mánudagur, 31. maí 2010

Venjulegt fólk

Ég sit í einni nefnd á vegum ríkisins. Þar situr gott fólk fá ýmsum köntum í atvinnulífinu. Á fundi nefndarinnar fyrir skömmu hófust umræður þar sumir nefndarmanna sáu sérstaka ástæðu til þess að hæðast að vel þenkjandi fólki, sem hafði tekið sig saman til þess að bjóða fram gegn hinum ríkjandi fjórflokki sem lagði Ísland í rúst. Umræður sem maður heyrði víða hjá fólki, sem umgengst sinn fjórflokk sem trúarbrögð, ef einhver bendir á misbresti eða þversagnir þá er viðkomandi meðhöndlaður sem guðlastari.

Umræðan meðal þessa nefndarmanna bar einkenni þeirra sem telja sig eiga að hafa völdin og hinir eigi að fara settum reglum sem þeir höfðu sett. Framboðinu væri stefnt gegn valdastrúktúr sem ætti að varðveita, það var verið að vega að þeirra valdasetu.

Þarna birtist kjarni hins djúpstæða hrokapirrings valdahafanna, sem almenningur vogar sér að hafna. Valdhafinn sé „alvöru“, en aðrir plat og hafi ekki vit á því sem skiptir máli og séu þar af leiðandi ekki marktækir. Alvörufólkið í fjórflokkunum sitji fundi daginn út og inn og búi yfir þekkingu sem öðrum sé hulin. Hinir hafi eiginlega voða lítið vit. Ég vogaði mér að mótmæla þessu og fékk allpirraðar viðtökur.

Ef málflutningur Besta-flokksliðanna er skoðaður er þar samhljómur með lífsviðhorfum fólks almennt. Verið er að mótmæla hinum endalausu og tilgangslausu átakastjórnmálum, þar menn eru með er þeir eru í ríkisstjórn, en á móti ef þeir eru í stjórnarandstöðu. Lýðskrum, aulabrandarar útúrsnúningar sem hafa einkennt umræður á Alþingi.

Það er sama hvar maður hefur komið undanfarið þá er verið að mótmæla Sjálfstæðisflokknum sem leiddi þjóðina út í fen ofsa-frjálshyggju og græðgi. Ofsastyrki til flokka og flokksgæðinga. Þar er verið að mótmæla VG fyrir mótsagnakennda og ábyrgðarlausa stjórnasetu hans. VG bar ekki ábyrgð á neinu og sumir þingmenn VG ætla að halda áfram á þeirri braut og bera ekki ábyrgð á neinum af hinum óvinsælu ákvörðunum sem verður að taka. Gert grín af þekkingarleysi lýðskrumaranna í Framsókn og upphrópum þeirra.

Niðurstöðurnar kosninganna á laugardaginn eru afgerandi þar sem atvinnuleysið er mest og vandræði fólks mest. Það er þar sem viðtekin vinnubrögð fjórflokksins koma verst niður á atvinnulífinu. Flokksformenn vísa til niðurstaðna annarstaðar og segjast hafa unnið stórsigra!!?? Þeir hafa ekkert lært og vilja halda áfram á óbreyttri braut.

Hjá Besta flokknum hefur komið fram hjá væntanlegum borgarfulltrúum að þar sé á ferð venjulegt fólk sem styður tilvist hins norræna samfélags. Venjulegt fjölskyldufólk sem hafi til að bera töluverða reynslu og þekkingu á venjulegum málum. Það blasir við að á það skortir töluvert í núverandi borgarstjórn.

Það var veist að okkur sem tókum upp hanskan fyrir venjulegt fólk og gagnrýndum fjórflokkinn og það kerfi sem hann hefur byggt í kringum sig til þess að vernda eigin tilvist og gera öðrum erfitt fyrir.

Næstu vikur verða spennandi. Mun Besti flokkurinn áorka það ekki hefur tekist hingað til? Að fá fjórflokkinn til þess að taka til hjá sér og taka til við að tala við venjulegt fólk.

sunnudagur, 30. maí 2010

Veruleikafirrtir formenn

„Stóru tíðindin í þessum tölum eru þau að Sjálfstæðisflokkurinn er í stórsókn í Reykjavík“, sagði Hanna Birna borgarstjóri og var hyllt með langvinnu lófataki af flokksmönnum kosningavöku í kvöld. Formaður Sjálfstæðisflokksins talar um stórsókn flokksins. Flokkurinn er að fá 5 borgarfulltrúa í Reykjavík og tapið er enn meira á Akureyri. Formaður Framsóknar afgreiðir niðurstöðurnar með sama hætti, þrátt fyrir að flokkurinn þurrkist nánast út. Dagur segir niðurstöðuna ásættanlega. Steingrímur talar um góða stöðu VG.

Þetta er fullkomlega óásættanlegt fyrir okkar hreyfingu, í ljósi þess að við áttum ekki aðild að efnahagshruninu, Við þurfum að horfa til þess að það sé eitthvað í okkar áherslum og vinnubrögðum sem kjósendur gera kröfu um að við þurfum að breyta,“ segir Ögmundur þingmaður Vinstri grænna og segist ekki átta sig á gríðarlegu fylgistapi flokksins í sveitastjórnarkosningunum.

En það liggur augljóslega fyrir að það er samspil Ögmundar og hans hóps með stjórnarandstöðunni sem veldur þessari stöðu sem VG er í og atvinnulífið. Reikna má fastlega með að þessi hópur hafi ekki fengið eitt einasta atkvæði frá hinum 18 þús. atvinnulausu mönnum, sem þessi hópur heldur í gíslingu.

Sumir notast við orðalagið að viðbrögð þessara stjórnmálaforingja séu súrrealísk, það er hægt að taka undir það. Hvar í veruleikanum er þetta fólk statt?

Jóhanna formaður Samfylkingarinnar er að venju heiðarleg og sýnir auðmýkt og segir; ,,Ég held að við séum að upplifa mikil kaflaskil í íslenskri pólitík sem muni hafa mikil áhrif á hið pólitíska landslag inn í framtíðina. Mér segir svo hugur að þetta sé upphafið að endalokum fjórflokkakerfisins." Hún ein virðist átta sig á því hvað er að gerast.

En það er klárt að Ögmundur, Sigmundur Davíð og Bjarni skilja ekki hvað er að gerast, eða eru enn í þeirri afneitun sem hefur einkennt þeirra vinnubrögð frá Hruni og valdið þjóðinni miklu tjóni. Þeir átta sig ekki á því að þeir hafi sömu völd og þeir höfðu. Taka niðurstöður kosninga og hefja spuna sem einkennist af þóttafullum hroka. Gefa almenning langt nef. Þeir hafna því að líta í eign barm og horfast í augu við afleiðingar gjörða sinna.

Niðurstaðan er ótvíræð, fjórflokknum er refsað og fólk vill annarskonar vinnubrögð. En forsvarsmenn flokkanna sýna enga auðmýkt og ætla að böðlast áfram veruleikafirrtir á sömu braut. Reyndar verð ég að viðurkenna að ég er fullkomlega gáttaður á því að Sjálfstæðisflokkurinn skuli fá 20 þús. atkvæði í Reykjavík, þrátt fyrir að að vera með efst á lista sínum REI fólkið, klækjapólitíkusana sem komu OR í þá að fyrir liggur að hækka verður orkuverð í Reykjavík umtalsvert á næstunni.

Þeir eru að kalla á enn harkalegri viðbrögðum almennings, aðra búsáhaldabyltingu.

laugardagur, 29. maí 2010

Hræðsluáróður bænda

Undnafarið ár hefur staðið yfir undirbúningsvinna vegna væntanlegra aðildarviðræðna Íslands. Eftir því hefur verið tekið hvernig fulltrúar bænda hafa nálgast þessa vinnu, með einstrengislegum viðhorfum þar sem reynt hefur verið að koma í veg fyrir almenna og víðtæka upplýsingaöflun.

Sindri Sigurgeirsson formaður sauðfjárbænda hefur sakað Evrópusambandið um heilaþvott á félagsmönnum sínum sem hafa farið í kynnisferðir til Brussel. Þetta er gott dæmi um hinn fáránlega raunveruleika sem við blasir í Evrópuumræðunni, þar sem bull sem þetta ræður ríkjum. Í ferðum til Brussel er markvist reynt að sýna innviði ESB. Sindri og aðrir gestir geta vitanlega spurt eða ganga þeir hljóðir um sali?

Spyrja má forsvarsmenn samtaka bænda hvort þeir byrji fundi innan samtakanna á því að segja ,,Við erum ríkisrekin samtök og þiggjum um 10 milljarða kr. á ári frá íslenskum skattgreiðendum.“ Nei þeir draga upp þá mynd að íslenskur landbúnaður sé umhverfisvænn og þekktur fyrir gæðaframleiðslu og að Íslendingar elskuðu lambakjöt, rjóma, smjör og skyr og fái matareitrun ef þeir borði erlendan mat!"

Forsvarsmenn bænda eru miklir andstæðingur aðildar Íslands að ESB, og þeir hafa miklar áhyggjur af því að einhverjum kunni að hugnast sá selskapur, og jafnvel að núverandi andstæðingar aðildar gætu skipt um skoðun eftir að kynna sér málið. Þeir tala um heilaþvottaferðir til Brussel á vegum ESB. Þessi málflutningur einkennist af skilaboðum að dirfist einhver að hafa aðra skoðun en forsvarsmenn bændasamtakanna þ.e. að vera á móti, þá er verið að rjúfa samstöðu bænda. Menn eiga ekki að kynna sér málið eða mynda sér sjálfstæða skoðun.

Samtök bænda hafa komist að þeirri niðurstöðu að ESB sé ekkert fyrir íslenska bændur. Þau hafa einnig ákveðið að taka ekki þátt í umræðunni á meðan umsóknarferli stendur. Bændasamtökin vilja því ekki einu sinni ræða ESB. Samtökin nota Bændablaðið til þess að koma boðskap sínum á framfæri.

Íslenskur landbúnaður er sá landbúnaður sem nýtur hvað mestra styrkja á byggðu bóli, samkvæmt OECD og tölum landbúnaðarsamtakanna. Árið 2005 var þetta um 10 milljarðar króna. Framlag landbúnaðar til landsframleiðslunnar var 1.1% árið 2006 og í greininni starfaði 3,8% vinnuafls í landinu (var 38% árið 1940). Til samanburðar má geta þess að rekstrargjöld Hafnarfjarðarbæjar árið 2007 námu svipaðri upphæð. Þetta er því eins og að íslenskur almenningur myndi greiða fyrir allan rekstur Hafnarfjarðarbæjar.

Hagfræðingar eru sammála um að Íslendingar gætu framfleytt sér á fiski ef við værum ekki fleiri en um 80 þúsund miðað við þau lífsskilyrði sem við teljum ásættanleg. Ekki eru miklir möguleikar að auka sókn í núverandi stofna, augljóst er að ekki mun landbúnaður taka við fleirum, þar þarf aukna hagræðingu svo hægt sé að greiða mannsæmandi laun. Þá spyr maður; "Hvar vilja samtök bænda og útvegsmanna að hinir 200 þúsund Íslendingarnir eigi að starfa?" Einnig væri ágætt að fá svör við þeirri spurningu hvar vilja forsvarsmenn þessara samtaka að þeirra eigin börn fái vinnu?

Ég hef bent á það með stuðning úr félagaskýrslum samtaka rafiðnaðarmanna að öll fjölgun starfa undanfarin 20 ár er í sprota og tæknigreinum, engin í störfum tengdum útvegi og landbúnaði. Í nágrannalöndum okkar sem eru innan ESB er verðlag lægra, verðbólga 2 – 4%, vextir 4 – 6%. Þar ríkir stöðugleiki og þar er getur fólk gert langtímaáætlanir um uppbyggingu heimila sinna sem standast.

Fram hefur komið hjá öllum forsvarsmönnum sprotafyrirtækja að þau sjá ekki framtíð sína hér á Íslandi vegna krónunnar. Vaxandi fjöldi starfsmanna Össur, Marel, CCP og fleiri íslenskra fyrirtækja er erlendis. Forsvarsmennirnir segja að þeir gætu flutt þessa starfsemi hingað heim ef við værum innan ESB og með Evru.

