Mörg fyrirtæki munu endanlega gefast upp og atvinnuleysi mun vaxa en frekar. Gríðarlegur niðurskurður hins opinbera mun hafa víðtækar afleiðingar ekki bara meðal opinberra starfsmanna ekki síður meðal fyrirtækja sem hafa unnið fyrir hið opinbera.

Þetta mun valda því að óvissan og samfara því ólgan í samfélaginu mun vaxa hratt. Það er svo sárt að horfa upp á þetta. Aðilar vinnumarkaðs lögðu á sig mikla vinnu fyrri hluta þessa árs til þess að skapa sátt á vinnumarkaði í tvö ár og leggja með því sitt af mörkum að hægt væri að ná niður verðbólgu og vöxtum og tryggja uppbyggingu. Launamenn og samtök þeirra hafa staðið við sitt. Lögð hefur mikil vinna ásamt starfsmönnum ráðuneyta í að fara yfir að skilgreina hvaða verkefni ætti að leggja áherslu á, ásamt því að stjórnir lífeyrissjóða hafa verið fengnar til þess að vera virkir þátttakendur í verkefninu.

ASÍ lagði upp síðasta vetur heildstætt og skuldaraviðmiðað úrræði, sem tæki jöfnum höndum á verðtryggðum og óverðtryggðum skuldum. Hægt yrði að skilmálabreyta veðskuldum og fella niður gengistryggingu. Kerfið átti að vera notendavænt og einfalt með endurgjaldslausri aðstoð. Það sem blasir við almenning í dag eftir meðhöndlun stjórnsýslunnar er ótrúlega flókið og frosið kerfi þar sem fólk fær ákaflega takmarkaða aðstoð.

Eftir á að hyggja virðist að við hefðum frekar átt að fylgja tillögum um starfsstjórn síðasta haust og senda stjórnmálamenn í hálfleikshlé til þess að endurskoða leikaðferðir sínar, á meðan við værum að vinna okkur úr vandanum. Það liggur í loftinu að það verði pólitísk upplausn þegar líður á veturinn.

Stjórnmálamenn okkar hvaða flokki sem þeir tilheyra hafa brugðist fullkomlega. Þeir verja sínum tíma í hinn hefðbundna sandkassaleik og stjórnsýslan gerir það sem henni hentar eins og hefur verið alin upp við undanfarna tvo áratugi.

Brátt á það við um Ísland að það á að baki sér glæsta framtíð.

miðvikudagur, 9. september 2009

Vitlausasta tillagan - enn sem komið er


Á þessari mynd er launavísitalan sýnd með bláu línunni, hún hækkan úr 100 í 324. Neysluverðvísitalan er sýnd í brúnu línunni, en hún hækkar úr 100 í 243.
Tímabilið er 1989 til 2008.

Ég verð að segja að ég er undrandi á því hvers vegna engin fjölmiðill hefur skoðað betur það sem Stiglitz sagði um að tengja lán fremur við launavísitölu en neysluverðvísitölu. Þetta er líklega langvitlausasta hugmynd sem sett hefur verið fram undanfarnar vikur, er þó af nægu að taka. Hér er vitnað í forsíðuviðtal í Fréttablaðinu í dag.

En sumir og þ.á.m. sumir blaðamenn og sumir þingmenn virðast vera algjörlega vera búnir að kokgleypa athugasemdalaust allar neikvæðar fullyrðingarnar um verðtrygginguna.

Átta menn sig virkilega ekki á því hversu mikið kaupmáttur hafa hækkað umfram neysluvísitöluna síðustu tvo áratugi og í raun hvernig hlutfall afborgana af lánum hafa í raun lækkað? Kaupmáttur var að vaxa að jafnaði um 3 - 4% á ári, sem þýðir í raun að ef þetta kerfi hefði verið þá það dregið afborganir upp um þá tölu umfram það sem þær gerðu

Ef þetta fyrirkomulag Stiglitz hefði verið þá hefði verkalýðshreyfingin mætt í Karphúsið, ekki með kröfur um hækkun launa heldur lækkun launa. Sú launalækkun hefði bætt kaupmátt heimilanna mun meir en kauphækkun.

Er útilokað að hér geti farið fram vitræn og yfirveguð umræða? Við erum búinn að standa í kyrrstöðu og atvinnulífið að verzlast upp og við blasir mun erfiðari vetur en var í fyrra.


Í útreikningum er notast við launavísitala frá 1989. Það er viðurkennt meðal hagfræðinga að sú vísitala sem var gefinn uppfyrir þann tíma gefi ekki góða mynd af því sem var að gerast á mestu verðbólguárunum þegar verðlag æddi áfram og laun fylgdu í kjölfarið.

