miðvikudagur, 28. mars 2012

Baráttan um Ísland

Maður vaknar til nýs dags og við blasa fréttir um hvernig tiltekinn hópur þingmanna hefur beitt klækjabrögðum á Alþingi, stingur af um bakdyrnar til þess að koma í veg fyrir atkvæðagreiðslur. Þingstörf mótast af ómerkilegum bellibrögðum og innihaldslausum upphrópunum.

Undanfarið hefur sami hópur alið á þeirri trú að okkur stafi mest hætta af útlendingum. Þeir vilji komast yfir auðlindir okkar fyrir lítið og við eigum að berjast gegn öllu skipulögðu samstarfi við nágrannaþjóðir okkar.

Sami hópur berst gegn því að tekið verði á efnahagsstjórn og gjaldmiðilsmálum með þeim hætti að komið verði í veg fyrir reglulega eignaupptöku og tilfærslu frá launamönnum til hinna fáu með gengisfellingum handstýrðs gjaldmiðils.

Í fréttum gærdagsins kom fram hvernig tiltekin hópur hefur í skjóli þessara þingmanna og gjaldmiðilsins ástundað arðrán. Þessir sem fengu frá sömu þingmönnum auðlindir landsins til eigin nota.

Hópur sem beitir öllum brögðum til þess að koma í veg fyrir breytingar, lítur svo á að landið og ríkið sé þeirra eign. Hinn almenni launamaður sé þræll sem þeir geti beitt bellibrögðum til þess að koma í veg fyrir að hann fái notið þeirrar verðmætasköpunar sem hann skilar með vinnu sinni.

Þetta er það Ísland sem þessi hópur hefur búið okkur og hann beitir öllum fanta- og klækjabrögðum sem þekkjast til þess að verja sína stöðu. Tugþúsundir heimila liggja í valnum. Hvaða tillögur liggja fyrir frá þesusm hóp? Jú að gera sparifé launamanna upptækt.

sunnudagur, 25. mars 2012

Umhverfissóði marzmánaðar

Úlfarsfellið er ákaflega vinsælt útvistarsvæði. Upp á fellið eru nokkrar mikið notaðar gönguleiðir sem stór hópur notar allt árið um hring. Auk þess eru vel markaðar akstursleiðir upp á fellið, þær eru ættaðir frá stríðsárum og hefur verið viðhaldið síðan þá af jeppamönnum.

Viðhorf fólks til útvistar hafa í hratt vaxandi mæli þróast á þann veg að bílar haldi sig á merktum akstursleiðum. Allir ættu að vita að þegar líður á veturinn fara menn alls ekki út fyrir merktar akstursleiðir, og reyndar er allur akstur víðast hvar algjörlega bannaður á meðan frost er að fara úr jörðu. Þetta myndi maður nú telja að flestir ætti að vita, ekki síst þeir sem eiga milljónatæki sérútbúinn fyrir fjallaferðir.

Ég gekk á Úlfarsfellið seinni partinn í dag og þar gekk ég fram á voldugan Patról jeppa. Hann hafði böðlast um Úlfarsfellið utan akstursleiða og skildi eftir síg djúp sár í viðkvæmu umhverfinu. En eins og þeir sem fara á fjöll jafnt á jeppum og gangandi vita að allur gróður á Íslandi er ákaflega viðkvæmur, svo maður tali nú ekki um þegar komið er upp fyrir 300 metra hæð. Öll spólför sjást í áratugi.

Hér sjást glögglega hjólför hans ofan í lautina sem varð síðan að drullupytt eftir spól og djöfulgang.


Þessi umhverfisböðull sem þarna var í sunnudagsbíltúr hefur t.d. gjöreyðilagt mjög fallega laut efst í fjallinu sem hefur verið vinsæl hjá göngumönnum. Þessi laut snýr í suður og veitir gott skjól á meðan menn setjast niður og spjalla eftir uppgönguna og fá sér eitthvað af nesti sínu.

Hún varð leikvöllur til þess að spóla á stóra ferlíkinu sínu. Lítil falleg grasflöt horfinn (sú eina þarna upp á fellinu) og djúp sár eftir hina glæsilegu sveru hjólbarða langar leiðir frá hinum merku aksturleiðum.

föstudagur, 23. mars 2012

Kjósum um það sem er á dagskrá 30. júní

Nú er kominn fram tillaga um að bæta við spurningu um aðildarviðræður við ESB þegar spurt er um nýja stjórnarskrá og kosið er til forsetaembættisins.

Ég óttast að ef þetta verði gert muni umræðan fram að þessum kosningum snúast um ESB eða ekki ESB, í stað þess að snúast um nýja stjórnarskrá. Samfara því verður aðalmálið við val á forseta hvaða afstöðu frambjóðendur hafi til ESB.

Sé litið til afstöðu Vigdísar Hauksdóttur til þessara málflokka þá finnst mér liggja í augum uppi hvers vegna hún vill fá þessa spurningu inn.

30. júní á að vera dagur þjóðarinnar og stjórnarskrárinnar ekki einhver leðjuslagur um óskyld mál.

sunnudagur, 18. mars 2012

Stjórnarskráin og ósnortin víðerni

Helstu baráttumál okkar útivistarfólks og náttúrusinna við gerð Rammaáætlunar hafa verið verndun ósnortinna víðerna. Koma fyrst og fremst í veg fyrir farið verði inn á ný svæði með virkjanaframkvæmdir. Með öðrum orðum ef maðurinn er búinn að spilla einhverjum svæðum þá verði honum gert að halda sig innan þeirra svæða þegar rætt sé um nýjar framkvæmdir.