Með aðild að ESB verður Ísland aðili að tollabandalagi ESB og tollar sem enn eru milli Íslands og ESB landanna falla niður og það mun leiða til töluvert lægra vöruverðs. Matvælaverð mun lækka um allt að 25% með inngöngu Íslands í ESB.

Kostnaður vegna viðskipta milli fyrirtækja innan ESB verða ódýrari og einfaldari. Slíkt myndi auka samkeppni gagnvart ýmsum innlendum fyrirtækjum og mun leiða til lægra vöruverðs.

Allmörg íslensk fyrirtæki hafa þegar skipt yfir í Evru. Það er nánast sama hvar borið er niður í ferðaþjónustu hér á landi öll verð eru tengd við Evru.

Vextir á íbúðarlánum myndu lækka töluvert og hin alræmda verðtrygging hverfa. Talið er að tilvist krónunnar kalli á 3 – 4% hærri vaxta hér á landi en þeir þyrftu annars að vera. Fyrir venjulega launamann þýðir þetta að um ein mánaðarlaun fara í þennan aukakostnað á hverju ári.

Hvað varðar styrki er það athyglisverð staðreynd að íslenskir bændur fá tvöfalt meiri styrk en bændur innan ESB, sem hlutfall af verðmæti framleiðslunnar. Um er að ræða 30% innan ESB, en yfir 60% hér á landi. Þetta má lesa í Hagtölum bænda árið 2007.

Allir íslenskir neytendur vilja jú íslenskar landbúnaðarafurðir og bera traust til landbúnaðarins. Það hafa kannanir sýnt. En hún kostar, svo um munar að auki eru laun meðal bænda með þeim lægstu sem þekkjast og mörg búa kominn að fótum fram í skuldum. Staða greinarinnar vekur þá spurningu hvort bændur hljóti ekki að velta fyrir nýjum kostum, eða mega þeir það ekki?

Það er verið að hræða Íslendinga með ESB. Andstæðingar ESB-aðildar sjá rautt þegar þeir heyra ESB að það sé einskonar hrægammur, sem bíði þess eins að ræna okkur. Ekkert er hinsvegar sem styður þessa skoðun: Hefur ESB tekið yfir olíulindir Breta? Gaslindir Dana, skóga Finnlands eða járngrýti Svíþjóðar? Nei. Sjávarútveg Möltu. Nei. Og Ísland verður aldrei ,,fylki í öðru ríki,” einfaldlega vegna þess að ESB er ekki ríki, heldur samband sjálfstæðra og fullvalda aðildarríkja.

föstudagur, 28. maí 2010

Óvönduð vinnubrögð samtaka bænda

Félag ungra bænda birtu stóra auglýsingu í bæði Fréttablaðinu og Morgunblaðinu í morgun um svokallaðan Evrópuher. Undanfarið hefur komið fram að samtök bænda beita öllum brögðum til þess að afvegaleiða umræðu um Evrópumál og ekkert málefnalegt hefur komið frá þeim um þau mál.

Staðreyndin er sú að það eru engar hugmyndir uppi innan Evrópusambandsins um stofnun sameiginlegs hers í líkingu við her einstakra landa. Komið hefur verið á laggirnar hraðsveitum skipaðar hermönnum úr herjum aðildarlandanna til að stilla til friðar á átakasvæðum, en hverju aðildarlandi er það sjálfvald sett hvort þeir senda sína hermenn í þessar sveitir.

Ummæli Merkl kanslara eru tekin úr samhengi og mistúlkuð í þessari auglýsingu. Samtökum bænda væri nær að birta auglýsingar um slaka stöðu íslenskra bænda og hvernig lífskjör bænda eru með þeim lélegustu á landinu og það án Evrópusambandsaðildar, þrátt fyrir að ekkert land í Evrópu sem niðurgreiðir landbúnað meira en Íslendingar.

Það er ekki hægt að sætta sig við að samtök bænda einskorði sig við sérhagsmuni og beiti öllum brögðum í bókinni til þess að koma í veg fyrir að hægt sé að fá hlutlægar og réttar upplýsingar um efni máls í undirbúningi viðræðna og stefnumótunar vegna könnunar á hvort gagna eigi í ESB. Það starf á að vera grundvallað á forsendum upplýsinga og þekkingar um landbúnaðarmál ESB og um íslenskan landbúnað, en ekki á pólitískri stefnumörkun og hræðsluáróðurs byggðum á rakalausum fullyrðingum.

Einkennileg staða

Það er óneitanlega einkennilegt ef það er rétt að Sjálfstæðismenn séu að vinna á og tapa minna fylgi en Samfylking. Steinunn Valdís hefur sagt af sér en eftir sitja þingmenn og borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, með Guðlaug Þór fremstan í flokki. Allir efstu menn Flokksins neita að gera hreint fyrir fjármálum prófkjöra og stór hluti þingflokkusins er umvafinn fjármálamisferlum með formanninn fremstan í flokki.

Sjálfstæðisflokkurinn er hönnuður þeirra forsenda sem leiddu til Hrunsins og spillingin umlykur Flokkinn frá öllum hliðum. Núverandi borgarstjórnarflokkur Samfylkingar er ekki tengdur þessum málum og hefur einn flokka lagt fram trúverðuga og vel unna áætlun í atvinnumálum.

Sjálfstæðismenn hafa ásamt stjórnarandstöðunni með góðri hjálp Ögmundar tekist að koma í veg fyrir að hægt sé að hefja uppbyggingu hér. Nú virðist stefnt að því að víkja sér undan því að taka á hinu ofboðslega ríkisbákni sem Sjálfstæðismenn og Framsókn komu sér upp með aðför að séreignarsparnaði launamanna og framvísa vandanum yfir á börn okkar.

Framboð Besta flokksins virðist ætla að áorka mun meiru en björtustu vonir þeirra voru um að fá fjórflokkinn til þess að horfast í augu við afleiðingar gjörða sinna og fara að vinna að málum af ábyrgð. En margir hljóta að velta því fyrir sér hvað eigi að gera á morgun, en það er einkennilegt ef Sjálfstæðisflokkurinn komi til með að tapa minna en aðrir.

Það liggur fyrir að það er atvinnulífið sem þarf hjálp til þess að komast af stað, við starfsmenn stéttarfélaganna erum þessa dagana að upplifa vaxandi fjölda uppsagna. Fyrirtæki sem eru búinn að reyna að þreyja þorrann í von um að þingmenn taki með ábyrgð á samskiptum við nágrannalönd okkar og uppgjörum á Icesave málum. Sjálfstæðismenn og Framsókn ætla ekki að gera það, þeim er það um megn vegna þess þá verða þeir að viðurkenna þau gríðarlegu skemmdarverk sem þeir eru búnir að vinna með því leikriti sem þeir eru búnir að viðhafa á Alþingi frá Hruni.

fimmtudagur, 27. maí 2010

Veruleikafirring og siðblinda

Forsvarsmenn sjálfstæðismanna virðast láta koma sér á óvart hver afstaða kjósenda sé. Það er hægt að skilja þá afstöðu sé litið til fyrri kosninga, kjósendur flokksins skiluðu sér alltaf, nákvæmlega hversu bjálfaleg og ómálefnaleg framsetning þingmanna og sveitarstjórnamanna var.

Ólöf Norðdal varaformannsefni Flokksins lýsti þessu viðhorfi forsvarsmanna Flokksins afskaplega vel í spjallþætti nýlega þegar hún sagði „Við vitum það auðvitað, við höfum farið yfir það áður, að þessi Rannsóknarskýrsla og þetta allt saman er að þvælast eitthvað fyrir okkur tímabundið“. Í hennar huga skiptir það engu hver málefnastaða Flokksins er og hvernig þingmenn og sveitarstjórnarmenn hafa hagað sér. Það er hinn almenni kjósandi sem er á villigötum að hennar mati.

Það skiptir Ólöfu engu þó svo forsvarsmenn Flokksins hafi með fagurgala tekist að með einstaklega ógeðfeldum hætti tekist að mynda meirihluta með því að selja borgarstjórastólinn í skiptum fyrir að fella þáverandi meirihluta. Manni sem þeir höfðu áður hrakið á brott með háði og spotti. Og Hanna Birna lét ekki staðar numið, hún og hennar fylgisveinar plottuðu aftur með Framsókn og sviku öll sín loforð gagnvart Ólafi og hentu honum á dyr. „Við skulum vinna saman,“ á hennar forsendum.

Hanna Birna og hennar fólk skuldar kjósendum skýringar á því hvers vegna það hafi tekið á móti milljóna styrkjum frá Baugsveldinu, en á sama tíma hefur þetta lið sakað aðra um að vera Baugspennar og taki við sinni skoðanamyndun í gegnum áborna fjármuni. En í ljós er komið að forsvarsmenn Flokksins voru þar fremstir í flokki.

Jón Gnarr og öðrum grínurum tókst að fá Gísla Martein til þess að gefa upp hverjir styrktu hann fyrir borgarstjórnarkosningar 2006. Gísli fór að venju Flokksins og tók ekki mark á beiðnum kjósenda sinna. Hann hafði reiknað með að þeir myndu gefast upp og láta kyrrt liggja.

En eftir stendur að fimm efstu frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík: Hanna Birna, Júlíus Vífill, Kjartan Magnússon, Þorbjörg Helga og Jórunn Frímannsdóttir hafa ekki gert hreint fyrir sínum dyrum. Steinunn Valdís er á sama bát og er að valda borgarstjórnarflokki Samfylkingar gríðarlegum skaða. Hún hlýtur að segja af sér innan skamms.

Sjálfstæðisflokkur og fulltrúar hans hafa þegið mest allra frá Baugsfyrirtækjunum, en Samfylking og Framsókn voru þar einnig. Þetta eru flokkarnir sem afhentu völdin í landinu til fjárglæframanna gegn háum fjárframlögum og glysferðum.

Það þurfti flokk grínara til þess að draga þetta fram, nú er reynt að koma höggi á þá. Ekki síður kjósendur, þeir séu óábyrgir fyrir að svíkja gömlu flokkana með því að láta völdin í hendur öðrum. Forystusveit Flokksins hefur nú ekki sýnt mikla snilli borgarstjórnarmálum, en hún er á heimavelli í útsmoginni klækjapólitík.

Þar má t.d. minna á ummæli Þorgerðar Helgu um laun kynsystra sinna. Henni finnst í lagi að þiggja styrki frá Baugsveldinu og mánaðarlaun leikskólaliða fyrir að sitja einn ákvarðanalausan fund eða um 130 þús. kall. Veruleikafirring og siðblinda. Stelpurnar í borgarstjórnarFlokknum telja að þær geti ekki komist af við rekstur sinna heimila með minna en 600 þús. til milljón á mánuði, að viðbættum styrkjum frá Baugsveldinu. En samþykktu að senda kynsystrum sínum, leikskólaliðunum, frímiða í sund og á málverkasýningar til þess að bæta upp á 130 þús. kallinn.

þriðjudagur, 25. maí 2010

Handónýtt Alþingi

Ríkisstjórnin hefur fengið allan þann meðbyr hún þurfti og engin hefur fengið jafnmikinn stuðning. Allir aðilar vinnumarkaðs komu saman fyrir ári síðan og lýstu sig tilbúna til sameiginlegs átaks með stjórnvöldum til þess að takast á við vandann.

Þessi ríkisstjórn er ónýt og henni á að henda, heyrðist víða í dag á formannafundi aðildarfélaga ASÍ. Við verðum að fá kosningar í haust. Það liggur fyrir að kosningarnar í fyrra voru of snemma. Það staðfestir staðan á vinnumarkaði og í hagkerfinu, en ekki síst það sem Skýrslan segir okkur.

Það er engin samstaða og þar af leiðandi verður forystan óvirk. Órólega deild VG heldur uppteknum hætti við að víkja sér undan því axla ábyrgð á erfiðum málum. Þingmenn þeirrar deildar eru greinilega að hugsa um það eitt að halda þingsæti sínu.

Ólöf Norðdal upplýsti okkur um hvernig þingmenn Flokksins hugsa þegar hún lýsti því yfir að ábyrgð Flokksins á Hruninu komi ekki til greina : „Við vitum það auðvitað, við höfum farið yfir það áður, að þessi Rannsóknarskýrsla og þetta allt saman er að þvælast eitthvað fyrir okkur tímabundið“. Stöðumat Flokksins liggur fyrir í yfirlýsingum Bjarna Ben. og vafningum hans og svo þessari yfirstéttarkonu sem ætlar sér varaformannssæti Flokksins og svo helming þingliðsins sem er margvafið í styrkja og lánaflækjur fjárglæframannanna. Það er nægilegt að hlusta á ÍNN til þess að sjá hina takmarkalausu veruleikafyrringu þingmanna Flokksins.