Hér er ég að tala um hin alræmdu ár 1983 – 1986. Á þessum tíma var ítrekað gripið inn í aðferðir við vísitöluútreikning og uppgefnar tölur vafasamar og óáreiðanlegar. Með sameiginlegu átaki þvinguðu aðilar vinnumarkaðs stjórnvöld og stjórnmálamenn að taka upp alvöru vinnubrögð með gerð Þjóðarsáttar. Ef staðan frá 1989 er skoðuð, en frá þeim tíma höfum við launavísitölu þá blasir við önnur mynd og í fullkomnu samræmi við pistilinn.

Meðalársgildi launavísitölu var 106.3 árið 1989 og hefur hækkað í 345 árið 2008.

Meðalársgildi neysluverðsvísitölu var 126.7 árið 1989 og hefur hækkað í 307.7.

Staðan

Því fleiri þekktir efnahagsérfræðingar sem koma hingað þeim mun betur verður okkur ljóst hversu virkilega illa landinu hefur verið stjórnað á undanförnum áratugum. Þeir aðilar sem hafa svo ákaft kennt sig við frelsi, enga spillingu og gagnsæa stjórnarhætti, eru nú uppvísir af því að hafa stundað andstæðu þessara fullyrðinga sinna af miklum móð. Eftir situr almenningur með svimandi skuldir, eignatap og þjóðarbúið riðar á barmi gjaldþrots.

Þeir sem fóru með efnahagstjórnina undanfarna tvo áratugi deildu út þjóðarauðnum, orkunni og fiskinum. Þeir gáfu ríkisbankana til flokkstengdra vina. Seldu fyrirtæki í eigu ríkisins eins og t.d. Landssímann. Allar þessar tekjur og bullandi góðæri vegna gríðarlegrar þenslu voru nýtt til þess að lækka skatta á þeim efnameiri og ofboðslega þennslu ríkisbáknsins. Landið var rekið á yfirdrætti með of hátt skráðri krónu og inn í landið voru fluttir gríðarlegir fjármunir til þess að viðhalda viðskiptahallanum.

Þrátt fyrir allt góðærið var ekki lagt til hliðar og sjóðum safnað til þess að verjast niðursveiflunni sem hlaut að koma. Í stað þess varð haldið að landanum að hér ríkti ofboðslegt góðæri og almenningur hvattur til þátttöku í hrunadansinum.

Alið var á þeirri skoðun að ríkisrekstur væri af hinu verra og einkaframtakið væri af hinu góða. Hvað blasir við okkur nú? Allar þessar aðgerðir voru sveipaðar leyndarhjúp. Talið var nauðsynlegt að opinberir samningar væru ekki aðgengilegir eins og t.d. orkuverði haldið leyndu. Þeim sem var hyglað af stjórnvöldum fundu upp ýmsar nýjar leiðir til að komast hjá reglunum og stjórnvöld aðstoðuðu með því gera eftirlitsstofnanir nánast óvirkar.

Með allt þetta í huga er málflutningur fyrrverandi stjórnarþingmanna þessa dagana með ólíkindum. Þeir halda því blákalt fram að hér hafi ekki verið óstjórn og það sé erlendri efnahagskrísu að kenna hvernig komið er fyrir Íslandi. Tala eins og þeir erfiðleikar sem glímt er við hafi komið fram eftir að núverandi stjórn tók við og beita málþófi til þess að tefja allar aðgerðir til uppbyggingar. Sé litið til umræðu til úrbóta og stefnu til framtíðar skortir alla getu til málefnalegrar umfjöllunar. Einungis staglast á upphrópunum eins og t.d. um ESB þó svo að vitað sé að stærsta stuðningsmannahóp ESB aðildar sé að finna í röðum kjósenda Sjálfstæðisflokksins.

þriðjudagur, 8. september 2009

Nafnlausar aths.

Undanfarna daga hefur verið umfangsmikil umræða um nafnleysi og athugasemdadálka. Ég hef fjallað um þetta nokkrum sinnum áður. Þegar birtust dag eftir dag athugasemdir á því bloggi sem ég held úti, sem einkenndust að persónulegum og rakalausum dylgjum með upphrópunum. Oftast um eitthvað allt annað en viðkomandi pistill fjallaði um, þá lokaði ég á beina birtingu athugasemda. Stillti kerfið þannig að þær birtast ekki fyrr en samþykki liggur fyrir.

