sunnudagur, 3. maí 2009

Leið skynseminnar

Ef við ætlum að reisa Ísland upp úr rústunum þá verður það ekki gert með skammtíma aðgerðum, hinum venjubundnu íslensku „þetta reddast leiðum“ eins og harðlínukjarnar Sjálfstæðisflokks og VG vilja. Fólk er búið að fá sig margfullsatt af hinum endurteknu sveiflum íslensku krónunnar og agalausri efnahagsstjórn stjórnmálamanna, sem oft einkennast frekar af kjördæma poti en heildaryfirsýn. Það verður að fjarlægja þann möguleika að örfáir einstaklingar geti með aðstoð vogunarsjóða spilað með hag almennings eins og gert var í fyrra og endaði með fyrirsjáanlegum ósköpum.

Það voru mikil mistök hjá íslenskum stjórnvöldum að halda ekki áfram á þeirri leið sem mörkuð var með inngöngu í EES með frekari tengslum við evrópska efnahagsstjórn. Um aldamótin síðustu lá fyrir að uppbygging íslensks atvinnulífs var ekki afmörkuð við Ísland og taka yrði á gjaldmiðilsmálum. Krónan hefur valdið kerfishruni og eignaupptöku. Vextir eru óheyrilegir og þar af leiðandi verðlag. Kaupmáttur hefur fallið og það þarf mikið að gerast til þess að hægt verði að endurvinna þá stöðu sem búið var að ná.

Það blasir við í dag að það sem gerðist eftir 2003 var að mestu innistæðulaus bóla sem ríkjandi stjórnvöld vildu ekki horfast í augu við. Þeir sem voguðu sér að benda á þetta voru hæddir og lýst sem púkó og neikvæðum. Fáir sem vildu vera í þeirri stöðu, allra síst ríkjandi stjórnmálamenn. Þeir vildu að allir væru vissir um að þeir hefðu skapað hið Íslenska efnahagsundur.

Í lok níunda áratugarins voru aðilar vinnumarkaðs sammála um að ekki væri fært að komast lengra með þeim aðferðum sem þá hafði verið fylgt. Aðilar vinnumarkaðs ákváðu að skipta um aðferðir og fara frekar kaupmáttarleið en kauphækkunarleið. Allt fram til ársins 1990 höfðu laun verið hækkuð reglulega um nokkra tugi prósenta, en kaupmáttur lítið vaxið, sakir þess að stjórnvöld „leiðréttu“ alltaf jafnharðan kjarasamninga með því að fella gengið.

Árið 1990 blasti við gríðarlegt atvinnuleysi og allt benti til þess að það myndi vara í einhvern tíma. Þá var gerð þjóðarsátt og gengið í EES og tókst að rífa upp atvinnulífið á 4 árum. Það kostaði mikla staðfestu og þolinmæði og voru sannarlega ekki allir á því að fara þá leið.

Sumir halda því fram að þá hafi stéttarfélögin hætt kjarabaráttu. En eru með því að upplýsa um afturhald sitt, því það tókst með hinni skynsemisleið sem þá var innleidd, að hækka kaupmátt meira en gert hafði verið á næstu áratugum á undan þó svo laun hefðu á þeim tíma verið hækkuð um liðlega 2000%.

Undanfarin tvö ár hafa samtök atvinnulífs reynt að ná talsambandi við stjórnvöld um að grípa verði til aðgerða með sameiginlegri sátt um breytta efnahags- og peningastjórn.Það er ljóst að þær aðgerðir sem grípa þarf til verða sársaukafullar og kalla á mikla staðfestu.

Innan raða verkalýðshreyfingarinnar eru harðlínumenn eins og komið hefur fram á undanförnum vikum. Sama á við um meðal forvarsmanna nokkurra fyrirtækja og eins stjórnmálamanna. Þar má benda á harðlínukjarna Sjálfstæðisflokksins og VG. Þessir aðilar vilja óbreyttar aðferðir og engu breyta. En það verður að grípa til skynseminnar og leggja upp með aðgerðir strax og þá um leið að horfa til framtíðar.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Og þá er spurt:
Hvaða leiðir bendir verkalýðselíatan
á (aðrar en inngöngu í ESB)?
Heilsíðuauglýsing frá ASÍ í dagblöðunum, sem tíunduðu þær, gæti
verið ágætis kostur.