Engir hafa valdið launamönnum og atvinnulífinu jafnmiklum skaða og órólega deildin. Á þetta hefur stjórnarandstaðan spilað. Skaðinn vegna frestunar afgreiðslu á Icesave hefur þegar kostað nálægt einum milljarði í beinhörðum peningum. Þar til viðbótar á álitshnekkir Íslands orðin ómetanlegur.

Þessi ómerkilegi hráskinnaleikur stjórnarandstöðunnar og órólegu deildarinnar hefur seinkað uppgöngu efnahagslífsins a.m.k. um eitt ár. Það hefur valdið meiri samdrætti í hagkerfinu en þörf var á. Það þýðir að slagkrafturinn verur minni og það mun taka lengri tíma og ná jöfnuði í þjóðarbúskapnum.

Til lengri tíma litið mun þetta lýðskrum og aulabrandarakeppnin valda tapi sem samsvarar tapi sem jafnast á við eina þjóðarframleiðslu. Hann er orðin dýr þessi leikur þingmanna. Var hann þó ærinn skaðinn sem fyrrv. ríkisstjórnir núverandi stjórnarandstöðuflokkanna höfðu valdið.

Nú blasir við hinn mikli múr nýrra fjárlaga og þingmenn hafa ekki getu eða dug í sér til þess að takast á við vandann. Enn á að ganga á eftuispurnarmöguleika með því að hækka skatta og draga fjármuni út úr Hagkerfinu. Fólk er uppgefið á Alþingi. Þingmenn verja öllum sínum tíma við að setja fingraför sín á mál og ef það tekst ekki þá fara þau ekki í gegn.

Verkalýðshreyfingin verður að hefja undirbúning næstu samninga. Undanfarin misseri hafa verkalýðsfélögin á almennum markaði krafist þess að lífeyrisréttindi verið jöfnuð. En ríkisstjórnin hefur lýst því yfir að hún ætli að slá skjaldborg um lífeyrisréttindi útvalins hóps opinberra starfsmanna, ekki verður friður fyrr en hún lýsir því yfir að hún muni slá skjaldborg um lífeyrisréttindi allra launamanna.

sunnudagur, 23. maí 2010

Burt með þetta lið

Viðbrögð stjórnmálaflokkanna við góðu gengi Besta flokksins eru öll á einn veg. „Þetta eru skýr skilaboð frá kjósendum sem við í verðum að taka alvarlega.“ En hafa flokkarnir tekið þessi skilaboð alvarlega?

Það hefur allavega ekkert gerst eftir að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis kom fram. Stjórnmálamennirnir ætla að fara sína venjubundnu leið. Öll munum við eftir ummælum Birgis Ármannss og Sigurðar Kára þingmanna sjálfstæðismanna í fjölmiðlum, þegar almenningur mótmælti eftirlaunalögum Davíðs. „Jú, jú þau mótmæla, en þetta gengur yfir, almenningur hefur ekkert úthald. Þetta eru bara skrílslæti.“

Ekkert hefur verið gert vegna styrkjamála Steinunnar Valdísar, Gísla Marteins og ofurstyrkja Guðlaugs Þórs. Sjálfstæðismenn hafa ekki enn birt nöfn þeirra sem styrktu þá. Almenningur krefst þess vitanlega þingmenn geri hreint fyrir sínum dyrum áður en gengið er til kosninga.

Mörgum eru vel í minni ummæli og blaðagreinar Ragnheiðar Elínar þingmanns sjálfstæðismanna á Suðurlandi og ókrýndrar þrætubókardrottningar Alþingis ásamt fleiri fyrrverandi stjórnarþingmanna þingmanna, þar sem þrætubókarlistinni er beitt til þess að víkja sér undan því að eitthvað hafi farið úrskeiðis. Þrætt hefur verið fyrir að það sé efnahagstefna og eftirlitsleysi fyrrv. ríkisstjórna sem sé helsta ástæða þess hvernig komið sé fyrir íslenskri þjóð.

Ragnheiður Elín þrástagast á því ásamt samþingmönnum sínum að það sé við „óvinveittar þjóðir að sakast.“ Allur málatilbúnaður hennar og fylgdarsveinum einkennist af barnlegri þrætubókarlist og getuleysi. Þau voru aðalleikendur í að skapa það svigrúm sem fjármálaglæpamennirnir þurftu. Hún og meðþingmenn hennar voru meðvirkir viðhlæjendur, en hafna því að eitthvert þeirra eigi að segja af sér. Siðblinda.

Öll munum við á hvaða forsendum síðustu tvennar kosningar þær fóru fram. Í ljós er komið að þessir þingmenn fóru þá vísvitandi með ósannyndi. Staða þjóðarbúsins var ekki eins góð og haldið var fram í kosningum 2007. Þáv. stjórnarþingmönnum átti að vera það ljóst, ef svo væri ekki, þá blasir við að þau eru fullkomlega ófær til þingmennsku vegna skilningsleysis á efnahagsmálum.

Aðilar vinnumarkaðs, lífeyrissjóðir og venjulegir heimilisrekendur hafa gefist upp á ríkisstjórninni og hinni aulalegu umræðu sem fram hefur farið á Alþingi undir forystu stjórnarandstöðu og hluta stjórnarþingmanna. Svo maður tali nú ekki um getuleysi ríkisstjórnarinnar til þess að takast á við að koma í gegn grundvallarmálum og takast á við fjárlagagatið.

Enn eina ferðina að ráðast gegn fyrirtækjum og launamönnum á almennum markaði og víkja sér undan því að takast á við rekstrarvanda ofvaxins ríkisbákns. Hvað með þær hundruð milljóna kr. sem þingflokkarnir hafa með sjálftöku skenkt sér úr ríkissjóð eða sjálftöku í lífeyrissmálum fyrir útvalda opinbera starfsmenn?? Skuldir ríkissjóðs vegna þessa nema nú um 600 MIA

Skilaboðin eru skýr; Allir þingmenn eiga að segja af sér og boða á til kosninga seinni hluta sumars, ekki kemur til greina að mynda aðra ríkisstjórn úr þeim þingmönnum sem nú sitja á þingi. Þjóðin er búin að fá nóg, einungis tíundi hver Íslendingur ber traust til Alþingis.

Sjálfstæðismenn grípa til venjubundinna viðbragða; Hræðsluáróðurs og undirliggjandi rógs gegn andstæðingum. En hingað til hafa öll viðbrögð fjórflokksins orðið til þess að Besti flokkurinn fær sífellt meira fylgi. Þetta vita allir sem fara um á kaffistofum vinnustaðanna, en stjórnmálamenn neita að horfast í augu við þessa stöðu.

Þriðjungur borgarfulltrúa fjórflokksins frá 2006 hafa hætt í borgarstjórn. Fjórir meirihlutar hafa verið í borgarstjórn á kjörtímabilinu og fjórir borgarstjórar. Hanna Birna ásamt sínum borgarstjórnarmeirihluta voru virkir þátttakendur í þeim óhreinu leikfléttum, í hverju einasta bakherbergi Ráðhússins, sem eru að enda með Magma skelfingunni.

Væntanlegir borgarfulltrúar Besta flokksins eru klárlega ekki verri en núverandi borgarstjórn og hefði örugglega verið tekið fagnandi inn á lista fjárflokkanna. Einnig er víst að þeir hafa nóg af góðu fólki til þess að koma að nefndarstörfum, skipulagsmálum og stjórnarsetu t.d. í Orkuveitunni.

Við kjósendum í Reykjavík blasir hringavitleysan í skipulagsmálum og velferðarmálum. Svo maður tali ekki um hvernig Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn eru búinn að nýta Orkuveituna sem einkaleikvöll. Hvaða heilvita manni dettur í hug að taka tæpan milljarð út úr fyrir tæki sem berst í bökkum? (Svarið er tvíburabræðurnir = íslenskur stjórnmálamaður og útrásavíkingur.) Hátterni þeirra getur ekki leitt til annars en að stórhækka verður orkuverð undir fagnaðarlátum erlendra eigenda íslenskrar orku.

Svör stjórnmálamanna eru hræðsluáróður, Morfísútúrsnúningar, skítatrykk og trúin á að minni kjósenda sé ekkert. Burt með þetta lið.

föstudagur, 21. maí 2010

Áhugaleysi á kosningum

Það er sama hvar ég kem, allstaðar mætir manni algjört áhugaleysi á komandi kosningum. Það sem góður vinur minn sagði við mig í gærkvöldi endurspeglar mjög vel þau viðhorf sem eru áberandi; „Hvernig ætlast fólk til þess að við mætum á kjörstað og kjósum þetta fólk sem er með slóðann á eftir sér í óuppgerðum málum Fyrir liggur skýrsla sem allir biðu eftir, en flokksvélarnar ætla sér að athuga hvort þær komist ekki upp með að stinga henni undir stól og gera ekkert. Á meðan svo er mér um megn að hlusta á kosningaloforð. Ég tek ekki mark á því sem þetta fólk segir og mig langar ekkert á kjörstað.“

Já það er forvitnilegt að horfa upp á viðbrögð þeirra sem telja sig eiga að hafa völdin. Þóttafullur hroki þeirra birtist í því að aðrir séu bara plat og grín, sem hafi ekki vit á því sem skiptir máli og séu þar af leiðandi ekki marktækir. Þau "Alvörufólkið" búi yfir þekkingu sem öðrum sé hulin og hafi eiginlega voða lítið vit.

Sjálfstæðisflokkurinn startaði REI og öllu því ferli, en hrökklaðist frá völdum því Framsóknarflokkurinn sleit þegar Flokkurinn krafðist þess að REI yrði selt í einum bita til Hannesar Smárasonar og Jóni Ásgeiri. En Flokknum tókst með sóðalegasta útspili sem sést hefur í íslenskri pólitík að búa til nýjan meirihluta með Ólaf F. og borgaði fyrir það með borgarstjórastóli og 600 milljónum fyrir ónýt hús við Laugarveg. En Ólafi var sparkað skömmu síðar til þess að koma Hönnu Birnu í borgarstjórastólinn.

Þeim flokkum sem tókst að rústa fjárhag Ísland, gera Seðlabankann gjaldþrota og það mun taka þjóðina liðlega tvo áratugi að komast út úr því skuldafeni sem þeir sökktu þjóðinni í segjast ætla að standa fyrir stöðugleika í fjármálum borgarinnar!!

Þessum flokkum hefur tekist að margfalda skuldir Orkuveitunnar á einu kjörtímabili. Rekstur OR byggist ekki nema að hluta til á orkusölu og búið er að gera OR að vogunarsjóð spilandi á vexti og gengi krónunnar. OR hefur orkusölu sem hliðargrein og er haldið gangandi á lántökum. Þessi hópur á einnig upphaf þess óláns sem er að koma yfir þjóðina þegar auðlindir á Reykjanesi eru að komast undir erlenda aðila með nokkurra ára innlendur kúluláni.

Ef við rifjum aðeins upp REI-málið þá átti haustið 2007 átti að sameina tvö fyrirtæki, Reykjavík REI í eigu OR og Geysir Green Energy í eigu FL-Group, Atorku og Glitnis banka undir nafni REI. Allt í einu birtust tugir milljarða í eignum sem ekki voru sjáanlegar og á heimsíðunni vour birtar myndir af Bláa lóninu og orkuverum í eigu almennings. Borgarfulltrúi Framsóknarflokksins og einkavinir áhrifamanna áttu að fá hlut í fyrirtækinu í gegnum kaupréttarsamninga.

Meðal þeirra eigna sem til stóð að OR legði inn í hið sameinaða félag var hlutur þess í Hitaveitu Suðurnesja. Þarna birtist ákaflega vel það sem Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa unnið að með því að færa eignir almennings til útvalinna. Sala á hlut OR í sameinuðu REI til Glitnis hefur leitt til þess að HS með öllum sínum auðlindum er farið í hendur einkaaðila.

