mánudagur, 30. maí 2011

Árangur í starfsendurhæfingu – dregur úr fjölgun öryrkja

Aðilar vinnumarkaðarins hafa á undanförnum þremur árum unnið að uppbyggingu á starfsendurhæfingarþjónustu um allt land með stofnun og rekstri VIRK – Starfsendurhæfingarsjóðs. Eitt af höfuðmarkmiðum sjóðsins er að draga markvisst úr líkum á því að launafólk hverfi af vinnumarkaði vegna varanlegrar örorku með aukinni virkni, eflingu starfsendurhæfingar og öðrum úrræðum.

Ýmsir stjórnmálamenn hafa beint margskonar neikvæðum aðdróttunum í garð þessarar starfsemi. Nú starfa um 30 sérhæfðir ráðgjafar í starfsendurhæfingu hjá stéttarfélögum um allt land og hafa þeir veitt 2100 einstaklingum ráðgjöf og þjónustu. Einstaklingum sem hafa þurft aðstoð við að komast aftur á vinnumarkaðinn eftir veikindi eða slys. Þjónustan er opin fyrir alla þá sem búa við skerta vinnugetu og stefna að aukinni þátttöku á vinnumarkaði og er notendum að kostnaðarlausu.

Af þessum 2100 einstaklingum hafa um 600 nú lokið þjónustu og stærstur hluti þeirra hefur náð fullri vinnufærni og eru þátttakendur á vinnumarkaði í dag. Þessi þjónusta hefur fram að þessu eingöngu verið fjármögnuð af atvinnulífinu og hefur hún skilað miklum árangri bæði fyrir þá sem hennar njóta og fyrir samfélagið í heild sinni. Það er því áhugavert að skoða þessa miklu uppbyggingu í þjónustu á sviði starfsendurhæfingar í samhengi við þá staðreynd að dregið hefur verulega úr nýgengi örorku bæði hjá Tryggingastofnun ríkisins og hjá mörgum lífeyrissjóðum.

Einn af þeim aðilum sem vísar mörgum einstaklingum til ráðgjafa VIRK er Tryggingastofnun ríkisins. Ráðgjafar VIRK hafa haft umsjón með um 400 endurhæfingaráætlunum sem sérstaklega eru gerðar samkvæmt þeim kröfum sem TR gerir vegna greiðslu endurhæfingarlífeyris. Þessi þjónusta ráðgjafa VIRK er boðin fram og unnin í samvinnu við TR og má áætla að vinnuframlag ráðgjafa VIRK nemi nokkur þúsund klukkutímum á undanförnum tveimur árum. Þessi þjónusta er innt af hendi og fjármögnuð af VIRK – Starfsendurhæfingarsjóði og hefur verið veitt Tryggingarstofnun að kostnaðarlausu.

Í þessu ljósi er athyglisvert að sjá forstjóra TR fjalla um hægari fjölgun öryrkja bæði í ársskýrslu sinni og í fjölmiðlum um helgina. Þar er ekki minnst einu orði á það mikla samstarf sem starfsmenn stofnunarinnar eiga við ráðgjafa og sérfræðinga VIRK í þessum málum heldur er stjórnvöldum og stofnunum ríkisins alfarið eignaður þessi árangur. Þetta er miður, því það hefur frá upphafi verið markmið aðila vinnumarkaðarins að eiga uppbyggilegt og jákvætt samstarf við TR og aðra opinbera aðila um þetta mikilvæga verkefni sem allir hafa svo mikla hagsmuni af að takist farsællega.

fimmtudagur, 26. maí 2011

Kosningalögin og Stjórnarskráin

Umfangsmikil umræða fer fram þessa dagana í Stjórnlagaráði um hvernig breyta eigi kosningakerfinu, þetta er líklega flóknasta málið sem fyrir ráðinu liggur. En af hverju er þetta svona ofarlega í hugum landsmanna? Margir hefja sína umfjöllun á ræðum um mismun milli landshluta og verja eigi landsbyggðina. Fólk flytji suður og gegn því verði að vinna með því að tryggja stöðu landsbyggðarinnar í gegnum kosningakerfið.

Algengt er að auki sé vísað er í að laun og atvinnuástand, laun séu að meðaltali mikið hærra á SV- horninu og það verði að lagfæra með því að tryggja aðkoma landsbyggðarinnar að stjórn landsins. En bíddu aðeins, nánast allt atvinnuleysið er á SV- horninu. Flestar einstæðar mæður eru á SV-horninu. Það fólk sem býr við mestu félagslegu vandræðin býr á SV-horninu. Þetta er staðan þrátt fyrir að landsbyggðin hafi margfalt atkvæðavægi miðað við SV-hornið og enn flytur fólk af landsbyggðinni.

Reikna menn með því að sjávarútvegur og landbúnaður taki til við að hækka laun og fjölga störfum? Þróunin hefur verið í hina áttina í þessum atvinnugreinum og það er ekkert sem bendir annars en að sú þróun verði áfram. Öll fjölgun starfa hefur verið í tækni- og þjónustugreinum á undanförnum áratugum. Fólk sækist í störf þar sem boðið er upp á þróun og möguleika til starfsframa. Það er fólk í góðum störfum á góðum launum, sem er að flytja af höfuðborgarsvæðinu til Norðurlandanna. Það er ekki fólk af landsbyggðinni.

Hvað er það sem hefur umfram annað leitt yfir okkur þau vandræði sem Ísland býr við? Hvers vegna er meiri spilling á Íslandi en annarsstaðar? Hvers vegna gengur Íslandi mun verr en nágrannalöndum? Er það vegna þess að hér sé ekki nægilega mikið atkvæðamisvægi? Um hvað eru menn að tala? Ef bæta á stöðuna verður að greina rætur vandans.

Það kosningakerfi sem okkur er búið hafa þingmenn búið til þess að tryggja eigin stöðu. Núverandi kosningakerfi tryggir að liðlega helmingur þingmanna situr alltaf í öruggum sætum og óttast ekki næstu kosningar. Það voru margendurkjörnir þingmenn sem sátu í valdastólunum þegar landið flaug fram af hengifluginu án sjáanlegs bremsufars.

Þessum margendurkjörnu þingmönnum miðar ekkert við að laga efnahagskerfið, en nýta reglubundnar gengisfellingar til þess að leiðrétta slaka efnahagsstjórn. Það er þetta stjórnkerfi sem brást. Það voru þeir sem áttu að sinna eftirlitshlutverkinu en gerðu það ekki og standa í vegi fyrir breytingum.

Allar rannsóknir sína að þeim mun stærri sem kjördæmin eru, þeim mun minna verður flokks- og foringjaræðið, hlut minnihlutahópa betur borgið og sama á við um stöðu kvenna. Rannsóknir sýna að þeim ríkjum hefur vegnað best, hafa mestan jöfnuð og eru með fjölmenn kjördæmi, öndvert við einmenningskjördæmalönd.

Það eru engin rök sem styðja það að vandi Íslands leysist ef kjósendur verði áfram dregnir í dilka eftir búsetu. Umtalsverður meirihluti landsmanna vill að tekið verði á flokksræðinu og hafa lýst stuðningi við persónukjör. Það á að hafa alla lista óraðaða og leyfa kjósendum að velja með persónukjöri þvert á lista.

Málið snýst ekki um að lagfæra stöðu landsbyggðar gagnvart SV-horninu. Það snýst um að lagfæra stöðuna á Íslandi gagnvart öðrum löndum. Snýst um að lagfæra hverjir eru kosnir til valda, ekki hvernig flokksmaskínur raða sínum mönnum í örugg sæti án tillits til getu og fyrri starfa.

Það eru einmitt þessi atriði er það sem Alþingi vandræðast með og drepur málum á dreif þegar ræða á þennan vanda. Stjórnlagaráð verður að greina vandann og sporna við honum í nýrri Stjórnaskrá. Afganginn á síðan að setja í kosningalög, þetta verðum við að gera sakir þess hversu fullkomlega Alþingi hefur mistekist að fást þennan vanda, enda málið sitjandi þingmönnum allt of skylt til þess að hafa nokkurn vilja til breytinga.

