laugardagur, 28. febrúar 2009

Loksins

Við erum stundum að velta því fyrir okkur fólkið sem ég hitti á kaffistofunni þar sem ég starfa og hér heima hvort þingmenn Sjálfstæðismanna ætlist til þess að maður trúi þeim eða hvort þeir séu bara að bulla svona eitthvað sem þeim dettur í hug þegar þeir eru að tala um einhverjar ofsóknir í garð þeirra og pólitískt ofbeldi. T.d. það sé verið að semja lög til þess að reka einn mann, þegar allir vita að það er ekki bara Davíð sem hefur sýnt okkur fram á að að vera fullkomlega vanhæfur, heldur ekki síður þeir sem eru í stjórn Seðlabankans. T.d. eins og kvæðabálkurinn Halldór Blöndal og íslenska efnahagsundrið Hannes Hólmsteinn.

Flokkur sem búinn er að sýna ótrúlegt ofbeldi gagnvart þjóðinni t.d. við setningu eftirlaunalaga og hefur þrátt fyrir kröfur allrar þjóðarinnar þvertekið fyrir að draga þau til baka. Gerði okkur að stríðfélögum Bush. Vék sér undan stjórnarskránni og bar ekki fjölmiðlalög undir þjóðina. Eða þá skipan hæstaréttardómara, héraðsdómara, prófessors í Háskólann og svo síðast en ekki síst hina 9 litlu sendiherra Davíðs. Flokkur sem hefur stjórnað efnahagsmálum undanfarna 2 áratugi og eftir standa rústir einar.

Það þurfti að setja hryðjuverkalög í Bretlandi og allar Norðurlandaþjóðirnar ásamt Bandaríkjunum að þverneita að lána okkur fjármuni nema við féllumst á að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn tæki okkur í gjörgæslu til þess að koma þingflokki Sjálfstæðismanna í skilning um að þetta gengi ekki lengur. Þrátt fyrir allt þetta þráast þeir við og hún var hreint út sagt sárgrætileg og ekki boðleg skýringin sem fyrrv. fjármálaráðherra gaf í gær þegar Bretarnir tóku hann í bakaríið, eða þá þegar Davíð hélt því fram að það væri ekkert að marka einhverjar skoðanakannanir þær væru bara samdar á skrifstofum Baugsmiðla og hann hefði ekkert gert til þess að verðskulda svona meðferð.

En Jóhönnu er að takast að losa okkur við brennuvargana. Takk fyrir Jóhanna.

föstudagur, 27. febrúar 2009

Er botninum loks náð?

Hin róttæka og umfangsmikla frjálshyggjuvæðing staðið hefur yfir undan farin 18 ár er orðin íslendingum æði dýr. En dauðateygjurnar sem hafa staðið yfir síðan í nóvember hafa dregið öll viðbrögð og aukið kostnaðinn enn meir.

Nú skammast frjálshyggjumenn sín fyrir sín verk og sverja þau öll af sér, eins og komið hefur fram í viðtölum undanfarnar vikur. Þar þeir bera af sér alla sök og ganga svo langt að kenna öðrum flokksfélögum sínum sem hafa verið í ríkisstjórn nú síðustu ár um allt. Allir að Seðlabankinn ber ábyrgð á fjármálastöðugleika og hefur frá árinu 2001 haft full yfirráð yfir þeim stjórntækjum sem þarf til að bregðast við þróun á fjármálamarkaði. Mistök Seðlabankans eru að hafa ekki brugðist við.

Sömu menn hafa haldið á lofti ranghugmyndum um Evrópusambandið og staðið í vegi fyrir viðræðum. Þar hefur ráðið ríkjum óttinn við að missa völd. Og það eru sömu menn sem standa í vegi fyrir því að sett verði á laggirnar Stjórnlagaþing. Þeir vilja viðhalda ráðherraræðinu.

Það er einungis ein leið að losna, það er að skipta um gjaldmiðil og fara inn í umhverfi þar sem ekki eru hinar ofsafengnu sveiflur krónunnar, þegar stjórnvöld eru að leiðrétta of há laun blóðsúthellingalaust með gengisfellingum eins og Hannes Hólmsteinn segir þegar hann er að reyna að réttlæta krónuna og efnahagstefnu sína.

Ef við ætlum að vinna á verðbólgu, verðlagi, vöxtum og þá um leið verðtryggingu er nauðsynlegt að breyta viðhorfum manna til alþjóðlegrar samvinnu og þeirri ranghugmynd á lofti að Evrópusambandið sé botnlaus félagshyggja. Frjálshyggjan hefur verið hér við völd í 18 ár, eftir hana er sviðin jörð, gjaldþrota fyrirtæki og heimili og á þeim vanda verður að taka.

Erum við loksins búin að ná botninum og höfum viðspyrnu til þess að komast af stað upp.

Og allir spyrja milljón dollara spurningarinnar. Hvers vegna settu stjórnvöld ekki allt bankakerfið í hendurnar á efnahagsbrotadeild strax í haust? Þar hefði t.d. verið hægt að fá aðstoð frá Noregi eins og ríkisstjórnin gerði hvað varðar upplýsingamál. Er það rétt eins og Davíð gaf í skyn að það sé vegna þess að stjórnmálaflokkanrir og tilteknir stjórnmálamenn þoli ekki að flett sé ofan af öllu bixinu?

fimmtudagur, 26. febrúar 2009

Starfsemi stéttarfélaganna

Hef undanfarnar vikur verið á ferð um landið til þess að hitta rafiðnaðarmenn og fara yfir ástandið á vinnumarkaði og hver sé afstaða þeirra til endurskoðunar kjarasamninga. Búinn að halda 15 fundi með tæplega 500 félagsmönnum. Þar hefur verið ráðandi það viðhorf að okkur beri fyrst og fremst að verja atvinnustigið. Það blasi við öllum uppsagnir og launalækkanir og verkalýðshreyfingin eigi að leggja áherslu á að byggja upp atvinnulífið.

Á grundvelli þessa er einkennilegt að sumir telja sig þess umkomna að krefjast þess að forystumenn stéttarfélaga, sem eru með svona samþykktir bak við sig, gangi þvert á þær og berjist fyrir samþykktum annarra stéttarfélaga, (sem eru með um 7% félagsmanna ASÍ, samkvæmt nýjustu greiningum sem ég hef séð), eins og komið hefur fram í fjölmiðlum undanfarið, þá sérstaklega fréttastofu Sjónvarpsins

Það vekur ætíð athygli mína hversu mikill munur er á þeim viðhorfum sem koma fram á félagsfundum borið saman viðhorf í bloggheimum. Það mikla svartnætti, dylgjur og útúrsnúningar sem mætir manni í bloggheimum, sérstaklega í athugasemdadálkum, hefur leitt til þess að það fækkar sífellt í þeim hópi sem ekki les athugasemdir. En stundum fín innlegg í athugasemdadálkunum. En sé fjöldi athugasemda borin saman við lestur t.d. þessarar bloggsíðu þá eru þær um 0.1%.

Reyndar má segja það sama um sumar af þeim skoðunum sem settar eru fram í pistlum á bloggsíðum, t.d. þegar menn slöngva hiklaust fram pistlum með fullyrðingum þar sem við blasir að viðkomandi hefur ekki minnstu þekkingu á því um er fjallað. T.d. eins og þetta sem birtist hér á Eyjunni fyrir nokkrum dögum :“Það er írska alþýðusambandið sem stendur fyrir fjölmennum mótmælum í Dublin. En á Íslandi heyrist lítið sem ekkert frá ASÍ – nema helst þegar þeim finnst að lífeyrisjóðunum sé ógnað.“

Það hefur ítrekað verið kvartað undan því sérstaklega meðal þingmanna, ráðherra og nokkurra embættismanna, að verkalýðshreyfingin sé að skipta sér af of mörgum hlutum. Þetta hefur ítrekað komið fram í fréttum og ætla má að sá sem þetta skrifar fylgist ekki sérstaklega vel með.

Á fundum innan verkalýðshreyfingarinnar hafa félagsmenn oft verið spurðir hvort verkalýðshreyfingin eigi ekki að vera virkari þátttakandi í þeim mótmælum sem hafa t.d. farið fram á Austurvelli. Á þeim fundum sem ég hef setið hefur því verið harkalega mótmælt og tillögur þar að lútandi felldar. Menn hafa talið að það sé í lagi að styðja vel við bakið á þeim sem að fundunum hafa staðið, gera þá mögulega og hvetja fólk til þess að mæta, en láta þar við sitja.

Það fer fram gríðarlega mikið starf á vegum stéttarfélaganna, sem sjálfsagt margir sem ekki eru þátttakendur átta sig á, alla vega þeir sem halda því fram að verkalýðshreyfingin geri ekkert. Fyrirferðarmesta starfsemin fer fram í gerð og viðhaldi kjarasamninga ásamt vinnu við að leysa úr hnútum sem upp koma á vinnustöðum, túlkun og að verja réttindi fólks. Þar á eftir er fyrirferðamikill þáttur að verja réttindi fólks sem lendir í slysum og veikindum, finna út úr bótarétti og afgreiða styrki frá sjúkrasjóðum og sækja réttindi til tryggingarfélaga eða vinnuveitenda.

Þar á eftir er starfsfræðsla í atvinnulífinu. En stéttarfélögin reka í samvinnu við fyrirtækin mjög umsvifamikla starfsemi í fagtengdum námskeiðum og námskeiðum í stjórnum og samskiptum á vinnumarkaði. T.d voru um 1.000 nemendur innan þess kerfis í rafiðnaðargeiranum á síðasta ári. Í þessu kerfi er auk þess umfangsmikil starfsemi meðal iðnaðarmannafélaganna sem tengist námssamningum, sveinsprófum og endurnýjun námskráa.

Stéttarfélögin þurfa að leggja fram umsagnir við frumvörp og reglugerðir og vera þátttakendur ásamt ráðuneytum í mótun og þróun vinnumarkaðarins. Í því sambandi má benda á umfangsmikla hagdeild og lagadeild ASÍ.

