mánudagur, 22. ágúst 2011

Dásemdarríki Halldórs og Davíðs

Það eru margir sem eru leiðir yfir því hve mótsagnarkenndar fullyrðingar og staðreyndavillur einkenna umræðuna hér á landi. Í þessu eiga stærstan þátt fjölmiðlar sem birta gagnrýnislaust fullyrðingar, án þess að gera nokkra tilraun til að leiðrétta einfaldar staðreyndavillur eða grundvallarforsendur.

Þar má benda á getuleysi íslenskra fjölmiðlamanna til þess að leiða fram vitræna umræðu um þörf á breytingum með nýrrri Stjórnarskrá, hvers vegna almenningur hefur í marga áratugi reynt að ná til baka völdum frá fámennri valdaklíku studdri af flokksklíkum og sérhagsmunahópum.

Þar má einnig benda á fullyrðingar undanfarna daga hvað varðar verðtryggingu, hvers vegna hún er og hvaða tilgangi hún þjónar. Hvað gerist ef hún verði afnuminn og hvað muni kosta fólk að þurfa að greiða breytilega vexti? Hvaða áhrif gjaldmiðillinn hefur á efnahag heimilanna? Hvernig stjórnvöld undanfarinna áratuga hafa falsað stöðu Íslensks hagkerfis með krónunni.

Menn sem eru áberandi álitsgjafar hjá Sjónvarpi allra landsmanna og gefa sig út fyrir að vera sérfræðingar í efnahagsmálum, eru jafnvel prófessorar við Háskóla Íslands, hafa jafnvel verið í stjórn Seðlabanka og sett hann kyrfilega á hausinn í 800 MIA gjaldþroti og átt stórann þátt í að setja efnahagslíf landsins í kalda kol og valda því að 20 þús. heimili eru gjaldþrota.

Þessir menn mæra krónuna sem sérstakan bjargvætt og segja að helsta ástæða þess að Grikkland eigi í vandræðum sé ESB og evran. Í dag blasir við öllum hvers vegna Seðlabankinn gat ekki annað en farið á lóðbeint hausinn og Ísland brunað undir stjórn þessara manna fram að efnahagsbjargbrúninni, án þess að sæist svo mikið sem eins centimeters bremsufar á bjargbrúninni.

Íslendingar borga ekki sínar erlendu skuldir í krónum, það gera ekki Grikkir heldur þó þeir tækju upp sinn gamla gjaldmiðil. Sé prentað of mikið af seðlum bólgnar efnahagskerfið út og verðbólgan vex og vextir hækka. Þegar ofhitnun hagkerfis vegna rangrar efnahagsstjórnunar er kæld niður með hinni reglubundnu gengisfellingu taka skuldir heimilanna stökkbreytingum, laun lækkuð með handafli stjórnenda efnahagskerfisins og mikil eignatilfærsla á sér stað frá launamönnum til eignamanna. Ráðandi stjórnmálamenn hrifsa til sín purrkunarlaust með þessu sín verðmæti frá landsmönnum og fyrirtækjum, þetta var undirstaða hins mikla velmegunarkerfi sem þessir menn stæra siga af að hafa reist hér á landi.

Kaupmáttur rýnar og stéttarfélögin gera kröfur um vísitölutryggingar meðan sveitarfélögin og vinnuveitendur barma sér. Það gengur ekki upp að öll lönd taki upp sinn prívat gjaldmiðil og búi við prívat hagkerfi sem reddað er með reglubundnum gengisfellingum mistækra stjórnmálamanna. Samræmdur gjaldmiðill í stærra hagkerfi krefst mikillar ögunar allra þátttökulandanna í efnahagsstjórn og skapar stærra viðskiptasvæði og byggir upp atvinnu.

En við sjáum nákvæmlega sömu viðbrögð hjá hinum gjörspilltu stjórnmálamönnum á Grikklandi og hér heima hjá þeim íslensku stjórnmálamönnum sem berjast gegn því að hér verði lýðræðisbreytingar. Berjast gegn því að kannað verði til hlýtar hvað íslenskum almenning standi til boða náist samningar við ESB með eflingu hagkerfisins og kröfum um að íslenskir stjórnmálamenn verði að starfa í öguðu efnahagsumhverfi og komist ekki upp með hinar íslensku Hókus pókus sjónhverfingar og gengisfellingar.

Það ástand sem Davíð og Halldór og fylgifiskar nýttu til þess að stjórna á sinn skelfilega hátt, og helstu sérfræðingar og stuðningsmenn þeirra með Bjarna Ben og Sigmund Davíð í broddi fylkingar berjast nú af öllu afli til þess að viðhalda því. Þeir ásamt sínum fylgismönnum dæsa reglulega í fjölmiðlum og þakka fyrir tilvist krónunnar „Hún leiði til þess að blóðsúthellingalaust sé hægt að lagfæra og góða kjarasamninga launamanna.“

Sú velmegun sem þessir menn bjuggu til var reist á sandi og með blekkingum. Það voru þessir menn sem sköpuðu það ástand sem kallar óhjákvæmilega á gengisfellingar sem leiða til ofurvaxta og verðtryggingar. Það er ekki afturhaldsstjórn Jóhönnu, Steingríms og annarra vinstri menntasnobbara sem skópu þetta ástand, það var búið til fyrir þeirra tíð. Þá voru við völd ráðamenn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks.

Engin ummæli: