þriðjudagur, 24. júlí 2012

Uppgræðsla í Þórsmörk - uppfært


Föstudaginn 20. júlí síðastliðinn ákvað sveitarstjórn Rangárþings Eystra þvert á vilja Skógræktarinnar og Landgræðslunnar, að heimila afréttarfélagi Vestur-Eyfellinga upprekstur sauðfjár á Almenninga. Með þessu er sveitarstjórnin að ákveða að eyðileggja áralanga uppgræðslu áhugamanna á þessu svæði. Sveitarstjórn sér enga ástæði til þess að girða Þórsmörkina af eins að eðlilegt væri. Ekki kemur fram í úrskurðinum að bændur skuli bíða eftir úrskurði ítölunefndar um fjölda fjár á afréttinn.

Bændur geta því farið með ótakmarkaðan fjölda fjár inn á afréttinn. Þetta er hápólitísk hefndaraðgerð vegna þjóðlendumála, enda liggja ekki fyrir neinar upplýsingar um skort á beitilandi, þaðan af síður upplýsingar að þessi hópur íslendinga eigi meiri rétt á að nýta þetta land umfram aðra. Nokkrir bændur hafa þegar farið með nokkra vagna af sauðfé inn á afréttinn í gegnum Húsadal og gaf það forsmekkinn að því sem koma skal, að bændur þurftu að elta uppi lambhrút sem slapp frá þeim á völlunum við Húsadal.

Ákvörðun sveitarstjórnar mun vitanlega hafa þau áhrif að nýgræðingur, sér í lagi af birki og reynivið verður nagaður upp og sveitarstjórnin virðir að vettugi 20 ára sjálfboðaliðsstarf fjölmargra sem hafa gróðursett þarna á moldum Þórsmerkur í góðri trú. Sveitarstjórnin hefur ákveðið að breyta þessu landi í beitiland hobbýbænda. Fyrir liggur að það þarf að safna liði til að smala Mörkina, Goðaland og aðra afrétti á svæðinu hugsanlega strax á næstu vikum enda getur fé runnið óheft yfir Þröngá af Almenningum.

Fyrir utan þau áhrif sem þetta kann að hafa á nýgræðing þarna inni á Almenningum má búast við að fé leiti inn í skóglendið í Þórsmörk, enda engin girðing sem hindrar það. Það að girða þetta af myndi kosta tugi milljóna. Básar eru hins vegar væntanlega í vari vegna Krossár. Þetta hefur örugglega líka áhrif á vilja sjálfboðaliða til að vinna að uppgræðslu á svæðinu, en þeir hafa lagt gríðarlega vinnu fram við‘ að rækta landið upp.

Ég hvet alla sem verða á ferðinni um þetta land að fylgjast með þeim áhrifum sem þessi ákvörðun ótengdrar sveitarstjórnar við vilja landsfólks og lítilsvirðingu stjórnarinnar gagnvart því mikla sjálfboðaliðastarfi sem margir hafa lagt fram og fjárútlátum. Hafa augun opin fyrir annars vegar breytingum á gróðri og taka myndir af því. Einnig þarf að halda vel til haga myndum sem sýna gróðurfar á Almenningum eins og það er í dag til samanburðar.

Viðbót


Nú er komið í ljós að þessir tveir bændur úr Rangárþingi eystra, sem nýverið slepptu fé til beitar á viðkvæma afrétti í grennd við Þórsmörk, höfðu ekki leyfi sveitarstjórnar til þess, eins og þeir héldu fram við Fréttastofu í gær. Leyfi sveitarstjórnar var háð niðurstöðu úr svonefndri ítölu, eða rannsókn á beitarþoli, sem ekki hefur enn verið gerð og hefur Landgræðslan réttilega vísað málinu til sýslumanns á Hvolsvelli.