Upptaka sparifjár launamanna á almennum vinnumarkaði

Ég hef oft bent á þá gríðarlegu mismunum sem stjórnmálamenn gera á opinberum launamönnum og launamönnum á almennum markaði. Stefnan virðist vera sú að launamenn á almennum vinnumarkaði séu annars flokks þjóðfélagsþegnar. Þetta kemur víða fram núna ný verið í frumvarpi Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra, um aðgerðir í ríkisfjármálum um sérstaka vaxtaniðurgreiðslu vegna skuldavanda heimila. Þar sem senda á tæplega 2 MIA reikning til lífeyrisþega á almennum vinnumarkaði.

Samskonar tillögur komu nýlega fram hjá nokkrum þingmönnum þar sem þeir leggja til að raunvextir verði lækkaðir á gildandi lánum með handafli og beinlínis nefnt að tiltekin vaxtaprósenta sé á við 20% lækkun höfuðstóls skuldarinnar. Ég hef margoft bent á það í pistlum að skuldir hverfa ekki heldur aðeins færast til. Þingmennirnir leggja til að ellilífeyrir launamanna á almennum vinnumarkaði verði lækkaður um milljarðatugi á hverju ári. Þetta er eignupptaka á sparifé launamanna á almennum vinnumarkaði.

Í nýlegri umsögn Viðskiptaráðs er bent á að í 9. grein skattabandormsins sem fjallar um skattlagningu lífeyrisssjóða sé um grófa tvísköttun að ræða. Þetta er nýr skattur sem er ekki í samræmi við yfirlýsingu stjórnvalda í tengslum við gerð þá kjarasamninga sem verið var að afgreiða í gær. Skatturinn er í mótsögn við þau markmið að standa vörð um getu sjóðanna til útgreiðslu.

föstudagur, 20. maí 2011

Lýðskrum þingmanna

Þingmenn eru með tillögu á Alþingi um að laun verkalýðsforingja megi aldrei vera hærri en þreföld byrjunarlaun hjá viðkomandi stéttarfélagi. Venjubundið lýðskrum af verstu sort sem hefur dregið álit Alþingi niður í svaðið. Fullkomið þekkingarleysi og að venju stuðst við rakalausar dylgjur.

Í raun er verið að leggja til að laun starfsmanna stéttarfélaga hækki umtalsvert. Vitanlega þiggja þeir laun samkvæmt kjarasamningum, ekki krónu umfram það. En í lýðskrumsumræðunni er ætíð stuðst við byrjunardaglaun unglinga og þau borin síðan saman við heildarlaun starfsmanna með langan starfsaldur.

Hvernig fer þetta fram í þeim félögum sem þingmenn stjórna, hlýtur maður að spyrja. Í þeim félögum sem ég hef starfað í er þetta borið undir félagsmenn og það eru stjórnir félaganna sem bera ábyrgð á launum starfsmanna og verða að gera grein fyrir þeim á ársfundum.

Þessari tillögu hlýtur einnig að fylgja sú spurning til þingmanna; Hvað með þá sjálfa? Þau laun sem þeir véla með eru laun öryrkja og lífeyrisþega. Er það tillaga þingmanna að tengja laun sín við þrefaldar örorkubætur?

En það er svo margt sem þingmenn láta sér til hugar koma, en horfa ætíð framhjá eigin umhverfi. T.d. vilja þeir setja sérstök lög um hverjir megi sitja í stjórnum lífeyrissjóða almennra launamanna, en þeir hafa ekki sett sömu kröfur hvað þá sjálfa varðar og skipa hiklaust sjálfa sig í stöður við að stjórna landinu, ráðuneytum og margskonar peningastofnunum án sérstakra krafna.

T.d. er ljóst að Seðlabankinn, Íbúðarlánasjóður, bankakerfið og þeir lífeyrissjóðir eru í vörslu bankanna og stjórnmálamanna fóru kirfilega á hausinn. Sama má segja um nokkrar stofnanir sem stjórnmálamenn hafa stjórnað eins og t.d. Orkuveituna og sveitarfélögin og fl. og fl.

Það voru launamenn sem stofnuðu sína lífeyrissjóði um 1970 og hafa valið stjórnendur þeirra. Staðreyndin er sú að almennu lífeyrissjóðirnir eru einu peningastofnanirnar sem komu standandi út úr Hruninu. Þeir töpuðu margfalt minna en þeir lífeyrissjóðir sem voru í vörslu sérfræðinganna í bönkunum, og svo má einnig benda á lífeyrissjóð verkfræðinga og útkomu hans, sem er landsfræg. Einnig stöðu lífeyrissjóðs alþingismanna sem FME segir að þurfi að vera með tvöfalt hærri iðgjöld en lífeyrissjóðir annarra landsmanna, því hann sé svo kyrfilega á hausnum .

Ég er ekki með þessu að segja að ekki eigi að gera kröfur til stjórnarmanna almennu lífeyrissjóðanna og það gert auk þess að þeim er gert að leita eftir sérfræðirágjöf.

Bann við mismunum vegna aldurs

Ég er einn af þeim fjölmörgu sem tel inngöngu í ESB eina helstu forsendu fyrir því að okkur takist að losna undan ofríki og spillingu þeirra hópa sem hafa hrifsað til sín völdin, ná stöðugleika, lækkun vaxta, tryggingu kaupmáttar og losna við reglubundnar kollsteypur með við gengisfellingum og eignatilfærslum frá launamönnum til hinna efnameiri.

En það er einnig ýmislegt sem við þurfum að athuga, reyndar jafnvel þó við göngum ekki í ESB. Margskonar tilskipanir koma fram sem eru ekki alveg að ganga upp, alla vega ekki á almennum vinnumarkaði. Það er nú þannig að flestir þeirra sem semja lög og reglugerðir eru stjórnmálamenn og opinberir embættismenn. Fólk sem hefur aldrei unnið annarsstaðar en á opinbera vinnumarkaðnum.

Þessa dagana er á ferð tilskipun um bann við mismunun vegna aldurs. Þetta hefur jafnvel náð alla leið inn á borð okkar sem erum að vinna við endurskoðun stjórnarskrárinnar. Háleit hugsun og góð, en það er samt ákveðin atriði sem fólk verður að íhuga.

Eftir viku á að fjalla um þetta mál á ráðstefna Vinnuréttarfélags Íslands, áhrif tilskipunar 2000/78/EB sem m.a. bannar mismunun vegna aldurs og þeirra frávika sem þar eru heimiluð hefur vakið ýmsar spurningar um rétt starfsmanna og heimildir fyrirtækja, sbr. dóma Evrópudómstólsins. Undirbúningur að innleiðingu tilskipunarinnar í íslenskan rétt stendur nú yfir og búist er við að frumvarp verði lagt fram í haust.

Á undanförnum áratug hafa stéttarfélög á almennum vinnumarkaði unnið að því að fella sem mest af áunnum aldurshækkunum inn í launataxta, þeim hefur verið flýtt þannig að þær koma nú inn eftir 1 ár, 3 ár 5 ár og 7 ár. Launakerfin eru þannig mun brattari fyrsta áratuginn, áður dreifðust þessar aldurshækkanir allt fram til 25 ára aldurs.
Ástæða þess að stéttarfélögin lögðu áherslu á þetta var :

a) Það er fólk um þrítugt sem þarf hæstu launin, vegna þess að þá er það koma undir sig fótunum, er með þyngstu byrðina vegna heimilisástæðna.

b) Þegar svo var komið að 45+ ára starfsmaður ætti að fá umtalsverða launahækkun vegna lífaldurs umfram ungan starfsmann, sem að auki var með „nýja“ menntun, varð það í vaxandi mæli orðið að myllustein hins eldra starfsmanns. Leiddi til uppsagnar og stundum tilboð um endurráðningu á lágmarkslaunum nýs starfsmanns. Þetta er þekkt um allan heim, oft nefnt hrollvekja miðaldursins.

c) Reynslan sýnir að ef starfsmenn uppfylla ekki kröfur um starfsreynslu og hæfni til starfsins á fyrstu 5 – 8 árum, eru aðrir ráðnir í starfið, en menn verða að endurskoða menntun sína.

d) Á almennum vinnumarkaði hefur vaxandi mæli tíðkast að segja starfsmönnum upp mánuði áður en umsamdar launahækkanir eða íþyngjandi kjaraatriði koma til framkvæmda og þeim boðin endurráðning á óbreytt kjör, jafnvel byrjendakjör.

e) Það sem hefur reynst best í þessu er að stuðla að því að starfsmaður eigi ávalt rétt á símenntun, sem hann sjálfur velur, ekki fyrirtækið. Með því bætir hann atvinnuöryggi sitt og kemur í veg fyrir að hann þróist út af þeim vinnumarkaði sem hann menntaði sig inn á. Einnig kemur það í veg fyrir að fyrirtækin geti lagt á starfsmenn átthagafjötra með því að gera þá að „fagídjótum“ með sérhæfingu inn á sífellt þrengra svið og svo ef starfsmaður vill færa sig til í starfi uppgötvar hann að hann er bjargarlaus ef hann fer úr sínu sérhæfða umhverfi.