Í lögum um náttúruvernd eru "ósnortin víðerni" skilgreind sem landsvæði sem er a.m.k. 25 ferkm. að stærð og er í a.m.k. fimm kílómetra fjarlægð frá mannvirkjum og öðrum tæknilegum ummerkjum. Áhrifa mannvirkja gætir í dag á stærstum hluta landsins.

Ósnortin víðerni hafa frá árinu 1936 minnkað að meðaltali um 677 ferkílómetra á ári. Af þeim ósnortnu víðernum sem eftir eru eru 88% þakin jöklum. Þetta blasir vel við okkur sem förum reglulega um landið, en ég hef undanfarna áratugi gist 30 - 40 nætur á tjaldsvæðum á hverju sumri og þrætt margar gönguleiðanna.

Það að ég skuli benda á þetta hefur kallað fram það tiltal frá tilteknum hóp að þetta séu bara geðvonskuleg tilskrif. Staðreyndin er hins vegar sú að það eru til mjög margir náttúruverndarsinnar á Íslandi, margir þeirra eru ekki sammála þeim sem hæst hafa og telja sig vera þá hina einu sem rétt hafi á að ræða náttúruvernd.

Þessi mál voru ofarlega á áherslulista Þjóðfundar og voru því á borðum Stjórnlagaráðs í vinnu við endurskoðun Stjórnarskrár. í 33. gr. stendur m.a. að náttúra Íslands sé undirstaða lífs í landinu. Öllum ber að virða hana og vernda.

Í því felst að fjölbreytni lands og lífríkis sé viðhaldið og náttúruminjar, óbyggð víðerni, gróður og jarðvegur njóti verndar. Fyrri spjöll skulu bætt eftir föngum. Öllum skal með lögum tryggður réttur á heilnæmu umhverfi, fersku vatni, ómenguðu andrúmslofti og óspilltri náttúru.

Nýtingu náttúrugæða skal haga þannig að þau skerðist sem minnst til langframa og réttur náttúrunnar og komandi kynslóða sé virtur. Með lögum skal tryggja rétt almennings til að fara um landið í lögmætum tilgangi með virðingu fyrir náttúru og umhverfi.

Í þessu felst, að réttur manna á heilnæmu umhverfi og réttur náttúrunnar haldast í hendur. Náttúruvernd nær yfir hvort tveggja. Því er eðlilegt að blandað sé saman náttúruvernd og rétti manna á heilnæmu umhverfi til að hnykkja á gagnkvæmum rétti manna og náttúrunnar.

Hugtakið “óspillt náttúra” vísar til þess að hver maður eigi rétt til þess að hluti náttúrunnar í umhverfi hvers manns verði skilinn eftir eins óspilltur og aðgengilegur almenningi og verða má. Með þeim hætti geti maðurinn haldið tengslum við náttúruna og átt óspillt griðland í henni. Ekki er girt fyrir að hróflað sé við náttúrunni né heldur komið í veg fyrir að mannvirki séu reist eða gæði náttúrunnar séu hagnýtt með eðlilegum lögbundnum takmörkunum.

Með nýjum ákvæðum Stjórnarskrár er reynt að tryggja við og afkomendur okkar eigi rétt á óspilltri náttúru og aðgengi að henni í sínu nánasta umhverfi.

Því hefur verið haldið fram að orðalagið óspillt náttúra sé mannhverf nálgun og byggist á sjónrænu mati og blandað sé saman náttúruvernd og rétti manna á heilnæmu umhverfi. Í orðalaginu „óspillt náttúra“ felst ekki endilega mannhverf nálgun. Réttur manna á heilnæmu umhverfi og réttur náttúrunnar haldast í hendur og hnykkja á gagnkvæmum rétti manna og náttúrunnar.



Í þessu sambandi og ekki síður vegna ávirðinga í garð launamanna á almennum vinnumarkaði sem ég haf verið að fá frá tilteknum aðilum, ætla ég að birta hér þær skoðanir sem efst hafa verið í ályktunum innan samtaka launamanna á almennum vinnumarkaði undanfarin misseri.

Launamenn á almennum vinnumarkaði vilja bregðast með ábyrgum hætti við þeim ógnum sem steðja að náttúrunni og lífríkinu, hér á landi og hnattrænt m.a. vegna loftslagsbreytinga. Ísland hefur möguleika á að verða grænt hagkerfi sem byggir á grænum störfum.

Í ályktunum segir m.a. : Framtíðarsýn okkar í atvinnumálum byggð á grænum gildum verður að hvíla á traustum grunni. Þar skipta eftirtaldir þættir miklu:

• Verð á orku á eftir að hækka umtalsvert á næstu árum og eftirspurn eftir endurnýjanlegri raforku margfaldast. Þrýstingur á aukna virkjun bæði fallvatna og jarðvarma mun aukast. Það er því mikilvægt að mótuð verði markviss stefna í auðlinda‐ og umhverfismálum, á sjálfbærum grunni. Þannig má skapa skilyrði til að íslenskt samfélag verði á næstu áratugum að mestu sjálfbært á sviði orkunýtingar með því að skipta út jarðefnaeldsneyti fyrir hreina orkugjafa.

• Laða þarf fram meira samstarf á sviði rannsókna og tækniþróunar þvert á fræða og fagsvið svo og yfir landamæri. Horfa þarf meira til skapandi greina s.s. á sviði lista, hönnunar og margmiðlunar.