Íslenskt samfélag er svo djúpt sokkið í helgreipar fjórflokksins að ekki virðast vera nokkrar leiðir færar frá þeim gríðarlega vanda sem við okkur blasir. Fjórflokkurinn grípur alltaf fram fyrir vilja þjóðarinnar um að koma á stjórnlagaþingi og endurskoða stjórnarskránna. Hann beitir sýnum helgreipum til þess að tryggja þá stöðu sem honum hefur tekist að búa sér í samfélaginu.

Á sama tíma er doði að heltaka samfélagið vegna þeirrar ákvarðanafælni, nauðhyggju, ringulreiðar og ráðaleysi sem einkennt hefur pólitískt kjörna fulltrúa frá upphafi Hrunsins, er þörf á stórátaki í atvinnumálum, skilvirkar aðgerðir í greiðslu- og skuldavanda heimilanna, aukin virkni og þjónusta í vinnumarkaðsmálum, jöfnun lífeyrisréttinda og jöfnuð í afkomu ríkissjóðs.

Við blasir að fjöldi fyrirtækja stefnir í gjaldþrot, sífellt fleiri eru að missa vinnuna og stjórnmálamenn eru svo uppteknir af sjálfhverfum heldansi sínum að þeir sinna þessu í engu. Leysa hefði á Icesave deiluna fyrir ári, en hluti stjórnarþingmanna hafa tekið höndum saman við stjórnarandstöðuna í að koma í veg fyrir framgöngu þessa máls. Þessi hópur ber gríðarlega ábyrgð á því hvernig komið er á almennum vinnumarkaði. Bjálfaleg rök og útúrsnúningar einkenna allan þeirra málflutning.

Hrein orka mun líklega tvöfaldast í verði á næsta áratug, m.a. vegna útblásturskvóta. Paul Hawken var hér á vegum Bjarkar og þegar hún bað hann um ráð okkur til handa. Íslendingar væru þrátt fyrir allt ekki svo illa staddir, við hefðum allt sem til þyrfti til að takast á við hann: Orkuauðlindir, mannauð og tækniþekkingu og að líklega værum við ein best setta þjóð í heimi, orkulega séð og þar með efnahagslega séð, því nú væri að hefjast enn harðari barátta en áður um orkuna í heiminum.

"Af hverju skylduð þið þá grípa til örvæntingarfullra aðgerða eins og að selja orkuna til erlendra stórfyrirtækja og stóriðju?" spurði Hawken undrandi. Og hann vísaði til orða rauðu drottningarinnar sem svaraði Lísu í Undralandi þegar hún bað um ráð í örvæntingu sinni: Því hraðar sem þú hleypur og því hraðar sem þú kemst yfir því hraðar kemstu að engu.

miðvikudagur, 19. maí 2010

Þversagnir um lífeyrissjóði

Steingrímur fjármálaráðherra sagði á fundi lífeyrissjóða að endurskoða ætti þá arðsemiskröfu sem gerð væri til lífeyrissjóða. „Á samfélagslegur ávinningur að fá meira vægi, á að horfa meira til langtíma sjónarmiða og heildarhagsmuna fremur en að leggja kalt mat á arðsemi fjárfestinga í augnablikinu, það mat er mannanna verk."

Hér má minna á kröfur um að lífeyrissjóðir komi að vegagerð, byggingu húsa, kaupa skuldabréfa hjá Orkuveitunni og Landsvirkjun og annarra verkefna. Í þessu felst gríðarleg þversögn.

Undanfarið hefur farið fram heiftarleg gagnrýni á stjórnendur fjárfestingardeilda lífeyrissjóðanna vegna þess að ávöxtun hefur ekki uppfyllt þær kröfur sem gerðar eru í því reikniverki sjóðanna sem þingmenn hafa lögsett á Alþingi. Einnig voru sett lög um hvernig þær fjárfestingar séu. Hversu mikið megi fjárfesta erlendis og hvernig fjárfestingar eigi að vera innanlands.

Það liggur fyrir að það eru erlendu fjárfestingarnar sem eru að gefa lífeyrissjóðunum mikinn arð. Þar er áhætta mun dreifðari en í innlendum fjárfestingum. Fjárfestingarkostir innanlands fyrir hið gríðarlega mikla fjármagn sem safnast saman í lífeyrissjóðunum er takmarkað og oft hafa stjórnendur fjárfestingastýringa lífeyrissjóðanna. Takmarkað magn hefur verið á ríkistryggðum skuldabréfum og skuldabréfum sveitarfélaganna.

Ástæða er að minna á eftirminnileg og ómakleg ummæli stjórnenda OR og borgarstjóra um þá frekju lífeyrissjóðanna að krefjast ásættanlegrar ávöxtunar á lánum til OR. Það liggur fyrir að skuldsetningarhlutafall OR hefur hækkað gríðarlega á undanförnum 3 árum eða úr 89% í 545% og eiginfjárhlutfall komið niður í 14,4%.

Einnig má minna ummæla margra þ.á.m. þingmanna um frekju lífeyrissjóða að krefjast þess að fá það fjármang tilbaka sem þeir myndu hugsanlega setja í vegakerfið. Lífeyrissjóðirnir krefjast veggjalda var sagt á Alþingi. Það er ekki rétt lífeyrissjóðirnir vildu einfaldlega fá þá fjármuni sem þeir hugsanlega legðu fram tilbaka með a.m.k. 3.5% raunávöxtun.

Það liggur fyrir að þau töp sem lífeyrissjóðirnir eru að upplifa er vegna fjárfestinga í íslensku atvinnulífi. Þeir fjárfestu í öflugum fyrirtækjum, en stjórnendur þessara fyrirtækja komu síðan aftan að eigendum þessa sparifjár með því að tæma fyrirtækin innan frá, en kröfðust svo meiri lána með aðstoð stjórnmálamanna sem mærðu hið íslenska efnahagsundur í glysferðum á bökkum laxveiðiánna.

Hvað á fjármálaráðherra við með ummælum sínum? Það er eiginlega ekki hægt annað en að skilja þau á grundvelli þeirrar ályktunar að hann telji það víst að almennu lífeyrissjóðirnir búi í sama umhverfi og hans eigin sjóður og annarra útvalinna opinberra starfsmanna, að ávöxtun skipti engu máli, það sem upp á vantar er bara sótt í ríkissjóð. Eða kannski tillögur þingmanna framsóknarmanna að gera lífeyrisfé upptækt og breyta sjóðunum í gegnumstreymissjóði og gera ríkissjóð endanlega gjaldþrota á næstu 10 árum.

Er nú ekki kominn tími til þess að gera þær kröfur að stjórnmálamenn taki sig saman í andlitinu og fari að vinna vinnuna sína í alvöru og tengjast okkur hinum sem erum út í þjóðfélaginu.

Þeir kalla Besta flokkinn grínframboð og vilja að fólk kjósi í alvöru. Það eru stjórnmálamennirnir sem eru á Alþingi og í borgarstjórn sem eru plat drasl sem við erum búinn að fá nóg af.

þriðjudagur, 18. maí 2010

Vinnustaðaskilríki

Ég hef undrast hversu margir hafa spurt hvað standi til með þessi vinnustaðaskilríki og virðast ekki kannast við málið, þó svo það hafi verið áberandi í umræðu tengdri vinnumarkaðsmálum í nokkur ár. En aftur á móti koma mér ekki á óvart viðbrögð þingmanna Framsóknarmanna og fulltrúa últra hægri manna Sjálfstæðisflokksins, sem tala um Gyðingastjörnur saumaðar í barm launamanna og fleira í þeim dúr. Sagan segir okkur að réttindi launamanna og varnir fyrir þá eru eitur í beinum þessa fólks og þarna fer fólkið sem hefur gjörsamlega eyðilagt álit Alþings með lýðskrumi, aulabröndurum og útúrsnúningaumræðum.

Síst af öllu er ég undrandi á viðbrögðum gífuryrðum íslenskra „verktaka!!“ sem vilja geta vaðið um á vinnumarkaði og brotið allar reglur og aðbúnað og starfsréttindi og í raun keyrt niður laun og eyðilagt margra ára baráttu launamanna fyrir réttindum sínum og mannsæmandi vinnustöðum. Þetta fólk á samleið með þingmönnum Framsóknar og hægri arms Sjálfstæðismanna í baráttu gegn lágmarksréttindum launamanna, þá ekki síst þeirra sem minnst mega sín á vinnumarkaði.

Ef við rifjum aðeins rifjum aðdraganda þessa. Í kjölfar þess að múrarnir hrundu og fólk úr Austur Evrópu kom í stórum flokkum vestur á bóginn skapaðist miði óáran á vinnumarkaði. Margir urðu til þess að nýta sér þessa stöðu og starfsmanaleigur urðu til sem brutu nánast allar reglur á vinnumarkaði og misnotuðu bláfátæka fjölskyldufeður til þess að hafa af þeim lögbundin réttindi og hluta launa þeirra.

Þetta varð til þess að mörg lönd urðu að grípa til margskonar viðbúnaðar til þess að bregðast við þessu. Holland og Belgía urðu fyrst til þess að krefjast skráningar og greiðslu tryggingar frá fyrirtækjum sem réðu erlenda farandverkamenn og síðar hafa verið tekin upp Vinnustaðaskilríki eins t.d. í Noregi.

Allan þennan feril þekkja íslendingar mjög vel, þessi mál hafa verið ofarlega í umræðunni og mörg ógeðfelld mál komu upp á yfirborðið. Þar kom einnig í ljós hversu illa undirbúin íslensk stjórnvöld voru til þess að taka á þessum málum. Reyndar var það svo undir stjórn ríkisstjórna Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna að eftirlitsstofnanir voru nánast teknar úr sambandi og markaðurinn átti að taka á þessum málum.

Við upplifðum það að íslensk fyrirtæki voru sektuð og jafnvel lokað, færu þau ekki eftir reglum um starfsréttindi eins og þungavinnuvélaréttindi eða iðnlöggjöf. Á meðan voru hér fyrirtæki sem nýttu starfsmannaleigur, brutu allar reglur og sluppu. T.d. fræga dæmið þegar mörg hundruð erlendir starfsmenn voru réttindalausir á vinnuvélum uppi við Kárahnjúka og það þurfti átak stéttarfélaganna til þess að fá það leiðrétt. Á meðan sátum við starfsmenn og trúnaðarmenn stéttarfélaganna undir háðsglósum ráðherra Framsóknarflokksins og þáverandi stjórnarþingmanna.


Blokkmynd af vinnustaðaskilríkjakerfinu.

Í kjölfar þessa var í kjarasamningum milli ASÍ og SA rætt um að koma á samskonar kerfi og nágrannalönd okkar höfðu gert. Vinna við þetta hófst fyrir alvöru 2008 og henni er að ljúka nú með lagafrumvarpi um málið. Þar kemur m.a. fram að lögin muni gilda um atvinnurekendur, og starfsmenn þeirra, sem reka starfsemi á innlendum vinnumarkaði, hvort sem hún er ótímabundin eða tímabundin, eða senda starfsmenn hingað til lands í tengslum við veitingu þjónustu innan tiltekinna atvinnugreina.

Markmið laganna er að tryggja að atvinnurekendur á innlendum vinnumarkaði og starfsmenn þeirra fari að gildandi lögum, reglugerðum og kjarasamningum. Atvinnurekandi skal sjá til þess að hann sjálfur og starfsmenn hans, hvort sem starfsmennirnir eru ráðnir beint til atvinnurekanda á grundvelli ráðningarsamnings eða koma til starfa með milligöngu starfsmannaleigu, fái vinnustaðaskírteini er þeir hefja störf.

Viðurkenndir aðilar sem koma á vinnustaði til eftirlits þurfa að hafa opinn og sjálfvirkan aðgang að opinberum gagnabönkum. Mikilvægustu gagnabankarnir eru hjá Þjóðskrá til að sannreyna kennitölu, hjá Menntamálaráðuneytinu og sýslumönnum til þess að sannreyna viðurkennd starfsréttindi, hjá Ríkisskattstjóra til þess að sannreyna hvort skattkort hafi verið gefið út og skattgreiðslur hafi borist, hjá Vinnumálastofnun til að sannreyna hvort tilkynningum hafi verið skilað inn og hjá lífeyrissjóðum til þess að sannreyna hvort iðgjöld hafi verið greidd.

