föstudagur, 28. júní 2013

Afnemum verðtrygginguna


„Afnemum verðtrygginguna,“ var áberandi kosningaloforð nokkurra stjórnmálmanna þar á meðal Framsóknarmanna. Margir voguðu sér að spyrja við hvað væri átt, hvað það þýddi að afnema vertryggingu og hvaða lánaform yrði tekið upp í staðinn og fengu engin svör. Áköfustu stuðningsmenn afnáms verðtryggingar höfðu látið framkvæma skoðanakönnum þar fólk var spurt, : „Viltu afnema verðtryggingu?“  og 80% svöruðu „Já.“

Ég velti oft fyrir hvers vegna 100% sögðu ekki já og þar með að lýsa því yfir að þeir vildu að verðbólgan á Íslandi færi aldrei upp fyrir 3,5%, (það er við það mark sem verðtryggingin byrjar að tikka),  sem ég skildi spurninguna allavega þannig og hefði á þeim grunni svarað „Já.“

En það er einnig hægt að líta svo á að þau 20% sem sögðu „Nei“ vissu að ef verðtrygging yrði afnumin á Íslandi þýddi það að staðgreiða yrði vexti og flestir myndu ekki ráða við það þá gríðarlegu hækkun á afborgunum lána sem yrði í verðbólguskotunum.

Það er í raun sama á hvorn veginn þetta er túlkað þá er ljóst að þessi spurning er algjörlega marklaus, það hvernig þeir sem framkvæmdu þessa skoðanakönnun nýttu sér síðan 80% niðurstöðuna, segir okkur að þeir vissu nákvæmlega ekkert um hvað þeir voru að fjalla.

Enda er það komið í ljós, sé litið til ummæla núverandi stjórnaþingamanna sem höfðu hvað hæst um að þeir ætluðu að sjá til þess að verðtrygging yrði afnuminn þeir segja í dag, þar á meðal Frosti efnahagssérfræðing XB „Stefna á þann stöðugleika í efnahagslífi að verðtrygging virki ekki.“ Eða „Fólk ætti að íhuga vel sinn gang þegar það tekur verðtryggð lán.“ Hér kveður við allt annan tón en í kosningabaráttunni.

Það eru reyndar margir sem hafa undanfarinn misseri bent að afnám verðtryggingar sé ekki einhver einföld aðgerð og hluti skulda fólks hverfi við það að „Afnema verðtrygginguna.“ Þar á meðal undirritaður, en fékk ætíð það svar að ég væri á móti hagsmunum heimilanna og vildi tryggja herfang lífeyrissjóðanna og eitthvað enn ógeðfelldara. Hér vill ég benda á allnokkra pistla sem ég hef skrifað um þetta mál og svo þá umfjöllun sem þeir hafa fengið hjá tilteknum aðilum.

Framsetning helstu talsmanna um afnám verðtryggingar hefur nefnilega ætíð verið eð þeim hætti að þeir hafa gefið í skyn að lánakostnaður myndi lækka sem næmi því fjármagni sem fer inn í verðtryggingarkerfið. Eða með öðrum orðum, að til stæði að reka hluta lánakerfisins með neikvæðri ávöxtun.

Það var gert allt fram til setningu Ólafslaga upp úr 1980, þá voru það sparifjáreignendur og sjóðsfélaga lífeyrissjóða sem voru látnir greiða allan kostnaðinn af neikvæðri ávöxtun lána. Allur sparnaður þeirra var látinn brenna óbættur á verðbólgubálinu.

Sumir hafa haldið því fram að það séu stjórnir lífeyrissjóðanna sem standi í vegi fyrir því að þetta verði gert. Svo það sé á hreinu þá skulum við hafa það í huga að ef verðtrygging yrði afnumin myndu rekstrareikningar almennu lífeyrissjóðanna snarlagast. T.d. hefur verið bent á að ef verðtrygging hefði verið afnuminn um síðustu aldamót, þ.e. árið 2000, væri einstaklingur, sem í dag væri að fá 190 þús. kr. úr lífeyrissjóði á mánuði, fengi í dag einungis um 100 þús. kr. á mánuði.

Reyndar væri ójöfnuður lífeyrisþega þá orðin margfalt meiri en áður, því lífeyrisþegar í opinberu sjóðunum væru með sitt á þurru. Þetta kallaði reyndar á um 4 – 6% skattahækkanir því útgjöld Tryggingarstofnunar hefðu vaxið í réttu hlutfalli við fall útgjalda almennu lífeyrissjóðanna.

Peningar eru afskaplega óstöðugt mælistærð til einhvers tíma vegna annað hvort verðbólgu eða verðhjöðnunar. Það hefur kallað á önnur mælitæki til þess að reikna raunstærðir; hvort sem er að ræða raunlaun, raungengi eða raunlandsframleiðslu.

Vextir af verðtryggðum lánum eiga að vera lægri en af óverðtryggðum þar sem minna áhætta fylgir því að lána út. Verðtryggðir raunvextir eru fastmælum bundnir til framtíðar og því tryggðir eða öruggir. Nafnvextir skila aftur á móti óvissum raunvöxtum, þar sem enginn getur séð fyrir verðbólguþróunina.

Þeir sem vilja raunvexti verða því að greiða tryggingagjald. Tryggingargjaldið veltur hins vegar á því hversu mikil verðbólguhættan er. Ef lán heimilisins ber breytilega nafnvexti sem elta verðlagsbreytingar munu vaxtagreiðslur hækka verulega vegna hækkunar á vöxtum.

Stór og mikil verðbólguskot leiða til mikillar hækkunar á vöxtum sem geta hæglega gert mörg heimili gjaldþrota. Mun fleiri heimili hefðu orðið gjaldþrota í Hruninu ef þau hefðu ekki verið með verðtryggð jafngreiðslulán.

Í landi sem býr við reglubundin verðbólguskot hafa verðtryggð lán með jafngreiðslum fleytt heimilum á Íslandi í gegnum þessi skot. Vaxandi skuld er tilkomin vegna þess að mánaðargreiðslan dugar ekki fyrir raunvöxtum. Þannig hefur verðbólgan étið upp eigið fé í húsum fólks, vegna þess að mánaðargreiðslur hafa verið nokkuð stöðugar.

Þannig má færa rök fyrir því að verðtrygging hafi skapað ákveðið öryggi hjá bæði lánadrottnum og skuldunautum á Íslandi. Það er síðan hægt að deila um það hvort þetta form sé hagkvæmt, sanngjarnt eða öruggt. Það lá þó fyrir sæmileg þjóðarsátt var um þessa aðferðafræði fram að 2008.

Það sem hægt er og þarf að leiðrétta eru grunnvextir á Íslandi, sem eru að jafnaði 4-5% hærri en í nágrannalöndum, það er afleiðing mikillar og viðvarandi verðbólgu sem sveiflur krónunnar valda. Óverðtryggðir vextir eru um 3% hærri en verðtryggðir vextir, það er óeðlilega hátt.

Sveiflukennd króna veldur gríðarlegum kostnaði fyrir samfélagið vegna hins mikla vaxtamunar. Hvert vaxtaprósent kostar heimilin um 15 milljarða kr. á ári, eða um 18% af ráðstöfunartekjum. Hvert vaxtaprósent kostar atvinnulífið um 17 milljarða.kr. á ár og hið opinbera um 14 milljarða.kr. á ári.

