fimmtudagur, 27. september 2012

Hvað er svona slæmt við nýja stjórnarskrá?


Því er haldið fram að engin efnisleg umræða hafi farið fram um tillögur Stjórnlagaráðs, þrátt fyrir að þær voru unnar upp úr ítarlegum tillögum Stjórnlaganefndar, sem höfðu verið unnar úr niðurstöðum þúsund manna Þjóðfundar, þar sem sat þverskurður af þjóðinni valinn með slembiúrtaki.

Á meðan vinnu Stjórnlagaráðs stóð var leitað til fjölmargra sérfræðinga, auk þess að þjóðin var í beinu sambandi við ráðið í gegnum fundi og yfir netið. Tillögur Stjórnlagaráðs hafa verið til umfjöllunar á allmörgum nefndarfundum og að lokinni þeirri vinnu var ákveðið að bera nokkur atriði undir þjóðina áður en Alþingi afgreiddi málið fyrir lok kjörtímabilsins.

Nú í aðdraganda kosninganna sjáum við varðmenn sérhagsmunasamtaka hamast við að sannfæra fólk um að allar breytingar á Stjórnarskrá séu vondar. Reynt er með öllum ráðum að þyrla upp moldviðri óttans og hræða sem flesta frá því að mæta á kjörstað. Þar standa fremstir þeir sem telja sig eiga öll hlutabréfin í samfélaginu Ísland og hafa náð þeim til sín í gegnum helmingaskipti á eigum þjóðarinnar.

Þegar spurt er eftir rökum koma svör á borð við að til standi að leggja niður þjóðkirkjuna og þá um leið jólin ásamt löggiltum frídögum og taka krossinn úr íslenska fánanum. Hvar ætla menn að draga mörkin í þessu tilræði að þjóðinni!! Svo vitnað sé til ummæla formanns Sjálfstæðisflokksins. Þetta séu óljósar spurningar, illa unnar tillögur og annað í þeim dúr án þess að fara nánar út í hvað það sé.

Hvað er svona slæmt við það að Íslendingar fái að kjósa um nýja stjórnarskrá? Hvers vegna er kvartað svona mikið yfir því að almenningur hafi kosið fulltrúa til þessa verks án aðkomu stjórnmálaflokkanna? Hvað er svona sjálfsagt við það að stjórnmálamennirnir skrifi stjórnarskrá fyrir okkur hin. ÆÆÆÆ Hvers vegna er ekki hægt að treysta almenning til þess að taka ákvörðun um eigin hagsmuni? Er það eitthvað sérstakt?

Í þessi ferli öllu opinberast óttinn við að hagsmunir allra verði settir ofan sérhagsmuna. Það má ekki bera það undir þjóðina hvort náttúruauðlindir séu þjóðareign. Hingað til hefur atkvæðavægi verið misjafnt og kosningareglur með hætti að uppröðun flokksskrifstofanna ræður því að mestu hverjir komast inn á þing, liðlega helmingur þingmanna þarf ekki að óttast alþingiskosningar.

Enn einu sinni skilur maður ekki rök forseta landsins. Nú segir hann að ekki sé hægt að kjósa um stjórnarskrána nema það ríki friður meðal þjóðarinnar. Allir muna hvaða rökum hann beitti þegar hann ákvað að láta kjósa um fjölmiðlalögin, eða bera milliríkjadeilu undir þjóðina. Þar ríkti mikil deila um bæði meðal þjóðarinnar og ekki síður meðal stjórnmálamanna. Öll munum við lætin í kringum kjördæmabreytingarnar.

þriðjudagur, 18. september 2012

Öld kvíðans


Ég er fastur pistlahöfundur í norsku blaði hér er septemberpistillinn. 

Síðasta öld hefur verið nefnd öld bjartsýninnar. Þekking hefur aldrei vaxið jafn mikið á einni öld og gríðarleg verðmæti voru sköpuð. Heimsbyggðin tengdist saman með alveg nýjum hætti. Í lok aldarinnar voru mannréttindi og lýðræði í sókn og fleiri nutu friðar en áður. Hugsjónir jafnréttis náðu áður óþekktum hæðum. Í Evrópu tókst að byggja upp upplýst samfélög með velferðarkerfi sem tryggði almenna menntun, aðgengi að heilsugæslu og aukinn jöfnuð í lífskjörum.

