sunnudagur, 10. maí 2009

Fjölgun starfa

Afleiðingar gjaldmiðilshruns blasa við. Atvinnuleysi vex og virðist ætla að ná 20.000 markinu í haust. Krónan er hruninn, fyrirtæki sjá ekki aðra framtíð en þá að skipta um gjaldmiðil. Íslenska krónan er sniðin fyrir sjávarútveginn og landbúnaðinn. Þar starfa eitthvað á annan tug þúsunda og hefur ekki verið að skapa fleiri störf.

Fjölgunin hefur verið í tæknigreinum, eins og ég hef margbent á með því að greina þróun í fjölgun félagsmanna Rafiðnaðarsambandsins. Þar sem fjölgun í félagsmanna í tæknigreinum frá 1990 hefur verið frá 500 til 5.000 eins og var orðið í haust. Á meðan fjöldi starfa í byggingariðnaði, sjávarútvegi og landbúnaði hefði verið óbreytt.

Við höfum vanist því að stjórnmálamenn bjargi efnahagsmistökum með því að fella gengið. Hún er aðgerð til þess að lækka framleiðslukostnað, styrkir stöðu útflutnings og lækkar laun. Hlutdeild sjávarútvegsins í þjóðarframleiðslunni er innan við 8% og skapar um þriðjung gjaldeyris.

Það liggur á borðinu að þau 20.000 störf sem þarf að skapa á næstu 4 árum til þess að koma atvinnuleysinu niður fyrir 4% verða ekki í sjávarútvegi og landbúnaði. Ný störf verða til í sömu störfum og atvinnuleysið er nú; þjónustu og tæknigreinum. Það er því kaldranalegt fyrir atvinnulausa fólkið að heyra þá sem hafa atvinnu hafna algjörlega eina möguleikanum að koma þróuninni í réttan farveg og til framtíðar með því að nýta orkuna og byggja upp þekkingariðnað, líftækni, lyfjaframleiðslu og ferðaþjónustu.

Þessar atvinnugreinar eiga það sameiginlegt að búa við stöðugleika. Þau þurfa aðgang að erlendu fjármagni og erlendum mörkuðum, af því að heimamarkaðurinn er of smár. Okkur er lífsnauðsyn að tengjast stærra myntsvæði, sem getur fært okkur stöðugt efnahagsumhverfi. Ella munu atvinnugreinar framtíðarinnar ekki þrífast hér. Unga menntaða fólkið mun flytja úr landi og þeir sem eru að mennta sig núna koma ekki heim

Stjórnmálamenn verða að hætta “þetta reddast” stjórnun og temja sér aga og festu í hagstjórn. Það gengur ekki lengur að redda sér með því að lækka laun með gengisfellingum, sem leiða til hækkandi skulda og hærri vaxta. Við verðum í framtíðinni að ná trausti viðskiptalanda okkar og ekki síður til þess að mögulegt sé að ná viðunandi lendingu í samningum um skuldir landsins.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Orð í tíma töluð. Ótrúlegt að hlusta á umfjöllun um atvinnumál, það er bara eins og enginn átti sig á því hvar á að sækja ný störf.

Sannarlega tímabær pistill.