Tillögur um lögbundnar aldurstengingar munu einungis leið til enn frekari athafna á þessu sviði. Þetta er sambærilegt og þegar uppsagnarfrestur hefur verið lengdur, fleiri verða án fastráðningar. Verulegar líkur eru á að þessar tillögur kalli yfir okkur hið andstæðu tilgangs þeirra, þ.e. að lausráðnum 45+ ára starfsmönnum fjölga og launakjör þeirra verði lakari en þau eru í dag.

Flestar þvingandi ráðstafanir ofanfrá í þessum efnum gera lítið annað en að búa til ófyrirséðar (en samt fyrirsjáanlegar) afleiðingar. Íslenski vinnumarkaðurinn hefur verið tiltölulega sveigjanlegur miðað við það sem algengast er í Evrópu og ég tel að það sé öllum til góðs, jafnt fyrirtækjum sem launafólki.

Ósveigjanleiki á vinnumarkaði gerir lítið annað en að auka atvinnuleysi og leiða menn í skrýtnar hjáleiðir sem þjóna einungis hagsmunum þeirra sem leita sífellt leiða til þess að sniðganga eðlilega viðskipta- og samskiptahætti. Þetta er eitt af því sem við þurfum að passa að vernda við hugsanlega inngöngu í ESB og getur gefið okkur betri samkeppnisstöðu.

Grunntónninn er, lagasetningar í þessa veru hafa valdið skaða á almennum vinnumarkaði. Stéttarfélögin eru fyllilega hæft til þess að takast á við þessi mál í samningum sínum við fyrirtækin.

föstudagur, 13. maí 2011

Löggjafar- og framkvæmdavaldið

Öll umræða er pólitísk og einkennist af mati á aðstæðum og umræðu um stöðuna hverju sinni. Staða umræða hefur verið á undanhaldi, hún hefur vikið fyrir sérhagsmunum fjármálalífsins, samfara því að maðurinn í vaxandi mæli orðið að hlutlausum móttakanda, fjarlægst sérstöðu sína og nálgast aðrar lífverur. Við sjáum einstaklinga hugsunarlaust ástunda hrifsun af græðgi, sem endurspeglast í fullkomnu tillitsleysi í garð náungans. Sama og einkennir hátterni annarra lífvera.

Í Stjórnlagaráði eru áberandi umræða um hlutverk og stöðu Alþingi og skilnað framkvæmda- og löggjafavaldsins. Stjórnmálamenn hafa undanfarna áratugi stefnt markvisst að því að gera sig óþarfa. Losa sig undan allri ákvarðanatöku með afreglun og ábyrgðarleysi. Stjórnvöld eiga að setja lög, fylgja þeim eftir og verja stöðu almennings.

Sé litið til þess hvernig staða Alþingis hefur þróast á undanförnum árum, kemst maður ekki hjá því að velta því fyrir sér hvort sé afleiðing og hvort sé orsök. Hafa þingmenn gefist upp á því að eiga vitræna umræðu á hæstvirtu Alþingi, eða hefur umræðan á Alþingi þróast á þennan veg sökum þess að þingmenn hafa gefist upp gagnvart fjármálalífinu og ráðherraræðinu?

Í gegnum stjórnmálatengsl þróaðist spilling. Markaðs- og efnahagsöflunum voru gefin laus taumur. Þessi öfl voru talinn hafa ráð við öllum vanda. Þau áttu að leita sjálfvirkt að lausnum sem myndu leiða til óendanlegrar og stigvaxandi velferðar. Í öllum hlutverkum var sprenglært fólk úr háskólum. Skýrslur streymdu frá skrifstofum fullum af sérfræðingum. Allar upplýstu þær okkur um að hér væri allt í himnalagi. Hið íslenska efnahagsundur fékk þrefalt A plús í einkunn. Síðar kom í ljós kom að þetta var allt byggt á lygi og falsi. Markaðsöflin tortímdu sjálfum sér undir stjórn háskólamenntaðra manna. Íslenskir háskólar hljóta að skoða sína stöðu.

Reglulega hefur skollið á efnahagshrun og það síðasta nýafstaðið. Spilapeningarnir eru enn á borðinu og fjárhættuspilararnir eru enn í spilavítinu, þeir viku aðeins úr salnum um tíma. Sömu menn eru enn að störfum í greiningardeildunum, þó svo að allt sem þeir greindu og allar þeirra spár reyndust rangar. Enn greina þeir á sömu forsendum og gefa út spár. Allt er til reiðu til þess að spilararnir stigi aftur inn í salinn og hefji fjárhættuspilið aftur og stefni í næsta hrun. Miðað við óbreytta stöðu er það óhjákvæmilegt.

Þessi keppni getur ekki leitt til annars en að þau samfélög sem byggð voru upp á síðustu öld muni hrynja. Fórnað á altari samkeppninnar. Það vantar lög sem tryggja hagsmuni almennings gagnvart fjármagnseigendum. Það verður að setja alþjóðlega stjórn á kerfið sem tekur mið af heildahagsmunum. Það þarf að skilgreina upp á nýtt hver markmiðin eigi að vera.

Kerfið eins og það er nú tekur ekki mið af hagsmunum almennings. Fyrirtækin sem hafa stjórnað ríkisstjórnum í gegnum stjórnmálatengsl. Í samspili þessara aðila eru ákvörðuð þau kjör sem launamönnum er boðið upp á. Viðhorf sem voru að leiðarljósi við uppbyggingu samfélaga hafa glatast og viðhorf fjármálanna tekið við. Barnaþrælkun eykst, mansal viðgengst sem aldrei áður, kynlífsþrælkun vex, réttindalausum farandverkamönnum fjölgar og hungrið í heiminum vex. Vatn er að verða söluvara og aðgangur að því takmarkaður. Það er kominn verðmiði á rigninguna.

Stjórnmálakerfið hefur verið sjálfbært undanfarin ár og viðheldur sjálfu sér í einangruðu umhverfi. Þeir sem koma nýir inn verða umsvifalaust að samsama sig settum leikreglum, annars verða þeir undir, einangraðir og hraktir á dyr. Á Þjóðfundum hefur þessi staða markað umræðuna og kallað er eftir viðbrögðum.

Ný viðhorf verða að fá svigrúm til þess að þróast og rjúfa þá kyrrstöðu sem stjórnmálin hafa skapað. Í núverandi kosningakerfi er liðlega helmingur þingmanna sjálfkjörinn. Þessu verður að breyta, í nýrri stjórnarskrá verður að veita þingmönnum meira aðhald.

Almenningur vill að áhrif þingmanna verðin aukin á kostnað ráðherraræðis. Krafa er um skýran aðskilnað löggjafar- og framkvæmdavalds. Í tillögum Stjórnalagaráðs sem nú er unnið að taka á þessu. Í tillögum er gert ráð fyrir að ráðherrar sitji ekki á þingi. Sé alþingismaður skipaður ráðherra víki hann úr þingsæti á meðan hann gegnir embætti og varamaður tekur sæti hans á þinginu.

Í Stjórnlagaráði er lagt til að alþingismenn einir geti lagt fram frumvörp til laga. Öflugri og sjálfstæðari þingnefndir muni styrkja stöðu Alþingis gagnvart ráðherrum. Auka á vægi fastanefnda Alþingis til þess að draga úr ríkisstjórnarræði og færa löggjafarvaldið og frumkvæði að lagasetningu í auknum mæli til þingsins. Lagt er til að sett verði Stjórnlagadómstóll/Lögrétta sem muni leiða til þess að öll lagasetning verði vandaðri og lög stangist ekki á við stjórnarskrá eða stangist á við fyrirliggjandi lög.