Eins og staðan hefur verið það sem af er þessarar aldar mætti halda því fram að öld kvíðans hafi tekið við. Bjartsýnisöldin byggðist á því að svo margt virtist vera öllum ríkjum í hag. Nú liggur fyrir að þau lönd sem virtust hafa það best lifðu um efni fram og búið er að setja gluggaumslagið í póst til nýrrar kynslóðar, en hún neitar að borga og vill halda áfram að búa við sömu gæði og fyrri kynslóð.

Gráhærðu árgangarnir fara ört stækkandi á sama tíma minnkar hlutfall skattgreiðenda og rekstur velferðarkerfisins kallar á hækkun skatta. Traustið fer minnkandi og nú vilja þjóðir einangra sig og sitja að sínu. Menn lærðu það á fyrri hluta síðustu aldar, að ef ekki yrði komið böndum á kapítalismann með því að koma í veg fyrir miklar sveiflur, myndi það valda kreppum til mikilla skelfinga hjá launafólki. Þessu virðast menn hafa gleymt undir lok síðustu aldar.

Þróun samskiptatækninnar tengdi saman þjóðir og jók bjartsýni, en í dag eykur hún vantraust og kvíða. Samskiptamiðlarnir hafa magnað spunann, lýðskrumið og umsvifalausa fordæmingu, sem hefur valdið aukinni tortryggni og leitt stjórnmálamenn inn á brautir hamslausrar vinsældakeppni. Sá sem segir sannleikann er umsvifalaust fordæmdur sem svikari. Fyrirlitning fólks á stjórnmálum er orðin ógn við lýðræðið. Hver á að veita leiðsögn, nú þegar óvinsælla og framsýnna ákvarðana er alls staðar þörf?

Ísland og Grikkland eru holdgervingar alþjóðlegu fjármálakreppunnar. Ástæður efnahagshamfara þeirra eru þó afar ólíkar. Ísland féll vegna þess að ofurskuldsettur einkageiri dró ríkið með sér niður en Grikkland felldi sig með gegndarlausri ríkisskuldabréfaútgáfu og hömlulausu útgjaldafylleríi. Í dag blasir við að stjórnmálamenn þessara landa földu sannleikann og drógu upp falska mynd. Hér má minna á orð þáverandi íslenskra ráðherra um íslenska efnahagsundrið og að norrænir kollegar þeirra ættu að fara endurmenntun úr þeir virtust ekki skilja snilli íslendinga. Snillin er fólgin í því að hafa handstýrðan gjaldmiðil sem reglulega er felldur og kostnaður færður yfir á launamenn.

Rótina að efnahagshamförnum má finna á auknu frjálsræði í fjármálaheiminum. Markaðir vissu allt og gátu, en ríkið þvældist fyrir. Ísland varð eitt helsta fórnarlamb hugmyndafræðinnar um hinn frjálsa markað. Þar var fjármálastofnunum og viðskiptamönnum gefinn laus taumurinn og fjármálamenn fóru að búa til eigin fjármálaafurðir án tillits til stöðugleika kerfisins. Afurðir sem reyndust á endanum með öllu verðlausar. Afreglun átti að leiða menn frá klíkuskap, pólitískri spillingu og sérhagsmunum, en hún leiddi samfélögin inn í stórkostlega eignatilfærslur frá almenning til fárra.

Heimsvæðingin snýst um að gera allan heiminn að einum vinnumarkaði og ná þannig sem mestri skilvirkni. Vestræn ríki með dýrt vinnuafl eiga í vaxandi erfiðleikum með að keppa við ódýrara vinnuafl í risasamfélögum Asíu. Ef það tekst ekki fellur kaupmáttur og atvinnuleysi eykst. Ríkisvald hefur verið að veikjast eins og hugmyndafræðileg tíska hefur líka meinað mönnum að beita þeim björgum sem ríkin búa þó yfir. Þær hafa misst vald bæði til alþjóðlegra markaða.

Pólitískar ákvarðanir virðast í dag litlu skipta hvað varðar alþjóðamarkaðinn og þróun samfélaga heimsins. Þar ráða aftur á móti greiningarhúsin miklu og spár þeirra leiða til hamslausrar keppni. Þau eru eins og spilavíti og fjárhættuspilararnir þeir viku aðeins úr salnum um tíma, en eru farnir að tínast aftur inn. Þetta eru reyndar sömu menn og áður þó svo að þeir hafi orðið uppvísir um að allt sem þeir greindu og spáðu reyndist rangt. Almannahagsmunir víkja fyrir hagsmunum fjármagnseigenda því þjóðirnar keppa í lækkun skatta vegna fyrirtækjanna. Það getur ekki leitt til annars en lakari skóla, veikari heilbrigðisþjónustu og skuldsettari þjóða.