Og í lokin má benda þeim sem velta þessu fyrir sér að lífeyrissjóðirnir eru með sérstakar skrifstofur samkvæmt landslögum. En málefni þeirra eru til umræðu á öllum fundum innan verkalýðshreyfingarinnar, enda vill svo til að félagsmenn stéttarfélaganna eru sjóðsfélagar og reyndar líka kjósendur.

Fólki sem ekki hefur komið inn á skrifstofur stéttarfélaga og kannski aldrei verið virkur félagsmaður í stéttarfélagi, veit sannarlega lítið um starfsemina og ætti að láta vera að slöngva ítrekað fram einhverjum sleggjudómum um starfsemi og ekki síður starfsfólk launamanna.

Losun séreignarsparnaðar

Fékk þessar 2 spurningar varðandi séreignarsparnaðinn varðandi grein frá því desember. Birti þessvegna svarið hér

1- Ef séreignarsparnaður verður laus til útborgunar, er hann þá ekki aðfararhæfur skv. lögum ef eigandinn fer í þrot?
2- Geta þá ekki sjálfstætt starfandi menn skotið peningum úr rekstri sínum inn í séreignasparnaðinn, farið á hausinn og tekið hann svo út þegar búið er að gera upp?


Ég veit til þess að lögfræðingar eru að skoða ákvæðin, en í frumvarpinu segir í 5. mgr. 3.gr. að “Skuldheimtumönnum er óheimilt að krefjast þess að skuldarar taki út séreignarsparnað sinn samkvæmt þessu ákvæði, sbr. 2. mgr. 8. gr.” Með þessu er ætlað að koma í veg fyrir að séreignin verði aðfarahæf.

En fljótt á litið virðist ekkert því til fyrirstöðu að sjálfstætt starfandi menn borgi sér stórar upphæðir í séreign. Skattstjóri gæti mögulega gert athugasemdir ef séreignagreiðslan er ekki í samræmi við laun viðkomandi.

Skiptastjóri í þrotabúi gæti túlkað það sem undanskot eigna og krafist þess að greiðslan yrði tekin til baka. Lífeyrissjóður gæti hafnað móttöku á stórum séreignargreiðslum ef það er augljóslega verið að skjóta undan eignum. Lífeyrissjóðum er skylt að kanna greiðslur er gætu fallið undir lög um peningaþvætti.

Þetta er áhugaverð pæling og þörf í þessu umhverfi. Hingað til hafa þessir aðilar verið tregir til að borga í lífeyrissjóði, en a.m.k sumir þeirra hafa farið fram og krafist þess að lífeyriseign sjóðsfélaga sé nýtt til þess að greiða upp skuldir annarra. Það væri sannarlega kaldhæðnislegt ef aðfarahæfið yrði til þess áhugi þeirra vaknaði á lífeyrissparnaði.

Vanhæfni Davíðs

Barst þetta bréf :

Í Kastljósviðtali varpaði formaður stjórnar Seðlabanka Íslands fram efnislega röngum staðhæfingum um bindiskyldu lánastofnana og áhrif þeirra. Hvort sem skýringin er vísvitandi afflutningur staðreynda eða vanþekking á stjórntækjum Seðlabankans hljóta að vakna alvarlegar spurningar um faglegt hæfi viðkomandi til að stýra lykilstofnun í viðhaldi fjármálastöðugleika:

Í fyrsta lagi hélt seðlabankastjóri því fram að helmingslækkun bindisskyldu lánastofnana í áföngum árið 2003 hafi verið vegna Evrópureglna og ýjaði að því að vegna þess hafi stjórn Seðlabankans ekki átt þess kost að beita þessu lykilstjórntæki við að hemja ofvöxt banka.

Þetta er rangt eins og sjá má í 11. gr. laga um Seðlabanka Íslands þar sem heimildir hans eru útlistaðar og óskertar. Enda segir orðrétt í tilkynningu Seðlabankans um lækkun bindisskyldunnar 28. febrúar 2003: "Seðlabanki Íslands hefur á undanförnum árum stefnt að því að búa, eftir því sem aðstæður leyfa, íslenskum lánastofnunum starfsumhverfi sem er sambærilegt því sem tíðkast í flestum Evrópuríkjum."

Lykilatriðin eru að þetta er stefna Seðlabankans sjálfs og að samræmingin verði "eftir því sem aðstæður leyfa". Þegar frá leið blasti við að hér voru að skapast allt aðrar og alvarlegri aðstæður en í nágrannalöndunum með vaxtarhraða bankakerfisins langt umfram það sem eðlilegt var og verðbólgu umfram vikmörk.

Í öðru lagi hélt seðlabankastjóri því fram að beiting bindisskyldu hefði fyrst og fremst bitnað á sparisjóðunum og smærri fjármálastofnunum á meðan stóru bankarnir hefðu vaxið eftir sem áður enda nægt framboð á ódýru fjármagni. Þessi ranga fullyrðing gæti stafað af því að seðlabankastjóri þekkir ekki til þeirra breytinga á ákvæðum um bindisskyldu sem gerðar voru gagngert til að mæta aukinni lánsfjármögnun banka og birtast í 11. gr laga um Seðlabankanna.

Í stað þess að taka nær aðeins til innlána er ekki aðeins hægt að láta hana ná til ráðstöfunarfjár sem aflað er með öðrum hætti heldur er beinlínis mögulegt að hafa reglurnar mismunandi eftir eðli lánastofnana og flokkum skuldbindinga. Seðlabankinn hefðu sumsé getað aukið sérstaklega bindiskyldu vegna fjármögnunar í erlendri mynt, hvort sem er vegna erlendrar lánsfjármögnunar eða söfnunar innlána hefði hann haft raunverulegar áhyggjur af útþenslu bankakerfisins. Fullyrðingin um áhrifaleysi bindiskyldunnar er best hrakin með vísun í gögn Seðlabankans sjálfs um afleiðingar lækkunarinnar 2003 en þegar í október 2004 taldi bankinn að hún hefði aukið laust fé fjármálastofnana um 84 milljarða. Lækkunin hafði margfeldisáhrif, jók útlánamöguleika sem blés upp eignaverðsbólu sem aftur jók verðmæti mögulegra veða sem enn ýtti undir eftirspurn eftir lánsfjármagni. Mjög hraður vöxtur peningamagns er almennt talin ein helsta vísbending um yfirvofandi bankakreppu og fjármálaóróa og það átti svo sannarlega við hér á landi þótt ekki væri gripið inn í af hálfu Seðlabankans.

Í ræðu á morgunfundi Viðskiptaráðs Íslands 18. nóvember 2008 gerði seðlabankastjóri lítið úr stjórntækjum bankans og sagði þau litlu máli hafa skipt í því sem gerst hefði. Þar afgreiddi hann m.a. lausafjárreglur með þeim orðum að bankinn ynni lausafjárskýrslur. Þetta er mjög alvarlegt vanmat á mikilvægi þeirra heimilda sem bankinn hefur á grundvelli 12. gr. laga um Seðlabankann til að setja reglur um lágmark eða meðaltal lauss fjár lánastofnana og geta verið mismunandi milli flokka lánastofnana. Markviss beiting slíkra reglna hefði hamið vöxt bankanna erlendis og jafnframt þvingað þá til að efla sitt erlenda lausafé þegar vöxtur þeirra var sem hraðastur.

Þegar litið er til þess að stjórn bankans beitti ekki þessum stjórntækjum en hélt því fram í opinberum skýrslum, ræðu og riti, að íslenska bankakerfið stæði styrkum fótum, er erfitt að leggja mat á fullyrðingar formanns stjórnar Seðlabankans þess efnis að hann hafi persónulega varað, einkum fyrrverandi forsætisráðherra en einnig aðra ráðherra og embættismenn, mjög sterklega við að bankakerfið væri á leið í þrot. Engin gögn eru til um þá fundi og sjálfur hefur fyrrverandi forsætisráðherra sagt að sig reki ekki minni til slíkra viðvarana en útilokar ekki að þær gætu hafa komið fram í einkasamtölum.

Mikilvægara en öll aðvörunarorð eru þó aðgerðir eða tillögur um aðgerðir. Fyrir liggur að sjálfur beitti bankinn ekki þeim stjórntækjum sem honum voru tiltæk skv. lögum og formaður stjórnar bankaráðs hefur ekki nefnt neina efnislega tillögu um aðgerðir sem hann kom á framfæri við ráðherra og ríkisstjórnin ekki framfylgt.

Í ljósi þess sem gerst hefur er mjög alvarlegt ef formaður stjórnar Seðlabanka Íslands hefur ekki haft fullan skilning á eðli eða gildi þeirra stjórntækja sem bankinn hafði yfir að ráða né getað veitt forsætisráðherra ráðgjöf um viðeigandi ráðstafanir.

miðvikudagur, 25. febrúar 2009

Vinur er sá sem til vamms segir

Hvar er sómatilfinning þeirra sem létu allar aðvaranir sem vind um eyri þjóta? Hlustuðu ekki á aðvörunarbjöllurnar glymja. Létu aðvaranir Seðlabankastjóra sem vind um eru þjóta. Hlustuðu ekki á aðvaranir erlendra banka. Það er ástæða fyrir lagasetningu breskra gegn íslendingum. Það er einnig ástæða fyrir því að enn hafa íslenskir stjórnmálamenn látið efnahagsbrotadeildir skoða hátterni stjórnenda og eigenda bankanna. Stjórnmálamönnum og stjórnmálaflokkum voru boðin sérkjör.

En þessir hinir sömu ætla að sitja áfram eins og ekkert hafi gerst, þrátt fyrir að þjóðin krefjist að menn verði dregnir til ábyrgðar. En einn maður stóð upp og benti á að þetta væri ekki í lagi. Allar athugasemdir um störf hans standast ekki. Allt er það ættað frá Baugsmiðlunum og Sigmari. Fjölmargir hafa komu til Seðlabankastjóra og hrósuðu honum fyrir vel unnin störf, það er mark takandi á þeim, ekki hinum.