Við erum mörg sem bíðum spennt eftir því að þingmenn taki nú loks til við að koma á stöðugleika í efnahagslífinu. Stöðugleiki í efnahags- og félagslegu tilliti er algjör forsenda árangurs í uppbyggingarstarfinu. Krónan búin að leika sitt hlutverk og býður einungis upp á höft, háa vexti og rýran kaupmátt. Aðild að ESB og upptaka evru eina færa leiðin úr þessum ógöngum og ætti því að vera forgangsverkefni allra.

fimmtudagur, 27. júní 2013

Gott mál - en of lítið skref tekið


Nýr félagsmálaráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til breytinga á lögum um almannatryggingar sem hækka frítekjumark atvinnutekna ellilífeyrisþega og afnema skerðingar grunnlífeyris vegna lífeyrissjóðstekna.

Það er fagnaðarefni að eitt af fyrstu verkum nýrrar ríkisstjórnar sé að bæta kjör eldri borgara. En það er jafnframt óásættanlegt að ríkisstjórnin skuli ekki leggja fram þá niðurstöðu sem liggur fyrir eftir mikla vinnu í heildarendurskoðun á almannatryggingarkerfinu og unnið hefur verið að um margra ára skeið í breiðri samstöðu fulltrúa allra flokka og fulltrúa hagsmuna aðila.

Vinnu sem miðaðist öll við að einfalda kerfið, gera það skilvirkara og bæta stöðu bótaþega með því að lagfæra hin margslungnu skerðingarmörk, sem fáir skilja og hafa flest nú orðið verulegar skerðingar í för með sér til þeirra sem síst skildi. Núverandi stjórnarflokkar áttu ásamt öðrum þingflokkum fulltrúa í þessari vinnu og skrifuðu í vor undir tillögur sem var samstaða um að lagðar yrðu fram á þessu ári.

Í þessari tillögu er gengið mun skemur og þessi breyting gagnast einungis tekjuháum lífeyrisþegum, en ekki þeim sem hafa lífeyrissjóðstekjur undir 215.000 kr. á mánuði og/eða lágar atvinnutekjur hafa engan ávinning af boðuðum breytingum.

Ástæða er að benda stjórnmálamönnum sérstaklega á hver verði raunframtíðarbyrði af almannatryggingum. Styrkleiki uppsöfnunarlífeyriskerfisins er að næstu ár munu einstaklingar sem hafa réttindi í lífeyrissjóðum, sem er nú að meðaltali 120 þús.kr./mán., stækka tekjuskattsstofninn mjög hratt og skapa þar af leiðandi vaxandi tekjur hjá ríki og sveitarfélögum.

Þetta er atriði sem stjórnmálamenn virðast ekki gera sér grein fyrir. Vandi lífeyrisþega er mestur næstu 10-12 ár, og þar með ríkissjóðs, en til lengdar mun lífeyriskerfið styrkja bæði stöðu ríkisfjármála og samkeppnisstöðu atvinnulífsins. Nokkrir embættismenn í fjármálaráðuneytið virðast vilja halda tekjum af greiðslum sjóðsfélaga lífeyrissjóðanna utan við sviga, sem og skatttekjum af greiðslum almannatrygginga.

Það er grundvallaratriði að verkaskipting milli almannatrygginga og lífeyrissjóða sé skýr. Það sé tryggt að launafólk hafi áþreifanlega betri hag af því á efri árum að hafa greitt iðgjöld til samtryggingarsjóða á starfsævinni.

Sveigjanleiki í starfslokum er mikilvægur. Í tillögunum er lögð áhersla á að auka hann þarf og viðhalda möguleika launafólks til að velja sér séreignarsparnað sem tryggir raunverulegt val um fyrirkomulag starfsloka.

Þá er einnig horft til þess að auka þurfi verulega áherslu á starfsendurhæfingu þeirra sem missa starfsorku til þess að tryggja eins og kostur er áframhaldandi þátttöku á vinnumarkaði.

miðvikudagur, 26. júní 2013

Kommúnistar og landráðafólk


Ég hef verið á mörgum átakafundum innan samtaka launafólks undanfarna tvo áratugi. Þar er oft hart barist og snaggaralega tekið til orða. En ég minnist þess ekki að hafa heyrt eða séð þar þá lágkúru og fólsku sem þingfréttamenn báru inn í stofur landsmanna þegar kynnt voru störf Alþingis á síðasta kjörtímabil.

Á meðan Alþingi starfaði síðasta kjörtímabil hófst nær hver einasti fréttatími á klipptum bútum frá ræðustól Alþingis. Þar kom iðulega fram að ef fólk væri ekki sömu skoðunar og Sjálfstæðismenn, þá væru þeir hinir sömu kommúnistar og líkt við fjöldamorðingja.

Þeir sem ekki voru sömu skoðunar og þingmenn Framsóknar voru landráðmenn, það væri fólk sem ekki stæði í lappirnar og vildi að íslenskum almenning væri gert að greiða skuldir erlendra óreiðumanna.

Þingmenn beggja þessara fyrrverandi stjórnarandstöðuflokka komu nær daglega inn á heimili okkar í gegnum sjónvarpið og fullyrtu að allir þeir einstaklingar, sem vildu kanna til hlýtar hvort það væri heimilunum til hagsbóta að Ísland gerðist aðili að sama ríkjasamstarfi og helstu nágrannalönd okkar, væru andstæðingar hins Íslenska lýðveldis og vildu afsala fullveldi landsins.

Okkur var sagt að þeir sem væru ekki sömu skoðunar og þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks væri fólk sem vildi gefa erlendu ríkjabandalagi, sem væri samskonar og Nasistaríki Hitlers, allar auðlindir Íslands.

Þessir þingflokkar virtu að vettugi niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu um endurnýjun Stjórnarskrárinnar. Ég ætla ekki að hafa eftir þau ummæli sem viðhöfð voru um okkur Stjórnlagaráðsliða. Ekkert kom fram frá þessum þingmönnum um hvað þeir vildu gera, engar málefnalegar tillögur, einungis að allt sé ómögulegt og Stjórnlagaráð væri ómerkilegur kjaftaklúbbur.

Sömu þingmenn börðust gegn því að fólkið í landinu fengi að svara nokkrum lýðræðislegum spurningum um auðlindir og jöfnun atkvæðisréttinda. Þessir hinir sömu þingmenn voru staðnir að því að læðast út um bakdyr Alþingis til þess að koma í veg fyrir lýðræðislega kosningu í þinginu.

Við getum afnumið verðtyrgginguna og látið skuldir hverfa, en ríkistjórnin stendur í vegi fyrir því. Hún vill níðast á fólkinu í landinu, boðaði þáverandi stjórnarandstaða í öllum spjallþáttum og innslögum í fréttatímum.  