Sú ákvörðun tveggja fjáreigenda að senda nokkra tugi sauðfjár á Almenninga, í nágrenni Þórsmerkur, er óumdeilanlegt brot á fjallskilasamþykkt Rangárvallasýslu og fullkomlega siðlaus að reka fé á þennan ofurviðkvæma afrétt við Þórsmörk. Sá gróður sem að þarna er að koma upp úr auðnunum hefur orðið fyrir miklum skakkaföllum í eldgosunum 2010 og 2011. Landbúnaðarháskóli Íslands mat þennan litla afrétt algjörlega óbeitarhæfan í úttekt 2011. Þannig að fara að níðast á þessum gróðri núna finnst mér algjörlega siðlaust og lýsir fullkomnu tillitsleysi gagnvart öðrum.


Almenningar hafa notið friðunar frá því um 1987 enda afrétturinn þá nær örfoka og upprekstri hætt. Mér finnst að sem borgara í landinu að það komi mér við hvort þrotlaust friðunarstarf í Þórsmörk verði lagt í rúst og ekki verjandi að kosta milljónatugum til þess að endurreisa skógræktargirðinguna milli Þórsmerkur og Almenninga svo örfáir tómstundabændur geti nýtt sér fornan hefðarrétt sinn til upprekstrar.

Það verður forvitnilegt að sjá hvernig þessir einstaklingar ætla sér að smala þessu fé í haust. Ég vill að RÚV fylgist með því og mun reyna hafa áhrif á að það verði gert og fjölmiðlar sendi þangað inn eftir myndatökufólk. Marga grunar að þessir einstaklingar hyggist fara þarna um á fjórhjólum og öðrum vélknúnum tækjum um þetta viðkvæma svæði og spóla það upp. Þá fáum við að sjá afleiðingar þessarar ákvörðunar.

föstudagur, 13. júlí 2012

Leiktjöld handstýrðs gjaldmiðils


Hún hefur verið ánægjuleg sú þróun sem hófst með samstarfi ríkisstjórnarinnar með AGS og hinum Norðurlöndunum. Tekið hefur verið með ábyrgum hætti á málum. Þarna var stefnubreyting við Hrunið, fyrri ríkisstjórnir og stjórn Seðlabanka ásamt forseta lýðveldisins eyddu sínum tíma ái að kalla Norðurlöndin ásamt AGS okkar helstu óvini en mærðu þess í stað Rússland og Kína. Lönd sem ekkert gerðu til þess að koma Íslandi til aðstoðar.

En við eigum þó langt í land, verðbólga hér er helmingi hærri en þekkist í nágrannalöndum okkar og vextir eru þar afleiðandi tvöfalt hærri hér en í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Vöruverð er hærra. Það er rétt að kaupmáttur hefur vaxið meir hér en annarsstaðar, en í því sambandi er einnig ástæða til þess að minna á að gjaldmiðill okkar hrundi til grunna og kaupmáttur féll hér á landi þar af leiðandi meir en annarsstaðar. Við erum enn ekki búinn að ná nágrannalöndum okkar.

Um 20 þús. íslensk heimili misstu allt sitt, það gerðist ekki í nágrannalöndum okkar þrátt fyrir að þar væri á ferð efnahagskreppa. Þessi staða er enn til staðar, íslensk heimili eru ennþá í meiri vanda en heimili á hinum Norðurlandanna.

Á hvaða gengi eigum við að reikna út efnahagsbatann? Við erum með ónýtan gjaldmiðil sem nýtist ákaflega vel litlum hluta þjóðarinnar, og sá hluti kemst ekki hjá því að verða sífellt ríkari. Hvað með snjóhengjuna og aflandskrónurnar?

Stóri hlutinn býr við það ástand að vera með skert laun í gegnum endurteknar gengisfellingar krónunnar, greiðir hærri vexti og hefur orðið fyrir eignaupptöku. Eða með öðrum orðum launamenn eru að greiða með þeim hætti aukaskatt vegna Hrunsins og fjármagna uppgönguna, á meðan litli hluti þjóðarinnar kemur sér undan því að vera þátttakandi í þeirri skattlagningu.