Það leiddi til þess að innsendum aths. snarfækkaði og þeir sem sendu inn aths. héldu sig í langflestum tilfellum við málefnið og það eru mjög fáar sem ekki hafa fengið birtingu. Vitanlega er ég ekki alltaf sammála öllum aths. sem koma, en það er ekki málið.

Stærsti gallinn við aths., fyrir utan persónulegt skítkast og útúrsnúninga, eru rakalausar upphrópanir endurteknar í síbylju. Jafnvel þó búið sé að sýna fram að þær standist ekki. Þær eru auk þess hrútleiðinlegar og ekkert innlegg í umræðuna. Bera þess merki að tilgangurinn sé sá einn að reyna að eyðileggja umræðu um viðkomandi mál.

En upp úr stendur sé litið til fjölda lesenda, allavega á þessari síðu í samanburði við fjölda aths. og svo maður tali nú ekki um sé einungis litið til aths. sem eru út í hött, þá eru þær svo sára-, sárafáar miðað fjölda heimsókna. Eða með öðrum orðum pistillinn nær til mikils fjölda, sem vegur hann og metur án þess að velta mikið fyrir sér aths. dálkunum. Stór hluti þeirra sem koma að máli við mig og ræða innihald pistla minna, segjast aldrei lesa aths. dálkana.

Mér er fullkomlega óskiljanleg harkaleg viðbrögð margra þegar rætt er um hvort setja eigi einhverjar hömlur á nafnlausar aths. Þá er fullyrt að það sé aðför að málfrelsi og fleira í þeim dúr. Ætlast menn sem senda inn nafnlausar aths. virkilega að tekið sé mark á þeim, ef þær byggjast á rakalausum dylgjum og skítkasti? Sumir halda því fram að það sé hægt að rekja allt til IP tölu þess sem skirfar. Það er ekki rétt, þeir sem eru með þær upplýsingar geta ekki látið þær af höndum vegna persónuverndar.

Nokkrar af nafnlausum aths. eru snjallar og eiga fullan rétt á sér, en af hverju vilja menn ekki standa uppréttir bak við þær? Er sú skoðun sem viðkomandi vill koma á framfæri ekki þess virði að viðkomandi vilji standa á bak við hana? Sá nafnlausi setur fyrirfram skoðun sína í þriðju deild.

Í þessu sambandi hlýtur maður að velta fyrir sér eigin stöðu sem umsjónarmaður t.d. þessarar síðu. Sumir áhrifamenn í þessari umræðu halda því fram að það sé umsjónarmaður viðkomandi síðu, sem beri ábyrgð aths.dálkum. Sumt af því sem sett er fram í ath.s.dálkum er eitthvað sem ég myndi aldrei sætta mig að tengdist mér á nokkurn hátt.

Eðlilegt er að gera þá kröfu til þeir sem senda inn aths. að það sé gert með sama orðavali og málfari og í orðræðu í almennum samskiptum þar sem menn standa augliti til auglitis og skiptast á skoðunum.

Það sama ætti við hér um hertar reglur um tjáskipti á netinu og kom fram í umræðum um fjölmiðlalögin, menn myndu eftir sem áður koma skoðunum sínum á framfæri. Það væri tilgangslaust að reyna að banna eitthvað sem Davíð og Halldóri þættu óþægilegt. Menn myndi eftir sem áður koma því á framfæri. Þannig að hertar reglur geta orðið að andhverfu sinni eins og þau drög að fjölmiðlalögum sem voru lögð fram á sínum tíma.

laugardagur, 5. september 2009

Fjölmiðlafrumvarpið

Við höfum verið að lesa og heyra í viðtölum þingmanna sjálfstæðismanna endursögn þeirra á því hvernig umræðan um fjölmiðlafrumvarpið var á sínum tíma. Endursögn þeirra er sögufölsun og réttlæting á eigin gjörðum, eins og svo oft áður.

Allir sem fjölluðu um fjölmiðlafrumvarpið á sínum tíma, utan sjálfstæðismanna, lýstu því ítrekað yfir að þeir væru fylgjandi víðtækri og vandaðri umræðu um endurskoðun á löggjöf um stöðu og starfsemi fjölmiðla hér á landi.

Það ætti að meta með yfirveguðum hætti þörf fyrir fjölmiðlalöggjöf og markmiðið á að treysta og efla vandaðan og sjálfstæðan fréttaflutning fjölmiðla, tjáningarfrelsið, fjölbreytni, gagnrýna umræðu og frjáls skoðanaskipti í landinu. Mikilvægi fjölmiðla hefði aldrei verið mikilvægari fyrir lýðræðið.