Beint lýðræði hefur orðið að klisjutengdri fullyrðingu og hefur tekið á sig þá mynd að vera tilfærsla valds til þeirra sem auðinn hafa og völdin. Núverandi forseti Íslands hefur þróað stjórnskipunina á grundvelli eigin túlkunar og þróað ábyrgðarleysiskenningu. Forsetinn hefur gert sjálfan sig að sjálfstæðri valdastoð. Hann ræður því hvort löggjöf er sett með aðferðum fulltrúalýðræðisins og á grundvelli þingræðis eða með beinu lýðræði í þjóðaratkvæði. En hvorki forseti né ríkisstjórn eiga að taka afleiðingum þess að tapa í þjóðaratkvæði.

Forsetinn hefur einnig gefið margskonar yfirlýsingar í nafni Íslands, þar sem hann túlkar marga hluti með eigin hætti, jafnvel þvert á viðtekin viðhorf hér heima. Enginn ber stjórnskipulega ábyrgð á yfirlýsingum hans hvorki gagnvart Alþingi né öðrum þjóðum. Túlkun hans er nýmæli í íslenskri stjórnskipun.

Þjóðfundur leggur áherslu að framtíð forsetaembættisins verði skýrt mörkuð, sama kemur fram í tillögum stjórnlaganefndar. Viðhorf eru uppi um að forsetaembættið verði lagt niður eða hið gagnstæða að tilvist þess verði tryggt og málskotsrétturinn til þjóðarinnar. Þetta kallar á að í nýrri Stjórnarskrá verði að fjallað um forsetann, ráðherra og framkvæmdarvaldið og setja mun skýrari reglur um athafnir forsetans.

miðvikudagur, 11. maí 2011

Auðlindir í þjóðareigu

Þegar mannkynsagan er skoðuð blasir við allt að frá því að rómverjar fóru um heimsbyggðina og yfirtóku svæði og var síðar margendurtekið þegar stórveldin lögðu undir sig þjóðir og gerðu að nýlendum sínum. Ætíð voru það auðlindir sem réðu hvert ferðinni var heitið. Innbyggendur hvers svæðis voru ekki spurðir ráða. Það sama er upp á teningunum í dag, þar má t.d. líta til fiskveiða undan ströndum Afríku, eða fyrirtæki sem eru að leggja undir sig vatnsréttindi í heiminum.

Sé litið þróunar þessara mála hér á landi hefur alla tíð verið ráðandi sú hugsun að eignarhald auðlinda landsins eigi að vera í höndum þjóðarinnar. Markmið með sjálfbærri þróun á að vera að hver kynslóð skili auðlindum náttúrunnar jafnsterkum til næstu kynslóðar. Fyrir Stjórnlagaráði liggja fyrir tillögur frá Þjóðfundi og Stjórnlaganefnd að fjallað verði um auðlindir í náttúru Íslands í nýrri stjórnarskrá, eignarhald þeirra og nýtingu.

Það er óhjákvæmilegt að hugtakið þjóðareign sé skilgreint með rúmum hætti þannig að það vísi til allra auðlinda í einkaeigu, ríkiseigu eða eigendalausra. Í almennum valdheimildum ríkisins felst heimild til gjaldtöku fyrir hagnýtingu auðlinda. Um hagnýtingu auðlinda í einkaeigu ber að taka tillit til reglna um eignarréttarvernd.

Eftir Hrunið hefur það opinberast berlega hversu harkaleg baráttan um völdin er hér landi og hvernig hún hefur heltekur nánast allt samfélagið. Þjóðin hefur látið í ljósi þá ósk að afleiðingar Hrunsins leiði til nýs upphafs og hún vill siðbót og fá til baka þau völd sem safnast hafa á hendur fárra. Í einræðisríkjum tíðkast það að einræðisherrar og útvaldir vinir gefi sjálfum sér allar auðlindir landsins og búa í miklum vellystingum, á meðan lýður landsins býr við örbyggð á lágum launum.

Ísland er eina vestræna landið þar sem þetta hefur gerst og gerðist á meðan við fetuðum okkur mun lengra í spor nýfrjálshyggjunnar en aðrar þjóðir. Nú fer lýðræðisbylgja um einræðisríkin sunnan Miðjarðarhafs og segja má að hún hafi náð hingað og birtist í kröfum um nýja stjórnarskrá og þráhyggju launamanna á almennum vinnumarkaði í margra mánaða höfnun á því að setja ákvæði í kjarasamninga um eignarrétt fárra á fisveiðiauðlindunum. Ef við lítum til viðbragða valdahópanna má sjá þar mikla samsömum hér og í einræðisríkjunum.

Þar er það talin mikil frekja að hin almenni borgari krefjist þess að auðlindum sé skilað til allra þjóðfélagsþegna og þær nýttar til þess að tryggja innviði samfélagsins svo ekki þurfi að hækka skatta enn meir eða skera niður í velferðarkerfinu.

Í tillögum frá Stjórnlaganefnd sem liggur fyrir Stjórnlagaráði stendur; „Auðlindir í náttúru Íslands eru þjóðareign sem ber að nýta á sjálfbæran hátt til hagsbóta landsmönnum öllum. Ríkið hefur eftirlit með meðferð og nýtingu auðlinda í umboði þjóðarinnar og getur heimt gjald fyrir heimildir sem veittar eru til hagnýtingar. Heimildir til að nýta náttúruauðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarrétti skulu aldrei leiða til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis einkaaðila yfir þeim.“

sunnudagur, 8. maí 2011

Hið endalausa rugl Hreyfingarinnar

Hreyfingin vill grípa fram fyrir hendurnar á félagsmönnum stéttarfélaga á almennum markaði og skipa þeim fyrir. Þjakaðir af forræðishyggju. Í Silfrinu í dag lýsti Þór Sari því hvernig liðsmenn Hreyfingarinnar vildu að verkalýðshreyfingin hefði samið, hann studdi mál sitt m.a. með því að vitna í einn stjórnarmann í VR, en eins og flestir vita þá er sá maður nær undantekningalaust einn á móti öllum í öllum málum.

Eins og allir vita sem hafa kynnt sér hvernig unnið er að gerð kjarasamninga innan stéttarfélaganna á almennum vinnumarkaði, þá eru haldnir félagsfundir og vinnustaðafundir og kröfugerð stillt upp og síðan samninganefndir kosnar, sem gert er að reyna að ná fram því sem í kröfugerðunum stendur. Á þessum fundum kom fram mikill samhljómur um að stéttarfélögin stæðu saman og myndu vinna að sérstakri hækkun lægstu launa og gera 3ja ára kjarasamning.

Þetta var síðan kannað í ítarlegri skoðanakönnum sem Félagsvísindastofnun Háskólans vera fengin til þess að gera eftir að samningagerð var farinn af stað. Þar kom fram að 96% félagsmanna stéttarfélaganna á almennum vinnumarkaði studdu að þessi leið væri farinn. Hreyfingin gefur ekkert fyrir vilja félagsmanna stéttarfélagnanna sem segir okkur með hvaða hætti er unnið í þeim flokki, þingmönnum kemur ekkert við hvað félagsmenn vilja. Reyndar vor þessi vinnubrögð studd af öðrum þingmanni í Silfrinu og kemur engum á óvart.

Þeir leggja til að launamenn á almennum markaði felli nýgerða kjarasamninga, hafni svo krónutöluhækkun lægstu launa og geri nýja kjarasamninga á þeim grunni, það er taki einungis prósentuhækkunina. Finnst mönnum þetta boðlegur málflutningur, en það verður að segjast ens og það er hann er svo dæmigerður fyrir þann málflutning sem okkur er boðið upp á spjallþáttum RÚV.

Hreyfingin gefur út hverja rugl tilkynninguna á fætur annarri um starfsemi stéttarfélaga á almennum markaði, t.d. um hvaða laun eigi að vera hjá starfsmönnum stéttarfélaga. Starfsmenn þeirra stéttarfélaga sem ég þekki eru allir á launum samkvæmt kjarasamningum síns félags og það væri snarlega fellt á næsta aðalfundi ef breyta ætti því formi og t.d. þrefalda þau laun.

Þingmenn Hreyfingarinnar hafa sett fram frumvarp til laga og vilja setja þak á laun starfsmanna stéttarfélaganna þau megi ekki vera meir en þreföld laun en er í kjarasamningum umrædds félags. Þeir treysta ekki félagsmönnum stéttarfélaganna til þess að sjá um sín mál, vilja gera það fyrir þá.

Nær væri fyrir þingmenn að setja fram lög um að þeir ætli að binda laun sín við þau laun sem þeir ákvarða, en það eru ellilífeyris-, örorku- og atvinnuleysisbætur.