Þróun síðustu ára hefur orðið sú sem stefnt hefur verið að. Störfum hefur fjölgað, en þó mest störfum sem íslendingar eru ekkert sérstaklega spenntir fyrir. Það hefði verið hægt að ná lengra með meiri verðmætasköpun og skapa fleiri velborguð tæknistörf. Stígandi lukka er best, stóra vandamálið er óleyst við búum við gjaldmiðil sem ver lítinn hluta þjóðarinnar, hann hagnast á því að viðhalda þessum gjaldmiðli, á meðan stóri hlutinn býr við lakari kost en þekkist í nágrannalöndum okkar. Það er auðvelt að smíða leiktjöld með heimastýrðum gjaldmiðli í skamman tíma, það er nefnilega málið.

fimmtudagur, 12. júlí 2012

Barist gegn breytingum með öllum ráðum


Það er sorglegt að hlusta á forsvarsmenn Sjálfstæðisflokksins þegar þeir fjalla um Stjórnarskrána og endurnýjun hennar. Þeir fullyrða er að þeir sem tali fyrir endurnýjun Stjórnarskrárinnar geri það á grundvelli þess að núgildandi Stjórnarskráin hafi verið orsök Hrunsins, auk þess að þeir sem tali fyrir nýrri Stjórnarskrá líki hinni eldri við hið ljótasta sem valdhafar einræðisríkja hafa beitt landsmenn sína. Í þeim þjóðfélagshóp sem ég umgengst hef ég ekki heyrt neinn taka svona til orða.


Full ástæða er að benda á að Sjálfstæðismenn hafa alltaf barist gegn breytingum á núverandi Stjórnarskrá og kæft allar tilraunir á nefndum skipuðum af Alþingi. Sjálfstæðismenn voru á móti Þjóðfundi, á móti Stjórnlaganefnd og hinni ítarlegu vinnu sem þar var unnin m.a. á grunni Stjórnarskrárnefnda Alþingis. Og þeir voru einnig á móti kosningu Stjórnlagaþings og líka á móti skipan Stjórnlagaráðs og lýstu fyrirfram yfir að þeir væru á móti öllu því sem þaðan kæmi.

Þrátt fyrir að sú vinna hafi verið unnin á grunni niðurstöðu Þjóðfundar, sem síðan hafði verið send Stjórnlaganefnd, sem var skipuð af 7 sérfræðingum. Hún vann gott starf og skilaði inn 600 bls. skýrslu með tveim stjórnarskrártillögum. Þá var efnt til almennra kosninga um Stjórnlagaþing þar sem 25 manns áttu að sitja, 530 einstaklinga gáfu kost á sér. Valdastéttin fór hamförum gegn kosningunum og latti fólk til þess að mæta, en þrátt fyrir það mættu um 36% þjóðarinnar á kjörstað og kusu 25 einstaklinga þeir komu víða að ú samfélaginu og viðurkennt að mjög vel hefði tekist til.

Í tillögum Stjórnlagaráðs að nýrri Stjórnarskrá er lagt til að færa valdið til þjóðarinnar. Núverandi kosningakerfi er þannig uppbyggt að það tryggir stöðu núverandi stjórnmálaflokka og liðlega helmingur alþingismanna þarf aldrei að óttast næstu kosningar. Þeir eru í öruggum sætum, sem úthlutað er af flokkskrifstofum valdaflokkanna. Í nýrri stjórnarskrá er lagt er til að þessu verði breytt. Alræði ráðherra og embættismanna þeirra er minnkað og þingræðið styrkt. Á Íslandi hefur almenningur barist gegn því hvernig stjórnmálamenn gáfu auðlindir hafsins til fárra útgerðarmanna.

Í auðlindaákvæðinu í nýju stjórnarskrárfrumvarpi segir svo: „Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda eða annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.“ Þetta orðalag er í samræmi við í samræmi við álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna sem hún gaf um kvótakerfið á Íslandi 2007. Í rökstuðningi mannréttindanefndarinnar er vitnað til 1. greinar íslenskra laga um stjórn fiskveiða nr. 38/1990, er segir: „Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar.“

Full ástæða er að benda á að forsvarsmenn Sjálfstæðismenn hafa haft alla möguleika til þess að koma fram með tillögur um hvernig breyta ætti að Stjórnarskránni, en þeir hafa ekki komið fram með neitt annað en að þeim finnist tillögur Stjórnlagaráðs ómögulegar, engar efnislegar ábendingar og tillögur hafa komið fram.