Þegar þjóðin þurfti helst á því að halda í október 2008 að til væri aðili sem hún gæti treyst og trúað og gæti tekið að sér leiðtogahlutverk, var staðan sú að forsetinn hafði verið beinn þátttakandi í spilverki fjármálaaflanna. Sama átti við um Alþingi stjórnarþingmenn þingmenn og ráðherrar voru beinir þátttakendur í aðgerðum fólust í því að dylja raunveruleikann og það varð til þess að efnahagshrun hér á landi varð mun alvarlegra fyrir heimilin í landinu og fyrirtækin en í öðrum löndum.

Ráðherrar og stjórnarþingmenn höfðu haldið því að okkur að Ísland ætti ekki að bera sig saman við Norðurlönd og ætti ekki að taka mark á ábendingum þaðan, aðstæður væru allt aðrar á Íslandi. Leyndarhyggjan við völd. Regluverk og ábendingar Norðurlanda þóttu of íþyngjandi. Þingmenn sjálfstæðismanna berjast fyrir því að engu verði breytt og vilja koma í veg fyrir að fólkið í landinu geti komið að eigin málum.

Nú eru þessir menn komnir í valdastólana, þá er það þeirra fyrsta verk að ráðast gegn umræðunni í landinu og kalla hana ómerkilegar "Loftárásir" á stjórnvöld. Nú vilja þeir koma böndum á það sem fram fer í RÚV. Greinilega óttast þeir að núverandi stjórnarandstaða fái sama rúm hjá þingfréttmanni RÚV og þeir fengu.
 

þriðjudagur, 25. júní 2013

Sigmundur Davíð volandi - Icesave skuldin er ekki horfin



Sigmundur Davíð er nú mættur í fjölmiðla volandi yfir því að allir séu svo ósanngjarnir við sig. Sigmundur Davíð hefur enn ekki svarað þeim spurningum sem beint var að honum í kosningabaráttunni, um hvernig hann ætlaði að standa við stórfengleg loforð sín, og nú stendur hann ráðalaus frammi fyrir alþjóð.

Nú kemst hann nefnilega ekki lengur upp með innistæðulausu upphrópanirnar sem hann notaði í ræðustól Alþingis síðasta kjörtímabil. En honum er svarafátt og frá honum koma einungis ásakanir um að vinstra fólk sé tapsárt. Ekki eitt einasta málefnalegt innlegg.

Þegar EFTA-dómurinn féll hélt Sigmundur Davíð því að almenning að hann hefði staðið í lappirnar gegn erlendu auðvaldi sem vildi knésetja íslenskan almenning. Hann hefði komið Icesave-skuldinni fyrir kattarnef með atkvæðagreiðslu.

Staðreyndin er hins vegar sú að skuldin er enn á sínum stað, nákvæmlega jafnhá daginn og hún var daginn fyrir dóminn og eftir að hann féll. Stærsti hluti skuldarinnar liggur nefnilega enn í Landsbankinn, banka sem þjóðin er í ábyrgð fyrir.

Seðlabanki Íslands á í Icesave uppgjörinu ógreiddar kröfur vegna hinna svokölluðu ástarbréfa að upphæð um 127 milljarð króna. Auk þess hefur ríkissjóður þurft að leggja nýja Landsbankanum til 122 milljarða króna í eigið fé og þar til viðbótar þarf nýi Landsbankinn að greiða 300 milljarðar króna í þrotabú hins gamla fram til ársins 2018. Þetta þarf að greiða í erlendum gjaldeyri, sem er einfaldlega ekki til í dag. Staðan í Icesave er nefnilega óbreytt.

Seðlabanki Íslands tapaði vegna ástarbréfaviðskiptanna frægu u.þ.b. tíföldum þeim kostnaði sem orðið hefði af Buchheit-samningnum um Icesave.

Icesave samningurinn snérist um að eyða eins mikilli óvissu og unnt var. Því er gjarnan haldið fram að Ísland hafi sigrað í Icesave deilunni, Íslandi hafi verið bjargað frá því að verða Kúba norðursins.

Íslenskir skattborgarar og launafólk eru sannarlega ekki sigurvegarar í þessari deilu. Atvinnulífið væri mikið betur statt ef tekið hefði verið á Icesave með Bucheitsamningum eins og meirihluti Alþingis vildi. Flestir helstu forsvarsmenn íslenskra fyrirtækja hafa ítrekað bent á að dráttur á lausn Icesave deilunnar leiddi til þess að Ísland hefur að óþörfu búið við slaka viðskiptastöðu.

Icesave-deilan var skrímsli sem tætti þjóðina í sundur, þjóð sem sannarlega hefði þurft að standa saman og takast á við efnahagsvandann í stað þess að gera tilraun að kjósa hann í burtu. Ýta honum þar með á undan sér. Þeir sem benda á þessar staðreyndir eru umsviflaust kallaðir ljótum nöfnum eins og þjóðníðingar.

Og við bíðum eftir svörum Sigmundar Davíðs um hvernig eigi nú á næstu mánuðum að :
  1. greiða upp Icesave
  2. losna við snjóhengjuna
  3. afnema verðtrygginguna
  4. fella niður skuldir um 20%
  5. hækka elli- og örorkubætur
  6. lækka skatta
  7. ná efnahagslegum stöðugleika
  8. lækka vexti
  9. hækka kaupmátt
  10. jafna kynjabundin launamun á vinnumarkaði.
 
En Sigmundur Davíð segir „fyrrum stjórnarflokka ganga fram með „ótrúlegu offorsi“ og einskis svífast í ómerkilegum pólitískum brellum. Að sama skapi þurfi ný ríkisstjórn að sæta mun óvægari umfjöllun fjölmiðla en fyrri ríkisstjórn og kvartar sáran undan óbilgjarnri stjórnarandstöðu og einhliða fréttaflutningi ákveðinna fjölmiðla.“

Ja hérna. Bíddu aðeins Sigmundur Davíð hvar eru svör þín? Fórstu í gegnum heila kosningabaráttu með fullt af l0forðum, en hafðir þú ekkert fyrir að kanna hvort hægt væri að standa við þau.

Hver var málflutningur þinn síðasta kjörtímabil, málþófið, upphrópanirnar? Varstu kannski farinn að trúa eigin upphrópunum um að þetta væri svo einfalt.

Hverjir voru það sem drógu álit Alþingis niður í eins stafs tölu?


mánudagur, 24. júní 2013

Rísum upp og undirritum óbreytt veiðgjald


Oft veltir maður því fyrir sér hvers vegna Ísland sker sig á svo mörgum sviðum frá hinum Norðurlandanna. Sé litið yfir söguna þá hefur það ætíð tekið íslenskan almenning mun lengri tíma að ná fram réttindamálum en það tekur í nágrannalöndum okkar, hér munar jafnvel áratugum.

Stjórnmál, atvinnulíf og stjórnsýsla virðist vera kerfi sem vinnur gegn verðleikum, þar virðast vera önnur sjónarmið sem ráða. Heilbrigð samkeppni, agi í stjórnsýslu virðist ekki þrífast, þar ráða skyndiákvarðanir byggðar hagsmunapólitík. Slök stjórnsýsla er áberandi og jafnvel þó einhver bendi á hluti sem mætti lagfæra, virðist vera nóg að einhver ráðherra eða þingmaður standi upp og hasti á lýðinn og hann leggst niður og þegir.