Þegar ríkisstjórnin bað um aðstoð var okkur hafnað og Geir og félagar þráuðust við vikum saman og hreyttu ónotum í vinarþjóðir okkar. Íslensk stjórnvöld voru virkir þátttakendur á hömlulausu eyðslufylleríi bankanna og ýttu undir skuldaaukningu almennings.

Allt þetta sagði Davíð. En hvers vegna kemur allt annað fram í ummælum Davíðs í upprifjun fréttastofa sjónvarpsstöðvanna í kvöld?

þriðjudagur, 24. febrúar 2009

Davíð og ríkisstjórn Geirs

Mér fannst Sigmar komast vel frá öllum smjörklípunum sem Davíð kastaði fram í Kastljósinu til þess að losna undan að svara Sigmari og tilraunum Davíðs að gera hann ótrúverðugan.

Það er greinilegt einlæg skoðun Davíðs að Geir og ríkisstjórn hans hafi algjörlega brugðist og í beinu framhaldi kom fullyrðing Davíðs, að stjórnmálamenn hafi fengið sérstaka fyrirgreiðslu af hálfu auðmanna og bankanna.

Hvers vegna setti Geir og stjórn hans ekki strax í gang öflugar efnahagsbrotarannsóknir hjá stjórnendum bankanna og auðmannanna eigenda þeirra?

Það að Seðlabankastjóri Íslands fullyrði þetta í sjónvarpi allra landsmanna er um leið skýlaus krafa um að þetta verði rannsakað strax og ætti í raun að vera ástæða til þess að fresta prófkjörum og þingkosningum þar til að þessari rannsókn er lokið. Og jafnvel uppsagnarbréfi Davíðs.

ASÍ og SA funda

Í gær var haldinn fyrsti samningafundur ASÍ og SA. Til umræðu var hvort aðilar vildu framlengja líf núverandi kjarasamnings og hvernig gengið yrði frá launahækkunum og umsömdum kjarabótum. Það hefur komið fram í ummælum forsvarsmanna SA á undanförnum vikum að ekki séu við núverandi aðstæður möguleiki að fyrirtækin geti hækkað laun.

Bankakerfið nánast óvirkt, vextir vel á þriðja tug prósenta, rekstrarvandinn gríðarlegur og fjöldi fyrirtækja gjaldþrota í hverri viku. Byggingariðnaður stopp, víðtækar uppsagnir standi nú yfir í þjónustu og verslun, fiskur seljist ekki erlendis og verð lág, því fylgi gríðarleg birgðasöfnun. Ef fyrirtækjunum yrði stillt upp með kröfu um hækkun launa væri ljóst að það myndi verða brugðist við því með enn frekari uppsögnum eða uppsögn kjarasamninga.

En SA hefur jafnframt látið það koma fram að þeir væru tilbúnir að ræða það við ASÍ hvort hægt væri að mynda samstöðu allra heildarsamtaka báðum megin borðs á vinnumarkaði ásamt komandi ríkisstjórn um hvort hægt sé að móta sameiginlega áætlun um hvernig atvinnulífið verði byggt upp með t.d. tveggja ára áætlun. Þá verði endurskoðun kjarasamninga hluti af því plani. Töluverðar líkur væru á að á næstu mánuðum væri bankakerfið komið af stað, verðbólga á hraðri niðurleið og búið að lækka vexti. Ef stéttarfélögin væru tilbúin að fresta hækkunum launa um nokkurn tíma væru töluverðar líkur að aðilar gætu náð samkomulagi.

Eftir mikil fundahöld meðal landssambanda innan ASÍ á síðustu vikum þar sem sett var fram sú spurning fyrir félagsmenn, hvort þeir vildu láta á það reyna hvort viðunandi niðurstaða næðist með samningaleiðinni, eða láta á það reyna hvort fyrirtækin myndu segja upp kjarasamningum, eða mæta hækkunum með enn stórfelldari uppsögnum. Niðurstaða 85% félagsmanna innan ASÍ var að láta reyna á samningaleiðina og taka þá afstöðu til þeirrar niðurstöðu sem þar næðist.

Forsvarsmenn 15% minnihlutans hafa haft í frammi mikla gagnrýni og gefa sér að það hafi legið fyrir að launahækkunum muni standa. Þeir stilla málinu þannig upp að það sé fámenn klíka í forystu ASÍ sem hafi tekið það upp hjá sjálfri sér að afþakka hækkun launa af þeim launalægstu.

Þessi málflutningur hefur að venju átt greiða leið til nokkurra fréttamanna, sérstaklega á fréttastofu RÚV. Einnig má velta fyrir sér hvernig hausinn fúnkeri á þeim skrifaði Reykjavíkurbréf Moggans um helgina, þar er ég vitna til upphafs bréfsins. Nú má vitanlega spyrja hvort fréttamenn fylgist svona illa með því sem forsvarsmenn fyrirtækjanna hafa sagt á undanförnum vikum og eins hvort þeim sé ekki kunnugt um hvernig ástand sé á íslenskum vinnumarkaði.

Einnig má spyrja hvers vegna fréttamenn hafi ekki kannað á hvaða forsendum hin „fámenna klíku ASÍ“ sé að óþörfu að hafa launahækkanir af launamönnum. Síðast en ekki síst að þegar það liggur fyrir að hin fámenna klíka var búinn að fara inn í sín baklönd og leggja framangreindar spurningar fyrir fjölmenna fundi á hvaða forsendum málinu sé þá stillt upp, hvenær hún hætti að vera fámenn klíka, sem sé að ofsækja fámennan minnihluta og launamenn í landinu.

Á fyrsta samningafundinum í gær fór mestur í að skoða með hvaða hætti væri hægt að hækka lægstu laun strax og nokkrar hugmyndir settar fram. Ákveðið var að hittast aftur á morgun, miðvikudag.

föstudagur, 20. febrúar 2009

Okurbúllur

Það bregst ekki að þegar starfsfólk ASÍ gerir verðkannanir og í ljós kemur að hinar íslensku okurbúllur koma illa út má starfsfólkið ASÍ una því að sitja undir persónulegum svívirðungum og útúrsnúningum frá forsvarsmönnum hinna svokölluðu "lágvöruverzlana".

Þrátt fyrir þetta hefur ítrekað komið í ljós að þeir spila með verðin upp og niður. Fela verðkönnunar lærin aftast í kæliborðin og þar fram eftir götum. Og krefjast þess að fá að leiða verðkönnunar fólkið í gegnum búðirnar og fá að vita með hæfilegum fyrirvara áður en það kemur. Þegar því er hafnað af hálfu ASÍ þá reynt að gera kannanirnar ótrúverðugar með allskonar upphrópunum í fjölmiðlum.

Ég þekki starfsfólk ASÍ vel og veit að það vinnur sín störf við verðkannanir og rannsóknir á verðlagsþróun af mikilli nákvæmni og heiðarleika. En það lendir ítrekað í því að forsvarsmenn "lágvöruverzlanna" koma fram við það á aldeilis óásættanlegan hátt og virðast hafa það eitt að markmiði að fá að okra á landsmönnum án afskipta annarra.

Einföld spurning; Hvers vegna er verðlag á dagvöru svona mikið hærra hér en í nágrannalöndum, meir að segja þegar króna var skráð allt að 30% og há?

miðvikudagur, 18. febrúar 2009

Sjálftaka þingmanna og ráðherra

Þegar Davíð kynnti til leiks eftirlaunafrumvarpið sagði hann að kostnaður vegna þess yrði líklega, eða í mesta lagi 6 millj .kr. Hann þverbraut þingreglur og lagði ekki fram neitt kostnaðarmat. Nú kemur fram í þinginu að þetta séu nokkur hundruð milljónir á ári og ef eftirlaunafrumvarpið verði fellt niður sparist um 1,7 milljarðar á næstum árum. Við þessar upplýsingar sýpur engin þingmaður hveljur og engum þeirra dettur í hug að biðja almenning afsökunar á öllum þeim ósannyndum, sem þeir hafa borið á borð almennings þegar eftirlaunafrumvarpið hefur borið á góma undafarin ár.

Undirritaður hefur ásamt nokkrum skrifaði allmargar greinar um málið. Við bentum á að kostnaður væri umtalsverður og frumvarpið væri ekkert annað en ósvífin sjálftaka úr ríkissjóð. Því var svarað af þingmönnum eins og t.d. Sigurði Kára og Birgi Ármannssyni að við færum með fleipur.

Í greinum mínum kom fram að við útreikning þessarar ákvörðunar hafi hæstvirt Alþingi gert ráð fyrir að þingmenn og ráðherrar ættu ekki launalíf fyrir þingsetu og fengju auk þess ekki vinnu eftir þingstörf. Á þessum forsendum úthlutuðu þeir sjálfum sér umframlífeyriskjör sem samkvæmt útreikningum hagdeildar Samtaka atvinnulífsins má leggja að jöfnu við 23 - 35% mánaðarlega launauppbót.

Umframlífeyriskjör ráðherra sem gegndi embætti í þrjú kjörtímabil eru ígildi 85 -102 m.kr. starfslokagreiðslu og 66 - 79% mánaðarlegrar launauppbótar. Umframlífeyriskjör forsætisráðherra sem situr í tvö kjörtímabil eru samkvæmt eftirlaunafrumvarpinu ígildi 113 m.kr. starfslokagreiðslu eða 122% launauppbótar.

En Davíð keyrði málið í gegnum þingið á nokkrum dögum þrátt fyrir áköf mótmæli almennings, eða hávaðamaskínu ASÍ eins og þingmennirnir kalla almenning í dag. Hingað til hefur það verið óframkvæmanlegt að fá þingmenn og ráðherra til þess ræða niðurfellingu frumvarpsins og hefur þingflokkur Sjálfstæðismanna staðið þar helst í veginum Geir kallaði þá umræðu einelti og Sigurður Kári, Pétur Blöndal og Birgir Ármannsson hafa verið allan tímann þar fremst í flokki við að tína fram ábendingar um öll þau vandræði sem afnám laganna myndi valda.

En hvað er upp á teningunum núna í málflutningnum? Jú það er eðlilegt að gera þetta segja þeir, og vitanlega ættu öll kjaramál þingmanna að vera inn á borði Kjararáðs, segja þeir og við eigum rétt á 36% launahækkun!!

