laugardagur, 30. júlí 2011

Ískaldur veruleikinn

Nú blasir við hin ískalda staða sem hagdeildir aðila vinnumarkaðs hafa varað við undanfarin misseri, og ég hef reyndar endurtekið tönglast á í pistlum á þessari síðu. Grunntónninn hefur alltaf verið = Ef fjárfestingar í atvinnulífinu verði ekki auknar stefndi í hratt vaxandi gat í fjárlögum vegna minnkandi skatttekna.

Ríkisstjórnin hefur gengið eins langt og hægt er í hækkun skatta og kominn inn að beini í niðurskurði í heilbrigðis- og menntakerfinu, en þar eru stærstu útgjaldaliðirnir. Líklega er hægt að finna einhverjar matarholur annarsstaðar í ríkisrekstrinum, en þar er mun minni bita að finna. = Margoft hefur komið fram í aðvörunum frá hagfræðingum stéttarfélaganna að ef ríkisstjórninni tækist ekki í samvinnu við atvinnulífið að losa þjóðina úr þessum doða blasti einungis eitt við, risavaxið fjárlagagat haustið 2011 og fjöldauppsagnir opinberra starfsmanna.

Einungis ein leið er úr þessum vanda; Auka fjárfestingar í atvinnulífinu og auka verðmætasköpun. Fækkun starfa hefur numið um 15% og "nota bene" einungis hluti þeirra er á bótum, þessa fyrrv. launamenn er að finna annarsstaðar. Það þýðir að mánaðarlaunasumman er um 6 MIA lægri en hún gæti verið, sem þýðir um 2,5 MIA lægri tekjur fyrir ríkissjóð á mánuði og útgjöld atvinnuleysistryggingasjóðs væru um 2 MIA lægri = Fjármálaráðherra hefði a.m.k. 5,5 MIA meir úr að spila við hver mánaðarmót.

Stjórnmálamenn hafa ekki getað komið sér saman um nokkurn skapaðan hlut, þar hefur klækja- og átakapólitík að venju ráðið öllu. Allt snýst um að koma í veg fyrir að hinn flokkurinn geti komið fram nokkru máli. Þetta hefur leitt til þess að óvissan í gengismálum er mikil. Reynt er að bjarga málum fyrir horn með allskonar reddingum m.a. í skattkerfinu og launatengdum gjöldum, sem skapar enn meiri óvissu = Allir halda að sér höndum og doðinn vex.

Skuldatryggingarálagið er óþarflega hátt og vexti vegna annarra lána og svo frestun á styrkingu krónunnar sem hafa kostað heimilin ómældar upphæðir. Heimilin og ríkið skulda upp fyrir rjáfrið = Hvert vaxtastig kostar samfélagið aukalega milljarða króna og hærri vaxtagreiðslum.

Við búum í árfarvegi segja forsvarsmenn tæknifyrirtækjanna þegar þeir ræða uppbyggingu í atvinnustarfsemi hér á landi. Árbotninn er frjósamur og góður. Þar er fullt af sprotum og mikil gróska. En svo fer að rigna. Þá kemur flóð sem ryður öllum sprotunum í burtu.

Þegar grynnkar aftur í ánni þá fara stjórnmálamenn aftur að talað um hvað farvegurinn sé góður og gott að hafa blessaða krónuna. Þetta gerist á tíu ára fresti og þá fer fram gríðarleg eignaupptaka hjá launamönnum á íslenskum vinnumakaði. = Þau 40 ár sem Rafiðnaðarsambandið hefur til hefur það samið um vel liðlega 3.000% launahækkanir, á sama tíma hefur danska rafiðnaðarsambandið samið um 330% og býr samt við betri kaupmátt.

Danskir rafiðnaðarmenn hafa auk þess ekki þurft að búa við stökkbreytingar skulda. Þeirra gjaldmiðill er tengdur Evrunni. Það er sama hvort krónan er fasttengd, undir höftum eða handstýrð. Það hafa verið reynd ýmis kerfi með krónuna en ekkert virkar.