Er það smæð samfélagsins sem veldur þessum skipulagða andverðleika? Heilbrigð samkeppni, ögun og þjálfun sem menn sækja til að nýta verðleika sína virðsit ekki ná að þrífast hér með sama hætti og við sjáum í nágrannalöndum okkar. Þetta óheilbrigða Íslenska umhverfi veldur því að hér þrífast fyrirtæki jafnvel þrátt fyrir að þau séu ekki vel rekinn, stjórnmálum og hagsmunum er stjórnað af sérhæfðum valdafíklum.

Pólitískum venslamönnum er hyglað og smá saman hefur lýðurinn látið þetta yfir sig ganga. Sett eru fram rök í dag sem jafnvel ganga þvert á þau rök sem giltu í gær og ráðherrar og þingmenn komast endurtekið upp með þetta.

Þessa dagana birtist íslensk stjórnmálamenning okkur í sínu toppformi, þegar valdastéttin fullyrðir að valið standa milli lækkunar veiðigjalds eða niðurlagningu gjaldsins!!?? Þetta eru aldeilis dæmigerð vinnubrögð íslenskra þingmanna sem eru í stjórn. En það er búið að venja lýðinn á að orð stjórnmálamanna gildi, staðreyndir eru aukaatriði og Íslendingar leggjast flatir, að venju. Þannig hefur það verið og þannig verður það áfram.


Það sem ég er að benda á, eru orð hins nýja ráðherra Sigurðar Inga, hann er með ummælum sínum að samkvæmt þessum viðteknu vinnubrögðum að stilla gagnrýnendum frumvarpsins upp við vegg. Þeim sem hafa kynnt sér málið er ljóst að Alþingi þingið hefur klárlega heimild til þess að gera upplýsingaöflun veiðigjaldanefndar einfaldari og skýrari með ofureinföldum lagabreytingum, en það er leið sem stjórnvöld vilja ekki fara.

Ef breyta þarf niðurjöfnun gjaldsins á einstök fyrirtæki er einfalt að gera það. Það þarf ekki að lækka heildargjaldið, en þarna siglir ráðherrann hina Íslensku stjórnmálaleið. Ef hann væri hreinskiptinn ætti hann þá að rökstyðja lækkun gjaldsins, en hann velur frekar að snupra tugi þúsunda landsmanna fyrir að ganga gegn stjórnvaldinu. Og við sýnum undirlægjuhátt okkar með því að undirritun réttmætra mótmæla nánast stöðvast.

 Ríkiskassinn er tómur, hvað þýðir það er hann glatar 10 milljörðum af tekjum? Það getur ekki leitt til annars en frekari niðurskurðar í velferðkerfinu. Milljarðar eru færðir frá launmönnum til auðustu manna landsins, þessu eigum við að mótmæla með því að undirrita  óbreytt veiðigjald

sunnudagur, 23. júní 2013

Laffer = Gerum hina ríku enn ríkari


Ný ríkisstjórn hefur dregið upp úr skúffum sínum kenningar Arthur Laffer „Houdini hagfræðinnar.“ En þær voru nýttar af fyrri ríkisstjórnum XD og XB. Laffer er heimsþekktur fyrir „Voodoo Economics,“ sem snúast um hvernig við græðum öll á því að skattar á fyrirtæki og fjárfesta verði lækkaðir.

Laffer heldur því fram að ef skattprósenta á tekjur einstaklinga væri 0% fengi ríkissjóður augljóslega engar tekjur og sama væri upp á teningnum ef skattprósentan væri 100% af tekjum, þ.e. ef launþeginn fengi ekkert fyrir vinnu sína, þá hafi ríkissjóðs engar tekjur. Því sé best að vera þar mitt á milli.

Þetta er gott og gilt en það veit enginn hvar við erum stödd á Laffer-kúrfunni og hvað gerist ef skattprósentan er hækkuð frá því sem hún er í dag og hvenær hún fer yfir það gildi, sem gefi ríkissjóði hæstar tekjur? Viss störf munu leggjast af, sum flytjast til annarra landa og önnur hverfa undir yfirborðið og fólk fer að koma sér hjá því að greiða skatta.

Ekki er hægt að meta hvar hámarkið er á kúrfunni og það er háð efnahagsástandi og einnig skattlagningu í öðrum löndum. Nú eru t.d. mun hærri skattar í Noregi þangað sem flestir Íslendingar hafa leitað. Þannig að það eru ekki skattar sem skipta máli, heldur afkoman þegar heildarmyndin er skoðuð. 

Þessari stefnu var beitt af Ronald Regan í Bandaríkjunum eftir árið 1980 og leiddi til þess að allur afrakstur hagvaxtarins rann til tekjuhæsta hópsins og fjárfesta. Verkafólk sat uppi með kauplækkun og lengdi vinnutíma sinn í kjölfarið til að vinna gegn kjaraskerðingunni. Sjónvarpið sýndi fyrir nokkru kraftmikla kvikmynd um hvernig heilbrigðiskerfið virkar í Bandaríkjunum, það fór um flesta íslendinga þegar þeir sáu hvernig var farið þá sem minna máttu sín í þessu „Draumalandi“.

En samt vildu forsvarsmenn Íslensku frjálshyggjunnar fara þessa leið. Enda hefur frjálshyggjan ætíð verið klók og fljót að sjá út leiðir til þess að nappa góðu bitunum og hrifsa til sín sérréttindum og leggur síðan töluvert á sig að verja sína stöðu. Allt þetta þekkjum við Íslendingar mjög vel.

Á áratugnum fyrir Hrun var Íslenskt hagkerfi keyrt inn í sömu stöðu og tókst að skapa í Bandaríkjunum með Houdini hagfræðinni. Og afleiðingarnar urðu hinar sömu : Fámennur hópur að hrifsað til sín stærri hluta af þjóðarkökunni á meðan fátækum fjölgaði og þúsundir heimila urðu gjaldþrota.

Þessi staða var falin í meðaltalsútreikningum ríkisstjórna XD og XB. Í meðaltalsútreikningum birtist nefnilega ekki staða þeirra sem verst standa og þaðan af síður staða þeirra sem hafa það ofboðslega gott, það er að segja fjárhagslega séð.

Skattalækkanir sem voru framkvæmdar af ríkisstjórnum XD og XB náðu ekki til þeirra sem fátækastir eru en skiluðu sér aftur á móti ríkulega til þeirra sem mest höfðu milli handanna og nú er boðað sama fagnaðarefni fyrir hina ríku, enda kostuðu þeir kjör þessarar stjórnar og í farabroddi fara vellauðugir einstaklingar. Þetta var gert með þeim hætti að frysta skerðingarmörk sem leiddi vitanlega til þess að bætur til þeirra sem mest þurftu á því að halda minnkuðu og jafnvel hurfu alfarið.

Forsvarsmenn fyrri ríkisstjórna XD og XB héldu því fast að okkur launamönnum að það hafi verið frábæru starfi ríkisstjórna undanfarinna ára hversu gott allir hefðu það, allt fram að Hruni.