Bíddu aðeins það er Kjararáð sem á að ákvarða launakjör þingmanna og ráðherra, en þeir hafa stundað sjálftöku úr sjóðum almennings framhjá ákvörðunaraðilanum og þegar þeir loks fást til þess að hætta því, þá heimta þeir launahækkun í staðinn. Ef launamaður tæki sér ófrjálsri hendi kjör umfram umsaminn launakjör, væru þeir mjög líklega reknir á staðnum, en allavega fengju þeir ekki launauppbót fyrir það.

Það er sífellt að koma betur fram hversu ótrúlega langt frá almennum þankagangi þingmenn og ráðherra eru þegar málin snúa að þeirra eigin skinni. Siðblindir.

Viðhorf valdhafa til stjórnlagaþings

Þau voru eitthvað svo fyrirséð viðbrögð sjálfstæðismanna gagnvart Stjórnlagaþingi. Nákvæmlega þau sömu og ætíð hafa komið fram í þeirra forystu þegar almenningur hefur krafist þess að fara með mál í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þeir treysta engum öðrum en sjálfum sér til þess að fara með mál þjóðarinnar. Í langri valdatíð sinni hafa þeir komið á ráðherraræði, Alþingi er ekki lengur æðsta valdastofnun landsins. Vilji þingmenn eiga nokkra von um frama verða þeri að lúta vilja ráðherranna. Alþingi er orðið að afgreiðslustofnun frumvarpa ráðherra og aðstoðamanna þeirra. Þingmannafrumvörp eru sett í geymslu í nefndum.

Í mörg ár hefur það legið fyrir að Stjórnarskránni er í mörgu ábótavant. En hún hentar vel því stjórnarfari sem skapað hefur verið og þeirra varna sem gripið er til gagnvart vilja þjóðarinnar. Ríkisstjórnin hefur í valdatíð Sjálfstæðismanna orðið að æðstu valdastofnun landsins. Ríkisvaldið er ekki lengur þrískipt á milli löggjafar-, framkvæmdar- og dómsvalds, eins og stjórnarskráin mælir fyrir heldur einungis tvískipt, á milli framkvæmdarvalds og dómsvalds.

Auk þess skipar framkvæmdarvaldið dómara með þeim hætti sem við þekkjum svo vel og lætur stundum setja afturvirk lög, en þau vega að áhrifum dómstóla. Fyrir liggja rannsóknir sem sýna fram á að allt að 30% laga sem ráðherrar hafa keyrt í gegn stangist á við önnur lög, eða jafnvel stjórnarskrá. Við þekkjum viðbrögð ráðherra, ef sú staða kemur upp að sýnt er fram á að ætlan ráðherra stangist á við stjórnarskrá. „Þá breytum við bara stjórnarskránni.“

Ríkisstjórnin hefur komið því þannig fyrir að samþykki Alþingis er einungis formsatriði. Það sem hún leggur til er oft samþykkt með leifturhraða og afbrigðum. Þingmenn og þjóð hafa ekki tíma til að kynna sér efni frumvarpsins. Meðvirkni þingmanna felst í svörum þeirra um að frumvarpið er svo vel undirbúið að það þurfi ekki umfjöllum. Og þingmenn eru sendir í spjallþættina og viðtölin óundirbúnir og svör þeirra eru oftast svo út og suður, hlálegt rugl. En ríkisstjórnin rekur stærsta fjölmiðil landsins.

Framkvæmdarvaldið sjálft telur sig vera þess umkomið að semja þær reglur sem eiga að takmarka vald þess. Þetta er algjör þversögn, það eru vitanlega landsmenn sjálfir sem eiga að setja sér stjórnarskrá án afskipa frá ráðherravaldinu.

Vilji almennings stendur til þess að tryggja mannréttindin, það sem mönnum er helgast.
Vilji almennings stendur til þess að vinna við nýja stjórnarskrá verði afskipta ríkisvaldsins og stjórnmálaflokkanna, með því að koma á fót stjórnlagaþingi, sem semdi frumvarp að nýjum stjórnskipunarlögum. Þar á að vera samankominn þverskurður Íslendinga með fagfólki, sem semur frumvarp að nýrri stjórnarskrá, sem síðan verður lagt fyrir Alþingi. Það gæti breytt frumvarpinu, ef það leggur í að ganga gegn vilja Stjórnlagaþings. Þessi aðferð tryggir það að aðrir en alþingismenn gætu einnig haft skoðun á málinu. En svo er að sjá hvort þeir hafiu burði til þess.

mánudagur, 16. febrúar 2009

Slæmt ástand á vinnumarkaði

Síðasta sumar var atvinnuleysi hverfandi, nú 6 mánuðum síðar eru um 13.000 skráðir atvinnulausir. Þetta hefur gerst þrátt fyrir að um 7.000 erlendir launamenn hafi horfið að vinnumarkaðnum og um 3.000 íslendingar hafi farið af vinnumarkaði annað hvort erlendis eða í nám hér á landi. Talið er að fjöldi atvinnulausra getið aukist þegar líður á árið. Flest störf hafa tapast í verzlun og þjónustu og mannvirkjagerð.

Það er gert ráð fyrir að á næstu þrem árum fækki störfum umfram ný störf sem verða til. Miðað við eðlilega fólksfjölgun er þörf á 7.000 nýjum störfum árlega. Hagstofa ASÍ gerir ráð fyrir að atvinnuleysi nái hámarki í vor og gætu þá um 18.000 manns verið atvinnulausir. Atvinnuástandið mun batna í sumar, en það gæti síðan snúist aftur til verri vegar næsta vetur. Ekki er gert ráð fyrir að ástand á vinnumarkaði fari að lagast fyrr en fyrri hluta 2011.

Staða fyrirtækja er mjög brothætt og mörg á barmi gjaldþrots, ef þau eru ekki þegar kominn í þá stöðu. Fyrirtækin berjast við að lágmarka uppsagnir með því að stytta vinnutíma, eða taka upp hlutastörf. Nokkur fyrirtæki hafa tekið upp 4 daga vinnuviku. Fjölmargir launamenn eru að missa allt að helming heildarlauna, þó svo þeir haldi vinnu. Töluvert hefur verið um að fyrirtækin hafi auk framantalins orðið að lækka laun.

Við þetta ástand er verið að undirbúa viðræður um endurskoðunarákvæði kjarasamninga. Í þessu ákvæði er gert ráð fyrir að lægstu launataxtar hækki um 13.500 kr. En aðrir fái um 3.5% hækkun launa. Í þessu ákvæði þess einnig getið að ef forsendur séu brostnar geti hvor aðili um sig sagt upp kjarasamningnum. Samtök atvinnulífs hafa tilkynnt samtökum launamanna að launahækkanir standi ekki tilboða og þau verði að segja upp kjarasamningum sé þess krafist að laun hækki núna.

En forsvarsmenn SA hafa jafnframt lýst því yfir að samtökin séu tilbúinn að framlengja samningnum náist sátt um að fresta launahækkunum fram eftir árinu, auk umsamdra launahækkana á næsta ári og orlofslengingar í sumar, með því móti skapist möguleikar að halda inni kjarabótum samningsins.

Fundað var um þetta í dag innan ASÍ og forsvarsmenn stéttarfélaga með um 85% af félagsmönnum ASÍ lýstu því yfir að þeir vildu frekar en að segja upp kjarasamningum ganga til viðræðna um hvernig megi halda inni umsömdum launahækkunum ásamt öðrum heildarsamtökum launamanna við SA, sveitarfélögin og ríkið um þessi mál.

Það voru margir á fundinum sem lýstu því yfir að það væri harla einkennileg og ómálefnanleg nálgun að gefa sér að þessi hækkun sé í hendi launamanna og síðan farið í fjölmiðla og málum stillt þannig upp af nokkrum formönnum að þeir skilji ekki hvernig aðrir í verkalýðsforystunni geti fengið sig til þess að fresta þessari hækkun.

Allir sem tóku til máls á fundinum sögðust vilja tryggja að þessu hækkun næði til launamanna, en það væri mat flestra að einungis ein tryggði að hækkuninn næði fram að ganga, það væri að gefa fyrirtækjunum tækifæri á því að greiða hana út. Annars væri hún endanlega glötuð hjá flestum auk annara ákvæða sem í kjarasamningnum væru.

Á það var lögð sérstök áhersla að samfara þessu ætti að ganga til viðræðna við nýja ríkisstjórn í vor eftir kosningar um sameiginlega áætlun um endurreisn atvinnulífsins.

Kosningar til Stjórnlagaþings

Í kjölfar efnahagshrunsins hefur mikið verið rætt að kjósa sérstakt stjórnlagaþing, óháð Alþingi og stjórnmálaflokkum, til þess að endurskoða núgildandi stjórnarskrá. Það virðist vera svo að stjórnmálamenn ætli sér að sniðganga áhuga almennings á þessu máli. Sú krafa kom fram strax í haust að almenningur vildi fá tilbaka það þjóðfélag sem byggt var upp á síðustu öld en hvarf í brjálæði frjálshyggju í lok síðustu aldar og á þeim árum sem liðin eru á þessari öld.

Almenningur vildi fá til baka þjóðfélag samhyggju, samkenndar og samtryggingar. Það er ríkið sem hefur brugðist í að setja leikreglur sem tryggja stöðu almennings. Ríkið hefur brugðist, þar á bæ hefur ekki verið tekið tillit til ábendinga um hvert stefni og því er Ísland í þessari stöðu.Stjórnvöld hafa lagt til hliðar samkennd og jöfnuð, en látið markaðshyggjuna ráða för.

Stjórnmálamenn virðast hafa gleymt sér í því hvar lífsgildi þjóðarinnar liggja og hvar sjálfstæði þjóðarinnar er. En hafa í stað þess komið fram sem hanar galandi á tildurhaugum markaðshyggjunnar. Þessir hanar eru búnir að glutra sjálfstæðinu á meðan hluti þjóðarinnar dansar ofsafengnum dansi kringum gullkálfinn og ákallar hann sem hin sönnu lífsgildi.