Það er þrýstingur á að stéttarfélögin dragi úr sínum kröfum og laun hækki ekki. Kaupmáttur minnkar. Arður fyrirtækjanna ræður öllu. Þessi keppni getur ekki leitt til annars en að þau samfélög sem við byggðum upp á síðustu öld muni hrynja og fórnað á altari samkeppninnar. Það vantar lög sem tryggja hagsmuni almennings gagnvart fjármagnseigendum. Það skortir alþjóðlega stjórn á hagkerfið sem tekur mið af heildahagsmunum. Það þarf að skilgreina upp á nýtt hver markmiðin eigi að vera.

mánudagur, 17. september 2012

Viltu vera þátttakandi í endurskoðun stjórnarskrárinnar?


Undanfarið ár hef ég lent í mörgum viðtölum við erlenda fjölmiðlamenn. Aðferð íslendinga við að endursemja stjórnarskránna vakti gríðarlega athygli og íslendingar öfundaðir af því hvernig þeir hafi staðið að semja nýja stjórnarskrá. Þegar fólk kemur saman og við leyfum hverjum og einum að njóta sín verður til eitthvað nýtt og jafnvel eitthvað óvænt. Vald fólksins verður til og fæðir af sér nýja möguleika, eins og endurspeglaðist ákaflega vel í störfum Stjórnlagaráðs sem var allan tíman í beinu sambandi við þjóðina.

Stjórnmál hafa aftur á móti verið vettvangur átaka þar sem afli er beitt fremur en skipulegri umræðu og samstarfi og hafa þar af leiðandi ekki fært okkur neitt nýtt. Stjórnarskrá setur stjórnmála- og ráðamönnum leikreglur. Þess vega þarf að tryggja aðkomu fólksins í landinu að því að setja þær leikreglur og það hefur íslendingum tekist með eftirminnilegum hætti hafa hinir erlendu gestir haft á orði.

Í aðfaraorðum í frumvarpi Stjórnlagaráðs stendur m.a.: "Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð. Ólíkur uppruni okkar auðgar heildina og saman berum við ábyrgð á arfi kynslóðanna, landi og sögu, náttúru, tungu og menningu. Ísland er frjálst og fullvalda ríki með frelsi, jafnrétti, lýðræði og mannréttindi að hornsteinum."

Stjórnarskrá er kjölfesta í þjóðfélaginu þar sem hún mælir fyrir um skipulag ríkisins, meðferð ríkisvalds og verkaskiptingu handhafa þess, löggjafans, framkvæmdarvaldsins og dómsvaldsins. Það hefur verið gagnrýnt að orðalag í núgildandi stjórnarskrá kveði ekki nægilega skýrt á um hlutverk forseta, ráðherra, alþingis og dómstóla. Einnig má benda á að á Íslandi er þingræði en slíkt kemur ekki fram í núgildandi stjórnarskránni, auk þess að þar kemur ekki fram að Ísland sé lýðræðisríki.

Núgildandi stjórnarskrá er sú þriðja sem Ísland hefur haft hún var samþykkt árið 1944 þegar ákveðið var að rjúfa sambandið við Danmörk. Fyrstu stjórnarskránna færði Kristján IX. Danakonungur Íslandi árið 1874. Aðra stjórnarskrá sína samþykktu Íslendingar árið 1920 í kjölfar þess, að íslenska ríkið var orðið fullvalda og sjálfstætt ríki í konungssambandi við Dani árið 1918.

Aðdragandi að samþykktar stjórnarskrárinnar 1944 var ekki langur, og í raun var gengið út frá því að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar skyldi gerð fljótlega. Uppbygging núgildandi stjórnarskrár ber keim af þessu og er að hún er að stofni til frá 19. öld. Þannig er kaflinn um mannréttindi aftastur, en hann er víða fremstur í nýlegri stjórnarskrám. Einstakar breytingar hafa þó náð fram að ganga, oftast hafa þær snúist um tilhögun kosninga og kjördæmaskipan, en einnig umfangsmeiri, svo sem endurskoðun á mannréttindakaflanum árið 1995 og á starfsháttum Alþingis 1991.

Fyrsta spurning á kjörseðlinum 20. okt. er um hvort tillögur Stjórnlagaráðs verði til grundvallar að nýrri stjórnarskrá, mitt svar er já. Þjóðin hlýtur öll vilja vera virkur þátttakandi í þessu starfi.