Umræða stjórnarþingmanna um fjölmiðlafrumvarpið einkenndist af orðhengilshætti og útúrsnúningum. Væru þeir spurðir um rök voru lögð fram gögn með fáfengilegum atriðum. Dregin voru fram gömul bréf, sem áttu að sýna fram á að þeir sem séu á móti frumvarpinu væru á mála hjá Baugi. Í sjálfu sér lýsti það kannski best eigin háttum um skoðanamyndun.

Fjölmargir þættir koma til álita við endurskoðun löggjafar um fjölmiðla. Það gildir um eignarhald og yfirráð yfir fjölmiðlum. En það gildir ekki síður um frelsi og sjálfstæði fréttastofa og ritstjórna og þær aðstæður sem starfsmönnum á fjölmiðlum eru almennt búnar.

Um framangreind sjónarmið var víðtæk samstaða í samfélaginu þegar fjallað var um fjölmiðlafrumvarpið, þvert á stjórnmálaflokka, viðhorf og hagsmuni í íslensku samfélagi. Í þessu sambandi er sérstaklega ástæða að benda á álit þeirra lögmanna sem tóku þátt í umræðúnni og nutu virðingar í þjóðfélaginu og höfðu trúverðugleika sakir þess að þeir létu pólitískt ofstæki ekki blinda sér sýn.

Fjölmiðlafrumvarpið var mjög umdeilanlegt og ekki síst fyrir hroðvirknisleg vinnubrögð, en ekki síður var það meðferð Alþingis sem olli róti meðal almennings. Valdblinda, dramb og þóttakennd framkoma forsvarsmanna valdhafa gekk fullkomlega fram af almenningi. Í sjálfu sér endurspeglast framkoma sömu aðila gagnvart almenning þegar þróun efnahagsstjórnunar er rædd. Það var samdóma álit mikils meirighluta þjóðarinnar að frumvarpið yrði ekki til þess að efla starfsemi fjölmiðla hér á landi, auka fjölbreytni og lýðræðislega umræðu.

Þvert á móti komu fram sterk rök um að frumvarpið leiddi til þveröfugrar niðurstöðu. Virtir lögmenn bentu á að efni frumvarpsins gengi gegn ákvæðum og markmiðum stjórnarskrá lýðveldisins um tjáningar- og atvinnufrelsi.

Síðasta útspil ríkisstjórnarinnar var ríkisstjórninni til ævarandi minnkunar, þar komu ekki fram neinar efnislegar breytingar á lögunum, það var engin lausn að hækka hámarkseign markaðsráðandi fyrirtækis í fjölmiðlafyrirtæki úr fimm í tíu prósent. Eftir stóðu hömlurnar um að fyrirtæki mættu ekki eiga meira en fimmtung í fjölmiðlafyrirtækjum og bannað var að fyrirtæki í blaðaútgáfu megi taka þátt í rekstri sjónvarps- og útvarpsstöðva.

Umræðan holli miklu uppnámi í þjóðfélaginu. 70% þjóðarinnar ofbauð og vildi staldra við og skoða málið frekar. Hjá þessum mikla meirihluta kom fram mikill vilji til þess að settar væru leikreglur um fjölmiðlamarkaðinn, en jafnframt krafa um að þau væru unnin af yfirvegun og vandvirkni.

Steininn tók svo úr í baráttu þáverandi forsætisráðherra og ráðgjafa hans gegn þjóðaratkvæðagreiðslu auk margra undarlegra yfirlýsinga, styrkti þessi 70% þjóðarinnar enn frekar í þeirri trú að tilgangur frumvarpsins efði verið sá einn að koma í veg fyrir að út séu gefnir á Íslandi fjölmiðlar sem séu stjórnvöldum ekki þóknanlegir.

föstudagur, 4. september 2009

Ögmundur fer með rangindi

Það reynir sannarlega á manndóm ráðherranna þessa dagana og þeir ekki í öfundsverðri stöðu. Fyrir liggja tveir valkostir, skera rösklega niður ríkisútgjöld og hækka skatta til þess að rífa samfélagið út úr þeirri stöðu sem fyrri ríkistjórnir hafa komið þjóðinni í og gera það á 2 -3 árum með 25 MIA niðurskurðarplani á þessu ári og 50 MIA plani 2010 og 2011.

Hinn kosturinn er að gera lítið, halda áfram og neita að horfast í augu við vandann. Þá mun vaxtabyrðin vaxa enn frekar og íslenskt samfélag í núverandi myndi sökkva með langvarandi atvinnuleysi, fólksflótta og tvöfaldri gengisfellingu. Ég hef nokkrum sinnum sett fram þá kenningu að nokkrir núverandi stjórnarþingmanna muni eiga erfitt með að komast í gegnum þann skelfilega vetur sem framundan er og spurning hvernig eigi að túlka orð Ögmundar Jónassonar í dag.