Hið eina sem verkalýðshreyfingin hefði áorkað hafi verið stutt verðstöðvun á árinu 1990, sem var kölluð Þjóðarsátt, svo vitnað sé til Hannesar Hólmsteins helsta efnahagsérfræðings Eimreiðarmanna. Endurskoðuð söguritun þessara manna segir svo að afleiðingar Hrunsins sé þeirri ríkisstjórn að kenna, sem tók við völdum eftir Hrun!!??

Prófessorar við Harvard og MIT hafa rannsakað mismunandi vinnutíma í vestrænum þjóðfélögum og kannað skýringargildi annarra þátta en skatta. Niðurstöður þeirra eru að skattar skýri aðeins lítinn hluta af breytilegu vinnumagni þjóða, það er styrkur og skýr stefna launþegahreyfinga sem skipti þar öllu máli ásamt umfangi velferðarríkja og tekjuskipting.

Einstaklingur í Bandaríkjunum vinnur að meðaltali 25,1 vinnustundir á viku en í Þýskalandi er meðaltalið 18,6 vinnustundir. Bandaríkjamaðurinn vinnur að meðaltali 46,2 vikur á ári en Frakkinn 40 vikur. Gögn, sem byggja á athugunum á vinnutilhögum, benda til þess að skattar útskýri aðeins lítinn hluta þessa munar.

Harvardmenn setja fram vel rökstuddar kenningar um að sterk verkalýðshreyfing á evrópskum vinnumarkaði sé meginástæða þessa munar á milli Bandaríkjanna og Evrópu, og þar stendur hæst hin þekkta krafa Norrænu verkalýðshreyfingarinnar “Styttri vinnutími, vinna fyrir alla”.

Þegar Ronald Reagan beitti stefnu Laffers í Bandaríkjunum upp úr 1980 leiddi það til þess að allur afrakstur hagvaxtarins rann til tekjuhæsta hópsins og fjárfesta, verkafólk sat uppi með kauplækkun og lengdi vinnutíma sinn í kjölfarið til að vinna gegn kjaraskerðingunni og hefur enn ekki komist út úr þeim skaða sem þetta leiddi til.

laugardagur, 22. júní 2013

Skæðasta svikamylla auðvaldsins



Ég er vona svo sannarlega að núverandi stjórnarandstaða taki ekki upp samskonar vinnubrögð og núverandi ráðherrar Sjálfstæðismanna og Framsóknar viðhöfðu á síðasta kjörtímabili og drógu þá álit Alþingis niður í eins stafs tölu með málþófi, upphrópunum og skringilegum upphlaupum í hverju einasta máli.


Núverandi ráðherrar virtu þá ítrekað vilja meirihluta landsmanna að vettugi. Þetta er ástæða þess að margir trúa ekki einasta orði sem þeir segja, enda er það svo að koma í ljós á hverjum degi að þarna er á ferð fólk sem ekki er að vinna að almannaheill, heldur að viðhalda mismunum og stéttaskiptingu í þessu landi. Ég tek undir með Agli Helga að það væri skelfilegt ef þingmenn og stuðningsmenn núverandi stjórnarandstöðu færu að svara fyrir sig með sömu aðferðum.

Hún er harla einkennileg svo ekki sé meira sagt túlkun forsætisráðherra á sögu þessa lands. En hann heldur sig reyndar við þá söguskoðun sem valdastéttin hefur viðhaldið, að það séu erlendir menn sem hafi farið illa með íslenskan almenning og heimili þeirra.

Þegar litið er til þéttbýlismyndunar hér á landi og atvinnubyltingar í kjölfar tæknibyltingar í sjávarútvegi, er erfitt á sjá hvernig hún tengist sjálfstæðisbaráttu Íslendinga eins og haldið var fram í kennslubókum Jónasar á Hriflu, sama má segja um  og eins er sögutúlkun Eimreiðarhópsins sem hefur t.d. birst í sjónvarpsþáttum Hannesar Hólmsteins og skrifum fyrrv. ráðherra sjálfstæðismanna.

Það voru Danir sem áttu ætíð frumkvæði að því að því að bæta atvinnuþróun hér á landi. En það var aftur á móti Alþingi sem barðist gegn þessum tilraunum og studdi ekki við þessa þróun. Bændur voru ráðandi afl á Alþingi reyndu ítrekað að koma í veg fyrir fólksflutninga í þorpin við sjávarsíðuna og allt var gert til þess að gera fólki erfitt að flytja úr sveitunum og stofna heimili í þéttbýli.

Þeir sögðu að aukið frelsi launamanna gerði þá að letingjum, hér má vísa til kostulegra ummæla núverandi formanns fjárlaganefndar um markvissa stefnu vinstri manna og ESB ófétisins um að koma sem flestum á bætur og skapa mönnum störf við að útdeila skattpeningum almennilegs fólks í þann óþarfa.

Sagan endurtekur sig reglulega. Íslendingar eru að flýja land vegna afleiðinga þeirrar efnahagsstefnu sem Framsókn og Sjálfstæðismenn vilja viðhalda. Einar Benediktsson skrifar í blað sitt Dagskrá árið 1896 grein sem hann nefndi „Fólksekla á Íslandi“

„Það eru ekki mörg ár síðan að ýmsar sveitastjórnir úti um land, kepptust við að kaupa velvinnandi fólk hundruðum saman til þess að fara til Vesturheims í því skyni að létta aukaútsvörum af gjaldendum hreppanna................En eins og þegar hefur verið sagt, er það hin mesta villa, að halda að landið auðgist þó fátæklingarnir fari. Mesti og besti auður hvers lands er fólkið sjálft, sem lifir þar, hugsar og starfar, og hver sem stuðlar til þess, að fólk flytji sig burt úr jafn lítt byggðu landi, sem Ísland er, vinnur þjóðinni tjón, því meira, sem honum verður betur ágengt.“

Allmargir íslendingar reyndu að koma vitinu fyrir valdastétt bænda og útgerðar þar má t.d. nefna Sr. Arnljót Ólafsson þegar hann kom heim árið 1861 eftir hagfræðinám Hann sagði að samkvæmt „þjóðmegunarfræðinni“, eins og hann nefndi hagfræðina, væru ónauðsynlegar vörur ekki til. Það sem fólk vildi kaupa teldi það vera nauðsynjar hverju sinni, og enginn væri þess umkominn að rengja þá skoðun.

Sr. Arnljótur gaf lítið fyrir þá hræðslu að allir lausamenn legðust í leti og ómennsku og spurði, „Er það hið rétta eðli mannsins, að vera latur og ónytjungur?“ og Arnljótur svarði sjálfur „Allir hefðu hvöt til þess að bjargast, jafnvel að verða ríkir.“ Samþingmenn hans úr bændastétt sögðu þetta væri innantómt fjas í Arnljóti og hér væri hann augljóslega að misnota menntun sína. Í þessu sambandi koma fram í hugann upp orð núverandi forsætisráðherra og samþingmanna hans.

Sæstrengur er lagður yfir hafið með góðum styrk frá Dönum og tengdi þjóðina við útlönd árið 1906, samfara því komast á eðlileg viðskiptasambönd og verslunin flyst inn í landið. Þá hefst þilskipa útgerð og velvæðing veiðiflotans. Einangrunarstefna bændastéttarinnar hafði orðið til þess að Ísland hafði dregist langt aftur úr atvinnuþróun og hér voru erlendi skip sem mokuðu upp öllum fiskafla við sterendur landsins.