Í augum þingmanna Framsóknar og hægri arms Sjálfstæðismanna virðist það vera glæpur að krefjast þess að ekki sé hægt að fara með láglaunafólk eins og skynlausar skepnur.

mánudagur, 17. maí 2010

Hlutverk vinnustaðaskírteina

Það er greinilegt að sumir átta sig aldeilis ekki um hvað Vinnustaðaskírteini snúast. Þetta mál hefur alllengi verið til umræðu og allstaðar fengið jákvæð viðbrögð, bæði meðal fyrirtækja og launamanna. Enn eina ferðina ætla þingmenn að eyðileggja góð mál með bullumræðu byggðri á fullkomnu þekkingarleysi upphrópunum og dylgjum. Það var vitað að einstaklingar sem hafa verið að spila kerfið myndu hafa horn í síðu þessa máls og ljóst að þeir eiga sinn málsvara.

Málið snýst um að verja réttindi þeirra sem minnst mega sín á vinnumarkaði og skipta má því í tvö meginatriði. Það hefur borið á því að kaupendur þjónustu og húsnæðis hafa verið sviknir þegar í ljós hefur komið að einstaklingar eða fyrirtæki hafa selt þeim þjónustu þar sem því var haldið fram að um væri að ræða fagmenn, en síðar kom í ljós að svo hafði ekki verið. Samkeppnisstaða fyrirtækja er skert á grundvelli þess að sum fyrirtæki nýta sér þekkingarleysi starfsmanna til þess að ná af þeim lögbundnum réttindum og niðurbjóða verk á kostnað þeirra lægst launuðu.

Þessi umræða jókst umtalsvert eftir að hingað voru fluttir þúsundir erlendra manna á vegum starfsmannaleiga, sem margar hverjar reyndust ástunda afskaplega óvönduð vinnubrögð. En það hefur einnig komið í ljós að allmargir íslendingar ástunda einnig þessa iðju. Sé mönnum gert að vera með vinnustaðaskýrteini sem er útgefið að opinberum aðila, þá getur verkkaupi einfaldlega farið fram á að viðkomandi framvísi því. Þetta á vitanlega sérstaklega við um verkefni þar sem það skiptir máli að viðkomandi hafi þekkingu á verkefninu, eins og t.d. raflagnir eða byggingu húsa þar sem fólk er að leggja fram ævisparnað sinn eða um er að ræða öryggi fólks.

Hitt atriðið er að allnokkrir hafa ástundað þá iðju að fara illa með launamenn, stela af þeim hluta umsaminna og lögbundinna kjara. Margir átta sig ekki á þessu og ég verð að fara hér yfir nokkur atriði til útskýringar.

Útborguð laun eru ekki öll laun viðkomandi launamanns. Vinnuveitandi heldur eftir um það bil 37% af launum til þess að standa skil á eftirfarandi atriðum. Ástæða er að geta þess sérstaklega að ekkert af neðangreindum gjöldum renna til stéttarfélags frá launamanni. En í bullumræðunni er dylgjað með því að hér sé einvörðungu verið að verja hagsmuni stéttarfélaga, því fer víðsfjarri.

Allir eiga rétt á 24 – 30 daga orlofi á hverju 12 mánaða tímabili á föstum launum, til þess að það geti orðið heldur vinnuveitandi eftir 11 – 13% af launum.

Launamenn eiga rétt að fríi á launum á lögbundum frídögum (rauðir dagar á svörtum) sem eru að meðaltali 11 árlega, þetta samsvara um 5 - 6% af launum.

Launamenn eiga rétt á 30 – 60 dögum í veikindum á föstum launum, þetta samvarar um 6 – 7% af launakostnaði.

Fyrirtækjum er gert að greiða skyldutryggingar og í sjúkrasjóði til þess að verja starfsmenn í slysum og langvarandi veikindum. Í þessu eru einnig tryggingar í atvinnuleysistryggingasjóð.

Fyrirtækjum er gert að greiða 12% í lífeyrissjóð starfsmanns

Launamenn eiga rétt á a.m.k einum mánuði í uppsagnarfresti, kostnaður er ákaflega mismunandi.

Launamenn í eðlilegu ráðningarsambandi eiga rétt á fullum daglaunum.

Launamenn eiga rétt á öruggu vinnuumhverfi og aðbúnaði.

Á undanförnum árum hefur ítrekað komið í ljós að fjölmörg fyriræki hafa ekki staðið skil á ofantöldum atriðum, heldur einungis greitt starfsmanna lágmarksdaglaun og reyndar oft lægri upphæð, þann tíma sem starfsmaður er á vinnustað. Ekki greitt yfirvinnu, ekki greitt laun á lögbundum frídögum ekki greitt orlof, ekki skyldutryggingar og rekið fólk samstundis ef það tilkynnir veikindi.

Algengt er að þessi fólki er bannað að hafa samband við stéttarfélög og það kostar uppsögn ef það er gert. Á undaförnum misserum hefur í vaxandi mæli komið í ljós að þegar launamaður hefur leitað til heilbrigðisstofnana vegna slysa eða langvinnra veikinda að ekkert hefur verið greitt af honum til samfélagsins og hann nýtur þar engra réttinda.

Eftir að atvinnuleysi jókst hefur komið fram að ekki hafði verið skilað tryggingargjöldum og margir eiga engin réttindi í atvinnuleysistryggingasjóð. Á hlutlausum stað sem gefur út Vinnustaðaskírteini getur starfsmaður fengið allar þessar upplýsingar og það er fylgst með því að launamaður hafi lögbundin réttindi í samfélaginu.

Það eru nokkrir sem hafa kosið að gerast sjálfstæðir verktakar og reyndar ekki óalgengt að óprúttin fyrirtæki nýti sér þá leið að bjóða starfsmanni að skrifa upp á að hann fái nokkra hækkun launa gegn því að skrifa upp á að hann muni sjá um framangreind atriði.

Ef við tökum einfalt dæmi, hafi maður haft 1.000 kr. í lágmarkslaun sem ráðinn starfsmaður þá þarf hann að fá 1.400 kr. sem verktaki til þess að hafa eftir sem áður umsaminn lágmarkskjör. Ekki er óalgengt að starfsmenni sé boðin t.d. 15% launahækkun skrifi hann upp á að hann afsali sér öllum framangreindum atriðum. Þá er launamaður að semja í raun um 25% launalækkun. Fyrirtækið stingur þeim peningum í vasann.

Þegar starfsmaður verður síðan fyrir slysi eða langvinnum veikindum lendir það á samfélaginu að bjarga honum, því starfsfólk heilbrigðistofnana hendir ekki sjúku fólki út á götuna.

sunnudagur, 16. maí 2010

Formaður framsóknar ræðst að láglaunafólki

Það er hreint út sagt ömurlegt að fyrir launamenn hér á landi að vera gert að sitja endurtekið undir árásum þingmanna Framsóknarflokksins að réttindum þeirra. Þessar árásir eiga greiða leið inn í fjölmiðla og aldrei er leitað andsvara eða skýringum frá launamönnum eða samtökum þeirra.

Alþekkt er að þingmenn Framsóknarflokksins eru ekki í neinum samskiptum við samtök launamanna og fram kemur í málflutning þeirra fullkomið þekkingar- og skilningsleysi á samskiptum á vinnumarkaði. Það er fullkomlega ljóst að launamenn vilja ekki aðstoð þingmanna framsóknar, tillögur þeirra ganga flestar þvert á yfirlýstan vilja launamanna.

Hér er um að ræða tillögur þingmanna flokksins um lífeyriskerfi launamanna og einnig um að gera lífeyrissjóði opinberra starfsmanna upptæka og breyta þeim í gegnumstreymissjóði. Þeir sem til þekkja vita að þetta myndi leiða til gjaldþrots ríkissjóðs á árunum 2020 – 2028 þegar lífeyrisþegar verða orðnir nánast jafnmargir og skattgreiðendur og stjórnvöld yrðu þá að velja á milli að fella niður lífeyri eða loka barnaheimilum og barnaskólum. Þessu berst Framsókn fyrir.

Formaður flokksins réðist að launamönnum og réttindum þeirra enn eina ferðina hádegisfréttum RÚV í dag. Alþekkt er að nokkur mið-Evrópu ríki og hluti Norðurlandanna hafa tekið upp vinnustaðaskýrteini. Þetta gerðist í kjölfar þess þegar múrar milli Austur og Vestur Evrópu féllu og samið var um frjálsa för launamanna á EES svæðinu.

Þetta leiddi til þess, eins og alþekkt er, að fjölmörg fyrirtæki urðu til sem nýttu sér þetta ástand og fluttu launamenn af láglaunasvæðum til vesturlanda og ekki síst til norðurhluta Evrópu. Þar voru þessum launamönnum búinn ömurleg kjör og aðstaða. Neðanjarðarhagkerfið snarstækkaði og stjórnvöld urðu af gríðarlegum tekjum, auk þess að í vaxandi mæli voru að birtast inn á spítölum og heilsugæslustöðum fólk sem kerfið þekkti ekki og ekki hafði verið greiddar tryggingariðgjöld.

Forsvarsmenn þessara fyrirtækja stálu hluta réttmætum launum og kjörum þessa fólks og stakk í eigin vasa. Holland og Belgía voru fyrst landa til þess að skera upp herör gegn þessu með vinnustaðaskýrteinum og önnur lönd í norður Evrópu hafa fylgt á eftir. Þessu vill formaður framsóknar berjast gegn og verja með því réttindi óprúttinna manna til þess að fara illa með launamenn.

Þetta upplifðum við Íslendingar fyrst fyrir alvöru þegar uppbygging Kárahnjúka og álverksmiðju í Reyðarfirði hófust. Hingað voru fluttir launamenn í þúsundavís og þeim greidd laun sem voru oft um fimmtungur af umsömdum lágmarkslaunum. Aðbúnaður var allsendis óásættanlegur en þáverandi formaður Framsóknarflokksins fór samt upp til fjalla og lýsti því yfir í beinni útsendingu RÚV að þetta væru glæsilegustu vinnubúðir sem hefðu verið reistar á Íslandi og hann og eiginkona hefðu fullan hug a að flytja búsetu þangað.

Halldór Ásgrímss. tryggði þar með að þessum launamönnum var búinn ömurlegur vetur þar sem þeir reyndi að skýla sér m.a. með dagblöðum og fleira. Vinnu- Heilbrigðis- og Brunaeftirlit lokuðu búðunum, en ráðherrar Framsóknar opnuðu þær jafnharðan aftur. Fréttastofa RÚV var ekkert sérstaklega viljugt að flytja þær fréttir.

Hér á Suðvesturhorninu risu upp starfsmannaleigur og fyrirtæki sem seldu þjónustu erlendra manna á lágmarkskjörum. Starfsréttindi voru þverbrotin, menn voru seldir sem píparar einn daginn og rafvirkja hinn daginn og íbúðareigendur hafa undanfarinn misseri verið að kvarta undan lágum gæðum á þeim húsum sem þeir keyptu.

Þessa veröld svika og pretta, óvandaðra vinnubragða og verksvika auk illrar meðferðar á launamönnum vill Framsóknarflokkur verja. Líklega til þess eins að óprúttnir aðilar geta haldið áfram að svína á þessu aumingjans fólki.

Það er algjörlega óásættanlegt að einn stjórnmálaflokkur skuli ítrekað gegn vilja launamanna og nýta sér aðstöðu sína til þess að brjóta niður þau réttindi sem launamenn hafa löngum barist fyrir, með blóði, svita og tárum og vilji keyra kjör hérlendis enn neðar og framúr Framsóknar berst í raun með þessu fyrir því að auka atvinnuleysi meðal íslendinga.

Æskilegt væri að RÚV tæki upp vandaðri vinnubrögð þegar fjalla er um kjör og réttindi launamanna. Viðhorf launamanna í þessu eru vel þekkt en á því hefur RÚV ekki áhuga.

föstudagur, 14. maí 2010

Áframhald sýndarveruleika í framboði

Í komandi sveitarstjórnarkosningum hljóta fjármálin að vera á baugi. Það liggur fyrir að mörg sveitarfélög eru í mjög slæmri stöðu efir Hrunið. Þau höguðu eins svo margir tóku há lán fyrir framkvæmdum og uppfyllingu annarra kosningaloforða og sitja nú gengisfellingarsúpunni með tvöfaldar skuldir, hærri vaxtakostnað og hærra vöruverð.