Allir eru sammála um að stjórnarskráin hafi verið unnin með hraði og sé alls ekki í samræmi við það þjóðfélag sem íslendingar vilji. Það á að kjósa fulltrúa á stjórnlagaþing í vor og taka nú þegar á við umbætur á stjórnskipun landsins og koma í veg fyrir að stjórnmálaflokkunum takist að tefja málið og takast enn einu sinni að koma í veg fyrir að einungis útvalin flokkspólitísk sjónarmið komi að því að setja þjóðinni stjórnarskrá.

Tillögur um að kjósa til stjórnlagaþings samhliða alþingiskosningum og tryggja með því að stór hluti kjósenda taki þátt í kosningum til þingsins eru mjög góðar. Þar er réttilega bent á að núverandi ríkisstjórn hefur heitið því í verkefnaskrá sinni að á yfirstandandi þingi verði samþykkt lög um skipan og verkefni stjórnlagaþings.

Nú er einstakt tækifæri til þess að endurskoða hina úr sér gengnu stjórnskipun, slíkt tækifæri gefst ekki aftur í bráð.

sunnudagur, 15. febrúar 2009

Silfrið í dag

Silfrið hefur verið áhugavert í vetur, sérstaklega sakir þess að Egill hefur í vetur leitt fram venjulegt fólk sem hefur sett fram áhugaverðar, ígrundaðar og rökstuddar skoðanir. Hún er horfin Morfískeppnin sem áður fór fram milli stjórnmálamanna í þættinum, þátt eftir þátt með upphrópunum á rakalausum klisjum hanteruðum á spunastofum stjórnmálaflokkanna reknum á kostnað ríkissjóðs.

Þetta viðgengst reyndar enn, eins kom fram í skemmtilegu viðtali Egils við ungan mann, þar sem fjallað var um íslensku fjölmiðlana og fastmótaða framsetningu þeirra. Ætíð kallað á sömu álitsgjafana, sama hvaða mál er til umfjöllunar, eins og t.d. Pétur Blöndal, Svein Andra og Sigurð Kára, viku eftir viku og stundum mörgum sinnum á viku.

En allt í einu birtist í dag stjórnarþingmaður í Silfrinu og þá heyrist ein klisjan. Hvers vegna má ekki nýta lífeyrissjóðina til þess að greiða upp skuldir og þar eigi ekki við stjórnarskrárvarin eignaréttur.

Í þessu sambandi má benda á nokkur atriði. Það hafa ekki allir greitt í lífeyrissjóði, þeir eru ekki sameign þjóðarinnar. Lífeyrissjóður er eign þeirra sem hafa greitt í hann, ekki annarra. Ég hef fyrir því rökstuddan grun að margir af þeim sem hafa haft hvað hæst um hvernig eigi að nýta eignir lífeyrissjóðanna, hafi lítið eða jafnvel ekkert greitt í almennu lífeyrissjóðina, kannski eitthvað í erlenda sjóði.

Ef þingmaðurinn ætlar að taka sparifé launamanna sem geymt er í lífeyrissjóðum, þá getur hann með sömu rökum tekið sparifé geymt í bönkum. T.d. bankabækur þingmanna og Helga í Góu.

Einnig má benda á að þingmenn hafa búið sér það umhverfi að þó lífeyrissjóður þeirra sé tekinn eða getur ekki staðið undir skuldbindingum, þá er það sem upp á vantar sótt í ríkissjóð. Í almennu sjóðunum þýðir það einfaldlega lækkun á örorkubótum og lífeyrisgreiðslum.

Það er svo annað mál hvort sjóðsfélagar og þá um leið eigendur ákveðins lífeyrissjóðs, ákveði að miðla málum með eignatilfærslum meðal sjóðsfélaga viðkomandi sjóðs. Það er allt annað mál og ákvörðarvald þar um liggur hjá sjóðsfélögum viðkomandi lífeyrissjóðs og borið upp á ársfundi þess sjóðs. Ég á t.d. von á að það gæti gerst á einhverjum ársfundum lífeyrissjóða í vor.

Í lokin hún er orðin ansi þreytt sú klisja að verkalýðsforkólfar hafi það eitt fyrir stafni að verja eignir lífeyrissjóðanna til þess að verja eigin völd. Það er nú svo að það eru félagsmenn stéttarfélaga sem eru í langflestum tilfellum sjóðsfélagar. Á félagsfundum stéttarfélaga er mikið rætt um starfsemi lífeyrissjóðs viðkomandi starfsstéttar. Á þessum fundum er ætíð samankomin hópur sjóðsfélaga, sem krefst þess að staðin verði vörður um lífeyrissjóð viðkomandi starfsstéttar, þá sérstaklega gagnvart fólki eins og t.d. þingmönnum og verktökum sem ekki eru sjóðsfélagar.

laugardagur, 14. febrúar 2009

Hin dýrkeypta króna

Hef þessa vikuna verið á fundaflakki um landið og búinn að hitta vel á þriðja hundrað rafiðnaðarmanna. Áberandi er það sjónarmið að stjórnmálamenn hafi klikkað í sínum störfum á undanförnum árum og ekki hafi betra tekið við í vetur. Endalaust ráðaleysi og sandkassaleikur um mál sem engu skipta. Tilgangslausar út og suður ræður sem hafa það markmið eitt að snúa út úr því sem síðasti ræðumaður sagði. Á meðan brennur þjóðfélagið.

Stjónrvöld eiga að vera búinn fyrir löngu að taka saman við atvinnulífið og fólkið í landinu um að setja upp markvissa stefnu næstu árin um hvert eigi að stefna. Í stað þess að eyða tímanum í að reyna að telja fólki í trú um að verið sé að þvinga þjóðina til þess að gera eitthvað, og nágrannalönd okkar séu okkur óvinveitt vegna þess að þau vilji ekki lána okkur peninga og hafi sett Alþjóðagjaldeyrissjóðinn okkur til höfuðs. Þessu trúa einungis örfáir staurblindir nýfrjálshyggjumenn.

Fyrirspurnir um lífeyrissjóðina eru ofarlega í hugum fólks og hvort það takist að verja þá fyrir ágirnd stjórnmálamanna. Það blasi við ef tillögur stjórnmálamanna um að galopna sjóðina nái fram og taka eigi þar út á skömmum tíma hundruð milljarða þá muni það leiða til mikils falls á eignum. Fjármunir lífeyrissjóðanna eru bundnir í verðbréfum og öðrum eignum og til þess að losa mikla fjármuni þurfi að selja þessar eignir. Hverjir eru kaupendur í dag? Þær munu hríðfalla, ef þeim er skellt út á markað í stórum skömmtum. Öllum ber saman um að það eigi að heimila þeim sem geta bjargað sér með úttekt á séreign, en að öðru leiti verði að setja ákveðnar skorður.

Enn einu sinni er það krónan sem setur okkur skorður. Ef við værum með nothæfan gjaldmiðil sem gengi innanlands sem og utan, þá værum við í allt annarri stöðu. Andstaða þess stjórnmálaflokks sem hefur farið með stjórn efnahags- og peningamála undanfarin ár að taka þessum vanda hefur komið okkur í þá stöðu sem við erum í, og heldur okkur þar. Það veldur heimilum og fyrirtækjum óbætanlegum skaða.

Samt segir fyrrverandi forsætis- og fjármálaráðherra til margra ára, að það þurfi ekki að endurskoða þessi mál í margfrægu viðtali við BBC. Mikið ofboðslega skammaðist maður sín fyrir manninn. Þar kom svo glögglega fram hvernig íslenskir ráðherrar hafa tamið sér að svara spurningum fréttamanna. Ætíð vikið sér undan að svara með því að setja fram einhverjar vífillengjur og orðhengilssvör. Enda er það ósjaldan sem Geir hefur sagt að óþægilegar spurningar fréttamanna séu ókurteysi og ef gengið er eftir skýru svari með því að endurtaka spurningu þá er það einelti að hans mati.

þriðjudagur, 10. febrúar 2009

Að persónugera vandann

Ég hef stundum fjallað um nálgun spyrla og þáttagerðarmanna og undrast hvernig þeir hafa nálgast þá sem þeir spjalla við.

Tökum t.d. Kastljósið og umfjöllun um Seðlabankann. Þetta á við fleiri þar á meðal nokkra þingmenn og fyrrverandi ráðherra.

Það liggja fyrir allmargar skýrslur um að stjórnendum Seðlabankans hafi orðið á alvarleg mistök. Þar má t.d. nefna verðbólgumarkmið og ákvarðanir um vaxtahækkanir, sem hafa brugðist í hvert einasta skipti.

Eða hvernig Seðlabankinn brást við að styrkja gjaldeyrisvarasjóðinn til þess að tryggja fjármálastöðugleika þegar aðstæður voru góðar og fyrir lá að það stefndi í óefni og stjórnendum bankans var vel kunnugt um, ef litið er til yfirlýsinga stjórnenda bankans.

Einnig má nefna nokkrar yfirlýsingar stjórnenda Seðlabankans, sem hafa vakið undrun og jafnvel leitt til enn meiri vandamála og trúverðugleiki bankans hefur beðið mikin hnekki. Seðlabankinn hefur ekki sinnt forystuhlutverki sínu. Þannig mætti áfram telja.

Sé litið framantalins auk stöðu íslensks efnhagslífs, þá hlýtur að telja eðlilegt að skipt sé um stjórn bankans. En það virðist vera aldeilis ómögulegt fyrir framangreinda að nálgast þetta umræðuefni án þess að telja að verið sé að persónugera vandann og telja þar með að ekkert eigi að gera. Sem verður síðan þess valdandi að ekki eigi að fjalla um þann vanda sem steðjar að Seðlabankanum og þeim vanda sem stjórn bankans hefur valdið.