En auknir möguleikar til viðskipta við nágrannalönd okkar urðu til þess að erlent fjármagn bauðst og með því sköpuðust tækifæri fyrir iðjulausan skríl á mölinni í Reykjavík. Hetjur íslenskrar iðnbyltingar voru ekki síst hinn fyrirlitni lýður sem fluttist úr sveitunum á mölina þrátt fyrir allar hrakspár þingmanna bænda.

Viðhorf hinnar íslensku valdastéttar gangvart launamönnum viðhélt stéttskiptingunni og varð m.a. til þess að það var fyrst árið 1956 að íslenskir launamenn ná fram atvinnuleysistryggingum, 30 árum á eftir hinum Norðurlandanna eftir langt og hatramt verkfall.

Viðhorf þingmanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknar höfði barist með öllum ráðum gegn þessu. Orð Thor Thors á Alþingi um þetta lýsa afstöðu þeirra mjög vel „að þetta frumvarp (um atvinnuleysistryggingar), sem felur það í sér að styrkja atvinnuleysingja í kaupstöðum, sé enn eitt nýtt og öflugt spor í áttina til þess að raska alveg atvinnulífi þjóðarinnar, með því móti að ginna til kaupstaðanna ennþá fleira fólk úr sveitum landsins, en það sem forsjárlaust og fyrirhyggjulaust hefur flust hingað á mölina.“

Forsvarsmenn útgerðar og bænda börðust alla tíð harkalega gegn þessum máli og töldu að með atvinnuleysisbótum væri dregið úr viðleitni og hvata launamanna til þess að bjarga sér sjálfir. Atvinnuleysistryggingar myndu stuðla að ómennsku og leti.

Sjálfstæð skráning krónunnar hófst 13. júní 1922. Fram að því hafði íslensk króna jafngilt danskri. Fyrstu árin var gengi krónunnar fljótandi, en var fest í kjölfar mikillar hækkunar á árunum 1924 og 1925: 22,15 krónur jafngiltu einu sterlingspundi. Festing gengisins var þá skoðuð sem bráðabirgðaákvörðun, en varð upphafið að lengsta tímabili stöðugs gengis í sögu íslenskra efnahagsmála. Gengið gagnvart pundi stóð var óbreytt til 1939.

Þegar Ólafur Thors , þáverandi forstjóri Kveldúlfs og formaður Félags Íslenskra Botnvörpuskipaeigenda (FÍB), barðist fyrir gengislækkun krónunnar árið 1933, var bent á það innan verkalýðshreyfingarinnar á nú væri krónan að orðin Skæðasta svikamylla auðvaldsins.  Sú spá hefur heldur betur ræst og enn berjast þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar fyrir því að viðhalda þessari svikamyllu.

föstudagur, 21. júní 2013

Forsjárhyggja valdastéttarinnar



Nú er það komið fram að ný ríkisstjórn ætlar sér að beita íslenskan almenning bellibrögðum til þess að komast hjá því að leggja fyrir þjóðina spurningu um hvort hún vilji fá að sjá í hverju samningur við ESB er fólgin, áður en hún tekur ákvörðun um aðild.

Það staðfestir fyrir okkur að valdastéttin óttast hver niðurstaða viðræðna gæti orðið. Hún óttast að launamenn gætu séð í þeim samningsdrögum fjölda starfa á góðum launum, stöðugleika og tryggan kaupmátt, umtalsverða lækkun vaxta og óvirka verðtryggingu auk 30% lækkunar á dagvörum heimilanna.

Það er staða sem valdastéttin óttast, því þá missir hún þau tök sem henni hefur tekist að ná á Íslandi og launamenn næðu að komast út úr þeim efnahagslegu þrælabúðum sem þeim hafa verið búinn hér á landi af valdastéttinni.

Þá missa bændur og sjávarútvegsfyrirtæki ódýrt vinnuafl. Þessa baráttu þekkja launamenn allt frá því þeir hófu blóðuga baráttu sína við að brjóta af sér vistarbandið (ófrelsisákvæðið) og ná í gegn vökulögunum og almanna tryggingarkerfinu.

Vinstri flokkar eru oft sakaðir af hægri mönnum um forsjárhyggju, hér blasir við hin raunverulega forsjárhyggja auðmanna gagnvart launamönnum.

Þessir hinu sömu komust til valda gegn því að lofa miklum afskriftum á skuldum heimilanna, en í staðinn er skrifaður 10 milljarða gjafatékki til valdastéttarinnar og skuldaleiðrétting heimilanna sett nefnd. Það er komið í ljós að stór hluti „Hrægammanna“ eru nefnilega hluti íslensku valdastéttarinnar og það má ekki taka frá henni og færa yfir til heimilanna. Valdastéttin er friðhelg, enda kostaði hún kosningabaráttu nýju ríkisstjórnarinnar.

41 milljón króna fór frá íslenskum útgerðarfélögum til Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Það er tífalt hærra en aðrir flokkar fengu til samans. Eitt fyrsta verk sömu flokka í ríkisstjórn, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, er að lækka veiðileyfagjald útgerðarfyrirtækjanna um alls 10 milljarða á þessu ári og hinu næsta.
 
Þrjú stærstu útgerðarfyrirtækjanna Ísfélagið í Vestmannaeyjum, Samherji og Kaupfélag Skagfirðinga keyptu og reka Morgunblaðið og sett í reksturs þess blaðs hundruð milljóna á hverju ári þrátt fyrir að engan arð sé þar að finna, þar hefur verið rekinn purrkunarlaus pólitískur áróður fyrir hagsmunum þessara fyrirtækja.

Annað verk ríkisstjórnarinnar var að setja afnám verðtryggingar er í nefnd og svæfa það. Nýja ríkisstjórnin hefur greinilega fengið LÍU-prikið á puttanna. Það er ljóst að ef lækka á vexti það mikið, að hægt sé að standa við loforðið um afnám verðtryggingar, verður að henda krónunni. Afnám ofurvaxta (verðtryggingar) er óframkvæmanlegt á meðan við höfum krónuna.

Krónan er forsenda þess að LÍÚ getur sent reglulega um fjórðung rekstrarreikningsins fyrirtækja sinna til íslenskra heimila í formi gengisfellinga, eins og útgerðin hefur gert allan lýðveldistímann.

Hagnaður sjávarútvegs eftir hrun hefur verið ofboðslegur. Hrunið skapaði sjávarútvegi ofurhagnað á kostnað heimilanna. Gengisfallið rýrði kaupmátt heimilanna um nærri 20% að meðaltali og skuldabyrðin tók stökkbreytingum.

Almenningur í landinu vildi fá tilbaka þennan hagnað og því var veiðigjaldinu komið á. Nú þykjast nýir ráðherrar vera voðalega hissa á miklum fjölda undirskrifta almennings!!??

Þetta kom mjög glöggt fram t.d. á hinum stóru Þjóðfundum, þar sem grunnur var lagður að nýrri Stjórnarskrá þjóðarinnar. Veiðigjald færir einungis lítinn hluta þessa ofurhagnaðar í ríkissjóð til almennings og heimilanna. Hvar eru nú loforðin úr kosningabaráttunni um lækkun skulda og aukins kaupmáttar?