Það var skelfilegt fyrir okkur verkalýðsleiðtoga að sitja í vor og fram eftir sumri dögum saman í Karphúsinu undir endalausum útskýringum og útreikningum hagfræðinga, sem starfa hjá aðilum vinnumarkaðs, sveitarfélögum og stjórnvöldum, þegar þeir fóru yfir þjóðhagslegar stærðir hvað hin eða þessi aðgerð myndi spara mikið og hversu mikið hinn eða þessi skatturinn muni auka tekjur ríkisins. Þar var hnífnum mundað gagnvart mörgu af því sem verkalýðshreyfingin hefur lamið í gegn hvað varðar samfélagsgerðina og aðstoð við þá sem minnst mega sín.

En á hinn bóginn blasir það við að best væri að fara þá leið sem Göran Person sænski ráðherrann sagði við okkur í vetur þegar hann fór yfir það hvernig Svíar unnu sig út samsvarandi vanda á árunum 1992 – 1996. "Horfist í augu við vandann. Takið strax á honum og gerið það á eins stuttum tíma og hægt er."

Sé litið til ummæla ráðherra er greinilegt að sumir vilja taka strax á vandanum, en öðrum er það greinilega ofvaxið. Ljóst er að Ögmundur er í gríðarlegum vanda verandi leiðtogi opinberra starfsmanna og núverandi heilbrigðisráðherra. Hann heldur þessa dagana á mörgum „sjóðheitum kartöflum“ svo ég noti algengt orðlag stjórnmálamanna.

Í Karphúsinu bar oft á milli markmiða í málflutningi forsvarsmanna stéttarfélaganna af almenna markaðinum og forsvarsmanna stéttarfélaganna af opinbera markaðnum. Þar komu fram kröfur forsvarsmanna opinberu félaganna að varnargirðingum yrði stillt upp við störf opinberra starfsmanna. Til þess að þetta væri framkvæmanlegt komu fram sjónarmið m.a. frá Ögmundi Jónassyni um að allir lífeyrissjóðirnir ættu að beina þeim fjármunum sem lausir væri til þess að kaupa skuldabréf af sveitarfélögunum og hinu opinbera.

Forsvarsmenn stéttarfélaga af almennum markaði bentu á að nánast allir þeir 17.000 sem væru atvinnulausir kæmu af almennum vinnumarkaði og forsvarsmenn opinberu stéttarfélaganna væru í raun að krefjast viðvarandi og vaxandi atvinnuleysi á þann hóp en öllum björgunarhringjum beitt gagnvart hinu opinbera. Það gæti ekki leitt til annars, væri til lengri tíma litið, en enn meira hruns og það yrði langvarandi, 10 - 15 ár í stað 3 - 4.

Forsvarsmenn fyrirtækja gagnrýndu einnig þessi sjónarmið á þeim forsendum að það kallaði á umtalsverða hækkun skatta ekki bara einstaklinga heldur einnig á fyrirtækin. Auk þess að það takmarkaði verulega það fjármagn sem fyrirtækin hefðu aðgang að. Virðisauki og útflutningstekjur kæmu frá fyrirtækjum á almennum markaði og það væri í raun undirstaða þess að hægt væri að vinna sig út úr vandanum að koma almenna markaðnum í gang.

Málflutningur Ögmundar í dag er ákaflega ómaklegur í garð ASÍ félaganna og ekki til þess fallin að aðilar íslensks samfélags nái höndum saman til þess að takast sameiginlega á við þann gríðarlega vanda sem við blasir. Það er sú eina leið sem fær er, en þann vilja hefur skort í hinum pólitíska hráskinnaleik sem stjórnmálamenn hafa verið svo uppteknir við undanfarið ár.

fimmtudagur, 3. september 2009

Fáfróðir þáttagerðarmenn hjá RÚV

Ég er að mestu hættur að hlusta á síðdegisútvarp RÚV, ég einfaldlega nenni því ekki. Það er svo lítið varið í það. Ég hlusta frekar á Rás 1 Víðsjá og Spegilinn það eru toppþættir. En ég var að ganga á Esjuna seinni partinn í dag líklega í 230. skiptið ef bókhaldið mitt er rétt og var að hlusta á fréttirnar þá var kynnt að þáttargerðarmenn Síðdegisútvarps ætluðu að fjalla um getuleysi ASÍ og ég hélt áfram að hlusta aldrei þessi vant á Rás 2.