Svo ég nálgist málið frá öðru sjónarhorni. Ef t.d. spyrill hjá Kastljósinu sem t.d. héti Helgi setti RÚV í mikinn vanda gagnvart almenning með því hvernig hann nálgaðist þau verkefni sem honum væru falinn, auk þess að valda röskun á hag annarra. Þá fengi Helgi örugglega uppsagnarbréf og væri auk þess vinsamlega bent á að það væri heppilegt að hann leitaði sér að einhverju öðru starfi. Er það skoðun framangreindra að það væri að persónugera vandann og þar með ekki hægt að segja Helga upp?

Getum við ekki farið fram á að menn haldi sér í raunveruleikanum og láti ekki pólitísk gleraugu blinda sig. Stjórnendum Seðlabankans hafa orðið á mistök, eigendur bankans (íslenskir skattgreiðendur) krefjast þess að skipt sé um stjórnendur. Það hefur ekkert með að gera pólitíska valdbeitingu eða hatur á einhverjum einstaklingum.

Ég á ekki síst við að þarna er meðal annars verið að tala um fjölmiðil í eigu almennings og á að vera þokkalega hlutlaus.

En allar kollsteypur stjórnmálamanna virðast ekki ætla að hafa nein áhrif, ekkert breytist og lítil hreyfing verður á stjórnmálamönnum og allt stefnir í óbreytt ástand, sem mun að öllum líkindum leiða til þess að það bresti á fjöldaflótti frá landinu.

mánudagur, 9. febrúar 2009

Skyldulesning

Skýrsla Jóns Daníelssonar og Gylfa Zoega er algjör skyldulesning og ætti að vera á skrifborði (náttborði) hvers einasta íslendings, sem vill sjá og skilja hvað gerðist.

Það er með hreinum ólíkindum að hlusta á Geir og þingmenn hans ásamt frjálshyggjuvoffunum þessa daga og verður reyndar pínlegt eftir að hafa lesið skýrsluna.

Það er þessir menn skuli bjóða þjóðinni upp á það sem þeir hafa verið að röfla síðasta ár. Svo maður tali nú ekki um hrokafullan spuna Seðlabankastjórans og fylgifiska hans.

sunnudagur, 8. febrúar 2009

Uppgjörið

Það er sama hvar komið er, fólk er fullkomlega áttavillt hvað varðar málflutning þeirra sem eru að verja stjórnendur þeirrar efnahagsstefnu sem fylgt hefur verið og eru að gagnrýna hið svokallaða ofbeldi sem þessir hinir sömu telja að verið sé að beita. Málflutningur þeirra einkennist af snúa hlutunum á haus og beina sjónum fólks frá þeim vandamálum sem við blasa.

Í þessu sambandi má benda á hvernig þingmenn Sjálfstæðisflokksins tóku á umræðu um skipan héraðsdómara. Þar var gagnrýnt að ekki hefði verið farið að settum reglum. En sjálfstæðismenn rígheldu aftur á móti í að verið væri að taka einstakling fyrir á þeim forsendum hver væri faðir hans. Engin gerði það nema Sjálfstæðismenn sjálfir. Sama hefur verið upp á teningunum við aðrar pólitískar ráðningar þeirra.

Nú er sömu vinnubrögðum beitt. Þó það liggi fyrir að það verði að taka til í efnahagsstjórn og þar er vitanlega Seðlabankinn efstur á blaði. Allir viðskiptaaðilar Íslands hafa bent á að það standi í vegi fyrir trausti á Íslendingum að hér sitji enn sömu stjórnendur, þó hér hafi átt sér stað mesta efnahagshrun nokkurrar vestrænnar þjóðar.

Allir hafa verið sammála um að það þurfi að skipta um stjórnir Fjármálaeftirlits og Seðlabanka, það lágu meir að segja fyrir tillögur Sjálfstæðismanna sjálfra um þetta í nóvember. Sama á við um ráðherra og æðstu embættismenn í fjármálaráðuneyti og forsætisráðuneyti. Fyrr náist ekki sátt við almenning og eins að skapa nauðsynlegt traust á íslensku efnahagslífi.

En í undirbúningi eru kosningar. Vaxandi fjöldi fólks telur að stjórnmálamenn ráði einfaldlega ekki við að gera upp við þau mistök sem þeir hafa gert. Svo ég noti orðfæri þingmanna Sjálfstæðisflokksins, þá er reyksprengjum kastað og upphópunum beitt. Eins og t.d. að það sé verkalýðshreyfingunni að kenna að sparifé hafi glatast og lífeyrissjóðir tapað fjármunum. Ef samþykktir verkalýðshreyfingarinnar eru skoðaðar, þá gagnrýndi hún efnahafsstefnu stjórnvalda harkalega og hefur lagt fram tillögur um úrbætur á undanförnum árum. Hún gagnrýndi ofurlaun umfram aðra og fákeppni. Hún krafðist árangurslaust þess að stjórnvöld endurskoðuðu lög um fjárfestingarstefnu lífeyrissjóðanna. Eins mætti benda á að helmingur stjórnarmanna koma frá fyrirtækjunum, en frjálshyggjumenn kjósa að venju að beina spjótum sínum að launamönnum og samtökum þeirra.

Það var ríkið sem brást almenning. Það er ríkið sem á að sjá um eftirlit og stjórnefnahagstefnunnar. Það var ríkið sem hafnaði öllum viðvörunum. Það leiddi til þess að svo margir hafa glatað sparifé sínu. Þeir fóru að þeim ráðleggingum sem sérfræðingar lögðu til að best væri í þáverandi stöðu. Ljóst er að það voru bankamenn og auðmenn, sem nýttu sér stefnu frjálshyggjunnar og það svigrúm til þess að blekkja sparifjáreigendur og stjórnendur lífeyrissjóða. Nú vilja þeir sem eru að reyna að verja stöðu frjálshyggjunnar koma sökum á þá sem urðu fyrir nauðguninni. Þeir vilja að almenningur hýsi nauðgarann og kjósi han aftur inn á þing.

Þingmenn hafa ítrekað lýst því yfir að þeir sé réttbærir til þess að fara með völdin og stjórna. En nú blasir við að þeir ætla ekki að axla ábyrgð á athöfnum sínum, og virðast a.m.k. sumir hverjir ekki hafa burði til þess að geta það. Þegar almenningur mótmælir og krefst þess að stjórnmálamenn fari að þeirra vilja, þá er verið að beita stjórnmálamenn ofbeldi!!

Það liggur fyrir að strax í vor að afloknum kosningum mun verða gerður ennfrekari niðurskurður á fjárlögum, jafnframt að það þarf að hækka skatta umtalsvert. Það liggur fyrir að það verður mjög erfitt að komast út úr þeirri stöðu sem við erum í. Um það viljum við fá upplýsingar og umræður. Það er almenningur sem vill horfast í augu við stöðuna, en það er stjórnmálamönnum um megn. Þar má t.d. benda á ummæli Árni þáv. fjármálaráðherra sem sagðist ætla að greiða helming skulda á einu ári. Hefur stjórnmálamaður sem gefur út svona yfirlýsingu burði til þess að vera við stjórnvölinn?

Fólk vill ræða þingræði og stjórnarskránna. Það kerfi sem flokkarnir hafa byggt upp er nánast einræði ekki þingræði. Það eru flokksformenn sem ráða. Núverandi stjórnkerfi veldur því að ef þingmenn standa upp í hárinu á flokksformönnum þá komast þeir ekki ofar í goggunarstiganum. Þingmenn ætla sér að víkja sér undan því að verða við kröfum almennings og smeigja sér í gegnum næstu kosningar á röngum forsendum.

Þetta hentar vel þeim hluta þjóðarinnar sem hefur notið góðs af efnahagsstefnu frjálshyggjunnar. Eignatilfærslu frá þeim efnaminni til þeirra sem betur mega sín. Það var gert með flötum lækkunum á tekjuskattsstigi, Niðurfellingur á hátekjuskatti. Skerðingarmörk í bótakerfinu voru látnar sitja kyrrar í verðbólgu, sama gilti um persónuafslátt. Skýrslur sýna fram á gríðarlega skattahækkanir á tekjulægsta fólkinu.

Spurningin fyrir næstu kosningar er hvort almenningur nái fram vilja sínum um að gera upp við frjálshyggjuna og afleiðingar hennar. Eða hvort stjórnmálamenn nái fram sínu og haldi sætum sínum og víki sér undan uppgjöri með lítt breyttri stöðu.

laugardagur, 7. febrúar 2009

Uppsagnir

Það er hreint út sagt ómögulegt að skilja það leikrit sem er í gangi þessa dagana. Það hefur ekki vafist fyrir sjálfstæðismönnum á sínum langa valdaferli að víkja embættismönnum þegar þeir hafa tekið við ráðherra embætti, og fáir séð nokkuð athugavert við það. Eðlilegt að ráðherra hafi við hlið sér fólk sem hann treysti og ekki síður fólk sem stefnir í sömu átt og ráðherra. Nú er þetta allt í einu orðið að einhverju mjög ljótu og sjálfstæðismenn notu stóru orðin.

Landsmenn muna einnig vel eftir skipan flokksins í prófessorsembætti, hæstaréttardómara, héraðsdómara, seðlabankastjóra og seðlabankastjórn og þannig mætti áfram telja, þar var gengið þvert á viðteknar reglur og þjóðin mótmælti.

Hver einasti sérfræðingur sem hefur komið að íslensku efnahagslífi hefur gert athugasemdir við störf Seðlabanka og gagneýntr þær ákvarðanir sem þar hafa verið teknar. Einngi hafa ummæli Davíðs Oddsonar í þessu sæti verið gagnrýndar og oft ekki taldar sæmandi starfandi seðlabakanstjóra. Þar má benda nokkur Kastljósviðtöl, ótímabærar yfirlýsingar um rússalán og fleira.

Nú er ljóst að þjóðin hefur krafist þess að stjórn Seðlabanka verði endurskipuð og fagleg sjónarmið látin ráða. Það gangi ekki að þetta sér einhver geymslustaður fyrir afdankaða stjórnmálamenn.