Nú vilja liðsmenn Hreyfingarinnar skipta sér af því hvernig launamenn á almennum markaði afgreiða nýgerða kjarasamninga sína. Enn einu sinni kemur fram forræðishyggjan sem einkennir allt sem frá þessum stjórnmálaflokk kemur.

Þeir hafa ekki einu sinni haft fyrir því að kynna sér innihald kjarasamninganna og þau forsenduákvæði sem þar eru og halda því fram að þeir séu ekki verðtryggðir, sem er ótrúleg fáfræði. Hver myndi gera 3ja ára samning ef hann væri ekki bundin við verðbólgu og gengiisvísitöluna. Líklega bara liðsmönnum Hreyfingarinnar, ef litið er til tilagna þeirra.

Hér birtist enn einu sinni hið endalausa innihaldslausa bull og blaður sem einkennir störf þigmanna þegar kjör launamanna á almennum vinnumarkaði eru til umræðu.

Bendi þér lesandi góður að lesa næsta pistil hér fyrir neðan, ef þú ert ekki þegar búinn af því, en þar er enn ítarlegar fjallað um þetta mál.

Í vikulokin

Það eru margir frétta- og þáttagerðarmenn fastir í ákveðnu ferli. Þeir nálgast ætíð ákveðin mál með sama hætti. Lítum t.d. á hvað gerist þegar launamenn á almennum markaði gera kjarasamninga. Umfjöllum um er alltaf neikvæð, þetta hafi ekki verið gott, það hefði verið hægt að gera betur. Þeim er orðið svo tamt að fjalla um launamenn og samtök þeirra á almennum markaði í niðurrifstón að þeir geta ekki skipt um gír.

Og svo er einhver þingflokkur að skora á launamenn að fella samninga vegna þess að þeir séu ekki verðtryggðir. Greinilega að þeir hafa ekki nennt að lesa forsendukaflann í samningnum. Þetta lýsir svo vel hvernig þingmenn bulla, blaðra og blaðra um eitthvað sem þeir vita ekkert um.

Reyndar gleymist hjá þessu fólki (greinilega viljandi) að um 13.000 opinberir stafsmenn eru í stéttarfélögum innan ASÍ. Opinberir embættismenn stæra sig af því að ekki hafi verið sagt upp fólki í opinbera geiranum, en þar gleymist viljandi að fleiri hundruð opinberra starfsmanna hefur verið sagt upp, allir voru þeir með lausráðningu sem ekki hefur verið endurnýjuð, og þar með er fullyrt að ekki hafi fólki verið sagt upp, og allt á þetta fólk það sameiginlegt að vera í almennu stéttarfélögunum, ekki hinum opinberu.

Það bregst t.d. aldrei hjá þessum þáttargerðarmönnum sem hafa litið samfélagið sömu gleraugum árum saman, að hafa greinilega ekki farið út í samfélagið nema þá kaffihús niður í 101. Lítum t.d. á í vikulokin í gær sem þar fór svo fyrirsjáanleg og dæmigerð umfjöllun um nýgerða kjarasamninga launamanna á almennum vinnumarkaði.

Taktu vel eftir lesandi góður ég er að tala um kjarasamninga hjá fólki á almennum vinnumarkaði, þar sem störfin eru í hættu, þar sem mest atvinnuleysið er, þar sem öll verðmætasköpunin fer fram til þess að reka áfram íslenska hagkerfið, þar sem fram fer sú skattamyndum sem er opinbera markaðnum nauðsynleg.

Þar eru að venju fengnir 3 einstaklingar sem eru opinberir starfsmenn eða starfa ekki á þessum kjarasamningum til þess að fjalla um kaup og kjör fólks á almennum vinnumarkaði. Glögglega kemur fram hjá þessu fólki að þeim finnst að allt sem kemur nálægt stjórnvöldum sé þeirra einkaeign og launamenn á almennum vinnumarkaði sé annars flokks þjóðfélagsþegnar sem ekki eigi að vera að skipta sér af þessari séreign opinberra starfsmanna. Fólk á almennum vinnumarkaði eigi bara að vinna þá vinnu mótmælalaust sem þeim stendur til boða, á þeim kjör sem í boði eru hverju sinni og þola ótakmarkaðar skattahækkanir til þess að standa undir opinbera vinnumarkaðnum.

Einn þeirra er formaður stéttarfélags opinberra starfsmanna, að venju rakkaði hún niður hina nýju kjarasamninga og hæddist að og talaði niður til kollega sinna formenn stéttarfélaga á almennum vinnumarkaði og félagsmennum þeirra.

Þarna var að venju þingmaður, og að venju var hann í sama farinu aðrir þingmenn þegar rætt eru um kjaramál á almennum vinnumarkaði. Það hefði nú verið annað þegar formenn stéttarfélaga á almennum markaði gengu um í gúmmístígvélum og helltu niður mjólk.

Þetta voru alvörumenn sem fóru reglulega í löng og góð verföll til þess að efla félagsandann og sömdu amk um 30% launahækkun á 6 mánaða fresti. Þá var það mönnum vonbrigði ef þeir misstu verðbólguna niður fyrir 60% og náðu jafnvel þeim árangri að koma henni upp í þriggja stafa tölu. Þessi alvörumenn menn sömdu um 4.000 þúsund prósenta kauphækkanir á meðan þeir sem nú eru semja bara um skitin 3 - 5 á ári%.

Síðan var þarna félagi minn af stjórnlagaþingi, maður sem ekki hefur komið að kjarasamningum og getur þar af leiðandi ekki greint hinn mikla mun sem er á kjarasamningum fyrirtækja á almennum vinnumarkaði og reksturs opinberra stofnana.
Þetta fólk opinberaði í nær hverri setningu fullkomið þekkingarleysi á því málefni sem þau voru að tala um. Formönnum stéttarfélaga á almennum vinnumarkaði voru gerðar upp skoðanir og svo lagt út á þeirri stöðu.

T.d. er það mörgum félagsmönnum á almennum vinnumarkaði óskiljanlegt hvaðan þær launatölur eru komnar sem formenn opinberu veifa í sífellu. Það er nefnilega þannig að launatölur opinberra starfsmanna eru ekki aðgengilegar og þar af leiðandi ekki hægt að gera marktæka samanburði og því er greinilega viljandi haldið í því farinu.

Launamenn á almennum vinnumarkaði hafa aldrei krafist þess að lífeyrisgreiðslur opinberra starfsmanna séu lækkaðar, þess hefur aftur á móti verið krafist að lífeyrisréttindi verði jöfnuð. Um það var samið núna og iðgjöld á almennum markaði hækkuð upp í það sama og er á opinberum markaði. Einnig liggja fyrir yfirlýsingar um að lífeyrissjóðum á almennum markaði verði að nokkur bætt upp tap vegna Hrunsins eins og gert hefur verið með opinberu lífeyrissjóðina.

Þetta var einhver vitlausasti þáttur sem ég hef hlustað á þar sem fjallað er um kjarasamninga og samspil þeirra við hagkerfið. Vitanlega fara fram viðræður og kröfur við stjórnvöld við gerð kjarasamninga. Með leyfi, hverjum dettur í hug utan þess fólks mætir í svona þætti að það sem samið er um snerti einvörðungu launamenn á almennum vinnumarkaði.

Það opinberast í þessari umræðu hvaða viðhorf þessir opinberu starfsmenn hafa gagnvart launamönnum á vinnumarkaði. Þarna talar fólk af heimasmíðuðum upphækkuðum palli niður til launamanna á almennum vinnumarkaði og lítilsvirðir réttindabaráttu þeirra. Meir að segja formaður stéttarfélags og þingmaður.

Samskonar umræða fer aldrei fram þegar stéttarfélög á opinberum markaði semja. Enda er klárt að formönnum stéttarfélaga á almennum markaði myndi aldrei detta það í hug að tala með samskonar hætti um launamenn og kjarabaráttu þeirra, aldrei. Það hefur verið gagnrýnt að þar fari saman hagsmunir þeirra sem eru hinum megin við borðið og það með réttu. Það þess vegna sem búið að tengja saman laun og kjör á hinum norðurlandanna, en gengur illa hér og þar ekki við launamenn á almennum markaði að sakast eins og ég bendi á hér ofar.

Þegar formenn stéttarfélaga á opinberum vinnumarkaði semja eru þeir hinir sömu ætíð kallaðir í spjallþættina og þá sameinast þeir með sömu stjórnendum og þingmönnum um að bera þungar sakir á launamenn á almennum vinnumarkaði og þeir rakkaðir niður fyrir að standa í vegi fyrir því að kröfur þeirra náðust ekki.