Við þessar aðstæður hljóta kjósendur að kjósa stjórnmálamenn sem hafa styrk til þess að takast á við vandann og taka þær óvinsælu ákvarðanir sem fyrir liggja, og eru með rökstuddar hugmyndir um hvernig taka eigi að stöðunni án þess að það komi niður á grundvallarþáttum í velferðarþjónustunni. Vantraust á stjórnmálamönnum er áberandi þessa dagana, og hætta á að margir sitji heima og þeir sem fylgi sínum flokkum í gegnum hvað sem komi til með að ráða niðurstöðunni.

Árin fyrir Hrun gleymdu allmargir sér í sýndarveruleika, ekki síst þeir sem höfðu skapað það umhverfi sem fjárglæframenn fengu aukið svigrúm bankamenn. Stjórnmálamenn sem hrósuðu sér fyrir hin mikla uppgang og sóttu átkvæði undir merkjum sem klappstýrur og viðhlæjendur útrásarvíkinganna. Stilltu sér upp við hlið þeirra fyrir framan kastljósin og fóru síðan í laxveiðitúra og voru þátttakendur í glansboðunum sem útrásarvíkingarnir buðu upp á.

Við vorum ekki ríkasta þjóð í heim. Allur uppgangurinn var sýndarveruleiki, sem þessa daga er verið að leiðrétta með sársaukafullum hætti fyrir marga eins og t.d. lífeyrisþega. Réttindi voru hækkuð á forsendum sem engin innistæða var fyrir.

Nú skiljum við hvers vegna yfirmenn bankanna breyttu forsendum fyrir hinum ofsafengnu lánum sem þeir tóku til þess að kaupa hlutabréf í eigin bönkum og keyra hlutabréfin upp, þannig að þeir myndu aldrei þurfa að greiða þau tilbaka. Ef það hefði ekki verið ert hefðu þeir allir selt og svikamyllan hrunið. Eftir situr almenningur með skuldirnar, hækkaða skatta og gengishrun.

Nú blasir við okkur enn ein brellan. Stjórnarmeirihluti Reykjavíkurborgar státar sig að góðri afkomu OR á fyrsta ársfjórðungi. Þessi hagnaður kemur frá fjármálabraski, ekki orkusölu. OR er orðin höndum þessara aðila að vogunarsjóð, eins og öll stóru fyrirtækin sem útrásarvíkingarnir höfðu farið höndum um þau.

fimmtudagur, 13. maí 2010

Svarta-Péturskeppnin er að hefjast

Í viðræðum milli aðila vinnumarkaðs og hins opinbera í fyrra við gerð Stöðugleikasáttmála kom skýrt fram að hækkun skatta myndi draga úr framkvæmdum og umsvifum, sem svaraði til þess fjármagns sem ríkið drægi til sín. (Sama krónan er ekki notuð mörgum sinnum.)

Einnig var bent á það af hálfu ASÍ og SA að fyrirtæki og einstaklingar myndu ekki fara í neinar framkvæmdir fyrr en lánamarkaður væri orðin eðlilegur. Þar skipti mestu um að ljúka Icesave deilunni, Ísland myndi ekki líðast að standa ekki undir sínum skuldbindingum.

Afleiðingar þessa myndu bitna harðast á almenna vinnumarkaðnum í enn meiri samdrætti. Fyrir lægi að draga þyrfti umtalsvert úr útgjöldum ríkisins þegar vinna við fjárlög hæfist árið 2010 og það eina sem kæmi Íslandi til hjálpar í þessari stöðu væri að auka umsvifin í atvinnulífinu, auka verðmætasköpun og útflutningstekjur.

Ef það yrði ekki gert myndi hagkerfið dragast enn meira saman og við yrðum lengri tíma á dalbotninum og það yrði mun erfiðara að ná sér upp. Niðursveiflan yrði langvinnari.

Það er eins og stjórnmálamenn hafi ekki meðtekið þennan boðskap. Allt það versta hefur komið fram þetta, atvinnuleysi hefur aukist og er að aukast. Í spám hagdeilda ASÍ kemur fram að í stað þess að við myndum hefja uppgöngu úr dalbotni niðursveiflunnar næsta vetur, verður það í fyrsta lagi árið 2012.

Ríkisstjórnin hagar sér eins og fyrri ríkisstjórnir, hún vinnur ekki saman. Ráðherrar virðast álíta að þeir geti hver um höndlað með sín mál án samskipta eða samráðs við aðra og þeir beri svo sannarlega ekki ábyrgð á gerðum hvors annars. Þar fer hin stórfurðulegi sjávarútvegsráðherra fremstur í flokki.

Jóhanna lýsir vandræðum sínum prýðilega með kattasmölunar samlíkingunni, hún vill viðhafa eðlileg vinnubrögð en ráðherrar virða það ekki.

Í venjulegum löndum er það forsætisráðherra sem ber ábyrgð á þeim verkum sem ráðherrar taka sér fyrir hendur, sem leiðir til þess að ríkisstjórnin verður að vinna saman og bera sameiginlega ábyrgð á öllum verkum ráðherra. Gallar hins séríslenska fyrirkomulags blasa t.d. við okkur í dag í viðbrögðum (aðgerðarleysi) Geirs Haarde í aðdraganda Hrunsins.

Það er skelfilegt að horfa upp á ráðherra verða staðna að því að rjúka út með yfirlýsingar sem eru vanhugsaðar og valda enn meiri vandræðum. Þar má benda á inngrip umhverfisráðherra, sjávarútvegsráðherra og félagsmálaráðherra. Nærtækast er að benda á loforð um aðgerðir í erlendum lánamálum.

Vitanlega vill fólk trúa því að hægt sé að þurrka út skuldir og ráðherra lofar því, en svo kemur í ljós að það er líklega ekki framkvæmanlegt, það sem hann er búinn að lofa flyst einfaldlega yfir á ríkissjóð og lánafyrirtækin eru bara ánægð með það. En eftir yfirlýsingar félagsmálaráðherra er allt stopp, allir að bíða eftir töfrabrögðunum.

Engin ríkisstjórn hefur fengið jafnmikinn meðbyr og þessi. Allir aðilar vinnumarkaðs komu saman fyrir ári síðan og lýstu sig tilbúna til sameiginlegs átaks með stjórnvöldum til þess að takast á við vandann.

En ekkert gerist, hluti stjórnarþingmanna hefur varið síðasta ári í leik með stjórnarandstöðunni í mesta lýðskrumsflipp í aulabrandarakeppni og Morfísútúrsnúningum sem þessi þjóð hefur orðið vitni af og er þá seilst ansi langt í samlíkingu.

Nú blasir við hinn mikli múr nýrra fjárlaga. Mér virðist að það eina sem þingmönnum komi til hugar sé að leggja enn eina ferðina til atlögu við almenna vinnumarkaðinn. Þingmenn leggja ekki í niðurskurðinn. Þeir hafa ekki manndóm í sér til slíkra verka. Það kostar atkvæði. Í þessu sambandi má benda á að næsta vetur verður verkalýðshreyfinginn í fyrsta skipti frá Hruni í algjörri lykilstöðu til þess að ganga milli bols og höfuðs á stjórnmálamönnum, því þá standa Pálslögin ekki í veginum.

Nú liggur fyrir venjubundin Svarta-Péturskeppni þingmanna um hver sitji uppi með niðurskurðatillögurnar. Og þjóðinni mun blæða enn meir. Í skoðanakönnunum kemur fram að um helmingur þjóðarinnar hefur lýst fullkomnu vantrausti á íslenska stjórnmálamenn. Skrílslátum þeirra á Alþingi verður að linna.

miðvikudagur, 12. maí 2010

Fækkun ráðuneyta

Það er greinilega í uppsiglingu heilmikill darraðardans í kringum fækkun ráðuneyta, það blasir við í ummælum fyrrv. stjórnarþingmanna á Alþingi þessa dagana, t.d. fyrrv. aðstoðarmanns Geirs Haarde. Þeir eru að undirbúa varnir gagnvart sínum embættismönnum. Við munum líklega fá að heyra fullyrðingar á borð við pólitískar ofsóknir og fleira í þeim dúr eins og okkur var boðið upp á úr þeim ranni þegar bent var á að taka þyrfti til í Seðlabanka. Kerfið mun grípa til varna.

Það hafa ítrekað komið fram kvartanir hjá þeim sem þurfa að eiga samskipti við framkvæmdavaldið, eins og t.d. ASÍ og SA, yfir þeirri óheillavænlegu þróun sem átti sér stað á undanförnum áratug þegar ráðherrar og æðstu embættismenn fóru að virða Alþingi einskis.

Alþingi virðist vera til þess eins að afgreiða ákvarðanir sem nokkrir ráðherrar ásamt tilteknum embættismönnum höfðu þegar tekið án nokkurrar umræðu á Alþingi, samið um það lagafrumvarp og mættu svo með það á Alþingi og rúlluðu því í gegn. Svöruðu allri umræðu með útúrsnúningum og þrætubókarlist. Þar má reyndar vitna til ummæla nokkurra þáverandi stjórnarþingmanna, sem börmuðu sér yfir tilgangsleysi hlutverks sínu.

Velta því fyrir sér hvort sé afleiðing eða orsök. Gáfust ráðherrar og embættismenn upp á því að eiga vitræna umræðu í Alþingi, eða hefur umræðan á Alþingi þróast á þennan veg sakir þess að þingmenn upplifa tilgangsleysi sitt og hafa þá tamið sér tilgangslausa aulabrandara og bullumræðu eins og einkennir alla umræðu á Alþingi til þess að gera eitthvað, bara eitthvað?

Atburðir undanfarinna missera hafa flett ofan af hverri ormagryfjunni á fætur annarri. Hér ríkir klíkuskapur. Kerfið er spillt og snýst um að tryggja völd. Æðstu embættismenn taka hiklaust viljayfirlýsingar ráðherra og umturna þeim. Fjárlög í engu virt. Þessu þarf að breyta og gera "Kerfið" skilvirkara og öflugra. Það blasti við í upphafi Hrunsins hversu getulaust það var í raun.

Þjóðinni hefur margoft ofboðið vinnubrögð „Kerfisins“ og full þörf á að taka þar til. "Það var ríkið sem brást", hefur Páll Skúlason réttilega margoft bent á. „Ríkið á að setja reglur til þess að verja hagsmuni almennings og framfylgja þeim“.

Þar má einnig benda á ábendingu um vinnubrögð frá umboðsmanni Alþingis, þegar hann einnig benti á að lagasetningu Alþingis sé verulega ábótavant, allt að þriðjungur laga sem Alþingi setji stangist á við stjórnarskrá eða gildandi lög.

mánudagur, 10. maí 2010

Hlutabréfablaðran í boði endurskoðenda

Margir ræða þessa dagana um að koma þurfi atvinnulífinu af stað með því að koma hlutabréfamarkaðinum í gang. Þar á meðal eru þingmenn, meir að segja þingmenn sem gefa sig út fyrir að vera menntaðir á sviði efnahagsmála og hafa þekkingu á þessum málum.

Sjóðsfélagar eigendur almennu lífeyrissjóðanna spyrja á móti; Hvers vegna ættu lífeyrissjóðir að kaupa hlutabréf, jafnvel þó þau séu árituð af viðurkenndum endurskoðunarstofum?

Í Skýrslunni er sérstakur kafli um þátt endurskoðenda og greiningadeilda og þar er tekið þannig til orða að sérstakur saksóknari eigi erindi við endurskoðendur og þá ekki síst stóru endurskoðunarskrifstofurnar og hlýtur af gera sér ferð þangað. Endurskoðendur áttu stóran þátt í því sem gerðist.

Endalaus hækkun hlutabréfa sem engin forsenda var fyrir hafði margvíslegar afleiðingar. T.d. sýndarávöxtun í lífeyrissjóðunum sem engin forsenda var fyrir, sem olli því að réttindi voru hækkuð á grundvelli tilbúinna gufu, en þeir verða að leiðrétta núna.

Hlutabréfamarkaðurinn var í raun aldrei til. Hann gufaði upp og engin hlutabréf eru til. Ár eftir ár gekk hlutabréfamarkaðurinn, en bak við tjöldin unnu menn við að halda spilverkinu gangandi og héldu verði hlutabréfanna uppi og fengu fyrir það bónusa og premíur. Þessir menn plötuðu saklaust fólk með áritun viðurkenndra endurskoðunarstofa og umsögnum greiningardeild til þess að kaupa.