Og svo einfalda spurningin sem maður heyrir svo víða á kaffistofum vinnistaðanna. Það vefst ekki fyrir stjórnmálamönnum að almennir launamenn eru reknir án nokkurra skýringa og þýðingarlaust að mótmæla því. Hvað er það sem setur stjórnmálamenn Sjálfstæðisflokksins aðra stöðu? Af hverju er það eitthvað ljótt og ósanngjarnt er þeim er sagt upp?

Ástæðurnar hafa legið fyrir undanfarið ár. En þær eru æði oft ekki ljósar þegar almennum launamönnum er sagt upp. Reyndar hafa þingmenn Sjálfstæðisflokksins staðið í vegi fyrir því að reglur Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um uppsagnir séu staðfestar hér á landi.

Viðbrögð sjálfstæðismanna staðfesta það sem vaxandi hluti þjóðarinnar hefur rætt, að sjálfstæðismenn séu búnir að vera svo lengi við valdastólana að þeir líta á þá sem sína eign. Þegar svo er komið er enn brýnna að skipta um mannskap, þói ekki væri en bara til þess að koma stjórnmálamönnum í skilning um að það er þjóðin sem ræður ekki þeir.

Einnig má í þessu sambandi minna á ummæla nokkurra þingmanna og forsvarsmanna hagsmunasamtaka um að það væri komið á hér á landi fullkomið ráðherraræði. Alþingi væri orðin nánast tilgagnslaus umræðupallur og afgreiðslustofnun fyrir ákvarðanir ráðherra Flokksins.

föstudagur, 6. febrúar 2009

Stjórnlagaþing

Í þeirri orðræðu sem hefur staðið yfir undanfarna daga þar sem embættismenn og ráðherrar kallast á við almenning og kalla það valdagræðgi annarra að þeir séu að hrökklast frá völdum, þá rifjast upp allur flumbrugangur ráðamanna og álitsgjafa þeirra í fjölmiðlamálinu, þar sem þeir settu forseti Íslands í þá stöðu að hann gat ekki annað gert, en að nýta sér það vald sem hann hefur skv. 26. grein stjórnarskrárinnar og skjóta málinu til þjóðarinnar. Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við synjun forsetans var ámælisverð. Örvæntingarfull leit hennar í ofsóknarkennd og ótta, til að koma í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu, varð til þess að valin var sú undarlega útfærsla að draga frumvarpið tilbaka og leggja fram annað sem var nánast eins.

Þessi leið var augljóslega fyrirfram dauðadæmd. Ríkisstjórnin varð loks að viðurkenna hversu afkáralega hún hafði haldið á málinu og draga frumvarpið tilbaka. Með því vék hún sér undan því að þjóðaratkvæðagreiðslan færi fram. Þeirri athöfn var ákaft mótmælt af mörgum, þar á meðal áberandi lögfróðum og nafnþekktum mönnum, sem sögðu að með því hefði ríkisstjórnin brotið ákvæði stjórnarskrárinnar. Ríkisstjórninni hefði undanbragðalaust borið að láta atkvæðagreiðsluna fara fram. Þessu svaraði forsætisráðherra með því segja í fjölmiðlum og á Alþingi þessir lögmenn væru asnar!!

Málfrelsi er ófrávíkjanlegt "skilyrði andlegrar velferðar mannkynsins, en á andlegri velferð þess byggist öll önnur velferð". Þessi orð birtust árið 1859 í riti enska heimspekingsins John Stuart Mill, Frelsið, sem lagði grunninn að þeim frelsishugmyndum sem við tökum sem sjálfsagaðan hlut í dag. Hann sagði einnig : “Hin versta misgjörð sem menn gera sig seka um í deilum, er að brennimerkja andstæðinga sína sem vonda menn og siðspillta”. Barátta um frelsið hefur oft verið helsta umræðuefni forystumanna núverandi stjórnarflokka. Baráttu sem snýst um að verja frelsið gagnvart okkur sjálfum. Orð John Stuart Mill eru mikilvæg áminning til þeirra sem styðja fullyrðingar forsvarsmanna stjórnarflokkanna um grófa misnotkun á fjölmiðlum.

Það er auðvitað sorgleg staðreynd að æðstu ráðamenn þjóðarinnar skuli kjósa að brennimerkja andstæðinga sína með þessum hætti. Það er mikilvægt að verja frelsið, sú vörn hefst og endar í því að æðstu ráðamenn tileinki sér röklega og siðlega umræðu. En ef tilfinningar þeirra eiga að stjórna stjórnmálaumræðunni og ákvarðanatöku, þá er frelsinu sannarlega mikil hætta búin. Ef handhafar valdsins eru komnir á það stig að vilja koma böndum á fjölmiðla, sem birta önnur sjónarmið en þeim eru þóknanleg, þá er frelsinu hætt.

Þegar forsvarsmenn stjórnarflokkanna biðja menn að vera frjálsa af sjálfum sér, hljóta þeir að gera sömu kröfur til sjálfra sín. Menn sem láta tilfinningahagsmuni ráða för sinni munu aldrei verja frelsið og eru ófærir um að bera virðingu fyrir röklegri umræðu. Í rökfræðinni telst það rökvilla ef ráðist er að persónum frekar en málefnum. Persónuárásir hafa ekkert rökfræðilegt gildi og uppnefningar sanna ekki neitt. Það er stór munur er á því að færa rök fyrir sínu máli og að uppnefna menn sem götustráka, lygara, afturhaldstitti eða fleiri ónefnum. Slíkar fullyrðingar færa engin sannindi fram dagsljósið, sama hve margir kjósa að trúa og taka undir fullyrðingarnar.

Í hita umræðunnar um fjölmiðlafrumvarpið hélt fyrrv. forsætisætisráðherra því ítrekað fram þeim rökum, að engin þörf væri á að nefna dæmi um misnotkun á fjölmiðlum, það blasi við fólki. Það séu álíka sannindi og að jörðin væri ekki flöt heldur kringlótt. Allir vita að jörðin er kringlótt og því þarf ekki að benda á nein rök. Hér er vísað til fjöldans. Samkvæmt þessum málflutningi fyrrv. forsætisráðherra eiga allir vita að fjölmiðlar Baugsveldisins séu misnotaðir og því þurfi ekki að benda á nein rök því til staðfestingar.

Allur þessi málatilbúnaður beindi athygli almennings að því hversu óhræddir ráðherrar, sem setið hafa í langan tíma, verða við að túlka hugtök úr stjórnarskránni mismunandi frá degi til dags, og opinbera með því skilningsleysi sitt, og jafnvel vanþekkingu á grundvallarhug-tökum stjórnarskrárinnar. Jafnvel frekar orðið að stórhættulegum vana ráðherra að túlka lög og stjórnarskránna með þeim hætti sem þeim hentaði hverju sinni. Þar má m.a. benda á ítrekuð orð forsvarsmanna stjórnarflokkanna, að ef það sem þeir vildu að næði fram að ganga tækist ekki vegna ákvæða stjórnarskrárinnar, ætti bara að breyta henni. Í þessu sambandi má vitna til frægra orða fyrrv. forsætisráðherra; “Ég er núna ekki eins hræddur um að það sem ég er að gera stangist á við Stjórnarskránna”

Mörgum þótti sem forsvarsmenn stjórnarflokkanna segðu þjóðinni vísvitandi rangt frá um tilurð málskotsréttar forseta. Það mál var á sínum tíma rætt ítarlega, eins og um er getið hér framar. Ekki er vafi á hvað vakti fyrir þeim framsýnu mönnum sem sömdu þetta ákvæði árið 1943. Forsætisráðherra hélt því ítrekað fram að þetta hafi verið árás forseta Íslands á hæstvirt Alþingi. Því fór fjarri, aukin heldur var það þveröfugt. Hér var lýðræðisleg vörn almennings gegn ráðherragerræði. Við höfum undanfarnar vikur orðið vitni að því hvernig málflutningur valdhafa með að baki langa valdasetu getur orðið.

Stjórnmálamenn óttast ekkert meir en að þjóðin fái að segja hug sinn um verk þeirra. Óttinn við þjóðaratkvæðagreiðslu varð að lokum til þess að ríkisstjórnin fór öfug út úr fjölmiðlamálinu. Öll vopn snérust í höndum ráðamanna vegna ofsóknarkenndar hræðslu þeirra við þjóðaratkvæði. Niðurstaða fjölmiðlamálsins og eins mótmæli almenning undanfarnar segir okkur að þjóðin vill eiga lokaorðið um helstu álitamál samfélagsins.
Stjórnlagaþing síðar á þessu ári er mikilvægt og kallar á vandaða meðhöndlum og þar mega hagsmunatengd sjónarmið stjórnmálamanna ekki vera ráðandi.

fimmtudagur, 5. febrúar 2009

Litlir karlar

Það er áberandi þessa dagana hvernig frjálshyggjumenn reyna að sverja af sér það sem miður hefur farið í íslensku efnahagslífi undanfarin 18 ár. Þetta er svipað og ræða Davíðs í Kastljósinu, þar sem hann sór allt af sér og kenndi öðrum um. Öll þekkjum við hvernig Sjálfstæðisflokkurinn kom sínum frjálshyggjumönnum fyrir og öll þekkjum við hvernig þeir hafa staðið sig í eftirlitshlutverkinu.

Í blöðunum í dag birta þeir svo heilsíðu auglýsingar þar sem regluverk í fjármálaheiminum er kynnt og telja að þar sé fólgin þeirra aflátsmiði. Í sjálfu sér er það hið gagnstæða þeir eru að auglýsa eigið getuleysi. Þeir höfðu þessar reglur og lög, þeir sátu í Fjármálaeftirlitnu, Seðlabankanum, Fjármálaráðuneytinu og Forsætisráðuneytinu, bíddu aðeins hvað eru þeir að auglýsa?! Helstu málsvarar þeirra halda fram að venju einhverjum hlutum sem eru ekki aðaláhrifavaldarnir heldur aukaatriði. Hverjir voru það sem fóru um heimin og kynntu hið íslenska efnahagsundur? Það eru þeir hinir sömu sem nú kenna öðrum um. Alltaf einhverjum öðrum. Þetta eru svo óskalega litlir karlar, óendanlega litlir.