Sjálfstæðismenn töldu eðlilegt að farið væri eftir rödd þjóðarinnar þegar 30 þús. manns skrifuðu undir lista gegn Icesave. Þeir lýstu yfir stórsigri sínum skoðunum og vilja þjóðarinnar þegar núverandi forseti var endur kosinn með 37% atkvæða, en þeir sögðu að mikill meiri hluti þjóðarinnar hefði lýst andstöðu við kosningu Stjórnlagalráðs þegar það var kosið með atkvæðum 36% þjóðarinnar.

Þetta lýsir engu öðru en því að Sjálfstæðismenn vilja viðhalda því samfélagi sem þeir hafa byggt upp fyrir sig og sína á grunni núgildandi Stjórnarskrá, þar sem mikill minni hluti þjóðarinnar hefur komið sér vel fyrir á kostnaði fjöldans og þeir berjast með öllum kröftum gegn því að þessu verði breytt, með allskonar orðhengilshætti og útúrsnúningum.

fimmtudagur, 5. júlí 2012

Mismunum í lífeyrisréttindum


Undanfarna daga hefur verið fjallað um stöðu opinberu lífeyrisjóðanna. Í því sambandi langar mig til þess að draga fram nokkur atriði sem hafa alloft verið í pistlum hér á þessari síðu undanfarinn misseri.

Í dag ávinna launamenn í almennum lífeyrissjóðum sér árlega lífeyrisrétt sem nemur frá 1.2% til 1,47%. Fyrir sama iðgjald ávinna þeir ríkisstarfsmenn sem fá að vera í opinberu sjóðunum með þingmönnum sér lífeyrisrétt sem nemur um 1,9%, þeir eru með allt að 50% hærri réttindi en sjóðsfélagar í almennu lífeyrissjóðanna hafa. Þar er í mörgum tilfellum um að ræða sem vinnur samskonar störf á sama stað t.d. sumstaðar í heilbrigðiskerfinu. Annar hópurinn er í ASÍ félagi á meðan hinn er í stéttarfélagi sem þingmenn hafa velvilja á.

Samkvæmt lögum er miðað við að sjóðir á almennum vinnumarkaði tryggi að lágmarki 56% meðalævitekna á mánuði í mánaðarlegan lífeyri en samsvarandi hlutfall er 76% hjá hinu opinbera. Lífeyrisaldur á almennum vinnumarkaði er nú 67 ár en 65 ár hjá opinberum starfsmönnum. Á almennum vinnumarkaði standa iðgjöld og ávöxtun þeirra undir lífeyrisréttindum en ríki og sveitarfélög ábyrgjast tiltekin réttindi í sjóðum opinberra starfsmanna og ber að hækka iðgjald ef þau réttindi nást ekki með iðgjöldum og ávöxtun þeirra

Í sjóðum opinberra starfsmanna hefur safnast upp verulegur halli. Í nýlegu yfirliti kemur fram að skuldbindingar nokkurra af sveitarfélagalífeyrissjóðnum séu ríflega 80% umfram skuldbindingar og það vanti allt að 500 milljarða inn í opinberu sjóðina. Halli B-deildarinnar er 350 milljarðar og hefur vaxið hratt á liðnum árum vegna hinnar s.k. eftirmannsreglur og viðmiðunar við dagvinnulaun opinberra starfsmanna í stað vísitölu neysluverðs sem þingmenn settu í lög að ættu að gilda um aðra lífeyrissjóði en þeirra eigin.

Iðgjöld launamanna og launagreiðenda til almennu lífeyrissjóða eru samtals 12% af heildarlaunum á almennum vinnumarkaði, en eru 15,5% hjá ríkinu og 16,0% hjá sveitarfélögunum. Framlag þingmanna í sinn sjóð er 4% eins og hjá öðrum launamönnum, mismun iðgjalds kemur frá vinnuveitanda þeirra, ríkissjóð.

Verði ekkert að gert mun þessi skuldbinding halda áfram að vaxa og að lokum lendir reikningurinn á skattgreiðendum í framtíðinni. Annað hvort verður að hækka skatta, eða skera niður í útgjöldum ríkissjóðs, svo ríkissjóður eigi fyrir þeim skuldbindingum sem þingmenn undanfarinna ára sett á ríkissjóð til þess að tryggja eigin lífeyrisréttindi og nokkurra annarra.