Þetta var gerviveröld, heimatilbúinn vandi, blaðra sem var blásinn upp af bankamönnum með aðstoð endurskoðunarskrifstofa og greiningardeildum. Plat sem gat ekki endað öðruvísi en að fjöldi manns myndi glata aleigu sinni og sjóðsfélagar lífeyrissjóða töpuðu hluta sparnaðar síns.

Innlend hlutabréf voru um 141 milljarðar af eigum almennu lífeyrissjóðanna, eða um 8% af eigum þeirra. Í dag eru þau metin á 30 milljarða. Í dag er það svo að engum grundvallaratriðum hefur verið breytt. Sama fólk er við stjórnvöliunn með sömu endurskoðunarfyrirtækin. Reikna með með því að fólk rjúki til og fjárfesti í hlutabréfum þessara fyrirtækja?

Svo eigum við að trúa því að það hafi verið tilviljun að lífeyrissjóður þessara manna rauk einn lífeyrissjóða til og seldi öll sín hlutabréf, korteri fyrir Hrun.

Fari þessi lífeyrissjóður með sína peninga út í atvinnulífið og kaupi hlutabréf, þá er kannski möguleiki á að einhverjir endurskoði stöðuna. En munu vitanlega fylgjast samtímis með því hvenær lífeyrissjóður þessara manna selur sín hlutabréf.

sunnudagur, 9. maí 2010

Einkennileg umræða

Hún er harla einkennileg umræðan þessa dagana um störf og ákvarðanir sérstaks saksóknara. Það er búið að vera ofarlega í umræðunni allt frá Hruni að það væri vilji þjóðarinnar að þeir sem höfðu haft í frammi sakhæft hátterni væru látnir bera ábyrgð.

Í umræðunni hefur verið áberandi að það muni ekki nást friður í þjóðarsálinni fyrr en þessi mál verði gerð upp. Það verði gert í alvöru, valdaklíkurnar komist ekki upp með eins við höfum vanist á undanförnum áratugum, að óþægilegum málum sé stungið undir stól og beitt þöggun. Flestir vörpuðu öndinni léttar þegar Skýrslan birtist, þar sem tekist var á heiðarlegan hátt við að greina það sem gerst hefði og hverjir hefðu verið þar aðalleikendur.

Nú koma fram einstaklingar sem er hægt að tengja við neikvæð atriði sem hafa verið í umræðunni, og fara mikinn við að saka aðra um refsigleði. Öll vitum við að fólk sem búið er missa heimili sín og er atvinnulaust er dómhart. Það er eðlilegt. En ég hef ekki séð annarsstaðar neitt sem stingur sérstaklega í augu.

Málið er í þeim farvegi sem við viljum, menn teknir til yfirheyrslu, ef eitthvað kemur fram sem talið er sakhæft fer málið lengra. Upphlaup þessara einstaklinga og fullyrðingar eru einkennilega ofsafengnar og reyndar umhugsunarverðar. Er verið að dreifa athyglinni eða hvað er í gangi?

Fjármálaráðherra bendir á að það sem haft sé eftir honum um málið séu ekki hans orð, heldur inngangur fréttamanns sem tók viðtal við hann. Þessi vinnubrögð ákveðinna fréttamanna þekki ég mjög vel. Þeir hafa samband þylja yfirmanni ekki spurningu, heldur fullyrðingu og maður svarar.

Síðan birtist fréttin í kvöldfréttum. Þar er inngangur fréttamanns oftar en ekki á þann að hann fer með fullyrðingu sína og klippa svo inn örstutt úr ummælum viðtalanda.

Fréttin litur þannig út að viðtalandi hafi sagt allt sem fram kemur í fréttinni. Ef maður hefur svo samband við fréttamann þá slettir hann bara í góm og segir, „Já Guðmundur ég veit það, en var þetta bara ekki svona“

Ég var einu sinni dæmdur fyrir meiðyrði í Héraðsdómi. Fyrir Hæstarétti var ég sýknaður að mestu á þeim forsemdum að Héraðsdómara var bent á, að það sem hann dæmdi mig fyrir hefði ég aldrei sagt. Það hefðu verið orð fréttamannsins.

En eftir stóð dómur fyrir annað sem ég hafði heldur aldrei sagt. Það var tilvitnun úr fundargerð sem ég birti á heimsíðu Rafiðnaðarsambandsins, sem túlkur hafði skrifað og hafði verið staðfest af verkstjórum og trúnaðarmönnum á Kárahnjúkasvæðinu.

laugardagur, 8. maí 2010

Sumir eru séra Jónar í lífeyrisréttindum

Samkvæmt útreikningum hagdeildar Samtaka atvinnulífsins má leggja umframlífeyriskjör þingmanna að jöfnu við 23 - 35% mánaðarlega launauppbót. Umframlífeyriskjör ráðherra sem gegnir embætti í þrjú kjörtímabil eru ígildi um 85 -102 millj.kr. starfslokagreiðslu og 66 - 79% mánaðarlegrar launauppbótar.

Umframlífeyriskjör forsætisráðherra sem situr í tvö kjörtímabil eru ígildi 113 millj. kr. starfslokagreiðslu eða 122% launauppbótar. Þegar samið er um laun á almennum markaði er ætið tekið mið að heildarlaunakostnaði fyrirtækjanna. Þegar þingmenn fjalla aftur á móti um sín launakjör fjalla þeir ætíð einungis um lágmarkslaunataxta, þ.e.a.s. þingfararkaup um hálfa milljón kr. Í raun eru laun þingmanna helmingi hærri eða um 1 millj. kr. á mán. að jafnaði og laun ráðherra liðlega 2 millj. kr.

Það er gífurlegt ósamræmi á milli þeirra lífeyriskjara sem lögfest hafa verið hér fyrir almenning í landinu og fyrir opinbera starfsmenn í A-deild lífeyrissjóða og hins vegar þess sem Alþingi hefur lögfest fyrir sína þingmenn og ráðherra. Þar er í mörgum tilfellum um að ræða stærstu og dýrustu starfslokasamninga sem um getur hér á landi. Þetta er gríðarlega dýrt fyrir skattborgara landsins. Í fjárlögum hvers árs er veitt háum fjárhæðum til að greiða niður þessar skuldbindingar sem þar hafa hrannast upp, en það dugar það hvergi nærri til að halda í horfinu.

Þessar skuldbindingar eru á áttunda hundrað milljarða króna þrátt fyrir að B-deildinni hafi verið lokað 1997, en þetta er svo enn í gangi í svokölluðum lífeyrissjóði alþingismanna og ráðherra. Það myndast engin ró og sátt um laun sem falla undir kjaradóm og kjaranefnd á meðan við lýði eru sérkjör af þessu tagi.

Í dag ávinna launamenn í almennum lífeyrissjóðum sér árlega lífeyrisrétt sem nemur frá 1.2% til 1,47%.

Fyrir sama iðgjald ávinna ákveðnir ríkisstarfsmenn sér lífeyrisrétt sem nemur um 1,9%. Það er 20% hærri réttindi en sjóðfélagar í almennu lífeyrissjóðanna afla sér.

Réttindastuðull þingmanna er í dag 3% og þeir ætla að lækka hann í 2,4% af launum. Þingmenn eru 29 ár að ávinna sér 70% eftirlaunarétt. Almennir launamenn eru 41 ár að ávinna sér 56%.

Réttindastuðull ráðherra þegar búið er að lækka ávinnslustuðul úr 6% í 4,8% af launum. Ráðherrar eru þar með 14,5 ár að ávinna sér 70% eftirlaunarétt og þurfa eftir það ekki að greiða af launum sínum í lífeyrissjóð svo fremi þeir greiði í lífeyrissjóð opinberra starfsmanna.

Til samanburðar má geta þess að þá hafa sjóðfélagar almennu sjóðanna unnið sér inn að meðaltali um 16% lífeyrisrétt eftir 14,5 ára greiðslu í sjóðinn.

Svo ótrúlegt sem það nú er, þá gerir hæstvirt Alþingi ekki ráð fyrir að þingmenn og ráðherrar eigi launalíf fyrir þingsetu á þessum forsendum hrifsa þeir til sín 70% lífeyrisrétt á umtalsvert styttri tíma en aðrir þegnar þessa lands. Þingmenn í öðrum löndum hafa verið að breyta þessu má þar t.d. benda á Noreg. Í þessu sambandi má minna með hvaða rökum þingmenn tóku sér hin alræmdu eftirlaunarlög, með hvaða rökum þeir vörðu þau og hvað það tók langan tíma að vinda ofan af þeim, sem tókst reyndar ekki alveg.

föstudagur, 7. maí 2010

Óvönduð vinnubrögð í lífeyrissjóðsmálum

Sífellt blasir betur við launamönnum á almennum vinnumarkaði það gríðarlega ójafnræði sem stjórnmálamenn hafa búið launamönnum á almennum markaði í lífeyrismálum. Á sama tíma og starfsmenn almenna vinnumarkaðarins hafa þurft að taka á sig skerðingu lífeyrisréttinda hafa lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna aukist, þrátt fyrir slælega ávöxtun Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins.

Á almennum vinnumarkaði þurfa lífeyrissjóðir að rísa undir skuldbindingum sínum og skerða réttindi þegar illa árar en opinberu sjóðirnir eru með ótakmarkaða ábyrgð launagreiðenda og þar með skattgreiðenda.

Launamaður á almenna vinnumarkaðinum þarf að taka á sig tvöfalt högg vegna fjármálakreppunnar. Annars vegar rýrnun lífeyrisréttinda og hins vegar stórauknar skattaálögur til að standa undir ósjálfbæru lífeyriskerfi opinberra starfsmanna. Að óbreyttu verður reikningurinn fyrir þessu verður sendur til skattgreiðenda. Halli b- deildar og a-deildar er á sjötta hundrað milljarða. Það þýðir að það þurfi að hækka skatta um 4 prósent til að standa undir þessu. Verði hin barnalega tillaga sumra þingmanna um að leggja sjóðinn niður og fjármagna hann sem gegnumstreymissjóð, mun vandinn verða einfaldlega ennþá stærri og kalla á enn meiri skattahækkanir.

Aðildarsamtök ASÍ sömdu við SA árið 2000 um aukin framlög til lífeyrisréttinda með það að markmiði að jafna réttindi á við opinbera starfsmenn. Deila um óréttláta misskiptingu landamanna hvað lífeyrisréttindi varðar hafði þá staðið yfir um árabil og viðhorf samtaka opinberra starfsmanna hafði jafnan verið ,,að jafna ætti kjörin upp á við‘‘.

Með samkomulaginu við SA árið 2000 vildu félagsmenn ASÍ jafnframt koma á ákveðnum sveigjanleika í sínum réttindum þannig að þeir gætu flýtt starfslokum sínum án skerðinga á grunnréttindum – en ríkið hafði áður samið um lægri lífeyrisaldur fyrir þá ríkisstarfsmenn sem aðild áttu að tilteknum samtökum opinberra starfsmanna.

Þessi tilraun til jöfnunar réttinda tókst ekki, því strax í kjölfarið samdi ríkið við samtök opinberra starfsmanna um að bæta þessum réttindum ofan á þau réttindi sem fyrir voru, í stað þess að gefa færi á auknum sveigjanleika innan kerfisins. Því má segja að aðferðafræðin um ,,að jafna ætti kjörin upp á við‘‘ hafi fallið um sjálft sig og eftir stendur það veigamikla verkefni að jafna lífeyrisrétt landsmanna. Nú hefur komið fram að á hinum miklu þenslutímum greiddu þáverandi ríkisstjórnir ekki iðgjöld til lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna, en samt stóðu þeir hinir sömu gleiðfættir í fjölmiðlum og sögðust vera með nánast skuldfrían ríkissjóð. Hann virðist vera óendanlegur sá blekkingarleikur sem hinir vanhæfu þingmenn hafa búið almenningi þessa lands.

Þetta ástand er algjörlega óásættanlegt og þessi sýndarveruleiki er komin að leiðarlokum. Sá mikli munur sem er á lífeyrisréttindum á almennum vinnumarkaði og hjá hinu opinbera fær ekki staðist, á næstu árum munu stóru barnasprengjuárgangarnir skella á lífeyrissjóðunum og þá verður ríkissjóður að reiða fram þá hundruð milljarða sem inn í kerfið vantar.