Þingmenn núverandi ríkisstjórnar komu í veg fyrir að Stjórnarskrá þjóðarinnar næði fram að ganga, enda skerti hún þau tök sem valdastéttin hefur á íslensku samfélagi.

Þar birtist hin hrikalega forsjárhyggja auðmanna gagnvart launamönnum á Íslandi. Öllu brögðum er beitt til þess að halda íslenskum launamönnum í efnahagslegum þrælabúðum valdastéttarinnar.

Skítt með stöðu heimilanna segja hinir nýju ráðherrar daglega í spjallþáttum og í ræðum sínum á hæstvirtu Alþingi.
 

fimmtudagur, 20. júní 2013

Kynjabundin launamunur


Umræða um jöfnun á launamun kynjanna er ofarlega á baugi. Þingmenn fara sumir hverjir mikinn og segja að nú sé loksins lag, það séu lausir kjarasamningar næsta vetur!!??
 
Eftir að ég fór að starfa fyrir verkalýðshreyfinguna og kynntist vel hvernig „kaupin á eyrinni“ ganga fyrir sig og þeim lögum og reglum sem gilda um samskipti á vinnumarkaði, þá hef ég alloft orðið furðu lostinn yfir þekkingarleysi þingmanna á atvinnulífinu og barnalegum upphrópunum þeirra um samtök launamanna og lífeyrissjóðina.

Mig langar aðeins að benda á nokkur atriði í því efni. Svona að fenginni reynslu úr aths. dálkunum ætla ég að byrja á því að taka það fram að ég er ekki á móti jöfnun launa kynjanna og í flestum launakönnunum innan RSÍ hafa rafkonur ávalt verið með hærri meðallaun en rafkarlar, það er að segja ef við notum sömu meðaltalsreglur og nýttar eru í launakönnunum og íslenskum samanburðaraðferðum.
 
Ástæða er að geta þess að það er oftast ekkert að marka þær niðurstöður sem þingmenn fá,  þegar þeir taka sig til og bera saman launakannanir mismunandi hópa.

Það er grundvallaratriði í þessu samhengi að mjög stórt hlutfall launamanna á íslenskum vinnumarkaði er á launum, sem liggur töluvert ofan við umsamin lágmarkslaun. Það er nefnilega í allmörgum tilfellum ekki samið um annað en lágmarkslaun. Á öðrum  vinnumörkuðum sem ég þekki til, þ.e.a.s í nágrannalöndum okkar, þá er nefnilega samið um allan launaskalann.

Það sem hins vegar skapar að langstærstu leiti hina íslensku sérstöðu er reglulegt gengisfall krónunnar. Áratugum saman hefur íslenskum launamönnum verið gert að búa við það ástand að kjarasamningar standast aldrei út samningstímann, sökum þess að stjórnmálamenn fella reglulega krónuna og gengisfella þar með launin til þess að leiðrétta slaka efnahagsstjórn og gera þannig hluta launa upptækan og útflutningsfyrirtækin í sjávarútvegi græða hundruð milljarða sem ekki má skattleggja að mati núverandi ríkisstjórnar.

Þetta íslenska ástand hefur orðið til þess að hér landi fara fram reglulega launaleiðréttingar á vinnustöðunum á miðju samningstímabili, vitanlega sérstaklega hjá þeim hópum og einstaklingum sem eru í bestri stöðu hverju sinni.
 
Þessu fyrirkomulagi er síðan reyndar lýst sem ákaflega jákvæðu ástandi í skýrslum hins opinbera um íslenskan vinnumarkað. Hann sé mun sveigjanlegri en aðrir þar sem að til eru lágir launataxtar sem tiltölulega fáir eru á. Það hafa t.d. stjórnmálamenn bent á, t.d. eins Halldór Ásgrímsson gerði með eftirminnilegum hætti þegar hann gaf út kynningapésa um íslenska vinnumarkað og benti á þá leið að flytja inn erlent vinnuafl og skella því á lágmarkstaxta, eins og gert var í stórum stíl við Kárahnjúka og varið að þáverandi ríkisstjórn með kjafti og klóm.

Í nágrannalöndum okkar eru launamenn að langstærstum hluta ætíð á umsömdum launatöxtum og þeir standast út samningstímann. Kaupmáttur er stöðugur, lán taka ekki stökkbreytingum og vextir eru þriðjungur af því sem þeir eru hér á landi. Þetta er ástand sem ný ríkisstjórn hefur gefið út að hún muni verja, ekki komi til greina að skipta um gjaldmiðil, enda væri hún þá að ganga gegn þeim öflum sem studdu hana inn á þing.

Um síðustu aldamót var 60% munur á umsömdum lágmarkstöxtum rafiðnaðarmanna og meðalraunlaunum. Í dag hefur þessi munur minnkað um helming sakir þess að okkur hefur tekist að ná fram í kjarasamningum undanfarinn áratug um verulegri hækkun á lægstu töxtum okkar umfram umsamdar lágmarkslaunahækkanir.

Þar hjálpaði til að íslensk fyrirtæki voru algjörlega berskjölduð gagnvar því þegar hingað streymdu erlend fyrirtæki og nýttu leiðbeiningar í kynningarbæklingi þáverandi ríkisstjórnar um að nota einvörðungu lágmarkstaxta, þá helst unglingataxta fyrir alla sína starfsmenn.

Þetta varð til þess að íslensk fyrirtæki voru ekki samkeppnishæf og fengust til þess að hækka lágmarkstaxtana langt umfram umsamdar launahækkanir. Í dag er um 30% munur á meðallaunum og umsömdum gólfum í kjarasamningum.

Jöfnun launa kynjanna er ekki framkvæmanleg nema að færa lágmarkstaxta að raunlaunum og allir fari á umsamda taxta, sú aðgerð kostar um 30% launahækkun í mörgum starfsstéttum, þá fyrst verður hægt að taka á þessum vanda með markverðum hætti.

Ef tryggja á að útrýmingu kynjabundins launamunar, verður að byrja á því að tryggja að kaupmáttur kjarasamninga haldist. Það verður ekki gert nema með því að taka upp gjaldmiðil, sem heldur þokkalega sínu raungildi út samningstímann hverju sinni.

Það sem ég óttast þó mest að sú tilraun sem stjórnmálamenn fari út í verði til þess að kippa niður raunlaunum og þá þeim sem eru á launum sem eru yfir taxta. 

miðvikudagur, 19. júní 2013

Hraðferð 2007



Sú hagstjórn sem ástunduð hefur verið hér á landi frá lýðveldisstofnun, hefur birst landsmönnum í 25% meðaltalsverðbólgu á ári síðustu 60 ár. 25% verðbólga samsvarar því að fjórðungur árlegra tekna sé færður frá launþegum og sparifjáreigendum til atvinnurekenda og hins opinbera. Þessu skila íslenskir launamenn með því að vinnuvika þeirra er lengri en annarsstaðar. Þannig næst svipaður kaupmáttur í gegnum 48 klst. vinnuviku og með 40 klst. vinnuviku í nágrannalöndum okkar

Íslenskir launþegar hafa sem sagt eytt 3 mánuðum á ári í 60 ár í að niðurgreiða íslenskt atvinnulíf og rekstur hins opinbera. Þriðjung starfsævi okkar eyðum við í að greiða herkostnað stjórnmálamanna, sem finnst eðlilegt að tryggja lágan launakostnað með verðbólgu. Þeir tala um að verið sé að tryggja atvinnustigið, það er gert með launalausri atvinnubótavinnu í þrjá mánuði á ári til þess að lagfæra rekstrarafkomu fyrirtækjanna og hins opinbera.