Stjórnarskrárákvæði um þjóðkirkjuna


Í þjóðaratkvæðagreiðslunni um tillögur Stjórnlagráðs 20. okt. n.k. er spurt um hvort það eigi að vera ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi í nýrri stjórnarskrá. Það er ekki verið að spyrja um hvort aðskilja eigi kirkju og ríki og heldur ekki hvort það eigi að vera þjóðkirkja eða ekki, heldur um það hvort það sé ástæða að tilnefna í nýrri stjórnarskrá ákveðna trúarskoðun umfram aðra.

Mál þjóðkirkjunnar hafa verið ofarlega í þjóðmálaumræðunni undanfarinn misseri og var áberandi á Þjóðfundinum 2010, þar voru skiptar skoðanir, sama á við um Stjórnlaganefnd og svo Stjórnlagaráð. Ráðið komst að þeirri niðurstöðu að fara svipaða leið að og nágrannaþjóðir okkar hafa farið og gera ekki einni trúarskoðun hærra undir höfði en öðrum í stjórnarskrá. Það er áberandi vilji meðal þjóðarinnar að gera öllum trúarskoðunum jafnt undir höfði og þjóðin ætti að geta breytt þessu í samræmi við tíðarandann hverju sinni án þess að þurfa að fara í gegnum umfangsmikið ferli við að breyta stjórnarskránni.

Í núgildandi stjórnarskrá stendur:
62. gr. Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.
Breyta má þessu með lögum.

79. gr. Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipun ríkisins samkvæmt 62. gr., og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar, og skal atkvæðagreiðslan vera leynileg.

Í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. okt. er spurt um hvort ástæða sé til þess að hafa ákvæði um þjóðkirkju í nýrri stjórnarskrá.

Í tillögu Stjórnlagaráðs er þetta ákvæði svona :
19. gr. Kirkjuskipan. Í lögum má kveða á um kirkjuskipan ríkisins.
Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipan ríkisins og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar.

Ef svarað er vill kjósandinn að hin evangelisk lúterska kirkja verði áfram stjórnarskrárvarin þjóðkirkja á Íslandi.

Ef svarað er nei vill kjósandinn að ein tiltekin trúarstefna sé ekki lengur nefnd sérstaklega í stjórnarskrá. En þau lög sem gilda um þjóðkirkjuna vera eftir sem áður óbreytt, en ef það á breyta þeim lögum verður að bera það undir þjóðina.

Sjálfur mun ég svara spurningunni með nei, enda tel ég það vera í samræmi þá umræðu sem hefur verið um þessi mál undanfarinn misseri, að það gangi ekki lengur að einungis ein trúarstefna njóti stjórnarskrárverndar. Ef ekki er mætt á kjörstað er verið að stuðla að óbreyttri stöðu þessara mála.

sunnudagur, 16. september 2012

Beint lýðræði tryggtÁ kjörseðlinum í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. okt. er spurt um hvort að í nýrri stjórnarskrá eigi að vera ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningabærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu. Lagafrumvörp frá grasrótinni og að frumkvæði kjósenda er tvímælalaust djarfasta nýmælið í tillögum Stjórnlagaráðs um beint lýðræði. Þar er um að ræða tvær tillögur.

Önnur gerir ráð fyrir að 10% kjósenda fái rétt til þess að vísa lögum í þjóðaratkvæði. Þar fær þjóðin sama rétt og forsetinn hefur, að undanskildum lögum um skatta, fjárlög, þjóðréttarskuldbindingar og ríkisborgararétt. Alþingi getur leitað eftir málamiðlun við forsvarsmenn undirskriftarsöfnunarinnar fallist þingheimur ekki á frumvarpið óbreytt. Náist hún ekki fer frumvarp kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu, en einnig gagntillaga sem Alþingi kann að leggja fram.
 
Í tillögum Stjórnlagaráðs er vægi forseta áþekkt núverandi skipulagi, en staða hans og hlutverk er gert skýrara. Hingað til hefur helsta vald forseta þótt felast í málskotsréttinum, sbr. 26. gr. stjórnarskrárinnar. Með því að færa það vald til ákveðins hlutfalls kjósenda, er dregið úr valdavægi forsetans í stjórnskipan landsins.
 
Hinn hluti tillögu Stjórnlagaráðs um beint lýðræði er tillaga um að 2% kjósenda geti lagt mál fyrir Alþingi, sem fer á dagskrá þingsins og er þar jafnrétthátt öðrum málum sem fyrir þinginu liggja. Í þessu tilfelli getur Alþingi fellt tillöguna, en þá ekki fyrr en eftir eðlilega málsmeðferð.
 