Það er lífnauðsynlegt að finna varanlega lausn á gjaldmiðilsmálum Íslendinga. Ef við ætlum að búa áfram við krónuna þarf að taka upp mun strangari efnahagsstjórn en ef við tækjum upp Evru. = Krónan kallar á mjög digra og dýra gjaldeyrisvarasjóði, sem veldur því að vaxtastigið þarf að vera um 3% hærra en það er t.d. í Danmörku.

Uppbygging og afkoma íslenskra fyrirtæki byggist á því að geta fengið samkeppnishæfa fjármögnun erlendis. Krónan er aftur á móti tæki fyrir stjórnvöld til að stýra kaupmætti almennings. Leiðrétta blóðsúthellingalaust of góða kjarasamninga eins og þeir fjármálaspekingar sem keyrðu landið í þrot og settu Seðlabankann á hausinn, orðuðu þetta gjarnan glottandi í hátíðarræðum á fundum valdakjarnans.

Þessi hugsunarháttur hefur ráðið ríkjum íslenskum stjórnmálum frá lýðveldisstofnun og birst almenning í um 25% meðalverðbólgu á ári síðustu 60 ár. 25% verðbólga er færsla fjórðungs tekna frá launþegum og sparifjáreigendum til atvinnurekenda.

Launþegar hafa eytt 3 mánuðum á ári í 60 ár í að niðurgreiða íslenskt atvinnulíf. Þriðjung starfsævi okkar eyðum við í að greiða herkostnað af efnahagsstjórn stjórnmálamanna, sem finnst það eðlilegt að tryggja lágan launakostnað með verðbólgu og stæra sig ásamt forseta vorum af því að þeir séu að vinna atvinnulífinu svo mikið gagn með þessu ráðslagi í ræðum um heimsbyggðina. Þetta ófremdarástand vex samfara aukinnar tengingar íslensks atvinnulífs við erlenda markaði.

Íslenskum launamönnum hafði tekist frá 2000 að ná um 13% kaupmáttaraukningu fram að Hruni, en töpuðu henni allri við Hrunið,auk þess að fjöldi heimila tapaði öllum sínum eignum.

Danir féllu ekkert í kaupmætti um við efnahagshrunið og hafa bætt við sig 1% eftir 2008 og tæp 6% það sem af er þessari öld. Auk þess að halda þeir sínum eignum.

Svíar hafa gert betur, þeir hafa bætt við sig 2.3% eftir efnahagshrunið og 7,3% það sem af er þessari öld, og líka halda sínum eignum.

Finnland hefur bætt við sig 4,5% í kaupmætti frá efnahagshruninu og bætt við sig 10,8% það sem af er þessari öld.

Meðaltal kaupmáttaraukningar í Evrópu það sem af er þessari öld er 12,7%, þar af 2,7% eftir efnahagshrunið. Heimild: Alþjóðavinnumálastofnunin (ILO) árið 2010.

Vextir hér á landi eru töluvert hærri en annarsstaðar og vaxtamunur verður alltaf a.m.k. 5% hærri á Íslandi en innan Evrusvæðisins, það er vegna krónunnar. Ef fjölskylda kaupir sér eitt hús á Íslandi og önnur kaupir sér hús t.d. í Danmörku. Þá er staðan sú eftir 20 ár að íslenska fjölskyldan hefur greitt sem svarar andvirðis rúmlega tveggja húsa, séu greiðslur bornar saman við stöðu dönsku fjölskyldunnar.

6 ummæli:

Þór Saari sagði...

Það er skuldaklafinn sem er dragbíturinn guðmundur. Skuldir ríkissins, fyrirtækja og heimila eru einfaldelga orðnar það miklar að ekki er raunhæft að vinna bug á þeim með á hefðbundinn hátt með tekjuaukningu og sparnaði. Slíkt dypkar einfaldlega kreppuna. Erlend fjárfesting er ávísun á sölu auðlinda til útlanda og það gengur ekki heldur því niðurstaðan verður viðvarandi 3. heims ástand á Íslandi. Eina rauhæfa leiðin er að viðurkenna vandann og reyna að ná samkomulagi um stórfelldar afskriftir skulda (40-60%) og ef það næst ekki þá þerf að gera slíkt með neyðarlagasetningu. Sorrí, en gömlu leiðirnar og gamla hugsunin dugir ekki lengur, ekki hér og ekki út í heimi heldur. Í lokin, takk fyrir gott starf í stjórnlagaráðinu.