Er ekki dáldið langt til seilst þegar dregin er fram doktorsritgerð frá seinni hluta síðustu aldar og hún tekinn af Síðdegisútvarpi RÚV og túlkuð sem hinu einu fullkomnu sannyndi? Var ritgerðinni tekið gagnrýnislaust á sínum tíma? Á hún við í dag?

Maður verður reglulega vitni af því hversu dagskrágerðarmenn síðdegisútvarpsins eru snöggir til ef einhver kemur fram með neikvæðar fullyrðingar um verkalýðshreyfinguna og eins hve Kastljósið er tilbúið að birta það gagnrýnislaust.

Það liggur fyrir að stéttarfélögin hafa beitt sér á undanförnum misserum gagnvart stjórnvöldum í að taka á vanda heimilanna. Maður myndi ætla að dagskrárgerðarmenn síðdegisútvarpsins hefðu kannað það sem þar hafi komið fram og birt hefur verið áður en þeir báru þær dellur sem þeir fóru með sem sannar fullyrðingu og gerðu hróp að forseta ASÍ þegar hann mótmælti fullyrðingum þeirra og reyndu ítrekað að grípa fram í fyrir honum.

"Forysta verkalýðsfélaganna eru orðnir of tengdir fjármálamarkaðnum vegna stjórnarsetu sinnar í fyrirtækjum." Fullyrtu þáttargerðarmenn. Nú spyr ég hvaða forystumenn í verkalýðshreyfingunni og í hvaða stjórnum sitja þeir. Ef þáttargerðarmennirnir hafa unnið þá vinnu sem við hljótum að gera kröfu til þá eiga þeir að vita það. Ég segi hiklaust að það er engin fótur fyrir þessari fullyrðingu, þetta er rógburður af hálfu þáttargerðamanna.

"Forysta verkalýðsfélaganna eru of tengdir fjármálamarkaði vegna setu sinnar í stjórnum lífeyrissjóða." Ég spyr hverjir eru það og í hvaða sjóðum? Hvernig stóðu þeir sjóðir sig í smanaburði við aðrar sjóði? Í landinu eru um 80 stéttarfélög með þá 80 formönnum og um 5 stjórnarmönnum að auki í hverju. Úr forystu verkalýðsfélaganna sitja í stjórnum lífeyrissjóða líklega um einn tugur manna. Þeir sitja líklega í stjórnum um helming lífeyrissjóða landsins og eru ekki í meirihluta í þeim stjórnum.

"Verkalýðsforystan er ekki að vernda hagsmuni félagsmanna, hún hefur gleymt sér í þessu stjórnar og fjármálastússi." - "Á ekki bara að afskrifa lánin?" - "Á ekki að láta lánveitendur bera byrðarnar?" Þannig rak hver rakalausa fullyrðingin aðra hjá þáttargerðamönnunum.

Nú spyr ég hverjir eru núverandi lánveitendur?
Ríkið á bankana ef ekki verða til eigur til þess að greiða upp skuldir þeirra lendir það á skattgreiðendum.

Ríkið stendur að Íbúðarlánasjóði, ef hann á ekki fyrir sínum rekstri lendir það á skattgreiðendum.

Sjóðsfélagar lífeyrissjóða eiga sjóðina og ef sjóðiurnir eiga ekki fyrir skuldbindingum sínum verður að lækka ellilífeyri og örorkubætur. (Það á reyndar ekki við lífeyrissjóð þáttargerðarmanna og alþingismanna sá reikningur er sendur skattgreiðendum)

Ég hef áður komið að því að sjóðsfélagar í því stéttarfélagi sem ég er í forsvari fyrir hafa krafist þess að við stöndum vörð um lífeyrissjóðinn og hann verði ekki nýttur til þess að greiða upp skuldir annarra.

Félagsmenn í því stéttarfélagi sem ég er í forsvari fyrir hafa krafist þess að félagið sjái til þess að skattar hækki ekki óhóflega nóg sé komið af kjaraskerðingum.

Síðan mætir einhver hópur sem ekki er tengdur stéttarfélögum og gerir hróp að því að stéttarfélögin fari ekki að samþykktum hópsins og vill gera stéttarfélögin ábyrg fyrir því að samþykktir hópsins nái fram að ganga. Þetta sendir Kastljósið út athugasemdalaust og Síðdegisútvarpið gerir það að hinum fullkomna sannleika.

Bíddu aðeins við eru það ekki félagsmenn stéttarfélaganna sem samþykkja á félagsfundum hvað viðkomandi félag á að gera? Í því stéttarfélagi sem ég er í forsvari fyrir hefur verið lögð mikil vinna ásamt öðrum stéttarfélögum að setja fram úrlausnir í atvinnulífi og vandamálum heimilanna. Þetta hefur verið ítrekað birt, en ég minnist þess ekki að Kastljósið eða Síðdegisútvarp RÚV hafi nokkurn tíma haft nokkurn áhuga á að birta það.