Í greinargerð Stjórnlagaráðs kemur fram að mikilvægt sé að Alþingi setji lög um framkvæmdina og hvernig undirskriftasöfnun geti farið fram. Hér er stigið mikilvægt skref í valddreifingu með hæfilegri blöndu af fulltrúalýðræði og beinu lýðræði fólksins. Stuðningsmenn beins lýðræðis mæta á kjörstað og segja já.

Náttúran og auðlindaákvæðiðNeikvæðu á að mæta með jákvæðu. Niðurrifi á að mæta með uppbyggingu. Einræði og kúgun á að mæta með auknu lýðræði. Sérhagsmunahópar hafa gengið öndverða leið og náð um of að einoka íslenskt samfélag og beitt aðstöðu sinni til þess að verja sjálftekna stöðu. Krafa almennings hefur verið sú að ná tilbaka sem af honum hefur verið tekið.
Umræða um náttúruna og auðlindir landsins hefur verið áberandi undanfarin misseri og var eitt af aðalmálum Þjóðfundar með ákalli um sérstakt auðlindaákvæði í stjórnarskránna. Þjóðin hefur ekki verið sátt við hvernig þessi mál hafa þróast. Þar blasa við geigvænlegar skuldir sjávarútvegsins, yfirveðsetningu, afskriftir og byggðaröskun.

Í vinnu Stjórnlagaráðs var þessi umræða umfangsmikil. Náttúra Íslands, sem á að vernda,  er undirstaða lífs í landinu og tryggja rétt á heilnæmu umhverfi, samfara því að fjölbreytni lífs og lands sé viðhaldið og náttúruminjar, víðerni, gróður og jarðvegur njóti verndar. Við eigum að haga nýtingu náttúruverðmæta þannig að þau skerðist sem minnst til langframa og réttur náttúrunnar og komandi kynslóða sé virtur. 

 Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið þær, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og því má aldrei selja þær eða veðsetja, beint eða óbeint. Til auðlinda í þjóðareign teljast náttúrugæði, svo sem nytjastofnar, aðrar auðlindir hafs og hafsbotns innan íslenskrar lögsögu, vatns- og virkjunarréttindi og jarðhita- og námaréttindi.

Við nýtingu auðlindanna skal hafa sjálfbæra þróun og almannahag að leiðarljósi. Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar þeirra, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.

Tillögur Stjórnlagaráðs í auðlindamálum eru skýrar og miða að því að þjóðin endurheimti aftur yfirráðaréttinn yfir fiskimiðunum. Tillögurnar tiltaka ekki nákvæmlega hvernig auðlindastjórn skuli háttað yrði henni breytt og er það vísvitandi gert. Tillaga Stjórnlagaráðs miðast við leiðréttingu og framtíðarskipan þessara mála með heildarhagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi.

Í kosningum 20. okt. næstk. er spurt um hvort náttúrulindir sem ekki eru í einkaeigu verði lýst sem þjóðareign. Mitt svar er já. Sá sem ekki mætir á kjörstað er í raun að lýsa því yfir að hann styðji óbreytt fyrirkomulag í auðlindamálum.

laugardagur, 15. september 2012

Atkvæðavægi - Persónukjör


Í umræðum um stöðu dreifbýlis gagnvart þéttbýlinu á SV-horninu stillir dreifbýlisfólk málum gjarnan upp með þeim hætti, að það búi við einhverskonar samsæri af hálfu þéttbýlinga. Til þess að vinna gegn þessu samsæri verði að viðhalda mismunandi vægi atkvæða og þar með sé stuðlaða að öflugri atvinnutækifærum í dreifbýlinu og launakjör bætt, samfara því að minnka atvinnuleysi og slaka félagslega stöðu í dreifbýlinu.

Þessu er haldið fram þrátt fyrir að um áratugaskeið hafi verið mikið misvægi atkvæða. Þrátt fyrir það er atvinnuleysi hér á landi mest í úthverfum höfuðborgarinnar, sama á við slaka félagslega stöðu, hún er langmest í þéttbýlinu.

Í nýlegri könnun kom fram að 85% ungs fólks sætti sig ekki við þau kjör sem því er búið á Íslandi í dag. Ísland er að dragast aftur úr nágrannalöndum okkar. Fólk er ekki einungis að flýja dreifbýlið, það er á leið úr landi og reyndar koma flestir þeirra sem flytja til útlanda frá þéttbýlissvæðum.

Vægi atkvæða hefur ekkert með atvinnu- eða kjaramál að gera. Það eru allt önnur atriði sem ráða því hvar fólk velur sér búsetu og hvert fyrirtækin leita þegar þau eru að koma sér fyrir og byggja upp starfsemi sína.