Þessir hinir sömu breyttu skattkerfinu þannig að skattar jukust á þeim sem minna mega sín á meðan hinir ríku sluppu og nú flæða peningarnir frá auðmönnunum því vitanlega vilja þeir berjast gegn því að missa tök sín á samfélaginu og tryggja áframhaldandi stöðu. Heilsíðuauglýsingar eru keyptar, glanstímarit gefin út Kosningasjóðir tiltekinna bólgna og þeir hinir sömu neita að gefa upp hvaðan þeim berst fjármagn til þess að skýra dýra kosningabaráttu.
Í undanförnum kosningabaráttum er það umtalað hvernig helstu málpípur frjálshyggjunnar hverfa af yfirborðinu og allt í einu birtist Flokkurinn með norræn módel og loforð til þess að veiða til sín atkvæði. En daginn eftir kjördag birtist frjálshyggjumenningin aftur. En nú hafa þeir lagt íslenskt samfélag í rúst og spurningin er ætlar fólk að kjósa þá til valda aftur.

Eftir síðasta kjördag var sagt að það sé einungis eitt sem geti bjargað íslensku samfélagi frá sjálfu sér, kjósendur.

miðvikudagur, 4. febrúar 2009

Valdagræðgi - Hverra?

Manni verður orðvant að hlusta á fyrrv. forsætisráðherra, Halldórs Blöndal og reyndar fleiri af forsvarsmönnum Sjálfstæðisflokksins. Þar sem þeir eru að saka að aðra um valdagræðgi, einelti, hatur í garð tiltekinna einstaklinga og fleira í þeim dúr.

Var Geir ekki fyrir nokkrum dögum að skammast út í Samfylkinguna fyrir að hafa ekki samþykkt sameiningu Seðlabanka og Fjármálaeftirlits í nóvember síðastliðnum, sem hefði að hans mati þýtt sjálfvirkan brottrekstur Davíðs og hans fylgifiska.

Hvers vegna var lögum breytt þannig að í brott voru tekin ákvæði um brottrekstur Seðlabankastjóra? Svona til upplýsingar þá gilda þær reglur á almennum vinnumarkaði, að ef ekki eru sérstaklega kveðið á um uppsögn í ráðningarsamning, þá gilda almennar reglur kjarasamninga. Það þýddi að Davíð og félagar hefðu 6 mán. uppsagnarfrest, af því að þeir eru eldri en 60 ára, annars væri það styttra.

Er ástæða að rifja upp allt sem sagt hefur verið um stjórn Seðlabankans og efnahagsstjórn Sjálfstæðisflokksins?

Er ástæða til þess að rifja upp allt sem hefur verið sagt um trúverðugleika þeirra sem hafa staðið í forsvari fyrir íslenskra efnahagstjórn?

Er ástæða að rifja upp hvað hefur verið sagt um hvað við þyrftum að gera til þess að öðlast traust og fá hjálp til þess að komast út úr vandanum, ekki síst af erlendum aðilum?

Þessi málflutningur er þeim til minnkunar og staðfestir hvers vegna ríkisstjórnin sprakk. Nú ætlar þeir að bjarga málunum með því að losa sig við aðstoðarmenn þingmanna. Hverjir hafa staðið í vegi fyrir endurskoðun eftirlaunafrumvarpsins og aðstoðarmanna. Sigurður Kári sagði í viðtali fyrir u.þ.b. ári síðan og reyndar fleiri þingmenn Sjálfstæðisflokksins, að aðstoðarmennirnir kostuðu svo lítið að það tæki því ekki að ræða um það mál.

Reyndar eru forsvarsmenn Sjálfstæðisflokksins að upplýsa okkur um hversu veruleikafirrtir þeir eru, og fjarri því að átta sig á umfangi þess vanda sem þeir eru búnir að koma íslensku samfélagi í.

En þessi orðræða sem stjórnmálamenn eru að bjóða okkur upp á, staðfestir enn einu sinni hversu mikil þörf er á að losna við þetta lið. Þeir eru komnir í kosningagallann og þá virðist ekki skipta neinu hver vandamál samfélagsins eru, það eru bara stólarnir sem skipta máli.

Ef einhvern tíma hefur verið þörf á að stjórnmálamenn taki sig saman í andlitinu og fari að sinna samstíga þeim störfum sem þeir eru kjörnir, þá er það nú. Sjálfstæðismenn verða einfaldlega að átta sig á valdakerfi þeirra er hrunið og málið snýst ekki um að tryggja áframhald þess. Vandamálin eru margfalt stærri og þeir verða að sýna þann manndóm að líta í eigin barm og horfast í augu hvert stjórnarhættir þeirra hafa leitt þessa þjóð.

þriðjudagur, 3. febrúar 2009

Kastljósið í kvöld

Þeir sem fylgjast með umræðunni muna örugglega lofræður frjálshyggjumanna í síðustu kosningabaráttu um íslenska efnahagsundrið, sem þeir eignuðu sér. Þeir hrósuðu sér að hafa skapað eitthvað sérstakt. Rituðu raðgreinar um það í blöðum og snéru útúr athugasemdum hagfræðinga atvinnulífsins og prófessora Háskólans. Nú sverja þeir þetta allt af sér.

Þeir framkvæmdu skattalækkanir hjá hinum eignameiri í skjóli gríðarlegs innflutnings á fjármagni vegna framkvæmda og sölu á eigum ríkisins og Jöklabréfum. Margir urðu til þess að benda á að þegar um hægðist kæmi í ljós að tekjur ríkissins myndu ekki duga fyrir rekstri hins íslenska þjóðfélags með þeim hætti sem við vildum hafa það. Þetta gæti ekki annað en leitt til óvinsælla skattahækkana þegar góðærið væri liðið. Efnahagspekingar frjálshyggjunnar væru komnir með íslenska efnahagskerfið á nákvæmlega sama stað og repúblikanar hafa skapað í BNA.

Við vorum nokkrir pistlahöfundar sem héldum því fram að þegar íslenska frjálshyggjan (repúblikanarnir) myndu hrökklast yrði íslenska samfélagið komið alllangt frá hinu norræna samfélagi. Við tækju vinstri menn (demókratarnir) og myndu hefja uppbyggingu. Á meðan myndu hægri menn agnúast út í skatta og eyðslu hins opinbera og draga til sín kjósendur.

Á grunni þess kæmust repúblikanarnir svo aftur til valda og tækju við góðu búi. Seldu allt sem hönd á festi og lækkuðu skatta. Það bitnaði á þeim sem minna mættu sín, en styrkti ennfrekar eignastöðu þeirra sem best hafa það. Þetta er svo vel þekkt vinnuaðferð repúblikana í BNA.

Hinir íslensku repúblikanar eru að taka upp nákvæmlega sömu vinnuaðferðir. Þetta sjáum við svo vel í ummælum þeirra í fréttum undanfarna daga og í Kastljósinu í kvöld.

Kasínó kapítalismi

Undanfarna tvo áratugi hefur fjármálakerfi heimsins verið drifið áfram af ófyrirleitinni gróðahugsjón. „Kasínó kapítalisma“ Þetta hefur þrifist í vaxandi afskiptaleysi eftirlitsstofnana hins opinbera, en hefur komið illilega niður á mannréttindum og réttindum verkafólks.

„Kasínó kapítalisma“ má kenna um þær ógöngur sem heimsbyggðin er komin í. Fjármálamarkaðir heimsins hafi farið illilega út af sporinu og um leið fjarlægst sitt megin hlutverk sem er að sjá um fjármögnun atvinnulífsins.

Ísland hefur fengið þá vafasömu viðurkenningu að vera kennslubókardæmi um „Kasínó kapítalisma“. Þann heiður eiga einir og sér út af fyrir sig forvarsmenn íslenskrar efna- og peningastefnu undanfarin 18 ár.

Nú eru ábyrgir aðilar komnir á þá skoðun að nauðsynlegt sé að sameinast um nýtt módel sem stuðli að efnahagslegri velsæld sem flestra.Módel þar sem gæðum er endurúthlutað, þar sem borin er virðing fyrir umhverfinu, þar sem regluverkið er skýrt og þar sem rík lönd og fátæk vinna saman í bróðerni og skapa með því ný tækifæri og ný störf.

Sé litið til ummæla forsvarsmanna íslenskra stjórnmálaflokka, þá ætlar einn stjórnmálflokkur ekki að vera þátttakandi í þessu, af þeirri einföldu ástæðu að hann hefur ekki manndóm í sér að viðurkenna skelfileg mistök á undanförnum árum.

Það er t.d. með ólíkindum ef forsvarsmenn Seðlabankans ætla ekki að víkja, þegjandi og hljóðalaust og án krafna um uppsagnarbónusa. Nei þeir segjast sitja undir pólitísku einelti!!

mánudagur, 2. febrúar 2009

Eyðsluklær

Ég verð að viðurkenna að ég hélt að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hefðu meðtekið þann boðskap sem almenningur hefur kyrjað á Austurvelli undanfarnar vikur í búsáhaldabúgítaktinum. Þeir hamra í síbylju á gömlu klisjunum.

Sjálfumgleðin er á sínum stað og fullvissan um að þeir einir þekki réttu leiðirnar, annað sé glundroði. Þeir sem beini sjónum sínum að heimilunum og fjölskyldunum séu eyðsluklær. Taki peninga frá þeim sem meira mega sín og sói þeim á fátækt fólk. Þetta er eina innihald útlegginga formanns og varaformanns Sjálfstæðisflokksins í hvert skipti sem þau fá tækifæri í fjölmiðlum.

Það vottar ekki fyrir afsökunum til almennings þó svo að landið sé rjúkandi rúst eftir 18 ára valdasetu þeirra. Flokkurinn var ófáanlegur til þess að taka til í efnahags- og peningastjórninni og studdi óbreytt ástand. Þess vegna gafst þjóðin upp á flokknum, en valdaapparatið er ekki búið að átta sig á því að þjóðin er búin að fá nóg.

En nú hefur þjóðin 80 daga til þess að taka til á listum flokkanna, eða móta nýja lista. Leggja grunn að nýjum áherslum í nýju þjóðfélagi