Víki þingmenn sér enn einu sinni undan því að taka á þessum vanda nú, mun það einvörðungu leiða til þess að vandinn verður enn stærri. Vaxandi vilji er innan verkalýðshreyfingarinnar að í komandi kjarasamningum í haust verði þessi mál leidd til lykta og launamenn beiti öllu sínu afli til þess að þrýsta á stjórnvöld um viðunandi lausn.

þriðjudagur, 4. maí 2010

Lífeyrissjóðirnir þeir einu sem eftir standa

Í áhugaverðri grein Gylfa Arnbjörnssonar á Pressunni um lífeyrissjóðina kemur m.a. fram :

Í skýrslu Fjármálaeftirlitsins um ársreikninga lífeyrissjóðanna fyrir árið 2008, en tölur fyrir síðasta ár liggja ekki ennþá fyrir, kemur margt forvitnilegt fram sem vert er að skoða. Þar má sjá nafnávöxtun sjóðanna eftir því hvort um lífeyrissjóði með ábyrgð launagreiðenda (að mestu opinberu lífeyrissjóðirnir), lífeyrissjóðanna á almennum vinnumarkaði og ,,frjálsu‘‘ lífeyrissjóðina.

Opinberir líf.sj. eru með -8.5% , en Alm. líf.sj. eru með -8.5% og hinir svokölluðu ,,Frjálsu líf.sj.‘‘ eru með -15,5%


Áfallið vegna fjármálahrunsins virðist mun minna hjá þeim sjóðum, sem starfa á grundvelli kjarasamninga þar sem stjórnir eru kosnar af hálfu verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda, en þessara svokölluðu ,,frjálsu‘‘ lífeyrissjóða þar sem stjórnir eru kosnar á ársfundum beint. Neikvæð nafnávöxtun þeirra fyrrgreindu var 8,5% á meðan þeir síðarnefndu voru með neikvæða nafnávöxtun um 15,5%.

Rétt er að skoða þessar tölur um neikvæða nafnávöxtun sjóðanna á árinu 2008 í samhengi við það að stór hluti fjármálakerfisins á Íslandi hrundi – hvort heldur um var að ræða banka, sparisjóð, fjárfestingarfélag, eignarhaldsfélag eða aðra fjármálaumsýslu. Öll þessi fyrirtæki fóru ekki bara á hausinn heldur töpuðu þau bróðurparti eigna sinna.

Þannig má ætla m.v. mat skilanefndanna að bankarnir hafi tapað um 65-70% af öllum eignum sínum og Landsbanki Íslanda trúlega nærri 80%! Séð í þessu samhengi er ljóst að lífeyrissjóðirnir eru í raun eini hluti fjármálakerfisins sem ennþá stendur uppi, þrátt fyrir áföll. Það eru þeir sem standa ennþá uppi – nánast öll hin fjármálafyrirtækin eru í gjaldþrotameðferð.

Hvert vorum við kominn?

Það vefst örugglega fyrir mörgum hversu langt við vorum í raun kominn frá því þjóðfélagi sem almenningur lagði allt í sölurnar við að byggja upp fyrri hluta síðustu aldar. Skýrslan opinberar þessar staðreyndir fyrir öllum.

Reyndar ekki öllum, ekki þeim sem stóðu fremst í að móta þessa stefnu og dásömuðu hana langt fram yfir Hrun og réttlæta enn í dag gjörðir sínar með fáránlegum málflutning. Það er á vissan hátt skiljanlegt, sé málið skoðað frá því sjónarhorni að þeim er um megn að horfast í augu við afleiðingar gjörða sinna. Þúsundir heimila í rústum.

Málflutningur þessarar aðila opinberar fyrir manni hverskonar fólk var komið hér í efstu þrep. Fólk sem opinberar í hverju viðtalinu á fætur öðru þekkingarleysi sitt á grunngildum þess samfélags sem við vildum byggja upp. Vandaða efnahagsstjórn og samtryggingu.

Það er skiljanlegt að 40% íslendinga neiti í dag að svara þegar það er spurt um stjórnmálaskoðanir sínar í skoðanakönnunum og stór hópur segist ætla frekar að kjósa grínhóp. Agaleysi, frekja, tillitsleysi var að verða viðtekinn venja sem afleiðing þeirra stjórnarhátta sem endurkosnir voru.

Áberandi er í málatilbúnaði þeirra sem leiddu yfir þjóðina hið efnahagslega hin stórfurðulega „skuldajöfnun“. Ef einhver gerði meira rangt en ég, þá er ég með mitt á hreinu. Ef það var ekki bannað, þá var það í lagi. Öllu siðferðislegi mati, heiðarleika og tillitsemi til náungans var kastað á glæ.

Hér má t.d. vitna til orða eins af fyrrverandi ráðherrum og svokölluðum styrkjakonungi „Þetta voru þær leikreglur sem voru í gildi á þeim tíma og það er ekkert hægt að fullyrða um hver hafi verið með mestu styrkina eða stærsta prófkjörið. Það bara vitum við ekki.“ Hvers lags málflutningur er þetta? Það er semsagt í lagi í huga manns sem var hér einn af þeim valdamestu í því samfélagi sem verið var að setja saman. Það er örugglega til eitthvað verra og þess vegna er í lagi að hann hagi sér með þessum hætti.

Minna má á að hann hefur gjarnan tekið þannig til orða að þeir sem ekki séu honum sammála "séu á móti öllu sem íslenskt er." Annað algegnt orðatiltæki úr sömu átt, þeir sem ekki eru sammála hans málflutning eru vinstri menn, thalibanar. Aldrei komu málefnaleg svör.

Og nú segir hann „Á sama hátt er lífsnauðsynlegt fyrir þessa þjóð að horfa fram á veginn og fara að taka á þeim verkefnum sem fram undan eru.“ Á mannamáli þýðir þetta svar ;“Ég get ekki svarað málefnalega fyrir gjörðir mínar, ég hef ekki getu til þess, svo við skulum bara tala um eitthvað sem er í framtíðinni. Flóttinn frá sannleikanum og vörnin við að upplýsa eigið getuleysi.

Var Hrunið virkilega nauðsynlegt íslensku samfélagi?

mánudagur, 3. maí 2010

Lífeyrisgreiðslur eru verðtryggðar og breytast mánaðarlega


Í Morgunblaðinu var nýlega fyrirsögn slegið upp þess efnis að „LSR hækkar lífeyrir“ á sama tím og aðrir eru almennt að lækka. Í þessu felst hálfur sannleikur. Rétt er að LSR mun ekki lækka réttindi þrátt fyrir halla á A-deild enda ber honum ekki samkvæmt lögum að gera það. Það sem ekki kemur fram er að aðrir lífeyrissjóðir hafa líka hækkað lífeyrisgreiðslur og það mánaðarlega í takt við vísitölu neysluverð.

Lífeyrisgreiðslur eru verðtryggðar og því hækka þær nánast undantekningarlaust á milli mána, nema í þeim tilfellum sem verðhjöðnun mælist. Ég bað starfsmenn lífeyrissjóðs rafiðnaðarmanna að setja saman mynd sem sýndi þróun lífeyrisgreiðslna hjá félagsmanni í Rafiðnaðarsambandinu sem hafði nálægt lágmarkslaunum rafiðnaðarmanna í byrjun aldarinnar, eða 125.000 kr. í mánaðarlegan lífeyri 2001 og þróun lífeyris hans á samanburðargrunni við vísitöluneysluverðs og launa.

Myndin sýnir að lífeyrisgreiðslur hafa hækkað um 44% umfram verðlag á tímabilinu 2001 til 2009 og 37% umfram almennar launahækknair á sama tíma. Á þessu tímabili hafa lífeyrisgreiðslur hækkað í tvígang vegna réttindahækkunar sem rekja má til breytinga á réttindakerfi og úthlutunar umframeignar sjóðsins við sameiningu Lífiðnar og Samvinnulífeyrissjóðsins sem mynduðu Stafi lífeyrissjóð. Þá sýnir myndin hvernig 6% skerðing réttinda 2009 hafði áhrif til lækkunar að sama skapi.

Árleg kaupmáttaraukning lífeyris reiknast því 4,2% þrátt fyrir 6% skerðingu 2009. Í dag er viðkomandi einstaklingur með 265.000 í mánaðarlegan lífeyri og þarf ef tillögur stjórnar ganga eftir að búa sig undir 10% lækkun í fjórum 2,5% skrefum sem sýnd eru á meðfylgjandi mynd.

Á þessari mynd er reiknað með 3,5% verðbólgu á næstu 12 mánuðum, sem dregur úr 10% lækkun í krónum talið og ef verðbólgan verður hærri gæti viðkomandi einstaklingur allt eins endað á svipuðum lífeyri eins og gerðist þegar síðast breyting var gerð. Ef tillaga stjórnar um 10% skerðingu í þrepum verður samþykkt á ársfundi Stafa reiknast hækkun að teknu tilliti til 10% skerðingar enn þá 25% umfram verðlag og 22% umfram laun á tímabilinu. Það er að sorglegra en tárum tekur að horfast í augu við skerðingu réttinda, en svikamylla bankanna og fall þeirra með tilheyrandi áhrifum á atvinnulífið er staðreynd.

Gott Silfur

Var að hlusta á endurflutning Silfursins, fannst það áhugavert. Margt af því sem þar kom fram er einungis staðfesting á mörgu af því sem þegar er komið fram og búið að benda á í nokkurn tíma, eins og Þorvaldur benti réttilega á. Undir háði og spotti háttsetra embættis- og stjórnmálamanna.

Það er rétt sem Þorvaldur talar um að Rannsóknarnefndin á að starfa áfram. Það er ekkert nýtt að stjórnmála- og embættismenn hagi sér rangt og gegn hagsmunum íslensk almennings. Dæmin blasa við, t.d. aðdraganda kvótakerfisins. Eftirtektarverð ábending á pólsku aðferðina um endurskoðun á eftirlaunagreiðslum.

Það er einnig rétt það sem William K. Black benti á hversu barnaleg og reyndar fáránleg sú afsökun sem Sjálfstæðismenn hafa hangið á að Hrunið hér heima sé vegna misferlis í bandarískum bönkum. Enginn vafi leiki á að gríðarlegum bókhaldssvikum íslensku bönkunum undir fagnaðarlátum klappstýra úr embættis- og þingmannaliðinu.

Stjórnmálakerfið er að hrynja vegna aðgerðarleysis og getuleysis til þess að horfast í augu við eigin gjörðir. Nú er bara að vona að almenningur hafi úthald til þess að taka með festu á þessu. Stjórnmálamenn munu klárlega reyna einsog svo oft áður þegja þetta af sér.

laugardagur, 1. maí 2010

Fín spilling hjá xD

Sé litið umræðunnar undanfarið þá finnst manni bara eðlilegt að Sjálfstæðisflokkur sé spilltur og fái mikla styrki og hægt sé að kaupa þingmenn flokksins. Eins og kemur fram í Skýrslunni þá er ekki heil brú í málflutningi þingmanna flokksins í aðdraganda Hrunsins. Allur málflutningur einkennist af útúrsnúningum, aulabröndurum og þrætubókalist ættaðri úr Morfís keppnum.

Í dag blasir við öllum í dag hversu mikið þekkingarleysi var innan flokksins á efnahagsstjórn og peningastefnu og allt snýst um baráttu um völd og viðhalda óbreyttu umhverfi útgerðar og eignatilfærslum frá almenning til fárra í skjóli krónunnar.

Ef við lítum til umræðunnar nær okkur í dag t.d. um Icesave, þá blasir þetta einnig við, og það sem verra er þingmönnum Flokksins finnst bara í fínu lagi að 18.000 manns séu atvinnulausir og þeim sé að fjölga, þær halda áfram bullræðum sínum um Icesave í þinginu.

Flokkurinn hefur fengið sinn fasta stuðning ákveðins hóps kjósenda þó svo þetta hafa blasað við og hvers vegna ætti hann að breyta til. Allir hjá flokknum hafa það fínt í embættum og á styrkjum. Flokkurinn vill vera gjörspilltur áfram eins og kemur fram í ummælum þingmanna og starfsmanna Flokksins, þeir ætla ekki að breyta um stefnu og það er bara fínt. Þá vitum við hvar spillta fólkið er samankomið.

En maður gerir meiri kröfur til VG og Samfylkingarinnar og Samfylkingin er bara ekki í góðum málum. Hún verður að gera hreint fyrir sínum dyrum og það fljótt. Það þarf ekki einhverja nefnd til þess að skera út úr um þau mál.