Það er þingræðið sem þarf að efla. Hér hefur ríkt of mikið ráðherra- og flokksræði og þingmenn verið valdalitlir. Yfirgnæfandi vilji er í landinu fyrir því að landið verði eitt kjördæmi. Í tillögum Stjórnlagaráðs er jafnframt tryggt að núverandi kjördæmi fái öll eitthvert lágmark þingmanna, eðlilegt væri að lágmarkið væru 5 þingmenn í hverju hinna núverandi kjördæma.

Í tillögum Stjórnlagaráðs vega atkvæði jafnt sama hvaða af landinu þau koma. Frambjóðendur geta boðið sig fram á kjördæmis og landslista sömu samtaka. Kjósandi velur lista í sinu kjördæmi en hann getur einnig með persónukjöri valið frambjóðendur á lista í sínu kjördæmi og líka valið frambjóðendur úr öðrum kjördæmum.

Ef hver kjósandi fær 5 atkvæði, getur hann valið þingmenn þvert á lista í landskjöri. Það eru umtalsverðar líkur á því að kjósendur nýti einhvern hluta atkvæða sinna til þess að kjósa þingmenn sem teljast vera dreifbýlismenn. Hvers vegna? Jú helmingur íbúa þéttbýlisins eru aðfluttir með mikil tengsl við dreifbýlið.

Með því kosningafyrirkomulagi sem Stjórnlagaráð leggur til er persónukjör tryggt, hin umdeildu prófkjör myndu missa vægi sitt og flokksræðið minnkar.

Á kjörseðlinum 20. okt. er spurt um hvort heimila eigi persónukjör í kosningum til Alþingis í meira mæli en nú er. Svar mitt er eindregið já. 

föstudagur, 14. september 2012

Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt?


Á Þjóðfundi árið 2010 og síðar í Stjórnlagaráði kom fram áberandi vilji til þess að jafna atkvæðavegi í landinu og eins að tryggja kjósendum jafna möguleika til þess að ráða sem mestu um hverjir veljist til þingsetu. Núgildandi kosningafyrirkomulag skerðir umtalsvert þetta frelsi kjósenda. Auk þess tryggir það fyrirfram að um helmingur þingmanna er í öruggum þingsætum þegar stóru flokkarnir eru búnir að stilla upp sínum listum, sakir þess að kjósendur fá í dag einungis að velja á milli flokkslista, sem settir eru fram í hverju kjördæmi í heilu lagi.
 
Kosningakerfið í frumvarpi Stjórnlagaráðs felur í sér kjördæmavarið landskjör. Það er ekki verið að afnema kjördæmin, þvert á móti er verið að rýmka heimild Alþingis til sveigjanleika. Í núgildandi stjórnarskrá segir að kjördæmiskuli vera 6 til 7, en í tillögum Stjórnlagaráðs geta þau verið eitt til átta talsins.
 
Gert er ráð fyrir að kjósandi geti kosið frambjóðendur af öllu landinu en landssvæðum er jafnframt tryggður lágmarksfjöldi þingsæta. Kjósendum er í sjálfsvald sett hvort þeir vilja gera upp á milli frambjóðenda eða ekki. Kjósandi getur farið núverandi leið og merkt einungis við einn lista í því kjördæmi sem hann býr, eða merkt við þá frambjóðendur sem hann treystir best. Velji kjósandi sér þrjá frambjóðendur, t.d. tvo úr flokki A en einn úr flokki B. skiptist atkvæði hans þá í sama hlutfalli milli þessara tveggja flokka.
 
Ákvæði í frumvarpi Stjórnlagaráðs um þingkosningar eru hvorki umfangsmeiri né ítarlegri en gengur og gerist í stjórnarskrám. Ákvæði í norsku stjórnarskránni eru liðlega helmingi lengri en er í frumvarpi Stjórnlagaráðs. Undan því verður ekki vikist að hafa ákvæði stjórnarskrá sem að lágmarki eru nægilega ítarleg til þess að meginmarkmiðin sem kosningalög eiga að byggja á, séu tryggð og varin fyrir skyndiákvörðunum og hagsmunagæslu sérhagsmuna. Til þess að tryggja þetta enn frekar verða breytingar á kosningalögum einungis gerðar með samþykki 2/3 atkvæða á Alþingi og slíkar breytingar má ekki gera ef minna en sex mánuðir eru til kosninga.