• Auka verður fjárfestingar í framleiðslutækni sem leiðir til minnkunar á losun róðurhúsalofttegunda. Fyrir liggur að áhugi og vilji á alþjóðavísu til að fjárfesta í græna geiranum fer ört vaxandi. Ef rétt er að málum staðið mun þetta leiða til nýsköpunar á mörgum sviðum. Tækifærin eru nánast óþrjótandi s.s. í orkuiðnaði, efna‐ og lífefnaiðnaði og endurvinnslu.

• Nýta verður möguleika sem hefðbundnar greinar íslensks atvinnulífs, sjávarútvegur og landbúnaður þ.m.t. garðyrkja og fullvinnslu afurða, eiga til að sækja fram á erlendum markaði á grundvelli hreinnar framleiðslutækni og grænna gilda. Sama gildir um ferðaþjónustuna sem býður upp á fjölbreytta þróunarmöguleika.

• Uppbygging atvinnulífs á sjálfbærum grunni og aðgerðir til að sporna við loftslagsbreytingum þýða margháttaðar breytingar í atvinnulífinu. Störf munu tapast en í staðinn munu skapast fjölbreytt og áhugaverð störf á fjölmörgum sviðum. Setja verður fram skýra áætlun sem miðar að því að aðstoða fólk við að takast á við þessar breytingar með jákvæðum hætti.

• Við þær aðstæður sem nú ríkja í samfélaginu er afar mikilvægt að skapa ungu fólki trúverðug tækifæri í samræmi við menntun þess og framtíðarsýn sem eykur tiltrú og vilja til áframhaldandi búsetu á Íslandi. Markmiðið er að atvinnustarfsemin skapi góð störf á traustum grunni, atvinnu og hagsæld, og geti staðið undir öflugu velferðarsamfélagi að norrænni fyrirmynd.

fimmtudagur, 15. mars 2012

Rammaáætlun og tækifærissinnar

Lengi hafa staðið deilur meðal landsmanna um virkjanir. Hvar eigi að virkja, hvaða svæði eigi að vernda og svo hversu mikið þurfi að virkja. Flestir voru sammála um að koma yrði þessum málum í einhvern farveg þar sem komið væri í veg fyrir að skammtímahugsun tækifærissinnaðra stjórnmálamanna á atkvæðaveiðum réði för.

Í öllum kosningabaráttum hafa stjórnmálamenn farið um og lofað mikilli atvinnuuppbyggingu í sínu kjördæmi, sjaldan kom fram í máli þeirra hversu mikla orku þyrfti svo hægt væri að framkvæma þau loforð sem þeir gáfu. Það var í þessu umhverfi sem ákveðið er að hefja vinnu við Rammaáætlun.

Þar var m.a. litið til þess hvernig norðmenn hefðu leyst samskonar deilur. Við borðið settust ekki bara fulltrúar stjórnmálamanna og Landsvirkjunar, allir hagsmunaaðilar fengi sinn stól, þar á meðal útivistarfólk og sat ég í þeim stól í fyrri umferð þessarar vinnu.

Nú er búið að afla upplýsinga sem segja okkur svart á hvítu að tiltekin svæði séu dýrmæt fyrir þróun íslenskrar náttúru eða sem vettvangur ferðaþjónustu, útivistar og lífsfyllingar fólks, þau eru sett í verndarflokk. Önnur svæði hafa verið sett í biðflokk þar sem óvissa er um þá orku sem hægt er að virkja á hverjum stað og hversu mikið er óhætt að taka af henni í einu.

Á meðan þessi vinna hefur staðið yfir hefur komið fram að gufuaflsvirkjanir eru ekki eins umhverfisvænar og margir vildu halda fram. Ekki hefur tekist að leysa vandamál hvað varðar útblásturs- og affalsmengun frá gufuvirkjunum, auk þess að töluverkur vafi er um rekstaröryggi nokkurra svæða.

Það hefur aldrei verið hlutverk Rammaáætlunar að uppfylla loforð tækifærissinnaðra stjórnmálamanna, heldur er henni þvert á móti ætlað að skapa sátt um nýtingu til framtíðar. Tryggja eins vel og frekast verður kosið sjálfbæra þróun og gætt sé varúðar við að finna hagfellda nýtingu náttúrusvæða.

Nú þegar niðurstaða Rammaáætlunar liggur loks fyrir, ætlumst við til að farið sé að niðurstöðum hennar og skammtímahugsun vikið til hliðar. Sé litið til alls þess að er harla einkennilegt og reyndar mótsagnarkennt þegar einhver hópur stígur nú fram að segist tala fyrir munn náttúruverndarsinna.

Þessi hópur vill ýta til hliðar niðurstöðum Rammaáætlunar og hverfa aftur til tækifærissinnaðrar ákvarðanatöku stjórnmálamanna og hefur í frammi allskonar dylgjur í garð þeirra sem ekki eru sammála þeirra sjónarmiðum. Því fer fjarri að þetta fólk tali fyrir munn allra náttúruverndarsinna.

Það liggur fyrir að það þarf að virkja á Íslandi, það viðurkenna náttúruverndarsinnar. Það eru ákveðin svæði sem eru betur til þess fallin en önnur. Það er ekki þar með sagt að það þurfi að virkja öll þessi svæði nú þegar.

Það er mikið atvinnuleysi á Íslandi og það þarf að skapa um 30 þús. störf á næstu árum ef okkur á að takast að vinna okkur út úr þeirri stöðnum sem hér ríkir. Ef það á að takast verður ekki komist hjá því að auka fjárfestingar hér á landi. Þetta er ekki einkaskoðun einhverra verkalýðsforkólfa sem eru um borð í virkjanahraðlest, svo ég vitni í dylgjur og upphrópanir þeirra sem telja sig vera sjálfkjörna málsvara allra náttúruverndarsinna og um leið almennings hér á landi.