Það er nefnilega þannig að þingmenn og þeir sem setja skatta og skyldur á atvinnulífið og ákvarða bætur í almenna tryggingarkerfinu, eru undantekningalítið fólk sem ekki kemur úr atvinnulífinu. Þar er samankomið fólk sem er alið upp í flokksmaskínum, og er síðan þjálfað í ráðuneytum og fer þaðan beint inn á þing. Kjarasamningar á almennum markaði snúast mikið um að knýja fram leiðréttinga á margskonar hagstjórnarlegum mistökum sem þetta fólk hefur gert og valdið atvinnulífinu miklum óþarfa vanda.

Alltaf sameinast þessir aðilar um að koma þessum hagstjórnarmistökum yfir á launamenn á almennum vinnumarkaði og samtök þeirra. En sem betur fer þá er fólk betur upplýst nú um þessi atriði. Ef farið væri að þeim kröfum sem formaður hins opinbera stéttarfélags setti fram og jafnframt hæddist að Þjóðarsáttinni, undir það tóku hinir þátttakendurnir og skrifuðu sig þar með út úr allri umræðu um kjaramál og hagstjórn.

Ef þeirra sjónarmið væri við lýði þá væri hér þriggja stafa verðbólga og kaupmáttur margfalt minni, ekki bara á almennum vinnumarkaði heldur í öllu samfélaginu. En misréttið milli almenna vinnumarkaðarins og hins opinbera væri enn meira en það er í dag. Atvinnuleysið væri mun meira á almennum vinnumarkaði, og misréttið í lífeyri væri margfalt meira.

Svona í lokin, nú getur maður loks talað af fullkominni hreinskilni um kjaramál og ef fólk ætlar að bera saman kjör milli starfstétta þá þarf að bera saman, sambærilegar starfstéttir, vinnutíma, starfsöryggi, réttindi og það þarf að hafa réttar tölur. Og geri hiklaust kröfur til þáttargerðarmanna hjá RÚV, útvarps allra landsmanna, sem ég get ekki gert til annarra ljósvakamiðla.

föstudagur, 6. maí 2011

Auðmenn og lífeyrissjóðir

Á hátíðardegi verkafólks var birt í öllum blöðum opnuauglýsing af auðmanni sem hefur reglulega birt auglýsingar þar sem hann ber þungar, en órökstuddar sakir á starfsfólk lífeyrissjóða og stéttarfélaga. Undantekningalaust byggir texti auglýsinga hans á rangtúlkunum og hlutunum snúið á haus.

Nálgun þessa auðmanns einkennst af þekkingarskorti og skilningsleysi. Einkennilegt því það er búið skrifa einhver ósköp um lífeyriskerfið á undanförnum árum og eins liggja fyrir á netinu ákaflega greinargóðar útskýringar á því eins og t.d. á heimasíðu landssambands lífeyrissjóða. Hann heldur því fram að sáralítið sé greitt út til lífeyrisþega af inngreiðslum til sjóðsfélaga og lífeyrissjóðir séu reknir með ofboðslegum hagnaði sem notaður sé til þess að fjárfesta í viðskiptalífinu.

Lífeyrissjóður er uppsöfnun sparifjár þeirra sjóðsfélaga sem greitt hafa í viðkomandi sjóð. Hlutverk lífeyrissjóðs er að taka á móti iðgjöldum sjóðsfélaga og ávaxta þau með besta hætti sem til boða stendur hverju sinni og greiða lífeyri til sjóðsfélaga. Kerfið er stillt þannig af að sjóðsfélagi sem greiðir allan sinn starfsaldur, það er frá 25 ára til 67 ára, á þá í sínum sjóð innistæðu fyrir lífeyri sem svarar til um 60% af meðallaunum frá 67 ára aldri til dauðadags. Ef viðkomandi hefur greitt í styttri tíma verður lífeyririnn minni í réttu hlutfalli við það sem upp á vantar.

Flestir lífeyrissjóðirnir voru stofnaðir árið 1970, en það er ekki fyrr en 1989 sem farið er að greiða til sjóðanna af fullum launum. Það þýðir að það er ekki fyrr en um 2031 sem til verða sjóðsfélagar með full réttindi og skýrir hvers vegna sjóðsfélagar eru að fá ákaflega mismundi mikinn lífeyri í dag.

Það eru stóru barnasprengjuárgangarnir sem komu í heiminn á árunum eftir seinna stríð fram til ársins 1960 sem eru safna upp sínum lífeyri og munu skella á lífeyriskerfinu með fullum þunga eftir árið 2031. Fram að þeim tíma fer eðli málsins samkvæmt fram mikil uppsöfnun í sjóðunum, en eftir þann tíma munu útgreiðslur úr sjóðunum verða meiri en innstreymi og þá byrja sjóðirnir að ganga á eignir sínar, eða með öðrum orðum eigendur sparifjárins fara að taka lífeyri sinn út.

Það var mikil framsýni sem leiddi til uppbyggingar íslenska lífeyriskerfisins. Flest önnur þjóðfélög í Evrópu greiða lífeyri í gegnum almenna skattkerfið, en eru í óða önn að taka upp íslenska kerfið. Þessi þjóðfélög eins og t.d. Frakkar, Grikkir. Ítalir og Spánverjar slást við nú þessa dagana og horfast í augu við þann alvarlega vanda að ef þeir gera ekkert í sínum málum þá verða þessi þjóðfélög gjaldþrota árið 2020, nema þá að skerða lífeyrisgreiðslur geysilega mikið.

Gráhærðu árgangarnir verða sífellt stærra hlutfall og hlutfall skattgreiðenda minnkar hratt eftir þau tímamót. Ef ekkert verður að gert munu allir skattpeningar þessarar þjóða ekki duga fyrir óbreyttum lífeyrisgreiðslum.

Janúar 2009 hélt aðalritari OECD, Angel Gurria opnunarræðu í Davos þar sem hann sagði að afturhvarf í hreint gegnumstreymiskerfi yrðu mikil mistök, hér má benda á Grikkland, Frakkland og Ítalíu sem eru með gegnumstreymiskerfi. „Eftirlaun eru alvarlegt áhyggjuefni í ríkisfjármálum flestra iðnvæddra landa. Þau eru að mestu greidd með skattfé og fyrirsjáanlegt að framlög til þeirra þurfa að hækka mikið næstu áratugi. Ástæðan fyrir þessu er að fjölmennir árgangar nálgast eftirlaunaaldur, íbúar landanna ná hærri aldri og eignast færri börn. Hlutfall eftirlaunaþega og fólks á starfsaldri mun því hækka mikið fram eftir 21. öld.“

Einnig má benda á til niðurstöðu ráðstefnu sem Hagfræðistofnun Háskólans efndi til vorið 2004 í samvinnu við Columbiu háskóla. Þeir sem sátu þá ráðstefnu og reyndar margir aðrir fræðimenn, hafa komist að því að eftirlaun þeirra sem búa við gegnumstreymi er alvarlegt áhyggjuefni. Má þar nefna skýrslu Alþjóðabankans frá 2001 þar sem mælt er með uppbyggingu á þriggja stoða lífeyriskerfi, kerfi með blöndu af gegnumstreymi fyrir grunnlífeyrisrétt, sjóðasöfnun í samtryggingarkerfi og séreignarsjóði. Sú stefna byggði á ítarlegri greiningu bankans frá 1994 sem birt var undir nafninu “Averting the Old Age Crisis”. Þá hefur OECD ítrekað látið sína skoðun í ljós á málefninu samanber opnunarræðu Gurria í Davos.

Að sjálfsögðu er öllum frjálst að viðra skoðanir sínar á málefninu, en þá væri vel við hæfi að bera þær saman við þær ákvarðanir sem hafa verið teknar og á hvað grunni þær eru reistar. Þar komu margir að og þær eru ekki byggðar á mannvonsku, heldur margra ára reynslu og rannsóknum.

Í grein í Peningamálum frá 2006, þar stendur m.a. “Nokkuð almenn sátt virðist ríkja um fyrirkomulag lífeyrismála á Íslandi og við hrósum happi að hafa valið aðra leið en þau lönd sem við líkjumst mest í lífsgæðum.” Barátta þeirra þjóða sem stefna út úr gegnumstreymiskerfi verður þrautarganga og öll umræða í Evrópu um þriggja stoða leiðina bendir til þess að við ættum að hrósa happi fyrir að vera komin þó þetta nálægt því markmiði að byggja upp slíkt kerfi.