Hægt er að bjóða fram lista í einstökum kjördæmum eða á landsvísu. Frambjóðendur skipa sér á lista og hafa val um að bjóða sig fram á kjördæmis- og landslista. Þingsætum skal úthluta til samtaka frambjóðenda þannig að hver þeirra fái þingmannatölu í sem fyllstu samræmi við heildaratkvæðatölu. Þingsætum skal úthluta til frambjóðenda út frá atkvæðastyrk þeirra. Fjöldi þingsæta er bundinn einstökum kjördæmum.
 
Ég ætla að mæta á kjörstað og merkja við já við þessa spurningu og hvet alla til þess sama. Með því erum við að auka lýðræðið í landinu og tryggja að vald kjósenda, sem er með tillögum Stjórnlagaráðs aukið umtalsvert á kostnað flokkseigendafélaganna.

mánudagur, 10. september 2012

Launamunur kynjanna


Umræða um jöfnun á launamun kynjanna er ofarlega á baugi. Mig langar aðeins að benda á nokkur atriði í því efni. Svona að fenginni reynslu úr aths. dálkunum ætla ég að byrja á því að taka það fram að ég er ekki á móti jöfnun launa kynjanna og í flestum launakönnunum inna RSÍ hafa rafkonur verið með hærri meðallaun en rafkarlar, það er að segja ef við notum sömu meðaltalsreglur og nýttar eru í launakönnunum og íslenskum samanburðaraðferðum. Það hefur komið nokkrum sinnum áður fram hér á þessari síðu að mér finnst oft lítið að marka það sem menn fá út þess háttar samburði, það er að bera saman launakannanir mismunandi hópa.

Í þessu sambandi er það grundvallaratriði að mjög stórt hlutfall launamanna á íslenskum vinnumarkaði er á launum sem liggur töluvert ofan við umsamin lágmarkslaun en á þeim vinnumörkuðum sem ég þekki til, þ.e.a.s í nágrannalöndum okkar. Hin íslenska sérstaða er reglulegt gengisfall krónunnar. Áratugum saman hefur íslenskum launamönnum verið gert að búa við það ástand að kjarasamningar standast aldrei i út samningstímann, sökum þess að stjórnmálamenn fella reglulega krónuna til þess að leiðrétta slaka efnahagsstjórn og leiðrétta hana með aukasköttum á launamenn í gegnum gengisfellingu launa.

Þetta íslenska ástand veldur því að hér landi fara fram reglulega launaleiðréttingar á vinnustöðunum á miðju samningstímabili, vitanlega sérstaklega hjá þeim hópum og einstaklingum sem eru í bestri stöðu hverju sinni. Þessu fyrirkomulagi er síðan reyndar lýst sem ákaflega jákvæðu í skýrslum um íslenskan vinnumarkað; Jú hann sé mun sveigjanlegri en aðrir þar sem að til eru lágir launataxtar sem tiltölulega fáir eru á. Það hefur verið nýtt til þess að flytja inn erlent vinnuafl og skella því á þá taxta. Í nágrannalöndum okkar eru launamenn að langstærstum hluta á umsömdum launatöxtum og þeir standast út samningstímann. Kaupmáttur er stöðugur, lán taka ekki stökkbreytingum og vextir eru þriðjungar af því sem þeir eru hér á landi.

Um síðustu aldamót var 60% munur á umsömdum lágmarkstöxtum rafiðnaðarmanna og meðalraunlaunum. Í dag hefur þessi munur minnkað um helming sakir þess að okkur hefur tekist að ná fram í kjarasamningum undanfarinn áratug um verulegri hækkun á lægstu töxtum okkar umfram umsamdar lágmarkslaunahækkanir. Það hefur verið tiltölulega auðvelt þar sem það hefur haft sáralítil áhrif til hækkunar á launakostnaði í rafgeiranum. Sárafáir hafa verið á lægstu töxtum innan sambandsins. Í dag blasir við okkur sú staðreynd að það er um 30% munur á meðallaunum og umsömdum gólfum í kjarasamningum, ekki 60%.

Kröfu um átak í jöfnun launa kynjanna er eins flestir kannast við, oftast svarað með að það sé ekki hægt nema að allir fari á umsamda taxta. Það segir allt til um þann vanda sem við blasir ef það á að ná fram jöfnun launa kynjanna, þarf að byrja á því að færa umsaminn lágmarkslaun að raunlaunum, þá fyrst verður hægt að taka á þessum vanda með markverðum hætti. Það sem náðst hefur undanfarinn misseri er fyrir tiltölulega litla hópa og mælist vart eins og fram hefur komið í þeim launakönnunum sem umræða dagsins vísar í.