Þegar forsvarsmenn stéttarfélaga hafa bent á framangreind atriði eru þeir einfaldlega að benda á samþykktir félagsmanna og að hvaða markmiðum við höfum stefnt að með því að standa heilshugar með í gerð Rammaáætlunar.

Forsendum fyrir víðtækri friðun, virkjanir byggðar á raunsæjum forsendum og ekki síst tekið á tækifærissinnuðum stjórnmálamönnum og þeim hóp sem hefur gripið til tækifærissinnaðra vinnubragða og gefur sig út fyrir að vera hinir einu og sönnu náttúruverndarsinnar. Þessi hópur vinnur gegn náttúruvernd.

sunnudagur, 11. mars 2012

Dagleiðin langa

Átti miða á aðra sýningu Dagleiðarinnar löngu, en komst ekki fyrr en í gærkvöldi til þess að sjá þetta magnaða fjölskyldudrama. Nóbelsverðlaunahafinn Eugene O’Neill (1888-1953) skrifaði verkið, sem er að sumu leyti sjálfsævisögulegt, á árunum 1939–41. Hann vildi ekki að verkið yrði sett upp fyrr en eftir dauða sinn og það var ekki frumflutt fyrr en árið 1956, og hlaut það Pulitzer verðlaunin ári síðar.

Boðskapur verksins fellur í mörgu saman við það uppgjör sem á sér stað í íslensku samfélagi þessa dagana. Þrátt fyrir öll þau tækifæri sem við höfum, erum við samt að tortíma samfélagi okkar í hamslausri togstreitu. Leikritið gerist á miklum átakadegi í lífi Tyrone-fjölskyldunnar, hjóna og tveggja uppkominna sona þeirra.

Fjölskyldan býr við ægivald fjölskylduföðurins sem er eyðilagður af alkahólisma. Móðurinn er flúinn inn heim morfínfíknarinnar. Synirnir tveir að tortíma sjálfum sér í áfengisneyslu, fíklar sársauka og átaka. Fjórar skemmdar manneskjur á þeirri þekktu leið að ásaka í sífellu hver aðra og brjóta hinn aðilan niður á milli þess að það er réttlætt með ástarjátningum og umhyggju.

Magnþrungið listaverk nærgöngult, já og grimmt. Við þekkjum öll þetta miskunnarleysi og þann feluleik þegar við víkjum okkur undan því að líta í spegilinn. Leikstjórinn Þórhildur Þorleifsdóttir lýsir verkinu réttilega sem fjölskylduhelvíti. Í hvert sinn sem örlar á einhverskonar sátt er leitað að vopni, tilgangurinn einn að það bíti. Sífellt lengra gengið á vit miskunnarleysisins.

Sýningin er í afbragðs þýðingu Illuga Jökulssonar. Þórhildur stytti verkið um helming, hún vildi einbeita sér að fjölskyldunni. Þetta hefur tekist vel að mínu mati, ég hef komið að því í öðrum umfjöllunum í vetur að leikstjórar mættu gjarnan huga betur að þessum þætti. Illugi á örugglega sinn þátt í því hversu textinn flæddi vel.

Ég treysti mér ekki til þess að gera upp á milli Atla Rafns, Hilmis Snæs, Arnars Jónssonar eða Guðrúnar Gísladóttur. Allt stórkanónur sem ráða vel við sín hlutverk. Verð þó að taka fram að leikur Guðrúnar er tær snilld. Þórhildar stýrir hópnum geysilega vel og sýningin ber öll merki leikstjóra sem kann vel til verka.

Lýsing spilar mikið hlutverk, skil á milli atriða og ekki síður þar sem verið að draga fram áherslur í leiknum.

Dagleiðin langa er skyldusýning fyrir alla sem á annað borð fara í leikhús.

laugardagur, 10. mars 2012

Baráttan um völdin

Ég skrifaði þessa grein fyrir norskt blað og hún birtist þar nú um helgina.

Ráðandi öfl í samfélögum berjast ætíð gegn því að þjóðin taki ákvarðanir í þjóðaratkvæðagreiðslum. Hin ráðandi stétt vill ekki glata völdum til almennings í beinu lýðræði. Íslenskt samfélag hefur endurtekið lamast af innbyrðis deilum og stjórnkerfi landsins er í fjötrum sérhagsmuna. Umræðan einkennist af fámenni þjóðarinnar, skyldleika og persónulegum vinaböndum.

Árangurlaust hafa verið gerðar tilraunir allt frá lýðveldisstofnun árið 1944 til þess fá nýja stjórnarskrá. Lýðveldisstjórnarskráin er í samræmi við stjórnarskrá konungsríkisins Íslands frá árinu 1920 endurspeglar konungsríkið Danmörku eins og það var í byrjun síðustu aldar. Í skjóli þessa hefur þróast mikið ráðherraræði á Íslandi stutt af háttsettum embættismönnum tengdum sérhagsmunahópum. Aðallega úr landbúnaði og sjávarútvegi. Alþingi samþykkti í kjölfar Hrunsins að kröfu almennings í búsáhaldabyltingunni að samið yrði frumvarp að nýrri stjórnarskrá. Margir vonuðust til þess að eitt af hinu góða sem hlytist af Hruninu væri að íslendingar gætu talað saman á heiðarlegan og opinskáan hátt.