Haustið 2008 varð efnahagslegt hrun á Íslandi með víðtækum afleiðingum. Við okkur blasti gjörspillt kerfi, þar sem átti sér stað gríðarleg misskipting. Nokkrar fjölskyldur höfðu komið því þannig fyrir að þær nutu mun stærri hluta af þjóðarauðnum og höfðu dregið til sín mikil völd.

Hagdeildir atvinnulífisins höfðu þá bent á frá árinu 2006 að gengi krónunnar væri 30% of hátt skráð vegna þenslu og gríðarlegs innflutnings á erlendu lánsfjármagni og ofboðslegum viðskiptahalla. Góðærið væri í raun yfirdráttur sem einhvertímann þyrfti að greiða, og sumir komu með þá lausn að senda reikninginn til barna okkar með því að nýta sparifé yngri kynslóða í lífeyrissjóðunum til þess að greiða upp skuldir okkar í dag.

Hvergi í heiminum tókst að tapa nándarnærri jafnmiklu fé, í hlutfalli við stærð hagkerfisins, á jafnskömmum tíma. Undir stjórn og stefnu þessarar valdastéttar. Stefna hennar gerði það mögulegt að taka lítið ríkisbankakerfi með sáralítil erlend umsvif og búa til úr því bólu upp á ferfalda landsframleiðslu innan bankakerfisins og líklega annað eins utan þess.

Gjaldþrot íslenska bankanna eru öll á topp 10 lista þeirra stærstu í mannkynssögunni. Þessi stefna valdastéttarinnar leiddi til ofboðslegar misskiptingar og ójafnaðar og fáir efnuðust gríðarlega á kostnað fjöldans. Hér spilar krónan í einangruðu efnahagskerfi aðalhlutverkið.

En almenningur kaus frekar að hlusta á stjórnarþingmennina, sem nýttu hvert tækifæri til að halda því á lofti hvað allir hefðu það gott undir þeirra stjórn. "Traust efnahagsstjórn" var aðalklisjan, sem borin var fyrir kjósendur í kosningunum 2007. Þá höfðum við ráðherra og Seðlabankastjórnarmenn sem ásamt Fjármálaeftirlitsmönnum fóru um heimsbyggðina með aðalklappstýru útrásarvíkinganna, Forseta Íslands í broddi fylkingar í þeim tilgangi að kynna hið Íslenska efnahagsundur og setja ofan í við þá sem voguðu sér að benda á hveert stefndi á Íslandi.

Það var þetta fólk sem leiddi íslenskt efnahagslíf fram af björgunum, en á sama tíma þrættu forsvarsmenn Íslands við erlenda eftirlitsaðila. Svo var komið að allar vinaþjóðir okkar neituðu að lána Íslandi, nema þá í gegnum Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Ísland var þvingað til þess að taka til í stjórn efnahagslífsins.

Nú höfum við kosið okkur ríkisstjórn sem spilar á nákvæmlega sömu strengi, enda er hún samsett af nákvæmlega sama fólki. Auðmönnum sem eru komnir til valda fjármagnaðir af þeim fjölskyldum sem hafa hagnast ofboðslega á því að viðhalda þeirri stöðu sem Ísland hefur verið í og gegnum pilsfaldakapítalisma helmingskiptaflokkanna.

Hér spilað á sömu strengi og Forseti landsins kynnti í glysdinnerum og spjallþáttum Bloomberg þegar hann fór um heimsbyggðina í fylgd með auðmönnum og spilaði á þjóðrembinginn. Íslendingar væri hugrökk smáþjóð sem þurfi að verjast utanaðkomandi ógn alþjóðlega gjaldeyrissjóðsins og Evrópusambandsins.
 
Og söngurinn er byrjaður aftur : "Evrópa þarf að sanna sig fyrir Íslandi"!!!??? Hvar eru menn staddir í veruleikanum? 

Það voru Íslendingar sem bjuggu til hið stóra fjármálaklúður sem setti nánast allar fjármálastofnanir á hausinn hér á landi og felldi gengi krónunnar um helming. Íslendingar hafa ætíð verið miklir þiggjendur í erlendu samstarfi allan lýðveldistímann, en við sendum þeim tóninn þessa dagana.

"Við komumst til valda því við erum handhafar réttlætissins" segir hin nýja ríkisstjórn. Almenningur á Íslandi vill veiðigjald, vill auðlindarentu eins og rétt og sjálfsagt er. Það er líka skynsamlegt út frá öllum sjónarmiðum, hagfræðilegum sem. Meirihluti landsmanna vill ljúka viðræðum við ESB og kjósa síðan um niðurstöðuna. Meirihluti landsmanna vildi fá að kjósa um nýja stjórnarskrá. Allt þetta er komið í ruslafötu "ríkisstjórnar réttlætisins."

Mesta hagsmunamál íslenskra launamanna er að koma böndum á hamfarastjórn slakra stjórnmálamanna og varðhunda sérhagsmuna aðilanna, sem slá um sig þessa daga með innistæðulausum sigrum byggðum á fölskum gjaldmiðli innmúruðum í höftum.

Til valda er komið fólk sem stefnir að því að koma í veg fyrir að íslenskir launamenn búi við samskonar réttlæti og tíðkast í þróuðum eins og t.d. á hinum Norðurlöndunum. Okkur er ætlað búa áfram í landi þar sem hagsmunir 20% þjóðarinnar eru teknir fram fyrir hina.

Öllu var lofað, bara til þess að ná völdunum aftur. Afnemum verðtrygginguna, hvað þýðir það, hvað á að koma í staðinn?. Engu var svarað, bara ein innihaldslaus klisja og málið er komið í nefnd réttlætisstjórnarinnar.

Fellum í burtu skuldir landsmanna. Hvernig á að gera það? Hver á að borga? Engu var svarað, málið er nú komið í nefnd þar sem á að kanna hvort þetta sé framkvæmanlegt.

Allt bendir til að hér verði komin innan eins árs verðbólga upp á nokkra tugi prósenta, eða sama ástand og ríkti árin í kringum 1980. Hraðferð 2007 sem ók fram af björgunum á fullri ferð án nokkurs bremsufars, og tugir þúsunda heimila lágu í valnum

Þetta kerfi Íslensku valdastéttarinnar tekur ekki mið af hagsmunum almennings. Hann er réttindalaus, það eru einungis 20% þjóðarinnar sem eiga rétt á að njóta réttlætisins. Hér eru hagsmunir fárra í fyrirrúmi og þar eru ákvörðuð þau kjör sem almenning er boðið upp á. Þau viðhorf, sem voru höfð að leiðarljósi við uppbyggingu á Íslensku samfélagi á síðustu öld hafa glatast.