Og síðan í lokinn ef það á að tryggja að kaupmáttur þeirra kjarasamninga haldist, verður það ekki gert nema með því að taka upp gjaldmiðil, sem heldur þokkalega sínu raungildi út samningstímann hverju sinni. Þegar öllu er á botninn hvolft, þá er allt eitthvað og fer einhvernvegin, þótt margur efist um það á tímabili.

sunnudagur, 9. september 2012

Nei við EES og ESB?


„Ákveði Íslendingar að hætta aðildarviðræðum mun að sjálfsögðu enginn neyða þá til að halda áfram. Evrópusambandið sótti ekki um að Ísland gerðist meðlimur, og aðildarríkin samþykktu að fara í viðræður og við hófum þær.“ segir Peter Stano hjá stækkunarskrifstofu Evrópusambandsins. „Það er undir Íslendingum komið hvort þeir vilji halda áfram. Ákveði þeir að hætta aðildarviðræðum mun að sjálfsögðu enginn neyða þá til að halda áfram og enginn mun reyna að koma í veg fyrir það.“

Það er barnalegt að halda því fram að ESB löndin sækist eftir því að komast yfir auðlindir Íslands til þess að bjarga efnahag ESB. Jafnvel þó allt yrði virkjað hér á landi sem hægt er að virkja dugar það einungis til þess að skapa orku fyrir eina litla borg eins og t.d. Árósa eða Gautaborg. Ástæða er að minna á að Danir eiga sínar olíu og gaslindir í Norðursjó eins og Englendingar og Svíar eiga sín námur og Finnar sína skóga.

Fram eru komnar vangaveltur innan ESB hvort sambandið vilji aðild að samningum sem innihalda mikinn lýðræðishalla eins og EES samningur er og hvort EES löndin séu að borga “eðlilegt” verð fyrir EES aðild? Á grunni þessa eru verulegar líkur á að ESB muni endurskoða aðildargjald að EES, enda þurfi að tryggja að full ESB aðild sé alltaf mun fjárhagslega hagkvæmari en aukaaðild í gegnum tvíhliða samninga eða EES.

Að slíta ESB viðræðum verður því varla kostnaðarlaust fyrir Ísland, ásamt því að samningsstaða Íslands mun að sama skapi veikjast enda mun Brussel halda á góðum spilum á meðan Ísland segir nei við ESB en já við EES. Það verður ekki bæði haldið og sleppt í þessu mikilvæga máli. EES áskrift verður alltaf ólýðræðislegri en full ESB aðild. Í umræðunni í vetur verður að fjalla einnig um framtíð EES samningsins og framtíð hans eftir að ESB aðildarviðræðum verður slitið.

Ein helsta ástæða þess að margar þjóðir hafa sótt um aðild að ESB er til þess að uppræta spillingu og klíkusamfélag og koma á eðlilegum stjórnarháttum, ekki síst í efnahagsmálum. Þetta er helsta ástæða þess að launamenn hér á landi sækjast eftir aðild. Helsta markmiðið er að ná þeim efnahagslega stöðugleika sem íslendingar hafa farið á mis við allt frá stofnun lýðveldisins. Það hefur bitnað mest á launamönnum. Örgjaldmiðill studdur af risastórum gjaldeyrisvarasjóðs sem kallar árlega á tugamilljarða vaxtaútgjöld fyrir íslenskt samfélag. Lækkun vaxta og stöðugleiki myndi lækka útgjöld heimilanna umtalsvert, auka kaupmátt og um leið auka fjárfestingar í atvinnulífinu og fjölga störfum.

Í þessu sambandi er full ástæða að minna á að endurskoðun allra kjarasamninga í landinu er að hefjast, þar blasir við mikil spenna milli starfsgreina. Útflutningsgreinarnar hafa notið góðs af því að krónan hrundi. Nokkrar starfsgreinar fengið mun meira launaskrið en aðrar, þar helst einnig í hendur að þar er atvinnuleysi og kaupmáttarhrap mest. Ekki einungis vegna minna launaskriðs og meira atvinnuleysis, margir þeirra sem hafa vinnu í þessum greinum hafa ákaflega takmarkað vinnumagn.

Starfsmenn þessara starfsgreina sætta sig ekki við að sitja eftir og krefjast í dag mikilla launahækkana og að raungengi krónunnar verði hækkað. Þessi mál er ekki hægt að leysa til langframa án þess að aflétta höftunum á gjaldmiðlinum og við það verkefni ræður Ísland ekki hjálparlaust.