Þar er nefnilega ekki það drullubað sem þeir vilja.

"Af hverju beitir ASÍ ekki verkföllum?" spyrja fávísir þáttargerðamennirnir. ASÍ getur ekki beitt verkfallsvopninu, það hefur engan rétt til þess, það geta stéttarfélögin ein gert. Og það geta þau ein gert ef á undan er gengin árangurslaus sáttatilraun sáttasemjara í kjaradeilu.
"Af hverju er ASÍ búið að gleyma sér í stjórnum lífeyrissjóða? ASÍ kemur ekki að kosningu eins einasta stjórnarmanns í lífeyrissjóðum, það gera sjóðsfélagar viðkomandi stéttarfélags sem stendur að viðkomandi lífeyrissjóð.

Er til of mikils mælt að starfsmenn RÚV kynni sér einföldustu reglur á vinnumarkaði áður en þeir fara að geipa í þáttum sínum á fullu launum hjá skattgreiðendum?

Lágkúran gangvart launamönnum og samtökum þeirra ríður ekki við einteyming hjá sumum þáttargerðarmanna Kastljóssins og Síðdegisútvarpsins og ef maður gerir athugasemdir við það fær maður, ja á ég að segja „einkennilega“ pósta neðan úr Efstaleitinu.

miðvikudagur, 2. september 2009

Pattstaða

Menn deilir á um hvernig eigi að taka á skuldastöðu heimilanna. Það má skipta þjóðinni í þrjá hópa. Þá sem gerðu lítið nema þá að eiga fyrir því að mestu og skulduðu þar af leiðandi lítið eftir Þórðargleðina sem stóð frá 2005 – 2008.

Svo var hópur sem var að koma sér fyrir eða stækka við sig, gerðu það með þokkalegri varfærni fengu og létu duga að koma sér fyrir í húsnæði sem þeir sáu fram á að ráða við. Létu það ekki eftir sér að kaupa dýrustu gerð af nýjum og slepptu að fara í ferðir erlendis á meðan á framkvæmdum stóð. Þetta er fólk sem ræður við afborganir með ýtrustu varfærni og með því að neita sér um nánast allt.

Í þessum flokki get ég t.d. bent á fólk sem ég þekki allvel, það var að flytja á höfuðborgarsvæðið 2007, á þrjú börn, keypti sér 110 ferm íbúð í blokk og átti fyrir um 10% af kostnaði. Lét vera að endurnýja 2ja ára gamlan Subarú bíl, þrátt fyrir að ráðgjafi bankans teldi að þau gætu það vel og bauð þeim lán til þess og hvatti þau jafnframt að fara frekar í raðhús. Staða þessa fólks í dag er sú að skuldir hafa vaxið upp fyrir eignastöðu. Það er ekki í vanskilum og kemst áfram með frystingu hluta lána og með því að neita sér um allt, nema ýtrustu nauðþurftir

Og þá er það þriðji hópurinn. Ég þekki annað fólk á svipuðum aldri og ég fjallaði um í flokk 2, það er á svipuðum aldri og eiga líka 3 börn. En það er í þeim hóp að það réðst í byggingu á stóru einbýlishúsi og endurnýjaði bíla heimilisins. Það hefur varið reglulega í ferðir erlendis og gerir það enn. Það er með áskrift af öllum sjónvarpsrásunum, vegna þess að heimilisfaðirinn segist ekki sætta sig að geta ekki fylgst með öllum leikjunum. Þau voru og eru með heimilishjálp 2svar í viku og hafa ekki sagt henni upp. Aðspurð af vinkonum sínum hvernig hún teldi sig hafa efni á þessu, spurði hún á móti; „Ætlist þið virkilega til að allt sé óhreint heima hjá mér?“

Þetta fólk er með greiðslubyrði um milljón á mánuði sem er fjarri því að það ráði við. Það sakar stjórnvöld um að hafa svikið sig um aðstoð og hafnar alfarið að skipta um lífstíl, það hafi haft efni á honum en utanaðkomandi fólk hafi hrifsað hann frá því og það sé hlutverk stjórnvalda að sjá til þess að þessu sé skilað til baka.