Þeir hafa hins vegar sett lög um almennu lífeyrissjóðina, sem kveða á um að þeir verði hins vegar að mæta neikvæðum mismun á eignum og skuldbindingum með skerðingu lífeyrisréttinda sjóðfélaga. Mismunurinn sem í þessu felst endurspeglaðist vel í kjölfar fjármálahrunsins þegar lífeyrissjóðir almenns launafólks þurftu lögum samkvæmt að skerða réttindi lífeyrisþega sinna umtalsvert til að rétta stöðu sjóðanna á sama tíma og réttindi opinberra starfsmanna og þingmanna voru tryggð eru með skattfé og standa óhögguð.

miðvikudagur, 4. júlí 2012

Ég er handhafi valdsins


Ekkert vit í því að breyta Stjórnarskránni, segir nýendurkjörinn forseti. Fyrir nokkru sagði hann hins vegar að hann vildi að tillögur Stjórnlagaráðs yrðu bornar undir þjóðina og hvatti til þess að þær væru samþykktar, þá hélt hann því fram að verið væri að færa mikil völd til forsetans. Það var leiðrétt af ráðsliðum Stjórnlagaráðs og forsetanum bent á að í nýju stjórnarskránni heldur forsetinn óbreyttum málskotsrétti, en þarf að rökstyðja ákvörðun um synjun laga og tilkynna hana forseta Alþingis.

Það sem virðist fara fyrir brjóstið á forsetanum er að Stjórnlagaráð ætlar honum að deila málskotsréttinum með þjóðinni, 10% kjósenda geta einnig farið fram á þjóðaratkvæðagreiðslu um lög sem Alþingi hefur samþykkt. Þessi ákvörðun var tekinn af ráðsliðum eftir mjög ítarlegar umræður og tilgangurinn sá að forsetinn þyrfti þá afar sjaldan að grípa málskots.

Sé litið til ummæla forsetans nú, er ekki hægt að skilja hann öðru vísi en svo að hann telji að hagsmunir þjóðarinnar felist í því að hann einn ráði því hverjir taki endanlegar ákvarðanir.

Alþingi samþykkti með yfirgnæfandi meirihluta að þjóðin fengi að segja álit sitt á tillögum Stjórnlagaráðs, en forsetinn vill ganga gegn vilja Alþingis og hefur gengið í lið með þeim sem vilja verja hagsmuni sérhyggjunnar. Hann vill ásamt valdagæsluliðum koma í veg fyrir að þjóðin fái sjálf að greiða atkvæði um nýja Stjórnarskrá.

Í tillögum Stjórnlagaráðs er ákaflega skýrt hvert hlutverk forsetans sé, andstætt því sem er í núgildandi Stjórnarskrá og reyndar andstætt því sem sumir halda fram. Á það hefur forsetinn spilað og vill hafa möguleika til þess að halda því áfram. Forsetinn hefur nokkur formleg hlutverk sem ekki breytast frá núgildandi Stjórnarskrá, svo sem að stefna saman og setja Alþingi, veita náðun og sakaruppgjöf að tillögu ráðherra.

Í tillögum Stjórnlagaráðs skipar forsetinn forsætisráðherra í embætti eftir að Alþingi hefur kosið hann, og veitir honum lausn í kjölfar kosninga, ef samþykkt er vantraust eða ef ráðherrann óskar þess sjálfur. Forsetinn kemur einnig að myndun ríkisstjórnar með því að það er hlutverk hans að leggja fram á þingi tillögur um forsætisráðherraefni eftir samráð við þingflokka og þingmenn.

Þegar ráðherra hyggst skipa dómara eða ríkissaksóknara í embætti þarf að bera tillögu um skipunina undir forseta. Telji forseti hana umdeilanlega eða vafasama getur hann synjað skipuninni staðfestingar og gengur málið þá til Alþingis þar sem greidd eru atkvæði um hana. Sé skipunin studd með 2/3 atkvæða á þingi telst hún staðfest en annars ekki, og þarf ráðherra þá að gera nýja tillögu.