Samþykkt var að kalla saman 1.000 einstaklinga úr samfélaginu með slembiúrtaki á þjóðfund. Þjóðfundurinn dró saman áherslu atriði sem íslenskur almenningur vildi fá inn í nýja stjórnarskrá. Niðurstöður þjóðfundarins voru síðan sendar stjórnlaganefnd skipaðir af 7 sérfræðingum. Hún vann gott starf og skilaði inn 600 bls. skýrslu með tveim stjórnarskrártillögum. Þá var efnt til almennra kosninga um Stjórnlagaþing þar sem 25 manns áttu að sitja, 530 einstaklinga gáfu kost á sér. Valdastéttin fór hamförum gegn kosningunum og latti fólk til þess að mæta, en þrátt fyrir það mættu um 36% þjóðarinnar á kjörstað og kusu 25 einstaklinga þeir komu víða að úr samfélaginu og viðurkennt að mjög vel hefði tekist til.

Þessi hópur skipaði stjórnlagaráð sem vann í 4 mánuði í samstarfi við þjóðina á opnum fundum og í gegnum netið. Farið var yfir framkomnar tillögur og ráðið skilaði af sér frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. Stefnt er að því að samfara því þegar kosið verði um nýjan forseta í júní næstk. verði drög að nýrri stjórnarskrá borin undir þjóðina. Sú niðurstaða á síðan að fara fyrir Alþingi og ný stjórnarskrá verður borinn undir þjóðina samfara alþingiskosningum sem eiga að fram í maí 2013.

Í nýrri stjórnarskrá er lagt til að færa valdið til þjóðarinnar. Núverandi kosningakerfi er þannig uppbyggt að það tryggir stöðu núverandi stjórnmálaflokka og liðlega helmingur alþingismanna þarf aldrei að óttast næstu kosningar. Þeir eru í öruggum sætum, sem úthlutað er af flokkskrifstofum valdaflokkanna. Í nýrri stjórnarskrá er lagt er til að þessu verði breytt. Alræði ráðherra og embættismanna þeirra er minnkað og þingræðið styrkt.

Almenningur hefur barist gegn því hvernig stjórnmálamenn stóðu að framsali auðlinda hafsins til útgerðarmanna. Í auðlindaákvæði nýju stjórnarskrárfrumvarpi segir svo: „Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda eða annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum“.

Þetta orðalag er í samræmi við í samræmi við álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna sem hún gaf um kvótakerfið á Íslandi 2007. Í rökstuðningi mannréttindanefndarinnar er vitnað til 1. greinar íslenskra laga um stjórn fiskveiða nr. 38/1990, er segir: „Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar“.

Upplýst og gagnrýnin umræða er forsenda góðra ákvarðana. Umræðuefni meðal þjóðarinnar þessa dagana snýst um hversu lítið okkur miði. Í umræðunni virðist skipta litlu hversu vel unnar og rökfastar framlagðar tillögur eru. Í dag berst valdastéttin af fullri hörku gegn því að stjórnarskrártillagan verði borinn undir þjóðina. Hún vill engu breyta og hræðist að þjóðin samþykki drögin sem fyrir liggja. Margir sem hafa gefið upp alla von um þjóðfélagslegar úrbætur eru að fara af landi brott og lýsa því yfir að þeir vilji ekki búa í svona samfélagi.

Það þarf að skapa 20 þús. ný störf á næstu 2 árum og auka verðmætasköpun ef minnka á atvinnuleysið. Það verður ekki gert í landbúnaði og fiskvinnslu. Byggja þarf upp öflugan vinnumarkað hér á landi reistir á þeirri hreinu orku sem eru í auðlindum Íslands svo vel menntað fólk sækist eftir störfum heima en leiti ekki til annarra landa. Ef þetta tekst ekki blasir við langvarandi kyrrstaða með slökum kaupmætti og miklu atvinnuleysi.

Það er mikil samkeppni eftir vel menntuðu og hæfu starfsfólki og einfalt að flytja sig milli landa. Þjóðin verður að taka völdin í sínar hendur af hinum ráðandi öflum Stjórnmálamenn komast upp með að setja gjaldeyrismúra, en þeim tekst ekki að múra fólk inni, það brýtur af sér fjötrana.

föstudagur, 9. mars 2012

Fátæktargildrur

Umræðan um skuldavandann hefur verið efst á dagskrá allt frá hruni. Í fréttum hafa verið magnþrungnar lýsingar í tengslum við þennan vanda. Kennarar hafa varað við þessu og sagt að börn sem heyri ekki annað óttist morgundaginn. Í nýlegum rannsóknum hefur komið fram að það eru önnur vandamál umfangsmeiri. Fall krónunnar og kaupmáttar er hlutfallslega meiri vandi heimilanna, fólk hefur ekki nægan framfærslueyri.

Umfang umræðu um skuldamálin hefur valdið því að staða ört stækkandi hóps fólks sem býr við fátækt hefur ekki komist á dagskrá. Í þeim hópi eru öryrkjar, eldri borgarar og þeir sem hafa verið lengi atvinnulausir, hópar sem eru svo illa staddir fjárhagslega að þeir hafa vart ofan í sig né á, hvað þá að þeir geti leyft að vera virkir þátttakendur í samfélaginu.