Hér á landi eru nokkrir auðmenn sem vilja brjóta niður þessa áratuga uppbyggingu. Auðmenn hafa ekki áhyggjur af sínu ævikvöldi, en vilja samt ná meiru til sín, þó það muni um leið rústa lífeyri hjá þeim sem minnst mega sín. Sá lífeyrissjóður sem ég greiði til hefur varið um 30% af eignum í skuldabréf til fjölskyldna í landinu. Auk þess eru það lífeyrissjóðir sem hafa fjármagnað uppbyggingi flest þeirra sérbýla sem hér hafa verið reist.

Auðmaðurinn blindaður af græðgi leggur til að við afhendum ríkinu hin 70% og vísa sjóðfélögum á Tryggingastofnun ríkisins, þannig, þannig mætti hækka þær greiðslur sem hann fengi frá Tryggingarstofnun.

Með því fyrirkomulagi væri verið að gera eignaupptöku hjá þeim kynslóðum sem eiga þarna sparifé sitt. Þegar þær kynslóðir næðu lífeyrisaldri fengju þær þarf af leiðandi mun minna í sinn hlut, sakir þess að fjöldi lífeyrisþegar hefur þá tvöfaldast í hlutfalli við þá sem eru að greiða inn í kerfið. Með leyfi má biðja um rökræna og upplýsta umræðu frekar en rakalausar fullyrðingar reistar á rætni, sérhyggju og auglýsingatækni.

miðvikudagur, 4. maí 2011

Staða viðræðna að morgni 4 maí

Eins og margir höfðu spáð þegar við blasti allsherjarverkfall þá sættu fyrirtækin sig ekki við forsjá LÍÚ í málinum og viðræður fóru aftur af stað í gær. ASÍ tilkynnti að nú væri einungis í boði eins árs samningur. Ef ræða ætti 3ja ára samning þá yrði að gera umtalsverðar breytingar á því tilboði sem fyrir lægi. Eftir það hófust miklar umræðu.

Töluverður árangur hefur náðst og liggur nú fyrir meiri hækkun lægstu launa, hækkun tekjutryggingar, og meiri hækkun almennra launa. Í upphafi kemur eingreiðsla og síðan meiri eingreiðslur síðar á árinu. Rísi upp ágreiningur milli aðila og ríkisstjórnar fellur samningur niður um áramót. Öll hliðaratriði sem taka gildi á þessu ári verða áfram inni. Verðmæt atriði hafa komið inn hvað varðar jöfnun lífeyrisréttinda.

Samningafundir stóði til fjögur í nótt, lengst hjá okkur í samninganefnd ASÍ. Viðræður milli verslunarmanna og iðnaðarmanna stóðu fram yfir miðnætti, þar er tekist á um laun fólks sem vinnur á nóttinni í stórmörkuðum og launaflokka iðnaðarmanna. Ekki sér enn til lands í þessum deilum og verður tekið aftur til við þær í dag. Einnig er óleystar deilur við Starfsgreinasambandið m.a. vegna bræðslusamninga.

Mikil vinna er eftir hjá okkur í aðalsamninganefndinni við endanlegan frágang á skjölum, enda eru þetta orðnir víðtækustu og umfangsmestu kjarasamningar sem gerðir hafa verið, fylgiskjöl skipta tugum blaðsíðna. Þar er tekið á bótamálum, skattamálum, menntamálum atvinnulausra, slysatryggingarmál, tilkynningar um vinnuslys, forsenduákvæði, launastefnu, og svo endanlegan texta hvað varðar lágmarkslaun, tekjutryggingu, lágmarkshækkunum og lífeyrismálum.

Sem reyndur samningamaður tel ég að það þessi dagur muni a.m.k. renna á enda áður en niðurstaða fæst í þessi mál.

þriðjudagur, 3. maí 2011

Samningaviðræður í gang

Í gærkvöldi fóru fram óformlegar þreifingar um hvort hægt væri að hnika málum til þannig að aðilar myndu hittast við samningaborðið. Samningamenn ASÍ settu fram kröfur um umtalsverðar breytingar á samningsdrögum bæði hvað varðar formgerð og ekki síður innihald.

LÍÚ hefur tekist að draga viðræður það langt fram á árið að ekki verður að tryggja verður að umsamdar nái inn í taxtakerfin, bæta verður í launahækkanir og afturvirkni eða eingreiðslur með einum eða öðrum hætti. Tryggja verður úrbætur hvað varðar lífeyrisréttindi á almennum markaði og nokkur fleiri atriði.

SA sleit viðræðum um þann samning sem lá á borðinu og sleit einnig viðræðum um skammtímasamning það kallar vitanlega á aðra nálgun.

Samkomulag varð um það að gera úrslitatilraun næsta sólarhring að öðrum kosti verður verkfallslestinni komið upp á járnbrautarteinana og hún sett af stað. Svo ég noti orðlag sem samningamönnum er tamt.

Það er ótrúlegt og reyndar lítilmannslegt að heyra hvernig SA menn láta þessa dagana, volandi í fjölmiðlum yfir því að nú eigi að fara að beita þá ofbeldi.

Hvað hafa samningamenn SA hvattir áfram af framkvæmdastjórn með LÍÚ fremsta í flokki gert undanfarna 3 mánuði?

Kúgað launamenn á almennum markaði.

Veruleikafyrrt LÍÚ - með endurbót

Landsmenn hafa undanfarna mánuði upplifað það endurtekið hvernig LÍÚ hefur ruðst að samningaborði launamanna á almenna vinnumarkaðnum með yfirlýsingum um að það verði ekki gengið frá neinum kjarasamningum fyrr en búið sé að klára kvótamál af hálfu stjórnvalda með ásættanlegri niðurstöðu að mati LÍÚ.

Þetta vita allir.

Þetta hefur leitt til þess að viðræður hafa gengið mjög hægt.

Þetta vita allir.

Það varð til þess að gengið var frá samning til 1. sept. með tveim 50 þús. kr. eingreiðslum. Það átti að tryggja að launamenn fengju bættar þessar tafir sem LÍÚ væri að valda. Þetta vita allir.

Þegar loks sást til lands með 3ja ára kjarasamning með 11,7% kostnaðarauka, en það var ekki var búið að ganga frá breytingum á launakerfum og kostnaðarauka vegna þess, en fyrir lá að sá kostnaðarauki yrði um 1 – 2%. Miðvikudaginn 13. Apríl hafnaði SA að klára þennan samning vegna þess að ríkisstjórnin var ekki búinn að klára sín með ásættanlegum hætti að mati LÍÚ.

Þetta vita allir.


LÍÚ hefur algjörlega hafnað öllum fundum með sjómönnum og ekkert hefur gerst í þeirra viðræðum, nákvæmlega ekkert.

Þetta vita allir.

Föstudaginn 15. apríl hafnaði SA að standa við gefið loforð um að standa við tryggingarsamninginn nema að í honum væru ákvæði um fyrirvara LÍÚ.

Þetta vita allir.

Þremur dögum síðar gengur SA til samninga við 4 stéttarfélög, þar á meðal RSÍ, með 15,7% launahækkun, og þar af eru 13,8% það sem kalla má almenna launahækkun og 2% vegna bónuskerfa sem byggja á ábataskiptakerfum. Jafnframt var samið um afturvirkni til 1. janúar 2011 í stað 1. mars, eða fimm mánuði í stað 3ja mánaða. Í þeim samning voru engir fyrirvarar frá LÍÚ.

Þetta vita allir.

Þegar þessi staða var kominn upp var ekki nema eitt fyrir launamenn á almennum markaði að gera, að grípa til neyðarvopna sinna.

Þetta vita allir

Þrátt fyrir þessar staðreyndir mætir framkvæmdastjóri LÍÚ í morgunútvarp RÚV með gengdarlausan áróður og staðreyndavillur.

Allir vita hvernig forsvarsmenn hagað sér ætíð við samningaborðið þegar sjómenn eru að reyna að gera kjarasamninga.

Framantalið er ástæða þess að launamenn eru ekki með myndir af forsvarsmönnum LÍÚ á náttborðum sínum.