Nú er það svo að árið 2007 máttu flestir vita að krónan var 30% of hátt skráð og það var eignabóla í landinu, þó svo þáverandi stjórnarþingmen og ráðherrar höfnuðu þessari staðreynd að mestu. Í flestum fréttatímum undaförnum árum var umfjöllun um niðursveifluna sem myndi koma seinni hluta árs 2008. Stjórnarþingmenn og þáverandi ráðherrar ræddu um tiltölulega auðvelda snertilendingu, en andstæðingar þeirra veltu fyrir sér brotlendingu hagkerfisins. Engin spáði Hruninu. Í dag liggur það fyrir að þó svo Hrunið hefði ekki komið til, einungis „bara snertilendingin“ þá hefði fólkið í þriðja hópnum samt sem áður lent í óviðráðanlegum erfiðleikum. Þetta á við allmarga af þeim sem hafa haft hvað hæst í Silfrinu og á Austurvelli.

Samkvæmt könnunum sem gerðar hafa verið má ætla að það séu einhversstaðar um fjórðungur þjóðarinnar sem er í vanskilum. Ég veit ekki hvort það fólk samsvari allt lýsingunni á þriðja hópunum. Ég hitti allmarga í starfi mínu og þar er áberandi að fólk í fyrri tveim hópunum sem segir að það sé algjörlega fráleitt að það ætli sér að fara greiða upp skuldir neðsta hópsins í formi hærri skatta næstu áratugina. Þetta fólk er miklum meirihluta félagsmanna og krefst þess einnig að lífeyrissjóðir þess verði ekki nýttir til þess að greiða upp skuldir annarra.

Þjóðfélagið er í pattstöðu og hún er erfið staðan sem núverandi ráðherrar tóku við af fyrir ríkisstjórnum. Gylfi viðskiptaráðherra lýsti þessu ágætlega í viðtali nýlega. Þar sagði hann háa útlánsvexti og ekki síður skort á því að fyrirtæki og einstaklingar vildu taka lán til framkvæmda. Þar er mikið af lausu fé sem enginn vildi taka að láni sama gildir um lífeyrissjóðina. En hér er eina leið okkar það er menn öðlist trú á íslensku efnahagslífi.

Það verður að segjast eins og það er að ekki hafa stjórnmálamennirnir aukið á trúverðugleika sinn undanfarna mánuði, þar sem þeir hamast í sínum stöðluðu leikjum þar sem markmiðið er að koma höggi á andstæðinginn og tefja þar með fyrir allri vitrænni umræðu. Ekki batnar það með hinum ómerkilega málflutning að hægt sé að þurrka út Icesave skuldirnar. Það er eitt af því allra ómerkilegasta sem stjórnmálamenn gera í yfirboðum þar sem vaktar eru væntingar hjá almenning sem útilokað er að standa við.

Það er klárt að þjóðfélagið og skattgreiðendur hafa einfaldlega ekki efni á flötum niðurskurði, það er að segja af þeirri stærðargráðu sem hann þyrfti að vera. Menn grípa ekki úr himinblámanum peninga til þess að greiða það, það lendir með beinum eða óbeinum hætti á skattgreiðendum.

Ég hef bent áður á leiðir sem ættu að vera til athugunar, það er endurreisn vaxtabótakerfisins. Fyrri ríkisstjórnir eyðileggðu það með því að láta eignastuðla standa kyrra og nánast þurrka út vaxtabætur á suðvesturhorni landsins með því. Það væri hægt að endurskoða vísitölur og endursetja þær við útreikninga lána í ákveðið tímabil. Það myndi leiða kostnað yfir íbúðarlánasjóð sem ríkissjóður þyrfti að greiða. En hvað varðar lán lífeyrissjóðina til sinna sjóðsfélaga væri sá kostnaður viðráðanlegur vegna þess að það gengi á báða bóga, hvað varðar verðtryggingu lífeyrisgreiðslna og lána.

Þar til viðbótar ætti að skoða barnabætur. aða þessu samanlögðu væri hægt að skapa svigrúm til þess að bjarga miklu. En það breytir ekki neinu um það að nokkrir verða að breyta sínum lífstíl. Það höfum við svo sem nokkrum sinnum þurft að gera. Ég bendi t.d. á tímabilið 1984 framundir 1990, þá var ég að byggja og við þurftum að láta okkur nægja 10 – 15 ára bíla og spara allt.

Fjármálaráðherra hefur sagt undanfarna daga veturinn verði erfiður. Hann er ekki einn um það, um það hefur einnig talað sá hagfræðingur sem ég tek mest mark og hefur verið oft nálægt því að segja rétt til um hvað muni gerast, það er Ólafur Darri hagfræðingur ASÍ, hann segir að það séu engar töfralausnir til. En ef við ætlum að komast upp þessu verðum við að koma atvinnulífinu í gang og ná trausti inn á við og ekki síður út á við.