Fjölskylduhjálp sem byggist á því að fólk standi í röð og þiggi matargjafir í plastpokum er niðurlægjandi og ekki við hæfi í nútíma samfélagi. Sumt af þessu fólki þarf á annarskonar aðstoð að halda. Þar má t.d. benda á að betra væri að halda gjöldum óbreyttum, en frekar veita öllum barnafjölskyldum styrk sem samsvari þeim afsláttum sem sífellt er að reyna að koma inn í ruglingskennt kerfi, þar er verið að niðurlægja fólk með flokkun. Fólk er metið með kerfinu undir yfirborðið og sent í svarta vinnu. Kerfið stillir upp fólki með að ef það tekur ekki það sæti sem kerfið úthlutar því, þá er viðkomandi hótað með því að taka af honum og fjölskyldu hans allt lífsviðurværið.

Í fréttum er endur tekið komið á framfæri skilaboðum um að gamalt fólk sé þakklátt fyrir að þá þjónustu sem það fær. Hvers vegna þarf að birta þessar fréttir? Hvers vegna er ætlast til þess að fólk sem hefur skilað sínu til samfélagsins áratugum saman að lýsa yfir sérstöku þakklæti fyrir að fá nauðsynlega og eðlilega þjónustu?

Stór atvinnurekandi birtir árlega útreikninga skömmu fyrir páska, sem byggja á því að fella niður örorkubætur, makalífeyri og barnabætur. Það sé óþarfa kostnaður á lífeyriskerfinu sem eigi að fella niður. Verkalýðsfélag Akranes hefur tekið undir þessa útreikninga. Þessir aðilar fá gríðarlegt rúm í fréttum og vinsælum spjallþáttum.

Helsta ástæða þess að verkalýðsfélögin vildu við uppbyggingu lífeyriskerfisins taka upp tekjutengdar örorkubætur ofan á þær smánarbætur sem kerfið greiðir, var að koma í veg fyrir að allir sem lentu í því óláni að verða öryrkjar væru í gegnum opinbera kerfið dæmdir til ævilangrar fátæktar. Gegn þessu berjast þessir aðilar og fá fínar undirtektir í fréttum og spjallþáttum.

Þetta er ekki það nýja Ísland sem við viljum sjá rísa úr efnahagshruninu. Vaxandi fátækt er smánarblettur sem þjóðin verður að má burt sem fyrst. Það á að vera forgangsmál að allir þegnar landsins geti lifað mannsæmandi lífi.

miðvikudagur, 7. mars 2012

Hörundsárir fjölmiðlamenn

Ég skrifaði pistil í gær þar sem fjallað er um að mér finnist einkennilegt að einhverjir séu að láta það koma sér á óvart að harka og óvægni í samskiptum fari vaxandi. Mér finnst svona yfirlýsingar vera lýsandi fyrir íslenska umræðu, það er að geta ekki horfst í augu við hinn raunverulega vanda, sífellt er sjónum beint að „tittlingaskítnum“ eins og Nóbelskáldið okkar sagði.

Í þessu sambandi má minna á ummæli nokkurra norrænna vina okkar um hvað við ættum helst að varast eftir hrunið og þar voru helst sænskir ekki síður finnskir menn að benda okkur á hvaða sár hefði tekið lengst að græða eftir þau hrun sem þeir gengu í gegnum árin eftir 1990. Það var umhyggja og tillit til þeirra sem verst fóru, en varast ætti ábyrgðarlaust lýðskrum. Þeir væru enn í dag að glíma við afleiðingar
þessa.

Ég er í pistlinum ekki að fjalla um voðaverk einstaklings, heldur þá samfélagslegu umræðu sem fjölmiðlar og stjórnmálamenn hafa leitt undanfarin misseri og þá vaxandi hörku sem er í smaskiptum milli fólks og t.d. hér á netinu, sem margir hafa bent á.

Saklaust fólk er dregið inn í umræðuna og það sakað um að standa í vegi fyrir því að „réttlátar“ töfralausnir nái fram að ganga. Ég vísaði í mitt starfsumhverfi, en við starfsmenn stéttarfélaga höfum mátt sitja undir mjög alvarlegum ásökunum af hálfu þessara fjölmiðlamanna og stjórnmálamanna. Á skrifstofum stéttarfélaga sé séu samankomnir harðsnúnir sérhyggjumenn sem raki til sín fjármunum.

Ekkert er fjarri lagi, en aldrei er þetta kannað einungis hert á ásökunum. Aldrei er fjallað um raunverulega starfsemi stéttarfélaganna. Sjaldan er fjallað um hinn raunverulega vanda sem launamenn eiga við að glíma, gengisfall, kaupmáttartap, okurvexti og eignaupptöku í skjóli gjaldmiðils sem er handstýrt.

Engir eru jafn hörundsárir og fjölmiðlamenn og þá helst þeir sem standa hvað fremst hafa staðið í þessum ábyrgðarlausa leik. Það er sorglegt að horfa upp á viðbrögð þeirra, en það var svo fyrirséð hver þau yrðu.

þriðjudagur, 6. mars 2012

Fyrirséð staða

Ég er sammála Marínó G. Njálssyni ráðgjafa um að árásin inn á lögmannsstofuna í kom ekki á óvart. Ég er reyndar fullviss um að starfsmenn lögmannsstofa, banka og fjármálastofnana hafa upplifað margskonar uppákomur undanfarinn misseri sem hafa verið merki þess hvert stefndi. Ég þekki það allavega vel úr því umhverfi sem ég hef starfað í undanfarinn ár. Ég er ekki með þessu að segja að ofbeldi í einhverju formi sé réttlætanlegt.

Marínó bendir á lagaklæki og lagaflækjur og hvernig aðilar sem hafa fjármuni til þess að hafa lögmenn og sérfræðinga á sínum snærum hafi vikið sér undan að semja og koma fram við fólk af fullri virðingu og auðmýkt.

En til viðbótar því sem Marínó segir spyr ég því einnig hvort ekki sé ástæða fyrir stjórnmálamenn, fréttastjóra, álitsgjafa og spjallþáttastjórnendur og sum samtök til þess að staldra við og velta því fyrir sér hvort framsetning þeirra geti átt einhvern þátt í því hvernig komið er.

Vitanlega þarf að skoða fyrirkomulag lána og uppgjör þeirra og finna leiðir til þess að koma til móts við fólk í vandræðum. En það er mikill ábyrgðarhluti hvernig þessir hlutir eru settir fram. Hversu oft er nú búið að lofa töfralausnum, sem síðan við nánari skoðun reyndust vera innistæðulaus froða?

Menn verða að átta sig á að í hvert skipti sem slíku er lofað og slegið upp í fréttatímum, spjallþáttum eða í ræðum á þingi, er verið að vekja upp væntingar hjá fólki sem á í vandræðum. Vitanlega vill það trúa því að það komist úr sínum vanda.

Ítrekað er haldið á lofti lausnum sem ljóst er að ekki er hægt að standa við, en því slegið upp sem aðalfrétt kvöldsins og gestum boðið í spjallþátt til þess að útlista eitthvað sem augljóslega stenst enga skoðun. Í stað þess að kanna hvort það sé virkilega hægt að bjarga málunum með tveimur pennastrikum.

Það er klár fantaskapur að ástunda slíka taktík. Fólk er ítrekað búið að verða fyrir miklum vonbrigðum og reiði þess vex í hvert skipti. Og að hverjum beinist svo reiðin? Allavega ekki að fjölmiðlamönnum og spjallþáttastjórnendum, en þeir eru aftur á móti búnir að búa sér til efni í næstu aðalfrétt, sem er sorgleg árás einstaklings á saklausan starfsmann lögfræðistofu.

laugardagur, 3. mars 2012

Kanadadollar og aðrar reyksprengjur

Nú er það orðið ljóst að almenningur mun ekki lengur sætta sig við það umherfi sem krónan býður upp á með reglulegum gengisfellingum sem valda hækkun vaxta og skulda og skerðingu launa. Stjórnmálamenn hafa hingað til komist upp með kasta upp margskonar reyksprengjum til þess að villa fólki sýn og margir hafa trúað því að að krónan sé bjargvættur, það er hið gagnstæða hún er sjúkdómurinn. Verkfæri sem valdahafa nýta til þess að færa kostnað vegna eyðlsuhyggju og vanhugsaðra kosningaloforða yfir á almenning.

Andstæðingar ESB umræðunnar eru því þessa dagana að verða örvæntingarfullir og nota öll vopn til þess að koma henni á villigötur. Formaður Framsóknarflokksins fer þar framarlega, minnistætt er þegar hann kynnti til sögunnar mann með skilaboð um að Noregur væri tilbúinn að til þess að lána Íslandi umtalsverðar upphæðir á gríðarlega góðum kjörum, það reyndist vera eitthvað knæpuhjal óábyrgs þingmanns, nú er farinn svipuð leið.

Nú er því haldið fram að Kanadamenn séu gríðarlega spenntir að við tökum upp Kanadadollar. Eru Kanadamenn virkilega tilbúnir að spandera á okkur þeim fjármunum sem hlýst af því að verja okkar hagkerfi? Eru þeir til í að kaupa allar krónur sem eru í umferð, allt lausafé og skuldabréf og greiða það upp í topp með kanadískum dollurum? Henda svo öllum krónunum í ruslið. Fyrirfinnst enn í heiminum slík gjafmildi og hjartahlýja?

Þetta er óraunhæft og fyrir því eru nokkrar ástæður.
1
. Við eigum ekki nægan gjaldeyrisforða sjálf til að kaupa það magn af viðkomandi gjaldeyri til að mæta lausu fé í umferð. Því yrðum við að fá samþykki AGS og Norðurlandanna að nota lánin frá þeim til þessa arna og það gæti reynst þrautin þyngri. Ljóst má vera að þessar þjóðir myndu ekki vilja fá greitt með krónum fyrir sinn gjaldeyri.

2. Ef okkur tækist að safna saman nægum gjaldeyri til að umbreyta myntinni er ljóst að lítið væri eftir til að mynda varaforða – sá sem er að láni fór í myntbreytinguna. Auðvitað skiptir máli á hvaða skiptigengi þessi aðgerð yrði framkvæmd. Ef krónan er of veik (aflandsgengið er 250-260 á evrunni) rýrna eignir okkar tekjur gríðarlega við myntbreytinguna og ef krónan er of sterk göngum við nærri samkeppnishæfni atvinnulífsins og þar með störfum okkar og tekjum.

3. Gefum okkur að við notum jafnvægisgengið sem gæti legið í kringum 130-140 kr. á evruna. Þegar umbreytingunni væri lokið skiptir miklu máli að aðgerðin sé svo trúverðug og traust – að hér verði svo öflugt atvinnulíf – að ekki leiki minnsti vafi á því að við munum standa við skuldbindingar okkar gagnvart erlendum innistæðueigendum sem eru æði margir. Ef þeir telja hins vegar að nú séu þeir lausir og best sé að taka evrurnar og hverfa aftur heim á þarlendan fjármálamarkað er ljóst að bankarnir lenda fljótlega í lausafjárvanda – þá vantar þá meiri gjaldeyri í lausu fé.