Nafnlaus sagði...

Ég er sammála ykkur báðum. Auðvitað þarf að afskrifa hluta skulda, en líkt og Morgunblaðið - allra blaða - bendir á, þá er verðtryggingin þess eðlis að 110% afskriftirnar eru að verða uppétnar af verðbólgunni.

Lausnin felst auðvitað í alvöru lögeyri og það eina sem blasir við í þeim efnum er evran - þrátt fyrir tímabundna erfiðleika sem allar myndir eru í nú um stundir. Það er einkennilegt að almenningur sjái ekki þær staðreyndir sem Guðmundur, ég og þúsundir annarra sjá. Svo sannarlega sorgleg staðreynd að fólk skuli óska eftir því að láta áfram fara illa með sig!

Kveðja,

Guðbjörn Guðbjörnsson

Nafnlaus sagði...

Erlend fjárfesting er alls engin ávísun á sölu auðlinda, ég skil ekki þennan hugsunarhátt, auðvitað á að gera allt sem hægt er til þess að auka fjárfestingu í landinu, hvort sem hún er innlend eða erlend, það er það mikilvægasta í stöðunni eins og hún er núna og á vel að geta komið okkur út úr þeim erfiðleikum sem við erum í. Stórfelldar afskriftir skulda er engin lausn, þá er bara verið að flytja vandamálið frá einum aðila til annars.

Kv.
Már Karlsson

Nafnlaus sagði...

Það verður amk ekki farið hraðar út úr skuldakreppunni en aðstæður leyfa. 1) Það þarf atvinnu og auðlyndastefnu sem vinnur hægt en örugglega. 2) það þarf gjaldmiðil sem er stöðugur miðað við helstu viðskiptaþjóðir okkar og lánasöfn. Aðild að ESB er leiðin þangað þó hún sé ekki annað en staðfesting á því í hvaða umhverfi hagkerfi okkar starfar og kemur til með að starfa með til frambúðar. Skuldaniðurfelling er leið þeirra sem vilja a) skammtímalausnir b) lausnir sem bara eru sérsniðnar fyrir íslenskar aðstæður án þess að gera framsýnar breytingar sem skipta máli til lengir tíma litið.

Nafnlaus sagði...

Þetta endar einfaldlega með lítilsháttar niðurskurði og verulegum skattahækkunum í haust, enda hefur Steingrímur sagt að rými til frekari skattahækkana væri mikið.

Aðalvandinn er sá að Steingrímur og VG eru að vinna að breyttri samfélagsgerð, með persónulegum stuðningi Jóhönnu. Fáir skilja framtíðarsýnina hvar m.a. hagvöxtur er af hinu vonda, launamunur er aðalmeinið, kynjuð greining er lausn flestra mála, unnið af hörku bæði með og á móti ESB aðild, dómur yfir Geir Haarde forsenda uppgjörs við fortíðina, osfr, osfr. Lítt er hlustað á hagfræðinga (sbr fiskveiðistjórnunarfrumvarpið), óþæga hagsmunaaðila og skynsemisraddir óma veikt í eyðimörkinni.

Nefnt hefur verið af kunnugum að stærsti vandinn í efnahagsmálunum Íslendinga sé að Jóhanna hafi ekki snefil af skilningi á gangverki efnahagslífsins og enga sýn á lausnir, utan blint traust á ESB aðild. Líklega er eitthvað til í því.

J

Viðar Ingvason sagði...

Ég heyrði að kvótagreifarnir neituðu að koma með evrur heim nema seðlabankinn greiddi þeim yfirverð, sögunni fylgdi að þetta væri stæðsta viðvarandi ránið í dag!