Það vita allir

Allir rétthugsandi vita að það að gera eignarrétt á kvótanum sem skilyrði fyrir gerðir verði kjarasamningar er sambærilegt og að rafiðnaðarmenn gerðu það að skilyrði fyrir því að þeir gengju til samninga, að við fengjum yfirráðarétt yfir þeim auðlindum sem geta framleitt rafmagn, ella færum við í verkfall og stöðvuðu alla framleiðslu á rafmagni hér á landi þar til þessu forgangur okkar yrði innleiddur í lög.

Það er þetta grundvallaratriði og hugsanaskekkja sem útgerðarmenn flaska á og hugmyndasmiðir þeirra.

sunnudagur, 1. maí 2011

Er útifundarformið dautt í Reykjavík?

Á undanförnum árum hefur það farið vaxandi að á útifundi í Reykjavík mætir tiltölulega fámennur hópur ungs fólks og virðist hafa það markmið eitt að mótmæla, alveg sama hvað fram fer. Þessu fólki tekst vitanlega að ná til sín athygli fjölmiðla og þá er tilganginum náð.

Við forvitnuðumst hvað það væri sem fólkið væri að mótmæla og fengum kostuleg svör t.d. að stéttarfélögin hefðu samið um meðallaun og lágmarkslaun hefði fallið mikið. Þegar þeim var bent á það væri kaupmáttarhrap væri gengisfellingu krónunnar að kenna og það væru ekki ákvæði um meðallaun í neinum einasta kjarasamning fengum við yfir okkur óskiljanlegan fúkyrðaflaum og blásið var ú flautur og kveikt í blysum.

Á sama tíma og útifundurinn haldinn eru öll stéttarfélögin með stærstu veitingahús borgarinnar opinn og boðið er upp á fjölskylduhátíðir, þar eru þúsundir félagsmanna samankomnir, sem segjast ekki nenna að sitja undir svívirðingum atvinnumótmælendanna.

Margir sögðust hafa verið í göngunni, en þegar hávaðinn byrjaði á Austurvelli fór það á 1. maíhátíð síns félags. Þeir félagsmenn sem ég heyrði í fullyrtu að þetta fólk hefði verið fengið til þess af LÍÚ að hleypa upp útifundinum.

En við getum verið þess fullviss að aðalfréttaefni allra fjölmiðlanna verða myndir af atvinnumótmælendunum og lítið fjallað um boðskap ræðumanna. T.d. hélt Signý varaforseti ASI þrumuflotta ræðu, með þeim betri sem ég hef heyrt lengi.

1. maí

Eftir Hrunið hefur það opinberast berlega hversu harkaleg baráttan um völdin er hér landi og hvernig hún hefur heltekur nánast allt samfélagið. Þjóðin hefur látið í ljósi þá ósk að Hrunið muni leiða til nýs upphafs og hún vill siðbót og fá til baka þau völd sem safnast hafa á hendur fárra.

Það er bæði fólgin gleði og sorg í því að fylgjast með þessari þróun. Gleði yfir tilraun fólks til þess að stuðla vitrænni umræðu og þvinga fram viðsnúning. En samfara því hefur verið flett ofan af ormagryfjunni og hversu langt sérhagsmunahóparnir eru tilbúnir að ganga í að tryggja óbreytt ástand. Þetta birtist t.d. í átökum um auðlindir og sjávarútveg og er í raun helsta bitbein í yfirstandandi kjarasamninga án þess að almenningur hafi áttað sig á því.

Einræðisríki einkennast af því að þar hafa valdhafarnir og fjölskyldur þeirra gefið sjálfum sér allir auðlindir þjóðarinnar og lifa í vellystingum og praktulegheitum, á meðan lýðurinn dregur fram lífið á lágum launum. Ísland er eina landið í hinum vestræna heimi þar sem fáir fengu auðlindir þjóðarinnar gefins og hafa hagnast gríðarlega.

Nú fer lýðræðisbylgja um einræðisríkin sunnan Miðjarðarhafs og hefur óvænt borist hingað norður og með þeim afleiðingum að almenningur þvælist fyrir við afgreiðslu kjarasamninga.

Þessi skyndilega og óvænta lýðræðisást íslensks almúga kemur valdhöfunum fullkomlega í opna skjöldu. Hverslags andskotans frekja er þetta, að sætta sig ekki við hafa í öllum kjarasamningum ákvæði um að þeir falli úr gildi, gerist stjórnvöld svo kræf að hrifsa frá LÍÚ þeirra eigin prívatauðlindir og vilji að samfélagið fái af þeim arð, svo ekki þurfi að hækka skatta, loka leikskólum og elliheimilum. Svo maður tali nú ekki um þá heimtufrekju lýðsins að heimta að hér verði skrifuð ný stjórnarskrá, sem taki af öll tvímæli um að það sé þjóðin sem eigi auðlindirnar. Úrskurður var pantaður frá Hæstarétti, en það dugði ekki.

Íslenska ríkið stendur á brauðfótum og við verðum að fara að hugsa saman, heildstætt. Við þurfum ekki fleiri sérfræðinga til þess að úthugsa fleiri bellibrögð og undanskot frá skyldum alþjóðasamfélagsins. Nú þarf að rækta jöfnuð og hugsa skýrt. Víkja öllu moldvirðinu frá sem villir okkur sýn. Standa vörð um samfélagsleg gildi og rækta þau. Greina það hvert við viljum stefna og hver markmið okkar séu.

Í framtíðinni mun skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis og vinna við endurnýjun stjórnarskrárinnar standa uppi sem eftirminnilegasti atburður Hrunsins. Viðbrögð aðalleikenda og valdahópanna voru fyrirsjáanleg, svo einkennandi fyrir íslensk stjórnmál. Skýrsluhöfundar tóku fram að það sárasta við samantekt skýrslunnar hafi verið hin fullkomna afneitun allra sem þeir kölluðu til sín í yfirheyrslur. Það kallar á vangaveltur um hverskonar kennsla fari fram í Háskólum landsins. Þaðan komu allir aðalleikendur í þeim leik sem leiddi samfélagið fram af hengifluginu með skelfilegum afleiðingum.

Krónan hefur afgerandi áhrif á kjör launamanna og hvernig hún nýtt reglulega af stjórnvöldum til þess að ónýta kjarasamninga. Það virðist ekki skipta suma neinu þó valdahóparnir flytji rekstrartap yfir á launamenn með miklu kaupmáttarhruni og stökkbreytingum skulda. Þá birtast menn sem Bjartur í Sumarhúsum með mannfyrirlitningu, sjálfbirgingshætti og þjóðrembu.

Upp á himinn fjölmiðla og spjallþátta hafa skotist einstaklingar, sem hafa borið þungar sakir á aðra og kennt þeim um ófarir sínar. Oftast hefur komið í ljós að viðkomandi einstaklingar eru þekktir óreiðumenn og með langa slóð kennitöluflakks. Við starfsmenn stéttarfélaganna þekkjum allvel til nokkurra af þessum einstaklingum vegna vandræða sem félagsmenn okkar hafa lent í vegna óuppgerðra launa eða kjaratengdra atriða. Áberandi er að þeir sem eru hvað harðastir í dómum um verkalýðshreyfinguna eru undantekningalítið einstaklingar sem ekki eru félagsmenn.

Gildismat hefur breyst á undangengnum áratugum. Hógværð hefur vikið fyrir öðrum gildum. Græðgi hefur markað för og krafan hefur verið endalaus velgengni. Alvarlegasta ógnunin við framtíð Íslands er skuldsetning hugarfarsins þar vantrú leiðir för. Þýðingarmesta verkefni okkar er að stuðla að víðtækri sátt um stöðugleika. Styrkleiki okkar liggur meðal annars í miklum náttúruauðlindum, sterkum lífeyrissjóðum, hlutfallslega meira af ungu fólki en hjá öðrum Evrópuþjóðum. Helsti styrkleiki þjóðarinnar liggur í hugarfari; þrautseigju og mestu atvinnuþátttöku sem þekkist í vestrænu landi.

Við megum ekki missa þennan styrkleika niður og verðum að láta þá réttlætiskennd sem kristilegt hugarfar einkennist af varða leið okkar. Og nú er baráttudagur launamanna og þjáður lýðurinn fer fram í þúsund löndum og boðar ragnarök. Fúnar stoðir verði burtu brotnar og liði fylkt. Fjötrar brotnir og byggt upp réttlátt þjóðfélag. Því Internationallinn muni tengja íslenskar strendur við aðrar strandir lýðræðisbylgjunnar.