Í venjulegu hagkerfi myndi Seðlabankinn sjá til þess að bankinn fengi ,,innlendu myntina‘‘ ef ekki með öðru þá með prentun fleiri seðla. Þetta er hins vegar ekki hægt og þá erum við komin í sama vanda nema hvað við erum búin að sólunda varasjóðnum sem við fengum að láni hjá AGS og Norðurlöndunum til að hleypa þeim erlendu fjárfestum, sem eignuðust íslensk verðbréf þegar þeir voru að veðja á vaxtamun milli Íslands og annarra landa, út úr hagkerfinu með erlendan gjaldeyri og sitjum uppi með afleiðingarnar. Það er ástæðan fyrir því að AGS og Norðurlöndin myndu trúlega aldrei samþykkja svona aðgerð – hún gengur einfaldlega ekki upp.

4. Þá er ótalin sá vandi sem yrði í framtíðinni að ef okkur tekst að koma hagvexti í gang þarf peningamagnið í umferð að fylgja hagvextinum– en ekki vaxa meira en sem nemur hagvexti. Til að gera það í hagkerfi með gjaldmiðil annars ríkis verður Seðlabankastjóri að fara reglulega til þess ríkis með afrakstur útflutningsins og kaupa meiri gjaldeyri og ef hér kæmi upp einhver efnahagskreppa aftur (og það verðum við að gera ráð fyrir að muni gerast) er enginn bakhjarl og engin prentsmiðja.

Þessi mál hafa verið rædd ítarlega á fundum innan verkalýðshreyfingarinnar og hún hefur komist að þeirri niðurstöðu að eina færa leiðin út úr þessum ógöngum sem núverandi gjaldmiðill og ábyrgðarlaus efnahagsstefna undanfarinna ára hefur leitt okkur í væri umsókn um aðild að ESB og upptaka evru. Og það eins fljótt og auðið er ef okkur tekst að ná ásættanlegum aðildarsamningi sem tryggir hagsmuni okkar í sjávarútvegs-, landbúnaðar- og byggðamálum.

Takist þetta er okkur greið leið inn í myntsamstarf Evrópuríkjanna innan ramma ERM-II í stað núverandi gjaldeyrishafta til að lækka vexti og koma fjárfestingum og atvinnusköpun í gang. Það sýnir reynsla Eystrasaltsríkjanna að aðlögunarferli vaxtanna hefst strax innan ERM-II þannig að áhrifin koma mikið fyrr en þann dag sem við fengjum myndina sjálfa. Ekki hafa orðið neinar þær grundvallar breytingar á okkar aðstæðum sem breyta þessari stöðu.

fimmtudagur, 1. mars 2012

Alþingi bjargað frá stjórnarskrárbroti

Því miður virðist of oft vera þannig að menn láta pólitíska óskhyggju taka yfir lagahyggju þegar þeir fjalla um mál. Þetta er ein helsta ástæða þess hvers vegna Alþingi hefur fallið svo í áliti landsmanna.

Alltof margir alþingismanna hafa tamið sér eigin lögskýringar sem henta málflutning þeirra sem er í gangi hverju sinni. Þetta háttalag og óvandvirkni í málefnavinnu margra þingmanna þekkjum við ákaflega vel sem höfum verið í störfum sem tengjast störfum Alþingis á margan hátt og eins að við þurfum að gefa umsagnir um mörg þau mál sem lögð eru fyrir Alþingi. Þetta máttu allir lögfræðingar á Alþingi segja sér, en tilraun til lögskýringa eftir pólitískum línum fór út um þúfur. Þegar Alþingi samþykkt að vísa málinu í Landsdóm var það orðið að dómsmáli. Málið var ekki lengur þingmál.

Magnús Nordal lögmaður og alþingismaður á Alþingi í dag ; "Fjallað hefur verið um saksóknina sérstaklega, þá er ég á þeirri skoðun eins og kom fram við 1. umr. málsins að engar heimildir séu hjá Alþingi Íslendinga til að eiga frumkvæði að því að falla frá saksókn í máli á hendur ráðherra. Alls ekki. 29. gr. er sérákvæði í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins um að einhverjir hlutir skuli vera á einhvern hátt. Hins vegar er enginn vafi á því að framkvæmdarvaldið sjálft, forseti Íslands, saksóknari og löggjafarvaldið, geta ráðstafað því hvernig fallið er frá saksókn gegn öllum öðrum. Vegna sérákvæðis í stjórnarskrá er það ekki heimilt að Alþingi hafi frumkvæði að slíku. Það felur einfaldlega í sér stjórnarskrárbrot að ákveða að gera það. Það fæli í sér brot.

Menn hafa í þessum þingsal síðan ég kom hingað alloft kallað fram í ræður þingmanna og sagt að verið væri að brjóta á stjórnarskránni, nú síðast út af dómi sem féll fyrir ekki löngu síðan í svokölluðum gengismálum. Það segir mér að þingmönnum er annt um stjórnarskrána sína. Og mér er annt um stjórnarskrána. Mér er annt um þann eið sem ég skrifaði undir þegar ég kom hingað inn um að ég ætlaði að gæta hennar. Ég er einlæglega þeirrar skoðunar að þegar menn leggja fram tillögu af þessum toga sem til þess er eins gerð að prófa hvort meiri hluti Alþingis hafi breyst af því að einhverjir hafi skipt um skoðun, það feli í sér brot á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands þegar túlkuð eru saman lögin um landsdóm og stjórnarskrá lýðveldisins. Mér þykir það miður ef það yrði niðurstaða Alþingis að taka slíka ákvörðun."